Hæstiréttur íslands
Mál nr. 578/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 26. október 2011. |
|
Nr. 578/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Rannsókn. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem sakamáli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á hendur X, sem ákærður var fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, var vísað frá dómi vegna ætlaðra ágalla á rannsókn málsins. Hæstiréttur felldi hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnisúrlausnar með vísan til þess að ákvörðun ákæruvalds um saksókn, á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og útgáfa ákæru gæti eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla. Þá segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að teldi héraðsdómari nauðsynlegt að upplýsa mál frekar áður en dómur yrði á það lagður gæti hann samkvæmt 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 beint þeim tilmælum til ákæranda að afla frekari gagna, þ. á m. að leiða ákærða eða tiltekin vitni fyrir dóm, sbr. til hliðsjónar 168. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2011, þar sem málinu var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt 53. gr. laga nr. 88/2008 er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Þeir sem rannsaka sakamál skulu vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þeim ber jafnframt að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er. Samkvæmt 145. gr. sömu laga skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, eða taka eftir atvikum ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar samkvæmt 152. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. þeirra verður dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi þó að unnt sé í sérstökum tilvikum að taka til greina skýrslur ákærða og vitna sem gefnar hafa verið áður en mál er höfðað.
Eins og fram kemur í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið metið það svo að það hafi haft nægar upplýsingar um sakarefnið þegar það tók ákvörðun um saksókn á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 og gaf út ákæru á hendur ákærða einum fyrir það brot sem honum er samkvæmt framansögðu gefið að sök. Sú ákvörðun um meðferð valdheimilda ákæruvalds getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn máls. Telji héraðsdómari nauðsynlegt að upplýsa málið frekar áður en dómur verður á það lagður getur hann samkvæmt 2. mgr. 110. gr. sömu laga beint þeim tilmælum til ákæranda að afla frekari gagna, þar á meðal að leiða ákærða eða tiltekin vitni fyrir dóm, sbr. til hliðsjónar 168. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnisúrlausnar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnisúrlausnar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. september 2011, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 24. maí 2011 á hendur X, kt. [...], [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa miðvikudaginn 2. júní 2010 ruðst inn á heimili A, kt. [...], að [...], slegið hann ítrekað í andlitið og á líkama og síðan sparkað í andlit hans er hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að sauma þurfti 4 spor á höfði auk þess að hann hlaut yfirborðsáverka sem náðu til höfuðs með hálsi (sic) og til margra svæða á efri útlimum.“
Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
I.
Hinn 21. október 2010 lagði A fram kæru hjá lögreglu vegna líkamsárásar. Kærandi skýrði frá því að hinn 2. júní 2010 hefði hann verið nýkominn heim til sín, að [...] í [...], þegar það hafi verið bankað upp á hjá honum. Hann hefði opnað dyrnar og fjórir menn ruðst inn og verið mjög ógnandi. Þeir hefðu spurt hann um tölvu sem hann hafi haft til skoðunar og spáð í að kaupa. Hann hefði afhent þeim tölvuna og harðan disk sem hefði fylgt henni. Í kjölfar þess hefði einn af mönnunum, án nokkurs tilefnis, slegið hann ítrekað í andlitið og líkamann. Kærandi kvaðst hafa fallið í gólfið við þessar barsmíðar og þá hefði maðurinn sparkað ítrekað í andlit kæranda, en hann hafi verið í skóm sem hefðu greinilega verið styrktir með stáltá. Kærandi sagði að hann hefði „margrotast“ við þetta. Einnig sagði kærandi að mennirnir hefðu verið á heimili hans í um þrjár klukkustundir. Þeir hefðu rótað í dóti hans og hirt alls konar muni sem hann ætti. Þeir hefðu svo yfirgefið heimili hans og skilið hann eftir ásamt fyrrverandi unnustu hans, B, sem hefði verið stödd á heimilinu, og C, sem hafi ætlað að selja kæranda tölvuna, en hann hefði komið með umræddum mönnum. Kærandi sagði að sá sem hefði haft sig mest í frammi héti X, ákærði í máli þessu, og hann hefði verið sá eini sem hefði ráðist á kæranda. Kærandi kvaðst ekki vilja kæra mennina tvo sem hefðu verið með honum þar sem þeir hefðu ekkert haft sig í frammi og ofboðið háttsemi ákærða. Þeir hefðu verið í annarlegu ástandi og í raun ekkert vitað hvað þeir hafi verið að gera þarna eða hvað hafi verið að gerast. Kærandi kvaðst hafa rætt við þá eftir þetta og þeir hefðu margbeðið hann afsökunar og rétt honum sáttarhönd. Einnig sagði kærandi að eftir að mennirnir hafi verið farnir hafi hann farið beint á slysadeild Landspítala. Þegar kærandi var beðinn um að lýsa þessum átökum betur kvaðst hann ekki geta gert það. Inntur eftir því hverjir hefðu komið á heimili hans ásamt árásarmanninum sagði hann að þeir hétu D og E, en hann kvaðst ekki vita nánari deili á þeim. Þegar kærandi var spurður af hverju hann hefði ekki lagt fram kæru fyrr kvaðst hann hafa óttast um sjálfan sig og C ef hann myndi kæra og því verið hikandi, en hann hefði tekið ákvörðun um að láta ekki bjóða sér þetta.
Vitnið B gaf skýrslu hjá lögreglu 6. janúar 2011. Vitnið sagði að umræddan dag hefði verið bankað á dyrnar og A farið til dyra. Þegar hann hefði opnað hefðu þrír menn ruðst inn og þeir hefðu haft C með sér í einhvers konar gíslingu. Tveir menn hefðu haft sig mest í frammi, þ.e. ákærði og einhver D. Þeir hefðu ráðist á A, lagt hann í gólfið og síðan sparkað ítrekað í andlitið á honum og líkama hans. Þeir hefðu stöðugt öskrað á hann og heimtað einhverja tölvu eða flakkara af A. Þetta hefði staðið yfir í um 10-15 mínútur. Á meðan hefðu mennirnir öskrað á vitnið að hreyfa sig ekki. Vitnið kvaðst hafa setið alveg kyrrt meðan á þessu hafi staðið og ekkert haft sig í frammi enda hafi það verið skelkað og í raun í losti. Jafnframt sagði vitnið að þriðji aðilinn, sem heiti E, hafi í raun bara verið að passa upp á C og ekki tekið þátt í barsmíðunum á A. Þá sagði vitnið að eftir að mennirnir hefðu barið á A hefðu þeir tekið tól og tæki sem þeir hafi fundið og eyðilagt eitthvað af verðmætum. Þeir hefðu verið heillengi að gramsa í öllu, farið í skúffur og skápa og rótað til. Á meðan á þessu hafi staðið hafi þeir öðru hvoru gengið að A, þar sem hann hafi setið á eldhúsgólfinu, sparkað til hans og slegið til hans. Einnig hefðu þeir eitthvað barið C. Þá sagði vitnið að þetta hefði staðið yfir í 3-4 klukkustundir, en mennirnir hefðu ruðst inn á heimilið um kl. 17 og ekki farið fyrr en rúmlega kl. 20. Jafnframt sagði vitnið að D og ákærði hefðu verið mjög ógnandi nær allan tímann. Það hefði ekki verið fyrr en undir lokin sem þeir hefðu verið farnir að róa sig. A hefði svo farið beint á slysadeild eftir að mennirnir hafi farið. Þegar vitnið var beðið um að lýsa atvikum nánar kvaðst það ekki geta lýst því betur en það hafði þegar gert. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið fyrir barsmíðum og ekki orðið fyrir öðrum hótunum en að halda kyrru fyrir og skipta sér ekki af málinu.
Hinn 15. febrúar 2011 hafði lögregla símasamband við vitnið C. Í lögregluskýrslu segir að vitnið hefði greint frá því að hafa verið sofandi á neðri hæð að [...] í [...] þegar hann hafi verið vakinn upp af þremur mönnum sem hafi allt í einu verið komnir inn í íbúðina. Þeir hefðu skipað honum að fara á fætur og afhenda þeim tölvu. Mennirnir hefðu verið mjög ógnandi og þeir hefðu slegið til vitnisins. Einnig hefðu þeir hótað vitninu öllu illu ef það afhenti ekki tölvuna. Vitnið hefði í fyrstu ekki áttað sig á því hvað mennirnir hafi átt við en síðan munað að A, félagi vitnisins sem búi á hæðinni fyrir ofan, hafi keypt tölvu en ekki vitað að hún væri stolin. Vitnið hefði því sagt við mennina að tölvan væri hugsanlega uppi hjá A og þeir farið upp með vitnið og látið það banka á dyrnar. Þegar A hefði opnað hefðu mennirnir þrír ruðst inn til A og síðan veist að honum með höggum og spörkum uns hann hafi fallið í gólfið. Einn af þessum mönnum hefði gengið hvað harðast fram, en það hafi verið ákærði í máli þessu. Einnig hefði annar aðili, D, haft sig nokkuð í frammi. Mennirnir hefðu svo heimtað að A afhenti tölvuna og hann gert það. Í kjölfarið hefðu mennirnir tekið alls konar muni úr íbúðinni og farið. Einnig skýrði vitnið frá því að meðan mennirnir hefðu verið í íbúð A hefðu þeir annað slagið sparkað og slegið til hans þar sem hann hafi legið á gólfi íbúðarinnar. Einnig hefðu þeir slegið vitnið. Þá greindi vitnið frá því að B, kærasta A, hefði verið inni í herbergi í íbúðinni allan tímann en mennirnir hefðu látið hana í friði. Jafnframt sagði vitnið að mennirnir hefðu verið inni í íbúðinni í um klukkustund. Vitnið sagði að því hefði verið mjög brugðið eftir þetta. Vitnið hefði verið hrætt og ekki þorað að kalla til lögreglu eða leggja fram kæru. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta farið út í nákvæmar lýsingar á því hvernig mennirnir hefðu borið sig að á vettvangi. Vitnið myndi bara að þeir hefðu sparkað og slegið frá sér en það gæti ekki lýst því neitt frekar. Ákærði hefði haft sig áberandi mest í frammi og hann hafi stjórnað öllu á vettvangi. D hefði einnig haft sig eitthvað í frammi en sá þriðji að mestu haldið sig til hlés. Fram kom að D héti fullu nafni D en vitnið kvaðst ekki vita hver E sé.
D var yfirheyrður hjá lögreglu 17. febrúar 2011 með réttarstöðu grunaðs manns. Hann kvaðst hafa farið að [...] til að ná í tölvu sem átti að hafa verið stolið frá kunningja hans, ákærða í máli þessu. Þeir hefðu bankað upp á hjá einhverjum strák á neðri hæðinni og hann sagt að tölvan væri á efri hæðinni hjá einhverjum manni. Ákærði hefði þá farið upp og hann komið á eftir ásamt stráknum. Þegar hann hafi komið upp hafi dyrnar verið opnar og hann farið beint inn. Þeir hefðu svo fengið tölvuna afhenta. Hann kvaðst hafa farið fljótlega eftir það en ákærði hafi orðið eftir. Engin átök hefðu átt sér stað þarna inni. Hann tók fram að hann myndi þetta frekar illa vegna þess hversu ölvaður hann hefði verið. Borinn var undir hann framburður kæranda og vitna og sagði hann að þetta væri ekki rétt. Aðspurður hverjir hefðu verið með í för sagði hann að það hefði verið ákærði og strákurinn niðri. Var honum þá kynnt að samkvæmt framburði vitna hafi maður að nafni E verið þarna, en hann svaraði að hann kannaðist ekki við hann og myndi ekki eftir honum þarna. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 18. febrúar 2011. Hann skýrði frá því að brotist hefði verið í bifreið hans í maí 2010 og tölvu stolið úr henni. Hann kvaðst hafa tilkynnt það til lögreglu og sjálfur grennslast fyrir um það hver hefði gert þetta og komist að því að tölvan væri hjá manni að nafni C. Í kjölfarið hefði hann reynt að hafa uppi á þessum manni og komist að því að hann væri búsettur að [...] í [...]. Hann hefði svo farið heim til C sem hafi ætlað að sýna honum hvar tölvan væri. C hefði sagt að tölvan væri hjá A sem væri búsettur á efri hæðinni. Ákærði sagði að með honum í för hafi verið einhver D og annar maður sem hafi verið með D, en ákærði viti ekki hvað hann heiti. Eftir að hafa rætt við C hefðu þeir farið upp í íbúðina til A. Ákærði hefði bankað á dyrnar og A komið til dyra. Ákærði kvaðst hafa gert A grein fyrir erindi sínu og beðið hann um að afhenda sér tölvuna og hann gert það. Ákærði sagði að hann hefði tekið eftir því að það hafi vantað flakkara sem fylgdi henni og að A hafi verið búinn að tengja hann við sína tölvu, en hann hefði svo látið ákærða fá flakkarann. Þegar ákærði hafi verið búinn að fá sitt hafi hann yfirgefið vettvang, en hann kvaðst ekkert vita hvað hefði orðið um D og félaga hans. Þá sagði ákærði að A hefði haft samband við sig vegna gagna sem hann hefði sett inn á harða diskinn á tölvunni. Samskipti þeirra hefði aðallega farið fram á fésbókinni þar sem hann hefði verið með alls konar hótanir við sig ef hann skilaði ekki gögnunum. Einnig hefði A heimtað peninga. Ákærði sagði að hann vildi láta útprentun af samskiptum þeirra fylgja málinu og afhenti hana. Þá sagði ákærði að A hefði fengið gögn sín til baka. Ákærði neitaði því alfarið að hafa ruðst inn til A, ráðist á hann eða stolið einhverju frá honum. Ákærði kvaðst hafa verið í íbúðinni í mesta lagi í 10 mínútur. Aðspurður hverjir D og E séu kvaðst ákærði ekki þekkja þá neitt, en ástæðan fyrir því að þeir hefðu verið með ákærða umrætt sinn hafi verið sú að hann hefði boðið þeim fundarlaun fyrir tölvuna. D og E hefðu haft símasamband við ákærða og bent honum á hvar C byggi. Þeir hefðu vitað að ákærði ætlaði til C umrætt sinn að sækja tölvuna og sennilega hefðu þeir þess vegna verið þarna á vettvangi. Ákærði sagði að hann hefði ekki boðað þá, en þeir hafi greinilega ætlað að vera viðstaddir þegar hann myndi sækja tölvuna og fá fundarlaun sín. Ákærði kvaðst ekki vita meira um þessa menn. Þeir hefðu komið á eigin vegum en ákærði hefði komið einn á vettvang og farið þaðan einn. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi gerst eftir að hann hafi verið farinn af vettvangi.
II.
Í málinu liggur fyrir vottorð Ásu E. Einarsdóttur, sérfræðilæknis á bráðadeild Landspítala, dags. 13. apríl 2011. Í því segir að A hafi komið á bráðadeild hinn 31. maí 2010 kl. 02:46. A hefði skýrt frá því að hann hefði keypt tölvu af nágranna daginn áður. Tæpum klukkutíma eftir það hafi einhverjir komið til hans, sagt tölvuna stolna og sparkað í andlit hans og lamið hann með bjórflösku. Hann hefði lýst höfuðverk hægra megin, eymslum í framhandlegg, eftir að hafa varið sig höggum, og verk í efri vör. Sjúklingnum er lýst sem grannholda manni og rólegum. Hann hafi verið með skurð, um 1 cm fyrir ofan hægri augabrún, bólgna hægri efri vör, en ekki hafi verið sprungið fyrir og tennur heilar. Augnhreyfingar hafi verið eðlilegar og ekki verið grunur um beinbrot á höfði. Byrjandi mar hafi verið á framhandlegg vinstra megin. Þá segir í vottorðinu að greining hafi verið opið sár á öðrum hlutum höfuðs, yfirborðsáverkar sem nái „til höfuðs með hálsi“ og yfirborðsáverkar sem nái til margra svæða á efri útlimum. Sjúklingurinn var saumaður með 4 sporum.
III.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði sagði að brotist hefði verið inn í bíl hans og tölvu stolið og hann hefði tilkynnt það til lögreglu. Ákærði kvaðst hafa fengið upplýsingar um það hver væri með tölvuna hjá strák sem heiti F, en hann versli með tölvur. Nánar tiltekið hafi hann fengið upplýsingar um að C væri með tölvuna og ákærði því grennslast fyrir um hann. Í framhaldi af því hefði ákærði fengið símtal frá manni að nafni D en ákærði þekki hann ekki. D hefði sagt ákærða hvar C byggi og ákærði í kjölfarið farið þangað. Jafnframt greindi ákærði frá því að hann hefði boðið fundarlaun fyrir tölvuna. Ákærði kvaðst hafa bankað upp á hjá C og hann hafi farið með ákærða til A á hæðinni fyrir ofan. Þar hefðu þeir bankað upp á. Ákærði sagði að D og maður að nafni E hafi komið þegar þeir hafi verið á leiðinni upp á efri hæð. Aðspurður af hverju D og E hafi verið þarna sagði ákærði að D hefði sagt sér hvar C ætti heima. Ákærði hefði farið beint til C eftir símtal þeirra og D og E komið án þess að ákærði hafi vitað að þeir ætluðu að gera það. Þegar A hafi komið til dyra hafi ákærði gert grein fyrir erindi sínu og A farið inn í skáp og sótt tölvuna. Það hefði vantað flakkarann með tölvunni og ákærði beðið um hann. A hafi verið búinn að tengja flakkarann við tölvu sína og hann hafi látið ákærða fá flakkarann. Ákærði hefði svo farið. Ákærði neitaði alfarið því sem honum er gefið að sök í ákæru. Aðspurður sagði ákærði að D og E hefðu ekki ráðist á A að honum aðsjáandi. Ákærði kvaðst hafa verið í anddyrinu allan tímann og D og R hefðu einnig verið þar allan tímann sem ákærði hafi verið þarna. Ákærði kvaðst hafa verið allsgáður og sagði að hann væri reglusamur maður. Þegar ákærði var spurður af hvaða ástæðu A og vitni væru þá að ljúga upp á ákærða skýrði ákærði frá því að eftir að ákærði fékk tölvuna hafi A viljað fá gögn sem hafi verið á tölvunni og hann hafi reynt að fá peninga út úr ákærða, en ákærði hafi hafnað því. A hafi verið reiður og þess vegna væri hann eflaust að bera ákærða sökum.
Vitnið A kvaðst hafa verið nýkomið heim úr vinnu þegar dyrnar hafi verið opnaðar og þrír menn gengið inn. Þeir hefðu spurt vitnið um tölvu og vitnið hefði afhent hana. Upp úr því hefði hafist mikið ofbeldi og læti og einn af þessum mönnum hefði farið með konu vitnisins, B, inn í herbergi og haldið henni þar meðan vitnið hefði verið beitt ofbeldi. Þá sagði vitnið að mennirnir hefðu haft C með sér, en það hafi verið C sem hefði látið vitnið fá tölvuna. Þá sagði vitnið að mennirnir hefðu gramsað í eigum vitnisins og tínt muni í töskur. Allan tímann hefði ofbeldið haldið áfram. Þegar þeir hafi verið búnir að taka allt sem hafi verið bitastætt í íbúðinni hafi þeir farið af vettvangi.
Þegar vitnið var beðið um að lýsa árásinni nánar sagði vitnið að það hefði fyrst fengið högg í andlitið og það hefði vankast við það og fallið í gólfið en þá hefði verið sparkað í andlit vitnisins. Vitnið kvaðst hafa misst meðvitund um tíma. Um afleiðingar árásarinnar sagði vitnið að það hefði fengið sár öðrum megin á höfði og yfirborðsáverka sem hafi náð frá hálsi til höfuðs og á efri útlimum. Vitnið kvaðst hafa misst vinnuna í kjölfarið og þurft að leita til sálfræðinga og geðlækna. Þá hafi þetta leitt til sambúðarslita. Vitnið sagði að þetta hefði staðið yfir í um þrjár klukkustundir. Jafnframt sagði vitnið að annar mannanna sem hefði verið með ákærða hafi tekið þátt í ofbeldinu en hinn hafi haldið konu vitnisins í gíslingu. Vitnið sagði að annar mannanna héti D og hinn E. Sá síðarnefndi væri nú í afplánun á Litla-Hrauni. Þegar vitnið var beðið um að lýsa útliti mannanna kom fram að D væri lágvaxinn, þrekinn og dökkur yfirlitum. E hafi verið mjósleginn, skolhærður og illa til hafður. Vitnið kvaðst hafa fengið mörg högg frá ákærða, bæði með höndum og fótum. Sá sem hefði haldið konu vitnisins hafi verið E. Einnig sagði vitnið að D hefði skipað vitninu að setjast inn í eldhús og þar hefði hann veitt vitninu högg í andlitið og kastað bjórflösku og öðru í vitnið. Vitnið sagði að það hefði fengið einn af skurðunum í andliti eftir bjórflösku sem hefði brotnað á andliti vitnisins. Jafnframt hefði D sparkað í vitnið ef vitnið hafi ætlað að hreyfa sig. Spörkin hefðu aðallega verið í hendur vitnisins og bringu. Vitnið sagði að yfirborðsáverkar sem það hefði fengið á efri útlimum væru líklega vegna þess. Þá sagði vitnið að D hefði bæði slegið og sparkað í andlit vitnisins. Jafnframt sagði vitnið að það minnti að fyrsta höggið hefði komið frá D. Nánar um þátt ákærða sagði vitnið að það hefði fengið högg í andlitið frá honum og spörk þegar vitnið hafi setið við eldavélina. Fram kom að vitnið hefði komið heim úr vinnu kl. 19 og ákærði og mennirnir farið um klukkan 22. Vitnið kvaðst hafa farið beint á spítala. Þá sagði vitnið að árásin hefði átt sér stað 2. júní.
Vitnið var þessu næst spurt út í misræmi í framburði vitnisins hjá lögreglu og fyrir dómi, nánar tiltekið af hverju það hefði sagt hjá lögreglu að einungis ákærði hefði ráðist á vitnið. Vitnið svaraði að D hefði bara veitt vitninu 1/100 af þeim áverkum sem vitnið hefði fengið. Þá sagði vitnið að í minningunni við skýrslutöku hjá lögreglu hefði það verið þannig að aðeins ákærði hefði ráðist á hann. Þá var vitninu kynnt að samkvæmt fyrirliggjandi áverkavottorði Landspítala hafi vitnið komið á slysadeild kl. 02:46 hinn 31. maí 2010 en ekki 2. júní, þegar árás ákærða á að hafa átt sér stað og gat vitnið ekki útskýrt þetta misræmi að öðru leyti en því að árásin hefði þá átt sér stað 30. maí en ekki 2. júní. Þegar vitnið var spurt af hverju það hefði ekki lagt fram kæru fyrr en tæpum fimm mánuðum eftir meinta árás sagði vitnið að nokkrum tímum eftir árásina hafi C reynt að svipta sig lífi þar sem hann hafi verið búinn á taugum en lögreglan hafi komið honum til bjargar. C hafi verið hræddur eftir þetta en svo hafi hann flutt út á land og verið óhultur þar og vitnið þá ákveðið að leggja fram kæru.
Vitnið B, fyrrverandi sambýliskona A, sagði að fjórir menn hefðu komið inn í íbúðina, en þrír þeirra hefðu ruðst inn. Þeir hefðu ráðist á A og C sem hafi verið með þeim í för. Þá hefðu mennirnir rústað íbúðinni og ráðist á A og C. Nánar um atvik sagði vitnið að mennirnir hefðu lagt A í gólfið og sparkað í hann. Einnig hefðu þeir kýlt hann og hent dóti í hann. Vitnið sagði að mennirnir hefðu verið í íbúðinni í um þrjár klukkustundir. Enn fremur sagði vitnið að D hefði kýlt og sparkað í A þegar hann hafi legið á gólfinu. Vitnið kvaðst ekki hafa verið beitt ofbeldi en því hafi verið sagt að fara inn í herbergi og allir símar verið teknir. Vitnið sagði jafnframt að D hefði að mestu verið hjá vitninu inni í herberginu, en hann hafi komið og farið úr herberginu. Þá sagði vitnið að höggin og spörkin frá ákærða og D hefðu aðallega verið í andlit A en einnig í efri hluta líkamans. Þegar vitnið var spurt hvaða dag þetta hefði gerst sagði vitnið að þetta hefði verið í byrjun júní, um kl. 17 og mennirnir hefðu farið um kl. 20. Nánar um dagsetninguna sagði vitnið að þetta hefði verið á sunnudegi og að A hefði farið seint um kvöldið á spítala. Um útlit mannanna sem hefðu verið með ákærða sagði vitnið að annar þeirra, D, hafi verið dökkhærður, lítill og „kubbslegur“ en hinn hafi verið skolhærður, langur og mjór.
Vitnið C, vinur A, lýsti því að þrír menn hefðu leitt hann upp á efri hæðina að íbúð A og sagt að vitnið ætti að ná í tölvu. Þeir hefðu látið vitnið banka á hurðina og um leið og A hafi opnað dyrnar hafi þeir stokkið inn og ráðist á A. Þeir hefðu barið hann ítrekað í andlitið og líkamann. A hefði legið í gólfinu. Vitnið kvaðst ekki muna hvort það hefði verið sparkað í það. Þá sagði vitnið að konu A hafi verið sagt að fara inn í herbergi og vera þar. Einnig sagði vitnið að mennirnir hefðu farið um íbúðina og tekið muni. Vitnið sagði að þetta hefði staðið yfir í um eina klukkustund. Aðspurður hverjir hefðu ráðist á A sagði vitnið að það hafi verið ákærði og D. Einnig kom fram hjá vitninu að D hefði hent óopnaðri bjórdós í höfuð A og hann fengið skurð á augabrúnina. Vitnið kvaðst ekki þekkja D og þriðja manninn mikið, en hann viti hverjir þeir séu. D sé [...] og þriðji maðurinn heiti E og sé í afplánun á Litla-Hrauni, en hann hafi verið í máli með G. Vitnið var þá spurt hvort það kannaðist við nafnið [...] og sagði vitnið að það væri umræddur E. Þá greindi vitnið frá því að það hefði orðið fyrir ofbeldi. Vitnið greindi jafnframt frá því að það hefði reynt að fremja sjálfsmorð í kjölfar þessara atburða.
IV.
Ákæra var gefin út í máli þessu 24. maí 2011. Er ákærða gefið að sök að hafa miðvikudaginn 2. júní 2010 ruðst inn á heimili A, slegið hann ítrekað í andlitið og á líkama og síðan sparkað í andlit hans er hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að sauma hafi þurft 4 spor á höfði auk þess að hann hafi hlotið yfirborðsáverka sem hafi náð til höfuðs með hálsi (sic) og til margra svæða á efri útlimum. Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Í skýrslu A hjá lögreglu, þegar hann lagði fram kæru sína 21. október 2010, lýsti hann því að þrír menn hefðu ruðst inn til hans og þeir haft C vin hans með sér. Kærandi sagði að einn þessara þriggja manna hafi verið ákærði og hann hefði ráðist á sig, en hinir mennirnir tveir hefðu ekkert haft sig í frammi. Þegar lögregla tók skýrslu af C og fyrrverandi sambýliskonu kæranda, B, lýstu þau hins vegar því að tveir menn hefðu haft sig mest í frammi og ráðist á kæranda með höggum og spörkum, þ.e. ákærði og D. Tekin var skýrsla hjá lögreglu af umræddum D ([...]) og sagði hann að engin átök hefðu átt sér stað. Vegna misræmis í framburði kæranda, C og B var fullt tilefni til þess að taka nánari skýrslu af kæranda, en það var ekki gert. Þá gaf fyrirliggjandi áverkavottorð tilefni til nánari rannsóknar, en í því segir að kærandi hafi komið á bráðadeild 31. maí en ekki 2. júní og hann lýsti því fyrir lækni að hann hefði m.a. fengið bjórflösku í höfuðið. Enn fremur var ástæða til að grennslast nánar fyrir um það hver hafi verið þriðji aðilinn, E. Samkvæmt framansögðu var full ástæða til að rannsaka málið frekar, áður en ákvörðun var tekin um saksókn í því. Þar af leiðandi var ekki gætt sem skyldi ákvæða 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en þar segir að við rannsókn mála skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta skuli jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þá var meðferð málsins ekki í samræmi við meginreglu 2. mgr. 143. gr. sömu laga, um að sækja skuli menn til saka fyrir þátttöku í sama verknaði í einu máli. Að mati dómsins voru slíkir ágallar á rannsókn málsins að þeir leiða til frávísunar á grundvelli 1. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda verður ekki bætt úr þeim við meðferð málsins fyrir dómi.
Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá dómi og skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður ákærða, X, greiðist úr ríkissjóði.