Hæstiréttur íslands
Mál nr. 131/2004
Lykilorð
- Skuldskipting
- Sjálfskuldarábyrgð
- Kyrrsetning
|
|
Fimmtudaginn 21. október 2004. |
|
Nr. 131/2004. |
Fónn ehf. og Holberg Másson (Guðmundur Ágústsson hdl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Skuldskipting. Sjálfskuldarábyrgð. Kyrrsetning.
L höfðaði mál á hendur F og H til greiðslu nánar tiltekinnar skuldar og staðfestingar á kyrrsetningu, sem hann fékk gerða í tilteknum eignum þeirra. Aðalágreiningsefni málsaðila var, hvort skuldaraskipti hafi orðið á yfirdráttarskuld fyrirtækisins Í með þeim hætti að F hafi orðið skuldari og stefndi H samþykkt sjálfskuldarábyrgð á skuld F gagnvart L. L lagði fram veðsamning aðila, þar sem sagði að aðilar hans væru sammála um að dómstólar í Englandi skyldu einir hafa lögsögu til að fjalla um mál sem upp kæmu vegna samningsins. Engin efni voru til að fallast á það með F og H að þetta ákvæði gæti staðið því í vegi að L gæti fyrir íslenskum dómstólum borið efni skjalsins fyrir sig til sönnunar um atriði, sem mál þetta varðaði. Þá þótti L hafa fært að því fullnægjandi rök að H hafi, sem fyrirsvarsmaður F, samþykkt yfirfærslu á skuld Í til félagsins, auk þess sem önnur skilyrði skuldskeytingar væru uppfyllt. Var því fallist á að F skuldaði L stefnufjárhæðina. Þótti og ljóst að H hefði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldar F. Þá var umdeild kyrrsetningargerð staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 1. apríl 2004 og krefjast báðir sýknu af kröfum stefnda. Að auki krefst áfrýjandinn Fónn ehf. þess að stefnda verði að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 30.000 krónur gert að afmá skuld áfrýjandans á tékkareikningi nr. 8990 hjá stefnda, hafnað verði að staðfesta kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík 14. mars 2003 fyrir kröfu stefnda í bifreið áfrýjandans með skráningarnúmerinu PB 562 og stefndi dæmdur til að greiða honum „bætur að mati dómsins“ vegna kyrrsetningarinnar. Þá krefst áfrýjandinn Holberg þess enn fremur að hafnað verði að staðfesta umrædda kyrrsetningu að því er varðar eignarhluta hans í fasteigninni Mímisvegi 6 í Reykjavík og fasteignina Haga við Selfell 4 í Rangárþingi ytra, svo og að stefndi verði dæmdur til að greiða sér bætur á sama hátt og áður greinir. Áfrýjendur krefjast þess báðir að þeim verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.
Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjendum til greiðslu nánar tiltekinnar skuldar og staðfestingar á kyrrsetningu, sem hann fékk gerða 14. mars 2003 í fyrrnefndum eignum þeirra. Fyrir héraðsdómi gerði áfrýjandinn Fónn ehf. meðal annars sömu kröfu og áður greinir um að stefnda yrði að viðlögðum dagsektum gert að afmá skuld á bankareikningi hans. Þá gerðu báðir áfrýjendurnir kröfu um að stefndi yrði dæmdur til að greiða þeim bætur vegna kyrrsetningarinnar. Kröfur þessar voru ekki hafðar uppi með gagnsök, heldur eingöngu í greinargerðum, sem áfrýjendur lögðu fram í héraði til varna gegn kröfum stefnda. Þegar af þessum sökum voru þessar kröfur áfrýjenda ekki tækar til efnisdóms.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi lagði stefndi fram undir rekstri málsins í héraði veðsamning frá 25. apríl 2001. Í samningnum var meðal annars ákvæði um að aðilar hans væru sammála um að dómstólar í Englandi skyldu einir hafa lögsögu til að fjalla um og dæma í málum, sem upp kynnu að koma vegna samningsins eða í tengslum við hann. Engin efni eru til að fallast á það með áfrýjendum að þetta ákvæði geti staðið því í vegi að stefndi geti fyrir íslenskum dómstólum borið efni þessa skjals fyrir sig til sönnunar um atriði, sem mál þetta varðar. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest með vísan til forsendna hans um önnur atriði málsins.
Áfrýjendur verða dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Fónn ehf. og Holberg Másson, greiði í sameiningu stefnda, Landsbanka Íslands hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2004.
Mál þetta var höfðað 13. maí 2003, þingfest 20. sama mánaðar og dómtekið 4. desember 2003.
Stefnandi er Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefndu eru Fónn ehf., kt. 680292-2489, Mímisvegi 6, Reykjavík og Holberg Másson, kt. 210954-3339, til heimilis á sama stað.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 27.785.468 krónur, ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 16. nóvember 2001 til greiðsludags.
2. Að staðfest verði kyrrsetning nr. K-5/2003, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 14. mars 2003 í fasteignunum Mímisvegi 6, eignarhluta 0301, Reykjavík og Haga við Selfjall 4, Rangárþingi ytra, lóðarréttindum og mannvirkjum, sem báðar eru í eigu stefnda Holbergs Mássonar, og Nissan Patrol bifreið nr. PB-562, sem er í eigu stefnda Fóns ehf.
3. Að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað.
Dómkröfur stefnda Fóns ehf. eru eftirfarandi:
1. Að stefndi verði alfarið sýknaður af kröfu stefnanda um greiðslu á 27.785.468 krónum, ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.
2. Að stefnda verði, að viðlögðum 30.000 króna dagsektum, gert að afmá skuld stefnda hjá stefnanda á tékkareikningi nr. 8990.
3. Að hafnað verði kyrrsetningu í bifreiðina PB-562, Nissan Patrol, samanber kyrrsetningargerð framkvæmd af sýslumanninum í Reykjavík 14. mars 2003.
4. Að stefnanda verði gert að greiða stefnda bætur að mati dómsins vegna kyrrsetningargerðarinnar sem fram fór 14. mars 2003.
5. Að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
Dómkröfur stefnda Holbergs eru eftirfarandi:
1. Að stefndi verði alfarið sýknaður af kröfu stefnanda um greiðslu á 27.785.468 krónum, ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.
2. Að hafnað verði kyrrsetningu í fasteignunum Mímisvegur 6, eignahluti 0301, Reykjavík og Haga við Selfjall 4, Rangárþingi ytra, lóðarréttindum og mannvirkjum, samanber kyrrsetningargerð framkvæmd af sýslumanninum í Reykjavík 14. mars 2003.
3. Að stefnanda verði gert að greiða stefnda bætur að mati dómsins vegna kyrrsetningar sem fram fór í ofangreindum eignum hans 14. mars 2003.
4. Að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni
Óumdeilt er að Fónn ehf. er einhlutafélag og að stefndi Holberg Másson er aðaleigandi þess, framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaður.
Stefndi Holberg var einn af stofnendum Netverks hf., breska almenningshlutafélagsins Netverks plc. og fjölda annarra fyrirtækja á sviði hugbúnaðargerðar, auk þess sem þessi félög keyptu önnur á sama sviði. Stefnandi var aðalviðskiptabanki þessara félaga á þeim tíma sem atvik máls þessa gerðust.
Með bréfi, dagsettu 26. maí 1999, fór stefndi Holberg skriflega fram á lánafyrirgreiðslu hjá stefnanda. Í yfirskrift kom fram bréfið væri vegna fyrirgreiðslu hans og Ísnet hf. Efni bréfsins var á þessa leið:
Mér þætti vænt um ef Landsbankinn myndi setja tímabundinn yfirdrátt á heftið hjá Ísnet hf., kt. 631288-2869, reikn. nr. 206, þar sem öll hlutabréf þess fyrirtækis eru í minni eigu. Upphæðin yrði kr. 55 milljónir og yrði í einn mánuð. Tilgangurinn með þessu er að kaupa hlutabréf í Netverk plc fyrir eina milljón dollara. Það sem vantar upp á þessa upphæð mun koma af einkareikningi mínum sem tímabundið lán til Ísnets. Undirritaður mun vera í sjálfsskuldarábyrgð fyrir þessari fyrirgreiðslu.
Þau hlutabréf sem keypt verða fara í endursölu hjá Landsbanka Íslands og munu vera í umsjá Björns Snæs Guðbrandssonar og í vörslu Landsbankans þar til sölu lýkur, þar sem andvirði sölunnar verður lagt inn á sama reikning. Ég geri ráð fyrir að jafnharðan og greiðslur verði lagðar inn á reikninginn að yfirdráttarheimildin yrði lækkuð í þrepum þangað til henni lýkur. Rétt væri að hafa yfirdráttarheimildina í einn mánuð en vonandi er að þetta taki ekki nema tvær til þrjár vikur.
Strax næsta dag voru millifærðar 74.500.000 krónur af framangreindum reikningi Ísnets ehf. og rann fjárhæðin inn á reikning Netverks plc. hjá stefnanda.. Þann dag var innistæða á reikningnum að fjárhæð 20.038.998 krónur en eftir greiðsluna var 54.711.012 króna skuld á reikningnum. Samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti var 55 milljóna króna yfirdráttarheimild á reikningnum þann dag og gilti hún til 30. júní 1999.
Á þessum tíma stóð yfir hlutafjárútboð í Netverki plc. og vantaði eina milljón bandaríkjadala upp á að lágmarksfjárhæð hlutafjárloforða væri náð. Ljóst er að framangreind millifærsla af reikningi Ísnets ehf. rann til greiðslu á hlutafé í Netverki plc. Ekki er hins vegar fyllilega ljóst hvort hlutaféð var í eigu stefnda Holbergs eða Ísnets ehf. en hann var á þessum tíma eigandi þess félags.
Samkvæmt framlögðum reikningsyfirlitum voru fimm milljónir króna millifærðar á reikninginn 18. júní 1999 en vextir o.fl. skuldfært á reikninginn 30. júní sama ár. Hinn 30. júlí 1999 voru millifærðar á reikninginn 61.051.200 krónur og var inneign á reikningnum þá 5.127.810 krónur.
Í ágúst og september 1999 fór fram nýtt útboð hlutafjár í Netverki plc. að fjárhæð tvær milljónir bandaríkjadala. Hinn 3. september 1999 var færð 56.761.961 króna af reikningi Ísnets ehf. nr. 206 á reikning Netverks plc. hjá stefnanda.
Stefndi Holberg kveðst hafa hætt störfum sem framkvæmdastjóri Netverks plc. í júní 1999 en verið ráðinn aftur í árslok. Þá hafi staðið til að sameina Ísnet ehf. Netverki plc. en það ekki komið til framkvæmda af skattalegum ástæðum. Hann kveðst ekki hafa haft prókúruumboð fyrir þessi fyrirtæki í september 1999.
Stefnandi kveður Ísnet ehf. hafa verið í eigu stefnda Holbergs fram til 30. desember 1999 en þá hafi það orðið dótturfélag Netverks plc.
Í málinu liggja fyrir gögn um að Rut famile trust hafi verið skráð fyrir 964.716 bandaríkjadala hlut í þessu útboði og fyrir hlutina í Netverki plc. hafi verið greiddar 69.694.268 krónur. Rut famile trust er sjóður sem stefndi Holberg hefur kannast við að hafi verið stofnaður í Bretlandi á hans nafni. Í framlagðri tilkynningu stefnanda, dagsettri 3. september 1999, til Netverks plc. kemur hins vegar fram að stefndi Holberg hafi skráð sig fyrir hlutafé að fjárhæð 954.716 bandaríkjadali í þessu útboði. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að framangreind fjárhæð hafi verið færð af reikningi Ísnets ehf. vegna þessara hlutafjárkaupa Holbergs.
Stefnandi hafði framangreind hlutabréf undir höndum og miðað var við að þau yrðu seld. Hluti af bréfunum var seldur 17. febrúar 2000 fyrir 6.957.948 krónur og einnig voru seld bréf 21. nóvember 2000 fyrir 249.250 bandaríkjadali. Þessar fjárhæðir voru lagðar inn á fyrrnefndan reikning Ísnets ehf. hjá stefnanda og komu til frádráttar yfirdráttarskuld á reikningnum.
Framlögð reikningsyfirlit sýna að ýmsar lægri fjárhæðir voru millifærðar inn og út af reikningnum frá september og til ársloka 1999, þar á meðal voru skuldfærðir vextir. Ekki er ágreiningur um þessar millifærslur.
Fyrir liggur að stefndi Holberg var á þeim tíma sem hér um ræðir í umtalsverðum persónulegum ábyrgðum gagnvart stefnanda vegna skulda Netverks plc. Þríhliða samkomulag milli stefnda Holbergs, stefnanda og Netverks plc. var undirritað 10. mars 2000 en með því var stefndi Holberg leystur undan ábyrgðum sem hann hafi verið í gagnvart stefnanda vegna nánar tilgreindra skulda Netverks plc. og dótturfélaga þess félags. Í 4. gr. samningsins segir:
"HM er [...] enn í persónulegum ábyrgðum gagnvart LÍ vegna annarra lána, meðal annars til félagsins Ísnets ehf., 631288-2869, Mímisvegi 6, Reykjavík."
Í febrúar 2001 gerðu endurskoðendur Netverks plc. athugasemd við það að upplýsinga um skuldir Ísnets ehf. við stefnanda hefði ekki verið getið í reikningum þess félags, sem þá var orðið dótturfélag Netverks plc., og jafnframt að efnislega væri um að ræða persónulega skuld eins hluthafans en ekki félagsins. Stefndi Holberg brást við þessu með því að lýsa því yfir skriflega 27. febrúar 2001 að til yfirdráttarláns Ísnets ehf., þá að heildarfjárhæð 23.784.000 krónur, hefði verið stofnað af honum einum og jafnframt að lánið væri alfarið á persónulega ábyrgð hans og að það skyldi að fullu endurgreitt til bankans af honum eða einstaklingum eða lögaðilum öðrum en Ísneti ehf.
Í kjölfar þessa sendi Birgir Guðmundsson, starfsmaður Landsbanka Íslands hf., Netverki plc. bréf, dagsett 7. mars 2001, en efni þess var svohljóðandi:
„Með tilvísun til bankareiknings 111-26-206, sem nú er í eigu Ísnets EHF, staðfestum við hér með að Landsbanki Íslands hf. hefur móttekið ósk frá Holbergi Mássyni um að færa viðkomandi bankareikning og allar skuldbindingar honum tengdar frá Ísneti ehf. á nafn Holbergs Mássonar persónulega eða fyrirtækis hans.
Þessi aðgerð verður framkvæmd á næstu dögum eftir að Holberg Másson hefur undirritað öll nauðsynleg skjöl vegna ofangreinds.”
Í framlögðu minnisblaði lánanefndar stefnanda til viðskiptastofu stefnanda, dagsettu 8. mars 2001, kemur fram að Holberg Másson hafi óskað eftir því að tékkareikningur Ísnets ehf. nr. 111-26-206 og vanskil á þeim reikningi yrðu flutt á hans nafn eða einkafyrirtækis hans Fóns ehf. eftir því sem stefnanda þætti henta betur. Rakin var forsaga málsins og sú ástæða tilgreind fyrir fyrirhugaðri skuldskeytingu að Netverk plc. vildi að Ísnetsnafnið yrði eign Netverkssamstæðunnar. Þá kom fram að skuldin stæði í 24,1 milljón krónum króna. Lánanefndin lagði til að flutningurinn yrði samþykktur og lögfræðingar könnuðu hvort væri tryggingarlega betra að hafa skuldina á nafni Holbergs eða Fóns ehf. Lagt var til að til tryggingar yrðu núverandi handveð í 240 þúsund hlutum Holbergs í Netverki, en til öryggis yrði gerð ný handveðsyfirlýsing.
Árni Þór Þorbjörnsson, starfsmaður stefnanda, sendi tölvupóst 25. apríl 2001 á netfangið holber.masson@netverk.net. og kom þar fram að meðfylgjandi væri handveð vegna flutnings láns af Ísneti ehf. yfir á Fón ehf. Holberg var beðinn um að staðfesta skjalið með því að undirrita aftast og setja upphafsstafi sína á allar síður en faxa það síðan til stefnanda og þá yrði staðfesting bankans send til London. Afrit af tölvupóstinum var sent Matthíasi Guðmundssyni, starfsmanni Netverks ehf., dótturfélags Netverks plc., í tölvupósti. Þeir Matthías og Holberg voru á þessum tíma báðir staddir í London. Þennan sama dag ritaði Holberg undir umræddan veðsamning þar sem stefnanda voru veðsettir 100.000 hlutir hans í Netverki plc. Samningurinn, sem bar heitið, Deed of charge over shares, var á ensku en hefur jafnframt verið lagður fram í málinu í íslenskri þýðingu. Í A-lið inngangs að samningnum segir: „Landsbankinn og Fónn ehf., hafa gert með sér lánssamning en samkvæmt honum hefur Landsbankinn veitt félaginu lán sem nú er að fjárhæð ISK 25.000.000.” Þá segir í B-lið inngangsins að Fónn ehf. sé alfarið í eigu Holbergs Mássonar.
Í 2. gr. samningsins, undir fyrirsögninni „greiðsluskuldbinding”, segir: „Gegn núverandi og síðari fjármagnsfyrirgreiðslu Landsbankans við félagið skv. lánssamningnum, skuldbindur Holberg Másson sig til þess að greiða skuldina. ”
Í málinu liggur fyrir bréf Birgis Guðmundssonar, starfsmanns stefnanda, til Netverks plc., dagsett 25. apríl 2001, en þar er staðfest að bankareikningur nr. 111-26-206, sem áður hafi verið á nafni Ísnets ehf., tilheyri nú Fóni ehf., og að allar skuldbindingar tengdar reikningi þessum hafi verið færðar frá Ísneti ehf. til Fóns ehf.
Yfirdráttarskuld Ísnets ehf. hjá stefnanda var gerð upp 2. maí 2001 með millifærslu af reikningi stefnda Fóns ehf.
Stefnandi kveðst í nóvember 2001 hafa gjaldfellt yfirdráttarskuldina. Þegar stefndu hafi verið sent innheimtubréf 16. nóvember 2001, hafi staða yfirdráttar með áföllnum vöxtum verið 27.785.468 krónur.
Bú Netverks ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 4. júlí 2002. Stefnandi kveður liggja fyrir að Netverki plc., móðurfélagi Netverks ehf., verði slitið innan tíðar. Stefnandi kveður stefndu eiga verulegan eignarhlut í Netverki plc., sem hafi stórlega lækkað í verði á undanförnum mánuðum. Stefnandi kveður ofangreinda atburði óhjákvæmilega hafa haft veruleg áhrif til hins verra á eignastöðu stefndu.
Holberg og eiginkona hans gerðu með sér kaupmála, dagsettan 11. janúar 2002. Samkvæmt kaupmálanum var fasteignin Mímisvegur 6 í Reykjavík, merkt 0201, fmnr. 200-9039, gerð að séreign eiginkonu stefnda. Í kaupmálanum er sú fasteign verðmætin á 22.800.000 krónur, en fyrir var eignarhlutur stefnda 50% en eiginkonu hans 50%.
Víð fyrirtöku kyrrsetningarbeiðni stefnanda 31. janúar 2003 tók sýslumaðurinn í Reykjavík til greina á kröfu stefnanda um kyrrsetningu gegn 7.600.000 króna tryggingu frá stefnanda. Kyrrsetning var framkvæmt 14. mars 2003, í fasteignum stefnda Holbergs að Mímisvegi 6, Reykjavík og Haga við Selfjall 4, Rangárþingi ytra, og Nissan Patrol bifreið nr. PB-562 í eigu stefnda Fóns ehf. Þegar gerðin var framkvæmd kom í ljós að skuldabréf að fjárhæð 2.057.793 krónur, tryggt með veði í bifreiðinni, hafði verið gefið út 3. febrúar 2003.
Stefnandi höfðaði mál á hendur stefndu vegna yfirdráttar á umræddum tékkareikningi með stefnu útgefinni 22. nóvember 2001 en því máli var vísað frá héraðsdómi án kröfu með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2002. Stefnandi höfðaði aftur mál á hendur stefndu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 26. apríl 2002 vegna sömu yfirdráttarskuldar. Hann höfðaði síðan annað mál á hendur þeim 21. mars 2003 til staðfestingar á sömu kyrrsetningargerðar og fjallað er um í þessu máli og voru þessi tvö mál sameinuð 2. apríl 2003. Hinu sameinaða máli var vísað frá dómi án kröfu með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 10. apríl 2003 og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi 6. maí 2003.
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi byggir á því að hann hafi veitt Ísneti ehf. yfirdráttarheimild í maí 1999. Til skuldarinnar hafi verið stofnað samkvæmt skriflegri ósk stefnda Holbergs sem hafi verið eigandi og stjórnandi félagsins og hafi hún verið tryggð með sjálfskuldarábyrgð hans, sambanber bréf hans til stefnanda, dagsett 26. maí 1999. Á meðan Ísnet ehf. hafi verið aðalskuldari hafi stefndi Holberg ítrekað staðfest ábyrgð sína gagnvart stefnanda skriflega og er í því sambandi vísað til þríhliða samkomulags, dagsetts 10. mars 2000, og yfirlýsingu hans, dagsettrar 27. febrúar 2001. Jafnframt hafi stefndi Holberg, á meðan Ísnet ehf. hafi verið aðalskuldari, viðurkennt ábyrgð sína á skuldinni í verki með því að láta greiðslur vegna sölu hlutabréfa í Netverki plc. renna inn á umræddan reikning Ísnets ehf. til frádráttar skuldinni, samanber t.d. sölukvittanir, dagsettar 18. febrúar og 21. nóvember 2000.
Stefnandi kveðst byggja á því að skuldaraskipti hafi orðið að skuldinni í maí 2001 með því að stefndi Fónn ehf. hafi yfirtekið skuldbindingu Ísnets ehf. Skuldaraskiptin hafi farið fram með þeim hætti að skuld Ísnets ehf. gagnvart stefnanda hafi verið greidd upp en þess í stað hafi verið stofnað til samsvarandi yfirdráttarskuldar stefnda Fóns ehf. hjá stefnanda. Skuldaraskiptin hafi átt sér stað að ósk stefnda Holbergs, eiganda og stjórnanda stefnda Fóns ehf., fyrir hönd þess félags, með vitund og vilja hans, og gegn hans persónulegu ábyrgð. Stefndi Fónn ehf. sé því aðalskuldari að skuldinni nú en stefndi Holberg beri sem fyrr sjálfskuldarábyrgð á henni.
Stefnandi kveður afgerandi sönnunargögn styðja þá staðhæfingu hans að umrædd skuldaraskipti hafi átt sér stað að ósk stefnda Holbergs og með vitund og vilja hans, og gegn áframhaldandi sjálfskuldarábyrgð hans og vísar um það til bréfs Birgis Guðmundssonar til Netverks plc., dagsetts 7. mars 2001, tillögu viðskiptastofu stefnanda til lánanefndar, dagsettrar 8. mars 2001, tölvupósts Árna Þórs Þorbjörnssonar til stefnda Holbergs og Matthíasar Guðmundssonar, dagsetts 25. apríl 2001, samnings um veðsetningu hlutabréfa, dagsetts 25. apríl 2001 og bréfs Birgis Guðmundssonar til Netverks plc., dagsetts 25. apríl 2001.
Ennfremur byggir stefnandi á að stefndi Holberg hafi með ótvíræðum hætti lýst yfir beinni og ótakmarkaðri greiðsluskuldbindingu sinni gagnvart stefnanda með undirritun fyrrnefnds samnings um veðsetningu hlutabréfa, dagsetts 25. apríl 2001. Undirritun þess samnings feli, hvað sem öðru líði, í sér skuldbindingu af hálfu stefnda Holbergs gagnvart stefnanda um greiðslu hinnar umstefndu skuldar. Sú málsástæða grundvallist meðal annars á áliti bresku lögmannsstofunnar Reynolds Porter Chamberlain um að 2. gr. veðsamningsins feli, eftir breskum lögum, í sér beina og persónulega ábyrgð stefnda Holbergs gagnvart bankanum. Ljóst sé að sú skuld Fóns ehf. við stefnanda sem um hafi verið rætt í veðsamningnum geti ekki verið önnur en umrædd yfirdráttarskuld.
Þá byggir stefnandi á því, að með því að taka athugasemdalaust við reikningsyfirlitum frá stefnanda, sem borið hafi skuldinni glöggt vitni, hafi stefndi Fónn ehf. orðið bundinn við að greiða stefnanda skuldina og stefndi Holberg orðið ábyrgur fyrir þeirri greiðslu. Stefndu hafi tekið við reikningsyfirlitum frá stefnanda, þar sem skýrt hafi komið fram hver staða skuldarinnar væri, án þess að hreyfa andmælum við henni. Stefnandi kveður þetta tómlæti stefndu einnig styðja staðhæfingu hans um að skuldaraskipti hinnar umstefndu skuldar, á þann veg að stefndi Fónn ehf. hafi komið í stað Ísnets ehf., hafi átt sér stað með vitund og vilja stefnda Fóns ehf. og gegn áframhaldandi ábyrgð stefnda Holbergs.
Loks telur stefnandi það styðji kröfur hans á hendur stefnda Holbergi að yfirdráttarheimildin hafi ávallt hafa verið notaða til fjárfestinga í hans þágu persónulega eða félaga í hans eigu og undir hans stjórn.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hafna beri þeirri málsástæðu stefndu að ekki verði byggt á veðsamningi þessara aðila frá 25. apríl 2001 vegna varnarþingsákvæða í honum. Stefnandi kveður stefndu ekki hafa krafist frávísunar í máli þessu og hafi þar með í reynd samþykkt að mál vegna umrædds ágreinings aðila yrði rekið hér á landi. Stefnandi vísar til hæstaréttardóms 1983, bls. 1599 því til stuðnings að samningsákvæði um varnarþing í öðru landi leiði ekki til frávísunar máls frá dómi hér á landi ef stefndi sæki þing og krefjist ekki frávísunar málsins. Óhjákvæmilegt sé annað en að byggt verði á umræddum veðsamningi sem sönnunargagni varðandi það hvort skuldskeyting hafi átt sér stað.
Stefnandi kveður kaupmála þann sem stefndi Holberg hafi gert við eiginkonu sína draga mjög úr líkum á því að fullnusta takist. Kveður stefnandi þar skipta höfuðmáli að í stað fasteignar í eigu stefnda Holbergs hafi samkvæmt kaupmálunum komið að hluta reiðufé, sem ekki verði séð að muni í raun standa kröfum lánadrottna til fullnustu. Kröfu um staðfestingu kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík í nánar tilgreindum eigum stefndu 14. mars 2003 kveðst stefnandi byggja á því að lögbundin skilyrði kyrrsetningar hafi verið fyrir hendi. Kröfunni hafi ekki þegar mátt fullnægja með aðför. Telur hann að ef kyrrsetningin hefði ekki farið fram hefði mátt telja sennilegt að dregið hefði mjög úr líkum þess að fullnusta kröfunnar tækist eða að fullnusta hefði orðið verulega örðugri.
Stefnandi bendir á að málsatvik og hegðun stefnanda við meðferð kyrrsetningarbeiðninnar og veðsetning Nissan Patrol bifreiðar, í eigu stefnda Fóns ehf , 3. febrúar 2002, styðji þessi sjónarmið mjög eindregið. Stefnandi telur skilyrði kyrrsetningar enn vera fyrir hendi. Stefnandi kveðst höfða mál um kröfu sína á hendur stefndu í samræmi við og innan þess frests sem kyrrsetningarlög kveði á um.
Stefnandi kveðst krefjast dráttarvaxta frá 16. nóvember 2001 en þá hafi innheimtuaðgerðir stefnanda á hendur stefndu hafist.
Stefnandi kveðst byggja á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og greiðsluskyldu lögmætra fjárskuldbindinga. Um efnisleg skilyrði kyrrsetningar er vísað til 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann en vegna kröfunnar um staðfestingu kyrrsetningar til VI. kafla sömu laga.
Af hálfu stefnanda er því hafnað að kröfur beggja stefndu um bætur vegna kyrrsetningarinnar komist að í máli þessu án gagnstefnu. Sama máli gegni um kröfu stefnda Fóns ehf. um að stefnanda verði að viðlögðum dagsektum gert að afmá skuld stefnda hjá stefnanda á tékkareikningi nr. 8990. Síðarnefnda krafan sé sjálfstæð krafa og geti ekki talist gagnkrafa sem koma megi að án gagnstefnu.
Af hálfu beggja stefndu er bent á að verið sé að stefna máli þessu í þriðja skiptið. Í hin tvö skiptin hafi forsendur þeirrar kröfu sem stefnandi hafi gert á hendur þeim ekki verið ljósar og hafi málunum því verið vísað frá dómi án kröfu. Málatilbúnaður stefnanda í þessu máli sé sama marki brenndur og í hinum málunum. Í stefnu í máli þessu sé reynt að lýsa stofnun skuldarinnar hjá Ísneti ehf., lokun þess reiknings og færslu skuldarinnar yfir á stefnda Fón ehf. Engin gögn hafi hins vegar lögð fram um stofnun reikningsins, heimild stefnanda til að stofna til skuldar á reikninginn eða leggja fram gögn um sjálfskuldarábyrgð stefnda á skuld á reikningi Ísnets ehf., eða stefnda Fóns ehf.
Vísað er til þess að stefnandi hafi tvívegis skuldfært á reikning Ísnets ehf. nr. 206 kaupverð hlutabréfa í Netverki plc. Í fyrra skiptið 27. maí 1999 og í síðara skiptið 3. september sama ár. Í bæði skiptin hafi verið um það að ræða að stefndi Holberg hafi neyðst til að kaupa óseld hlutabréf í Netverki plc. til að koma í veg fyrir að ógilda þyrfti hlutafjárútboð á vegum stefnanda. Staðið hafi til að selja hlutabréfin eftir útboðin og greiða upp yfirdráttinn. Það hafi verið gert eftir fyrra útboðið og hafi stefnandi annast sölu hlutabréfanna. Þegar síðara útboðið hafi farið fram í september 1999 hafi verið búið að reka hann frá störfum hjá Netverki. plc. Það útboð hafi heldur ekki gengið sem skyldi og stefnanda einungis tekist að selja helming hlutabréfanna þegar útboðsfrestur var að líða. Hafi þá verið ákveðið að Holbert keypti hlutabréf fyrir eina milljón bandaríkjadala til þess að útboðið ógiltist ekki. Þáverandi framkvæmdastjóri Netverks plc. hafi síðan látið millifæra andvirði hlutabréfanna af reikningi Ísnets ehf. á reikning Netverks plc. Stefndi Holberg kveðst aftur hafa tekið við sem framkvæmdastjóri hjá Netverki plc. um áramótin 1999/2000 og gegnt því starfi fram á haustið 2001 þegar honum hafi aftur verið vikið frá störfum.
Stefndi Holberg heldur því fram að í upphafi árs 2001 hafi komið fram athugasemdir af hálfu endurskoðanda Netverks plc. í Bretlandi um skuldina á tékkareikningi Ísnets ehf. Hafi endurskoðandinn talið að eyða þyrfti þessari skuld svo hún kæmi ekki fram í samstæðureikningi Netverks plc. Hafi stefndi Holberg samið yfirlýsingu, dagsetta 27. febrúar 2001, fyrir endurskoðandann til að hafa í bókhaldinu og hafi hún verið talin nægjanlega fyrir bókhaldið. Stefnandi hafi ekki haft yfirlýsinguna undir höndum þegar millifærslan hafi farið fram 2. maí 2001.
Stefndi Holberg heldur því fram að endurskoðandinn hafi einnig tilkynnt stefnanda að hann gæti ekki stillt upp ársreikningi Netverks plc. meðan skuldin væri skráð á Ísnet ehf. Á þessum tíma hafi stefnandi verið eigandi 17% hlutafjár í Netverki plc. Viðræður hafi farið fram á milli hans og starfsmanna stefnanda til að finna lausn á málunum. Stefndi Holberg hafi á þessum tíma átt allt undir stefnanda. Stefnandi hafi á þessum tíma verið aðalviðskiptabanki félagsins jafnframt því sem bankinn og stefndi Holberg hafi ráðið yfir meirihluta hlutafjár í Netverki plc. Niðurstaðan hafi orðið sú að stefndi Holberg legði fram til stefnanda tryggingu í 100.000 hlutum sínum í Netverki plc. Hafi ekki verið komið á hreint þegar þetta hafi verið ákveðið með hvaða hætti eða hvernig skuldin yrði greidd og af hverjum. Lögmaður stefnda Holbergs, hafi síðan útbúið veðskjalið og stefndi Holberg ritað undir það ásamt fylgiskjölum þ.m.t. yfirfærslu þessara hluta til stefnanda. Kveður Holberg sig ekki hafa ritað undir þetta skjal fyrir hönd Fóns ehf., enda litið þannig á að markmið skjalsins væri að setja stefnanda tryggingu í hlutabréfum í sinni eigu.
Mótmælir stefndi Holberg því að ákvörðun hafi verið tekin á þessum tíma um að heimila stefnanda að millifæra skuld Ísnets ehf. á reikning Fóns ehf. Sú ákvörðun hafi verið tekin einhliða af stefnanda.
Stefndi Holberg kveðst hafa undirgengist sjálfsskuldarábyrgð á reikningi Ísnets ehf. þegar hann hafi keypt hlutabréfin í fyrra útboðinu 1999 og hafi sú ábyrgð verið allt að 50 milljónum króna. Sú ábyrgð hafi fallið niður annað hvort á árinu 2000 eða 2001. Stefndi Holberg kveðst byggja á því í máli þessu að hann hvorki skuldi stefnanda hina umkröfðu fjárhæð né hafi gengist undir ábyrgð á skuldinni.
Stefndi Holberg telur að ekki sé alveg ljóst hvort stefnandi byggi greiðsluskyldu hans á ábyrgð hans á reikningi meðstefnda Fóns ehf. eða að hann skuldi óháð þeirri skuld þá fjárhæð sem stefnt sé út af í málinu. Af samhengi málsástæðna stefnanda og framlagðra verði að miða við það að hann byggi á því að stefndi hafi tekið á sig ábyrgð á skuld Fóns ehf. Af því leiði að ábyrgð stefnda sé háð greiðsluskyldu meðstefnda Fóns ehf. Ábyrgðin geti ekki verið til staðar ef greiðsluskuldbinding meðstefnda Fóns ehf. reynist ekki fyrir hendi.
Stefndi Holberg heldur því fram að skilyrði skuldaraskipta hafi ekki verið uppfyllt. Fyrir það fyrsta þurfi að liggja fyrir beiðni skuldara um að annar skuldari taki að sér greiðslu skuldarinnar. Í öðru lagi þurfi að liggja fyrir samþykki hins nýja skuldara fyrir yfirtöku á skuldinni og í þriðja lagi yfirlýsing frá kröfuhafa að hann samþykki nýja skuldarann og sá eldri losni undan skyldum sínum. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn sem staðfesti að þessi ferill hafi farið í gang og stefndi Fónn ehf. undirgengist að taka á sig greiðslu á skuld Ísnets ehf.
Þá byggir stefndi Holberg á því að ef ábyrgð hafi verið fyrir hendi hjá eldri skuldara og samþykki liggi fyrir frá kröfuhafa um að annar aðili yfirtaki skuldina þá verði ábyrgðaraðilinn að samþykkja gagnvart kröfuhafanum að ábyrgð hans haldist. Ábyrgðin falli niður ef ekki sé leitað eftir því. Í því tilviki sem hér um ræðir sé ekki hægt að tala um skuldaraskipti. Nafni á reikningi Ísnets ehf. hafi ekki verið breytt heldur hafi skuld Ísnets ehf., verið færð á annan reikning sem þegar hafi verið til hjá stefnanda. Í því felist ekki skuldaraskipti. Í því sambandi bendir stefndi á að reikningur Ísnets hf., hafi verið með 25 milljóna króna yfirdráttarheimild, sem ekki hafi verið yfirfærð á reikning meðstefnda Fóns ehf.
Stefndi Holberg vísar jafnframt til þess að yfirlýsingu hans frá 27. febrúar 2001 hafi ekki verið beint til stefnanda og geti þar af leiðandi ekki verið tilefni ákvörðunar stefnanda um að millifæra skuld Ísnets ehf. á reikning Fóns ehf. Í yfirlýsingu þessari felist ekki ábyrgð á reikningi Fóns ehf.
Jafnframt byggir stefndi Holberg á því að veðsamningurinn frá 25. apríl 2001 verði ekki túlkaður af íslenskum dómstólum eða samkvæmt íslenskum lögum og vísar í því sambandi til 21. og 22. gr. samningsins. Beri því að vísa þessu skjali frá dómi. Þessi samningur verði ekki lagður til grundvallar í máli þess eða ályktanir dregnar af honum eða því áliti sem liggi fyrir í málinu frá Ron Norman lögmanni. Auk þess hafi stefndi Holberg ekki ritað undir samninginn f.h. meðstefnda Fóns hf. Jafnt í breskum rétti sem íslenskum verði félag ekki skuldbundið samkvæmt samningi ef ekki sé ritað undir fyrir þess hönd. Tilgangur samningsins hafi verið veðsetning á 100.000 hlutum í Netverki plc. Samningurinn feli að öðru leyti ekki í sér skuldbindingu hvorki fyrir stefnda né meðstefnda fyrr en gengið hafi verið frá lánasamningi. Líta megi á samning þennan eins og tryggingabréf sem háð sé lánssamningi.
Stefndi Holberg mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að greiðsla inn á reikning Ísnets ehf., feli í sér viðurkenningu hans á því að hann en ekki Ísnet hf. hafi skuldað stefnanda. Stefndi bendir á að umræddar innborganir á reikning Ísnets ehf. hafi verið framkvæmdar af starfsmönnum stefnanda þegar þeir hafi selt hluta af þeim hlutabréfum sem keypt hafi verið í útboðinu 1999. Jafnframt verði ekki séð að tengsl séu á milli þessara innborganna og meintrar ábyrgðar stefnda Holbergs á reikningi meðstefnda.
Stefndi Holberg bendir á að í þeim yfirlitum sem meðstefnda Fóni ehf. hafi verið send komi hvergi fram að hann sé í ábyrgð á skuldinni.
Stefndi Holberg byggir kröfu sína um að hafna beri staðfestingu kyrrsetningar í eignum hans á þeim forsendum að hvorki hafi verið formleg eða efnisleg skilyrði til staðar þegar kyrrsetningin hafi fram 14. mars 2003. Þau gögn sem stefnandi hafi lagt fram fyrir sýslumann hafi verið með öllu ófullnægjandi og sýslumanni borið að hafna kröfunni. Stefndi telur jafnframt að formskilyrði 5. gr. kyrrsetningarlaga hafi ekki verið fyrir hendi þar sem eignir stefnda hafi ekki rýrnað eða hætta verið á að hann skyti undan eignum.
Kyrrsetningargerðin hafi valdið stefnda Holbergi miklum óþægindum. Hann hafi hvorki hafa getað veðsett eignina né selt og hafi auk þess orðið fyrir álitshnekki með þeirri aðgerð. Hann stundi viðskipti og kyrrsetninginn hafi haft mjög neikvæð áhrif á þau. Telur hann að stefnandi eigi að bæta honum tjón vegna þess að mati dómara.
Á það er bent að kostnaður stefnda Holbergs af þeim þremur málum sem stefnandi hafi höfðað á hendur honum sé lagt umfram það sem honum hafi verið dæmt í málskostnað og beri dómara að taka mið af forsögu málsins við ákvörðun málskostnaðar.
Af hálfu stefnda Fóns ehf. er byggt á því að skuld Ísnets ehf. við stefnanda sé og hafi verið félaginu með öllu óviðkomandi og að færsla skuldarinnar á reiknings félagsins 2. maí 2001 hafi með öllu verið heimildarlaus af hálfu stefnanda.
Af hálfu stefnda Fóns ehf. er ennfremur vísað til þess að af félagsins hálfu hafi ekki verið ritað undir nein þau skjöl sem heimilað hafi stefnanda þessa millifærslu á reikning félagsins. Framlögð skjöl beri ekki með sér að félagið hafi tekið á sig skuldbindingar um greiðslu á kröfunni. Á það er bent að yfirlýsingin frá 27. febrúar 2001 sé undirrituð af Holbergi Mássyni persónulega en ekki fyrir hönd Fóns ehf. Í þeirri yfirlýsingu komi aðeins fram vangaveltur um greiðslu skuldarinnar en hvergi minnst á stefnda í því sambandi. Í henni hafi ekki falist heimild fyrir stefnanda til að færa skuldina á reikning félagsins.
Þá feli veðsamningurinn frá 27. apríl 2001 ekki í sér heimild stefnanda til handa til að skuldbinda félagið. Fyrir það fyrsta hafi meðstefndi Holberg einn ritað undir þá yfirlýsingu en ekki einnig fyrir hönd félagsins. Í annan stað verði sá samningur ekki túlkaður af íslenskum dómstólum á grundvelli íslenskra laga þar sem skýrt sé kveðið á um það í samningum sjálfum að túlka beri hann samkvæmt breskum lögum og af breskum dómstólum. Í þriðja lagi sé um veðsamning að ræða en ekki skuldaviðurkenningu. Í samningum hafi verið vísað til lánasamnings sem aldrei hafi verið gerður.
Gera verði skýran greinarmun á stefnda sem félagi og meðstefnda sem framkvæmdastjóra og aðaleiganda félagsins. Þó svo að meðstefndi hafi haft heimild til að koma fram fyrir félagið og ganga erinda þess verði félagið ekki skuldbundið með yfirlýsingum hans nema í þeim tilvikum að skýrt og ótvírætt komi fram að hann annað hvort tali í nafni félagsins eða riti undir í nafni þess. Hvergi í framlögðum samningum eða skjölum komi fram skuldbinding af hálfu framkvæmdastjóra þess, meðstefnda Holbergs, um að hann sé að skuldbinda félagið. Honum hafi jafnframt verið það óheimilt, enda umrædd skuld ekki tengd rekstri hins stefnda félags.
Þeirri málsástæðu stefnanda er harðlega mótmælt að skuldin teljist rétt þar sem stefndi hafi ekki mótmælt yfirlitum sem honum hafi verið send um skuldastöðu reikningsins á hverjum tíma. Stefndi telur ekki unnt að byggja á traustfangsreglum ef ranglega hefur verið að verki staðið eins og í þessu tilviki þegar stefnandi hafi millifært skuldina án heimildar á reikning stefnda. Jafnframt hafi mjög skammur tími liðið frá því að yfirlitið hafi verið sent til stefnda og þar til innheimtuaðgerðir hófust. Þá beri ekki að túlka staðlaðan texta á yfirliti frá banka með þeim hætti að bankinn vinni rétt á hendur reikningshafa ef hann mótmæli ekki. Loks er vísað til laga um neytendalán nr. 121/1994 því til stuðnings að stefnandi geti ekki unnið rétt á grundvelli rangra millifærslna. Af hálfu stefnda Fóns ehf. er að öðru leyti tekið undir sjónarmið meðstefnda til stuðnings sýknukröfum.
Stefndi Fónn ehf. byggir kröfu sína um dagsektir á þeim rökum að stefnandi hafi komið á ólögmætu ástandi með því að skrá félagið í skuld við stefnanda. Til að aflétta því ástandi telur stefndi nauðsynlegt að stefnandi verði beittur dagssektum þar til hann afmái skuldina úr bókum sínum.
Niðurstaða
Aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar í málinu skýrslutökur í máli þeirra í milli sem vísað var frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2003. Ekki er verulegur ágreiningur með aðilum um málsatvik en hins vegar draga þeir talsvert ólíkar ályktanir af þeim skjölum sem fyrir liggja í málinu.
Af gögnum málsins og framburði starfsmanna stefnanda og stefnda Holbergs fyrir dómi verður ráðið að stefndi Holberg hafi keypt hlutabréf í Netverki plc. 27. maí 1999 í þeim tilgangi að áskilið lágmark hlutafjárloforða í hlutafjárútboði, sem þá stóð yfir, næðist og útboðið ógiltist ekki. Þá verður ráðið að umrætt hlutafé hafi verið greitt með millifærslu af reikningi Ísnets ehf. nr. 111-26-206 hjá stefnanda en stefndi Holberg var á þessum tíma eigandi einkahlutafélagsins. Þá liggur fyrir að stefnandi veitti 55 milljóna króna yfirdráttarheimild á þennan reikning, samkvæmt beiðni stefnda Holbergs frá 26. maí 1999. Í umræddri beiðni hans kom fram að hann myndi verða í sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdrættinum og hefur hann ekki þrætt fyrir ábyrgð á þeim yfirdrætti sem veittur var en telur að hann hafi fallið niður á árinu 2000 eða 2001.
Líta verður þannig á lögskipti stefnanda, Ísnets ehf. og stefnda Holbergs að stefnandi hafi lánað Ísneti ehf. fé í formi yfirdráttar til að fjármagna kaup stefnda Holbergs á hlutabréfum í Netverki plc. og að stefndi Holberg hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdráttarskuldinni. Um lögskipti stefnda Holbergs og Ísnets ehf. vegna þessara viðskipta liggur hins vegar ekkert fyrir en þau þykja ekki skipta máli við úrlausn málsins.
Fyrir liggur að stefnandi fékk umrædd hlutabréf stefnda Holbergs til sölu og að 30. júlí 1999 voru millifærðar 61.051.200 krónur á reikning nr. 206. Ekki er þó fyllilega ljóst hvort hlutabréfakaupin gengu til baka eða hvort hlutabréfin voru seld. Eftir þá millifærslu var rúmlega 5 milljóna króna innistæða á reikningnum.
Óumdeilt er að stefnandi annaðist annað hlutafjárútboð fyrir Netverk plc. haustið 1999. Sem fyrr tókst ekki að afla hlutafjárloforða fyrir því hlutafé sem selja átti og skapaðist því hætta á því að loforð þeirra sem skráð höfðu sig fyrir hlutum féllu niður. Af framlögðu skjali verður helst ráðið að Rut famile trust hafi verið skráð fyrir þeim hlutum sem ekki náðist að selja. Í framburði stefnda Holbergs fyrir dómi kom fram að um væri að ræða sjóð sem til hafi staðið að stofna í Bretlandi í hans nafni en ekkert frekar liggur fyrir í málinu um þennan sjóð. Meðal gagna málsins er hins vegar tilkynning stefnanda til Netverks plc., dagsett 3. september 1999, varðandi umrætt útboð en þar kemur fram að stefndi Holberg hafi skráð sig fyrir 136.388 hlutum í Netverki plc., að verðmæti 954.716 bandaríkjadali. Í ljósi framangreindra gagna, framburða vitna og síðari skjala sem stefndi Holberg hefur undirritað, verður að leggja til grundvallar að hann hafi í raun keypt umrætt hlutafjár að andvirði 69.694.268 króna en því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda Holbergs. Vegna þessara hlutafjárkaupa stefnda Holbergs var 56.761.961 króna millifærð af reikningi Ísnets ehf. 3. september 1999.
Í málinu liggur ekkert fyrir um það hver óskaði eftir þessari millifærslu eða samþykkti hana af hálfu Ísnets ehf. Af hálfu stefnda Holbergs hefur því verið haldið fram að á þessum tíma hafi hann verið hættur störfum sem framkvæmdastjóri Netverks plc. og Netverkssamstæðan verið búin að taka Ísnet ehf. yfir. Stefndi Holberg hefur þó viðurkennt að formleg yfirtaka á Ísneti ehf. hafi dregist fram að áramótum 1999/2000. Lagðar hafa verið fram í málinu ljósrit af tilkynningum stefnda Holbergs til hlutafélagaskrár vegna Ísnets ehf. Í tilkynningu dagsettri 22. júní 1999, sem stimpluð er um móttöku hlutafélagaskrár 25. júní 1999, kom fram að á hluthafafundi í Ísneti ehf. 22. júní 1999 hafi verið samþykktar nýjar samþykktir fyrir félagið. Jafnframt kom þar fram að stefndi Holberg væri eini hluthafinn í félaginu og eini stjórnarmaðurinn. Í tilkynningu dagsettri 30. desember 1999, sem stimpluð er um móttöku hlutafélagaskrár sama dag, kom fram að á hluthafafundi í Ísneti ehf. 27. desember 1999 hafi verið samþykktar nýjar samþykktir fyrir félagið. Jafnframt kom fram að Netverk ehf. væri eini hluthafinn í félaginu en stefndi Holberg eini stjórnarmaðurinn og prókúruhafi.
Af þessum yfirlýsingum og öðru því sem fram er komið í málinu verður ráðið að stefndi Holberg hafi haft heimild til að stofna til umræddrar skuldar á reikningi Ísnets ehf. í september 1999. Upplýsingar um lögskipti stefnda Holbergs og Ísnets ehf. varðandi þessa skuld liggja hins vegar ekki fyrir. Í beiðni stefnda Holbergs til stefnanda, dagsettri 26. maí 1999, um fyrirgreiðslu í formi yfirdráttar, lét hann þess getið að rétt væri að hafa yfirdráttarheimildina í einn mánuð. Fyrir liggur að yfirdráttarheimildin var upphaflega veitt til 30. júní 1999 en síðan framlengd frá mánuði til mánaðar. Ljóst er að yfirdráttarheimildin var þannig enn í gildi þegar umrædd fjárhæð var millifærð af reikningnum til Netverks plc. 3. september 1999.
Fyrir liggur að stefnandi tók að sér að selja umrædd hlutabréf Holbergs. Í málinu liggur fyrir að inn á reikning Ísnets ehf. nr. 206 voru lagðar 6.957.948 krónur 17. febrúar 2000 vegna sölu á hlutabréfum og aftur andvirði sölu á hlutabréfum fyrir 249.250 bandaríkjadali 21. nóvember 2000. Ekki liggur fyrir hver óskaði eftir að andvirði bréfanna yrði lagt inn á reikninginn þannig að þessar millifærslur geta ekki talist fela í sér viðurkenningu stefnda Holbergs á skuldinni.
Eins og áður er fram komið gerðu stefnandi, stefndi Holberg og Netverk plc. svokallað þríhliða samkomulag 10. mars 2000. Í 1. gr. þess sagði meðal annars að stefndi Holberg hefði með sjálfskuldarábyrgð sinni og með því að afhenda stefnanda að handveði hluti sína í Netverki ábyrgst greiðslu allra skulda Netverks og dótturfélaga þess við stefnanda. Samkvæmt 2. gr. framseldi stefndi Holberg stefnanda rétt sinn til ábyrgðargjalds úr hendi Netverks frá og með 1. janúar 2000, enda félli stefnandi frá öllum ábyrgðum á hendur stefnda Holbergi sem hann hefði sett stefnanda vegna Netverks og dótturfélaga þess. Þá sagði í 4. gr. að stefndi Holberg og stefnandi lýstu því yfir að hvorugur aðila ættu kröfu á hinn í tengslum við ábyrgðir sem hann hefði undirgengist vegna lána stefnanda til Netverks og dótturfélaga þess eftir að staðið hefði verið við samkomulagið. Ennfremur sagði í greininni: „HM er hins vegar enn í persónulegum ábyrgðum gagnvart LÍ vegna annarra lána, meðal annars til félagsins Ísnets ehf., kt. 631288-2869, Mímisvegi 6, Reykjavík“.
Umrætt samkomulag þykir benda eindregið til þess að bæði stefnandi og stefndi Holberg hafi á þessum tíma litið svo á að sjálfskuldarábyrgð hans, sem stofnað var til í maí 1999 á yfirdráttarskuld Ísnets ehf., væri enn í gildi.
Fyrir liggur að stefndi Holberg gaf Netverki plc. yfirlýsingu, dagsetta 27. febrúar 2001, þess efnis að yfirdráttarlán, sem formlega væri í nafni og á ábyrgð Ísnets ehf., að heildarfjárhæð 23.784.000 krónur, hefði verið stofnað af honum einum og væri alfarið á ábyrgð hans og skyldi að fullu endurgreitt til lánveitandans af honum eða einstaklingum eða lögaðilum öðrum en Ísneti ehf. Enda þótt þessari yfirlýsingu hafi ekki verið beint til stefnanda er ekkert komið fram í málinu sem rýrir sönnunargildi hennar um það að stefnandi hafi litið svo á að hann bæri ábyrgð á greiðslu umræddrar yfirdráttarskuldar gagnvart stefnanda.
Með hliðsjón af fyrri millifærslu af reikningnum vegna hlutabréfakaupa stefnda Holbergs, því að millifærslan af reikningi Ísnets ehf. var gerð á sama tíma og umrædd hlutabréfakaup stefnda Holbergs áttu sér stað, því að hann var á þessum tíma einkaeiganda Ísnets ehf. og í ljósi þríhliða samkomulagsins frá 10. mars 2000 og yfirlýsingarinnar frá 27. febrúar 2001 verður að líta svo á að Ísnet ehf. hafi gagnvart stefnanda verið aðalskuldari umræddrar yfirdráttarskuldar en stefndi Holberg frá upphafi borið sjálfskuldarábyrgð gagnvart stefnanda á greiðslu hennar.
Af yfirlýsingu stefnda Holbergs frá 27. febrúar 2001, sem hann hefur haldið fram að hafi eingöngu verið beint til Netverks plc., og af framburði hans fyrir dómi verður ráðið að endurskoðendur félagsins, hafi viljað koma skuld Ísnets ehf. gagnvart stefnanda út úr bókum þess félags, sem þá var orðinn hluti af Netverkssamsteypunni.
Í framlagðri yfirlýsingu Birgis Guðmundssonar, starfsmanns stefnanda, til Netverks plc., dagsettri 7. mars 2001, kemur fram að með vísun til bankareiknings 111-26-206, í eigu Ísnets ehf. staðfestist að stefnandi hefði móttekið ósk frá Holbergi Mássyni um að færa viðkomandi bankareikning og allar skuldbindingar honum tengdar á nafn Holbergs Mássonar persónulega eða fyrirtækis hans. Enda þótt bréf þetta stafi frá starfsmanni stefnanda er ekkert fram komið í málinu sem rýrir sannleiksgildi þess sem þar kemur fram.
Af hálfu stefnanda hefur sem fyrr segir verið lagt fram minnisblað, dagsett 8. mars 2001, sem haldið er fram að hafi verið ritað vegna afgreiðslu lánanefndar stefnanda. Þar kemur fram að stefndi Holberg hafi óskað eftir því að tékkareikningur Ísnets ehf. nr. 111-26-206 og vanskil á þeim reikningi yrðu flutt á hans nafn eða einkafyrirtækis hans Fóns ehf. eftir því sem bankanum þætti henta betur. Ástæðan væri sú að Netverk plc. vildi að Ísnetsnafnið yrði eign Netverkssamsteypunnar. Lýst var stofnun yfirdráttarskuldarinnar og greiðslum inn á hana. Fram kom að skuldin næmi 24,1 milljónum króna. Gerð var tillaga um að flutningurinn yrði samþykktur og lögfræðingar könnuðu hvort væri tryggingalega betra að hafa skuldina á nafni Holbergs eða Fóns ehf. Til tryggingar yrði núverandi handveð í 240 þúsund hlutum Holbergs í Netverki en til öryggis yrði gerð ný handveðsyfirlýsing.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi Holberg hafi óskað eftir því að skuldin yrði færð á einkahlutafélagið Fón ehf., sem alfarið hafi verið í hans eigu, og hafi það verið á grundvelli skattalegra sjónarmiða. Af hálfu stefnda Holbergs er því haldið fram að stefnandi hafi alfarið ráðið för í þessum efnum, enda haft öll hans ráð í sínum höndum á þessum tíma.
Það næsta sem gögn liggja fyrir um í málinu var að Árni Þór Þorbjörnsson, starfsmaður stefnda, sendi tölvupóst 25. apríl 2001, ætlaðan stefnda Holbergi og Matthíasi Guðmundssyni starfsmanni Netverks ehf., sem báðir voru þá staddir í London. Efni tölvupóstsendingarinnar var á þá leið að meðfylgjandi væri handveð vegna flutnings láns af Ísneti ehf. yfir á Fón ehf. Holberg var beðinn um að staðfesta skjalið með undirritun sinni og faxa skjalið síðan til stefnanda sem myndi senda staðfestingu til London. Af framlögðu afriti af umræddri tölvupóstsendingu og framburði stefnda Holbergs verður ráðið að tölvupóstsendingin hafi ekki borist stefnda Holbergi þar sem netfang hans var ekki ritað með réttum hætti. Hins vegar þykir ljóst að tölvupóstsendingin barst Matthíasi Guðmundssyni, ásamt veðsamningi þeim sem sendur var sem viðhengi. Ekki verður fullyrt að stefndi Holberg hafi lesið texta tölvupóstsins. Hins vegar liggur fyrir að hann undirritaði veðsamning, dagsettan 25. apríl 2001, sem sendur var sem viðhengi með umræddum tölvupósti.
Meginefni fyrrnefnds samnings eru ákvæði um veðsetningu stefnda Holbergs á 100.000 hlutum í Netverki plc. til handa stefnanda til tryggingar tilteknum fjárhagslegum skuldbindingum félagsins Fóns ehf. og stefnda Holbergs við stefnanda.
Í 21. gr. samningsins segir að hann skuli túlkaður og öðlast gildi að öllu leyti samkvæmt breskum lögum, þannig að ágreiningur hvers konar eða deila milli aðila um túlkun samningsins eða varðandi mál þar að lútandi eða vegna eða í tengslum við samninginn eða uppsögn hans heyri að öllu leyti undir bresk lög.
Þá segir í 22. gr. samningsins að dómstólar í Englandi hafi einir lögsögu til að fjalla um og dæma í málum sem upp kunni að koma og til þess að skera úr um deilur er upp kunni að koma vegna samningsins eða í tengslum við hann og samþykki hvor um sig óafturkallanlega að lúta lögsögu breskra dómstóla. Þá afsali hvor aðili um sig óafturkallanlega andmælarétti sem hann kunni að eiga á hverum tíma gagnvart því að breskir dómstólar séu tilnefndir sem vettvangur málsmeðferðar eða til úrlausnar deilna og samþykki að gera engar kröfur sem lúti að því að dómstólar í Bretlandi séu ekki hentugur eða viðeigandi vettvangur.
Fyrir liggur að samningur þessi er alfarið gerður milli íslenskra aðila og samningsákvæðin því nokkuð óvenjuleg en hins vegar mjög afdráttarlaus. Stefndu hafa hvorki í máli þessu né fyrri málum sem stefnandi hefur höfðað á hendur þeim vegna umræddrar skuldar krafist þess að málunum verði vísað frá dómi vegna umræddra samningsákvæða. Í þessu máli hafa stefndu hins vegar krafist þess að veðsamningnum verði vísað frá dómi og ekki á honum byggt í málinu.
Aðalágreiningsefni málsaðila er hvort skuldaraskipti hafi orðið á yfirdráttarskuld Ísnets ehf. með þeim hætti að Fónn ehf. hafi orðið skuldari og stefndi Holberg samþykkt sjálfskuldarábyrgð á skuld Fóns ehf. gagnvart stefnanda. Ágreiningur málsaðila lýtur því ekki að meginefni veðsamningsins, sem er veðsetning umræddra hluta í Netverki plc., heldur er byggt á að veðsamningnum af hálfu stefnanda sem sönnunargagni fyrir því að skuldaraskiptin hafi átt sér stað.
Enda þótt 22. gr. veðsamningsins sé orðuð þannig að aðilar hafi óafturkallanlega samþykkt að lúta lögsögu breskra dómstóla í málum sem upp kynnu að koma í tengslum við samninginn verður að túlka þessi ákvæði þröngt í ljósi þess að um íslenska samningsaðila er að ræða, sbr. og 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, enda verður almennt að líta svo á að samningsaðilar geti breytt slíkum samningsákvæðum með nýjum samningi. Með því að stefndu, sem eru íslenskir aðilar, hafa látið sækja þing í málinu og ekki krafist þess að því verði vísað frá dómi verður að líta svo á að þeir hafi samþykkt að mál vegna umrædds ágreinings verði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Með vísan til alls framangreinds og Hæstaréttardóms frá 1983, bls. 1599, verður málinu ekki vísað frá dómi án kröfu.
Málsaðilar eiga að jafnaði þann kost að mótmæla framlagningu skjala og tekur dómari þá afstöðu til þeirra mótmæla. Í stefnu, sem birt var fyrir lögmanni stefndu viku fyrir þingfestingu málsins, var þess getið að umræddur veðsamningur yrði lagður fram við þingfestingu. Samningurinn hafði verið lagður fram í fyrra dómsmáli aðila málsins og því stefndu og lögmanni þeirra kunnur. Áttu þeir þess því raunhæfan kost að mótmæla framlagningu skjalsins þegar við þingfestingu. Lög standa ekki til þess að skjali, sem þegar hefur verið lagt fram í máli, verði vísað frá dómi og verður krafa stefndu þar að lútandi ekki tekin til greina, sbr. dóm Hæstaréttar 19. apríl 2002 í málinu nr. 180/2002.
Þá halda stefndu því fram að ekki verði byggt á umræddu skjali í málinu vegna umræddra samningsákvæða. Ef fallist yrði á umrætt sjónarmið stefndu um að byggja ekki dóm á skjalinu, sem óumdeilanlega er mikilvægt sönnunargagn varðandi ágreiningsefni aðila, en engu að síður skorið úr ágreiningsefni málsaðila, skapaðist aukin hætta á að komist yrði að rangri niðurstöðu í málinu. Með því að fallast á að úr ágreiningnum verði leyst fyrir þessum dómstóli þykir óhjákvæmilegt að öll þau skjöl sem með lögmætum hætti hafa verið lögð fram í málinu og máli skipta við úrlausn sakarefnisins verði lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.
Ekki er ágreiningur með aðilum um að veðsamningurinn sé rétt þýddur á íslensku og verður hin íslenska þýðing því alfarið lögð til grundvallar í málinu.
Sem fyrr segir kemur fram í A-lið inngangs veðsamningsins að stefnandi og Fónn ehf. hafi gert með sér lánssamning en samkvæmt honum hafi stefnandi veitt félaginu lán sem nú sé að fjárhæð 25 milljónir íslenskra króna. Þá kemur fram í B-lið inngangsins að félagið, og er þar augljóslega átt við Fón ehf., sé alfarið í eigu Holbergs Mássonar. Í D-lið inngangsins segir loks að Holberg Másson hyggist veita stefnanda veð fyrir tilteknum fjárhagslegum skuldbindingum félagsins og hans sjálfs við stefnanda, samkvæmt lánssamningnum og öllum öðrum núverandi og síðari skuldbindingum og ábyrgðum sömu aðila.
Í kafla sem ber yfirskriftina „skilgreiningar og túlkun“ er merking hugtaksins „skuld“ í veðsamningnum skilgreind sem „allt fé og skuldir, sem gjaldfallnar eru eða ógreiddar nú eða sem gjaldfalla eða kunna að vera ógreiddar síðar og félagið eða Holberg Másson skuldar Landsbankanum“. Þá segir í 2. gr. samningsins að gegn núverandi og síðari fjármagnsfyrirgreiðslu stefnanda við félagið, en þar er augljóslega átt við Fón ehf., samkvæmt lánssamningnum, skuldbindi Holberg Másson sig til þess að greiða skuldina. Í 1. mgr. 14. gr. segir síðan að Holberg Másson teljist vera aðalskuldari og einn, upphaflegur og sjálfsstæður ábyrgðaraðili fyrir skuldinni og teljist verðbréfin aðaltryggingin fyrir skuldinni og skuldbindingum Holbergs Mássonar samkvæmt samningi þessum. Í niðurlagi greinarinnar er talað um Holberg sem ábyrgðarmann á skuldinni.
Undir þennan veðsamning ritaði Holberg Másson nafn sitt en ekki kemur þar sérstaklega fram að hann undirriti samninginn jafnframt fyrir hönd Fóns ehf. Óumdeilt er að veðsamningurinn var síðan sendur stefnanda til undirritunar og að Birgir Guðmundsson, starfsmaður stefnanda, sendi Netverki plc.bréf 25. apríl 2001 þar sem staðfest var að reikningur nr. 111-26-206, sem áður hafi verið á nafni Ísnets ehf., tilheyri nú Fóni ehf. og að allar skuldbindingar tengdar þessum reikningi hafi verið færðar frá Ísneti ehf. á hendur Fóni ehf. Jafnframt að Ísnet ehf. hefði því engar skuldbindingar varðandi umræddan reikning.
Samkvæmt framlögðum reikningsyfirlitum stefnanda voru 24.775.815,08 krónur færðar 2. maí 2001 af reikningi Ísnets ehf. nr. 111-26-206 yfir á reikning nr. 111-26-8990 á nafni stefnda Fóns ehf. hjá stefnanda. Engin frekari gögn liggja fyrir í málinu um hver stóð að þessari millifærslu eða hvernig að henni var staðið.
Líta verður svo á að málsaðilar hafi ekki samið sig undan 21. gr. veðsamningsins þótt stefndu hafi fallist á að mál vegna umrædds ágreinings málsaðila yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Líta verður svo á að það sé málsaðila að sýna fram á að þau ákvæði veðsamningsins sem á reynir í máli þessu beri að túlka með öðrum hætti samkvæmt breskum lögum en leiðir af orðalagi þeirra. Lagt hefur verið lagt fram bréf Ron Norman hjá enska lögfræðifirmanu Reynolds Porter Chamberlain, dagsett 19. apríl 2002, en þar er, að beiðni lögmanns stefnanda, fjallað um túlkun á nokkrum ákvæðum veðsamningsins. Í íslenskri þýðingu á bréfinu segir meðal annars svo:
1. Í inngangslið D í skjalinu kemur tilgangur þess berlega fram., þ.e. að veðsetningunni er ætlað að tryggja bæði skuldbindingar félagsins og Holbergs Mássonar persónulega, auk þess sem það vísar til „allra annarra núverandi og síðari skuldbindinga og ábyrgða sömu aðila”, þ.e hvors þeirra um sig.
2. Skilgreining hugtaksins „skuld” vísar til alls fjár og skulda, sem gjaldfallnar eru nú eða síðar og félagið eða Holberg Másson skuldar Landsbankanum nú eða síðar, þ.e.a.s. að um er að ræða skuldbindingu sem bindur báða.
3. 2. gr., sem er sú grein sem þú vísar í, hefur að geyma sérstaka skuldbindingu Holbergs Mássonar um að greiða skuldina sem, eins og segir hér að framan, er skilgreind sem allar skuldbindingar beggja aðila.
4. Í 1. mgr. 14. gr. er tekið sérstaklega fram að „Holberg Másson telst vera aðalskuldari, og einn, og upphaflegur og sjálfstæður ábyrgðaraðili fyrir skuldinni“.
5. Í 1. mgr. 7. gr. er tekið sérstaklega fram að Landsbankanum sé heimilt að ganga að Holberg Mássyni „án þess að neyta fyrst neinna annarra réttinda sinna“, þ.e. Landsbankinn þarf hvorki að ganga að veðinu né fara gegn félaginu, heldur getur hann gert beina kröfu fyrir rétti á Holberg Másson sem aðalábyrgðarmann.
Ef litið er á skjalið í heild sinni er það dæmigerð ábyrgð samkvæmt breskum lögum sem felur í sér að ábyrgðaraðilinn er ábyrgur sem fyrsti og aðalábyrgðaraðili.
Jafnvel þótt skjalið sé ekki skoðað í heild sinni er 2. gr., vegna skilgreiningarinnar á „skuld” einnig nokkuð ljós, vegna þess að hún felur í sér skuldbindingu Holbergs Mássonar til að fullnægja skuldinni sem, eins og greint er frá hér að framan, er sérstaklega skilgreind sem skuldbinding Holbergs Mássonar eða félagsins.
Í stuttu máli er Holberg Másson ábyrgur sem aðalábyrgðaraðili, og er ábyrgð hans ekki háð vanefnd skuldunautar (að því undanskildu, að sjálfsögðu, að skuldin verður að vera gjaldfallin). Hann er einnig ábyrgur fyrir allri skuld gagnvart Landsbankanum, ekki eingöngu því láni sem vísað er til.
Af hálfu stefndu hefur því verið mótmælt að umrædd túlkun verði lögð til grundvallar en sambærileg sönnunarfærsla um túlkun samningsins samkvæmt breskum lögum hefur hins vegar ekki farið fram af hálfu stefndu, enda byggja þeir á því að túlkun hans heyri ekki undir íslenska dómstóla. Af hálfu stefndu hefur ekki verið leitt að því líkum að túlka beri samninginn á annan hátt en fram kemur í yfirlýsingu hins breska lögmanns. Umrædd túlkun hins á samningnum þykir í samræmi við það hvernig hann yrði skilinn að íslenskum rétti og verður hún lögð til grundvallar í málinu.
Eins og áður er fram komið byggir stefnandi aðallega á því að skuldaraskipti hafi orðið á yfirdráttarskuld Ísnets ehf. á tékkareikningi nr. 111-26-206, sem stefndi Holberg hafi borið sjálfskuldarábyrgð á með þeim hætti að stefndi Holberg hafi farið fram á það að skuldin yrði færð á nafn einkahlutafélags hans, stefnda Fóns ehf. og hafi stefnandi endanlega samþykkt skuldaraskiptin með því að færa skuldina yfir á reikning stefnda Fóns ehf. hjá stefnanda 2. maí 2001. Stefnandi hafi jafnframt með undirritun veðsamningsins 25. apríl 2001 gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar gagnvart stefnanda.
Í þeim tilvikum sem upphaflegur skuldari vill að nýr skuldari komi í hans stað og samþykki kröfuhafa er nauðsynlegt til þess að skuldaraskipti eigi sér stað, er það skilyrði skuldskeytingarinnar að nýr skuldari lýsi því yfir gagnvart kröfuhafa að hann taki yfirtaki skuldina og að kröfuhafinn samþykki þann aðila sem nýjan skuldara. Kemur þá nýr skuldari í stað þess eldri og krafa á hendur eldri skuldara fellur niður.
Samkvæmt íslenskum rétti er gildi löggerninga almennt ekki háð því að þeir séu á tilteknu formi, nema annað leiði af lögum, samningum eða eðli máls. Þannig er það almennt ekki skilyrði þess að lögmæt skuldskeyting eigi sér stað að yfirlýsing nýs skuldara um að hann taki að sér skuldina og samþykki kröfuhafa fyrir nýjum skuldara sé skriflegt. Kröfuhafi sem heldur því fram að nýr aðili hafi tekið að sér að greiða skuld ber þó sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið.
Við mat á því hvort Fónn ehf. hafi gerst skuldari að kröfu stefnanda á hendur Ísneti ehf. verður að líta til þess að af hálfu stefnda Fóns ehf. hefur verið viðurkennt að Holberg sé framkvæmdastjóri og aðaleigandi Fóns ehf. og í skýrslu stefnda Holbergs kom fram að hann ætti einkahlutafélagið Fón ehf. Þá er viðurkennt að hálfu stefnda Fóns ehf. að stefndi Holberg hafi haft heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins. Enda þótt gögn liggi ekki fyrir um það verður að líta svo á að stefndi Holberg hafi haft fullt umboð til að skuldbinda félagið. Lögskipti milli hans og Fóns ehf. varðandi skuld þá er fjallað er um í málinu þykja ekki skipta máli við úrslausn málsins.
Þá verður að líta til þess að stefnandi og stefndi Holberg ehf. voru á þeim tíma sem hér um ræðir hluthafar í Netverki plc. og það var því að þeirra þágu að færa umrædda yfirdráttarskuld út úr bókhaldi Ísnets ehf., sem orðið var hluti af Netverkssamsteypunni. Jafnframt verður að ætla að það hafi þjónað best hagsmunum stefnanda að yfirdráttarskuldin yrði færð á nafn stefnda Holbergs og styður það þá málsástæðu stefnanda að skuldin hafi verið færð á nafn Fóns ehf. samkvæmt beiðni stefnda Holbergs sem samkvæmt framansögðu hafði heimild til að skuldbinda félagið.
Fyrrnefndur veðsamningur, dagsettur 25. apríl 2001, er ekki undirritaður af stefnda Holberg fyrir hönd Fóns ehf. Við úrlausn ágreinings málsaðila verður hins vegar að líta til þess að í A-lið inngangs veðsamningsins kemur skýrlega fram að stefnandi og Fónn ehf. hafi gert með sér lánssamning en samkvæmt honum hafi stefnandi veitt félaginu lán að fjárhæð 25 milljónir króna. Umrædd lánsfjárhæð svarar nokkurn veginn til þáverandi stöðu yfirdráttarskuldar Ísnets ehf. á reikningi nr. 111-26-206. Ekki hafa verið leiddar að því líkur í málinu að hér geti hafa verið átt við annan lánssamning en þann samning sem stefnandi kveður hafa komist á um að Fónn ehf. yfirtæki yfirdráttarskuld Ísnets ehf. Sem fyrr segir ritaði forsvarsmaður stefnda Fóns ehf. undir þennan veðsamning og verður að líta á þá undirritun sem veigamikla staðfestingu á því að málsaðilar hafi á þessum tíma litið svo á að Fónn ehf. hefði þegar skuldbundið sig gagnvart stefnanda til að yfirtaka yfirdráttarskuldina.
Matthías Guðmundsson fyrrverandi fjármálastjóri Netverks ehf. bar fyrir dómi að hann hafi litið svo á að flutningur skuldar Ísnets ehf. til Fóns ehf. hafi verið með vitund og vilja stefnda Holbergs og að veðsamningur, dagsettur 15. apríl 2001, hafi átt að greiða fyrir þeim flutningi. Framburður annarra vitna styður þennan framburð Matthíasar. Vitneskja forsvarsmanns Fóns ehf. þykir að þessu leyti jafngilda vitneskju félagsins.
Stefndi Holberg hélt því fram í skýrslu fyrir dómi, sem lögð er til grundvallar í máli þessu, að hann hafi mótmælt reikningsyfirlitum frá stefnanda vegna reiknings stefnda Fóns ehf. nr. 111-26-8990, munnlega við starfsmenn stefnanda. Hann átti hins vegar í erfiðleikum með að benda á tiltekna starfsmenn sem tekið hefðu við þessum mótmælum og tilgreina hvenær það hafi verið. Gegn mótmælum stefnanda verður að líta svo á að ósannað sé að hann hafi haft uppi slík mótmæli. Líta verður svo á að athugasemdalaus móttaka stefnda Holbergs á umræddum reikningsyfirlitum, sem báru þess glögglega vitni að skuld Ísnets ehf. hafði verði millifærð á reikninginn, veiti þeirri málsástæðu stefnanda frekari stuðning að yfirtaka skuldarinnar hafi verið samþykkt af hálfu stefnda Fóns ehf.
Ekki verður fallist á með stefndu að lög um neytendalán nr. 121/1994 geti komið til álita við úrlausn málsins enda verður ekki talið að umrædd lögskipti falli undir þau lög.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, fyrrnefndri yfirlýsingu stefnda Holbergs, dagsettri 27. febrúar 2001, um að hann myndi færa yfirdráttarskuld Ísnets ehf. á sitt nafn eða annars félags, fyrrnefndu bréfi Birgis Guðmundssonar, starfsmanns Landsbankans, dagsettu 7. mars 2001, minnisblaði frá fundi lánanefndar stefnanda, dagsettu 8. mars 2001, framburði vitna og síðast en ekki síst veðsamningi, dagsettum 25. apríl 2001, þykir stefnandi hafa fært að því fullnægjandi rök að stefndi Holberg hafi sem fyrirsvarsmaður Fóns ehf. samþykkt yfirfærslu á skuld Ísnets ehf. til félagsins.
Yfirfærsla stefnanda á yfirdráttarskuldinni yfir á reikning stefnda Fóns ehf. 2. maí 2001 þykir fela í sér samþykki stefnanda fyrir nýjum skuldara og þar með voru öll skilyrði skuldskeytingar uppfyllt. Ekki þykir skipta máli í þessu sambandi að ekki var veitt sérstök yfirdráttarheimild af hálfu stefnanda við skuldaraskiptin.
Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á að stefndi Fónn ehf. skuldi stefnanda stefnufjárhæðina en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum varðandi fjárhæð skuldarinnar.
Með vísan til framangreindrar túlkunar á veðsamningnum frá 25. apríl 2001 þykir ótvírætt að stefndi Holberg hafi með undirritun sinni undir samninginn tekist á hendur ábyrgð á greiðslu skuldarinnar og verður með hliðsjón af efni samningsins að líta á þá ábyrgð sem sjálfskuldarábyrgð.
Samkvæmt framangreindu verða fjárkröfur stefnanda á hendur báðum stefndu teknar til greina í samræmi við kröfugerð í stefnu.
Með vísan til þeirra raka sem stefnandi hefur fært fram um gjaldþrot og fjárhagsvanda fyrirtækja sem stefnandi átti hlut í, kaupmála þess sem ómótmælt er að stefndi Holberg ehf. hafi gert við eiginkonu sína 11. janúar 2002, svo og upplýsinga um veðsetningu eigna stefnda Fóns ehf. eftir að kyrrsetningarbeiðni var fram komin, verður að fallast á með stefnanda að skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann hafi verið fyrir hendi. Samkvæmt því ber að staðfesta kyrrsetningargerð þá sem sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi 14. mars 2003 í eignum málsaðila, eins og nánar greinir í dómsorði.
Með vísan til framangreinds þykir ekki þörf á að fjalla um kröfur stefndu um bætur vegna kyrrsetningargerðarinnar og kröfu stefnda Fóns ehf. um að stefnanda verði að viðlögðum dagsektum gert að afmá skuld á tékkareikningi nr. 8990 hjá stefnanda.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndu greiði stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið nokkurt mið að því að stefndu eru nú í þriðja sinn að verjast sömu kröfum stefnanda.
Óttar Pálsson hdl. flutti mál þetta af hálfu stefnanda en Guðmundur Ágústsson hdl. af hálfu stefndu.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð.
Stefndu Holberg Másson og Fónn ehf. greiði óskipt stefnanda, Landsbanka Íslands hf., 27.785.468 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 16. nóvember 2001 til greiðsludags.
Staðfest er kyrrsetning nr. K-5/2003, sem sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi 14. mars 2003 í fasteignunum Mímisvegi 6, eignarhluta 0301, Reykjavík og Haga við Selfjall 4, Rangárþingi ytra, lóðarréttindum og mannvirkjum, sem báðar eru í eigu stefnda Holbergs Mássonar, og Nissan Patrol bifreið nr. PB-562, sem er í eigu stefnda Fóns ehf.
Stefndu greiði óskipt stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.