Hæstiréttur íslands

Mál nr. 510/2006


Lykilorð

  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. mars 2007.

Nr. 510/2006.

Ólafur Áki Ragnarsson og

Álfheiður Freyja Friðbjarnardóttir

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Óskari Gunnlaugssyni

Braga Gunnlaugssyni

Ingunni Gunnlaugsdóttur

Guðríði Gunnlaugsdóttur

Guðlaugu Gunnlaugsdóttur

Baldri Gunnlaugssyni

Hauki Gunnlaugssyni

Vilborgu Gunnlaugsdóttur og

Birni Gunnlaugssyni

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Áfrýjunarfjárhæð. Frávísun frá Hæstarétti.

ÓL og ÁL áfrýjuðu til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Austurlands þar sem fallist var á kröfu ÓS o.fl. um að viðurkennt yrði að nafngreindri jörð í eigu ÓL og ÁL fylgdi ekki veiðiréttur í Berufjarðará. ÓS o.fl. kröfðust þess að málinu yrði vísað frá Hæstarétti þar eð lögmæt skilyrði skorti til áfrýjunar. Ekki var talið að áfrýjendunum ÓL og ÁL hefði tekist að sýna nægilega fram á að verðmæti þeirra hagsmuna sem um væri deilt í málinu svaraði til áfrýjunarfjárhæðar fyrir árið 2006, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því var málinu vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 25. september 2006. Þau krefjast sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við málflutning fyrir Hæstarétti lýstu stefndu yfir því að Bóka- og minjasafn Nönnu Guðmundsdóttur ætti ekki réttindi til hins umdeilda veiðiréttar í Berufjarðará. Var þess því óskað að aðild safnsins að málinu félli niður. Af hálfu áfrýjenda voru ekki gerðar athugasemdir við þetta.

Aðalkrafa stefndu um frávísun málsins frá Hæstarétti er á því reist að lögmæt skilyrði skorti til áfrýjunar. Samkvæmt 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ákveði Hæstiréttur hvort hagsmunir svari til áfrýjunarfjárhæðar ef mál varði annars konar kröfu en fjárkröfu. Hafa stefndu lagt fram vottorð um fasteignamat veiðiréttar í Berufjarðará, þar sem fram kemur að fasteignamat alls veiðiréttar í ánni nemi 24.000 krónum. Áfrýjendur hafa á hinn bóginn lagt fram óstaðfesta umsögn frá löggiltum fasteignasala um að veiðiréttindi hafi „veruleg áhrif á verðmæti jarða til hækkunar“. Ekki er þar lagt sérstakt mat á verðmæti veiðiréttar í Berufjarðará. Í málinu nýtur upplýsinga um veiði í ánni sem benda til þess að ekki hafi tekist að koma þar upp laxveiði. Hins vegar virðist mega draga þá ályktun af málsgögnum að í ánni veiðist silungur, þó að með öllu sé óljóst hversu mikla veiði megi hafa og hvernig henni sé nánar háttað. Ekki verður fallist á með áfrýjendum að þau hafi með nefndu vottorði sýnt nægilega fram á að verðmæti þeirra hagsmuna sem um er deilt í málinu svari til áfrýjunarfjárhæðar, en hún nam 454.830 krónum fyrir árið 2006, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 28. júní 2006.

Málið var höfðað 14. júní 2005 og dómtekið 22. júní 2006. Stefnendur eru Óskar, Berufirði III, Djúpavogshreppi, Bragi, Berufirði II, sama stað, Ingunn, Kleif, Breið­dals­hreppi, Guðríður, Sæbergi 19, Breiðdalsvík, Guðlaug, Engihlíð, sama stað, Baldur, Borgar­garði 3, Djúpavogi, Haukur, Runná, Djúpavogshreppi, Vilborg, Hæðar­garði 21, Nesjum, Hornafirði, Björn, Sunnubraut 6, Höfn, öll Gunnlaugsbörn Guðmundssonar og Bóka- og minjasafn Nönnu Guðmundsdóttur, Berufirði, Djúpa­­­vogs­­­­hreppi. Stefndu eru Ólafur Áki Ragnarsson og Álfheiður Freyja Friðbjarnardóttir, Heinabergi 20, Þorlákshöfn.

Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að jörðinni Berufirði-Melshorni tilheyri ekki veiðiréttur í Berufjarðará. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu krefjast sýknu af dómkröfum stefnenda og málskostnaðar.

I.

Árið 1943 erfðu systkinin Ragnar, Martha, Margrét, Hjálmar, Finnur, Nanna og Gunn­laugur Guðmundarbörn jörðina Berufjörð, en óskipt lá jörðin að Berufjarðará og fylgdi henni veiðiréttur í ánni. Er óumdeilt að systkinin hafi í framhaldi skipt jörðinni í þrjú sjálf­­stæð býli, þannig að í hlut Ragnars og Mörthu kom úrskiptur jarðar­hluti með ákveðnum landamerkjum, sem þinglýst var og gefinn nafnið Hvanna­­­brekka. Með sama hætti fékk Margrét jarðarhluta, sem þinglýst var í nafni Lindarbrekku. Að öðru leyti var jörðin Berufjörður áfram í sameign Hjálmars, Finns, Nönnu og Gunn­­laugs. Hvorugt nýbýlanna átti land að ánni og er í málinu ágreiningslaust að veiði­­réttur hafi ekki fylgt þeim. 

II.

Hinn 20. júlí 1961 gerðu Hjálmar og bróðursonur hans, Einar Gunnlaugsson, með sér kaupsamning, en meginefni hans hljóðar svo:

„Seljandi lofar að selja kaupanda 4/5 hluta af eign sinni í Berufirði, en seljandi telst nú eiga 1/4 hluta af óskiptu landi Berufjarðar, þ.e. þegar frá er talið land Hvanna­brekku og Lindarbrekku. Mörk hins selda lands eru þessi: Að utan: Illagilslækur, frá Beru­fjarðará og upp að Dalstóttum (Ólafs sel). Að ofan: Bein lína, sem hugsast dregin frá Dalstóttum í vörðu utanhalt við Ljósumela. Að innan: Bein lína, sem hugsast dregin frá þeirri vörðu í aðra vörðu á mel ofan við Mjósund. Að neðan: Bein lína, sem hugsast dregin úr þeirri vörðu í Melshorn, sem er í krikanum milli Berufjarðarár og Illa­­gilslækjar. Land þetta hefur verið mælt, og er það að flatarmáli rösklega 25 hektarar og er allt ræktanlegt. Beitarréttur kaupanda fer eftir stærðarhlut hans í jörðinni hlutfallslega.“

Á kaupsamningnum er yfirlýsing Finns, Nönnu og Gunnlaugs, dagsett sama dag, en þar segir:

„Við undirritaðir sameigendur að jörðinni Berufirði erum samþykk því, að ofan­um­getið land selt Einari Gunnlaugssyni ásamt meðfylgjandi beitarréttindum séu réttir 4/5 hlutar af eign Hjálmars Guðmundssonar í jörðinni, og einnig samþykkjum við söluna.“

Fyrir neðan yfirlýsinguna er afsal Hjálmars fyrir hinu selda, dagsett sama dag, sem hljóðar svo:

„Þar sem Einar Gunnlaugsson, Berufirði, hefur staðið mér full skil á kaupverði ofan­­greinds lands og beitarréttinda, lýsi ég hann hér með réttan og löglegan eiganda hins selda. Ég svara til vanheimildar.“

Eignarafsalinu var þinglýst og jörðin skráð nýbýli. Hefur hún einatt gengið undir nafninu Melshorn, en heitir „Berufjörður-Mels­horn-159096“ í þinglýsingabók og fast­eigna­mati. Merki jarðarinnar eru í nær fullu sam­ræmi við girðingu, sem umlykur ræktað land hennar. Er óumdeilt að býlið eigi ekki land að Berufjarðará. Dómurinn hefur skoðað merkin.

III.

Í málinu liggur fyrir að Ragnar eignaðist hlut bræðra sinna Finns og Hjálmars í jörðinni Berufirði 28. október 1970 og afsalaði sömu eignarhlutum til Gunnlaugs bróður síns 2. desember sama ár. Í afsalinu segir að eftir söluna sé eignar­hlutur Gunn­laugs 2,20 á móti 1 hlut Nönnu og að heima­jörðin teljist þannig samtals 3,20 hlutar.

Fer ekki frekari sögum af samningsgerð í Berufirði fyrr en haustið 1977 þegar veiði­málastjóri, fyrir hönd hins opinbera og Ragnar, Gunnlaugur og Einar, fyrir hönd eigenda Berufjarðar, undirrituðu samning um að Veiðimálastofnun væri heimilt að sleppa laxaseiðum í tilrauna­skyni í Berufjarðará. Tekjur sem af kynnu að hljótast skyldu renna til helminga milli stofnunarinnar og eigenda Berufjarðar. Er skemmst frá því að segja að umrædd tilraun bar ekki ávöxt.

Hinn 19. ágúst 1979 seldi Nanna stefnanda Óskari eignarhlut sinn í jörðinni Beru­firði. Í samningnum segir að Berufjarðar­landið sé óskipt, en svo teljist til að Gunn­laugur eigi 2,1 og Einar sonur hans 0,9 á móti 1, sem sé eign Nönnu. Jarðarhlutinn, sem hún selji, sé því 1/4 úr heildar­landi Beru­fjarðar og Melshorns. Í samningnum er getið um hlunnindi, sem felist í veiði í ánni og sjó, en í því sambandi áskildi Nanna sér rétt til nýtingar þeirra, þó aðeins til matar. Samkvæmt þing­lýsingabók ber hinn seldi eignarhluti nafnið „Berufjörður/Berufjörður 2“, með fasteigna­númer 159097.

Meðal annarra málsgagna er skiptayfirlýsing erfingja Nönnu 20. október 1988 um að ákveðin hafi verið stofnun Bóka- og mynjasafns Nönnu Guðmundsdóttur og skuli öllum eignum hinnar látnu varið til þessara hluta.

Þá liggur fyrir yfirlýsing 28. desember 1994 vegna einkaskipta á dánarbúi móður títt­nefndra systkina, sem þinglýst var án athugasemda. Sama skjal ber með sér að hinn 29. ágúst 2002 hafi þinglýsingarstjóri fært eftirfarandi athuga­semd í þing­lýsinga­­bók: „Jörðin Berufjörður er óskipt í þingl.bók og færðist skjal þetta, sem skv. efni þess á við um Berufjörð 2, á blað jarðarinnar Berufjarðar í þingl.bók. Skv. afsali dags. 19.8.1979 á Óskar Gunnlaugsson 5/16 hluta (31,25%) jarðarinnar, sjá litra nr. 1211/1980. Skv. afsali dags. 2.12.1970, litra nr. NN-418/1970, varð eignarhluti Gunn­laugs Guðmundssonar í Berufirði 2,20 af 3,20 hlutum (11/16 hlutar - 68,75%) og kemur sá hluti í eign viðtakenda þessa skjals.“ Virðist hér vísað til stefnenda, að frá­töldu Bóka- og minjasafni Nönnu Guðmundsdóttur, og til Kristrúnar og Guðmundar Gunnlaugsbarna.

IV.

Áður hafði það gerst 11. apríl 2002 að jörðin Melshorn var auglýst til sölu á vegum Fasteigna- og skipasölu Austurlands ehf. og óskað eftir tilboðum í hana ásamt meðfylgjandi hlunnindum, svo sem „veiði í ám og rjúpna- og gæsaveiði.“ Seljandi var Stefanía Rósa Jóhannsdóttir eftirlifandi sambúðarmaki Einars Gunn­laugs­sonar, en hann lést árið 1991. Stefnendur halda því fram að um leið og þeir hafi séð nefnda aug­lýsingu hafi stefnandi Bragi farið á fund Stefaníu og kvartað undan sölu­lýsingunni. Óháð því fór svo að stefndu keyptu jörðina 7. ágúst 2002 og var afsal gefið út fyrir henni 11. febrúar 2003. Í hvorugu skjalinu er getið um veiðirétt í Berufjarðará eða önnur hlunnindi, en eignin seld með öllu því sem henni fylgir og fylgja ber og seljandi hafi upplýst kaupendur um. Varðandi landamerki er þess getið að þau séu óumdeild og í því sambandi vísað til fyrrnefnds kaupsamnings 20. júlí 1961.

Að sögn stefnenda munu stefndu hafa heimilað gestum að veiða í Berufjarðará haustið 2002 og aftur sumarið 2004. Hafi stefnendur kvartað undan þessu við stefndu. Með bréfi stefnenda 12. október 2004 var skorað á stefndu að sýna fram á hvernig þau gætu talið til veiðiréttar í ánni. Í svarbréfi 23. nóvember sama ár var bent á að veiðiréttur hefði fylgt við kaupin á Melshorni í ágúst 2002.

V.

Samkvæmt þinglýsingarvottorði fyrir Berufjörð-Melshorn er fast­eignin skráð sem nýbýli. Á vottorðið eru færð ýmis veðbönd í formi lífeyris­sjóðs­lána. Í þing­lýsingar­vott­­orði fyrir Berufjörð/Berufjörð 2 eru stefnendur skráðir eigendur að jörðinni í samræmi við fyrrnefndar skiptayfirlýsingar og afsöl til stefnanda Óskars. Samkvæmt vottorðinu hvílir eitt lán á jörðinni frá Lánasjóði land­búnaðarins. Á vott­orðið er meðal annars færð áðurnefnd athugasemd þinglýsingar­stjóra um að jörðin Berufjörður sé óskipt í þinglýsingabók. Þá liggur fyrir þing­lýsingar­vottorð fyrir Hvanna­brekku, sem skráð er jörð í byggð, með fastanúmer 159109. Á henni hvíla sjálfstæð veð­bönd.

Í vottorðum Fasteignamats ríkisins er Beru­firði-Mels­horni (159096), Berufirði 2 (159097) og Berufirði (159098) lýst með tilliti til eigna, sem þeim fylgir. Varðandi fyrst­nefndu fasteignina, sem sögð er ná yfir 20,8 hektara ræktaðs lands, er ekki getið um hlunnindi. Berufjörður 2 er sögð jörð í byggð, með 56,5 hektara ræktaðs lands og Berufjörður, jörð í byggð, með 12 hektara ræktaðs lands. Til fasteignamats varðandi báðar jarðirnar teljast lax- og silungs­veiði. Skráðir rétthafar slíkra hlunninda að Beru­­firði 2 eru stefnendur, að frátöldu Bóka- og minjasafni Nönnu Guðmunds­­­dóttur, en stefnandi Óskar er skráður rétthafi sömu hlunninda að Beru­firði.

VI.

Við aðalmeðferð málsins komu Óskar og Bragi Gunnlaugssynir fyrir dóm af hálfu stefnenda, stefndi Ólafur Áki og vitnið Stefanía Rósa Jóhannsdóttir. Í máli stefnenda kom fram að Melshorn væri nýbýli, sem byggt hefði verið úr landi Beru­fjarðar með kaupsamningnum 1961, en samkvæmt honum hefði Einar Gunnlaugsson fengið beitarrétt í óskiptu landi Berufjarðar, hlutfallslega að 1/5 eða 20% af heildar­landi jarðarinnar. Veiðiréttur í Berufjarðará hefði ekki fylgt með í kaupunum, en vegna náinna fjölskyldubanda hefðu eigendur Berufjarðar látið óátalið þótt Einar og fjöl­­skylda hans veiddu sér til matar og fólk á þeirra vegum renndi stöku sinnum fyrir fisk í ánni. Aðilarnir báru ekki á móti því að Vegagerðin hefði í einhver skipti fengið leyfi til malarnáms í landi Berufjarðar og að 20-25% tekna af náminu hefðu runnið til eiganda Melshorns, þótt engin efnistaka væri úr þeirri jörð.

Stefndi Ólafur kvaðst hafa verið að leita sér að jörð með aðgangi að veiði í vatni og sjó þegar hann hefði rekið augun í fasteignaauglýsinguna 11. apríl 2002. Í fram­haldi hefði verið gengið til samninga við Stefaníu Rósu, en við samningsgerðina hefði verið rætt ítarlega um veiðirétt í Berufjarðará og skýrt tekið fram af hálfu Stefaníu og fasteignasalans að Melshorni fylgdi hlutfallslega 20% veiðiréttur í jörðinni Beru­firði. Að sögn stefnda hefði sá réttur verið forsenda fyrir kaupunum. Einnig hefði komið fram að Melshorn fengi í sinn hlut 20% af malarnámi í sömu jörð. Stefndi hefði því staðið í þeirri trú að Melshorn væri 20% af óskiptu landi Berufjarðar. Hann kvaðst ekki hafa talið ástæðu til að áskilja sér veiðirétt í sjálfum kaupsamningnum, enda hefði sá réttur verið ljós samkvæmt fyrri afsalsgerð um jörðina frá 1961. 

Stefanía Rósa bar fyrir dómi að hún hefði hafið búskap að Melshorni 1972, en fyrir þann tíma hefði Einar Gunnlaugsson búið jörðina um 11 ára skeið. Afkoma þeirra hefði byggst á sauðfjárbúskap og hefði fénu verið sleppt í landi Beru­fjarðar. Að sögn Stefaníu hefði henni skilist að þau ættu 20% í óskiptu landi sömu jarðar, utan ræktaðs túns að Melshorni og að veiðiréttur í Berufjarðará hefði fylgt býlinu. Stefanía bar að börn þeirra Einars hefðu verið duglegust við að veiða í ánni, auk þess sem bræður hennar hefðu stundum rennt fyrir fisk. Á þessu hefði ekki orðið breyting eftir andlát Einars 1991. Aðspurð kannaðist Stefanía við að stefnandi Bragi hefði komið að máli við hana daginn sem Melshorn var auglýst til sölu og hann sagt henni að jörðinni fylgdi ekki veiðiréttur í Berufjarðará. Hún bar enn fremur að hún hefði aldrei beðið fasteignasöluna að auglýsa jörðina með slíkum hlunnindum og gaf berlega í skyn að umræddur texti í sölulýsingu eignarinnar væri ekki frá henni komin. Þá bar Stefanía á móti því að rætt hefði verið sérstaklega um það við kaupsamnings­gerðina að veiði­réttur fylgdi Melshorni og andmælti því að hún hefði ábyrgst að slík hlunnindi fylgdu jörðinni. Að sögn Stefaníu hefði Ólafur þó spurt um þetta atriði, en ekki lagt sérstaka áherslu á að veiðiréttur fylgdi með í kaupunum.       

VII.

Stefnendur byggja kröfu sína á því að fyrirliggjandi eignarheimildir og þinglýst gögn leiði til þess að jörðinni Berufirði fylgi veiðiréttur í Berufjarðará. Að sama skapi sýni gögnin að slíkur réttur fylgi ekki nýbýlinu Melshorni. Fyrri stað­hæfingin sé óumdeild. Af kaup­samningi og afsali til Einars Gunnlaugssonar 20. júlí 1961 sé jafn ljóst að Melshorni hafi verið skipt úr jörð Berufjarðar sem sjálfstæðu býli, landamerki hinnar nýju jarðar afmörkuð og kveðið skýrt á um hvaða hlunnindi væru seld með jarðar­­hlutanum. Í þessu sambandi hafi verið getið um beitarréttindi í landi Beru­fjarðar að 1/5 hluta, en ekki minnst á veiðirétt. Slíkan rétt hafi Einar ekki keypt af eigendum Berufjarðar og því geti síðari eigendur Melshorns ekki öðlast meiri réttindi en leiðir af hinu upphaflega eignarafsali. Benda stefnendur á að opinber skráning hjá Fast­eigna­mati ríkisins staðreyni veiðirétt þeirra í ánni og hreki jafnframt full­yrðingar stefndu um sams konar rétt jarðarinnar Mels­horns. Sönnunarbyrði um hið gagn­stæða hvíli á stefndu. Að mati stefnenda breyti hér engu þótt fyrri eigendum jarðarinnar, Einari og síðar eftirlifandi sambýliskonu hans, hafi verið leyfð einhver veiði í ánni, en slíkt hafi verið látið óátalið, enda Einar náskyldur stefnendum. Hinu sama gegni um skiptingu tekna af malarnámi í landi Berufjarðar. Þá breyti samningur við Veiðimálastofnun um seiða­sleppingar í Berufjarðará engu um réttarstöðu í málinu, enda hafi hann ekki verið undir­ritaður af öllum eigendum Beru­fjarðar, Ragnar aðeins verið ábúandi og Einar beðinn að undirrita samninginn til þess að sátt yrði um veiði­tilraun Gunn­laugs föður hans. Gildi samningsins hafi því hvorki verið háð sam­þykki Ragnars né Einars. Loks benda stefnendur á að í kaup­samningi um Melshorn 7. ágúst 2002 hafi hið selda verið nákvæmlega tilgreint, í samræmi við lýsingu í fasteignamati og hvergi minnst á veiði­rétt í Berufjarðará. Hefði þó verið ærin ástæða til, ef stefndu hefðu ætlað að áskilja sér slíkan rétt gagnvart seljanda eða gera hann að forsendu fyrir kaupunum. Vitnis­­burður Stefaníu Rósu Jóhannsdóttur sýni fram á hið gagnstæða, sem og að hún hafi sjálf ekki ætlað að láta veiðirétt fylgja eigninni, enda enginn sá réttur fyrir hendi.  

Þá byggja stefnendur á meginreglu íslensks réttar um að landeiganda sé einum heimil veiði í vatni á landi sínu, sbr. 2. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði og 1. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi nr. 20 frá 1849. Þannig renni Berufjarðará um landar­­eign stefnenda, en ekki um Melshorn. Til að jörð, sem ekki liggi að á, tilheyri engu síður veiði­réttur í sömu á þurfi að kveða á um slíkan rétt með skýrum hætti í eignar­­heimildum. Slíku sé ekki fyrir að fara í því tilviki, sem hér um ræði. Taka hefði þurft fram í eignarafsalinu 1961 ef ætlunin hefði verið að veiðiréttur fylgdi Mels­horni. Slíkt hafi ekki verið gert af þeirri einföldu ástæðu að aldrei hefði staðið til af hálfu samningsaðila að láta veiðirétt fylgja jörðinni. Til samanburðar benda stefnendur á að Hvanna­­­brekka og Lindarbrekka hafi einnig verið seldar undan jörðinni Berufirði án veiði­réttinda, enda liggi hvorugt býlanna að Berufjarðará.

Að öðru leyti vísa stefnendur til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, lax- og silungsveiðilaganna almennt, laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

VIII.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að Berufjörður-Melshorn sé 20% af óskiptu landi jarðarinnar Berufjarðar, svo sem skýrt komi fram í eignarafsalinu 20. júlí 1961, en með kaupsamningi þann dag hafi Einar Gunnlaugsson eignast 4/5 af fjórðungs­hlut­deild Hjálmars Guðmundssonar í óskiptu landinu, þar með talið 20% hlutdeild í veiði­rétti og öðrum hlunnindum, sem fylgja hinu óskipta landi. Stefndu leiði rétt sinn frá Einari og eigi því sömu réttindi og hann samkvæmt kaupsamningi 7. ágúst 2002 við eftirlifandi sambúðarmaka hans, Stefaníu Rósu Jóhannsdóttur. Benda stefndu hér á að sá skilningur samrýmist eignarafsali til stefnanda Óskars 19. ágúst 1979 og orða­­lagi kaup­­samningsins 7. ágúst. Við þá samningsgerð hafi Stefanía upplýst um 20% veiði­rétt í Berufjarðará, rætt um nýtingu fjölskyldu hennar á veiði í ánni og hún greint frá því að Melshorni fylgdu einnig 20% tekna af malarnámi í Berufjarðarlandi. Þá telja stefndu að í lögskiptum við opinbera aðila hafi ávallt verið litið svo á að Mels­horn væri 20% hluti af óskiptu landi Berufjarðar, ekki aðeins varðandi tekjur af malarnámi, heldur einnig í tengslum við samning um seiðasleppingar 1977, skurð­gröft í landinu 1983 og skiptingu kostnaðar vegna hans. Loks benda stefndu á jarða­lýsingu Nönnu Guðmundsdóttur í III. bindi ritverksins „Sveitir og jarðir í Múlaþingi“, sem samrýmist skilningi þeirra og fyrrnefndu eignarafsali til stefnanda Óskars, en því afsali hafi verið þing­lýst líkt og öðrum tilvitnuðum eignarafsölum. Þannig bendi þing­lýstar heimildir ein­­dregið til þess að skilningur stefndu sé réttur. Í ljósi nefndra atriða sé skýr eignar­réttur þeirra að 20% Berufjarðarlandsins, ásamt 20% í hlunnindum vegna veiði í ánni, en sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á stefnendum.

Með hliðsjón af framansögðu byggja stefndu einnig á því að jörðin Berufjörður-Melshorn, ásamt nefndum veiði­rétti og öðrum hlunnindum, sé háð eignarrétti þeirra, sem varinn sé af 72. gr. stjórnar­skrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995 og 1. gr. samnings­við­auka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. 62/1994. Þegar í því ljósi verði stefndu aldrei svipt sömu eign bóta­laust eða nýting hennar takmörkuð án bóta. Er í þessu sam­bandi vísað til dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu í sambærilegum málum.

Loks byggja stefndu á meginreglu 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923, sbr. 94. gr. laga nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði, 4. mgr. 2. gr. samnefndra laga nr. 112/1941 og nr. 53/1957, sbr. nú 4. mgr. 2. gr. sam­nefndra laga nr. 76/1970, en í tilgreindum ákvæðum komi efnislega fram sama megin­­­regla um að óheimilt sé að skilja veiðirétt að nokkru eða öllu við landareign. Ákvæðunum sé ætlað að tryggja að réttur til veiði fylgi öðrum lands­nytjum og að ábúandi jarðar, sem hafi önnur landsnot, njóti einnig veiði­hlunninda. Hafi ætlunin verið sú að skilja veiðirétt frá Melshorni við samnings­gerðina 20. júlí 1961 hefði orðið að taka slíkt skýrt fram í viðkomandi kaupsamningi, en ella fylgi sá réttur með við sölu samkvæmt fyrirmælum laga.

IX.

Ágreiningur málsaðila, sem hér er til úrlausnar, lýtur að því hvort veiði­réttur í Beru­fjarðará hafi fylgt með eignarafsali 20. júlí 1961 þegar Einar Gunn­laugs­son keypti 4/5 hluta af eign Hjálmars Guðmundssonar í jörðinni Beru­firði og úr varð nýbýlið Melshorn (Melshorn-Berufjörður). Er óumdeilt að stefndu leiða rétt sinn af nefndu eignarafsali og að þau geti ekki átt annan og meiri rétt gagnvart stefnendum en sem því nemur. Samnings­aðilar og aðrir, sem skráðu nöfn sín á skjalið, eru látnir. 

Samkvæmt framansögðu ræðst niðurstaða í málinu af túlkun á eignar­afsalinu og skýringu á orðalagi þess, en við hvoru tveggja reynir á reglur eignar­réttar og lög­­skýringu settra laga­reglna um eignarréttindi tengd jarðeignum, sem í gildi voru þegar hin umþrætta afsalsgerð fór fram.

Af gögnum málsins verður ráðið að Berufjörður hafi verið lög­býli í óskiptri sameign Finns, Nönnu, Gunnlaugs og Hjálmars Guðmundar­barna eftir að jörðinni var skipt og stofnað til tveggja sjálfstæðra nýbýla úr landi hennar, þ.e. Hvanna­brekku og Lindar­brekku. Með kaupsamningi 20. júlí 1961 seldi Hjálmar 4/5 hluta af eign sinni í jörðinni, en hann átti þá 1/4 hluta af óskiptu landi hennar. Í samningnum voru mörk hins selda lands tilgreind og er merkjalýsing óumdeild. Samkvæmt henni keypti Einar Gunnlaugsson um 25 hektara ræktanlegs lands, sem náði hvergi að Beru­fjarðar­á. Í kjölfar lýsingar á hinu selda segir í samningnum: „Beitarréttur kaupanda fer eftir stærðar­­hlut hans í jörðinni hlut­falls­lega.“ Við samningsgerðina undir­rituðu Finnur, Nanna og Gunn­laugur, sem sam­eigendur að jörðinni Berufirði, yfir­lýsingu um að þau samþykktu söluna og stað­­­festu jafnframt fyrir sitt leyti að hið selda land ásamt með­fylgjandi beitarréttindum væru 4/5 hlutar af eign Hjálmars í jörðinni. Í framhaldi undir­­ritaði Hjálmar yfirlýsingu þess efnis að Einar væri réttur og löglegur eigandi hins selda, enda hefði hann staðið Hjálmari full skil á kaupverði jarðar­hlutans og beitar­réttinda. Eins og áður segir hlaut nýbýli Einars nafnið Mels­horn, en þar stundaði hann sauðfjárbúskap til dánardægurs.

Á þessum tíma voru í gildi lög nr. 53/1957 um lax- og silungsveiði. Í 1. mgr. 2. gr. laganna var kveðið á um að landeiganda væri einum heimil veiði á landi sínu, enda væri ekki á annan veg mælt í lögunum. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. mátti ekki skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma. Frá þeirri meginreglu voru gerðar þrjár undantekningar, sem hér skipta ekki máli. Í 4. gr. laganna var kveðið á um réttarstöðu þegar fleiri áttu land saman. Ef landareign eða veiðiréttur var í óskiptri sameign, þá skyldi sameigendum öllum veiði jafn heimil, sbr. 1. mgr. Ef landareign var í sameign, en skipt eftir merkjum, afnota­skiptum eða eignar, þá skyldi hver sameigandi eiga veiði fyrir sínu landi, nema önnur lögmæt skipan hafi verið á gerð, sbr. 2. mgr.

Tilvitnuð lagaákvæði leystu af hólmi eldri ákvæði, sem voru að meginstofni til sama efnis, sbr. samnefnd lög nr. 112/1941 og þar áður lög nr. 61/1932. Við gildis­töku síðastnefndra laga voru felld brott sambærileg ákvæði í XIII. kafla vatna­laga nr. 15/1923, en með þeim lögum voru í fyrsta skipti settar skorður við því að veiðiréttur væri skilinn við landareign. Í 2. gr. laganna, sem enn er í gildi, segir að hverri landar­eign skuli fylgja réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðu­vatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lögin heimila, en í 1. gr. er hugtakið landar­­eign utan þétt­býlis skilgreint sem „land lögbýlis“. Í máli þessu leikur enginn vafi á því að jarðirnar Berufjörður og Melshorn voru báðar lögbýli í skilningi laganna, sbr. og 1. gr. ábúðarlaga nr. 36/1961.

Fyrir setningu vatnalaga gilti sú forna meginregla í íslenskum rétti að land­eigandi skyldi einn eiga vatn og veiði fyrir sínu landi, sbr. 56. kapítuli landsleigubálks Jóns­bókar frá 1281. Er sú regla óbreytt í dag, enda leiði aðra skipan ekki af lögum eða samningsskuldbindingum, sem löglega hefur verið til stofnað. Samkvæmt sömu reglu fer því saman eignarhald á landi og veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi.

Í máli þessu liggur fyrir að jörðin Melshorn var seld með ákveðnum landa­merkjum, sem hvergi lágu að Berufjarðará. Við kaupsamningsgerðina 1961 var sérstaklega tilgreint að beitarréttindi skyldu fylgja hinu selda landi, sem ákveðið hlut­fall af eign seljanda í landi Berufjarðar, enda hóf kaupandinn sauð­fjár­búskap á hinu nýja býli og byggði rekstrargrundvöll sinn á honum. Hvergi var getið um veiðirétt, enda átti nýbýlið ekki land að vatni Berufjarðar. Ef bregða hefði átt frá þeirri megin­reglu að veiði­réttur fylgdi landi jarðeiganda fyrir sínu landi í samræmi við 1. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 4. gr. þágildandi lax- og silungsveiði hefði kaupanda jarðarinnar, Einari Gunn­laugssyni, borið að gæta þess sérstaklega við samningsgerðina.    

Samkvæmt lax- og silungs­veiðilögum er lagt bann við því að veiði­réttur sé skilinn frá jörð, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 53/1957, sbr. nú samnefnd lög nr. 76/1970. Ákvæðin ber að skýra í samræmi við það markmið laganna að tryggja að veiðiréttur jarðar, sem liggur að árbakka og hefur nytjar af veiði, verði ekki undan­skilinn sömu jörð. Tilgangur laganna er þannig fyrst og fremst að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrar­grund­völl þeirra jarða, sem byggja afkomu sína, að öllu leyti eða hluta, á veiðinytjum. Lögin girða því fyrir að jarðeigandi, sem á land að vatni, geti skilið veiði­réttinn frá því til frambúðar. Í þessu máli hefur veiðiréttur ekki verið skilinn frá jörð, heldur samið svo um að hann fylgi ekki tilteknum jarðarhluta, sem seldur var úr jörðinni til sauðfjár­búskapar. Til frekari skýringar má taka einfalt dæmi um eiganda laxveiðiár, sem selur Vegagerðinni hluta úr jörð sinni, sem hvergi liggur að ánni, til vegaframkvæmda. Því verður fráleitt haldið fram að veiðiréttur hafi þá verið skilinn frá jörðinni eða að Vega­gerðinni beri hlutdeild í laxveiðiréttindum landeigandans.

Óháð því hvort jörðin Melshorn teljist enn hluti af landi Berufjarðar styðja þing­lýsingar- og fasteignamatsvottorð enn frekar þá niðurstöðu að veiðiréttur fylgi ekki jörðinni. Að þessu virtu og með vísan til annars, sem að framan er rakið, er ósannað að slíkur réttur hafi fylgt eða átt að fylgja með við kaupsamningsgerðina 1961 og bera stefndu halla af því. Ber því að fallast á viðurkenningarkröfu stefnenda í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum máls­kostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.

Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum er ljóst að stefnendur hafa með rekstri málsins fengið framgengt dómkröfu sinni og var málshöfðun nauðsynleg í ljósi afstöðu stefndu. Ber því að dæma stefnendum málskostnað. Af hálfu aðila hafa verið lögð fram málskostnaðaryfirlit, sem eru sambærileg að fjárhæð og eiga að sýna skað­leysi aðila af málarekstrinum. Eðli máls samkvæmt hefur fjárhæð málskostnaðar því ekki verið mótmælt. Að þessu virtu og í ljósi framangreindrar niðurstöðu þykir eigi annað fært en að bæta stefnendum það fjártjón, sem málssóknin hefur valdið þeim og dæma þeim óskipt úr hendi stefndu 1.000.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af lög­manns­þóknun.

Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara, sem var falin meðferð málsins 29. mars 2006, en fyrir þann tíma hafði hann engin afskipti af rekstri þess.

DÓMSORÐ:

Jörðinni Berufirði-Melshorni-159096 fylgir ekki veiðiréttur í Berufjarðará.

Stefndu, Ólafur Áki Ragnarsson og Álfheiður Freyja Friðbjarnar­dóttir, greiði stefnendum, Óskari Gunnlaugssyni, Braga Gunnlaugssyni, Ingunni Gunnlaugsdóttur, Guð­ríði Gunnlaugsdóttur, Guðlaugu Gunnlaugsdóttur, Baldri Gunnlaugssyni, Hauki Gunn­­­laugssyni, Vilborgu Gunnlaugsdóttur, Birni Gunnlaugssyni og Bóka- og minja­safni Nönnu Guðmundsdóttur, óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað.