Print

Mál nr. 525/2012

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Ómerking ummæla
  • Skaðabætur
  • Lögjöfnun
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Lagaskil

                                     

Fimmtudaginn 21. febrúar 2013.

Nr. 525/2012.

Ægir Geirdal Gíslason

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

gegn

Steingrími Sævari Ólafssyni

(Baldvin Björn Haraldsson hrl.)

Ærumeiðingar. Ómerking ummæla. Skaðabætur. Lögjöfnun. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá. Lagaskil.

Æ höfðaði mál gegn S vegna umfjöllunar um hann sem birt var á vefmiðlinum www.pressan.is, í kjölfar þess að Æ bauð sig fram til stjórnlagaþings. Krafðist Æ þess að tiltekin ummæli yrðu ómerkt og S gert að greiða honum miskabætur auk kostnaðar við birtingu dóms í einu dagblaði. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. fallist á að þeir sem gæfu kost á sér til trúnaðarstarfa í þágu almennings yrðu að þola umfjöllun á opinberum vettvangi sem snerti hæfni þeirra og eiginleika og hvort þeir væru traustsins verðir. Það gæti hins vegar ekki réttlætt að Æ væri borin á brýn sú refsiverða háttsemi sem fram hefði komið hjá netmiðlinum. Hefði Æ hvorki verið fundinn sekur um þá háttsemi sem hann var sakaður um né sætt rannsókn lögreglu af slíku tilefni. Var fallist á að ómerkja hluta þeirra ummæla sem viðhöfð höfðu verið og Æ krafðist ómerkingar á. Ein ummælana voru birt eftir gildistöku laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og var S ekki talinn bera ábyrgð á þeim þar sem þau voru réttilega höfð eftir nafngreindum einstaklingum, sbr. a. lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Þá var S gert að greiða Æ 200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. ágúst 2012. Hann krefst þess að eftirfarandi ummæli sem birtust á vefmiðlinum www.pressan.is verði dæmd dauð og ómerk:

a.       Í fyrirsögn greinar, sem birtist 7. nóvember 2010: „Systur: Sitjum ekki þegjandi undir því að barnaníðingur bjóði sig fram til stjórnlagaþings.“

b.      Í sömu grein: „Við gátum ekki setið þegjandi undir því að barnaníðingur byði sig fram til stjórnlagaþings.“

c.       Í sömu grein: „Ég veit ekki hvort þetta sé löglegt hjá okkur systrum en það er aukaatriði. Maðurinn er stórhættulegur og hann gengur laus.“

d.      Í fyrirsögn greinar, sem birtist 23. febrúar 2011: „Systur láta ekki dóttur Ægis Geirdals sussa á sig – Barnaníð ekki einkamál fjölskyldu hans.“

e.       Í sömu grein: „Barnaníð er aldrei einkamál sem fjölskylda níðinga getur tekið að sér að leysa. Barnaníð er glæpur.“

f.       Í fyrirsögn greinar, sem birtist 30. maí 2011: „Barnaníðingar eiga ekki að fá að fara huldu höfði – Fyrirgefning má ekki fela í sér meðvirkni.“

Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með „almennum vöxtum frá 7. nóvember 2010 til stefnubirtingardags“ samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 21. febrúar 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags, til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms í málinu í einu dagblaði. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Vefpressunni ehf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi rituðu systurnar Ingibjörg og Sigurlína Ólafsdætur bréf 11. ágúst 2008 til sjálfráða niðja ömmu sinnar vegna þess að þær höfðu ekki sótt samsæti í tilefni af því að öld var liðinn frá fæðingu hennar. Í bréfinu sökuðu systurnar áfrýjanda, sem er kvæntur móðursystur þeirra, um kynferðisbrot gegn þeim þegar þær voru á barnsaldri. Bréfið var einnig sent lögreglu og Barnaverndarstofu. Bréfið birtu þær systur síðan á vefsíðu sinni 2. nóvember 2010, en áfrýjandi hafði þá boðið sig fram til setu á stjórnlagaþingi og fóru kosningarnar fram 27. sama mánaðar.

Hinn 7. nóvember 2010 var fjallað um ásakanir þessar á hendur áfrýjanda á vefmiðlinum pressan.is sem réttargæslustefndi gefur út. Var greinin birt undir þeirri fyrirsögn sem kemur fram í a. lið kröfugerðar áfrýjanda, auk þess sem þar komu fram þau ummæli sem greinir í b. og c. lið kröfugerðarinnar. Í umfjöllun þessari kom meðal annars fram að tilgangur systranna með að vekja máls á þessu væri að upplýsa kjósendur um hvaða mann þær álitu áfrýjanda hafa að geyma og koma í veg fyrir að hann bryti gegn fleirum. Í greininni var haft eftir áfrýjanda að ekkert væri hæft í þessum ásökunum.

Í febrúar 2011 mun dóttir áfrýjanda hafa komið föður sínum til varnar í sjónvarpsþætti, en vikið var að viðtalinu við hana í pistli 22. þess sama mánaðar á vefsíðu fréttamannsins sem tók viðtalið. Sama dag rituðu systurnar grein á heimasíðu sinni þar sem meðal annars kom fram að þær litu á það sem tilraun til „þöggunar“ að fara fram á að „glæpir“ áfrýjanda yður „sussaðir niður sem fjölskylduharmleikur.“ Í kjölfarið birti fyrrgreindur vefmiðill grein 23. febrúar 2011 um viðtalið við dóttur áfrýjanda og skrif systranna undir þeirri fyrirsögn sem greinir í d. lið kröfugerðar áfrýjanda, auk þess sem þar koma fram þau ummæli sem greinir í e. lið kröfugerðarinnar.

Loks rituðu systurnar grein á heimasíðu sinni 27. maí 2011 í tilefni af viðtali annars vefmiðils við konu sem sagðist hafa verið misnotuð kynferðislega í æsku. Frá þessu var greint á pressan.is í grein 30. sama mánaðar undir þeirri fyrirsögn sem greinir í f. lið kröfugerðar áfrýjanda.

II

Þegar umræddar greinar birtust á pressan.is var stefndi ritstjóri vefmiðilsins. Höfundur greinanna var ekki tilgreindur, en fyrir liggur að þær voru ritaðar af nafngreindum blaðamanni sem starfaði á miðlinum. Þá hefur stefndi staðfest í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að blaðamaðurinn hefði borið undir sig sum efnisatriði þessa máls og tók stefndi fram að hann hefði samþykkt birtingu efnisins.

Þau ummæli sem greinir í a. til e. liðum kröfugerðar áfrýjanda birtust á vefmiðlinum pressan.is áður en lög nr. 38/2011 um fjölmiðla tóku gildi 21. apríl 2011. Um ábyrgð á þessum ummælum fer eftir þeim reglum sem voru í gildi á þeim tíma er þau birtust. Aftur á móti voru þau ummæli sem greinir í f. lið kröfugerðarinnar birt eftir að lögin tóku gildi.

Samkvæmt 1. málslið 1. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt telst til rita samkvæmt lögunum hvert það rit sem prentað er eða letrað á annan vélrænan eða efnafræðilegan hátt. Efni sem eingöngu birtist á netinu féll því ekki undir gildissvið laganna og þar með átti það ekki undir ábyrgðarreglur 15. gr. þeirra. Í stefnu til héraðsdóms heldur áfrýjandi því fram að sú regla hafi átt við með lögjöfnun og því beri stefndi sem ritstjóri ábyrgð á þeim ummælum sem greinir í a. til e. liðum kröfugerðarinnar. Með vísan til dóms Hæstaréttar 24. nóvember 2011 í máli nr. 100/2011 verður lögjöfnun frá hlutlægri ábyrgðarreglu ekki talin tæk. Á hinn bóginn verður talið að á stefnda sem ritstjóra vefmiðilsins hafi hvílt eftirlitsskylda. Í því fólst meðal annars að honum bar að haga ritstjórninni þannig að forðast yrði að efni miðilsins ylli öðrum miska vegna ærumeiðinga. Saknæm vanræksla áfrýjanda á að sinna þessari eftirlitsskyldu kann því að varða hann ábyrgð og er málinu samkvæmt því réttilega beint að honum.

Stefndi heldur því fram að umfjöllun um áfrýjanda hafi ekki verið ærumeiðandi og farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis sem njóti verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar. Til stuðnings þessu bendir stefndi meðal annars á að áfrýjandi hafi með framboði sínu til stjórnlagaþings og öðrum athöfnum á opinberum vettvangi markað sér stöðu sem opinber persóna og því þurfi hann að sæta umfjöllun af þessu tagi. Fallast má á með stefnda að þeir sem gefa kost á sér til slíkra trúnaðarstarfa í þágu almennings þurfi að þola umfjöllun á opinberum vettvangi sem snertir hæfni þeirra og eiginleika og hvort þeir séu traustsins verðir til að axla slíka ábyrgð. Þetta gat hins vegar ekki réttlætt að áfrýjanda væri, án þess að annað og meira kæmi til, borin á brýn sú refsiverða háttsemi sem fram kom hjá miðlinum og varðar við almenn hegningarlög. Er þá til þess að líta að áfrýjandi hefur samkvæmt gögnum málsins hvorki verið fundinn sekur um þá háttsemi né sætt rannsókn lögreglu af slíku tilefni. Það fær þessu ekki breytt þótt blaðamaður vefmiðilsins hafi við vinnslu fréttarinnar rætt við áfrýjanda, sem mun hafa vísað ásökunum á bug, og aðra sem töldu sig geta greint frá atvikum. Að öllu þessu virtu verður sú takmörkun á tjáningarfrelsi sem í þessu fólst talin hafa átt sér viðhlítandi stoð í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.   

  Kröfugerð áfrýjanda í a. og b. lið tekur til ummæla þess efnis að systur geti ekki setið þegjandi undir því að „barnaníðingur“ bjóði sig fram til stjórnlagaþings. Af samhenginu og því sem greinir í umfjölluninni er augljóst að þessar ásakanir beinast að áfrýjanda. Í þessu fólust aðdróttanir og verður fallist á kröfu um ómerkingu ummælanna með vísan til 1. mgr. 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.

Fyrri málsliður þeirra ummæla sem c. liður kröfugerðar áfrýjanda tekur til er þess efnis að systurnar hafi ekki vitað hvort þetta væri löglegt hjá þeim en það væri aukaatriði. Í þessum orðum fólust engar ærumeiðingar í garð áfrýjanda og því verða ummælin ekki ómerkt. Í síðari málslið ummæla í þessum kröfulið er fullyrt að áfrýjandi sé stórhættulegur og gangi laus. Í því felast aðdróttanir og verður fallist á kröfu um ómerkingu þessara ummæla með vísan til 1. mgr. 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.  

Í d. lið kröfugerðar áfrýjanda eru ummæli sem vísa til dóttur áfrýjanda, en síðan segir að barnaníð sé ekki „einkamál fjölskyldu hans“. Þessi ummæli vísa til áfrýjanda og fela í sér aðdróttun í hans garð. Verða ummælin því ómerkt samkvæmt 1. mgr. 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.

Þau ummæli sem e. liður kröfugerðar áfrýjanda tekur til fela í sér þá skoðun systranna að barnaníð sé ekki einkamál „sem fjölskylda barnaníðinga geti tekið að sér að leysa“ og að barnaníð sé „glæpur“. Þessi ummæli, sem eru liður í þjóðfélagsumræðu, eru almenns eðlis og vísa ekki til áfrýjanda heldur hafa þau að geyma gildisdóm um eðli tiltekinnar háttsemi og mat þeirra á viðbrögðum við henni. Fólst því hvorki refsiverð móðgun né aðdróttun í ummælunum í skilningi 234. gr. eða 235. gr. almennra hegningarlaga og verða þau ekki ómerkt.

Svo sem áður greinir voru ummæli þau sem greinir í f. lið kröfugerðar áfrýjanda birt eftir að lög nr. 38/2011 tóku gildi. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 51. gr. þeirra ber nafngreindur einstaklingur, sem ritefni er réttilega haft eftir, ábyrgð á eigin ummælum, ef hann hefur samþykkt miðlun þeirra og er annað hvort heimilisfastur hér á landi eða lýtur íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli. Þessi ummæli hafa að geyma fyrirsögn greinar á vefmiðlinum, sem hefst með efnislega samhljóða ummælum og höfð eru eftir systrunum. Hafa systurnar staðfest fyrir dómi að rétt sé eftir þeim haft og þær hafi samþykkt fyrir sitt leyti að ummælin yrðu birt. Samkvæmt þessu ber stefndi ekki ábyrgð á ummælunum.

Samkvæmt b. lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á áfrýjandi rétt á miskabótum úr hendi stefnda vegna áðurgreindra ummæla sem ómerkt hafa verið. Þykja þær bætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur með dráttarvöxtum, en þeir reiknast að liðnum mánuði frá því áfrýjandi krafðist bóta með bréfi til stefnda 21. janúar 2011. Eins og krafa um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 er sett fram eru ekki efni til að taka hana til greina.

Ekki þykja efni til að dæma stefnda til greiðslu kostnaðar af birtingu dómsins í dagblöðum með vísan til þeirrar heimildar sem fram kemur í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ummælin: Systur: Sitjum ekki þegjandi undir því að barnaníðingur bjóði sig fram til stjórnlagaþings og Við gátum ekki setið þegjandi undir því að barnaníðingur byði sig fram til stjórnlagaþings og Maðurinn er stórhættulegur og hann gengur laus sem birtust 7. nóvember 2010 í vefmiðlinum Pressan.is og ummælin: Systur láta ekki dóttur Ægis Geirdals sussa á sig – Barnaníð ekki einkamál fjölskyldu hans er birtust 23. febrúar 2011 í sama miðli, sem stefndi Steingrímur Sævarr Ólafsson ritstýrði, eru ómerkt.

Stefndi greiði áfrýjanda, Ægi Geirdal Gíslasyni, 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. febrúar 2011 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. janúar sl., er höfðað af Ægi Geirdal Gíslasyni, Hvammsdal 3, Vogum, með stefnu birtri 10. og 11. júní 2011 á hendur Steingrími Sævarri Ólafssyni, Goðheimum 13, Reykjavík og til réttargæslu, Vefpressunni ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur í málinu á hendur stefnda:

Í fyrsta lagi er þess krafist, að eftirfarandi ummæli, sem birtust á vefmiðlinum www.pressan.is verði dæmd dauð og ómerk, og stefndi, sem ritstjóri Vefpressunnar ehf., er talin bera ábyrgð á:

    1. Ummæli í fyrirsögn umfjöllunar, sem birtist 7. nóvember 2010: „Systur: Sitjum ekki þegjandi undir því að barnaníðingur bjóði sig fram til stjórnlagaþings.“
    2. Ummæli, sem birtust í sömu grein 7. nóvember 2010: „Við gátum ekki setið þegjandi undir því að barnaníðingur byði sig fram til stjórnlagaþings.“
    3. Ummæli, sem birtust í sömu grein 7. nóvember 2010: „Ég veit ekki hvort þetta sé löglegt hjá okkur systrum en það er aukaatriði. Maðurinn er stórhættulegur og hann gengur laus.“
    4. Ummæli í fyrirsögn umfjöllunar, sem birtist 23. febrúar 2011: „Systur láta ekki dóttur Ægis Geirdals sussa á sig – Barnaníð ekki einkamál fjölskyldu hans.“
    5. Ummæli, sem birtust í sömu grein 23. febrúar 2011: „Barnaníð er aldrei einkamál sem fjölskylda níðinga getur tekið að sér að leysa. Barnaníð er glæpur.“
    6. Ummæli í fyrirsögn umfjöllunar, sem birtist 30. maí 2011:

„Barnaníðingar eiga ekki að fá að fara huldu höfði – Fyrirgefning má ekki fela í sér meðvirkni.“

Í öðru lagi er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna með almennum vöxtum frá 7. nóvember 2010 til stefnubirtingardags samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá 21. febrúar 2011 til greiðsludags.

Í þriðja lagi er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 200.000 krónur til að standa straum af birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í einu dagblaði og beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefnandi gerir ekki sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara, að krafa stefnanda um miskabætur og kostnað vegna birtingar dóms verði lækkuð verulega. Þá er krafist málskostnaðar.

Réttargæslustefnda hefur ekki látið málið til sín taka fyrir dómi.

I

Mál þetta á rætur að rekja til þess, að systurnar Ingibjörg og Sigurlín Ólafsdætur báru á stefnanda að hafa framið kynferðisbrot á þeim meðan þær voru börn. Ekki liggur fyrir, hvenær ásakanir þeirra komu fyrst fram, en meðal gagna málsins er ítarlegt bréf systranna frá 11. ágúst 2008, sem ber ávarpsorðin „Heilir og sælir ættingjar“ og var sent til 55 nafngreindra og „sjálfráða niðja Guðrúnar Elísu Þórðardóttur“ auk lögreglufulltrúa kynferðisbrotamála hjá „Lögregluembætti ríkisins“ og forstjóra Barnaverndarstofu. Í upphafi segir að þær systur hafi skömmu áður ekki treyst sér til að vera viðstaddar 100 ára afmæli ættmóður þeirra, en skýring á því felist í að segja hluta af sögu þeirra systra. Í bréfinu er síðan lýst ætluðum kynferðisbrotum stefnanda gagnvart þeim, þegar þær voru enn börn eða unglingar. Á þeim tíma, sem um ræðir, hafi fjölskyldur stefnanda og systranna búið hvor á sinni hæð í húsi í nágrenni Reykjavíkur og af þeim sökum og vegna ættartengsla hafi mikill samgangur verið þar á milli. Þá aðstöðu hafi stefnandi nýtt sér til að níðast á þeim systrum. Í bréfinu segir jafnframt, að lögregla og Barnaverndarstofa séu upplýst um þessi ætluðu brot stefnanda.

Systurnar birtu umrætt bréf á vefsíðu sinni 2. nóvember 2010 undir fyrirsögninni „Fjölskyldubréf frá 2008 vegna Ægis Geirdal.“ Stefnandi hafði þá lýst yfir framboði sínu í almennum kosningum til stjórnlagaþings, sem skyldu fara fram í lok sama mánuðar, en framboð hans mun hafa ráðið þeirri ákvörðun systranna að birta bréfið. Vefmiðillinn pressan.is fjallaði 7. nóvember 2010 um málið undir fyrirsögn, sem fram kemur í a-lið kröfugerðar stefnanda. Ummæli sem greinir í b- og c-lið kröfugerðar hans koma einnig fram í sömu umfjöllun vefmiðilsins.

Réttargæslustefndi heldur úti umræddum vefmiðli, en stefndi er ritstjóri hans. Stefnandi kaus að tjá sig ekki við réttargæslustefnda, þegar viðbragða hans var leitað við ásökunum systranna að öðru leyti en því, að ekkert væri hæft í ásökunum systranna. Degi síðar birtust á pressunni.is ummæli, sem í öðrum fjölmiðli voru höfð eftir stefnanda, þar sem hann neitaði ásökunum systranna og kvaðst hyggja á málshöfðun gegn þeim. Þær væru með skrifum sínum að reyna að hafa af honum fé, en önnur þeirra hefði talið að hver frambjóðandi til stjórnlagaþings fengi 2.000.000 króna í styrk frá ríkinu og „þess vegna dúkkar þessi gamla lygasaga upp.“ Í sömu umfjöllun pressunnar.is var haft eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur að hún kannaðist við þessar varnir stefnanda, en þær hafi komið fram löngu áður en stjórnlagaþing bar fyrst á góma. Hún kvað þær systur ekki kæra sig um fé frá stefnanda.

Í sjónvarpsviðtali við dóttur stefnanda í febrúar 2011 var meðal annars vikið að áðurnefndu máli. Í pistli á vefsíðu fréttamanns 22. sama mánaðar er greint frá viðtalinu, en í fyrirsögn er haft eftir viðmælanda hans: „Pabbi er ekki opinber persóna. Ásakanir um barnaníð eiga ekki heima í fjölmiðlum.“ Taldi hún málið vera fjölskylduharmleik. Sama dag birtust skrif systranna á þeirra heimasíðu, þar sem því er haldið fram, að þetta hafi verið „tilraun til þöggunar“ og „óásættanleg hegðun,“ en verið sé að fara fram á að glæpir stefnanda séu „sussaðir niður“ sem fjölskylduharmleikur. Þær systur standi við allt, sem þær hafi sagt og blása „á allar tilraunir til að þagga niður í okkur.“ Pressan.is greindi frá þessum skrifum 23. febrúar 2011. Fyrirsögn þeirrar umfjöllunar er sú sem getið er í d-lið kröfugerðar stefnanda og þar eru einnig ummæli, sem greinir í e-lið hennar. Fleiri ummæli eru þar höfð eftir systrunum, þar á meðal, að sömu varnir stefnanda hafi verið bornar fyrir í 20 ár og að „ekki megi tala opinberlega um meinta glæpi Ægis vegna þess að fjölskylda hans sé í sárum.“

Síðustu skrifin, sem varða mál þetta, birtust á heimasíðu systranna 27. maí 2011 og síðan á pressunni.is 30. sama mánaðar. Tilefni þess, að systurnar birtu sína grein, var viðtal við nafngreinda konu á vefmiðlinum bleikt.is, þar sem hún kvaðst hafa verið misnotuð í æsku. Hún hafi skrifað bók, þar sem þeirri skoðun sé lýst, að fyrirgefningin sé öflugasta vopnið sem nokkurt fórnarlamb kynferðisofbeldis geti beitt. Systurnar lýstu sig sammála konunni um sumt, en ósammála um annað. Meðal annars sögðu þær, að fyrirgefning mætti ekki fela í sér meðvirkni, sem gerði það að verkum, að barnaníðingar færu huldu höfði. Ummæla, sem getið er í f-lið kröfugerðar stefnanda, eru fyrirsögn áðurnefndrar greinar á pressunni.is.

Engin áðurnefndra þriggja greina á pressunni.is, sem kröfur stefnanda beinast að, er birt undir nafni. Með þeim fylgdu í öllum tilvikum myndir af systrunum Ingibjörgu og Sigurlín Ólafsdætrum. Við aðalmeðferð málsins gaf Þór Jónsson skýrslu, en á þeim tíma, sem um ræðir, var hann blaðamaður hjá réttargæslustefnda. Kvaðst hann hafa ritað umræddar greinar en ritstjóri vefmiðilsins, stefndi þessa máls, hafi falið honum það verkefni. Stefndi gaf einnig skýrslu og staðfesti þetta. Áðurnefndar systur gáfu sömuleiðis skýrslu og kváðu efnislega rétt eftir þeim haft í öllum þeim skrifum pressunnar.is, sem málið snýst um. Stefnandi gaf ekki skýrslu við meðferð málsins.

II

Um aðild stefnda vísar stefnandi til 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og dómvenju um beitingu ákvæðisins. Útgefandi rits eða ritstjóri beri ábyrgð á efni þess, hafi enginn höfundur verið nafngreindur. Höfundur greinanna sé ekki tilgreindur á vefmiðlinum pressunni.is og því beri stefndi sem ritstjóri hans ábyrgð á umfjöllun um ætluð brot stefnanda, sem birtust á vefsíðunni 7. nóvember 2010, 23. febrúar 2011 og 30. maí 2011. Í því máli, sem hér sé til meðferðar, sé um að ræða umfjöllun á netinu. Stefnandi telji að þrátt fyrir að ákvæði 15. gr. laganna kveði einungis á um ábyrgð á útgáfu prentaðs rits gildi eftir sem áður sömu meginreglur um ábyrgð á birtu efni á netinu. Með lögjöfnun og vísan til meginreglna um ábyrgð á birtu efni ættu því sömu sjónarmið varðandi aðild og ábyrgð að gilda, hvort sem umfjöllun efnis birtist í prentuðu riti eða á veraldarvefnum.

Varðandi aðild réttargæslustefnda sé byggt á því að útgáfufélagið, sem vinnuveitandi stefnda, beri endanlega ábyrgð á gjörðum hans á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar, með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga um prentrétt. Þar af leiðandi gæti niðurstaða þessa máls skipt réttargæslustefnda máli lögum samkvæmt, sbr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi heldur því fram, að áðurnefnd ummæli, sem birt voru á pressunni.is, þar sem stefndi sé ritstjóri, séu ærumeiðandi og til þess fallin að valda honum álitshnekki. Í ummælum þeim, sem birtust 7. nóvember 2011 komi fram að stefnandi sé barnaníðingur og stórhættulegur. Stefnandi fullyrðir, að ekki verði annað ráðið af framsetningu umfjöllunarinnar, en að það hafi verið markmið stefnda að lítillækka stefnanda og spilla mannorði hans, þar sem hann hafi á þessum tíma verið í framboði til stjórnlagaþings. Að mati stefnanda séu umrædd ummæli, sem stefndi beri ábyrgð á, röng, ærumeiðandi og virðingu hans til mikils hnekkis. Ljóst sé, að þær ærumeiðingar og aðdróttanir hafi verið birtar án haldbærra sönnunargagna og einungis látið við sitja að styðjast við tvo heimildarmenn. Systurnar væru andsnúnar stefnanda og hafi reynt að spilla fyrir honum á vettvangi stjórnlagaþings. Stefnandi telji að strangar kröfur þurfi að gera til sannleiksgildis staðhæfinga, sem greint sé frá opinberlega. Af þessum sökum sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál á hendur stefnda til að vernda æru sína og mannorð.

Stefnandi byggir á því, að val á fyrirsögn sé ritstjórnarleg ákvörðun og stefndi hafi kosið að gera sér mat úr þeim ásökunum, sem systurnar Ingibjörg og Sigurlín beri á stefnanda á pressunni.is. Hann telur jafnframt, að í vali á fyrirsögnum og framsetningu stefnda á umfjölluninni felist ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda. Við mat á því, hvort um ærumeiðingar sé að ræða, verði að skoða efni umræddra greina heildstætt sem og framsetningu þeirra af hálfu stefnda. Stefnandi kveður, að áðurnefnd umfjöllun teljist endurtekning ummæla, beinar tilvitnanir séu í mörgum tilfellum óskýrar og þær, sem og fyrirsagnir umræddra greina á pressunni.is, séu umorðaðar, settar fram til að ná megininntaki umfjöllunar og erfitt sé að greina hvenær ummæli séu beint höfð eftir systrunum eða ekki.

Ljóst sé, að stefndi hafi ítrekað nafngreint stefnanda í tengslum við umfjöllun um barnaníð og kosið að setja nafn hans fram í fyrirsögnum sínum. Það hafi ekki verið gert í umfjöllun systranna á heimasíðu þeirra. Það sé því viðbót við ummæli þeirra og beri að skoða í samræmi við þau. Stefnandi hafi sent stefnda bréf og upplýst, að ummælin væru röng. Þá hafi stefnandi reynt að ná sáttum við stefnanda. Því vísi stefnandi til leiðréttingarskyldu útgefanda og ritstjóra samkvæmt VI. kafla prentlaga og rétt brotaþola til að krefjast og fá birta leiðréttingu, sbr. 18. gr. þeirra.

Stefnandi byggir á því, að áðurnefnd umfjöllun stefnda um ásakanir um glæpsamlega háttsemi stefnanda feli í sér brot á rétti hans til að njóta friðhelgi einkalífs. Friðhelgi einkalífs njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, ásamt síðari breytingum, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefnandi mótmælir jafnframt því, að hann geti talist almannapersóna, sem réttlæti umfjöllun af þessu tagi um einkalíf hans og vísar af því tilefni til ályktunar Evrópuráðs nr. 1165/1998.

Við munnlegan flutning málsins lagði stefnandi auk þess áherslu á, að líta megi á útbreiðslu ærumeiðinganna sem sjálfstætt brot og að það megi leggja að jöfnu við frumærumeiðinguna sjálfa.

Stefnandi krefst þess, að ummæli, sem getið sé um í a- f-liðum kröfugerðar í stefnu verði dæmd dauð og ómerk með vísan til 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með stoð í framangreindum lagaákvæðum beri að ómerkja ummælin, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga, enda séu þau ekki á rökum reist ásamt því að vera óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus. Þá séu þau til þess fallin að sverta ímynd stefnanda, verða virðingu hans til hnekkis sem og til þess fallin að valda honum ótta og óöryggi. Stefnandi hafi af þessum ástæðum ríka hagsmuni af því að fá umrædd ummæli dæmd dauð og ómerk.

Kröfu um greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna byggir stefnandi á því, að stefndi beri miskabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem hin opinbera umfjöllun feli í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda. Stefnandi styður kröfu sína við það, að ummælin, sem höfð hafi verið uppi opinberlega á pressunni.is, hafi haft áhrif á andlega heilsu hans, þar sem um ærumeiðandi aðdróttanir hafi verið að ræða, sem séu bæði rangar og tilefnislausar. Þá telur stefnandi, að æra hans og virðing hafi beðið hnekki við ítrekuð ummæli á vefmiðlinum og með því hafi verið veittst að persónu hans. Stefnandi hafi verið í framboði til stjórnlagaþings og hafi umfjöllun stefnda verið til þess fallin að varpa rýrð á hann sjálfan og framboð hans. Ljóst þyki, að þær ærumeiðingar og aðdróttanir, sem stefndi hafi kosið að setja fram gegn stefnanda, án nokkurs sjáanlegs undanfara eða sönnunargagna, sem skýrt gæti tilefnislausa árás hans, hafi valdið stefnanda og fjölskyldu hans skaða.

Við mat á miskabótum er vísað til grunnraka að baki 234., 235., og 236. gr. almennra hegningarlaga sem og stjórnarskrár Íslands, sbr. 71. gr. hennar. Enn fremur telur stefnandi að hafa verði í huga við ákvörðun miskabóta, að slíkar bætur eigi að fela í sér varnaðaráhrif gegn frekari ásetningsbrotum af hálfu stefnda. Í ljósi atvika málsins sé miskabótakrafa stefnanda raunar varfærið mat á miska stefnanda.

Að auki krefst stefnandi þess, að dómur í málinu verði birtur og vísar um það til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því ákvæði megi dæma þann, sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim, sem misgert hafi verið við, hæfilega fjárhæð til þess að standa kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þyki til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum. Með hliðsjón af þessu lagaákvæði, sem og því hversu alvarleg meiðyrði og aðdróttanir hafi verið um að ræða, sé nauðsynlegt að kynna ómerkingardóminn rækilega. Því sé krafist kostnaðar við birtingu í einu dagblaði, en telja megi að kostnaður geti ekki numið lægri fjárhæð en 200.000 krónum.

Kröfur um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum IV. kafla, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. laganna. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa stefnanda um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert skylt að skila virðisaukaskatti af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá hann greiddan úr hendi stefnda.

III

Stefndi, Steingrímur Sævarr Ólafsson, byggir á því, að ábyrgð stefnda verði ekki byggð á 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Stefndi mótmælir því, að unnt sé að beita lögjöfnun frá lagaákvæðinu svo fella megi ábyrgð á stefnda. Ábyrgðarreglur 15. gr. laganna séu sérreglur, sem gildi um ábyrgð á efni blaða og tímarita, en ákvæðið taki ekki til vefmiðla eða annarra fréttaveita. Stefndi telur, að engin dómafordæmi séu til staðar, þar sem slíkri lögjöfnun hafi verið beitt og því geti dómvenja ekki leitt til þeirrar niðurstöðu.

Stefndi byggir á því, að lögjöfnun frá 22. gr. laganna um birtingu á tilteknum hluta dóms, ef höfundi eða útgefanda blaðs eða tímarits hefur verið dæmd refsing, ummæli ómerkt eða fébætur dæmdar vegna efnis í blaði eða tímariti, hafi hins vegar verið beitt. Þar hafi hins vegar verið lögjafnað um birtingu efnis í blaði eða tímariti til að koma fram tilteknu úrræði gagnvart aðila, sem óumdeilanlega hafi verið höfundur efnis og hafi þar af leiðandi borið ábyrgð. Stefndi telur, að ef lögjöfnun frá 15. gr. laga yrði beitt í þessu máli, væri verið að beita lögjöfnun um sjálfan ábyrgðargrundvöllinn og með því væri dómstóllinn að ganga lengra en áður hafi verið gert í sambærilegum málum.

Stefndi telur þar af leiðandi, að stefnandi geti ekki byggt ábyrgð stefnda á birtingu umræddrar umfjöllunar á vefmiðli pressunnar.is á hinum sérstöku ábyrgðarreglum laga um prentrétt, sem eigi við um blöð og tímarit, og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Sömu rök eigi við um ábyrgð réttargæslustefnda eftir 1. mgr. 17. gr. laga um prentrétt.

Verði komist að þeirri niðurstöðu, að stefndi beri ábyrgð á birtingu umræddrar umfjöllunar á pressunni.is, byggir stefndi á því, að þau ummæli hafi ekki falið í sér ærumeiðandi ummæli heldur ummæli, sem rúmist innan tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrár Íslands og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af því leiði að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda, þar sem hann hafi ekki gerst brotlegur gegn 234., 235., eða 236. gr. almennra hegningarlaga sem ritstjóri pressunnar.is. Stefndi geti hvorki talist hafa brotið gegn ákvæðum laganna með beinum hætti, né geti það verið ljóst af efnistökum eða samhengi umfjöllunarinnar um stefnanda á pressunni.is.

Í lýðræðislegu þjóðfélagi skuli frelsi fjölmiðla til að fjalla um brýn málefni á málefnalegan og upplýsandi hátt vera tryggt. Svigrúm fjölmiðla til umfjöllunar um menn og málefni sé talið rýmra, þegar í hlut eigi einstaklingar, sem mikið beri á í þjóðfélagsumræðu og teljist jafnvel umdeildir, svonefndar almannapersónur. Stefndi telur að stefnandi hafi á þessum tíma ótvírætt verið orðinn sjálfsköpuð almanna­persóna, sem hafi leitt til þess að stefnandi hafi þurft að þola nærgöngulli umfjöllun um einkalíf sitt en aðrir. Stefnandi telur, að ákveðin atriði, sem varði almannapersónur, komi almenningi við og sé þar fyrst og fremst átt við atriði sem geti skipt máli í opinberu starfi viðkomandi einstaklings og réttlæti þar af leiðandi opinbera umfjöllun. Stefndi metur það svo, að með því að hafa sóttst eftir sviðsljósinu, fyrst með því að hafa gerst talsmaður tiltekins þjóðfélagshóps, þ.e. skuldara í mótmælum fyrir framan Alþingishúsið, og síðar með því að hafa boðið sig fram til stjórnlagaþings, sem hafi átt að þjóna ákveðnu lykilhlutverki í siðferðislegri endurreisn samfélagsins eftir hrun bankanna, hafi stefnandi hlotið stöðu almannapersónu. Það sé því engum vafa undirorpið, að ætluð brot stefnanda gegn systrunum Ingibjörgu og Sigurlín í barnæsku þeirra hafi átt fullt erindi til almennings vegna þeirrar stöðu, sem stefnandi hafði skapað sér í þjóðfélaginu.

Umfjöllun á pressunni.is hafi lotið að ætluðum brotum stefnanda og hafi hún aldrei verið sett fram sem fullyrðingar um staðreyndir, heldur hafi með umfjölluninni einungis verið vísað til ásakana systranna, sem upphaflega höfðu verið birtar á vefsíðu þeirra. Í því ljósi hafi verið ákveðið að nafngreina stefnanda í umfjölluninni, auk þess sem stefnanda hafi verið veittur kostur á að svara ásökunum systranna, enda hafi verið greint frá svari stefnanda í umfjöllun sem birt var 7. nóvember 2010.

Stefndi mótmælir því, sem fram komi í stefnu og lúti að rannsókn á sannleiksgildi hinna ætluðu brota stefnanda gegn systrunum, en þar segi: „Ljóst er að þær ærumeiðingar og aðdróttanir sem stefndi ber ábyrgð á voru birt án sýnilegra sönnunargagna. Látið var við það sitja að styðjast við tvo heimildarmenn, sem af öllu virtu hafa mikið á móti stefnanda og reyndu að spilla fyrir honum á vettvangi stjórnlagaþings.“ Af málavöxtum sé ljóst, að systurnar hafi um langt skeið reynt að koma frásögn sinni um stefnanda á framfæri. Systurnar hafi sent ættingjum sínum bréf sumarið 2008 ásamt fleirum, lögreglunni og barnaverndarstofu, sem síðar hafi verið birt á vefsíðu þeirra þann 2. nóvember 2010, eftir að stefnandi hafi tilkynnt framboð sitt til stjórnlagaþings. Það sé því ljóst, að ekki sé um skyndihugdettu af hálfu systranna að ræða, heldur lið í löngu ferli þeirra til að vekja athygli á ætluðum brotum stefnanda. Þá beri einnig að huga að því, að ásakanirnar bárust ekki frá einni konu, heldur sé um að minnsta kosti þrjár konur að ræða, og verði það að teljast ólíklegt, að um samblástur eða löngu skipulagða fyrirsát til að knésetja stefnanda hafi verið að ræða. Stefndi mótmælir því að stefndi hafi ekki gert tilraun til að nálgast viðfangsefnið með gagnrýnum huga og meta eftir föngum sannleiksgildi frásagnanna.

Stefndi byggir á því að fyrrnefnd ákvæði almennra hegningarlaga standi höllum fæti gagnvart 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmálans hafi verið túlkað af Mannréttindadómstóli Evrópu á þann veg, að endursögn ósannra fullyrðinga annarra sé varin af tjáningar­frelsinu, svo lengi sem fullyrðingin stafi frá öðrum en honum sjálfum og hann sé í góðri trú um sannleiksgildi hennar. Stefndi telur ljóst, að sambærilegar aðstæður séu fyrir hendi í málinu og að verði talin varða ábyrgð með vísan til þessarar þróunar í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins og á sviði mannréttindaverndar, verði að telja sjónarmiðin um útbreiðslu ummæla, sem lögfest séu í hegningarlögum, hafa vikið að verulegu leyti og að mun meira þurfi að koma til en áður útbreiðsla ummæla.

Stefndi kveður, að í allri umfjöllun um málið hafi þess verið gætt, að það kæmi skýrt fram, að stefnandi hefði neitað sök og að um ætluð brot væri að ræða gegn systrunum. Ásakanir systranna hafi aldrei verið settar fram líkt og um staðreyndir væri að ræða heldur óstaðfestar ásakanir af þeirra hálfu. Stefnanda hafi ávallt verið veitt færi á að svara fyrir þær, auk þess sem fjallað hafi verið um viðbrögð hans við ásökununum, þrátt fyrir að hann hafi ekki fengist til að tjá sig beint við réttargæslustefnda.

Um dómkröfu stefnanda í a-lið:

Stefndi byggir á því að um sé að ræða beina tilvitnun í ummæli Ingibjargar Ólafsdóttur í umfjölluninni. Hún hafi orðrétt sagt: „Við höfum fengið eintómar stuðningsyfirlýsingar eftir að við birtum bréf okkar á netinu. Við gátum ekki setið þegjandi undir því að barnaníðingur byði sig fram til stjórnlagaþings. Foreldrar okkar hafa stutt við bakið á okkur. Að öðru leyti hefur fjölskyldan, systkinahópurinn og frændgarðurinn viljað þegja þetta í hel.“ Orðalagsbreytingin í fyrirsögninni sé til komin vegna þess, hvernig hún rúmist í vefumsjónarkerfi réttargæslustefnda og sé efnislega sú sama og fram komi hjá Ingibjörgu. Í fyrirsögninni sé ljóst að um beina tilvísun til ummæla systranna sé að ræða, þar sem tvípunktur sé settur framan við tilvísunina. Í umfjölluninni sé jafnframt tekið fram, að um sé að ræða beina tilvitnun í þær systur og enn fremur komi skýrt fram að um ætluð brot stefnanda gegn þeim væri að ræða. Þá hafi verið vísað til ummæla stefnanda þess efnis, að ekkert væri hæft í ásökununum og honum jafnframt gefið færi á að tjá sig frekar um málið.

Um dómkröfu stefnanda í b-lið:

Hér eigi við sama útskýring og á ummælum í a-lið og sé hér einnig um beina tilvitnun í ummæli systranna á þeirra eigin vefsíðu að ræða. Skýrt sé að um beina tilvitnun sé að ræða þar sem ummælin séu inndregin í umfjölluninni.

Um dómkröfu stefnanda í c-lið:

Stefndi kveður, að hér sé einnig um beina tilvitnun í ummæli Ingibjargar Ólafsdóttur að ræða og sé hún reiðubúin að staðfesta, að þau séu rétt eftir henni höfð.

Um dómkröfu stefnanda í d-lið:

Stefndi byggir á því, að fyrirsögninni hafi verið ætlað að ná megininntaki umfjöllunarinnar, sem fjallaði um viðbrögð systranna á vefsíðu þeirra við sjónvarpsviðtali við dóttur stefnanda, að því er varðar ásakanir þeirra á hendur honum. Með fyrirsögninni sé fyrst vísað til orða systranna á vefsíðu þeirra, þar sem orðrétt segi að „það [sé] ekkert annað en tilraun til þöggunar og algerlega óásættanleg hegðun, af fullorðnu fólki sem veit betur, að fara fram á að glæpir Ægis Geirdal séu sussaðir niður sem fjölskylduharmleikur.“ Síðari hluti fyrirsagnarinnar vísi til eftirfarandi ummæla systranna á vefsíðu þeirra: „Barnaníð er aldrei einkamál sem fjölskylda níðinga getur tekið að sér að leysa. Barnaníð er glæpur. Ef það má svo eingöngu fjalla um barnaníð sem opinberar manneskjur fremja þá erum við Ægi ákaflega þakklátar fyrir að hafa gert sjálfan sig að opinberri persónu.“ Ummælin sé að finna á vefsíðu systranna undir fyrirsögninni „Að gefnu tilefni,“ og sé um beinar tilvitnanir í systurnar að ræða líkt og áður.

Um dómkröfu stefnanda í e-lið:

Stefndi byggir á því, að um sé að ræða beina tilvitnun í framangreindan pistil systranna. Fyrirsögnin vísi ekki beint til stefnanda, heldur sé um almenna staðhæfingu systranna að ræða og varði barnaníð og geti því vart talist ærumeiðing gagnvart stefnanda. Hér sé um gildisdóm að ræða, sem systrunum hljóti að vera frjálst að setja fram og geti því ekki orðið andlag ómerkingarkröfu.

Um dómkröfu stefnanda í f-lið:

Stefndi heldur því fram, að markmið orðalags ummælanna hafi verið að varpa ljósi á kjarna umfjöllunarinnar og vísi hún ekki beint til stefnanda heldur almennt til barnaníðinga líkt og fyrirsögnin í ummælunum undir f-lið. Fyrri hluti fyrirsagnarinnar varði afhjúpun barnaníðinga og vísi til ummæla systranna í grein á vefsíðu þeirra undir heitinu „Pælingar um fyrirgefningu,“ þar sem segi orðrétt: „Talandi um girðingar í samskiptum þá kemur hér að þeim hluta þar sem við erum ákaflega ósammála Heiðu. Þeim þar sem hún talar um að hún sjái ekki tilganginn í að gefa uppi hverjir ofbeldismenn úr hennar barnæsku eru. Hún velji þá afstöðu af virðingu við þeirra nánustu og rökstyður það með því að segja að hún vilji ekki særa börn þeirra og fjölskyldur. Þetta eru skelfilega vond skilaboð til allra barna og fullorðinna sem búa við ofbeldi og líka til aðstandenda ofbeldismanna. Af hverju? Vegna þess að enn og aftur er athyglinni beint að þolendum og aðstandendum ofbeldismanna í stað þeirra sjálfra og virðing og líðan þessa fólks sett á ábyrgð þolenda. Gjörningurinn sjálfur er um leið kæfður í því rugli.“ Þá segi jafnframt hvað meðvirknina varði: „Við höfum allt of oft heyrt fólk nota þetta orð hreinlega til að fría sig ábyrgð á því að taka afstöðu og erfiðar ákvarðanir. Það finnst okkur ekki mjög fullorðins. það er nefnilega ákaflega þunn lína á milli fyrirgefningar og meðvirkni og hún þarf að vera okkur ljós þegar við notum orðið fyrirgefning.“ Hér sé því um beinar tilvísanir í ummæli systranna í grein þeirra að ræða, sem áður hafi verið birt á vefsíðu þeirra. Ljóst þyki af umfjöllun á vefmiðlinum pressunni.is, að vísað sé til gildisdóma systranna en ekki fullyrðinga þeirra um staðreyndir og geti ummælin því ekki orðið andlag ómerkingarkröfu.

Stefndi leggur enn fremur áherslu á, að þegar þessi ummæli hafi verið birt á pressunni.is 30. maí síðastliðinn, hafi verið búið að afnema ábyrgðarákvæði laga um prentrétt með gildistöku sérstakra laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, sem tóku gildi þann 20. apríl 2011. Hvað þessi tilteknu ummæli varðar, sé í stefnu tekið fram, að stefndi hafi lagt sig í framkróka við að tengja stefnanda við umfjöllunina, þar sem um almenna umfjöllun um barnaníð sé að ræða að öðru leyti. Stefndi telji það hins vegar eðlilegt, að minnst sé á stefnanda í umfjölluninni, þar sem ástæða þess, að systurnar svari fyrrnefndri grein á vefsíðu sinni, sé vegna baráttu þeirra sjálfra sökum ofbeldis, sem þær vilji meina að stefnandi hafi beitt þær.

Þá vekur stefndi athygli á því, að það sé rangt, sem fram komi í stefnu, að markmið stefnda hafi verið að lítillækka stefnanda og spilla mannorði hans þar sem hann hafi verið í framboði til stjórnlagaþings. Tilgangur stefnda með umfjölluninni hafi fyrst og fremst verið sá að flytja almenningi fréttir af nýstárlegri aðferð ætlaðra fórnarlamba kynferðisofbeldis til að afhjúpa gerendur. Í allri umfjöllun um ásakanir systranna í garð stefnanda hafi þess verið rækilega gætt, að það kæmi skýrt fram, að um ætluð brot gegn systrunum hafi verið að ræða. Þá eigi almenningur skýlausan rétt til ítarlegra upplýsinga um frambjóðendur í almennum kosningum. Sé með réttu hægt að efast um hæfi þeirra til að gegna viðkomandi embætti, sé það hlutverk fjölmiðla að greina almenningi frá því.

Þá bendir stefndi á, að í stefnu hafi skort alla lýsingu á því, hvernig hver ummælanna fyrir sig geti bakað stefnda refsiábyrgð eftir 234. gr., 235. gr. eða 236. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til framangreindra raka er krafist sýknu stefnda af refsikröfu stefnanda.

Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda fyrst og fremst á þeim grundvelli að, hann beri ekki ábyrgð að lögum á ummælunum og þar að auki sé ekki um ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda að ræða í málinu. Þar af leiðandi sé skilyrðum b-liðar 26. gr. skaðabótalaga ekki fullnægt í máli þessu.

Telji dómurinn hins vegar, að um ærumeiðandi ummæli sé að ræða, heldur stefndi því fram, að ekki komi til greina að dæma miskabætur, þar sem ummælin hafi einungis verið endurtekin á pressunni.is, en upphaflega hafi þau verið birt á vefsíðu systranna og verði þær því sjálfar að bera alfarið ábyrgð á ummælunum. Verði stefndi dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur, leiði þessar sömu ástæður til þess, að miskabótakrafa stefnanda verði stórlega lækkuð.

Verði stefndi fundinn sekur um ærumeiðandi aðdróttun, mótmælir stefndi fjárkröfu stefnanda vegna birtingar dóms, sem stefnandi byggi á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, sem of hárri. Fjárkrafa stefnanda nemi 200.000 krónum, þar sem því sé haldið fram, að slíkur kostnaður geti aldrei numið lægri fjárhæð, en engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings þeirri kröfu.

Stefndi mótmælir jafnframt vaxtakröfu stefnanda, bæði upphafsdegi vaxta og dráttarvaxtakröfu og krefst þess að dráttarvextir verði í fyrsta lagi ákveðnir frá dómsuppsögu.

Um lagarök fyrir kröfum sínum byggir stefndi á 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. lög nr. 33/1944, og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað styðst svo við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV

Ummælin, sem mál þetta varðar, voru birt á vefmiðlinum pressunni.is 7. nóvember 2010, 23. febrúar 2011 og 30. maí sama ár. Í málatilbúnaði stefnanda er á því byggt, að stefndi beri ábyrgð sem ritstjóri vefmiðilsins samkvæmt lögum nr. 57/1956 um prentrétt. Þau lög féllu úr gildi 20. apríl 2011, þegar lög nr. 38/2011 um fjölmiðla tóku gildi. Ummæli, sem birtust 30. maí 2011 og krafa stefnanda í f-lið kröfugerðar hans tekur til, voru því birt eftir að síðarnefndu lögin höfðu öðlast gildi.

Í 2. ml. a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011 segir, að sé ritefni réttilega haft eftir nafngreindum einstaklingi beri sá, sem það er haft eftir, ábyrgð á eigin ummælum, hafi hann samþykkt miðlun þeirra. Fyrir dómi báru systurnar Ingibjörg og Sigurlín Ólafsdætur, að efnislega væri rétt eftir þeim haft í öllum tilvikum, sem kröfur stefnanda taka til. Þær staðfestu einnig, að þær hafi veitt samþykki sitt fyrir því að greinarnar yrðu birtar á pressunni.is. Samkvæmt því er ljóst, að stefndi ber ekki ábyrgð á ummælum í f-lið kröfugerðar stefnanda. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á sýknukröfu stefnda, sem reist er á aðildarskorti, að því er varðar þennan lið kröfugerðar stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Lög nr. 57/1956 voru enn í gildi, þegar önnur ummæli en þau, sem greinir í f-lið dómkrafna stefnanda, birtust. Efni, sem eingöngu birtist á netinu, fellur hins vegar utan gildissviðs laganna og þar með ábyrgðarreglu 15. gr. laganna, sbr. hins vegar gildandi ákvæði 51. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

Almennt hefur sú meginregla verið talin gilda, að höfundur beri ábyrgð á ummælum sínum á grundvelli almennra reglna, einkum sakarreglunnar. Í máli þessu er hins vegar um að ræða efni, sem birt var á pressunni.is, án þess, að höfundur efnisins væri tilgreindur. Þrátt fyrir gildandi 2. ml. 51. gr. gildandi laga um fjölmiðla, þá var um ólögákveðið tilvik að ræða fyrir gildistöku þeirra. Getur því ábyrgðarregla 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 komið til álita. Hins vegar verður að líta til þess, að ákvæði 3. mgr. 15. gr. laganna er undantekning frá meginreglum laga um sök, sem grundvöll ábyrgðar, og ber almennt að gæta varúðar að byggja refsiheimild á lögjöfnun, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því ekki fallist á, að ábyrgð stefnda byggist á 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Hins vegar hvílir á ritstjórum vefrita, þar sem birtar eru nafnlausar greinar, eftirlitsskylda og ber ritstjórn að haga málum svo, að forðast skuli, að efni á vefmiðli valdi öðrum miska eða raski friðhelgi einkalífs þess. Slík eftirlitsskylda hvílir á stefnda í máli þessu og er málinu því réttilega beint að honum. Er sýknukröfu stefnda, sem reist er á aðildarskorti vegna a-e- liðar í kröfugerð stefnanda, því hafnað.

Umrædd ummæli á pressunni.is 7. nóvember 2010 birtust eftir að stefnandi hafði ásamt um 500 öðrum lýst yfir framboði sínu til svonefnds stjórnlagaþings. Um var að ræða sérstaka samkomu 25 kjörinna fulltrúa, sem sett var á fót með sérstökum lögum frá Alþingi og skyldi gera tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir þjóðina. Kosið skyldi til þingsins í almennum kosningum, þar sem sömu reglur giltu um kjörgengi og kosningarétt og eiga við um kosningar til Alþingis. Óumdeilt er í málinu, að ástæða þess, að áðurnefndar systur birtu bréf sitt frá árinu 2008 á netinu 2. nóvember 2010, var framboð stefnanda. Eins og málið liggur fyrir, verður að miða við, að fyrir þeim hafi vakað að breiða ásakanir sínar á hendur honum út enn frekar. Er þar um að ræða staðhæfingar um refsiverða háttsemi og gildir einu þótt systurnar hafi tekið fram, að brot hans væru fyrnd. Með skrifum pressunnar.is 7. nóvember 2010 fengu þessar ásakanir enn frekari útbreiðslu. Áður hefur verið getið upphaflegra viðbragða stefnanda í öðrum miðli þess efnis, að systurnar væru að reyna að hafa af honum fé, en því hefur ekki verið hreyft í málatilbúnaði stefnanda fyrir dómi. Stefnandi heldur því fram, að systurnar hafi mikið á móti sér og að eina ástæðan fyrir birtingu bréfs þeirra hafi verið sú að spilla fyrir framboði hans til stjórnlagaþings. Af hálfu stefnda hafi verið bornar á hann alvarlegar aðdróttanir um refsiverða háttsemi án sýnilegra sönnunargagna, sem teljist til ærumeiðinga.

Stefndi ber fyrir sig, að af hans hálfu hafi ekki verið gert annað en að greina frá staðhæfingum, sem þegar væru komnar fram, um ætluð lögbrot frambjóðanda í almennum kosningum án þess að gera þær að sínum. Ekki væri um annað að ræða en endurtekningu á því, sem segði á vefsíðu systranna, en á því verði þær sjálfar að bera ábyrgð. Almenningur eigi skýlausan rétt á ítarlegum upplýsingum um frambjóðendur í almennum kosningum, en þeir falli undir það, sem stundum sé nefnt almannapersónur. Sé með réttu hægt að efast um hæfi þeirra til að gegna viðkomandi starfi, sé það hlutverk fjölmiðla að greina almenningi frá því. Þá hafi stefndi leitast við að nálgast viðfangsefnið með gagnrýnum huga, meðal annars með því að óska eftir viðhorfum stefnanda.

Við úrlausn um kröfur stefnanda vegna umfjöllunar 7. nóvember 2010 verður að líta til þess að frambjóðandi í almennum kosningum getur staðið berskjaldaður frammi fyrir ásökunum keppinauta eða óvildarmanna um að hafa framið refsiverð brot, hvort heldur kynferðisbrot eða önnur alvarleg afbrot. Ekki verður fram hjá því horft að með slíku er hægt að skaða mannorð hans og æru og um leið framboð, en ætluð lögbrot stefnanda hafa ekki verið sönnuð og eru engin brot skráð á sakavottorði hans, sem er meðal gagna málsins. Stefndi neitar hins vegar að hafa borið sakir á hann, heldur kveður frásögn á pressunni.is hafa falið í sér endursögn eða frétt af umfjöllun annarra.

Þegar ummæli í a-c- lið dómkrafna stefnanda eru borin saman við skrif systranna á heimasíðu þeirra 2. nóvember 2010, verður að fallast á með stefnda, að bæði fyrirsögnin í a-lið og ummæli í b- og c-lið dómkrafna séu orðrétt endursögn úr bréfi þeirra. Hvað fyrirsögnina varðar er notuð 1. persóna í upphafi, sem vísar enn frekar til þess, að tekin eru upp eigin orð systranna án þess að tekið sé undir réttmæti þeirra með beinum hætti. Ekki verður heldur litið fram hjá því, að ásakanir systranna voru ekki að koma fram í fyrsta sinn, í tilefni framboðs stefnanda, heldur hafði þeim verið haldið fram í a.m.k. nokkur ár og voru mörgum kunnar, þar á meðal lögreglu. Stefndi var því ekki að grípa á lofti ásakanir, sem í fyrsta sinn væri beint gegn frambjóðanda, heldur að dreifa enn frekar löngu fram komnum staðhæfingum um lögbrot. Þá verður ekki heldur horft fram hjá þeim rökum stefnda, að almenningur eigi rétt á upplýsingum um frambjóðendur í almennum kosningum. Með því að kynna sig sjálfir á opinberum vettvangi í því skyni að öðlast traust kjósenda og fá þá til að greiða sér atkvæði, verða menn með vissum hætti opinberar persónur og geta ekki vænst þess að öll umfjöllun annarra um þá verði jafn jákvæð og þeirra eigin. Deilumál, útkljáð eða óútkljáð, um háttsemi þeirra fyrr á ævinni eru atriði, sem þannig má búast við að séu dregin fram í kosningabaráttu. Með þátttöku í keppni um hylli kjósenda gangast menn undir að geta verið óvægilega gagnrýndir og verða að þola slíkt að vissu marki, þótt þau mörk geti ráðist af hverju tilviki um sig. Stefndi gerði ásakanir systranna ekki að sínum, heldur dreifði þeim enn frekar en orðið var. Verður hann því ekki dreginn til ábyrgðar fyrir ummælin, sem eru beint höfð eftir systrunum sjálfum og þær hafa staðfest fyrir dómi, að séu frá þeim komin. Þá verður ekki fallist á með stefnanda, að stefndi hafi með umfjöllun sinni 7. nóvember 2010 farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessu virtu verður stefndi sýknaður af því, að bera ábyrgð á ummælum í a-c- lið í kröfugerð stefnanda.

Þau ummæli, sem greinir í d- og e-lið dómkrafna stefnanda, birtust 23. febrúar 2011, en kosningar til stjórnlagaþings voru þá afstaðnar. Dóttir stefnanda hafði þá vikið að skrifum systranna um föður hennar í sjónvarpsviðtali og meðal annars lýst því yfir, að hann væri ekki opinber persóna og að ásakanir um barnaníð ættu ekki heima í fjölmiðlum. Við þessari gagnrýni brugðust systurnar á vefsíðu sinni og eftir það pressan.is, sem greindi frá viðbrögðunum. Á þessum tíma var stefnandi ekki lengur þátttakandi í kosningabaráttu og röksemdir stefnda um, að hann hafi verið almannapersóna geta því ekki haft sama vægi og áður. Ummæli dóttur stefnanda verða hins vegar ekki skilin á annan veg en þann, að stefnandi hafi ekki verið almannapersóna fyrir kosningar, þegar umfjöllun um hann fór fram á netinu í byrjun nóvember 2010. Frumkvæði að því að hefja að nýju umræðu um mál stefnanda var ekki komið frá systrunum í það sinn, heldur fólu skrif þeirra í sér andsvör. Ummæli í fyrirsögn á pressunni.is, sem getið er í d-lið kröfugerðar stefnanda, eru tekin upp úr svari systranna, en eru að hluta til umorðun á því, sem þar sagði. Það sem svo greinir í e-lið kröfugerðar stefnanda er að finna í miðri endursögn pressunnar.is, en hún er að miklu leyti orðrétt höfð eftir. Þessi tilteknu ummæli mætti þó allt eins skilja sem staðhæfingu miðilsins sjálfs eins og efnislega endursögn úr heimildargreininni. Jafnvel þótt með þessu hafi verið vikið frá beinni endursögn, er ályktunin almenns eðlis og vísar til barnaníðinga almennt. Þá hafa systurnar sjálfar borið fyrir dómi, að þær telji, að þarna sé rétt eftir þeim haft. Er það því niðurstaða dómsins, að með þeim ummælum, sem greinir í d- og e-lið kröfugerðar stefnanda, hafi ekki verið farið út fyrir mörk þess tjáningarfrelsis, sem varið er í 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Að öllu þessu virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda um að bera ábyrgð á ummælum í a-f- liðum dómkrafna stefnanda. Þykir því ekki ástæða í þessu máli að dæma ummælin dauð og ómerk eða dæma stefnda til að greiða stefnanda kostnað við birtingu dómsins.

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að dæma stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 180.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Arnar Kormákur Friðriksson, hdl., en af hálfu stefnda Atli Björn Þorbjörnsson, hdl.

Dóm þennan kveður upp Hrannar Már S. Hafberg, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Steingrímur Sævarr Ólafsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Ægis Geirdal Gíslasonar, í máli þessu

Stefnandi, Ægir Geirdal Gíslason, greiði stefnda 180.000 krónur í málskostnað.