Print

Mál nr. 66/2010

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Riftun

Fimmtudaginn 2. desember 2010.

Nr. 66/2010.

Egill Viggósson 

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

GT verktökum ehf.

(Marteinn Másson hrl.)

og gagnsök

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Riftun.

E sem starfað hafði sem sjúkraflutningamaður hjá G til loka október mánaðar 2008, krafðist launa í uppsagnarfresti og viðbótarlauna sem hann taldi að samið hefði verið um. Til vara krafðist hann launa í veikindum, en hann byggði á því að hann hefði orðið fyrir slysi hjá G 17. september 2008. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, kemur fram að E hafi fyrirgert rétti sínum til greiðslu launa í uppsagnarfresti úr hendi G eftir að hann hætti störfum hjá félaginu 12. nóvember 2008. Þá hafi E ekki tekist að sanna að hann ætti rétt til viðbótarlauna úr hendi G eins og deilt var um. Hvað varðaði varakröfu E kemur fram að hann hafi vanrækt að tilkynna G um slysið og að tryggja sér sönnun fyrir atvikum sem réttur hans til veikindalauna var bundinn við og yrði hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. G var því sýknað af kröfum E um greiðslu launa sem byggðu á fyrrgreindum málsástæðum en launakrafa hans fyrir tímabilið 1.  til 12. nóvember 2008 var tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 16. desember 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. janúar 2010 og var áfrýjað öðru sinni 8. febrúar sama ár. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 4.534.580 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. janúar 2009 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 4.494.455 krónur með sömu dráttarvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. janúar 2009 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 21. apríl 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð  og sér dæmdur málskostnaður hér fyrir dómi. 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2009.

Mál þetta, sem var dómtekið 8. f.m., er höfðað 13. janúar 2009.

Stefnandi er Egill Örn Viggósson, Heiðarbrún 96 í Hveragerði.

Stefndi er GT verktakar ehf., Rauðhellu 1 í Hafnarfirði.

Stefnandi gerir þá kröfu aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 4.534.580 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. janúar 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 4.494.455 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.400.000 krónum frá 1. janúar 2009 til 1. febrúar sama ár, en af 3.150.000 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, en af 4.494.455 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á þeim. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Mál þetta hefur stefnandi aðallega höfðað til heimtu launa í uppsagnarfresti, en til vara gerir hann kröfu á hendur stefnda um laun í veikindum. Í báðum tilvikum hefur hann að auki uppi kröfu á þeim grundvelli að stefndi hafi ekki að fullu staðið honum skil á þeim launum sem þeir hefðu samið um sín í milli.

Málsatvik eru þau að stefndi var undirverktaki hjá Impregilo við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og sá meðal annars um sjúkraflutninga á svæðinu. Réði stefnandi sig til starfa hjá stefnda sem sjúkraflutningamaður. Ekki var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Umsamin laun voru 20.000 fyrir hvern unninn dag, en að sögn stefnanda hafi því verið lofað að þau myndu hækka í 25.000 krónur þegar hann lyki námskeiði í sjúkraflutningum. Því lauk hann 20. apríl 2008 en stefndi hafi ekki efnt þetta loforð sitt. Af hálfu stefnanda er því hafnað að samið hafi verið um þessa launahækkun. Þá greinir aðila á um það hvaða kjarasamningur átti að ráða starfskjörum stefnanda hjá stefnda. Þannig heldur stefnandi því fram að um þau ætti að fara samkvæmt kjarasamningi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Launanefndar sveitarfélaga (LN). Stefndi staðhæfir á hinn bóginn að ráðningarsamningur stefnda og annarra sjúkraflutningamanna sem störfuðu hjá félaginu hafi átt rætur sínar í svonefndum Virkjanasamningi, en sá samningur var á sínum tíma gerður milli aðila vinnumarkaðarins um laun og önnur ráðningarkjör fyrir starfsmenn í öllum starfsgreinum á virkjanasvæðinu. Samkvæmt ráðningarsamningum sjúkraflutningamanna í þjónustu stefnda hafi þannig farið um launaflokkun og launaþrep eftir flokkunarkerfi Virkjanasamningsins. Hafi það verið gagnkvæmur skilningur stefnda og LSS að ráðningarsamningar sjúkraflutninga-mannanna ættu stoð í þeim samningi. Þó hafi sérstakt samkomulag verið gert við LSS um fastar greiðslur til starfsmanna fyrir vaktir sem þeir gengu. Þá hefðu stéttarfélagsgjöld þeirra verið greidd til LSS. Hafi skýringin á því verið sú að sambandið hafi sérstaklega óskað eftir því að fá félagsgjöldin til sín auk þess sem þeir starfsmenn, sem voru félagsmenn í því, hefðu viljað halda tengslum við það vegna hins faglega þáttar í starfi þess.

 Að sögn stefnanda var vinnufyrirkomulagi þannig háttað í upphafi að unnar voru fjórar vikur í samfellu en síðan kom ein vika í frí. Þegar um áramótin 2007/2008 hafi þessu verið breytt, en þá hafði sjúkraflutningamönnum fækkað úr sjö, þegar flest var, í þrjá. Sökum mannfæðar hafi ekki verið hægt að hafa sama hátt á og áður og hafi stefnandi þannig í reynd verið að störfum alla daga mánaðarins. Hinn 1. september 2007 hafi öllum starfsmönnum stefnda við Kárahnjúkavirkjun verið sagt upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þegar kom að starfslokum hafi verið ljóst að þær uppsagnir hefðu verið ótímabær og hefðu stefnandi og samstarfsmenn hans því verið beðnir um að vinna áfram. Áður boðaðar uppsagnir hefðu þannig fallið úr gildi. Hafi stefnandi haldið áfram störfum og fengið sömu laun greidd fyrir vinnu sína það sem eftir lifði árs og fram á haust 2008.

Stefnandi heldur því fram að 17. september 2008 hafi hann orðið fyrir því óhappi að togna á öxl við störf sín. Hafi þetta gerst fyrir utan verkstæði stefnda að Kárahnjúkum. Hann hafi í fyrstu vonast eftir því að þetta myndi lagast, en þegar á leið hefðu veikindi hans ágerst og sé nú svo komið að hann sé óvinnufær vegna þessa óhapps. Veikindi þessi hafi stefnandi tilkynnt til stefnda 2. október 2008. 

Stefnandi skýrir svo frá málsatvikum að í lok október 2008 hafi starfsmaður stefnda hringt í hann þar sem hann var við vinnu að Kárahnjúkum og beðið hann um að koma suður með sjúkrabifreiðina. Það hafi hann gert. Hafi sú skýring verið gefin á þessu að verkefnum sem stefndi hafði sinnt að Kárahnjúkum væri lokið. Laun stefnanda fyrir október 2008 hafi hins ekki verið greidd á gjalddaga þeirra 1. nóvember 2008.  Þegar stefnandi spurðist fyrir um þetta hafi honum verið tjáð að fyrirsvarsmenn stefnda litu svo á að honum bæri enginn uppsagnarfrestur og í þeim efnum vísað til uppsagnarinnar í september 2007, svo og að þaðan í frá hafi verið í gildi tímabundinn ráðningarsamningur sem gilt hafi frá mánuði til mánaðar. Með bréfi lögmanns stefnanda, sem sent hafi verið stefnda 10. nóvember 2008, hafi stefnda verið gefinn frestur til 12. sama mánaðar til að greiða laun stefnanda fyrir október. Hafi skýrt verið tekið fram í bréfinu að yrðu launin ekki greidd áður en þessi frestur væri á enda væri litið á þessa vanefnd stefnda sem verulega vanefnd sem jafngilti fyrirvaralausri uppsögn. Greiðsla hafi hins vegar ekki borist fyrr en 17. nóvember 2008. Þessu bréfi lögmanns stefnanda hafi fylgt vottorð læknis um óvinnufærni stefnanda.

Að því er málsatvik varðar tekur stefndi fram að félagið hafi ekki sinnt sjúkraflutningum annars staðar en að Kárahnjúkum. Samningur stefnda við Impreglio þar um hafi í upphafi verið til tveggja ára, með gildistíma frá miðjum september 2005 og fram í miðjan september 2007. Samningurinn hafi síðan verið framlengdur um nokkra mánuði, fram á vorið 2008, og eftir það frá mánuði til mánaðar að mati heilsugæslulæknis á svæðinu og verktakans. Sjúkrabílum og starfsmönnum á virkjanasvæðinu hafi fækkað smátt og smátt eftir því sem vinnustöðum þar fækkaði. Undir lokin hafi verið umsamið að ein sjúkraflutningabifreið og ein til vara og einn eða tveir sjúkraflutningamenn yrðu eftir þar til fram undir miðjan október 2008, en þá skyldi lokið þessu verki stefnda fyrir Impreglio. Stefnandi hafi verið annar þessara manna. Skömmu áður en upphaflegum verksamningi um sjúkraflutningana lauk, eða síðsumars 2007, hafi starfsmönnum stefnda verið sagt upp störfum og þeim þá tjáð að það væri vegna fyrirhugaðra verkloka. Sé röng sú staðhæfing í stefnu að uppsagnarfrestur hafi verið þrír mánuðir. Þegar verksamningurinn var framlengdur hafi starfsmönnunum verið skýrt frá því að um tímabundna framlengingu væri að ræða. Um vorið eða snemma sumars 2008 hafi þeim starfsmönnum stefnda, sem þá störfuðu enn á virkjanasvæðinu, verið um það kunnugt að búast mætti við verklokum þá og þegar og að einvörðungu væri um tímabundin verkefni að ræða um mjög skamman tíma. Hafi öllum starfsmönnum á Kárahnjúkasvæðinu verið það ljóst að framkvæmdum þar væri að ljúka og að sjúkraflutningaþjónustu þyrfti ekki fyrir mannlaust virkjanasvæði.

Stefndi tekur fram að gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur við flesta sjúkraflutningamennina, en munnlegur samningur við stefnanda. Samningur stefnanda, þótt munnlegur væri, hafi efnislega að mestu leyti verið samhljóða samningum annarra starfsmanna. Þó hafi einhver mismunur verið á þeim að því er varðaði greiðslur fyrir vaktir. Að því er vinnufyrirkomulag sjúkraflutningamannanna varðar hafi því í upphafi verið þann veg háttað að unnar voru tvær vikur, en að þeirri törn lokinni hafi starfsmaður fengið frí í eina viku. Þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda hafi þessu verið breytt og sjúkraflutningamenn þá fengið viku frí að lokinni þriggja vikna vinnutörn.

II

Á því er byggt af hálfu stefnanda að komist hafi á gildur og gagnkvæmur ótímabundinn ráðningarsamningur milli aðila þar sem stefnandi hafi átt að vinna við sjúkraflutninga við Kárahnjúkavirkjun. Hafi verið um það samið að laun hans skyldu nema 20.000 krónum á dag og 25.000 krónum eftir að hann lyki námskeiði í sjúkraflutningum. Hann hafi lokið því námskeiði 20. apríl 2008 og því hafi þessi umsamda launahækkun átt að koma til framkvæmda frá og með 1. maí 2008. Það hafi hins vegar ekki gerst og því hafi mánaðarlaun stefnanda í raun verið 150.000 krónum lægri en hann átti rétt til mánuðina maí til og með október 2008. Um önnur launakjör hans hafi átt að fara eftir landslögum og kjarasamningi stéttarfélags hans.

Þá er á því byggt að stefnanda hafi ekki verið sagt upp störfum heldur hafi hann verið „kallaður heim“ þegar starfi hans var lokið í lok október 2008. Uppsögnin sem átti sér stað í september 2007 hafi ekkert gildi nú þar sem vinnu starfsmanna stefnda hafi verið haldið áfram í eitt ár eftir að sú uppsögn barst. Við það hafi ótímabundinn ráðningarsamningur milli aðila raknað við að nýju og því verði stefndi að virða rétt stefnanda til uppsagarfrests samkvæmt kjarasamningi stéttarfélags hans, en samkvæmt gr. 11.1.3.2. í kjarasamningnum hafi stefnanda borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Engin slík uppsögn hafi átt sér stað.

Á því er byggt að stefndi hafi vanefnt ráðningarsamninginn við stefnanda þegar hann greiddi honum ekki laun á umsömdum tíma hinn 1. nóvember 2008 vegna vinnu hans í október sama ár. Stefnda hafi verið veitt aðvörun vegna vanefnda á greiðslu launa. Þrátt fyrir það hafi greiðsla ekki borist fyrr en liðnir voru 17 dagar af nóvember. Byggir stefnandi á því að þar sé um að ræða verulega vanefnd sem jafngildi ólögmætri uppsögn. Vísar stefnandi um það til meginreglna vinnuréttar og kröfuréttar um verulega vanefnd. Því eigi stefndi að bæta honum allt það tjón sem hin ólögmæta uppsögn olli honum. Stefnandi sé í dag óvinnufær og geti því í raun ekki unnið í starfsgrein sinni.

Á því er byggt að uppsögn eigi að miða við mánaðamót, sbr. 6. mgr. 1.gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, og því teljist uppsagnarfrestur stefnanda frá og með desember 2008.

Aðalkrafa stefnanda sundurliðast sem hér segir:

1. Vangreidd laun um kr. 150 þúsund á mánuði maí-október 2008             kr.           900.000

2. Laun í nóvember 2008.                                                                                  kr.           750.000

3. Laun í uppsagnarfresti desember 2008 -febrúar 2009                              kr.           2.250.000

4. 13.04% orlof                                                                                                   kr.           508.560

5. 6% lífeyrisframlag                                                                                          kr.           264.480

Til frádráttar kemur síðan tjónagreiðsla frá tryggingafélagi að fjárhæð 226.105 krónur.

Krafa um laun í uppsagnarfresti er aðallega krafa um skaðabætur, en til vara launakrafa. Krafan um skaðabætur er rökstudd með því að um ólögmæta uppsögn hafi verið að ræða og því fari um bætur til hans eftir sakarreglunni innan samninga. Stefndi hafi með ásetningi eða af gáleysi vanefnt ráðningarsamninginn verulega með því að sinna ekki meginskyldu samkvæmt honum um greiðslu launa og hafi þrátt fyrir áminningu þar um ekki greitt laun fyrr en liðnir voru 17 dagar frá gjalddaga þeirra. Það teljist veruleg vanefnd.

Um orlof vísar stefnandi til gr. 4.2.1 í kjarasamningi LSS og LN. Einnig til 1. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Þá vísar stefnandi jafnframt til þeirrar meginreglu 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega að kjarasamningar séu samningar um lágmarkskjör og að einstakir ráðningasamningar megi ekki ganga gegn ákvæðum þeirra. Um lífeyrisframlag vísar stefnandi til 2. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Verði ekki á það fallist að um ólögmæta uppsögn hafi verið að ræða er á því byggt af hálfu stefnanda að hann sé í dag óvinnufær. Hann hafi tilkynnt um slys það sem olli óvinnufærni hans 2. október 2008. Með bréfi lögmanns hans 10. nóvember 2008 hafi fylgt læknisvottorð um óvinnufærni. Honum hafi enn ekki verið sagt upp störfum og því eigi hann samkvæmt lögum og 12. kafla í kjarasamningi stéttarfélags hans rétt á veikindalaunum. Þannig eigi hann samkvæmt gr. 12.2.1. rétt á 133 veikindadögum, það er fyrir nóvember og desember 2008 og janúar og febrúar 2009, 750.000 krónur á mánuði. Þá er með sama hætti og í aðalkröfu að auki gerð krafa um vangreidd laun fyrir mánuðina maí til og með október 2008.

Varakröfu sína sundurliðar stefnandi nú með eftirfarandi hætti:

1. Vangreidd laun 150.000 á mánuði maí – október 2008                             kr.    900.000

2. Veikindalaun nóvember 2008 – febrúar 2009                                             kr. 3.000.000

3. 13.04% orlof af launum                                                                                 kr.    508.560

4. 8% lífeyrisframlag                                                                                          kr.    312.000

Til frádráttar kemur síðan tjónagreiðsla frá tryggingafélagi að fjárhæð 226.105 krónur.

III

Stefndi styður sýknukröfu sína þeim rökum að stefnanda hafi að fullu verið greidd þau laun sem ráðningarsamningur hans kvað á um. Stefnandi eigi þannig engin laun vangoldin vegna vinnu sinnar hjá stefnda fram til 1. nóvember 2008. Þá eigi hann ekki rétt  til launa úr hendi stefnda eftir það tímamark.

Stefndi hafnar því að svo hafi um samist að laun stefnanda myndu hækka um 5.000 krónur fyrir vaktina þegar hann lyki námskeiði í sjúkraflutningum í apríl 2008. Honum hafi hvorki verið gefið loforð um slíka launahækkun né hafi hún verið hluti ráðningarkjara hans, hvorki samkvæmt ráðningarsamningi né kjarasamningi þeim sem ella gilti um launakjör hans, það er virkjanasamningnum.

Stefndi hafnar því einnig að stefnandi eigi rétt til launa fyrir nóvember 2008. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum í ágúst eða í byrjun september 2007 vegna þess að þá hafi verktíma samkvæmt verksamningi stefnda og Impreglio um sjúkra-flutningana verið að ljúka. Munnlegur samningur hafi verið gerður við alla sjúkraflutningamennina um að þeir héldu áfram störfum tímabundið vegna tímabundinnar framlengingar á verksamningnum. Þeir samningar hefðu verið gerðir við starfsmenn þegar Impreglio og heilsugæslulæknir svæðisins mátu það svo að rétt væri að hafa sjúkraflutningaþjónustu áfram á virkjanasvæðinu tímabundið og þrátt fyrir minnkandi umsvif. Hafi sjúkrabílum og starfsmönnum fækkað smátt og smátt eftir því sem umsvif minnkuðu.

Stefndi hafnar því einnig að stefnanda hafi verið sagt upp störfum á ólögmætan hátt og að stefnandi eigi af þeim sökum rétt á skaðabótum úr hendi hans í formi launa fyrir nóvember 2008 eða í uppsagnarfresti. Vísar stefndi til þess að starfsmaður hans hafi rætt við lögmann stefnanda strax eftir móttöku á bréfi lögmannsins, sem var dagsett 10. nóvember 2008. Starfsmaðurinn hafi upplýst að það kynni að dragast í nokkra daga að greiðsla bærist. Samkomulag hafi orðið um að greitt yrði 15.-17. nóvember 2008. Greiðslan hafi svo verið innt af hendi 17. nóvember 2008. Hafnar stefndi þannig alfarið ávirðingum um að hann hafi af ásetningi eða gáleysi vanefnt verulega samningsskyldur sínar gagnvart stefnanda.

Öllum starfsmönnum á Kárahnjúkasvæðinu, stefnandi þar með talinn, hafi verið það ljóst haustið 2008 að verkframkvæmdum væri að ljúka þar. Jafnframt hafi öllum starfsmönnum stefnda verið það ljóst að stefndi hefði ekki sjúkraflutninga-þjónustu með höndum annars staðar á landinu. Loks hafi þeim starfsmönnum stefnda sem störfuðu við sjúkraflutninga, stefnandi þar með talinn, verið það ljóst að störfum þeirra samkvæmt ráðningarsamningi lyki þegar sjúkraflutningaþjónustu á Kárahnjúkasvæðinu yrði hætt.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi vitað það með nokkurra mánaða fyrirvara að ráðningartími hans væri senn úti. Útilokað sé að stefnandi geti með góðri samvisku haldið því fram að hann hafi ekki vitað af verklokum. Undir lokin hafi stefnandi vitað að það væri aðeins daga- eða vikuspursmál hvenær ráðningartímanum lyki. Stefnandi hafi þannig vitað að hann yrði ekki mikið lengur í vinnu hjá stefnda. Stefnandi hafi einnig vitað að ekki væri um neinn uppsagnarfrest að ræða, enda hafi ráðning hans verið tímabundin. Þegar um tímabundinn ráðningarsamning er að ræða falli niður við samningslok sjálfkrafa niður gagnkvæmar skyldur aðila, vinnuframlagsskylda starfsmannsins og launagreiðsluskylda vinnuveitandans. Stefndi heldur því þannig fram að stefnandi eigi engan rétt til launa í uppsagnarfresti, hvorki í þrjá mánuði né í skemmri eða lengri tíma.

Með vísan til framangreindra málsástæðna eigi stefnandi ekki kröfu um greiðslu á 13,04% orlofi og 8% lífeyrissjóðsframlagi.

Að því er varakröfu stefnanda varðar vísar stefndi til þess að stefnandi haldi því fram að hann hafi orðið fyrir vinnuslysi 17. september 2008. Hann hafi þó ekki tilkynnt stefnda um hið meinta slys fyrr en löngu síðar og ekki verði annað séð en að hann hafi verið fær um að sinna vinnuskyldum sínum allt til loka október.

Stefndi telur að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir slysi sem skapi honum rétt til veikindalauna. Þannig verði á engan hátt hægt að segja að læknisvottorð Hallgríms Þ. Magnússonar svæfingarlæknis frá 5. nóvember 2008 beri með sér hvort og þá hvernig stefnandi á að hafa lent í slysi, um hvers konar slys hafi verið að ræða og hverjar afleiðingar slyssins hafi orðið. Þá sé vottorðið gefið út einum og hálfum mánuði eftir hið meinta slys og eftir lok ráðningartímans.

Stefndi telur læknisvottorð Örnólfs Valdimarssonar 16. desember 2008 ekki bera með sér annað en frásögn stefnanda sjálfs. Hin meintu meiðsl geti hafa átt sér stað hvenær sem var og á hvaða hátt sem var og án nokkurra tengsla við störf stefnanda á ráðningartíma hans hjá stefnda.

Með vísan til framanritaðs hafnar stefndi því að stefnandi eigi rétt á veikindalaunum.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu af öllum kröfum stefnanda byggir hann varakröfu sína um lækkun á þeim málsástæðum sem að framan eru raktar en að auki á eftirgreindum málsástæðum.

Í fyrsta lagi hafnar stefndi alfarið því launaviðmiði sem stefnandi byggir á til stuðnings einstökum liðum í kröfugerð sinni. Bendir stefndi í því sambandi á að stefnandi hafi að jafnaði unnið 21-24 vaktir í mánuði, sem hafi skapað honum laun upp á 440.000 – 480.000 krónur brúttó á mánuði. Innifalið hafi verið orlof. Síðustu mánuðina sem ráðningarsamningssamband stefnanda og stefnda var í gildi hafi stefnandi leitast við að fá sem flestar vaktir, að sögn í því skyni að fá meiri tekjur þann stutta tíma sem eftir var af ráðningartímanum. Telur stefndi þannig að þær aukatekjur sem stefnandi hafi þannig unnið sér inn geti ekki falið í sér eðlilegt launaviðmið, heldur eigi frekar að miða við eðlilegan vinnutíma, það er 21-24 vaktir í mánuði. Þá telur stefndi að ekki fái staðist að orlofi sé bætt ofan á launafjárhæð sem þegar feli í sér orlof.

Í öðru lagi hafnar stefndi því að um samningssamband hans og stefnanda fari samkvæmt kjarasamningi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Launanefndar sveitarfélaga. Stefndi sé ekki sveitarfélag, hann hafi aldrei samið við starfsmenn sína á grundvelli þessa kjarasamnings og aldrei gert samkomulag við LSS um að farið yrði eftir kjarasamningi þess. Þvert á móti hafi það verið gagnkvæmur skilningur stefnda og LSS að um launa- og ráðningarkjör sjúkraflutningamanna í þjónustu stefnda færi samkvæmt Virkjanasamningnum. Bendir stefndi í þessu sambandi á að stefnandi hafi ekki verið með löggildingu sem sjúkraflutningamaður, að minnsta kosti ekki fyrr en undir lok ráðningartíma síns hjá stefnanda.

Verði ekki fallist á með stefnda að ráðningartími stefnanda hafi runnið sitt skeið á enda í lok október 2008 hafnar stefndi því að stefnandi geti átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hin almenna regla í kjarasamningum þeirra stéttarfélaga sem stóðu að Virkjanasamningnum sé sú að uppsagnarfrestur þeirra sem náð hafa frá þriggja mánaða til þriggja ára starfsreynslu sé einn mánuður. Þannig sé ljóst að stefnandi geti ekki átt rétt á lengri uppsagnarfresti en það.

Sömuleiðis geti stefnandi að mati stefnda ekki átt rétt á veikindalaunum í 133 daga. Almenna reglan í kjarasamningum sé sú að eftir eins árs samfellt starf hjá sama vinnuveitanda eigi launþegi rétt á staðgengilslaunum í einn mánuð. Stefnandi hafi hins vegar unnið út októbermánuð eins og ekkert hefði í skorist og ekki kennt sér meins. Hann geti ekki framlengt hugsanlegan launarétt sinn með því að bæta mánaðar veikindaleyfi þar aftan við.

Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Stefndi styður kröfur sínar og málsástæður meðal annars við ákvæði Virkjanasamningsins og kjarasamninga einstakra stéttarfélaga sem áttu aðild að Virkjanasamningnum, ráðningarsamning sinn við stefnanda, almennar reglur kröfuréttar og vinnumálaréttar um lok ráðningarsamningssambands, fullnaðaruppgjör launakrafna og fleira.

IV

Krafa stefnanda á hendur stefnda tekur í fyrsta lagi til þess að þeir hefðu samið um að laun hans myndu hækka um 5.000 krónur á dag, það er úr 20.000 krónum í 25.000 krónur, þegar hann lyki námskeiði í sjúkraflutningum. Því námskeiði lauk hann 20. apríl 2008. Samkvæmt þessu hafi hækkunin átt að koma til framkvæmda 1. maí 2008. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir þessari staðhæfingu sinni og breytir engu í þeim efnum þótt skriflegur ráðningarsamningur hafi ekki verið gerður við hann, sbr. til hliðsjónar dómur Hæstaréttar 18. mars 2008 í máli nr. 393/2007. Til stuðnings þessari kröfu sinni vísar stefnandi til vitnisburðar þeirra Björgvins Herjólfssonar og Bjarna Rúnars Rafnssonar sem einnig störfuðu hjá stefnda sem sjúkraflutningamenn. Báru þeir báðir efnislega á þann veg að verkstjóri stefnda á vinnusvæðinu hafi látið þau orð falla í viðurvist þeirra og stefnanda að þegar stefnandi hefði lokið námskeiði í sjúkraflutningum yrðu laun hans hækkuð til samræmis við laun þeirra starfsmanna stefnda sem hefðu tilskilin réttindi til sjúkraflutninga. Þeir Björgvin og Bjarni Rúnar höfðu þá báðir öðlast slík réttindi og námu dagvinnulaun þeirra samkvæmt framlögðum ráðningarsamningum 25.000 krónum með orlofi. Ekki er komið fram að sá starfsmaður stefnda sem á að hafa látið þessi orð falla hafi komið að ákvörðun um laun eða önnur starfskjör starfsmanna félagsins og haft heimild til að skuldbinda það í þessum efnum, en af hálfu stefnda er því alfarið hafnað. Ekki verður séð að stefnandi hafi gert athugasemdir er lutu að því að stefndi væri ekki að standa honum skil á umsömdum launum að þessu leyti fyrr en eftir að hann lét af störfum, en vangreidd laun vegna þessa nema samkvæmt kröfugerð stefnanda 150.000 krónum á mánuði og samtals 1.500.000 krónum. Veitti stefnandi þannig viðtöku launum fyrir mánuðina maí til og með september 2008 án þess að koma því á framfæri við stefnda að þau væru ekki í samræmi við það sem hann taldi að samið hefði verið um. Ráðstafanir til að tryggja ótvíræða sönnun fyrir því að aðilar hafi samið um launahækkun stefnanda til handa hefðu átt að vera honum léttbærar. Að þessu virtu er ósannað að til slíks samnings hafi stofnast. Er stefndi því sýknaður af þessari kröfu stefnanda.

Stefndi heldur því fram að í gildi hafi verið tímabundinn ráðningarsamningur við stefnanda sem síðast hafi verið framlengdur um einn mánuð um mánaðamótin september/október 2008. Af hálfu stefnanda er á hinn bóginn byggt á því að um ótímabundinn samning hafi verið að ræða. Með því að skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður ber stefndi sönnunarbyrði fyrir framangreindri staðhæfingu sinni. Til sanns vegar má færa að stefnanda hafi verið það ljóst þegar líða tók á árið 2008 að komið væri að verklokum hjá honum á virkjanasvæðinu. Sú vitneskja hans getur ein og sér ekki leitt til þess að líta beri svo á að ráðningarsamningur hans hafi verið tímabundinn og að störfum hans í þágu stefnda lyki þannig 31. október 2008. Telst þetta ósannað. Af því leiðir að líta verður svo á að stofnast hafi til ótímabundins ráðningarsamnings og að stefnanda hafi þar með borið samningsbundinn uppsagnarfrestur.

Óumdeilt er að stefndi stóð stefnanda ekki skil á launum fyrir október 2008 fyrr en 17. nóvember 2008 og þar með rúmum hálfum mánuði eftir gjalddaga þeirra. Vegna þessara vanefnda ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda 10. nóvember 2008 þar sem þess var krafist að greiðsla yrði innt af hendi eigi síðar en 12. nóvember. Yrði það ekki gert væri litið á svo á að um verulega vanefnd væri að ræða sem jafngilti fyrirvaralausri uppsögn. Af hálfu stefnda er því haldið fram að starfsmaður félagsins hafi þegar haft samband við lögmann stefnanda af þessu tilefni og komið því á framfæri við hann að launin yrðu greidd eigi síðar en 17. nóvember 2008. Hefur þessu ekki verið mótmælt. Stefnanda var við framangreindar aðstæður heimilt að grípa til úrræða vegna vanefnda stefnda. Á hinn bóginn var sá frestur, sem veittur var til að standa skil á laununum, of skammur til að stefnandi hafi mátt rifta ráðningarsamningi sínum þegar við lok frestsins, sbr. til hliðsjónar dómur Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 1293. Vegna þessa og með því að stefndi greiddi stefnanda launin innan frests sem hæfilegur verður að teljast er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að þessi vanefnd stefnda hafi leitt til þess að stefnandi gæti með réttu litið svo á að hún jafngilti fyrirvaralausri uppsögn. Boð stefnanda um að mæta að nýju til vinnu um leið og hann yrði vinnufær stóð ekki lengur þegar hér var komið sögu. Verður af þessum sökum ekki komist hjá því að telja stefnanda hafa fyrirgert rétti til greiðslu launa úr hendi stefnda, óháð rétti til veikindalauna, eftir að hann hætti störfum hjá félaginu samkvæmt þessu.    

Samkvæmt framansögðu er stefndi alfarið sýknaður af kröfum stefnanda um greiðslu viðbótarlauna og launa í uppsagnarfresti.

Varakrafa stefnanda snýr að launum í veikindum. Er á því byggt að hann hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda 17. september 2008. Gegn andmælum stefnda er ósannað að stefnandi hafi tilkynnt honum um þetta slys fyrr en eftir að störfum hans á virkjanasvæðinu lauk. Þannig kom fram í skýrslu framkvæmdastjóra stefnda, Gísla Sveinbjörnssonar, að honum hafi fyrst borist fregnir af slysinu um miðjan nóvember 2008 og stjórnarformaður félagsins, Trausti Finnbogason, kvaðst í skýrslu sinni ekki hafa frétt um það fyrr en löngu eftir að stefnandi lét af störfum. Þá bar Jón Helgi Óskarsson, sem sá um greiðslu launa til starfsmanna stefnda, á þann veg um þetta að stefnandi hafi skýrt honum frá slysinu þegar hann sendi 31. október 2008 inn tímaskýrslu yfir vinnu sína í þeim mánuði. Ekkert í þeirri tímaskýrslu hafi gefið til kynna að stefnandi hafi ekki getað sinnt starfi sínu með eðlilegum hætti fram að þessu tímamarki. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu um slysið hjá lögreglu 9. mars 2009. Þar skýrir hann svo frá að hann hafi verið að stíga út úr sjúkrabifreið þegar vindhviða hafi feykt hurðinni upp. Hann hafi gripið í hurðina með vinstri hendi og um stýrið með þeirri hægri. Hann hafi ekki náð að halda jafnvægi, en við það hafi mikill slinkur komið á hægri öxlina. Strax í kjölfar þessa hafi hann leitað til læknis á staðnum og fengið hjá honum verkjastillandi og bólgueyðandi lyf. Þegar ástandið skánaði ekki hafi hann farið til læknis á Egilsstöðum. Liggur frammi í málinu vottorð Óttars Ármannssonar læknis á Heilbrigðisstofnuninni á Egilsstöðum um komu stefnanda þangað 20. október 2008. Segir í vottorðinu að við skoðun hafi áverki, rotator cuff syndrome, verið staðfestur. Þá kemur fram í vottorðinu að ekki sé vitað hvenær stefnandi hafi orðið óvinnufær sökum áverkans, en að hann hafi unnið eitthvað eftir að hann meiddist. Þá eru á meðal gagna málsins tvö önnur læknisvottorð um óvinnufærni stefnanda frá og með 17. september 2008 og eru þau reist á læknisskoðun sem hann gekkst undir 5. nóvember og 4. desember 2008. Í framangreindri lögregluskýrslu er haft eftir stefnanda að tveir erlendir starfsmenn, sem farnir væru af landi brott, hefðu verið vitni að slysinu. Þá gæti maður að nafni Hörður Garðarsson staðfest að stefnandi hafi slasast þarna og að hann hafi þá verið að sinna störfum fyrir stefnda. Kemur fram í niðurlagi skýrslunnar að lögreglumaðurinn sem hana ritaði hafi hringt í Hörð, sem hafi staðfest frásögn stefnanda. Er haft eftir Herði að hurðin á sjúkrabifreiðinni hafi skemmst og að stefnandi hafi greinilega verið þjáður vegna þessa óhapps. Verður ekki annað af þessu ráðið en að Hörður hafi ekki verið sjónavottur að slysinu. Hann kom ekki fyrir dóm. 

Samkvæmt framansögðu er lagt til grundvallar við úrlausn málsins að stefnda hafi í fyrsta lagi borist vitneskja um það slys, sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir, um það bil einum og hálfum mánuði eftir að það á að hafa átt sér stað og formlegri tilkynningu um það telst ekki hafa verið beint til fyrirsvarsmanna stefnda fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 10. nóvember 2008. Að þessu og framangreindu virtu verður ekki hjá því komist að líta svo á að stefnandi hafi stórlega vanrækt þá tilkynningaskyldu sem á honum hvíldi hér að lútandi. Þá leitaðist hann ekki við að tryggja sér sönnun fyrir atvikum sem réttur hans til veikindalauna úr hendi stefnda var bundinn. Verður stefnandi, svo sem hér hagar til, að bera hallann af skorti á sönnun um tildrög þess að hlaut þann áverka sem krafa hans um veikindalaun tekur til og að tilkynningarskylda atvinnurekanda samkvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Er stefndi samkvæmt þessu sýknaður af kröfu stefnanda um laun í veikindaforföllum.       

Af framansögðu leiðir að eftir stendur launakrafa stefnanda fyrir tímabilið 1. til 12. nóvember 2008. Þykir mega taka hana til greina svo sem hún telst fram sett og að teknu tilliti til þess stefndi hefur svo sem fram er komið verið sýknaður af kröfu stefnanda um viðbótarlaun. Um orlof fer í samræmi við framlagða launaseðla. Samkvæmt þessu verður stefnda gert að greiða stefnanda 240.000 krónur í laun og 24.408 krónur í orlof. Loks verður krafa vegna 6% lífeyrisframlags tekin til greina með 14.400 krónum. Samkvæmt þessu er stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 278.808 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

Stefndi, GT verktakar ehf., greiði stefnanda, Agli Erni Viggóssyni, 278.808 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. janúar 2009 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.