Hæstiréttur íslands
Mál nr. 536/2015
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Tímabundið atvinnutjón
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2015. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi slasaðist stefndi 2. desember 2011 er hann var við störf um borð í skipinu Jóni Vídalín VE-82. Var skipið gert út af Vinnslustöðinni hf. sem var með kjarasamningsbundna slysatryggingu sjómanna hjá áfrýjanda. Hefur áfrýjandi greitt stefnda bætur á grundvelli mats sem aðilar óskuðu sameiginlega eftir á afleiðingum slyssins aðrar en bætur vegna tímabundins atvinnutjóns. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar var stefndi óvinnufær vegna slyssins á tímabilinu frá 11. desember 2011 til 2. desember 2012. Telur áfrýjandi að stefndi eigi ekki rétt á greiðslu bóta vegna tímabundins atvinnutjóns þar sem hann hafi ekki verið fastráðinn á skipið.
Áfrýjandi telur að sú staðreynd að stefndi hafi þegið atvinnuleysisbætur á árinu 2011 styðji að hann hafi verið með tímabundna ráðningu. Ekki er ágreiningur um að stefndi fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu janúar til maí 2011 og í september sama ár. Frá miðjum þeim mánuði var hann lögskráður á skipið Jón Vídalín uns hann hætti í kjölfar slyssins í byrjun desember 2011. Renna framangreindar greiðslur atvinnuleysisbóta til stefnda því ekki stoðum undir þá fullyrðingu áfrýjanda að stefndi hafi verið ráðinn tímabundinni ráðningu þegar hann slasaðist. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að öðru leyti en um almenna vexti, en eins og kröfugerð stefnda er sett fram verða vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknaðir á kröfuna frá 4. desember 2012 eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Sigurði Jóhanni Péturssyni, 4.233.745 krónur með 4,5 % ársvöxtum af 7.237.415 krónum frá 4. desember 2012 til 9. október 2013 og af 4.233.745 krónum frá þeim degi til 23. september 2014 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí sl., er höfðað 23. september sl. af Sigurði Jóhanni Péturssyni, Kjarnagötu 8, Akureyri gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.233.745 krónur með 4,5% vöxtum af 7.237.415 krónum frá 2. desember 2011 til 9. október 2013 en frá þeim degi af 4.233.745 krónum til 15. mars 2014 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi greiðslu málskostnaðar.
-
Stefnandi varð fyrir slysi um borð í skipinu Jóni Vídalín VE-82, 2. desember 2011. Stefnandi krefur stefnda um bætur svo sem stefnandi hafi verið fastráðinn á skipið. Varnir stefnda snúa einkum að því að stefnandi hafi verið í afleysingum um borð og því ekki fastráðinn. Er í málinu deilt um rétt stefnanda til greiðslna úr hendi stefnda vegna tímabundins atvinnutjóns, en stefndi byggir á því að stefnandi hafi þegar fengið tjón sitt að fullu bætt.
Við aðalmeðferð málsins gaf Jón Einar Jónsson, skipstjóri á skipinu Jóni Vídalín VE-82, vitnaskýrslu fyrir dóminum.
II.
Stefnandi byggir á því að stefnda sé ekki stætt á því að bera því við að stefnandi hafi ekki verið fastráðinn enda liggi fyrir viðurkenning fyrrverandi vinnuveitanda stefnanda og vátryggingataka stefnda, Vinnslustöðvarinnar hf., að stefnandi hafi í reynd verið fastráðinn starfsmaður útgerðarinnar. Vísi stefnandi í því samhengi til greiðslu Vinnslustöðvarinnar hf. 9. október 2013 en með henni hafi útgerðin viðurkennt að stefnandi nyti launaréttinda fastráðins starfsmanns. Vinnslustöðin hf. hefði ætlað að halda sig við þá afstöðu, að stefnandi hefði einungis verið afleysingamaður, hefði útgerðin tekið til varna í málinu. Það hafi útgerðin hins vegar ekki gert og því liggi í augum uppi að stefnandi hafi verið fastráðinn skipverji á Jóni Vídalín VE-82 er slysið varð 2. desember 2011.
Enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður milli stefnanda og Vinnslustöðvarinnar hf. og því verði að líta svo á að stefnandi hafi verið fastráðinn á umrætt skip. Ótækt sé að stefnandi beri hallann af ætluðum skorti á sönnun um fastráðninguna vegna þess að vinnuveitandi hans og vátryggingataki stefnda hafi vanrækt skyldu sína skv. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en í ákvæðinu sé kveðið á um skyldu útgerðarmanns til að gera skriflegan ráðningarsamning við skipverja. Af þeim sökum teljist skipverji ætíð vera fastráðinn nema útgerðin framvísi ráðningarsamningi sem kveði á um tímabundna ráðningu. Hafi stefnandi því ótvírætt verið fastráðinn skipverji á Jóni Vídalín VE-82 og eigi því skýlausan rétt bótum vegna tímabundins atvinnutjóns úr hendi stefnda.
Dómkrafa stefnanda sé reist á mati Ragnars Jónssonar og Sigurðar B. Halldórssonar, frá 5. febrúar 2014, en samkvæmt matinu hafi stefnandi verið óvinnufær frá 11. desember 2011 til 2. desember 2012. Við útreikning á tímabundnu atvinnutjóni sé óhjákvæmilegt að styðjast við laun staðgengils, þ.e. laun annars háseta á Jóni Vídalín. Krafa stefnanda sé reist á tekjum staðgengils sem hafði fæstu lögskráningadagana. Megi því vera ljóst að krafa stefnanda geri ráð fyrir hóflegri sjósókn. Höfuðstóll tímabundins atvinnutjóns nemi 8.748.164 krónum, en þá hafi verið tekið mið af leiðréttum hlut stefnanda um borð í Jóni Vídalín VE-82. Til frádráttar komi greiðslur að fjárhæð 1.675.658 krónur frá lífeyrissjóðum sem og 294.651 króna frá Tryggingastofnun ríkisins. Til viðbótar þeirri fjárhæð komi þó 8% lífeyrisframlag atvinnurekanda að fjárhæð 459.560 krónur. Samtals nemi höfuðstóll kröfu stefnanda því 7.237.415 krónum. Til frádráttar þeirri fjárhæð komi greiðsla Vinnslustöðvarinnar hf. 9. október 2013 að fjárhæð 3.003.670 krónur. Krafist sé 4,5% vaxta, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá tjónsdegi 2. desember 2011 til 15. mars 2014, mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs, en frá þeim degi sé krafist dráttarvaxta, skv. 6. gr. laga nr. 38/2001.
Stefnandi vísar til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
-
Stefndi kveður ágreining aðila vera vel afmarkaðan og skýran. Deilt sé um það hvort fyrir liggi að stefnandi hefði, ef ekki hefði verið fyrir slysið, áfram verið háseti um borð í Jóni Vídalín VE 82. Teljist stefnandi ekki hafa sannað að svo hefði orðið. Annað liggi ekki fyrir en að stefnandi hefði orðið atvinnulaus eftir þann túr sem slysið varð í. Beri þá að sýkna stefnda af kröfum stefnanda enda hafi stefnandi þegar þegið greiðslur frá vinnuveitanda sínum vegna tímabundins atvinnutjóns sem nemi hærri fjárhæð en atvinnuleysisbætur. Teljist stefnandi hafa sannað að hann hefði áfram notið launa sem háseti um borð í bátnum, er deilt um fjárhæð staðgengislauna og lögmælta frádráttarliði.
Aðalkrafa stefnda byggi á að stefnandi hafi ekki sannað að hann hefði áfram verið háseti um borð í Jóni Vídalín VE 82 ef slysið hefði ekki komið til. Stefnandi byggi kröfu sína alfarið á þeirri fullyrðingu sinni að hann hafi verið fastráðinn á Jón Vídalín VE 82 er slysið varð og hafi því mátt vænta sömu eða sambærilegra tekna og aðrir hásetar á bátnum höfðu á óvinnufærnitímabili hans. Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda og byggi stefndi á að stefnandi hafi einungis verið í afleysingum og verið fenginn sérstaklega til starfa fyrir hvern túr fyrir sig. Í málatilbúnaði stefnanda sé vísað til þess að Hæstiréttur hafi í dómum sínum fellt á útgerðir sönnunarbyrði um fastráðningu starfsmanns þegar skriflegur ráðningarsamningur hafi ekki verið gerður við þá líkt og lög mæli fyrir um, sbr. 6. gr. laga nr. 35/1985. Stefndi telji sig hafa fullnægt þessari sönnunarbyrði eða í öllu falli velt henni yfir á stefnanda með framlagningu gagna um að stefnandi hafi þegið atvinnuleysisbætur á milli þess sem hann hafi farið í túra með Jóni Vídalín VE-82 á árinu 2011. Hafi stefnandi verið fastráðinn geti hann ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 54/2006, sbr. t.d. 13. og 14 gr. þeirra. Þá sé einnig vísað til þess að stefnandi hafi aldrei krafist greiðslu launa á uppsagnarfresti og að viðbrögð hans við upplýsingum skipstjóra um að starfskrafta hans væri ekki þörf í framtíðinni borið það með sér að hann teldi að sér hafi verið sagt upp úr fastri stöðu. Jafnvel þó sannað væri að stefnandi hafi verið fastráðinn verði ekki framhjá því litið að honum hafi verið sagt upp störfum áður en hann tilkynnti Vinnslustöðinni hf. um slysið. Uppsagnarfrestur fastráðinna sjómanna um borð í íslenskum fiskiskipum séu 7 dagar skv. 9. gr. laga nr. 35/1985. Stefnandi hefði aldrei notið launa sem háseti um borð í Jóni Vídalín VE 82 í lengri tíma en það. Að þeim tíma liðnum hefði stefnandi einungis notið atvinnuleysisbóta. Þar sem greiðslur vinnuveitenda, lífeyrissjóðs og almannatrygging nemi fjárhæð sem sé hærri en staðgengislaun í 7 daga og atvinnuleysisbætur það sem eftir lifi af tímabili tímabundins atvinnutjóns stefnanda verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Að lokum sé rétt vegna málatilbúnaðar í stefnu að benda á að greiðsla Vinnslustöðvarinnar hf. á launum við óvinnufærni, skv. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 35/1985 sé ekki sérstök yfirlýsing um að stefnandi hafi verið fasráðinn né sé slík yfirlýsing skuldbindandi fyrir stefnda í þessu máli. Einnig megi benda á að Vinnslustöðin hf. hafi ekki verið upplýst um að stefnandi hefði þegið atvinnuleysisbætur milli túra á Jóni Vídalín VE-82 en ætla verði að þær upplýsingar hefðu breytt miklu um mat Vinnslustöðvarinnar hf. á því hvort rétt væri að taka til varna í máli því sem stefnandi höfðaði gegn henni til innheimtu greiðslna, skv. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 35/1985.
Varakrafa stefnda sé um lækkun krafna stefnanda. Stefnandi hafi í breyttri kröfugerð fallist á málflutning stefnda um að miða beri við einfaldan hlut í staðgengilslaunum og að draga verði frá greiðslur frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum. Eftir standi að ekkert liggi fyrir í málinu sem styðji að stefnandi hefði unnið meira á árinu 2012 en 2011. Stefnandi hafi verið lögskráður á skipið í 142 daga á árinu 2011 en krafa hans miði hins vegar við 198 daga. Beri því að lækka kröfu hans um 28,3%.
Stefndi mótmæli vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda. Verði stefndi dæmdur til að greiða stefnanda einhverja fjárhæð í máli þessu geti töpuð laun vegna hvers mánaðar einungis borið 4,5% vexti frá lokum hvers mánaðar, auk þess sem ekki séu lagaskilyrði til að dæma dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá fyrra tímamarki en málshöfðun.
Um kröfur sínar vísar stefndi til ákvæða laga nr. 50/1993, sérstaklega 2. mgr. 2. gr., auk meginreglna skaðabótarréttar, einkum þeirra meginreglu að tjónþoli skuli ekki fá hærri bætur en með þurfi til þess að bæta raunverulegt sannað tjón. Þá vísar stefndi til ákvæða laga nr. 35/1985, sérstaklega 36. gr. þeirra, og 9. gr. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130 gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Í málinu deila aðilar um hvort stefnandi hafi verið fastráðinn á skipið Jón Vídalín VE-82 er hann varð fyrir slysi um borð í skipinu 2. desember 2011, en stefnandi staðhæfir að hann hafi verið fastráðinn. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að stefnandi hafi verið lausráðinn. Hefur stefndi leitt fyrir dóminn Jón Einar Jónsson skipstjóra á Jóni Vídalín VE-82, sem lýsti því fyrir dóminum að skipstjórinn hafi mannað bátinn. Stefnandi hafi verið lausráðinn og skipstjórinn gert stefnanda það ljóst er stefnandi lauk við túr 7. desember 2011.
Óumdeilt er að hvorki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda af hálfu Vinnslustöðvarinnar hf. eða skipstjóra. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1985 skal útgerðarmaður sjá um að gerður sé skriflegur ráðningasamningur við skipverja. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. getur skipstjóri, í umboði útgerðarmanns, ráðið skipverja og gilda þá um það ákvæði 1. mgr. ákvæðisins. Dómstólar hafa á liðnum árum margoft staðfest það í dómum sínum að útgerð skuli bera halla af skorti á sönnun um stofnun ráðningarsamnings þegar ekki hefur verið hlutast til um að gera skriflegan ráðningarsamning við skipverja. Skipstjórinn Jón Einar staðfesti fyrir dóminum, eins og áður sagði, að hann hafi mannað einstaka ferðir á skipinu Jóni Vídalín VE-82. Bar honum því eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1985 að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda. Verður yfirlýsing hans fyrir dóminum um að hann hafi gert stefnanda grein fyrir því að hann væri lausráðinn og færi ekki frekari ferðir virt með hliðsjón af skyldu hans eftir nefndri 3. mgr. Staða stefnda í máli þessu leiðir af skyldum Vinnslustöðvarinnar hf. og skipstjórans, sbr. og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 91/1991, en stefndi verður að sæta þeim málsástæðum sem stefnandi hefði getað haft uppi gegn útgerð skipsins. Hefur stefndi ekki hnekkt staðhæfingu stefnanda um að hann hafi verið ráðinn ótímabundið í skiprúm á skipið Jón Vídalín VE-82.
Stefnandi miðar við útreikning á tímabundnu atvinnutjóni við laun þess staðgengils nýs skipverja sem kom um borð á meðan á óvinnufærni stefnanda stóð, er fæsta lögskráningardaga hafði á árinu 2012. Er það að mati dómsins hófleg og lögmæt krafa. Stefnandi breytti kröfugerð sinni, til lækkunar, á aðalmeðferðardegi, til samræmis við varakröfu stefnda um lækkun vegna frádráttarliða og einfaldan hlut í staðgengislaunum fyrir tilgreind tímabil. Í því ljósi verða dráttarvextir dæmdir svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.
Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefndi stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.
Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Viktoría Hilmarsdóttir héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Gunnar Jónsson héraðsdómslögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Sigurði Jóhanni Péturssyni, 4.233.745 krónur með 4,5% vöxtum af 7.237.415 krónum frá 2. desember 2011 til 9. október 2013 en frá þeim degi af 4.233.745 krónum til 23. september 2014 en frá þeim degi með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.