Hæstiréttur íslands
Mál nr. 32/2004
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 29. apríl 2004. |
|
Nr. 32/2004. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Fyrning.
X var borinn sökum um að hafa brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart Y, fæddri 1979. Samkvæmt ákæru var um að ræða eitt brot framið 1985 eða 1986 og eitt brot framið 1988 eða 1989. Að auki var X ákærður fyrir að hafa margsinnis á árunum 1985 til 1989 fengið stúlkuna til tiltekinna kynferðisathafna með sér. Á þeim tíma sem um ræðir hefðu ætluð brot X getað varðað allt að 12 ára fangelsi og um fyrningu þeirra gilti því 15 ára fyrningarfrestur. Eins og 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga hljóðaði á þeim tíma byrjaði fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem refsiverðum verknaði lauk. Talið var að breyting sem gerð var á umræddu ákvæði með lögum nr. 63/1998 gæti ekki breytt upphafi fyrningarfrests sem byrjaður var að líða við gildistöku þeirra. Fyrning taldist ekki hafa verið rofin fyrr en með skýrslutöku yfir ákærða 7. maí 2003 og þar sem ekki þótti sannað að ætluð brot ákærða hefðu verið framin eftir 7. maí 1988 var talið að sakir þær sem X var borinn í málinu væru fyrndar. Var hann því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu af hálfu ákæruvalds til Hæstaréttar 7. janúar 2004. Hann krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að sér verði gerð vægasta refsing, sem lög heimila, og verði hún skilorðsbundin.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi höfðaði ríkissaksóknari mál þetta með ákæru 22. september 2003, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og þeim var breytt með 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, með nánar tiltekinni háttsemi gagnvart nafngreindri stúlku, fæddri í maí 1979. Í ákæru var í þessu sambandi greint frá einu tilviki, sem hafi gerst á árinu 1985 eða 1986, öðru tilviki á árinu 1988 eða 1989, en að öðru leyti var ákærði sakaður um að hafa „margsinnis“ á árunum 1985 til 1989 fengið stúlkuna til tiltekinna kynferðisathafna með sér. Áttu atburðir þessir í öllum tilvikum nema einu að hafa gerst á heimili ákærða.
Háttsemi sú, sem ákærða er gefin að sök, hefði á umræddum tíma varðað við 202. gr., sbr. 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga. Refsing samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu gat numið fangelsi allt að 12 árum, en við broti gegn því fyrrnefnda skyldi beita vægari hegningu að tiltölu. Verður að líta svo á að um fyrningu slíkra brota hafi þá gilt ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 81. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, og sök þannig fyrnst á 15 árum. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, eins og þau hljóðuðu þá, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, hófst fyrningarfrestur á þeim degi, sem refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Breytingu, sem gerð var á þessu ákvæði með 2. gr. laga nr. 63/1998 og leiddi til síðara upphafsmarks fyrningarfrests á kynferðisbrotum gegn börnum yngri en 14 ára, verður ekki beitt í tilvikum, þar sem fresturinn var byrjaður að líða fyrir gildistöku þeirra laga, sbr. meginreglu 2. gr. og 2. gr. a. almennra hegningarlaga. Stúlkan, sem hér átti í hlut, kom fyrir lögreglu 27. september 2002 og gaf skýrslu, þar sem hún bar fyrrgreindar sakir á ákærða. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að frekari aðgerðir við rannsókn hafi byrjað 11. desember 2002, þegar móðir stúlkunnar gaf skýrslu fyrir lögreglu. Skýrsla var á hinn bóginn fyrst tekin af ákærða vegna þessa 7. maí 2003. Ekki hefur verið borið við í málinu að rannsóknarhagsmunir eða atvik, sem varðað geta ákærða, hafi staðið því í vegi að hann yrði kvaddur fyrir lögreglu til skýrslugjafar í beinu framhaldi af því að kæra kom fram. Er því ekki unnt að líta svo á að fyrningarfrestur gagnvart ákærða hafi verið rofinn fyrr en á síðastgreindum degi, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Verður þannig fallist á með héraðsdómi að ætluð brot ákærða, sem framin kunna að hafa verið fyrir 7. maí 1988, séu fyrnd.
Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi var stúlkan, sem ákærði er sakaður um að hafa brotið gegn, ekki afdráttarlaus um að eitthvert þeirra ætluðu brota, sem ákæra tekur til, hafi verið framið eftir að hún náði 9 ára aldri í maí 1988. Samkvæmt því og með vísan til meginreglu 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður að fallast á þá niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms að sakir, sem ákærði er borinn, séu fyrndar. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 5. janúar 2004.
Mál þetta, sem var dómtekið 24. nóvember sl., höfðaði ríkissaksóknari 22. september sl., með ákæru á hendur X [kt. og heimilisfang],
„fyrir kynferðisbrot gegn Y [fæddri 1979], framin á heimili ákærða að [...], nema annað sé tekið fram:
1. Með því að hafa á árinu 1985 eða 1986, í baðherbergi á heimili sínu, káfað á kynfærum stúlkunnar og sleikt þau og sett getnaðarlim sinn á milli læra hennar.
2. Með því að hafa margsinnis á árunum 1985 til 1989, þar af einu sinni í [...] við [...], látið stúlkuna fróa sér, og í nokkur skipti látið hana sleikja á sér getnaðarliminn.
3. Með því að hafa á árinu 1988 eða 1989, í hjónarúmi sínu, sett getnaðarlim sinn á milli fóta stúlkunnar, strokið honum við rass og kynfæri hennar og sett liminn inn í endaþarm hennar.
Brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Y gerir kröfu um skaðabætur úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 3.500.000 auk vaxta skv. 7. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. september 1999 til 1. júlí 2001 en skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til 4. júlí 2003, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.
Ákærði krefst sýknu og frávísunar bótakröfunnar, en til vara að refsing verði dæmd svo væg sem lög frekast heimila og að hún verði alfarið skilorðsbundin og bótakrafa aðeins tekin til greina að óverulegu leyti.
I.
Y kærði málið 27. september 2002. Hún er systurdóttir eiginkonu ákærða og bjó með móður sinni í [...] frá 1982 til 1987, er þær fluttu til [...]. Mikill samgangur var milli heimilanna og gætti móðursystirin hennar oft, svo og ákærði. Þá kom fyrir, sérstaklega eftir að þær fluttu til [...], að hún gisti á heimili ákærða.
Y kveður fyrsta tilvik, sem þetta mál varðar, hafa gerst er hún var 6 eða 7 ára gömul. Hún hafi þá verið inni á baðherbergi á heimili ákærða og hann hafi verið að bera krem á hana og kynfæri hennar og sagt henni að móðursystir hennar notaði svona krem. Hún hafi staðið uppi á einhverju, líklega kommóðu og verið nokkurn veginn í jafnri hæð við ákærða. Hann hafi fitlað við kynfæri hennar og sleikt þau. Síðan hafi hann staðið fyrir aftan hana og sett lim sinn milli læra henni og hreyft sig eitthvað til.
Hún kveðst ekki muna rétta röð atvika eftir þetta, en þau hafi verið með þeim hætti að ákærði hafi verið inni í stofu, sett klámspólu í myndbandstæki, tekið lim sinn út og ýtt honum að henni og látið hana snerta hann og sleikja hann. Hún kveðst giska á að fjöldi þessara tilvika hafi verið um fimm til tíu, frá því hún var 6-7 ára og uns hún varð 9-10 ára.
Þá lýsir Y tilviki sem hafi verið þannig að hún hafi gist hjá ákærða og frænku sinni. Hafi frænka hennar sofið á sófa í stofu, en hún í hjónarúmi hjá ákærða. Hún hafi vaknað við það að hann hafi verið að færa sig úr nærbuxum og bleytt á henni kynfærin, nuddað þau með höndum og lim og síðan sett liminn í endaþarm hennar. Hún hafi farið að gráta og beðið hann að hætta, en hann hafi sussað á hana svo að frænka hennar heyrði ekki í henni. Við þetta hafi hann hætt. Hún kveðst telja að hún hafi ekki verið orðin átta ára gömul er þetta gerðist.
Einnig nefnir hún tilvik, sem hún gat ekki um við rannsókn málsins hjá lögreglu. Þá kveðst hún hafa verið 10-11 ára gömul. Hún hafi gist hjá frænku sinni og ákærða og sofið á sófa í stofunni. Ákærði hafi komið ölvaður heim og hafi hún vaknað við það að hann var kominn undir sæng hjá henni og var að færa hana úr nærbuxum og sleikja á henni kynfærin.
Y kveðst sérstaklega muna eftir því þegar hún fór ásamt frænku sinni og ákærða að tína sveppi í [...], en kveðst ekki muna hvað hún var gömul þá. Ákærði hafi þá tekið út lim sinn og látið hana koma við hann. Hún tekur fram að þetta hafi ekki gengið mjög langt, enda hafi verið fólk þarna í kring.
Hún segir að þegar hún hafi orðið eldri, eða um 10 ára gömul, hafi hún verið farin að reyna að koma sér undan samskiptum við ákærða, en ekki verið farin að ýta honum frá sér fyrr en hún var orðin 12 ára gömul. Síðast hafi ákærði leitað á hana í fermingarveislu hennar, er hann hafi komið aftan að henni og reynt að fara með hendur inn fyrir blússuna, en hún hafi ýtt honum frá. Þá kveðst hún muna að einhvern tíma áður en hún fermdist hafi hún verið á íþróttahátíð í [...] og skotist heim til frænku sinnar. Ákærði hafi þá sett hendur ofan í buxur hennar og undir bolinn, en hún ýtt honum frá sér.
Y segir að eitt sinn hafi hún og vinkona hennar, A, verið heima hjá ákærða og hafi hann þá sett klámspólu í myndbandstækið, tekið út á sér liminn og beðið þær að koma við hann. Hafi A gert það en hún ekki. A, sem er ári yngri en Y, kom hér fyrir dóm og lýsti þessu tilviki þannig að þetta myndi hafa verið árið 1989, sem þær Y voru heima hjá ákærða, sem gætti þeirra og ungs bróður Y, sem muni hafa verið um tveggja ára. Ákærði hafi verið að horfa á klámmynd og hafi hljóðið ekki mátt vera á, vegna bróður Y, sem hafi verið þarna einnig. Sér hafi fundist þetta spennandi og þær hafi skríkt og hlegið. Hún hafi setið í enda sófans og allt í einu hafi ákærði staðið við hlið hennar og verið búinn að taka út á sér liminn. Hann hafi tekið um hönd hennar og látið hana koma við harðan liminn.
Y kveðst hafa sagt unnusta sínum, B, frá háttsemi ákærða, er hún var að verða 14 ára gömul. Um svipað leyti hafi hún einnig sagt vinkonum sínum frá, þeim C, D og E. Er hún var 15 ára gömul hafi hún sagt móður sinni frá þessu.
B ber að Y hafi sagt sér frá háttsemi ákærða fljótlega eftir að þau byrjuðu að vera saman, sem hafi verið árið 1993. Hún hafi lýst því að ákærði hafi sýnt henni klámmyndir, sýnt henni kynfæri sín og látið hana snerta þau, reynt að stunda munnmök með henni og jafnvel reynt samræði. Y hafi jafnan reynt að forðast ákærða og reynt að vera ekki heima ef hans var von og yfirgefið dansleiki ef hann sást þar.
Móðir Y, F, segir að hún hafi fyrst farið eitthvert án Y sumarið 1986 er hún fór í 10 daga gönguferð. Hafi Y þá dvalið hjá systur hennar og ákærða á meðan. Síðan hafi hún stundum verið hjá þeim af svipuðu tilefni á því tímabili sem ákæra tekur til. Þetta hafi gengið svo fram að páskum 1994, er hún hafi ætlað í utanlandsferð. Þá hafi Y átt að fá að dvelja heima, en bróðir hennar átt að vera í [...]. Y hafi ekki litist á að hann dveldi hjá ákærða og sagt sér frá háttsemi hans. Hún hafi sagt sér frá því að ákærði hefði látið hana fróa sér og frá atviki inni í rúmi þegar systir hennar hefði sofið í sófa frammi. Hún hefði ekki spurt Y nánar, enda hafi þetta nægt sér.
Í málinu hefur verið lagt fram bréf sem Y ritaði móður sinni um þetta leyti. Ber Y að hún hafi afhent henni bréfið í sama sinn og hún greindi henni frá, en móðir hennar segist hafa fundið það í kommóðuskúffu í herbergi Y nokkru síðar.
Bréfið er ritað til skýringar á því hvers vegna Y vildi ekki að bróðir sinn yrði á heimili ákærða um páska, „... því alltaf þegar ég var í pössun hjá þeim þá káfaði X á mér reyndi að sleikja hana á mér og einu sinni reyndi hann að ríða mér, hann setti á mig krem og bleytti hana á mér og puttaði mig. Hann sýndi mér typpið á sér og lét mig runka sér og stundum vildi hann fá mig til að totta sig. Ég gerði það stundum. Hann sleikti á mér brjóstin og lét mig runka sér þegar hann sýndi mér og horfði sjálfur á klámmyndir. Mér fannst verst hvað hann gat verið ógeðslegur. Þetta var bæði áður og eftir að við fluttum inn á [...]. Og þegar ég vildi ekki gera eitthvað með honum þá gaf hann mér eitthvað og stundum þegar hann var búinn að fá að sleikja mig eða ég runkaði honum sagði hann: „Þú ert góð stelpa hérna færðu pening“ yfirleitt 100 500 krónur. Einu sinni lét hann mig og A fara í fatapóker. Okkur þótti það voða spennandi en við gerðum okkur ekki grein fyrir því þá, við vorum ekki nema 5-6 ára. Ég þorði ekki að segja þér, því ég hélt að þú og [kona ákærða], yrðuð þá svo miklar óvinkonur. [...]“
E ber að Y hafi sagt sér frá því er þær voru um 15-16 ára að ákærði hefði áreitt sig. Hún hafi ekki lýst háttsemi hans í smáatriðum, en sagt að það hefði verið mest allt sem hægt væri að gera. C ber að Y hafi sagt sér að ákærði hafi verið að sýna þeim A klámmyndir og láta þær snerta sig. D ber að Y hafi sagt sér frá því þegar þær voru um 14 ára gamlar að ákærði hefði misnotað sig, en ekki lýst því nánar en svo að hann hefði þuklað hana og látið hana snerta á sér kynfærin.
Y, E og G bera að þær hafi eitt sinn, er þær voru orðnar a.m.k 12 ára gamlar, hjólað til [...] og komið heim til ákærða, sem hafi farið að tuskast við þær, tekið utan um þær og káfað á brjóstum þeirra. G tekur þó fram að hún muni ekki að ákærði hafi káfað á henni.
Í málinu hefur verið lögð fram bókun um fund haldinn á heilsugæslustöðinni í [...] 17. apríl 1994, undirrituð af H formanni barnaverndarnefndar, I héraðslækni og ákærða. Þar kemur fram að efni fundarins hafi verið meint áreitni ákærða við stúlkubörn og er vísað til greinargerðar sem samin hafi verið af I og ákærða kynnt efnislega. Er ákærða síðan veitt formleg viðvörun og honum gert ljóst að berist fleiri kvartanir verði hann kærður. Þá kemur fram að ljóst sé að ákærði sé leiður yfir þessu máli og að hann vilji að samband verði haft við þá sem tengist málinu og látið vita um að hann muni endurskoða framkomu sína við börn og unglinga.
Nefnd greinargerð I liggur frammi í málinu. Þar kemur fram að móðir C hafi haft samband við hann og haft er eftir henni að ákærði hefði klæmst við C og aðra stúlku, króað þær af inni í skemmu og síðan þrýst þeim upp að vegg með því að halda milli fóta þeirra, en þær hafi losnað með því að láta sig renna niður á gólf. Þá nefnir læknirinn að vitneskja hafi borist um að ákærði hefði stundað að káfa á stúlkum í sundlauginni.
C skýrði svo frá hér fyrir dómi að hún og vinkona hennar hefðu farið með ákærða í bifreið og hann hefði klæmst og gantast við þær. Þeim hefði þótt þetta mjög spennandi. Þau hefðu síðan farið í skemmu, þar sem ákærði hefði verið að tuskast eitthvað við þær og þeim þótt það gaman, uns vatn hefði skvest á þær og hann ætlað að þurrka af fötum þeirra. Þær hefðu þá skyndilega orðið hræddar og flúið út í bifreiðina og læst að sér.
I og H gáfu bæði skýrslu fyrir dómi. Bæði segja þau að ákærði hafi lítið tjáð sig, en H tók fram að hann hefði litið öðru vísi á atvik en stúlkurnar. I kveðst ekki muna eftir að nafn Y hafi komið upp í þessu samhengi.
Ákærði neitar alfarið sök. Hann segir að Y hafi oft verið á heimili hans og hann hafi oft gætt hennar einn. Hún hafi verið hænd að honum og hafi farið vel á með þeim. Hann kveðst muna eftir að Y hafi sofið hjá honum í rúmi, en kona hans frammi í stofu. Hann hafi hvílt við vegg og er hann hafi ætlað fram úr hafi hann dottið og lent á Y sem hafi kveinkað sér og farið að kjökra. Hún hafi bent á lærið á sér er hann hafi spurt hvar hún hefði meitt sig. Kona sín hafi ekki vaknað.
Á tímabili hafi Y og A haft mikinn áhuga á að sjá á honum kynfærin, en hann hafi aldrei orðið við því. Eitt sinn hafi hann verið að horfa á fótbolta í sjónvarpi og haft sæng yfir sér. Y og A hafi viljað sjá á honum kynfærin og hafi hann sett höndina ofan í buxur sínar og fingur út um buxnaklaufina og leyft þeim að þreifa á fingrinum undir sænginni í þeirri trú að þær væru að þreifa á limnum. Þær hafi þá hlaupið skrækjandi út.
Ákærði kannast við atvikið sem C lýsir. Segir hann að stúlkurnar hafi viljað sjá á honum liminn en hann neitað. Þær hafi þá hniprað sig niður og hann tekið í þær, en alls ekki á neinn kynferðislegan hátt. Hann hafi síðan sleppt þeim og þær hlaupið út og lokað sig inni í bifreið hans. Hann hafi sagt H og I frá því hvað hefði gerst á nefndum fundi með þeim. Hann kveðst hafa undirritað skjalið vegna þess að hann hefði verið leiður yfir þessum ásökunum og sér hafi verið ljóst að það væri hættulegt að koma nálægt ungum stúlkum, miðað við að hann var sakaður um eitthvað varðandi þetta atvik.
Ákærði kveðst kannast við að hafa káfað á Y er hún kom á íþróttahátíð í [...], árið 1992 eða 1993. Hann kveðst hafa farið undir föt hennar og þreifað á brjóstum. Hann segir að ástæðan hafi verið sú að hann hafi verið farinn að fylgjast eitthvað með þroska hennar, hún hafi verið breytt og þroskuð. Sér hafi þó hvorki fundist hún kynæsandi þá, né þegar hún var yngri.
II.
Í málinu hefur verið lögð fram ítarleg sálfræðiskýrsla dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar, forstöðusálfræðings, sem hann gerði um Y að beiðni réttargæslumanns hennar um fræðilega greiningu á andlegum högum hennar þar sem fram komi sálfræðileg greining á henni og mat á varanlegum afleiðingum þeirra brota sem ákærða er gefið að sök að hafa framið gegn henni og sérstaklega óskað eftir greiningu á meðferðarþörf hennar til framtíðar litið. Skýrslan er m.a. byggð á 18 viðtölum sálfræðingsins við Y, niðurstöðum sálfræðiprófa sem lögð voru fyrir hana í þeim og afritum gagna á rannsóknarstigi málsins.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að Y sé meðalgreind kona með prýðilegt minni. Niðurstöður sálfræðiprófa gefi til kynna að hún eigi við alvarleg og langvinn sálræn vandamál að stríða, sem í daglegu lífi komi meðal annars fram í þunglyndi og vonleysi, pirringi og kvíða. Þetta komi heim og saman við þá mynd sem hún dragi upp af sjálfri sér. Hún segist oft hafa tekið dýfur um ævina og miðað við lýsingar hennar sé hún oft þunglynd og vonlaus og finni fyrir pirringi án þess að gera sér grein fyrir því af hverju hann stafi. Hún lýsi erfiðri æsku, sem hafi einkennst af óöryggi, skorti á nánu tilfinningasambandi við móður sína, flutningum, bæði innan lands og á milli landa, fátækt, föðurleysi og kynferðislegri misnotkun. Þá virðist unglingsárin einnig hafa verið henni frekar erfið. Þá gefi niðurstöður sálfræðiprófa til kynna að Y eigi við ýmis önnur alvarleg vandamál að stríða, sem rekja megi á einn eða annan hátt til öryggisleysis hennar í æsku og kynferðislegrar misnotkunar. Niðurstöðurnar gefi m.a. til kynna að hún sé fremur tilfinningasöm og illa félagsmótuð og eigi við alvarleg persónuleikavandamál að stríða sem komi m.a. fram í því að hún geti átt í erfiðleikum í tilfinningalegum samskiptum, sé tortryggin í garð annarra og geti átt erfitt með að setja sig í spor þeirra. Þetta komi m.a. fram í því hversu erfitt hún eigi með að mynda og viðhalda tilfinningalegum samskiptum við annað fólk. Þótt erfitt sé að fullyrða um uppruna og þróun slíkra persónuleikavandamála megi gjarnan rekja þau til erfiðra uppvaxtarskilyrða og alvarlegra áfalla sem fólk verði fyrir í uppvexti. Hún hafi mælst mjög innhverf og lokuð á sálfræðiprófum og með mikið minni sjálfsvirðingu en jafnöldrur hennar og mikið undanlátssamari og einmana en þær eru að meðaltali. Í frásögnum hennar komi fram að hún virðist oft vera mjög einmana og upplifi sig oft sem einstæðing. Þá gefi lýsingar hennar til kynna að hún sé mjög líkleg til að láta undan þrýstingi til að þóknast fólki eða til þess að forðast deilur, sem sé í samræmi við það að henni finnist að hún sé sífellt að reyna að þóknast þeim sem hún umgengst. Hún telji sig frekar lítils virði og lýsi sér á neikvæðan hátt.
Y hafi verið spurð ítarlega út í kynferðislega misnotkun sem hún segist hafa orðið fyrir í æsku og kynlífsreynslu sína eftir að henni lauk. Hún hafi verið mjög einlæg, opinská og hreinskilin í viðtölum og virst hvorki gera tilraun til að ýkja frásagnir sínar né fegra sig og hegðun sína. Á sálfræðiprófum hafi einnig komið í ljós að hún hafi hvorki gert tilraun til að fegra sig né verja á óeðlilegan hátt. Því sé líklegt að niðurstöður sálfræðiprófanna sem voru lögð fyrir hana gefi rétta mynd af persónuleikaeinkennum hennar, eiginleikum og ástandi. Samkvæmt þessu bendi margt til þess að Y eigi við bæði langvinn og alvarleg sálræn vandamál að stríða, sem megi rekja til æsku hennar og áfalla, og hafi merki þess komið fram bæði í viðtölum við hana og á niðurstöðum sálfræðiprófa sem hafi verið lögð fyrir hana. Áhrif áfalla, eins og kynferðislegrar misnotkunar, geti varað lengi og komið fram í lífi fólks. Slík áhrif komi til að mynda fram í áfallastreitueinkennum, en Y hafi nokkuð augljós einkenni þeirra, sem megi tengja við meinta misnotkun, þ.e. í fyrsta lagi að hún upplifi ennþá ýmis líkamleg kvíða- og streitueinkenni í tengslum við minningar um misnotkunina, s.s. magaverki, hraðan hjartslátt og svima, sem hún hafi einnig upplifað sem barn, í öðru lagi að minningar um háttsemi ákærða komi oft fyrirvaralaust upp í huga hennar og einnig við nána snertingu og lykt og í kynlífi og valdi þetta henni mikilli vanlíðan og í þriðja lagi að hún reyni greinilega að forðast aðstæður þar sem hún eigi von á að hitta ákærða. Sé hún ekki hrædd við hann, en líði illa við tilhugsunina um að hitta hann.
Dr. Jón Friðrik segir að þótt erfitt geti verið að greina á milli afleiðinga erfiðra uppeldisskilyrða og kynferðislegrar misnotkunar á persónuleikaeinkenni og andlegt ástand fólks, sé nokkuð ljóst af ofansögðu að lýsingar Y á kynlífsreynslu sinni og viðhorfum sínum til kynlífs þegar hún var unglingur gefi til kynna alvarlega truflun á kynlífsþroska hennar, sem megi rekja til kynferðislegrar misnotkunar. Mikilvægt sé að hún fái sálfræðilega meðferð við hæfi, eigi hún að geta náð tökum á vandamálum sínum og lifað farsælu lífi í framtíðinni. Nánar greind markmið slíkrar meðferðar ættu að felast í að hjálpa henni að vinna úr afleiðingum misnotkunarinnar, en einnig að takast á við flókin tilfinningaleg og persónuleikavandamál, sem þessu tengist. Ýmislegt bendi til að hún hafi góða möguleika á að ná tökum á lífi sínu og vandamálum, bæði hafi hún góða greind og námsgetu og hafi góða reynslu af að takast á við erfiðleika með árangri.
III.
Y er ein til frásagnar um þau brot sem ákærða eru gefin að sök í ákæru. Framburður hennar, bæði fyrir lögreglu og dómi er skýr um háttsemi ákærða og hún er samkvæm sjálfri sér í lýsingum sínum.
Ofangreind sálfræðiskýrsla dr. Jóns Friðriks styður mjög trúverðugleika framburðar Y. Tók hann einnig sérstaklega fram fyrir dómi að hann hefði metið trúverðugleika hennar og álíti hana trúverðuga. Bréfið sem hún ritaði móður sinni og rakið er hér að ofan styrkir framburð hennar mikið. Sama er að segja um skýrslu móður hennar, B, C, D og A um frásögn hennar af háttsemi ákærða.
Framburður A um það er ákærði sýndi þeim Y klámfengið myndband og lét hana snerta lim sinn, er til þess fallinn að styrkja framburð Y um háttsemi ákærða gagnvart henni. Þá verður litið til framburðar C um háttsemi hans gagnvart henni og aðgerðir barnaverndaryfirvalda í [...] í kjölfarið. Gefa þessi atriði sterkar vísbendingar um hvatir ákærða. Sama er um það að segja að ákærði kannast einnig við að hafa í eitt sinn þreifað á brjóstum Y, þótt hann sé ekki ákærður fyrir það, enda sök fyrnd í því tilviki. Framburður Y, E og G um það atvik er hann þreifaði á brjóstum þeirra er einnig vísbending í sömu átt.
Þegar þetta er allt virt, telur dómurinn frásögn Y afar trúverðuga. Verður framburður hennar lagður til grundvallar dómi þrátt fyrir neitun ákærða og talið með honum nægilega sannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir.
IV.
Háttsemi ákærða varðar við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003. Á þeim tíma sem háttsemin var framin varðaði hún við 1. mgr. 200. gr., sbr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Ber samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga að dæma eftir núgildandi ákvæði, en háttsemin varðar allt að 12 ára fangelsi í báðum tilvikum, en samkvæmt 202. gr. almennra hegningarlaga, eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 40/1992, skyldi þó beita vægari hegningu að tiltölu.
Dómurinn telur að miða verði við að fyrningu hafi verið slitið 7. maí 2003, er ákærði kom fyrir lögreglu og var kynnt kæra Y. Fyrningarfrestur telst frá þeim degi er háttsemi ákærða lauk, sbr. þágildandi ákvæði 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981. Um lengd frestsins ber að beita þágildandi ákvæði 81. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. þess ákvæðis fyrnist sök á 10 árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 10 ára fangelsi, en á 15 árum ef þyngsta refsing við broti er 16 ára fangelsi eða lengra tímabundið fangelsi, sbr. 4. tl. sömu mgr. Brot ákærða varða allt að 12 ára fangelsi eins og áður greinir og fyrnist sök því á 15 árum. Upphaf fyrningarfrests verður samkvæmt þessu að miða við 7. maí 1988.
Dómurinn telur að líta beri á háttsemi ákærða sem samfelld brot, þannig að sök vegna einstakra tilvika teljist ekki fyrnd nema háttseminni í heild hafi lokið fyrir upphaf fyrningarfrestsins.
Afar erfitt er að slá því föstu hvenær brot sem greind eru í 2. tl. ákæru hafi síðast verið framin. Y lýsir því að þau tilvik hafi verið um fimm til tíu og framin á þeim tíma sem hún var 6-7 ára, alveg til þess að hún var 9-10 ára. Aðspurð hvort hún hafi verið orðin níu ára kvaðst hún ekki muna það, en að bróðir sinn, sem er fæddur [...] 1987, hafi verið orðinn um eins árs gamall eða svo. Atvik, sem í 1. tl. ákæru greinir telur hún hafa gerst er hún var 6-7 ára gömul. Hún kveðst ekki muna hve gömul hún var er atvik í [...] átti sér stað, en telur að bróðir sinn hafi líklega verið fæddur þá. Atvik sem greinir í 3. tl. ákæru telur hún hafa gerst þegar hún var yngri en átta ára gömul.
Y er fædd [...] 1979 og var hún því tæplega 9 ára gömul er fyrningarfrestur byrjaði að líða. Þrátt fyrir framburð hennar um að hún hafi líklega verið orðin 9-10 ára gömul er háttsemi ákærða samkvæmt 2. tl. ákæru lauk, verður að líta til þess að ekkert tilvik verður með vissu tímasett eftir upphaf fyrningarfrestsins og að Y er ekki alveg viss um að hún hafi verið orðin níu ára. Vafa um þetta verður að meta ákærða í hag. Dómurinn telur því að sök hans sé fyrnd. Ber því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins, sbr. 6. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981.
Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 má dæma um bótakröfu þrátt fyrir að ákærði hafi verið sýknaður af framangreindri ástæðu, að því tilskildu að skilyrði bótaskyldu séu fyrir hendi. Bótakrafan fyrnist á 10 árum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905. Var hún því fyrnd er mál þetta var höfðað. Dómurinn telur að heimild 16. gr. laga nr. 14/1905, sem kveður á um að dæma megi bætur þótt krafa sé fyrnd ef sakamaður er dæmdur fyrir glæp, verði ekki beitt þegar svo háttar til að sýknað er af refsikröfu vegna sakarfyrningar. Af þessum sökum verður að vísa bótakröfunni frá dómi.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að fella sakarkostnað á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar, hrl., sem ákveðast 300.000 krónur og réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Herdísar Hallmarsdóttur, hdl., sem ákveðast 200.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri, ásamt héraðsdómurunum Eggerti Óskarssyni og Jóni Finnbjörnssyni. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómsformanns.
Dómsorð:
Ákærði, X, á að vera sýkn af kröfum ákæruvaldsins í þessu máli.
Bótakröfu Y er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar, hrl., 300.000 krónur og réttargæslulaun Herdísar Hallmarsdóttur, hdl., 200.000 krónur.