Hæstiréttur íslands

Mál nr. 521/2010


Lykilorð

  • Útivist í héraði
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 24. mars 2011.

Nr. 521/2010.

Júlíus Jóhannesson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Erlingi Jóhannessyni

(Stefán Ólafsson hrl.)

Útivist í héraði. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

Hæstiréttur taldi að héraðsdómara hefði borið að taka málið til dóms í þeim búningi sem það hefði verið í þegar þingsókn féll niður af hálfu J og meðstefndu í héraði, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda lá ekkert fyrir um að lögmæt forföll hefðu hindrað mætingu af þeirra hálfu, sbr. 97. gr. sömu laga. Var meðferð málsins því ómerkt frá og með þeim degi er útivist varð, að því er varðar J, og lagt fyrir héraðsdóms að taka málið til löglegrar meðferðar, en meðstefndu í héraði áttu ekki aðild að málinu fyrir Hæstarétti og varð því ekki hróflað við héraðsdóminum að því er þá snerti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson og Halldór Björnsson dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2010. Hann krefst aðallega sýknu  af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og þess að málskostnaður falli niður. Verði fallist á bótaskyldu krefst hann þess að í dómi verði kveðið á um „hvernig bótaskyldan skuli skiptast innbyrðis meðal áfrýjanda og meðstefndu til héraðsdóms.“

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Með heimild í 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málið flutt sérstaklega um formhlið þess.

Við þingfestingu málsins í héraði 11. nóvember 2008 var sótt þing af hálfu allra hinna stefndu þar fyrir dómi. Þá var bókað að málinu væri frestað til 9. desember 2008 „og er þá gert ráð fyrir að stefndu skili inn greinargerð.“ Þegar málið var tekið fyrir síðast nefndan dag var hins vegar ekki sótt þing af hálfu stefndu og það fært til bókar. Allt að einu var málinu frestað til 13. janúar 2009 og bókað: „... og er lagt fyrir stefndu að skila þá greinargerð.“ Við rekstur málsins áfram var nokkrum sinnum í viðbót fært til bókar að ekki væri sótt þing af hálfu stefndu og í eitt sinn, 12. mars 2009, að ekki væri sótt þing af hálfu aðila.

Þegar þingsókn féll niður af hálfu stefndu 9. desember 2008 bar héraðsdómara að fara svo að sem segir í 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 og taka málið til dóms í þeim búningi sem það þá var í, enda liggur ekkert fyrir um að lögmæt forföll hafi hindrað mætingu af hálfu hinna stefndu, sbr. 97. gr. laganna. Þetta gerði héraðsdómari ekki og er því óhjákvæmilegt að ómerkja meðferð málsins frá og með fyrrgreindum degi 9. desember 2008, að því er varðar áfrýjanda, og leggja fyrir héraðsdóm að taka það til löglegrar meðferðar. Aðrir, sem stefnt var í héraði, eiga ekki aðild að málinu fyrir Hæstarétti og verður því ekki hróflað við héraðsdóminum að því er þá varðar.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Meðferð málsins frá og með 9. desember 2008  að því er varðar kröfu stefnda, Erlings Jóhannessonar, á hendur áfrýjanda, Júlíusi Jóhannessyni, er ómerkt og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. júní 2010.

I

Mál þetta var þingfest 11. nóvember 2008 en tekið til dóms 4. þessa mánaðar.

Stefnandi er Erlingur Jóhannesson, Barmahlíð 5, Sauðárkróki.

Stefndu eru Júlíus Jóhannesson, Erluási 5, Hafnarfirði, Jón Pétur Ólafsson, Úthlíð 6, Hafnarfirði, og Hendill ehf., Furuhlíð 6, Sauðárkróki.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til að greiða honum 6.297.093 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.049.398 krónum frá 24. júlí 2003 til 24. júlí 2004, en frá þeim degi af 5.614.113 krónum til 1. ágúst 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi Júlíus krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti. Til vara krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og þá verði málskostnaður látinn niður falla. Þá krefst stefndi þess einnig ,verði fallist á bótaskyldu hans, að dómurinn kveðið á um hvernig bótaskylda skuli skiptast innbyrðis meðal allra stefndu.

Stefndu Jón Pétur og Hendill ehf. krefjast þess aðallega að þeir verið sýknaðir af kröfum stefnanda. Til vara krefjast þeir þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilfellum krefjast þeir málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II

Málavextir

Hinn 17. júlí 2003 gerðu stefndi Júlíus og stefndi Jón Pétur samning þess efnis að stefndi Jón Pétur tæki að sér múrviðgerðir og steiningu á húsi stefnda Júlíusar að Erluási 5, Hafnarfirði. Stefndi Jón Pétur fékk síðan stefnda Hendil ehf. sem undirverktaka til að aðstoðað sig við verkið. Stefndi Júlíus var byggingarstjóri að verkinu. Stefnandi starfaði á þessum tíma sjálfstætt sem múrari og vann sem slíkur hjá stefnda Hendli ehf. en ágreiningur er um það í málinu hvort stefndi Hendill ehf. hafi borið húsbóndaábyrgð á stefnanda.

Til að unnt væri að vinna umsamið verk reisti stefndi Júlíus, sem er rafvirki, tæknifræðingur og verkfræðingur að mennt, vinnupalla við hús sitt en í samningi Júlíusar og Jóns Péturs var ákvæði þess efnis að hann skyldi reisa slíkan pall. Í samningnum var ákvæði þess efnis að stefndi Jón Pétur skyldi kynna sér verkpalla og samþykkja þá áður en vinna hæfist.

Hinn 24. júlí 2003 varð það óhapp að verkpallurinn gaf sig en þá var verkið langt komið og sú hlið hússins þar sem pallurinn hrundi sú eina sem ekki hafði verið lokið við. Stefnandi greinir frá því í lýsingu sinni á málavöxtum að verkpallurinn hafi verið í um 3,3 metra hæð þar sem hann hrundi. Hann sjálfur hafi fallið lóðrétt til jarðar og lent á þverspýtu með mjóbakið en einnig hafi hann fengið högg á hægri handlim, hægri öxl og hægri hluta brjóstkassa. Þrír aðrir starfsmenn voru á pallinum þegar hann féll og stóðu þeir allir á tiltölulega litlu svæði á því horni pallsins sem gaf sig en fleiri menn voru ekki við vinnu á staðnum á þessum tíma. Allir fóru mennirnir til læknis og mun starfsmaður spítalans hafa tilkynnt vinnueftirliti um slysið. Á þeim tíma sem slysið varð var stefndi Júlíus ekki á staðnum en hann kom þangað fljótlega eftir slysið og endurreisti vinnupallinn áður en starfsmenn vinnueftirlits og lögregla komu á vettvang.

Meðal gagna málsins er skýrsla Vinnueftirlits ríkisins sem gerð var vegna slyssins. Í skýrslunni er tildrögum slyssins lýst þannig: „Tildrög slyssins voru þau að þrír múrarar og aðstoðarmaður þeirra voru komnir út á vinnupall sem þeir hugðust nota við steiningu hússins. Þeim þótti pallurinn grunsamlega svagur og fór Erlingur þá og sótti hamar og hugðist auka neglinguna. Þegar hann kom aftur út á pallinn hrundi pallurinn skyndilega undan þunga mannanna og féllu þeir allir með honum niður á jörð. Við fallið slösuðust tveir mannanna, Jón Pétur hlaut minni háttar meiðsl en Erlingur slasaðist meira. Hinir tveir mennirnir sluppu ómeiddir. Hæð vinnupallsins var 2.70 metrar og lengd þess hluta hans sem hrundi var 3.80 m. Engar spýtur í pallinum brotnuðu og er því alveg ljóst að hann hrundi vegna ófullnægjandi neglingar. Ætla má að neglingin hafi byrjað að gefa sig um leið og mennirnir komu út á pallinn þó þeir hafi ekki áttað sig á því hvað var að gerast. Þá hafi naglarnir dregist út að mestu og pallurinn nánast hangið uppi þegar Erlingur kom aftur með hamarinn. Lýsingin á því hvað pallurinn hrundi snögglega bendir eindregið til þess að svo hafi verið.“ Lögregla kom einnig á vinnustaðinn eftir slysið. Í skýrslu lögreglu kemur fram að búið hafi verið að reisa vinnupallinn að nýju þegar lögreglu bar að garði og ekkert að sjá sem skýrt gæti orsakir þess að hann hrundi. Í skýrslu lögreglu kemur fram að rætt hafi verið við stefnanda. Stefnandi hafi lýst því að þegar hann var að hefja störf á pallinum hafi hann tekið eftir því að langborðin undir palldekkinu voru illa negld og þá hafi engar skástífur verið til staðar. Stefnandi hafi þá ákveðið að styrkja pallinn. Hann hafi sótt hamar og farið upp á pallinn til að sækja nagla og tröppur en um leið og hann hafi komið út á pallinn hafi hann hrunið. Þá er í skýrslu lögreglu haft eftir stefnanda að stefndi Jón Pétur hafi verið búinn að taka eftir því að pallurinn var nánast ónegldur.

Eftir að stefndu höfðu skilað greinargerð fékk stefnandi dómkvadda tvo matsmenn til að meta tjón hans en áður en málið var höfðað hafði hann sjálfur fengið lækni til að meta tjón sitt.

III

Málsástæður og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að ástæða slyssins hafi verið sú að fyllsta öryggis hafi ekki verið gætt og stefndu beri bótaábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir. Vísar hann til meginreglna skaðabótaréttar um bótaskyldu vegna saknæms vanbúnaðar á vinnustað. Af gögnum málsins, svo sem framburði vitna, skýrslu Vinnueftirlits ríkisins og skýrslu lögreglu, megi ráða að honum og samstarfsmönnum hans hafi verið gert að nota ófullnægjandi og ólöglegan verkpall við vinnu sína. Stefndu hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru til byggingarstjóra, verktaka og atvinnurekanda um að tryggja öryggi starfsmanna á vinnustað en stefndu hafi borið að tryggja að verkið væri unnið við viðunandi aðstæður. Stefndi heldur því fram að orsök slyssins hafi verið ófullnægjandi negling á vinnupallinum eins og fram kemur í skýrslu vinnueftirlits. Stefnandi bendir á að í verksamningi milli stefndu Júlíusar og Jóns Péturs komi fram að stefndi Júlíus sem jafnframt var verkkaupi og byggingarstjóri skyldi leggja til vinnupalla. Stefndi Jón Pétur sem hafi tekið verkið að sér hafi átt að kynna sér verkpallana og samþykkja þá fyrir notkun. Stefnandi bendir á máli sínu til stuðnings að í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sé vísað til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, m.a. til 13. gr., 16. gr. , 37. gr., 42. gr. og 79. gr. laganna en í þeim greinum sé mælt fyrir um að öryggi starfsmanna skuli tryggt. Þá hafi verið vísað til 2. gr., 3. gr., 1. lið 4. gr., 5. gr., a. liðar 6. gr., a. og b. liðar 7. gr., 1. og 2. liðar 8. gr., 1., 2. og 3. liðar d og 16. gr. í IV. viðauka í reglum nr. 574/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Loks sé vísað til 3. kafla í reglugerð 204/1972 um öryggisráðstafanir við byggingarvinnu, 32. til 37. gr. Þessum almennu og sérstöku skyldum hafi stefndu brugðist og því beri þeir skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hin saknæma og ólögmæta vanræksla þeirra olli. Stefnandi heldur því fram að stefndu hafi brotið gegn lögum nr. 46/1980 og reglugerðum settum samkvæmt þeim og að bein orsakatengsl séu á milli brota þeirra og þess tjóns sem hann varð fyrir. Ef verkpallurinn hefði verið reistur á forsvaranlegan hátt og þess gætt að farið væri að settum reglum við verkið hefði nánast engin hætta verið á slysi. Stefndu beri skaðabótaábyrgð á því að þessi atriði voru ekki í lagi af þeirra hálfu sem vinnuveitanda, byggingarstjóra og verktaka.

Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda Júlíusi m.a. á ákvæði 36. gr. nefndra laga nr. 46/1980 en þar komi fram að þar sem fleiri en einn verktaki starfi samtímis við mannvirkjagerð skuli byggingarstjóri sjá um að samhæfðar séu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slys. Stefnandi segir ábyrgð stefnda Jón Péturs m.a. koma fram í 2. gr., 3. gr. 1. lið 4. gr. og 8. gr. reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996. Kröfur á hendur stefnda Hendli ehf. reisir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð.

Stefnandi heldur því fram að á atvinnurekanda, byggingarstjóra, verktaka og verkkaupa hvíli sú skylda að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins, sbr. ákvæði XII. kafla laga nr. 46/1980 og reglur nr. 612/1989, og hlutast þar með til um rannsókn á tildrögum slyss. Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 sé mælt fyrir um að tilkynna skuli slys eins og hér um ræðir innan sólarhrings frá því að það átti sér stað. Slys stefnanda hafi ekki verið tilkynnt innan þessara marka og hafi raunar ekki enn verið tilkynnt. Þá liggi fyrir að sönnunargögnum málsins hafi verið spillt af stefndu. Stefndu hafi mátt vera ljóst að alvarlegt slys hafði átt sér stað og þeim hafi borið að tryggja að Vinnueftirlit ríkisins gæti rannsakað slysavettvang eins og hann var þegar slysið varð. Stefndu hafi brugðist lögboðinni tilkynningarskyldu sinni. Stefnandi heldur því fram að af þessum sökum beri stefndu hallann af hugsanlegri óvissu um nákvæma orsök og tildrög slyssins en slík óvissa kunni að vera uppi vegna skorts á gögnum og upplýsingum um gerð verkpallsins og aðstæður á slysstað. Stefnandi hafi hins vegar enga sök átt á slysinu og því fráleitt að svipta hann bótarétti með vísan til eigin sakar en hann hafi mátt treysta því að farið hafi verið að settum reglum við smíði pallsins.

Stefnandi byggir á því að slysið sem hann varð fyrir í umrætt sinn hafi leitt til þess að hann sé með viðvarandi verki í mjóbaki með leiðni í nára og niður í hægri ganglim. Einnig séu þunglyndi og kvíði afleiðingar slyssins. Þá séu hreyfingar í baki, hálsi og öxlum skertar. Gísli Óskarsson læknir hafi metið örorku stefnanda og skilað matsgerð. Síðan hafi verið dómkvaddir matsmenn og matsgerð þeirra dagsett 11. maí 2009 sé meðal gagna málsins. Helstu niðurstöður séu þær að varanlegur miski sé 17 stig og fjárhagsleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi verið metin 20%. Bótakrafa stefnanda sé byggð á nefndum mötum og á grundvelli 5. og 6. gr. skaðabótalaga sundurliðist hún svo:

1 Annað fjártjón                                            

682.980 krónur

2 Tímabundið atvinnutjón

547.963 krónur

3 Þjáningabætur

90 x 1.410                                           

126.900 krónur

4 Bætur vegna varanlegs miska

17% af 8.085.500

1.374.535 krónur

5 Bætur vegna varanlegrar örorku 

3.564.715 krónur

Samtals

6.297.093 krónur

Varðandi fyrsta liðinn hér að framan segir stefnandi að samkvæmt 1. gr. nefndra skaðabótalaga skuli sá sem ber ábyrgð á tjóni greiða skaðabætur m.a. vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns sem af líkamstjóni hlýst. Hann hafi orðið fyrir margs konar kostnaði vegna líkamstjóns síns, þar á meðal sjúkra- og lyfjakostnaði auk kostnaðar vegna örorkumata, skattframtala o.fl. Krafa hans samkvæmt þessum lið sé byggð á reikningum sem séu meðal gagna málsins.

Sem rök fyrir öðrum lið kröfu sinnar segir stefnandi að samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga skuli greiða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá því að tjón varð þangað til að tjónþoli geti hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans sé orðið stöðugt. Dómkvaddir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi verið óvinnufær í 90 daga vegna slyssins og á þeim tíma hafi hann ekki fengið greidd laun. Til grundvallar þessari fjárhæð sé tekið mið af uppreiknuðum tekjum stefnanda á árunum 2000 til 2002 sem voru að meðaltali 2.191.854 krónur á ári og krafa hans miðist við meðaltalslaun í þrjá mánuði. Til vara krefst stefnandi þess að miðað verði við lágmarkslaun við upphaf varanlegrar örorku sem voru samkvæmt framlögðum útreikningi á bótakröfu stefnanda 1.701.500 krónur á ári en þriggja mánaða laun séu því 425.375 krónur.

Stefnandi reisir kröfu sína um þjáningabætur sem fram kemur í þriðja lið kröfu hans á 3. gr. skaðabótalaga. Þjáningabætur hafi verið reiknaðar með hliðsjón af mati dómkvaddra matsmanna. Samkvæmt því reiknist þjáningabætur fyrir sama tímabil og stefnandi var óvinnufær eða í þrjá mánuði. Fyrir dag sem hann var veikur án þess að vera rúmliggjandi reiknist 1.410 krónur eftir að fjárhæðir 3. gr. skaðabótalaga hafa verið uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. laganna. Stefnandi hafi vegna slyssins verið veikur í 90 daga án þess að vera rúmliggjandi og því nemi krafa hans í þessum lið 126.900 krónum.

Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á 4. gr. skaðabótalaga og matsgerðum sem liggja fyrir í málinu. Matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins sé 17%. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni 4.000.000 króna uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu og þannig út reiknuð sé krafa stefnanda 1.374.535 krónur.

Krafa vegna varanlegrar örorku er reist á ákvæðum 5. til 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku taka mið af árslaunum sem nemi meðalvinnutekjum tjónþola að meðtöldu framlagi til lífeyrissjóðs síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma er upphaf varanlegrar örorku miðast við. Uppreiknuð laun stefnanda hafi verið margfölduð með stuðli 6. gr. skaðabótalaga (8,132) og metinni örorku (20%). Krafan reiknist því þannig 2.191.854 x 8,132 x 20% = 3.564.715 krónur.

Stefnandi sundurliðar vaxtakröfu sína á þann hátt að hann krefst 4,5% ársvaxta af 2.049.398 krónum (tímabundið atvinnutjón, varanlegur miski og þjáningabætur) frá slysdegi hinn 24. júlí 2003 til 1. ágúst 2009 og lögbundinna dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags en þá var liðinn mánuður frá því að kröfubréf var sent stefndu. Allt í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 25/1987. Þá krefst hann 4,5% ársvaxta af 3.564.715 krónum (varanleg örorka) frá 24. júlí 2004 sem er upphafsdagur metinnar örorku til 1. ágúst 2009 en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst stefnandi dráttarvaxta af 682.980 krónum (annað fjártjón) frá 1. ágúst 2009 til greiðsludags.

Stefndi Júlíus byggir aðalkröfu sína á því að hann beri ekki ábyrgð á því að vinnupallurinn hafi hrunið hinn 24. júlí 2003.

Í fyrsta lagi er á því byggt að verkpallurinn hafi verið smíðaður í samræmi við 32. gr. reglugerðar nr. 204/1972 en leyfilegt álag á fermetra hafi verið 200 kg og svo 275 kg miðað við sama flöt. Stefndi heldur því fram að orsök slyssins hafi verið sú að álagið á pallinn hafi verið of mikið þegar fjórir menn stóðu saman á sama fleti á horni pallsins. Telur hann ljóst að samanlagður þungi mannanna hafi verið mun meiri en 275 kg og því verði honum ekki um kennt að pallurinn hrundi. Stefnda Jóni Pétri eða verkstjórum Hendils ehf. hafi borið að viðhafa verkstjórn og gæta þess að menn söfnuðust ekki saman á einn stað á pallinum. Þá bendir stefndi á að í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sé ekkert fjallað um þetta atriði sem þó hafi augljóslega verið efni til.

Í öðru lagi reisir stefndi sýknukröfu sína á því að ábyrgð á smíði og notkun pallsins hafi verið hjá stefnda Jóni Pétri. Hann hafi sem verktaki undirgengist að taka út smíði pallsins á sína ábyrgð og jafnframt að vátryggja sig og aðra sem að verkinu kæmu á hans vegum. Þegar Jón Pétur hóf að nota pallinn hafi hann samþykkt smíði hans og að pallurinn hefði fullnægjandi styrkleika, ef til vill að undangengnum sérstökum styrkingum en um það hafi stefnda ekki verið kunnugt. Stefndi heldur því fram að þó svo hann sé eigandi hússins að Erluási 86 og hann hafi verið skráður byggingarstjóri þess þá hafi ekki falist í því ábyrgð á líkamstjóni sem kynni að verða á verkstað. Ábyrgð byggingarstjóra taki til faglegra þátta en ekki eftirlits með iðnmeisturum og þá beri hann ekki ábyrgð á framkvæmd eða tilhögun verksins. Stefnandi hafi starfað sem sjálfstæður múrari, undirverktaki hjá Hendli ehf., og hann eigi því að krefjast bóta úr hendi viðsemjenda sinna.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi Júlíus beri fébótaábyrgð á afleiðingum þess að vinnupallurinn hrundi heldur stefndi því fram að eigin sök stefnanda leiði til sýknu. Í þessu sambandi bendir hann á að samkvæmt vætti stefnanda hafi hann orðið þess var, áður en pallurinn hrundi, að pallurinn var óstöðugur og hann hafi þá farið af pallinum, sótt sér verkfæri og gengið aftur upp á pallinn þótt þar væru fyrir þrír menn. Ljóst sé að stefnandi, sem er reyndur múrari, hafi með þessu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Honum hafi mátt vera ljóst að eigin þyngd hans að viðbættri þyngd þeirra sem fyrir voru gæti valdið því að pallurinn hryndi. Stefnanda hafi borið að ganga úr skugga um það að pallurinn væri nægjanlega styrkur áður en vinna hæfist á honum. Þar sem honum hafi verið ljóst að pallurinn var óstyrkur hafi honum borið að kalla mennina af pallinum og tilkynna verkstjóra um grunsemd sína að styrkja þyrfti pallinn en það hafi mátt gera án mikillar fyrirhafnar. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlits ríkisins hafi ekki annað verið að pallinum en að hann hafi ekki verið negldur á fullnægjandi hátt. Þess vegna hefði viðbótarnegling í borðin sem báru pallinn uppi verið nægjanleg til að varna hruni hans. Með því að fara ekki að með eðlilegri gát hafi stefnandi sjálfur valdið því að pallurinn hrundi og tjón hans eingöngu rakið til hans eigin háttsemi. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að ágreiningslaust er að stefnandi tilkynnti stefnda Júlíusi ekki að hann hefði orðið þess var að pallurinn var óstöðugur og því hafi stefndi ekki getað brugðist við því. 

Varakrafa um lækkun bótakröfu stefnanda er reist á þeim sjónarmiðum sem að framan eru rakin varðandi eigin sök stefnanda.

Stefndi Júlíus krefst þess að með vísan til 25. gr. laga nr. 50/1993 verði tiltekið í dóminum hvernig sök skuli skipt milli allra stefndu. Í því sambandi er þess krafist að stefndi Jón Pétur og eftir atvikum Hendill ehf. beri frumábyrgð á tjóni stefnanda en stefndi Júlíus aðeins afleidda ábyrgð. Þá verði ábyrgð að fullu lögð á þá stefndu, aðra en stefnda Júlíus, sem hafa lögboðna ábyrgðartryggingu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1993 ef slík ábyrgð er til staðar.

Stefndu Jón Pétur og Hendill ehf. reisa sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þeir beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda. Upplýst sé að ástæða þess að pallurinn hrundi hafi verið sú að hann var ekki nægjanlega vel negldur. Stefndi Júlíus hafi reist pallinn án þess að aðrir stefndu kæmu að því verki og handvömm á smíði pallsins sé því á ábyrgð stefnda Júlíusar. Stefndi Júlíus hafi verið byggingarstjóri hússins og sem slíkur borið ábyrgð á því að ýtrustu öryggisráðstafana væri gætt á vinnustaðnum. Á þessu hafi augljóslega orðið misbrestur með þeim afleiðingum sem raun ber vitni. Þetta leiði til þess að stefndi Júlíus sé einn ábyrgur fyrir tjóni stefnanda.

Stefndu halda því fram að ákvæði í verksamningi milli stefnda Júlíusar og stefnda Jóns Péturs þess efnis að Jón Pétur skuli kynna sér pallinn og samþykkja hann fyrir notkun breyti engu um þetta. Þetta ákvæði í samningnum sé staðlað ákvæði sem feli í sér að múrarameistari skuli framkvæma almenna úttekt á verkpalli, þar með talið hvort hann sé rétt upp byggður og búinn viðeigandi öryggisbúnaði eins og handriði. Handvömm eins og var á pallinum sem stefndi Júlíus reisti við hús sitt geti auðveldlega leynst reyndustu mönnum við skoðun. Skoðun á palli eins og þessum veiti enga tryggingu fyrir því að ekki geti verið um galla að ræða í smíðinni.

Ákvæði verksamningsins sem getið er hér að framan leggi ekki aukna ábyrgð á stefnda Jón Pétur gagnvart stefnanda að það fríaði stefnanda þeim skyldum sínum að gæta sjálfur að öryggi sínu. Stefndu benda á að stefnandi sé múrarameistari með langa reynslu í sínu fagi. Hann hafi því sjálfur verið jafn vel hæfur til að meta öryggi pallsins eins og stefndi Jón Pétur. Nefnt ákvæði verksamningsins hafi ekki skapað stefnanda neinn rétt á hendur stefnda Jóni, auk þess hafi ekki verið neitt samningssamband milli stefnanda og stefnda Jóns Péturs. Stefndi Jón Pétur hafi verið aðalverktaki og sem slíkur gert samning við Hendil ehf. sem undirverktaka. Stefnandi hafi síðan starfað sem undirverktaki hjá stefnda Hendli ehf. og gert því félagi reikning og fengið greitt frá því.

Stefndi Hendill ehf. reisir sýknukröfu sína einnig, hvað hann varðar, á því að hann hafi ekki haft húsbóndavald yfir stefnanda líkt og haldið er fram í stefnu. Stefnandi hafi ekki verið starfsmaður hans heldur sjálfstæður verktaki sem vann hjá stefnda þegar verkefni voru fyrir hendi en hann hafi einnig iðulega unnið alveg sjálfstætt eða hjá öðrum meisturum. Stefnandi hafi gert Hendli ehf. reikning fyrir verk sitt, innheimt virðisaukaskatt og launatengd gjöld sem hann skilaði til réttra yfirvalda. Stefnanda hafi sem sjálfstæðum verktaka borið að kaupa og halda í gildi fullnægjandi slysatryggingu. Stefndi Hendill ehf. hafi því ekki borið húsbóndaábyrgð að stefnanda og hann sé því ekki ábyrgur fyrir tjóni hans á þeim grundvelli.

Stefndu Jón Pétur og Hendill ehf. hafna því alfarið að þeir beri ábyrgð á tjóni stefnanda, hvort sem er á grundvelli sakar, annarra réttarreglna eða sérstaks samningssambands. Þá reisa þeir varakröfu sína um lækkun dómkrafna stefnanda á sömu sjónarmiðum og þeir byggja á varðandi aðalkröfu sína um sýknu. Hvorugur þeirra beri ábyrgð á þeim galla sem var á pallinum og orsakaði slysið og þá beri þeir ekki ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli annarra réttarreglna. Stefndi Júlíus byggði pallinn í upphafi og endurreisti hann eftir slysið, áður en hann var rannsakaður. Með því hafi hann fellt á sig ábyrgð á ástandi vinnupallsins.

Hvað lagarök varðar vísa stefndu til meginreglna skaðabótaréttarins um grundvöll og ákvörðun bóta, til reglna um sönnun og sönnunarbyrði fyrir tjóni og fjárhæð þess og ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum til I. kafla laganna. Þá vísa þeir einnig til reglna réttarfars um sönnun, sönnunarbyrði og sönnunargögn, einkum til IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Eftir að niðurstaða tveggja dómkvaddra matsmanna lá fyrir var ekki lengur tölulegur ágreiningur í málinu um tjón stefnanda vegna slyssins. Þó gerðu stefndu athugasemdir við tjón vegna tímabundins atvinnutjóns og þá gerðu þeir athugasemdir við þjáningabætur. Af þessum sökum eru ekki efni til að rekja málsástæður og lagarök stefndu varðandi hvert tjón stefnanda var og hvort hann hafi fært fram nægjanlega sönnun fyrir því.

Að framan er rakinn aðdragandi þess að vinnupallurinn hrundi. Fyrir liggur að stefndi Júlíus endurreisti pallinn áður en starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins og lögregla komu á vettvang. Af þeim sökum var rannsókn á orsökum slyssins erfiðari og aðstaðan að því leyti í raun sú sama og verið hefði ef slysið hefði ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins svo sem skylt er skv. ákvæði 80. gr. laga nr. 46/1980. Ekki verður fallist á með stefnda Júlíusi að nauðsynlegt hafi verið að endurreisa pallinn til að afstýra verulegu tjóni. Þvert á móti bendir ekkert til annars en að framburður stefnda Jóns Péturs og forsvarsmanns Hendils ehf. sé réttur en þeir báru báðir að með litlum tilkostnaði hefði mátt lagfæra það verk sem búið var að vinna. Með umræddum athöfnum spillti stefndi Júlíus að ástæðulausu vettvangi og ber hann hallann af sönnunarskorti sem til þeirra má rekja.

Að mati dómsins verður ekki á það fallist með stefnda Júlíusi að unnt sé að rekja slysið til þess að of margir þungir menn hafi safnast saman í hnapp á pallinum en þeir voru ekki fleiri en eðlilegt var miðað við það verk sem vinna átti. Þá má ráða af framburði aðila og vitna, sem fyrir dóminn komu, að þeir stóðu ekki allir í einum hnapp á litlu svæði. Dómurinn telur að flest bendi til þess að mat Vinnueftirlits ríkisins sé rétt þannig að ástæðu slyssins megi rekja til ónægrar neglingar. Fær sú niðurstaða stoð í framburði stefnda Jóns Péturs sem kvaðst hafa leitað eftir ástæðu slyssins áður en hann fór til læknis. Hann sagðist hafa séð að þverstífu á annarri uppistöðu frá horninu, að innanverðu, hefði einungis verið tyllt með tveimur 2,5 tommu nöglum en þeir ekki verið reknir inn. Þá hefði næsta stoð frá horninu, fjær, heldur ekki verið fullnegld. Samkvæmt öllu þessu verður við úrlausn málsins lagt til grundvallar að pallurinn hafi, vegna ónægrar neglingar, ekki staðist kröfur sem gerðar eru til mannvirkis af þessari gerð.

Fyrir liggur að stefndi Júlíus reisti pallinn og var ábyrgur fyrir því að hann stæðist kröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja. Á pallinum var missmíð sem stefndi Júlíus ber ábyrgð á gagnvart stefnanda, en samningur stefnda Júlíusar við stefnda Jón Pétur, þess efnis að Jón Pétur tæki pallinn út fyrir notkun og að úttekt lokinni væri pallurinn á ábyrgð Jóns Péturs, leysir stefnda Júlíus ekki undan ábyrgð gagnvart stefnanda sem hann ber á grundvelli sakar.

Stefndi Jón Pétur var aðalverktaki við framkvæmdina. Hann gerði samning við stefnda Júlíus um verkið. Í samningi þeirra var samkvæmt áðursögðu ákvæði þess efnis að Jón Pétur skyldi sem verktaki kynna sér verkpalla og samþykkja þá fyrir notkun. Eftir samþykki hans skyldu verkpallarnir vera á hans ábyrgð. Við mat á sök Jóns Péturs varðandi missmíð pallsins verður að horfa til þessa samnings svo og þess að hann var aðalverktaki og hafði sem slíkur skyldum að gegna gagnvart þeim sem unnu á svæðinu. Jóni Pétri var skylt að skoða pallinn fyrir notkun en af framburði hans fyrir dóminum má ráða að skoðun hans var aðallega fólgin í því að kanna hvort handrið væru trygg og hvort gott væri að vinna á pallinum. Hann skoðaði ekki sérstaklega allar neglingar pallsins en ætla verður að skoðunin hafi tekið mið af því að pallurinn var reistur í þeim tilgangi að á honum færi fram vinna við múrverk. Hér verður einnig að horfa til þess hver reisti pallinn og hvað stefndi Jón Pétur mátti ætla varðandi byggingu hans. Fyrir liggur að stefndi Júlíus er rafvirki, tæknifræðingur og verkfræðingur að mennt og því mátti stefndi Jón Pétur gera ráð fyrir því að pallurinn hefði verið reistur í samræmi við reglur um slík mannvirki, þar með talið að hann væri rétt negldur. Að því virtu er það mat dómsins að stefndi Jón Pétur hafi framkvæmt eðlilega skoðun á pallinum áður en hann var tekinn í notkun og verður hann af þeim sökum ekki, á grundvelli sakar, talinn bera ábyrgð gagnvart stefnanda á tjóni hans. Stefndi Jón Pétur verður því sýknaður af kröfum stefnanda.

Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda Hendli ehf. á reglum um húsbóndaábyrgð. Til þess að sú regla geti átt við í málinu þarf að vera til staðar sök hjá starfsmönnum þess félags. Fyrir liggur að stefndi Hendill ehf. var undirverktaki við verkið og kom ekki að smíði pallsins. Þá hafði hann ekki sérstakar skyldur gagnvart stefnanda, sem undirverktaka, til að kynna sér með ítarlegum hætti smíði vinnupallsins. Verður stefndi Hendill ehf. því sýknaður af kröfum stefnanda.

Allir stefndu halda því fram að stefnandi beri sjálfur ábyrgð, a.m.k. að hluta, á tjóni sínu á grundvelli eigin sakar. Fyrir liggi að stefnanda hafi verið ljóst að pallurinn var ekki nægilega stöðugur og því hafi honum borið að grípa til viðeigandi ráðstafana til að varna tjóni.

Ekki verður talið að stefnandi hafi haft ástæðu eða borið sérstök skylda til þess að skoða pallinn áður en hann hóf á honum störf. Í skýrslu lögreglu, sem er meðal gagna málsins, er haft eftir stefnanda að hann hafi tekið eftir því, þegar hann var að hefja störf á pallinum, að langborðin undir palldekkinu voru illa negld og þá hafi engar skástífur verið til staðar. Stefnandi hafi því ákveðið að styrkja pallinn, hann sótt hamar, og farið upp á pallinn til að sækja nagla og tröppur sem þar voru. Um leið og stefnandi hafi komið upp á palldekkið hafi pallurinn hrunið. Fyrir dómi kannaðist stefnandi ekki við þessa lýsingu heldur bar að hann hafi tekið eftir því að skástífur vantaði á öðrum stað og því hafi pallurinn verið svagur og hann ætlað að lagfæra þetta. Stefnandi hafnaði því alfarið að hafa sagt við lögreglumanninn að neglingu væri ábótavant. Gegn andmælum stefnanda verður lögregluskýrslan, sem ekki var tekin með formlegum hætti, staðfest af skýrsluritara fyrir dóminum eða undirrituð af stefnanda, ekki lögð til grundvallar í máli þessu. Verður stefnandi því ekki látinn bera neinn hluta tjóns síns sjálfur.

Stefnandi reisir fjárhæð bótakröfu sinnar á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Ekki er tölulegur ágreiningur varðandi útreikning stefnanda á bótakröfunni. Stefndu andmæltu þó kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og kröfu vegna þjáningabóta. Í matsgerðinni kemur fram að batahvörf hafi orðið 24. júlí 2005 eða um ári eftir slysið. Matsmenn gera ráð fyrir að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna slyssins í 90 daga á tímabilinu fram að batahvörfum og þá segja þeir að tímabil þjáninga teljist vera 90 dagar þar sem stefnandi var ekki rúmliggjandi. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt og verður hún lögð til grundvallar við úrlausn málsins og verður krafa stefnanda varðandi þessa tvo þætti einnig tekin til greina. Krafa stefnanda um annað fjártjón samanstendur aðallega af greiðslum fyrir matsgerð, greiðslum til dómkvaddra matsmanna og greiðslum fyrir læknisvottorð. Greiðslur til dómkvaddra matsmanna að fjárhæð 493.900 eru hluti málskostnaðar og verður tekið tillit til þess kostnaðar við ákvörðun hans. Aðrir hlutar kröfu hans fyrir annað fjártjón að fjárhæð 189.080 krónur eru studdir reikningum og verða þeir teknir til greina.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi hinn 22. október 2007. Þóknun lögmanns hans ákvarðast 627.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá er kostnaður vegna matsgerðar að fjárhæð 493.900 krónur, eins og áður greinir, hluti málskostnaðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður stefndi Júlíus dæmdur til að greiða stefnanda 5.793.193 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán Ólafsson hæstaréttarlögmaður. Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður gætti hagsmuna stefnda Júlíusar en Jón Auðunn Jónsson hæstaréttarlögmaður fór með málið fyrir stefndu Jón Pétur og Hendil ehf.

Málið er dæmt af Halldóri Halldórssyni dómstjóra, Jóni Magnússyni byggingaverkfræðingi og Guðmundi Ómari Guðmundssyni húsasmíðameistara.

Dómsorð

Stefndi Júlíus Jóhannesson greiði stefnanda, Erlingi Jóhannessyni, 5.803.193 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.049.398 krónum frá 24. júlí 2003 til 24. júlí 2004, en af 5.614.113 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.803.193 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu Jón Pétur Ólafsson og Hendill ehf. eru sýkn af kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.121.400 krónur, þar með talin þóknun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns að fjárhæð 627.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.