Hæstiréttur íslands

Mál nr. 368/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 6

 

Mánudaginn 6. september 2004.

Nr. 368/2004.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991. Gæsluvarðhaldsvist.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Þá var einnig staðfestur úrskurður héraðsdóms um tilhögun á gæslu X.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. september 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærðir eru tveir úrskurðir Héraðsdóms Reykjaness 2. september 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. október 2004 kl. 16 og staðfest var ákvörðun sóknaraðila um að gæsluvarðhaldið yrði með þeim takmörkunum, sem heimilaðar eru í 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Málin voru sameinuð með ákvörðun réttarins 6. september 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að hinir kærðu úrskurðir verði felldir úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurðir héraðsdómara verði staðfestir.

Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður á það fallist að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi allt til 15. október 2004 kl. 16.

Úrskurður héraðsdóms um tilhögun á gæslu varnaraðila verður staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinir kærðu úrskurðir eru staðfestir.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. september 2004.

                Lögreglustjórinn í Hafnarfirði krefst þess í málinu að kærða, X, verði með dómsúrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. október 2004 kl. 16:00. Kröfunni til stuðnings er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og á því byggt að sterkur grunur sé um að kærði hafi framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og jafnvel gegn 211. gr., sbr. 20. gr. sömu laga, sem varðað geti fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt. Sé brot kærða þess eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Af hálfu kærða er gæsluvarðhaldskröfunni mótmælt og á því byggt að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að úrskurða kærða í gæsluvarðhald.

[...]

II.

Samkvæmt gögnum málsins er sterkur grunur um að kærði hafi framið alvarlegt brot þar sem hann beitti stórhættulegu vopni og þar sem hending ein virðist hafa ráðið að afleiðingar ætlaðrar háttsemi hans urðu ekki eins alvarlegar og þær hefðu getað orðið. Brot kærða getur varðað allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 teljist sök sönnuð. Er það þess eðlis að að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi þar til máli hans er lokið. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 15. október 2004 kl. 16:00.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. september 2004:

                Ár 2004, fimmtudaginn 2. september, er dómþing Héraðsdóms Reykjaness háð í dómhúsinu í Hafnarfirði af Finnboga H. Alexanderssyni héraðsdómara og upp kveðinn úrskurður í málinu nr. R-101/2004: Lögreglustjórinn í Hafnarfirði gegn X, sem tekið var til úrskurðar í dag með vísan til 4. mgr. 108. gr. sbr. 75. gr. laga nr. 19/1991 að kröfu kærða.

                Kærði var kl. 11:11 í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstu­dagsins 15. október nk. Aðspurður um fyrirkomulag gæslunnar kvað rannsóknari allar takmarkanir á réttindum gæslufanga sem heimilaðar væru samkvæmt 1. mgr. 108. gr. fyrrnefndra laga gilda um gæsluvarhald kærða vegna rannsóknarhagsmuna fyrst um sinn, en reikna mætti með að frumrannsókn lyki innan tveggja daga og þá yrði þessum takmörkunum aflétt. Taldi rannsóknari hættu á að kærði gæti haft áhrif á vitni ef hann sætti ekki takmörkunum og þá hefði hann óheftan aðgang að fjölmiðlum sem fjölluðu mikið um málið og kynni það að hafa áhrif á framburð hans.

                Verjandi ákærða mótmælti því að kærði sætti þessum takmörkunum, enda hefði krafa rannsóknara um gæsluvarðhald yfir kærða ekki byggst á rannsóknar­hagsmunum heldur alvarleika hins ætlaða brots. Þá væri gæsluvarðhaldsúrskurðurinn ekki byggður á rannsóknarhagsmunum. væru því eigi skilyrði til að beita þessum takmörkunum.

                Eins og áður getur var krafa rannsóknara um gæsluvarðhald yfir kærða einvörðungu byggð á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 en ekki á rannsóknar­hagsmunum eða öðrum þeim atriðum er í 1. mgr. 103. gr. greinir. Það þykir á hinn bóginn ekki girða fyrir að takmarka megi þau réttindi sem gæsluföngum eru veitt í 1. mgr. 108. gr. laga um meðferð opinberra mála ef það þykir nauðsynlegt vegna rannsóknar málsins. Það er rannsóknari sem slíkar takmarkanir setur. Rannsóknari telur nauðsyn að takmarka í skamman tíma réttindi kærða samkvæmt 1. mgr. 108. gr. vegna rannsóknarhagsmuna. Af hálfu kærða hefur þessu mati rannsóknara ekki verið hnekkt og þykir dómara að svo komnu máli ekki ástæða til að fella þá ákvörðun rannsóknara úr gildi að kærði sæti takmörkunar á réttindum sínum samkvæmt 1. mgr. 108 gr. laga nr. 19/1991 enda verði þeim takmörkunum aflétt um leið og frumrannsókn lýkur og þeirra er ekki lengur þörf.

                Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Ákvörðun lögreglustjórans í Hafnarfirði um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar kærða X samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 skal standa óhögguð.