Hæstiréttur íslands

Mál nr. 103/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfulýsing
  • Samningsveð
  • Tryggingarbréf
  • Þinglýsing


Föstudaginn 29

 

Föstudaginn 29. apríl 2005.

Nr. 103/2005.

Hjalti Jósefsson og

Erik Jensen

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Samningsveð. Tryggingarbréf. Þinglýsing.

 

H og E mótmæltu kröfu K, sem K hafði fengið samþykkta sem veðkröfu í þrotabú félagsins F. Var talið að K hafi fyllilega gert grein fyrir fjárhæð kröfunnar og tilurð hennar. Þá lá fyrir að tryggingabréfi, sem F hafði gefið út til tryggingar afurðalánasamningi við K, hafði verið þinglýst og því hafi verið gild veðsetning að baki umþrættri kröfu K. Var kröfum H og E hafnað en fallist á kröfu K að umrædd krafa skyldi tekin til greina sem veðkrafa í kröfuskrá þrotabús F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 16. febrúar 2005, þar sem synjað var kröfu sóknaraðila um að krafa varnaraðila í þrotabú Ferskra afurða ehf. yrði ekki tekin til greina við búskiptin og staðfest að krafan væri veðkrafa í búinu. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila í þrotabú Ferskra afurða ehf. verði hafnað. Einnig að hafnað verði að krafan sé forgangskrafa eða veðkrafa. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Að kröfu varnaraðila settu sóknaraðilar tryggingu fyrir greiðslu kærumálskostnaðar 15. apríl 2005.

Ferskar afurðir ehf. gaf út tryggingabréf 16. október 2001 meðal annars til tryggingar greiðslu á afurðalánum varnaraðila til félagsins. Í bréfinu voru allar rekstrarvörur, afurðir, uppskera og framleiðslubirgðir fyrirtækisins settar varnaraðila að sjálfsvörsluveði. Í afurðalánasamningi félagsins og varnaraðila 8. október 2002 er meðal annars vísað til þessa tryggingabréfs. Það er skilyrði fyrir réttarvernd veðsetningar af þessu tagi gagnvart þrotabúi veðsala að henni hafi verið þinglýst, sbr.  4. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og 2. mgr. og 3. mgr. 48. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Fyrir liggur í málinu að tryggingabréfinu var þinglýst og er því gild veðsetning að baki umþrættri kröfu varnaraðila. Að þessu athuguðu en með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, að því er varðar aðrar málsástæður sóknaraðila, verður hann staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Hjalti Jósefsson og Erik Jensen, greiði óskipt varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 16. febrúar 2005.

I

Mál þetta var þingfest 10. maí 2004,  og tekið til úrskurðar 4. þessa mánaðar.

Sóknaraðilar eru Hjalti Jósefsson, Melvegi 5, Hvammstanga og Eric Jensen, Lóni Eyjafirði.

Varnaraðili er Kaupþing Búnaðarbanki hf., Austurstræti 5, Reykjavík.

Sóknaraðilar gera svohljóðandi dómkröfur: ,,Sóknaraðilar gera þá dómkröfu að kröfu KB banka hf. í þrotabú Ferskra afurða ehf. nr. 52 á kröfuskrá verði hafnað. Sóknaraðilar gera þá dómkröfu, að því verði hafnað að um forgangskröfu í bú Ferskra afurða ehf. sé að ræða. Að því verði hafnað að um veðkröfu sé að ræða. Gerð er krafa um málskostnað.”

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði afstaða skiptastjóra þrotabús Ferskra afurða ehf. þess efnis að samþykkja kröfu varnaraðila nr. 52 í kröfuskrá sem veðkröfu á hendur þrotabúinu. Jafnframt gerir varnaraðili kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila.

II

 Málavextir og rekstur málsins

Rétt þykir þegar málavextir eru raktir að gera grein fyrir rekstri málsins og útskýra um leið þann drátt sem orðið hefur á málinu. Bú Ferskra afurða ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins þann 18. nóvember 2003. Sveinn Andri Sveinsson hrl. var skipaður skiptastjóri í búinu. Meðal lýstra krafna í búið var krafa varnaraðila að fjárhæð 121.277.476 krónur. Varnaraðili lýsti kröfunni sem veðkröfu og samþykkti skiptastjóri hana sem slíka í kröfuskrá. Steingrímur Þormóðsson hrl. lýsti kröfu í búið og gerði athugasemdir við kröfu varnaraðila. Á skiptafundi þann 15. mars 2004 mótmælti lögmaðurinn kröfu varnaraðila formlega. Mótmælin voru grundvölluð á því að krafa sóknaraðila væri ekki veðkrafa, að krafan væri í raun mun lægri en lýst var og að þrotabúið ætti skuldajöfnunarrétt á móti kröfu bankans. Á fundi þann 22. mars sl. reyndi skiptastjóri að jafna ágreininginn en án árangurs. Með bréfi dagsettu 23. apríl sl. vísaði skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms með vísan til 120. gr. sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991. Í bréfi skiptastjórans kom fram að búið tæki til varna í málinu. Mál til úrlausnar ágreiningnum var þingfest þann 10. maí sl. og var ráð fyrir því gert að nefndur lögmaður væri sóknaraðili málsins eins og skýrlega kom fram í boðunarbréfi dómsins en ekki búið sjálft eins og ranglega er bókað í endurriti. Dómari hlutaðist hins vegar ekki til um að Kaupþingi Búnaðarbanka hf. gæfist kostur á að taka til varna í málinu eins og rétt hefði verið.  Málið var næst tekið fyrir 2. júní. Það þinghald var sótt af hálfu varnaraðila og jafnframt var upplýst af hálfu skiptastjóra búsins að hann teldi rétt að KB banki hf. tæki við vörnum í málinu og voru ekki gerðar athugasemdir við það. Jafnframt tóku sóknaraðilar málsins við aðild sóknarmegin af Steingrími Þormóðssyni hrl. sem hafði framselt þeim hluta af kröfu sinni í búið og var dóminum afhent sérstök ,,greinargerð” um aðilaskiptin sóknarmegin. Þann 8. júní sl. var málið tekið fyrir að nýju og kom þá fram greinargerð af hálfu sóknaraðila. Jafnframt kom þá fram það sjónarmið varnaraðila að vísa bæri málinu frá án kröfu en ella yrði sóknaraðilum gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði. Að mati dómsins hefur varnaraðili ekki orðið fyrir réttarspjöllum þó svo hann hafi ekki strax í upphafi orðið aðili máls. Hann tók til varna í málinu 2. júní sl. og fékk tækifæri á að koma að öllum sínum kröfum og sjónarmiðum. Hann hafði strax og tilefni var til uppi kröfu um tryggingu fyrir málskostnaði. Í þinghaldi þann 29. júní sl. reifuðu aðilar sjónarmið sín varðandi kröfu varnaraðila um að sóknaraðilum yrði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði. Með úrskurði dómsins þann 9. júlí var sóknaraðilum gert að setja málskostnaðartryggingu innan 15 daga sem þeir gerðu. Á þessum tíma ráku sóknaraðilar, einkum Hjalti Jósefsson, fleiri mál sem tengdust gjaldþroti Ferskra afurða ehf. Meðal annars var rekið ágreiningsmál varðaði grundvöll gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur Hjalta Jósefssyni og síðar kærði Hjalti úrskurð dómsins um að bú hans skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Það mál var til lykta leitt með dómi Hæstaréttar Íslands 8. nóvember sl. Áður hafði bú Eriks Jensen verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í framhaldi af dómi Hæstaréttar varðandi gjaldþrotaskipti á búi Hjalta var óskað eftir afstöðu skiptastjóra varðandi málarekstur þennan. Í þinghaldi þann 16. desember lá fyrir að þrotabú sóknaraðila ætluðu ekki að taka við rekstri málsins og jafnframt að enginn lánadrottna búsins hygðist gera það. Með heimild í 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. tóku sóknaraðilar á ný við aðild málsins.

III

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

             Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að varnaraðili verði að sundurliða og rökstyðja kröfur sínar með hefðbundnum hætti. Hann verði að upplýsa hver grundvöllur kröfunnar er, hvenær lán voru veitt Ferskum afurðum ehf. samkvæmt afurðalánasamningum og hve háar fjárhæðir voru lánaðar hverju sinni. Einnig verði varnaraðili að upplýsa hve mikið og hvenær greitt var inn á lánið en um það hafi ekki fengist nákvæmar upplýsingar. Benda sóknaraðilar á að varnaraðili hafi fengið til innheimtu nánast alla útgefna reikninga Ferskra afurða ehf. og tekið andvirði þeirra í sína vörslu. Varnaraðili hafi hins vegar ekki gert sóknaraðilum, sem voru í forsvari fyrir hið gjaldþrota félaga á þeim tíma, grein fyrir því hvernig andvirði innheimtra reikninga var ráðstafað. Telja sóknaraðilar að ekki liggi fyrir hvort andvirði var ráðstafað inn á höfuðstól veðskuldarinnar, vexti eða lögfræðikostnað. Þá benda sóknaraðilar á að erfitt sé fyrir þá að halda kröfum sínum til haga við þessar aðstæður en bókhald Ferskra afurða ehf. sé  í vörslum skiptastjóra. Sóknaraðilar byggja kröfu sína á því að varnaraðili verði að gera grein fyrir kröfum sínum með hefðbundnum hætti.

             Af hálfu sóknaraðila er því einnig haldið fram að krafa varnaraðila sé ekki forgangskrafa sem hafi veðgildi gagnvart öðrum kröfum í búið. Afurðalánasamningi hafi ekki verið þinglýst. Þá hafi heldur ekki verið upplýst hvaða reglur giltu um veðsetningu birgða Ferskra afurða ehf. Sóknaraðilar benda einnig á að við gerð afurðalánasamninga hafi ætíð verið gert sérstakt tryggingarbréf. Það hafi hins vegar ekki verið gert þegar afurðalánasamningurinn frá október 2002 var undirritaður. Sóknaraðilar halda því fram að ekki verði séð að kröfu varnaraðila hafi verið lýst í þrotabúið á grundvelli tryggingarbréfs. Þá verði ekki séð, enda þótt tryggingarbréfið hafi ákveðið gildi, að kröfur varnaraðila hafi með réttum hætti verið felldar undir tryggingarbréfið. Ekki verði heldur séð að tryggingarbréfið og veðákvæði þess hafi gert það að verkum að reikningar félagsins væru veðtryggðir, þar sem veðtrygging á grundvelli tryggingarbréfa komi fyrst til þegar tryggingarbréf eru gerð virk með því að kröfum sem þau eiga að tryggja er lýst með viðeigandi hætti.

 

Málsástæður og lagarök varnaraðila

             Varnaraðili byggir kröfu sína á því að krafan sem hann lýsti í þrotabú Ferskra afurða ehf. sé fullgild veðkrafa með vísan til þeirra gagna er fylgdu lýsingu kröfunnar í búið. Krafan sé byggð á afurðalánasamningi sem varnaraðili gerði við hið gjaldþrota félag, sem setti með tryggingarbréfum allar rekstrarvörur, afurðir, uppskeru og framleiðslubrigðir félagsins, á hvaða tíma sem er og hverju nafni sem nefnist, til tryggingar þeirri fyrirgreiðslu sem fólst í afurðalánasamningnum. Byggir varnaraðili á því að afurðalánasamningurinn og tryggingarbréf þau sem hann vísar til séu fullgildir og réttilega gerðir löggerningar undirritaðir af þar til bærum aðilum. Varnaraðili kveðst hafa gjaldfellt afurðalán hins gjaldþrota félags samkvæmt heimild í afurðalánasamningi og eftir það hafi honum verið heimilt að ganga að hinum veðsettu birgðum samkvæmt ákvæðum í tryggingarbréfunum. Varnaraðili kveðst ítrekað hafa lagt fram yfirlit yfir stöðu afurðalánsins og hann hafi lýst kröfu sinni í búið sem veðkröfu.

             Varnaraðili telur að sóknaraðilar hafi ekki á nokkurn hátt fært rök fyrir því að kröfu varnaraðila skuli hafnað. Varnaraðili telur að hann hafi lagt fram öll þau gögn sem sóknaraðilar skora á hann í greinargerð sinni að leggja fram. Raunar telur varnaraðili að þessi gögn hafi fylgt kröfulýsingu hans í þrotabúið. Varnaraðili telur að umfjöllun sóknaraðila sem fram kemur í greinargerð til stuðnings dómkröfum hans teljist vart það sem á almennu lagamáli er kallað málsástæða. Varnaraðili telur raunar að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo illa úr garði gerður og einkennilegur að vísa beri kröfum sóknaraðila frá dómi án kröfu. Varnaraðili krefst þess þó að dómur verði lagður á gildi þeirrar kröfu sem hann hefur lýst í þrotabú Ferskra afurða ehf. svo tekin verði af öll tvímæli um gildi hennar. Varnaraðili kveðst hafa gert grein fyrir kröfu sinni með hefðbundnum hætti þegar kröfunni var lýst í títtnefnt þrotabú með þeim gögnum sem þurfti til að styðja hana.

              Varnaraðili hafnar alfarið fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að krafa hans hafi ekki veðgildi samanber það sem áður er rakið. Til viðbótar bendir varnaraðili á að þinglýsing afurðalánasamnings sé ekki gildisskilyrði slíkra samninga og þá sé veðtryggingin fólgin í þeim tryggingum sem settar voru af hinu gjaldþrota félagi með tryggingarbréfum þeim sem afurðalánasamningurinn vísar til og eru réttilega úr garði gerð og stofna veðrétt til handa varnaraðila. Varnaraðili kveður sóknaraðila byggja á því að við gerð afurðalánasamninga hafi ætið verið gert sérstakt tryggingarbréf. Það hafi ekki verið gert þegar afurðalánasamningurinn frá október 2002 hafi verið undirritaður. Sóknaraðilar bendi ekki á í hvaða skyni byggt er á þessu atriði enda geti það ekki leitt til þess að undir kröfu hans verði tekið.

             Varnaraðili vísar á bug fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að ekki sé unnt að sjá að kröfum varnaraðila hafi verið lýst í þrotabúið á grundvelli tryggingarbréfs eða að kröfur varnaraðila hafi ekki verið réttilega færðar undir tryggingarbréfið. Varnaraðili áréttar að krafa hans sé byggð á afurðarlánasamningi, hvers efndir eru tryggðar með tryggingarbréfum og var kröfum samkvæmt samningnum lýst í þrotabúið á grundvelli samningsins og veðréttar sem kröfur njóta samkvæmt samningnum og tryggingarbréfum.

Varnaraðili vísar einnig á bug að tryggingarbréf þau er tryggja kröfur hans hafi ekki verið gerð virk eins og sóknaraðilar virðast halda fram. Vísar varnaraðili til skýrra ákvæða tryggingarbréfanna þar sem þeim kröfum sem þeim er ætlað að tryggja er fyllilega lýst og þær taldar upp og með hvaða hætti þær eru tryggðar.

Varnaraðili mótmælir málskostnaðarkröfu sóknaraðila enda sé sú krafa hvorki studd með vísan til gagna eða lagaákvæða. Raunar megi það sama segja um aðrar kröfur sóknaraðila.

Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga um gjaldþrotaskipta o.fl. nr. 21/1991, þar á meðal 85., 111., 120., og 171. gr. laganna. Þá vísar hann til almennra reglna íslensks samninga- og veðréttar um skuldbindingagildi, form og framkvæmd samninga. Kröfu um málskostnað styður varnaraðili við 129. og 130. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

             Sóknaraðilar byggja málatilbúnað sinn í greinargerð á því að varnaraðili hafi ekki gert skýrlega grein fyrir kröfum sínum sem lýst var í þrotabú Ferskra afurða ehf. Í málinu liggja frammi gögn þau er fylgdu kröfulýsingu varnaraðila. Þar á meðal er afurðalánasamningur nr. 951157. Samkvæmt þeim samningi er Ferskum afurðum ehf. lánaðar 200.000.000 króna. Samningurinn er dagsettur 8. október 2002. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en sá samningur hafi verið fullkomlega gildur. Sem skuldatryggingu eða veð fyrir láninu er í samningnum m.a. vísað til tryggingabréfs nr. 951126 að fjárhæð 157.000.000 króna. Það tryggingabréf er einnig meðal ganga málsins. Samkvæmt tryggingabréfinu er varnaraðila settar að veði (sjálfsvörsluveði) allar rekstrarvörur, afurðir, uppskera og framleiðslubirgðir, á hvaða tíma sem er og hverju nafni sem nefnast. Í bréfinu er nánar talið upp hvað er veðsett og með hvaða skilmálum. Með bréfi dagsettu 8. september 2003 var afurðalánið gjaldfellt vegna vanskila Ferskra afurða ehf. Meðal gagna er fylgdu kröfulýsingu sóknaraðila er yfirlit um greiðslur varnaraðila til Ferskra afurða ehf. og um innborganir félagsins inn á lánið og staða þess á hverjum tíma. Fyrst greiddi varnaraðili til félagsins þann 10. október 2002 samtals 37.296.446 krónur og síðan eru raktar með dagsetningum inn og útborganir. Með þessu hefur varnaraðili fyllilega gert grein fyrir fjárhæð kröfu sinnar og hvernig hún er til komin. Sóknaraðilar hafa ekki lagt fram nein gögn eða á nokkurn hátt gert sennilegt að þessar upplýsingar varnaraðila séu rangar. Verður málsástæða þeirra þess efnis að varnaraðili hafi ekki gert grein fyrir kröfum sínum ekki tekin til greina.

             Sóknaraðilar krefjast þess að krafa varnaraðila teljist ekki veðkrafa þar sem afurðalánssamningi hafi ekki verið þinglýst og þá hafi heldur ekki verið upplýst hvaða reglur giltu um veðsetningu birgðanna. Þinglýsing er ekki skilyrði þess að sjálfsvörsluveð eins og hér um ræðir geti stofnast þó svo þinglýsing sé forsenda þess að veðréttur öðlist réttarvernd sbr. 2. mgr. 48. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Ekki er unnt að átta sig á því hvað sóknaraðilar eiga við með því að ekki sé ljóst hvaða reglur giltu um veðsetningu birgðanna.

Kröfu varnaraðila var ekki lýst sem forgangskröfu og er því ekki ástæða til að fjalla um þá dómkröfu sóknaraðila að hafna beri því að krafan sé forgangskrafa í bú Ferskra afurða ehf.

Samkvæmt framanrituðu ber að hafna kröfum sóknaraðila og fallast á kröfu varnaraðila þess efnis að krafa hans nr. 52 í kröfuskrá þrotabús Ferskra afurða ehf. skuli tekin til greina sem veðkrafa.

Við munnlegan flutning málsins komu fram af hálfu sóknaraðila málsástæður sem ekki er að finna í greinargerð hans. Þessum málsástæðum var mótmælt sem of seint fram komnum af hálfu varnaraðila og verða þær ekki teknar til umfjöllunar hér.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verða sóknaraðilar dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur. Ekki hefur verið gerð krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun og dæmist hann því ekki.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl. en af hálfu varnaraðila Alti Björn Þorbjörnsson hdl.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila, Hjalta Jósefssonar og Eric Jensen, er hafnað. Tekin er til greina krafa varnaraðila, Kaupþings Búnaðarbanka hf., og staðfest að krafa hans nr. 52 í kröfuskrá fyrir þrotabú Ferskra afurða ehf. er veðkrafa.

Varnaraðilar greiði sóknaraðila sameiginlega 150.000 krónur í málskostnað.