Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Líkamsrannsókn
|
|
Föstudaginn 18. apríl 2008. |
|
Nr. 213/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H.B.Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Líkamsrannsókn.
Fallist var á að skilyrði 1. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væru uppfyllt til að L væri heimilt að taka munnvatnssýni frá X í þágu lögreglurannsóknar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um heimild til að taka munnvatnssýni frá varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Lögregla hefur til rannsóknar ætlað brot varnaraðila í félagi við annan mann gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði. Telja verður, með vísan til þess sem þar greinir um stöðu rannsóknarinnar og tilgang kröfu sóknaraðila, að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 19/1991 til að fallast á kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að lögreglustjóranum verði veitt heimild til að taka munnvatnssýni úr X, [kt. og heimilisfang], í þágu rannsóknar máls nr. 007-2007-[...].
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að að morgni laugardagsins 27. janúar 2007 hafi lögreglu borist tilkynning um að tveir menn hefðu ráðist inn í íbúð að A í Reykjavík, misþyrmt þar húsráðanda og stæði hann allur blóðugur fyrir utan íbúðina. Á vettvangi hafi lögreglumenn hitt meintan brotaþola í málinu, B. Aðspurður hafi hann sagst hafa verið í íbúð sinni að A í fasta svefni er hann hafi vaknað um klukkan 5 um nóttina við það að dyrabjöllunni hefði verið hringt hjá sér. Kvað hann sig ekki hafa gert neitt í því og bara legið áfram uppi í rúmi en ekki getað sofnað aftur. Nokkru seinna hafi hann orðið var við það að einhver væri að reyna að brjóta sér leið inn í íbúð hans. Hann hafi þá hafa farið að útidyrahurðinni, barið í hana og sagt eitthvað á þá leið „Hvern andskotann eruð þið að gera“, og hafi þá hljóðin hætt. Hann hafi þá farið aftur inn í rúm og lagt sig, en ekki getað sofnað. Ekki svo löngu síðar hafi hann aftur heyrt hljóð koma frá íbúðarhurðinni, hærri og ákafari en áður. Þá hafi hann farið inn í stofu þar sem að hann hafi ætlað að hringja á lögregluna. Þegar að hann hafi verið kominn með símann í höndina hafi tveir menn ruðst inn í íbúð hans og ráðist á hann, tekið af honum símann og hent honum inn í herbergi, þar sem hann hafði áður sofið. Hafi þessir menn strax byrjað að berja hann og heimta frá honum peninga. Hefði hann þá kallað á hjálp en þá hafi annar mannanna hótað honum lífláti ef hann hætti ekki að öskra. Mennirnir hefðu svo haldið áfram að berja hann í andlitið auk þess sem annar þeirra hafi tekið hann kverkataki. Þá hafði B fundið fyrir því að vera stunginn í hendurnar en hann hafi ekki gert sér grein fyrir því með hverju. Er hann hafi síðan sagt þeim að hann væri ekki með neina peninga í íbúðinni hafi mennirnir byrjað að kasta í hann hlutum úr íbúðinni. Þá hafi annar mannanna sótt reipi og gert sig líklegan til að binda hann. Hann hafi tekið eftir því, að meðan á árásinni stóð, hafi annar mannanna verið með sígarettur og hann hafi einnig hafa séð að hinn hélt á dúkahníf og hafi hann þá áttað sig á því með hverju hann hefði verið stunginn. Eftir að B hafi tjáð mönnunum að lögreglan væri á leiðinni hafi eitthvað dregið úr árásinni og þeir fljótlega haft sig á brott. Hafi hann þá staðið upp og farið fram og hitt nágranna sína á ganginum og þeir þá sagt honum að það væri búið að hringja á lögregluna. B hafi ekki séð hvaða menn þetta voru sem réðust á hann því að þeir hafi verið með lambhúshettur á höfði, auk þess sem þeir hafi verið með hanska.
Lögreglan hafi yfirheyrt kærða og C í tengslum við málið. Fyrir lögreglu hafi C játað að hafa í félagi með kærða, ráðist inn á heimili B, veist þar að honum og hótað honum öllu illu, léti hann þeim ekki fjármuni í té. Kærði hafi hins vegar neitað aðild sinni að málinu.
Meðal rannsóknargagna sé skýrsla tæknideildar lögreglunnar þann 7. febrúar 2007 þar sem fram komi að við rannsókn málsins hafi fundist Marlboro vindlingur á svefnherbergisgólfi þar sem B hafi verið veittir áverkar. Þá segist B muna eftir því að annar mannanna hafi verið með sígarettur á meðan á árásinni stóð.
Það sé mat lögreglu að rökstuddur grunur liggi fyrir um meint brot kærða gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Miklu skipti fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að taka munnvatnssýni úr kærða til að nota í DNA rannsókn og bera saman við erfðaefni sem hafi fundist í áðurgreindum vindlingi. Kærði hafi neitað lögreglu um heimild til að taka munnvatnssýni, sbr. framburðarskýrslu sem tekin hafi verið af kærða 13. desember sl.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 1. mgr. 93. gr., sbr. 1. mgr. 92. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Í máli þessu liggur fyrir rökstuddur grunur um að tveir menn hafi ruðst inn í íbúð að A í Reykjavík að morgni laugardagsins 27. janúar 2007 og veist þar með harkalegum hætti að húsráðanda B. Er kærði annar þeirra aðila sem grunaður er um að hafa ruðst inn í íbúðina og veist að húsráðanda. Á vettvangi fannst vindlingur sem B kveður annan árásarmannanna hafa verið með. Kærði hefur neitað allri aðild að málinu eða að láta lögreglu í té munnvatnssýni í þágu rannsóknar málsins. Í ljósi þess að kærði er grunaður um aðild að málinu, sem varðað getur við 252. gr. laga nr. 19/1940, verður fallist á framkomna kröfu á grundvelli 1. mgr. 93. gr., sbr. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 19/1991.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er heimilt að taka munnvatnssýni frá X, [kt. og heimilisfang], í þágu rannsóknar máls nr. 007-2007-[...].