Hæstiréttur íslands

Mál nr. 285/2001


Lykilorð

  • Kyrrsetning
  • Fjárnám
  • Gjaldþrotaskipti
  • Greiðsla
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. febrúar 2002.

Nr. 285/2001.

Auður Rafnsdóttir og

Örn Agnarsson

(Jón Gunnar Zoëga hrl.)

gegn

þrotabúi Þjálfunar ehf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

og gagnsök

 

Kyrrsetning. Fjárnám. Gjaldþrotaskipti. Greiðsla. Skaðabætur.

A og Ö, sem áttu 1.500.000 kr. kröfu á hendur Þ ehf., fengu kyrrsetta kröfu Þ ehf. á hendur S ehf., að fjárhæð 933.641 kr. Þótt A og Ö hefðu með þessu fengið tryggingarréttindi í umræddri kröfu Þ ehf., veitti kyrrsetningin þeim enga heimild til að innheimta kröfuna sjálf eða veita greiðslu hennar viðtöku, svo sem þau höfðu þó gert. Slíkt var eingöngu á færi sýslumanns, sem hefði þá borið að gera ráðstafanir vegna kröfunnar og varðveita greiðslu þar til A og Ö kynnu að öðlast rétt til hennar með fjárnámi, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Auk þess sem viðtaka A og Ö á greiðslunni var af þessum sökum talin andstæð lögum, var talið að gæta yrði að því að þegar S ehf. varð við kröfu þeirra um greiðsluna, hafði bú Þ ehf. þegar verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 1. mgr. 138. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 31/1990, var kyrrsetning A og Ö því fallin sjálfkrafa niður áður en greiðslan fór fram. Var því fjarri lagi að A og Ö gætu á nokkurn hátt gert tilkall til greiðslunnar á því stigi. Þegar sýslumaður gerði síðan fjárnám hjá Þ ehf. fyrir kröfu A og Ö var bú Þ ehf. komið til gjaldþrotaskipta og gátu þau því ekki reist tilkall til greiðslunnar frá S ehf. á þeirri fjárnámsgerð, sbr. 3. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991. Með því að A og Ö nutu einskis réttar til að taka við umræddri greiðslu höfðu þau bakað þrotabúi Þ ehf. sem réttum viðtakanda hennar tjón, sem svaraði fjárhæð hennar og voru því í sameiningu dæmd til að greiða búinu fjárhæð þessa.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2001. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en dráttarvexti, sem verði ekki dæmdir. Í báðum tilvikum krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 9. október 2001. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði sameiginlega dæmd til þess að greiða sér 933.641 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. október 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að rift verði greiðslu Sprikls ehf. til aðaláfrýjenda að fjárhæð 933.641 króna og að þau verði í sameiningu dæmd til að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum eins og að framan greinir. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

I.

Eins og greinir í héraðsdómi gengust aðaláfrýjendur 2. júlí 1998 í ábyrgð fyrir skuld Þjálfunar ehf. við Búnaðarbanka Íslands hf. vegna yfirdráttar á tékkareikningi að fjárhæð allt að 1.500.000 krónur. Í þessu skyni gaf aðaláfrýjandinn Örn Agnarsson út víxil, þar sem fjárhæð þessi var greind, og ábekti hann ásamt aðaláfrýjandanum Auði Rafnsdóttur, en víxillinn var samþykktur til greiðslu af Þjálfun ehf. Vanskil urðu af hendi félagsins og krafðist bankinn greiðslu samkvæmt víxlinum. Munu aðaláfrýjendur hafa 16. september 1999 greitt bankanum fjárhæðina, sem þau stóðu í ábyrgð fyrir. Með beiðni 17. september 1999 til sýslumannsins í Hafnarfirði leituðu aðaláfrýjendur kyrrsetningar hjá Þjálfun ehf. til tryggingar framkröfu sinni vegna þessarar greiðslu. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 27. sama mánaðar og komu þá engar athugasemdir fram við henni af hendi félagsins. Samkvæmt ábendingu aðaláfrýjenda var kyrrsett krafa Þjálfunar ehf. á hendur Sprikli ehf. samkvæmt kaupsamningi félaganna 22. júlí 1999, en með honum seldi fyrrnefnda félagið því síðarnefnda líkamsræktarstöð með heitinu Betrunarhúsið. Var tekið fram í bókun sýslumanns um gerðina að krafa þessi væri um lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningnum og gjalddagi hennar 1. október 1999, en samkvæmt upplýsingum kaupandans bæri þá að greiða 1.497.000 krónur. Aðaláfrýjendur fengu gefna út réttarstefnu 30. september 1999 á hendur Þjálfun ehf. til staðfestingar kyrrsetningunni, svo og til greiðslu á 1.500.000 krónum með dráttarvöxtum frá 16. sama mánaðar og málskostnaði. Með útivistardómi Héraðsdóms Reykjaness 27. október 1999 var fallist á þessar kröfur aðaláfrýjenda. Sama dag rituðu aðaláfrýjendur Sprikli ehf. bréf, þar sem tilkynnt var um þessa niðurstöðu dómsmálsins. Þar var jafnframt vísað til þess að komið væri fram af hendi Sprikls ehf. að krafa Þjálfunar ehf. samkvæmt kaupsamningnum væri í reynd 933.641 króna. Með vísan til umrædds dóms var þess krafist að Sprikl ehf. greiddi þá þegar aðaláfrýjendum þessa fjárhæð. Félagið varð við þessari kröfu samdægurs. Hinn 28. október 1999 kröfðust aðaláfrýjendur fjárnáms hjá Þjálfun ehf. fyrir kröfu samkvæmt áðurnefndum dómi. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði tók beiðni um gerðina fyrir 5. nóvember 1999 og gerði þá samkvæmt ábendingu aðaláfrýjenda fjárnám í sömu réttindum og áður höfðu verið kyrrsett til tryggingar kröfu þeirra.

Á sama tímabili og fyrrgreind atvik gerðust barst Héraðsdómi Reykjaness krafa frá Lífeyrissjóði verslunarmanna 2. október 1999 um að bú Þjálfunar ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Sú krafa var tekin til greina með úrskurði dómsins 22. sama mánaðar. Skiptastjóri í þrotabúinu gaf út innköllun 26. október 1999 og er óumdeilt í málinu að hún hafi birst fyrra sinni í Lögbirtingablaði 5. nóvember sama árs. Að fengnum upplýsingum frá Sprikli ehf. um efndir félagsins á áðurnefndum kaupsamningi þess við Þjálfun ehf. krafði skiptastjórinn aðaláfrýjendur með símskeyti 13. janúar 2000 um skil á fyrrgreindri greiðslu, sem þau höfðu tekið við 27. október 1999. Þeirri málaleitan höfnuðu aðaláfrýjendur bréflega 25. janúar 2000. Í máli þessu krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjendur um greiðslu umræddrar fjárhæðar, en það höfðaði hann með birtingu héraðsdómsstefnu fyrir þeim 23. og 27. júní 2000.

II.

Aðaláfrýjendur fengu sem fyrr segir 27. september 1999 kyrrsetta kröfu Þjálfunar ehf. á hendur Sprikli ehf., sem samkvæmt gögnum málsins reyndist endanlega vera að fjárhæð 933.641 króna, til tryggingar kröfu sinni á hendur fyrrnefnda félaginu að höfuðstól 1.500.000 krónur. Þótt aðaláfrýjendur hafi með þessu fengið tryggingarréttindi í umræddri kröfu Þjálfunar ehf., veitti kyrrsetningin þeim enga heimild til að innheimta kröfuna sjálf eða veita greiðslu hennar viðtöku. Slíkt var eingöngu á færi sýslumanns, sem hefði þá borið að gera ráðstafanir vegna kröfunnar og varðveita greiðslu þar til aðaláfrýjendur kynnu að öðlast rétt til hennar með fjárnámi, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Auk þess, sem viðtaka aðaláfrýjenda á greiðslunni var af þessum sökum andstæð lögum, verður að gæta að því að 27. október 1999, þegar Sprikl ehf. varð við kröfu þeirra um greiðsluna, hafði bú Þjálfunar ehf. þegar verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 1. mgr. 138. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 31/1990, var kyrrsetning aðaláfrýjenda því fallin sjálfkrafa niður áður en greiðslan fór fram. Var því fjarri lagi að aðaláfrýjendur gætu á nokkurn hátt gert tilkall til greiðslunnar á því stigi. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði sem fyrr segir 5. nóvember 1999 fjárnám hjá Þjálfun ehf. fyrir kröfu aðaláfrýjenda samkvæmt dómi frá 27. október sama árs og gætti þar reyndar ekki fyrirmæla um aðfararfrest í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Með því að bú Þjálfunar ehf. var þá komið til gjaldþrotaskipta geta aðaláfrýjendur ekki reist tilkall til greiðslunnar frá Sprikli ehf. á þeirri fjárnámsgerð, sbr. 3. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991.

Með því að aðaláfrýjendur nutu einskis réttar til að taka við umræddri greiðslu 27. október 1999 hafa þau bakað gagnáfrýjanda sem réttum viðtakanda hennar tjón, sem svarar fjárhæð hennar. Aðaláfrýjendur verða því í sameiningu dæmd til að greiða gagnáfrýjanda fjárhæð þessa, 933.641 krónu, en engin efni eru til að láta koma þar til frádráttar kostnað, sem þau hafa orðið að bera af aðgerðum sínum til þess að ná greiðslunni ranglega til sín. Gagnáfrýjandi krafði sem áður segir aðaláfrýjendur um skil á fénu 13. janúar 2000. Fer því um dráttarvexti af kröfu hans eins og í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjendur verða dæmd til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Auður Rafnsdóttir og Örn Agnarsson, greiði í sameiningu gagnáfrýjanda, þrotabúi Þjálfunar ehf., 933.641 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. febrúar 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjendur greiði í sameiningu gagnáfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. maí 2001.

Mál þetta, sem þingfest var 6. september 2000, var tekið til dóms 5. apríl sl.

Stefnandi er þrotabú Þjálfunar ehf., kt. 530292-2079, Suðurlandsbraut 22, Reykjavík, en stefndu eru Auður Rafnsdóttir, kt. 310360-7599, Sunnuflöt 37, Garðabæ og Örn Agnarsson, kt. 050849-4739, Melahæð 5, Garðabæ.  Til réttargæslu er stefnt Þórði H. Sveinssyni, kt. 200563-5229, Úthlíð 5, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 933.641 krónu með dráttarvöxtum eins og þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987 frá 27. október 1999 til greiðsludags.  Þá er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. laga nr. 25/1987, í fyrsta skipti þann 27. október árið 2000.  Til vara krefst stefnandi þess að rift verði greiðslu Sprikls ehf. til stefndu að fjárhæð 933.641 króna og að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu þeirrar fjárhæðar með dráttarvöxtum eins og þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987, frá 27. október 1999 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. laga nr. 25/1987, í fyrsta skipti þann 27. október 2000. 

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og að virðisaukaskattur leggist á málskostnað.

Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður verði þá látinn niður falla.

Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og hann gerir ekki kröfur á hendur stefnanda.

I.

Ekki er deilt um málavexti. Upphaf málsins er að þann 2. júlí 1998 gengust stefndu í ábyrgð á tryggingarvíxli að fjárhæð 1.500.000 krónur til tryggingar tékkareikningskuldar Þjálfunar ehf. við Búnaðarbankann í Garðabæ. Þjálfun rak þá líkamsræktarstöðina „Betrunarhúsið“ í Garðabæ. Í kjölfar vanskila á víxlinum greiddu þau andvirði hans til bankans þann 16. september 1999. 

Þann 22. júlí 1999 var gerður kaupsamningur um líkamsræktarstöðina. Seljandi var Þjálfun ehf., en kaupandi Sprikl ehf., kt. 610799-2219, Lækjarbergi 2, Hafnarfirði og var kaupverð 19.133.843 krónur. Samkvæmt kaupsamningi átti lokagreiðsla að fjárhæð 4.200.000 krónur að fara fram 1. október 1999.

Þann 27. september 1999 var tekin fyrir beiðni stefndu dagsett 17. september 1999 um kyrrsetningu hjá sýslumanninum í Hafnarfirði.  Kröfðust stefndu þess að kyrrsettar yrðu eignir Þjálfunar ehf. til fullnustu kröfu þeirra að fjárhæð 1.725.899 krónur, sem var framangreint víxilandvirði ásamt innheimtukostnaði.  Var loka­greiðsla Sprikls ehf. samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi við Þjálfun ehf. kyrrsett fyrir 1.497.000 krónum, en það var sú fjárhæð sem stefndu töldu að stæði eftir af lokagreiðslu kaupsamningsins.  Sama dag ritaði lögmaður stefndu forsvars­manni Sprikls ehf. bréf þar sem hann krafðist greiðslu á 933.641 krónu, en það var sú fjárhæð sem forsvarsmaður Sprikls ehf. taldi að stæði endanlega eftir af upprunalegri kaupsamningsgreiðslu.  Lögmaður stefndu móttók þá fjárhæð sama dag.

Mál til staðfestingar kyrrsetningunni var höfðað af stefndu með stefnu dagsettri 30. september 1999.  Kyrrsetningin var staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 27. október 1999.  Í millitíðinni var Þjálfun ehf. tekin til gjaldþrotaskipta, þ.e. þann 22. október 1999.  Frestdagur við skiptin var 2. október 1999.  Kröfulýsing var birt í fyrra skiptið í Lögbirtingablaðinu þann 5. nóvember 1999 og lauk kröfulýsingafresti 5. janúar 2000.

Á grundvelli staðfestingardómsins var gert fjárnám hjá sýslumanninum í Hafnarfirði í lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningnum þann 5. nóvember 1999 að fjárhæð 1.773.078 krónur.  Gerðarþoli var Þjálfun ehf., en eins og framangreinir var félagið þá þegar gjaldþrota.  Fjárnám þetta var að kröfu þrotabúsins endurupptekið og fellt niður hjá sama embætti þann 26. maí 2000. 

Stefnandi sendi lögmanni stefndu, Þórði H. Sveinssyni hdl., símskeyti 13. janúar 2000 þar sem krafist var fyrir hönd þrotabúsins að afhent yrði 933.641 króna sem réttargæslustefndi hafði móttekið fyrir hönd stefndu.  Með bréfi lögmannsins 25. janúar 2000 var beiðni stefnanda hafnað.

II.

Stefnandi styður aðalkröfu sína við bótaákvæði 16. kafla laga um aðför nr. 90/1989, einkum 1. og 2. mgr. 96. gr. þeirrar laga.  Þá styður hann mál sitt við megin­reglur kröfu- samninga- og skaðabótaréttar svo og gjaldþrotaréttar, einkum ákvæði 12. kafla gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.  Heimild sína til að krefjast riftunar styður þrotabúið við ákvæði 10. kafla gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, einkum 139. gr. og 141. gr. laganna, beint eða fyrir lögjöfnun. 

Stefnandi telur að ofangreindir fjármunir hafi á fjárnámsstundu tilheyrt þrotabúinu samkvæmt ákvæðum gjaldþrotalaga um að öll réttindi og skyldur þrotabúsins renni til þess.  Stefndu hafi fengið greidda fjármuni sem á þeim tíma hafi verið í eigu þrotabúsins.  Það skerði lögvarið jafnrétti kröfuhafa búsins.  Stefnandi hafi látið enduruppteka fjárnámið og fella það niður.  Því sé framangreindu fé haldið í heimildarleysi jafnframt því sem aldrei hafi í raun stofnast lögmætar vörslur fjársins.  Stefnandi hafi þannig orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar og ólöglegra aðgerða stefndu í máli þessu.  Bótaskylda hvíli þannig á ólögmætri vörslu fjárins en bótakrafan jafngildi þeirri fjárhæð sem búið hafi orðið af vegna hinna ólögmætu aðgerða.

Varakröfu sína styður stefnandi við 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga annars vegar og hins vegar við 141. gr. sömu laga.  Stefndu hafi móttekið greiðslu sína að fjárhæð 933.641 króna þann 27. október 1999 eða rúmum þremur vikum eftir frestdag og 5 dögum eftir að Þjálfun ehf. hafi verið úrskurðuð gjaldþrota.  Ákvæði 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi því við.  Þá sé einnig ljóst að greiðslan skerði eðlilegt jafnrétti annarra kröfuhafa til eigna búsins og valdi þar með öðrum kröfuhöfum fjárhagstjóni.  Stefndu hafi þannig auðgast á kostnað búsins og annarra kröfuhafa á ótilhlýðilegan hátt enda fengið greiðslu sína eftir að Þjálfun ehf. hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta.  Ákvæði 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi því einnig við í málinu.

III.

Sýknukrafa stefndu byggist á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna ólögmætra og ólöglegra aðgerða stefndu eða umboðsmanns hans.  Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins sé bótagrundvöllur ekki fyrir hendi.  Verði tjón stefnanda ekki rakið til atferlis stefndu.  Stefnandi væri jafnsettur fjárhagslega ef kyrr­setning af hálfu stefndu hefði ekki farið fram.  Forsvarsmenn Þjálfunar ehf. hafi farið af landi brott stuttu eftir lokagreiðslu og sé augljóst að þrotabúið hefði ekki komist yfir þessa fjármuni þá.  Komi það fram í gögnum málsins að stefnandi hafi ekki tekist að hafa upp á forsvarsmönnum Þjálfunar ehf. til þess að taka af þeim skýrslu.

Þrátt fyrir orðalag 1. mgr. 96. gr. aðfararlaga telja stefndu að kyrrsetning þeirra hafi verið gerð í góðri trú. Stefndu telja ennfremur að þriggja mánaða málshöfðunarfrestur samkvæmt 98. gr. laga nr. 90/1989 sé liðinn. 

Stefndu mótmæla því að þau hafi mátt vita af gjaldþroti stefnanda.  Stefna hafi verið birt og þingfest 20. október 1999 án athugasemda og án þess að stefndu né lögmanni þeirra væri kunnugt um að gjaldþrotaskiptabeiðni væri komin fram.  Dómur hafi verið kveðinn upp í staðfestingamálinu án athugasemda og án þess að lögmanni stefndu væri kunnugt um úrskurð um gjaldþrot.  Birting þeirra upplýsinga hafi fyrst farið fram í Lögbirtingablaði 5. nóvember 1999.  Greiðslan hafi því verið móttekin í góðri trú og séu því skilyrði 1. mgr. 139. gr.gjaldþrotalaga ekki fyrir hendi í málinu. 

Stefndu mótmæla því að 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi við í málinu.  Sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda um að stefndu hafi verið í vondri trú er þau móttóku greiðslu.  Ráðstöfun þeirra hafi því heldur ekki verið ótilhlýðileg.  Enn síður sé unnt að halda því fram að brotið hafi verið gegn jafnræði kröfuhafa.  Það sé alveg ljóst að hinir umkröfðu fjármunir hefðu ekki verið til reiðu ef stefndu hefðu ekki fengið þá greidda.

Varakrafa stefndu um lækkun stefnukrafna er byggð á því að stefndu hafi lagt út kostnað til þess að tryggja að lokagreiðsla til forsvarsmanna Þjálfunar ehf. samkvæmt kaupsamningi hafi verið stöðvuð.  Stefndu hafi því í raun takmarkað tjón stefnanda vegna þess að alveg sé ljóst að kaupsamningsgreiðslan hefði runnið úr landi ef ekki hefði komið til kyrrsetningar stefndu. 

IV.

Sprikl ehf. keypti líkamsræktarstöðina „Betrunarhúsið“ af Þjálfun ehf. með kaupsamningi 22. júlí 1999.  Þann 27. september 1999 kyrrsettu stefndu greiðslu samkvæmt kaupsamningnum en greiðslu þessa átti að inna af hendi 1. október 1999.  Kyrrsetningarmál var höfðað með útgáfu stefnu 30. september 1999.  Héraðsdómur Reykjaness móttók þann 2. október 1999 beiðni um að Þjálfun ehf. yrði tekin til gjaldþrotaskipta.  Gjaldþrotaúrskurður var kveðinn upp 22. október 1999 og skipta­stjóri skipaður þann dag.  Staðfestingardómur gekk um kyrrsetninguna 27. október 1999 og móttók lögmaður stefndu umdeilda greiðslu sama dag.

Stefndu móttóku því greiðsluna eftir frestdag og 5 dögum eftir að gjaldþrota­úrskurður hafði verið kveðinn upp.  Dómur í staðfestingarmálinu, uppkveðinn eftir að gjaldþrotaúrskurður gekk, hefur því ekki þýðingu í málinu. Samkvæmt 138. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., fellur kyrrsetning sjálfkrafa niður við töku bús til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt framansögðu fengu stefndu skuld sína greidda á grundvelli kyrr­setningar sem var fallin niður og á grundvelli dóms sem var markleysa eins og á stóð. 

Stefnandi styður aðalkröfu sína við bótaákvæði 16. kafla aðfararlaga nr. 90/1989, einkum 1. og 2. mgr. 96. gr. laganna.  Í 98. gr. aðfararlaga segir að höfða beri mál fyrir héraðsdómi áður en þrír mánuðir séu liðnir frá því að sá sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni, hefur átt þess kost að hafa kröfu sína uppi.  Í þessu máli eru stefnur birtar í júní 2000 og var þá löngu liðinn frestur samkvæmt 98. gr. aðfararlaga.  Aðalkrafa stefnanda verður því ekki tekin til greina. 

Beiðni stefndu um kyrrsetningu er dagsett 17. september 1999.  Í henni kemur m.a. fram að gerðarþoli, Þjálfun ehf., hafi selt rekstur sinn og ekki sé vitað um aðrar eignir.  Eignastaða gerðarþola fari mjög versnandi og vanskil hans hjá Búnaðarbanka Íslands séu tæpar 10.000.000 króna.  Þá segja stefndu einnig í beiðni um kyrrsetningu að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá Þjálfun ehf. í september 1999 og því ljóst að félagið sé ekki lengur greiðsluhæft. 

Af framansögðu verður talið að lögmanni stefndu hafi mátt vera ljóst í september 1999 að  hagur Þjálfunar ehf. fór mjög versnandi og gjaldþrot var fyrir­sjáanlegt, sérstaklega þar sem fjárnám án árangurs lá fyrir. 

Með því að knýja á um greiðslu hjá viðsemjanda Þjálfunar ehf. á grundvelli kyrrsetningar og staðfestingardóms, sem kveðinn var upp eftir gjaldþrot Þjálfunar ehf., fengu stefndu á ótilhlýðilegan hátt greiðslu á kostnað annarra kröfuhafa. Samkvæmt framansögðu verður talið að skilyrði 1. mgr. 139. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.  Varakrafa stefnanda verður því tekin til greina. 

Varakrafa stefndu er að stefnukröfur verði lækkaðar.  Fallast verður á með stefndu að yfirgnæfandi líkur eru fyrir því að umþrætt greiðsla að fjárhæð 933.641 króna hefði runnið stefnanda úr greipum ef ekki hefði komið til snarræði lögmanns stefndu. Má sjá það af því að skiptastjóri stefnanda hefur ekki tekist að hafa upp á forsvarsmönnum Þjálfunar ehf. til þess að taka skýrslur af þeim, en þau fluttu úr landi í október 1999.

Stefndu hafa aftur á móti orðið fyrir kostnaði við að fá kröfu sína greidda. Er sá kostnaður sundurliðaður í aðfararbeiðni stefndu dagsettri 28. október 1999.  Er kostnaðurinn vegna málskostnaðar 153.612 krónur, fjárnámsbeiðni 3.500 krónur,  kyrrsetningara 30.000 krónur, fjárnáms 5.000 krónur, virðisaukaskatts 39.707 krónur og vegna fjárnámsgjalds til ríkissjóðs 11.500 krónur, eða samtals 243.329 krónur.  Verður varakrafa stefnanda lækkuð um þá fjárhæð með vísan til 145. gr. gjaldþrotaskiptalaga. 

Niðurstaða málsins verður því sú að stefndu verða dæmd til að greiða stefnanda 690.312 krónur (933.641 - 243.329) með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 13. febrúar 2000 til greiðsludags en innheimtubréf stefnanda er dagsett 13. janúar 2000.

Eftir þessum úrslitum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari  kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Auður Rafnsdóttir og Örn Agnarsson, greiði stefnanda, þrotabúi Þjálfunar ehf., 690.312 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. febrúar 2000 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.