Hæstiréttur íslands

Mál nr. 671/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ráðningarsamningur
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit


                                              

Fimmtudaginn 22. nóvember 2012.

Nr. 671/2012.

Sigurður Einarsson

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Andri Árnason hrl.)

Kærumál. Ráðningarsamningur. Fjármálafyrirtæki. Slit.

S, sem starfað hafði sem stjórnarformaður K hf., lýsti kröfu við slit félagsins, m.a. vegna vangoldinna launa og annarra launatengdra greiðslna. Slitastjórn K hf. samþykkti kröfu S aðeins að hluta og var ágreiningi aðila vísað til úrlausnar héraðsdóms í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu deildu aðilar um það hvort S ætti rétt á biðlaunum í 12 mánuði eftir starfslok auk lífeyrisgreiðslna samkvæmt ráðningarsamningi og hvort K hf. hefði ábyrgst að greiða skattaskuld S í Bretlandi. Talið var að 6 mánaða uppsagnarfrestur væri sanngjarn frestur í skilningi 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 í ljósi þeirra uppsagnarfresta sem tíðkaðist almennt á vinnumarkaði, svo og með tilliti til stöðu og starfskjara S að öðru leyti. Þá var talið að S gæti ekki átt aðild að kröfu um vangoldin iðgjöld til lífeyrissjóða heldur væri það viðkomandi lífeyrissjóður sem ætti slíka kröfu gegn K hf. og var kröfu S um greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda því hafnað. Að endingu var talið að S hefði ekki tekist að sanna skyldu K hf. til að taka þátt í skattgreiðslum hans í Bretlandi og var kröfu þess efnis því einnig hafnað. Var ákvörðun slitastjórnar K hf. um að viðurkenna kröfu S aðeins að hluta því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2012 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila en staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að viðurkenna að hluta kröfu sóknaraðila við slitin að fjárhæð 73.136.780 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði við slitin krafa hans að fjárhæð 138.649.630 krónur til viðbótar þegar viðurkenndri kröfu að fjárhæð 73.136.780 krónur. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að 18.916.821 króna njóti forgangs samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en eftirstöðvar kröfunnar hafi stöðu samkvæmt 113. gr. laganna, eftir atvikum sem skilyrt krafa samkvæmt 157. gr. þeirra. Loks krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði lét sóknaraðili af störfum sem stjórnarformaður varnaraðila með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd, en sú ákvörðun var tekin á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í kjölfarið mun sóknaraðili að beiðni skilanefndar hafa starfað í þágu varnaraðila út október 2008 en þá látið endanlega af störfum. Þurfti ekki að koma til uppsagnar á ráðningarsamningi sóknaraðila 18. desember 2006 og var fullnægjandi að tekin yrði afstaða til kröfunnar við slitin í kjölfar kröfulýsingar sóknaraðila. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sigurður Einarsson, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2012.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila, Kaupþings hf., Borgartúni 26, Reykjavík, til dómsins 14. október 2011 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Sóknaraðili er Sigurður Einarsson, Astell Street í London. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 4. október 2012.

Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði viðurkennd krafa hans að fjárhæð 138.649.630 krónur, til viðbótar þegar viðurkenndri almennri kröfu að fjárhæð 73.136.780 krónur. Hann krefst þess einnig að viðurkennt verði að 18.916.821 króna njóti forgangs samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en eftirstöðvar hafi stöðu samkvæmt 113. gr. laganna, eftir atvikum sem skilyrt krafa. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 73.136.780 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 en að öllum kröfum sóknaraðila umfram það verði hafnað. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Málsatvik

Hinn 9. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnarinnar. Með úrskurði héraðsdóms 22. apríl 2009, sem er upphafsdagur slitameðferðar, var varnaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til lánardrottna félagsins. Lauk kröfulýsingarfresti þann 30. desember 2009.

Með kröfulýsingu, móttekinni 29. desember 2009, lýsti sóknaraðili heildarkröfu á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.278.307 sterlingspund (u.þ.b. 255.536.315 krónur miðað við gengi þess dags) vegna 1) vangreiddra launa fyrir október 2008; 2) lífeyrisframlags í 10 mánuði (janúar-október 2008); 3) 12 mánaða launa eftir starfslok; 4) lífeyrisframlags af launum eftir starfslok; 5) orlofs (13,04%) af framangreindum launagreiðslum; 6) ábyrgðar vegna skattskuldar varnaraðila við bresk skattyfirvöld; 7) endurgreiðslukröfu vegna mistaka við greiðslu lífeyrisframlags sem leiddu til ofsköttunar; 8) dráttarvaxta af liðum 1-5 til 22. apríl 2009. Þriðjungi kröfu skv. liðum 1 og 4 var lýst sem forgangskröfu samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 en kröfunni að öðru leyti lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. Í endanlegri kröfugerð sóknaraðila fyrir dómi hefur verið fallið frá kröfu skv. lið 7 sem ekki verður reifaður frekar.

Með bréfi slitastjórnar varnaraðila 10. janúar 2010 var kröfu sóknaraðila hafnað, m.a. með þeim rökum að ekki voru nægileg gögn meðfylgjandi til stuðnings kröfunni. Í kjölfar mótmæla sóknaraðila og viðræðna aðila breytti varnaraðili afstöðu sinni með bréfi 31. mars 2011 og samþykkti kröfuna með breytingu að fjárhæð 63.495.600 kr. (GBP 332.298) og þá „sem almenna kröfu undir 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. sömu laga, með vísan til 96. gr. laganna, að frádregnum launatengdum gjöldum“, svo sem sagði í bréfinu. Að öðru leyti var kröfum sóknaraðila hafnað. Í sundurliðun á samþykktri kröfu voru annars vegar tiltekin laun í sex mánaða uppsagnarfresti að fjárhæð 51.591.600 krónur og hins vegar uppsafnað og áunnið orlof fram til 1. nóvember 2008 að fjárhæð 11.904.000 krónur.

Á fundi 1. september 2011 urðu aðilar sammála um að vísa ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur til endanlegrar úrlausnar með vísan til 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. laganna. Voru aðilar sammála um að afmarka ágreiningsefni málsins við eftirfarandi atriði:

1.       Kröfu um laun fyrir októbermánuð 2008, kr. 8.598.600 (GBP 45.000).

2.       Kröfu um laun eftir starfslok yfir 6 mánaða tímabil (umfram þegar samþykkta 6 mánuði), kr. 51.591.600 (GBP 270.000).

3.       Kröfu um framlag í lífeyrissjóð, fyrir og eftir starfslok, kr. 56.750.760 (GBP 297.000).

4.       Endurgreiðslukröfu á grundvelli 7. tölul. í kröfulýsingu, kr. 21.710.127 (GBP 113.618).

5.       Dráttarvaxtakröfu, eins og krafan er sett fram í kröfulýsingu, kr. 14.003.298 (GBP 73.285).

6.       Rétthæð kröfunnar.

Í endanlegri kröfugerð varnaraðila fyrir dómi hefur verið fallist á rétt sóknaraðila til launa fyrir október 2008 svo og rétt hans til greiðslu orlofs vegna þess mánaðar. Áður er lýst staðfestingu varnaraðila á launum í sex mánaða uppsagnarfresti. Einnig er á það fallist að sóknaraðili eigi rétt á dráttarvöxtum af kröfu sinni, að því marki sem hún telst vera fyrir hendi, frá 22. apríl 2009 að telja. Að öðru leyti er ekki ástæða til að gera grein fyrir viðræðum og bréfaskiptum aðila vegna kröfulýsingar sóknaraðila.

Þau atvik sem liggja að baki kröfu sóknaraðila eru að meginstefnu ágreiningslaus. Sóknaraðili var starfandi stjórnarformaður varnaraðila samkvæmt ráðningarsamningi 18. desember 2006. Meðal gagna málsins eru einnig eldri ráðningarsamningar sóknaraðila hjá varnaraðila frá 20. nóvember 2003 og 30. desember 2003. Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi varnaraðila hinn 9. október 2008 var stjórn hans vikið frá. Lét sóknaraðili þá af störfum sem stjórnarformaður en starfaði áfram að beiðni skilanefndar fram í október 2008. Í ljósi þess að varnaraðili hefur viðurkennt rétt sóknaraðila til greiðslu launa fyrir október 2008 verður þessi þáttur málsins ekki reifaður frekar.

Samkvæmt grein 3.1. í ráðningarsamningi sóknaraðila, sem var á ensku, skyldu mánaðarlaun hans vera 45.000 sterlingspund. Launin væru fyrir  að taka að sér sérstök framangreind verk fyrir hönd bankans (sbr. einkum 2. gr. samningsins) og verja þeim tíma sem til þyrfti, án tillits til hvenær dags væri, til að tryggja að þessum verkum væri sinnt af kostgæfni. Í greinum 3.2 og 3.3 var fjallað um kaupauka og kauprétt sóknaraðila að hlutabréfum.

Í 4. gr. samningsins var fjallað um lífeyrisréttindi og hlunnindi. Samkvæmt grein 4.1 skyldi sóknaraðili velja sér eftirlaunasjóð sem greiða skyldi inn á, í samræmi við lögbundna tryggingu eftirlaunaréttinda („mandatory insurance of pension rights“), 10% af grunnlaunum að viðbættum kaupauka. Einnig var kveðið á um hugsanlegar viðbótargreiðslur sóknaraðila og framlög varnaraðila vegna þeirra. Þá sagði að auk þessara grunngreiðslna eftirlauna greiddi varnaraðili 20% af grunnlaunum að viðbættum kaupauka sem viðbótarframlag í einkarekinn eftirlaunasjóð. Tekið var fram að rétthafinn gæti ekki gert kröfu gegn varnaraðila um lífeyrisréttindi heldur stofnuðust öll réttindi af eftirlaunasjóðnum („The holder of this position cannot make claims for pension rights on the Bank directly, but rather all rights are created by the pension fund“). Í grein 4.2 var kveðið á um ferðakostnað sóknaraðila. Í grein 4.3 sagði að orlofsgreiðslur skyldu vera fyrir sex vikur á ári. Í grein 4.4 var fjallað um greiðslur vegna veikinda og slysa og í grein 4.5 um greiðslu kostnaðar vegna húsnæðis, bifreiða, menntunar, síma og uppihalds fjölskyldu í London.

Í grein 5.1 í ráðningarsamningnum var kveðið á um lok samningsins. Sagði þar að samningurinn væri í gildi á meðan sóknaraðili væri stjórnarformaður varnaraðila. Ef sóknaraðili hafnaði endurkjöri skyldi greiða honum biðlaun fyrir 12 mánuði frá þeim tíma er skyldum hans væri lokið en í 48 mánuði að öðrum kosti. Biðlaun skyldu vera jafnvirði grunnlauna og eftirlaunagreiðslna eins og mælt væri fyrir um í samningnum. Engar aðrar greiðslu væru inntar af hendi á biðlaunatímanum. Þá var mælt fyrir um greiðslu kaupauka sem ekki er ástæða til að rekja hér. Í grein 5.2 var sóknaraðila gert óheimilt að starfa fyrir annan banka á biðlaunatímabilinu. Í grein 5.3 var fjallað um slit samningsins vegna brota á honum eða ómöguleika sóknaraðila á því að efna hann.

Umræddur ráðningarsamningur er undirritaður af hálfu sóknaraðila og formanns launanefndar varnaraðila og dagsettur 18. desember 2006. Ekki kemur fram í samningnum hvar hann er gerður. Í munnlegum málflutningi upplýsti lögmaður sóknaraðila hins vegar að á undirritunartíma samningsins hefði sóknaraðili enn verið búsettur á Íslandi.

Að því er lýtur að kröfu sóknaraðila vegna ætlaðrar ábyrgðar varnaraðila á skattgreiðslum hans í Bretlandi liggur fyrir í málinu bréf þarlends lögmanns hans frá 19. nóvember 2009 þar sem efnislega segir að sóknaraðili hafi notið skattjöfnunargreiðslna („tax equalisation payments“) sem varnaraðili hafi innt af hendi til breskra skattyfirvalda. Engin greiðsla hafi borist vegna skattáranna 2007-2008 og 2008-2009. Segir að þessi vanræksla varnaraðila muni leiða til viðbótar skattgreiðslna sóknaraðila að fjárhæð 113.618,09 sterlingspund. Ekki er öðrum gögnum til að dreifa um þennan þátt málsins.

Ekki var um munnlegar skýrslur að ræða við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á ákvæðum ráðningarsamningsins 18. desember 2006, sem áður er gerð grein fyrir, og reglum vinnuréttar um efndir ráðningasamninga. Sóknaraðili hafi látið af starfi stjórnarformanns þegar skilanefnd tók yfir rekstur varnaraðila 8. október 2008. Samkvæmt grein 5.1 í ráðningarsamningnum eigi sóknaraðili rétt til biðlauna í 48 mánuði en láti við það sitja að krefjast slíkra launa í 12 mánuði. Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki rökstutt ákvörðun sína um greiðslu biðlauna í sex mánuði. Í munnlegum málflutningi vísaði lögmaður sóknaraðila einnig til þess að tilkynning varnaraðila um þessa ákvörðun hafi ekki verið gerð kunn fyrr en eftir að umrætt biðlaunatímabil var yfirstaðið. Einnig vísaði hann til þess að 12 mánaða biðlaun þættu venjuleg um stjórnunarstöður, svo sem þá sem sóknaraðili gegndi. Sóknaraðili telur því að fylgja eigi skýru ákvæði ráðningarsamnings um þetta atriði. Krafa sóknaraðila vegna orlofs er reist á sama grunni, þ.e. grein 4.3 í ráðningarsamningi.

Sóknaraðili vísar einnig til ákvæða ráðningarsamnings að því er lýtur að kröfu vegna ógreidds lífeyris. Lífeyrisframlag sé ógreitt fyrir allt árið 2008 en einnig beri að greiða lífeyri vegna biðlauna í 12 mánuði. Sóknaraðili byggir á því að þriðjungur lífeyrisframlagsins, 10%, sé greitt í samræmi við lagaskyldu og njóti því forgangs samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili mótmælir því að hann eigi ekki aðild að þessari kröfu, svo sem varnaraðili haldi fram. Aðild hans að kröfunni byggist á skyldu varnaraðila samkvæmt samningi en ekki einungis á fyrirmælum í lögum. Í munnlegum málflutningi lagði lögmaður sóknaraðila enn fremur áherslu á að fyrirkomulagi við greiðslu lífeyris til sóknaraðila í Bretlandi yrði ekki jafnað til íslensks lífeyriskerfis þar sem sérstakt eftirlit væri með því að vinnuveitendur inntu af hendi iðgjöld.

Að því er varðar kröfu vegna ábyrgðar varnaraðila á greiðslu skatta sóknaraðila í Bretlandi er vísað til bréfs lögmanns hans sem áður greinir. Í munnlegum málflutningi lagði lögmaður sóknaraðila áherslu á að sóknaraðili hefði enn ekki verið krafinn um greiðsluna og væri því um að ræða skilyrta kröfu samkvæmt 157. gr. laga nr. 21/1991.

Dráttarvaxtakrafa sóknaraðila byggist á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 og er við það miðað að sóknaraðili eigi rétt á dráttarvöxtum af sterlingspundum frá gjalddögum til 22. apríl 2009 þegar varnaraðili var tekinn til slita með úrskurði héraðsdóms.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi viðurkennt kröfu vegna 6 mánaða biðlauna, launa í október og dráttarvaxta af þessum fjárhæðum eða alls 73.136.780 krónur. Samkvæmt öllu framangreindu sundurliðar sóknaraðili endanlega viðbótarkröfu sína með svofelldum hætti:

1. Sex mánaða laun eftir starfslok

51.591.600 kr. (270.000 sterlingspund)

2. Lífeyrissjóðsframlög

56.750.760 kr. (297.000 sterlingspund)

3. Orlof 13,04%

6.727.545 kr. (35.208 sterlingspund)

4. Endurgreiðslukrafa vegna skatta

21.710.127 kr. (113.618 sterlingspund)

5. Dráttarvaxtakrafa

1.869.598 kr. (9.784 sterlingspund)

Samtals

138.649.630 kr. (725.610 sterlingspund).

Sóknaraðili vísar til laga nr. 21/1991, laga um orlof nr. 30/1987, laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, sem og til meginreglna vinnuréttar.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi þegar viðurkennt kröfu sóknaraðila um laun í 6 mánaða uppsagnarfresti með réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en hann hafni því að sóknaraðili eigi rétt á frekari launagreiðslum. Varnaraðili bendir á að heimilt er að stytta umsaminn 12 mánaða uppsagnarfrest sem sóknaraðili byggir kröfu sína á með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Varnaraðili áréttar að fyrrgreint ákvæði hafi verið túlkað á þann hátt að ekki sé skilyrði að slitastjórn þurfi beinlínis að segja samningi upp heldur sé nóg að þrotabú telji sig ekki bundið af gagnkvæmum samningi. Að mati varnaraðila er 6 mánaða uppsagnarfrestur í tilviki sóknaraðila bæði hæfilegur og sanngjarn í skilningi 96. gr. laganna og er frekari launagreiðslum því hafnað. Varnaraðili telur einnig rétt að benda á að 6 mánaða uppsagnarfrestur er í samræmi við ákvæði kjarasamnings Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins. Með vísan til þessa telur varnaraðili ljóst að sóknaraðili eigi ekki réttmæta kröfu um frekari launagreiðslur í uppsagnarfresti, umfram það sem slitastjórn varnaraðila hefur þegar viðurkennt. Að því er varðar heimild í 3. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, til þess að gera þeim sem segir upp samningi með heimild í 1. og 2. mgr. 96. gr. að greiða hinum skaðabætur vegna tjóns sem leiðir af uppsögninni, þá er til þess vísað að sóknaraðili virðist ekki reisa neinar kröfur á grundvelli þess ákvæðis. Þá hafi varnaraðili ekki sýnt fram á tjón af völdum ákvörðunar varnaraðila.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi engar upplýsingar veitt um þá lífeyrissjóði sem greitt hafi verið til á grundvelli ráðningarsamnings hans. Slitastjórn varnaraðila hafi hafnað kröfu sóknaraðila um greiðslur til lífeyrissjóða á grundvelli þess að sóknaraðili væri ekki réttur aðili að kröfunni, sbr. einnig 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, heldur viðkomandi lífeyrissjóður eða sjóðir. Breyti engu í þeim efnum þó að lífeyrissjóðurinn eða sjóðirnir, þ. á m. framangreindur einkasjóður, hafi ekki lýst kröfunni við slit varnaraðila. Byggist framangreind afstaða slitastjórnar varnaraðila á skýru dómafordæmi Hæstaréttar í máli nr. 114/2011 frá 21. mars 2011. Varnaraðili styður einnig afstöðu sína við fyrrgreint ákvæði í ráðningarsamningi, þar sem fram komi að rétthafi geti ekki krafið varnaraðila beint um lífeyri. Að mati varnaraðila er ljóst að framangreint ákvæði tekur hvoru tveggja til greiðslu hins skyldubundna lífeyrisframlags svo og greiðslna til hlutaðeigandi einkasjóðs. Í öllu falli hafi sóknaraðili ekki skotið fullnægjandi stoðum undir það að hann geti talist rétthafi umþrættra greiðslna gagnvart varnaraðila við slit hans, en af því verði hann að bera hallann.

Verði fallist á kröfu um lífeyrisgreiðslur að einhverju leyti telur varnaraðili ljóst að slík krafa geti ekki notið hærri rétthæðar en sem almenn krafa með vísan til 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið telur varnaraðili að sóknaraðili teljist augljóslega nákominn í skilningi laga um gjaldþrotaskipti og geti hvers konar kröfur um lífeyrisgreiðslur því aldrei notið stöðu forgangskröfu í skilningi laganna.

Varnaraðili telur að aðilar hafi verið sammála um að afmarka ágreining málsins með þeim hætti að orlof væri ekki hluti af ágreiningsefnum þess. Vísar hann um þetta til fundargerðar kröfuhafafundar varnaraðila 1. september 2011 þar sem færð voru til bókar þau atriði sem aðilar voru sammála um að vísa til héraðsdóms, en þar er ágreiningur um orlof ekki talinn upp. Einnig vísar hann til bréfs varnaraðila til héraðsdóms 14. október 2011, þar sem ágreiningi aðila er vísað til héraðsdóms. Að mati varnaraðila leiðir þetta til þess að sá hluti kröfunnar kemst ekki að við úrlausn málsins og eigi sóknaraðili því ekki rétt á frekari orlofsgreiðslum frá varnaraðila umfram það sem þegar hefur verið viðurkennt. Varnaraðili telur nauðsynlegt að leiðrétta villu sem er fyrir hendi í afstöðubréfi varnaraðila til sóknaraðila, 31. mars 2011, en tímabil orlofs hafi ekki verið rétt tilgreint í bréfinu. Í fyrrgreindu afstöðubréfi slitastjórnar sé orlof sagt viðurkennt fram til 1. nóvember 2008 en þar eigi að standa að það sé viðurkennt til 30. apríl 2009, svo sem viðurkennd fjárhæð beri með sér. Varnaraðili leggur áherslu á að framangreind leiðrétting hafi ekki áhrif á fjárhæð kröfunnar. Varnaraðili heldur því einnig fram að þar sem viðurkenndur hafi verið réttur sóknaraðila til orlofs í sex mánaða uppsagnarfresti geti ekki verið um að ræða frekari rétt til orlofs.

Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila vegna ætlaðrar vanrækslu varnaraðila á skattgreiðslum í Englandi vegna starfa sóknaraðila. Varnaraðili leggur áherslu á að engin gögn í málinu sýni fram á að bresk stjórnvöld hafi gert slíka kröfu á hendur sóknaraðila en sóknaraðili hafi ekki lagt fram haldbær gögn til stuðnings kröfunni, þ.e. að slík krafa hafi yfirhöfuð stofnast eða kunni síðar að stofnast á hendur sóknaraðila. Beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfunni enda sé hún alfarið ósönnuð. Varnaraðili mótmælir því að bréf frá enskum lögmanni sóknaraðila hafi sönnunargildi í málinu og er í því sambandi vísað til 2. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varnaraðili leggur einnig áherslu á að endurgreiðslukrafa sóknaraðila er ekki studd neinum gögnum sem sýna fram á fjárhæð og/eða grundvöll kröfunnar. Krafan sé því bæði óskýr og óljós sem sé í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telur einnig rétt að árétta, í ljósi umfjöllunar sóknaraðila í greinargerð sinni þess efnis að varnaraðili hafi vanrækt að greiða skatta í Englandi vegna starfa sóknaraðila, að slíkt getur ekki, með hliðsjón af stöðu sóknaraðila sem fyrirsvarsmanns varnaraðila á þessum tíma, skapað honum endurkröfurétt á hendur varnaraðila.

Varnaraðili viðurkennir rétt sóknaraðila til 7,5% dráttarvaxta af samþykktum kröfum við slitameðferðina í samræmi við kröfugerð sóknaraðila. Sóknaraðili áréttar að vextir sem falla til eftir úrskurðardag slitameðferðar varnaraðila 22. apríl 2009 teljast eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991. Í þessu sambandi telur varnaraðili að líta beri svo á að hluti af orlofskröfu varnaraðila hafi ekki gjaldfallið fyrr en eftir úrskurðardag, þ.e. eftir lok orlofsársins 30. apríl 2009, en vextir eftir þann tíma séu eftirstæðir. 

Samkvæmt öllu framansögðu hefur slitastjórn varnaraðila samþykkt eftirfarandi kröfuliði sóknaraðila við slitameðferðina sem almenna kröfu undir 113. gr. laga nr. 21/1991 sem hér segir:

Laun fyrir október 2008

kr. 8.598.600 (GBP 45.000)

Biðlaun í sex mánuði

kr. 51.591.600 (GBP 270.000)

Orlof frá 1. maí 2008 til 30. apríl 2009

11.904.000 (GBP 62.298)

Dráttarvextir til 22. apríl 2009

kr. 1.042.580 (GBP 5.456)

Samtals

kr. 73.136.780

Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili einkum til laga nr. 30/1987 um orlof, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningslaust að sóknaraðili starfaði sem stjórnarformaður fyrir varnaraðila samkvæmt ráðningarsamningi 18 desember 2006. Fjárhæð mánaðarlegra grunnlauna sóknaraðila, 45.000 sterlingspund, er óumdeild. Þá er ekki deilt um rétt hans til orlofsgreiðslna frá október 2008 til loka uppsagnarfrests eða biðlaunatíma. Enn fremur er ekki ágreiningur um að sóknaraðili eigi rétt á dráttarvöxtum af kröfu sinni frá gjalddögum til og með 22. apríl 2009 þegar varnaraðili var tekinn til slita. Að lokum er ekki deilt um útreikning dráttarvaxta af þeim fjárhæðum sem viðurkenndar verða með dómi.

Ágreiningur aðila lýtur í fyrsta lagi að því hvort varnaraðila hafi verið heimilt að binda enda á umræddan ráðningarsamning með sex mánaða uppsagnarfresti í stað þess að greiða sóknaraðila biðlaun að viðbættu orlofi í 12 mánuði samkvæmt ákvæðum samningsins. Í annan stað deila aðilar um hvort sóknaraðili geti krafist greiðslna, sem varnaraðila bar samkvæmt ráðningarsamningi að greiða til lífeyrissjóða sem hlutfall af launum, og hvort hluti þessara greiðslna njóti forgangs við slit varnaraðila samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Að lokum krefst sóknaraðili þess, gegn andmælum varnaraðila, að viðurkenna beri kröfu vegna ætlaðrar skyldu varnaraðila til að greiða skatta varnaraðila í Bretlandi vegna tveggja tiltekinna skattára.

A

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 getur þrotabú sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega með hliðstæðum hætti. Með ákvæðinu er þrotabúi fengin sérstök heimild til þess að losna undan skyldum samkvæmt gagnkvæmum samningum, sem eru í gildi við upphaf gjaldþrotaskipta, án tillits til tímalengdar samnings eða uppsagnarákvæða, með uppsögn innan venjulegs eða sanngjarns frests. Er þessi heimild í samræmi við það meginmarkmið gjaldþrotaskipta að slá föstum endanlegum eignum og skuldum þrotabús í því skyni að skipta hreinum eignum milli kröfuhafa innan hæfilegs tíma.

Ekki fer á milli mála að framangreind heimild 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og síðarnefndu greininni var breytt með 9. gr. laga nr. 30/2004, tekur til ráðningarsamninga, svo sem þess sem um ræðir í máli þessu. Samkvæmt þessu var slitastjórn varnaraðila heimilt að binda enda á ráðningarsamning sóknaraðila með uppsögn innan venjulegs eða sanngjarns frests án tillits til ákvæða samningsins sjálfs um uppsagnarfrest, biðlaunarétt eða aðrar greiðslur í tilefni af starfslokum. Með vísan til 88. gr. laga nr. 21/1991 er það álit dómara að slitastjórn varnaraðila hefði verið rétt að taka afstöðu til ráðningarsamnings sóknaraðila, sem og stöðu hans í framhaldi af því, eins skjótt og verða mátti eftir upphaf slitameðferðar. Með vísan til dóms Hæstaréttar 18. júní 2010 í máli nr. 331/2010 verður hins vegar ekki talið að þessi vanræksla slitanefndar varnaraðila leiði til þess að heimild samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laganna hafi fallið niður. Verður því lagt til grundvallar að nægilegt hafi verið að tilkynning varnaraðila um slit ráðningarsamnings sóknaraðila, svo og kjör hans af því tilefni, kæmi fram í afstöðu slitastjórnar hinn 31. mars 2011 til lýstrar kröfu sóknaraðila.

Áður er fram komið að varnaraðili hefur fallist á að sóknaraðili njóti launa í sex mánaða uppsagnarfresti frá og með 1. nóvember 2008 að telja. Einnig hefur varnaraðili fallist á að greiða sóknaraðila út orlof samkvæmt ráðningarsamningi fyrir þetta tímabil auk októbermánaðar og raunar einnig fyrir tímabilið 1. maí til 1. október 2008. Í ljósi þeirra uppsagnarfresta sem tíðkast á almennum vinnumarkaði, svo og stöðu og starfskjara sóknaraðila að öðru leyti, verða þessir skilmálar taldir fullnægja framangreindum skilyrðum 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991. Í málinu hafa ekki verið færð fyrir því rök að sóknaraðili eigi rétt á bótum samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991.               

Í kröfugerð varnaraðila felst m.a. annars að hann krefst staðfestingar á þeirri afstöðu slitastjórnar að viðurkenna rétt sóknaraðila til orlofs í sex mánaða uppsagnarfresti. Er málsástæða varnaraðila, þess efnis að ágreininingi um orlof hafi ekki réttilega verið vísað til héraðsdóms samkvæmt 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga, ósamrýmanleg þessari kröfugerð hans. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu verður hins vegar ekki talið að sóknaraðili eigi rétt til orlofs umfram þá sex mánuði sem varnaraðili hefur viðurkennt. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfum sóknaraðila um greiðslu launa fyrir sex mánuði og orlof umfram umrætt sex mánaða tímabil.

B

Svo sem fyrr greinir kvað grein 3.1 í ráðningarsamningi sóknaraðila á um að hann skyldi velja sér lífeyrissjóð og í hann skyldi greiða, í samræmi við skyldutryggingu lífeyrisréttinda, 10% af grunnlaunum ásamt kaupauka. Til viðbótar skyldi varnaraðili greiða 20% af grunnlaunum sem viðbótarframlag í séreignarlífeyrissjóð. Þá sagði efnislega að starfsmaður ætti ekki kröfu um lífeyrisrétt gegn vinnuveitanda heldur væri stofnað til allra réttinda starfsmannsins hjá viðkomandi lífeyrissjóði.

Að mati dómara verður framangreint ákvæði í ráðningarsamningi ekki skýrt á aðra leið en að gert hafi verið ráð fyrir því að íslenskar reglur giltu um greiðslur varnaraðila til lífeyrissjóða. Fær sú niðurstaða einnig stoð í öðrum atvikum málsins. Í samræmi við fordæmi Hæstaréttar verður því að leggja til grundvallar að sóknaraðili eigi ekki aðild að kröfu um vangoldin iðgjöld til lífeyrissjóða heldur séu það viðkomandi lífeyrissjóðir sem eigi slíka kröfu gegn varnaraðila. Á þetta því frekar við að í umræddum ráðningarsamningi er kveðið á um að réttur sóknaraðila til lífeyris stofnist ekki gagnvart varnaraðila heldur einungis gagnvart viðkomandi lífeyrissjóðum, svo sem áður greinir. Það athugast í þessu sambandi að sóknaraðila eru tæk úrræði eftir almennum reglum, telji hann að lífeyrissjóðir hans hafi vanrækt að gera kröfur um lífeyrissjóðsiðgjöld við slit varnaraðila.

Samkvæmt þessu verður kröfu sóknaraðila um lífeyrisiðgjöld hafnað. Er þá ekki þörf á því að taka afstöðu til kröfu hans um að hluti þessara greiðslna verði viðurkenndur sem forgangskrafa samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

C

Krafa sóknaraðila vegna ætlaðrar vanrækslu varnaraðila við að taka þátt í skattgreiðslum hans í Bretlandi er studd við einhliða yfirlýsingu hans sjálfs um slíka skyldu varnaraðila auk staðhæfingar í bréfi lögmanns hans í Englandi frá 19. nóvember 2009. Í umræddu bréfi er þó aðeins staðhæft, án frekari röksemda eða tilvísunar til gagna, að sóknaraðili hafi notið þessara fríðinda á meðan á ráðningu hans stóð en greiðslur fallið niður vegna skattáranna 2007-2008 og 2008-2009. Gegn mótmælum varnaraðila er ósönnuð skylda varnaraðila til að taka þátt í skattgreiðslum sóknaraðila með umræddum hætti.

D

Samkvæmt framangreindu verður öllum kröfum sóknaraðila í málinu hafnað. Í málinu krefst varnaraðili staðfestingar á þeirri afstöðu slitastjórnar að krafa sóknaraðila að fjárhæð 73.136.780 kr. sé viðurkennd sem almenn krafa við slit hans. Í þeirri fjárhæð felst m.a. viðurkenning á greiðslu orlofs fyrir tímabilið 1. maí til 1. október 2008 sem fellur utan kröfulýsingar sóknaraðila 21. desember 2009 og þar með þess ágreinings sem vísað var til héraðsdóms 14. október 2011. Eins og málið liggur fyrir þykir þetta atriði þó ekki eiga að leiða til þess að synja eigi um staðfestingu á orlofskröfu vegna 1. maí til 1. október 2008. Verður því staðfest afstaða slitastjórnar varnaraðila um rétt sóknaraðila til launa í október 2008, launa í sex mánaða uppsagnarfresti, þess orlofs sem áður greinir auk dráttarvaxta til 22. apríl 2009. Um fjárhæð kröfu á þessum grundvelli er ekki deilt. Verður krafa varnaraðila því viðurkennd eins og hún er fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Við ákvörðun málskostnaðar verður litið til þess að fyrir dómi hefur varnaraðili fallist á kröfu sóknaraðila um laun fyrir október 2008. Að þessu virtu, svo og eftir úrslitum málsins að öðru leyti, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila hluta málskostnaðar hans sem ákveðst hæfilegur 650.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Gestur Jónsson hrl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Finnur Magnússon hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, Sigurðar Einarssonar, gegn varnaraðila, Kaupþingi hf., er hafnað.

Ákvörðun slitastjórnar varnaraðila, um að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 73.136.780 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila, er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 650.000 krónur í málskostnað.