Hæstiréttur íslands

Mál nr. 258/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2000.

Nr. 258/2000.

Jakob A. Traustason

(sjálfur)

gegn

Jónatan Sveinssyni

(sjálfur)

                                              

Kærumál. Fjárnám. Kæruheimil. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærumáli um fjárnám var vísað frá Hæstarétti þar sem ekki var fullnægt skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 15. nóvember 1999 fyrir kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaðar.

Sýslumaður gerði áðurnefnt fjárnám hjá sóknaraðila fyrir kröfu varnaraðila að höfuðstól 50.000 krónur. Er því ekki fullnægt skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994, en því verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. fyrrnefndu laganna og 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989, svo sem slegið var föstu meðal annars í dómi Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1101. Verður málinu samkvæmt þessu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Jakob A. Traustason, greiði varnaraðila, Jónatan Sveinssyni, 30.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2000.

Sóknaraðili málsins er Jakob A. Traustason, kt. 180846-2049, Barónsstíg 3, Reykjavík, en varnaraðili er Jónatan Sveinsson, kt. 180234-7569, Deildarási 16, Reykjavík.

Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 7. janúar sl. með bréfi sóknaraðila, sem dagsett er sama dag.  Sóknaraðili er ólöglærður og því var ákveðið að hans beiðni, að málið yrði sótt og varið skriflega. Sóknaraðili skilaði sókn 12. maí sl. en varnaraðili skilaði vörn sinni 22. maí sl. og var málið tekið til úrskurðar í sama þinghaldi.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að ógilt verði aðfarargerð, fjárnám nr. 011-1999-11485, að fjárhæð kr. 58.286, sem gerð var að kröfu varnaraðila þann 15. nóvember 1999 í eignarhluta sóknaraðila í Barónsstíg 3, Reykjavík.

Verði aðfarargerðin hins vegar staðfest er þess krafist af hálfu sóknaraðila að kveðið verði á um það í úrskurði, að málskot á úrskurðinum fresti frekari fullnustu­gerð á grundvelli fjárnámsins.

Þá krefst sóknaraðili ríflegs málskostnaðar, auk álags og annars kostnaðar úr hendi varnaraðila, að mati dómsins og vísar í því sambandi til 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

Dómkröfur varnaraðila eru aðallega þær, að málinu verði vísað frá dómi, en verði ekki á það fallist, þá verði hrundið þeirri kröfu sóknaraðila, sem að því snýr, að málskot á úrskurðinum fresti frekari fullnustugerð á grundvelli fjárnámsins.

Einnig gerir varnaraðili þá dómkröfu, verði ekki fallist á frávísunarkröfu hans, að kröfum sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðar nr. 011-1999-11485 verði hafnað og fjárnámið standi áfram óhaggað.

Varnaraðili gerir og kröfu til málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

Varnaraðili krafðist þess ennfremur í þinghaldi í málinu 18. apríl sl. að fyrst yrði fjallað um frávísunarkröfu hans, áður en kæmi að umfjöllum um efnishlið málsins.  Sóknaraðili mótmælti þessari tilhögun og því ákvað dómari með úrskurði dagsettum 18. apríl sl. að málið skyldi samtímis flutt og varið um form og efni.

 

Málavextir, málsástæður og lagarök:

 

Málavextir eru í meginatriðum þeir, að sóknaraðili höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Almennu málflutningsstofunni sf. og eigendum hennar, þeim Hróbjarti Jónatanssyni hrl., Reyni Karlssyni hrl. og varnaraðila, með stefnu dags. 24. júní 1998. Málið var þingfest 30. sama mánaðar og hlaut mála­númerið E-3322/1998. Það fjallaði um meðferð stefnda Hróbjarts á innheimtu krafna, sem tryggðar voru með 10. veðrétti í húseigninni Kleppsvegi 86 í Reykjavík, samkvæmt tryggingarbréfi, en sóknaraðili hafði falið Hróbjarti að annast innheimtu krafnanna á árinu 1990. Við nauðungasölu hinnar veðsettu eignar rann ekkert af uppboðsandvirðinu til greiðslu á kröfum sóknaraðila. Sóknaraðili byggði málsókn sína á því, að fyrir mistök stefnda Hróbjarts hefðu kröfurnar tapast og krafðist skaða­bóta í fjölmörgum kröfuliðum úr hans hendi og sameigenda hans að Almennu málflutningsstofunni sf.  Málinu var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar og óljósrar kröfugerðar með úrskurði uppkveðnum 16. júní 1999. Sóknaraðila var gert að greiða stefndu málskostnað að fjárhæð 50.000 krónur. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem felldi dóm í málinu 24. ágúst s.á. Dómsorð Hæstaréttar er svohljóðandi. ,,Hinn kærði úrskurðar er staðfestur um annað en málskostnað. Sóknaraðili, Jakob A. Traustason, greiði varnaraðilum, Almennu málflutningsstofunni sf., Hróbjarti Jónatanssyni, Jónatan Sveinssyni og Reyni Karlssyni, hverjum fyrir sig samtals 50.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.”

Sóknaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði með símskeyti dags. 8. september 1999, sem stílað er til Almennu málflutningsstofunnar b.t. Hróbjarts Jónatanssonar. Símskeytið er svohljóðandi: ,,Skuldajafnaðaryfirlýsing: til skuldajafnaðar á dómkröfu vegna málskostnaðar fyrir héraði og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti, sem undirritaður var dæmdur til greiðslu á, með dómi Hæstaréttar, þann 24. ágúst 1999, í kærumáli nr. 282/1999. Um kröfuaðild er vísað til viðkomandi dóms. Undirritaður skuldajafnar, til greiðslu á ofangreindri kröfu, kr. 200.000, tvö hundruð þúsund krónum af skaðabótakröfu sem hann hefur krafið sömu aðila, og voru varnaraðilar í ofangreindu kærumáli, um greiðslu á, vegna vanefnda á innheimtu skuldabréfs, útgefnu þann 10.06 1990 af ESS hf., með sjálfskuldarábyrgð Egils Eyfjörð kt. 260452-4879, Jörundar Pálssonar kt. 201213-4118 og Ásgeirs Svans Vagnssonar kt. 160755-4829 upphaflega að fjárhæð kr. 1.140.000. Um lýsingu gagnkröfunnar sem undirritaður skuldajafnar, að hluta, er vísað til málsskjala sem lögð voru fram í héraðsdómsmálinu nr. E-3322/1998, sem rekið var milli sömu aðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Um aðild er vísað til sama Hæstaréttardóms og að ofan greinir.”

Varnaraðili krafðist fjárnáms hjá sóknaraðila með aðfararbeiðni dags. 18 október 1999 fyrir tildæmdum málskostnaði, dráttarvöxtum og þóknun fyrir fjárnámsbeiðni o.fl. samtals 58.286 krónum. Fjárnámið fór fram 15. nóvember 1999 að viðstöddum sóknaraðila. Þar er eftirfarandi fært til bókar af Feldísi Lilju Óskarsdóttur, fulltrúa Sýslumannsins í Reykjavík: ,,Gerðarþola er leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu gerðarbeiðanda en verður ekki við áskorun um að greiða hana. Gerðarþoli mótmælir framgangi gerðarinnar, þar sem hann kveðst hafa skuldajafnað á móti kröfunni og telur sig þar með hafa greitt kröfuna að fullu. Gerðarþoli leggur fram símskeyti, dags. 8. september 1999.  Með vísan til 40. gr. aðfl. nr. 90/1989 hafnar fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda kröfu gerðarþola um skulda­jöfnuð.  Fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda krefst þess að fjárnám verði gert til tryggingar kröfunni. Að ábendingu gerðarþola, sem gerðarbeiðandi gerir ekki athugasemdir við, er hér með gert fjárnám fyrir kröfum gerðarbeiðanda í:  eignarhluta gerðarþola í fasteigninni Barónsstígur 3, 0201, Reykjavík.  Mættum er kynnt efni þessarar bókunar. Gerðaþoli kveðst munu skjóta gerðinni til Héraðsdóms og gera kröfu um að hún verði felld úr gildi. Gerðinni er þannig lokið.”   

Varnaraðili hélt innheimtuaðgerðum sínum áfram á hendur sóknaraðila og krafðist nauðungarsölu á hinum fjárnumda eignarhluta sóknaraðila í húseigninni Barónsstíg 3 með uppboðsbeiðni, dags. 22. nóvember s.á. Sóknaraðili mótmælti uppboðinu með bréfi til Almennu málflutningsstofunnar sf., dags. 20. desember s.á. og vísaði til þess, að umkrafin skuld væri þegar greidd með skuldajöfnuði, sbr. áðurnefnt símskeyti dags. 8. september s.á.

Sóknaraðili vísaði málinu síðan til þessa dóms með bréfi dagsettu 7. janúar sl. eins og áður er getið.

Sóknaraðili skilaði greinargerð í málinu hinn 24. mars sl. Einnig lagði sóknaraðili fram 47 önnur dómskjöl nr. 11-57, til sönnunar því að hann ætti kröfu á hendur varnaraðila. Flest þessara skjala tengjast máli því, sem sóknaraðili hafði áður höfðað á hendur Almennu málflutningsstofunni sf. og eigendum hennar og vísað hafði verið frá héraðsdómi, eins og áður segir.  Eitt þessara skjala, dskj. nr. 11,  er stefna dagsett 14. febrúar 2000, þar sem sóknaraðili stefnir varnaraðila og sameigendum hans að Almennu málflutningsstofunni sf. til greiðslu skaðabóta vegna áðurnefndra meintra mistaka Hróbjarts Jónatanssonar hrl. við innheimtu á kröfum þeim sem sóknaraðili fól honum að annast á árinu 1990. Málið var þingfest hér í dómi 22. febrúar sl. og er hér til meðferðar.

 

 

Málástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili mótmælir frávísunarkröfu varnaraðila og byggir mótmæli sín m.a. á því, að varnaraðili hafi krafist nauðungarsölu á fasteign hans hinn 22. nóvember sl. á grundvelli fjárnámsins frá 15. sama mánaðar, þrátt fyrir yfirlýsta skuldajöfnun. Það geti ekki talist eðlilegt né siðlegt, að varnaraðili fái því framgengt að láta selja heimili sóknaraðila við nauðungarsölu til greiðslu á skuldakröfu, meðan ekki hafi verið tekin afstaða til fjárkrafna hans á hendur varnaraðila, sem hafi lagt allt kapp á að koma í veg fyrir það, að efnisdómur verði lagður á kröfur hans. Sóknaraðili hafi ekki vísað máli þessu til héraðsdóms, fyrr en varnaraðili krafðist nauðungasölu á heimili hans og sé því ekki við sóknaraðila að sakast um þennan málarekstur.

Í efnisþætti málsins byggir sóknaraðili á því, að hann eigi skaðabótakröfu á hendur varnaraðila í samlagi við þrjá aðra aðila vegna hagsmunagæslu, sem þeir hafi tekið að sér að annast fyrir hann á grundvelli tryggingarbréfs með veði í fasteigninni Kleppsvegi 86, útgefnu 15. nóvember 1990. Hann hafi með skuldajöfnunar­yfirlýsingunni frá 8. september 1999 fullgreitt kröfu þá, sem fjárnámsgerðin frá 15. nóvember sl. byggi á. Skuldajafnað hafi verið af þeim hluta bótakröfunnar, sem eigi rætur að rekja til skuldabréfs að fjárhæð kr. 1.140.000, útgefnu af ESS hf. til handhafa 10. júní 1990. Sóknaraðili vísar til útlistunar í stefnu og málskjala í héraðsdómsmáli, sem þingfest hafi verið 22. febrúar sl. á hendur varnaraðila og sameigendum hans að Almennu málflutningsstofunni sf., en sömu dómskjöl liggi fyrir í þessu máli.

Sóknaraðili byggir á því, að varnaraðili hafi hvorki greitt þá bótakröfur, sem hann eigi á hendur honum né heldur leitt að því líkur, að honum sé það óskylt.  Það sem hér skipti höfuðmáli sé sú staðreynd, að hann eigi sannanlega bótakröfu á hendur varnaraðila, sem honum hafi verið heimilt að nota til skuldajöfnunar á þeirri kröfu, sem hin kærða fjárnámsgerð byggist á. Hann bendir á, að óumdeilt sé, að hlutaðeigandi veðkröfur, sem skaðabótakrafan hans byggist á, höfðu góða veðstöðu í fast­eign á grundvelli trygginarbréfs með beinni uppboðsheimild án dóms eða aðfarar. Hann hafi ekki fengið þessar kröfur greiddar, þrátt fyrir að hafa fengið varnaraðila, lögmenn og lögmannsskrifstofur til að gæta hagsmuna sinna.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því, að mál um réttmæti þeirrar gagnkröfu, sem sóknaraðili hafi notað til skuldajöfnunar, sé til meðferðar hér fyrir dómi, sbr. framlögð dskj. nr. 11-57. Því verði ekki tekin afstaða til skuldajöfnunar­kröfu sóknaraðila í þessu máli. Varnaraðili vísar í þessu sambandi til meginreglu 116. gr. eml. og eðli máls, þar sem ósamrýmanlegt sé að reka samtímis tvö mál vegna sama sakarefnis fyrir sama dómi. Varnaraðili tekur fram í tilefni af þeim ummælum sóknaraðila, að óeðlileg hljóti að teljast að selja heimili sóknaraðila, meðan verið sé að skera úr um réttmæti skuldajöfnunarkröfunnar, að sóknaraðili verði að hlíta því, að eignir hans verði seldar, greiði hann ekki dæmdar kröfur, hafi hann ekki lögvarinn rétt til skuldajöfnunar eða ekki sé unnt að taka afstöðu til þeirrar kröfu af framangreindum ástæðum. Við mat á þessu verði einnig að taka tillit til þess, að ekki sé um háa fjárhæð að ræða, sem krafist hafi verið fjárnáms fyrir, og ennfremur, að sóknaraðili missi engan rétt við greiðslu dómskuldarinnar, eigi hann á annað borð kröfu á hendur varnaraðila.

Þá mótmælir varnaraðili kröfu sóknaraðila um frestun áhrifa umræddrar aðfarargerðar við málskot til Hæstaréttar, falli úrskurður sóknaraðila í óhag.  Þessi krafa hafi ekki komið fram í kæru til héraðsdóms, sbr. dskj. nr. 1, eins og gera verði kröfu til, sbr. 3. tl. 1. mgr. 93. gr. aðfl., heldur hafi hennar fyrst verið getið í greinargerð sóknaraðila. Kröfunni beri því að vísa frá.

Í efnisþætti málsins byggir varnaraðili á 40. gr. aðfl.  Þar sé mælt fyrir um heimild gerðarþola til að neyta skuldjafnaðarréttar við kröfu gerðarbeiðanda. Þau skilyrði verði að vera fyrir hendi, að gagnkrafan sé aðfararhæf, eða viðurkennd af gerðarbeiðanda, enda sé almennum skilyrðum skuldajafnaðar fullnægt.

Verði litið svo á, að tilvitnuð lagagrein eigi ekki við tilvik það, sem hér sé til úrlausnar fyrir það, að sóknaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði áður en til aðfarar kom, byggir varnaraðili á því, að skuldajöfnuður sé og hafi verið óheimill, þar sem almennum skilyrðum skuldajafnaðar hafi ekki verið fullnægt.

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili eigi skaðabótakröfu á hendur honum, eins og fram komi í kæru og greinargerð sóknaraðila. Ennfremur mótmælir varnaraðili því sem röngu og ósönnuðu, að hann hafi vanefnt skyldur sínar við hagsmunagæslu og innheimtur á grundvelli áðurnefnds tryggingarbréfs.  Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila, að hann hafi ekki mótmælt eða hafnað skuldajöfnuði sóknaraðila.  Þetta hafi bæði verið gert í samtölum við hann og eins í verki með því að leggja fram aðfararbeiðni þá, sem liggi frammi í málinu.

Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti, að hann eigi þá kröfu, sem hann hafi notað til skuldajöfnunar, en hann hafi sönnunarbyrðina fyrir því.

Með vísan til framangreindra málsástæðna beri að fallast á kröfu varnaraðila um að fjárnámið standi óhaggað.

 

Forsendur og niðurstaða:

Varnaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá dómi og byggir kröfu sína á því, að samtímis máli þessu sé annað mál rekið fyrir þessum dómi um skaðabótakröfu sóknaraðila. Slík málfærsla fari í bága við meginreglu 116. gr. eml. og réttarfarslega meginreglu.

Fallist er á það með varnaraðila að rétt sé að skilja að efnislega úrlausn á skaða­bótakröfu sóknaraðila og ákvörðun þess, hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að beita skuldajöfnuði til greiðslu umkrafinnar dómkröfu.

Mál þetta varðar aðeins það álitaefni, hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að beita skuldajöfnuði og komast þannig hjá þeirri aðför, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík lét framkvæma hinn 15. nóvember 1999 að frumkvæði varnaraðila.

Að framan er því lýst, hvers efnis krafa sóknaraðila er. Um er að ræða umþrætta skaðabótakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem bæði héraðsdómur og Hæstiréttur vísuðu frá vegna vanreifunar og óljósrar kröfugerðar. Því hefur ekki verið tekin efnisleg afstaða til skaðabótakröfu sóknaraðila, né heldur hefur varnaraðili fallist á réttmæti hennar.  Á hinn bóginn byggist krafa varnaraðila á dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/1999.

Vera kann að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila. Sú krafa er að mati réttarins ekki hæf til skuldajöfnunar á móti kröfu varnaraðila, hvorki þegar sóknaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði hinn 8. september 1999 né þegar fjárnámið var gert hinn 15. nóvember s.á.  Varnaraðili lýsti afstöðu sinni til skuldajöfnunarkröfu sóknaraðila með því að krefjast fjárnáms fyrir kröfu sinni og mótmælti henni við framkvæmd fjár­námsins.

Gagnályktun frá 40. gr. aðfl. leiðir til þeirrar niðurstöðu, að gerðarbeiðandi geti hafnað skuldajöfnuði við aðför, sé gagnkrafan ekki aðfararhæf. Því var varnaraðila heimilt að lögum að hafna skuldajöfnuði sóknaraðila, enda krafa hans umþrætt.  Í þessu sambandi ber einnig að líta til 2. tl. 28. gr. eml. Í tilvitnuði lagaákvæði er það skilyrði sett, að gagnkrafa til skuldajöfnunar verði að vera samkynja aðalkröfu eða þær eigi báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.

Engu þessara skilyrða er fullnægt að því er varðar skaðabótakröfu þá, sem sóknaraðili hugðist nýta til skuldajöfnunar við tildæmda málskostnaðarkröfu varnaraðila.

Með vísan til framanritaðs er hafnað kröfu sóknaraðila um að ógilt verði aðfarargerð, fjárnám nr. 011-1999-11485, að fjárhæð kr. 58.286, sem gerð var að kröfu varnaraðila þann 15. nóvember 1999 í eignarhluta sóknaraðila í Barónsstíg 3, Reykjavík. Fjárnámið skal standa óhaggað.

Ekki þykja heldur efni til að fallast á þá kröfu sóknaraðila, að málskot úrskurðar þessa til Hæstaréttar fresti fullnustugerð á grundvelli fjárnámsins frá 15. nóvember 1999.

Rétt þykir með vísan til 130. gr. eml. að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem ákveðst 40.000 krónur.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Jakobs A. Traustasonar um að ógilt verði aðfarargerð, fjárnám nr. 011-1999-11485, að fjárhæð kr. 58.286, sem gerð var að kröfu varnaraðila þann 15. nóvember 1999 í eignarhluta sóknaraðila í Barónsstíg 3, Reykjavík.

Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, að málskot úrskurðar þessa til Hæstaréttar fresti fullnustugerð á grundvelli fjárnámsins frá 15. nóvember 1999.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Jónatan Sveinssyni, 40.000 krónur í málskostnað.