Hæstiréttur íslands

Mál nr. 376/2002


Lykilorð

  • Bifreið
  • Vátrygging


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. janúar 2003.

Nr. 376/2002.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Bergsveini Jóhannessyni

(Karl Axelsson hrl.)

 

Bifreiðir. Vátrygging.

B ók á vegi upp með Skyndidalsá, en varð að stöðva bifreiðina við bakka árinnar er hann reyndi að snúa bifreiðinni við. Lét bakkinn þá undan vinstra framhjóli bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hún hallaði mjög mikið. Ákvað B þá, til að varna því að bifreiðin ylti, að aka undan ánni og upp á eyri sem var skammt frá. Virtist það ætla að takast en þegar kerran, sem bifreiðin hafði í eftirdragi, kom út í ána tók straumurinn hana með þeim afleiðingum að bifreiðin flaut stjórnlaust niður ána. Hafði B keypt svonefnda Al-kaskó tryggingu hjá vátryggingarfélaginu V hf. Var tryggingin, sem bætir tjón vegna þess að ökutæki veltur eða hrapar, auk tjóns þegar ökutæki er ekið út af vegi og fleiri atvika talin ná til tjóns á bifreið B. Var V hf. því dæmt til að greiða B bætur vegna tjónsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2002 og krefst sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi varð bifreið stefnda, R-55222 af gerðinni Benz Unimog, fyrir miklum skemmdum 13. september 2000 við það að fara á kaf í jökulvatn. Í málinu, sem höfðað var 26. júní 2001, krefur stefndi áfrýjanda um bætur á grundvelli samnings aðilanna um húftryggingu bifreiðarinnar. Ekki er fram komið hvenær samningurinn var gerður, en samkvæmt fyrirsögn skilmála vátryggingarinnar var um að ræða svokallað al-kaskó. Meðal málsskjala er jafnframt ódagsettur auglýsingabæklingur áfrýjanda, þar sem sagði í inngangi að í honum mætti finna upplýsingar um þrjár nýjar og mismundandi tegundir kaskótrygginga, sem áfrýjandi bjóði nú bifreiðaeigendum. Um sé að ræða svo kallað umferðarkaskó, vegakaskó og al-kaskó. Um hið síðastnefnda sagði síðan meðal annars að sú trygging hefði víðtækast bótasvið þeirra húftrygginga, sem félagið byði nú upp á, og nái hún yfir flest þau tjónstilvik, sem hugsanlega geti orðið á ökutæki. Í upptalningu helstu atriða bótasviðs tryggingarinnar var síðan meðal annars getið um veltu, hrap og útafakstur.

Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu og stefndi unir héraðsdómi. Með vísan til forsendna héraðsdóms og að virtum dómi Hæstaréttar 1975, bls. 933 í dómasafni það ár, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Bergsveini Jóhannessyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2002.

    Stefnandi er Bergsveinn Jóhannesson, Brekkutanga 31, Mosfellsbæ.

    Stefndi er Vátryggingarfélag Íslands hf, Ármúla 3, Reykjavík.

    Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum  2.289.069 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 2001 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum málskostnað.

    Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara, að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

MÁLSATVIK

Þann 13. september 2000 var stefnandi á ferð á bifreið sinni R-55222 við Skyndidalsá við Lónsöræfi. Var stefnandi á leið að sækja gönguhóp inn að Illakambi og ók á vegi upp með Jökulsá en taldi hana ófæra víðast hvar og hætti stefnandi því við að fara yfir ána. Tók stefnandi þess í stað þá ákvörðun að snúa bifreiðinni við og varð hann að taka u-beygju til þess. Reyndist stefnanda ófært að ná beygjunni í einni lotu og varð hann því að stöðva bifreiðina við bakka árinnar. Þegar bifreiðin staðnæmdist lét bakkinn undan vinstra framhjóli hennar með þeim afleiðingum að bifreiðin hallaði mjög mikið. Ákvað stefnandi þá, til að varna því að bifreiðin ylti, að keyra undan ánni og upp á eyri sem var þarna mjög skammt frá. Virtist það ætla að takast en þegar kerran, sem bifreiðin hafði í eftirdragi, kom út í ánna tók straumurinn hana með þeim afleiðingum að bifreiðin snerist mjög hratt í um 180 gráður. Við þetta stöðvaðist vél bifreiðarinnar. Hringdi stefnandi þá í neyðarnúmer lögreglunnar og kallaði eftir aðstoð. Eftir að aðstoð björgunarsveitar barst var hafist handa við að draga bifreið stefnanda úr ánni. Varð ljóst þegar búið var að draga bifreiðina á land að hún var mikið skemmd eftir ána.

Stefnandi kveður tjón á bifreið sinni töluvert. Samkvæmt kostnaðaráætlun um viðgerð á rafkerfi bifreiðar stefnanda frá Tæknivélum sf., dags. 6. nóvember 2000, nemi tjónið 837.816 krónum. Einnig liggi fyrir kostnaðaráætlun frá bifreiðaverkstæði Engelharts Björnssonar, dags. 14. nóvember 2000, vegna viðgerðar á vél, gírkassa, stýri, drifsköftum, mismunadrifi, bremsum, höggdeyfum, hliðarstýfu og niðurgírum, en þar nemi tjónið 796.000 krónum. Að lokum liggi einnig fyrir kostnaðaráætlun bifreiðasmiðjunnar Bílaskjóls, dags. 14. nóvember 2000, vegna viðgerðar á yfirbyggingu, rúðum, sætum, dráttarkúlu og afturstuðara, þar sem tjónið nemi 500.000 krónum. Í kjölfar slyssins hafi stefnandi þurft að greiða fyrir ýmsan kostnað. Fyrir drátt á bifreið sinni 7.000 krónur, sbr. reikning dags. 19. september 2000. Einnig hafi stefnandi þurft að greiða 148.253 krónur vegna flutnings á bifreið sinni frá Hornafirði til Reykjavíkur, sbr. reikning dags. 24. október 2000. Er það krafa stefnanda að stefnda verði gert að greiða honum vegna kostnaðar samkvæmt ofangreindum reikningum þar sem ljóst sé að kostnaður þessi falli undir greiðsluskyldu stefnda. Heildartjón stefnanda nemi 2.289.069 krónum, sem sé samtala framangreindra fjárhæða.

Bifreið stefnanda hafi verið tryggð Al-kaskótryggingu hjá stefnda. Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 26. febrúar 2000 hafi verið óskað eftir því við stefnda að félagið viðurkenndi bótaskyldu úr Al-kaskótryggingunni vegna atburðarins. Því hafi verið hafnað af hálfu stefnda hafnað með bréfi dags. 12. október 2000. Með kvörtun dags. 28. mars 2001 hafi stefnandi skotið höfnuninni til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum. Var kvartað yfir þeirri afstöðu stefnda að synja bótaskyldu úr tryggingu vegna þessa tjónstilviks. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 20. apríl 2001, var ákveðið að stefnda bæri að bæta tjón stefnanda úr húftryggingu bifreiðarinnar sem stefnandi hafði keypt hjá stefnda.

Stefndi ritaði lögmanni stefnanda bréf, dags. 30. apríl 2001, þar sem tilkynnt var að stefndi myndi ekki hlíta niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Er tekið fram í bréfinu að niðurstaða nefndarinnar fari gegn áratuga langri túlkun á ákvæðum vátryggingarskilmála stefnda auk þess sem því er haldið fram að vátrygging stefnanda taki ekki til aksturs um vegleysur eins og komi fram í 3. gr. g lið vátryggingarskilmála stefnda.

Í þinghaldi 15. janúar sl. beiddist lögmaður stefnda þess að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að skoða og meta hvert hafi verið markaðsvirði bifreiðar stefnanda 13. september 2000 miðað við staðgreiðslu og hvert hafi verið markaðsverð flaksins eftir tjónið. Í matsgerð Finnboga Eyjólfssonar, dagsettri 31. janúar sl. segir m.a:

"Bifreiðir þessar eru afar endingargóðar enda yfirleitt ekki notaðar að staðaldri, og því er meðalaldur þeirra mjög hár miðað við aðrar tegundir bifreiða hérlendis. Bifreiðin R-55222, sem hér um ræðir, er af gerðinni WDB 416, en einungis eru um 20 slíkar skráðar hjá Skráningarstofunni hf Hún hefur verið lengd hérlendis, settur í hana dísilhreyfill með forþjöppu og byggt yfir hana 12 manna hús úr áli með vandaðri innréttingu, sérstöku hitunarkerfi og tilheyrandi hljómflutnings- og fjarskiptabúnaði. Samkvæmt vegmæli bifreiðarinnar hefur henni nú verið ekið 184305 km og af útliti hennar má greinilega ráða, að hún hefur verið mjög vel búin til þeirra verkefna, sem henni voru ætluð þ.e. að flytja fólk um torfærar leiðir í óbyggðum og yfir straumvötn.

Sökum þess hve notkunarsvið slíkra bifreiða er takmarkað, eru kaupendur að þeim ekki á hverju strái, sem hefur bein áhrif á verðlagningu þeirra og sölumöguleika, Hjá bílasölum fyrir notaða bíla er því hvergi að finna skráð viðmiðunarverð á Unimog bifreiðum, og eftir að hafa kannað söluskýrslur helstu bílasala í Reykjavík nokkur ár aftur í tímann, gat undirritaður ekki fundið staðfesta sölu á sambærilegri bifreið við R-55222. Af þessu er ljóst að viðskipti með bifreiðir af þessu tagi fara helst fram á milli þeirra, sem nota þær í því skyni, sem áður er lýst, og ræddi matsmaður því við nokkra úr þeim hópi um verðlag á umræddri gerð bifreiða. Auk þess kynnti matsmaður sér verðlista frá Þýskalandi yfir notaðar Unimog bifreiðir. Sömuleiðis ræddi matsmaður við eiganda Tæknivéla, en það fyrirtæki endurnýjaði allan ratbúnað og hljómflutningskerfi í R-55222 snemma árs 2000 og lýsir hann bifreiðinni sem "algjöru gullstykki til fjallaferða". Að því virtu, sem hér hefur verið lýst telur undirritaður matsmaður að markaðsvirði R-55222 þann 13. September 2000, áður en hún festist í Skyndidalsá, hafi verið gegn staðgreiðslu kr: 1.580.000.-

2. Undirritaður skoðaði bifreiðina R-55222 eins og hún er nú og hefur innrétting hennar sýnilega verið hreinsuð og þurrkuð og sett í hana ný framrúða. Hins vegar ber hún þess enn merki að hafa farið á kaf í jökulvatn, svo sem sést á mælasamstæðum ofl.. Hið ytra eru sjáanlegar skemmdir á bifreiðinni, sem ekki eru bein afleiðing vatnsflóðs, en þar er um að ræða rifið og beyglað ytra byrði á yfirbyggingu vinstra megin aftarlega, brotnar demparafestingar, ónýta mæla ofl.. Undirritaður skoðaði ekki vélbúnað bifreiðarinnar innvortis, vegna þess hve kostnaðarsamt það er, og telur reyndar að matsbeiðnin gefi ekki tilefni til þess. Honum þykir þó einboðið, og byggir þar á eigin reynslu og annarra, að taka verður í sundur og hreinsa allan rafbúnað, svo sem ræsi og rafala og hreyfilinn ásamt öllum hlutum aflrásarinnar til að fyrirbyggja ótímabærar bilanir ef bifreiðin verður tekin í notkun aftur. Undirritaður athugaði viðhorf, "bílapartasala" til kaupa á R-55222 í því ástandi, sem bifreiðin var eftir nefnt óhapp, en svörin voru á þann veg að slíkir bílar væru ekki keyptir til niðurrifs, þar sem enginn markaður væri fyrir hluti úr þeim. Þótt "flakið" af R-55222 hafi að vissu leyti verið vonarpeningur eins og það var, þegar það var dregið upp úr Skyndidalsá., telur undirritaður að unnt hefði verið að fá fyrir það kr. 200.000.- gegn staðgreiðslu."

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að í auglýsingum hafi stefndi kynnt Al-kaskó sem húftryggingu bifreiða með „mjög víðtækt gildissvið". Í 1. gr. vátryggingarskilmála nr. BK10 séu taldar upp þær áhættur sem tryggingin tekur til. Af hálfu stefndanda er talið augljóst með hliðsjón upptalningu 1. gr. skilmálanna að það tjónstilvik sem um ræðir falli undir veltu-hrap-útafakstur og/eða hrun/flóð. Einnig þyki ljóst að þær undantekningar frá l. gr. sem fram komi í 3. gr. skilmálanna beri að skýra þröngt og beri stefndi sönnunarbyrðina í öllu tilliti um að ákvæðið eigi við. Einnig sé ljóst að túlka beri skilmálana stefnanda í hag, sbr. 36. gr. b. samningalaganna nr. 7/1936. Er nefnt að stefnandi hafi aldrei ekið bifreið sinni út í ána, heldur hafi sá atburður orðið að bakki árinnar brast og hafi stefnandi brugðist við því. Þá sé ljóst að stefnandi hafi ekið á vegi. Því er mótmælt að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar gangi gegn áratuga langri framkvæmd. Þvert á móti beri að líta á niðurstöðu nefndarinnar sem staðfestingu þess að túlkun stefnanda sé í samræmi við góða vátryggingarhætti. Sé tjónið því bótaskylt.

Krafa stefnanda um dráttarvexti miðast við 14. janúar 2001 en þá var einn mánuður liðinn frá því að kostnaðaráætlanir vegna tjóns stefnanda lágu fyrir.

Um bótaábyrgð stefnda vísar stefnandi til vátryggingarsamnings aðila og skilmála í tengslum við hann og reglunnar um skuldbindingargildi samninga.

Þá vísar stefnandi jafnframt til 36. gr. b. samningalaga nr. 7/1936 og vaxtalaga nr. 25/1987.

Kröfur sínar um málskostnað styður stefnandi við lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum l. mgr. 130. gr.

Sýknukrafa stefnda er á því byggð, að hið umstefnda tjón stefnanda falli ekki undir húftryggingu hans hjá stefnda.

Sé ljóst af frásögn stefnanda sjálfs í tilkynningu hans um tjónið, að bifreiðin skemmdist ekki af völdum neinna þeirra tjónstilvika, sem l. gr. húftryggingarskilmálanna tekur til, heldur vegna þess, að þegar árbakkinn lét undan vinstra framhjóli bifreiðarinnar og bifreiðin hallaðist, hafi stefnandi ekið bifreiðimi vísvitandi út í ána áleiðis að eyri í ánni og fest hana í straummiklum árstrengnum þannig að hún fór nánast á kaf í ána. Við það hafi bifreiðin skemmst af árvatninu og aurframburðinum í ánni auk skemmda við að draga bifreiðina á þurrt upp úr ánni. Sé því ekki um það að ræða, að bifreiðin hafi hrapað í ána eða tjónið á henni hlotist vegna veltu, útafkeyrslu, hruns eða flóðs eða annarrar þeirrar áhættu sem húftryggingin taki til.

Álit úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þess efnis, að bifreið stefnanda hafi "hrapað ofan í árfarveginn" sé bersýnilega rangt, því þó að árbakkinn hafi gefið sig undan vinstra framhjóli bifreiðarinnar og bifreiðin við það hallast mikið hafi bifreiðin ekki hrapað í ána, heldur verið ekið út í hana, en orðið hrap í tryggingarskilmálunum þýði samkvæmt íslenskri málvenju og málsskilningi "hátt og þungt fall", sbr. t.d Orðabók Menningarsjóðs. Verði skilmálarnir ekki skýrðir á annan veg eða að öðru leyti stefnanda neitt sérstaklega í hag, en stefnandi hafi verið sjálfstæður atvinnurekandi og húftryggt bifreiðina sem slíkur, en bifreiðin hafi verið atvinnutæki hans.

Þá séu þær skemmdir, sem verði á húftryggðu ökutæki við akstur yfir óbrúaðar ár og læki, um fjörur, forvaða eða aðrar vegleysur, sérstaklega undanþegnar bótaskyldu úr húftryggingunni, sbr. g lið 3. gr. skilmála þeirra er gildi um trygginguna. Tjónið á bifreið stefnanda hafi einmitt orðið við þær aðstæður og sé því heldur ekki bótaskylt af þeim ástæðum. Beri að framangreindu virtu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Verði af einhverjum ástæðum talið, að tjón stefnanda falli undir húftrygginguna beri að stórlækka stefnukröfur, en þeim er mótmælt sem allt of háum. Er þar bent á mat það sem frammi liggur í málinu. Gildi um húftrygginguna lög um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, en skv. 36. gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 39. gr. þeirra laga geta tryggingabæturnar aldrei orðið hærri en svarar markaðsverði bifreiðarinnar á tjóndegi fyrir tjón að frádregnu verðmæti bifreiðarinnar eftir tjón. Telja stefndu það ekki umfram eina milljón króna. Þá bætist aðeins tjónið á bifreiðinni sjálfri, en ekki aukahlutum eins og olíumiðstöð, CB-talstöð, magnara og NMT-síma, sbr. kostnaðaráætlun á dskj. nr. 4. Beri að lækka bætur ef til kemur sem þessu svarar. Er áskilinn réttur til að dómkveðja matsmenn til mats á tjóninu. Þá er sjálfsáhætta stefnanda í tjóninu, kr. 136.400, einnig til frádráttar. Kostnaðaráætlunum, sem stefnandi byggir á kröfufjárhæðina, verður jafnframt að mótmæla sem of háum og órökstuddum. Þá er kröfu um dráttarvexti mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, en raunhæft mat á tjóninu liggur ekki enn fyrir.

NIÐURSTAÐA

Ekki er ágreiningur um það að tjón það er varð á bifreið stefnanda hafi orðið með þeim hætti sem lýst er af stefnanda sjálfum í stefnu og skýrslu hans fyrir dómi, þ.e.a.s. að árbakki hafi hrunið undan vinstra framhjóli bifreiðar hans er hann hugðist beygja frá Skyndidalsá þar sem hann ætlaði ekki lengra upp með henni og leita færis á að fara yfir annars staðar. Lýsti hann aðstæðum þannig að hann hefði ekið eftir vegarslóða sem liggi samhliða ánni, sums staðar allt að 30-40 metrum frá henni en annars staðar nær, allt að 3-4 metrum frá. Svo hafi verið er óhappið varð, en stefnandi hefði beygt út af slóðanum og hafi vinstra framhjól bifreiðar hans verið um 1-2 metra frá bakkanum er fylla fór úr honum. Vinstra framhjól bifreiðar hans fór í ána, sem rann þarna í ál og taldi stefnandi sér þá einu leið færa að aka rakleiðis áfram og freista þess að ná upp á eyri sem var framundan. Kvaðst hann hættu hafa verið á því að ella hefði bifreiðin farið á hliðina en mikið flug hafi verið í ánni vegna undanfarandi rigninga.

Samkvæmt skilmálum þeim sem giltu um tryggingu þá er stefnandi hafði keypt hjá stefnda, svonefnda Al-kaskó tryggingu, bætir tryggingin tjón vegna þess að ökutæki veltur eða hrapar. Jafnframt er bætt tjón, þegar hinu vátryggða ökutæki er ekið út af vegi og tjón verður vegna áaksturs eða ökutækið veltur eða hrapar. Eins og að framan greinir er á því byggt af hálfu stefnda að ákvæði þessi eigi ekki við um tilvik þetta þar sem hrap sé samkvæmt skilgreiningu hátt og þungt fall. Því hafi ekki verið til að dreifa hér enda hefði stefnandi ekið út í ána. Dómurinn telur að við þær aðstæður sem þarna urðu, þ.e. að fylla fór úr árbakkanum, allt að tveimur metrum frá ánni, og bifreið stefnanda var þannig skyndilega að hluta til komin út í ána og að stefnanda var nauðugur einn kostur að aka áfram til þess að freista þess að koma í veg fyrir að bifreiðinni hvolfdi, verði að fallast á það með stefnanda að tilvikið sé þess eðlis að það falli undir 1. gr. tryggingarskilmála þeirra sem um tryggingu hans giltu.

Verður þá næst fyrir að taka afstöðu til þess hvort ákvæði g-liðs 3. gr. skilmálanna, um undanskildar áhættur, taki til tilviks þessa. Í ákvæðinu segir að tryggingafélagið bæti ekki tjón er verði á ökutækjum við akstur á vegum eða vegarköflum þar sem bannað er að aka ökutækjum samkvæmt fyrirmælum réttra yfirvalda, svo sem skemmdir við akstur yfir óbrúaðar ár og læki, um fjörur, forvaða og aðrar vegleysur. Þó bætist skemmdir á ökutækinu, ef það sannist, að þær verða þegar ökumaður verður að fara út fyrir akbraut, t.d. vegna viðgerðar á akbrautinni.

Fram kom hjá vitninu, Sigurði Guðnasyni lögreglumanni, að ekki sé vegur lagður meðfram Skyndidalsá en hins vegar kannaðist hann við það að þar sé slóði sem myndast hafi í áranna rás við það að menn hafi ekið upp með ánni án þess að þar sé um að ræða veg sem haldið sé við. Á ljósmyndum sem lagðar hafa verið fram í málinu má sjá vegslóða þar sem greinilega hefur verið ekið og verður ekki litið á slóða þennan sömu augum og fjörur, forvöð eða aðrar vegleysur. Samkvæmt þessu verður för stefnanda um vegslóða þann er hann ók eftir ekki talin þess eðlis að ákvæði g-liðs 3. gr. margnefndra tryggingaskilmála taki til hennar.

Hér að framan er því slegið föstu að stefnanda hafi verið það nauðugur einn kostur að aka út í ána eins og komið var og leiðir af því að ekki verður litið svo á að síðastgreint ákvæði taki til óhapps hans að heldur.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða málsins að tilvik það sem hér er til úrlausnar sé bótaskylt samkvæmt skilmálum Al-kaskó tryggingar þeirrar sem stefnandi hafði keypt sér hjá stefnda.

Fyrir liggur það mat dómkvadds matsmanns að markaðsvirði bifreiðar stefnanda fyrir óhappið hafi verið 1.580.000 krónur miðað við staðgreiðslu en hrakvirði bifreiðarinnar eftir slysið hafi verið 200.000 krónur miðað við staðgreiðslu. Þá greiddi stefnandi kostnað við flutning bifreiðarinnar til Hornafjarðar og þaðan til Reykjavíkur samtals 155.253 krónur og er sá liður kröfugerðar tekinn til greina. Samkvæmt þessu er tjón stefnanda vegna óhappsins 1.535.253 krónur en þar kemur til frádráttar sjálfsáhætta stefnanda að fjárhæð 136.400 krónur. Samkvæmt þessu ber stefnda að bæta stefnanda tjón hans með 1.398.853 krónum auk vaxta eins og greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Bergsveini Jóhannes­syni, 1.398.853 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 2001 til 26. júní 2001 en með vöxtum skv. III. kafla  sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. III kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.