Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 11. mars 2013. |
|
Nr. 154/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. c. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hennar, en þó eigi lengur en til föstudagsins 5. apríl 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að héraðsdómur úrskurði að X verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hennar, þó eigi lengur en til föstudagsins 5. apríl nk. kl. 16.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 13. janúar sl. nr. R-21/2013 sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti (mál nr. 28/2013) hafi ákærðu verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til föstudagsins 8. febrúar. Þann dag hafi ákærða svo verið úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli sama lagaákvæðis til dagsins í dag, og hafi sá úrskurður einnig staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 100/2013.
Lögreglan hafi unnið að rannsóknum mála þar sem ákærða sé grunuð um hegningar- og umferðarlagabrot. Sé nú rannsókn flestra þeirra lokið og hafi ákæra verið gefin út af lögreglustjóra á hendur ákærðu þann 5. febrúar sl. vegna auðgunar- og umferðarlagabrota auk þess sem embætti Ríkissaksóknara hafi gefið út ákæru á hendur ákærðu vegna brots á 106. gr. almennra hegningarlaga (mál nr. 007-2013-[...]). Hafi ákærurnar verið sameinaðar og muni aðalmeðferð í málinu fara fram þann 14. mars nk.
Að auki hafi lögregla til rannsóknar átta önnur mál til rannsóknar og meðferðar séu þar sem ákærðu sé gefið að sök auðgunarbrot, umferðarlagabrot og líkamsárás.
Ákærða hafi hlotið fjóra refsidóma. Þann 2. september 2010 hafi hún í Héraðsdómi Suðurlands verið dæmd til greiðslu sektar vegna tilraunar til þjófnaðar. Þann 7. sama mánaðar hafi hún í Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmd í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, vegna þjófnaðarbrota, umferðarlagabrota, fíkniefnalagabrota og brota á lögum um fullnustu refsinga. Þann 20. maí 2011 hafi ákærða verið dæmd í Héraðsdómi Suðurlands til greiðslu sektar vegna brots á lögum um fullnustu refsinga og lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 7. desember 2011 hafi hún svo í héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmd í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, vegna þjófnaðarbrota.
Við rannsókn mála ákærðu hjá lögreglu hafi komið í ljós að hún sé í mikilli neyslu fíkniefna, án atvinnu og hafi ekki fasta búsetu.
Með vísan til framangreinds og brotaferils ákærðu á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að ákærða hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við, að hún muni næst hljóta óskilorðsbundinn dóm, og að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærða muni halda áfram brotastarfsemi fari hún frjáls ferða sinna. Um lagarök er vísað til c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008.
Niðurstaða:
Eins og að framan er rakið hefur ákærða setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 13. janúar sl.
Samkvæmt gögnum málsins er ákærða undir rökstuddum grun um að hafa gerst sek um fjölmörg hegningarlagabrot og umferðarlagabrot. Gögn málsins bera með sér að ákærða á að baki nokkuð langan sakaferil og hefur fjórum sinnum hlotið fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot frá því í september 2010. Hinn 5. febrúar sl. var gefin út ákæra á hendur ákærðu fyrir sex þjófnaðarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot. Í ákæru er fyrsta brotið sagt hafa verið framið í ágúst 2012 en önnur brot í nóvember og desember sama ár. Hefur aðalmeðferð verið ákveðin 14. mars nk. Þá eru til rannsóknar hjá lögreglu nokkur mál til viðbótar þar sem ákærða er undir rökstuddum grun um þjófnaðarbrot, líkamsárás og umferðarlagabrot á tímabilinu frá september 2012 til janúar 2013. Að auki er til þess að líta að ákærða var 7. desember 2011 dæmd til átta mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnaðarbrot.
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að ákærða hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við og að ætla megi að enn sé hætta á að ákærða muni halda áfram brotastarfsemi, fari hún frjáls ferða sinna. Því er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákærða X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hennar, þó eigi lengur en til föstudagsins 5. apríl nk. kl. 16.