Hæstiréttur íslands
Mál nr. 387/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Mánudaginn 8. september 2008. |
|
Nr. 387/2008 |
Ís-ferðaþjónusta ehf. (Garðar Briem hrl.) gegn Bjarna Ásgeiri Jónssyni og Margréti Atladóttur(Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Í kærði úrskurð héraðsdómara þar sem kveðið var á um að bú Í yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í krafðist að hinum kærða úrskurði yrði hrundið en til vara að frestað yrði úrlausn um kröfu B og M um gjaldþotaskipti á búi Í þar til endanleg niðurstaða í öðru dómsmáli sem rekið væri á milli aðila lægi fyrir. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, segir að ekki hafi verið ástæða til að ætla að kyrrsetningargerðin gæfi ranga mynd af fjárhag sóknaraðila á þeim tíma er hún fór fram. Þar með var skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1994 um gjaldþrotaskipti fullnægt og var því fallist á kröfu B og M um að bú Í yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2008, þar sem kveðið var á um að bú sóknaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið en til vara að frestað verði úrlausn um kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila þar til fyrir liggur endanleg niðurstaða í öðru dómsmáli sem rekið er milli aðila. Verði fallist á kröfu varnaraðila er þess jafnframt krafist að þeim verði gert að leggja fram tryggingu að fjárhæð 10.000.000 krónur áður en endanlegur úrskurður um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varakrafa sóknaraðila um að varnaraðilar leggi fram tryggingu var ekki tilgreind í kæru og hafði heldur ekki verið höfð uppi í héraði. Kemur hún því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Ekki verður séð að varnaraðilar hafi gert kröfu um málskostnað fyrir héraðsdómi. Þeir hafa heldur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Krafa þeirra um málskostnað í héraði kemur því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ís-ferðaþjónusta ehf., greiði varnaraðilum, Bjarna Ásgeiri Jónssyni og Margréti Atladóttur, sameiginlega 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 1. júlí 2008.
Með beiðni móttekinni 2. maí 2008 kröfðust sóknaraðilar, Bjarni Ásgeir Jónsson og Margrét Atladóttir, þess að bú varnaraðila, ÍS ferðaþjónustu ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku málsins þann 11. júní sl. var sótt þing af hálfu varnaraðila og kröfunni mótmælt. Var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar 25. júní sl.
Sóknaraðilar, Bjarni Ásgeir Jónsson og Margrét Atladóttir, krefjast þess að bú varnaraðila, ÍS ferðaþjónustu ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta verði hafnað og sóknaraðilum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað. Til vara er þess krafist að frestað verði að úrskurða um kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila þar til fyrir liggur endanleg niðurstaða í því dómsmáli sem rekið er á milli aðila.
I
Sóknaraðilar lýsa málavöxtum þannig að þeir séu fyrrum eigendur Dagverðarness ehf., kt. 601100-2150. Þeir hafi selt varnaraðila alla hluti í félaginu með kaupsamningi, dags. 2. júní 2006. Umsamið kaupverð hafi verið kr. 300.000.000. Varnaraðili hafi vanefnt kaupsamningsgreiðslu á gjalddaganum 9. júní 2006 að upphæð kr. 40.000.000. Sóknaraðilar hafi höfðað mál á hendur varnaraðila til innheimtu skuldarinnar. Málið hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. september 2007 og hafi varnaraðili tekið til varna.
Sóknaraðilar hafi krafist þess með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 7. apríl 2008, að fram færi kyrrsetning á eignum varnaraðila til tryggingar umræddri kröfu. Þann 23. apríl 2008 hafi sýslumaður fallist á kyrrsetningarbeiðnina. Fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi hins vegar ekki getað bent á neinar eignir til tryggingar kröfunni. Þann 25. apríl 2008 hafi kyrrsetningargerðinni því verið lokið án árangurs skv. 15. gr. laga nr. 31/1990.
Í málavaxtalýsingu varnaraðila kemur fram að eins og venja sé við sölu hlutafélaga hafi átt að fara fram áreiðanleikakönnun með hefðbundnum aðferðum. Könnun endurskoðunarfyrirtækis skyldi vera lokið og eftirstöðvar kaupverðs, kr. 40.000.000, greiðast viku síðar eða þann 9. júní 2006, að því tilskyldu að ekkert óeðlilegt fyndist við áreiðanleikakönnunina. Gögn sem notast hafi átt við áreiðanleikakönnunina hafi hins vegar ekki fengist afhent hjá sóknaraðilum og þeir verið ófáanlegir til að veita umbeðnar upplýsingar. Hafi beiðni um gögn og upplýsingar verið margítrekuð og síðast með bréfi þann 6. desember 2006, en þá hafi hálft ár verið liðið frá kaupunum og seljandi engan reka gert að innheimtu eftirstöðvanna.
Í svarbréfi sóknaraðila dags 19. desember 2006 komi fram að ekki sé fallist á neinar viðræður eða kröfur um veitingu upplýsinga nema trygging verði lögð fram fyrir eftirstöðvum kaupverðs eða að þær verði greiddar að fullu.
Varnaraðili hafi við hvorugan kostinn getað sætt sig enda ekki í samningi aðila kveðið á um framlagningu neinna trygginga. Með svarbréfi þann 23. febrúar 2007 hafi sóknaraðilar verið hvattir til þess að veita umbeðnar upplýsingar og afhenda gögn.
Þann 30. ágúst sl. fyrirsvarsmanni varnaraðila óvænt verið stefnt fyrir héraðsdóm Reykjavíkur. Stefnan sé efnisrýr hvað varði þau atriði sem krafist hafi verið upplýsinga um í sambandi við áreiðanleikakönnunina.
Stefnunni hafi verið svarað með greinargerð og gagnsök, þar sem krafist sé endurgreiðslu á kr. 58.385.850 úr hendi sóknaraðila sem ofgreidds kaupverðs. Við rekstur Dagverðarnes ehf. í rúmlega eitt ár hafi komið í ljós að fjölmörgum atriðum varðandi félagið sé öðruvísi háttað en upplýst hafi verið við kaupin á hlutabréfunum þ.á.m. að ýmislegt hafi vantað inn í félagið sem þar átti að vera. Við gerð greinargerðar og stefnu í gagnsök hafi verið höfð hliðsjón af þessu og stuðst við þau fátæklegu gögn sem forsvarsmönnum varnaraðila hafði tekist að afla upp á eigin spýtur, en heilmikið af gögnum vanti enn og fáist ekki afhent. Sóknaraðilar hafi gerst sekir um að valda töfum á málinu með því að tregðast við að skila greinargerð í gagnsök til héraðsdóms en henni hafi ekki verið skilað fyrr en synjað hafði verið frestbeiðni og úrskurður upp kveðinn af dómara.
Sóknaraðilar hafi síðan þann 9. apríl sl. lagt fram beiðni til sýslumannsins í Reykjavík um kyrrsetningu hjá varnaraðila og hafi sérstaklega verið óskað eftir því í beiðninni að honum yrði ekki kunngjört um framkvæmd kyrrsetningarinnar. Sýslumaður hafi ekki getað fallist á það og boðað lögmann varnaraðila til fyrirtöku gerðarinnar 18. apríl sl. Þrátt fyrir mótbárur varnaraðila hafi sýslumaður fallist á að gerðin skyldi fram fara og hafi hún reynst árangurslaus. Krafa varnaraðila í gagnsök á hendur sóknaraðila í máli 5108/2007 hafi verið ódæmd og því ekki lagaskilyrði til að taka tillit til hennar. Þá hafi sýslumaður ekki fallist á önnur rök varnaraðila.
Ákveðið hafi verið þann 28. febrúar sl. að aðalmeðferð í málinu nr. 5108/2007 skyldi fara fram þann 28. maí sl. Þann 26. þess mánaðar hafi dómari málsins tilkynnt að aðalmeðferð gæti ekki farið fram þá vegna mikilla anna við dómstörf. Hafi almeðferð verið frestað til 24. júní.
Fyrir liggur að með úrskurði uppkveðnum 20. júní sl. í málinu nr. E-5108/2007 var aðalmeðferð málsins frestað um óákveðinn tíma eða þar til fyrir liggur úrlausn um þá kröfu stefnenda Bjarna Ásgeirs Jónssonar og Margrétar Atladóttur að bú stefnda ÍS ferðaþjónustu ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta. Með kæru dags. 23. júní sl. var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar Íslands.
II
Sóknaraðilar byggja kröfu sína á því varnaraðili hafi vanefnt við þau kaupsamningsgreiðslu á gjalddaganum 9. júní 2006 að upphæð kr. 40.000.000. Fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi ekki getað bent á neinar eignir við fyrirtöku kyrrsetningarbeiðni sóknaraðila til tryggingar umræddri kröfu og hafi gerðinni því verið lokið sem árangurslausri þann 25. apríl sl. Um lagastoð fyrir kröfu sinni vísa sóknaraðilar til 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
III
Varnaraðili byggir á að félagið sem sinnt hafi ýmiskonar þjónustu í ferðaiðnaði á liðnum árum hafi staðið fyllilega við allar sínar skuldbindingar og ekki lent í neinum vanskilum. Félagið sé með ferðaskrifstofuleyfi og fyrir liggi allar tilskyldar tryggingar þar að lútandi hjá opinberum aðilum.
Um leið og varnaraðili hafi keypt öll hlutabréf í Dagverðarnesi ehf. fyrir kr. 300.000.000 í júnímánuði 2006 hafi félagið tekið lán sömu fjárhæðar og sett hlutabréfin að handveði. Sóknaraðilum hafi verið fullkunnugt um að varnaraðili þyrfti að fjármagna kaupin með þessum hætti.
Fljótlega eftir kaupin hafi komið í ljós að áreiðanleikakönnun sú sem kveðið sé á um í kaupsamningi væri ekki að ganga eftir vegna tregðu sóknaraðila til að veita ýmsar upplýsingar varðandi eignir og fjárhag félagsins. Ítrekuðum beiðnum löggilts endurskoðanda, sem falið hafði verið að framkvæma könnunina, hafi verið illa sinnt af hálfu sóknaraðilanna og fyrrum endurskoðanda félagsins.
Þá hafi komið í ljós að ekki væru í félaginu þær eignir sem þar áttu að vera, sumarhús félagins ekki fullbúin, mál sem varði vatnsveitu, skipulag o.fl. ekki í þeim farvegi sem upplýst hafði verið.
Eftirstöðvar kaupverðs hlutabréfanna kr. 40.000.000.- hafi verið á gjalddaga sama dag og áreiðanleikakönnuninni hafi átt að vera lokið þ.e.a.s. 9. júní 2006 og sé því haldið fram að þær eftirstöðvar séu ekki gjaldkræfar á hendur varnaraðilum fyrr en áreiðanleikakönnun sé lokið enda hafi endanleg fjárhæð átt að ráðast af niðurstöðu könnunarinnar.
Sóknaraðilar hafi ekki höfðað mál á hendur varnaraðila til innheimtu kröfunnar fyrr en með stefnu birtri þann 30. ágúst 2007. Í gagnsök komi fram að samtala kostnaðar vegna aðfinnsluatriða og verðmætisrýrnun, sem þar sé nánar tilgreind, nemi kr. 98.385.850. Forsvarsmenn varnaraðila telji að kaupverð hinna seldu hlutabréfa hafi verið tæplega eitt hundrað milljónum króna of hátt. Mismunurinn sé krafinn í gagnsökinni kr. 58.385.850.-.
Það sé ekki fyrr en dómur hafi verið kveðinn upp í máli 5108/2007 sem unnt verði að komast að raun um hvort skilyrði nefndrar 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga um töku á búi varnaraðila til gjaldþrotaskipta séu til staðar.
Þangað til sé full ástæða til þess að ætla að hin árangurslausa kyrrsetningargerð gefi ranga mynd af fjárhagsstöðu varnaraðila og beri að hafna beiðni sóknaraðilanna af þeirri ástæðu.
Ekki verði séð að lög standi því í vegi að uppkvaðningu úrskurðar verði frestað í samræmi við varakröfu þar sem um mjög óvenjulegt mál sé að ræða og mikið réttlætismál og hagsmunamál fyrir varnaraðila að úrskurður byggi á réttum grunni.
Hér beri að hafa í huga að hin venjulega stafsemi varnaraðilans sé frekar lítil eins og hún hafi verið á undanförnum árum. Kyrrsetningarbeiðni og gjaldþrotaskiptabeiðni séu sprottnar upp úr einum viðskiptum félagsins í 5 ára sögu þess. Það þýði að eðlilegt sé að láta niðurstöðu héraðsdómsmálsins ráða hvort fallast beri á kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti eða ekki.
Alveg ljóst sé að fjárhagsstaða varnaraðila ráðist af niðurstöðu dómsmálsins. Ef niðurstaðan verði sóknaraðilum í hag sé fjárhagsstaðan mjög erfið en verði niðurstaðan varnaraðila í hag sé fjárhagsstaðan mjög góð að því tilskyldu að krafan sé innheimtanleg hjá sóknaraðilum. Út frá þessum staðreyndum og í ljósi þess að varnaraðili sé ekki í vanskilum við neinn, sé vafasamt að álykta að kyrrsetningargerðin gefi rétta mynd af fjárhag hans og frekar ástæða til þess að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans ef eitthvað sé.
Horfa beri til þess að sóknaraðilar hafi gert sig seka um að ganga fram með frekar óvenjulegum og ósmekklegum aðferðum í þeim tilgangi að reyna að knésetja varnaraðilann og hafi verið með tilburði til þess að koma í veg fyrir að krafa á hendur honum gangi sína eðlilegu leið í dómskerfinu. Fullyrðingar sem fram komi í kyrrsetningarbeiðni um tilraunir varnaraðila til undanskots eigna og málamyndavarnir í dómsmálinu, tali t.d. sínu máli.
Þá sé á það bent að með ólíkindum sé að ekki skyldi fyrr gengið fram af hálfu sóknaraðila hvað varðar innheimtu hinnar meintu kröfu á hendur varnaraðila og síðan ekki farið í kyrrsetningarmál fyrr en raun beri vitni.
Það blasi við að tilgangur með kyrrsetningu hafi verið að koma varnaraðila í þá stöðu að hann yrði gjaldþrota og honum yrði óhægara um vik að verjast kröfunni og sækja sinn rétt á hendur sóknaraðila. Tilgangur tilvísaðrar 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé einmitt að sporna við tilburðum af þessum toga og koma í veg fyrir að úrskurður sé upp kveðinn þegar atburðarrás sé stýrt með þessum hætti. Hér sé reynt að knésetja gagnaðilann í stað þess að mæta honum fyrir dómi í einkamálinu og láta reyna á kröfur beggja með þeim hætti sem lög geri ráð fyrir. Sóknaraðilar hafi vitað þegar þeir fóru af stað í kyrrsetningarferli að fjárhagur varnaraðila væri með þeim hætti að hann gæti ekki lagt fram tryggingar fyrir fjörtíu milljóna króna kröfu. Þeir hafi gert sér ljóst að jafnvel þó hin seldu hlutabréf væru til staðar hlytu þau að vera handveðsett fjármögnunaraðilanum að baki kaupunum og því ekki haldbær trygging. Hér sé rétt að benda á að sóknaraðilar hafi enga ástæðu séð til að krefjast tryggingar fyrir þessari sömu fjárhæð þegar viðskiptin áttu sér stað í byrjun júní 2006, þó þeir gerðu sér grein fyrir að um lítið ferðaskrifstofufyrirtæki væri að ræða sem ætti enga fasteign.
Það sé með ólíkindum að sóknaraðilar sem selt hafi allt hlutafé fyrirtækis fyrir kr. 300.000.000 skuli færast undan því að svara spurningum og veita umbeðnar upplýsingar til löggilts endurskoðanda í hefðbundinni áreiðanleikakönnun og afhendi ekki gögn, bókhaldsfylgiskjöl o.fl. sem tvímælalaust teljist vera eign fyrirtækisins og gangi síðan fram gegn viðsemjandanum með þeim hætti sem raun ber vitni.
Loks skuli tekið fram að þó að ekki hafi verið svigrúm til þess lögum samkvæmt að bera kyrrsetningargerðina undir héraðsdóm þá hljóti að verða að skoða, við mat á 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga, hvort grundvöllur gerðarinnar sé á einhvern hátt vafasamur.
IV
Sóknaraðilar seldu varnaraðila alla hluti í félaginu Dagverðarnesi ehf. með kaupsamningi, dags. 2. júní 2006. Umsamið kaupverð var kr. 300.000.000. Varnaraðili hefur ekki greitt kaupsamningsgreiðslu sem var á gjalddaga 9. júní 2006 að upphæð kr. 40.000.000. Hafa sóknaraðilar hafi höfðað mál á hendur varnaraðila til innheimtu skuldarinnar. Málið er nr. E-5108/2007. Varnaraðili krefst sýknu af kröfum sóknaraðila. Þá hefur varnaraðili gagnstefnt í málinu og krefst hann aðallega skaðabóta að fjárhæð kr. 58.385.850 með dráttarvöxtum en til vara að viðurkenndur verði réttur hans til afsláttar af kaupverði hlutafjár í félaginu Dagverðarnes ehf. að fjárhæð kr. 98.385.850 og sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða honum kr. 58.385.850 með dráttarvöxtum.
Aðalkröfu sína byggir varnaraðili á að hið selda hafi verið haldið nánar tilgreindum göllum. Varakrafan er byggð á því að þó að ekki verði talið sannað að sóknaraðilar hafi leynt mikilvægum upplýsingum um fyrirtækið Dagverðarnes ehf. eða vanrækt upplýsingagjöf á vítaverðan hátt, hafi ýmislegt komið í ljós sem kaupendum hafi verið ókunnugt um og meta verði á þann veg að kaupverð hlutafjárins verði að teljast langt umfram það sem eðlilegt megi teljast.
Sóknaraðilar krefjast sýknu af gagnkröfum varnaraðila. Byggja sóknaraðilar á að þeir hafi staðið við allt sem lofað var samkvæmt samningi aðila og mótmæla tjónsfjárhæðum sem fráleitum og ósönnuðum.
Máli þessu er ólokið en aðalmeðferð þess var frestað um óákveðinn tíma, eða þar til niðurstaða máls þessa liggur fyrir, með úrskurði dómsins þann 20. júní sl. Úrskurðurinn hefur verið kærður til Hæstaréttar Íslands.
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess hins vegar að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Fyrir liggur að þann 25. apríl 2008 fór fram árangurslaus kyrrsetning hjá varnaraðila að kröfu sóknaraðila.
Byggir sóknaraðili gjaldþrotaskiptakröfu sína á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en samkvæmt ákvæðinu getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta ef kyrrsetning hefur verið gerð hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans. Slík krafa nær þó ekki fram að ganga ef skuldarinn sýnir fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma.
Varnaraðili byggir á að fjárhagsstaða hans ráðist af niðurstöðu í máli nr. E-5108/2007. Verði niðurstaðan sóknaraðilum í hag sé fjárhagsstaðan mjög erfið en verði niðurstaðan honum í hag verði hann greiðslufær svo fremi sem sóknaraðili sé það. Varnaraðili heldur því þannig ekki fram að kyrrsetningargerðin sem slík gefi ranga mynd af fjárhag hans enda var því lýst yfir af hálfu varnaraðila við gerðina, þegar hafnað hafði verið ábendingu hans á kröfu á hendur sóknaraðila, að hann ætti ekki eignir til tryggingar kröfunni. Eru því ekki efni til að líta svo á að ástæða geti verið til að ætla að kyrrsetningargerðin gefi ranga mynd af fjárhag sóknaraðila á þeim tíma er hún fór fram en fyrir því hefur varnaraðili sönnunarbyrgði.
Samkvæmt kaupsamningnum frá 2. júní 2006 áttu varnaraðilar að greiða sóknaraðilum kr. 40.000.000 eigi síðar en 9. júní 2006. Ákvæði um áreiðanleikakönnun í samningi aðila breytir engu þar um. Sóknaraðilar eiga þannig gjaldfallna kröfu á hendur varnaraðila. Geta gagnkröfur þær sem varnaraðili hefur gert í einkamáli því sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila til efnda á samningnum engu breytt um heimild sóknaraðila til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila sem lánardrottinn hans vegna skuldar samkvæmt honum.
Samkvæmt framanröktu þykir skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti vera fullnægt og því ekki hjá því komist að taka til greina kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Ekki eru lagaskilyrði til frestunar uppkvaðningar úrskurðar um gjaldþrotaskipti.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Bú varnaraðila, ÍS ferðaþjónustu ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.