Hæstiréttur íslands

Mál nr. 302/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. júní 2006.

Nr. 302/2006.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Sigmundur Guðmundsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram, að ekki beri nauðsyn til að hann sæti gæsluvarðhaldi, þar sem hann hafi verið boðaður með bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins 27. maí 2006 til að hefja afplánun 18 mánaða fangelsisrefsingar sem hann var dæmdur til með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. mars 2006. Eigi hann að hefja afplánunina í beinu framhaldi af gæsluvarðhaldinu. Ekki verður fallist á með varnaraðila að þessi aðstaða valdi því að honum verði ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi á þeim forsendum sem greinir í hinum kærða úrskurði. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2006.

Mál þetta barst dóminum í dag með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dagsettu í dag og var það þegar tekið til úrskurðar að loknu þinghaldi í málinu.

Krefst sýslumaður þess að framlengdur verði gæsluvarðhaldsúrskurður yfir X, [kt. og heimlisfang], í sjö daga eða til föstudagsins 9. júní n.k.

Lýsir sýslumaður málsatvikum svo að kærði sé talinn hafa ásamt félögum sínum A, [kt.] og B, [kt.], ruðst heimildarlaust inn í íbúð C, [kt.], að D-götu og barið hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann hafi nefbrotnað og hlotið aðra áverka á andlitsbeinum.  Þeir hafi þvingað hann með hótunum til að hringja í félaga sinn E, [kt.], til að boða hann á sinn fund.  Í því skyni að fá hann til að hringja hafi þeir misþyrmt syni C, F, [kt.].  F hafi verið barinn ítrekað í andlitið á meðan hann var að hringja og jafnframt hafi þeir hótað að klippa fingur af C og F með garðklippum ef hann hlýddi ekki fyrirmælum þeirra.  F hafi hlotið af þessari líkamsárás, brot á kinnbeini og augntóft.  C hafi hringt í E sem hafi komið á staðinn.  E hafi þá umsvifalaust verið barinn niður með hafnarboltakylfu, síðan hafi verið sparkað í hann og litli fingur vinstri handar verið klipptur af honum með runnaklippum.

Þá kveður sýslumaður að verið sé að rannsaka mál nr. 024-2005-[...], en í því máli kæri ákveðinn maður X fyrir líkamsárás sem talið sé að átt hafi sérð stað þann 28. ágúst 2005.  Einnig sé lögregla með til rannsóknar kæru nr. 024-2005-[...], þar sem X sé talinn hafa hótað konu lífláti.  Sú kæra sé dagsett 5. október s.l.  Einnig sé lögreglan að rannsaka kæru á X og fleiri aðilum nr. 024-2005-[...], en þar sé kærð líkamsárás sem eigi að hafa átt sér stað þann 22. desember s.l. í máli nr. 024-2006-[...] sé X kærður fyrir líkamsárás sem talið sé að hafi átt sér stað 9. febrúar s.l., þeirri rannsókn sé ekki lokið.  Í kæru nr. 024-2006-[...] sé hann sömuleiðis kærður fyrir líkamsárás sem eigi að hafa átt sér stað þann 18. febrúar s.l.  Í máli nr. 024-2006-[...] sé kæruefni samskonar en sá atburður sé talinn hafa átt sér stað þann 10. mars s.l.  Í kæru nr. 024-2006-[...] sé hann kærður fyrir árás sem talin sé hafa átt sér stað þann 8. apríl 2006.

Allar þessar kærur séu enn í rannsókn, en rannsókn þeirra hafi dregist vegna þess hve vitnin og árásaþolarnir óttist kærða og félaga hans.  Rannsókn allra þessara mála sé enn á frumstigi, enn sé eftir að ljúka yfirheyrslum yfir vitnum og sakborningum, leita að sönnunargögnum og tæknirannsókn sé ekki lokið.  Á meðan rannsókn þessara mála sé ekki lokið sé nauðsynlegt að kærði sé í gæsluvarðhaldi og einangrun þannig að hann geti ekki sammælst um framburði við aðra þá sem kærðir séu í þessum málum og haft áhrif á vitni með hótunum og ofbeldi.  Einnig sé það mat lögreglu að vitnum og árásarþolum stafi hætta sakborningi.

Kveðst sýslumaður byggja kröfu sína á a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, en einnig sé gæsluvarðhaldskrafan rökstudd með vísan til d liðar 1. mgr. sömu lagagreinar.  Þar sem lögregluyfirvöldum þykir sýnt að vernda þurfi vitni og aðila þessara máls gegn hótunum og árásum sakbornings.

Í málinu eru lagðar fram lögregluskýrslur og önnur gögn er vekja rökstuddan grun um að kærði hafi framið brot er varði við 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Samkvæmt lögregluskýrslum hefur hvorki kærði né meðkærðu viljað tjá sig um sakarefnið í yfirheyrslum hjá lögreglu.

Í máli þessu liggja fyrir gögn er varða aðrar kærur á hendur kærða X, en þá sem nú er umfjöllunar.  Samkvæmt lögregluskýrslum liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi framið þær líkamsárásir er þar er um fjallað svo sem greinir í málavaxtalýsingu sýslumanns.

Verður með vísan til framangreinds fallist á að skilyrðum 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/l991 sé fullnægt til að verða við kröfu sýslumanns. Þykir lengd gæsluvarðhalds hæfileg eins og í kröfunni greinir og nánar er tiltekin í ályktarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

Á L Y K T A R O R Ð :

Kærði X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 9. júní n.k. kl.16:00.