Hæstiréttur íslands

Mál nr. 626/2014


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Fjármálafyrirtæki
  • Gengistrygging
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár
  • Fyrning


                                     

Fimmtudaginn 5. mars 2015.

Nr. 626/2014.

Stefanía Snorradóttir

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Lánssamningur. Fjármálafyrirtæki. Gengistrygging. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Endurgreiðsla ofgreidds fjár. Fyrning.

Árið 2006 gerði S lánssamning við L hf. og var helmingur lánsfjárhæðinnar tengdur gengi erlendra gjaldmiðla. L hf. endurútreiknaði í nóvember 2010 gengistryggða hluta lánsins miðað við stöðu þess í maí það ár, sem var síðasti gjalddagi sem S greiddi af láninu fyrir endurútreikning þess. Ágreiningur aðila laut annars vegar að því hvort S gæti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna þegar greiddra vaxta frá stofndegi lánssamningsins til maí 2010 vegna þess hluta lánsins sem bundinn var ólögmætri gengistryggingu og hins vegar hvort krafa S um endurgreiðslu oftekinnar verðtryggingar og vaxta, vegna þess hluta lánsins sem var í íslenskum krónum, væri fallin niður fyrir fyrningu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með hliðsjón af því hvernig greiðslu afborgana og samningsvaxta var háttuð milli aðila yrði að miða við það að komin hefði verið á nægileg festa við framkvæmd samningsins og að vanskil S gætu ekki staðið í vegi endurkröfu hennar. Þá var talið að L hf. hefði með endurútreikningi sínum í reynd reiknað sér viðbótarvexti frá stofndegi lánssamningsins til maí 2010 og að sú fjárhæð væri um það bil 30% af upphaflegri fjárhæð gengistryggða hluta lánssamningsins og 161% ef miðað væri við hlutfall af greiddum vöxtum. Lægi samkvæmt þessu í augum uppi að viðbótargreiðslan væri umtalsverð og fæli í sér röskun á fjárhagslegum hagsmunum S. Yrði því að leggja til grundvallar að greiðslutilkynningar L hf. og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum frá S í samræmi við tilkynningarnar hefði jafngilt fullnaðarkvittunum. Það stæði L hf. nær en S að bera þann vaxtamun sem deilt væri um í málinu og gæti L hf. því ekki krafið hana um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum var fallist á með S að afborganir hennar af höfuðstól skuldarinnar sem hún innti af hendi frá stofndegi samningsins til maí 2010 kæmu að fullu til frádráttar höfuðstólnum sem bæri hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga á því tímabili. Ætti S því rétt til endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem hún ofgreiddi. Loks var talið að S gæti ekki borið fyrir sig ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og væri því krafa hennar um endurgreiðslu oftekinnar verðtryggingar og vaxta, vegna þess hluta lánsins sem var í íslenskum krónum, fallin niður fyrir fyrningu. Var L hf. gert að greiða S 152.388 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 591.399 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. nóvember 2013 til greiðsludags að frádregnum innborgunum 6. desember 2013 að fjárhæð 267.108 krónur og 24. febrúar 2014 að fjárhæð 20.503 krónur. Til vara krefst hún þess að viðurkennt verði í fyrsta lagi að lánssamningur aðila nr. 70024288 frá 17. júlí 2006 sé að helmingi upphaflegrar lánsfjárhæðar bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, í öðru lagi að við endurútreikning gengistryggða hluta samningsins frá lántökudegi til 5. maí 2010 sé stefnda óheimilt að krefjast vaxta umfram þá sem hún greiddi á umræddu tímabili og loks að stefnda sé við endurútreikning íslenska hluta samningsins óheimilt að takmarka endurútreikning þannig að hann taki ekki til greiðslna er áttu sér stað fyrir 25. nóvember 2009. Í öllum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

I

Áfrýjandi gerði 17. júlí 2006 lánssamning við stefnda að fjárhæð 1.479.580 krónur og var lánið veitt til kaupa á bifreið. Samningurinn, sem var í formi kaupleigusamnings, var nefndur „Bílasamningur Lýsingar“ og er efni hans ásamt skilmálabreytingu 1. mars 2010 nánar rakið í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir skyldi leigutími vera frá 15. júlí 2006 til 5. ágúst 2013, fjöldi leigugreiðslna 84 og fyrsti gjalddagi 5. september 2006. Af efni samningsins leiddi að áfrýjandi skyldi greiða mánaðarlegar leigugreiðslur 5. hvers mánaðar á samningstímanum og fjárhæð hverrar greiðslu með seðilgjaldi vera 22.079 krónur. Í samningnum sagði að leigutaka bæri að standa skil á leigu á umsömdum gjalddögum og væri leigan greidd eftir á fyrir hvern mánuð. Þá kom fram í samningnum að greiddi leigutaki ekki leiguna á gjalddaga skyldi hann greiða leigusala hæstu lögleyfðu dráttarvexti af hinni vangreiddu fjárhæð auk kostnaðar samkvæmt gjaldskrá stefnda ásamt öðrum kostnaði sem af gæti hlotist. Ennfremur sagði að leigusala væri heimilt að rifta samningnum án fyrirvara vanefndi eða bryti leigutaki einhverja grein hans og var sem dæmi nefnt ef leigutaki innti ekki af hendi tilskildar greiðslur á umsömdum gjalddögum.

Ef frá er talinn fyrsti gjalddagi samkvæmt lánssamningnum og gjalddagi í mars 2010 innti áfrýjandi af hendi allar afborganir og vexti fram til gjalddaga 5. maí 2010 eftir samningsbundinn gjalddaga. Hún greiddi samtals 23.250 krónur í dráttarvexti á þessu tímabili og 102.000 krónur í innheimtukostnað. Í flestum tilvikum fóru greiðslur fram innan nokkurra daga eða vikna frá gjalddaga. Stefndi veitti á þessu tímabili athugasemdalaust viðtöku greiðslum frá áfrýjanda og fékk hún hverju sinni í hendur frá honum kvittanir fyrir þeim og fullum efndum af sinni hálfu.

Ógreiddum afborgunum og vöxtum á gjalddaga 5. janúar og 5. febrúar 2010 var með skuldbreytingu 1. mars það ár bætt við höfuðstól lánsins. Þá var jafnframt samið um að áfrýjandi myndi standa skil á helmingi umsaminnar greiðslu næstu sex mánuði eða til og með 5. ágúst 2010. Áfrýjandi greiddi umsamdar greiðslur ekki á gjalddaga 5. júní 2010 og ekki eftir það fram til endurútreiknings 19. nóvember sama ár en greiðsla var þá framkvæmd á þann hátt að stefndi skuldajafnaði inneign áfrýjanda vegna ólögmætrar gengistryggingar samningsins á móti gjaldföllnum greiðslum þann dag. Því sem þá stóð eftir vegna vanskila var bætt við höfuðstól lánsins. Frá og með gjalddaga 5. desember 2010 til loka samningsins við tjónsuppgjör 4. apríl 2013 voru allar afborganir lánsins í vanskilum að frátöldum gjalddögum 5. október og 5. nóvember 2011.

II

Í fyrirsögn fyrrgreinds lánssamnings kom fram að hann væri gengistryggður og í 4. gr. sagði: „Vextir, verðtrygging og annað. Samningur þessi er gengistryggður og eru allar fjárhæðir bundnar erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: USD 15%, JPY 10%, EUR 20%, CHF 5%, ISK 50%. Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings. Leigugjald tekur breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. grein samnings þessa.“

Ágreiningslaust er að sá hluti lánssamningsins sem samkvæmt framansögðu var tengdur  gengi erlendra gjaldmiðla fól í sér gengistryggingu í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Á þeim grundvelli endurreiknaði stefndi 19. nóvember 2010 þann hluta samningsins og er gerð grein fyrir niðurstöðum útreikningsins í hinum áfrýjaða dómi. Í þessum þætti málsins, sem varðar hinn gengistryggða hluta lánssamningsins, deila aðilar um hvort áfrýjandi geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna þegar greiddra vaxta á tímabilinu frá því lánið var tekið og fram til 5. maí 2010, sem var eins og áður er fram komið síðasti gjalddagi sem áfrýjandi greiddi af láninu fyrir endurútreikning þess. Á hinn bóginn er ekki ágreiningur um að tímabili fullnaðarkvittana lauk 5. maí 2010, ef reglur um þær verða taldar eiga við í lögskiptum aðila. Þá er heldur ekki um það deilt að frá og með síðastgreindum degi hafi borið að reikna lánið með vöxtum samkvæmt  4. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi endurreiknaði sem fyrr segir gengistryggða hluta lánssamningsins 19. nóvember 2010 miðað við 5. maí sama ár. Byggði sá útreikningur á þeirri forsendu að áfrýjandi gæti ekki frá stofndegi samningsins og fram til 5. maí 2010 borið fyrir sig fullnaðarkvittanir og því væri stefnda heimilt að endurreikna lánið með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001.  Niðurstaða útreiknings stefnda á þessum grundvelli var sú að miðað við 5. maí 2010 hefði áfrýjandi ofgreitt af láninu fjárhæð sem nam 7.532 krónum. Var inneign áfrýjanda við þetta tímamark ráðstafað með skuldajöfnuði til greiðslu á ógreiddum afborgunum og vöxtum eftir því sem inneignin dugði til. Samkvæmt útreikningsaðferð stefnda lækkuðu eftirstöðvar lánsins úr 1.360.282 krónum í 1.059.971 krónu miðað við 5. nóvember 2010 og væri það staða lánsins þann dag.

Áfrýjandi telur á hinn bóginn að stefndi hafi átt að endurreikna lánssamninginn frá stofndegi til endurútreikningsdags með sama hætti og gert var í dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012. Í því felist að vextir vegna þessa tímabils teljist að fullu greiddir og verði áfrýjandi ekki krafin um frekari vexti fyrir liðna tíð. Þá eigi afborganir af höfuðstól skuldarinnar sem hún innti af hendi til og með 5. maí 2010 í endurútreikningi að koma að fullu til frádráttar höfuðstólnum sem hvorki beri gengistryggingu né verðbætur af nokkrum toga. Hafi lánið samkvæmt þessu á síðastgreindum degi átt að standa í 291.304 krónum. Á þá fjárhæð ásamt öllum greiðslum sem áfrýjandi hafi innt af hendi eftir 5. maí 2010 beri að reikna vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 fram til 5. apríl 2013 en þá hafi lánið verið uppgreitt samkvæmt útreikningum stefnda. Á þeim degi hafi framreiknuð skuld áfrýjanda átt að mæta samtölu allra framangreindra afborgana hennar af skuldinni en samkvæmt því hafi áfrýjandi ofgreitt 152.388 krónur.

Eins og fyrr greinir er ekki um það ágreiningur að þær fjárhæðir sem áfrýjandi greiddi stefnda í afborganir og vexti af höfuðstól lánsins á gjalddögum fram til 5. maí 2010 voru í samræmi við greiðslutilkynningar útgefnar af stefnda. Þá er og fram komið að stefndi tók við greiðslum frá áfrýjanda vegna afborgana og vaxta á sama tímabili og gaf út fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi auk afborgana greitt þá samningsvexti sem tilgreindir voru á greiðsluseðlum stefnda í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar sem hún hafði undirgengist. Augljós aðstöðumunur var á aðilum en stefndi er fjármálafyrirtæki sem starfar á lánamarkaði, hefur sérhæfðu starfsfólki á að skipa og bauð viðskiptavinum sínum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu. Á hinn bóginn er ekkert fram komið um það að áfrýjandi, sem var neytandi í skilningi laga nr. 121/1994 um neytendalán, hafi búið yfir sérstakri þekkingu á fjármálastarfsemi og peningamálum. Stóð það því stefnda nær en áfrýjanda að gæta þess að lánssamningurinn væri í samræmi við lög og bera af því áhættuna ef svo reyndist ekki vera.

Við mat á því hvort nægileg festa hafi verið við framkvæmd lánssamnings aðila er fyrst til þess að líta að samningurinn gerði ráð fyrir því að lánsfjárhæðin yrði endurgreidd með 84 mánaðarlegum afborgunum á tímabilinu 5. september 2006 til 5. ágúst 2013. Þegar að endurútreikningi gengistryggða hluta lánsins kom 19. nóvember 2010 hafði áfrýjandi greitt af því í 44 skipti og þar með rúmlega helming allra afborgana. Í annan stað verður að hafa í huga að þótt áfrýjandi hafi í öll skipti nema tvö á þessu tímabili greitt afborganir og vexti seinna en lánssamningurinn gerði ráð fyrir greiddi hún að kröfu stefnda dráttarvexti og innheimtukostnað eins og áður er rakið. Verður samkvæmt því að leggja til grundvallar að stefndi hafi með þeim hætti fengið bætt vaxtatap sitt og annan kostnað því samfara að greiðslur bárust of seint frá áfrýjanda. Loks verður ekki fram hjá því litið að stefndi neytti ekki þeirra úrræða sem hann átti kost á samkvæmt lánssamningnum og almennum reglum kröfuréttar í tilefni vanskila áfrýjanda. Þegar það er virt sem hér var rakið verður við það miðað að fullnægt sé því skilyrði að komin hafi verið á nægileg festa við framkvæmd lánssamnings aðila og að vanskil áfrýjanda geti ekki staðið í vegi endurkröfu hennar.

Þegar lánssamningur felur í sér samsetta skuldbindingu, annars vegar gengistryggða og hins vegar í íslenskum krónum, gilda ólíkar réttarreglur um hvorn þáttinn fyrir sig. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hefur með endurútreikningnum 19. nóvember 2010 í reynd reiknað sér viðbótarvexti frá stofndegi lánssamningsins til 5. maí 2010. Þegar metið er hvort sú fjárhæð sé umtalsverð og feli í sér röskun á fjárhagslegum hagsmunum áfrýjanda verður eðli máls samkvæmt að miða eingöngu við þann hluta samningsins sem bundinn var gengi erlendra gjaldmiðla en það var helmingur samningsfjárhæðarinnar, 739.790 krónur. Ágreiningslaust er að samkvæmt þessu nemur viðbótarkrafa stefnda um vexti fyrir liðna tíð um það bil 30% af höfuðstól lánsins þannig reiknuðum og 161% ef miðað er við hlutfall af greiddum vöxtum. Liggur samkvæmt þessu í augum uppi að viðbótargreiðsla eins og sú, sem áfrýjandi er í reynd krafin um með endurútreikningi stefnda, er umtalsverð og felur í sér röskun á fjárhagslegum hagsmunum hennar.

Stefndi heldur því fram að sú aðferð sem áfrýjandi beitti við endurútreikning skuldbindingar sinnar leiði til þess að lánið greiðist upp mun hraðar en samningur þeirra kvað á um. Í því sambandi er þess að gæta að í 18. gr. lánssamningsins sagði að leigutaki gæti hvenær sem er greitt samninginn upp í einu lagi. Þegar af þessari ástæðu var áfrýjanda heimilt að greiða lánið hraðar upp en upphaflegir skilmálar þess gerðu ráð fyrir.

Samkvæmt öllu því sem hér var rakið verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar stefnda og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum frá áfrýjanda í samræmi við tilkynningarnar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum. Þótt ekkert eitt þeirra atriða, sem áður greinir, geti ráðið úrslitum verður að líta svo á, þegar þau eru öll virt í heild, að það standi stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun sem deilt er um í málinu og hlaust af hinni ólögmætu gengistryggingu. Er því fallist á með áfrýjanda að sá rangi lagaskilningur sem lá að baki lögskiptum hennar og stefnda í þessum þætti málsins verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til frambúðar. Af því leiðir að stefndi getur ekki krafið áfrýjanda um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann.

Í aðalkröfu áfrýjanda felst að afborganir af höfuðstól skuldarinnar sem hún innti af hendi frá 5. september 2006 til og með 5. maí 2010 komi að fullu til frádráttar höfuðstólnum sem beri hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga á því tímabili. Fjárhæð vaxta hafi þar ekki áhrif enda teljist þeir að fullu greiddir vegna þessa tímabils. Er með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum, til dæmis fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 464/2012, fallist á réttmæti þessarar aðferðar áfrýjanda við útreikning skuldbindingar hennar og þar með fjárhæð endurkröfunnar. Ágreiningslaust er að fjárhæð hennar í þessum þætti málsins, 152.388 krónur, er rétt reiknuð ef komist er að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi í höndum fullnaðarkvittanir frá stefnda vegna greiddra samningsvaxta frá stofndegi lánssamningsins til 5. maí 2010. Samkvæmt þessu á áfrýjandi rétt til endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem hún ofgreiddi.

Stefndi heldur því loks fram að krafa áfrýjanda, sem sé í eðli sínu um endurgreiðslu ofgreidds fjár, nái til greiðslna sem inntar hafi verið af hendi allt aftur til september 2006 en slíkar kröfur fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Af því leiði að fjárkröfur áfrýjanda varðandi greiðslur sem hún innti af hendi fyrir 8. janúar 2010 séu fyrndar en fyrning hafi ekki verið rofin fyrr en með höfðun málsins 8. janúar 2014. Samkvæmt ákvæði XIV til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010 og lög nr. 38/2014, reiknast fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar frá 16. júní 2010 og skal hann vera átta ár frá því tímamarki. Mál þetta var höfðað 8. janúar 2014 og var fyrningu þá slitið, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 og 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Krafa áfrýjanda í þessum þætti málsins er því augljóslega ekki fyrnd.

III

Í þeim þætti málsins sem varðar þann hluta lánssamningsins sem var í íslenskum krónum er um það deilt hvort krafa áfrýjanda um endurgreiðslu oftekinnar verðtryggingar og vaxta, að fjárhæð 439.011 krónur en að frádregnum samtals 287.611 krónum, sé fallin niður fyrir fyrningu. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir tölvubréfi því, sem áfrýjandi sendi stefnda 25. nóvember 2013, þar sem farið var fram á það að sá hluti lánsins sem var í íslenskum krónum yrði endurreiknaður. Jafnframt er í dóminum rakið hvernig stefndi brást við þeirri málaleitan í bréfi 2. desember sama ár.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að áfrýjandi geti ekki borið fyrir sig ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi verður að líta svo á að stefndi hafi í bréfinu 2. desember 2013 viðurkennt skyldu sína til endurgreiðslu oftekinnar verðtryggingar og vaxta vegna greiðslna sem voru inntar af hendi eftir 25. nóvember 2009 og til lokadags samningsins á árinu 2013, og hefur áfrýjandi þegar fengið þær endurgreiðslur í hendur. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að kröfur vegna greiðslna sem voru inntar af hendi fyrir 25. nóvember 2009 séu fyrndar.

Niðurstaða málsins verður samkvæmt framansögðu sú að stefnda verður gert að greiða áfrýjanda 152.388 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir framangreindum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Lýsing hf., greiði áfrýjanda, Stefaníu Snorradóttur, 152.388 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. nóvember 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 8. janúar 2014 og dómtekið 19. maí þess árs að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Stefanía Snorradóttir, Skarðshlíð 25f, Akureyri. Stefndi er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að aðallega að stefnda verði gert að greiða henni 152.388 krónur og 439.011 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2013 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að lánssamningur aðila 17. júlí 2006, nr. 70024288, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu sem nemur helmingi upphaflegrar lánsfjárhæðar. Þess er einnig krafist til vara að viðurkennt verði að við endurútreikning hins gengistryggða hluta samningsins frá lántökudegi til 5. maí 2010 sé stefnda óheimilt að krefja stefnanda um vexti umfram þá vexti er stefnandi greiddi á umræddu tímabili. Að síðustu er þess krafist til vara að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að takmarka endurútreikning þannig að hann taki ekki til greiðslna er áttu sér stað fyrir 25. nóvember 2009. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

Málsatvik

Ágreiningur aðila er að meginstefnu tvíþættur. Í lýtur hann annars vegar að gildi fullnaðarkvittana vegna greiðslna samningsvaxta hluta láns sem bundinn var ólömætri gengistryggingu. Hins vegar er deilt um hvort krafa skuldara um endurgreiðslu  verðtryggingar og vaxta, vegna þess hluta lánsins sem var í íslenskum krónum, sem hann var krafinn um án viðhlítandi heimildar sé fallin niður fyrir fyrningu.

Atvik málsins eru óumeild um það sem máli skiptir fyrir sakarefni málsins. Meðal annars er nú ekki um það deilt að stefnandi fékk endurgreiddar verðbætur vegna greiðslna sem inntar voru af hendi eftir 25. nóvember 2009 og til loka samnings 2013. Jafnframt voru þá endurgreiddir vextir að því marki sem vextir voru hærri en upphaflegt vaxtaviðmið samningsins.

Stefnandi undirritaði 17. júlí 2006 lánasamning nr. 70024288 við stefnda, en lánið var veitt til kaupa á bifreiðinni DU-322 sem er af gerðinni Mitsubishi Outlander. Samningurinn var nefndur „Bílasamningur Lýsingar“ og kom fram í yfirskrift samningsins að um gengistryggðan samning væri að ræða. Þá sagði að samningsfjárhæð væri 1.479.580 krónur, en fjárhæðin skyldi bundin við gengi bandaríkjadals 15%, japansks jens 10%, evru 20%, svissnesks franka 5% og íslenskrar krónu 50%. Í málinu er ágreiningslaust að með þessu hafi helmingur samningsins verið bundinn gengistryggingu í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var samningurinn var endurreiknaður á þessum grundvelli af hálfu lánveitanda 19. nóvember 2010.

Samkvæmt ákvæðum samningsins greiddi stefnandi fyrstu greiðslu vegna samningsins að fjárhæð 615.000 krónur við undirritun.  Leigutími skyldi vera frá 15. júlí 2006 til 5. ágúst 2013, fjöldi greiðslna 84 og fyrsti gjalddagi 5. september 2006. Á tímabilinu 5. september 2006 til 5. maí 2010 innti stefnandi af hendi 46 greiðslur. Að frátöldum fyrsta gjalddaga og gjalddaga 4. mars 2010 voru allar afborganir inntar af hendi eftir samningsbundinn gjalddaga. Greiddi stefnandi samtals 23.250 krónur í dráttarvexti á þessu tímabili en 102.000 krónur í innheimtukostnað. Í flestum tilvikum fóru greiðslur stefnanda fram innan nokkurra daga eða vikna frá gjalddaga.

Hinn 1. mars 2010 var gerð skilmálabreyting samningsins. Í skilmálabreytingunni sagði meðal annars eftirfarandi: „Ef samningur eða einstakir hlutar hans eru verðtryggðir í íslenskum krónum þá reiknast íslenski hluti hans miðað við vísitölu neysluverðs.“

Sem fyrr segir endurreiknaði stefndi hinn gengistryggða hluta samningsins 19. nóvember 2010. Niðurstaðan var sú að miðað við 5. maí 2010, sem var síðasti gjalddagi sem greitt var, af hefði stefnandi ofgreitt af skuldbindingu sinni sem nam 7.532 krónum. Stefndi ráðstafaði einnig inneign stefnanda samkvæmt endurreikningi á móti greiðslum sem féllu í gjalddaga frá og með 6. júní 2010 til og mrð 5. nóvember þess árs. Af hálfu stefnanda er tekið fram að ógreiddum gjalddögum þann 5. janúar 2010 og 5. febrúar 2010 hafi með skuldbreytingu 1. mars 2010 verið bætt við höfuðstól og samið um að stefnandi greiddi 50% greiðslu næstu sex mánuði, þ.e. til og með 5. ágúst 2010. Frá og með 5. desember 2010 til loka samningsins við tjónsuppgjör 4. apríl 2013 mun stefnandi einnig hafa innt af hendi greiðslur sínar eftir gjalddaga.

Með bréfi 25. október 2013 var stefndi krafinn um endurgreiðslu hluta þeirrar kröfu sem hér er til úrlausnar og varðaði endurútreikning gengistryggða hluta samningsins. Með bréfi stefnda 17. desember 2013 var kröfum stefnanda vegna þess hluta samningsins hafnað.

Með rafskeyti 25. nóvember 2013 fór stefnandi fram á endurreiknaður yrði „íslenskur hluti“ samningsins með vísan til dóms Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli nr. 672/2012. Með bréfi stefnda 2. desember 2013 var stefnanda tilkynnt um að stefndi hyggðist endurgreiða stefnanda 267.108 krónur sem hún hefði ofgreitt vegna þessa hluta. Hins vegar var talið að frá og með 1. mars 2010 þegar gerð var skilmálabreyting samningsins hefði stefnanda mátt vera ljóst að þessi hluti samningsins var verðtryggður. Þá var endurgreiðsla einungis látin taka til greiðslna sem áttu sér stað allt að fjórum árum fyrir dagsetningu „umsóknar/kröfu“ um leiðréttingu. Með bréfi stefnda 24. febrúar 2014, þ.e. eftir að mál þetta var höfðað, var áréttað að stefndi teldi kröfur stefnanda vegna greiðslna fyrir 25. nóvember 2009 vera fyrndar. Hins vegar kom fram að ekki væri gerður ágreiningur um að stefnandi ætti rétt á mismun áfallina verðbóta vegna greiðslna frá þeim tíma til uppgjörs samningsins 5. apríl 2013. Sagði í bréfinu að þau mistök hefðu verið gerð í fyrra bréfi að fullyrða að endurgreiðslur hefðu einungis verið reiknaðar til 1. mars 2010. Einnig kom fram í bréfinu að skilmálabreyting 1. mars 2010 hefði ekki átt að hafa áhrif á úreikning vegna ofgreiddra vaxta og var stefnanda greidd ákveðinn fjárhæð á þeim grundvelli.

Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að óheimilt hafi verið að krefja sig um frekari vexti en hún hafði þegar innt af hendi frá lántökudegi og til 19. nóvember 2010 þegar lánið var endurútreiknað. Er þannig ekki um það deilt að frá og með 19. nóvember 2010 hafi borið að reikna lánið með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Á þeim degi telur stefnandi að höfuðstóll þessa hluta lánsins hafa numið 291.304 krónum. Beri því að reikna þá fjárhæð ásamt öllum greiðslum sem stefnandi innti af hendi eftir þann dag. Samkvæmt þessu hafi lánið í reynd ekki aðeins verið uppgreitt 5. apríl 2013 heldur hafi stefnandi þá ofgreitt 181.117 krónur sem sé sá hluti aðalkröfu sem leiði af gengistryggðum hluta samningsins. Með endanlegri kröfugerð sinni lækkaði stefnandi þó kröfugerð sína með hliðsjón af athugasemdum í greinargerð stefnda, sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega, og telur ofgreiðsluna hafa numið 152.388 krónum. Þá er í endanlegri kröfugerð einungis gerð krafa um dráttarvexti frá 25. nóvember 2013 til greiðsludags.

Stefnandi vísar til fordæma Hæstaréttar um skilyrði þess að henni sé heimilt að byggja á fullnaðarkvittunum fyrir greiðslu samningsvaxta án tillits til ákvæða 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Jafnframt telur hún útreikning á stefnukröfu sinni að öðru leyti í samræmi við fordæmi Hæstaréttar. Rökstyður stefnandi sérstaklega að atvik málsins séu frábrugðin þeim sem leyst var úr með dómi Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013.

Að því er varðar hinn „íslenska hluta“ samningsins vísar stefnandi til þess að með dómi Hæstaréttar 24. apríl 2014 í máli nr. 672/2012 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi verið óheimilt að verðbæta þennan hluta lána sinna  auk þess sem honum hafi verið óheimilt að reikna breytilega vexti. Stefnandi mótmælir því að stefnda sé heimilt að hafna endurgreiðslu á verðbótum eftir 25. nóvember 2009. Þar sem stefndi heldur því ekki lengur fram að skilmálabreyting 1. mars 2010 hafi haft þýðingu um heimild hans til þess að heimta verðtryggingu eða breytilega vexti er ekki nauðsynlegt að rekja nánar sjónarmið stefnanda þar að lútandi. Stefnandi mótmælir því hins vegar að krafa vegna ofgreiðslna fyrir 25. nóvember 2009 séu fyrndar. Stefnandi bendir á að fyrningarfrestur geti ekki byrjað líða fyrr en 25. nóvember 2017 eða fjórum árum eftir að kröfubréf hennar var sent til stefnda. Í öllu falli sé ljóst að stefnandi hafi ekki með nokkru móti getað áttað sig á að hún ætti rétt til endurgreiðslu fyrr en í fyrsta lagi með dómi Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli nr. 672/2012. Það hafi því ekki verið fyrr en á þeim degi sem fjögurra ára fyrningarfresturinn byrjaði að líða þ.e. þegar hún „gat fyrst átt rétt til efnda.“ Það að reikna fyrningarfrestinn fjögur ár aftur í tímann frá slíkri dagsetningu standist ekki nánari skoðun og sé því ljóst að hafna beri þessari málsástæðu stefnda.

Um varakröfu sína vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan byggir á sambærilegum sjónarmiðum og aðalkrafa stefnanda og er sett fram til öryggis verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á aðalkröfu hans. Eins og málið liggur fyrir er ekki ástæða til þess að rekja frekar rökstuðning fyrir einstökum liðum varakröfu.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Að því er varðar gengistryggðan hluta samningsins byggir stefndi á því að skilyrðum fyrir því að stefnandi geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir sé ekki fullnægt og því hafi verið heimilt að endurreikna þennan hluta lánsins með vísan til 1. málsliðar 4. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að umrædd regla geti aðeins átt við þegar skuldari reynir að verjast viðbótarkröfu kröfuhafa. Hins vegar geti hún ekki leitt til þess að skuldari geti krafið kröfuhafa um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Telur stefndi þessi sjónarmið fá stoð í fordæmum Hæstaréttar.

Stefndi vísar einnig til þess að nánari skilyrðum samkvæmt fordæmum Hæstaréttar sé ekki fullnægt í málinu. Stefnandi hafi þannig ekki orðið fyrir neinni fjárhagslegri röskun vegna þess að sú bifreið sem samningurinn snerist um hafi hækkað að raunverði á sama tíma og eftirstöðvar lánsins hafi lækkað vegna þess að ekki var um gengistryggingu að ræða. Stefndi hafi því ekki ofgreitt af skuldbindingu sinni. Ef kröfur hans yrðu teknar til greina myndi það leiða til óréttmætar auðgunar stefnanda á kostnað stefnda. Stefndi telur einnig því skilyrði ekki fullnægt að nægileg festa hafi verið í framkvæmd samnings þannig að skuldari væri í góðri trú um fullar og réttar efndir. Hann vísar til þess að vanskil hafi orðið á öllum greiðslum stefnanda ef frá sé skilinn fyrsti gjalddagi samningsins 5. september 2006. Þá er því hreyft í stefnu að reglur EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga leiði til þess að stefnda geti aldrei borið skylda til endurgreiðslu.

Stefndi mótmælir fjárhæð og útreikningi aðalkröfu stefnanda að því er varðar hinn gengistryggða hluta lánsins. Hann bendir á að krafa stefnanda feli í reynd í sér að hann greiði LIBOR-vexti af umræddum hluta lánsins sem hann telur ekki samræmast fordæmum Hæstaréttar. Þá telur hann að samkvæmt fordæmum Hæstaréttar beri að nota svokallað veltureikningsaðferð sem stefnandi hafi ekki gætt. Stefndi telur einnig að kröfugerð stefnanda sé mótsagnakennd að því leyti að hann byggi á fullnaðarkvittunum að því er varðar hinn gengistryggða hluta lánsins en krefjist „endurskoðunarvaxta“ varðandi hinn „íslenska hluta“ þess. Þá telur stefndi að krafa stefnanda vegna greiðsla eftir 6. janúar 2010 sé fyrnd en fyrning hafi fyrst verið rofin með höfðun málsins 6. janúar 2014.

Að því er varðar þann hluta lánsins sem var í íslenskum krónum vísar stefndi til þess að stefnandi hafi fengið endurgreiddar verðbætur og ogreidda vexti vegna greiðslna eftir 25. nóvember 2009. Hins vegar hafi verið rétt að miða við fjögurra ára fyrningarfrest, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en sama efnisregla hafi gilt samkvæmt eldri löggjöf um fyrningu. Samkvæmt þessu hafi kröfur um endurgreiðslu frá því fyrir 25. nóvember 2009 verði fyrndar þegar stefnandi hafði uppi þessa kröfu sína.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda og bendir á að 25. nóvember 2013 sé hvorki umsaminn gjalddagi né samrýmist hann 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Mótmæli stefnda við varakröfu stefnanda byggjast á sambærilegum sjónarmiðum og áður greinir um aðalkröfu stefnanda. Hins vegar telur stefndi að áhöld séu um sjálfstæða hagsmuni stefnanda af einstökum kröfuliðum.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að eftir undirritun téðs lánssamnings og fram til 5. maí 2010 urðu vanskil á öllum afborgunum stefnanda að frátalinni greiðslu á fyrsta gjalddaga. Þótt stefnandi mætti almennt treysta því að greiðslur hennar fælu í sér fullnaðargreiðslur vaxta er engu að síður ljóst að slík takmörkuð festa við framkvæmd samnings hefur þýðingu við heildarmat á því hvorum samningsaðila það stendur nær að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013. Þá liggur fyrir að upprunaleg fjárhæð samnings aðila nam 1.479.580 krónum en fram til 5. maí 2010 greiddi stefnandi 374.062 krónur í samningsvexti. Samkvæmt endurútreikningi stefnda áttu vaxtagreiðslur hins vegar að nema 592.648 krónum á sama tímabili.

Samkvæmt þessu var stefnandi með endurútreikningi stefnda í reynd krafinn, með afturvirkum hætti, um viðbótarvexti að fjárhæð 218.586 krónur, eða tæplega 15% af upprunalegum höfuðstól, á grundvelli ákvæða 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Að mati dómsins var hér um að ræða tiltölulega lága fjárhæð, hvort sem litið er til fjárhæðarinnar sjálfrar eða höfuðstóls lánsins. Að þessu virtu, svo og að teknu tilliti til þeirrar takmörkuðu festu sem um var að ræða í samningssambandi aðila, er það niðurstaða dómsins að krafa stefnda um viðbótarvexti hafi ekki falið í sér slíka röskun á stöðu stefnanda að stefndi hafi misst rétt til fullra efnda og verið óheimilt að krefjast vangreiddra vaxta aftur í tímann.

Að því er varðar þann hluta téðs samnings, sem laut að láni í íslenskum krónum, telur dómurinn að stefnanda hafi ekki getað dulist, meðal annars af útsendum innheimtuseðlum, að hann var krafinn um verðbætur af stefnda og breytilega vexti. Er því hafnað að stefnanda hafi ekki verið mögulegt að afla sér nánari vitneskju um þetta atriði samningsins eða láta á það reyna þannig að miða beri upphaf fyrningarfrest við annað tímamark en stofnun og gjaldkræfni endurgreiðslukröfu, sbr. meginreglu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Getur stefnandi því ekki borið fyrir sig 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Eins og áður greinir var mál þetta höfðað 8. janúar 2014 og fyrning þá rofin. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007, sem hér á við, voru þá fyrndar kröfur stefnanda um endurgreiðslu sem stofnast höfðu meira en fjórum árum fyrir það tímamark. Hins vegar verður að líta svo á að stefndi hafi með áðurlýstu bréfi 2. desember 2013 viðurkennt skyldu sína til endurgreiðslu vegna greiðslna sem fram fóru eftir 25. nóvember 2009. Í málinu er nú ágreiningslaust að stefnandi hefur þegar fengið endurgreiddar verðbætur og oftekna vexti vegna greiðslna sem inntar voru af hendi eftir 25. nóvember 2009 og til loka samningsins á árinu 2013. Samkvæmt því sem að framan greinir eru kröfur hans vegna greiðslna sem fram fóru fyrir 25. nóvember 2009 hins vegar fyrndar.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af aðalkröfum stefnanda, svo og varakröfum hans, sem byggjast á sambærilegum málsástæðum og aðalkröfur hans.

Eins og atvikum málsins er háttað verður málskostnaður látinn falla niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes S. Ólafsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Jónas Fr. Jónsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Lýsing hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Stefaníu Snorradóttur.

                Málskostnaður fellur niður.