Hæstiréttur íslands
Mál nr. 450/2015
Lykilorð
- Ólögmæt meingerð
- Miskabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. júlí 2015. Þau krefjast þess að stefndi greiði hverju þeirra um sig 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. janúar 2014 til 18. september 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvik eru þau að 21. janúar 2014 voru áfrýjendurnir María og Emmanuel að kaupa inn matvöru í verslun Bónus að Lóuhólum í Reykjavík og voru áfrýjendurnir, Jaden, Karl og Trishia með í för, en þau eru öll börn að aldri. Er gengið hafði verið frá greiðslu fyrir vörurnar og þau voru á leið út úr versluninni höfðu starfsmenn stefnda afskipti af þeim, þar á meðal verslunarstjóri stefnda. Samkvæmt skýrslugjöf hans fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa ávarpað þau og beðið þau um að víkja til hliðar. Hann hafi beðið þau um að koma með sér og ,,taka vörur upp úr vösunum“ og hafi þau orðið ,,svolítið hissa“ en fylgt sér að svokölluðu ,,sjóðsherbergi“ og tæmt vasa sína við afgreiðslukassa sem ekki var í notkun. Þar sem þau hafi verið svo mörg hafi ekki verið unnt að koma þeim öllum fyrir í umræddu herbergi en venjan sé að fara ,,með svona mál inn í sjóðsherbergi“. Hann kvað ekki marga hafa verið í versluninni á þessum tíma og að ,,það hafi ekkert allir verið að góna á þetta. Það hefur kannski einn og einn tekið eftir þessu“. Komið hafi í ljós að áfrýjendur hafi ekki verið með neinar ógreiddar vörur. Hann kvað Maríu hafa orðið reiða og hissa og hefði henni greinilega fundist þetta ,,mjög óþægilegt“. Þá kvaðst hann hafa rætt við son Maríu sem komið hafi á staðinn að hennar ósk. Hann hafi sagt að henni hefði þótt þetta ,,mjög særandi og erfitt“. Spurður um hvort hann hafi fengið ábendingu frá öryggisvörðum sem fylgdust með rafrænni vöktun verslunarinnar kvað hann svo ekki hafa verið. Hann hafi sjálfur hringt í öryggisvörð vegna þess að ,,þau eru mikið að skoða hárliti sem er mjög vinsælt að stela í búðinni ... og svo er búið að taka út hárliti og setja inn hárliti ... og svo þegar þau labba frá hárlitunum“ hafi hann athugað hvort allar pakkningar væru ,,ennþá með vörum í“ og fundið eina tóma pakkningu. Viðbrögð öryggisvarðarins hafi verið þau að ,,þetta væri líklegast þjófnaður“ og hafi öryggisvörðurinn reist þann grun á því að fundist hefðu tómar umbúðir og ,,hegðunin sem er svona þetta mynstur.“
Í gögnum málsins er svokölluð dagbók lengri frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, 21. janúar 2014, þar sem fram kemur að sama dag hafi þau María og Emmanuel óskað eftir aðstoð lögreglu við að ,,kæra starfsmenn Bónus fyrir að gruna þau um þjófnað.“ Kom lögreglumaður á staðinn. Í fyrrgreindri dagbók lengri kom fram að haft hafi verið eftir verslunarstjóra stefnda að fólkið hafi komið saman í verslunina. Þau hafi farið víða um, eins og algengt sé að þjófar geri til að trufla athygli starfsmanna, og hafi starfsfólk því farið að fylgjast með þeim. Þau hafi verið að skoða hárliti í hillu og vegna grunsamlegrar hegðunar þeirra við ,,hárlitahilluna“ hafi grunur fallið á þau. Fyrir dómi bar verslunarstjórinn að rétt væri eftir sér haft í dagbók lögreglu.
Áfrýjandinn Emmanuel bar fyrir dómi að er hann var á leið út úr versluninni hafi verslunarstjórinn komið að sér með tóman kassa utan af vöru og sagt að áfrýjendur hefðu stolið því sem var í kassanum og það hafi sést í öryggismyndavél. Hafi hann endurtekið þetta þrisvar sinnum og beðið þau um að tæma vasa sína. Hann hefði verið ,,í sjokki“ af því að margt fólk hefði verið á staðnum og séð það sem fram fór. Áfrýjandinn María bar á sömu lund og Emmanuel.
Ágreiningslaust er að áfrýjendur dvöldust um stund í versluninni eftir að afskiptum starfsmanna stefnda af þeim lauk.
II
Eins og rakið hefur verið voru áfrýjendur stöðvuð vegna gruns um þjófnað á leið sinni út úr versluninni Bónus eftir að þau höfðu greitt fyrir vörur sem þau höfðu keypt.
Af framburði verslunarstjóra stefnda verður ráðið að grunur um þjófnað hafi komið þeim Emmanuel og Maríu í opna skjöldu og að Maríu hafi þótt framkoma starfsmanna stefnda í þeirra garð mjög óþægileg og særandi.
Enda þótt játa verði verslunareigendum ákveðið svigrúm við eftirlit með þjófnaði úr verslunum sínum ber þeim að haga verklagi við eftirlitið á þann hátt að ekki sé gengið lengra en þörf krefur og að nærgætni og háttvísi sé gætt. Sú háttsemi starfsmanna stefnda að gera áfrýjendum að tæma vasa sína í opnu rými verslunarinnar, að öðrum viðskiptavinum ásjáandi og að undangengnum ósönnum staðhæfingum um þjófnað, var meiðandi og fól í sér ólögmæta meingerð gegn persónu þeirra og æru, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður stefnda því gert að greiða áfrýjendum miskabætur sem eru ákveðnar 200.000 krónur auk vaxta til hvers þeirra um sig, allt eins og í dómsorði greinir.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjendum málskostnað á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Hagar hf., greiði áfrýjendum, Maríu Cecilia P. Antioquia, Jaden Chelsea Ósk Gaurino, Emmanuel Pastolero Antioquia, Karli Antioquia og Trishia Antioquia Astro, hverjum fyrir sig 200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. janúar 2014 til 18. september 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði hverjum áfrýjenda um sig samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. mars sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 10. september 2014.
Stefnendur eru Maria Cecilia P. Antioquia, Kleppi starfsmannahúsi, Reykjavík, Jaden Chelsea Ósk Gaurino, Kleppi starfsmannahúsi, Reykjavík, Karl Antioquia, Vallarbraut 7, Hafnarfirði, Trishia Antioquia Astro, Vallarbraut 7, Hafnarfirði og Emmanuel Pastolero Antioquia, Faxabraut 34B, Reykjanesbæ.
Stefndi er Hagar hf., Hagasmára 1, Kópavogi.
Stefnendur gera eftirfarandi kröfur:
1. Maria Cecilia P. Antioquia krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. janúar 2014 til þingfestingardags stefnu þessarar en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
2. Maria Cecilia P. Antioquia krefst þess fyrir hönd ófjárráða dóttur sinnar, Jaden Chelsea Óskar Gaurino, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. janúar 2014 til þingfestingardags stefnu þessarar en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
3. Guadalupe Pastolero Antioquia krefst þess fyrir hönd ófjárráða sonar síns, Karls Antioquia, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. janúar 2014 til þingfestingardags stefnu þessarar en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
4. Guadalupe Pastolero Antioquia krefst þess fyrir hönd ófjárráða dóttur sinnar, Trishia Antioquia Astro, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. janúar 2014 til þingfestingardags stefnu þessarar en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
5. Emmanuel Pastolero Antioquia krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. janúar 2014 til þingfestingardags stefnu þessarar en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Stefndi gerði þá dómkröfu aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði dómsins uppkveðnum 21. janúar sl. var þeirri kröfu hafnað. Endanlega krafa stefnda er sú að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og þá krefst hann málskostnaðar in solidum úr hendi stefnenda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
I.
Í stefnu er málavöxtum lýst á þann veg að hinn 21. janúar 2014 um kl. 16:00 hafi stefnandi Maria verið stödd í verslun Bónuss í Lóuhólum ásamt börnunum Jaden, dóttur hennar, Karli og Trishiu, börnum systur hennar Guadalupe, og stefnanda málsins, Emmanuel P. Antioquia, bróður Mariu. Er því síðan lýst að þegar stefnandi Maria hafði greitt fyrir vörur við einn afgreiðslukassa verslunarinnar og hún var, ásamt börnunum og bróður sínum, komin að útgangi verslunarinnar á leið út, hafi þrír starfsmenn stefnda gengið á móti þeim með útréttar hendur og meinað þeim för út úr versluninni. Þau hafi öll verið sökuð um að hafa stolið varningi og með skipunum og hótun um valdbeitingu verið neydd til að tæma vasa sína. Hefði þeim verið gert að tæma vasa sína á eitt afgreiðsluborðið við búðarkassa fyrir framan fjölda viðskiptavina. Stefnendur hafi farið úr yfirhöfnum sínum um leið og þeir tæmdu vasa sína og hafi starfsmenn verslunarinnar staðið yfir þeim á meðan. Atburðarás þessi hafi tekið um það bil 30 mínútur og átt sér stað á álagstíma fyrir framan aðra viðskiptavini verslunarinnar sem séu kunningjar stefnenda og nágrannar.
Stefndi mótmælir málsatvikalýsingu stefnenda sem einhliða og ófullkominni sem gefi ekki rétta mynd málavöxtum. Auk þess sé lýsingin röng, ýkt og gildishlaðin á köflum. Staðhæfingum um ofbeldi eða hótanir um ofbeldi og frelsissviptingu er jafnframt mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Lýsir stefndi málavöxtum þannig að umrætt sinn hafi vaknað grunur hjá starfsmönnum stefnda um að tiltekið fólk kynni að hafa gerst sekt um þjófnað. Hefði sá grunur einkum verið reistur á því að fólkið var að skoða tilteknar vörur í versluninni og skömmu síðar hefði starfsmaður tekið eftir því að eina slíka vöru vantaði í hilluna. Meðal annars af þeim sökum hefði starfsmaður verslunarinnar óskað eftir því að fólkið stigi til hliðar við afgreiðslukassasvæðið svo unnt yrði að ræða við þau. Hefðu þeim verið kynntar grunsemdir starfsmannsins og hefði afgreiðsla framangreinds máls af hálfu starfsmanna og meðferð þess að öðru leyti verið í engu frábrugðin afgreiðslu á öðrum sambærilegum málum. Hefðu hlutaðeigandi verið vinsamlegast beðin um að tæma vasa sína og það hefðu þau gert.
Ekkert óeðlilegt hefði komið fram og hefðu starfsmenn stefnda því álitið að málinu væri lokið af hálfu verslunarinnar. Hins vegar hefðu stefnendur, óumbeðin og að eigin frumkvæði, klætt sig úr flíkum og þannig gert meira úr málinu en tilefni var til. Ennfremur hefðu stefnendur, Maria og Emmanuel, hringt í lögmann sinn að eigin frumkvæði og jafnframt óskað eftir því að lögregla kæmi á vettvang.
II.
Stefnendur byggja dómkröfur sínar á því að háttsemi starfsmanna stefnda umrætt sinn, bæði orð þeirra og athafnir, hafi falið í sér alvarlega meingerð. Stefnendur hafi öll verið niðurlægð fyrir framan fjölda fólks, m.a. nágranna sína í hverfinu. Börnin hefðu orðið mjög hrædd og öllu hafi þau orðið fyrir áfalli sem aldrei líði þeim úr minni. Stefnendur telji að stefndi hafi brennimerkt þau sem þjófa fyrir framan fjölda fólks með því að fullyrða hvað eftir annað að hann væri „positiv eða pottþéttur“ á því að þau hefðu stolið vörum úr verslun. Myndavélakerfið hefði átt að staðfesta þá staðhæfingu hans en þó hefði ekki verið unnt að sýna þeim myndir úr því fyrr en eftir á í návist manna frá öryggisfyrirtækinu Securitas. Stefnendur benda á að þau hafi verið í versluninni umrætt sinn í löglegum og heiðarlegum erindum við innkaup á matvörum til heimilisins, eins og framlögð kvittun gefi til kynna.
Stefnendur vísa til þess að eigandi verslunarinnar sé ábyrgur vegna athafna starfsmanna sinna, sem hafi brotið af sér með vítaverðum eða gáleysislegum hætti. Beri stefndi húsbóndaábyrgð samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins á ólögmætu og refsiverðu framferði starfsmanna sinna. Athafnir starfsmannanna, beiting ofbeldis eða hótun um beitingu þess, frelsissvipting og rangur sakburður um refsiverða háttsemi, skipanir um að tæma úr vösum við afgreiðslukassa í opnu rými stefnda brjóti í bága við 225. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafi starfmennirnir meitt æru stefnanda Mariu og barnanna með móðgandi framkomu og athöfnum sbr. 225. gr. og 234. gr. sömu laga.
Stefnandi Emmanuel hafi einnig verið færður með ofbeldi að afgreiðslukassanum og látinn tæma vasa sína fyrir allra augum um leið og hann fór úr yfirhöfn sinni. Hann hafi m.a. skoðað sjampó nálægt hárlitahillunni og muni grunur eða ásökun um þjófnað á hárlit því hafa einkum beinst að honum. Starfsmaður stefnda hefði sótt tómt hárlitabox og sagt við Emmanuel að boxið væri tómt og að hann hefði stolið innihaldinu. Þetta hefði starfsmaðurinn endurtekið a.m.k. í tvígang fyrir framan alla viðstadda í opnu rými verslunarinnar. Þessi sakburður hefði fengið svo mjög á stefnanda Emmanuel að honum hefði legið við yfirliði vegna svima. Telja stefnendur þessa háttsemi starfsmanna stefnda varða við 225., 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.
Þá hefðu starfsmenn stefnda sakað stefnendur um þjófnað eða a.m.k. dróttað að því við stefnendur, Mariu og börnin, að þau væru þjófar eða hefðu tekið einhverja hluti í versluninni ófrjálsri hendi. Með því að færa þau með valdi að afgreiðslukassa og skipa þeim að tæma alla vasa, að öllum viðskiptavinum ásjáandi, hugsanlega öðrum til viðvörunar hefðu starfsmennirnir framið brot gegn frjálsræði stefnenda sem varði við 225. gr. almennra hegningarlaga.
Þessi sakburður starfsmanna stefnda, orð og athafnir hafi orðið til þess að virðing stefnenda beið hnekki í augum viðstaddra starfsmanna og viðskiptavina og ekki síst í þeirra eigin huga. Með því að drótta refsiverðum verknaði að stefnendum á þann hátt að handtaka eða reka þau að afgreiðslukassa, bera fram rangar sakargiftir og láta þau tæma vasa fyrir framan starfsmenn og viðskiptavini stefnda í opnu rými og bera út aðdróttunina hafi starfsmenn stefnda gerst sekir um brot gegn 225. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Hafi starfsmennirnir gerst sekir um meingerð, sem flokkist undir sakarreglu skaðabótaréttarins, gegn öllum stefnendum málsins. Stefnendur hafi allir orðið fyrir andlegu áfalli vegna framkomu starfsmannanna við að meina þeim útgöngu úr versluninni, reka þau að afgreiðslukassa í almenningsrými, halda þeim þar föngnum í allt að 30 mínútur og yfirheyra þau með þeim hætti sem þeim hafi verið óheimilt.
Stefndi beri vinnuveitendaábyrgð á gjörðum og störfum starfsmanna sinna í þessu máli en þeir hafi farið offari í aðgerðum sínum og tekið lögin í eigin hendur sem þeir hafi ekki haft lagaheimild til að gera. Sé það eingöngu á færi lögreglu að handtaka grunaðan mann og færa til yfirheyrslu. Hér hafi stefndi því farið langt út fyrir löglegar heimildir og beri hann ábyrgð samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á hinni ólögmætu meingerð gegn frelsi, friði og æru stefnenda.
Meingerð þessa megi meta til miska samkvæmt reglum skaðabótaréttarins og 26. gr. skaðabótalaga og beri stefnda að greiða miskabætur í samræmi við kröfugerð hvers og eins stefnenda. Stefnendur, Emmanuel og Maria, hafi orðið fyrir andlegu áfalli. Börnin hafi ekki síður orðið fyrir varanlegu og alvarlegu áfalli og telja verði líklegt að atburðurinn hafi greipst í huga þeirra. Telja verði að barnssálin, sem sé afar viðkvæm fyrir slíkum áföllum, falli undir ábyrgð samkvæmt framangreindri 26. gr. skaðabótalaga. Börnunum hafi öllum liðið illa vegna þessa atburðar og vilji ekki lengur fara í þessa verslun. Fari þau með stefnanda Mariu, spyrji þau iðulega hvort verið sé að mynda þau eða fylgjast með þeim. Sjái þau einkennisklæddan öryggisvörð í verslun, spyrji þau hvort lögreglan eða einhver annar ætli að taka þau föst. Hafi atburðurinn því skaðað börnin og skapað þeim óöryggi, sem jafnframt lýsi sér í því að þau hafi upplifað hin harkalegu viðbrögð starfsmanna stefnda sem kynþáttamismunun. Atburður þessi hafi m.a. ýtt undir það að stefnandi Maria flutti búferlum með barn sitt úr hverfinu.
Stefndi uppfylli öll skilyrði bótaskyldu eftir saknæmisreglunni. Hann hafi sýnt af sér ólögmætt atferli og valdið tjóni í formi miska sem valdið hafi verið af ásetningi eða gáleysi. Hafi miskinn leitt til fjárhagslegs tjóns og hafi tjón eða miski stefnenda verið fyrirsjáanlegur og sennileg afleiðing hins ólögmæta atferlis starfsmanna stefnda gagnvart stefnendum málsins. Starfsmennirnir hafi mátt gera sér grein fyrir afleiðingum meingerðarinnar.
Stefnendur kveða dómstóla einfæra um að meta miskabætur að álitum til hvers og eins stefnenda en þrír þeirra séu undir lögaldri. Sé því nauðsynlegt að forráðamenn hinna ófjárráðu barna geri kröfur fyrir þeirra hönd og sæki málið fyrir dómstólum þar sem börnin bresti hæfi til að ráðstafa sakarefninu. Stefnendur leggja áherslu á að ekki sé síður ástæða til að dæma hinum ungu stefnendum miskabætur en stefnendum, Mariu og Emmanuel, þar sem þessi atburður hafi haft sterk áhrif á öll börnin.
Stefnendur byggja á sakarreglu skaðabótaréttarins, reglum skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð/húsbóndaábyrgð stefnda á starfsmönnum sínum. Þá er byggt á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 225., 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um aðild lögráðamanna vísast til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Þá er vísað til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem stefnendur eigi að vera skaðlausir af málsókn þessari.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Máli verði ekki réttilega beint að öðrum en þeim sem getur látið hagsmunina af hendi eða verður að þola þá. Að sama skapi verði sá aðili, sem krefst dóms um hagsmuni, að vera rétthafi þeirra. Sé brotið gegn þessari grundvallarreglu, sé um aðildarskort að ræða sem leiði til sýknu stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Stefndi telur ljóst með hliðsjón af gögnum málsins að stefnendur séu ekki rétthafar þeirra hagsmuna, sem krafist sé í máli þessu, og beri því að sýkna stefnda af kröfum þeirra. Í því sambandi bendir stefndi á að stefnendur geri enga tilraun til þess að rökstyðja aðild sína að málinu né skýra á hvaða lagagrundvelli hún sé byggð. Stefnendur séu fimm og krefjist þeir hver um sig miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna. Í stefnu sé ekki gerð grein fyrir aðild hvers og eins stefnenda í málinu en telja verður með hliðsjón af öllu framansögðu að það hafi verið nauðsynlegt. Af þessum sökum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda með vísan til aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að kröfugerð og bótagrundvöllur málsins sé óljós og þá verði athafnir starfsmanna hans, sem um ræðir í máli þessu, ekki heimfærðar til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá telur stefndi ljóst að engin lagaskilyrði séu uppfyllt svo fallist verði á skaðabótakröfur stefnenda, hvorki með vísan til hinnar almennu sakarreglu né reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, enda hafi starfsmenn stefnda ekki gerst sekir um saknæma háttsemi. Ennfremur séu ekki efni til að dæma miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Af framangreindum ástæðum, einum og sér eða saman, beri að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.
Sýknukrafa stefnda er í þriðja lagi byggð á því að tjón stefnenda og fjárhæð þess sé ósönnuð. Kröfugerð stefnenda í máli þessu lúti að því að stefndi verði dæmdur til þess að greiða hverjum og einum stefnenda 1.000.000 króna. Ekki sé hins vegar ljóst á hvaða lagagrundvelli slík krafa er sett fram. Stefnendur virðist halda því fram að þeir hafi orðið fyrir tjóni í formi miska sem nemi umræddri fjárhæð í kröfugerð, án þess að það sé sundurliðað og rökstutt nánar að því er varðar hvern stefnanda um sig. Engan rökstuðning sé að finna í stefnu fyrir fjárhæð miskabótakrafnanna.
Þá sé hvergi í stefnu gerð tilraun til þess að sýna fram á og sanna að stefnendur hafi orðið fyrir þeim miska sem þeir halda fram. Ekki hafi heldur verið gerður áskilnaður um öflun matsgerðar í málinu. Stefndi telji að stefnendur hafi ekki orðið fyrir tjóni og sé það í öllu falli ósannað. Er öllum fullyrðingum stefnenda um annað mótmælt.
Stefndi kveður stefnendur ekki geta gert kröfu um að dæmdar verði bætur að álitum þar sem slíkt komi ekki fram í kröfugerðinni sjálfri. Mótmælir stefndi slíkri kröfu komi hún fram undir rekstri málsins. Af framangreindum ástæðum, einum og sér eða saman, krefst stefndi sýknu af kröfum stefnenda.
Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnenda og bendir á að í stefnu sé engin umfjöllun um hana og þá sé þar hvorki gerð grein fyrir grundvelli hennar né upphafsdegi vaxta.
Málskostnaðarkrafa stefnda er reist á 129.-132. gr. laga um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Um lagarök fyrir sýknukröfu sinni vísar stefndi til meginreglu réttarfars um aðildarskort, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991, auk almennra reglna réttarfars um sönnun.
IV.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því, hvort stefnendum beri skaðabætur úr hendi stefnda vegna miska sem starfsmenn stefnda hafi valdið þeim með saknæmum og ólögmætum hætti. Stefnendur byggja skaðabótakröfur sínar á því að athafnir starfsmanna stefnda umrætt sinn hafi falið í sér beitingu ofbeldis eða hótun um beitingu þess og frelsissviptingu. Með því og sakburði um refsiverða háttsemi og skipunum til stefnenda um að tæma úr vösum við afgreiðslukassa í opnu rými stefnda hafi starfsmenn brotið í bága við 225. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafi starfmennirnir meitt æru stefnenda, Mariu og barnanna, með móðgangi framkomu og athöfnum. Á þessari háttsemi starfsmanna sinna beri stefndi vinnuveitendaábyrgð.
Stefndi hefur mótmælt öllum kröfum og málsástæðum stefnenda. Hann byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að um aðildarskort sé að ræða. Með hliðsjón af gögnum málsins sé ljóst að stefnendur séu ekki rétthafar þeirra hagsmuna sem krafist sé í málinu. Hafi stefnendur hvorki rökstutt aðild sína að málinu né lagagrundvöll hennar.
Í stefnu er gerð grein fyrir því hverjir eru stefnendur málsins og jafnframt hver sé fjárhæð dómkröfu hvers stefnanda fyrir sig. Bæði í dómkröfukafla og í lýsingu málsástæðna kemur fram að kröfur stefnenda eru settar fram sem miskabótakröfur vegna ólögmætrar meingerðar starfsmanna stefnda. Í kafla stefnunnar um málsástæður gera stefnendur grein fyrir því að þeir byggi miskabótakröfur sínar á því að starfsmenn stefnda hafi gerst sekir um alvarlega meingerð gagnvart stefnendum með þeim orðum og athöfnum sem lýst er í málavaxtakafla. Vísa stefnendur til ákvæða 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Tilvísun til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940 virðist lúta að því að færa rök fyrir ætluðu ólögmæti þeirrar háttsemi starfsmanna stefnda. Er á því byggt af hálfu stefnenda að ætluð ólögmæt meingerð starfsmanna stefnda hafi beinst að öllum stefnendum málsins, enda hafi þeir allir verið stöðvaðir og tæmt vasa sína umrætt sinn. Hafi starfsmenn stefnda með aðkomu sinni engan greinarmun gert á stefnendum að þessu leyti. Fram kom í skýrslu Eiríks Einars Egilssonar, fyrrverandi verslunarstjóra Bónuss, að viðskiptavinirnir, sem stöðvaðir voru umrætt sinn, hefur verið fimm talsins, þ.e. tveir fullorðnir og þrjú börn. Er ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars en að stefnendur máls þessa, tveir þeirra fullorðnir og þrjú börn, hafi verið þeir viðskiptavinir, sem hér um ræðir, svo sem stefnendur halda fram. Breytir engu að þessu leyti þótt ekki hafi verið minnst á veru þeirra stefnenda, sem eru börn að aldri, á staðnum fyrr en í bréfi lögmanns stefnenda til stefnda, dagsettu 13. maí 2014.
Að framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að stefnendur geti ekki verið aðilar að máli þessu, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verður sýknukrafa stefnda ekki reist á þessari málsástæðu og er henni því hafnað.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að engin lagaskilyrði standi til þess að fallist verði á skaðabótakröfur stefnenda, hvorki með vísan til hinnar almennu sakarreglu né reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, enda hafi starfsmenn stefnda ekki gerst sekir um saknæma háttsemi þegar þeir höfðu afskipti af stefnendum umrætt sinn. Sé sú málsástæða stefnenda bæði röng og ósönnuð.
Fram er komið að stefnendur voru við innkaup í Bónusverslun stefnda við Lóuhóla í Reykjavík umrætt sinn. Þegar þau höfðu greitt fyrir vörur sínar við afreiðslukassa verslunarinnar og voru komin að útgöngudyrum, bar að starfsmenn stefnda, þ. á m. Eirík Einar Egilsson, þáverandi verslunarstjóra. Stefnendur, Maria Cecilia P. Antioquia og Emmanuel Pastolero Antioquia, báru við skýrslutökur fyrir dóminum á sama veg um háttsemi starfsmanna stefnda umrætt sinn. Kváðu þau þrjá starfsmenn verslunarinnar hafa komið á móti þeim og varnað þeim útgöngu með því að setja handleggina út til hliðanna. Hefði verslunarstjórinn sýnt þeim tóman kassa og sagt að það sæist á eftirlitsmyndavél að þau hefðu stolið innihaldi kassans, sem mun hafa verið hárlitur. Hefðu þau síðan verið færð að afgreiðslukössunum og beðin um að tæma vasa sína sem þau hefðu gert. Hefði verslunarstjórinn sagt ítrekað að þau hefðu stolið hárlitnum. Svo hefði þeim verið sagt að fara úr yfirhöfnunum.
Sérstaklega aðspurð um það, hvort starfsmenn stefnda hefðu beitt stefnendur ofbeldi, kvað stefnandi Maria engu ofbeldi hafa verið beitt þegar hún var látin stíga til hliðar og þá hefðu engin orðaskipti átt sér stað milli stefnenda og verslunarstjórans eftir að stefnendur tæmdu vasa sína. Hins vegar hefði hún álitið það vera ofbeldi að vera varnað útgöngu.
Stefnandi Emmanuel kvað verslunarstjórann hafa verið ókurteisan við stefnendur þar sem hann hefði fullyrt að stefnendur hefðu stolið og ekki beðist afsökunar á því eftir á. Þá kvaðst stefnandi hafa litið svo á að honum hefði verið haldið inni í versluninni í 30 mínútur enda hefði hann talið að hann gæti ekki farið út.
Vitnið, Eiríkur Einar Egilsson þáverandi verslunarstjóri, kvað hegðun stefnenda í snyrtivörudeild verslunarinnar þegar þau skoðuðu hárliti hafa vakið grunsemdir starfsmanna um að þau hefðu tekið hárlit ófrjálsri hendi. Þegar stefnendur hefðu yfirgefið snyrtivörudeildina, hefði fundist þar tómur kassi undan hárlit. Kvaðst hann hafa haft samband við öryggisdeild fyrirtækisins í kjölfarið og þá verið hvattur til þess að hafa afskipti af stefnendum vegna gruns um þjófnað.
Vitnið lýsti afskiptum sínum af stefnendum umrætt sinn á þann veg að hann hefði, ásamt aðstoðarverslunarstjóranum, nálgast stefnendur þegar þau voru komin að útgöngudyrunum og beðið þau um að stíga til hliðar sem þau hefðu gert athugasemdalaust. Hefði hann rétt út aðra höndina til þess að vísa þeim veginn að svonefndu sjóðsherbergi sem sé staðsett uppi við afgreiðslukassa verslunarinnar, í um það bil 10 metra fjarlægð frá útgöngudyrunum. Aðspurður mundi hann ekki hvort aðstoðarverslunarstjórinn rétti einnig út höndina en kvaðst yfirleitt sjá sjálfur um samskiptin við viðkomandi viðskiptavini við þessar aðstæður. Hann kvaðst hafa spurt stefnendur hvort þau væru með vörur sem þau hefðu ekki greitt fyrir og bað þau síðan um að taka allt úr vösum sínum. Hinir fullorðnu stefnendur hefðu gert það og lagt það, sem var í vösum þeirra, á afgreiðsluborð sem ekki var í notkun. Hins vegar kvaðst vitnið ekki muna hvort börnin hefðu gert slíkt hið sama. Hefði þetta ferli tekið um það bil 5 til 7 mínútur. Stefnendur hefðu spurt hvort þau ættu líka að fara úr úlpunum og kvaðst hann hafa jánkað því.
Þegar engin ógreidd vara hefði fundist í fórum stefnenda, kvað vitnið afskiptum sínum af þeim hafa lokið og hefðu stefnendur þá klætt sig aftur í yfirhafnir sínar en hann og aðstoðarverslunarstjórinn hefðu haldið aftur til fyrri starfa sinna. Hins vegar hefðu stefnendur verið í versluninni í um það bil eina og hálfa til tvær klukkustundir eftir að afskiptum starfsmanna stefnda af stefnendum lauk.
Óumdeilt er að stefnandi Maria hafði þegar þar var komið sögu samband við lögmann sinn og lögreglu og þá liggur frammi í málinu færsla úr dagbók lögreglu um umrætt atvik. Í dagbókarfærslunni segir að kl. 17:04 hinn 21. janúar 2014 sé skráð hjá lögreglu að komið hafi til ágreinings milli starfsfólks Bónuss í Lóuhólum 2-6 og viðskiptavinar vegna meints þjófnaðar. Kemur fram að stefnendur, Maria og Emmanuel, hafi óskað eftir aðstoð lögreglu til að kæra starfsmenn verslunarinnar fyrir að stöðva þau og m.a. tvö börn þegar þau voru að fara út úr versluninni og bera þau sökum um að hafa stolið hárlit. Er haft eftir Eiríki Einari verslunarstjóra að vegna grunsamlegrar hegðunar hefðu stefnendur verið beðin um að koma til hliðar við afgreiðslukassasvæðið. Hefðu þeim verið kynntar grunsemdir starfsmanna og þau beðin um að tæma vasa sína sem þau hefðu gert. Er síðan rakið að þegar ekkert óeðlilegt hefði komið fram eftir að stefnendur höfðu tæmt vasa sína, hefði ekkert verið aðhafst frekar. Fram kemur í dagbókarfærslunni að lögmaður stefnenda hefði krafist þess að starfsmenn stefnda yrðu kærðir fyrir frelsissviptingu, rangar sakargiftir og brot gegn barnaverndarlögum. Var lögmanninum hins vegar tilkynnt sú niðurstaða lögreglu að ekki væri ástæða til þess að gera kæruskýrslu í málinu.
Aðilum ber ekki saman um það, hvort starfsmenn stefnda, sem áttu í samskiptum við stefnendur umrætt sinn, voru tveir eða þrír. Ljóst er þó að Eiríkur Einar verslunarstjóri var einn þeirra og minnti hann að einungis hann sjálfur og aðstoðarverslunarstjórinn hefðu komið að málinu af hálfu stefnda. Stefnendur Maria og Emmanuel kváðu starfsmennina hins vegar hafa verið þrjá. Bæði stefnendur og Eiríkur Einar virðast þó sammála um að sá síðarnefndi hafi haft sig mest í frammi.
Þegar litið er til framangreindra lýsinga á háttsemi starfsmanna stefnda þegar þeir stöðvuðu stefnendur umrætt sinn og báðu þau um að víkja til hliðar og tæma vasa sína, verður hvorki talið að í henni hafi falist ofbeldi, hótun um ofbeldi né frelsissvipting í skilningi 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem stefnendur halda fram. Fram er komið að vaknað hafi grunur um þjófnað og bar vitnið Eiríkur Einar um að viðbrögð starfsmanna stefnda umrætt sinn hefðu verið í fullu samræmi við það verklag, sem fylgja bæri við slíkar aðstæður. Gaf hann þá skýringu á því að stefnendum hefði ekki verið vísað inn í svonefnt sjóðsherbergi umrætt sinn, að vegna fjölda stefnenda hefði ekki verið rúm fyrir þau öll þar inni. Ljóst er hins vegar að gæta ber fyllstu tillitssemi gagnvart þeim sem fyrir slíkum aðgerðum verða, enda er hér um að ræða mjög viðkvæmar aðstæður. Verður að telja að það hafi verið óheppileg ráðstöfun að gera stefnendum að tæma vasa sína í opnu rými verslunarinnar fyrir allra augum.
Af hálfu stefnenda er byggt á því að starfsmenn stefndu hafi þjófkennt stefnendur og hafi með því og athöfnum sínum öllum meitt æru þeirra með þeim hætti sem segir í 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki verður á þetta fallist, enda verður ekki annað séð en að starfsmönnum stefndu hafi borið skylda til þess að gera stefnendum grein fyrir því að þau lægju undir grun um þjófnað og með hvaða rökum. Þá verður ekki fallist á það með stefnendum að starfsmenn stefndu hafi með háttsemi sinni borið út aðdróttun um þjófnað stefnenda. Er ekkert komið fram í málinu sem rennir stoðum undir þá fullyrðingu stefnenda að starfsmenn stefnda hafi með orðum sínum og athöfnum gerst sekir um slíkt brot gegn stefnendum. Þá benda hvorki lýsingar stefnenda, Mariu og Emmanuel, né annarra vitna til þess að samskipti starfsmanna stefnda og stefnenda geti flokkast undir að vera yfirheyrslur í nokkrum skilningi. Með sömu rökum verður heldur ekki fallist á þá staðhæfingu stefnenda í stefnu um að um hafi verið að ræða handtöku stefnenda umrætt sinn.
Stefnendur, Maria og Emmanuel, telja að afskipti starfsmanna stefnda umrætt sinn hafi m.a. átt rót að rekja til kynþáttafordóma, enda hefðu engir aðrir verið stöðvaðir í versluninni vegna gruns um þjófnað. Aðspurður um þetta atriði, kvaðst Keitn Amiel Antioquia, sonur stefnanda Mariu sem kom á vettvang eftir að móðir hans hringdi í hann úr versluninni, hafa fundið fyrir „smá kynþáttafordómum“ þótt hann gæti þó ekkert um það sagt. Í málinu liggja ekki fyrir skjöl eða aðrir framburðir sem styðja framburði stefnenda að þessu leyti. Þá hafa stefnendur, Maria og Emmanuel, hvorki greint frá orðum né athöfnum starfsmanna stefnda sem benda til þess að sjónarmið sem tengja má kynþáttaandúð hafi ráðið orðum eða gerðum þeirra. Vitnið, Eiríkur Einar þáverandi verslunarstjóri, hafnaði því að slík sjónarmið hefðu legið þarna að baki og benti á að almennt væru inngrip vegna gruns um þjófnað ekki algengari þegar í hlut ættu viðskiptavinir af erlendu bergi brotnir en ella. Í ljósi framangreinds verður að telja ósannað að kynþáttaandúð hafi legið að baki háttsemi starfsmanna stefnda umrætt sinn.
Að öllu framangreindu virtu og einkum þegar litið er til áður rakinna lýsinga á samskiptum starfsmanna stefnda og stefnenda umrætt sinn verður að telja ósannað að starfsmenn stefndu hafi umrætt sinn sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttsemi sem valdið hafi stefnendum miska. Bera stefnendur sönnunarbyrðina að þessu leyti og hefur sú sönnun ekki tekist. Verður stefndi því þegar af þeirri ástæðu sýknaður af skaðabótakröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir úrslitum málsins verður stefnendum gert að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Hagar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnenda, Mariu Cecilia P. Antioquia, Jaden Chelsea Óskar Gaurino, Karls Antioquia, Trishia Antioquia Astro, og Emmanuel Pastolero Antioquia, í máli þessu.
Stefnendur greiði in solidum stefnda 600.000 krónur í málskostnað.