Hæstiréttur íslands
Mál nr. 546/2010
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Hlutabréf
- Umboð
- Ógilding samnings
- Riftun
|
Þriðjudaginn 21. júní 2011. |
|
|
Nr. 546/2010. |
Íslandsbanki hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Ragnari Sæ Ragnarssyni (Anton B. Markússon hrl.) |
Kaupsamningur. Hlutabréf. Umboð. Ógilding samnings. Riftun.
Í krafði R um greiðslu á kröfu, sem var tilkomin vegna kaupa R á hlutabréfum í G. R undirritaði afgreiðslupöntun 1. október 2008 um kaup á hlutabréfunum og fóru viðskiptin fram í kauphöll degi síðar. Skyldi R inna kaupverðið af hendi 7. október 2008. Fyrir lá að bankinn reyndi margsinnis að skuldfæra reikning R fyrir viðskiptunum, en án árangurs. Greindi aðila á um hver aðdragandinn hefði verið að því að R gerði pöntun um kaup á hlutabréfunum. R hélt því fram að hann hefði leitað ráðgjafar hjá G og starfsmaður hefði bent honum á þessi kaup. Í hélt því á hinn bóginn fram að R hefði komið á fund starfsmannsins gagngert til að fá milligöngu um kaup á hlutabréfum í G. Talið var að af gögnum málsins væri ljóst að bankinn hefði 2. október 2008 gert kauptilboð fyrir R í kauphöll, sem tekið hefði verið þegar í stað. Þetta hefði verið gert í umboði R og þannig komist á bindandi samningur um kaup hans á hlutabréfunum. Þá lægi einnig fyrir að bankinn hefði ekki verið seljandi hlutabréfanna, heldur komið fram til milligöngu fyrir R um kaup á þeim. Seljandi hlutabréfanna hefði verið S og hefði G greitt kaupverð þeirra 7. október 2008. Í því sambandi gæti engu skipt að Fjármálaeftirlitið hefði daginn áður stöðvað viðskipti með hlutabréf í G, enda hefðu kaupin verið gerð 2. október 2008 og bankinn ekki getað losnað undan skyldu til greiðslu kaupverðs vegna þessara síðari atvika. Með því að G var ekki seljandi hlutabréfanna var talið að R gæti hvorki borið fyrir sig málsástæður sem lytu að því að samningur um kaupin væri ógildanlegur né reist kröfu sína um sýknu á því að skilyrði væru til að rifta kaupunum. Þá hefði R ekki haft uppi til skuldajafnaðar við Í gagnkröfu um skaðabætur. Voru því ekki efni til annars en að taka til greina kröfu Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2010. Hann krefst að stefnda verði gert að greiða sér 1.999.495 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins samþykkti VÍB hf., sem seinna mun hafa runnið saman við Glitni banka hf., umsókn stefnda 28. desember 2000 um stofnun vörslureiknings hjá félaginu og svokallaðs VS-reiknings hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. Í framhaldi af því átti stefndi nokkur viðskipti með hlutabréf, sem fóru um þessa reikninga, en þau tóku til fremur lágra fjárhæða. Óumdeilt er að stefndi kom síðla miðvikudags 1. október 2008 á starfstöð Glitnis banka hf., þar sem hann mun jafnframt hafa átt almenn bankaviðskipti. Stefndi kveður erindi sitt hafa verið að leita þar ráðgjafar um hvernig hann gæti ávaxtað og varðveitt á öruggan hátt sparifé að fjárhæð 2.000.000 krónur. Honum hafi verið vísað til starfsmanns að nafni Steinunn Bjarnadóttir, sem hafi tjáð honum að kaup á hlutabréfum í Glitni banka hf. væru „öruggustu hlutafjárkaup sem völ væri á“, svo sem segir í greinargerð hans fyrir héraðsdómi. Á grundvelli þeirrar ráðgjafar hafi hann undirritað skjal með yfirskriftinni „afgreiðslupöntun“, þar sem sagði að hann hefði „beðið um eftirfarandi viðskipti“, sem yrðu kaup á hlutabréfum í bankanum að markaðsverði 2.000.000 krónur „á hagst. verði“. Hafi verið rætt um að stefndi innti af hendi þessa fjárhæð þriðjudaginn 7. október 2008, á þriðja viðskiptadegi eftir væntanleg hlutabréfakaup, með því að leggja hana á sérstakan tékkareikning sinn vegna verðbréfaviðskipta, sem bankinn myndi síðan skuldfæra fyrir greiðslunni. Áfrýjandi heldur á hinn bóginn fram að stefndi hafi komið umræddan dag á fund áðurnefnds starfsmanns og engrar ráðgjafar leitað, heldur verið gagngert kominn til að fá milligöngu um kaup á hlutabréfum í Glitni banka hf. fyrir framangreinda fjárhæð. Hann hafi undirritað fyrrnefnda afgreiðslupöntun, en um það hafi verið rætt að hann legði fjárhæðina á reikning sinn næsta dag. Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi greindi þessi starfsmaður frá atvikum á sama veg.
Fyrir liggur að þegar stefndi hafði undirritað afgreiðslupöntunina var opnunartími kauphallar liðinn 1. október 2008. Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fram, gerði hann strax við opnun kauphallarinnar morguninn eftir kauptilboð í þágu stefnda í hlutabréf í Glitni banka hf. fyrir 2.000.000 krónur og mun því tilboði hafa verið tekið sem næst samstundis af Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. Áfrýjandi hefur lagt fram staðfestingu frá Nasdaq OMX Iceland hf. um að viðskipti þessi hafi farið fram á fyrrgreindan hátt með svokallaðri pörun kauptilboðs, sem borist hafi frá miðlara Glitnis banka hf., við fyrirliggjandi sölutilboð seljandans í viðskiptakerfi kauphallarinnar. Í beinu framhaldi af þessu gaf bankinn út bráðabirgðakvittun á nafn stefnda fyrir kaupum á hlutum að nafnvirði 420.318 krónur á genginu 4,71 fyrir 1.979.698 krónur, en við það bættist þóknun að fjárhæð 19.797 krónur og 300 krónur í afgreiðslugjald og hljóðaði því kvittunin á samtals 1.999.795 krónur. Á kvittuninni kom einnig fram að fjárhæðin yrði skuldfærð á áðurnefndan tékkareikning stefnda á uppgjörsdegi, sem yrði 7. október 2008, svo og að hlutabréfakaupin væru skráð á vörslureikning hans hjá bankanum.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt endurrit af hljóðritun símtals, sem fyrrnefndur starfsmaður Glitnis banka hf. átti við stefnda kl. 17.30 sunnudaginn 5. október 2008. Kemur þar fram að starfsmaðurinn sagði stefnda að „viðskiptin gengu þarna bara í gegn samdægurs, en það á eftir að leggja inn á reikninginn.“ Stefndi spurði á hvaða gengi þau hafi verið gerð og að veittu svari við því sagði starfsmaðurinn að ágætt yrði að hann legði kaupverðið inn á fyrrnefndan tékkareikning, sem starfsmaðurinn tiltók númerið á. Stefndi sagði þá að hann hefði haldið „að ekkert hefði gerst ... því að peningarnir mínir fóru ekki út af reikningnum“, en starfsmaðurinn svaraði því að tilboð um hlutabréfakaup hefði verið sent strax eins og alltaf væri gert og færu peningar ekki af reikningnum fyrr en eftir þrjá daga þegar uppgjör færi fram. Að ósk stefnda endurtók starfsmaðurinn reikningsnúmerið og fjárhæðina, sem yrði „að fara inn á morgun og þetta verður skuldfært á þriðjudagsmorguninn.“ Samtalinu lauk síðan með ítrekuðum ummælum af hendi beggja um staðfestingu og þakkir.
Af gögnum málsins verður séð að hlutabréfin í Glitni banka hf. voru skráð inn á VS-reikning stefnda í verðbréfaskráningu kauphallarinnar þriðjudaginn 7. október 2008. Þann dag reyndi bankinn ítrekað að skuldfæra reikning stefnda fyrir kaupverði hlutabréfanna og reyndist engin innstæða á honum, en áfrýjandi staðhæfir að sama dag hafi verðbréfaskráning Íslands skuldfært kaupverðið á reikning Glitnis banka hf. í svokölluðu stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og gert það upp við seljanda hlutabréfanna. Að kvöldi þessa dags ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hlutahafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn félagsins þegar frá störfum og skipaði því skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnarinnar, en daginn áður hafði Fjármálaeftirlitið stöðvað tímabundið öll viðskipti með fjármálagerninga, sem meðal annars höfðu verið gefnir út af Glitni banka hf. Í framhaldi af þessu var stofnaður Nýi Glitnir banki hf., sem nú hefur tekið upp heiti áfrýjanda. Fyrir liggur að á tímabilinu 8. til 17. október 2008 reyndi bankinn margsinnis að skuldfæra reikning stefnda fyrir kaupverði hlutabréfanna, en án árangurs. Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda eldri bankans féll krafan, sem Glitnir banki hf. hafði þannig átt á hendur stefnda vegna hlutabréfakaupanna, til áfrýjanda. Hann höfðaði mál þetta 20. júní 2009 til greiðslu kröfunnar.
II
Samkvæmt því, sem að framan segir, greinir aðilana á um hver aðdragandinn hafi verið að því að stefndi gerði 1. október 2008 pöntun um kaup á hlutabréfum í Glitni banka hf. fyrir 2.000.000 krónur. Á hinn bóginn er ljóst af gögnum málsins að bankinn gerði að morgni næsta dags kauptilboð fyrir stefnda í kauphöll, sem tekið var þegar í stað með svonefndri pörun þess við fyrirliggjandi sölutilboð. Þetta gerði bankinn í umboði stefnda og komst þannig á bindandi samningur um kaup þess síðarnefnda á hlutabréfunum, en engu breytir í því efni að þau hafi ekki verið skráð á svokallaðan VS-reikning hans fyrr en 7. október 2008. Þá liggur einnig fyrir að bankinn var ekki seljandi hlutabréfanna, heldur kom hann fram til milligöngu fyrir stefnda um kaup á þeim. Seljandi þessara hlutabréfa var sem áður segir Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. og greiddi Glitnir banki hf. honum kaupverð þeirra 7. október 2008. Í því sambandi gat engu skipt að Fjármálaeftirlitið hafi daginn áður stöðvað viðskipti með hlutabréf í Glitni banka hf., enda höfðu kaupin verið gerð 2. október 2008 og hefði bankinn ekki getað losnað undan skyldu til greiðslu kaupverðsins vegna þessara síðari atvika. Með því að Glitnir banki hf. var ekki seljandi hlutabréfanna stoðar stefnda ekki að bera fyrir sig gagnvart honum málsástæður, sem lúta að því að samningur um kaupin sé ógildanlegur. Af sömu sökum getur stefndi heldur ekki reist kröfu sína um sýknu á því að skilyrði séu til að rifta kaupunum.
Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að hann líti svo á að framangreind kaup hafi komist á vegna saknæmrar háttsemi starfsmanns Glitnis banka hf. Í málinu hefur stefndi þó ekki haft uppi til skuldajafnaðar við áfrýjanda gagnkröfu um skaðabætur á þessum grunni. Eru því ekki efni til annars en að taka til greina kröfu áfrýjanda eins og í dómsorði greinir.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Ragnar Sær Ragnarsson, greiði áfrýjanda, Íslandsbanka hf., 1.999.495 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. október 2008 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2010.
I
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 9. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, nú Nýja Glitni banka hf., með stefnu birtri 20. júní 2009, á hendur Ragnari Sæ Ragnarssyni, kt. 030861-3539, Dalhúsi 70, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.999.495 ásamt dráttarvöxtum, skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 07.10.2008 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins, auk virðisaukaskatts af honum.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Að auki krefst stefndi þess í báðum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi við aðalflutning málsins. Stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og er því farið fram á að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að þann 1. október 2008 gerði stefndi samning við þáverandi Glitni banka hf. um kaup á hlutabréfum í Glitni banka fyrir kr. 2.000.000, með því að undirrita svokallaða afgreiðslupöntun. Samkvæmt bráðabirgðakvittun var heildarverð bréfanna kr. 1.979.698. Þóknun nam kr. 19.797 og afgreiðslugjald kr. 300, eða samtals kr. 1.999.795. Á bráðabirgðakvittuninni kemur enn fremur fram, að dagsetning viðskipanna sé 2. október 2008 en dagsetning uppgjörs 7. október 2008. Þá kemur fram, að viðskipti séu skráð á vörzlureikning 105202. Á afgreiðslupöntunina hefur starfsmaður bankans handskráð eftirfarandi: „Pen. verður lagður inn í fyrramálið.“ Uppgjörið átti að fara fram með skuldfærslu af tékkareikningi stefnda hjá Glitni banka nr. 105202.
Að kvöldi sunnudagsins 5. október hringdi fulltrúi bankans, sem stefndi hafði haft samskipti við vegna viðskiptanna, heim til stefnda til að knýja á um, að stefndi greiddi kaupverð bréfanna strax næsta dag. Hinn 6. október voru hins vegar sett á svokölluð neyðarlög, sem heimiluðu Fjármálaeftirlitinu að yfirtaka íslenzkar fjármálastofnanir.
Stefndi kveðst hafa ætlað að greiða andvirði hlutabréfanna hinn 7. október 2008, en þá hafi FME tilkynnt, að stofnunin hefði tekið yfir vald hluthafafundar Glitnis Banka hf., vikið félagsstjórn bankans í heild sinni frá störfum og skipað skilanefnd, sem tæki við öllum heimildum stjórnar félagsins, og hafi bankinn verið lokaður og stefnda ógerlegt að inna greiðslu af hendi.
Stefndi kveður, að þar sem hann hefði ekki fengið afhent hlutabréf í Glitni banka fyrr en þau hefðu verið orðin verðlaus, hefði hann talið eðlilegt, að kaupin hefðu þar með fallið niður.
Greinir aðila á um greiðsluskyldu stefnda fyrir umrædd hlutabréf.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að þann 02.10. 2008 hafi stefndi, Ragnar Sær Ragnarsson, keypt hlutabréf í Glitni banka, kt. 550500-3530, í gegnum kauphöll Íslands, fyrir milligöngu Glitnis banka, að nafnverði kr. 420.318, á genginu 4,71. Uppgjör viðskiptanna hafi átt að fara fram þann 07.10. 2008 með skuldfærslu af tékkareikningi stefnda hjá Glitni, nú Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, nr. 105202, sbr. meðfylgjandi viðskiptayfirlit. Á uppgjörsdegi þann 07.10. 2008 hafi hins vegar ekki verið innistæða fyrir verðbréfakaupunum á framangreindum reikningi stefnda.
Um verðbréfaviðskiptin gildi samningur stefnda og Glitnis banka, kt. 550500-3530, síðar Nýja Glitnis banka hf., kt. 491008-0160, nú Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. frá 14. október 2008.
Samningur stefnda við stefnanda hafi verið gerður í tíð Íslandsbanka-FBA hf., kt. 550500-3530, sem síðar varð að Glitni banka hf., nú Íslandsbanka hf. kt. 491008-0160. Samningurinn hafi tekið til stofnunar vörzlureiknings hjá VÍB hf., dótturfélags Íslandsbanka-FBA, og viðskipta á ERGO.IS. Í skilmálum samningsins komi fram, að viðskiptamaður geti ekki selt önnur verðbréf samkvæmt skilmálunum en þau, sem skráð séu í vörzlu VÍB hf., hverju sinni, nema sérstök fyrirmæli liggi fyrir. Einnig komi fram, að viðskiptamaður geti komið fyrirmælum eða fyrirspurnum á framfæri við VÍB hf. með skriflegum eða skjallausum hætti, þ.e. með símtali, tölvupósti eða öðrum rafrænum samskiptum. Í skilmálunum komi einnig fram, að slík fyrirmæli skyldu að jafnaði gefin með innslætti á lokuðu svæði á viðskiptasíðu ERGO, þ.e. eftir að viðskiptamaður hafi gefið upp notandaheiti og lykilorð, en í þeim tilvikum, sem fyrirmæli væru gefin með öðrum hætti, væri VÍB hf. heimilt, en ekki skylt, að fara eftir þeim. Þá sé tekið fram, að viðskiptamaður beri sönnunarbyrði fyrir því, að fyrirmæli hafi verið gefin, komi upp ágreiningur milli aðila, sbr. grein 6.2 í fyrrnefndum skilmálum. Greiðslur vegna viðskiptanna skyldu allar fara fram um innlánsreikning viðskiptamanns hjá Íslandsbanka-FBA hf., sem viðskiptamaður hafi gefið upp, eða um tékkareikning sem stofnaður hafi verið samkvæmt umsókn við upphaf viðskiptanna, nema um annað hafi verið samið, sbr. grein 6.3 í skilmálunum. Í skilmálunum sé jafnframt tekið fram, að viðskiptamaður beri fulla ábyrgð á viðskiptum sínum á ERGO, og að tilboð, sem gerð séu í viðskiptakerfi Verðbréfaþings Íslands hf., nú Kauphallar Íslands, séu bindandi og á ábyrgð viðskiptamanns. Það verð, sem fram komi í slíku tilboði, sé skuldbindandi af hálfu viðskiptamanns og tilboðstaka, sbr. grein 15.3.
Kaupverð hlutabréfanna hafi verið samtals að fjárhæð kr. 1.979.698, og þóknun vegna kaupanna hafi numið kr. 19.797. Heildarskuldin vegna viðskiptanna sé því samtals kr. 1.999.495. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf þann 13.10. 2008. Tilraunir til innheimtu skuldarinnar hafi reynzt árangurslausar, og sé málsókn þessi því nauðsynleg.
Byggt sé á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Dráttarvaxtakrafa byggist á III. kafla l. nr. 38/2001. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa styðjist við XXI. kafla l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 sé stefnandi ekki virðisaukaskattsskyldur. Því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
Málsástæður stefnda
Aðalkröfu sína um sýknu kveðst stefndi byggja á því, að ekki hafi verið kominn á bindandi samningur um umrædd hlutafjárkaup, enda beri skjal það, sem lagt hafi verið fram af stefnanda, sbr. dskj. 5, ekki með sér, að um sé að ræða bindandi kauptilboð af hálfu stefnda. Í fyrirsögn þess skjals, sem stefndi hafi undirritað segi, að um sé að ræða „afgreiðslupöntun“, og að undirritaður hafi beðið um eftirfarandi viðskipti. Á engan hátt sé hægt að túlka umrætt skjal þannig, að kaupin eigi sér stað þá þegar, enda sé ekki gert ráð fyrir, að greiðsla eigi sér stað fyrr en þó nokkrum dögum síðar. Tilvísanir í stefnu til ákvæða í samningi milli stefnda og Íslandsbanka-FBA, sem gerður hafi verið fyrir tæpum 9 árum síðan, séu að mestu leyti haldlaus, með vísan til breyttrar löggjafar og neytendasjónarmiða í verðbréfaviðskiptum. Vísað sé til þess, að viðskiptamaður beri, skv. samningnum, „fulla ábyrgð á viðskiptum sínum á ERGO og að tilboð, sem gerð séu í viðskiptakerfi Verðbréfaþings Íslands, nú Kauphallar Íslands, séu bindandi og á ábyrgð viðskiptamanns.“ Hér sé væntanlega verið að vísa til ákvæðis 15.3. í umræddum samningi. Sé ákvæðið skoðað, komi í ljós, að átt sé við tilboð, sem viðskiptamaður framkvæmi milliliðalaust í gegnum SAXESS viðskiptakerfið. Ljóst sé, að ekki sé um slíkt að ræða í því tilviki, sem hér um ræði. Beri þegar af þessari ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði litið svo á, að bindandi kauptilboð hafi komizt á, vísi stefndi til meginreglna kauparéttar um, að áhættan af hinu selda liggi hjá seljanda, þar til afhending hafi farið fram. Umrædd hlutabréf hafi ekki verið færð yfir á vörzlureikning stefnda, og þar með ekki afhent, fyrr en þann 7. október 2008, sbr. dskj. 22. og 23., en á þeim tíma hafði FME tekið yfir bankann og hlutabréfin því að engu orðin. Með aðkomu FME hafi bréfin nánar tiltekið ekki lengur haft til að bera áskilda eiginleika hlutabréfa, þar sem ekki hafi lengur verið unnt að eiga viðskipti með bréfin í Kauphöll Íslands. Hvorki réttindi né skyldur hafi fylgt bréfunum, og þau hafi að öðru leyti verið búin að tapa þeim eiginleikum, sem skráð hlutabréf hafi til að bera. Ekki hafi aðeins verið um það að ræða, að hlutabréfin hefðu fallið í verði, eins og gera megi ráð fyrir að hlutabréf geti gert, heldur hafi þau verið verðlaus og réttindalaus með öllu, þegar að afhendingu þeirra kom. Fráleitt sé að ætla, að kaupanda beri að inna kaupverð af hendi fyrir söluandlag, sem ekki sé lengur til staðar, þegar afhending eigi að eiga sér stað. Mætti líkja slíku við það, að krafin sé greiðsla fyrir ótryggða húseign, sem þegar hafi brunnið til grunna á afhendingar- og greiðsludegi. Beri þegar af þessari ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði litið svo á að bindandi kauptilboð hafi komizt á, leggi stefnandi sérstaka áherzlu á, að þá sé samningurinn engu að síður ógildur á grundvelli forsendubrests. Ljóst sé, að stefndi hafi verið í góðri trú um, að Glitnir banki stæði styrkum stoðum, eftir að íslenska ríkið hafði veitt 84 milljörðum í aukið hlutafé bankans, enda hafi fullyrðingar, bæði stjórnenda bankans og ríkisins í fjölmiðlum, allar verið einróma á þann veg, að bankanum hefði verið bjargað, sbr. dskj. 11.-19. Þegar hlutafjárloforð ríkisins hafi verið dregið til baka og þess í stað sett ný löggjöf, sem ákvörðun FME um yfirtöku bankans byggist á, hafi verið ljóst, að allra veigamestu forsendur stefnda fyrir hlutafjárkaupunum væru alfarið brostnar. Hafi forsendurnar verið svo afgerandi, að um ákvörðunarástæðu hafi verið að ræða af hálfu stefnda. Hafi stefnanda mátt vera fullljóst um þá staðreynd.
Efndir gagnaðila séu mikilvæg forsenda fyrir efndum hvors aðila um sig. Þar sem stefnandi hafi ekki lengur getað afhent þau hlutabréf, sem umrætt kauptilboð tók til, sé ljóst, að forsendur greiðslu af hálfu stefnda hefðu fallið niður.
Kauptilboðið sé, að mati stefnda, enn fremur ógilt með vísan til 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 (smnl.), en þær aðstæður, sem hér um ræði, uppfylli skilyrði beggja tilvitnaðra ákvæða. Varðandi skilyrði 33. gr. smnl., þá sé gert ráð fyrir því, að loforðsmóttakandi/tilboðshafi geti ekki borið fyrir sig löggerning, ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika, sem fyrir hendi voru við gerð löggerningsins og ætla megi, að hann hafi haft vitneskju um. Ekki sé hægt að ætla annað en að yfirmenn bankans hafi vitað um slæma stöðu hans og yfirvofandi gjaldþrot á þeim tíma, sem umrædd pöntun fyrir hlutabréfaviðskiptum átti sér stað, enda verði að telja afar ólíklegt, að svo áhrifamiklir hlutir gerist á rúmlega einni helgi, sem valdi því, að banki fari úr því að vera traust bankastofnun, svo sem haldið hafi verið fram í fjölmiðlum, og yfir í það að vera gjaldþrota. Því til stuðnings vísi stefndi til dskj. nr. 20, þar sem staðfest sé, að Glitnir banki hafi ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga þann 3. október 2008. Verði í það minnsta að telja afar ógætilegt, að starfsmenn stefnanda hafi á þessum tíma beinlínis verið að beina viðskiptavinum inn á fjárfestingar í bankanum. Þær upplýsingar, sem starfsmenn stefnanda hafi gefið stefnda beint, og þær yfirlýsingar, sem gefnar hafi verið í fjölmiðlum af stjórnendum stefnda og af fulltrúum ríkisins, sem nú sé eigandi stefnanda, hafi í bezta falli verið afar ógætilegar, en í versta falli sviksamlegar, enda hafi upplýsingarnar leitt til rangra hugmynda stefnda um öryggi fyrirhugaðrar fjárfestingar.
Stefndi bendi einnig sérstaklega á, að hlutabréf til efnda umræddra hlutafjárkaupa hafi ekki legið fyrir fyrr en 6. október 2008, eftir að neyðarlögin höfðu verið sett, sbr. dskj. 23. Sú staðreynd, að starfsmaður stefnanda hafi haft samband við stefnda að kvöldlagi sunnudagsins 5. október 2008 og beðið hann um að greiða fyrir bréfin fyrr en gert hafi verið ráð fyrir, líti enn einkennilegar út í ljósi þessa, enda sýni atvik og aðstæður allar fram á, að stefnandi hafi vitað, hvert bankinn stefndi, og að hann hafi reynt, í örvæntingu sinni, að innheimta kaupgreiðslur vegna hlutabréfa, sem hvorki hafði verið búið að afla né afhenda þau kaupanda þeirra.
Ákvæði 36. gr. smnl. sé enn víðtækara en ákvæði 33. gr., en skilyrði ákvæðisins séu nánar tiltekið þau, að samningi megi víkja til hliðar að því fullnægðu, að það væri ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við slíkt mat sé m.a. litið til stöðu samningsaðilanna með það fyrir augum að styrkja réttarstöðu neytenda. Í því máli, sem hér um ræði, sé augljóst, að staða stefnda, sem hafi afar takmarkaða reynslu af hlutafjárkaupum, hafi verið talsvert lakari en staða stefnanda, enda um að ræða sölu á hlutabréfum í stefnanda sjálfum. Aftur vísist til þeirra upplýsinga, sem ætla megi, að stefnandi hafi búið yfir um stöðu bankans á þeim tíma, sem kaupin voru gerð. Við mat á því, hvort talið verði ósanngjarnt að bera samning fyrir sig, skuli enn fremur taka tillit til atvika, sem síðar hafi komið til. Þó svo að aðstæður séu eðlilegar við samningsgerðina geti þannig atvik, sem síðar hafi komið til, leitt til þess, að talið yrði ósanngjarnt að bera hann fyrir sig. Afturköllun ríkisins á hlutafjárloforði sínu og tilkoma hinna svokölluðu neyðarlaga og ákvörðun FME um yfirtöku bankans hljóti að teljast til slíkra atvika, enda verði þau til þess, að forsendur kaupanna bresti að öllu leyti. Ákvæðið falli því fullkomlega að þeim aðstæðum, sem hér um ræði, enda hafi söluandlagið ekki lengur verið til, þegar komið hafi verið að greiðslu kaupverðsins. Um mat á því, hvort það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig umrætt kauptilboð, gildi sanngirnissjónarmið, en að mati stefnda geti það vart talizt sanngjarnt að bera fyrir sig kauptilboð, eða öll heldur pöntun á viðskiptum, þannig að tilboðsgjafi/sá sem panti, þurfi að greiða fyrir söluandvirði, sem ekki sé lengur til staðar á afhendingar- og greiðsludegi kaupanna.
Ljóst sé, að stefnandi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar sem fjármálastofnun skv. lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vvskl.), en lögin hafi m.a. innleitt hina svokölluðu MiFID tilskipun Evrópusambandsins. Markmið tilskipunarinnar hafi einna helzt verið að innleiða reglur út frá neytendasjónarmiðum, þar sem fjárfestum sé veitt víðtæk vernd á verðbréfamarkaði, og að auka kröfur til skipulags og stofnunar fjármálafyrirtækja til að takmarka hættu á hagsmunaárekstrum, sem skaðlegir séu fyrir hagsmuni viðskiptavina. Nánar tiltekið hafi stefnandi brotið gegn ákvæðum laganna um góða viðskiptavenju (5. gr.), þar sem hagsmunir stefnda sem viðskiptavinar hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi (hagsmunaárekstrar 8. gr.). Þegar starfsmaður stefnanda hringi í stefnda að kvöldi sunnudagsins 5. október sé ljóst, að ástæða símtalsins sé vitneskja stefnanda um yfirvofandi fall bankans og því reynt að innheimta kaupverð hluta, sem ekki hafi verið afhentir (upplýsingagjöf til viðskiptavina, 14. gr.), m.a. þar sem gert hafi verið lítið úr þeirri áhættu, sem kaupunum fylgdi, öflun upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar og markmið með fyrirhugaðri fjárfestingu (15. gr.), öflun upplýsinga og mat vegna annarra verðbréfaviðskipta (16. gr.), beztu framkvæmd verðbréfaviðskipta (e. best execution, 18. gr.), flokkun viðskiptavina (21. gr., sbr. einnig 27. gr. reglugerðar nr. 995/2007).
Sérstaklega sé því mótmælt, að það hafi nokkurt gildi, að stefnandi hafi lýst því yfir á pöntunareyðublaði, sbr. dskj. nr. 5, að bankanum sé óskylt að „meta hvort fjármálagerningurinn eða þjónustan sé viðeigandi“ fyrir viðskiptavin, þegar hann óski eftir því að eigin frumkvæði að eiga viðskipti með einfalda fjármálagerninga. Í umræddri yfirlýsingu sé vitnað til 16. gr. vvskl. og sé þá væntanlega átt við 4. mgr. þess ákvæðis. Stefndi mótmæli alfarið, að ofangreind ábyrgðarfirring sé gild, þar sem stefndi hafi ekki óskað eftir kaupum á bréfum í Glitni banka að fyrra bragði. Þvert á móti hafi það verið starfsmenn stefnanda, sem í einstefnu hafi ráðlagt stefnda að fjárfesta í umræddum bréfum.
Að lokum sé því mótmælt, að samningur, sem vísað sé til í stefnu á milli stefnda og VÍB, dags. 28.12. 2000, hafi nokkurt gildi í málinu, enda hafi stefnda ekki mátt vera það ljóst, að stefnandi hefði yfirtekið réttindi og skyldur skv. umræddum samningi. Enn fremur sé vísað til þess, að um sé að ræða að öllu leyti úreltan samning, sem gerður hafi verið í tíð laga nr. 13/1996, en síðan þá hafi átt sér stað veigamiklar lagabreytingar, sem tryggi viðskiptavinum mun meiri vernd gagnvart fjármálafyrirtækjunum en áður hafi verið.
Í stefnu sé því haldið fram, að málsókn þessi sé nauðsynleg, þar sem tilraunir til innheimtu hafi reynzt árangurslausar. Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu alfarið, en vísi hins vegar til þess, að stefnandi hafi sýnt af sér fullkomið tómlæti í viðleitni sinni til að innheimta kaupverð umræddra bréfa hjá stefnanda. Þannig hafi stefndi mátt gera ráð fyrir því, að málið væri úr sögunni í kjölfar þess, að starfsmaður bankans hafi tjáð honum, að málið yrði látið niður falla, og að innheimtubréf hafi aðeins verið sent formsins vegna. Með því að aðhafast í engu á tímabilinu frá 13. október 2008 til 20. júní 2009 hafi stefnandi því firrt sig rétti skv. kröfunni, enda hafi stefndi með réttu mátt halda, að málið væri niður fallið.
Með vísan til alls ofangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði aðalkröfu stefnda um sýknu af öllum kröfum hafnað, mótmæli stefndi tilgreiningu í stefnu á upphafi dráttarvaxtaútreiknings. Þannig byggi stefndi varakröfu sína um lækkun kröfu á því, að í ljósi þess, að stefnda hafi verið tjáð af starfsmanni bankans, að ekkert yrði frekar aðhafzt vegna innheimtubréfs, dags. 13. október 2008, sbr. dskj. nr. 7, og að frekari innheimtuaðgerðir hafi ekki átt sér stað, fyrr en með útgáfu stefnu þann 4. júní 2009, sé eðlilegt að miða upphaf dráttarvaxta við uppsögu dóms. Ber því af þessum ástæðum að lækka kröfur stefnanda.
Stefndi vísi aðallega til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum ákvæða III. kafla laganna um ógilda löggerninga, auk annarra meginreglna samningaréttar. Þá vísi stefndi til meginreglna kauparéttar, aðallega meginreglna um gagnkvæma efndarskyldu, afhendingu og áhættu af hinu selda. Stefndi vísi einnig til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og þeirra tilskipana Evrópusambandsins, sem lögin innleiði, einkum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/39/EB (MiFID-tilskipunarinnar). Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur. Sé því nauðsynlegt, að hann fái dæmt álag úr hendi gagnaðila, sem þeirri fjárhæð nemi.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefndi gaf skýrslu fyrir dómi sem og Steinunn Bjarnadóttir, forstöðumaður reksturs- og innra eftirlits hjá eignastýringu Íslandsbanka, og Þórir Örn Árnason, forstöðumaður lögfræðideildar Íslandsbanka.
Samkvæmt afgreiðslupöntun, dags. 1. október 2008, á dskj. nr. 5 óskaði stefnandi eftir að kaupa hlutabréf fyrir að markaðsverði kr. 2.000.000 á hagstæðasta markaðsverði. Samkvæmt svokallaðri bráðabirgðakvittun, ódagsettri, á sama dómskjali, með yfirskriftinni „pöntun fyrir keyptum hlutabréfum í Kauphöll Íslands“, kemur fram, að stefnandi hefði keypt hlutabréf í Glitni banka, að nafnverði 420.318, á gengi 4,71, samtals að fjárhæð kr. 1.979.698. Dagsetning viðskiptanna eru sögð vera 2. október 2008 og dagsetning uppgjörs 7. október 2008.
Steinunn Bjarnadóttir skýrði svo frá fyrir dómi, spurð um hvað fælist í orðinu pöntun á pantanaeyðublaðinu, að það þýddi beiðni um viðskipti. Stefndi hefði fengið bréfin inn á sinn vörzlureikning strax morguninn eftir að pöntunin var undirrituð, enda þótt hann hefði ekki verið búinn að greiða fyrir þau. Dagsetning uppgjörs þýddi hins vegar, að þann dag yrði reikningur stefnda skuldfærður fyrir kaupverðinu. Hún kvað það vera pottþétt, að bréfin hefðu komið inn strax næsta dag, og það ætti að vera hægt að fá það staðfest. Hún kvaðst ekki hafa tímasetningu á því, hvenær viðskiptin hefðu orðið sýnileg í netbanka stefnda. Hún kvaðst ekki hafa veitt stefnda fjármálaráðgjöf enda hefði hann ekki óskað eftir því. Bankinn hefði almennt ekki ráðlagt fólki að kaupa hlutabréf á þessum tíma, þar sem þau hefðu verið að lækka frá júní/júlí 2007, en hún hefði ekki bent stefnda á, að þau hefðu verið að lækka. Spurð um dagsetningar á hreyfingu viðskipta á dskj. nr. 22 hinn 7. október og úthlutuð kaup 6. október og uppgerð 7. október á dskj. nr. 23, svaraði hún því til, að hún væri ekki sérfræðingur í verðbréfum og kynni ekki skýringu á því.
Þórir Örn Árnason skýrði svo frá m.a., að hann hefði ekki vitneskju um, hvenær stefndi hefði fengið hlutabréfin afhent. Afgreiðslupöntunin fæli í sér, að stefndi hefði pantað kaupin, þannig að bankinn hefði þurft að kaupa þessi bréf fyrir hann í Kauphöllinni.
Stefndi heldur því fram, að hann hafi ekki fengið bréfin inn á sinn vörzlureikning hinn 2. október, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda, heldur hafi þau fyrst komið inn hinn 7. október 2008.
Einu gögnin sem fyrir liggja í máli þessu og sýna, hvenær stefndi fékk umrædd hlutabréf á sinn vörzlureikning eða á sitt nafn, eru dskj. nr. 22 og 23. Dskj. nr. 22 stafar frá Nasdaq omx verðbréfaskráningu Íslands, þar sem fram kemur, að á tímabilinu 1. janúar 2008 til 19. október 2008 var eini færsludagur hlutabréfa í Glitni banka hf. á nafn stefnda hinn 7. október 2008, og þá að nafnverði 420.318. Þá kemur fram á dskj. nr. 23, sem ber yfirskriftina „raunumhverfi verðbréfaskráningar“, að þann 7. október hafi farið fram viðskipti frá VÞÍ (uppgerð kaup) 420.318. Um hafi verið að ræða hlutabréf í Glitni banka hf.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ekki hafi verið kominn á bindandi samningur milli aðila; áhættan af hinu selda hvíli á stefnanda, þar til afhending hafi farið fram; forsendur hafi brostið og kaupum rift; brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti; og tómlæti stefnanda.
Samningur sá, sem aðilar byggja viðskipti sín á, er umrædd afgreiðslupöntun. Pöntunin ber ekki með sér að vera gagnkvæmur samningur, enda er hún einungis undirrituð af stefnda, og ekkert í henni, sem virðist binda Glitni banka hf. sem samningsaðila. Það er hins vegar ágreiningslaust með aðilum, að kauptilboð eða pöntun stefnda var samþykkt af hálfu bankans, sem tók að sér að afhenda stefnda hin pöntuðu verðmæti á tilteknum degi, þ.e. 2. október 2008, gegn greiðslu fimm dögum síðar. Stefnandi stóð hins vegar ekki við það að afhenda hin pöntuðu verðmæti á tilsettum tíma, en eins og að framan er rakið, er ósannað, að stefndi hafi fengið umrædd hlutabréf á sinn vörzlureikning fyrr en 7. október 2008. Þann dag voru bréfin hins vegar orðin algerlega verðlaus og voru ekki lengur skráð í Kauphöllinni og engin viðskipti með þau þar, enda verðgildi þeirra 0 krónur. Á þeim tímapunkti höfðu bréfin því ekki lengur þá eiginleika, sem stefndi mátti ætla að þau hefðu, þ.e. að vera hæf til viðskipta og að þeim fylgdu réttindi eða skyldur, svo sem stefndi byggir á. Þegar af þeim sökum, að stefnandi stóð ekki við að afhenda bréfin á umsömdum tíma og enn fremur þar sem afhending umsaminna verðmæta var stefnda í raun ómöguleg síðar, þar sem engin verðmæti voru fyrir hendi, þegar yfirfærsla bréfanna á vörzlureikning stefnda fór fram, mátti stefnanda vera ljóst, að allar forsendur stefnda fyrir kaupum hlutabréfa í Glitni banka voru brostnar. Er því ekki hjá því komizt að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 400.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Ragnar Sær Ragnarsson, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Nýja Glitnis banka hf. í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda kr. 400.000 í málskostnað.