Hæstiréttur íslands

Mál nr. 472/2007


Lykilorð

  • Laun
  • Gagnkrafa
  • Skuldajöfnuður
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. maí 2008.

Nr. 472/2007.

Veraldarvinir, áhugamannafélag og

Þórarinn Ívarsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Oscari Mauricio Uscategui

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

 

Laun. Gagnkrafa. Skuldajöfnuður. Skaðabætur. Gjafsókn.

O starfaði á vegum áhugamannafélagsins V á árunum 2004-2005. Hélt hann því fram að hann hefði verið launamaður hjá V og ætti inni ógreidd laun. Hann krafði V um greiðslu launanna og Þ, fyrirsvarsmann V, um skaðabætur þar sem hann hefði valdið sér tjóni með því að hafa vísvitandi og með blekkingum fengið hann til að vinna fyrir V án þess að hafa ætlað að greiða honum umsamin laun. V hélt því fram að O hefði starfað sem sjálfboðaliði fyrir áhugamannafélagið og ætti því ekki tilkall til launa fyrir vinnu sína. Talið var að O hafi verið ráðinn starfsmaður V og ætti rétt á umsömdum launum. Var V því dæmt til greiðslu kröfunnar. Hins vegar var ekki talið sannað að Þ hafi vísvitandi beitt O blekkingum þegar hann réð hann til starfa og var hann því sýknaður af kröfum O.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hjördís Hákonardóttir, Páll Hreinsson og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. september 2007. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnda, en að því frágengnu að þeir verði dæmdir til að greiða lægri fjárhæð. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Krafa áfrýjenda um frávísun er reist á því að kröfugerð stefnda, eins og hún er fram sett í héraðsdómsstefnu, sé ekki dómhæf. Áfrýjendur höfðu þessa kröfu ekki uppi í héraði og kemur hún ekki til álita að öðru leyti en því sem það fellur undir Hæstarétt að kanna kröfugerðina af sjálfsdáðum. Héraðsdómari tók sjálfstætt til athugunar hvort málatilbúnaður stefnda uppfyllti skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er staðfest niðurstaða hans um að ekki séu efni til að vísa málinu frá dómi af þeirri ástæðu.

Deila málsins lýtur einkum að því hvort stefndi hafi verið launaður starfsmaður áfrýjanda, Veraldarvina, áhugamannafélags, frá miðjum febrúar 2004 til 24. október 2005 eða hvort hann hafi verið sjálfboðaliði og eigi af þeim sökum ekki tilkall til launa fyrir vinnu sína. Í málinu liggur fyrir skrifleg yfirlýsing áfrýjanda, Veraldarvina, áhugamannafélags, 29. september 2005 þar sem fram kemur að stefndi gegni starfi hjá félaginu og fái 250.000 krónur í mánaðarlaun. Yfirlýsingin er undirrituð af áfrýjanda, Þórarni Ívarssyni, stjórnarformanni félagsins og hefur hann borið fyrir dómi að hún hafi ekki verið gefin til málamynda. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að stefndi hafi verið launaður starfsmaður áfrýjanda, Veraldarvina, áhugamannafélags.

Þá hafa áfrýjendur borið því við að stefndi hafi aðeins átt að fá 250.000 krónur í dagpeninga og húsaleigu þann tíma sem hann var á Íslandi í sjálfboðavinnu á vegum áfrýjanda Veraldarvina, áhugamannafélags, á árinu 2005. Hann hafi því verið á eigin vegum þegar hann sótti erlendar ráðstefnur. Stefndi hefur mótmælt þessu og bent á að hann hafi sótt þessar ráðstefnur í nafni og á vegum félagsins og hefur fært fram gögn því til stuðnings. Þá eru í gögnum málsins bréfaskipti á milli áfrýjanda Þórarins og stefnda þar sem sá fyrrnefndi óskar eftir því að fá upplýsingar sem fram komu á nánar tilgreindum ráðstefnum. Í 3. gr. samþykkta áhugamannafélagins Veraldarvina 1. maí 2001 segir að tilgangur félagsins sé að stuðla að betri samskiptum ungs fólks um allan heim, vekja athygli á ráðstefnum sem bjóðast ungu fólki og miðla upplýsingum um æskulýðsstarf almennt. Samkvæmt 4. gr. samþykktanna hyggst félagið meðal annars ná tilgangi sínum með því að halda ráðstefnur á Íslandi og erlendis. Af framansögðu virtu er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að áfrýjanda, Veraldavinum, áhugamannafélagi, hafi ekki tekist sönnun um að stefndi hafi ekki verið í vinnu á þess vegum er hann sótti ráðstefnur á tímabilinu frá miðjum febrúar 2004 til 24. október 2005.

Áfrýjendur hafa uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar að fjárhæð 19.175 evrur sem þeir segja stefnda hafa haft með sér þegar hann fór til Kólumbíu í byrjun ágústs 2005 og 110.195 krónur er nemi andvirði tölvu sem stefndi hafi haft afnot af en hafi nú skilað. Af hálfu stefnda er því haldið fram að peningarnir hafi verið notaðir til verkefna í þágu áfrýjanda Veraldarvina, áhugamannafélags, í Kólumbíu en unnið hafi verið að því að koma þar upp svipaðri starfsemi og rekin sé á Íslandi. Þessu er mótmælt af hálfu áfrýjenda. Af bréfi lögmanns áfrýjenda 11. júlí 2006 til stefnda verður á hinn bóginn ráðið að óumdeilt hafi verið að stefnda hafi verið heimilt að taka með sér 10.000 evrur í þessa ferð til að greiða fyrir uppihald hans. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups má eigi greiða kaup með skuldajöfnuði nema um það hafi áður verið sérstaklega samið. Ósannað er að hér hafi verið um kaupagreiðslu að ræða og engin gögn liggja fyrir um að skuldajafna hafi mátt fjárhæðinni við launakröfu stefnda. Verður ekki talið að krafa áfrýjenda að fjárhæð 19.175 evrur hafi slík tengsl við launakröfu stefnda að helgað geti skuldajöfnun þrátt fyrir fyrrgreint ákvæði. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna umræddum gagnkröfum áfrýjenda.

Loks byggja áfrýjendur á því að ekki beri að leggja kjarasamning Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins til grundvallar lögskiptum aðila varðandi orlofsuppbót og desemberuppbót. Þá er upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnda mótmælt. Þessar málsástæður voru fyrst hafðar uppi fyrir Hæstarétti og mótmælti stefndi þeim sem of seint fram komnum. Er á það fallist og koma þær því ekki til álita, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

 Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um að áfrýjandi, Veraldarvinir, áhuga­manna­félag, verði dæmt til að greiða stefnda vangoldin laun eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Krafa stefnda á hendur áfrýjanda, Þórarni Ívarssyni, er reist á því að hann hafi valdið stefnda bótaskyldu tjóni með því að hafa vísvitandi og með blekkingum fengið hann til að vinna fyrir Veraldarvini, áhugamannafélag, án þess að hafa ætlað að greiða honum umsamin laun.

Í gögnum málsins er meðal annars að finna bréfaskipti á milli stefnda og Þórarins 2. febrúar 2005 þar sem fram kemur að ætlunin hafi verið að greiða stefnda laun fyrir vinnu hans þegar búið væri að gera upp bókhaldið fyrir síðasta ár. Í tölvupósti milli sömu aðila 28. febrúar 2006 kemur fram að Þórarinn taldi sig hafa greitt inn á kröfu stefnda með tilteknum hætti. Þegar sönnunargögn máls þessa eru metin í heild verður stefndi ekki talinn hafa fært sönnur á að Þórarinn hafi beitt hann vísvitandi blekkingum til að vinna fyrir Veraldarvini, áhugamannafélag, þannig að það varði hann bótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar. Verður hann því sýknaður af kröfu stefnda.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 128. gr. og 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi, Veraldarvinir, áhugamannafélag, dæmt til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð, eins og í dómsorði greinir. Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um málskostnað á milli þessara aðila.

Rétt þykir að láta málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti niður falla milli stefnda og áfrýjanda Þórarins með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar kröfu stefnda, Oscars Mauricio Uscategui, á hendur áfrýjanda, Veraldarvinum, áhugamannafélagi. Ákvæði héraðsdóms milli þeirra um málskostnað skal einnig vera óraskað.

Áfrýjandi, Þórarinn Ívarsson, skal vera sýkn af kröfum stefnda í máli þessu.

Áfrýjandi, Veraldarvinir, áhugamannafélag, greiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti er renni í ríkissjóð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti á milli stefnda og áfrýjanda, Þórarins Ívarssonar, fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, Oscars Mauricio Uscategui, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans 926.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 22. júní 2007.

I

Mál þetta var höfðað 4. janúar 2007 og dómtekið 15. júní 2007. Stefnandi er Oscar Mauricio Uscategui, Grettisgötu 32, Reykjavík, en stefndu eru Veraldarvinir, áhugamannafélag, Hafnarstræti 20, Reykjavík og Þórarinn Ívarsson, Ingólfsstræti 8, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum gert að greiða honum 6.027.218 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 145.975 krónum frá 28.02.2004 til 31.03.2004, en þá af 437.926 krónum frá þeim degi til 30.04.2004, en þá af 729.876 krónum frá þeim degi til 31.05.2006, en þá af 1.021.827 krónum frá þeim degi til 30.06.2006, en þá af 1.313.777 krónum frá þeim degi til 31.07.2004, en þá af 1.605.728 krónum frá þeim degi til 15.08.2004, en þá af 1.608.892 krónum frá þeim degi til 31.08.2004, en þá af 1.900.894 krónum frá þeim degi til 31.09.2004, en þá af 2.192.793 krónum frá þeim degi til 31.10.2004, en þá af 2.484.743 krónum frá þeim degi til 30.11.2004, en þá af 2.776.694 krónum frá þeim degi til 15.12.2004, en þá af 2.815.006 krónum frá þeim degi til 31.12.2004, en þá af 3.106.956 krónum frá þeim degi til 31.01.2005, en þá af 3.398.907 krónum frá þeim degi til 28.02.2005, en þá af 3.690.857 krónum frá þeim degi til 31.03.2005, en þá af 3.982.808 krónum frá þeim degi til 30.04.2005, en þá af 4.274.758 krónum frá þeim degi til 31.05.2005, en þá af 4.566.709 krónum frá þeim degi til 30.06.2005, en þá af 4.858.659 krónum frá þeim degi til 31.07.2005, en þá af 5.166.510 krónum frá þeim degi til 15.08.2005, en þá af 5.166.510 frá þeim degi til 31.08.2005, en þá af 5.458.460 krónum frá þeim degi til 31.09.2005, en þá af 5.750.411 krónum frá þeim degi til 24.10.2005, en af 6.027.218 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndu gera þær dómkröfur aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast þeir þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að máls­kostnaður verði felldur niður.

II

Eins og fram kemur í gögnum málsins er stefndi, Veraldarvinir, frjáls félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða, en samtökin voru stofnuð í júní 2001. Framkvæmdastjóri samtakanna er stefndi Þórarinn. Kemur fram hjá stefndu að markmið samtakanna sé að stuðla að vináttu manna, heilbrigðum lífsháttum og bættri umgengni manna við umhverfið. Þessum markmiðum nái samtökin meðal annars með alþjóðlegu samstarfi, sjálfboðaliðastarfi einstaklinga og með skipulagningu á umhverfisverkefnum í samvinnu við sveitarfélög og frjáls félagasamtök á Íslandi. Kveða stefndu að verkefni samtakanna hér á landi hafi í gegnum tíðina meðal annars verið þau að hreinsa strandlengjur landsins, planta niður trjám og stunda uppgræðslu lands. Til að sinna þessum verkefnum myndi samtökin hópa sem samanstandi af einstaklingum víðs vegar að úr heiminum sem komi gagngert til Íslands til þess að liðsinna samtökunum með þessi verkefni.

Þá kveða stefndu að einstaklingar sem starfi eða hafi starfað að verkefnum hinna stefndu samtaka eigi það allir sameiginlegt að hafa komið að samtökunum sem sjálfboðaliðar og þeim sé hægt að skipta niður í fjóra hópa:

1.    Einstaklingar sem fái styrki frá svokallaðri Leonardo da Vinci áætlun Evrópusambandsins og renni styrkirnir til framfærslu einstaklinganna sjálfra.

2.    Einstaklingar sem fái styrki frá svokallaðri Youth áætlun Evrópusambandsins. Þeir styrkir renni til hinna stefndu samtaka sem síðan sjái um framfærslu einstaklinganna.

3.    Einstaklingar sem fái styrki frá hinum stefndu samtökum til framfærslu sinnar.

4.    Einstaklingar sem greiði ákveðna fjárhæð til hinna stefndu samtaka auk þess að sjá sjálfir um eigin framfærslu.

Aðilum málsins ber ekki alls kostar saman um málavexti en óumdeilt er að á árinu 2003 vann stefnandi sem sjálfboðaliði hjá hinum stefndu samtökum. Kveðst stefnandi hafa fengið greidda vasapeninga sem hafi numið um 210 evrum fyrir þann starfa auk þess sem samtökin hafi lagt honum til fæði og húsnæði að hluta. Mun stefnandi hafa starfað sem sjálfboðaliði hjá stefnda, Veraldarvinum, í nokkra mánuði frá því um vorið 2003 fram í september sama ár er hann fór til heimalands síns, Kólumbíu, vegna andláts föður síns.

Stefnandi kom aftur til Íslands í byrjun árs 2004. Hóf hann störf hjá stefnda, Veraldarvinum, hinn 15. febrúar 2004. Kveðst stefnandi hafa ráðið sig sem starfsmann á launum en stefndu halda því fram að stefnandi hafi ákveðið að ganga til liðs við samtökin sem sjálfboðaliði eins og hann hefði gert árið áður. Stefnandi starfaði fyrir samtökin til 24. október 2005 er hann lét af störfum þar sem hann taldi að stefndi Þórarinn, hefði vanefnt að verulegu leyti samninga sem tengdust starfi stefnanda hjá samtökunum.

Kveðst stefnandi hafa starfað á skrifstofu félagsins að Hafnarstræti í Reykjavík auk þess sem hann hafi starfað fyrir félagið á erlendum vettvangi og megi þar nefna að hann hafi verið fyrirsvarsmaður félagsins á alþjóðlegum fundum í Belgíu og Bretlandi. Þá hafi hann verið stjórnandi og skipuleggjandi vinnubúða í Costa Rica í júní 2004 fyrir félagið. Í nóvember og desember sama ár hafi hann verið fyrirsvarsmaður félagsins á ráðstefnu á fundi meðal annars í Armeníu, Noregi og Kenía og í febrúar 2005 á Spáni og Tyrklandi og í maí sama ár í Perú. Þá hafi stefnandi verið stjórnandi og skipuleggjandi vinnubúða í þágu stefnda ,Veraldarvina, í Kólumbíu í ágúst 2005.

Stefnandi kveður að umsamin laun fyrir vinnu í þágu stefnda, Veraldarvina, hafi verið 250.000 krónur á mánuði auk framlags í lífeyrissjóð og önnur lögbundin launatengd gjöld. Þá hafi stefnandi afhent stefnda, Þórarni, gögn til að hann gæti sótt um atvinnuleyfi fyrir stefnanda en þau gögn hafi stefndi Þórarinn aldrei sent. Þá kveður stefnandi að eftir að hann hóf störf hjá stefnda, Veraldarvinum, hafi þess verið farið á leit við hann að í stað þess að laun hans yrðu greidd mánaðarlega færu þau til kaupa á fasteignum sem notaðar skyldu tímabundið undir starfsemi samtakanna. Fengi hann þannig laun sín til baka síðar auk arðs af fjárfestingunni. Hafi stefnandi talið þennan fjárfestingarkost álitlegan og samþykkt að þessi háttur yrði hafður á í trausti þess að hann yrði að minnsta kosti betur settur en ef hann fengi laun sín greidd mánaðarlega.

Stefnandi kveðst hafa komist að því að stefndi, Þórarinn, hefði aldrei sent inn umsókn um atvinnuleyfi fyrir hann og þegar honum hafi verið orðið ljóst að stefndi, Þórarinn, vanefndi að verulegu leyti alla samninga sem tengdust starfi hans hafi hann hætt störfum hjá stefnanda. Í kjölfarið hafi hann óskað eftir uppgjöri á launum og hlutdeildar hans í hagnaði af fasteignum. Hann hafi hins vegar verið dreginn á svörum og að lokum hafi stefndu hafnað að hann ætti kröfu á hendur þeim á þeim forsendum að hann hafi unnið fyrir stefnda, Veraldarvina, í sjálfboðavinnu.

Stefndu halda því fram að ákveðið hafi verið að stefnandi sækti fund á vegum stefnda Veraldarvina á meginlandi Evrópu í mars 2004 og kæmi að því loknu til Íslands. Hafi stefnandi sinnt sömu verkefnum hjá hinum stefndu samtökum á árinu 2004 og hann hefði gert árið áður auk þess sem hann hefði séð um tiltekin verkefni á skrifstofu samtakanna. Hafi störf stefnanda verið unnin í sjálfboðavinnu. Á þessum tíma hafi sú hugmynd kviknað hjá stefnanda að svipuð samtök og hin stefndu samtök yrðu stofnuð í S-Ameríku og hafi stefnandi haft mikinn hug á að koma þeim á legg og hafi hann í því skyni farið til Costa Rica sumarið 2004 og hafi verið ætlunin að stefnandi myndi í framtíðinni stýra starfsemi þar og víðar í S-Ameríku beint og án afskipta stefnda, Veraldarvina. Kveða stefndu stefnanda hafa sinnt verkefnum fyrir hin stefndu samtök í samtals 210 daga á árinu 2004. Í janúar 2005 hafi stefnandi og stefndi, Þórarinn, tekið ákvörðun um áframhaldandi vinnu stefnanda hjá hinum stefndu samtökum og skyldu verkefni hans vera svipuð og árin áður auk þess sem stefnandi hafi tekið að sér innheimtu fyrir samtökin.

Þá kveða stefndu að stefnandi hafi á árinu 2005 átt að fá sérstakan framfærslustyrk sem jafngilt hafi 250.000 krónum fyrir þá mánuði sem hann væri að sinna verkefnum fyrir stefnda Veraldarvini. Hafi sú fjárhæð aðallega átt að vera fjármögnuð af þeirri innheimtu sem stefnandi hafi séð um fyrir samtökin. Hafi fjárhæðin verið reiknuð þannig út að stuðst hafi verið við fæðiskostnað innanlands, sem ákveðinn hafi verið af ríkisskattstjóra 5.600 krónur á dag á þeim tíma auk þess sem stefnandi hafi átt að fá tiltekna fjárhæð til að leigja herbergi sem og vasapening. Sundurliðunin hafi verið með eftirfarandi hætti:

Fæðispeningar          

30x5600 = 168.000

Leiga á herbergi        

32.000

Vasapeningar            

50.000

Samtals          

250.000

Kveða stefndu að fyrirvari hafi verið settur um að stefnandi fengi aðeins greitt fyrir verkefni á vegum hinna stefndu samtaka en ekki vegna verkefna á eigin vegum.

Stefndu kveða stefnanda hafa verið í Kólumbíu á eigin vegum dagana 8. maí til 16. júní og 5. ágúst 2005. Þegar hann hafi farið til Kólumbíu í ágúst 2005 hafi stefndi Þórarinn gefið honum loforð um að greiða honum 10.000 evrur upp í greiðslu framfærslustyrksins. Stefnandi hafi hins vegar tekið 19.175 evrur með sér sem geymdar hafi verið í peningaskáp á skrifstofu hinna stefndu samtaka án þess að hafa kvittað fyrir þessari töku eða látið stefnda, Þórarinn, vita, en þessa fjárhæð hafi hann innheimt fyrir hin stefndu samtök. Hafi stefnandi yfirgefið stefnda Veraldarvini í október 2005 eftir 166 daga verkefnavinnu það árið og hafi hann í heimildarleysi tekið með sér fartölvu í eigu stefnda, Veraldarvina.

Þáverandi lögmaður stefnanda sendi stefnda, Þórarni, bréf hinn 19. maí 2006 þar sem gerð var krafa um greiðslu launa og arðs af fasteignum. Með bréfi lögmanns stefndu 19. júní 2006 til lögmanns stefnanda var óskað eftir gögnum og voru send gögn með bréfi lögmanns stefnanda 28. júní 2006. Lögmaður stefndu óskaði eftir frekari gögnum með tölvupósti 29. júní 2006 en sama dag svaraði lögmaður stefnanda því að hann myndi ekki leggja fram frekari gögn að svo stöddu. Hinn 11. júlí 2006 sendi lögmaður stefndu bréf til lögmanns stefnanda þar sem kröfum stefnanda sem settar voru fram í bréfi 19. maí 2006 var alfarið hafnað ásamt því sem sjálfstæðar kröfur stefndu voru settar fram.

Eins og nú hefur verið rakið snýst meginágreiningur um það í málinu hvort stefnandi hafi starfað fyrir stefnda, Veraldarvini, frá 15. febrúar 2004 til 24. október 2005 sem launþegi eða sem sjálfboðaliði og hvort hluta af því tímabili hafi hann verið að sinna eigin verkefnum sem ekki hafi verið í þágu stefnda, Veraldarvina.

III

Stefnandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að hann eigi vangreidd laun hjá stefnda, Varaldarvinum, samkvæmt samningi hans við félagið um 250.000 krónur í mánaðarlaun fyrir störf í þágu félagsins. Til stuðnings þeirri kröfu vísist meðal annars til yfirlýsingar 29. september 2005 og annarra framlagðra gagna, þar með talin tölvupóstsamskipti stefnanda og stefnda, Þórarins. Krafa um orlof og 6% framlag í lífeyrissjóð taki mið af lögum nr. 30/1987 um orlof og kjarasamningi VR og SA. Þá sé krafist greiðslu orlofsuppbótar sem skyldi greidd eigi síðar en 15. ágúst ár hvert en tekið sé mið af kjarasamningi VR og SA. Krafa um orlofsuppbót sem skyldi greidd eigi síðar en 15. ágúst 2005 taki mið af starfi stefnanda í þágu stefnda, Veraldarvina, frá 15. febrúar 2004 til 1. maí 2004. Þá hafi stefnda, Veraldarvinum, borið að greiða stefnanda orlofsuppbót við starfslok hans hinn 24. október 2005 vegna starfa frá 1. maí 2005 til þess dags. Desemberuppbót skuli greidd hinn 15. desember ár hvert en í kröfugerð hafi verið tekið tillit til starfshlutfalls en stefnda, Veraldarvinum, hafi borið að greiða stefnanda desemberuppbót við starfslokin hinn 24. október 2005.

Krafa stefnanda sundurliðast þannig:

Tímabil

tegund

höfuðstóll

orlof(10,17%)

lífeyrisj. (6%)

samt. uppsafnað

15.02.04-28.02.04

laun

125.000 

12.713 

8.263 

145.975 

01.03.04-31.03.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

437.926 

01.04.04-30.04.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

729.876 

01.05.04-31.05.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

1.021.827 

01.06.04-30.06.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

1.313.777 

01.07.04-31.07.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

1.605.728 

15.08.04

orlofsuppbót

3.164 

 

 

1.608.892 

01.08.04-31.08.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

1.900.842 

01.09.04-31.09.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

2.192.793 

01.10.04-31.10.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

2.484.743 

01.11.04-30.11.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

2.776.694 

15.12.04

des.uppbót

38.312 

 

 

2.815.006 

01.12.04-31.12.04

laun

250.000 

25.425 

16.526 

3.106.956 

01.01.05-31.01.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

3.398.907 

01.02.05-28.02.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

3.690.857 

01.03.05-31.03.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

3.982.808 

01.04.05-30.04.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

4.274.758 

01.05.05-31.05.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

4.566.709 

01.06.05-30.06.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

4.858.659 

01.07.05-31.07.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

5.150.610 

15.08.05

orlofsuppbót

15.900 

 

 

5.166.510 

01.08.05-31.08.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

5.458.460 

01.09.05-31.09.05

laun

250.000 

25.425 

16.526 

5.750.411 

01.10.05-24.10.05

laun

199.999 

20.340 

13.220 

5.983.970 

24.10.05

orlofsuppbót

6.509 

 

 

5.990.479 

24.10.05

des.uppbót

36.739 

 

 

6.027.218 

Við sönnunarmat telur stefnandi að sérstaklega beri til þess að líta að stefndi, Veraldarvinir, hafi borið að gera skriflegan samning við stefnanda og beri félagið eðli málsins samkvæmt hallann af þeirri ákvörðun sinni að gera það ekki. Byggi krafa stefnanda á hendur stefnda, Veraldarvinum, á því að félagið hafi ekki efnt samning þennan.

Krafa stefnanda byggir auk þess á því að stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart honum. Á því sé byggt að stefndi, Þórarinn, fyrirsvarmaður stefnda, Veraldarvina, hafi valdið stefnanda bótaskyldu tjóni með því að hafa vísvitandi og með blekkingum fengið hann til að vinna fyrir félagið án þess að hafa ætlað að greiða honum umsamin laun. Liggi fyrir að stefndi, Þórarinn, hafi alls ekki ætlað að greiða stefnanda laun enda nú á því byggt af hálfu stefndu að stefnandi hafi verið í sjálfboðavinnu. Sé sú fullyrðing röng og fái auk þess enga stoð í gögnum málsins. Beri stefndu sönnunar­byrði um þá fullyrðingu að stefnandi hafi verið í sjálfboðavinnu enda megi ganga út frá þeirri meginreglu að menn fái greitt fyrir vinnuframlag sitt.

Sé á því byggt að með saknæmri háttsemi stefnda, Þórarins, fyrirsvarmanns stefnda, Veraldarvina, hafi hann valdið stefnanda bótaskyldu tjóni sem nemi umsömdum launum auk framlags til lífeyrissjóðs og öðrum lögbundnum launatengdum gjöldum. Byggi krafa stefnanda allt í senn á samningi og á reglum íslensks réttar um skaðabætur en stefndu beri óskipta ábyrgð á tjóni sem stefndi, Þórarinn, hafi valdið stefnanda á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð. Þá byggi krafa stefnanda á reglum um skaðabætur innan samnings vegna brota stefndu á fyrrgreindum ráðningarsamningi stefnanda.

Hafi verið samið við stefanda um að hann fengi auk launa, hagnað af fasteignum sem keyptar hafi verið undir starfsemi stefnda, Veraldarvina. Hafi verið um að ræða tvær íbúðir við Ingólfsstræti 8 í Reykjavík og hús við Einarsnes 56 í Reykjavík. Stefndu hafi hins vegar hafnað því alfarið að um hafi verið samið að stefnandi ætti þátt í kaupum á þeim fasteignum, hafi lagt til fjármuni eða hafi átt að fá hlut í hagnaði af þeim kaupum. Í ljósi þeirrar afstöðu stefndu hafi stefnanda borið að fá greidd laun sín mánaðarlega í samræmi við kjarasamning.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, laga nr. 30/1987 um orlof. Þá sé vísað í kjarasamning Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins. Þá vísist til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglunnar og reglna um vinnuveitendaábyrgð. Enn fremur sé byggt á reglum um bótaábyrgð innan samninga. Krafa um málskostnað sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti með því að innheimta ekki hina meintu launakröfu sína fyrr en raun beri vitni. Ótrúverðugt verði að teljast að stefnandi hafi starfað fyrir hin stefndu samtök í tæp tvö ár án þess að hafa gert kröfu um laun á því tímabili. Stefnandi hafi með þessu tómlæti sínu viðurkennt það að hafa starfað sem sjálfboðaliði fyrir hin stefndu samtök það tímabil sem hann nú krefjist launa fyrir. Í þessu sambandi mótmæli stefndu því sem ósönnuðu að stefnandi og stefndu hafi nokkurn tímann gert samkomulag sín á milli um að í stað þess að laun stefnanda skyldu greidd mánaðarlega færu þau til kaupa á fasteignum og að stefnandi ætti að fá laun sín til baka síðar auk arðs af fjárfestingunni.

Í öðru lagi kveðast stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki verið ráðinn sem launamaður hjá hinum stefndu samtökum heldur hafi stefnandi einungis starfað sem sjálfboðaliði, líkt og aðrir einstaklingar hjá samtökunum. Samkomulag stefndu og stefnanda þessa efnis megi rekja til ársins 2003 er stefnandi hafi sóst eftir því að starfa fyrir hin stefndu samtök. Hafi stefnandi ætlað að fjármagna dvöl sína hjá hinum stefndu samtökum með styrkjum frá Youth áætlun Evrópusambandsins en umsókn hans hafi verið synjað. Í ljósi þessa hafi hin stefnu samtök ákveðið að veita stefnanda styrk til uppihalds sem hafi gert stefnanda kleift að koma hingað til lands. Styrkurinn sem veittur hafi verið stefnanda hafi verið sambærilegur styrk Youth áætlunar­innar, þ.e. fæðiskostnaður, ferðakostnaður, vasapeningar og húsnæði.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi starfað sem sjálfboðaliði fyrir hin stefndu samtök árið 2003 enda hafi stefnandi fallið frá því að krefjast launa fyrir það ár líkt og hann hafi gert í kröfubréfi sínu til stefndu. Aðila greini hins vegar á um eðli starfsframlags stefnanda hluta áranna 2004 og 2005, en stefndu mótmæli þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi starfað sem launþegi á umdeildu tímabili. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn þess efnis að hann teldist ekki lengur sjálfboðaliði á vegum samtakanna eins og hann hafi gert árið 2003. Hafi starfsframlag hans verið að meginstefnu til sambærilegt starfi hans hjá samtökunum árið 2003 og að öllu leyti verið í samræmi við hefðbundið starfsframlag annarra sjálfboðaliða á vegum hinna stefndu samtaka. Á þeim tíma sem stefnandi hafi starfað á vegum hinna stefndu samtaka hafi hann ekki mátt ætla með réttu að hann fengi launagreiðslur, auk framfærslu frá hinum stefndu samtökum á sama tímabili, ólíkt öðrum sjálfboðaliðum. Að mati stefndu renni yfir­lýsing stefnda, Þórarins, frá 29. september 2005 ekki stoðum undir kröfu stefnanda.

Stefndu byggja sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að á hinu umdeilda tímabili hafi stefnandi ekki haft yfir atvinnuleyfi að ráða, líkt og nauðsynlegt sé til að geta talist launamaður á Íslandi, sbr. lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Í framlögðum gögnum komi fram að stefnandi hafði ekki enn aflað allra tilskilinna gagna vegna umrædds leyfis í upphafi árs 2005 þrátt fyrir að stefnandi vilji meina að hann hafi þegar á þeim tíma starfað sem launþegi á vegum hinna stefndu samtaka frá því í febrúar 2004. Þegar af þessari ástæðu eigi krafa stefnanda enga stoð samkvæmt íslenskum lögum

Stefnanda sé vel kunnugt að uppfylla þurfi tiltekin skilyrði þegar hafin sé búseta erlendis, eins og leyfi til búsetu og atvinnuþátttöku og að ákveðnir samningar þurfi að vera fyrirliggjandi enda hafði hann þegar búið um nokkurra ára skeið utan Kólumbíu. Hafi hann búið um tíma í Englandi þar sem hann hafi dvalið við nám og störf frá árinu 1999 fram til ársins 2000 og einnig í Þýskalandi þar sem hann hafi stundað nám frá 2001 og fram til ársins 2003 hið minnsta. Þá hafi stefnandi ekki verið með öllu ókunnugur rekstrarfyrirkomulagi samtaka sambærilegum hinum stefndu samtökum, þ.e. samtökum sem rekin séu án hagnaðarsjónarmiða og ekki fær sem slík um ráða launaða starfsmenn, þar sem stefnandi hafði áður en hann kom til starfa hjá hinum stefndu samtökum starfað í eitt ár sem sjálfboðaliði hjá sambærilegum samtökum í Þýskalandi, þ.e. alþjóðlegum samtökum að nafni International Cultural Youth Exchange. Þá hafi stefnandi stofnað samtökin See Beyond Borders, en starfsemi þeirra samtaka byggist meðal annars upp á langtíma sjálfboðavinnu.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu krefjast stefndu þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndu byggja lækkunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi geti aldrei gert kröfu til þess að fá hina meintu launkröfu sína greidda fyrir allt tímabilið frá febrúar 2004 fram til október 2005 þar sem hann hafi á árinu 2004 einungis verið að störfum í 211 daga fyrir hin stefndu samtök og einungis 166 daga árið 2005 eða samtals 377 daga.

Þá beri að lækka kröfur stefnanda á grundvelli skuldajafnaðar þar sem stefnandi hafi þegar fengið hluta hinnar meintu launakröfu greiddan eða samtals 19.175 evrur og 110.195 krónur. Um sé að ræða andvirði innheimtna stefnanda í evrum fyrir hinn stefndu samtök sumarið 2005 og tölvu sem hin stefndu samtök hafi keypt til afnota fyrir stefnanda og hann tekið ófrjálsri hendi þegar hann hætti störfum.

Þá mótmæli stefndu mótframlagi og viðbótarframlagi í lífeyrissjóði, orlofsuppbót sem og desemberuppbót, sem of háum.

Að lokum vekja stefndu athygli á því að verulegir annmarkar séu á stefnunni og málatilbúnaði stefnanda. Felist þeir annmarkar í því að málsatvik séu vanreifuð og málsástæður óljósar og órökstuddar.  Sé svo óskýr og ófullnægjandi málatilbúnaður stefnanda ekki í samræmi við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu geri þó ekki sjálfstæða kröfu um frávísun málsins.

Um lagarök vísi stefndu til meginreglna samningaréttarins og kröfuréttarins. Um atvinnuleyfi útlendinga á Íslandi sé vísað til laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga og laga nr. 96/2002 um útlendinga. Um kröfu til skuldajafnaðar vísist til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V

Stefndu vekja athygli á því að málatilbúnaður stefnanda sé haldinn annmörkum að því leyti að málsatvik séu vanreifuð og málsástæður óljósar og órökstuddar. Ekki verður fallist á það með stefndu að málatilbúnaður stefnanda fullnægi ekki ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað og eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi.

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda, Veraldarvinum, á því að samningur hafi komist á milli aðila um ráðningu stefnanda til samtakanna sem launaðs starfsmanns frá 15. febrúar 2004. Hafi verið samið um að hann fengi 250.000 krónur í laun á mánuði. Hann hafi samþykkt að laun hans yrðu nýtt til kaupa á fasteignum sem nýttar skyldu tímabundið fyrir starfsemi hinna stefndu samtaka þannig að hann fengi launin greidd síðar auk arðs af fjárfestingunum. Stefndu hafi hafnað því alfarið að stefnandi ætti rétt á arði af fasteignunum og sé því ljóst að stefnanda hafi borið að fá greidd laun sín mánaðarlega í samræmi við kjarasamning. Stefndu mótmæla því að stefnandi hafi verið ráðinn til samtakanna sem launaður starfsmaður heldur hafi hann ráðið sig sem sjálfboðaliði.

Ekki er deilt um að stefnandi vann fyrir stefnda, Veraldarvini, frá miðjum febrúar 2004 þar til hann lauk störfum 24. október 2005 en stefndu halda því fram að hluta af því tímabili hafi stefnandi ekki unnið í þágu samtakanna heldur í eigin þágu.

Í málinu liggur ekki fyrir skriflegur ráðningarsamningur en stefnandi byggir kröfur sínar meðal annars á tölvupóstsamskiptum milli stefnanda og stefnda, Þórarins. Í greinargerð mótmælti stefndi, Þórarinn, hluta framlagðra tölvupósta á þeim forsendum að hann dragi í efa uppruna þeirra. Má draga þá ályktun af þessu orðalagi að hann telji þá falsaða. Lögmaður stefnanda skoraði á stefndu að upplýsa hvaða tölvupósta væri hér átt við og í þinghaldi hinn 18. maí 2007 var bókað af hálfu stefndu að stefndi, Þórarinn, ætti ekki afrit af tölvupóstum á dómskjölum 4, 5, 6, 7, 77 og 78. Fyrir dómi bar stefndi, Þórarinn, að hann kannaðist hvorki við að hafa tekið á móti né sent umrædda tölvupósta. Ítrekað aðspurður af lögmanni stefnanda kvaðst hann kannast við fullt af efnislegum þáttum úr tölvupóstunum en kvaðst ekki finna þessa pósta og ekki kannast við þá í því formi sem þeir væru. Aðspurður hvort hann útilokaði að umrædd tölvupóstsamskipti hefðu farið fram kvað hann margt sem þar komi fram hljóma mjög einkennilega. Ekki fengust skýrari svör frá stefnda, Þórarni, hvað þetta varðar. Enda þótt stefndi, Þórarinn, hafi ekki átt afrit af umræddum tölvupóstum eða hafi ekki fundið þá hjá sér útilokar það ekki að þeir hafi verið sendir milli aðila. Er það mat dómsins að framburður stefnda, Þórarins, hvað þessa tölvupósta snertir hafi verið ótrúverðugur og á engan hátt nægilega afgerandi til að hægt sé að henda reiður á til hvaða efnislegu þátta hann var að vísa eða hvað það var í tölvupóstunum sem honum fannst hljóma einkennilega. Þykir stefndi, Þórarinn, ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum rökum að umrædd tölvupóstsamskipti hafi ekki átt sér stað eins og þau birtast í umræddum dómskjölum og verða stefndu að bera hallann af því.

Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá stefnda, Þórarni, 29. september 2005 á ensku sem einnig hefur verið lögð fram í málinu í íslenskri þýðingu og hafa ekki komið fram athugasemdir um að sú þýðing sé rétt. Þar lýsir stefndi, Þórarinn, því yfir fyrir hönd stefnda, Veraldarvina, að stefnandi hafi unnið eitt ár til reynslu og sé nú að vinna að ritgerð um stjórnun alþjóðlegra frjálsra félagasamtaka. Þá segir í yfirlýsingunni að stefnandi gegni stöðu verkefnisstjóra hjá samtökunum og fái 250.000 krónur í mánaðarlaun.  Þá hafi hann tekið fullan þátt í starfsemi félagsins með nokkrum mis­munandi verkefnum á Íslandi og í útlöndum. Stefndi, Þórarinn, bar fyrir dómi að hann hafi undirritað þessa yfirlýsingu að ósk stefnanda og þar sem talað sé um í yfirlýsingunni að stefnandi fái 250.000 krónur í laun sé átt við þann framfærslustyrk sem samið hafi verið við stefnanda að hann fengi.

Samkvæmt orðanna hljóðan framangreindrar yfirlýsingar er stefndi, Þórarinn, að lýsa því yfir að stefnandi starfi hjá samtökunum sem verkefnisstjóri og að launin séu 250.000 krónur á mánuði. Styður yfirlýsing þessi þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda, Veraldarvinum, á þessum launum. Þá fær sú fullyrðing stefnanda einnig stoð í hinum ýmsu tölvupóstsamskiptum sem liggja fyrir í málinu. Þannig segir stefndi, Þórarinn, í tölvupósti til stefnanda hinn 2. febrúar 2005 að honum hafi næstum tekist að klára reikningsárið 2004 en hann vanti ennþá tölur frá stefnanda til að geta rekið endahnútinn á það. Þegar því sé lokið muni þeir sjá hversu mikil laun þeir eigi von á að fá frá stefnda, Veraldarvinum, vegna ársins á undan og þá muni koma í ljós hvenær þau laun geti verið greidd að fullu. Þá segir stefndi, Þórarinn, í tölvupósti til stefnanda hinn 21. febrúar 2005 að hann hafi verið að hugsa um þá titla sem þeir tveir hafi verið að nota sem fyrirsvarsmenn stefnda, Veraldarvina, og hvort þeir ættu að breyta þeim. Þá kemur fram hjá stefnda, Þórarni, í þessum tölvupósti að taka þurfi ákvörðun um laun fyrir þá tvo, hann og stefnanda. Þá segir hann að nauðsynlegt sé að klára árið 2004 svo að þeir, stefnandi og stefndi, Þórarinn, geti séð hversu mikið stefndi, Veraldarvinir, geti greitt þeim tveimur vegna þess árs. Í tölvupósti stefnda, Þórarins, til stefnanda hinn 22. febrúar 2005 segir hann að þegar búið sé að loka árinu 2004 geti þeir skipt ágóðanum og vonandi geti stefndi, Veraldarvinir, greitt laun fljótlega. Þá kveður hann að laun upp á 250.000 krónur, eins og gert hafi verið ráð fyrir, séu ekki raunhæf en kannski muni vera hægt að standa við þá fjárhæð á árinu 2005. Þá kemur fram í tölvupósti stefnda, Þórarins, til stefnanda og fleiri aðila 17. nóvember 2005 að ákveðið hafi verið að halda fund eftir að hafa talað við sjálfboðaliðana og stefnanda. Þykja þessir tölvupóstar staðfesta að stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda, Veraldarvinum, sem starfsmaður á launum en ekki sem sjálfboðaliði. Þá fær það enn fremur stuðning í handbók hinna stefndu samtaka árið 2004 en þar segir um starfsfólk samtakanna að samtökin hafi framkvæmdastjóra og á þessum tíma tvo starfsmenn á skrifstofu samtakanna og er ekki deilt um að annar þeirra var stefnandi. Þá liggur fyrir listi yfir sjálfboðaliða sem dvalið höfðu hvað lengst hjá stefndu, Veraldarvinum, á árunum 2003 til 2006. Það skjal stafar frá stefnda, Veraldarvinum, og er stefnanda hvergi getið á þeim lista.

Auk alls þess sem nú hefur verið rakið þá fær sú fullyrðing stefnanda að hann hafi starfað hjá stefnda Veraldarvinum sem starfsmaður en ekki sjálfboðaliði, stoð í framburði vitnanna Önnu Lúðvíksdóttur, sem reyndar er kærasta stefnanda, en var að vinna í nánum tengslum við stefnanda á umræddum tíma. Að mati hennar var greinilegt að stefnandi sinnti einhvers konar stjórnunarstöðu hjá hinum stefndu samtökum á umræddum tíma. Þá báru vitnin Marta Gil Sopena og Gregory Chandanson, sem voru sjálfboðaliðar hjá stefndu, Veraldarvinum, á árinu 2005 að þeirra upplifun hafi verið sú að stefnandi væri annar yfirmanna samtakanna en ekki sjálfboðaliði. Þá báru vitnin Eyrún Einarsdóttir og Lára S. Baldursdóttir sem unnu fyrir samtök sem stefnandi átti í miklum samskiptum við vegna styrkumsókna fyrir stefnda, Veraldarvini, að hann hefði komið þeim fyrir sjónir sem starfsmaður samtakanna en ekki sjálfboðaliði. Þá bar vitnið Áslaug Ármannsdóttir að stefnandi hafi verið starfsmaður samtakanna en ekki sjálfboðaliði, en stefnandi bjó hjá henni hluta þess tíma sem hér um ræðir. Þá þykir það enn fremur renna stoðum undir fullyrðingar stefnanda að hann hafi verið starfsmaður samtakanna á launum að hann hafði afnot af debetkorti félagsins. Auk alls þessa þá kemur fram í tölvupósti stefnda, Þórarins, til stefnanda 28. febrúar 2006 að hann gerir stefnanda tilboð um að greiða honum 200.000 krónur á mánuði fyrir þá mánuði sem hann hafi verið á Íslandi á árunum 2004 og 2005.

Af því sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að stefnandi vann ekki sem sjálfboðaliði heldur var hann ráðinn starfsmaður stefnda, Veraldarvina, í febrúar 2004 og hann starfaði þar fram til október 2005. Ekki var gerður við hann skriflegur ráðningar­samningur en með hliðsjón af þeim störfum sem stefnandi innti af hendi fyrir hin stefndu samtök hefði kjarasamningur milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins átt við ráðningarkjör hans og er ekki ágreiningur um það. Samkvæmt gildandi kjarasamningi þessara aðila skal eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að starf hefst gera skriflegan ráðningar­samning eða ráðning staðfest skriflega og þar skulu meðal annars koma fram umsamin laun. Stefndi, Veraldarvinir, sinnti ekki þessari skyldu sinni og verður hann að bera hallann af því hvert efni ráðningarsamningsins var.

Stefnandi heldur því fram að laun hans hafi átt að vera 250.000 á mánuði og fær það stuðning í fyrrgreindri yfirlýsingu stefnda, Þórarins, sem dagsett er 29. september 2005. Þá kom sú fjárhæð fram í fyrrgreindum tölvupóstsamskiptum milli stefnanda og stefnda, Þórarins, 22. febrúar 2005 svo sem rakið er hér að framan. Þykir stefnandi því hafa sýnt fram á að laun hans hafi átt að vera 250.000 krónur á mánuði. Gögn málsins bera ekki með sér svo óyggjandi sé að samið hafi verið við stefnanda að hann fengi auk launa arð af fasteignum en hann gerir ekki kröfu um slíkar greiðslur í málinu.

Stefndu halda því fram að stefnandi hafi verið á eigin vegum hluta þess tíma sem hann var við störf hjá stefnda, Veraldarvinum. Þykja stefndu ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að stefnandi hafi ekki verið í starfi hjá stefnda, Veraldarvinum, þegar hann sótti hina ýmsu fundi í útlöndum á því tímabili sem hann var ráðinn sem starfsmaður samtakanna enda hluti af starfsskyldum hans að taka þátt í mismunandi verkefnum á Íslandi og í útlöndum eins og kemur fram í fyrrgreindri yfirlýsingu stefnda, Þórarins, frá 29. september 2005. Þvert á móti liggja fyrir gögn sem sýna fram á að stefnandi var í umræddum ferðum á vegum stefnda, Veraldarvina. Þá liggja fyrir gögn sem sýna fram á að stefndi, Þórarinn, kvaðst meðal annars hafa stofnað hin stefndu samtök af vegna þess að hann hafi séð þörf fyrir þau á Íslandi í og S-Ameríku og fleiri löndum í framtíðinni og að hann sé viss um að það takist að byggja sterk samtök í þessum löndum í framtíðinni, sbr. tölvupóstur stefnda,Þórarins, til stefnanda 22. febrúar 2005. Þykir því ótrúverðug sú fullyrðing stefnda, Þórarins, að stefnandi hafi sjálfur ætlað að stofna svipuð samtök í S-Ameríku án afskipta stefnda, Veraldarvina.

Stefndu byggja sýknukröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti með því að innheimta ekki hina meintu launakröfu sína fyrr en raun beri vitni. Með því tómlæti hafi hann viðurkennt að hafa starfað sem sjálfboðaliði. Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur því verið slegið föstu að stefnandi vann sem launþegi hjá hinum stefndu samtökum og verður sú staðreynd að hann hafi unnið allan þann tíma hjá hinum stefndu samtökum án þess að fá greidd laun ekki túlkuð sem viðurkenning hans á því að hann hafi unnið sem sjálfboðaliði. Þá bera gögn málsins með sér að umræður fóru milli stefnanda og stefnda, Þórarins, um launagreiðslur, sbr. það sem að framan er rakið um tölvupóstsamskipti þeirra 2. febrúar og 21. febrúar 2005 og af þeim verður ráðið að hin stefndu samtök hafi á þeim tíma ekki haft bolmagn til að greiða umsamin laun og verður biðlund stefnanda ekki túlkuð sem tómlæti. Verða stefndu því ekki sýknaðir á þeim forsendum.

Stefndu byggja sýknukröfur sínar ennfremur á því að stefnandi hafi á hinu umdeilda tímabili ekki haft yfir atvinnuleyfi að ráða. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga er tímabundið atvinnuleyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Útlendingur getur samkvæmt lögunum ekki sjálfur sótt um slíkt leyfi. Hins vegar er heimilt að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum meðal annars því að hann hafi átt hér lögheimili og dvalið hér samfellt í 3 ár sbr. 11. gr. laganna. Sú skylda hvíldi því á stefndu að sækja um tímabundið atvinnuleyfi fyrir stefnanda og verða þeir ekki sýknaðir á þeim forsendum að þeir hafi ekki sinnt þeim skyldum sínum að þessu leyti gagnvart stefnanda.

Hvað snertir kröfur stefnanda um orlofsuppbót, desemberuppbót þá er um að ræða kjarasamningsbundnar greiðslur og verður ekki annað séð en að fjárhæðir þeirra séu í samræmi við fyrrgreindan kjarasamning og hafa stefndu ekki rökstutt á neinn hátt að hvaða leyti þær séu of háar. Mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð er lögbundið, sbr. lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hins vegar fer viðkomandi lífeyrissjóður með forræði slíkra krafna en ekki launþegi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna og ákvæði kjarasamninga og því verður ekki fallist á þann kröfulið.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að stefndi, Veraldarvinir, hefur ekki efnt ráðningarsamning sinn við stefnanda og þegar af þeirri ástæðu verður hann dæmdur til greiðslu vangoldinna launa eins og nánar greinir síðar.

Stefnandi byggir ennfremur á því að báðir stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart honum. Með vísan til þess að launakrafa stefnanda á hendur stefnda, Veraldarvinum, hefur verið tekin til greina, eru þegar af þeirri ástæðu ekki efni til að fjalla um það hvort hann sé jafnframt skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að stefndi, Þórarinn, hafi valdið honum bótaskyldu tjóni með því að hafa vísvitandi og með blekkingum fengið hann til að vinna fyrir stefnda, Veraldarvini, án þess að hafa ætlað að greiða honum umsamin laun. Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá lögmanni stefndu að ósannað væri í málinu að stefndi, Þórarinn, hefði beitt blekkingum og því væru stefndu ekki skaðabótaskyldir gagnvart stefnanda. Lögmaður stefnanda taldi að þetta væri ný málsástæða og mótmælti henni sem of seint fram kominni. Lögmaður stefndu kvað málsástæðu þessa felast í málatilbúnaði hans og því væri hún ekki of seint fram komin. Eins og fram kemur í 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki. Í stefnu er rakið að stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu meðal annars á því að stefndi, Þórarinn, hafi beitt blekkingum í viðskiptum sínum við stefnanda og á því er krafa um skaðbætur byggð. Var því tilefni til að koma fram með fyrrgreinda málsástæðu stefndu eigi síðar en í greinargerð þeirra. Þótt ekki sé með berum orðum tekið fram í greinargerð stefndu að þeir líti svo á að stefndi, Þórarinn, hafi ekki beitt blekkingum, verður að telja að umrædd málsástæða felist í málatilbúnaði hans þar sem því er haldið fram að stefnandi hafi verið sjálfboðaliði en ekki launaður starfsmaður.

Eins og fram er komið hefur því verið slegið föstu að stefndi, Þórarinn, var sá aðili sem réði stefnanda til starfans og samdi við hann um kaup og kjör. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins að hann hafi samið við stefnanda um að hann fengi ekki greidd laun sín jafnóðum svo sem rakið hefur verið varðandi tölvupóstsamskipti hans og stefnanda 2. og 22. febrúar 2005. Framganga stefnda, Þórarins, verður ekki skýrð á annan hátt en að hann hafi vísvitandi verið að beita stefnanda blekkingum þegar hann réði hann til starfa með loforðum um greiðslu sem síðan kom í ljós að hann ætlaði ekki að standa við. Mátti stefnandi treysta því að staðið yrði við samninga við hann. Þá verður stefnandi ekki látinn bera ábyrgð á því að stefndi, Veraldarvinir hafi sem samtök sem rekin séu án hagnaðarsjónarmiða og sem slík ekki verið fær um að ráða til sín launaða starfsmenn og breytir þar engu þótt stefnandi hafi starfað hjá svipuðum samtökum áður sem sjálfboðaliði. Hafi stefndi, Þórarinn, farið út fyrir þær heimildir sem hann hafði sem fyrirsvarsmaður stefnda, Veraldarvina, með ráðningu stefnanda er það á hans ábyrgð. Þykir stefndi, Þórarinn, með saknæmri háttsemi sinni, valdið stefnanda tjóni sem nemur umsömdum launum og launatengdum gjöldum.

Stefndu telja að lækka beri kröfu stefnanda á þeim forsendum að stefndi, Veraldarvinir, eigi gagnkröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 19.175 evra og 110.195 króna. Krafa stefnanda á hendur stefnda, Veraldarvinum, er launakrafa og samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 skulu laun greidd með gjaldgengum peningum og má eigi greiða laun með skuldajöfnuði nema svo hafi verið áður sérstaklega um samið. Að þessu virtu verður krafa stefnanda ekki lækkuð á grundvelli skuldajafnaðar. Þá er til þess að líta að stefndu hafa ekki lagt fram haldbær gögn um þessa meintu gagnkröfu en í tölvupósti stefnda, Þórarins, 28. febrúar 2006, til stefnanda, þar sem hann er að gera honum tilboð um greiðslu fyrir vinnuframlag hans árin 2004 og 2005, kemur fram að stefnandi hafi þegar fengið miklar greiðslur, þar með talið þær 19.000 evrur sem hann hafi tekið. Þá segir í póstinum að ljóst sé að stefnandi hafi greitt fullt af reikningum fyrir stefnda, Veraldarvini, á þessum árum, þannig að þetta sé eitthvað sem þurfi að reikna út.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verða dómkröfur stefnanda á hendur stefndu teknar til greina eins og greinir í dómsorði en eins og að framan er rakið er ekki fallist á kröfur stefnanda sem varðar framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð að fjárhæð 335.477 krónur. Þá hefur dráttarvaxtakrafa stefnanda ekki sætt andmælum.

Eftir þessum úrslitum verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Örn Svansson hdl., en af hálfu stefndu flutti málið Björgvin Þórðarson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Veraldarvinir og Þórarinn Ívarsson, greiði stefnanda, Oscar Mauricio Uscategui, óskipt 5.691.751 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 137.713 krónum frá 28.02.2004 til 31.03.2004, en þá af 413.138 krónum frá þeim degi til 30.04.2004, en þá af 688.563 krónum frá þeim degi til 31.05.2006, en þá af 963.988 krónum frá þeim degi til 30.06.2006, en þá af 1.239.413 krónum frá þeim degi til 31.07.2004, en þá af 1.514.838 krónum frá þeim degi til 15.08.2004, en þá af 1.518.002 krónum frá þeim degi til 31.08.2004, en þá af 1.793.427 krónum frá þeim degi til 31.09.2004, en þá af 2.068.852 krónum frá þeim degi til 31.10.2004, en þá af 2.344.277 krónum frá þeim degi til 30.11.2004, en þá af 2.619.702 krónum frá þeim degi til 15.12.2004, en þá af 2.658.014 krónum frá þeim degi til 31.12.2004, en þá af 2.933.439 krónum frá þeim degi til 31.01.2005, en þá af 3.208.864 krónum frá þeim degi til 28.02.2005, en þá af 3.484.289 krónum frá þeim degi til 31.03.2005, en þá af 3.759.714 krónum frá þeim degi til 30.04.2005, en þá af 4.035.139 krónum frá þeim degi til 31.05.2005, en þá af 4.310.564 krónum frá þeim degi til 30.06.2005, en þá af 4.585.989 krónum frá þeim degi til 31.07.2005, en þá af 4.861.414 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2005 en þá af 4.877.314 krónum frá þeim degi til 31.08.2005, en þá af 5.152.739 krónum frá þeim degi til 31.09.2005, en þá af 5.428.164 krónum frá þeim degi til 24.10.2005, en af 5.691.751 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 700.000 krónur í málskostnað þar með talinn virðisauka­skattur.