Hæstiréttur íslands
Mál nr. 167/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Banki
- Innsetningargerð
|
|
Miðvikudaginn 24. mars 2010. |
|
Nr. 167/2010. |
Guðný Arna Sveinsdóttir (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Arion banka hf. (Andri Árnason hrl.) |
Kærumál. Bankar. Innsetningargerð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu G um að henni yrði heimilað að fá 24.215.246 krónur á vörslureikningi hjá A teknar með beinni aðfarargerð úr umráðum hans og fengnar sér. Talið var að það væri meginskilyrði þess að orðið yrði við kröfu um beina aðfarargerð að unnt væri að framkvæma hana og því yrði það sem hún beindist að að vera nægilega sérgreint. Almennt væri talið að ekki væri unnt að framkvæma innsetningu í peninga nema þeir væru skýrt aðgreindir. Ekki hefði komið fram í málinu að fjármunir G væru sérgreindir í vörslum A og yrði því ekki séð hvernig fara ætti að því að sækja þá hjá A. Þótti því ekki unnt að verða við kröfu G um innsetningu hjá A. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að henni yrði heimilað að fá 24.215.246 krónur á vörslureikningi nr. 453271 hjá varnaraðila teknar með beinni aðfarargerð úr umráðum hans og fengnar sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hún málskostnaður í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðný Arna Sveinsdóttir, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2010.
Með aðfararbeiðni, móttekinni 14. október 2009 krefst sóknaraðili, Guðný Arna Sveinsdóttir, Akraseli 16, Reykjavík, dómsúrskurðar um að 24.215.246 krónur sem gerðarbeiðandi á í vörslum varnaraðila á vörslureikningi nr. 453271 verði með beinni aðfarargerð teknar úr vörslum varnaraðila, Nýja Kaupþings hf. (nú Arion banka hf.) og fengnar sóknaraðila. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðili, Arion banki hf., gerir þær kröfur að beiðni sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Málið var þingfest 11. desember 2009 og tekið til úrskurðar 4. febrúar 2010.
I.
Sóknaraðili kveður málavexti vera þá að hann hafi þann 21. desember 2005 sett Kaupþingi banka hf. að handveði hlutabréf í bankanum að nafnverði kr. 1.143.750. Viðaukar hafi verið gerðir við handveðssamninginn þann 30. júní 2006 og 20. ágúst 2007. Þegar til handveðs þessa hafi verið stofnað hafi sóknaraðili starfað hjá Kaupþingi banka. Hafi Kaupþing banki veitt sóknaraðila lán til kaupa á hinum veðsettu hlutum í bankanum. Samkvæmt handveðsyfirlýsingunni hafi allur arður af hinum veðsettu hlutum fallið utan veðsins og verið til frjálsrar ráðstöfunar.
Kaupþing banki hafi greitt hluthöfum sínum arð í reiðufé. Arður sóknaraðila hafi runnið inn á vörslureikning hans hjá Kaupþingi banka nr. 453271. Hafi sóknaraðili haft óheftan aðgang að fénu.
Fjármálaeftirlitið hafi tekið Kaupþing banka yfir á grundvelli svokallaðra neyðarlaga nr. 125/2008 í október 2008. Sé bankinn nú í greiðslustöðvun samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur samhliða því að vera í slitameðferð samkvæmt lögum nr. 44/2009.
Nýr banki hafi verið stofnaður á rústum Kaupþings banka, Nýi Kaupþing banki hf. (síðar Arion banki hf.), varnaraðili máls þessa. Hafi allar innistæður og aðrir fjármunir, sem verið hefðu í vörslum Kaupþings banka, verið fluttar til Nýja Kaupþings banka, þar á meðal fjármunir þeir sem sóknaraðili átti á vörslureikningi sínum nr. 453271. Peningaeign sóknaraðila á nefndum reikningi hafi þann 31. desember 2008 verið 25.016.675 krónur.
Sóknaraðili hafi verið starfsmaður Kaupþings banka, og síðar Nýja Kaupþings banka, en látið af störfum skömmu fyrir áramót 2008/2009. Við starfslok hugðist sóknaraðili taka peninga út af vörslureikningi sínum hjá varnaraðila. Hafi þá komið í ljós að það hafi ekki verið hægt, þar sem bankastjóri Nýja Kaupþings banka, Finnur Sveinbjörnsson, hefði upp á sitt eindæmi ákveðið að ekki mætti greiða til sóknaraðila innstæðu á vörslureikningi fyrr en til lykta hefðu verið leidd önnur og óskyld mál varðandi uppgjör á lánum til starfsmanna Kaupþings banka, þar á meðal sóknaraðila. Hafi varnaraðili þá enga gjaldfallna kröfu átt á hendur sóknaraðila.
Sóknaraðili hafi getað tekið 796.000 krónur út af vörslureikningnum þann 30. júní sl. Sóknaraðili hafi krafið varnaraðila formlega um óheftan aðgang að fé sínu á vörslureikningi nr. 453271 með bréfi lögmanns dagsettu 18. september sl. Varnaraðili hafi ekki haft fyrir því að svara bréfinu efnislega, enda væntanlega engum efnislegum vörnum til að dreifa.
Af hálfu varnaraðila er þessu til viðbótar bent á að þó að arður af hinum veðsettur hlutabréfum skyldi renna til veðsala, virðist sóknaraðili, eins og fram kemur í tölvubréfi frá 18. mars 2008, sjálf hafa skilið orðalag handveðsyfirlýsingarinnar þannig að arðurinn ætti ekki að vera til frjálsrar ráðstöfunar. Þá bendir varnaraðili á að sú ákvörðun Kaupþings frá því í september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir á lánum til hlutabréfakaupa sé til skoðunar og hafi lögmæti þeirrar niðurfellingar að einhverju leyti verið dregið í efa.
II.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að engum vafa sé undirorpið að hann eigi þá peninga, sem séu á vörslureikningi nr. 453271. Peninga þessa hafi hann aldrei veðsett varnaraðila. Varnaraðili eigi því hvorki óbein réttindi yfir þeim né nokkurt annað tilkall til þeirra.
Varnaraðili hafi með ólögmætum og saknæmum hætti komið í veg fyrir að sóknaraðili fái umráð peninga sinna og vörslur. Sóknaraðila sé því nauðsynlegt að fá atbeina sýslumanns til að ná umráðum þeirra peninga, sem hann á í vörslum varnaraðila á vörslureikningi nr. 453271. Á reikningi þessum hafi um síðustu áramót verið 25.016.675 krónur. Nú eru hins vegar á reikningnum kr. 24.215.246, þar sem sóknaraðili hefur tekið til sín þóknanir, sem sóknaraðili áskilji sér allan rétt til að endurheimta.
Bann varnaraðila við úttektum sóknaraðila af vörslureikningi nr. 453271 sé ólögmæt og saknæm athöfn, þar sem hún byggi hvorki á samningi sóknaraðila við varnaraðila né lögum eða öðrum réttarheimildum.
Aðgerðir bankastjóra varnaraðila, sem miðað hafi að því, að hindra aðgang sóknaraðila að peningum, sem hann eigi í vörslum varnaraðila, feli í raun í sér refsiverða sjálftöku varnaraðila, ef ekki alvarlegri brot svo sem skilasvik.
Þá fái þessi háttsemi bankastjóra varnaraðila ekki samrýmst 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sem bjóði að fjármálafyrirtæki skuli haga störfum sínum í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Háttsemi forsvarsmanns varnaraðila í máli þessu rúmist ekki innan hugtakanna ,,góðir viðskiptahættir og venjur á fjármálamarkaði“ miklu heldur feli hún í sér andhverfu þeirra.
Gera verði þá kröfu til fjármálafyrirtækja að þau byggi samskipti sín við viðskiptavini á skýrum og ótvíræðum samningsákvæðum eða lagaheimildum, en ekki geðþóttaákvörðunum yfirmanna, eins og reyndin sé í þessu máli.
Sóknaraðili eigi, með vísan til þess sem að framan sé rakið, skýlausan rétt til að fá vörslur þeirra peninga, sem séu á vörslureikningi hans hjá varnaraðila nr. 453271.
Varnaraðili hafi með ólögmætum og saknæmum hætti aftrað sóknaraðila að neyta réttinda, sem hann á, sem viðskiptamaður varnaraðila; réttinda sem séu alveg ótvíræð. Sé sóknaraðila því að lögum heimilt að beina til héraðsdóms beiðni um innsetningu í þá peninga, sem hann eigi vörslureikningi nr. 453271 hjá varnaraðila, og varnaraðila séu með öllu óheimil umráð yfir önnur en þau sem leiði af réttarsambandi þeirra um reikning þennan.
Á varnaraðila hvíli sú skylda, sem fjármálafyrirtæki, að hafa ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfseminni fylgja. Sóknaraðili hljóti að hafa yfir að ráða svo miklu lausu fé að greiða megi út þá peninga með atbeina sýslumanns, sem sóknaraðili eigi hjá honum, en sóknaraðili haldi með ólögmætum hætti. Peningar sóknaraðila séu nægilega sérgreindir á reikningi sóknaraðila nr. 453271 hjá varnaraðila svo beita megi innsetningargerð til útgreiðslu þeirra.
Sóknaraðili byggir beiðni þessa á ákvæðum IV. þáttar, 11. kafla laga um aðför nr. 90/1989 m.a. 78. sbr. 73. gr. laganna. Þá vísar sóknaraðili einnig til 83. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Krafa um málskostnað og virðisaukaskatt byggir á ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt fyrirliggjandi aðfararbeiðni fari sóknaraðili þess á leit „að kr. 24.215.246,-, sem gerðarbeiðandi á í vörslum gerðarþola á vörslureikningi nr. 453271 verði með beinni aðfarargerð teknar úr vörslum gerðarþola og fengnar gerðarbeiðanda“. Beiðni sína styður sóknaraðili við 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. meðal annars 78. og 73. gr. laganna. Að mati varnaraðila séu lagaskilyrði beinnar aðfarargerðar ekki uppfyllt.
Varnaraðili vísar til þess að með beinni aðfarargerð sé ekki unnt að leita fullnustu á kröfu um peningagreiðslu. Málatilbúnaður sóknaraðila sé hins vegar í reynd þessu marki brenndur, þ.e.a.s. að sóknaraðili sé í reynd að leita fullnustu innlánskröfu sem varð til vegna arðgreiðslna sóknaraðila til handa. Þegar af þessum ástæðum verði að hafna beiðni sóknaraðila.
Varnaraðili vísar til þess að þó svo að með beinni aðfarargerð sé ekki unnt að leita fullnustu á kröfu um peningagreiðslu, sé hugsanlega mögulegt að leita fullnustu á kröfu um peningagreiðslu með beinni aðfarargerð séu fjármunirnir sérgreindir í vörslum þess sem beiðni lýtur að. Þessu skilyrði sé hins vegar ekki fullnægt hér. Þannig sé það alkunna að peningar viðskiptamanna fjármálafyrirtækja séu ekki sérgreindir í vörslum þeirra. Innlán og innstæður feli lögfræðilega ekki í sér annað og meira en að viðkomandi eigi kröfu sem nemur viðkomandi fjárhæð á hendur hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Í þessu felist hins vegar ekki að tilteknir fjármunir séu sérstaklega sérgreindir hlutaðeigandi viðskiptamanni. Lýsi það sér t.d. vel í því að ef fjármálafyrirtæki verður greiðsluþrota er aðstaðan ekki sú að allir innlánseigendur geti fengið fjármuni sína afhenta, t.d. á grundvelli sértökuréttar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, svo sem aðstaðan væri hins vegar ef fjármunir væru sérstaklega sérgreindir gagnvart hverjum viðskiptamanni, sbr. m.a. ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, þar sem kveðið er á um að innlánskröfur, sem uppfylli ákveðin skilyrði, teljist til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Af framangreindu leiði jafnframt að sóknaraðili geti aldrei að talist eiga sérgreinda fjármuni í vörslum varnaraðila þannig að skilyrðum beinnar aðfarargerðar sé fullnægt. Sóknaraðili verði, telji hann sig eiga lögvarinn rétt til fjárhæðar sem nemur innsetningarfjárhæðinni, að krefjast greiðslu á slíkri fjárhæð í almennu einkamáli sem hann gæti síðan fullnustað með aðfarargerð í kjölfarið.
Til stuðnings framangreindu vísar varnaraðili jafnframt til þess að vandséð sé hvernig sýslumaður gæti fullnustað úrskurð um innsetningu enda engum sérgreindum fjármunum fyrir að fara. Verður þannig ekki séð hvernig sýslumaður eigi að „taka“ úr vörslum varnaraðila umrædda fjármuni svo sem sóknaraðili krefst samkvæmt kröfugerð. Framkvæmd beinnar aðfarargerðar væri því ómöguleg.
Varnaraðili vísar einnig til þess að það sé réttarfarslegt skilyrði fyrir beinni aðfarargerð, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga um aðför, að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir réttmæti þeirra með gögnum sem afla má samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga um aðför. Réttmæti umráðakröfu gerðarbeiðanda þurfi þannig að vera auðsannað og um leið hafið yfir skynsaman vafa, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga um aðför. Að mati varnaraðila sé þessum áskilnaði ekki fullnægt.
Varnaraðili vísar hér meðal annars til þess að óljóst virðist hvaða skilningur hafi verið lagður í orðalag handveðsyfirlýsingarinnar um að arður af hinu veðsetta ætti að renna til veðsala. Lýsi þetta sér t.d. í tölvubréfi sóknaraðila dags. 18. mars 2008 en í því virtist sóknaraðili skilja umrætt orðalag með þeim hætti að arðurinn ætti ekki að vera starfsmönnunum til frjálsrar ráðstöfunar, heldur væri hann í reynd trygging, gagnstætt því sem sóknaraðili virðist nú byggja á. Raunar megi leggja tvíþættan skilning í umrætt orðalag. Annars vegar að sóknaraðili skyldi eiga eignaréttarlegt tilkall til arðsins af bréfunum en þó þannig að arðurinn væri allt að einu veðsettur ásamt bréfunum til tryggingar kröfum Kaupþings vegna lánveitingarinnar í tengslum við hlutabréfakaupin á sínum tíma. Hins vegar að sóknaraðili skyldi eiga eignaréttarlegt tilkall til arðsins og jafnframt, þannig að hann væri henni til frjálsrar ráðstöfunar, svo sem málatilbúnaður sóknaraðila byggir raunar nú á. Ljóst megi vera að réttur skýringarkostur, hver sem hann er, ráðist væntanlega meðal annars af því hvaða skilning samningsaðilar hafi lagt í þetta orðalag þegar stofnað var til skuldbindingarinnar á sínum tíma. Verði það vart leitt í ljós nema með því að taka aðila- og vitnaskýrslur af hlutaðeigandi, þ.e.a.s. leiða þarf í ljós atvik málsins að þessu leyti. Slíkt er hins vegar ófært í fyrirliggjandi máli sbr. 81. gr. laga um aðför. Með öðrum orðum verði vart ráðið, meðal annars vegna yfirlýsingar sóknaraðila sjálfs, að unnt sé að færa sönnur fyrir umkröfðum réttindum nema með annarri og meiri sönnunarfærslu en ákvæði 1. mgr. 81. gr. laga um aðför heimili. Með vísan til 3. mgr. sömu greinar verði að synja um gerðina enda varhugavert að láta hana fara fram eingöngu á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu.
Varnaraðili vísar jafnframt til þess að það muni hafa verið óorðuð forsenda fyrir lánveitingunni, sem numið hafi umtalsverðum fjárhæðum, og hlutabréfakaupunum því samfara að lykilstarfsmenn bankans myndu stuðla að framgangi og vexti Kaupþings, hluthöfum bankans til góða. Sú forsenda hafi brostið. Af því leiði jafnframt að réttur sóknaraðila til arðsréttinda vegna bréfanna sé eftir atvikum niður fallinn. Niðurstaða um framangreint geti einnig ráðist af aðila- og vitnaskýrslum og frekari sönnunarfærslu fyrir dómi, og því verði að synja um beiðnina.
Varnaraðili vísar loks til þess að samkvæmt fyrirliggjandi aðfararbeiðni, krefjist sóknaraðili dómsúrskurðar um að tilteknir fjármunir „í vörslum gerðarþola á vörslureikningi nr. 45271 verði með beinni aðfarargerð teknar úr vörslum gerðarþola og fengnar gerðarbeiðanda“. Hins vegar sé ljóst, hvað sem öllu framangreindu líður, að engir fjármunir séu „í vörslum gerðarþola á vörslureikningi“. Fjármunirnir, sem beiðni sóknaraðila lýtur að, tengist hins vegar sjálfstæðum bankareikningi. Að þessu leyti sé jafnframt ljóst að ekki væri unnt að fullnusta úrskurði í samræmi við kröfugerð sóknaraðila. Verði sóknaraðili að bera allan halla af annmörkum á kröfugerð sinni í þessu tillit.
Um lagarök vísar varnaraðili einkum til laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. meðal annars 78. gr., sbr. 73. gr., og 81. gr. laganna. Kröfu sína um málskostnað styður varnaraðili meðal annars við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Í máli þessu er krafist innsetningar í innistæðu í eigu sóknaraðila á reikningi í vörslum varnaraðila. Ekki er annað að sjá af málsatvikum en að um sé að ræða eign sóknaraðila sem hún ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum að hafa óheftan aðgang að. Ekki verður talið breyta því, að einhver vafi leiki á lögmæti þess að persónulegum ábyrgðum af lánum vegna kaupa á hlutabréfum var létt af sóknaraðila og fleiri starfsmönnum Kaupþings, með ákvörðun stjórnar bankans í september 2008, enda sérstaklega kveðið á um það í gögnum sem liggja til grundvallar viðskiptunum að arður af keyptu hlutafé renni beint til veðsala, en hlutaféð var veðsett til tryggingar lánunum.
Ekki verður heldur talið breyta þessari aðstöðu að sóknaraðili hafi, þann 18. mars 2008 á meðan hún starfaði enn hjá Kaupþingi, ritað tölvubréf þar sem hún virðist gefa fyrirmæli um að arður skuli ekki greiddur út til starfsmanna, þar sem hann sé samkvæmt samningi til tryggingar skuldum og að undanþágur frá þessu verði að koma frá henni.
Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 er manni sem með ólögmætum hætti er aftrað að neyta réttinda sinna heimilað að beina til dómara beiðni um að skyldu þess efnis sem getur í 72. eða 73. gr. laganna verði fullnægt með aðfarargerð. 72. gr. fjallar um útburð af fasteign, en 73. gr. um skyldu til þess að veita umráð annars en þess sem 72. gr. tekur til. Það hlýtur að vera meginskilyrði þess að orðið verði við kröfu um slíka aðfarargerð að unnt sé að framkvæma hana og til þess að unnt sé að framkvæma innsetningargerð, verður það sem hún beinist að, að vera nægilega sérgreint. Almennt verður ekki talið að unnt sé að framkvæma innsetningu í peninga, nema þeir séu skýrt aðgreindir. Ekki hefur komið fram í máli þessu að fjármunir sóknaraðila séu sérgreindir í vörslum varnaraðila og verður því ekki séð hvernig fara ætti að því að sækja þá hjá varnaraðila. Verður af þessum ástæðum ekki talið unnt að verða við kröfum sóknaraðila um innsetningu hjá varnaraðila.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð U R :
Hafnað er kröfu sóknaraðila um beina aðfarargerð í málinu.
Málskostnaður fellur niður.