Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2014


Lykilorð

  • Hlutabréf
  • Verðbréfaviðskipti
  • Auðgun
  • Ógilding samnings


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014.

Nr. 195/2014.

BBR ehf.

(Valtýr Sigurðsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.

Sigurður Guðmundsson hdl.)

og gagnsök

Hlutabréf. Verðbréfaviðskipti. Auðgun. Ógilding samnings.

Með dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 450/2013 voru tveir menn, þ. á m. stjórnarmaður B ehf., sakfelldir fyrir brot gegn ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög vegna atvika sem leiddu til þess að E hf. fékk minna en nafnverð fyrir nýja hluti í félaginu í kjölfar hækkunar hlutafjár í því. Ágreining málsaðila var að rekja til atburða sem gerðust í kjölfar atvikanna sem reyndi á í sakamálinu. Svo háttaði til að í kjölfar tilkynningar til fyrirtækjaskrár um hækkun hlutafjárins gerði B ehf. yfirtökutilboð samkvæmt lögum nr. 2/1995 sem A hf. samþykkti fyrir sitt leyti og komust á viðskipti milli þeirra í kjölfarið. Síðar var með úrskurði fyrirtækjaskrár komist að niðurstöðu um ólögmæti hækkunar hlutafjárins og það fært á ný til fjárhæðar sem það nam fyrir hækkunina. Af þeim sökum höfðaði B ehf. mál á hendur A hf. til endurgreiðslu kaupverðsins sem hann innti af hendi til A hf. í viðskiptum þeirra og byggði B ehf. á því að félagið hefði verið í góðri trú um lögmæti hlutafjáraukningarinnar, sem A hf. hefði á hinn bóginn haft efasemdir um. Talið var að þrátt fyrir að gögn bentu til þess að fyrirsvarsmenn A hf. hefðu haft efasemdir um lögmæti ákvörðunar stjórnar E hf. um hækkun hlutafjár í félaginu áður en A hf. gekk til viðskiptanna við B ehf., hefðu þær efasemdir verið til komnar vegna aðgerða sem B ehf. hefði sjálft haft forgöngu um, en fyrir lá að náin stjórnunar- og eignatengsl voru milli þess félags og E hf. svo og að B ehf. var grandsamur um aðgerðir í tengslum við hlutafjáraukninguna sem höfðu þann tilgang að tryggja eignarhald E hf. með nánar tilgreindum hætti. Voru því lagaskilyrði ekki talin standa til þess að taka kröfu B ehf. til greina, hvorki á grundvelli auðgunarreglu kröfuréttar né ógildingarreglna samningaréttar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2014. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 134.683.376 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. nóvember 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 28. maí 2014. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 450/2013 var Lýður Guðmundsson sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 16. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög með því að hafa sem stjórnarmaður í aðaláfrýjanda brotið gegn ákvæðum laganna um greiðslu hlutafjár. Það leiddi til þess að Exista hf. fékk minna en nafnverð, eina krónu á hlut, fyrir 50.000.000.000 nýrra hluta í félaginu, með því að aðaláfrýjandi greiddi fyrir hlutina með 1.000.000.000 hlutum í Kvakki ehf., sem metnir höfðu verið á 1.000.000.000 krónur. Þá var héraðsdómslögmaður fundinn sekur um brot gegn 1. tölulið 153. gr. sömu laga með því að hafa sent villandi tilkynningu til fyrirtækjaskrár þar sem kom fram að áðurgreind hækkun á hlutafé Exista hf. hefði að fullu verið greidd til félagsins.

Ágreining málsaðila er að rekja til atburða sem gerðust eftir atvik þau er á reyndi í sakamálinu og lauk með framangreindum dómi Hæstaréttar. Háttaði svo til að í kjölfar þess að áðurgreind tilkynning um hækkun hlutafjár í Exista hf. var afhent fyrirtækjaskrá gerði aðaláfrýjandi 11. apríl 2009, að virtum þeim forsendum sem þá lágu fyrir, öðrum hluthöfum í Exista hf. yfirtökutilboð. Samþykkti gagnáfrýjandi, sem þá var hluthafi í félaginu, tilboðið fyrir sitt leyti 8. maí 2009, en um var að ræða hluti sem höfðu komist á hendi hans í desember 2008 þegar hann gekk að þeim til fullnustu skuldar samkvæmt lánssamningi Kaupþings banka hf. við hollenska félagið Bakkabraedur Holding B.V. Með samþykki áðurgreinds tilboðs komust á viðskipti milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda þar sem hinn fyrrgreindi festi kaup á hlutum í Exista hf. að nafnvirði 6.734.168.801 krónu af þeim síðargreinda gegn greiðslu að fjárhæð 134.683.376 krónur, sem gagnáfrýjandi mun hafa innt af hendi til aðaláfrýjanda 15. maí 2009. Í hinum áfrýjaða dómi er því nánar lýst að fyrirtækjaskrá hafi með úrskurði sínum 29. júní 2009 komist að niðurstöðu um að tilkynningin um hækkun hlutafjár í Exista hf. hafi af nánar tilgreindum ástæðum verið ólögmæt og var skráð hlutafé félagsins fært til sömu fjárhæðar og fyrir hækkunina.

Í máli þessu freistar aðaláfrýjandi þess að fá endurgreidda fjárhæðina sem hann innti af hendi til gagnáfrýjanda í framangreindum viðskiptum um hlutafé í Exista hf. Reisir hann kröfu sína annars vegar á auðgunarreglu kröfuréttar, sem hann nefnir svo í málatilbúnaði sínum, en hins vegar á almennum ógildingarreglum samningaréttar um brostnar forsendur og 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísar aðaláfrýjandi meðal annars til þess að hann hafi verið í góðri trú um lögmæti hlutafjáraukningarinnar sem gagnáfrýjandi, er þekkt hafi til atvika allra, hafi á hinn bóginn haft efasemdir um.

Eins og rakið er í héraðsdómi tók stjórn Exista hf. ákvörðun á fundi sínum 4. desember 2008 um hækkun hlutafjár í félaginu sem var hvorki í samræmi við samþykkt hluthafafundar þess 30. október sama ár né hið fortakslausa ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995, er mælir fyrir um að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnverði hans. Í framangreindum dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 er lýst þeim ráðstöfunum sem áttu sér stað í tengslum við þessa ákvörðun og leiða áttu til þess að Exista hf. fengi einungis í sinn hlut 1/50 af nafnverði hins nýja hlutafjár. Þá er fram komið að á þeim tíma sem atvik málsins gerðust voru náin stjórnunar- og eignatengsl milli félagsins og aðaláfrýjanda svo og að aðaláfrýjandi var grandsamur um þessar aðgerðir, sem höfðu þann tilgang að tryggja að eignarhald Exista hf. héldist í höndum Ágústs og Lýðs Guðmundssona. Þrátt fyrir að gögn bendi til þess að fyrirsvarsmenn gagnáfrýjanda hafi haft efasemdir um lögmæti ákvörðunar stjórnar Exista hf. um hækkun hlutafjár í félaginu áður en þeir gengu til framangreindra viðskipta, voru þær efasemdir til komnar vegna aðgerða sem aðaláfrýjandi hafði sjálfur haft forgöngu um með framangreindum hætti. Standa því ekki að lögum skilyrði til þess að taka kröfu hans til greina, hvorki á grundvelli auðgunarreglu kröfuréttar né ógildingarreglna samningaréttar. Þegar af þessari ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda. 

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, BBR ehf., greiði gagnáfrýjanda, Arion banka hf., samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2013.

I

Mál þetta, sem var dómtekið 27. nóvember sl., er höfðað af BBR ehf., Thorvaldsensstræti 6, Reykjavík, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 9. apríl 2013.

Stefnandi gerir aðallega þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 134.683.376 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. nóvember 2012 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að kaupsamningur stefnanda og stefnda, sem komst á þann 8. maí 2009, verði ógiltur með dómi og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 134.683.376 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. nóvember 2012 til greiðsludags, gegn afhendingu hlutafjár í Klakka ehf., kt. 610601-2350, Síðumúla 28, 108 Reykjavík, að nafnverði 6.734.168.801 króna. Enn fremur krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

II

Málavextir

                Hinn 8. maí 2009 keypti stefnandi hlutbréf í Exista hf. (nú Klakki ehf.), kt. 610601-2350 af stefnda. Greiddi stefnandi stefnda 134.683.376 kr. fyrir bréfin. Aðdragandi kaupanna var sá að stjórn Exista hf. ákvað að nýta heimild í samþykktum þess til að hækka hlutafé félagsins um 50.000.000.000 kr. að nafnvirði. Stefnandi skráði sig fyrir öllu nýju hlutafé í Exista hf. og eftir það nam eignarhlutur hans 77,9% af heildarhlutafé félagsins. Við það skapaðist yfirtökuskylda gagnvart öðrum hluthöfum félagsins í samræmi við X. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

                Áður en til hlutafjárhækkunarinnar í Exista hf. kom hafði Kaupþing banki hf. verið tekinn yfir af Fjár­mála­eftirlitinu 9. október 2008, en þá urðu hlutir í bank­anum verðlausir. Exista hf. var þá stærsti hlut­hafi bankans sem eigandi um fjórðungs hluta­fjár og varð því fyrir gríðar­legu tjóni vegna þessa. Stærsti hluthafi Exista hf. á þessum tíma var Bakka­braedur Holding BV, eignarhaldsfélag í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssonar. Bræðurnir voru jafnfram eigendur stefnanda og sátu í stjórn stefnanda. Þá voru þeir í stjórn Exista hf. Voru þannig náin eignar- og stjórnunartengsl á milli stefnanda og Exista hf. Hlutir Bakka­braedur Holding BV í Exista hf. komust í hendur stefnda í desember 2008 er stefndi gekk að þeim sem veði fyrir tryggingar á greiðslu lánasamningi milli aðila. Með fullnustuaðgerðinni eignaðist stefndi 45,21% af heildarhlutafé Exista hf.

Með umræddri hlutafjáraukningu var hluta­fé Exista hf. marg­fald­að, þ.e. það var 14.134.767.632 hlutir fyrir hækkunina, en varð 64.174.767.632 hlut­ir eftir hækkunina. Með þessu var eignar­hlutur stefnda verulega þynntur út, eða niður í 10,43% af hlutafé Exista, en á móti varð stefn­andi eigandi samtals um 77,9%.

Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra samþykkti tilkynningu um hlutafjárhækkun þann 8. desember 2008 án athugasemda. Frá þeim tíma taldist hlutafé Exista hf. hækkað, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Sama dag tilkynnti Exista hlutafjárhækkunina til Kauphallarinnar (Nasdaq OMX) og voru ekki gerðar athugsemdir við gildi hlutafjárhækkunarinnar í kjölfar þessarar tilkynningar. Stefnandi óskaði eftir því að Fjármálaeftirlitið veitti undanþágu frá lögbundnu tilboðsverði í yfirtökutilboði stefnanda á Exista hf. Að undangenginni rannsókn ákvað Fjármáleftirlitið að lágmarksverð í yfirtökutilboði stefnanda til hluthafa Exista hf. skyldi lækkað og vera að lágmarki 0,02 kr. á hlut.    

Stefnandi gerði hluthöfum í Exista hf. yfirtökutilboð þann 11. apríl 2009. Stefndi samþykkti tilboð stefnanda með undirritun á samþykkis- og framsalseyðublað þann 8. maí 2009 og greiddi stefnandi stefnda kaupverðið, 134.683.376 krónur, þann 15. maí 2009.

Með úrskurði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 29. júní 2009, var komist að þeirri niðurstöðu að tilkynning um hlutafjárhækkun í Exista hf., dags. 8. desember 2008, hefði verið ólögmæt. Byggði fyrirtækjaskrá ákvörðun sína á því að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þar sem fram kemur að greiðsla hlutar megi ekki vera minni en nafnverð hans. Af gögnum málsins yrði hins vegar ekki annað ráðið en að 50 milljarða kr. hækkun hlutafjár hafi einungis verið mætt með tilkynningu um eins milljarðs kr. endurgjald, þ.e. nafnverði hlutafjár Kvakks ehf., sem aldrei hefði þó verið tilkynnt um formlega til fyrirtækjaskrár að hefði hækkað úr upphaflegu lágmarkshlutafé, þ.e. 500,000 kr. Var tilkynningin bakfærð og skráð hlutafé félagsins lækkað niður í þá fjárhæð sem opinberlega var skráð áður en þeirri fjárhæð var breytt með tilkynningunni.

Þann 25. september 2009 kærði stefndi hlutafjáraukningu Exista ehf. til sérstaks sak­­­sóknara. Enn fremur kærði stefndi úrskurð fyrir­tækja­skrár til fjár­mála­ráðuneytisins með bréfi þar sem gerð var sú krafa að úrskurður fyrirtækjaskrár yrði felldur niður og lagt fyrir fyrir­tækjaskrá að fjalla að nýju um mál Exista með það fyrir augum að tryggja hagsmuni Exista og þar með kröfuhafa félagsins. Ráðuneytið vísaði frá kæru stefnda vegna aðildarskorts. Ríkisskattstjóri tilkynnti sérstökum saksóknara enn fremur um málið .

Af hálfu sérstaks saksóknara var efnt til rannsóknar á málinu þar sem átta manns höfðu réttarstöðu sakbornings. Með ákæru útgefinni 18. september 2012 voru Lýður Guðmundsson, stjórnarmaður stefnda, og lögmaður sá er sendi inn tilkynningu Exista hf. um hlutafjáraukninguna ákærðir fyrir brot á hlutafélagalögum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 30. maí 2013, var Lýður sakfelldur fyrir að hafa hinn 8. desember 2008, sem stjórnarmaður stefnda, brotið vísvitandi gegn ákvæðum laganna um greiðslu hlutafjár með því að greiða hlutafélaginu Exista minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í Exista hf. Var brot hans talið varða við 1. mgr. 16. gr., sbr. 2. tl. 1. mgr. 153. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, með síðari breytingum. Lýður og lögmaðurinn voru hins vegar sýknaðir af broti gegn 1. tl. 1. mgr. 153. gr. laga nr. 2/1995 fyrir að skýra hlutafélagaskrá vísvitandi rangt og villandi frá hækkun á hlutafé Exista hf. Talið var ósannað að Lýður hefði komið að því að semja eða senda tilkynninguna. Var Lýður dæmdur til að greiða tveggja milljóna kr. sekt í ríkissjóð. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Með bréfi, dags. 23. október 2012, skoraði stefnandi á stefnda að endurgreiða það kaupverð sem greitt var fyrir hluti í Exista hf. Stefndi hafnaði kröfu stefnanda með bréfi, dags. 16. nóvember 2012.

III

Málsástæður stefnanda

Um aðalkröfu stefnanda

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á hendur stefnanda á auðgunarreglu kröfuréttar þar sem í málinu séu fyrir hendi sérstakar aðstæður sem réttlæti beitingu hennar. Stefnandi hafi verið í góðri trú um að tilkynning til fyrirtækjaskrár ríkisskattsjóra um hækkun á hlutafé Exista hf. væri gild en fyrirtækjaskrá hafi breytti skráningu félagsins í samræmi við tilkynninguna án athugasemda. Stefnandi hafi tilkynnt Kauphöll Íslands um yfirtökuskylduna og sent henni drög að tilboðsyfirliti til staðfestingar. Þá hafi stefnandi óskað eftir undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu frá ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti um lágmarksfjárhæð í yfirtökutilboði. Fjármálaeftirlitið hafi óskaði eftir mati endurskoðunarfirmans PricewaterhouseCoopers á verðmæti Exista hf. í tengslum við þessa beiðni stefnanda. Hvergi í þessu ferli hafi verið gerðar athugasemdir við lögmæti hlutafjárhækkunarinnar. Stefnandi hafi skráð sig fyrir öllu hinu nýja hlutafé en við það hafi skapast yfirtökuskylda í samræmi við X. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Á grundvelli þeirrar forsendu að hlutafjárhækkunin væri gild hefði stefnandi gert hluthöfum Exista hf. yfirtökutilboð í samræmi við yfirtökuskyldu sína og hafi stefndi samþykkt tilboðið. Telur stefnandi ljóst að þegar stefndi hafi samþykkt tilboðið hafi hann haft miklar efasemdir um gildi hlutafjárhækkunarinnar. Vísar hann í því samhengi til skýrslu af fyrrverandi starfsmönnum stefnda hjá sérstökum saksóknara þar sem fram komi að starfsmenn stefnda höfðu haft samband við fyrirtækjaskrá um lögmæti hlutafjárhækkunarinnar, að stefndi aflaði lögfræðiálits um gildi hennar og að starfsmenn stefnda hafi talið ýmislegt benda til þess að hún væri ólögmæt. Þrátt fyrir þessar efasemdir starfsmanna stefnda hafi hann samþykkt yfirtökutilboð stefnda án nokkurra athugasemda en ástæða þess hafi verið að bankinn vissi um stöðu Exista hf. og að hlutafé þess væri verðlaust.

Um varakröfu stefnanda

Stefnandi byggir varakröfu sína um ógildingu á samningi aðila á almennum ógildingarreglum samningaréttarins um brostnar forsendur og 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Stefnandi vísar til þess að á grundvelli almennra meginreglna samningaréttarins um brostnar forsendur sé unnt að fella samninga úr gildi í heild eða að hluta, sé skilyrðum til þess fullnægt. Meginforsenda þess að stefnandi hafi gert stefnda yfirtökutilboð hafi verið að hlutafjárhækkunin væri gild. Stefnandi hefði verið í góðri trú um að hækkunin væri lögmæt, enda hefði hún komið á borð fjölmargra aðila sem hafi ekki gert athugasemdir við lögmæti hennar. Gildi hlutafjárhækkunarinnar hafi jafnframt verið ákvörðunarástæða fyrir stefnanda ásamt því að vera veruleg því ekki hefði komið til tilboðsins án hennar. Stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að forsendan hafi verið ákvörðunarástæða fyrir stefnanda og að hún hafi verið veruleg. Við úrskurð fyrirtækjaskrár hafi forsendur stefnanda fyrir kaupum á hlutafé stefnda í Exista hf. brostið.

                Stefnandi vísar til 33. gr. laga nr. 7/1936 og telur það óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig samninginn vegna atvika sem hafi verið fyrir hendi þegar löggerningurinn hafi komið til vitundar hans og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um. Skilyrði ákvæðisins sé uppfyllt þar sem það hafi verið mat stefnanda þegar löggerningurinn hafi komið til vitundar hans að hlutafjárhækkunin væri ólögmæt. Ljóst sé af skýrslutökum fyrrverandi starfsmanna stefnda hjá sérstökum saksóknara að stefndi hafi haft vitneskju um þessi atvik þegar kaupsamningurinn hafi verið gerður. Þá byggir stefnandi á því að skilyrðið um óheiðarleika sé uppfyllt þar sem stefndi hafi verið þeirrar skoðunar, þegar hann samþykkti tilboð stefnanda, að hlutafjárhækkunin væri ólögmæt. Þá sé ljóst að bankinn hafi vitað um fjárhagsstöðu Exista hf. og talið á grundvelli þeirra upplýsinga að hlutafé félagsins væri verðlaust.

Þá telur stefnandi að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnda að bera samninginn fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til við mat samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Stefnandi byggir á því að þegar litið er til þessara atriða sé ljóst að skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt. Þannig sé í fyrsta lagi ljóst að stefnandi hafi verið í góðri trú um að hlutfjárhækkunin væri gild. Í öðru lagi sé ljóst að stefndi hafi talið yfirtökutilboð stefnanda byggt á forsendum sem stæðust ekki. Í þriðja lagi hafi bankinn verið í þeirri stöðu að hafa upplýsingar um fjárhagsstöðu Exista hf. og taldi á grundvelli þeirra upplýsinga að hlutafé í félaginu væri verðlaust. Í fjórða lagi hafi hlutafjárhækkunin verið ógilt með úrskurði fyrirtækjaskrár þann 8. desember 2008, en gildi hækkunarinnar hafi verið ákvörðunarástæða stefnanda fyrir yfirtökutilboðinu. Í fimmta lagi hafi stefndi kært starfsmenn Exista hf. o.fl. til sérstaks saksóknara vegna meintrar ólögmætrar hlutafjárhækkunar aðeins fáeinum mánuðum eftir að bankinn hafi samþykkt tilboð stefnanda.

Kröfu sína um dráttarvexti frá 23. nóvember 2012 til greiðsludags styður stefnandi við 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi hafi beint kröfu um endurgreiðslu að stefnda.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra ógildingarreglna samningaréttarins vegna brostinna forsendna, 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og til óskráðra meginreglna kröfuréttar um óréttmæta auðgun. Um dráttarvexti vísar stefnanda til 1. mgr. 6. gr. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að með samþykki sínu á samþykkisblað dags. 8. maí 2009 hafi komist á bindandi kaupsamn­ingur milli aðila og eigi sá samningur að standa, sbr. meginreglu samninga- og kröfu­réttar um skuldbindingargildi loforða og jafnframt ákvæði laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Reglur, sem heimili að samningi sé vikið til hliðar, séu undan­tekningar­reglur og eigi aðeins að beita þeim af ýtrustu varúð og eingöngu í sér­stökum tilvikum.

Um aðalkröfu stefnda

Stefndi hafnar því að „auðgunarregla kröfuréttar“ fyrir­finnist í íslenskum rétti, en í öllu falli séu ekki þær „sérstöku aðstæður“ í fyrir­liggjandi máli sem heimili að fall­­ist verði á aðalkröfu stefnanda. Stefndi hafnar einn­ig öll­um full­yrð­­­ingum stefnanda um meinta grandsemi stefnda og meint grandleysi stefnanda í aðdraganda kaupanna. Stefndi vísar sérstaklega til þess að þó að starfsmenn hans hafi haft efasemdir um lögmæti hlutafjárhækkunarinnar, sé ekki þar með sagt að starfsmenn stefn­anda hafi vitað eða getað gert ráð fyrir því að hluta­­­fjár­hækkun­in yrði felld úr gildi í heild sinni, eins og fyrir­tækja­skrá hafi tekið ákvörðun um síðar. Telur stefndi að mun nær hefði verið af fyrir­tækja­skrá að láta hluta­fjár­hækk­un­ina standa og innheimta eftirstöðvar kaup­verðs­ins úr hendi stefnanda.

Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að hlutafjár­hækkunin var felld úr gildi enda verði ekki séð að sú ákvörðun hafi haft nokk­ur áhrif á verðmæti hluta í Exista hf. Staðreyndin hafi verið sú að það sem hafi gert hluti stefn­anda í félaginu verðlausa hafi verið nauða­samn­ingur þess sem stað­fest­ur hafi verið í október 2010.

Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að meta verði kröfu stefnanda eftir eðli máls með hlið­sjón af öllum atvikum. Vísar stefndi í því samhengi til þess að umrædd viðskipti milli aðila um hluti í Exista hf. hafi verið gerð að frumkvæði stefnanda, sem jafnframt hafi ráðið verði hlutanna, innan þeirra marka sem verðbréfaviðskiptalögin setji. Markmið stefnanda með því að skrá sig fyrir hlutum í félaginu hafi verið að halda yfirráðum yfir því en þessu markmiði hafi hann náð þrátt fyrir að fyrir­tækja­skrá hafi fellt hlutafjárhækkunina niður. Auk þess hafi stefnandi náð markmiðinu vegna þess að stefndi hafi selt honum hluti sína í félaginu. Ekki sé annað vitað en að stefndi hafi nýtt réttindi skv. þeim hlutum í Exista hf., sem hann keypti af stefnda, s.s. með því að nýta atkvæðarétt hlutanna á hluthafa­fund­um o.þ.h. Um hafi verið að ræða viðskipti með hlutabréf, sem verði almennt að teljast áhættusöm við­skipti, en þó sérstaklega áhættusöm m.t.t. bágs fjárhags félagsins sem stefnanda hafi verið kunnur. Stefnandi og Exista hf. virðist hafa beitt blekkingum þegar hluta­fjárhækkunin var til­kynnt, sbr. ákæru sérstaks saksóknara. Stefnandi hafi jafnframt verið í vondri trú þegar hann hafi keypti hlutina af stefnda. Tilgangur stefnanda hafi m.a. verið hlutabréfaviðskipti, stjórnendur hans hafi haft yfir að ráða sérfræðikunnáttu í viðskiptum og stefnandi notið sér­fræði­aðstoðar. Einnig vísar stefndi til þess að svo virðist sem stefnandi hafi beint endurkröfu vegna kaupverðs hluta í Exista hf. að stefnda einum, af öllum þeim hluthöfum í Exista hf. sem stefnandi hafi keypti hluti af. Stefndi hafi gengið á stærstan part þeirra hluta á 5 aura hvern hlut, sem hann síðar seldi stefnanda á 2 aura hvern hlut. Augljóst er því að stefndi hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna þessara viðskipta. Þá vísar stefndi til þess að stefnandi krefjist endurgreiðslu kaupverðs gegn afhendingu hluta sem hafi orðið verð­lausir meðan stefnandi hafi haft eignarhald þeirra. Stefnandi hafi aldrei gert athugasemdir við greiðslu sína til stefnda og hafi sýnt veru­legt tómlæti við að halda kröfunni til haga og því gefið stefnda réttmætar væntingar um að greiðslan hafi verið endan­leg. Þá telur stefndi almennt ósanngjarnt gagnvart stefnda að beita reglu um óréttmæta auðgun við þær aðstæður sem séu í málinu og gera stefnda að endur­greiða stefn­anda kaupverð hlutanna.

Um varakröfu stefnda

Stefndi hafnar því að stefnandi geti borið fyrir sig nú að ákvörðunarástæða hans fyrir kaupunum hafi verið sú að hlutafjár­hækkunin hafi verið gild og jafnframt að stefnandi hafi verið í góðri trú um lögmæti hlutafjár­hækkunarinnar. Fyrir það fyrsta byggir stefndi á því að stefnanda hafi verið ljóst, eða a.m.k. hafi honum hlotið að vera ljóst, þegar hann hafi skráð sig fyrir öllum nýjum hlutum í félaginu að hlutafjár­hækkunin hafi verið ólög­­mæt. Það sé stefnandi sem virðist hafa haldið um alla þræði í málinu og beri alla ábyrgð á hinni ólögmætu hlutafjár­hækkun. Því geti hann ekki borið því við nú að þessi forsenda hans fyrir þeim viðskiptum sínum við stefnda hafi brostið. Stefndi áréttar jafnframt að stefnandi hafi eignast hluti stefnda í yfirtöku skv. X. og XI. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, en skv. ákvæðum þeirra kafla sé yfirtökuaðila óheimilt að setja skilyrði fyrir yfirtökutilboði sínu. Stefndi hafnar því jafnframt að umrædd forsenda stefn­anda hafi verið honum veruleg eða „ákvörðunarástæða“ hans fyrir viðskiptum hans við stefnda, eins og hann byggi á. Stefndi hefði t.a.m. aldrei samþykkt að þessi forsenda stefnanda yrði hluti af samningi aðila. Einnig megi álykta af aðgerðum og aðgerðarleysi stefnanda, eftir að hlutafjár­hækkunin hafi verið felld úr gildi 29. júní 2009, að umrædd forsenda stefnanda hafi ekki verið honum veruleg eða „ákvörðunarástæða“. Auk þess mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu að honum hafi verið ljóst að „ákvörð­unar­ástæða“ stefnanda fyrir kaupunum hafi verið að umrædd hlutafjárhækkun væri lögmæt.

Jafnframt byggir stefndi á því að þegar horft er til þeirra sérstöku aðstæðna sem eru í fyrirliggjandi máli þá yrði það ekki sanngjarnt gagnvart stefnda ef fallist yrði á kröfu stefn­anda um ógildingu kaupsamningsins og endurgreiðslu kaupverðsins á grundvelli megin­reglna um brostnar forsendur.

Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að það sé óheiðarlegt af stefnda að bera löggerninginn, sem krafist sé ógildingar á í málinu, fyrir sig, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi mótmælir því að hann hafi verið grandsamur um ólögmæti hluta­fjárhækkunar þegar hann hafi selt stefnanda hluti sína í Exista hf. Stefndi vísar jafnframt til þess að jafnvel þótt hlutafjárhækkunin hafi verið ólög­mæt hafi það ekki verið sjálfgefið að hún yrði felld niður, eins og síðar hafi orðið raunin, heldur telur stefndi að mun nær hefði verið af hálfu fyrirtækjaskrár að láta hluta­fjár­hækkun­ina standa og innheimta eftirstöðvar kaupverðsins úr hendi stefn­anda á grundvelli III. kafla hlutafélagalaga. Stefndi vísar hér einnig til þess að stefn­andi hafi ekki einungis verið grand­­samur um ólögmæti hlutfjárhækkunarinnar, heldur gert ráð­stafanir á grund­velli henn­ar í vondri trú  og virðist ekki hafa skeytt neinu um hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir sig eða aðra. Stefndi mótmælir því jafn­framt að hann hafi haft aðrar og meiri upplýsingar um fjár­hagsstöðu Exista hf., en almennt. Þar sem um hafi verið að ræða opinberar upplýsingar, ætti öllum að vera ljóst á þessum tíma að hlutir í félaginu hafi verið verðlausir. Jafnframt byggir stefndi á því að þegar horft sé til þeirra sérstöku aðstæðna sem séu fyrir­liggjandi í málinu sé ekki sanngjarnt gagnvart stefnda að fallast á kröfu stefn­anda um ógildingu kaupsamningsins og endurgreiðslu kaupverðsins á grundvelli 33. laga nr. 7/1936.

Stefndi mótmælir því að það væri ósanngjarnt og and­stætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera löggerninginn fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefnandi geri litla sem enga tilraun til að sýna fram á að skil­yrð­um þess að beita megi greininni sé fullnægt. Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum stefnanda að stefnandi hafi verið í góðri trú um ólög­mæti hlutafjárhækkunarinnar; að stefnda hafi verið ljóst að yfirtökutilboð stefn­anda væri byggt á forsendum sem stæðust ekki; að stefnda hafi einum verið ljóst að hlutir í Exista væru verðlausir; og að gildi hlutafjárhækkun­arinnar hafi verið „ákvörð­un­ar­ástæða“ fyrir kaupum stefnanda á hlutum stefnda í Exista. 

Verði ekki fallist á ofangreindar röksemdir, byggir stefndi sýknukröfu sína á þeim grundvelli að stefnandi hafi, eftir að hlutafjárhækkun Exista hf. hafi verið felld niður, sam­þykkt í verki að samn­­ing­ur hans við stefnda um kaup á hluta­bréf­um væri skuldbindandi og að hann myndi standa. Varð­andi þetta vísar stefndi til bæði aðgerða og aðgerðar­leysis stefn­­anda (gagnvart stefnda) eftir að hluta­fjár­hækkun­in hafi verið felld úr gildi 29. júní 2009. Hafi stefnandi haft athuga­semd­ir við viðskipti sín og stefnda, s.s. að hann teldi að þau ættu að ganga til baka og stefndi ætti að endur­greiða honum kaupverðið, sbr. málatilbúnað hans í fyrir­liggjandi máli, hefði hann átt að koma þeim athuga­semdum sínum á framfæri við stefnda þá þegar er hluta­­fjár­hækkun­ina var felld niður í júní 2009.

Stefndi byggir enn fremur sýknukröfu sín á þeim grunni að allar kröfur stefnanda gegn stefnda, og öðrum hluthöfum sem hafi selt stefn­anda hluti sína í Exista hf., séu niður fallnar vegna verulegs tómlætis stefnanda. Varðandi þetta vísar stefndi til framangreindrar umfjöllunar, en jafnframt til þess að kaup stefnanda af stefnda hafi verið að fjár­hæð rúmlega 134 millj. kr. og hafi verðið langstærstu einstöku hlutabréfakaupin sem stefn­andi hafi gert vegna yfirtökutilboðs síns.

Verði ekki fallist á sýknu stefnda á grundvelli framangreindra röksemda og fallist á kröfu stefnanda um að ógilda samninga aðila á grundvelli reglna um brostnar forsendur, 33. gr. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 gerir stefndi þá kröfu að hann verði sýknaður af endurgreiðslukröfu stefnanda. Sérstakar aðstæður séu fyrir hendi í fyrirliggjandi máli sem réttlæti það að endur­greiðslukröfu stefnanda sé hafnað. Varðandi þetta vísar stefndi til framangreindra málsástæðna sinna en einnig til þess að stefnandi ber alla ábyrgð á hinni ólögmætu hluta­fjár­hækkun sem krafa hans í málinu byggi á. Stefnandi hafi ekki gert fyrirvara við greiðslu sína til stefnda, þeir hlutir sem stefnandi hafi keypt af stefnda séu nú verðlausir og hafi orðið það meðan stefnandi hafi orðið eigandi þeirra. Stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við að halda kröfu sinni til haga og það yrði talið almennt ósanngjarnt gagnvart stefnda ef honum yrði gert að endur­greiða stefnanda kaupverðið.

Stefndi mótmælir upphafsdegi dráttarvaxta í kröfugerð stefn­anda, en stefndi telur, með hliðsjón af þeim sérstöku málsatvikum sem eru uppi í málinu að ekki séu efni til að dæma hann til greiðslu dráttarvaxta af tildæmdri fjárhæð nema í fyrsta lagi frá dómsuppsögu, en ella frá þing­festingardegi.

   Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfu- og samningaréttar, þ.m.t. reglna um skuldbindingargildi loforða og að löggerninga skuli halda, meginreglu um réttar­áhrif brostinna forsendna og reglna um tómlætisáhrif. Þá vísar stefndi til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 50/2000 um lausa­fjár­kaup og laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Varðandi kröfu stefnda um málskostnað er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Ágreiningsefni máls þessa varðar kaup stefnda af stefnanda á hlutabréfum í Exista hf. í maí 2009. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu keypti stefnandi bréfin af stefnda í kjölfar hlutafjáraukningar í Exista hf. Hlutafé í Exista hf. var aukið um 50 milljarða og voru hlutirnir seldir stefnanda. Með því var hluta­féð marg­fald­að og eignar­hlutur stefnda, 45,21% af hluta­fé verulega þynntur út, eða niður í 10,43% af hlutafénu, en á móti varð stefn­andi eigandi samtals um 77,9%. Við það að skrá sig fyrir öllum hinum nýju hlutum varð stefnandi yfir­töku­skyldur gagnvart öllum hluthöfum í félaginu og skyldugur til að gera þeim yfirtökutilboð í samræmi við ákvæði X. kafla laga  nr. 108/2007 um verðbréfa­viðskipti. Er kaupin áttu sér stað voru náin stjórnunar- og eignatengsl á milli stefnanda og Exista hf.  Stærsti eigandi Exista hf. var eignarhaldsfélagið Bakkabræður Holding sem var í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Þeir voru jafnframt eigendur stefnanda. Þá sátu þeir báðir í stjórn Exista hf. og stefnanda. Áður en til hlutafjáraukningarinnar kom hafði stefndi gengið að hlut nefnds eignarhaldsfélags í Exista hf. sem settur hafði verið til tryggingar lánasamningi hins fyrrgreinda félags við stefnda. Stefnandi hefur ekki mótmælt því að tilgangur hlutafjáraukningarinnar hafi í raun verið að tryggja að eignarhald Exista hf. héldist í höndum bræðranna eða félaga í þeirra eigu

Með úrskurði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, 29. júní 2009, var komist að þeirri niðurstöðu að tilkynning um hlutafjáraukninguna hefði verið ólögmæt. Var tilkynningin bakfærð og skráð hlutafé félagsins lækkað niður í þá fjárhæð sem opinberlega var skráð áður en þeirri fjárhæð var breytt með tilkynningunni. Taldi fyrirtækjaskrá að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þar sem fram kemur að greiðsla hlutar megi ekki vera minni en nafnverð hans.

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda annars vegar á auðgunarreglu kröfuréttar en hins vegar á almennum ógildingarreglum samningaréttarins um brostnar forsendur.

Um óréttmæta auðgun

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 39/2003, frá 19. júní 2003, er vísað til þess að í löggjöf megi finna dæmi þess að byggt sé á viðhorfum um óréttmæta auðgun, sbr. t.d. 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 og 57. gr. laga nr. 94/1933 um tékka. Þótt ekki yrði talið að almenn auðgunarregla gildi í íslenskum rétti yrði að fallast á að réttmætt geti verið að beita auðgunarreglu við sérstakar aðstæður, þótt ekki sé til þess bein heimild í settum rétti. Verði þá að meta kröfu af þessum toga eftir eðli máls í einstökum tilvikum með hliðsjón af öllum atvikum.

Til stuðnings því að skilyrði auðgunarreglunar séu uppfyllt vísar stefnandi til þess að meginforsenda þess að hann hafi gert stefnda yfirtökutilboð og greitt fyrir hlutafé bankans í Exista hf. hafi verið sú að umrædd hlutafjárhækkun væri gild. Hann hafi verið í góðri trú um lögmæti hlutfjáraukningarinnar. Á þetta getur dómurinn ekki fallist. Gögn málsins bera með sér að þeir sérfræðingar sem Exista hf. leitaði til í tengslum við hlutafjáraukninguna höfðu uppi efasemdir um að fyrirhuguð hlutafjárhækkun stæðist lög. Má í því samhengi t.d. vísa til framburðar tveggja löggiltra endurskoðenda og lögfræðings hjá endurskoðendafirmanu Deloitte, hjá sérstökum saksóknara, þar sem fram kemur að þeir hafi hitt starfsmenn Exista hf. á fundi þar sem hlutafjáraukningin hafi verið til umræðu. Hafi starfsmönnum verið gerð grein fyrir því að það væri andstætt hlutafélagalögum að hækka hlutaféð um 50 milljarða með einni milljarða króna greiðslu. Þá er það lagaákvæði sem brotið var við hlutafjárhækkunina, þ.e. 16. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, auðskilið og máttu fyrirsvarsmenn Exista hf., sem voru reynslumiklir  í viðskiptum, gera sér grein fyrir því að með tilkynningunni til hlutafélagaskrár væri verið að brjóta ákvæðið. Ekki er í þessu samhengi unnt að skilja á milli stefnanda og Exista hf. þar sem á milli þessara félaga eru náin stjórnenda- og eigendatengsl. Var Lýður Guðmundson með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðum 30. maí 2013, sakfelldur fyrir að hafa brotið vísvitandi gegn nefndu ákvæði með því að greiða Exista hf. minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í Exista hf. Þá er til þess að líta að viðskipti með hlutabréf eru áhættusöm en þau geta sveiflast í virði. Telja verður að viðskipti með hlutabréf í Exista hf. hafi verið sérstaklega áhættusöm, þegar stefnandi keypti þau af stefnda, enda var hlutafé í félaginu neikvætt. Þannig er staðfest í verðmati endurskoðunarfirmans PwC á Exista hf., sem gert var vegna yfirtökutilboðs stefnanda og birt í Kauphöllinni í mars 2009, að verðmæti Exista hf. hafi í desember 2008 verið neikvætt um 155,8 milljarða króna. Þegar framgreint er metið heildstætt, og jafnframt horft til þess að stefnandi gerði ekki reka að því að krefjast endurgreiðslu úr hendi stefnda fyrr en meira en þremur árum eftir að hlutafélagskrá felldi úr gildi tilkynningu um hlutafjáraukninguna, verður ekki fallist á það með stefnanda að fyrir hendi séu þær sérstöku aðstæður sem réttlæti beitingu auðgunarreglu kröfuréttar. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

Um varakröfu stefnanda

Stefnandi byggir varakröfu sína um ógildingu á samningi aðila á almennum ógildingarreglum samningaréttarins um brostnar forsendur og 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Stefnandi vísar til þess að meginforsenda þess að hann hafi gert stefnda yfirtökutilboð hafi verið að hlutafjárhækkunin væri gild. Dómurinn hefur, í umfjöllun um aðalkröfu, áður komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi verið grandsamur um ólögmæti hlutafjáraukningarinnar og vísast til þess. Þá var stefnandi grandsamur um mjög slæma fjárhagsstöðu Exista hf. er hann keypti hlutabréfin af stefnda. Geta brostnar forsendur því ekki leitt til þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kaupverð hlutabréfanna. Stefnandi byggir enn fremur á því að óheiðarlegt sé fyrir stefnda að bera fyrir sig samninginn vegna atvika sem hafi verið fyrir hendi þegar löggerningurinn hafi komið til vitundar hans og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936. Þá telur stefnandi að það væri ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnda að bera samninginn fyrir sig, sbr., 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Með hliðsjón af því sem áður hefur verið sagt um grandsemi stefnanda um ólögmæti hlutafjáraukningarinnar verður ekki talið að við samningsgerðina eða síðar hafi verið fyrir hendi atvik sem valda ógildingu samningsins á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936 eða því að honum verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. sömu laga. Þótt fyrirsvarsmenn stefnda kunni að hafa haft efasemdir um lögmæti hlutafjáraukningarinnar var heldur ekki sjálfgefið að hún yrði felld niður. Verður þessum lagaákvæðum því ekki beitt við úrlausn málsins. Hvað sem öðru líður er það jafnframt álit dómsins að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt aðgerðarleysi í málinu að hann hafi glatað þeim rétti sem hann kann að hafa haft gagnvart stefnda en ekki er unnt að fallast á það með stefnanda að rannsókn sérstaks saksóknara hafi gefið honum tilefndi til að bíða átekta með innheimtuaðgerðir á hendur stefnda í meira en þrjú ár. Er stefndi því sýknaður af varakröfu stefnanda.

Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður stefndi, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Valtýr Sigurðsson hrl.

                Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður Guðmundsson hdl.

Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Arion banki hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, BBR ehf., í máli þessu.

Stefndi greiði stefnanda 750.000 kr. í málskostnað.