Hæstiréttur íslands

Mál nr. 327/2017

Þrotabú IceCapital ehf. (Haukur Örn Birgisson hrl.)
gegn
Pluma ehf. (Guðbjarni Eggertsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Þb. I ehf. krafðist riftunar á nánar tiltekinni ráðstöfun þb. M ehf. til P ehf. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna, kom meðal annars fram að með vísan til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiddi að kröfugerð og reifun í máli sem höfðað væri til riftunar á ráðstöfun þrotamanns samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. yrði að fela í sér afdráttarlausa og skýra lýsingu á þeirri ráðstöfun sem krafist væri að yrði rift. Var talið að kröfugerð þb. I ehf. samrýmdist ekki þessari grunnreglu réttarfars og var málinu því vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. júní 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2017, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að varnaraðili „verði dæmdur til þess að þola riftun á þeirri ótilhlýðilegu ráðstöfun þb. Moxom ehf. sem fólst í hlutafjárhækkun í Norðurflugi ehf. þann 4. febrúar 2011 að fjárhæð 6.000.000 króna, sem fram fór í kjölfar hlutafjárlækkunar í félaginu um 180.000.000 króna þann 31. desember 2010.“ Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka fyrrgreinda kröfu til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þrotabú IceCapital ehf., greiði varnaraðila, Pluma ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2017.

I

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 11. apríl sl., er höfðað 23. nóvember 2016 af þrotabúi IceCapital ehf., Smáratorgi 3 í Kópavogi, gegn Pluma ehf., Kringlunni 4-6 í Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

         1.   Að stefndi verði dæmdur til þess að þola riftun á þeirri ótilhlýðilegu ráðstöfun þb. Moxom ehf. sem fólst í hlutafjárhækkun í Norðurflugi ehf. þann 4. febrúar 2011 að fjárhæð 6.000.000 króna, sem fram fór í kjölfar hlutafjárlækkunar í félaginu um 180.000.000 króna þann 31. desember 2010.

         2. Að stefndi verði dæmdur til þess að þola riftun á þeirri ótilhlýðilegu ráðstöfun þb. Moxom ehf. sem fólst í sölu á hlutafé að nafnvirði 798.675 krónur í félaginu Norðurflugi ehf. frá þb. Moxom ehf. til stefnda á genginu 1 þann 28. desember 2011.

         3.   Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða þb. Moxom ehf. 23.200.047 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 20.008.646 krónum frá 4. febrúar 2011 og af 23.200.047 krónum frá 28. desember 2011 til greiðsludags.

         Í öllum tilvikum gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða þb. Moxom ehf. málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

         Af hálfu stefnda er krafist frávísunar á 1. tölulið dómkrafna stefnanda og að félagið verði að öðru leyti sýknað af kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum gerir stefndi þá kröfu að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

         Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnanda fór fram 11. apríl sl. og er sá þáttur málsins hér til umfjöllunar. Af því tilefni krefst stefnandi þess að frávísun kröfunnar verði hafnað auk þess sem hann krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins.

II

         Rétt þykir að rekja í stuttu máli þau atvik sem liggja til grundvallar málshöfðun stefnanda eins og þau koma fram í gögnum málsins. Aðdraganda málsins má rekja til þess að IceCapital ehf., sem áður hét Sund ehf., seldi NF Holding ehf. hlutafé í Norðurflugi ehf. að nafnvirði 120.600.000 krónur, sem var 66,5% eignarhlutur í félaginu, með kaupsamningi 12. desember 2008. Allt kaupverðið var greitt með skuldabréfi eins og kveðið var á um í kaupsamningnum. Sömu einstaklingar rituðu undir fyrir hönd seljanda og kaupanda, þ.e. Jón Kristjánsson og Páll Þór Magnússon. Nafni NF Holding ehf. mun síðar hafa verið breytt í Moxom ehf.

         Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 31. janúar 2010, sem var móttekin 14. febrúar 2011, var tilkynnt að hlutafé Norðurflugs ehf. hefði verið lækkað úr 181.200.000 krónum í 1.200.000 krónur. Fyrirtækjaskrá barst staðfesting frá KPMG ehf. 1. mars 2011 þess efnis að hlutafjárlækkun þessi hefði verið ákveðin í samræmi við 2. tölulið 2. mgr. 34. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, á hluthafafundi 31. desember 2010. 

         Í málinu liggur fyrir fundargerð hluthafafundar í Norðurflugi ehf. 31. desember 2010, þar sem umrædd ákvörðun var tekin. Fram kemur að mætt hafi verið fyrir „allt hlutafé félagsins“, en Birgir Ómar Haraldsson er þar sagður hafa umboð frá NF Holding ehf. Samkvæmt fundargerðinni var stjórn félagsins einnig veitt heimild til þess að auka hlutafé um 30 milljónir króna að nafnvirði, sem stjórnin gæti selt á frjálsum markaði. Samþykkt var að hluthafar féllu frá forkaupsrétti vegna þessarar heimildar. Samkvæmt fundargerðinni voru á fundinum samþykkt nánari fyrirmæli um hlutafjáraukningu þessa og var stjórninni m.a. falið að ákveða útboðsgengi og sölureglur í samræmi við V. kafla laga nr. 138/1994. Áskilið var að stjórnin nýtti þessa heimild innan fimm ára frá samþykktinni og var heimilt að nýta hana í einu lagi eða að hluta eftir ákvörðun stjórnar.

         Gögn málsins bera með sér að Jón Kristjánsson og Páll Þór Magnússon hafi setið í stjórn Norðurflugs ehf. á þessum tíma. Á stjórnarfundi félagsins 4. febrúar 2011 var samþykkt að nýta heimild stjórnar til þess að hækka hlutafé félagsins með útgáfu nýrra hluta að nafnverði 7.300.000 krónur. Samþykkt var að greitt yrði fyrir hina nýju hluti með reiðufé. Ákvörðun þessi var áréttuð á stjórnarfundi 16. apríl 2012 og tilkynning send fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 15. maí með bréfi KPMG ehf. Endurskoðandi félagsins staðfesti á tilkynningunni að nýir hlutir hefðu verið greiddir að fullu með reiðufé til félagsins. Stefndi, Pluma ehf., mun hafa skráð sig fyrir 6 milljónum króna af hlutafjárhækkuninni. Fyrrgreindur Páll Þór Magnússon mun vera eigandi hins stefnda félags. Tveir einstaklingar, sem fyrir áttu hlut í Norðurflugi ehf., Ágúst Bjarnason og Sigurður Þ. Sigurðarson, munu hafa skráð sig fyrir 1.300.000 krónum af hlutafjárhækkuninni. Þeir munu síðar hafa fært þessa hluti í einkahlutafélag sem ber heitið Viking hús ehf.

         Með kaupsamningi 28. desember 2011 seldi NF Holding ehf. félaginu Pluma ehf. 9,4% hlutafjár í Norðurflugi ehf. að nafnvirði 798.675 krónur á genginu 1 eða samtals fyrir 798.675 krónur. Skyldi kaupandi greiða umsamið kaupverð eigi síðar en 1. mars 2012. Samningur þessi er undirritaður af Birgi Ómari Haraldssyni samkvæmt umboði af hálfu seljanda, NF Holding ehf., en hann mun vera framkvæmdastjóri Norðurflugs ehf. Fyrrgreindur Páll Þór Magnússon undirritaði kaupsamninginn af hálfu kaupanda, stefnda Pluma ehf.

         Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu mun IceCapital ehf., áður Sund ehf., hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012. Þrotabú félagsins er stefnandi máls þessa. Stefnandi kveðst hafa farið fram á gjaldþrotaskipti á NF Holding ehf., sem þá hafði tekið upp nafnið Moxom ehf., á grundvelli kröfu sem staðfest hafði verið með dómi Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2014. Þessi dómur hefur ekki verið lagður fram í máli þessu. Stefnandi kveður að með dómi þessum hafi gjafagerningi, sem fólst í framangreindum samningi 12. desember 2008, verið rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og Moxom ehf. dæmt til að greiða stefnanda 120.600.000 krónur.

         Í málinu liggur fyrir bréf skiptastjóra þrotabús Moxom ehf., dags. 16. október 2016, til stefnda. Þar lýsir skiptastjórinn því áliti sínu að sú ráðstöfun að lækka hlutafé í Norðurflugi ehf. og selja stefnda það á genginu 1 hafi verið gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Einnig taldi skiptastjórinn að með því að falla frá forkaupsrétti Moxom ehf. og gefa út nýtt hlutafé á genginu 1, sem hafi verið selt tengdum aðilum, hafi eignir þrotabúsins rýrnað og að ráðstöfunin teldist til gjafar í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum var þess krafist að stefndi greiddi þrotabúinu 106 milljónir króna. Kröfunni var hafnað með bréfi lögmanns stefnda 21. nóvember 2016.

         Með yfirlýsingu 22. nóvember 2016 staðfesti skiptastjóri Moxom ehf. að hann kæmi ekki til með að halda uppi hagsmunum sem þrotabúið kynni að njóta, með málshöfðun gegn stefnda. Hins vegar hefði skiptastjórinn móttekið yfirlýsingu skiptastjóra IceCapital ehf., sem sé stærsti kröfuhafi í þrotabúi Moxom ehf., þess efnis að þrotabú IceCapital ehf. hefði í hyggju að höfða mál gegn stefnda í eigin nafni til hagsbóta fyrir þrotabú Moxom ehf. Var þar vísað til heimildar í 130. gr. laga nr. 21/1991.

III

         Stefnandi reisir riftunarkröfur sínar á 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem umræddar ráðstafanir séu ótilhlýðilegar. Byggir stefnandi á því að með samþykktinni 31. desember 2010 hafi verið búið til ferli sem rýrt hafi verðmæti eigna Moxom ehf., áður NF Holding ehf., og fært verðmætin yfir til hins stefnda félags. Hafi rýrnunin síðan átt sér stað með stjórnarsamþykkt 4. febrúar 2011 þar sem ákveðið hafi verið að hækka hlutafé Norðurflugs ehf. um 7.300.000 krónur. Er á það bent í stefnu að daginn fyrir hlutafjárlækkunina hafi Moxom ehf. átt 66,55% hlutafjár í félagi með eigið fé að fjárhæð 36.211.456 krónur. Því hafi virði eignarhlutarins a.m.k. numið 24.098.723 krónum. Rúmum mánuði síðar, eða 4. febrúar 2011, hafi virði eignarhlutar Moxom ehf. einungis verið 4.090.076 krónur, þar sem félagið hafi eftir hlutafjárhækkunina einungis átt 9,4% í Norðurflugi ehf., en eigið fé þess hafi þá numið 43.511.456 krónum. Byggir stefnandi á því að þannig hafi verðmæti að fjárhæð 20.008.646 krónur glatast og/eða færst yfir til stefnda án þess að nein verðmæti, eða endurgjald, rynni til Moxom ehf. Stefndi hafi hins vegar notið mikillar verðmætaaukningar vegna þessara ráðstafana. Gegn greiðslu 6.000.000 króna hafi stefndi fengið 80% hlutafjár í Norðurflugi ehf. sem hafi þá verið með eigið fé upp á 43.511.456 krónur. Kveður stefnandi Moxom ehf. hafa orðið fyrir eignarýrnun til hagsbóta fyrir stefnda án þess að endurgjald kæmi fyrir.

         Að auki byggir stefnandi á því að salan á hlutafé í Norðurflugi ehf. samkvæmt kaupsamningi 28. desember 2011 hafi verið á undirverði. Miðað við síðasta ársreikning félagsins þar á undan fyrir árið 2010 hafi verðmæti eigin fjár félagsins verið 36.211.456 krónur auk nýs hlutafár sem hafi numið 7.300.000 krónum, samtals 43.511.456 krónur. Telur stefnandi að lágmarksverð hafi átt að vera 4.090.076 krónur en ekki 798.675 krónur. Kveðst stefnandi gera kröfu um greiðslu á mismuninum í máli þessu.

         Stefnandi kveður umræddar ráðstafanir vera riftanlegar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en að 141. gr. sömu laga taki m.a. til sömu tilvika, að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins. Í stefnu er því haldið fram að Moxom ehf. hafi verið ógjaldfært strax við gerð kaupsamnings 12. desember 2008. Hafi stefndi, sem hafi haft hag af þessum ráðstöfunum, vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Moxom ehf. á þeim tíma.

         Stefnandi kveður fjárkröfuna byggjast á 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Kveðst stefnandi hafa orðið fyrir tjóni sem kröfuhafi í þrotabú Moxom ehf. Tjón þess félags nemi rýrnun á verðmæti hlutafjár þess í Norðurflugi ehf., sem hafi færst yfir til stefnda, sem og í muni á bókfærðu virði eigin fjár Norðurflugs og söluandvirði samkvæmt samningi 28. desember 2011 milli Moxom ehf. og stefnda. Nánari grein er gerð fyrir tjóninu í stefnu auk þess sem þar eru færð nánari rök fyrir því að skilyrðum skaðabótaábyrgðar sé fullnægt í málinu.

IV

         Stefndi reisir frávísunarkröfu sína á því að dómkrafa stefnanda í 1. tölulið uppfylli ekki skilyrði laga um skýrleika. Vísar stefndi þar einkum til d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kveður hann dómkröfuna vera óljósa, óskýra og ódómtæka. Ekkert samræmi sé milli dómkröfunnar og málsástæðna í stefnu. Kveðst stefndi ekki hafa verið aðili að hlutafjárlækkun í desember 2010 og að félagið hafi ekkert komið að því að falla frá forkaupsrétti við sölu á nýju hlutafé. Dómkrafan taki eingöngu til hlutafjárhækkunarinnar en hvorki til hlutafjárlækkunarinnar né til þess að falla frá forkaupsrétti, þó að það séu helstu málsástæður stefnanda. Um það vísar stefndi til tiltekinnar lýsingar á blaðsíðu þrjú í stefnu. Telur hann það vera óútskýrt hvaða ráðstöfun sé ótilhlýðileg og hvaða ráðstöfun hafi skert eignir þrotabúsins. Ráðstöfun skv. dómkröfunni taki eingöngu til hlutafjárhækkunarinnar en ekki til annarra ráðstafana. Stefndi hafi verið kaupandi að því hlutafé sem boðið hafi verið til sölu en hafi ekki komið að hlutafjárhækkuninni sem slíkri. Þá kveður stefndi að bótakrafa sé órökstudd með öllu.

         Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um frávísun dómkröfunnar. Telur hann dómkröfuna vera skýra og að nánari útskýringar á henni sé að finna í málavaxtalýsingu í stefnu og í lýsingu á málsástæðum stefnanda. Þannig sé ljóst hvaða ráðstöfun farið sé fram á að rift verði og með hvaða rökum. Leggur stefnandi áherslu á að ætlast sé til þess að dómkröfur séu afmarkaðar og knappar í framsetningu. Byggt sé á því að um gjöf hafi verið að ræða sem hafi farið fram með hlutafjárhækkun eins og rakið sé í dómkröfum. Ekki sé hins vegar á því byggt að lækkun hlutafjárins hafi falið í sér riftanlega yfirfærslu á hlutafé í Norðurflugi ehf.

V

         Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má frá dómkröfum stefnanda, sbr. d-lið málsgreinarinnar, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu o.s.frv. Þá ber samkvæmt e-lið sömu málsgreinar að lýsa í stefnu svo glöggt sem verða má þeim málsástæðum sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Þessi lýsing skal þó vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.

         Það er grunnregla í réttarfari, sem að nokkru leyti fær stoð í framangreindu ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991, að kröfugerð í stefnu þurfi í senn að vera nægilega afgerandi til þess að leiða ein og sér til málaloka um sakarefnið og svo skýr og ljós að hún sé skiljanleg. Af þessu leiðir að kröfugerð í máli, sem höfðað er til riftunar á ráðstöfun þrotamanns samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður að fela í sér afdráttarlausa og skýra lýsingu á þeirri ráðstöfun sem krafist er að verði rift.

         Dómkröfum stefnanda í stefnu er skipt í fjóra töluliði og lúta tveir fyrstu liðirnir að því að rift verði tilteknum ráðstöfunum sem í báðum tilvikum eru sagðar vera ráðstafanir þrotabús Moxom ehf. Frávísunarkrafa stefnda lýtur einungis að fyrri kröfuliðnum. Þar er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að þola riftun á þeirri ráðstöfun þrotabús Moxom ehf. „sem fólst í hlutafjárhækkun í Norðurflugi ehf. þann 4. febrúar 2011 að fjárhæð kr. 6.000.000,- sem fram fór í kjölfar hlutafjárlækkunar í félaginu um kr. 180.000.000,- þann 31. desember 2010“. Þessi lýsing virðist gera ráð fyrir að Moxom ehf. hafi hækkað hlutafé í Norðurflugi ehf. um 6 milljónir króna.

         Við þingfestingu málsins lagði stefnandi fram gögn sem sýna að stjórn Norðurflugs ehf. ákvað að hækka hlutafé félagsins um 7.300.000 krónur 4. febrúar 2011, eins og lýst er í kafla II í úrskurði þessum. Sú ákvörðun var reist á samþykkt hluthafafundar Norðurflugs ehf. 31. desember 2010. Að þessu leyti samrýmist kröfugerð stefnanda ekki þeim gögnum sem hann byggir málatilbúnað sinn á. Þá er kröfugerðin þannig fram sett að hún er illskiljanleg í ljósi almennra reglna um tilhögun á hækkun hlutfjár í einkahlutafélögum, en ákvörðunarvald um slíka hækkun liggur hjá hluthafafundi félagsins þar sem hækka á hlutaféð, sbr. V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Samkvæmt framansögðu samrýmist kröfugerðin ekki grunnreglu réttarfars um skýra og afdráttarlausa kröfugerð. Ekki er unnt að bæta úr kröfugerðinni undir rekstri málsins þannig að hún verði skiljanleg í ljósi V. kafla laga nr. 138/1994 og framlagðra gagna. Því verður ekki hjá því komist að vísa fyrsta kröfulið í dómkröfum stefnanda frá dómi.

         Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíði lokaniðurstöðu þess.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Fyrsta tölulið í dómkröfum stefnanda, þrotabús IceCapital ehf., í máli þessu er vísað frá dómi.

         Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.