Hæstiréttur íslands
Mál nr. 611/2010
Lykilorð
- Manndráp
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 2010. |
|
Nr. 611/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur vararíkissaksóknari) gegn Ellert Sævarssyni(Brynjar Níelsson hrl.) (Margrét Gunnlaugsdóttir hdl.) |
Manndráp. Skaðabætur.
E var ákærður fyrir manndráp af ásetningi með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 8. maí 2010 veist að A og kýlt hann með krepptum hnefum, sparkað í höfuð og líkama A þar sem hann lá á gangstétt og kastað þungum kantsteini í hnakka hans með þeim afleiðingum að áverkar A leiddu hann til dauða skömmu eftir atlöguna. E játaði að hafa sparkað í höfuð og líkama A og kastað kantsteini í höfuð hans. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kemur fram að banamein A hafi verið miklir höfuðáverkar og að áverkar á hnakka hans samrýmdust því að þungur steinn hafi lent á höfði hans meðan hann lá á grúfu á jörðinni. Blóðferlarannsókn á vettvangi og rannsókn á kantsteini sem þar fannst þóttu leiða í ljós að steinninn hafi lent á hnakka A. Þótti sannað að andlát A hafi verið bein afleiðing þeirra höfuðhögga sem E játaði að hafa veitt honum og í ákæru greindi, utan þess að ekki þótti sannað að E hafi kýlt A með krepptum hnefum. Var E sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við mat á refsingu var litið til þess að E hafði ásetning til að vinna slíkt tjón sem raun varð á og var ekki talið að refsilækkandi ástæður kæmu til álita. Var E dæmdur til 16 ára fangelsisvistar. Fallist var á skaðabótakröfu eiginkonu A að fjárhæð 3.110.181 krónu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
B krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu hennar og ákærða gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða B málskostnað fyrir Hæstarétti, svo og áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ellert Sævarsson, greiði B 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Þá greiði ákærði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 462.893 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2010.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 9. september 2010, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 30. júlí 2010, á hendur Ellert Sævarssyni, kennitala 020179-3929, Suðurvöllum 4, Reykjanesbæ, „fyrir manndráp með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 8. maí 2010, utan dyra við [...], [...], veist að A, kennitala [...], kýlt hann með krepptum hnefum, sparkað í höfuð og líkama A þar sem hann lá á gangstétt og kastað kantsteini, sem vóg (sic) tæp 12 kg, í hnakka hans, allt með þeim afleiðingum að A hlaut opin sár, hrufl og mar á höndum, brot á tveimur fingrum hægri handar, skurðsár með mikilli blæðingu, mar, bólgur og bjúg í andliti, útbreidd brot á beinum augnumgjarðar báðum megin, brot á augnbotni vinstra megin, gliðnun á hnakkabeini, opið sár á hnakka með mikilli blæðingu undir höfuðleðri og minni háttar blæðingar í heila. Framangreindir áverkar leiddu A til dauða skömmu eftir atlögu ákærða.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
B, kennitala [...], krefst miska- og skaðabóta úr hendi ákærða auk greiðslu þóknunar vegna réttargæslu, samtals að fjárhæð kr. 14.831.820 auk vaxta af 2.839.101 skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2010 til 21. ágúst 2010 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða 4,5% af kr. 11.721.639, skv. 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1995 (sic) frá 8. maí 2010 til 21. ágúst 2010 sem og dráttarvexti skv. vaxtalögum frá þeim degi til greiðsludags.“
Ákærði hefur játað að hafa sparkað í höfuð og líkama A og kastað kantsteini í höfuð hans með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru að undanskildum opnum sárum, hrufli og mari á höndum og broti á tveimur fingrum hægri handar. Ákærði kaus að taka ekki afstöðu til þess hvort áverkar þeir, sem hann veitti A, hefðu leitt hann til dauða.
Af hálfu ákærða er því andmælt að brot ákærða verði heimfært undir 211. gr. almennra hegningarlaga. Rétt sé hins vegar að heimfæra það undir 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Krefst ákærði aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði höfð skilorðsbundin. Verði refsing ákærða höfð óskilorðsbundin er þess krafist að gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt, komi til frádráttar refsingunni.
Þá er krafist sýknu af bótakröfu, að öðru leyti en því að ákærði hefur samþykkt að greiða útfararkostnað. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóði, þ.m.t. hæfilega málsvarnarlaun.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 8. maí 2010, barst lögreglu tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra klukkan 6.12 þann sama dag um að sjúkrabifreið væri á leið að [...], en þar fyrir utan lægi maður í blóði sínu. Tveir lögreglumenn fóru þegar á vettvang. Í skýrslunni segir að [...] sé parhús og skilji bifreiðageymslur íbúðirnar að. Húsið standi innst í botnlanga og göngustígur sé austan og sunnan við húsið. Þá segir að gengið sé inn í húsið að norðanverðu og hafi mátt sjá mann liggja hreyfingarlausan á plani fyrir framan inngang hússins. Kannað hafi verið með lífsmörk og greinilegt hafi verið að maðurinn var látinn. Grunur hafi vaknað um að andlát mannsins hefði ekki borið að með eðlilegum hætti þar sem smágerð möl og sandur hafi verið á baki hans. Engar augljósar skýringar hafi verið á því ef maðurinn hafði dottið. Þá hafi mátt sjá nokkuð stóran hellustein við höfuð hans, sem virtist hafa verið tekinn úr garðinum skömmu áður þar sem nýlegt jarðrask hafi verið sjáanlegt þar. Þá hafi maðurinn verið með mikla höfuðáverka, bæði í andliti og hnakka. Í skýrslunni segir að lögreglumenn hafi barið að dyrum, bæði á aðalinngangi og á norðurhlið, en einnig hafi þeir farið á bak við húsið og barið dyra. Enginn hafi komið til dyra og hafi húsið virst vera mannlaust.
Fram kemur í skýrslunni að haft hafi verið samband við aðalvarðstjóra og honum tilkynnt um málið og þá hafi verið kallaðir til rannsóknarlögreglumenn og menn frá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Einnig hafi verið óskað eftir lækni á vettvang til að staðfesta andlát mannsins. Loks hafi vettvangi verið lokað.
Í skýrslunni segir að þegar lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi tilkynnandinn, C, verið þar. Þá hafi lögreglumenn séð unga stúlku hlaupa í burtu. Rætt hafi verið við C og hún tjáð lögreglu að dóttir hennar hefði verið að bera út blöð og fundið manninn. Hún hefði kallað í sig og hún, C komið að og séð manninn þar sem hann lá fyrir utan húsið. Kvaðst hún hafa hringt strax í neyðarlínuna.
Þá segir í frumskýrslunni að í fyrstu hafi ekki verið unnt að bera kennsl á manninn á vettvangi. Síðar hafi komið í ljós að hinn látni hét A og var til heimilis að [...], [...]. A hafi verið klæddur í svartan skó á hægri fæti og hafi hinn skórinn legið við fætur hans. Þá hafi hann verið í svörtum sokkum, ljósbláum gallabuxum, blárri skyrtu og ljósum, léttum jakka. Hafi mátt sjá blóðkám á jakka hans. Hann hafi legið á grúfu með hendur fyrir ofan höfuð og hafi höfuð hans snúið í austur.
Klukkan 6.39 hafi læknir komið á vettvang og staðfest eftir skoðun að A væri látinn. Læknirinn hafi enn fremur upplýst að andlitsbein mannsins væru brotin sem og höfuðkúpa hans. Þá sagði læknirinn að lík A væri enn heitt viðkomu og því væru ekki meira en tvær klukkustundir liðnar frá andláti hans.
Í gögnum málsins kemur fram að um klukkan 08.30 hafi lögreglu borist upplýsingar, sem leitt hafi til handtöku ákærða. Segir að D, [...], [...], hafi vaknað til vinnu um klukkan fjögur um nóttina og þá séð og heyrt til manns, sem setið hefði á steinvegg gegnt eldhúsglugganum á heimili hans. Maðurinn hefði vakið athygli D vegna þess að hann hefði grátið hástöfum og sagt: „Ég ætlaði ekki að gera þetta. Af hverju var ég að þessu. Ég sé eftir þessu.“ Maðurinn hefði virst vera í miklu uppnámi. Hann hefði verið þarna í nokkra stund áður en hann gekk að [...] og hafi D sagst þekkja hann sem nágranna sinn. Hann hefði ekki séð manninn fara inn í húsið en ganga að því.
Lögreglumenn fóru að svo búnu að [...] þar sem ákærði var handtekinn klukkan 09.17.
Í skýrslu lögreglu um framburð ákærða við handtöku, dags. 8. maí 2010, segir að lögreglumenn hafi knúið dyra að [...] og hafi faðir ákærða komið til dyra og hleypt þeim inn. Á heimilinu hafi einnig verið, auk ákærða og föður hans, móðir hans, systir og tvö ung börn hennar. Lögreglumenn hafi farið inn í herbergi ákærða, sem hafi verið sofandi í rúminu, fullklæddur og ekki með sængina yfir sér. Mikinn áfengisfnyk hafi lagt frá vitum hans. Lögreglumenn hafi verið með hljóðupptökutæki meðferðis og stillt það á upptöku þegar þeir hófu að vekja ákærða. Fram hafi komið hjá ákærða að hann vissi af hverju lögreglan væri komin til hans. Hann hefði misst stjórn á sér og viljað sjá til þess að þessi maður myndi ekki snerta krakka. Jafnframt að hann hefði ekki hugmynd um það hver maðurinn væri og hefði aldrei séð hann áður. Hann hefði komið heim til sín um nóttina og séð manninn standa á horninu við [...], en hann hefði verið búinn að standa þar lengi eins og hann væri að bíða eftir einhverjum. Hann hefði spurt manninn hvað hann væri að gera þarna og hann sagst bara vera að bíða. Maðurinn hefði síðan farið að tala um einhverja krakka og þá hefði ákærði misst stjórn á sér og lamið manninn. Ákærði hefði hugsað til barna systur sinnar, en hún ætti tvö ung börn. Þegar hann hefði farið frá manninum hefði maðurinn ekki verið í ástandi til að gera „þeim“ neitt, en hann hefði legið í innkeyrslunni á [...]. Í skýrslunni segir að ákærði hafi verið sýnilega töluvert ölvaður og með áverka á andliti og hægri hendi, sem hafi verið mjög bólgin. Hafi ákærði gefið þá skýringu á bólgunni að hann hefði slegið manninn með þessum afleiðingum.
Fram kemur í gögnum málsins að lögreglan tók skýrslu af fjölda vitna í málinu. Systir ákærða, E, greindi lögreglu frá því að ákærði hefði komið inn í herbergi hennar og vakið hana um klukkan fjögur til hálf-fimm um nóttina. Hann hefði verið grátandi og með áverka í andliti og á hendi. Hann hefði tjáð henni að hann hefði algerlega misst stjórn á sér í slagsmálum. Nánar aðspurður hefði hann sagt að maður væri dáinn. Hann hefði ráðist á manninn því hann hefði talið hann vera barnaníðing. Ákærði hefði verið búinn að segja henni [...]frá því áður að hann hefði verið misnotaður sem barn. Eftir þetta samtal við ákærða hefði hún greint foreldrum sínum frá þessu og hefði faðir hennar farið út til að svipast um eftir einhverjum ummerkjum en einskis orðið var. Hún hefði síðan farið sjálf út að leita ummerkja en án árangurs.
Af skýrslum annarra vitna í málinu má ráða að ákærði hafi verið við drykkju á heimili vinar síns að [....] í [...] frá fimmtudeginum 6. maí og fram að miðnætti á föstudag. Þá mun ákærði hafa farið mjög ölvaður frá [...] og í samkvæmi að [...], en þangað mun hann hafa komið á milli klukkan tólf og eitt aðfaranótt laugardagsins 8. maí. Vitni hafa borið um að þar hafi ákærði drukkið nokkuð af sterku áfengi og farið úr samkvæminu mjög drukkinn rétt fyrir klukkan fjögur um nóttina.
Hinn látni, A, var samkvæmt gögnum málsins í starfsmannateiti í húsnæði [...] á [...] föstudagskvöldið 7. maí. Um ferðir hans er það vitað að um klukkan 2.20 til 2.45 aðfaranótt laugardagsins 8. maí tók hann ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum leigubifreið frá húsnæði [...] til [...] og fór úr bílnum í [...] við [...] skammt frá heimili annars samstarfsmannsins, þ.e. þess sem fór síðar úr leigubifreiðinni. Þar skildi leiðir með samstarfsmanninum og A og kemur fram að A hafi ætlað sér að fara til föður síns, sem búi á [...], en A hafi verið töluvert drukkinn. Hafi þetta verið á bilinu frá klukkan 2.35 til 3.00 um nóttina. Næst er það vitað að um klukkan hálf-fjögur hitti A hjónin F og G á göngustíg við [...], en þau voru á heimleið úr samkvæmi. A þekkti bæði hjónin og átti við þau stutt spjall. Buðust hjónin ítrekað til að til að hringja á leigubíl fyrir A en hann afþakkaði það. Að spjalli loknu gekk A upp göngustíginn en hjónin áfram í hina áttina. Mun A hafa gengið upp stíginn og síðan beygt til hægri í átt að þeim stað þar sem hann fannst síðar látinn.
Ítarleg rannsókn fór fram á vettvangi, sem og á fatnaði ákærða. Við rannsókn á blóðsýnum kom í ljós að DNA-snið blóðs, sem fannst á laufblaði af runna og á kantsteini á vettvangi, svo og á báðum skóm ákærða, reyndist hið sama og DNA-snið hins látna. Í skýrslu lögreglu segir m.a. að hægri handleggur hins látna hafi legið upp með höfðinu og hafi höndin verið ofan við höfuð. Sár hafi verið á hægra handarbaki, hnúum og fingrum og vísifingur virtist aflagaður. Þá hafi sár verið endilangt eftir löngutöng lófamegin eins og húðin hefði rifnað vegna mikils þrýstings. Á hnakka hafi verið stór L-laga skurður, u.þ.b. 7x6 sm langur.
Ákærði gekkst undir læknisrannsókn, sem leiddi í ljós mar, rispur, og eymsli víðs vegar um líkamann, m.a. í andliti, aftan á hálsi, á baki, báðum handleggjum og fótleggjum, svo og á hægri hendi. Hinn 10. maí 2010 var sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum fenginn til að skoða ákærða og röntgenmyndir af hægri hendi hans. Að mati bæklunarlæknisins var um að ræða tognunaráverka á hægri hendi, fyrst og fremst á þriðja og fjórða hnúalið og að einhverju leyti á öðrum hnúalið. Í vottorði bæklunarlæknisins segir að beinflaski, sem sjáist á röntgenmynd, virðist eftir skoðun á hendinni vera festan á hliðlægu liðbandi, en um sé að ræða svo til ótilfært brot og liðbönd séu stöðug. Þá segir í vottorðinu að áverki af þessu tagi geti t.d. komið ef viðkomandi slær fingrum utan í eitthvað eða ef gripið er í fingur manns og snúið upp á. Einnig geti áverkinn komið við hliðarátak. Ekki sé um að ræða svokallaðan boxaraáverka, þ.e. beinbrot á hendi eftir högg. Engin merki um högg hafi sést á hnúum.
Styrkur etanóls í blóði ákærða mældist 1,38 klukkan 10.51 og í þvagi 2,26 klukkan 10.43 hinn 8. maí, en í þvaginu fannst einnig amfetamín. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafærði, dags. 20. maí 2010, hefur styrkur etanóls í blóði ákærða verið um 1,9 um klukkan níu þegar ákærði var handtekinn. Of langur tími hafi hins vegar liðið frá ætluðu broti og fram að sýnatöku til að hægt hafi verið að reikna og meta með nokkurri nákvæmni hver etanólstyrkur í blóði ákærða hafi verið um klukkan fjögur um nóttina. Í matsgerðinni segir enn fremur að amfetamín hafi ekki verið mælanlegt í blóði. Útilokað hafi verið að áætla hver styrkur amfetamíns í blóði hafi verið þegar ætlað brot var framið. Með tilliti til þess hve helmingunartími amfetamíns í blóði sé langur megi þó fullyrða að hann hafi verið lágur.
Geðrannsókn fór fram á ákærða og var niðurstaða hennar að ákærði væri sakhæfur. Í skýrslu H geðlæknis kemur fram að ákærði hafi átt við félagsfælni og þunglyndi að stríða um ævina og að hann hafi verið með einkenni þunglyndis síðustu mánuðina. Hvorugur geðsjúkdómurinn flokkist hins vegar undir meiri háttar geðsjúkdóma eins og vísað sé til í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá segir að ákærði minnist þess óljóst að hafa verið beittur kynferðislegu ofbeldi sem barn, en ekkert bendi til vænisýki í tengslum við barnaníðinga. Jafnframt segir að ákærði hafi verið töluvert ölvaður þegar brotið átti sér stað. Slíku ölvunarástandi fylgi margvísleg einkenni, eins og miklar tilfinningalegar sveiflur, afhömlun, skert dómgreind, minnkuð skynjun á umhverfinu og truflun á minni og skilningi. Magn amfetamíns virðist hins vegar hafa verið það lágt að ólíklegt sé að það hafi skipt nokkru máli varðandi hegðun ákærða. Loks segir að ákærði hafi verið illa fyrirkallaður í lengri tíma vegna margra þátta eins og félagslegrar stöðu, atvinnuleysis, fjárhagsvanda, félagsfælni og þunglyndi. Hann hafi enga fyrri sögu um ofbeldi og aðstandendur hans eigi erfitt með að trúa því að hann hafi framið ætlað brot. Hann hafi sjálfur átt erfitt með að höndla það að hann hafi framið slíkan verknað og sýnt greinileg merki um iðrun og sektarkennd.
Styrkur etanóls í blóði hins látna var 2,40 og í þvagi 3,21. Í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 25. maí 2010, segir að styrkur etanóls í blóði sé hár og bendi til mjög mikillar ölvunar. Hlutfall etanóls í blóði og þvagi bendi til þess að styrkur etanóls í blóði hafi verið fallandi þegar maðurinn lést. Þá segir að niðurstöður rannsóknanna sýni að hinn látni var mjög ölvaður þegar hann lést.
Réttarkrufning fór fram og segir í niðurstöðu krufningarskýrslu að dánarorsök A hafi verið banvæn höfuðhögg sem honum hafi verið veitt. Í krufningarskýrslunni kemur og fram að miklir áverkar hafi verið á handarbaki, lófa, úlnlið og fingrum hægri handar, þ.e. mar, bólga, rispur og opin sár. Þá kemur fram að vísifingur hægri handar var margbrotinn og lítið, ótilfært brot var á löngutöng. Á hnúum vinstri handar var minni háttar hruflsár við hnúa og á handarbaki var roði í húð og grunnar rispur.
Fram kemur í gögnum málsins að A brotnaði á hægri hendi í slysi árið 1977. Brotið hafi gróið skakkt og A ávallt verið kvalinn í hendinni. Árið 2006 eða 2007 hafi A gengist undir uppskurð á hendinni, sem hafi lagast við aðgerðina. Fyrir einum til tveimur árum hafi A aftur farið að finna fyrir dofa í fingrunum og hafi fingurnir verið krepptir og hann átt erfitt með að rétta úr þeim.
III.
Fyrir dóminn komu sem vitni I, yfirlæknir Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, H geðlæknir, J, sérfræðingur hjá lögreglunni, og hjónin F og G.
Fram hefur komið í málinu að minni ákærða er gloppótt um atvik málsins. Hann kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa hitt A á göngustíg við [...] umrædda nótt, en sagðist ekki vita hvað klukkan var þegar fundum þeirra bar saman. Ákærði sagði að sig minnti að hann hefði spurt A að því hvað hann væri að gera þarna og A sagt honum að hann væri að bíða eftir krökkum. Hann hefði þá spurt A hvort hann væri að misnota börn. A hefði þá gengið í burtu og ákærði farið á eftir honum og spurt hann að því aftur hvað hann væri að gera og hvort þetta væri rétt. Hann sagði að A hefði þá rölt upp að innganginum að húsi nr. [...] við [...] og staðið þar við útidyrahurðina eins og hann væri að fara inn. Sjálfur sagðist ákærði hafa farið að næsta húsi og ætlað að fá að hringja á lögregluna til að athuga með manninn. A hefði þá byrjað að rölta til baka og sagðist ákærði hafa farið í veg fyrir hann og sagt honum að hann færi ekki neitt fyrr en lögreglan kæmi. Sagðist ákærði halda að hann hefði verið orðinn nokkuð æstur þegar þarna var komið sögu og lýsti ástandi sínu þannig að hann hefði ætlað að öskra en ekki getað það. Frá honum hefði aðeins komið hálfgert grátöskur. Ákærði sagðist ekki muna eftir því að A segði nokkuð við hann. Hann sagðist síðan muna eftir A grettnum í framan og með handleggina útrétta beint fram og næst muni hann eftir sér standa yfir A liggjandi í jörðunni. Sagðist ákærði muna eftir að hafa sparkað í höfuð A, bringu og síðu og sagðist ákærði hafa beitt báðum fótum. Sagðist ákærði halda að hann hefði sparkað tvisvar í bringuna og þrisvar í höfuðið. Kvaðst hann ekki geta sagt til um það hvar spörkin lentu á höfði A. Hann sagði að hægri hlið mannsins hefði snúið að honum. Ákærði sagðist hafa verið bólginn á vinstri tánni og sagðist því búast við að hafa sparkað með henni. Þá sagðist ákærði halda að hann hefði beitt ristinni og sköflungnum. Einnig kannaðist ákærði við að hafa stappað ofan á höfði mannsins. Hann sagðist ekki muna eftir því hvort maðurinn hreyfði sig. Næst sagðist ákærði hafa tekið upp hellustein og hent í áttina að A. Nánar aðspurður sagðist hann hafa lyft steininum upp yfir höfuð sér og kastað honum, sennilega af afli, í manninn, en ekki séð hvar steinninn lenti. Að svo búnu kvaðst ákærði hafa hlaupið í burtu og heim til sín, en stoppað við grindverk í innkeyrslunni að heimili sínu. Sagðist ákærði muna það eitt að hafa setið á grindverkinu með krosslagðar hendur og beðið eftir því að lögreglumaður, sem byggi í næsta húsi, kæmi út og tæki hann. Hann sagðist aðspurður hafa áttað sig á því að maðurinn lá á stéttinni þegar hann fór frá honum, en sagðist fyrst hafa frétt að hann væri látinn þegar lögreglan kom og sótti hann síðar um morguninn. Ákærði sagði að þegar hann henti steininum í A hefði hann ekki verið í ástandi til að draga miklar ályktanir, þ.e. hvaða afleiðingar gjörðir hans kynnu að hafa.
Eftir að hafa setið á grindverkinu sagðist ákærði hafa farið inn til sín og beint inn í herbergi systur sinnar, E. Sagðist hann hafa sagt við systur sína: „Ég held ég hafi drepið mann.“ Hann sagði að systir hans hefði búið heima hjá foreldrum þeirra á þessum tíma ásamt tveimur ungum börnum sínum. Hann sagðist í upphafi hafa ætlað að hringja í lögregluna til að vernda börn systur sinnar, en það sem hann gerði í framhaldinu hefði ekki tengst börnunum. Ákærði sagðist aðspurður ekki vita af hverju hann veittist með framangreindum hætti að manninum.
Ákærði sagðist aðspurður ekki muna eftir því að hafa slegið A hnefahöggi. Sagðist hann sjálfur hafa verið bólginn á handarbaki en ekki hnúum. Aðspurður sagðist hann muna eftir að hafa sagt við lögreglumennina, sem handtóku hann á heimili hans um morguninn, að hann hefði kýlt manninn. Sagði ákærði að hann hefði fundið mjög til í hendinni og því hefði hann gert ráð fyrir að hann hefði kýlt A. Hann sagðist einnig minnast þess að hafa sagt síðar í skýrslutöku hjá lögreglu að hann myndi ekki eftir að hafa kýlt manninn. Sagðist hann ekki geta tengt áverka á hægri hendi sinni við það að hafa kýlt manninn þar sem hann myndi ekki eftir því. Þá sagðist hann ekki minnast þess að hafa fengið högg frá A. Hann sagðist ekki átta sig á því hvernig A féll í jörðina. Sagðist hann aðeins muna eftir því að þeir hefðu staðið þarna tveir og allt í einu hefði maðurinn verið kominn í jörðina og hann að sparka í hann.
Ákærði sagðist halda að hann hefði verið töluvert ölvaður þegar umræddur atburður átti sér stað. Sagðist ákærði hafa verið við nánast stanslausa drykkju í tvo daga þegar þetta gerðist. Nokkrum dögum fyrr hefði hann einnig neytt amfetamíns. Hann sagðist ekki geta lagt mat á ástand A þessa nótt. Sagðist hann ekkert hafa þekkt til A og aldrei hafa hitt hann áður. Hann sagðist ekki vita af hvaða ástæðu hann sakaði A um barnaníð.
Ákærði sagðist aðspurður hafa verið atvinnulaus í um fimm mánuði þegar atvik máls þessa gerðust, en sagðist ekki geta metið það hvort hann var þunglyndur á þessum tíma. Ákærði sagðist vera menntaður flugvirki og skulda mikið vegna þess náms, sem hann stundaði erlendis.
Ákærði sagðist minnast þess óljóst að fullorðinn karlmaður hafi misnotað hann þegar hann var á leikskólaaldri. Hann sagði að þessi minning hefði ekki truflað sig dags daglega en hún hefði komið upp í huga hans öðru hverju.
I, yfirlæknir Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, kvaðst hafa komið að krufningu hins látna. Hann sagði að áverkar hefðu fyrst og fremst verið á höfði hins látna, þ.e. beinbrot á kinnbeinum og augntóftum, fyrst og fremst vinstra megin. Þá hefðu verið blæðingar inn í kinnbein, sem hefðu verið brotin báðum megin, blæðingar undir sprungu á höfuðkúpu aftanverðri og blæðing utan á og undir heilabasti. Á höndum hefðu verið áverkar, sem væru ekki dæmigerðir varnaráverkar, t.d. áverki á handarbaki hægri handar. Þá sagði hann að áverkar á höfði samrýmdust því að þungur steinn hefði lent á höfði hins látna á meðan hann lá á grúfu á jörðinni og eins gæti hinn látni hafa fengið þennan stein í höfuðið áður en hann féll. Hann sagði að banamein hins látna hefði verið miklir höfuðáverkar. Hann sagði að viðkomandi hefði látist á örfáum mínútum eða skemur. Hann sagði að fræðilega gæti eitt spark í höfuð manns dugað til að granda honum.
J, sérfræðingur hjá lögreglunni, sagði að blóð, sem fundist hefði á kantsteini á vettvangi og á skóm ákærða, hefði verið sent í rannsókn og DNA-snið þessara sýna hefði reynst vera það sama og DNA-snið hins látna. Líkurnar á því að blóðið væri úr einhverjum öðrum en hinum látna væru einn á móti milljarði.
H, geðlæknir á geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúss, sagðist hafa rannsakað sakhæfi ákærða. Hún sagði að athugun hennar hefði leitt í ljós að engin efni væru til að draga í efa að ákærði hefði verið sakhæfur á verknaðarstundu. Hún sagðist hafa rætt við ákærða nokkrum sinnum á nokkurra vikna tímabili. Í viðtölum hefði komið skýrt fram að ákærði myndi mjög lítið um aðdraganda þess sem gerðist. Atvik málsins hefðu þó rifjast smám saman upp fyrir ákærða. Þá hefði komið fram hjá ákærða að hann hefði haldið að maðurinn væri að eiga við börn og það hefði gert hann mjög upptekinn af því að fylgja manninum eftir og koma í veg fyrir að hann kæmist undan. Einnig hefði komið skýrt fram að ákærði þekkti ekki manninn og þá hefði ákærði ekki getað gert sér grein fyrir hvað það var sem varð til þess að hann hélt að maðurinn væri barnaníðingur. Hún sagði að ákærði hefði sýnt greinileg merki iðrunar og sektarkenndar vegna þess sem hann gerði, sérstaklega gagnvart fjölskyldu mannsins. Hún sagði að ákærða hefði liðið mjög illa yfir þessu.
Hún sagði að fram hefði komið hjá ákærða að hann myndi óljóst eftir því að hafa verið misnotaður kynferðislega sem barn. Þá hefði komið fram að þessi minning kæmi oft upp í huga hans og að honum þætti óþægilegt að gera sér ekki betur grein fyrir hvað gerðist. Ekki hefði hins vegar komið fram hjá ákærða að hann væri sérstaklega upptekinn af barnaníðingum.
F sagði að þau hjónin hefðu verið að koma úr samkvæmi þessa örlagaríku nótt og verið á gangi heimleiðis á milli klukkan korter yfir þrjú og hálf-fjögur eftir göngustíg, sem skilji að [...]hverfi og [...]hverfi. Þegar þau hefðu komið niður í [...] hefðu þau séð mann standa á miðri götunni. Konan hans hefði þá viljað fara aðra leið, en hann hefði sagt að þetta væri allt í lagi og þau hefðu því haldið áfram. Þau hefðu sennilega bæði litið af manninum augnablik og þegar þau hefðu litið á hann aftur hefði hann verið kominn á fjóra fætur. Þau hefðu þá gengið að manninum og ætlað að athuga hvort ekki væri allt í lagi með hann, en þá hefði maðurinn staðið upp. Þau hefðu þá séð að þetta var A, en vitnið sagðist hafa unnið hjá sama fyrirtæki og A í nokkur ár og einnig hefði A verið vinnufélagi konu hans á þessum tíma. Þegar A hefði staðið upp hefði hann verið reiður á svip, sett í brýnnar og verið tilbúinn með krepptan hnefann, en þegar hann hefði áttað sig á því hver þau voru hefði hann allur blíðkast. Þau hefðu átt gott tal saman og sagði vitnið að þau hjónin hefðu boðist nokkrum sinnum til að hringja á bíl fyrir hann og hefði konan hans verið búinn að taka upp símann í þeim tilgangi. A hefði hins vegar ekki þegið það, en sagst myndu fá leigubíl þarna skammt frá. Leiðir hefði síðan skilið, A dásamað þau í bak og fyrir og síðan gengið í burtu. Sagðist vitnið skömmu síðar hafa litið við og séð að A gekk ekki í áttina að leigubílastöðinni heldur í aðra átt. Þau hjónin hefðu síðan farið heim að sofa.
Hann sagði að A hefði stundum orðið svolítið reiður með víni, en hann hefði aldrei sýnt af sér ofbeldishneigð meðal vinnufélaga sinna. Þá kannaðist hann ekki við að A hefði verið orðljótur. Hann sagði aðspurður að A hefði verið með bjórdós í hægri hendi og sagði að sig minnti að hún hefði verið gyllt. Hann sagðist ekki hafa séð neina áverka á A.
G sagði að þau hjónin hefðu verið að koma úr gleðskap þessa nótt á milli klukkan þrjú og fjögur og þá hefðu þau hitt A á göngustíg, sem væri skammt frá heimili þeirra. Þegar þau hefðu séð hann hefði hann verið á fjórum fótum. Þau hefðu gengið að honum og þegar hann hefði risið upp hefði hann ekki þekkt þau og kreppt hnefann. Þegar hann hafði áttað sig á því hver þau voru hefði hann orðið mjög glaður og ánægður að sjá þau. Hún sagði að þau hefðu strax boðist til að hringja á leigubíl fyrir hann því að þeim hefði ekki fundist hann vera í ástandi til að ganga mikið. Sagði hún að þau hefðu margboðist til þess, en A hefði ávallt neitað því og sagt þeim að hann reddaði sér alltaf. Síðan hefði leiðir skilið og sagði hún að þau hefðu horft aðeins á eftir honum. Aðspurð sagði hún að A hefði haldið á grænni bjórdós, sem hefði verið óopnuð. Hún sagðist hafa heyrt að A gæti skipt skapi, en sagðist sjálf aldrei hafa orðið vitni að því. Einu sinni hefði hann komið í vinnuna með glóðarauga eftir að hafa lent í átökum við einhvern mann niðri í bæ.
IV.
Ákærði hefur játað að hafa sparkað í höfuð og líkama A og kastað kantsteini í höfuð hans með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru að undanskildum opnum sárum, hrufli og mari á höndum og broti á fingrum hægri handar. Þá hefur ákærði kosið að taka ekki afstöðu til þess hvort áverkar þeir, sem hann veitti A, hafi leitt hann til dauða.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa sparkað þrisvar í höfuð A og einnig stappað ofan á höfði hans. Þá sagðist ákærði hafa tekið upp hellustein, lyft honum upp yfir höfuð sér og kastað honum af afli í manninn, en kvaðst ekki hafa séð hvar steinninn lenti. Fram hefur komið að umræddur hellusteinn vó tæp 12 kg.
Samkvæmt framlagðri krufningarskýrslu og framburði réttarlæknis hér fyrir dómi var banamein hins látna miklir höfuðáverkar. Þá bar læknirinn um það að áverkar á hnakka samrýmdust því að þungur steinn hefði lent á höfði hins látna á meðan hann lá á grúfu á jörðinni. Blóðferlarannsókn á vettvangi bendir og til þess að blóðblettir, sem lágu í beinum línum frá höfði A, svokallaðir frákastsblettir, hafi komið við mikið högg þegar höfuð hins látna hefur lent af krafti á blóðugt yfirborð. Þá hefur komið fram að á kantsteininum fannst blóð og hár og reyndist blóðið vera úr hinum látna. Með vísan til alls framangreinds þykir í ljós leitt að umræddur kantsteinn lenti á hnakka hins látna.
Með vísan til framangreinds þykir sannað að andlát A var bein afleiðing þeirra höfuðhögga, sem ákærði hefur játað að hafa veitt honum. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til annarra gagna málsins þykir fram komin lögfull sönnun um að ákærði hafi banað A aðfaranótt 8. maí sl.
Með hliðsjón af þeim miklu áverkum sem voru á hægri hendi hins látna og staðsetningu hennar meðan á ofsafenginni atlögu ákærða stóð, aðallega að höfði hins látna, þykir ekki óvarlegt að telja sannað að áverkar á höndum A, sem frá er greint í ákæru, séu afleiðingar árásarinnar.
Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa kýlt A með krepptum hnefum. Í vottorði bæklunarlæknis kemur fram að áverki, sem var á hægri hendi ákærða við handtöku, sé tognunaráverki, sem geti komið eftir að gripið hefur verið í fingur manns og snúið upp á þá eða ef viðkomandi hefur slegið fingrum utan í eitthvað. Ekki væri um svokallaðan boxaraáverka að ræða, þ.e. beinbrot á hendi eftir högg. Engin merki um högg hafi sést á hnúum ákærða. Með vísan til framangreinds og gegn neitun ákærða þykir því ósannað að ákærði hafi kýlt hinn látna með krepptum hnefum eins og kveðið er á um í verknaðarlýsingu ákæru.
Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða málsins sú að sannað þykir að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru, að því gættu að ekki telst sannað að ákærði hafi kýlt A með krepptum hnefum.
Samkvæmt gögnum málsins er engin ástæða til að draga sakhæfi ákærða í efa. Ákærði hefur ekki getað skýrt með viðhlítandi hætti af hverju hann veittist með svo harkalegum hætti að A og hefur borið við minnisleysi um aðdraganda árásarinnar. Þá hefur ákærði ekki getað skýrt af hverju hann fékk þá hugdettu að A misnotaði börn kynferðislega, en fram hefur komið að ákærði þekkti ekkert til A og hafði aldrei séð hann áður. Árás ákærða var ofsafengin og hrottaleg og hlaut ákærða að vera ljóst að slík atlaga myndi leiða þann sem fyrir henni varð til dauða. Þykir háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Við mat á refsingu verður litið til þess að ákærði hafði ásetning til þess að vinna slíkt tjón sem raun varð á og koma því engar refsilækkandi ástæður til álita.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði á árunum 2000 til 2003 tvívegis gengist undir greiðslu lögreglustjórasektar vegna ölvunaraksturs og einu sinni vegna fíkniefnalagabrots.
Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 16 ár. Gæsluvarðhaldsvist ákærða, sem staðið hefur óslitið frá 9. maí 2010, kemur til frádráttar refsingu með fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Af hálfu B, eiginkonu hins látna, er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 14.831.820 krónur með vöxtum eins og í ákæru greinir.
Í fyrsta lagi er krafist bóta fyrir missi framfæranda að fjárhæð 11.721.639 krónur. Er krafan byggð á 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og sögð reiknuð út frá meðalatvinnutekjum hins látna að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs síðastliðin þrjú almanaksár í samræmi við 7. gr. sömu laga. Heildarlaunatekjur hins látna hafi verið 15.904.530 krónur fyrir síðastliðin þrjú ár eða að meðaltali 5.301.510 krónur í tekjur á ári.
Til stuðnings kröfu þessari hefur einungis verið lagt fram skattframtal hins látna árið 2010 vegna tekna á árinu 2009. Þar kemur fram að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars hins látna var að fjárhæð 3.849.229 krónur að frádreginni sérstakri útgreiðslu séreignarsparnaðar að fjárhæð 1.000.000 króna. Önnur gögn hafa ekki verið lögð fram til stuðnings kröfunni. Telst hún því vanreifuð og verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.
Í öðru lagi er krafist bóta vegna útfararkostnaðar að fjárhæð 839.101 króna sem byggir á útlögðum kostnaði vegna útfarar, erfidrykkju og tónlistarflutnings samkvæmt reikningum. Með því að krafa þessi er studd gögnum og ákærði hefur samþykkt greiðslu hennar þykir rétt með vísan til 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að dæma ákærða til að greiða bótakrefjanda þennan kostnað með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Í þriðja lagi er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Þykir hafið yfir vafa að bótakrefjandi hafi orðið fyrir ólýsanlega þungu sálrænu áfalli við það að missa eiginmann sinn á jafn hörmulegan hátt og reyndin varð. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot á 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eru því uppfyllt skilyrði til þess að dæma bótakrefjanda miskabætur úr hendi hans samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 26. gr. og 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er krafan tekin til greina að fullu og skal fjárhæðin bera vexti eins og í dómsorði greinir.
Í fjórða lagi er krafist þóknunar að fjárhæð 271.080 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum vegna lögmannsaðstoðar. Er fallist á að ákærði skuli dæmdur til greiðslu hennar, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Samtals er ákærða gert að greiða bótakrefjanda 3.110.181 krónu með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Loks ber samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til að greiða allan áfallinn sakarkostnað, sem samkvæmt yfirliti sækjanda nemur 1.107.312 krónum. Þá er ákærða gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hdl, sem þykja hæfilega ákveðin að fjárhæð 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Ellert Sævarsson, sæti fangelsi í 16 ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 9. maí 2010 kemur til frádráttar refsingu.
Ákærði greiði B 3.110.181 krónu í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.839.101 krónu frá 8. maí 2010 til 21. ágúst 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 2.307.312 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hdl., 1.200.000 krónur.