Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/1998
Lykilorð
- Umferðarlög
- Bifreið
- Öndunarsýni
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 1999. |
|
Nr. 482/1998. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Birgi Björnssyni (Bjarni Þór Óskarsson hdl.) |
Umferðarlög. Bifreiðir. Öndunarsýni.
B var ákærður fyrir að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Þegar B var stöðvaður af lögreglu lét hann í té öndunarsýni í þar til gert tæki sem sýndi að B hefði ekið undir áhrifum áfengis. B kvaðst hafa svarað játandi spurningu um hvort hann hefði unnið með leysiefni skömmu fyrir handtöku en lögreglumaður sem yfirheyrði B vegna málsins kvað hann hafa svarað neitandi og hafði hann merkt neitun inn á þar til gert eyðublað. B hélt því fram að leysiefni sem hann hefði unnið með skömmu fyrir aksturinn hefðu haft áhrif á niðurstöðu tækisins auk þess sem hann dró áreiðanleika þess í efa. Talið var að leggja yrði til grundvallar þá frásögn B að hann hefði svarað spurningu lögreglumannsins neitandi. Þá var talið að sönnunarfærsla ákæruvaldsins í héraði um þau atriði sem B bar fyrir sig hefði verið svo ófullnægjandi að B hefði verið réttilega sýknaður. Enda þótt bætt hefði verið úr þessu að nokkru leyti fyrir Hæstarétti var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 1998 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákvörðuð refsing og svipting ökuréttar.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð ný gögn, sem nánar verður vikið að síðar.
I.
Atvikum málsins er lýst í héraðsdómi. Er þar meðal annars getið staðlaðs eyðublaðs, sem notað var við töku öndunarsýnis af ákærða, en það var undirritað af aðstoðarvarðstjóra í lögreglunni í Reykjavík, sem annaðist töku sýnisins. Samkvæmt útfyllingu eyðublaðsins svaraði ákærði neitandi spurningu um það, hvort hann hefði verið með leysiefni skömmu fyrir handtöku. Við síðari yfirheyrslu hjá lögreglu og aðalmeðferð málsins í héraði kvaðst ákærði hafa svarað spurningu þessari játandi. Fyrir dóminum kvaðst hann jafnframt hafa sagt að þetta skipti eflaust engu máli. Er nánar greint frá framburði ákærða um þetta í héraðsdómi.
Þegar ákærði var spurður þeirra spurninga, sem fram koma á áðurgreindu eyðublaði, var enginn vottur viðstaddur og er eyðublaðið einungis undirritað af sýnatökumanni. Eru ekki efni til að hnekkja sönnunarmati héraðsdómara um þetta. Verður að leggja til grundvallar að ákærði hafi verið að vinna með umrædd leysiefni, svo sem hann hefur lýst. Til úrlausnar er þá, hvort slíkur vafi leiki á um niðurstöðu mælingar á magni vínanda í lofti er ákærði andaði frá sér, að ekki verði talið sannað að það hafi verið yfir því lágmarki, sem greint er í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997. Eins og fram kemur í héraðsdómi mældist vínandamagn í öndunarsýni ákærða 0,536 milligrömm í lítra lofts, að teknu tilliti til skekkjumarka, 0,057.
Af hálfu ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra hefur eftir uppsögu héraðsdóms verið aflað álitsgerða frá Noregi og Svíþjóð varðandi áhrif þeirra efna, sem ákærði sagðist hafa verið að vinna með fyrir aksturinn. Kemur þar fram að áhrif þessara efna á mælingu hafi verið mjög lítil. Þótt eitthvert tillit yrði tekið til þeirra yrði niðurstaðan engu að síður sú að vínandamagn hafi verið langt fyrir ofan lágmark það, sem um getur í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Í héraðsdómi er greint frá framburði Terje Kjeldsen, starfsmanns öryggiseftirlitsdeildar við rannsóknarlögreglumiðstöðina í Osló, en af framburði hans þykir mega ráða að hann telji áhrif umræddra efna á mælinguna óveruleg eða engin.
II.
Með breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, sem varð með lögum nr. 48/1997, voru lögfest ákvæði um töku öndunarsýna og mælt fyrir um mörk vínandamagns í öndunarsýni ökumanna. Eftir breytinguna var svo kveðið á í 2. mgr. 45. gr. laganna að nemi vínandamagn í lofti, sem ökumaður andar frá sér, 0,25 milligrömmum í lítra lofts, en sé minna en 0,60 milligrömm, teljist hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega. Í ákvæðinu eru sömu mörk og fyrr varðandi magn vínanda í blóði. Samkvæmt 47. gr. laganna er lögreglumönnum heimilt að færa ökumenn til rannsóknar á öndunarsýni á sama hátt og til blóð- og þvagrannsóknar. Skal lögregla annast töku öndunarsýna. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 48/1997 sagði, að um langt skeið hefði sönnun um ölvunarástand ökumanns ráðist af rannsókn á vínandamagni í blóði og hafi niðurstaða blóðrannsóknar verið lögfull sönnun um það hvort ökumaður teldist geta stjórnað ökutæki örugglega. Á síðari árum hefðu komið fram nýjar aðferðir til að mæla ölvunarástand með ekki minni nákvæmni en við blóðrannsókn. Felist þær í því að mælt sé vínandamagn í lofti, sem ökumaður andi frá sér. Séu aðferðir þessar einfaldar í framkvæmd og búnaður þannig að lögreglumaður geti framkvæmt þær í stað þess að fara með ökumann til læknis. Hafi lagareglur um sönnunargildi þessara mælinga verið lögfestar í ýmsum löndum, þar á meðal í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Sé góð reynsla af þessari mæliaðferð og fyrirhugað að slíkur búnaður verði tekinn í notkun hér á landi. Því sé lagt til að niðurstaða mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér verði að lögum metin sem fullnægjandi sönnun um ölvunarástand á sama hátt og þegar vínandamagn í blóði er mælt. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins, sem fjallaði um breytingu á 2. og 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, sagði að lagt væri til að þessum ákvæðum yrði breytt þannig að heimilt yrði að ákvarða ölvunarástand ökumanns á grundvelli vínandamagns í lofti sem hann andar frá sér til jafns við vínandamagn í blóði. Sýni rannsóknir að fullt samræmi sé milli vínandamagns í blóði manns og vínandamagns í því lofti sem hann andi frá sér við mismunandi ölvunarástand.
III.
Þegar rannsókn var gerð á vínanda í öndunarsýni ákærða var til þess notaður öndunarsýnamælir, sem ber heitið Intoxilyzer 5000N. Ríkissaksóknari hefur lagt fyrir Hæstarétt fjölda skjala um tæki þetta, þróun þess og notkun, sem flest koma frá lögregluyfirvöldum í Noregi.
Fram hefur komið að eftir gildistöku laga nr. 48/1997 fól dómsmálaráðuneytið ríkislögreglustjóra að setja fyrirmæli um öndunarsýni og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt yrði að hefja notkun viðeigandi tækja til mælingar á vínanda í útöndunarlofti manna, sem grunaðir væru um ölvun við akstur. Hafði ráðuneytið þá ákveðið að gerðar skyldu sömu kröfur hér á landi til tækjabúnaðar og töku öndunarsýna og gerðar væru í Noregi. Með bréfi 8. maí 1998 staðfesti ríkissaksóknari heimild lögreglunnar til að beita þessari nýju aðferð við öflun sönnunargagna í ölvunarakstursmálum. Um framangreint tæki hefur það meðal annars komið fram að það sé bandarískt að uppruna, en umfangsmikið mat og fjöldi prófana í Noregi hafi leitt til þess að það var valið til notkunar þar. Frá því að það var fyrst prófað í Noregi 1989 hafi því verið breytt á ýmsa vegu til þess að rannsóknaraðferðin standist kröfur dómstóla um trausta öflun lögmæltra sönnunargagna. Skýrsla um prófun tækisins þar á árunum 1993 til 1994 er meðal gagna málsins.
Fyrir flutning málsins hér fyrir dómi var mælitækið sýnt dómendum og grein gerð fyrir starfsreglum við sýnatöku og þjálfun manna til hennar, svo og eftirliti með sýnatökunni og tækinu sjálfu.
IV.
Af hálfu ákærða hefur sönnunargildi niðurstöðu rannsóknar á vínanda í öndunarsýni hans verið dregið í efa. Er bæði almennt mótmælt áreiðanleika tækis þess, sem notað var við rannsóknina, og skírskotað til þess vafa, sem leiði af meðhöndlan ákærða á leysiefnum fyrir akstur hans greint sinn. Í málflutningi verjanda ákærða hefur verið vísað til skýrslu Jakobs Kristinssonar, dósents hjá Rannsóknastofu í lyfjafræði við Háskóla Íslands, sem dagsett er 19. janúar 1998. Í lokaorðum þeirrar skýrslu er því andmælt, sem fram kemur í greinargerð frumvarps til laga nr. 48/1997, að óyggjandi samræmi sé á milli vínandamagns í blóði manns og í því lofti, sem hann andar frá sér. Þá telur Jakob mælitæki það, sem valið hefur verið til notkunar hér á landi, ekki uppfylla kröfur um sérhæfni, sem víðast séu gerðar til réttarefnafræðilegra rannsókna. Einnig hefur verjandinn vísað til minnispunkta dr. Ásgeirs Bjarnasonar, dósents í almennri efnafræði og efnagreiningartækni við Háskóla Íslands, en þar eru settar fram nokkrar ályktanir út frá skýrslu Jakobs Kristinssonar og ýmsum vísindaritum sem hann telur gefa tilefni til að efast um áreiðanleika mæliaðferðarinnar.
V.
Svo sem fram er komið eru í málinu vefengdar þær niðurstöður um vínandamagn og áfengisáhrif, sem ákæra er reist á. Er af hálfu ákærða vísað til álits sérfræðinga, eins og áður er nefnt. Við þessar aðstæður var brýnt að fyrir dómstóla væru lögð öll nauðsynleg gögn, sem gerðu þeim kleift að skera úr því hvort fullnægt væri sönnunarkröfum og þeim skilyrðum, sem löggjafinn hefur byggt á. Eins og málið lá fyrir var því full ástæða til þess að fram færi rækileg sönnunarfærsla fyrir héraðsdómi, sem miðaði að því að prófa gildi þeirrar aðferðar, sem viðhöfð var við mælingu öndunarsýnis ákærða. Í því sambandi var meðal annars nauðsynlegt að aflað yrði mats óháðra sérfræðinga um þau álitaefni, sem uppi eru, einkum um áreiðanleika þeirra tækja og aðferða, sem lögreglan notar við öflun öndunarsýna og rannsókn á þeim, svo og hvort niðurstöður úr slíkum rannsóknum teljist sambærilegar við niðurstöður rannsókna á blóð- og þvagsýnum, eins og á er byggt í 45. gr. umferðarlaga. Einnig þurfti í máli þessu frekari sérfræðileg gögn um hugsanleg áhrif leysiefna, sem ákærði kvaðst hafa unnið með nokkru fyrir aksturinn. Það var fyrst og fremst hlutverk lögreglustjórans í Reykjavík, sem sótti málið í héraði af hálfu ákæruvalds, að hlutast til um að afla og leggja fram sönnunargögn og leita til þess atbeina héraðsdómara, eftir því sem til þurfti. Þetta var ekki gert. Eins og háttað var sönnunarstöðu fyrir héraðsdómi samkvæmt framansögðu verður að telja að ákærði hafi réttilega verið sýknaður af ákæru málsins. Þykir ákæruvaldið eiga að bera halla af ófullnægjandi sönnunarfærslu og verður ekki réttlætt gagnvart ákærða að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim til frekari gagnaöflunar. Þótt ríkissaksóknari hafi eins og fyrr greinir bætt verulega úr eftir áfrýjun málsins vantar enn þýðingarmikil gögn. Þykja ekki skilyrði til að mæla fyrir um öflun þeirra fyrir Hæstarétti, enda yrði þá einungis um þau fjallað á einu dómstigi. Að þessu athuguðu verður héraðsdómurinn staðfestur.
Áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Þórs Óskarssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 1998.
Ár 1998, þriðjudaginn 1. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 834/1998: Ákæruvaldið gegn Birgi Björnssyni, sem tekið var til dóms 11. f.m.
Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík dagsettu 29. september sl. gegn ákærða, Birgi Björnssyni, kt. 260376-3579, Stórateigi 25, Mosfellsbæ, "fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni MZ-176, sunnudaginn 14. júní 1998, undir áhrifum áfengis frá Stórateig 25 í Mosfellsbæ uns akstri lauk á móts við Krísuvíkurveg.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1087, sbr. 25. gr. og 26. gr. l. nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998."
Um kl. 15.15 sunnudaginn 14. júní sl. varð árekstur með bifreiðunum MZ-716 og JF-376 á Reykjanesbraut skammt frá Krísuvíkurvegi. Grunur lék á því að ökumaður MZ-716 væri undir áhrifum áfengis. Í frumskýrslu Kristjáns Ólafs Guðnasonar lögreglumanns segir að þar sem nokkur áfengisþefur hafi fundist af ákærða hafi hann verið fenginn til að blása í Alcometer S-D2 og hafi mælirinn sýnt 2 . Var hann að því loknu færður á lögreglustöðina í Reykjavík og þar fyrir Rúnar Sigurpálsson, sem sá um öndunarsýnistöku með Intoxilyzer 5000-N. Var niðurstaða þeirrar mælingar 0.536. Í kjölfar þess var ákærði sviptur ökurétti til bráðabirgða.
Í sýnatökuvottorði Rúnars Sigurpálssonar lögregluþjóns, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum, kemur fram að niðurstaða meðaltals tveggja sýna hafi verið 0.593, en að teknu tilliti til 0.057 skekkjumarka sé endanleg niðurstaða 0.536.
Ákærði var yfirheyrður við rannsókn málsins 14. júní sl. Hann kvaðst ekki hafa neytt áfengis eða annarra vímuefna við eða fyrir aksturinn, en hins vegar hafi hann drukkið áfengi daginn áður og fram til klukkan 3.00 eða 4.00 um nóttina. Hann kvaðst ekki hafa neytt áfengis eftir aksturinn.
Ákærði var á ný yfirheyrður um sakarefnið 21. ágúst sl. fella úr gildi bráðabirgðaökuleyfissviptingu ákærða, sem birt var honum 14. júní sl. Við þá yfirheyrslu kvaðst hann hafa farið ásamt vini sínum á krá aðfaranótt umrædds sunnudags og drukkið þar frá því um eittleytið og fram að lokun krárinnar um kl. 3.00 5-6 staup af sterku áfengi og 2-3 bjóra. Hann hafi ekkert drukkið eftir það og farið að sofa um kl. 4.00, sofið fram að hádegi og ekkert drukkið fram að akstrinum. Hann hafi fundið fyrir svolítilli "þynnku", en verið vel á sig kominn er hann hóf aksturinn og ekki fundið til áfengisáhrifa við hann. Hann kvaðst vegna ástands síns draga í efa niðurstöðu öndunarsýnis á vettvangi. Við þessa yfirheyrslu kvaðst hann vilja taka það fram að áður en aksturinn hófst, milli kl. 1.00 og 2.00, hafi hann verið að vinna í bílskúrnum heima hjá sér við að þrífa blöndung. Við það verk hann baðað blöndunginn í sýrubaði og síðan notað sterk efni. Kvaðst hann fyrst hafa baðað blöndunginn í sýrubaði og síðan notað hreinsiefni fyrir blöndunga þar á eftir. Hreinsiefnið hafi verið mjög rokgjarnt fituleysandi efni, sem einnig leysti upp sót utan af blöndungnum. Hann kvaðst ekki hafa notað andlitsgrímu eða önnur hlífðartæki við þessa vinnu.
Framburður ákærða fyrir dómi var á sama veg og í skýrslu hans 21. ágúst sl. Hann kvaðst hafa sett sýruna á blöndunginn og síðan þrifið sýruna af blöndungnum með hreinsiefni á brúsa, sem hann sýndi í dóminum. Sýran hafi innihaldið m.a. terpentínu, Hydrokarbon og Butoksíetanól, en hreinsiefnið á brúsanum Aceton, Silon og Ethylbensín. Engin loftræsing hafi verið í bílskúrnum. Hann kvaðst hafa drukkið á þeim tíma sem hann áður lýsti um 2-3 bjóra og 2-3 staup af óblönduðu sterku áfengi.
Ákærði fullyrti að þegar öndunarsýnið var tekið á lögreglustöðinni hafi hann svarað því játandi að hann hefði verið að vinna með leysiefnin, en jafnframt sagt að það skipti eflaust engu máli. Ákærði sagði að hann hafi ekki séð ástæðu til að nefna þetta við fyrstu yfirheyrslu. Hann gaf þá skýringu á því að hann hefði fyrst nefnt þetta við í skýrslutökunni 21. ágúst að lögreglumaðurinn hafi spurt hann út í þetta. Ákærði sagði að honum hafi ekki verið boðið að honum yrði tekið blóð til þess að kanna áfengismagn.
Rúnar Sigurpálsson aðstoðarvarðstjóri kom fyrir dóminn. Hann kvaðst minnast þessarar sýnatöku, einkum vegna þess að hann þekki ákærða. Hann kvaðst hafa spurt hann tilgreindra spurninga, sem eru á sýnatökuvottorðinu, fyrst hvort kærði vildi gefa öndunarsýni og svo koll af kolli. Ákærði hafi verið um það spurður, eins og fram komi á sýnatökuvottorðinu, hvort hann hafi verið með leysiefni skömmu fyrir handtöku og hann hafi svarað þeirri spurningu neitandi, svo sem vottorðið beri með sér. Öðrum stöðluðum spurningum hafi hann einnig svarað neitandi. Vitnið sagði að samkvæmt starfsreglum ætti að taka öndunarsýni af grunuðum þótt viðkomandi svaraði því til að hann hafi verið að meðhöndla leysiefni. Vitnið kvaðst ekki minnast þess frá því er hann hóf að taka öndunarsýni með tækinu Intoxilyzer 5000-N að einhver hefði svarað því játandi að hann hafi verið að meðhöndla leysiefni síðasta klukkutímann fyrir sýnatöku. Staðfesti vitnið skýrslu sína og sagði að ef ákærði hefði svarað spurningunni játandi hefði hann fært það svo á sýnatökuvottorðið. Þá sagði vitnið að ef svarið hefði verið með þeim hætti hefði hann einnig leitað eftir skýringu og í kjölfar þess fyllt út skýringar og skráð þær í dagbók. Vitnið benti einnig á það að gert væri ráð fyrir athugasemdum á sýnatökuvottorðinu. Þar sem hvorki kom fram skýringar né athugasemdir um ákærða á sýnatökuvottorðinu hafi heldur engar skýringar verið færðar í dagbók. Vitnið kvaðst hafa farið á námskeið í Lögregluskólanum varðandi notkun á sýnatökutækinu.
Vitnið Terje Kjeldsen efnaverkfræðingur og starfsmaður öryggiseftirlitsdeildar við rannsóknarlögreglumiðstöðina í Osló kom fyrir dóminn. Hann er einn þeirra sérfræðinga er unnu að hönnun sýnatökutækisins Intoxilyzer 5000-N og einn þriggja nefndarmanna er annast eftirlit með notkun þess og ráðgjöf. Hann sagði ástæðu þess að fyrir grunaða væri lögð sú spurning hvort viðkomandi hefði unnið með leysiefni vera þá, að ýmis leysiefni, sem fólk komist í nánd við og sem hætta sé á að það andi að sér, geti setið eftir í líkamanum lengur en í fimmtán mínútur, en það sé sá tími sem þurfi að líða frá því að einstaklingur er handtekinn og þar til hægt sé að framkvæma próf með Intoxileyzertækinu. Ýmis tæki sem notuð væru til að mæla alkóhólinnihald frá öndun einstaklinga gerðu ekki greinarmun á áfengi og öðrum leysiefnum sem kunni að vera í útöndun fólks. Í tækinu Intoxilyzer 5000 N væru aðgerðir sem varpa myndu ljósi á aðrar tegundir leysiefna, en til þess að þetta yrði ekki ágreiningsefni á síðari stigum, t.d. í dómsmálum, hafi verið farin sú leið við notkun tækisins í Noregi að spyrja hinn grunaða hvort hann hefði haft leysiefni um hönd áður en sýni er tekið af viðkomandi. Svari viðkomandi því játandi væri mælt með því að blóðsýni væri tekið til þess að komi í veg fyrir að vandi komi upp af þessum sökum síðar. Vitnið sagði að ef um væri að ræða leysiefni í útöndun einstaklings myndi tækið sýna fram á það ef um væri að ræða magn sem væri yfir ákveðnu stigi, en tækið "sæi" leysiefni sem áfengi. Búnaðurinn eða tækið myndi þá stöðva mælinguna og þar af leiðandi ekki gefa viðurkennda niðurstöðu. Ef um væri að ræða lítið magn leysiefna myndi tækjabúnaðurinn sjálfkrafa draga magn leysiefnisins frá áfengisgildinu sem mælingin sýnir. Þessi aðgerð hafi verið prófuð samkvæmt ákveðnum kröfum sem gerðar séu gagnvart algengum leysiefnum. Þá hafi tækið einnig verið prófað gagnvart ýmsum öðrum leysiefnum. Fram að þessu hafi ekkert leysiefni fundist sem tækið fyndi ekki. Vitnið sagði að þetta væru starfsaðferðir sem beitt væri í Noregi og fullyrti að tækið Intoxilyzer 5000 N, sem sérstaklega hafi verið hannað í Noregi, væri eitt þróaðasta tæki á markaðinum. Vitnið sagði að ef tækið fyndi leysiefni og áfengi í útöndunarloftinu myndi það sjálfkrafa draga leysiefnin frá. Hins vegar væri mælt með því að ef slík efni greindust væri farið með grunaða til töku blóðsýnis, þar sem fræðilega séð ríkti ekki 100 % vissa um að öll efni, sem unnt væri að anda að sér.
Vitnið sagði að það væri almennt væri talið að sýra til þess að þvo blöndunga væri ólífræn sýra, ákveðin tegund saltsýru, sem ekki væri umbreytanleg frekar en aðrar lífrænar eða ólífrænar sýrur og því væri ekki hægt að anda henni að sér og þar af leiðandi heldur ekki frá sér. Kvaðst vitnið geta útilokað að sýrur hefðu nokkur áhrif á niðurstöðu mælinga á alkóhól í útöndunarlofti. Efnið Hidrokarbons væri sameiginlegt heiti á mjög mörgum, jafnvel þúsundum mismunandi efna. Terpentína hafi ekki verið prófuð á Intoxileyzer búnaðinum, en vitninu skildist að talið væri mjög ólíklegt að það efni gæti haft áhrif á áfengismælinguna þar sem það hafi allt aðra sameindauppbyggingu en áfengi. Til þess að leysiefni geti gefið ranga mynd og teljist sem áfengi verði uppbygging efnisins, með vísan til sameindauppbyggingar efnisins, að líkjast sameindaruppbyggingu alkóhóls. Vitnið taldi að Butoxiethanól, sem hefði litla útgufun, hefði mjög lítið umbreytilegt efni, en kvaðst ekki þora að fullyrða þetta. Er vitninu var sýndur umræddur brúsi, sem ákærði kvaðst hafa notað greint sinn sagði vitnið að efnin Aceton og Silen, sem þar væri getið í vörulýsingu, gætu ekki gefið ranga mynd af niðurstöðu alkóhólmælingar. Um efnið Ethylbensín kvaðst vitnið hins vegar ekkert geta sagt með vissu, en sagði að ef það efni væri í útöndun hins grunaða myndi hámarksgildið í áfengismælingunni og niðurstöðu mælingarinnar vera 0,025 mg per líter að viðbættum 5% alkóhólgildisins. Þetta væri sú krafa sem gerð væri og væri innbyggð í mælitækið þannig að tækið vari við ef framandi efni væru í útöndun eða sýni. Í þessu tilviki hefði tækið átt að gefa slíkt til kynna ef um hefði verið að ræða meira magn en ofangreind viðmiðunarmörk. Sagði vitnið að þetta þýddi m. ö. o að í þessu tilviki gæti hafa verið um að ræða hámark 0,05 mg per líter, sem fræðilega séð gæti verið vegna Ethylbensíns en ekki áfengis. Vitnið sagði að útöndunarsýni gefi í raun 15% hærri viðmiðunarmörk en blóðsýni, þannig að í 99,9% tilvika myndi það vera grunaða í hag að láta taka útöndunarsýni en gefa blóðsýni.
Niðurstaða.
Ákærði hefur haldið því fram við rannsókn málsins og meðferð þess að 2-3 klukkustundum fyrir aksturinn hafi hann verið að vinna í bílskúrnum heima hjá sér við að þrífa blöndung og notað við það hreinsiefni á brúsa með Acetoni, Siloni og Ethylbensíni og tiltekna sýru, sem innihaldi sterk efni, meðal annars terpentínu, Hydrokarbon og Butoksíetanól. Hann kvaðst hvorki hafa notað andlitsgrímu eða önnur hlífðartæki við þessa vinnu og engin loftræsing hafi verið í bílskúrnum. Ákærði kvaðst hafa drukkið 2-3 bjóra og 2-3 staup af óblönduðu sterku áfengi frá því um eittleytið og fram til um kl. 3.00 nóttina fyrir aksturinn, en ekkert áfengi eftir það og fram að því er aksturinn hófst. Ákærði hefur fullyrt fyrir dómi að hann hafi sagt þeim lögreglumanni, sem annaðist öndunarsýnistökuna, að hann hafi unnið með leysiefni skömmu fyrir handtökuna, en allt að einu hafi sýnatakan farið fram. Þessu hefur viðkomandi lögreglumaður mótmælt og er framburður hans í samræmi við skýrslu hans um öndunarsýnistökuna. Ekkert vitni var viðstatt er sýnatakan fór fram og spurningarnar bornar upp við ákærða, svo sem eðlilegt hefði verið til að tryggja sönnun þess, sem skráð er á skýrslu um öndunarsýnistökuna. Hefur ákæruvaldið ekki sýnt fram á það að ákærði hafi svarað þeirri spurningu neitandi að hann hafi verið að vinna með leysiefni skömmu fyrir handtökuna, sbr. meginregla 45. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Vitnið Terje Kjeldsen, efnaverkfræðingur og einn þeirra sérfræðinga er unnu að hönnun sýnatökutækisins Intoxilyzer 5000-N, lýsti því fyrir dómi að ástæða þess að fyrir grunaða sé lögð sú spurning hvort viðkomandi hafi unnið með leysiefni sé sú, að ýmis leysiefni, sem fólk komist í nánd við og sem hætta sé á að það andi að sér, geti setið eftir í líkamanum lengur en í fimmtán mínútur, en það sé sá tími sem þurfi að líða frá því að einstaklingur er handtekinn og þar til hægt sé að framkvæma próf með Intoxileyzertækinu. Vitnið bar að ef grunaði svaraði játandi þeirri spurningu að hann hefði notað leysiefni skömmu fyrir handtöku væri það viðtekin venja í Noregi að færa viðkomandi til töku blóðsýnis, meðal annars til þess að niðurstaðan yrði ekki ágreiningsefni síðar. Þá kom fram í vætti vitnisins að fræðilega séð ríkti ekki örugg vissa um að öll efni, sem unnt væri að anda að sér hefðu ekki áhrif á mælinguna. Þegar litið er til vættis vitnisins er ljóst að ekki er útilokað að efnin Ethylbensín og Butoxiethanól, sem eru meðal þeirra efna sem ákærði kvaðst hafa unnið með greint sinn við að þrífa blöndung bifreiðar sinnar, hafi getað haft áhrif á niðurstöðu mælingar á alkóhóli í útöndunarlofti ákærða. Þegar þetta er virt þykir varhugavert að telja sannað að vínandamagn í útöndunarlofti ákærða hafi mælst yfir því lágmarki, sem getið er í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. l. nr. 48/1997. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Eftir þessum úrslitum ber að fella úr gildi bráðabirgðaökuleyfissviptingu ákærða, sem honum var gerð við rannsókn máls þessa 14. júní sl. og birt var honum sama dag.
Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Bjarna Þórs Óskarssonar héraðsdómslögmanns, 40.000 krónur, skal greiða úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Birgir Björnsson, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.Felld er úr gildi bráðabirgðaökuleyfissvipting ákærða, sem birt var honum 14. júní sl.
Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Bjarna Þórs Óskarssonar héraðsdómslögmanns, 40.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.