Hæstiréttur íslands

Mál nr. 536/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                                                                              

Miðvikudaginn 13. ágúst 2014.

Nr. 536/2014.

 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir  Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. ágúst 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. ágúst 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 3. september 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími eða til 21. ágúst 2014.   

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur fangelsisrefsingu og er því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Í því tilliti skiptir ekki máli hvort refsing við ætluðu broti kunni að verða skilorðsbundin, en í síðastgreindu lagaákvæði er ekki vísað til 3. mgr. 95. gr. laganna. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

                                             Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. ágúst 2014.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kennitala [...], [...],[...], verði gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 3. september 2014, kl. 16.00.

          Í greinargerð lögreglustjórans segir að 1. ágúst síðastliðinn hafi lögreglu borist tilkynning frá starfsmanni sundlaugarinnar í Reykjanesbæ um að fyrr um daginn hefði óþekktur aðili verið staðinn að því að bera sig fyrir framan börn sem hafi verið stödd í sundlauginni. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi aðilinn verið farinn af vettvangi en lögreglumenn hafi fengið að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavél sundlaugarinnar. Við skoðun á upptökunum hafi mátt sjá aðila, sem staddur hafi verið í dýpri enda laugarinnar, bera sig og strjúka getnaðarlim sinn. Hafi mátt sjá börn að leik skammt frá þeim stað sem aðilinn hafi verið á.

          Daginn eftir, 2. ágúst síðastliðinn, hafi starfsmaður sundlaugarinnar haft samband við lögreglu á nýjan leik og kveðið aðilann vera staddan í sundlauginni. Hafi lögregla farið á staðinn og handtekið kærða. Hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna málsins þar sem borin hafi verið undir hann meint blygðunarsemisbrot og kynferðisleg áreitni. Við skýrslutökuna hafi kærði neitað að hafa áreitt börn í sundlauginni eða sýnt af sér óviðeigandi háttsemi gagnvart börnum í lauginni. Bornar hafi verið undir kærða myndir úr eftirlitsmyndavél sundlaugarinnar, meðal annars ljósmynd þar sem sjá hafi mátt að getnaðarlimur kærða hafi verið fyrir utan sundskýluna. Hafi kærði staðfest að um myndir af honum væri að ræða. Hafi kærði gefið þá skýringu að buxurnar væru of víðar og að hann hefði verið að setja getnaðarlim sinn inn undir buxurnar á þeim myndum sem bornar hafi verið undir hann. Hafi kærði jafnframt greint frá því að blöðruhálskirtill hans væri í ólagi og þess vegna þyrfti hann stundum að laga liminn eða snerta hann. Kvaðst kærða enn fremur líða illa yfir því sem gerst hefði og tekið fram að hann þyrfti að fá sér nýjar sundbuxur þar sem hans væru of stórar. Hafi kærða þá verið bent á að hægt væri að herða buxurnar um mittið með því að herða band í mitti buxnanna. Kvaðst kærði ekki hafa áttað sig á því.

         Rannsókn málsins sé á frumstigi og hafi kærði verið yfirheyrður einu sinni vegna málsins. Lögregla eigi hins vegar eftir að taka skýrslur af meintum brotaþolum í málinu sem báðar séu fæddar árið 2005. Hafi lögregla þegar óskað eftir því að teknar verði skýrslur af þeim í Barnahúsi vegna ungs aldurs þeirra. Þá eigi lögregla eftir að taka skýrslu af þeim starfsmönnum sundlaugarinnar sem hafi verið á vakt í umrætt sinn og foreldrum meintra brotaþola. Rannsókn málsins sé því í fullum gangi.

        Þau brot sem kærði sé sakaður um séu mjög alvarleg að mati lögreglu og telji lögregla rökstuddan grun vera fyrir hendi um að kærði hafi brotið gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nánar tiltekið 2. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 209. gr. auk þess sem meint brot hans kunni að varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Við þeim brotum sem kærða sé gefið að sök að hafa framið liggi allt að 6 ára fangelsi. Kærði, sem sé erlendur ríkisborgari en búsettur hér á landi, hafi greint lögreglu frá því að hann stundi ekki atvinnu hér á landi. Kærði hafi því takmörkuð tengsl við landið að mati lögreglu. Þá beinist rannsókn lögreglu að alvarlegum brotum sem kærða sé gefið sök að hafa framið. Í ljósi þess og alvarleika þeirra brota sem kærða sé gefið að sök, telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta farbanni meðan á rannsókn málsins stendur. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í málinu. Eins rakið hafi verið hér að framan sé rannsókn málsins á frumstigi en miði vel að mati lögreglu. Með vísan til þess hversu stutt á veg rannsóknin sé komin telji lögregla að mikilvægt sé að fallist verði á hina framlögðu kröfu þannig að hægt verði að tryggja viðveru kærða hér á landi.

       Með vísan til alls framangreinds, b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1., 2. og 3. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 2. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 209. gr. laganna og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 telji lögregla brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta farbanni á meðan rannsókn málsins stendur, allt til miðvikudagsins 3. september 2014, kl. 16:00.

      Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærði er erlendur ríkisborgari og hefur takmörkuð tengsl við landið. Við meðferð málsins upplýsti kærði að hann hafi keypt flugmiða til [...] og ætlaði að dvelja þar 22. ágúst til 19. september nk. Samkvæmt því og með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður kærða bönnuð brottför af landinu á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

       Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

      Kærða, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 3. september 2014, kl. 16.00.