Hæstiréttur íslands
Mál nr. 444/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 24. nóvember 2003. |
|
Nr. 444/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Böðvar Bragason lögreglustjóri) gegn X (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. desember 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla 19. nóvember 2003, sem staðfest var af varnaraðila fyrir héraðsdómi sama dag. Þar viðurkenndi varnaraðili að vera eigandi þeirra plantna og búnaðar til ræktunar, sem fundust við leit á dvalarstað hans. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2003.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess X verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. desember 2003 klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gær á dvalarstað sínum að A. Í fyrradag hafi lögregla lagt hald á mikið magn ætlaðra kannabisplantna í húsi í B. Sama dag hafi lögregla séð til ferða kærða þar sem hann hafi komið í umrætt hús við annan mann.
Fyrir liggi í framburði, sem gefinn hafi verið í málinu, að kærði hafi staðið að ræktun téðra plantna, en önnur gögn rannsóknarinnar bendi jafnframt til að kærði eigi hlut að máli. Gerð hafi verið leit á dvalarstað og lögheimili kærða og hafi fundist ætlaðar kannabisplöntur og fræ ásamt búnaði til ræktunar. Kærði hafi verið yfirheyrður og kannist ekki við að hafa komið að ræktun téðra plantna.
Mál þetta sé á frumstigi og sé nauðsyn að rannsaka það frekar, en rannsókn muni m.a. beinast að því á hvers vegum plöntur og fíkniefni séu sem hafi fundist við rannsóknina, hverjir hafi staðið að ræktuninni og hversu umfangsmikil hún hafi verið. Þurfi að rannsaka hver þáttur kærða og annarra muni vera í málinu. Þá sé óhjákvæmilegt að beina rannsókn að ætlaðri sölu og dreifingu fíkniefna, en nauðsyn kunni að vera að taka skýrslur af allnokkrum vitnum vegna þess. Sé nauðsyn að halda kærða í gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málsins fari fram en hann gæti torveldað rannsókn þess mjög ef hann endurheimti frelsi sitt og gæti þá haft áhrif á vitni og samseka áður en þeir og hann sjálfur verði yfirheyrðir til fulls. Beri þannig brýna nauðsyn til að hneppa kærða í gæsluvarðhald til að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsóknina.
Lögreglan kveðst vera að rannsaka ætluð brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sem geti varðað kærða fangelsisrefsingu ef sannist. Rannsókn málsins sé á frumstigi og sé brýnt að vernda hagsmuni rannsóknarinnar þegar í upphafi hennar og tryggja að kærði geti ekki torveldað hana með því að hafa áhrif á hugsanleg vitni og samseka. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað í a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Í máli þessu liggur fyrir að lögreglan lagði hald á mikið magn ætlaðra kannabisplantna sem fundust við leit hinn 17. þessa mánaðar í húsi í B. Rannsókn lögreglunnar beinist meðal annars að því að upplýsa hverjir hafi ræktað þessar plöntur, hvort þær hafi verið ræktaðar til sölu og dreifingu á fíkniefnum unnum úr þeim og hverjir hafi átt þar hlut að máli. Samkvæmt gögnum málsins hefur komið fram rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að þeim ætluðu brotum sem hér um ræðir, en þau geta varðað fangelsi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni. Kærði hefur neitað allir aðild eða vitneskju um umrædda ræktun, þrátt fyrir framburð vitna um að hann hafi tekið þátt í ræktuninni. Hann hefur einnig neitað því að hafa komið á staðinn þar sem hin meintu brot hafa verið framin, þrátt fyrir upplýsingar í rannsóknargögnum um að kærði hafi verið þar sama dag og leit lögreglunnar, sem greint er frá að framan, fór fram. Þar sem rannsókn málsins er á byrjunarstigi og hætta er á því að kærði geti torveldað hana, fari hann frjáls ferða sinna, svo sem með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast ætluðum brotum og hann hefur tengsl við, þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi. Ber því að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og hún er fram sett, en ekki þykir ástæða til, miðað við umfang málsins, að ákveða gæsluvarðahaldið til skemmri tíma en krafist er.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. desember 2003 kl. 16.00.