Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2004
Lykilorð
- Skipasala
- Skaðabótamál
- Kaupsamningur
- Veðsetning
- Aflahlutdeild
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 2004. |
|
Nr. 66/2004. |
Sólbakki ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Jóni Ólafi Þórðarsyni og Bátum og búnaði ehf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Skipasala. Skaðabótamál. Kaupsamningur. Veðsetning. Aflahlutdeild.
S ehf. krafði J og B ehf. um skaðabætur á þeim grundvelli að ráðgjöf þeirra við sölu á skipi í eigu S ehf. hefði reynst röng og haldlaus og valdið félaginu tjóni. Í ljósi reynslu fyrirsvarsmanns S ehf. var talið að ekki hefði getað farið fram hjá honum að til þess gæti komið að aflahlutdeild sem fylgdi skipinu yrði seld með því, kæmi til nauðungarsölu eins og raun varð á. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að J og B ehf. hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt ákvæðum laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu. Voru J og B ehf. því sýknaðir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. febrúar 2004. Hann krefst skaðabóta in solidum af stefndu að fjárhæð 6.602.865 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.316.900 krónum frá 26. október 2001 til 22. nóvember sama ár, af 6.096.900 krónum frá þeim degi til 16. apríl 2002, en af 6.602.865 krónum frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaðar héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og greiðslu málskostnaðar, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu. Félagið gerir ekki sjálfstæðar kröfur.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sólbakki ehf., greiði stefndu, Jóni Ólafi Þórðarsyni og Bátum og búnaði ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2003.
Mál þetta sem dómtekið var 11. nóvember sl. er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu af lögmanni stefndu og réttargæslustefnda og þingfestri 23. janúar 2003.
Stefnandi er Sólbakki ehf., Brekkustíg 39, Njarðvík.
Stefndu eru Jón Ólafur Þórðarson, hdl., Tryggvagötu 4, Reykjavík og Skipasalan Bátar og Búnaður Barónsstíg 5, Reykjavík.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu, Jón Ólafur Þórðarson, hdl. og Bátar og Búnaður ehf verði dæmdir in solidum til greiðslu 6.602.865 króna með dráttarvöxtum af 5.316.900 krónum frá 26. október 2001 til 22. janúar s.á., af 6.096.900 krónum frá þeim degi til 16. apríl 2002, en af 6.602.865 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Dráttarvaxta er krafist skv. III. kafla laga nr. 38/2001.
Þá er krafist málskostnaðar.
Ekki eru hafðar uppi kröfur á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum h.f.
Stefndu krefjast þess, aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.
Til vara krefjast stefndu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Réttargæslustefndi gerir engar kröfur.
MÁLSATVIK
Stefndi Skipasalan Bátar og búnaður er félag sem annast sölu skipa. Örn Erlingsson fyrirsvarsmaður stefnanda leitaði til stefnda Skipasölunnar Báta og Búnaðs haustið 1999 þar sem hanni vildi selja fiskiskipið MB Haförn KE-15, skipaskrárnúmer 1438.
Báturinn var boðinn til sölu með heimild til fiskveiða en án aflahlutdeildar. Áhvílandi á bátnum voru tvær veðskuldir á fyrsta veðrétti við Fjárfestingabanka atvinnulífsins (nú Íslandsbanka) samtals að fjárhæð 2.990.062 krónur og á öðrum veðrétti veðskuld við Sparisjóð Keflavíkur að fjárhæð 1.505.301 krónu.
Fiskir ehf. lýsti áhuga á að kaupa bátinn. Fékk seljandi samþykki kröfuhafa skuldar áhvílandi á öðrum veðrétti fyrir skuldskeytingu. Hins vegar var kröfuhafi skulda á fyrsta veðrétti ekki tilbúinn til að samþykkja skuldskeytingu án þess að aflaheimild væri á bátnum. Var því aflaheimild flutt á bátinn til að fá skuldskeytingu lánanna samþykkta og var gengið frá kaupsamningi og afsali í samræmi við það. Því er haldið fram af hálfu stefndu að þetta hafi verið gert að fyrirmælum Arnar Erlingssonar, stjórnarformanns stefnanda.
Þann 16. september 1999 var gerður kaupsamningur og gefið út afsal fyrir bátnum. Kaupandi var Fiskir ehf. i kaupsamningi kemur m.a. fram:
"Báturinn selst án aflahlutdeildar, en með heimild til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Allar aflaheimildir, sem úthlutað kann að verða á bátinn, hvort heldur, sem er tegundum sem nú eru innan eða utan kvóta og byggðar verða á aflareynslu bátsins til afhendingardags, verða eign sejanda og á sama hátt eign kaupanda þær aflaheimildir, sem úthlutað kann að verða á bátinn á grundvelli veiða eftir afhendingardag.
Seljandi flytur á bátinn aflahlutdeild sem nemur IS þorskígildistonnum (0,4658385 aflahlutdeild í sandkola) að kröfu l. veðréttarhafa (FBA), sem verður áfram eign seljanda og verður flutt af bátnum þá þegar skilyrði skapast til þess. Kaupandi hefur forleigurétt að aflamarki skv. greindri aflahlutdeild á markaðsverði, sem ella verði seld á kvótaþingi. "
Skilyrði fyrir flutningi aflaheimildarinnar af bátnum sköpuðust ekki og var báturinn seldur nauðungarsöu ásamt aflahlutdeildinni þann 21. mars 2001.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi gerir kröfur á þeim grundvelli að ráðgjöf stefndu, sem í atvinnuskyni selji sérfræðiþjónustu við sölu á skipinu, hafi reynst röng og haldlaus og hafi valdið stefnanda fjártjóni, þ.e. varanleg aflahlutdeild hans sem hann léði á skipið hafi tapast. Skv. meginreglum íslensks skaðabótaréttar beri stefndi fébótaábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valdi í störfum sínum af ásetningi eða gáleysi, sbr. ákv. l. nr. 54/1997 um fasteignasölu o.fl. svo og reglugerðar nr. 613/1997 um tryggingar, fasteignasölu o.fl.
Skaðabótakrafa stefnanda er að hann verði skaðlaus af viðskiptunum og sundurliðast til verðmætis í aflahlutdeild á söludegi sem nemi 5.316.900 krónum og þess kostnaðar er hann hafi verið dæmdur til að greiða alls 780.000 krónur auk lögmannsþóknunar 505.965 krónur er greidd hafi verið til að verja réttindi stefnanda eða samtals 6.602.865 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar.
Stefndi, Jón Ólafur Þórðarson, hdl., hafi starfsábyrgðatryggingu hjá réttargæslustefnda.
Vísað er til meginreglna íslensks skaðabótaréttar og ákv. laga nr. 54/1997 um fasteigna- fyrirtækja- og skipasölu og reglugerðar nr. 613/1997 um tryggingar faseigna, fyrirtækja og skipasala.. Um réttarfar og málskostnað er vísað til einkamálalaga nr. 19/1991. Krafan um dráttarvexti styðst við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að fullnægandi ráðgjöf hafi verið veitt við sölu á bátnum. Hafi sú ráðgjöf verið fagleg og í alla staði rétt. Meint tjón stefnanda verði því ekki rakið til sakar stefndu.
Stefndu mótmæla því alfarið að stefnanda hafi verið ráðlagt að að flytja aflahlutdeild á skipið. Þvert á móti hafi stefnandi átt allt frumkvæði að flutningnum. Stefndu mótmæla jafnframt sem alröngu að stefnandi hafi verið fullvissaður um að með þessum hætti væri eignarheimild félagsins að aflaheimildinni fullkomnlega tryggð.
Stefndu byggja á þvi að Örn Erlingsson, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri stefnanda, hafi sjálfur ákveðið að færa umrædda aflahlutdeild á skipið og gangast þannig í ábyrgð fyrir þeim skuldum sem á skipinu hvíldu en það hafi hann gert til að greiða fyrir skuldskeytingu lána. Hafi hann gert það án nokkurrar hvatningar eða atbeina stefndu. Stefnanda hafi allan tímann verið fullkunnugt um að með færslu aflahlutdeildarinnar á skipið væri hann að gangast í ábyrgð fyrir greiðslu lána sem á skipinu hvíldu með aflahlutdeildinni sem hann kaus að setja á skipið. Fyrirsvarsmanni stefnanda, Erni Erlingssyni, hafi hlotið að vera ljóst hvað fælist í þeirri ábyrgð og yfirfærslu aflaheimilda enda sé hann með víðtæka reynslu á sviði útgerðar fiskiskipa. Auk þess hefði stefnandi hæglega getað greitt upp lánin á fyrsta veðrétti og flutt aflaheimildina af skipinu. Vanræksla hans á því hafi leitt til þess að hann varð fyrir meintu tjóni.
Stefndu byggja ennfremur á að ráðgjöf stefndu hafi verið í fullu samræmi við fyrirmæli laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.
Af ofangreindu telja stefndu vera fullljóst að stefndu hafi á engan hátt átt sök á meintu tjóni stefiianda. Orsök tjóns stefnanda hafi verið sú ákvörðun framkvæmdastjóra og stjórnarformanns stefnanda að láta félagið með þessum hætti gangast í ábyrgð fyrir þeim lánum sem á bátnum hvíldu. Vísa stefndu til réttarreglna um réttaráhrif eigin sakar og vanrækslu tjónþola á að takmarka tjón sitt.
Verði ekki á aðalkröfu stefndu fallist er varakrafa um lækkun bóta á því byggð að umfang tjóns stefnanda sé með öllu ósannað.
Stefndu byggja á því að rangt sé að miða við verðmæti aflahlutdeildar á kaupsamningsdegi. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni, hafi það í fyrsta lagi orðið við nauðungarsöluna. Raunhæfara sé því að miða við verðmæti aflahlutdeildar á nauðungarsöludegi. Að öðrum kosti væri stefnandi að hagnast á meintum tjónsatburði. Stefnandi sem ber sönnunarbyrðina um umfang tjóns síns og orsök þessu hefur ekki lagt fram fullnægjandi gögn yfir verðmæti aflahlutdeildar. Umfang tjóns hans er því ósannað.
Stefndu byggja enn fremur á því að stefnandi hafi ekki reynt að takmarka tjón sitt eins og fyrr segir heldur þvert á móti lagt út í aðgerðir sem gerðu tjón hans meira. Stefndu bera á engan hátt ábyrgð á þeim aðgerðum og eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði fyrir að láta stefndu bæta stefnanda kostnað vegna slíkra aðgerða. Telji dómurinn að stefndu beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda hljóti sú bótaábyrgð að takmarkast eingöngu við verðmæti aflahlutdeildarinnar á tjónsdegi þar sem stefndu bera ekki bótaábyrgð á þeim kostnaði sem stefnandi hefur þurft að greiða vegna annarra dómsmála.
Fjárhæðum stefnukröfu er mótmælt, bæði verðmæti aflahlutdeildarinnar sem og öðrum fjárhæðum.
Dráttarvöxtum er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Lagarök: Um lagarök vísa stefndu til almennra reglna skaðabótaréttar um skaðabótaskyldu, um sönnun og sönnunarbyrði, um orsakatengsl og sennilega afleiðingu og reglna um eigin sök og skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt. Einnig vísa stefiidu til laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, laga nr. 38/2000 um samningsveð og laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Stjórnaformaður stefnanda, Örn Erlingsson, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi, að stefndu hefðu í einu og öllu gengið frá sölu skipsins og að hann hefði lotið ráðgjöf þeirra og þeir séð alfarið um allan gjörninginn. Þá sagði mætti að hann þættist vita af gamalli reynslu að þetta færi þannig fram að skuld hafi verið á bátnum og sennilega hafi það verið krafa frá Fiskveiðasjóði gamla að þessi heimild yrði höfð á bátnum. Aðspurður um hvort hann hefði gert einhverjar athugasemdir við að þetta yrði gert svona svaraði mætti að hann hefði bara lotið ráðgjöf stefndu í einu og öllu. Af gögnum málsins verður ekki séð hverjar þær ráðleggingar stefndu voru sem hann telur hafa valdið stefnanda tjóni og skýrsla forsvarsmanns stefnanda er ekki ljós um það atriði. Af henni verður það eitt ráðið að hann segi stefndu hafa alfarið annast söluna og bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar hafi verið. Virðist af skýrslunni eins og hann hafi einskis verið spurður né sjálfur gert nokkrar athugasemdir við framkvæmd mála.
Forsvarsmaður stefnanda kveðst hafa verið skipstjóri frá tvítugu en hann er nú á 67. aldursári. Þá hafi hann veitt stefnanda forstöðu frá stofnun þess fyrirtækis og gert út tvo eða þrjá báta. Fráleitt er að það hafi getað farið fram hjá honum að með því að aflahlutdeild fylgdi bátnum gat til þess komið að hún yrði seld með bátnum kæmi til nauðungasölu eins og reyndin varð og enn fremur er ekki sýnt fram á það að stefndu hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt ákvæðum laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.
Samkvæmt þessu verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu 250.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, Jón Ólafur Þórðarson og Bátar og Búnaður ehf., skulu sýknir af öllum kröfum stefnanda, Sólbakka ehf.
Stefnandi greiði stefndu 250.000 krónur í málskostnað.