Hæstiréttur íslands
Mál nr. 22/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Föstudaginn 24. janúar 2014. |
|
Nr. 22/2014. |
Þórarinn Kristinsson (Magnús B. Brynjólfsson hrl.) gegn Herði Jónssyni (Bjarki H. Diego hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
Þ kærði úrskurð héraðsdóms þar sem mál H gegn Þ var fellt niður og H gert að greiða Þ 55.000 krónur í málskostnað. Krafðist Þ hærri málskostnaðar úr hendi H er tæki mið af hagsmunum þeim er í húfi væru en einnig á grundvelli tímaskýrslu. Hæstiréttur vísaði til þess að málið hefði verið höfðað sem víxilmál og væri ekki umfangsmikið. Þá hefði krafa H um niðurfellingu málsins komið fyrst fram eftir að Þ hafði skilað greinargerð sinni. Taldi rétturinn hæfilegt að H greiddi Þ 350.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2014 sem barst réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 55.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess „að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt og varnaraðili dæmdur til greiðslu málskostnaðar sóknaraðila að skaðlausu, eða að mati dóms.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um hækkun þess málskostnaðar sem ákveðinn var með hinum kærða úrskurði á því að málið sé flókið og varði mikla fjárhagslega hagsmuni. Hann hefur krafist málskostnaðar er taki mið af hagmunum þeim sem í húfi eru, en einnig á grundvelli vinnuskýrslu sinnar.
Samkvæmt framlagðri vinnuskýrslu hefur sóknaraðili varið 17 vinnustundum í þágu málsins, auk þess sem útlagður kostnaður er tilgreindur 10.373 krónur.
Mál þetta, sem varnaraðili höfðaði til greiðslu 80.000.000 króna víxilskuldar, var þingfest fyrir héraðsdómi 10. september 2013 og óskaði varnaraðili eftir því í þinghaldi 19. desember sama ár að það yrði fellt niður. Þá hafði málið verið tekið fyrir þrisvar sinnum frá þingfestingu.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Mál þetta var höfðað sem víxilmál og er ekki umfangsmikið. Við ákvörðun málskostnaðar verður horft til þess, en jafnframt höfð af því hliðsjón að málið varðar mikla fjárhagslega hagsmuni og að krafa varnaraðila um niðurfellingu þess kom fyrst fram eftir að sóknaraðili hafði skilað greinargerð sinni. Þykir því hæfilegt að varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, Hörður Jónsson, greiði sóknaraðila, Þórarni Kristinssyni, 350.000 krónur í málskostnað í héraði og 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 19. desember sl. Það var höfðað með birtingu stefnu 4. september sl. Stefnandi er Hörður Jónsson Gnitaheiði 3 í Kópavogi og stefndi er Þórarinn Kristinsson Depluhólum 7 í Reykjavík.
Stefnandi krefst greiðslu víxilskuldar að fjárhæð 80.000 kr. auk greiðslu málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu eða frávísunar málsins.
Í þinghaldi þann 19. desember sl. óskaði stefnandi eftir því að mál þetta yrði fellt niður. Lögmaður stefnda gerði ekki athugasemdir við þá beiðni en krafðist greiðslu málskostnaðar. Ekki náðist sátt um fjárhæð hans og var sá ágreiningur því lagður í úrskurð dómara.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mál þetta fellt niður. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. sömu laga ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað. Með hliðsjón af umfangi málareksturs þykir hann hæfilega ákveðinn 55.000 krónur.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta er fellt niður. Stefnandi, Hörður Jónsson, greiði stefnda, Þórarni Kristinsyni 55.000 krónur í málskostnað.