Hæstiréttur íslands

Mál nr. 79/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 27. maí 1999.

Nr. 79/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Óskari Daða Óskarssyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Bifreiðir. Ölvunarakstur.

Ó var ákærður fyrir ölvunarakstur, en lögregla hafði veitt bifreið hans eftirför og handtekið hann eftir að bifreiðin hafði verið stöðvuð. Neitaði Ó að hafa ekið bifreiðinni og sagðist hafa gengið að henni og staðið hjá henni er lögregla kom á vettvang. Héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að sannað væri með framburði lögreglumanna, þrátt fyrir neitun Ó, að hann hefði ekið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn. Um var að ræða aðra ítrekun á ölvunarakstursbroti. Var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans og Ó dæmdur til fangelsisvistar og ævilangrar sviptingar ökuréttar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, til vara að héraðsdómur verði ómerktur, en til þrautavara að refsing verði milduð og ökuleyfissviptingu markaður skemmri tími en í héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Óskar Daði Óskarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað af málinu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 1998.

Ár 1998, fimmtudaginn 17. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 835/1998: Ákæruvaldið gegn Óskari Daða Óskarssyni, sem tekið var til dóms 27. nóvember sl.

Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík dagsettu 29. september síðast liðinn gegn ákærða, Óskari Daða Óskarssyni, kt. 141173-3089, Engihjalla 3, Kópavogi, en dvalarstað að Hrauntungu 59, Kópavogi, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni RO-485, að kvöldi fimmtudagsins 11. júní 1998, undir áhrifum áfengis um Eiðisgranda í Reykjavík að Hringbraut 119.

Þetta telst varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar sbr. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga sbr. 25. gr. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”

I.

Samkvæmt frumskýrslu Sigursteins Steinþórssonar lögreglumanns, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, mættu tveir lögreglumenn á lögreglubifreið bifreiðinni RO-485 um kl. 22.20 að kvöldi fimmtudagsins 11. júní sl., er þeir óku suður Eiðsgranda við gatnamót Keilugranda.Segir í skýrslunni að sjáanlegt hafi verið að ökumaðurinn hafi ekki haft fullt vald á akstrinum og bifreiðin rásað til á götunni milli vegkanta, en henni hafi verið ekið nokkuð greitt. Þeir hafi því veitt bifreiðinni eftirför með bláum blikkandi ljósum og hafi ökumaðurinn ekið áfram norður Eiðsgranda og beygt til hægri við Hringbraut 119 inn í bifeiðastæði við það hús, stöðvað bifreiðina og drepið á vél hennar. Þar hafi verið haft tal af ökumanni, ákærða í máli þessu.Þar sem mikinn áfengisþef lagði frá kærða hafi hann verið beðinn um að koma yfir í lögreglubílinn sem hann hafi gert og þar látinn blása í öndunarprófsmæli, sem sýndi 3,40 ‰. Ökumanni hafi þá verið tilkynnt að hann væri handtekinn og jafnframt spurður um kveikjuláslykla að bílnum, sem hann kvaðst ekki vita hvar væru. Hann hafi sýnt þeim í vasa sína, en engir lyklar hafi verið þar. Leitað var að þeim í og við bifreiðina án árangurs. Bifreiðinni var læst og hún skilin eftir á vettvangi. Í skýrslunni er þess getið að ákærði hafi ekki viljað segja hvaðan hann var að koma og ekki hvaða áfengi hann hafi drukkið, en hann hafi sagst hafa drukkið áfengi. Var ákærði því næst færður á lögreglustöð og þar fyrir varðstjóra. Fram kemur í þeirri skýrslu að ákærði hafi neitað að hafa ekið bifreiðinni. Var hann síðan færður til töku blóðsýnis á Sjúkrahús Reykjavíkur þar sem honum var tekið blóðsýni til alkóhólrannsóknar kl. 23.58. Hann var síðan færður á ný fyrir varðstjóra sem tók skýrslu í tilefni þess. Samkvæmt endanlegri niðurstöðu hennar reyndist blóðsýnið innihalda 2,68 ‰ alkóhóls.

Við rannsókn málsins vildi ákærði ekki tjá sig um sakargiftirnar. Fyrir dómi hefur hann alfarið neitað sakargiftum. Kvaðst hann hafa verið á leið úr vinnu fyrr um kvöldið. Hann hafi ekið umræddri bifreið, RO-485, Toyota 4Runner, að hringtorginu við verslunina Nóatún, Hringbraut 119, og þar séð bíl kunningja síns, Jóhannesar Jenssonar, fyrir utan Nóatún. Hann hafi ekið inn á planið við verslunina og stöðvað þar. Þar hafi þeir rætt saman í einhvern tíma og síðan farið saman á bifreið Jóhannesar að veitingastaðnum Rauða Ljóninu. Þar hafi þeir verið allt kvöldið. Þegar ákærði fór af staðnum kvaðst hann hafa verið búinn að drekka það mikið að hann hafi kosið að ganga að Nóatúni til að ganga úr skugga um það að allt væri í lagi með bíl sinn og svo ætlað að hringja á leigubíl úr farsíma, sem hann var með á sér. Þá hafi lögreglubíl verið ekið á fullri ferð með bláum ljósum inn á planið er hann stóð við bílinn, hurðum hennar hrundið upp og hann handtekinn af tveimur lögregluþjónum, manni og konu. Kvaðst ákærði ekki muna hvar hann stóð þá. Hann kvaðst ekki hafa farið inn í bílinn, enda hafi hann ekki haft lykla að honum. Er ákærða var bent á það að samkvæmt frumskýrslu lögreglu hefði lögregla læst bílnum áður en hún fór af vettvangi sagði ákærði að hann verið búinn „að opna bílinn”, topplúga hans hafi verið opin, hann hefði gleymt að loka henni.Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa gengið í fylgd með einhverjum leiðina frá Rauða Ljóninu og að bifreiðinni og sagði að enginn hefði verið inni í henni er lögreglan kom á vettvang.

Ákærði kvaðst ekki hafa verið með lykla að bifreiðinni þar sem eiginkona hans hefði komið á Rauða Ljónið og sótt hjá sér lyklakippu með húslyklum og bíllykli, þar sem hún hafði ekki húslykla til þess að komast inn heima hjá þeim. Kvað ákærði að þau hafi aðeins átt einn kveikjuláslykil að bílnum. Ákærði vildi taka það fram að margir jepparþessarar gerðar væru til á landinu, einkum vínrauðir, sem sé sá litur sem er á hans jeppa.

Sigursteinn Steinþórsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti efni frumskýrslu sinnar. Lýsti hann aðdraganda að handtöku ákærða á sama veg og þar kemur fram. Hann kvaðst hafa ekið bifriðinni en með honum hafi verið Guðlaug María Valdimarsdóttir lögreglukona. Þau hafi mætt bílnum á Eiðsgrandanum nálægt Grandavegi og fylgt honum eftir án þess að missa af honum sjónir uns akstrinum lauk við Nóatún. Þar hafi hann stöðvað lögreglubifreiðina fyrir aftan bílinn og farið strax út og að bíl ákærða og hann þá setið undir stýri, greinilega mikið ölvaður. Sigursteinn kvaðst ekki hafa orðið mannaferða var þarna á stæðinu eða í námunda við bílinn, hann hafi einbeitt sér að því að fylgjast með þessum eina bíl og hugsað um að stöðva hann, handtaka ökumanninn og koma honum á lögreglustöð. Enginn annar en ákærði hafiverið inni í bílnum eða við hliðina á honum. Hann kvað engan möguleika vera á því að þau hafi farið mannavillt eða tekið bifreið ákærða í misgripum fyrir aðra bifreið. Þótt hann hefði ef til vill litið af jeppanum sem hann mætti örstutta stund á meðan hann sneri lögreglubílnum við til að hefja eftirförina, hafi hann séð sama jeppann og bílnúmerið fyrir og eftir að hann sneri bílnum við. Lögreglubílnum hafi verið ekið örfáa metra á eftir bifreið ákærða í eftirförinni, eins nærri henni og hann þorði án þess að valda hættu.

Sigursteinn kvaðst ekki muna hvort þau könnuðu vél bifreiðarinnar, en slíkt sé ekki venja þegar um beina eftirför sé að ræða og ökumenn stöðvaðir í akstri, eins og hér hafi staðið á. Ökumaðurinn hafi ekki haft neinn möguleika á að komast út úr bílnum áður en hann var handtekinn og enginn annar hafi verið í bílnum.

Fram kemur í skýrslu varðstjóra að hún hafi verið tekin af ákærða kl. 00.00 og lokið 00.30, en undir þessa skýrslu skrifaði vitnið sem vottur. Á blóðtökuvottorði kemur fram að tekið hafi verið blóð úr ákærða kl. 23.58, en undir það vottorð er vitnið einnig vottur.Vitnið gat ekki gefið skýringu á því að aðeins 2 mínútur skilur frá því er blóðtakan fór fram og skýrslutakan hófst hjá varðstjóra.

Guðlaug María Valdimarsdóttir laganemi, sem starfaði sem lögregluþjónn síðastliðið sumar, bar í öllum meginatriðum fyrir dóminum á sama veg og vitnið Sigursteinn. Hún kvað tilkynningu hafa borist þess efnis frá stjórnstöð að hringt hefði verið þangað og tilkynnt um það að það væri hugsanlega ölvaður ökumaður að leggja af stað frá Eiðsgranda við Rauða Ljónið á bíl með tilteknu númeri, rauðum Toyota jeppa. Hún hafi skrifað niður númer bílsins og lýsingu á honum. Þau hafi ekið í átt að sjónum og komið niður að Ánanausti og ekið þar, beygt til suðurs í átt að hringtorginu að JL húsi, beygt fyrstu götu inn til hægri, Eiðsgranda, og ekið áfram suður. Er þau voru stödd hjá Grandavegi um það bil við Keilugranda hafi þau séð rauðan jeppa koma á móti þeim, og hafi honum verið ekið norður Eiðsgranda. Númerið á þessum bíl hafi verið það sama og hún skrifað niður og það sem stjórnstöð tilkynnti þeim. Þau hafi snúið við og sett á blá ljós og haldið á eftir bifreiðinni. Ökumaður hafi greinilega strax orðið þeirra var því hann hafi beygt inn á bílastæði við JL húsið og lagt þar í stæði. Sigursteinn hafi stöðvað lögreglubílinn fyrir aftan bílinn, stigið út úr lögreglubílnum, gengið að jeppanum og haft tal af ökumanni, sem síðan kom út úr bílnum. Á meðan hafi hún verið í lögreglubílnum og fylgst með á meðan Sigursteinn fór út og hafði tal af ákærða. Hann hafi verið einn í bílnum. Ökumaðurinn hafi komið með Sigursteini inn í lögreglubifreiðina og sýnt skilríki. Áfengislykt hafi verið af ökumanninum, sem var þvoglumæltur. Ekki hafi farið á milli mála að hann var undir áhrifum einhvers, líklegast áfengi, þar sem áfengislykt hafi verið af honum. Hann hafi verið látinn blása í mæli. Áfengismagnið hafiverið nægjanlegt til þess að handtaka hann. Ákærði hafi verið beðinn um að afhenda lykla að bifreiðinni. Hann hafi sagt að hann væri ekki með neina lykla, hváð og neitað að hafa verið að aka og verið furðu lostinn yfir því hvers vegna þau væru að stöðva hann. Kveikjuláslyklarnir hafi ekki fundist. Háttalag hans hafi verið mjög sérstakt. Eina stundina hafi hann sagt eitt og hina annað, ýmist verið samvinnuþýður eða hið gagnstæða. Annar lögreglubíll hafi komið á staðinn og leit hafist að kveikjuláslyklunum á svæðinu í kringum bílinn og undir honum svo og á graseyju fyrir framan vélarhlífina, þar sem grunur lék á því að ökumaðurinn hefði hent þeim frá sér. Einnig hafi verið litið inn í bílinn. Á meðan kvaðst vitnið hafa setið inni í lögreglubílnum hjá ákærða, en leitin hafi staðið stutt yfir. Vitnið kvað engan möguleiki vera á því að þau hafi tekið ákærða í misgripum fyrir annan bílstjóra á svipuðum eða sams konar bíl og þau mættu er eftirförin hófst, þau hafi verið það stutt á eftir honum. Ekki hafi farið á milli mála allan tímann að það var einn maður í bílnum og sama bifreiðanúmer hafi verið á þeirri bifreið sem þau mættu og á þeirri bifreið sem þau stöðvuðu við JL húsið. Framburður vitnisins við rannsókn málsins er í samræmi við framburð hennar fyrir dómi.

Báðir lögreglumennirnir báru kennsl á ákærða fyrir dómi.

Sambýliskona ákærða, Erna Ósk Brynjólfsdóttir, kom fyrir dóm og staðfesti að hún hefði fengið kveikjuláslyklana að bifreiðinni RO-485 hjá ákærða á Rauða Ljóninu umrætt kvöld. Hún kvaðst hafa gleymt lyklunum sínum heima um morguninn og farið þangað til að fá lykla að húsinu. Hún hafi fengið lyklakippu hjá ákærða, en á þeirri kippu væru allir lyklarnir á þessari kippu. Bar hún að aðeins hefði verið til einn lykill að bílnum frá því að ákærði keypti hann notaðan.

Vitnið Ólafur Ólafsson kom einnig fyrir dóminn. Hann bar að hann hafi verið þetta kvöld á Rauða Ljóninu og þar hafi hann hitt ákærða. Staðfesti hann að hann hefði séð þegar sambýliskona hans kom á staðinn. Hann kvaðst ekki vita hvað þeim fór á milli, en þau hafi rætt eitthvað saman. Hann hafi séð að ákærði afhenti henni lyklakippu. Þeir ákærði hafi setið saman við borð og orðið samferða út. Vitnið kvaðst hafa tekið leigubíl þar fyrir utan en ákærði gengið eitthvert í burtu. Ákærði hafi verið drukkinn. Vitnið kvaðst þekkja ákærða þar sem fyrirtæki vitnisins og fyrirtækið sem ákærði vinnur hjá séu í samstarfi.

Vitnið Jóhannes Jensson, kvaðst hafa hitt ákærða um fimmleytið þennan dag við verslunina Nóatún við Hringbraut. Ákærði hafi komið akandi og tekið hann tali. Þeir hafi svo farið á bíl vitnisins að Rauða Ljóninu, en ákærði hafi skilið bifreið sína eftir við Nóatún. Einhverjir samstarfsfélagar ákærða hafi verið þar fyrir.Jóhannes kvaðst hafa verið þar í einn til einn og hálfan tíma og farið svo heim, en ákærði þá orðið eftir á staðnum.

III.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sakargiftum. Hann hefur haldið því fram að hann hafi staðið fyrir aftan bifreið sína, er lögregluna bar að garði. Bifreiðina hafi hann skilið eftir um kl. 17.00 þennan dag og farið með félaga sínum að Rauða ljóninu þar sem hann hóf drykkju og drakk fram á kvöld. Hann hafi gengið síðar um kvöldið frá skemmtistaðnum að bifreiðinni þar sem hann skildi hana eftir og staðið við hana er lögreglan kom á staðinn. Ákærði var þá einn síns liðs.Þegar litið er til trúverðugs framburðar tveggja lögreglumanna, sem hafa báðir borið fyrir dómi að ákærði hafi verið undir stýri bifreiðarinnar er þeir stöðvuðu hana, í kjölfar eftirfarar frá Eiðsgranda, svo og þegar niðurstaða alkóhólrannsóknar er virt, þykir fyllilega sannað þrátt fyrir neitun ákærða að hann hafi ekið bifreiðinni RO-485, að kvöldi fimmtudagsins 11. júní 1998, undir áhrifum áfengis um Eiðsgranda í Reykjavík að Hringbraut 119, eins og honum er gert að sök í ákæru. Breytir hér engu þótt kveikjuláslyklar hafi ekki fundist á vettvangi, enda hafði ákærði færi á því að koma þeim undan áður en hann var handtekinn. Sú staðhæfing ákærða og sambýliskonu hans um það að einungis hafi verið til einir kveikjuláslyklar af bifreiðinni er ótrúverðug og ósönnuð.

Frá 18 ára aldri ákærða hefur hann tvívegis gengist undir lögreglustjórasátt, í fyrra skiptið 31. ágúst 1993 með greiðslu sektar og sviptingu ökuleyfis í 12 mánuði fyrir ölvun við akstur 30. maí sama ár og í það síðara, 29. mars 1995, með greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir ölvun við akstur og akstur án ökuréttar 4. mars 1995. Með broti sínu í síðara skiptið ítrekaði hann ölvunarakstur sinn og bar því að svipta hann ökurétti í 3 ár. Ákærði hefur nú í annað sinn ítrekað ölvunarakstursbrot sitt. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Þá ber að dæma ákærða eftir lagaákvæðum þeim sem í ákæru greinir til ævilangrar sviptingar ökuréttar frá birtingu dóms þessa að telja.

Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 35.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.

Dómsorð:

Ákærði, Óskar Daði Óskarsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 35.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.