Hæstiréttur íslands

Mál nr. 515/2002


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Reikningsskil


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. apríl 2003.

Nr. 515/2002.

Penninn hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Jóni Ellert Lárussyni

Svandísi Jónsdóttur og

Guðrúnu Jónsdóttur

(Árni Pálsson hrl.)

 

Kaupsamningur. Reikningsskil.

P hf. keypti 24% hlutafjár í B hf. af J, S og G. Í kaupsamningi var kveðið á um að kaupverð skyldi vera tæplega 20 milljónir króna, en endanlegt uppgjör aðila ráðast af nánar tilgreindu árshlutauppgjöri B hf. Þannig var ráðgert að rúmlega 10 milljón króna tap yrði af rekstri B hf. fyrstu sex mánuði ársins 1999. Skyldi kaupverð eftir atvikum lækka eða hækka til samræmis í réttu hlutfalli við heildarhlutafé félagsins. Svo fór að á umræddu tímabili varð hagnaður af rekstri B hf., sem stafaði meðal annars af því að gerðar voru leiðréttingar á eldri færslum í bókhaldi félagsins. Talið var að kaupverð skyldi eftir sem áður hækka til samræmis, enda hafi umræddar leiðréttingar á eldri færslum verið almennar og venjulegar og J ekki leynt P upplýsingum við kaupin. Var því fallist á kröfu J, S og G á hendur P hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að honum aðeins gert að greiða þeim 12.266 krónur með dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi. Þá krefst hann þess að stefndu verði gert að greiða honum óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Penninn hf., greiði stefndu, Jóni Ellert Lárussyni, Svandísi Jónsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur, hverju fyrir sig 75.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2002.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 19. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóni Ellerti Lárussyni, kt. 040356-6069, Gilsbakkavegi 11, Akureyri, Svandísi Jónsdóttur, kt. 160257-7099, sst., og Guðrúnu Jónsdóttur, kt. 121132-3469, Hólastekk 6, Reykjavík, með stefnu birtri 18. október 2000 á hendur Pennanum hf., kt. 451095-2189, Hallarmúla 4, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnenda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim kr. 1.046.207 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 1. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda, en til vara, að hann verði einungis dæmdur til að greiða stefnendum kr. 12.266 með dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi.  Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að með kaupsamningi, dagsettum 21. maí 1999, seldu stefnendur stefnda hlutafé sitt í Bókvali hf., sem var 24% af heildarhlutafé félagsins.  Umsamið kaupverð var kr. 19.972.805, þannig að hver hlutur stefnenda var seldur á genginu 6,329.  Í 2. gr. kaupsamningsins segir, að endanlegt kaupverð skuli þó breytast í samræmi við endanlegt uppgjör samkvæmt 5. gr. kaupsamningsins.

         Í 4. gr. kaupsamningsins segir meðal annars um greiðslu kaupverðsins, að endanlegt uppgjör milli kaupanda og seljenda miðist við árshlutauppgjör Bókvals hf. 30. júní 1999, áritað af löggiltum endurskoðanda félagsins um, að það gefi góða mynd af afkomu félagsins fyrstu sex mánuði ársins og efnahag þess 30. júní 1999.

         Samkvæmt 5. gr. kaupsamningsins var gert ráð fyrir í rekstraáætlun, sem fyrir lá, að tap yrði á félaginu á fyrstu sex mánuðum ársins 1999, að fjárhæð kr. 10.800.000, og var kaupverðið við það miðað.  Síðan segir, að reynist niðurstaða árshlutauppgjörs, samkvæmt 4. gr., vera minna eða meira tap, skuli kaupverðið leiðrétt til samræmis við það, þannig að síðustu greiðslur kaupverðsins, skv. 2. gr., skuli lækka um fráviks­fjárhæðina, sé tapið meira, en hækka, sé tapið minna, í réttu hlutfalli af heildarhlutafé félagsins.

         Hinn 6. september 1999 var lokið við að gera árshlutareikning fyrir Bókval hf., og var hann áritaður um könnun án fyrirvara af löggiltum endurskoðendum félagsins.  Niðurstaða þess uppgjörs var sú, að hagnaður hefði numið kr. 260.588. Ástæða þess var m.a. leiðréttingar á eldri færslum í bókhaldi fyrirtækisins.

         Stefnendur kveða, að samkvæmt 7. mgr. 4. gr. kaupsamningsins hafi seljendum borið að greiða kostnað við uppgjör á félaginu, og að teknu tilliti til hans, hefði rekstrartap orðið kr. 453.254.  Stefnendur hafi því talið, að stefnda bæri að greiða þeim 24% af kr. 10.800.000 - 453.254, eða af kr. 10.346.746, og hefði greiðslan til þeirra því átt að vera kr. 2.483.219.  Stefndi hafi ekki fallizt á þennan skilning stefnenda á 4. og 5. gr. kaupsamningsins, en hafi þó greitt kr. 1.437.012 umfram lokagreiðsluna samkvæmt kaupsamningnum.  Stendur ágreiningur aðila um túlkun kaupsamningsins og greiðslu mismunarins.

III.

Málsástæður stefnenda:

Stefnendur kveða stefnda hafa samið þann kaupsamning sem sé til grundvallar kröfum stefnenda í málinu.  Kröfur stefnenda séu byggðar á því, að aðilar hafi samið svo um, að endanlegt söluverð hlutabréfa stefnenda í Bókvali hf. hafi m.a. verið háð afkomu félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 1999.  Komi þetta fram í 2. mgr. 2. gr. kaupsamningsins, og síðan sé þetta nánar útfært í 4. og 5. gr. samningsins.  Við kaupin hafi legið fyrir rekstraráætlun, sem hafi verið þannig gerð, að einungis hafi verið lögð til grundvallar tekjur og gjöld, sem fallið hafi til á fyrstu sex mánuðum ársins 1999.  Svo virðist sem stefndi byggi á því, að við þessar forsendur beri að miða uppgjör á söluverðinu.

         Ef litið sé til þeirra ákvæða í kaupsamningnum, sem fjalli um, hvernig gera eigi kaupverðið upp, verði fyrst fyrir 4. gr. samningsins.  Þar segi í 2. mgr., að endanlegt uppgjör milli seljenda og kaupanda miðist við árshlutauppgjör Bókvals hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 1999, áritað af endurskoðanda félagsins án fyrirvara, og að það gefi góða mynd af afkomu félagsins fyrstu sex mánuði ársins og efnahag þess fyrir sama tímabil.  Ágreiningslaust sé, að slíkt uppgjör liggi fyrir.  Það, sem ágreiningur virðist vera um milli aðila, sé hvernig beri að túlka 5. gr. samningsins, sem segi, að reynist tap verða meira eða minna samkvæmt árshlutauppgjöri, sbr. 4. gr. samningsins, skuli kaupverðið leiðréttast í samræmi við það.  Það megi því segja, að ágreiningur sé um túlkun á hugtakinu árshlutauppgjör í þessu sambandi.

         Stefnendur haldi því fram, að árshlutauppgjör verði ekki gert án tengsla við fyrri ár í rekstri félagsins, enda virðist það augljóst af 4. gr. kaupsamningsins, að stefndi virðist ekki hafa gert ráð fyrir, að árshlutauppgjörið væri gert með öðrum hætti en tíðkað sé.  Megi í því sambandi benda á, að tekið sé fram, að árshlutauppgjörið skuli vera í samræmi við góða reikningsskilavenju.  Síðan sé mælt sérstaklega fyrir um vöru­talningu, viðskiptakröfur og kvaðir, sem á félaginu hvíli.  Af þessu sýnist augljóst, að við gerð kaupsamningsins hafi verið við það miðað, að árshlutauppgjörið yrði gert með venjulegum hætti.

         Það verði ekki séð af samningnum, að nokkur stoð sé í honum til að túlka hann með þeim hætti, sem stefndi haldi fram.  Hafi það verið ætlun stefnda að túlka hugtakið árshlutauppgjör svo, sem hann haldi fram, hefði þurft að taka það sérstaklega fram í samningnum, en í stað þess séu ákvæði í 4. gr. samningsins, sem bendi eindregið til, að það hafi verið ætlun aðila við samningsgerðina, að gert yrði hefðbundið árshlutauppgjör.  Leiki vafi á því, hvernig beri að túlka samninginn, beri að túlka hann stefnda í óhag, þar sem hann hafi samið samninginn.

         Loks sé bent á, að í kaupsamningnum segi í 5. gr., að kaupverðið sé við það miðað, að tap verði á rekstrinum fyrstu sex mánuði ársins upp á kr. 10.800.000.  Ef túlkun stefnda væri lögð til grundvallar, nyti hann einn þess bata, sem hafi orðið í rekstrinum, sem sé óeðlilegt, þar sem kaupin hafi ekki komizt á fyrr en í lok maí 1999. Engin stoð sé fyrir þessari túlkun í kaupsamningnum.  Þvert á móti sé í 5. gr. gert ráð fyrir, að seljendur njóti þess, verði tap minna en gert hafi verið ráð fyrir í rekstraráætluninni.

Málsástæður stefnda:

Stefndi kveður stefnandann, Jón Ellert Lárusson, hafa komið fram við samningsgerðina fyrir hönd allra stefnenda, og hafi hann jafnframt verið framkvæmdastjóri Bókvals hf. á þeim tíma, er samningar tókust með málsaðilum. Hann hafi jafnframt haft með allan rekstur Bókvals hf. að gera frá kaupsamningsgerðinni, og þar til stefndi tók við ábyrgð rekstursins hinn 1. júlí 1999.  Með bréfi núverandi endurskoðanda Bókvals hf., Stefáns D. Franklín, löggilts endurskoðanda, til stjórnar félagsins, dags. 31. marz 2000, sé athygli stjórnarinnar vakin á því, að endurskoðendurnir hafi áritað ársreikning félagsins fyrir árið 1999 með fyrirvara og gert athugasemdir við ýmsar færslur í bókhaldi Bókvals hf. á fyrri hluta ársins 1999.  Jafnframt segi endurskoðandinn, að margar af þessum færslum hafi haft áhrif á árshlutareikning, sem KPMG Endurskoðun Akureyri hf. hafi kannað.  Í flestum tilfellum séu þessar færslur eða leiðréttingar vegna fyrri ára, þ.e. 1998 eða fyrr, og tengist því ekki almennum rekstri janúar/júní 1999, heldur séu í raun leiðrétting á stöðu pr. 31. desember 1998, og sé því um að ræða óreglulegan lið í rekstri, sem eigi að flokkast undir „tiltekt fyrri eigenda í bókhaldi Bókvals hf”.

         Á grundvelli eigin leiðréttinga á bókhaldi Bókvals hf. hafi stefnandi, Jón Ellert, fært upp árshlutauppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins 1999, sbr. dómskjal nr. 6, sem fyrrverandi endurskoðendur Bókvals hf., KPMG Endurskoðun Akureyri hf., hafi kannað, sbr. áritun þeirra þar á.  Hafi komið í ljós, að hið áætlaða tap stefnanda á rekstrinum fyrstu sex mánuði ársins, kr. 10.800.000, hefði breytzt vegna leiðréttinga Jóns Ellerts í hagnað að fjárhæð kr. 260.588.  Á grundvelli þessa árshlutauppgjörs fari stefnendur nú fram með dómkröfur sínar í þessu máli.

         Stefndi hafi augljóslega ekki verið sáttur við, að stefnendur gætu með einhliða leiðréttingum á eldri færslum í bókhaldi Bókvals hf. unnið fjármuni úr hans hendi og farið algerlega í kringum þá fyrirætlan samningsaðila, að rekstrarárangur fyrstu sex mánaða ársins 1999 segði til um hækkun eða lækkun kaupverðsins.  Af þessum sökum hafi stefndi fengið núverandi endurskoðanda Bókvals hf. til að yfirfara leiðréttingarfærslur stefnda, Jóns Ellerts, vegna fyrri ára og draga þær frá niðurstöðu hins framlagða árshlutareiknings.  Hafi endurskoðandinn þá komizt að þeirri niðurstöðu, að rekstrartap Bókvals hf. vegna fyrstu sex mánaða ársins 1999 hafi numið kr. 4.812.449,35, og að mismunur þeirrar fjárhæðar og þess rekstrartaps, kr. 10.800.000, sem samningsaðilar gerðu ráð fyrir, væri kr. 5.987.550,65, og bæri stefnda að greiða seljendunum þá fjárhæð umfram samningsverðið.  Að fenginni þeirri niðurstöðu hafi stefndi greitt stefnendum og hinum seljandanum, Tæknivali hf., þá fjárhæð, sem hann hafi með þessum hætti talið sig skulda á grundvelli kaupsamninganna, sbr. bréf á dómskjölum nr. 4 og 13.  Hafi greiðsla til stefnenda verið hækkuð um kr. 1.437.012 frá því, sem fyrir var mælt í kaupsamningnum, en greiðsla til Tæknivals hf. hækkuð um kr. 4.550.538.

         Til grundvallar kaupum stefnda á öllu hlutafé í Bókvali hf. og ákvörðun kaupverðsins hafi legið endurskoðaður ársreikningur Bókvals hf. pr. 31. desember 1998.  Ársreikning þennan hafi stefndi kynnt sér og hafi verðmetið félagið, að teknu tilliti til hans, auk annarra viðskiptalegra þátta.  Þá hafi seljendur jafnframt upplýst við samningsgerðina, að fyrirsjáanlegt væri tap á rekstri Bókvals hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 1999, sem þeir hafi, í áætlunum sínum, gert ráð fyrir, að myndi nema kr. 10.800.000.  Í 5. tl. bráðabirgðasamkomulagsins, sem gert hafi verið 14. maí 1999, hafi sérstaklega verið fjallað um þetta fyrirsjáanlega tap og ákveðið, að kaupverð hlutabréfanna myndi taka mið af því með þeim hætti, að færi rekstrartapið umfram þá upphæð, bæri seljendunum að bæta kaupanda það, en yrði raunverulegt rekstrartap minna, skyldi kaupverðið hækka að sama skapi.

                Við endanlega samningsgerð málsaðila, sem lokið hafi með undirskrift kaup­samninganna, sbr. dómskjöl nr. 3 og 11, hafi engum vafa verið undirorpið, að einungis frávik í raunverulegum rekstrarárangri Bókvals hf. fyrstu sex mánaða ársins 1999 frá áætluðu rekstrartapi félagsins fyrir sama tímabil, hafi átt að hafa áhrif til hækkunar eða lækkunar kaupverðsins.  Ársreikningur Bókvals hf. pr. 31. desember 1998 hafi að öðru leyti staðið til grundvallar viðskiptunum.  Stefndi telji öldungis fráleitt, að stefnandinn, Jón Ellert Lárusson, geti, með því að „leiðrétta” bókhald Bókvals hf. aftur í tímann með einhliða færslum, eftir að kaup gerðust, eignazt tilkall til frekari fjármuna úr hendi stefnda en réttmætt tilkall stefnenda til fjármuna á grundvelli betri rekstrarafkomu á fyrri hluta ársins 1999, en gengið hafi verið út frá við samningsgerðina.

         Á því sé enn fremur byggt, að stefnandinn, Jón Ellert Lárusson, hafi verið framkvæmdastjóri Bókvals hf., þá er kaup gerðust, og að honum hljóti hinn 21. maí 1999 að hafa verið kunnugt um, að áætlun hans um rekstrartap upp á kr. 10.800.000 myndi ekki ganga eftir, ef hann hefði ætlað sér á þeirri stundu að fara fram í bókhaldi félagsins með þeim hætti, sem raun hafi borið vitni.  Honum hafi því á þeirri stundu borið að upplýsa viðsemjanda sinn um fyrirætlanir sínar, eða a.m.k. að áskilja sér sérstaklega heimild til að færa fram leiðréttingar við færslur í bókhaldinu vegna eldri tíma, enda hafi hann hlotið að gera sér grein fyrir, að í ársreikningi Bókvals hf. pr. 31. desember 1998 hafi verið þær upplýsingar, sem hann lagði fram um stöðu félagsins fyrir viðsemjanda sinn, og viðsemjandi hans hafi treyst á, að væru réttar.

         Í 2. mgr. 2. gr. kaupsamnings aðila á dómskjali nr. 3 segi, að endanlegt kaupverð kunni að taka breytingum í samræmi við endanlegt uppgjör kaupanda og seljenda samkvæmt 5. gr.  Það uppgjör samkvæmt 5. gr. eigi einungis að lúta að rekstrarárangri fyrstu sex mánaða ársins 1999 og sé algerlega óháð leiðréttingarfærslum vegna fyrri tíma.  Sá skilningur eigi enn fremur stuðning í 5. tl. bráðabirgðasamkomulags málsaðila á dómskjali nr. 11.  Ákvæði 4. gr., um með hvaða aðferð árshlutauppgjörið skuli unnið, séu sett fram til tryggingar því, að árshlutauppgjörið verði unnið með óvefenganlegum hætti, og sérstaklega sé á því tekið, að það skuli gefa góða mynd af afkomu félagsins fyrstu sex mánuði ársins.  Á því hafi orðið misbrestur hjá stefnda, Jóni Ellert, vegna þess að rekstrarafkoma fyrstu sex mánaða ársins hafi ekki verið tilgreind með skýrum hætti til þess að samningsaðilar gætu áttað sig með sannindum á því, hvernig endanlegt uppgjör þeirra í milli ætti að vera.  Þáverandi endurskoðendur Bókvals hf., KPMG Endurskoðun Akureyri hf., hafi ekki áttað sig á þessu vandamáli við könnun þeirra á árshlutauppgjörinu og hafi því ekki tilgreint sérstaklega rekstrarafkomu árshlutans.  Af þessum sökum hafi stefndi fengið Stefán Franklín, löggiltan endurskoðanda, til að endurskoða ársreikninginn með tilliti til þessa, og hafi stefndi greitt viðsemjendum sínum í samræmi við niðurstöðu hans.

         Stefnendur telji, að árshlutareikning á dómskjali nr. 6 beri að leggja til grundvallar uppgjöri og vísi í því sambandi til 4. gr. samnings aðila. Árshlutareikningurinn sé hins vegar ekki endurskoðaður og áritaður af endurskoðanda með þeim hætti, sem krafizt er í 4. gr., heldur virðist eingöngu vera um að ræða lauslega könnun af hálfu starfsmanna KPMG Endurskoðunar Akureyri hf. á árshlutareikningi, sem stjórn Bókvals hf. með stefnandann, Jón Ellert Lárusson, í broddi fylkingar, hafi gert, enda segi í áritun endurskoðendanna, að könnunin feli „ekki að öllu leyti í sér sömu aðgerðir og endurskoðun, sem unnin er eftir viðurkenndum endurskoðunarvenjum og hefur það að markmiði að láta í ljós álit á árshlutareikningnum”.  Með því enn fremur, að ekki sé greinilega tiltekið í 4. gr. kaupsamnings aðila, hvort fyrrverandi endurskoðandi Bókvals hf. eða núverandi  endurskoðandi skuli yfirfara ársreikninginn, hafi stefndi verið í fullum rétti með að fela núverandi endurskoðanda félagsins að yfirfara árshlutareikninginn og greiða stefnendum einhliða eftirstöðvar kaupverðsins á grundvelli niðurstöðu hans um rekstrarafkomu Bókvals fyrstu sex mánuði ársins 1999.

         Af öllum framangreindum ástæðum sé augljóst, að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnenda og dæma honum málskostnað in solidum úr þeirra hendi.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Óumdeilt er, að kaupverð fyrirtækisins var miðað við, að 10.800.000 króna tap yrði á rekstri félagsins fyrstu 6 mánuði ársins 1999, svo sem rekstraráætlun gerði ráð fyrir.  Skyldi kaupverðið síðan leiðrétt, reyndist tapið meira eða minna samkvæmt niðurstöðu árshlutauppgjörs, sbr. 5. gr. kaupsamningsins.  Þá er óumdeilt, að í árshlutauppgjöri komu inn leiðréttingar á eldri færslum í bókhaldi fyrirtækisins, sem leiddi til þess, að uppgjörið sýndi hagnað að fjárhæð kr. 260.588 í stað þess taps, sem rekstraráætlunin gerði ráð fyrir.  Af hálfu stefnda eða sérfræðinga hans hefur ekki verið dregið í efa, að þessar leiðréttingar hafi átt rétt á sér sem slíkar og orðið til þess að efnahagsreikningur pr. 30. júní 1999 sýni réttar niðurstöður.  Stefndi hefur hins vegar mótmælt þeirri túlkun stefnanda á kaupsamningnum að framangreindar leiðréttingar geti haft áhrif á kaupverðið.

         Fram kemur í dómskjölum og við yfirheyrslur að upphaflegt kaupverð sé miðað við ársreikning Bókvals hf. pr. 31. desember 1998.  Það er því ljóst í hlutarins eðli að ef títtnefndar leiðréttingar hefðu verið gerðar á réttum tímabilum, hefði niðurstaða ársreiknings 1998 verið önnur og má því ætla, að kaupverð hefði orðið annað.  Hvað varðar leiðréttingu á niðurfærslu viðskiptakrafna, sem hefur töluverð áhrif til lækkunar á tapi sem um er rætt, verður ekki ljóst fyrr en 1999, að innheimta krafna verður betri en gert var ráð fyrir.

         Í 4. gr. kaupsamningsins segir m.a., að endanlegt uppgjör milli kaupanda og seljenda skuli miðast við árshlutauppgjör Bókvals hf. pr. 30. júní 1999, árituðu af löggiltum endurskoðanda félagsins um að það gæfi góða mynd af afkomu félagsins fyrstu 6 mánuði ársins og efnahag þess þann 30. júní.

         Ekki verður fallizt á með stefnda, að árshlutauppgjör, þar sem eldri leiðréttingarfærslur væru felldar út, geti gefið rétta mynd af efnahag fyrirtækisins, en 5. gr. kaupsamningsins verður ekki slitin úr samhengi við 4. gr. hans og skilgreind sérstaklega, enda er í henni beinlínis vísað til 4. greinar um gerð árshlutauppgjörsins.

         Ekki er fallizt á, að árshlutareikningurinn uppfylli ekki kröfur um slíka reikninga og telja hinir sérfróðu meðdómendur, að hann sé unninn á hefðbundinn hátt samkvæmt viðurkenndum leiðbeinandi reglum endurskoðenda, og séu slíkar leiðréttingar á eldri færslum, sem þar er að finna, almennar og venjulegar.

         Dómurinn telur ósannað, að stefnandinn, Jón Ellert, hafi leynt stefnda upplýsingum, sem urðu til þess að breyta niðurstöðu rekstraráætlunarinnar úr tapi í hagnað, þegar kaupsamningurinn var undirritaður.

         Að öllu þessu athuguðu verða kröfur stefnenda teknar til greina, eins og þær eru fram settar, en ekki er um tölulegan ágreining að ræða miðað við þessa niðurstöðu.

         Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnendum málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 225.000.

         Dóminn kváðu upp Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari, Guðmundur Þorvarðarson, löggiltur endurskoðandi, og Sævar Sigurgeirsson, löggiltur endurskoðandi.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Penninn hf., greiði stefnendum, Jóni Ellerti Lárussyni, Svandísi Jónsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur, kr. 1.046.207 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 1. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 225.000 í málskostnað.