Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Refsiákvörðun
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. mars 2005.

Nr. 443/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Alberti Sævarssyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

 

Líkamsárás. Refsiákvörðun. Sératkvæði.

A var sakaður um að hafa ráðist á X með þeim afleiðingum að hann handleggsbrotnaði. Hélt A því fram að X hefði af tilefnislausu gripið svo harkalega um hreðjar sér að hann hefði fundið til mikils sársauka og brugðist við með því að taka X hálstaki í þeim tilgangi að snúa hann niður eða halda honum uns hann sleppti takinu. Það hefði X þó ekki gert strax og hefðu þeir misst jafnvægið og fallið í gólfið. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að A hefði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tekið var fram að A og X væru einir til frásagnar um aðdraganda þess að A réðist á hann. Því bæri að miða við þann framburð A að hreðjatak X hefði valdið honum skyndilegum sársauka. Hefði hann komist í mikla geðæsingu og tekið X hálstaki svo þeir féllu báðir í gólfið með fyrrgreindum afleiðingum. Þóttu atvik því hafa verið með þeim hætti að rétt væri að fella refsingu A niður með vísan til 4. tl. 1. mgr. 74. gr. og 2. mgr. laga nr. 19/1940.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.

Eins og rakið er í héraðsdómi voru ákærði og X á skemmtistaðnum Fjörukránni í Hafnarfirði aðfararnótt 20. september 2003 ásamt eiginkonu X og samstarfsfólki hennar, eftir að þetta fólk hafði verið saman í samkvæmi. Ákærða og vitnum ber ekki að öllu leyti saman um málsatvik á skemmtistaðnum, en þau munu öll hafa verið undir áhrifum áfengis greint sinn. Ákærði hefur lýst því að X hafi að tilefnislausu gripið svo harkalega um hreðjar sér að hann hafi fundið til mikils sársauka. Hann hafi brugðist við með því að taka X hálstaki í þeim tilgangi að snúa hann niður eða halda honum uns hann sleppti takinu. Það hafi X þó ekki gert strax og hafi þeir misst jafnvægið og fallið í gólfið. X kvaðst hins vegar hafa tekið laust um hreðjar ákærða, eftir að ákærði hefði talað um kvenfólk á þann hátt að honum hafi mislíkað. Hann hafi verið búinn að sleppa takinu og snúið baki í ákærða er ákærði réðist á hann. Bæði X, A sambúðarkona hans og B, samstarfskona hennar, báru fyrir dómi að ákærði hefði tekið X hálstaki og sveiflað honum til. Hvorug kvennanna kvaðst hafa séð aðdraganda þess að ákærði tók X hálstaki, en lýstu því að þetta hafi allt gerst í einni svipan. Af framburði þeirra verður heldur ekki með vissu ráðið hvort X hafi snúið baki í ákærða er ákærði tók hann hálstakinu, en hvorug þeirra kvaðst þó hafa séð X halda um hreðjar ákærða meðan á hálstakinu stóð. B lýsti atvikum ekki nákvæmlega, enda kvaðst hún ekki muna vel eftir þeim. Þá er fram komið að ákærði mun strax eftir atvikið hafa sagt að X hafi klipið í punginn á sér. Fyrir dómi taldi ákærði mögulegt að X hafi ekki áttað sig á því hversu mikill sársauki hafi fylgt þessum aðförum hans.

Samkvæmt framanrituðu verður við það miðað að viðbrögð ákærða við hreðjataki X hafi verið með þeim hætti sem hann lýsir, enda samræmist það háttsemislýsingu í ákæru um að hann hafi tekið X „hálstaki og beygt hann í gólfið“. Við fall ákærða og X hlaut X brot í efri enda hægra upphandleggsbeins, rétt neðan við öxl. Er fallist á með héraðsdómi að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem réttilega er heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við ákvörðun refsingar hafði héraðsdómur í huga ákvæði 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, sem kveður á um að unnt sé að lækka refsingu ef líkamsárás er unnin í áflogum eða átökum milli þess, sem henni veldur, og þess, sem misgert er við eða ef sá, sem verður fyrir tjóni, á upptök að átökum með árás, ertingum eða líku. Ákvæðið hefur ekki að geyma heimild til niðurfellingar refsingar nema líkamsárás sé ekki svo mikil sem í 218. gr. segir, heldur verði heimfærð undir 217. gr. laganna. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 20/1981 er þó sérstaklega tekið fram að ákvæði þetta haggi ekki gildi 74. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði og X eru einir til frásagnar um aðdraganda þess að ákærði réðist á hann. Því ber að miða við þann framburð ákærða að hreðjatak X hafi valdið honum skyndilegum sársauka. Hafi hann komist í mikla geðæsingu og tekið X hálstaki svo þeir féllu báðir í gólfið með þeim afleiðingum að X hlaut þau meiðsli sem um ræðir. Þegar framangreint er virt þykja atvik hafa verið með þeim hætti að rétt sé að fella refsingu ákærða niður með vísan til 4. tl. 1. mgr. 74. gr. og 2. mgr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga  nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999, verður ákærða gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Refsing ákærða, Alberts Sævarssonar, er felld niður.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, en til hans teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

                                                                                     


Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

          Ákærði hefur viðurkennt að hafa umrætt sinn tekið X hálstaki og beygt hann í gólfið með þeim afleiðingum að X hlaut brot í efri enda hægra upphandleggsbeins, rétt neðan við öxl. Eins og lýst er í héraðsdómi voru ekki aðrir til frásagnar um aðdraganda þessa verknaðar en ákærði og X, en fram er komið að þeir stóðu við bar á skemmtistaðnum Fjörukránni í Hafnarfirði ásamt sambúðarkonu X, A, og B, starfsfélaga hennar. A bar fyrir dómi að ákærði hefði tekið X hálstaki og hert að „þannig að X fer upp í loftið og við það falla þeir saman í gólfið“. Nánar lýsti vitnið þessu á þann veg að ákærði hafi hert að hálsinum „og síðan lyftir hann honum upp eða sveiflar honum upp og við það að þunginn á X kemur, þá fara þeir í gólfið“. B sagði fyrir dómi að hún hafi snúið sér við og þá séð ákærða sveifla X „yfir sig og X lendir á gólfinu, fyrst á bekknum eða borðinu og svo niður á gólfi.“ Þessi framburður vitnanna er í samræmi við frásögn X, sem kvað ákærða hafa tekið sig hálstaki, „og svo rykkist ég bara upp, flýg þarna til og kastast á borð.“ Við rannsókn málsins hjá lögreglu voru A og B hvorugar yfirheyrðar, heldur var látið við það sitja að eiga við þær örstutt viðtal í síma. Er ákærði einvörðungu sakaður um að hafa tekið X hálstaki og „beygt“ hann í gólfið með áðurnefndum afleiðingum. Með játningu hans og framburði vitnanna er sannað að hann hafi gerst sekur um þessa háttsemi, sem varðar við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

          Af framburði ákærða og X er ljóst að aðdragandi þessa verknaðar ákærða var með þeim hætti að X greip um punginn á ákærða. Verður að leggja til grundvallar þá frásögn hans að þetta hreðjatak hafi verið fast og valdið honum sársauka. Ekki verður þó fallist á með ákærða að þau viðbrögð hans við þessari atlögu X að taka hann hálstaki og beygja í gólfið með ofangreindum afleiðingum hafi helgast af neyðarvörn. Verður því ekki talið að brot hans sé honum refsilaust eftir 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði 2. mgr. ákvæðisins koma hér heldur ekki til álita, en samkvæmt því skal manni ekki refsað þegar svo stendur á að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða að hann hafi ekki getað gætt sín fullkomlega.

Viðbrögð ákærða við hreðjagripi X voru of harkaleg og leiddu til umtalsverðs líkamstjóns. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann áður gerst sekur um líkamsárás, brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga. Ég tel því að við ákvörðun refsingar hans séu engin efni til að vísa til 4. tl. 1. mgr. 74. gr. laganna, hvorki með því að færa refsingu hans niður úr því lágmarki sem kveðið er á um í 1. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. og 34. gr., né að fella hana niður. Samkvæmt 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, er á hinn bóginn heimilt að lækka refsingu þegar verknaður fellur undir 218. gr. laganna, meðal annars þegar svo stendur á að sá sem verður fyrir tjóni á upptök að átökum með árás, ertingum eða líku. Fram kemur í athugasemdum við 12. gr. frumvarps að lögum nr. 20/1981 að refsiniðurfelling eigi ekki við ef verknaður fellur undir 218. gr. heldur sé hún einskorðuð við háttsemi sem varðar við 217. gr. Ákærði réðist sem fyrr segir á X í framhaldi af því að X greip hann föstu hreðjataki. Er því rétt að ákveða refsingu ákærða með vísan til refsilækkunarheimildar 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga og er refsingin hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt þeirri niðurstöðu tel ég rétt að staðfesta ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og dæma ákærða til greiðslu áfrýjunarkostnaðar.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. september sl., er höfðað með ákæru útg. 24. maí 2004 á hendur Albert Sævarssyni, kt. [...], Klukkurima 33, Reykjavík, ,,fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 20. september 2003, á tímabilinu frá miðnætti til kl. 02:02, tekið X hálstaki og beygt hann í gólfið þar sem þeir voru staddir á veitingahúsinu Fjörukránni, Strandgötu, Hafnarfirði, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í efri enda hægra upphandleggsbeins, rétt neðan við öxl.

Telst þetta varða við 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr lög nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og til vara að komi til sakfellingar þá verði honum gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin.

 

I.

Föstudaginn 10. október 2003 kom X á skrifstofu rannsóknara að eigin frumkvæði í því skyni að kæra líkamsárás sem hann kvaðst hafa orðið fyrir á skemmtistaðnum Fjörukránni í Hafnarfirði þann 20. september 2003, af hálfu Alberts Sævarssonar, ákærða í máli þessu, sem hafi skellt honum í gólfið með þeim afleiðingum að hann handleggsbrotnaði illa á hægri handlegg.

Þann 21. október 2003  tilkynnti X lögreglu símleiðis að hann hygðist falla frá kæru sinni og óskaði þess að lögreglan gerði ekkert frekar í málinu að sinni.

X lagði fram bótakröfu í málinu með bréfi dagsettu 24. maí 2004 sem síðar var ákveðið í þinghaldi þann 6. júlí 2004 að kæmi ekki til frekari skoðunar í málinu vegna þess að beðið væri eftir örorkumati.

Ákærða og brotaþola ber saman um að þeir hafi farið á nefndan veitingastað eftir að hafa komið saman í samkvæmi í heimahúsi þar sem fyrir var samstarfsfólk eiginkonu X. Eins eru þeir sammála um þá atburðarás sem lýst er í ákæru í aðalatriðum, en greinir á um aðdragandann. Ákærði og X hafi á þeim tíma verið vinir en ákærði hafi ekki þekkt neina af vinnufélögum eiginkonu X. Síðar er líða tók á samkvæmið var ákveðið að fara á Fjörukrána og fóru þeir þangað báðir ásamt samkvæmisgestum. X skýrði svo frá að þegar komið var á krána hafi honum mislíkað athugasemdir og yfirlýsingar ákærða um langanir til kvenna sem með þeim voru og hafi verið orðnar áberandi. Að sögn X voru þeir báðir ölvaðir en ákærði þó sýnu meir. Ákærði sagði að þeir hefðu báðir verið ölvaðir og eins konur þær sem með þeim voru í för. Fyrir dómi kvaðst hann ekki vera því sammála að hann hafi verið sýnu meira ölvaður en X, þó verið geti að hann hafi verið óstöðugur á fótunum sem geti hafa átt sinn þátt í því að hann féll yfir X eftir að hann hafið fallið í gólfið eins og síðar greinir.

Ákærði og X lýsa aðdraganda þess að þeir féllu í gólfið með mismunandi hætti. Segir X að hann hafi viljað tjá ákærða tilfinningar sínar vegna framkomu ákærða í garð samstarfskvenna konu sinnar. Er þeir stóðu við aðalbarinn á kránni hefði hann lagt aðra hönd á öxl félaga síns en hina hafi hann lagt á milli fóta hans með því að mynda skál með lófanum og lyfta undir hreðjar hans um leið og hann ávarpaði hann í góðu og bað hann ,,að slaka á hérna niðri”. Hafi hann að því búnu sleppt takinu og snúið sér frá. En þegar hann hafi verið að snúa sér við hafi ákærði gripið um axlir hans aftan frá og hert að. Hefði hann að því búnu hafist á loft og verið kastað á gólfið og ákærði lent þar ofan á honum, með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru og ekki er deilt um.

Ákærði hefur lýst þessu þannig að hann hafi staðið við barinn ásamt X þegar hann fann að X greip harkalega um hreðjar hans, þannig að því fylgdi verulegur sársauki. Hafi hann þá gripið X hálstaki til þess að losna úr fjötrunum og ætlað að beygja hann í gólfið en X hefði haldið hreðjatakinu allt þar til þeir voru á leiðinni í gólfið og hann fallið á X. Hafi X þá sagt strax að hann væri brotinn. Sagði ákærði í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði hjálpað X á fætur enda hafi engin illska verið á ferðinni milli þeirra. Ekki er um það deilt að ákærði og X fóru saman upp á slysamóttöku í Fossvogi og var ákærði með honum hjá lækni meðan meiðslin voru skoðuð. Að lokinni skoðun hafði ákærði samband við eiginkonu sína sem hafi ekið X og konu hans heim.

Samkvæmt vottorði Brynjólfs Jónsssonar dr. med., bæklunarlæknis kemur fram að þegar X kom á slysa-og bæklunardeild um kl. 02.00 þann 20.09.2003 hafi efra upphandleggsbein hans verið brotið rétt neðan axlarinnar. Segir síðan í vottorðinu sem er frá 10.02.2004, að áverkinn hafi verið beinbrot sem hafi leitt til nokkurra mánaða óvinnufærni og miska og að X sé nú fjórum mánuðum eftir slysið aðeins að hluta vinnufær. Brotið geti leitt til örorku sem ekki sé á þessu stigi ljóst hve mikil sé.

II.

Verður nú gerð grein fyrir framburði vitnanna A, eiginkonu X, og samstarfskonu hennar B sem báðar gáfu skýrslu fyrir dómi.

Bar vitnið A fyrir dóminum að hún hefði staðið við endann á barnum á veitingahúsinu Fjörukránni eins og ákærði og eiginmaður hennar, X, og er hún leit við sá hún hvar ákærði Albert var búinn at taka hálstak á X sem hann herti síðan og sá hún ákærða lyfta eða sveifla X frá gólfinu og við það féllu þeir báðir í gólfið og lenti ákærði ofan á X. Hún kvaðst ekki hafa séð X taka eða halda hreðjataki á ákærða og hafi henni virst X vera með hendurnar uppi. Hún hafi ekki heyrt nein orðaskipti milli X og ákærða fyrir atvikið en hún hafi ekki vitað betur en að allir hafi verið í góðu skapi að skemmta sér.

Vitnið B hefur borið fyrir dóminum að hún hafi í umrætt sinn staðið við hliðina á X við barinn og verið að panta sér drykk og er hún snéri sér við hafi hún séð ákærða sveifla X yfir sig með þeim afleiðingum að X lenti á gólfinu eftir að hafa lent fyrst á bekk eða borði sem þarna var. Hafi henni virst ákærði vippa X yfir öxlina á sér. Áður en þetta gerðist kvaðst hún ekki hafa heyrt nein orðaskipti hvorki rifrildi né neitt slíkt milli ákærða og X. Hún hafi ekki séð X taka hreðjatak á ákærða og að því er hana minnir hafi X tekið um hendurnar á ákærða sem hafi tekið utan um hann. Þetta hafi allt gerst í mjög skjótri svipan.

III.

Eins og fram er komið í málinu lentu ákærði og X í átökum á veitingastaðnum Fjörukránni þann 20 september 2003 með þeim afleiðingum að X brotnaði á upphandlegg. Eins og málið liggur fyrir eru ákærði og X einir til frásagnar um aðdraganda átakanna. Segir ákærði að X hefi tekið fast um hreðjar hans, hann hafi af þeim sökum fundið mikinn sársauka. Ákærði hafi þrátt fyrir þetta ekki gefið frá sér neitt hljóð né sagt X að sleppa takinu heldur hafi hann brugðist við með því að taka X hálstaki og beygja hann í gólfið. X hefur viðurkennt að hafa tekið undir hreðjar ákærða en ekki tekið hann neinu hreðjataki heldur myndað eins og skál með lófanum og lyft undir. Ákærði hefur haldið því fram að X hafi ekki sleppt hreðjatakinu fyrr en þeir voru að lenda í gólfinu.

Af þessu verður ekki ráðið með vissu hver aðdragandi átakanna var en í ljósi þess að X hefur viðurkennt að hafa tekið undir hreðjar ákærða er talið rétt að álykta svo að hann hafi með þeirri ertingu sem í því fellst átt sinn þátt í því að til átaka kom þannig að 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga verður talin eiga hér við, að því gefnu að aðrir vitnisburðir leiði til sakfellingar, en ákærði hefur haldið því fram að háttsemi hans gagnvart X hafi helgast af neyðarvörn og sé honum því refsilaus vegna ákvæðis 12. almennra hegningarlaga.

Hefur ákærði haldið því fram að með hálstakinu hafi ásetningur hans staðið til þess að losa sig úr hreðjataki X. Að mati dómara gefa vitnisburðir ekkert tilefni til þess að fallast á að sá hafi verið tilgangurinn. Telja vitnin A og B sig geta fullyrt að ákærði hafi haldið hálstaki á X án þess að sá síðarnefndi hefði gert annað en að reyna að losa um það tak. Vitnið B sagði að ákærði hefði sveiflað X yfir öxlina þannig að hann lenti á gólfinu að lokum með ákærða ofan á sér og vitnið A að ákærði hefði lyft eða sveiflað X með sömu afleiðingum. Af þessum sökum kemur 12. gr. almennra hegningarlaga ekki til álita í málinu. Lítur dómari svo á að af ofangreindri lýsingu atburða séu engin rök fyrir því að telja að um óhappatilvik hafi verið að ræða, eins og ákærði hefur haldið fram í málsvörn sinni.

Er því niðurstaðan á þá lund að ákærði hafi með vísvitandi líkamárás orðið þess valdandi að X sem hlaut beinbrot það sem ekki er um deilt í málinu og því sannur að sök um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, enda óhjákvæmilegt að telja afleiðingar árásarinnar í það minnsta honum til sakar vegna gáleysis. Enn er ekki í ljós leitt hvort eða hversu varanlegar afleiðingarnar kunna að reynast.

Við ákvörðun refsingar ber að hafa í huga ákvæði 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, og að ákærði hefur ekki sætt refsingum  sem hér skipta máli. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns, 75.000 krónur.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Hafnarfirði, flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Albert Sævarsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns 75.000 krónur.