Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2007


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Þjófnaður
  • Nytjastuldur
  • Hegningarauki
  • Skaðabætur


         

Mánudaginn 18. júní 2007.

Nr. 31/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Arnari Vali Valssyni

(Skúli Bjarnason hrl.)

 

Manndráp. Tilraun. Þjófnaður. Nytjastuldur. Hegningarauki. Skaðabætur.

A var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið Y með hnífi í bakið með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulegan áverka. Hann var einnig ákærður fyrir þjófnað og tilraun til nytjastuldar. A játaði í öllum tilvikum þá háttsemi sem honum var gefin að sök, en fyrir Hæstarétti krafðist hann mildunar refsingar og byggði einkum á því að heimfæra ætti árás hans á hendur Y undir 218. gr. almennra hegningarlaga og gæta refsilækkunarástæðna, sbr. 70. gr. og 74. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þótt aðdragandi þess að A stakk Y hefði verið skammur yrði ekki litið framhjá þeim ásetningi, sem bjó að baki för hans um nóttina á fund Y, vopnaður hættulegum hníf. Var ekki talið að A hafi getað dulist þegar hann réðist að Y að bani hlytist eða kynni að hljótast af djúpri hnífsstungu inn í líkama hans. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu A fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Einnig var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu A vegna annarra sakargifta. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár og sex mánuði og var hann jafnframt dæmdur til að greiða Y skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða Y 2.960.626 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. maí 2006 til 2. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst að refsing verði milduð og Y dæmd lægri fjárhæð en gert var með hinum áfrýjaða dómi.

I.

Sakargiftir á hendur ákærða samkvæmt ákæru 7. september 2006 eru í þremur liðum. Í þeim fyrsta er honum gefinn að sök þjófnaður, í öðrum lið tilraun til manndráps og hinum þriðja tilraun til nytjastuldar, allt eins og nánar greinir í héraðsdómi. Ákærði játar í öllum tilvikum þá háttsemi, sem lýst er í ákærunni. Fyrir Hæstarétti hefur vörn hans beinst að öðrum lið hennar, en atvik telur hann hafa orðið með þeim hætti að taka beri kröfu hans um mildun refsingar til greina.

Fyrir héraðsdómi voru teknar skýrslur af allmörgum vitnum um atburði, sem urðu aðfaranótt 14. maí 2006 fyrir utan húsið [...] í Hafnarfirði og lauk þannig að ákærði stakk Y með hnífi neðarlega í bakið með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulegan áverka. Ákærði ásamt tveimur öðrum mönnum hafði knúið þar dyra á heimili Y, gagngert til að ná fundi hans, en ákærði taldi sig eiga óuppgerðar sakir við hann. Var ákærði vopnaður hnífi, sem sat í slíðri, en félagi hans hafnaboltakylfu. Samkvæmi stóð yfir á heimilinu á vegum Y og fór faðir hans til dyra. Er ljóst að eftir aðvörunarorð föðurins þustu gestir út og hófust stimpingar með þeim og aðkomumönnum. Flúðu hinir síðarnefndu inn í bifreið sína og leituðust við að komast burt, sem leiddi til þess að ekið var á einn gestanna. Eftir það braut Y hliðarrúðu á bifreiðinni, þeim megin sem ákærði sat. Snaraðist hann þá út, vatt sér að Y og stakk hann fyrirvaralaust með hnífi. Að því loknu fór hann þegar inn í bifreiðina aftur og var henni ekið á brott. Ber vitnum saman um að rás atburða  hafi verið mjög hröð.

Hnífurinn, sem ákærði beitti, gekk inn í bak Y á milli hryggtinda, inn í mænugöng og skaðaði taugar. Áverkar, sem hann hlaut við atlögu ákærða, voru mjög alvarlegir. Afleiðingunum er lýst í héraðsdómi, svo og hnífnum sem um ræðir í málinu.

Ákærði ber fyrir sig að hann hafi ekki gert sér grein fyrir hver hætta stafaði af því að beita hnífnum og vilji hans hafi ekki staðið til að skaða Y. Verði að líta til þess að ákærði og félagar hans hafi átt við ofurefli að etja og verið á flótta. Högg Y á bílrúðuna, sem splundraðist rétt við höfuð ákærða, hafi jafngilt árás á hann sjálfan. Viðbrögð sín hafi við þessar aðstæður mótast af hræðslu og bræði, en ekki verið yfirveguð ákvörðun um að láta til skarar skríða. Enginn slíkur ásetningur hafi verið fyrir hendi. Heimfærsla brotsins til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi því ekki við, heldur beri að refsa samkvæmt 218. gr. sömu laga. Verði að horfa til allra atvika og gæta refsilækkunarástæðna, sbr. 70. gr. og 74. gr. almennra hegningarlaga.

II.

Ákærði gerði sér sérstakt erindi á fund Y, vopnaður hættulegum hnífi, í þeim tilgangi einum að jafna ætlaðar sakir við hann. Með í þeirri för voru nokkrir félagar ákærða, þar af einn vopnaður barefli. Af framburði vitna, sem rakinn er í héraðsdómi, verður að ganga út frá að ákærði hafi verið reiðubúinn að beita ofbeldi, þótt óvíst sé hve langt hann hafi á því stigi ætlað sér að ganga. Þegar komið var að heimili Y fóru áætlanir hans úrskeiðis, þar eð fleiri voru fyrir til varnar en þeir, sem að sóttu. Af þeim sökum urðu ákærði og félagar hans að hörfa, en atlaga hans að Y var gerð meðan á undanhaldinu stóð eins og áður er komið fram. Þótt aðdragandi þess að ákærði stakk Y hafi verið skammur verður ekki litið framhjá þeim ásetningi, sem bjó að baki för hans um nóttina á fund Y, girtur áðurnefndu vopni. Gat ákærða ekki dulist þegar hann réðist að Y að bani hlytist eða kynni að hljótast af djúpri hnífsstungu inn í líkama hans. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði hafi með verknaði sínum brotið gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Verður jafnframt staðfest sakfelling héraðsdóms vegna brota samkvæmt 1. og 3. lið ákæru.

Refsing fyrir brot, sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt 2. lið ákæru, skal að lágmarki nema fimm ára fangelsi. Eins og málið er vaxið geta þau ákvæði 70. gr. og 74. gr. almennra hegningarlaga, sem vísað er til af hálfu ákærða, ekki leitt til þess að refsing verði ákveðin þannig að farið sé niður fyrir nefnda lágmarksrefsingu. Ákærði er nú jafnframt sakfelldur fyrir fleiri brot, auk þess sem dómur nú er hegningarauki við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2006, sem verður dæmdur með. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi fimm ár og sex mánuðir. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 14. maí 2006.

Y krefst skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð samtals 2.960.626 krónur. Ákærði fellst á fjóra liði kröfunnar, sem eru fyrir tímabundið tekjutjón, þjáningabætur, bætur fyrir skemmdan fatnað og kostnað vegna sjúkraflutnings. Hann fellst jafnframt á að greiða miskabætur, en krefst lækkunar frá því sem ákveðið var í héraðsdómi. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða um þennan lið staðfest, svo og að hafna kröfu um útlagðan kostnað vegna röskunar á ferðaáætlun.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Arnar Valur Valsson, sæti fangelsi í fimm ár og sex mánuði. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 14. maí 2006.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 537.521 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Skúla Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. nóvember 2006

Ár 2006, fimmtudaginn 23. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, af Sveini Sigurkarlssyni héraðsdómara sem dómsformanni og meðdómendunum Guðmundi L. Jóhannessyni héraðsdómara og Halldóri Björnssyni settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-1280/2006: Ákæruvaldið gegn X og Arnari Val Valssyni.

Mál þetta sem dómtekið var 2. þ.m. er höfðað á hendur ákærðu með tveimur ákærum útgefnum af ríkissaksóknara 7. september 2006. Er önnur á hendur ákærða X kt. [...], , Kópavogi en hin á hendur ákærða Arnari Val Valssyni, kt. 091087-3169, Torfufelli 33, Reykjavík.

I.

Í fyrri ákærunni er höfðað mál á hendur ákærða X, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og tilraun til slíkrar líkamsárásar, aðfarnótt sunnudagsins 14. maí 2006, er hann ók bifreiðinni [...] áfram til suðurs eftir [...] í Hafnarfirði, í því skyni að aka á fólk sem statt var á götunni:

1.          Ákærði ók bifreiðinni á A, sem hafnaði á vélarhlíf hennar, kastaðist upp og féll í götuna, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á brjóstkassa, öxl mjöðm og hnjám, tognun í öxl og opið sár á hægri mjaðmakambi.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

2.          Ákærði ók að B sem tókst með naumindum að kasta sér frá bifreiðinni og koma þannig í veg fyrir að ákærði æki á hann. Með þessari háttsemi sinni stofnaði ákærði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu B í augljósan háska.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218., gr. sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, en til vara við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

II.

Í þeirri seinni er höfðað mál á hendur ákærða Arnari Val,

1.          Fyrir þjófnað, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 18. mars 2006, í Álfabakka í Reykjavík, brotist inn í bifreiðina [...] með því að brjóta hliðarrúðu og stolið þaðan hljómflutningstækjum og íþróttatösku sem í voru snyrtivörur, íþróttaskór, íþróttaföt og linsur.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.          Fyrir tilraun til manndráps með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 14. maí 2006, fyrir utan húsið [...] í Hafnarfirði, stungið Y með hnífi neðarlega í bakið hægra megin, með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulegan áverka er hnífurinn gekk inn á milli hryggjartinda, inn í mænugöng og skaðaði taugar.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

3.          Fyrir tilraun til nytjastuldar með því að hafa, í kjölfar atvika sem greind eru í 2. lið, við [...] í Hafnarfirði, reynt að taka vörubifreiðina [...], eign C, ófrjálsri hendi í því skyni að komast undan lögreglunni.

Telst þetta við 1. mgr. 259. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Vátryggingasfélag Íslands hf. krefst bóta að fjárhæð kr. 57.700 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðtyggingu frá 18. mars 2006 til greiðsludags.

Af hálfu Y, kennitala [...], er krafist bóta að fjárhæð kr. 2.960.626 auk dráttarvaxta frá 14. maí 2006 til greiðsludags.

C, kennitala [...], krefst bóta að fjárhæð kr. 158.807

III.

Ákærði X hefur alfarið neitað sök.

Ákærði Arnar Valur hefur skýlaust viðurkennt að vera sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. og 3. lið ákæruskjals en neitað sök um þá háttsemi sem hann er sakaður um í 2. lið ákæruskjalsins. Sagði ákærði Arnar að hann viðurkenndi að hafa stungið Y með hníf neðarlega í bakið hægra megin eins og atlögunni er lýst í ákæruskjali en að það hafi ekki verið ætlun hans að valda Y líkamstjóni.

             Málavextir verða raktir í þremur köflum IV. V. og VI. þannig að fyrst er fjallað um aðdraganda atburðanna og í framhaldi af því um skýrslur ákærða Arnars Vals og síðan X og loks framburðir vitna.

IV.

             Um aðdraganda þessa máls segir í frumskýrslu sem Jón Gunnar Sigurgeirsson lögreglumaður gerði að tilkynning hafi borist um hópslagsmál við [...], Hafnarfirði og er lögreglumenn voru á leið þangað hafi borist tilkynning um að ekið hafi verið á mann og annar stunginn með hníf og að gerendur hefðu stungið af á rauðri Hyundai bifreið. Er lögreglumenn komu á staðinn gáfu tvö ungmenni sig á tal við þá og kváðust hafa séð rauða Hyundai bifreið hverfa af vettvangi á mikilli ferð. Þegar komið var að Móabarði 6b hafi verið þar nokkuð af fólki og sá lögreglumaðurinn Halldór Sveinsson ungmenni kasta hafnarboltakylfu undir bifreið sem þarna var. Gaf sig þá á tal við Halldór drengur að nafni A og sagði að ekið hafi verið á sig. Hafi A verið nokkuð ölvaður að sjá með skrámur á hægri síðu en borið sig nokkuð vel. Þegar þarna var komið voru komnir á staðinn lögreglumenn sem voru að huga að dreng sem hét Y og hafði orðið fyrir hnífstungu. Er lögreglumenn fóru að ræða við vitni þá bárust fljótlega upplýsingar um að hafin væri eftirför og leit að bifreiðinni [...] sem kom við sögu í málinu og að hún hafi fljótlega staðnæmst og að sést hafi til þriggja aðila á hlaupum skammt frá en einn hafi setið í aftursæti bifreiðarinnar og hafi sá, sem heitir D, verið handtekinn af lögreglu. Fundu lögreglumenn X skammt frá liggjandi undir tré. X þessi er eigandi bifreiðarinnar [...] og jafnframt annar ákærðu í málinu. Samkvæmt skýrslu rannsakara var ákærði Arnar Valur handtekinn á heimili sínu vegna gruns um aðild að málinu. Segir í skýrslunni að á lögreglustöðinni um kl. 10:00 um morguninn hafi Arnar Valur játað að hafa stungið Y með hníf og sagt að hann hafi leitað í felur í vörubifreið sem hafi verið við hesthús nærri þeim stað þar sem hann hljóp frá bifreiðinni [...] þar sem hún hafði staðnæmst á Kaldárselsvegi við eftirför lögreglu. Kom fram á leið af vettvangi að bifreiðin hafði verið á ESSO bensínstöðinni við Lækjargötu í Hafnarfirði fyrr um kvöldið. Hafi stöðvarstjórinn verið ræstur út og hafi hann útbúið mynddisk þar sem sjá mátti bifreiðina við stöðina og þá sem í henni voru. Sást á myndbandinu hvar X ekur bifreiðinni og að í farþegasæti sat maður í hvítri peysu með rýting í slíðri fastan við hægra læri. Þá segir í upplýsingaskýrslu að lögreglumenn hafi komið að pilti sem heitir Y fyrir utan [....], Hafnarfirði og hafi faðir hans haldið um stungusár sem var á drengnum og  móðir hans einnig verið hjá honum, en allt í kring hafi verið gestir úr samkvæmi sem hafði verið að [...], Hafnarfirði. Mátti sjá blóðpolla á götunni framan við [...], Hafnarfirði og að þeim stað þar sem Y lá á vinstri hlið. Hafi verið sýnilegt að Y hafði misst mikið blóð en hafi þó verið með meðvitund og kastað upp á meðan hann lá þarna.

Skýrsluhöfundur lýsir því að hann hafi rætt við ákærða Arnar Val í fangamóttökunni að viðstaddri Sólrúnu Bjarnadóttur. Hafi Arnar Valur þá neitað því í fyrstu aðspurður um vopnaburð að hafa borið hníf, en þegar honum var kynnt að fyrir lægju myndir af honum við ESSO bensínstöðina við Lækjargötu sem sýni hann með hníf í slíðri festan við belti kvaðst hann vilja koma hreint fram og sagðist hafa stungið strákinn og spurði um líðan hans. Er skýrsluhöfundur sagði honum að hann væri enn á lífi en tvísýnt hafi verið um líf hans um tíma þá hafi hann sagt „ég vildi að hann hefði drepist“ og sagði svo „það lemur mig sko enginn með hafnarboltakylfu“. Aðspurður nánar um þetta sagði Arnar Valur að Y hefði lamið sig með hafnarboltakylfu. Hafi Arnar að sögn hent hnífnum út úr bifreiðinni við eftirför lögreglu á Kaldárselsvegi. Hafði Arnar að beiðni skýrsluhöfundar samband við vin sinn E, sem hafði tekið við hnífnum og falið hann. Var E sóttur og vísaði hann á hnífinn sem hann hafði falið undir grjóti við Elliðavatnsveg á móts við Urriðakotsvatn. Við leit í umræddri bifreið var haldlögð hvít íþróttapeysa er fannst í aftursæti bifreiðarinnar

V.

Framburður ákærða Arnars Vals. Um framburð fyrir dómi er að ræða nema annað sé tekið fram.

Ákærði Arnar Valur sagði að aðdragandinn að því að þeir félagarnir hafi farið að [...] umrætt kvöld hafi verið sá að strákar sem hann kannaðist við höfðu lent í slagmálum við Y og fleiri skömmu áður eða kvöldið áður. Tilgangurinn hafi í fyrstu verið að ræða við Y en málin hafi þróast þannig að allir hafi komið út og slagsmál brotist út. Kvaðst ákærði aðspurður muna mjög takmarkað eftir því hvað hann hafi sagt við X sem hann hitti við ESSO bensínstöðina fyrir atvikið. Hann muni bara eftir því að talað hafi verið um að fara með einhverjum látum heim til Y. Hann muni ekkert eftir að hafa talað um það í bílnum á leiðinni upp á Móabarð að berja Y. Þeir hafi bankað á dyr til þess að spyrja um Y og hafi þá faðir hans komið til dyra og kallað strax inn að hringja þyrfti í lögregluna. Hafi þeir félagarnir þá hopað aftur út á planið og hann farið fyrstur inn í bílinn en X og D verið fyrir utan hann og einhverjir verið að berja þá. Hann kvaðst hafa orðið reiður og farið út til þess að hjálpa þeim að komast inn í bílinn svo þeir gætu farið burt því þeir hafi ekkert getað gert þarna vegna fjölda andstæðinganna. Þegar þeir voru að fara í burtu þá hafi hinir verið að sparka í bílinn og brjótandi í honum rúður. Þeir hafi því bakkað á mikilli ferð frá og hafi þá einhver orðið fyrir bílnum. Þeir hafi síðan bakkað  á planinu og út götuna en einhver hinna hafi haldið áfram að sparka í bílinn alveg út götuna. Hafi hann þá farið út úr bílnum og orðið svolítið reiður og ætlað að ýta honum frá en sá hafi þá verið með einhver leiðindi og reynt að slá til sín og þá hafi ákærði ýtt til hans og stungið hann með hnífnum. Kom fram í skýrslu Arnars hjá lögreglu þann 26. maí sl. að það hafi liðið um það bil 40 sekúndur frá því að hann fór út úr bílnum þar til hann var kominn inní bílinn aftur eftir að hafa stungið Y. Sagðist ákærði ekki hafa vitað hver það var sem hann stakk. Hann hafi ekki þekkt Y neitt. Sagði ákærði að allt að þrjátíu manns hafi verið þarna á staðnum eða ,,alveg heilt partý” og nær þrjátíu en sjö manns Sagðist Arnar Valur hafa tekið hnífinn úr slíðrinu rétt eftir að hann fór út úr bílnum en fram að því hafi hnífurinn verið laus í slíðrinu. Hann kvaðst kannast við að hafnarboltakylfa hafi verið í bílnum en vissi  ekki hvað af henni varð í látunum. Þegar hann hafi stungið strákinn sagðist hann hafa staðið til hliðar við hann. Hann hafi ekki beitt miklu afli enda aldrei verið meiningin að meiða hann svona eins og raunin varð.  Hann hafi ekkert verið búinn að velta því fyrir sér hvaða afleiðingar hnífstungan gæti haft í för með sér. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en eftir á að stungan gæti verið lífshættuleg. Hann hafi dregið hnífinn strax úr sárinu en stífara hafi verið að ná hnífnum út en reka hann inn því hann hafi þurft að rykkja í hnífinn til þess að ná honum út. Hann muni ekkert eftir því að hafa hreyft hnífinn eða snúið honum í sárinu. Sagði ákærði að hann hafi ekki séð það skýrt þegar keyrt var á einhvern þegar þeir voru að fara af staðnum. Hann hafi vissulega orðið þess var að einhver hafi orðið fyrir bílnum en sú ákeyrsla hljóti að hafa verið óviljaverk. X  hafi fyrst keyrt áfram og síðan bakkað út götuna. Þeir hafi fyrst keyrt áfram til þess að hagræða bílnum til þess að bakka út götuna. Ekki hafi verið keyrt á fólk meðan verið var að sparka í bílinn. Fyrir dóminum var borinn undir ákærða framburður hans fyrir lögreglu þann 14. maí sl. þar sem haft er eftir honum að X hafi orðið mjög reiður og tekið sig til og keyrt á tvo stráka. Mótmælir ákærði Arnar Valur því ekki að þetta sé rétt eftir honum haft en þetta megi skilja á allt að þrjá vegu og sé hann þeirrar skoðunar að X hafi ekki ætlað sér að keyra á strákana. Er ákærði Arnar var inntur eftir því við skýrslutöku hjá lögreglu þann 23. maí sl. hvað hann ætti við með þessu framburði sínum sagði hann  „Auðvitað var X reiður þar sem þeir voru að sparka í bílinn hans. Hann setti í gír og gaf í og keyrði beint á strákana.“ Ákærði Arnar Valur kvaðst hafa verið undir áfengisáhrifum þegar þessir atburðir gerðust og muni hann því hlutina misvel.  D hafi verið með hafnarboltakylfuna en hann hafi ekki séð Y með hana. Þeir hafi allir verið komnir inn í bílinn þegar byrjað var að sparka í hann. Hnífinn hafi hann verið með til þess að tryggja öryggi sitt. Hann kvaðst hafa fengið hnífinn lánaðan fyrr um kvöldið og ætlað að nota hann til þess að geta ógnað. Notkun hans á hnífnum hafi verið ónauðsynleg en hann hafi verið í æstu skapi vegna áfengisáhrifa.

Í skýrslu hjá lögreglu þann 14. maí sl. sagði ákærði aðspurður um erindið að [...] til Y að það hafi verið að ógna honum og sýna honum að hann hefði gert rangt með því að lemja kærustu ,,X.“ Þá sagði hann að hann hafi fundið aðeins til áfengisáhrifa er hann stakk piltinn með hnífnum.

Ákærði X sagði fyrir dómi að tildrög þess að þeir fóru umrætt kvöld upp að [...] hafi verið þau að þeir hafi ætlað að tala við Y af því að einhver slagsmál höfðu orðið fyrr um kvöldið en þau slagsmál tengdust þeim félögunum ekki neitt. Það voru vinir þeirra sem Y og fleiri höfðu verið að lemja. Hann kvaðst ekki vita um hvað átti að tala við Y og ekkert hafi verið rætt um hvað til stæði en helst var á honum að skilja að átt hafi að spyrja Y út í þetta. F og G sem voru með þeim í bílnum hafi farið með ákærðu og D til þess að vísa þeim til vegar heim til Y. Kannaðist X ekki við að minnst hafi verið á það í bílnum að berja Y og hugsanlega foreldra hans eða móður hans væri hann ekki heima. Hann kvaðst ekki hafa séð neina aðra við ESSO bensístöðina, sem koma við sögu, en þá tvo sem komu með þeim í bílnum. Þeir hafi bankað  uppá á [...] og hafi faðir Y sem var með læti og æsing komið til dyra og og farið að ýta þeim burtu en þá hafi farið að streyma ekki færri en 15 til 20 strákar út úr húsinu. Hafi þeir félagarnir  þá ætlað að fara út í bíl og koma sér í burtu. Sagðist X ekki hafa séð hnífinn sem um ræðir fyrr en eftir hnífstunguna. Hann kvaðst muna eftir því að D hafi verið með hafnarboltakylfu sem faðir Y hafi tekið af honum. Hann hafi ætlað að hlaupa út í bíl og orðið skíthræddur þegar honum var hrint í götuna. Er hann og F hafi verið komnir inn í bílinn hafi hann ætlað að bakka burt og út götuna, en þá hafi strákarnir farið að berja bílinn utan og brotið eina rúðuna. Hann muni ekki eftir því að hafa keyrt á neinn og ekki heldur hvenær rúðan brotnaði. Sagði X að farþegahurðin hafi beyglast vegna sparka í hana þegar hún stóð opin og eftir það hafi ekki verið hægt að loka henni. Hann kvaðst muna eftir því að hafa drepið á bílnum þegar hann bakkaði og síðan sett hann á mikinn snúning þegar hann ræsti hann aftur. Hann hafi þurft að keyra áfram til þess að loka hurðinni áður en hann bakkaði út götuna. Fólk hafi verið allt í kringum bílinn og hann sjálfur verið skíthræddur og farið að reyna að snúa við til þess að koma sér í burtu. Sagði ákærði X að hann hafi verið búinn að drekka einn bjór fyrr um kvöldið og ekki fundið til neinna áfengisáhrifa en nánar aðspurður kannaðist hann við að hafa drukkið nokkra sopa úr flösku með vodkablöndu fyrir utan [...]. Sagði X að hann hafi stoppað bílinn eftir að þeir gátu ekið burtu en það hafi verið þegar ákærði Arnar fór út úr honum þegar hliðarrúðan brotnaði og hafi hann beðið þar til hann var kominn aftur inn í bílinn. Bíllinn hafi þá drepið á sér þegar hann stoppaði.

VI.

Framburðir vitna fyrir dómi sé annað ekki tekið fram.

Vitnið Theódór Friðriksson, læknir, sem tók á móti Y á slysadeild eftir hnífstunguna lýst því að Y hafi veri með allt að 15 cm langan skurð sem hafi greinilega verið djúpur og gengið niður í vöðvalög auk þess sem hann hafi verið með lækkaðan blóðþrýsting og hraðan púls sem benti til blóðmissis. Hafi Y verið sendur í sneiðmyndatöku og síðan sinnt af skurðlæknum eftir það. Hafi komið í ljós á sneiðmynd að hnífslagið lá allt inn í mænugöng. Hann lýsti því áliti sínu að talsverðu afli hljóti  að hafa verið beitt til þess að stinga þannig að lagið gengi allt inn í mænugang. Taldi vitnið að Y hafi ekki beinlínis verið í lífshættu eftir að hann var kominn á slysadeild. Varðandi áverka á A segir vitnið að þeir geti alveg samræmst því að hann hafi lent í götunni eftir fall og líklegt sé að hann jafni sig af þeim eftir nokkurn tíma. Telur vitnið líklegt að þeir áverkar sem voru á A við skoðun á slysadeild hafi verið eftir eina ákomu vegna þess að áverkarnir séu allir sömu megin.

Vitnið Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur sagðist byggja mat sitt, sem fyrir liggur í málinu og hún hefur staðfest, á læknisfræðilegum gögnum svo sem vottorðum annarra lækna og sneiðmynda. Kvaðst hún hafa áætlað lengd sársins af fingri sem sést á mynd af sárinu og geti því verið að hún hafi áætlað lengd sársins minni en hún hafi í raun verið og telur vel hugsanlegt að það hafi verið 15 cm langt. Varðandi kraft þann sem notaður hafi verið við stunguna telur hún sig geta fullyrt að hann hafi verið að minnsta kosti það sem hún kallar meðalmikill. Mikil blóðstorka hafi verið í sárinu á Y sem hafi verið fölur, með hraðan púls og blóðþrýsing í lægri mörkum, en þetta segi henni það að ef það hefði dregist að hann kæmist undir læknishendur þá gæti blæðingin hafa orðið lífshættuleg og leitt til þess að hann hefði farið í lost og látist af þeim völdum. Hún telur að sýking, sem hefði getað komið í mænugöng vegna áverkans væri ekki brugðist við með læknisaðgerð eins og gert var, hefði einnig getað leitt til dauða en á lengri tíma en vegna blæðingarinnar.

Vitnið X sem var staddur á ESSO planinu umrætt kvöld kannast við að hafa hitt stráka sem voru að leita að Y og hafi hann talið sig vita um hvaða Y þeir voru að tala en sjálfur hafi vitnið verið nýkominn frá honum. Hafi þeir spurt hvort hann vissi hvar  Y ætti heima og hann sagt þeim að hann vissi það. Hafi þeir þá spurt hvort hann vildi koma inn í bíl sem þeir voru á en hann hafi neitað því og þá hafi sá sem spurði sýnt honum hníf sem hann var með. Þeir sem töluðu við hann hafi veri tveir og hafi þeir fengið einhvern annan strák úr Hafnarfirði upp í bílinn til þess að vísa þeim veginn. Kvaðst vitnið hafa sagt að hann ætlaði ekki  að vísa þeim veginn enda væri Y örugglega ekki heima og þá hafi sá sem sýndi honum hnífinn sagt að hann ætlaði að fara  og stinga Y eða mömmu hans og pabba ef Y væri ekki heima. Kvaðst vitnið ekki hafa viljað vísa þeim veginn vegna þess að Y væri vinur hans og honum hafi ekki litist neitt á að þeir færu að heimsækja hann. Sagði vitnið að strákurinn sem var með hnífinn hafi verið dálítið æstur og ör. Sagði vitnið að þegar hann hafi farið úr afmælinu hjá L skömmu áður hafi verið þar 10, 20 eða 30 manns. H frændi hans hafði verið með honum hjá ESSO bensínstöðinni en brugðið sé frá og komið aftur er félagarnir voru að fara.

Vitnið G kvaðst hafa verið við ESSO bensínstöðina með vini sínum F og hafi hann haldið að vinur hans væri búinn að fá far fyrir þá báða í umræddum bíl en það hafi ekki verið fyrr en þeir voru komnir af stað að hann heyrði að til stæði að fara heim til Y  í þeim tilgangi að lemja hann eða stinga eða allavega berja hann. Þegar þeir komu upp að [...] hafi hann og F staðið spölkorn frá dyrunum þegar hinir þrír sem komu í bílnum með þeim bönkuðu á dyrnar og þegar sá sem kom til dyra hafi séð að einn komumanna var með hafnarboltakylfu hafi hann alveg brjálast og sagt þeim að fara og að hann myndi hringja í lögreglu. Þá hafi hann og F Þór hlaupið burtu.

Vitnið A kvaðst hafa verið í 15 til 20 manna  samkvæmi hjá Y að [...] umrætt kvöld. Um kvöldið hafi verið bankað þar á dyr og hafi  faðir Y farið  til dyra og stuggað komumönnum frá og tekið hafnarboltakylfu af einum þeirra. Í kjölfarið hafi hann og Y hlaupið út ásamt tveimur öðrum og  hafi þá komið til ryskinga fyrir utan og verið keyrt á vitnið. Sagðist vitnið ekki hafa þekkt neinn af komumönnum sem hafi verið þrír eða fjórir en hann hafi slegist við einn þeirra sem hafi fallið í götuna og síðan verið bakkað á. Sagði vitnið að sá sem hann slóst við hafi ekki verið sá sem kom með hafnarboltakylfuna. Hafi sá sem keyrði á vitnið verið búinn að bakka bílnum áður en hann keyrði á hann og þá hafi engu mátt muna ökumaðurinn keyrði á einn félaga sinna. Þegar vitnið varð fyrir bílnum kvaðst hann hafa snúið baki í bílinn sem var vínrauður Hyundai bíll. Rétt áður hafi verið kallað til hans að passa sig en hann hafi ekki náð að koma sér undan bílnum, einhverjir hafi verið í kringum hann en hann viti ekki hverjir þeir voru. Hann hafi ekki heyrt neitt bremsuhljóð áður en bíllinn lenti á honum og hafi hann skollið í götuna og steinrotast. Við þetta hafi hann meiðst á fæti og mjöðm, tognað á annarri öxlinni sem hann finni enn fyrir við vissar aðstæður. Aðspurður kvaðst hann þess fullviss að hann hafi enga áverka hlotið í slagsmálum fyrir utan [...] en hann muni ekkert sjálfur frá því að hann var á gangi þar í áttina að dyrunum þangað til hann var kominn í sjúkrabíl. Tók vitnið fram að hann styddist við frásagnir annarra um að keyrt hafi verið á hann.

Vitnið D sagðist vilja halda sig við það sem hann hafi sagt í lögregluskýrslu og vilji engu við það bæta. Hann hafi lesið skýrslurnar yfir á sínum tíma og minnið sé svo gloppótt að hann geti engu við það bætt. Í skýrslu hjá lögreglu þann 14. maí sl. sagði D að hann hafi verið sóttur af kunningjum sínum Arnari Val og X umrætt kvöld og hafi þeir komið við á bensínstöð í Hafnarfirði og síðan ætlað að heimsækja Y en hann muni ekki hver átti frumkvæðið. Þeir hafi ætlað að tala við Y vegna þess að hann hafi skömmu áður lamið félaga þeirra. Vitnið kannast við að hafa verið með hafnarboltakylfu sem hafi verið í bílnum er þeir knúðu dyra heim hjá Y og um leið og opnað var hafi komið í ljós að margir voru innan dyra og einhver hafi kallað upp að hringja þyrfti í lögreglu. Hafi margir þeirra sem voru innan dyra gert sig líklega til þess að berja á þeim þremur og hafi þrír þeirra reynt að berja til hans með hnífum og hugsanlega öðrum bareflum en hann hafi þó ekkert meiðst. Hann kannaðist ekki við að X hafi ekið á neinn og hann hafi ekki séð neinn félaga sinna vera með hníf eða hnífum beitt.

Vitnið I sem var einn gesta í umræddu samkvæmi sagðist kannast við að einhverjir strákar hafi komið þangað í umrætt sinn og einhverjir hafi hlaupið út og að komið hafi til átaka fyrir utan og síðan hafi einhver sem var á bíl augljóslega verið að reyna að keyra á alla og hafi hann sjálfur forðað sér upp á stein. Hann hafi séð Y liggja á jörðinni og haldið að að Y hafi verið sleginn en hann hafi ekki séð Y slá neinn. Sagði vitnið að hann hafi verið um það bil fjóra metra frá Y þegar einhver hafi komið út úr bílnum á þeim stað þar sem Y stóð og farið strax inn í hann aftur en Y legið eftir. Svar vitnisins við þeirri spurningu hvort komið hafi til átaka milli Y og þess sem kom út úr bílnum er svo ruglingslegt að ekki er hægt að henda á því reiður. Hann kvaðst hafa séð þegar keyrt var á A hjá bílastæðinu við heimili Y en ökumaðurinn hafi hægt aðeins á sér áður en hann ók á hann, sem sneri baki að bílnum, án þess þó að hann hafi heyrt bremsuhljóð og hafi hægra framhorn bílsins lent á A. Sagði vitnið að fólkið fyrir utan hafi ekki reynt að hefta för bílsins og ökumaður hefði getað ekið burt hefði hann viljað. Sagðist vitnið ekki muna tímaröð atburðanna almennilega. Kvaðst vitnið vera félagi Y og A.

Vitnið J sem var einn gesta í umræddu samkvæmi sagði að bankað hafi verið á dyr og hafi pabbi Y farið til dyra og í kjölfarið hafi orðið einhver slagsmál en X kunningi vitnisins hafi sagt honum fyrr um kvöldið að von væri á strákum sem ætluðu að berja Y. Kvaðst vitnið hafa séð þegar bíl sem var fyrir utan var bakkað og síðan gefið í og keyrt á A en hann muni ekki hvort ökumaður hafi þá verið einn í bílnum. Hafi bíllinn farið fram hjá honum og beint á A og svo hafi bílnum verið bakkað aftur og þá hafi Y hlaupið á eftir bílnum og hafi hann þá heyrt brothljóð. Einhver hafi komið út úr bílnum og ýtt  Y yfir eitthvert  grindverk en vitnið hafi ekki séð hann stinga Y sem hafi hnigið niður. Sagðist vitnið hafa séð að þegar A varð fyrir framstuðaranum á bílnum þá hafi ökumaðurinn ekki hægt neitt ferðina og ekið viljandi á A. Eftir að vitnið heyrði brothljóð hafi hann séð að rúðan farþegamegin í bílnum var brotin. Aðspurt sagði vitni sig ráma í að hurðin hafi einhvern tíma í atburðarásinni verið opin þeim megin þegar bílnum var bakkað meðfram girðingunni en heldur að það hafi verið áður en Y hneig niður nálægt innkeyrslunni að [...].

Vitnið Garðar Guðmundsson, læknir, sagði um þá áverka sem Y hlaut þann 14. maí sl. að við stunguna hafi skorist í sundur nokkrar taugar og að hnífurinn hafi stöðvast í hryggjarliðnum en ekki hafi þurft neina sérstaka krafta til þess að stinga svona. Engu hafi mátt muna að lagið lenti á svæði þar sem eru stórar æðar og mikilvæg líffæri eins og þarmar og nýru. Taldi vitnið að Y hafi ekki verið í lífshættu en eins og á stóð hafi verið nauðsynlegt að loka með skurðaðgerð opi sem komið hafði á mænugöngin að öðrum kosti hefði mænuvökvinn lekið út sem leitt hefði til heilahimnubólgu sem vissulega geti verið lífshættuleg.

Vitnið K, móðir Y, sagði að um sjö til átta krakkar hafi verið eftir í samkvæminu þegar umræddir atburðir gerðust. Sagði hún að hringt hafi verið dyrabjöllu og maður hennar M hafi farið til dyra og fljótlega kallað til hennar að hringja þyrfti í lögregluna. Hún hafi fyrst litið út um glugga en síðan farið út. Þegar aðkomumennirnir voru komnir inn í bifreið sína hafi henni verið bakkað á fullri ferð niður eftir götunni og síðan hafi henni verið ekið á fleygiferð til baka og beint á A án þess að bremsa fyrr en að því loknu. Hafi A, sem sneri baki í bílinn, henst upp í loft og rotast. Hafi hún þá heyrt brothljóð og séð bílinn nálgast en síðan bakka á fullri ferð út götuna. Kom í  ljós að Y hafði verið stunginn og hafi lögregla og sjúkrabíll komið fljótlega. Sagði vitnið að sonur hennar hafi ekkert getað unnið eftir atburðinn og eigi í erfiðleikum með hægðir og geti ekki pissað sjáfur auk þess að vera með skerta líkamskrafta.

Vitnið Y, sagðist hafa átt afmæli þennan dag en frá því um kl. þrjú um daginn hafi honum borist hótanir í síma um að hann yrði barinn eða drepinn. Hann muni ekki hvort þeir sem voru með hótanirnar hefðu nafngreint sig. Hafi besti vinur hans, X, hringt í hann frá ESSO í Hafnarfirði og sagt að þar hafi komið strákur með hníf sem væri á leiðinni heim til hans í þeim tilgangi að drepa hann. Sagði Y að þegar einhverjir hafi hringt dyrabjöllunni hafi faðir hans farið til dyra og sagt aðkomumönnunum að fara í burtu og síðan hafi allt farið í háaloft. Hann hafi svo séð þegar ekið var á A vin hans og hafi hann þá elt bílinn og stokkið og sparkað í bílrúðuna farþegamegin og brotið hana en um leið og hann lenti eftir sparkið þá hafi hann ekki getað staðið upp eða hreyft sig. Hann hafi séð dökkhærðan mann sem hann ekki þekkti koma út úr bílnum í þann mund er hann lenti og hafi hann því næstum snúið í þann mann baki. Hann hafi ekki orðið stungunnar var heldur vaknað uppi á spítala á mánudeginum næsta. Kvaðst vitnið ekki hafa lent í neinum ryskingum við þann sem kom út úr bílnum enda hafi hann ekki getað það vegna þess að hann sneri í hann baki. Áður en ekið var á A hafi hann séð bifreiðinni bakkað og síðan hafi henni verið ekið beint á A án þess að bremsa áður og er henni var bakkað aftur og þá hafi hann hlaupið að bifreiðinni. Hafi bifreiðinni í raun verið ekið á hóp en allir hefðu náð að forða sér nema A. Sagðist vitnið aldrei haft hönd á hafnarboltakylfu sem hann sá einhvern strák með. Hann hafi séð föður sinn rífa kylfuna af stráknum. Sagðist vitnið ekki hafa verið undir áhrifum annars en áfengis sem hafi verið lítil og kannast ekki við að hafa lent í neinum slagmálum í umrætt sinn. Sagði vitnið að það hefði mjög lítið þol eftir hnífstunguna og geti ekki pissað eða haft hægðir eðlilega. Hann haltri auk þess að vera með ljótt ör sem hann skammist sín fyrir. Þá finnist honum hann finna fyrir versnandi verkjum vegna stungunnar og hann geti ekki stundað áhugamál sín. Sagði Y aðspurður að hann geti illa gert sér grein fyrir því hversu langur tími hafi liðið frá því að bankað var á dyrnar þar til hann lá á jörðinni eftir stunguna en giskar á  fimm til tíu mínútur.

Vitnið M, faðir vitnisins Y sagði að samkvæmi hafi verið í gangi þegar þau hjónin komu heim um kl. 23:30 um kvöldið en um nóttina hafi verið hringt dyrabjöllu og hann farið til dyra. Sagði vitnið að frá því að þau komu heim hafi verið um það rætt að einhver hefði verið með hótanir um að koma og  þegar hann hafi komið til dyra þá hafi staðið þar fjórir strákar og heimtað með þjósti að fá að tala við Y. Hafi hann sagt þeim að hann væri ekki þarna og þeir skyldu bara koma sér í burtu. Þeir hafi ekki gert sig neitt líklega til þess að fara og hafi hann ýtt þeim frá og tekið hafnarboltakylfu af einum þeirra. Í kjölfarið hafi einhverjir af þeim sem voru í samkvæminu komið út og komið til átaka milli þeirra og komumanna en einn þeirra, bílstjórinn, hafi farið inn í bílinn og bakkað burtu. Hafi hann reynt að stöðva slagsmálin en hann muni ekki hverjir voru að slást. Hann kveðst þó vera viss um að Y hafi ekki tekið neinn þátt í slagsmálunum enda hafi hann sagt Y að halda sig til hlés. Hafi vitnið næst séð að bílnum var gefið í botn og virtist ætlunin að keyra vísvitandi á þá þrjá sem voru í vegi fyrir bílnum en einn strákur sem lá á götunni eftir slagsmálin hafi rétt náð að velta sér frá til þess að að verða ekki  fyrir bílnum. Þegar vitnið sá hvað verða vildi hafi hann öskrað á strákana til þess að vara þá við bílnum en þeir sem voru með A hafi náð að forða sér en hann ekki enda hafi hann snúið baki í bílinn. Í þann  mund hafi hann heyrt eitthvert ,,splasshljóð” neðar í götunni og séð einhvern liggja þar og svo hafi hann séð á klæðnaði þess sem þar lá að það var Y sonur hans og hélt hann í fyrstu að bílnum hefði verið ekið á hann. Hann hafi farið til hans og þegar hann ætlaði að hjálpa honum á fætur þá hafi hann ekki getað staðið í fæturna. Áttaði hann sig fljólega á því hvers kyns var því blóðið pumpaðist úr sári sem Y hafði fengið. Sagði vitnið að þegar ekið var á A þá hafi hann verið staddur nærri bílastæðinu við hús sitt. Kvaðst vitnið ekki hafa orðið var við að bifreiðin dræpi neitt á sér. Kannaðist vitnið við að hafa bankað í framrúðuna bílstjóramegin með hafnarboltakylfunni sem hann tók af einum aðkomumannanna. Taldi vitnið að þessi atburðarás hafi hugsanlega staðið í 10 til 15 mínútur og þegar hann opnaði fyrir aðkomumönnunum hafi honum fundist þeir vera ógnandi og ekki komnir til þess að spjalla og ekki sagt á sér deili. Sagði vitnið að um tvöleytið um nóttina hefðu verið á milli sjö og átta gestir eftir í samkvæminu. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð nein tormerki á því fyrir þann sem ók bifreiðinn að aka burtu  hindrunarlaust, því fólkið sem var þarna hafi ekki með neinum hætti þvælst fyrir bifreiðinni og komið þannig í veg fyrir brottför hennar a.m.k. ekki viljandi.

Vitnið N sem var einn samkvæmisgesta sagði að þegar bankað var uppá um nóttinna hafi sex til sjö gestir verið eftir. Hann hafi séð föður Y taka hafnarboltakylfu af einum aðkomumanna og síðan hafi orðið einhver átök og svo hafi hann séð þegar einn strákanna sem kom hafi ekið bíl á A. Hafi hann þá farið inn og sagt að hringja þyrfti á lögreglu en þegar hann kom út aftur hafi verið búið að stinga Y. Hann muni ekki vel sökum ölvunar hverjir voru að slást en man þó að hann hafi slegist sjálfur og einnig A, B og J en kvaðst  ekki vita hvort  Y hafi gert það.

Vitnið O kvaðst hafa séð umrædda atburði. Henni hafi verið litið út um svefnherbergisgluggann er hún vaknaði við einhvern hávaða og hafi hún þá séð fullt af krökkum hlaupandi um allt og bíl aka áfram og á einhverja krakka. Hafi henni sýnst einn liggja eftir en bíllinn hafi bakkað á fullu í burtu. Virtist vitninu annar liggja líka en lengra í burtu og hafi hún haldið að keyrt hafi verið á hann líka. Sagði vitnið að henni hafi virst vera mikill æsingur í krökkunum en hún hafi ekki veitt því athygli hvort hurð á bílnum hafi verið opin en henni hafi virst vera ekið viljandi inn í krakkahópinn og minnist þess að hafa sagt er hún lét lögreglu vita að einhver væri að aka á krakka. Hafi þessi atburðarás að henni fannst staðið mjög stutta stund, ekki tíu frekar eina eða tvær mínútur.

Vitnið P sagði að hann hafi verið með kunningja sínum sem náði í Arnar Val í sumarbústað. Hafi Arnar Valur sagt að hann hafi stungið einhvern gaur  rétt hjá OB bensínstöðinni og talað um að hann yrði að sætta sig við að fara á Hraunið. Hafi Arnar Valur verið að pæla í því hvort finnast myndu sönnunargögn sem tengdu hann við þetta. Hafði vitnið eftir Arnari Val að hnífurinn hefði farið alveg inní bakið á þeim sem hann stakk og að hnífurinn hefði festst og hann hafi þurft að rykkja í hann til þess að ná honum út. Fannst vitninu eins og Arnar væri með ,,smá samviskubit“ og hræddur um að hafa drepið strákinn. Arnar hafi ekki nefnt hvern hann hafi stungið heldur bara talað um að hafa stungið einhvern gaur.

Vitnið Jón Gunnar Sigurgeirsson, rannsóknarlögreglumaður, sagði að Arnar Valur hefði spurt um það í fangaklefanum hvernig þeim liði sem hann hafi stungið og þegar honum var sagt að hann væri lifandi hafi Arnar sagt efnislega að hann vildi að hann hefði drepist. Arnar Valur hafi nafngreint Y en lögregla hafi ekki gefið honum neinar upplýsingar um það hver hafi verið stunginn á þessu stigi. För eftir hjól bifreiðar sem sjá mátti á vettvangi hafi vitnið talið vera annars vegar  spólför og hins vegar bremsuför. Þau sem voru nær [...] hafi verið bremsuför en þau sem voru fjær spólför en þetta megi ráða af því að þegar beygja er í förum bendi það til spólfara en bremsuför séu bein. Kvaðst vitnið hafa séð förin auðveldlega þegar hann kom á vettvang enda hafi ekki verið myrkur.

Vitnið F sagði um samskipti við stráka við ESSO bensínstöðina að þeir hefðu spurt sig hvort hann þekkti Y sem hann hafi gert því þeir hafi verið saman verið í skóla. Hafi strákarnir boðið honum að koma með en hann hafi vitað um samkvæmi heima hjá Y og því farið með þeim í bílnum til þess að vísa þeim veginn. Sagði vitnið að strákarnir hafi verið að tala illa um Y áður en þeir fóru inn í bílinn en hann talið þetta saklaust þar til á  leiðinni er þeir fóru að tala um að hóta honum lífláti. Hann hafi ekkert þorað að segja því þeir hafi verið með hníf og hafnarboltakylfu og hann orðið mjög hræddur. Hafi vitnið haldið fyrst að þeir væru á leiðinni í partý. Þegar komið var á staðinn hafi þeir hringt dyrabjöllu og hafi pabbi Y komið til dyra og öskrað eitthvað á þá og þá hafi hann og félagi hans G hlaupið í burtu.  Þegar borið var undir hann það sem hann bar hjá lögreglu um það að strákarnir hafi sagt að þeir ætluðu heim til Y til þess að berja hann, eða foreldra hans ef hann ekki væri heima, og eins að hann hafi ekki heyrt þá tala um að beita hnífnum, sagði vitnið að þeir hafi talað um mjög grófa hluti en hann muni ekki nákvæmlega hvað þeir sögðu en hann hafi séð hnífinn. Þetta sé því rétt eftir honum haft. Kvaðst vitnið hafa séð þann sem var með hnífinn veifa honum á átt að húsinu fyrir utan heimili Y.

Vitnið Q kvaðst hafa orðið vitni að umræddum atburðum, hann hafi séð hópslagsmál og síðan hafi verið keyrt á einn strák, A, sem ekki hafi náð að forða sér. Y hafi þá hlaupið að bílnum og barið í hann og brotið rúðu í honum en síðan hafi komið strákur út úr bílnum og veist að honum og eftir nokkrar sekúndur hafi Y hnigið niður. Þegar þetta gerðist hafi verið greið leið fyrir bílinn að fara í burtu. Sagði vitnið að áður en keyrt var á strákinn hafi bílinn næstum bakkað á sig en síðan ,,negldi hann niður“ og keyrði á A sem hafi dottið. Ekki kvaðst vitnið hafa séð A taka þátt í neinum slagsmálum.

Vitnið R sagðist hafa séð bifreið ekið inn [...] á miklum hraða og á einn strák. Fannst honum sem það hafi bara verið tilviljun að fleiri urðu ekki fyrir henni. Hafi sá sem varð fyrir bílnum lent á horni hans farþegamegin og við þetta hafi hann fallið í götuna og legið nokkuð lengi hreyfingarlaus. Síðan hafi bílnum verið bakkað á miklum hraða til baka sem ,,ekki var síður brjálæðislegt.“ Kvaðst vitnið svo hafa misst sjónar af bílnum en hann hafi séð þetta út um stofugluggann á heimili sínu sem þá var.

Vitnið B kvaðst hafa verið í umræddu samkvæmi. Sagði vitnið að komið hafi til einhverra hópslagsmála við aðkomumenn sem bönkuðu uppá um nóttina en hann hafi ekki tekið þátt í þeim. Vitnið sagðist hafa séð þegar keyrt var á A en ,,það hafi eiginlega verið keyrt svona tvisvar á hann.“ Kvaðst vitnið hafa staðið þarna úti en hlaupið inn þegar hann sá hvað gerðist til þess að hringja í lögregluna og þegar hann kom út þá hafi A og Y legið á jörðinni og hafi systir Y haldið utanum bróður sinn.  Kvaðst vitnið hafa stokkið til hliðar einu sinni til þess forða sér frá bílnum. Sagði vitnið að það hafi ekki séð þegar Y var stunginn og að hann minnist þess ekki af hafa sagt það hjá lögreglu. Kveðst vitnið aðspurt um það hversu langan tíma umrædd atburðarás hafi tekið ekki geta áttað sig á því. Sagði vitnið að hann hafi ekki talið sig í mikilli hættu þegar bíllinn keyrði að honum og að hann hefði getað keyrt á hann hefði hann viljað það.

A. Niðurstaða í þætti X:

Ákærða X er gefið að sök í 1. lið ákæru að hafa ekið á A þann 14. maí 2006 með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru. Ákærði X hefur viðurkennt að þegar atvik sem hann er sakaður um að hafa verið valdur að gerðist þá hafi hann verið ökumaður bifreiðar sinnar [...]. Styðst þetta einnig við framburð ákærða Arnars Vals sem var með honum í bílnum. Í gögnum málsins liggur fyrir matsgerð sem framkvæmd var á blóðsýni og þvagsýni úr ákærða X á Rannsóknarstofu H.Í. í lyfja- og eiturefnafræði og samkvæmt henni var hlutaðeigandi undir áhrifum áfengis þegar blóðsýnið var tekið kl. 07.00 um morguninn eftir atvikið sem um er fjallað. Jafnframt liggur fyrir staðfesting ákærða X á því að hann hafi ekki neytt áfengis eftir að þeim akstri lauk sem talinn er tengjast þessu atviki. Þykir því í ljós leitt að er hann var ökumaður bifreiðarinnar er hið meinta brot er talið hafa verið framið þá hafi hann verið undir áhrifum áfengis sem hann þó andmælti í skýrslu sinni fyrir dómi. Hefur ákærði X sagt að hann muni ekki eftir því að hafa ekið á neinn og að hann hafi verið skíthræddur, strákar hafi verið að berja bílinn utan og fólk allt í kring og hafi hann því verið að reynt að snúa bílnum til þess að koma sér í burtu.

Framburður ákærða Arnars Vals fyrir dómi varðandi hina meintu háttsemi ákærða X við aksturinn verður að teljast mjög ruglingslegur. Fyrir dóminum var borinn undir Arnar Val framburður hans fyrir lögreglu þann 14. maí sl. þar sem eftir honum er haft að ákærði X hafi orðið mjög reiður og tekið sig til og keyrt á tvo stráka. Mótmælir ákærði Arnar því ekki að þetta sé rétt eftir honum haft en þetta megi skilja á allt að þrjá vegu og sé hann þeirrar skoðunar að X hafi ekki ætlað sér að keyra á strákana. Er ákærði Arnar var inntur eftir því við skýrslutöku hjá lögreglu þann 23. maí sl. hvað hann ætti við með þessu framburði sínum sagði hann ,,Auðvitað var X reiður þar sem þeir voru að sparka í bílinn hans. Hann setti í gír og gaf í og keyrði beint á strákana.“ Af þessum sökum telur dómurinn að við sönnunarmat verði fremur að horfa til þess sem samkvæmt orðanna hljóðan er haft eftir Arnari Val í lögregluskýrslum en hins ruglingslega dómsframburðar hans.

Í vitnisburði A kemur fram að hann hafi ekki þekkt þann sem keyrði á hann en sá hafi verið búinn að bakka bílnum áður. Hann hafa snúið baki í bílinn sem var vínrauður Hyundai bíll en rétt áður var kallað til hans að passa sig en hann hafi ekki náð að koma sér undan bílnum Hann hafi ekki heyrt neitt bremsuhljóð áður en bíllinn lenti á honum og hann skollið í götuna og steinrotast.

Vitnið I, sem var á þeim stað sem hin meinta ákeyrsla átti sér stað, kvaðst hafa séð þegar keyrt var á A hjá bílastæðinu við heimili Y en ökumaðurinn hafi hægt aðeins á sér áður en hann ók á A, sem hafi snúið baki að bílnum Sagði vitnið að hann hafi ekki heyrt neitt bremsuhljóð og hafi hægra framhorn bílsins lent á A. Þá bar vitnið að fólkið fyrir utan hafi ekki reynt að hefta för bílsins og ökumaður hefði getað ekið burt hefði hann viljað.

Vitnið J, sem var á þeim stað sem hin meinta ákeyrsla átti sér stað, kvaðst hafa séð þegar bíl sem var fyrir utan hafi verið bakkað og síðan gefið í og keyrt á A en hann muni ekki hvort ökumaður hafi þá verið einn í bílnum. Hafi bíllinn farið fram hjá honum og beint á A og svo hafi bílnum verið bakkað aftur. Sagðist vitnið hafa séð þegar A varð fyrir framstuðaranum á bílnum og ökumaðurinn hafi ekki hægt neitt ferðina og ekið viljandi á A.

Vitnið K, sem býr á [...] og var þar stödd þegar hin meinta ákeyrsla átti sé stað, sagði að þegar aðkomumennirnir voru komnir inn í bifreið sína hafi henni verið bakkað á fullri ferð niður eftir götunni og síðan hafi henni verið ekið á fleygiferð til baka og beint á A án þess að bremsa fyrr en að því loknu. Hafi A sem sneri baki í bílinn henst upp í loft og rotast.

Vitnið Y, sem var á þeim stað sem hin meinta ákeyrsla átti sér stað, sagði að hann hafi séð þegar ekið var á A, vin hans. Áður en ekið var á A hafi hann séð bifreiðinni bakkað og henni síðan ekið beint á A án þess að bremsa áður og er henni var bakkað aftur þá hafi hann hlaupið að bílnum. Hafi bílnum í raun verið ekið á hóp en allir hefðu náð að forða sér nema A.

Vitnið M, sem býr að [...], kvaðst hafa séð að einn aðkomumaðurinn hafi farið inn í bílinn og bakkað burtu og svo séð að bílnum var gefið í botn og virtist ætlunin að keyra vísvitandi á þá þrjá sem voru í vegi fyrir bílnum en einn strákur sem lá á götunni eftir slagsmálin hafi rétt náð að velta sér frá til þess að að verða ekki  fyrir bílnum. Þegar vitnið sá hvað verða vildi hafi hann öskrað á strákana til þess að vara þá við bílnum og hafi þeir sem voru með A  náð að forða sér en hann ekki enda hafi hann snúið baki í bílinn.

Vitnið N, sem var á þeim stað sem hin meinta ákeyrsla átti sér stað, sagðist hafa séð þegar einn strákanna sem komu þarna hafi ekið bíl á A.

Vitnið O, sem býr við [...], sagði að henni hafi verið litið út um svefnherbergisgluggann sinn er hún vaknaði við einhvern hávaða og hafi hún þá séð fullt af krökkum hlaupandi um allt og bíl aka áfram og á einhverja krakka og einn hafi henni sýnst liggja eftir en bíllinn hafi síðan bakkað á fullu í burtu. Virtist vitninu annar liggja líka lengra í burtu og hafi hún haldið að keyrt hafi verið á hann líka en henni hafi virst vera ekið viljandi inn í krakkahópinn.

Vitnið Q, sem kvaðst hafa orðið vitni að umræddum atburði, sagði að hann hafi séð þegar keyrt var á A. Kom fram í vætti hans að áður en keyrt hafi verið á A hafi engu mátt muna að bíllinn bakkað á sig en síðan hafi hann „neglt niður“ og keyrt  á A sem hafi fallið í götuna.

Vitnið R, sem bjó við [...] á þeim tíma þegar meint ákeyrsla átti sér stað, bar að hann hafi séð bifreið koma keyrandi inn [...] á miklum hraða og keyra á einn strák og það hafi bara verið tilviljun að hann keyrði ekki á fleiri en sá sem varð fyrir bílnum hafi lent á horni hans farþegamegin og við þetta hafi hann fallið í götuna og legið nokkuð lengi hreyfingarlaus. Þetta  hafi hann séð út um stofugluggann á heimili sínu sem þá var.

Vitnið B, sem var staddur þarna, sagðist hafa séð þegar keyrt var á A.

Þá kemur fram í vitnisburði Theódórs Friðrikssonar læknis, sem skoðaði A á slysadeild umrædda nótt að áverkar á A geti alveg samræmst því að vera eftir það að hafa lent í götunni eftir fall auk þess sem hann telur líklegt að þeir áverkar sem hann bar hafi verið eftir eina ákomu vegna þess að þeir séu allir sömu megin. Hefur vitnið staðfest að A hafi borið þá áverka sem í ákæru er lýst. Það sem nú hefur verið rakið þykir renna stoðum undir það að yfir allan vafa séð hafið að ekið hafi verið á A umrædda nótt og að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið ákærði X. Telur dómurinn jafnframt að af vitnisburðum megi slá því föstu að ákærði hafi haft ásetning til verksins þrátt fyrir neitun hans. Þykir því fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði X sé sannur að sök um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í 1. lið ákæru, með þeim afleiðingum sem þar er lýst, og réttilega er talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Um það hvort sönnuð verði sök á ákærða af þeirri háttsemi sem á hann er borin í 2. lið ákæru er nánast engum sönnunargögnum til að dreifa. Eini vitnisburðurinn sem við er að styðjast er vitnisburður B sem ákærði er sakaður um að hafa ekið að og með því stofnað lífi hans og heilsu á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska. Segir vitnið B að hann hafi ekki talið sig í hættu þegar bílnum var ekið að honum. Með hliðsjón af þessum framburði og neitun ákærða X verður að telja að sakargiftir á hendur honum samkvæmt þessum lið séu ósannaðar og ber því að sýkna hann af þeim.

Við mat á refsingu ákærða er litið til þess, annars vegar, að honum hafi mátt vera ljóst að sá verknaður að aka bifreið á mann vísvitandi stofnar lífi og limum þess sem fyrir verður í mikinn og augljósan háska. Þá ber einnig að hafa í huga að ákærði var ölvaður undir stýri bifreiðarinnar þegar hann framdi brot sitt þrátt fyrir að hann sé ekki sakaður um það sérstaklega. Þá er haft í huga að fleirum stafaði hætta af akstri ákærða sem sagði m.a. sjálfur að fullt hafi verið af fólki í kringum bílinn sbr. 3. tl. 1. mgr.70. gr. almennra hegningarlaga. Við refsimat verður með vísan til 2.,  4. og 5. tl. sömu lagagreinar hins vegar á það litið að ákærði var nýlega orðin átjan ára er hann framdi brot sitt, afleiðingar þess reyndust mun léttvægari en þær gætu hafa orðið og að ekki er kunnugt um að hann eigi neinn sakaferil að baki.

Þegar allt þetta er virt þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð 12 mánaða fangelsi sem rétt þykir að skilorðsbinda til 3 ára. Þá ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar en útlagður kostnaður nemur samkvæmt yfirliti saksóknara 152.555 krónum. Að auki skal hann greiða ¾ hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Þormóðs Skorra Steingrímssonar, sem þykja hæfilega ákveðin 436.995 krónur, eða 327.746 krónur en ¼ hluti þeirra eða 109.249 krónur greiðist úr ríkissjóði.

B. Niðurstaða í þætti Arnars Vals:

 Ákærði Arnar Valur hefur skýlaust játað sök samkvæmt 1. og 3. lið ákæru. Hvað varðar 2. lið sagði ákærði fyrir dómi að hann játaði þá háttsemi sem þar er lýst en að það hafi ekki verið ætlun hans að valda Y líkamstjóni. Að þeim atburði þegar ákærði Arnar Valur stakk Y eru nokkur vitni. Ráða má af framburðum þeirra sem sáu atburðinn úr nokkurri fjarlægð að ákærði hafi farið út  úr bílnum sem var á leið burt af því svæði sem þeir atburðir gerðust sem mál þetta fjallar um. Hafi þetta nánar tiltekið verið þegar Y braut rúðu í bílnum með því að sparka í hana eins og hann hefur lýst.

Lýsti ákærði Arnar Valur atvikum þannig fyrir dóminum.

Einhver hinna hafi haldið áfram að sparka í bílinn alveg út götuna. Hafi hann þá farið út úr bílnum og orðið svolítið reiður og ætlað að ýta honum frá en sá hafi þá verið með einhver leiðindi og reynt að slá til sín og þá hafi ákærði ýtt til hans og stungið hann með hnífnum.

Þegar hann hafi stungið strákinn sagðist hann hafa staðið til hliðar við hann. Hann hafi ekki beitt miklu afli enda aldrei verið meiningin að meiða hann svona eins og raunin varð. Hann hafi ekkert verið búinn að velta því fyrir sér hvaða afleiðingar hnífstungan gæti haft í för með sér. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en eftir á að stungan gæti verið lífshættuleg. Hann hafi dregið hnífinn strax úr sárinu en stífara hafi verið að ná hnífnum út en reka hann inn því hann hafi þurft að rykkja í hnífinn til þess að ná honum út. Hann muni ekkert eftir því að hafa hreyft hnífinn eða snúið honum í sárinu. Hnífinn hafi hann verið með til þess að tryggja öryggi sitt. Hann kvaðst hafa fengið hnífinn lánaðann fyrr um kvöldið og ætlað að nota hann til þess að geta ógnað. Notkun hans á hnífnum hafi verið ónauðsynleg en hann hafi verið í æstu skapi vegna áfengisáhrifa.

Í skýrslu hjá lögreglu þann 14. maí sagði ákærði Valur Arnar að allt í einu hafi rúða verið brotin og glerbrotum hafi rignt yfir hann. Kvaðst hann þá hafa farið út úr bílnum en þá hafi einhver gaur verið hoppandi og sparkandi í bílinn. Þessi gaur hafi brotið  rúðuna „þannig að þegar ég var kominn út úr bílnum stakk ég þennan strák mjög fljótlega.“ Í skýrslu hjá lögreglu 23. maí sl. er haft eftir ákærða Arnari Val að einn strákur hafi haldið áfram að sparka í bílinn. Hann hafi þá farið úr úr bílnum og ætlað að ýta honum frá og ógna honum með hnífnum en svo fór að ég stakk hann og það hafi bara verið af því að þessi eini strákur hafi haldið áfram að sparka í bílinn Sagði hann að hann hafi verið um 40 sekúndur fyrir utan bílinn, stungið strákinn og verið snöggur inn í bílinn aftur.

Ákærði X sagði að hann hafi stoppað bílinn eftir að þeir gátu ekið burtu en það hafi verið þegar ákærði Arnar Valur fór út úr honum þegar hliðarrúðan brotnaði og hafi hann beðið þar til Arnar Valur var kominn aftur inn í bílinn.

Vitnið I sagði að hann hafi séð Y liggja á jörðinni og haldið að hann hafi verið sleginn en hann hafi ekki séð Y slá neinn. Sagði vitnið að hann hafi verið um það bil fjóra metra frá Y þegar einhver hafi komið út úr bílnum á þeim stað þar sem Y stóð og farið strax inn í hann aftur en Y legið eftir. Svar vitnisins við þeirri spurningu hvort komið hafi til átaka milli Y og þess sem kom út úr bílnum er svo ruglingslegt að ekki var hægt að henda á því reiður.

Vitnið Y sagði að frá því um kl. þrjú um daginn hafi honum borist hótanir í síma um að hann yrði barinn eða drepinn. Hann muni ekki hvort þeir sem voru með hótanirnar hefðu nafngreint sig. Hafi besti vinur hans, X, hringt í hann frá ESSÓ í Hafnarfirði og sagt að þar hafi komið strákur með hníf sem væri á leiðinni heim til hans í þeim tilgangi að drepa hann. Hann hafi séð þegar ekið var á A vin hans og hafi hann þá elt bílinn og stokkið og sparkað í bílrúðuna farþegamegin og brotið hana og um leið og hann lenti eftir sparkið þá hafi hann ekki getað staðið upp eða hreyft sig. Hann hafi séð dökkhærðan mann sem hann ekki þekkti koma út úr bílnum í þann mund er hann lenti og hafi hann næstum snúið í þann mann baki. Hann hafi ekki orðið stungunnar var heldur vaknað uppi á spítala á mánudeginum næsta. Kvaðst vitnið ekki hafa lent í neinum ryskingum við þann sem kom út úr bílnum enda hafi hann ekki getað það vegna þess að hann sneri í hann baki. Vitnið M, faðir Y, sagðist hafa  heyrt eitthvert ,,splasshljóð“ neðar í götunni og séð einhvern liggja þar. Svo hafi hann séð á klæðnaði þess sem þar lá að það var Y sonur hans og hélt hann í fyrstu að bílnum hefði verið ekið á hann. Hann hafi farið til hans og þegar hann ætlaði að hjálpa honum á fætur þá hafi hann ekki getað staðið í fæturna. Áttaði hann sig fljótlega á því hvers kyns var því blóðið pumpaðist úr sári sem Y hafði fengið.

Vitnið Q kvaðst hafa orðið vitni að umræddum atburðum, hann hafi séð hópslagsmál og síðan hafi verið keyrt á einn strák sem ekki hafi náð að forða sér. Y hafi þá hlaupið að bílnum og barið í hann og brotið rúðu í honum en síðan hafi komið strákur út úr bílnum og veist að honum og eftir nokkrar sekúndur hafi Y hnigið niður.

Þeir vitnisburðir sem nú síðast hafa verið raktir eru vitnisburðir þeirra sem sjá atburðinn gerast skammt frá, eiga það allir sammerkt að lýsa því að ákærði hafi brugðið sér út úr bílnum og nánast andartaki síðar hnígur Y niður og ákærði er kominn inn í bílinn og bíllinn brunar burt. Átök vekja enga athygli vitnanna og ekkert þeirra nefnir að Y hafi verið með hafnarboltakylfu.

Þegar það sem nú hefur verið rakið, ekki síst það sem haft er eftir ákærða Arnari Val  og brotaþolanum Y er ljóst að atburðarásin var mjög hröð. Nánast ekkert er minnst á að til beinna átaka hafi komið milli síðastnefndra. Virðist ákærði hafa rekið hnífinn, sem er veiðihnífur með 14,5 sm löngu og allt að 2,7 sm breiðu blaði, á kaf í bakið á brotaþola. Af framangreindum vitnisburðum má ráða að árásin hafi verið beinskeitt og fyrirvaralaus. Engin orðaskipti hafi átt sér stað milli Y og ákærða sem virðist hafi nánast snúið baki í ákærða. Þær skýringar hans að hann  hafi ekki gert sér grein fyrir því eða velt því fyrir sér fyrr en eftir á að hnífstungan gæti verið lífshættuleg koma honum í því sambandi ekki að neinu haldi sem málsbætur  að mati dómsins.

Tilefni til árásarinnar verður ekki með nokkru móti talið í neinu réttlætanlegu samhengi við það sem á undan var gengið. Yfir allan vafa er hafið að það var beinn ásetningur ákærða að stinga Y með þeim hætti sem lýst hefur verið og að sú hnífstunga var til þess fallin að binda enda á líf Y.  Þegar ákærði var inntur eftir því hjá lögreglu þann 23. maí 2006 hvenær hann hafi tekið hnífinn úr slíðrinu svaraði ákærði: ,,Ég var inni í bílnum, bara rétt áður en ég stakk hann.”

Verður því litið á atlögu ákærða sem tilraun til manndráps og háttsemi hans talin varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 Að mati dómsins á ákærði sér engar málsbætur.

Samkvæmt því sem nú hefur veri rakið er það niðurstaða dómsins  að ákærði hafi unnið til refsingar fyrir tilraun til manndráps auk þjófnaðar og tilraun til nytjastuldar en síðasttöldu brotin tvö sem varða við 244. gr. hið fyrra og 259. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr 19/1940, hefur ákærði bæði játað fyrir dómi.

Um ákvörðun refsingar ofl.

Afleiðingum atlögunnar er áður lýst m.a í framburðum þeirra lækna sem önnuðust Y eftir að komið var með hann á slysadeild. Í læknisvottorði Páls E. Ingvarssonar, sérfræðings  í taugasjúkdómum á Endurhæfingasviði LSH sem aflað var að ósk ríkissaksóknara og ekki hefur sætt andmælum eru dregnar ályktanir um ástand og horfur Y vegna afleiðinga af hnífstungunni. Þar segir orðrétt: Að hinn slasaði er með sögu um sjúkdómseinkenni og einkenni við líkamsskoðun og taugaskoðun sem í öllu samræmist því að hafa orsakast af stungusári inn í bilið milli neðsta lendarhryggjarliðar og spjaldhryggjar í mjóbaki; Að hinn skaðaði hafi verið í nokkurri lífshættu, ekki síst vegna mænuvökvalekans í upphafi sem krafðist taugaskurðaðgerðar til að koma í veg fyrir og loka stóru gati á mænuhimnu, en slíkur vökvaleki eykur allverulega hættuna á sýkingu í miðtaugakerfi, sem auðveldlega getur verið lífshættuleg.;“ Þá lýsir sérfræðingurinn þeim afleiðingum sem m.a. hafa komið fram eins og því að Y hafi minnkaðan mátt og skyntap í vinstri ganglim, upphafna blöðrustjórnun, skerta hægðastjórnun, skerta getu til þess að stunda kynlíf og taugaverki og að miklar líkur séu á að svo muni verða ævilangt.

Í þágu rannsóknaefnisins sem leiddi til ákæru fyrir tilraun til manndráps hefur ekki verið talin ástæða til þess að láta fara fram sérstakt mat á því hvort vafi gæti leikið á um sakhæfi Arnars Vals samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga, eða hvort refsing gæti skilað árangri. Aflað var greiningar- og meðferðarskýrslu frá Stuðlum og stöðumats frá Barnaverdarnefnd Kópavogs. Í þessum gögnum kemur fram að ákærði á við veruleg félagsleg vandamál að stríða, hvatvísi, hegðunarerfiðleika og kvíðaeinkenni. Þá kemur fram að hann hefur neytt áfengis og vímuefna frá unga aldri. Þrátt fyrir þetta hefur þó ekki komið fram vísbending sem gefur tilefni til þess að ákærði sæti rannsókn varðandi sakhæfi. Er dómendum ljóst að ákærði á við mikil og erfið vandamál að stríða og þarfnast greinilega sértækrar meðferðar. Þó þykir ekki ástæða til þess að draga í efa sakhæfi hans.

Ákærði sem fæddur er 9. október 1987 hefur samkvæmt sakavottorði verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. þann 11. nóvember 2005 en þá var ákvörðun refsingu frestað skilorðsbundið í 1 ár. Hann hlaut næst 3 mánaða skilorðsbundin fangelsisdóm til 2. ára 2. júní 2006 fyrir brot gegn 244. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn umferðarlögum. Þá hlaut hann dóm fyrir brot gegn 257. gr. almennra hegningarlaga þann 15. s.m. en um var að ræða hegningarauka og ekki gerð sérstök refsing.

Árásin á Y var sérstaklega ófyrirleitin og beindist gegn lífi hans og réði tilviljun ein, og hugsanlega viðbrögð nærstaddra að Y var strax komið undir læknishendur og síðan gerð á honum nauðsynleg skurðaðgerð, því að ákærði náði ekki markmiði sínu. Árásin var gerð í flýti Y að óvörum með vopni sem augljóslega er til þess fallið bana manni með sé því beitt af því afli sem veldur slíkum áverka sem hér varð raunin. Að mati dómsins á ákærði sér engar málsbætur.

Um brot ákærða gegn 244. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hann er nú einnig sakfelldur fyrir þykir ekki ástæða til að fara fleiri orðum. Refsing ákærða nú verður í samræmi við ákvæði 60. gr. og málið sem dæmt var þann 2. júní 2006 dæmt með. Þau brot sem nú er dæmt fyrir voru öll framin fyrr en sá dómur var upp kveðinn og verður því refsing tiltekin í einu lagi sem hegningarauki eftir reglum 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þegar allt þetta er haft í huga og með hliðsjón af 1. 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 5 ára fangelsi. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 14. maí 2006 til dagsins í dag með fullri dagatölu.

Skaðabótakröfur.

Vátryggingafélag Íslands hf. krefst bóta að fjárhæð 57.700 vegna innbrots í bifreiðina [...]þann 18. mars 2006. Miðast fjárhæð bóta við þær bætur sem félagið greiddi tjónþolanum vegna þessa atviks að viðbættri eigin áhættu. Ákærði hefur gengist við þessu broti og tjáð sig reiðubúinn til þess að greiða skaðabætur til þeirra sem hafi orðið fyrir tjóni vegna þess máls. Fyrir liggur sundurliðun á því með hvaða hætti tjónið er reiknað út miðað við verðmat þess sem tekið var í innbrotinu. Af hálfu ákærða er þessum útreikningi ekki mótmælt og verður ákærði því dæmdur til greiðslu 57.700 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi 18. mars 2006 , en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 6.11 2006 til greiðsludags.

Þá liggur fyrir skaða- og miskabótakrafa sem Jón Höskuldsson hdl. hefur gert f.h. Y á hendur ákærða Arnari Val. Nemur krafa þessi alls 2.960.626 krónum og sundurliðast hún þannig:

                   1.                   Tímabundið tekjutjón                   kr.                   396.612

2.         Þjáningarbætur         kr.         83.550

3.         Fatnartjón         kr.         22.920

4.         Kostnaður v/Sjúkraflutnings         kr.         3.500

5.         Útlagður kostnaður v/ferðar         kr.         218.370

6.         Miskabætur         kr.         2.000.000

7.         Þóknun lögmanns m/vsk.         kr.         235.674

Er krafist dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af bótakröfunni frá 14. maí 2006 til greiðsludags. Vísað er til XX. kafla laga nr. 19/1991 um stoð fyrir kröfugerðinni og til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Ákærði hefur mótmælt kröfunni, krafist frávísunar hennar frá dómi og til vara að hún verði lækkuð.Varðandi 1. liðinn er fyrirliggjandi staðfesting vinnuveitanda um að Y hafi verið óvinnufær í níu vikur frá því að hann varð fyrir árás þeirri sem ákærði hefur verið fundinn sekur um. Einnig liggja fyrir ljósrit af launaseðlum fyrir mars og apríl sl. Kemur þar fram að níu vikna laun með orlofi (360.000 + 10,17% orlof nema 396,612 krónum) Þykir rétt að fallast á þennan lið. Krafan um þjáningabætur  kr. 83.550 er samþykkt eins og hún er fram sett. Sama gildir um fatnaðartjón og sjúkraflutning. Kostnaðarhækkun vegna orlofsferðar fjölskyldu Y, sbr. lið. nr. 5, sem stafaði af því að breyta þurfti ferðaáætlun þykir byggð á atriðum sem eru of laustengd við ákæruefnið í máli þessu til þess að unnt sé að fallast á hana. Miskabótakrafa að fjárhæð 2.000.000 er byggð á 26. gr. skaðabótalaga. Í ljós er leitt að ákærði hefur gerst sekur um ólögmæta og mjög alvarlega meingerð í garð Y og þykja miskabætur vegna hennar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur og er þá haft í huga að þær miskabætur taka ekki mið af  því hver varanlegur miski kann að verða þegar hann hefur verið metinn. Lögmaður sem setur fram bótakröfuna var skipaður réttargæslumaður Y undir rekstri málsins og verður tekið tillit til þess við ákvörðun þóknunar hans fyrir réttargæslu í málinu. Verður ákærði Arnar Valur dæmdur til þess að greiða Y í skaða-og miskabætur 1.706.582 krónur.

S setti fram bótakröfu að fjárhæð 158.807 í tengslum við það atvik sem er ákæruefni 3 liðar ákæru. Hefur ákærði mótmælt henni og krafist þess að henni verði vísað frá dómi eða lækkuð að öðrum kosti. Krafa þessi var ekki borin undir ákærða er hann játaði brot sitt fyrir dómi þann 6. október sl. Urðu dómendur þess ekki varir fyrr en aðalmeðferð málsins að svo var. Þótti  þá svo komið að ekki væri fært að kalla tjónþola til svo hann gæti tjáð sig um kröfuna eins og nauðsynlegt hefði verið. Af þessum sökum verður með vísan til 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 ekki hjá því komist að vísa kröfunni fra dómi.

Útlagður sakarkostnaður vegna þáttar ákærða Arnars Vals nemur nú samkvæmt yfirliti saksóknara þar um 534.956 krónum. Um er að ræða kostnað sem telja verður nauðsynlegan og eðlilegan í þágu rannsóknar málsins og þykir því rétt að ákærða Arnari Val verði gert að greiða þennan kostnað. Að þessu virtu verður ákærða Arnari Val gert að greiða 1.576.190 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Baldursonar hdl. 805.560 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaði 38,640 krónum auk réttargæsluþóknunar skipaðs réttargæslumanns Jóns Höskuldssonar hdl. 235.674 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvalds flutti Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari málið.

Dóminn kveða upp Sveinn Sigurkarlsson, dómsformaður, Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari og Halldór Björnsson, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22. 1955.

Ákærði greiði 479.301 krónu í sakarkostnað þar með talda ¾ hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Þormóðs Skorra Steingrímssonar eða 327.746 krónur  en ¼ hluti þeirra eða 109.249 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Arnar Valur Valsson, skal sæta fangelsi í 5 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 14. maí 2006 til dagsins í dag með fullri dagatölu.

Ákærði greiði 1.576.190 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Baldursonar hdl. 805.560 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaði 38.640 krónum auk þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola Jóns Höskuldssonar hdl. 235.674 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði Y 1.706.582 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. maí 2006 til 2. september 2006 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Vátryggingarfélagi Íslands hf. 57.700 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi 18. mars 2006 , en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 6.11 2006 til greiðsludags.