Hæstiréttur íslands

Mál nr. 754/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn


                                     

Föstudaginn 13. desember 2013.

Nr. 754/2013.

Jörgen Þór Þráinsson

(sjálfur)

gegn

Íslandsbanka hf.

(enginn)

Kærumál. Gögn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu J um að fjármálafyrirtækinu Í hf. yrði gert að leggja fram nánar nánar tiltekin gögn í máli sem Í hf. höfðaði á hendur J.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2013 sem barst héraðsdómi þann dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að leggja fram „gögn samkvæmt bókun í þingbók 16. október [2013] og skriflegri beiðni á dómsskjali nr. 25“. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skilja verður kröfugerð sóknaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að leggja fram þau gögn sem um getur í hinum kærða úrskurði. Þá verður kröfugerð sóknaraðila skilin svo að hann krefjist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og ráða má af hinum kærða úrskurði er málatilbúnaður sóknaraðila mjög á reiki, bæði hvað varðar lýsingu á þeim gögnum sem hann telur að til staðar séu og varnaraðila beri að láta af hendi og eins um röksemdir fyrir ætlaðri skyldu varnaraðila í þeim efnum. Með vísan til þess sem fram kemur um þetta í hinum kærða úrskurði verður ekki séð að lagaskilyrði séu fyrir því að fallast á kröfu sóknaraðila, sbr. einkum 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2013.

Við fyrirtöku málsins í þinghaldi 16. október sl. krafðist stefndi þess að dómari úrskurðaði um að stefnanda yrði gert að leggja fram gögn úr svonefndu Pelikan upplýsingakerfi um það hvað hefði verið gert við fjármunina sem stefnandi krefur hann um greiðslu á í þessu máli. Stefndi krafðist þess einnig að stefnanda yrði gert að leggja fram yfirlit yfir öll viðskipti hans við stefnanda og kröfur hins fallna banka á hendur honum og eignir stefnda sem færðar hefðu verið til stefnanda.

Í skriflegri beiðni stefnda segir að þau gögn sem hann vilji fá séu staðfesting þriðja aðila á því hvað hafi orðið um fjármunina sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á í málinu. Auk þess krefst stefndi útprentunar úr kerfi sem nefnist Pelikaninn en kerfið haldi utan um viðskiptavini og kröfur á milli slitastjórnar Glitnis og Íslandsbanka. Þar komi m.a. fram á hvað kröfurnar hafi verið metnar, hve miklar líkur séu á að fá þær greiddar og í hvaða flokk þær séu skráðar, þ.e. hvort um ólögmætt lán sé að ræða eða ekki. Íslandsbanki hafi auk þess yfirtekið Evrureikning með andvirði 5 milljóna íslenskra króna auk fjármálagernings sem sé hluti af þessu Pelikan máli. Með framvísun þessara gagna sé hægt að skoða og greina hvað hafi orðið um hluta þessara fjármuna eða til hvers tryggingabréf, sem þinglýst hafi verið á eign stefnda, hafi verið gert og í hvaða tilgangi tékkareikningur hafi verið stofnaður. Í umræddu kerfi eigi einnig að vera upplýsingar sem Íslandsbanki hafi undir höndum en stefndi ekki. Því megi segja að staða aðila sé ójöfn. Loks segir neðanmáls í beiðninni að óskað sé eftir „Pelikaninn, útskrift (þar koma m.a. fram upplýsingar um kröfur, hrakvirði, gangverð krafna, hvort umrætt lán sé löglegt eða ekki og aðrar upplýsingar um fjárhag sem geta komið til frádráttar skuldar). Auk þess útskrift óháðs aðila um hvað var gert við fjármuni eða staðfestingu á þeim var ekki úthlutað, heldur staðfestingu á um væri trygging sem tengist umræddu tryggingabréfi.“

Af hálfu stefnanda var því mótmælt að umbeðin gögn skipti máli hvað varðar úrlausn þessa máls, auk þess sem stefnandi hefði þegar lagt fram gögn um það hvernig fjármunum hefði verið var ráðstafað við fyrirtöku málsins í þinghaldi 8. mars sl. Stefnandi krafðist þess að kröfu stefnda yrði synjað. Málinu var frestað til 24. október s.á. til að gefa aðilum kost á að tjá sig nánar um ágreininginn.

Þegar málið var tekið fyrir fyrrgreindan dag tjáðu aðilar sig um ágreining þeirra um hvort stefnanda yrði gert að afhenda framangreind gögn að kröfu stefnda. Stefndi sagði umrætt upplýsingakerfi milli stefnanda og Glitnis hf. heita Strúturinn en ekki Pelikaninn. Hann reifaði sjónarmið sín fyrir kröfunni, einkum þau að honum bæri nauðsyn til að fá upplýsingar um færslur af umdeildum tékkareikningi þar sem hann héldi því fram að það hefði aldrei verið greidd út jen af þessum reikningi heldur hefði reikningurinn verið stofnaður til tryggingar öðrum fjárskuldbindingum hans. Til að sýna fram á þetta krefðist hann þess að að stefnanda yrði gert að leggja fram þessi gögn en málið snérist í raun um það hvort umdeild skuld hafi verið í erlendum gjaldmiðli eða ekki. Stefndi vísaði í 10. kafla laga nr. 91/1991 um lagarök.

Stefnandi ítrekaði að hann hafnaði kröfu stefnda. Fullkomlega ómögulegt væri að leggja fram öll þau gögn sem beðið væri um. Til væri upplýsingakerfi sem heiti Strútur en það haldi einvörðungu utan um afskrifaðar kröfur stefnanda. Þá væru þau gögn sem stefndi biðji um að stefnandi leggi fram óviðkomandi málinu og hefðu ekki þýðingu við úrlausn þess. Stefndi mótmælti öllum sjónarmiðum stefnanda og áréttaði að augljóst væri að hann væri einvörðungu að biðja um gögn frá þeim tíma er tékka­reikningurinn og framlagt tryggingabréfið voru stofnuð.

Þegar mál þetta var tekið fyrir 11. febrúar sl. skoraði stefndi á stefnanda að upplýsa og leggja fram gögn um hvert og hvernig þeim fjármunum hefði verið ráðstafað sem segir í stefnu að hafi verið teknir út af reikningnum. Stefndi skoraði einnig á stefnanda að leggja fram fyrrgreint tryggingabréf með veði í Kirkjustétt 36, sem stefndi kvaðst hafa undirritað á svipuðum tíma og tékkareikningur hefði verið útbúinn. Rík tengsl væru með útgáfu þessa bréfs við ágreininginn í málinu en stefndi hefði gefið það út að kröfu bankans til að tryggja áframhaldandi viðskipti hans við bankann. Loks skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram yfirlit trygginga hans við bankann á þeim tíma þegar til tékkareikningsins var stofnað. Í næsta þinghaldi 8. mars sl. lagði stefnandi fram ákvörðun fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf., þ.e. stefnanda. Stefndi lagði einnig fram yfirlit yfir höfuðbókaflokkun úr kerfum Reiknistofu bankanna og útprentunarinnlögn inn á reikning stefnda. Enn fremur lagði stefndi fram samsvarandi skjal og hið síðastnefnda, nema inn á annan reikning. Lögmaður stefnanda sagði síðarnefndu gögnin skýra hvert féð af myntreikningi nr. 525-29-110 hefðu farið og þau væru lögð fram að áskorun stefnda. Stefnandi kvaðst hafa tekið þá ákvörðun að leggja ekki fram tryggingabréfið sem stefndi skoraði á hann að leggja fram í síðasta þinghaldi þar sem hann teldi það ekki málinu viðkomandi. Stefndi óskaði eftir tveggja vikna fresti til að afla sjálfur tryggingabréfsins um Kirkjustíg 36 sem stefnandi lagði fram í síðasta þinghaldi.

Þegar málið var tekið fyrir í þinghaldi 24. október sl. lagði lögmaður stefnanda fram afrit af tryggingabréfi með veði í Kirkjustétt 36 sem stefndi og Íslandskostur hf. gáfu út 7. maí 2008 til tryggingar greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum þeirra við Glitni banka hf., eða þann sem bankinn vísar til, að samanlagðri fjárhæð 23.483.907 japönsk jen. Lögmaðurinn sagði þetta vera skjalið sem stefndi hefði skorað á stefnanda að leggja fram, sbr. fyrrgreinda áskorun stefnda við fyrirtöku málsins í þinghaldi 11. febrúar sl. Af hálfu stefnanda var einnig lagt fram afrit af kaupsamningi milli stefnda og Bjargar Kristínar Sigþórsdóttur annars vegar og Þaktækni ehf. hins vegar á fasteigninni Kirkjustétt 36.

Um rétt stefnda til að krefjast framangreindra gagna úr hendi stefnanda fer eftir ákvæðum 2. og 4. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eiga hér einnig við ákvæði 3. mgr. 46. gr. og 49. gr. laga sömu laga.

Eins og fram hefur komið hefur stefnandi orðið við áskorun stefnanda um að leggja fram skjöl sem hann segir skýra hvernig umdeildum fjármunum hafi verið ráðstafað af myntreikningi nr. 525-29-110 inn á reikninga stefnda. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að stefnandi hafi frekari skjöl í fórum sínum, sem varpað geti skýrara ljósi á hvernig fjármunum á reikningi nr. 525-29-110 hafi verið ráðstafað, og hvað þá staðfestingu þriðja aðila á því hvað hafi orðið um fjármunina sem stefnandi krefur stefnda um í málinu, sbr. 1. málslið 4. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Stefnanda verður því ekki gert að leggja fram frekari gögn um ráðstöfun hinna umdeildu fjármuna af reikningi stefnda, sbr. enn fremur 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi hefur heldur ekki sýnt fram á lagaskilyrði til þess að leggja þá skyldu á stefnanda að taka saman og leggja fram yfirlit yfir öll viðskipti hans við stefnanda, kröfur hins fallna banka á hendur honum og eignir stefnda sem færðar hafa verið til stefnanda og leggja fram í málinu auk þess sem engin efni eru til slíkrar sönnunarfærslu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Sama máli gegnir um kröfu stefnda um útprentun úr upplýsingakerfi bankans með umkröfðum upplýsingum. Með vísan til alls framanritaðs er kröfu stefnda um að stefnanda verði gert að leggja fram framangreind gögn hafnað.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu stefnda, Jörgens Þórs Þráinssonar, um að stefnanda, Íslandsbanka hf., verði gert að leggja fram gögn samkvæmt bókun í þingbók 16. október sl. og skriflegri beiðni á dómskjali nr. 25 er hafnað.