Hæstiréttur íslands
Mál nr. 462/2007
Lykilorð
- Dýr
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Ómerking
- Meðdómsmaður
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2008. |
|
Nr. 462/2007. |
Karl Guðmundsson(Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Heiðrúnu Huld Finnsdóttur (Anton B. Markússon hrl.) |
Dýr. Skaðabætur. Líkamstjón. Ómerking. Meðdómsmenn.
Í málinu deildu aðilar um það hvort K bæri ábyrgð á líkamstjóni er H varð fyrir við rekstur nýborinnar kýr í eigu K sem ráðist hafði á hana. H byggði kröfur sínar á hendur K meðal annars á því að hann hefði sýnt af sér saknæma háttsemi með því að láta hana, 14 ára gamla og óvana kúm, reka úr haga nýborna kú, án þess að hún hafi fengið viðeigandi leiðbeiningar og viðvaranir. Talið var að dómur héraðsdóms hafi verið haldinn þeim annmörkum að þar hafi verið slegið föstu að faðir K hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi án þess að nánar hafi verið útskýrt á hverju sú niðurstaða væri reist. Þá var talið að ekki hefði verið tekin rökstudd og skýr afstaða til matsgerðar sem lá fyrir í málinu, þrátt fyrir að ráða mætti af héraðsdómi að niðurstaða um skaðabótaskyldu K væri að einhverju leyti byggð á því sem þar kæmi fram. Uppfyllti héraðsdómur því ekki þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings fyrir niðurstöðu dóms um sönnunar- og lagaatriði, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var dómurinn því ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað til aðalmeðferð og dómsálagningar að nýju. Jafnframt var lagt fyrir héraðsdómara að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn til setu í dóminum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. september 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir réttinum.
Í málinu krefst stefnda að áfrýjandi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna þess að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni við rekstur nýborinnar kýr í eigu áfrýjanda 10. ágúst 2002 á landi jarðarinnar Skipholts I, Flúðum í Hrunamannahreppi. Með henni við reksturinn var faðir áfrýjanda. Óumdeilt er að kýrin réðst skyndilega á stefndu, stangaði hana og felldi og traðkaði á andliti hennar og að hún hafi við þetta orðið fyrir því tjóni sem krafist er bóta fyrir samkvæmt matsgerð Atla Ólasonar bæklunarskurðlæknis 15. nóvember 2004. Reisir stefnda kröfu sína á því að áfrýjandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að láta hana, 14 ára gamla og óvana kúm, reka úr haga nýborna kú, án þess að hún hafi fengið viðeigandi leiðbeiningar og viðvaranir. Við meðferð málsins var dómkvaddur Ólafur R. Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, til að svara tilgreindum spurningum er varða hættu sem stafað geti af nýbornum kúm. Í héraðsdómi er greint frá niðurstöðu matsgerðar hans 14. nóvember 2006 þar sem meðal annars eru rakin atriði um hegðun nýborinna kúa. Hins vegar fer hinn dómkvaddi maður nokkuð út fyrir matsefnið með því að leggja mat á sök áfrýjanda með þeim hætti er þar greinir. Hann hvorki hélt formlegan matsfund né skoðaði kúna sem matsspurningar lutu að, þótt sérstaklega hafi verið beðið um mat á eiginleikum kýrinnar.
Sem rök fyrir niðurstöðu sinni um bótaskyldu áfrýjanda tiltekur héraðsdómur einkum að faðir áfrýjanda hafi vitað að rekstur nýborinnar kýr gæti verið áhættusamur. Það hafi ekki verið fyrir eigin verknað stefndu eða aðgæsluleysi hennar að hún slasaðist. Kýrin hafi verið í eigu áfrýjanda og ekki sé réttlátt að stefnda beri tjón sitt við vinnu í þágu áfrýjanda. Þá hafi saknæmt gáleysi föður áfrýjanda, sem starfað hafi í umboði áfrýjanda, verið sá mannlegi þáttur er valdið hafi slysinu.
Eins og málatilbúnaði aðila er háttað verður að taka afstöðu til þess hvort rekja megi tjón stefndu til saknæmrar vanrækslu áfrýjanda eða óhapps. Dómur héraðsdóms er þeim annmörkum háður að þar er því slegið föstu að faðir áfrýjanda hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi án þess að nánar sé útskýrt á hverju sú niðurstaða sé reist. Ekki er þar tekin rökstudd og skýr afstaða til framkominnar matsgerðar og vitnar héraðsdómur ekki til hennar til stuðnings niðurstöðu sinni. Hins vegar má ráða að héraðsdómur reisi niðurstöðu sína um skaðabótaskyldu áfrýjanda að einhverju leyti á því sem þar kemur fram. Héraðsdómur uppfyllir að þessu leyti ekki þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings fyrir niðurstöðu dóms um sönnunar- og lagaatriði samkvæmt f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Við úrlausn málsins verður, meðal annars á grundvelli framkominnar matsgerðar, að taka afstöðu til þess við hverju mátti búast um hegðun kýrinnar við þær aðstæður sem fyrir hendi voru, og hvernig menn hefðu átt að bera sig að við rekstur hennar að teknu tilliti til þess að hún var nýborin. Þegar allt framangreint er haft í huga er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Rétt er að héraðsdómari kveðji þá til tvo sérfróða meðdómsmenn sér til fulltingis til setu í dóminum samkvæmt heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur og málsmeðferð í héraði frá og með aðalmeðferð skulu vera ómerk og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, Heiðrúnar Huldar Finnsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Heiðrúnu Huld Finnsdóttur, kt. 030288-3199, Hunkubökkum, Kirkjubæjarklaustri, á hendur Karli Guðmundssyni, kt. 240169-4529, Skipholti 1, Selfossi, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu sem birt var 26. janúar 2007.
Dómkröfur stefnanda eru að viðurkenndur verður með dómi réttur hennar til skaðabóta úr hendi stefnda, Karls Guðmundssonar, vegna slyss, sem stefnandi varð fyrir hinn 10. ágúst 2002. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða henni 1.921.495 kr. ásamt vöxtum frá 10. ágúst 2002 til 15. desember 2004, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Auk þess er krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Dómkröfur stefnda eru aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að umstefnd bótaskylda verði aðeins viðurkennd að hluta og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
Lýsing stefnanda á slysinu í stefnu er á þann veg að sumarið 2002 hafi hún starfað hjá stefnda. Hún hafi ekki verið vön bústörfum eða sveitastörfum almennt. Að morgni 10. ágúst hafi hún verið að aðstoða stefnda við að reka heim kú, sem var nýbúin að bera. Kýrin réðst skyndilega á hana og stakk höfði í kvið hennar með þeim afleiðingum, að hún féll á bakið á þúfótt undirlag. Kýrin stappaði síðan á höfði hennar. Guðmundur Stefánsson [faðir stefnda] var sjónarvottur að slysinu. Tryggingastofnun ríkisins var tilkynnt slysið.
Í slysinu hlaut stefnandi sár á andlit, högg á hrygg, mjóbak og samfallsbrot á þriðja lendarhryggjarbol. Eftir slysið hætti hún strax vinnu og leitaði til heilsugæslu-stöðvar í Laugarási og var hún send í röntgenmyndatöku í Domus Medica hinn 12. ágúst 2002. Í kjölfar myndatökunnar leitaði hún á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Fyrir liggur að Atli Þór Ólason, dr. med., var með beiðni 1. október 2004 fenginn til að meta samkvæmt skaðabótalögum líkamstjón stefnanda af völdum slyssins. Matsgerð hans er dagsett 15. sama mánaðar. Þar segir undir fyrirsögninni Sjúkdómsgreining:
1. Gróið brot á þriðja mjóhryggjarliðbol (háð slysi 10.08.2002)
2. Ör framan við vinstra eyra og á hvirfli (háð slysi 10.08.2002)
Undir fyrirsögninni Samantekt og álit segir í matsgerðinni:
Fyrir slysið 10.08.2002 var Heiðrún Finnsdóttir einkennalaus frá stoðkerfi og heilsuhraust. Við slysið stangaði kýr hana í magann svo hún féll á bakið ofan á þýft undirlag og kýrin stappaði með öðrum framfæti á andlit og höfuð vinstra megin svo hún hlaut sár á hvirfil og framan við vinstra eyra. Hún hlaut samfallsbrot á þriðja mjóhryggjarliðbol. Þurfti ekki sérstaka meðferð aðra en að minnka álag í um þrjá mánuði. Varanlegur miski og hefðbundin læknisfræðileg örorka er metin 5%.
Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að Heiðrún er í grunnskóla er hún verður fyrir slysinu og hefur ekki orðið sér út um neina starfsmenntun eða starfsreynslu. Gert er ráð fyrir að ef Heiðrún hefði ekki lent í slysinu hefði hún verið einkennalaus og fær til allra almennra starfa. Eftir slysið hafa bakóþægindi Heiðrúnar hindrað hana í að geta tekið fullan þátt í þeim störfum sem henni hefur boðist á sumrin svo sem við garðyrkju og við sveitarstörf. Þar hefur hún fengið leyfi til að hvíla sig og sleppa sumum störfum ef hún er með bakóþægindi. Starfsgeta hennar er því skert. Varanleg örorka er metin 5%.
Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er miðað við að Heiðrún var í sumarvinnu og fékk laun fyrir. Hún ætlaði að vera í vinnu fram til 20.08.2002 en gat það ekki vegna slyssins. Þann tíma hefur hún misst af vinnulaunum og er tímabundið atvinnutjón miðað við þann tíma.
Við mat á þjáningatíma er miðað við ráðleggingar meðferðarlæknis um takmarkað álag í þrjá mánuði á meðan beinbrot er að gróa og jafna sig. Þjáningatími er því miðaður við þrjá mánuði og hún telst ekki hafa verið rúmliggjandi þar sem hún var ekki til meðferðar á spítalastofnun. Stöðugleikatímapunktur er í lok þjáningartímabils 12.11.2002.
Upplýst er að lögmaður stefnanda fór þess á leit við réttargæslustefnda að félagið viðurkenndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda vegna slyssins. Ekki var á það fallist með þeim röksemdum að af gögnum málsins væri ekki séð að tryggingartaki hefði unnið sér neitt til sakar.
Hinn 21. ágúst 2006 var dr. Ólafur R. Dýrmundsson dómkvaddur að beiðni stefnanda til að skoða og meta:
1. Hvernig rétt sé að staðið sé að málum þegar kýr eru reknar;
2. Hvernig var kýrin sem matsbeiðandi vann við að reka, þann 10. ágúst 2002, að eiginleikum og hvernig er líklegt að eiginleikar kýrinnar hafi verið á slysdegi;
3. Hvort eðlilegt sé að kýrin sem matsbeiðandi vann við að reka sé látin í umsjá 14 ára barns;
4. Hvort eðlilegt sé að láta starfsmann reka kúnna án þess að kanna hvort viðkomandi starfsmaður hafi nægilega reynslu til þess að reka hana örugglega, í ljósi þess að um nýborna kú var að ræða;
5. Hvort eðlilegt sé að lát a14 ára barn reka nýborna kú;
6. Hvort telja megi að forsvaranlegt hafi verið að láta matsbeiðanda, þá 14 ára gamla, reka kúna þann 10. ágúst 2002, eins og staðið var að málum.
Í matsgerð dr. Ólafs, sem dagsett er 14. nóvember 2006, segir m.a. undir kaflaheitinu Niðurstöður:
Svörin eru sem hér segir:
1. Að þeir sem verkið vinna fái sem bestar upplýsingar um eðli og hegðun kúa og séu jafnframt upplýstir um hugsanlega hættu, svo sem vegna nýborinna kúa.
2. Ekkert liggur fyrir um eiginleika umræddrar kýr en líklegt er að hún hafi nýborin sýnt sterka móðurhvöt sem hafi í þessu tilviki endurspeglast í árásargirni. Hugsanlega hefur kýrin verið taugaveikluð og/eða skapgölluð.
3. Já, að því tilskyldu að upplýsingar og fræðsla hafi verið veitt, sbr. svar við 1. lið.
4. Nei, sbr. svör við 1. og 3. liðum.
5. Já, sbr. svör við 1. og 3. liðum.
6. Nei, sbr. svör við 1. og 3. liðum.
Af svörum framangreindra sex spurninga, sem flestar eru keimlíkar, má ráða að matsmaður telur ekki óeðlilegt að 14 ára unglingi sé falið að annast rekstur kúa, jafnvel nýborinna, að því tilskyldur að bóndinn hafi veitt viðunandi undirbúning með fræðslu, upplýsingum og viðvörunum. Sérstaklega ber að vara við þeirri hættu sem getur stafað af nýbornum kúm, hvort sem verið er að reka þær eða vinna við þær með öðrum hætti.
Niðurstöðurnar eru þær, að miðað við þau gögn sem fyrir liggja um slysið í Skipholti 1, 10. ágúst 2002, hafi matsbeiðandi ekki fengið nauðsynlega leiðsögn í formi fræðslu, leiðbeininga og viðvarana bónda, til að hún gæti talist í stakk búin til að reka hina nýbornu kú. Þar sem bóndi var ábyrgur fyrir rekstrinum bar honum að undirbúa matsbeiðanda þannig að hún væri fær um að bregðast við óvæntum aðstæðum. Það gerði hann ekki og því telur matsmaður að vinnubrögð bóndans hafi hvorki verið rétt né afsakanleg.
Af hálfu stefnda segir um málsatvik að stefnandi hafi verið ráðin til stefnda eftir að hafa svarað atvinnuauglýsingu í Sunnlenska fréttablaðinu. Við ráðningu hennar hafi m.a. verið horft til þess að stefnandi er frá fjárbúi og einnig mikil hestamanneskja. Hafi hún því verið vön umgengni við dýr þegar hún hóf störf hjá stefnda í byrjun júnímánaðar árið 2002. Hafi störf stefnanda verið fólgin í að reka kýr á beit, sækja þær í mjaltir og aðstoða við mjaltir, auk annarra almennra sveitastarfa sem til féllu. Um 30 kýr hafi verið í hjörðinni.
Þá segir að í sveitum sé þekkt að kvendýr eigi það til að haga sér óvenjulega eftir burð. Eigi það við um kýr ekki síður en um ær og hryssur. Afar sjaldgæft væri þó að dýr rynnu á fólk af þeim sökum.
Þá segir að sérstök atvik þessa máls hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi, ásamt Guðmundi Stefánssyni, föður stefnda, verið að sækja nýborna kú, sem var ein með kálf. Guðmundur hafi þá nýlega náð 71 árs aldri, en hann hafi verið við góða heilsu. Fyrirvaralaust hafi kýrin snúið sér við og ráðist á stefnanda. Guðmundur hafi verið með barefli og hafi honum tekist að berja hana frá stefnanda. Kýrin hafi þá einnig ráðist á Guðmund, en hann hafi ekki meiðst.
Stefnandi byggir á því að réttargæslustefndi hafi selt stefnda svokallaða frjálsa ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar og hafi tryggingin verið í gildi á þeim tíma sem slysið varð. Ábyrgðartryggingin taki samkvæmt skilmálum m.a. til skaðabótaábyrgðar sem fellur á vátryggðan vegna slyss á mönnum vegna starfsemi þeirra sem getið er í vátryggingarskírteini eða iðgjaldskvittun.
Byggt er á því að ábyrgð vinnuveitanda á líkamstjóni starfsmanns, sem lendir í slysi við störf sín sé almennt rík og beri vinnuveitanda að leiðbeina starfsmanni sínum um eðli starfsins, verklag og þætti sem athuga beri sérstaklega. Sérstaklega eigi þetta við þegar um börn og unglinga er að ræða. Við mat á sök stefnda verði að líta til þess að stefnda hafi mátt vera ljóst að hætta og hugsanlegt tjón gæti stafað af því að láta stefnanda, sem ung var að árum og óreynd, annast rekstur á nýborinni kú án þess að hún fengi leiðbeiningar um viðeigandi háttsemi og um úrræði við óvæntum atvikum. Þá hafi stefnda mátt vera ljóst að stefnandi gæti illa gert sér grein fyrir þeim hættum, sem fyrir hendi eru við rekstur nýborinna kúa, og jafnframt mátt vera ljóst að draga mætti úr áhættu með leiðbeiningum og tilsögn. Með hliðsjóna af ungum aldri stefnanda, reynsluleysi hennar við bústörf og eðlis búfjárreksturs, hafi stefnda mátt vera kunnugt að ríkar kröfur væru gerðar til hans til að leiðbeina og upplýsa stefnanda, sérstaklega með hliðsjón af því að nýborin kú var í þeim hópi sem rekinn var. Vanræksla stefnda væri saknæm og leiði til skaðbótaábyrgðar á tjóni stefnanda.
Vísað er til þess að stefndu hafi ekki borið fyrir sig að skaðbótaábyrgð félagsins takmarkist á nokkurn hátt, s.s. vegna meðsakar eða meðábyrgðar stefnanda eða vegna þess að stefnandi hefði átt að hegða sér með öðrum hætti. Bótaskyldu hafi aðeins verið hafnað á þeim grundvelli að stefndi hafi ekki sýnt af sér ólögmæta eða saknæma háttsemi. Ekkert komi þó fram af hálfu stefndu sem dregið geti úr gildi matsgerðar Ólafs R. Dýrmundssonar, en matið sýni með óyggjandi hætti að stefndi beri með saknæmri háttsemi sinni skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Tölulega greinir stefnandi skaðabótakröfu sína þannig:
Þjáningabætur: 90.000 kr.
90 dagar á 1.000 kr. (dagar án rúmlegu)
Varnalegur miski (5%): 286.225 kr.
18% af 5.453.000 kr.
Varanleg örorka (5%):
1.618.000 kr. x 16.955 x 5% 1.371.659 kr.
Samtals 1.921.495 kr.
Stefndi byggir á því að um mál þetta gildi almennar skaðabótareglur. Ekki sé sannað að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna saknæmrar og ólögmætrar hegðunar.
Ályktað er að skoða beri málið með hliðsjón af þeirri staðreynd að afar sjaldgæft er að kýr hegði sér á þennan hátt. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn átt náin og dagleg samskipti við kýr. Þekkt tilvik um árás kúa á fólk séu þrátt fyrir þetta afar fá, svo sem raunar komi skýrt fram í matsgerð. Við úrlausn málsins beri einnig að líta til þess að fræðilega sé mögulegt að húsdýr, af hvaða tegund sem er, fælist og æði á fólk með skaðlegum afleiðingum fyrir þá sem fyrir slíku verða. Fram komi í matsgerðinni að erfitt sé að koma í veg fyrir árás nýborinnar kýr þar sem árásin er mjög snögg og fyrirvaralaus. Jafnframt sé til þess að líta að ekkert liggi fyrir í málinu sem bendi til þess að kýrin sem í hlut átti hafi verið taugaveikluð og/eða skapgölluð.
Tekið er fram að málatilbúnaður stefnanda gefi tilefni til að mótmæla því sérstaklega að stefnandi hafi verið óreynd, þegar atvik málsins urðu. Stefnandi væri sjálf úr sveit og vön dýrum. Þá hafði hún starfað undir handleiðslu stefnda og heimilisfólks hans í u.þ.b. tvo og hálfan mánuð þegar hún meiddist. Ljóst væri að stefnandi hefði öðlast ærna reynslu af umgengni við kýr á þessum tíma og beri að líta til þessa við úrlausn málsins. Þá er því mótmælt að stefndi hafi falið stefnanda að annast rekstur á kúnni sem um ræðir. Hún hafi ekki verið send ein til að sinna því. Faðir stefnda, Guðmundur, hafi verið í för með henni og haft umsjón með rekstrinum. Guðmundur væri fyrrum bóndi og þaulvanur maður. Hafi hann haft með sér barefli til að stýra kúnni og bregðast við óvæntum atvikum.
Því er lýst að alla jafna hafi stefnandi verið ein síns liðs við rekstur kúa þetta sumar, en í umrætt sinn hafi Guðmundur verið ábyrgur fyrir rekstrinum og stefnandi honum aðeins til aðstoðar. Af þessu megi ráða að ekki hafi verið um hefðbundinn rekstur að ræða og að sérstakrar varúðar hafi verið gætt. Með vísun til þessa væri mótmælt fullyrðingum stefnanda um skort á leiðbeiningum og tilsögn. Þá væri mótmælt fullyrðingum stefnanda um „reynsluleysi hennar við bústörf og á eðli reksturs búfjár“. Bakgrunnur stefnanda sýni að tilvísun til þessa eigi ekki við í hennar tilviki. Reynsla stefnanda og aldur hennar hafi ekki gefið tilefni til að farið væri með hana að öllu leyti sem barn. Hún hefði vissulega notið handleiðslu og tilsagnar í störfum sínum.
Byggt er á því að háttsemi stefnanda geti ekki talist siðferðilega ámælisverð. Þá væri ekki til að dreifa háttsemi, sem uppfyllir þau huglægu og hlutlægu skilyrði sem sakarreglan hvílir á. Tjón stefnanda hafi orðið án þess að hirðuleysi eða kæruleysi stefnda verði um kennt. Þurft hefði að sækja umrædda kú. Stefndi hafi ekki haft annað vinnufólk tiltækt til að fara með föður hans í þessa ferð. Úr lýsingum stefnanda sjálfrar á tjónsatvikunum megi ráða að aldur hennar hafi ekkert haft með það að gera að kýrin réðst að henni. Aldur hennar og reynsla hafi ekki aukið hættu á að tjón yrði.
Eins og málum var háttað, sérstaklega með vísun til þeirrar staðreyndar að faðir stefnda var með í umræddri för, verði ekki fullyrt að skort hafi á að leiðbeina stefnanda, stefnanda hafi verið sagt rangt til eða eftirlit með henni hafi vantað.
Áréttað er að matsgerð Ólafs. R. Dýrmundssonar sé gölluð. Verði ekki fallist á það með stefnanda að matsgerðin sýni „með óyggjandi hætti að Karl Guðmundsson beri með saknæmri háttsemi sinni skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda“. Ekki væri á færi matsmannsins, sem er ólögfróður, að leggja mat á, hvort stefndi hefði sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttsemi. Í annan stað hljóti það að teljast verulegur ágalli á matsgerðinni að einhliða lýsing stefnanda er þar lögð til grundvallar niðurstöðu matsmannsins.
Byggt er á því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna óhapps sem ekki er bótaskylt. Með lágmarks aðgæslu hefði stefnandi getað afstýrt því að hún yrði fyrir skaða af völdum kýrinnar. Slysið megi rekja til eigin sakar stefnanda og óhappatilviljunar.
Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu, er krafist sakarskiptingar á sama grundvelli og krafist er sýknu. Kröfu um dráttarvexti er andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Stefnandi gaf skýrslu símleiðis. Hún lýsti aðdraganda slyssins sem hún varð fyrir í nokkrum orðum og afleiðingum þess fyrir hana.
Stefndi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að honum hafi verið kunnugt um að stefnandi hafði reynslu af dýrum áður en hún kom á heimili hans, bæði hrossum og kindum. Hann sagði að störf hennar hefðu verið að hjálpa til inni og þá hafi hún sótt kýr og mjólkað og hjálpað til við ýmis önnur sveitastörf. Hann sagði að stefnandi hefði starfað hjá honum sumarið eftir að hún varð fyrir slysinu.
Stefndi kvaðst minnast þess að hafa áminnt stefnanda að fara varlega gagnvart dýrum á bænum, þegar eitthvað sérstakt var að gerast.
Stefndi sagði að faðir sinn, Guðmundur, hefði verið með stefnanda þegar slysið varð. Hann hafi sjálfur verið hættur búskap á þessum tíma en hjálpað við ýmislegt og verið með í öllu. Hann hafi verið við ágæta heilsu á þessum tíma.
Stefndi var spurður, hvort hann hefði leiðbeint stefnanda hvernig hún ætti að bregðast við, færi svo að kýrin réðist á hana. Hann kvaðst ekki hafa gert það. Hann hefði ekki búist við að kýrin réðist á hana. Hann kvaðst ekki hafa þekkt að kýrin hefði skapgalla eða væri taugaveikluð. Stefnandi hefði ekki áður verið send til að sækja nýborna kú.
Stefndi kvaðst hafa vitað að nýbornar kýr ættu til að ráðast á fólk en hann hefði aldrei sjálfur orðið fyrir slíku né séð það.
Valný Björg Guðmundsdóttir, eiginkona stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að Guðmundur, faðir stefnda, hefði farið með stefnanda til að sækja umrædda kú. Krakkarnir hefðu verið búnir að koma kúnum inn í fjós, þegar þau urðu vör við að eina vantaði. Þá hafi tengdaforeldrar hennar farið að gá að henni og hafi séð að svæðið var erfitt yfirferðar á fæti en ófært á bíl. Hafi þau þá snúið við og sótt stefnanda til að hún gæti farið og rekið kúna með Guðmundi.
Dr. Ólafur Rúnar Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, kom fyrir rétt og staðfesti að hafa unnið matsgerð sem liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 11. Hann lýsti því m.a. yfir hvernig hann hefði staðið að verki við matsgerðina og hvaða gögn hann hefði haft við það.
Spurt var hvort hann hefði við matsgerðina haft samband við stefnda. Ólafur sagði að venjulega hefði hann þann hátt á í svona málum að hafa samráð við lögmenn aðila og léti þá ráða hvað væri rétt að gera í þeim efnum. Af því að hann þekkti ekki málsaðila á neinn hátt hafi hann metið það þannig að betra væri að halda sig frá þeim. Þannig hafi hann haft samband við lögmennina báða og rætt við þá og óskað eftir frekari gögnum frá þeim. Hefðu þeir óskað eftir að hann ræddi við einhverja þá hefði hann gert það. Hann hefði látið lögmennina ráða því hvað hann fékk í hendur. Hann hafi forðast að hafa samband við þá, sem hlut eiga að máli, því að ekki væri auðvelt að finna mann innan landbúnaðar sem ekki væri kunnugur á viðkomandi stað. Hafi hann reynt að vinna þetta eins óháður og hann gat.
Vísað var til þess að í matsgerð Ólafs stendur m.a.: „Niðurstöðurnar eru þær, að miðað við þau gögn sem fyrir liggja um slysið í Skipholti 1, 10. ágúst 2002, hafi matsbeiðandi ekki fengið nauðsynlega leiðsögn í formi fræðslu, leiðbeininga og viðvarana bónda, til að hún gæti talist í stakk búin til að reka hina nýbornu kú.“ Þá var vísað til þess að fyrir liggur í málinu að umrætt sinn var faðir stefnda, Guðmundur Stefánsson, með stefnanda. Spurt var, hvort hann teldi að nægilegt tillit væri tekið til þessarar staðreyndar í niðurstöðu hans. Ólafur kvaðst ekki geta tekið afstöðu til þess, hann hafi ekki fengið þessar upplýsingar. Þessar upplýsingar hefðu ekki legið fyrir í gögnum hans og ekki heldur borist honum frá lögmönnum aðila. Ákaflega erfitt væri að segja til um það hvort það hefði skipt einhverju máli. Svona atburðir gerist mjög snögglega. Vera Guðmundar á staðnum segi ekkert um hvort stefnandi hafi fengið nægilegar leiðbeiningar eða ekki.
Guðmundur Stefánsson gaf skýrslu símleiðis. Hann sagði m.a. að hann hefði verið nærstaddur þegar kýrin réðst á stefnanda. Hann kvaðst hafa stundað búskap frá árinu 1957. Hann hafi verið með blandaðan búskap, aðallega kýr. Hann kvaðst ekki hafa verið með rekstur á kúnum sumarið 2002. Hann hafi þá verið hættur búskap. Hann hafi þó mjólkað beljurnar o.fl.
Daginn sem slysið var sagði Guðmundur að aðstæður hefðu verið þannig að kýrnar voru komnar heim nema ein nýborin sem vantaði.
Guðmundur kvaðst hafa áminnt stefnanda um að fara varlega að kúnni. Hann hefði ekið með hana á staðinn. Fyrst hefði kona hans ætlað að ná í beljuna, en þetta hefði verið nokkuð langur vegur og hafi þeim dottið í hug að stefnandi ætti auðveldar með að ganga þetta. Hafi þau farið heim og sótt stefnanda og hann farið með hana á staðinn. Hafi hann sagt stefnanda að hann kæmi til öryggis með henni til að koma beljunni af stað. Hefði kýrin ekki verið nýborin hefði hann ekkert hugsað um að fara með stefnanda. Hann kvaðst hafa haft með sér barefli til að geta lamið frá sér.
Guðmundur sagði að kýrin hefði verið nýborin rétt við veginn og hafi hann farið með stefnanda til hennar og ætlað að hjálpa stefnanda að koma henni af stað. Þegar að var komið og þau hófu að reka hana af stað, þá hafi kýrin umsvifalaust ráðist á stefnanda og fellt hana og þjarmað að henni. Kvaðst hann hafa lamið kúna eins og hann gat með plastslöngu sem hann var með, en þá hafi hún allt í einu sleppt stefnanda og rokið á hann og fellt hann.
Ályktunarorð: Stefndi byggir á því að tjón stefnanda sé til komið vegna óhapps, sem ekki sé bótaskylt. Með lágmarks aðgæslu hefði stefnandi getað afstýrt því að hún yrði fyrir skaða af völdum kýrinnar. Bersýnilega hefði skort þá aðgæslu hjá stefnanda. Eigin sök stefnanda og óhapptilviljun hafi valdið slysinu.
Guðmundur Stefánsson, sem er faðir stefnda, tók þá ákvörðun að fá stefnanda til að reka með sér nýborna kú úr haga heim í fjós. Guðmundur hafði barefli með sér og viðurkenndi fyrir rétti að hann hefði ekki farið með stefnanda til að reka kúna heim, hefði kýrin ekki verið nýborin. Má því ljóst vera að hann vissi að rekstur á nýborinni kú gat verið áhættusamur.
Engin stoð er fyrir þeirri staðhæfingu stefnda að stefnandi hefði með lágmarks aðgæslu getað komið í veg fyrir að kýrin réðist á hana. Kemur þá til skoðunar hvort saknæmt aðgæsluleysi stefnda hafi valdið stefnanda líkamstjóni eða óhappatilviljun hafi valdið slysinu.
Stefnandi, Heiðrún Huld Finnsdóttir, er fædd 3. febrúar 1988 og var því rúmlega fjórtán ára gömul þegar hún lenti í slysinu hinn 10. ágúst 2002. Fyrir liggur hvernig slysið bar að höndum. Stefnandi stýrði því ekki á hvern hátt hún stóð þar að verki með Guðmundi. Guðmundur, sem einn var sjónarvottur af slysinu, bar fyrir rétti að kýrin hefði umsvifalaust ráðist á stefnanda og hafði hann engin orð um aðgæsluleysi stefnanda í því sambandi. Það var því hvorki fyrir eigin verknað stefnanda né aðgæsluleysi að hún slasaðist.
Kýr í eigu stefnda réðst á stefnanda. Ekki er réttlátt að stefnandi beri óbætt líkamstjón sitt, sem hún fékk við vinnu sína í þágu stefnda, og á jafnframt enga sök á sjálf og verður ekki rakið til aðgæsluleysis hennar hvað þá ásetnings. Telja verður að saknæmt gáleysi stjórnanda stefnanda umrætt sinn, föður stefnda, er starfaði í umboði stefnda við rekstur kýrinnar, hafi verið sá mannlegi þáttur er olli slysinu. Verður stefndi því að bera ábyrgð á því að svo fór sem fór.
Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði, allt eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Karl Guðmundsson, greiði stefnanda, Heiðrúnu Huld Finnsdóttur, 1.921.495 krónur ásamt vöxtum frá 10. ágúst 2002 til 15. desember 2004, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði 742.167 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 742.167 krónur.