Hæstiréttur íslands

Mál nr. 596/2015

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Sigurði Brynjari Jenssyni (Oddgeir Einarsson hrl.),
(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður brotþola )

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Frelsissvipting
  • Gripdeild
  • Nauðung
  • Fíkniefnalagabrot
  • Vopnalagabrot
  • Umferðarlagabrot
  • Svipting ökuréttar
  • Upptaka
  • Miskabætur

Reifun

S var sakfelldur fyrir brot gegn 245. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa svipt A og B frelsi sínu á heimili þeirra og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmsa muni. Þá var S jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 225. gr. sömu laga með því að hafa haldið C nauðugum í íbúðarhúsnæði og gefið honum rafstuð víðsvegar um líkamann með rafstuðbyssu. Loks var S sakfelldur fyrir fjölmörg umferðar-, fíkniefna- og vopnalagabrot. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til sakarferils hans og ungs aldurs. Var refsing hans ákveðin eftir reglum 77. gr. áðurgreindra laga og honum gert að sæta fangelsi í 18 mánuði en til frádráttar refsingunni kom gæsluvarðhald sem hann hafði sætt. Þá var S gert að greiða brotaþolum miskabætur ásamt meðákærðu, auk þess hann var sviptur ökuréttindum í 18 mánuði og gert að sæta upptöku á fíkniefnum og kjöthamri.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2015 og 18. janúar 2016 dómi Héraðsdóms Reykjaness 20. júlí 2015 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember sama ár í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun. Fyrir Hæstarétti hafa málin verið sameinuð. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinir áfrýjuðu dómar verði staðfestir að öðru leyti en því að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess varðandi dóm 20. júlí 2015 að refsing hans verði milduð. Varðandi dóm 21. desember sama ár krefst ákærði þess að hann verði sýknaður af 1. lið ákæru 9. nóvember 2015 en að refsing hans verði að öðru leyti milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar.

Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Brotaþoli, B, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.700.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

I

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 20. júlí 2015 var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir brot  gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa gefið C rafstuð víðs vegar um líkamann með rafstuðbyssu. Var það mat dómsins að notkun á rafstuðbyssunni hafi verið sérstaklega hættuleg þótt líkamlegar afleiðingar hafi ekki reynst miklar.

Samkvæmt vitnisburði D, prófessors við verkfræðideild Háskóla Íslands, fyrir héraðsdómi er umrædd rafstuðbyssa sem slík ekki hættuleg nema henni sé beitt á rangan hátt, nálægt hjarta og höfði og við síendurtekna notkun, en hann gerði þann fyrirvara á vitnisburði sínum að hann væri ekki læknisfræðilega menntaður.

Í 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga segir meðal annars að ef brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þar á meðal tækja sem notuð eru, getur það varðað allt að 16 ára fangelsi. Í málinu liggja ekki fyrir óyggjandi gögn um að notkun rafstuðbyssunnar umrætt sinn hafi verið sérstaklega hættuleg þannig að brot ákærða verði heimfært undir framangreint ákvæði almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu og þar sem brotið rúmast innan verknaðarlýsingar ákæru verður það heimfært undir 1. mgr. 217. gr. laganna, en vörn ákærða hefur ekki verið áfátt að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en refsingu ákærða.

II

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2015 var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir frelsissviptingu, sbr. 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga, og rán, sbr. 252. gr. sömu laga. Samkvæmt ákæru var ákærða meðal annars gefið að sök að hafa svipt brotaþolana A og B frelsi sínu í þeim tilgangi að endurheimta lyf sem meðákærði E taldi þau hafa stolið frá sér. Í beinu framhaldi af þeirri frelsissviptingu hafi ákærði og meðákærði tekið ófrjálsri hendi og haft á brott með sér fartölvu, farsíma, tölvuflakkara, seðlaveski og fatnað í eigu brotaþola. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sannað sé að ákærði hafi í félagi við meðákærða tekið umrædda muni ófrjálsri hendi.

Samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga skal sá sæta fangelsi eigi skemur en 6 mánuði og allt að 10 árum sem með líkamlegu ofbeldi eða hótun um að beita því þegar í stað tekur af manni eða neyðir út úr manni fjármuni eða önnur verðmæti, kemur undan hlut, sem verið er að stela, eða neyðir mann til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem hefur í för með sér fjárhagstjón fyrir þann mann eða aðra. Hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu getur refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi. Samkvæmt verknaðarlýsingu þeirri sem að framan er lýst um að ákærði hafi ásamt meðákærða, í kjölfar frelsissviptingar brotaþola, tekið framangreinda muni ófrjálsri hendi verður ekki talið að hún falli undir 252. gr. laganna. Á hinn bóginn er þar lýst háttsemi sem er refsiverð eftir 245. gr. sömu laga. Verður brot ákærða heimfært undir það lagaákvæði, enda hefur vörn ákærða heldur ekki verið áfátt að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða með vísan til forsendna hans. Þá verða ákvæði dómsins um upptöku og sakarkostnað staðfest.

III

Ákærði á þrátt fyrir ungan aldur þó nokkurn sakarferil að baki og er honum lýst í hinum áfrýjuðu dómum. Með þeim brotum sem ákærði var dæmdur fyrir í hinum áfrýjaða dómi frá 20. júlí 2015 var hann talinn hafa rofið skilorð dóma frá 27. febrúar 2013 og 11. mars sama ár og voru þeir dómar dæmdir upp og refsing dæmd í einu lagi. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 14 mánuði, þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir. Með þeim brotum sem ákærði var dæmdur fyrir í hinum áfrýjaða dómi frá 21. desember 2015 rauf hann skilorð dómsins 20. júlí 2015 og var sá dómur tekinn upp og refsing dæmd í einu lagi. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.

Við ákvörðun refsingar ákærða fyrir þau brot, sem hann er nú sakfelldur fyrir, verður litið til sakarferils hans og ungs aldurs. Verður refsing hans, sem tiltekin verður eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti annars vegar frá 13. til 26. ágúst 2014 og hins vegar frá 17. til 24. ágúst 2015.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir frelsissviptingu gagnvart brotaþolum og var hún ólögmæt meingerð gegn frelsi og friði þeirra. Verður honum því gert að greiða þeim miskabætur hvoru fyrir sig að fjárhæð 300.000 krónur óskipt með meðákærða ásamt vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði greiði brotaþolum, hvorum fyrir sig, 100.000 krónur í málskostnað við að halda kröfum sínum fram hér fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði verður dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem er í heild 604.487 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Héraðsdómur 20. júlí 2015 skal vera óraskaður um annað en refsingu ákærða, Sigurðar Brynjars Jenssonar.

Héraðsdómur 21. desember 2015 skal vera óraskaður um annað en refsingu ákærða og einkaréttarkröfu brotaþola.

Ákærði sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald hans frá 13. til 26. ágúst 2014 og frá 17. til 24. ágúst 2015.

Ákærði greiði brotaþolum, A og B,  óskipt með E, hvoru fyrir sig, 300.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði greiði brotaþolum, hvoru fyrir sig, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar, sem er í heild 604.487 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júlí 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. júní 2015, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 19. ágúst 2014, á hendur F, kt. [...], [...], „fyrir eftirtalin brot framin á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2013 og 2014:

I.

Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa:

1. Að kvöldi laugardagsins 5. apríl 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Skipholt við Nóatún í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. M. 007-2014-[...].

2. Mánudaginn 7. apríl 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti austur Breiðholtsbraut við Skógarsel í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. M. 007-2014-[...]

3. Laugardaginn 31. maí 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Seljaveg við Vesturgötu  í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. M. 007-2014-[...]

4. Miðvikudaginn 2. júní 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti við Austurberg  í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. M. 007-2014-[...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007. Teljast brotin í ákærulið  I. 1. 2. 3. og 4 varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007.

II.

5. Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 12. nóvember 2013 haft í vörslum sínum að [...] 1,76 g af MDMA (ecstasy), sem lögregla fann eftir leit. M. 007-2013-[...].

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

6. Fyrir fíkniefna- og vopnalagbrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 24. febrúar  2014 haft í vörslum sínum á dvalarstað að [...],  0,74 g af amfetamíni, 1,28 g af maríhúana-kannabis og 4,05 af tóbaksblönduðu maríhúana-kannabis, og jafnframt á sama tíma átt og haft í  vörslum sínum hnúajárn, sem lögregla fann eftir leit. M. 007-2014-[...].

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og 2. mgr. c. lið 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

III.

Fyrir líkamsárás, með því að hafa:

7. Miðvikudaginn 19. febrúar 2014, utandyra við gám að [...] veist að G, kt. [...], með því að slá hann nokkur hnefahögg í andlitið, eftir að hann féll í jörðina, allt með þeim afleiðingum að G hlaut glóðarauga á hægra auga, yfirborðsáverka á nefi, mar á augnloki og augnsvæði, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs, hrufl á úlnlið og hendi og mar á læri og olnboga. M. 007-2014-[...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

8. Laugardaginn 15. mars 2014 inni í strætisvagni á leið frá Hamraborg í Kópavogi að Kringlunni í Reykjavík, í tvígang slegið vagnstjórann H, kt. [...], hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að tönn nr. 23 (incicalt) brotnaði. M. 007-2014-[...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

IV.

Fyrir þjófnað, með því að hafa:

9. Miðvikudaginn 19. febrúar 2014, í verslun  [...] við [...], Hafnarfirði, í félagi við I, stolið [...] að verðmæti 3.599 krónur. M. 007-2014-[...].

10. Miðvikudaginn 19. febrúar 2014, í verslun [...] við [...], Reykjavík, í félagi við I, stolið [...] að verðmæti 3.899 krónur. M. 007-2014-[...].

11. Miðvikudaginn 19. febrúar 2014, fyrir utan [...], opnað heimildarlaust vélarhlífina af bifreiðinni [...] og stolið þaðan rafgeymi úr bifreiðinni. M. 007-2014-[...].

12. Fimmtudaginn 20. febrúar 2014, í verslun [...] við  [...] í Reykjavík, stolið a[...] ð verðmæti 3.670 krónur. M. 007-2014-[...].

Teljast brotin í ákærulið IV. 8 til 12 varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að 1,76 g af MDMA (ecstasy),  0,74 g af amfetamíni, 1,28 g af maríhúana-kannabis og 4,05 af tóbaksblönduðu maríhúana-kannabis, sem lagt var hald á, verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, og hnúajárn verði gert upptækt samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.“

Einkaréttarkröfur:

Í hdl, f.h. [...], kt. [...], gerir þá kröfu að ákærða verði gert að greiða skaðabætur, svo sem hér greinir:

a. Að fjárhæð 3.599 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi 19. febrúar 2014 en eftir það dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. M. 007-2014-[...].

b. Að fjárhæð 3.899 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi 19. febrúar 2014 en eftir það dráttarvaxta skv.  9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. M. 007-2014-[...].

c. Að fjárhæð 3.670 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi 20. febrúar 2014 en eftir það dráttarvaxta skv.  9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. M. 007-2014-.[...]

Af hálfu brotaþola H, kt. 070669-[...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta  skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi, sem var 15. mars 2014, en síðan dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins. M. 007-2014-[...].

Ákærði játaði sök í ákæruliðum I.3, I.4, II.5, II.6 og IV.11 og samþykkti upptökukröfur. Ákærði neitaði sök í ákæruliðum I.1, I.2, III.7, III.8, IV.9, IV.10 og IV.12 og hafnaði bótakröfum. Í þeim ákæruliðum þar sem játað var sök og í ákæruliðum I.1 og I.2 var krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Í ákæruliðum III.7, IV.9., IV.10 og IV.12 var krafist sýknu en til vara vægustu refsingar sem völ væri á og að bótakröfu yrði vísað frá dómi. Í ákærulið III.8 var krafist sýknu, til vara að háttsemin yrði felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og til þrautavara að ákærða yrði gerð sú vægasta refsing sem völ er á og að bótakröfu væri vísað frá dómi en til vara að hún yrði stórlega lækkuð.

Undir rekstri málsins voru sameinaðar málinu eftirfarandi sjö ákærur samkvæmt heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála í héraði.

Ákæra, útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 23. september 2014, á hendur F, kt., [...] [...] , „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 3. júlí 2014, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti suður Hálsabraut í Reykjavík á móts við verslunina [...], þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði játaði sök og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ákæra, útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 8. október 2014, á hendur F, kt. [...],[...], „fyrir skjala- og umferðarlagabrot með því að hafa laugardaginn 9. ágúst 2014 ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna henni örugglega (amfetamín í blóði mældist 1100 ng/ml, MDMA 30 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,4 ng/ml) sviptur ökurétti, ótryggðri og á röngum skráningarmerkjum [...], sem ákærði hafði komist yfir, frá Depluhólum vestur Höfðabakka á móts Fálkabakka í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 157. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a,  1. mgr. 48. gr., og 1.  mgr. 93., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Ákærði játaði sök í umferðarlagabrotum og krafðist vægustu refsingar sem völ væri á og að sviptingu ökuréttinda yrði markaður skemmsti tími sem lög leyfi. Ákærði neitaði sök um skjalabrot skv. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og krafðist sýknu.

Ákæra, útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 9. janúar 2015, á hendur F, kt. [...], [...] „fyrir eftirtalin brot, framin á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2014:

I.

Hegningarlagabrot:

1. Fyrir líkamsárás, með því að hafa þriðjudaginn 25. nóvember á bifreiðastæði við [...], í Reykjavík, veist að J, kt. [...], sem sat í bifreiðinni [...], með því að slá hana ítrekað hnefahögg í andlitið, höfuðið og á hendur og úlnlið, allt með þeim afleiðingum að J hlaut mar á augnloki og augnsvæði, blóðnasir, heilahristing, mar á úlnlið og hönd, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs og brot í aftasta jaxl í efri góm hægra megin, (brotið mesialt úr tönn 16). M. 007-2014-[...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

2. Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 8. október í versluninni [...] í Kópavogi, stolið í félagi við K, L og M, 5 brúsum af stíflueyði af gerðinni One-Shot að andvirði 14.975 krónur, með því að ákærði F stakk inn á sig 2 brúsum af stíflueyði af gerðinni One-Shot, og K setti 3 brúsa í tösku hjá L og yfirgefið verslunina án þess að greiða fyrir vörurnar. M. 007-2014-[...].

Telst þetta varða við 244. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa:

3. Fimmtudaginn 27. nóvember haft í vörslum sínum 1,89 g af tóbaksblönduðu-kannabis, sem lögregla fann eftir handtöku ákærða, og 3,53 g af kókaíni sem fundust í fangageymslu sem ákærði var vistaður í á lögreglustöðinni Hverfisgötu 115 í Reykjavík. M. 007-2014-[...].

4. Þriðjudaginn 2. desember haft í vörslum sínum 6,32 g af amfetamíni og 4,06 g af kannabis-hassi, sem lögregla fann eftir leit á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 115 í Reykjavík. M. 007-2014-.[...]

Teljast brotin í ákærulið II. 3 og 4 varða við  2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitaði sök í ákærulið I.1 og krafðist þess að verða sýknaður, en til vara að háttsemin yrði felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði neitaði sök í ákæruliðum I.2 og II.3 og krafðist sýknu. Undir rekstri málsins féll ákæruvaldið frá ákæru um vörslur á 1,89 g af tóbaksblönduðu-kannabis sem um getur í ákærulið II.3. Ákærði játaði sök í ákærulið II.4 og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ákæra, útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 26. mars 2015, á hendur F, kt. [...],[...], „fyrir eftirtalin brot, framin á árinu 2014:

1. Fyrir brot á áfengislögum, með því að hafa á tímabilinu frá september til  október 2014, á heimili sínu í félagi við föður sinn N að [...], hafið framleiðslu ólöglegs áfengis  (landa), sem var ætlað til sölu, með því að framleiða þar 34 lítra af landa sem innihélt 25 % v/v etanóls, en lögregla gerði þar húsleit fimmtudaginn 30. október 2014 og í bifreið ákærða VR-447, en 6 flöskur af landa fundust á heimili ákærða og 30 í bifreiðinni [...], samtals 34 lítrar.  M. 008-2014-[...].

Telst þetta varða við a-lið 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. og. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

2. Fyrir brot á barnaverndarlögum, með því að hafa mánudaginn 1. desember 2014 stuðlað að og hvatt barn, O, kt. [...],  sem þá var 17 ára til neyslu fíkniefna og lyfja (kannabis, LSD og Mogadon) en ákærði fékk O til að koma að dvalarstað sínum að [...] í Kópavogi til fíkniefna- og lyfjaneyslu, en ákærði kvaðst hafa fíkniefni og lyf (LSD, Mogadon) til neyslu fyrir O, og þannig stefnt heilsu og þroska O í alvarlega hættu. M.  007-2015-[...].“

Telst þetta varða við 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga  nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á 34 lítrum af landa ásamt ílátum (flöskum), suðutæki og alkóhólmæli, sbr. 28. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

Ákærði neitaði sök í báðum ákæruliðum og krafðist þess að verða sýknaður af þeim.

Ákæra útgefin af ríkissaksóknara þann 13. febrúar 2015, á hendur F kennitala [...], [...], Ó, kennitala [...], og P, kennitala [...], „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu og rán, með því að hafa, að morgni mánudagsins 24. febrúar 2014 að [...] í Kópavogi, veist í félagi að R, í íbúð hans þar sem ákærði P tók hann kverkataki og sló hann í andlitið, ákærði F sló R með Playstation leikjatölvu í andlitið, og eftir að hann féll í gólfið vegna atlögu ákærðu slógu allir ákærðu hann ítrekað í höfuð og líkama og spörkuðu í líkama hans, og síðar eftir að hann var risinn upp slógu ákærðu hann ítrekað og ákærði F veittist að honum með skærum og stakk hann ítrekað í upphandleggina og axlirnar og sló hann með 90 sm priki í vinstra lærið, og vinstri upphandlegg og hnefahöggi í andlitið. Við þetta hlaut R þreifieymsli og bólgu yfir hægra kinnbeini, mar yfir neðra augnloki og augabrún, bólgu yfir hægri hluta nefs, nefbrot, roða og eymsli á hálsi, mar og eymsli hægra megin á síðu, rifbeinsbrot og eymsli ofanvert á kvið, mar og eymsli á vinstra læri, sár neðan við hnéskel vinstra megin, mar og eymsli á vinstri olnboga, þrjú stungusár á hægri upphandlegg og eitt stungusár ofanvert á vinstri upphandlegg auk bólgu og roða á vinstri upphandlegg og áverka á hægri öxl.

Í tengslum við ofangreinda líkamsárás og í beinu framhaldi af henni með líkamlegu ofbeldi sem þar er lýst tóku ákærðu af R og höfðu á brott með sér, eftirfarandi verðmæti af heimili hans; Iphone 5S, Iphone hleðslutæki, Macbook-pro tölvu, Macintosh þráðlausa mús, þráðlaust lyklaborð, tvo flakkara af gerðinni Western Digital, Playstation leikjatölvu og Playstationleiki, Sony heimabíó og þrjá hátalara, kaffivél af gerðinni Ascaso, Animal íþróttatösku, íþróttafatnað og íþróttabúnað sem í töskunni var, dúnúlpu, Adidas jakka, Einhorn skyrtu, stígvél af gerðinni Grinders Attitude, Sony sjónvarpsfjarstýringu, fartölvutösku, Dell bakpoka, kveikjuláslykla, Apple fjarstýringu, Visa greiðslukort, Hugo Boss armbandsúr, Kenneth Cole armbandsúr, Guess gullúr, Fossil armbandsúr, svart leðurarmband, silfur hring, leðurveski, Wella professional hárskera með hleðslutæki og hárklippur af gerðinni Oyster professional.

Þá er öllum ákærðu gefið að sök að hafa svift R frelsi sínu í allt að eina og hálfa klukkustund meðan á framangreindu gekk.“

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa

Af hálfu R, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð 3.763.360 krónur, in solidum auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. febrúar 2014 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um hæfilega þóknun vegna starfa réttargæslumanns við gerð bótakröfu og vegna málflutnings fyrir héraðsdómi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Ákærði F krefst aðallega sýknu af öllum refsiákvæðum í ákæru, til vara að líkamsárásin verði felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og að rán verði til vara fellt undir eftirfarandi hlutdeild í þjófnaði. Þá var gerð krafa um að bótakröfu yrði vísað frá dómi en til vara að bótakrafan yrði lækkuð verulega.

Ákærði Ó krefst aðallega sýknu af öllum refsiáakvæðum í ákæru, til vara að hann verði sýknaður að hluta, og verði fallist á að um líkamsárás hafi verið að ræða, þá eigi hún undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Til þrautavara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá komi gæsluvarðhaldsvist frá 25. febrúar til 7. mars 2014 til frádráttar refsingu að fullri dagatölu. Einnig krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara sýknu af henni og til þrautavara verulegrar lækkunar hennar.

Ákærði P krefst aðallega sýknu af öllum refsiáakvæðum í ákæru, til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfi og að dómur verði að öllu leyti bundinn skilorði. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara sýknu af henni og til þrautavara verulegrar lækkunar hennar.

Ákæra, útgefin af ríkissaksóknara þann 13. febrúar 2015, á hendur S, kennitala[...] , F, kennitala [...], og Sigurði Brynjari Jenssyni, kennitala [...], Beykidal 6, Reykjanesbæ.

„1. Á hendur ákærðu öllum, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 6. ágúst 2014 að [...], veist í félagi að C með því að ákærði F sló C ítrekað í andlitið, síðan skiptust ákærðu allir á að slá C í andlitið og líkamann, spörkuðu í höfuð hans og gáfu honum rafstuð með rafmagnsvopni (rafstuðbyssu) oft og víðsvegar um líkama hans, þar á meðal í kynfærin, ákærði S sparkaði tvisvar í bak C. Ákærðu þvinguðu C til að sleikja egg og hráka upp af óhreinu gólfi íbúðarinnar, stungu hann í lærið með óhreinni sprautunál í því skyni að smita hann af lifrarbólgu C og neyddu hann til að drekka smjörsýru, auk þess að krefja C um 500.000  – 800.000 króna greiðslu sér til handa ella yrði honum nauðgað og hann beittur frekara ofbeldi. Meðan á framangreindu gekk sviptu ákærðu C frelsi sínu í rúma klukkustund. Af framangreindum líkamsmeiðingum hlaut C marblett á augnkrók vinstra auga, bólgu og mar á neðri vör, mar á vinstra læri, yfirborðsáverka á hálsi, skrámur á vinstri handlegg, hrufl á mjóbaki og roðarákir víðsvegar um bakið og rauða bletti víðsvegar um líkamann.“

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 225. gr., 226. gr. og 251., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

„2. Á hendur ákærða F fyrir brot gegn áfengislögum, með því að hafa á heimili sínu að [...], í júlí og ágúst 2014 hafið framleiðslu ólöglegs áfengis, með því að framleiða þar 198 lítra af gambra sem innihélt 18 % v/v etanóls þegar lögregla gerði þar húsleit 12. ágúst 2014.“

Telst þetta varða við 6. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á eftirfarandi munum og efnum sem haldlagt var í tengslum við húsleit lögreglu að [...], 12. ágúst 2014:

  1. Anabólískum sterum samtals 34 ml af stungulyfjum í glösum; 8 ml af Mesterolone, 8 ml af Sustanon, 7 ml af Trenbolone, 7 ml Testosteron og 4 ml af Boldenone. Upptökunnar er krafist með vísan til 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.
  2. Amfetamíni 0,21 g og 90 stk. af 30 ml plastglösum sem innihalda smjörsýru (gamma-hydroxybutyric acid). Upptökunnar er krafist með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
  3. Rafmagnsvopni, (rafstuðbyssu) með áletruninni F-403xingB eryong Chao Gao YaMai Chong. Upptökunnar er krafist með vísan til 1. mgr. 37. gr., sbr. c-lið 2. mgr. 30. gr., vopnalaga nr. 16/1998 og 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga.
  4. Tvíhleyptri haglabyssu af gerðinni Stevens, 3 stk. haglaskotum og loftskammbyssu P-23 Gamo ásamt meðfylgandi tösku og skotfærum. Upptökunnar er krafist með vísan til 1. mgr. 37. gr., sbr. 12. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Einkaréttarkrafa

Af hálfu C, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum in solidum 3.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 6. ágúst 2014 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafan var birt þeim, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Enn fremur er þess krafist að ákærðu greiði C útlagðan kostnað sem hann kann að verða fyrir vegna málsins og ekki liggur enn fyrir um, svo sem málskostnað, ef við á. Þá er gerð krafa um þóknun tilnefnds og síðar skipuðum réttargæslumanni til handa, sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði F krefst aðallega sýknu af báðum ákæruliðum en til vara að líkamsárásin í ákærulið 1 verði felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að bótakrafan verði lækkuð.

Ákærði S krefst aðallega sýknu af öllum refsiáakvæðum í ákæru en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 13. til og með 26. ágúst 2014 komi að fullu til frádráttar dæmdri refsingu að fullri dagatölu. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann verulegrar lækkunar hennar.

Ákærði Sigurður Brynjar Jensson krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 13. til og með 26. ágúst 2014 komi að fullu til frádráttar dæmdri refsingu. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann verulegrar lækkunar hennar.

Ákæra, útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 28. apríl 2015, á hendur Sigurði Brynjari Jenssyni, kt. [...], Beykidal 6, Reykjanesbæ, „fyrir eftirtalin umferðar-, fíkniefna- og vopnalagabrot, með því að hafa á árinu 2015:

1. Mánudaginn 12. janúar ekið bifreiðinni UX-153 án gildra ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 255 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,1 ng/ml) um Lækjargötu í Reykjavík, við Stjórnarráðið, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn og fyrir að hafa haft í vörslum sínum kjöthamar, sem lögreglumenn fundu við leit í bifreiðinni UX-153. M.007-2015-[...].

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og c. lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

2. Fimmtudaginn 15. janúar ekið bifreiðinni UX-153 án gildra ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist metýlfenídat 35 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,2 ng/ml) vestur Reykjanesbraut í Garðabæ, norðan við Álftanesveg, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. M.007-2015-[...].

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

3. Laugardaginn 17. janúar ekið bifreiðinni UX-153 án gildra ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist metýlfenídat 60 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,1 ng/ml) suður Stekkjarbakka í Reykjavík, til móts við Mjóddina, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. M.007-2015-.[...]

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum

4. Mánudaginn 6. apríl, í Borgartúni 33 í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,84 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit á ákærða. M.007-2015-.[...]

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006. Krafist er upptöku á 0,84 g af amfetamíni, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á kjöthamri sem lögregla lagði hald á, með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.“ Ákærði játaði sök í öllum ákæruliðum og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa.

I

Undir rekstri málsins komu fram eftirfarandi kröfur, sem leyst var úr með úrskurðum, sbr. 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Úrskurður, dags. 14. janúar 2015, þar sem gerð var krafa um að hafnað yrði framlagningu rannsóknargagna. Úrskurður, dags. 19. janúar 2015, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 63/2015, þar sem ákærandi gerði þá kröfu að ákærði F viki úr þinghaldi meðan þrjú nafngreind vitni gæfu skýrslu. Úrskurður, dags. 6. febrúar 2015, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 107/2015, þar sem gerð var krafa um að hafnað yrði framlagningu rannsóknargagna. Úrskurður, dags. 29. apríl 2015, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 316/2015, þar sem gerð var sú krafa af hálfu réttargæslumanns og ákæranda að allir ákærðu málsins vikju úr þinghaldi meðan tveir brotaþolar málsins gæfu skýrslu.

Auk þeirra krafna sem að framan greinir var gerð sú krafa að hálfu ákærða F, að gæsluvarðhaldsvist hans í tengslum við öll framangreind mál kæmi til frádráttar refsingu hans að fullri dagatölu. Um væri að ræða gæsluvarðhald frá 25. febrúar 2014 til 7. mars 2014, gæsluvarðhald frá 13. ágúst 2014 til 27. ágúst 2014 og gæsluvarðahald sem ákærði hefur mátt sæta samfellt frá 2. desember 2014 til dagsins í dag.

Allir verjendur málsins gerðu kröfu um málsvarnarlaun sér til handa og gerðu kröfu um að þau greiddust úr ríkissjóði í samræmi við framlagðar tímaskýrslur og að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Verjendur ákærðu S og Sigurðar Brynjars gerðu þá kröfu, að jafnvel þó svo að skjólstæðingar þeirra yrðu sakfelldir í málinu, þá bæri að greiða hluta málsvarnarlauna úr ríkissjóði, þar sem vegna sameiningar málanna hafi viðvera verjenda í dómsal orðið mun meiri en ella hefði þurft að vera, umbjóðendum þeirra til tjóns.

Verjandi ákærða F, gerði kröfu um þóknun til handa Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hrl., verjanda ákærða á rannsóknarstigi, úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða S, gerði kröfu um þóknun til handa Jóni Bjarna Kristjánssyni hdl., verjanda ákærða á rannsóknarstigi, úr ríkissjóði.

Diljá Mist Einarsdóttir hdl. skipaður réttargæslumaður R gerði þá kröfu að henni og Guðrúnu Birgisdóttur hrl., sem áður var skipaður réttargæslumaður brotaþola, yrði greidd þóknun úr ríkissjóði í samræmi við framlagðar tímaskýrslur.

Bragi Dór Hafþórsson hdl., skipaður réttargæslumaður brotaþola C gerði kröfu um að honum og Arnari Þóri Stefánssyni hrl., réttargæslumanni brotaþola á rannsóknarstigi yrði greidd þóknun úr ríkissjóði, í samræmi við framlagðar tímaskýrslur.

Í þeim ákærum og/eða ákæruliðum þar sem neitað var sök verða raktir málavextir, og raktar skýrslur fyrir dómi eftir því sem þurfa þykir og niðurstöður hverrar ákæru og/eða ákæruliðar.

Aðalmeðferð málsins fór fram um eftirfarandi ákærur og ákæruliði: Ákæru útgefna 19. ágúst 2014, ákæruliðir I.1, I.2, III.7, III.8, IV.9, IV.10 og IV.12. Skjalafals í ákæru útgefinni 8. október 2014. Ákæruliði I.1, I.2 í ákæru útgefinni 9. janúar 2015, og um 3,53 g af kókaíni í ákærulið II.3. Ákæru útgefna 26. mars 2015 og báðar ákærur ríkissaksóknara, útgefnar 13. febrúar 2015.

II

Um málavexti að því er varðar ákærur og/eða ákæruliði sem ákærðu játuðu samkvæmt framangreindu, er vísað til lýsinga í ákærum.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða F, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem um getur í ákæru útgefinni 19. ágúst 2014, ákæruliðir I.3, I.4, II.5., II.6 og IV.11, háttsemi í ákæru útgefinni 23. september 2014, umferðarlagabrot í ákæru útgefinni 8. október 2014, og háttsemi í ákærulið II.4 í ákæru útgefinni 9. janúar 2015, samkvæmt framansögðu og eru brotin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærum.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða Sigurðar Brynjars, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem um getur í ákæru útgefinni 28. apríl 2015, samkvæmt framansögðu, og eru brotin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæra útgefin 19. ágúst 2014, ákæruliður I.1 og I.2

Málavextir:

Ákærði var tvívegis stöðvaður af lögreglu og gefið að sök að hafa ekið í umrædd skipti, sviptur ökurétti. Ákærði viðurkenndi akstur sinn, en þar sem ekki hafi verið búið að birta honum gögn um að hann hafi áður verið sviptur ökurétti, taldi hann sig enn hafa þau réttindi.

Meðal framlagðra gagna málsins er afrit Héraðsdóms Reykjavíkur, mál nr. S-[...]/2014, en á það skjal hefur verið fært að dómurinn hafi verið birtur dómþola þann 25. febrúar 2014.

Skýrslur fyrir dómi:

Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið að aka bifreiðinni í umrædd tvö skipti. Hann hafi hins vegar ekki vitað að hann væri sviptur ökuréttindum, enda ekki búið að birta honum dóm um sviptingu þeirra. Borinn var undir ákærða dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu S-[...]/2014 og hvort undirskrift hans kæmi þar fram um að honum hafi verið birtur dómurinn þann 25. febrúar 2014. Ákærði kvaðst ekki kannast við þá undirritun, enda væri undirskriftin bara krot og ef þetta væri undirritun hans hafi ástand hans ekki verið gott í umrætt sinn. Hann bar því við að hann vissi ekki að hann væri búinn að skrifa undir og hafi þann dag verið „dópaður eða eitthvað“.

Niðurstöður:

Í málinu liggur fyrir afrit framangreinds héraðsdóms með staðfestingu þess lögreglumanns sem birti dóminn. Með þeim dómi var ákærði sviptur ökurétti í 2 ár og 6 mánuði. Samkvæmt lögjöfnun frá 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála telst birting rétt nema hið gagnstæða sannist, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar frá 4. júní 2015 í máli nr. 260/2014. Ákærði hefur engar sönnur fært fram til að hnekkja því sem fram kemur í vottorðinu og virðist í raun ekki ótiloka að hann hafi skrifað undir framangreinda birtingu en muni ekki eftir því vegna fíkniefnaneyslu. Verður því við það að miða að ákærði hafi verið sviptur ökurétti þann 25. febrúar 2014 og telst því sannað að ákærði hafi ekið án ökuréttinda þann 5. og 7. apríl 2014 eins og í ákæru greinir og eru brot hans réttilega heimfærð til 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. 

Ákæra útgefin 19. ágúst 2014, ákæruliður III.7.

Málavextir:

Tilkynning barst lögreglu um að brotist hefði verið inn í gáma aftan við starfsstöð fyrirtækis að [...] í Hafnarfirði. Hafi tilkynnandi staðið tvo menn að verki en þegar hann hafi spurt þá hvað þeir væru að gera hafi annar mannanna ráðist á hann og kýlt a.m.k. tvisvar í andlitið og einnig hafi verið sparkað í hann. Hafi hann hlotið áverka. Brotaþoli gaf lýsingu á meintum árásarmanni auk þess sem brotaþoli gaf ásamt öðrum manni lýsingu á bifreið sem ekið var frá vettvangi. Bifreið sem svaraði til lýsingar fannst skammt frá brotavettvangi, en ekki meintir gerendur. U.þ.b. mánuði síðar upplýsti brotaþoli lögreglu um það hver hefði ráðist á sig í umrætt sinn. Hafi hann talið sig sjá árásarmanninn á ljósmynd í Fréttablaðinu þriðjudaginn [...]2014.

Í málinu liggur fyrir ljósrit úr umræddu Fréttablaði og læknisvottorð brotaþola, dags. 18. maí 2014.

Skýrslur fyrir dómi:

Ákærði neitaði því að hafa slegið brotaþola þessa máls. Þetta væri eina málið í öllum ákæruliðum þessa máls sem tengdist honum ekkert. Á þessum tíma hafi hann verið að drekka og líklega undir áhrifum annarra efna. Hann hafi verið með I á þessum tíma en bifreiðin [...]  hafi verið í eigu I og bilað fyrir utan hjá ákærða. Bifreiðin hafi síðar horfið. Borið var undir ákærða framlagt dómskjal, afrit Fréttablaðsins þriðjudaginn [...] 2014, og hvort sú mynd sem þar birtist væri af honum. Ákærði bar að svo væri en vildi benda á, að á þessari mynd hafi hann verið búinn að vera edrú í sjö ár og litið mjög vel út. Þegar hann hafi verið handtekinn hafi hann verið 30 kílóum léttari og grár eftir að hafa sprautað sig með heróíni í marga mánuði. Enginn möguleiki væri á því að hann hafi þá litið út eins og á myndinni í blaðinu.

Vitnið G, brotaþoli þessa máls kom fyrir dóminn og bar að hafa séð opnar hurðir á tveimur gámum aftan við starfsstöð sína. Tveir menn hafi komið hlaupandi út og hann kallað á þá. Við það hafi þeir snúið við og ákærði ógnað honum með hnífi. Hafi hann þá bakkað og kallað eftir aðstoð og þurft að verjast árás ákærða þessa máls. Við það hafi hann hrasað og ákærði lamið hann og hann misst gleraugun þegar ákærði hafi lamið hann í andlitið. Hann hafi náð að losa ákærða af sér en þá hafi ákærði kallað á hinn og sagt: „Sparkaðu í hausinn á honum“. Hann hafi þurft að verja sig fyrir sparkinu en náð að standa upp og þeir báðir hlaupið í burt. Síðan hafi hann og samstarfsmaður hans séð svarta bifreið keyra burt með nokkrum látum. Aðspurður um áverka bar brotaþoli að hafa fengið meðal annars glóðarauga en ekkert alvarlegt. Hafi það verið ákærði sem hafi kýlt hann með krepptum hnefa nokkur högg en þau hafi ekki verið mjög föst. Þá hafi hann fengið áverka á hendi við það að verja sig fyrir spörkum og líklega ætti sama við um áverka á læri auk þess sem hugsanlega hafi hann meitt sig á olnboga við fallið. Hafi hann farið á slysadeild eftir þetta og fengið áverkavottorð. Borið undir brotaþola Fréttablaðið frá [...] 2014, benti hann á mynd af ákærða og bar að það hafi verið hann sem réðst á hann og veitti honum höggin. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa farið í sakbendingu eftir að atburðir gerðust.

Vitnið T kom fyrir dóminn og bar að hafa heyrt hávaða og séð brotaþola með rispur á handlegg og gleraugun dottin af honum. Var brotaþoli þá strax kominn með glóðarauga. Hafi brotaþoli sagt að tveir menn hafi ráðist á sig. Vitnið upplýsti að hann ásamt brotaþola hafi séð svarta bifreið „gamalt hræ“ keyra burtu. Síðar hafi lögreglan kallað á hann og sýnt honum bifreið og taldi hann að um sömu bifreið hafi verið að ræða.

Vitnið I kom fyrir dóminn og var hann spurður hvort hann hafi verið á vettvangi umræddrar líkamsárásar. Vitnið rak ekki minni til þess eða hvort hann og ákærði F hafi verið á einhverri bifreið á þessum tíma.

Vitnið U kom fyrir dóminn og bar að hafa verið eigandi að bifreiðinni [...], svartri [...]. Á þeim tíma sem um ræði í máli þessu gæti verið að F hafi verið með bifreiðina í láni, annaðhvort hann eða annar nafngreindur maður. Sjálfur hafi hann verið í neyslu á þessum tíma og verið neyslufélagi ákærða F.

Vitnið V lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa skrifað frumskýrslu málsins. Hafi brotaþoli og vitnið T upplýst að bifreið sú sem lögreglan fann hafi verið sama bifreið og þeir hafi áður séð keyra burt af vettvangi.

Vitnið Þ lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa rætt við brotaþola á vettvangi. Hafi brotaþoli lýst atburðum og gefið lýsingu á gerendum og ökutæki. Stuttu síðar hafi lögreglan fundið líklegt ökutæki og hafi brotaþoli komið á staðinn og borið kennsl á að um rétta ökutækið væri að ræða.

Vitnið Æ lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi upplýst hann um hver það hafi verið sem hafi ráðist á sig í máli þessu. Hafi brotaþoli séð mynd í Fréttablaðinu og hafi það verið mynd af ákærða þessa máls. Fram kom hjá vitninu að hann hafi ekki komið að leit að bifreiðinni en upplýsti að rafgeymir, sem hafi verið í sömu bifreið og tengdist þessu máli, hafi verið sá rafgeymir sem um geti í ákærulið IV.11 og ákærði hafi viðurkennt að hafa stolið. Þá hafi verið rannsakaðar upptökur af mannaferðum en þær myndir hafi verið ógreinilegar og því ekki lagðar fram í málinu, enda ekki verið af sama vettvangi. Ekki hafi verið tekin lögregluskýrsla af I, skráðum eiganda bifreiðarinnar [...].

Vitnið Á læknir kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi komið á slysadeild. Hún hafi ekki tekið á móti brotaþola en kynnt sér málið og myndir af áverkum hans. Áverkar brotaþola hafi fyrst og fremst verið á andliti, glóðarauga, innra mar á vinstri kinn, hrufláverkar á nefi, handlegg og handarbaki auk yfirborðsáverka á læri. Áverkar brotaþola gætu vel samrýmst því að hann hafi fengið hnefahögg í andlit.

Niðurstöður:

Ákærði neitaði sök fyrir dómi. Í skýrslu lögreglu, sem gerð var degi eftir atvik málsins, kom fram að brotaþoli gaf þá lýsingu á bifreið þeirri sem ekið var af vettvangi, að hún hafi verið dökk sedanfólksbifreið. Vitnið T gaf þá lýsingu að um hafi verið að ræða dökkgráa sedanfólksbifreið. Lögreglan fann síðan bifreið af gerðinni [...] sem talin var passa við framangreinda lýsingu án þess að þeirri bifreið hafi verið lýst nánar í gögnum málsins eða hvað passaði við lýsingu vitna. Brotaþoli gaf formlega skýrslu um málið þann 20. mars 2014 og lýsti þá bifreiðinni sem svartri eða dökkgrárri. Fyrir dómi bar brotaþoli að bifreiðin hafi verið svört og vitnið T bar fyrir dómi að bifreiðin hafi verið svört. Engin gögn eru í málinu um lit bifreiðarinnar eða hvort hún hafi verið sedantegundar. U kom fyrir dóminn og bar að hafa verið eigandi að svartri [...] bifreið og hugsanlega hafi ákærði verið með þá bifreið í láni á einhverju tímabili.

Af framangreindu má leiða að því líkur að lýsing brotaþola og vitnis á lit bifreiðarinnar hafi að einhverju leyti breyst eftir að þeim var sýnd umrædd  [...] bifreið. Þá verður ekki fullyrt að ákærði hafi verið með umráð þeirrar bifreiðar þegar atburðir áttu sér stað. Rannsókn þessa máls fer af stað einum mánuði eftir að atburðir gerðust, þegar brotaþoli mætir til lögreglu og upplýsir að hann hafi séð mynd í Fréttablaðinu af þeim sem réðst á hann. Engin myndsakbending fór fram, hvorki um ákærða þessa máls eða hinn árásarmanninn sem sparkaði í brotaþola. Samkvæmt 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal lögregla gæta jafnt að atriðum sem horfa til sýknu og sektar og hraða málsmeðferð sem kostur er. Virðist sem engin rannsókn hafi verið á málinu í einn mánuð eftir að atvik urðu og við það eitt látið sitja að ákæra á grundvelli myndar úr Fréttablaðinu.

Er það mat dómsins að ekki sé hafið yfir skynsamlegan vafa, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi gerst sekur um þá líkamsárás sem í ákæru greinir og verður hann því sýknaður af ákærulið þessum.

Ákæra útgefin 19. ágúst 2014, ákæruliður III.8.

Málavextir:

Tilkynnt var um farþega í strætisvagni á leið frá Hafnarfirði til Reykjavíkur sem hafði slegið vagnstjórann í andlitið. Meintur gerandi yfirgaf vagninn við Kringluna í Reykjavík ásamt stúlku. Fyrir lá lýsing á klæðnaði meints árásarmanns. Lögregla sem kom á staðinn handtók ákærða þar skammt frá. Í skýrslutöku hjá lögreglu bar hann að vagnstjórinn hefði verið hundleiðinlegur við alla farþega og hann líka. Hafi hann löðrungað hann einu sinni eða tvisvar. Mikill fjöldi farþega var í vagninum þegar atvik áttu sér stað og teknar voru skýrslur af nokkrum þeirra hjá lögreglu.

Skaðabótakrafa ásamt gögnum frá tannlækni barst frá brotaþola þann 7. ágúst 2014.

Skýrslur fyrir dómi:

Ákærði bar fyrir dómi að hafa tekið strætisvagn frá Hafnarfirði að Kringlunni í Reykjavík ásamt stúlku. Aðspurður kvaðst hann hafa lent í útistöðum við vagnstjórann. Hafi vagnastjórinn sakað hann um að hafa sett of lítið í baukinn og ætlað að henda honum út, en ákærði þá sagt honum að endurgreiða sér peningana. Skömmu síðar hafi komið í vagninn eldri maður, veiklulegur, og greitt vagnstjóranum. Vagnstjórinn hafi hins vegar ætlað að rukka manninn, sem hafi verið öryrki, um hærra fargjald og hent manninum út. Ákærði hafi þá rætt við vagnstjórann og spurt hvort þetta hafi nú verið nauðsynlegt. Stuttu síðar hafi vagnstjórinn komið afturí og hótað honum lögreglu. Ákærði hafi þá beðið um að fá að fara út en vagnstjórinn keyrt áfram. Hafi hann þá slegið til vagnstjórans án þess að kýla hann. Vel gæti verið að hann hafi snert vagnstjórann í hægri framhandlegg einu sinni eða tvisvar. Borin undir hann skýrsla eins vitnis hjá lögreglu um að hann hafi slegið vagnstjórann í andlitið, bar hann að það væri ekki rétt, en það gæti hafa litið þannig út, enda sé hlíf eða veggur bak við vagnstjórann. Hann hafi ekki verið með krepptan hnefa og bílstjórinn ekki meiðst neitt. Aðspurður sagðist hann hafa verið rakur, spurður um ástand sitt.

Vitnið H brotaþoli þessa máls, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Bar hann að hafa verið vagnstjórinn í strætisvagninum í umrætt sinn. Lýsti hann málsatvikum þannig að við Krónuna í Hafnarfirði hafi ákærði ásamt stúlku komið upp í vagninn og hent nokkrum krónum í baukinn. Hafi hann sagt við ákærða að þetta væru ekki 450 krónur en ákærði gengið aftur í vagninn. Skömmu síðar hafi annar farþegi komið í vagninn og ætlað að borga 20 krónur fyrir farið. Á leið niður Kringlumýrarbraut hafi ákærði komið og lamið hann tvisvar, sitt hvorum megin í andlitið, og benti brotaþoli á kinnar sér. Spurt hvort hann hafi séð hvort ákærði hafi verið með krepptan hnefa bar hann að hafa ekki séð það. Hann hafi reynt að halda ákærða frá sér með hægri hendi og stýrt vagninum með hinni og hafi hraði vagnsins verið 70-80 km á klukkustund og hann verið að hugsa um það eitt að bjarga fólki í vagninum. Vagninn hafi verið fullur af fólki og hann heyrt öskur. Hafi hann náð að stöðva vagninn á 200-300 metrum og þá hringt í þjónustuver. Farþegar hafi farið út úr vagninum að framan, meðal annars ákærði við Kringluna í Reykjavík. Spurður um það hvort ákærði hafi lamið í mælaborðið kom fram að svo hafi verið. Fyrir utan vagninn, eftir að hann stansaði, hafi ákærði kallað á hann að koma út því að hann hafi ætlað að lemja hann. Annar vagnstjóri hafi þá komið að og haldið ákærða. Spurður hvort hann hafi meitt sig kom fram að það hafi brotnað upp úr tönn, ekki annað. Hafi hann fundið það strax að tönnin brotnaði. Hann hafi hins vegar ekki farið til tannlæknis fyrr en nokkrum vikum síðar. Spurður um það hvernig hegðun ákærða hafi verið í vagninum kom fram að hann hafi verið ógnandi og dónalegur.

Vitnið Ö kom fyrir dóminn og bar að hafa verið í strætó þegar atvik urðu. Hafi vagninn verið það fullur af fólki að hún og tvær vinkonur hennar hafi staðið fremst, alveg við vagnstjórann, í línu við þil sem skilji að vagnstjórann og farþega. Eftir að vagninn hafi keyrt göngin undir Hamraborg í Kópavogi hafi ákærði verið kominn að vagnstjóranum og verið að tala við hann og ögrað honum. Hafi það endað með því að hann hafi lamið vagnstjórann. Hún hafi staðið beint fyrir aftan ákærða og orðið hrædd og reynt að verja sjálfa sig. Vagnstjórinn hafi byrjað að reyna að verja sig og reynt að halda vagninum á götunni. Hafi hún séð fleiri en tvö högg frá ákærða lenda í vagnstjóranum. Hafi henni sýnst þau beinast að andliti hans en ekki séð hvar þau lentu. Við Kringluna hafi ákærði farið út. Aðspurð bar hún að ákærði hafi lamið í mælaborð vagnsins. Taldi hún að ákærði hafi ekki verið með hávaða eða verið ógnandi. Þá hafi hún ekki séð áverka á brotaþola.

Vitnið AA kom fyrir dóminn og bar að hafa komið í vagninn í Hamraborg og hafi vagninn verið það fullur að þær vinkonur hafi staðið fremst. Eitthvað hafi verið búið að vera í gangi áður en ákærði hafi troðið sér framar í vagninn og byrjað að ýta í vagnstjórann og berja í hann. Hún viti ekki hvort ákærði hafi slegið eða kýlt hann. Hafi vagninn þá keyrt að járngrind og næstum því lent á henni. Hafi ákærði verið að segja við vagnstjórann: „Veistu ekki hver ég er“ og svoleiðis. Við Kringluna hafi vagnstjórinn sagt öllum að fara út að framan. Ákærði hafi komið síðastur og bílstjórinn þá lokað hurðinni. Þá hafi ákærði byrjað að berja í mælaborðið til að opna. Hafi ákærði sagt eitthvað við vagnstjórann og barið í hann.

Vitnið AB kom fyrir dóminn og bar að hún og vinkonur hennar hafi staðið fremst í vagninum, eiginlega við hlið vagnstjórans. Eitthvað hafi verið búið að vera í gangi áður því að þegar vagninn hafi verið að keyra frá Hamraborginni hafi ákærði komið og slegið vagnstjórann nokkrum sinnum. Hún hafi séð að höggin hittu þó að hún hafi ekki séð hvar þau lentu, en það hafi verið fast. Hún gat ekki borið um að þetta hafi verið með krepptum hnefa. Hafi þær vinkonur orðið mjög hræddar vegna þess að vagninn var á ferð og vagnstjórinn að ýta ákærða frá sér. Ákærði hafi verið ógnandi. Við Kringluna hafi vagnstjórinn hleypt öðrum farþegum út að framan en lokað á ákærða. Ákærði hafi þá aftur reynt að slá bílstjórann og „opnatakkann“ og hafi hann náð því og farið út.

Vitnið AC kom fyrir dóminn og bar að ákærði hafi komið inn í vagninn og verið með dólgslæti og talað hátt við kærustu sína. Við Hamraborg í Kópavogi hafi ákærði reynt að fá vin sitt frítt inn í vagninn. Vitnið upplýsti að hafa setið vinstra megin í vagninum, á upphækkun fyrir miðju. Hafi vagninn verið mjög fullur. Eftir Hamraborg hafi ákærði staðið upp og gengið til vagnstjórans og byrjað að hreyta í hann, kallað hann „helvítis útlending“ og öskrað á hann. Þegar hann sjálfur hafi litið upp hafi hann séð hvar ákærði lemji vagnstjórann. Sjónarhorn hans hafi verið takmarkað en honum hafi sýnst að ákærði hafi verið með krepptan eða hálfkrepptan hnefa, en hann sá ekki höggin sjálf, eða hvar höggin lentu. Þá vissi hann ekki hvort vagnstjórinn hafi náð að verja sig, en ákærði hafi lamið inn í vagnstjóraklefann nokkrum sinnum. Við það að ákærði hafi lamið til vagnstjórans hafi vagninn tekið sveigjur á veginum. Eftir að vagninn hafi stöðvast við Kringluna hafi ákærði haldið áfram að kalla vagnstjórann ónöfnum og ætlað að „hjóla“ í hann. Annar vagnstjóri hafi komið að og stíað þeim í sundur.

Vitnið AD kom fyrir dóminn og bar að við Krónuna í Hafnarfirði hafi ákærði komið í vagninn ásamt ungri stúlku. Hafi ákærði átt orðaskipti við vagnstjórann. Ákærði og stúlkan hafi snætt bakkelsi í vagninum og vagnstjórinn sagt við ákærða að það mætti ekki borða í vagninum og hafi ákærði þá sagt: „Þarft þú ekki að éta helvítið þitt“. Við Hamraborgina hafi vagnstjórinn rætt við ákærða. Eftir að vagninn hafi ekið út á Hafnarfjarðarveg hafi ákærði farið frammí og vaðið að vagnstjóranum og gefið honum högg. Hafi vitnið fylgt ákærða eftir fram vagninn og staðið fyrir aftan hann, eina þrjá metra, og séð þegar ákærði sló í átt að vagnstjóranum í höfuðhæð og hafi ákærði sveiflað hendinni þrisvar til fjórum sinnum og vagnstjórinn misst stjórn á vagninum við þetta en náð valdi á honum aftur. Spurður hvort hann hafi séð hvar höggin lentu bar hann að svo hafi ekki verið þar sem veggur sé fyrir aftan vagnstjórann og hann ekki séð vagnstjórann, en höggin hafi hvergi getað lent annars staðar en á höfði hans. Þetta hafi ekki verið ofboðslega fast. Vagninn hafi síðan stansað við Kringluna þar sem allir hafi farið út, líka ákærði. Þar hafi ákærði verið með hnefaleikatilburði og reynt að fá vagnstjórann til þess að slást við sig.

Vitnið AE kom fyrir dóminn að bar að hún hafi verið með ákærða í vagninn. Ákærði hafi farið að vagnstjóranum en hún hafi ekki séð nein högg.

Vitnið AF lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa gert frumskýrslu málsins og tekið skýrslu af brotaþola. Brotaþoli hafi gefið honum lýsingu á atburðum. Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð áverka á brotaþola og brotaþoli hafi ekki nefnt við hann að tönn væri brotin.

Vitnið AG lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa handtekið ákærða. Hafi ákærði gefið þá skýringu á framkomu sinni að honum hafi blöskrað framkoma vagnstjórans. Hafi ákærði gengist við því að hafa lent í átökum við vagnstjórann en ákærði hafi ekki kannast við það að hafa kýlt vagnstjórann en hann hafi slegið hann með flötum lófa.

Vitnið AH lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa haft aðra aðkomu að málinu en að taka skýrslu af þeirri stúlku sem var með ákærða.

Vitnið AI tannlæknir kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi komi til hans þann 28. júlí 2014 og þá verið með minniháttar brot í einni tönn. Brotið gæti samrýmst því að hann hafi fengið högg á tönnina. Hafi hann séð að áverkinn var nýlegur, gæti hafa verið nokkurra vikna gamall, en brotið hafi ekki verið farið að slípast til. Það gæti tekið nokkra mánuði að brotið urði slétt. Hafi hann tekið lýsingu brotaþola trúanlega en geti ekki fullyrt neitt. Hæpið sé að svona brot hafi komið við það að borða eitthvað.

Niðurstöður:

Ákærði hefur játað að hafa slegið til vagnstjórans einu sinni eða tvisvar með opnum lófa en bar að hann hafi ekki slegið í andlit brotaþola. Nokkur vitni komu fyrir dóminn og báru að hafa séð ákærða slá til vagnstjórans. Ekkert vitnanna bar með vissu að ákærði hafi verið með krepptan hnefann, þótt vitni hafi borið að höggin hafi hitt brotaþola. Þá gat ekkert vitnanna borið með vissu að höggin hafi lent í andliti brotaþola. Ekki voru sýnilegir áverkar á brotaþola og brotaþoli fór ekki til læknis eftir atburðina. Í málinu liggur fyrir vottorð tannlæknis um skoðun á tönn brotaþola þann 28. júlí 2014. Í skýrslu læknisins fyrir dómi kom fram að áverkinn á tönn brotaþola væri nýlegur, hugsanlega nokkurra vikna gamall, en brotið hafi ekki verið farið að slípast til. Fram kom að það gæti tekið nokkra mánuði að brotið yrði slétt. Atburðir þessa máls áttu sér stað þann 15. mars 2014. Það liðu því rúmlega 20 vikur eða tæplega fjórir og hálfur mánuður þar til brotaþoli fór til tannlæknis vegna meints tannbrots.

Ekki var fullyrt að ákærði hefði slegið brotaþola í andlitið og enginn vitnisburður á þá leið að sýnilegir áverkar hafi verið á ákærða eða að tönn hans hafi brotnað. Af læknisfræðilegum gögnum málsins verður ekki ráðið svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að áverkinn á tönn brotaþola hafi komið við atlögu ákærða. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en sannað þykir að hann hafi veist með höggum að brotaþola á meðan á akstri strætisvagnsins stóð og verður brot hans heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæra útgefin 19. ágúst 2014, ákæruliður IV.9 og IV.10.

Málavextir:

Kærur og bótakröfur bárust frá [...], 21. mars 2014, vegna meints þjófnaðar á [...] í þremur aðgreindum tilvikum. Hjá lögreglu voru bornar undir ákærða myndupptökur úr öryggismyndavélum áfengisverslana sem liggja fyrir í málinu.

Skýrslur fyrir dómi:

Fyrir dómi kvaðst ákærði kannast við að hafa verið með I umræddan dag og að hafa farið með honum í  [...] og bar að framlagðar myndir væru af honum. Ákærði var upplýstur um að fyrir lægi héraðsdómur þar sem I hafi viðurkennt að hafa stolið [...]  þeim sem um geti í ákæruliðum IV.9 og 10. Ákærði kvað það líka vera rétt, I hafi stolið þeim, en hann hafi hins vegar ekki séð þegar I stal þeim. Sjálfur hafi hann verið fullur þennan dag.

Vitnið I kom fyrir dóminn. Aðspurður sagðist hann hafa stolið umræddum [...] og að ákærði F hafi ekki aðstoðað hann neitt við það.

Vitnið AÍ lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að myndir sem liggja fyrir í málinu hafi verið útbúnar af kæranda málsins. Þá hafi fylgt mynddiskur frá kæranda og skýrslur verið unnar upp úr þessum gögnum. Hafi það verið mat þeirra lögreglumanna sem skoðuðu gögnin, að ákærði hafi verið að skýla þeim aðila sem síðar var dæmdur fyrir þjófnaðinn, þannig að um samverknað hafi verið að ræða.

Vitnið AJ lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa skoðað mynddiska þá sem fylgdu kærum og hafi hún staðreynt að F væri á þeim myndum. 

Niðurstöður: Frá kæranda málsins fylgdi myndræn framsetning gagna unnin upp úr myndskeiðum öryggismyndavéla. Á myndunum má meðal annars sjá „talbólu“ þar sem settur hefur verið inn texti um það sem ákærði átti að hafa sagt. Á mynddiskum sem fylgdi kærum er hins vegar ekkert hljóð og verður því ekki staðfest að sú framsetning sé rétt. Þá hefur verið færður inn texti á mynddiska þar sem skýringar kæranda eru settar inn á mynd, svo sem: „Tekur þrjá[...] úr hillu“ án þess að fullyrt verði að mati dómsins að svo hafi verið. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. [...]/2014 var I dæmdur fyrir þá háttsemi sem um getur í ákæruliðum IV.9 og IV.10, enda viðurkenndi hann að hafa tekið umrædda [...]. Fyrir dómi bar I að F hafi ekki aðstoðað hann við þann þjófnað. Ákærði hefur neitað að hafa tekið þátt í þjófnaði I á umræddum vínpelum. Háttsemi ákærða er ekki lýst í ákæru en gefið var í skyn fyrir dómi að hann hafi með einhverjum hætti aðstoðað I við þjófnaðinn.

Með hliðsjón af gögnum málsins telst ekki sannað að ákærði og I hafi haft með sér samvinnu um ákvörðun eða framkvæmd þess verknaðar sem lýst er í ákæruliðum IV.9 og IV.10 og verður ákærði sýknaður af refsiverðri háttsemi í þeim ákæruliðum.

Ákæra útgefin 19. ágúst 2014, ákæruliður IV.12.

Málavextir:

Sama málavaxtalýsing á við og í ákæruliðum IV.9 og IV.10. Í málinu liggja fyrir myndir sem fylgdu gögnum frá kæranda og mynddiskur.

Skýrslur fyrir dómi:

Fyrir dómi voru bornar undir ákærða framlagðar myndir og kannaðist ákærði við að þær væru af honum og mundi hann eftir því að hafa farið í [...] og keypt [...] en hann hafi ekki tekið [...]. Sennilega hafi hann tekið [...] úr hillunni en síðan uppgötvað að hann ætti ekki nóg fyrir honum og því skilið hann eftir einhvers staðar.

Vitnið AK lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að myndir sem liggja fyrir í málinu hafi verið útbúnar af kæranda málsins. Þá hafi fylgt mynddiskur frá kæranda og skýrslur verið unnar upp úr þessum gögnum. Enginn vafi væri á því að myndirnar væru af ákærða þessa máls.

Niðurstöður:

Á sama hátt og greinir í ákæruliðum IV. 9 og 10 fylgdi með frá kæranda málsins myndræn uppsetning, þó án „talbólu“. Auk þess fylgdi mynddiskur þar sem settur hefur verið inn texti til skýringa. Án þess að stuðst sé við þann texta þá telst að mati dómsins sannað að ákærði taki úr hillu [...], fer út í horn í kæli verslunarinnar þar sem hann stingur öðrum [...] inn í vinstri ermi sína og þegar hann snýr sér við sést að hann heldur á einum[...] . Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í þessum ákærulið greinir og er brot hans réttilega heimfært til 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæra útgefin 8. október 2014.

Málavextir:

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar vegna gruns um að ökumaður hennar væri í annarlegu ástandi auk þess sem bifreiðin væri ótryggð og á röngum skráningarmerkjum. Ökumaður og eigandi bifreiðarinnar reyndist vera ákærði þessa máls. Hann neitaði vitneskju um að bifreiðin hafi verið á röngum skráningarmerkjum. Stúlka, sem var eigandi þeirra skráningarmerkja sem ranglega voru á bifreiðinni í umrætt sinn, var farþegi í bifreiðinni þegar ákærði var stöðvaður.

Skýrslur fyrir dómi:

Ákærði játaði umferðarlagabrot ákærunnar en neitaði sök um skjalabrot. Fram kom í máli hans að margir hafi haft afnot af bifreiðinni og vera kunni að skráningarmerkin hafi tilheyrt stúlkunni, en hann viti ekki hvernig skráningarmerki  [...] hafi komist á bifreiðina [...].

Vitnið AL lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dómi um að hafa kynnt ákærða að hann væri handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hugsanlega hafi komið í ljós síðar að bifreiðin hafi verið á röngum skráningarnúmerum, en það hefði þá verið lögreglumaðurinn AM sem hafi séð um þá hlið mála.

Vitnið AM lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að hafa stöðvað akstur ákærða vegna gruns um að bifreiðin væri á röngum skráningarmerkjum. Hafi hann kynnt ákærða það að hann væri stöðvaður vegna framangreinds og vegna þess að hann hafi verið á ótryggðum bíl og undir áhrifum efna. Hafi ákærði kannast við að hafa sett númerin á og að hafa verið á ótryggðum bíl. Aðspurður af hverju hann hafi ekki getið þessa í lögregluskýrslu kvaðst vitnið ekki geta svarað því en hann muni ekki betur en ákærði hafi sagt þetta. Þá taldi vitnið að það kæmi fram í skýrslu yfir ákærða að honum hafi verið kynnt að hann væri grunaður um að hafa verið að aka bifreið á röngum skráningarmerkjum.

Niðurstöður:

Fram kemur í skýrslu lögreglu að stúlka sem var farþegi bifreiðarinnar hafi eftir að bifreiðin var stöðvuð, heimilað lögreglu leit í bifreiðinni á þeim forsendum að vera umráðamaður bifreiðarinnar. Mat lögreglan það sem svo að stúlkan hafi verið umráðamaður bifreiðarinnar og framkvæmdi því leit. Jafnframt kom fram í skýrslu lögreglu að skráningarmerkin [...], sem voru á bifreiðinni, hafi verið í eigu þeirrar sömu stúlku. Engar framburðarskýrslur liggja fyrir af ákærða eða af stúlkunni hjá lögreglu um afstöðu þeirra til skjalabrotsins. Ekki liggur fyrir í lögregluskýrslu, eins og haldið var fram, að ákærði hafi þar játað að hafa sett röng skráningarnúmer á bifreiðina. Ekki verður bætt úr framangreindu fyrir dómi þar sem stúlkan er nú látin.

Gegn neitun ákærða fyrir dómi telst ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn ákvæðum 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er hann því sýknaður af því broti.

Ákæra útgefin 9. janúar 2015, ákæruliður I.1.

Málavextir:

Í frumskýrslu lögreglu segir að tilkynning hafi borist um að maður hafi ráðist á tvær stúlkur og hafi fylgt tilkynningu að meintur árásarmaður hafi verið ákærði þessa máls. Í viðræðum lögreglu við stúlkurnar kom fram að þær vildu ekki kæra, en þær hafi sagt árásina tilefnislausa og ákærði slegið þær báðar, meðal annars slegið brotaþola fjórum hnefahöggum í andlit og hnakka með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir.

Í málinu liggur fyrir „skýrsla rannsakara“ dags. 27. nóvember 2014, um samskipti brotaþola og ákærða sem fengin voru með skoðun á Facebook-aðgangi ákærða, en hann mun hafa verið opinn á sjónvarpsskjá og sást við húsleit í Kópavogi. Myndir teknar af samskiptunum á sjónvarpskjánum fylgja málinu og heimild húsráðanda til leitarinnar. Þá liggja fyrir myndir teknar af brotaþola á slysadeild, læknisvottorð brotaþola frá Landspítala, dags. 4. desember 2014, og slysavottorð frá tannlækni brotaþola, dags. 15. desember 2014.

Skýrslur fyrir dómi:

Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti ákærði atburðum með þeim hætti að hann hafi í umrætt sinn verið að reyna að ná bíllyklum bifreiðarinnar  [...] af brotaþola. Hann hafi átt bifreiðina og viljað fá hana aftur en brotaþoli, sem hafi verið að keyra í umrætt sinn, hafi neitað. Hann viðurkenndi að hann hafi verið fullharðhentur við að ýta brotaþola frá. Hann hafi ekki kýlt brotaþola en hafi aðeins þurft að taka á henni. Fram kom að honum þætti þetta leiðinlegt þar sem brotaþoli væri vinkona hans. Hann hafi verið harðhentur og reiður og í tómu rugli og búinn að gefast upp á öllu á þessum tíma, en hann hafi ekki ætlað að meiða brotaþola. Rangt væri að hann hafi verið stoltur af þessu. Ákærði lýsti því þannig að fyrst hafi brotaþoli átt að vera í „smalli“, nefbrotin og kjálkabrotin og því lýst þannig í öllum blöðum. Þá kom fram hjá honum að hann skildi í raun ekki hvað hefði gerst og gæti ekki útskýrt þá áverka sem hafi verið á brotaþola, annað en að marblettir á úlnliði hafi komið við það að hann reyndi að taka hönd hennar af kveikjulásnum. Hann dró í efa þá áverka sem fram komu í læknisvottorði. Síðar hafi komið í ljós að ekkert hafi verið að brotaþola nema fylling hafi brotnað úr tönn. Ákærði kvaðst neita því að svara spurningum um Facebook-samskipti sín við brotaþola, þar sem þeirra gagna hafi verið aflað með ólögmætum hætti.

Vitnið AS brotaþoli kom fyrir dóminn. Í fyrstu ætlaði hún ekki að tjá sig um málsatvik en gaf svo skýrslu. Bar hún að ákærði hafi opnað hurð bifreiðar þeirrar sem hún var bílstjóri í og hafi síðan slegið hana með flötum lófa utanundir. AS hafi öskrað á ákærða og spurt hann hvað hann væri að gera. Ákærði hafi þá klifrað yfir hana og þá hafi höggin haldið áfram að koma. Hafi höggin fyrst verið með flötum lófa en síðan með krepptum hnefa. Höggin hafi verið nokkur og staðið yfir í nokkurn tíma. Hafi hún verið í sjokki og ákærði tekið bíllyklana og gengið burtu en komið með þá aftur og hún þá keyrt burt og farið í félagsmiðstöðina í Árbæ. Á meðan hafi AN hringt í lögreglu. Spurð um áverka sem hún hafi fengið bar hún að hafa verið með brákað nef, brotna tönn og „eitthvað í kjálkanum“ auk risakúlu og marbletts á hendi. Aðspurð hvort það hafi verið plastfylling sem hafi losnað kom fram að svo hafi verið. Lögreglan hafi síðan keyrt hana á slysadeild. Fram kom að ákærði hafi sent henni skilaboð á Facebook og verið miður sín út af þessu og beðið hana að kæra ekki, enda hafi hún ekki gert það. Aðspurð bar hún að lögreglan hafi ekki óskað eftir aðgangi að Facebook-samskiptum hennar við ákærða. Eftir þetta hafi hún verið kvíðin og hrædd og haldið sig mikið heima.

Vitnið AN kom fyrir dóm og sagðist muna lítið eftir atvikum vegna annarlegs ástands. Fram kom að hún hafi verið í bíl með brotaþola og ákærði hafi komið að þeim. Hafi brotaþoli fengið eitt högg og hún séð einhver átök. Hafi hún þá beygt sig yfir brotaþola henni til varnar. Spurð um hvar höggið hafi lent, kom fram að það hafi verið í andlit brotaþola. Hún hafi ekki séð hvort það högg var með opnum lófa eða krepptum hnefa. Aðspurð kom fram að lögreglan hafi ekki óskað eftir því að fá afrit af símagögnum hennar.

AO kom fyrir dóm og upplýsti að brotaþoli hafi hringt í hana þegar brotaþoli hafi verið á leið upp á spítala eftir umrædd atvik. Hafi brotaþoli sagt henni frá því að það hafi verið ráðist á hana bak við [...], hún kýld og hafi brotaþoli nefnt nafn F. Aðspurð kvaðst hún hafa séð brotaþola á slysadeild og þá hafi brotaþoli verið rauð og bólgin í framan og blætt úr nefi hennar.

Vitnið AÓ lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að hafa gert frumskýrslu málsins. Hafi hann rætt við brotaþola og vitni á bensínstöð. Brotaþoli hafi verið skelkuð og erfitt hafi verið að fá haldgóða lýsingu á árásinni þótt hún hafi nefnt meintan árásarmann. Brotaþoli hafi nefnt einhver hnefahögg og áverkar hafi verið á henni.

Vitnið AP lögreglumaður kom fyrir dóm og gaf skýrslu. Hafi hann rætt við brotaþola sem hafi verið með einhverja áverka í andliti, blóðug og mikið hrædd. Hafi hún lítið viljað upplýsa þá um málsatvik annað en að ráðist hafi verið á hana í bíl við [...] og hún verið kýld hnefahöggi í andlitið. Brotaþoli hafi verið hrædd og ekki viljað kæra.

Vitnið AR lögreglumaður kom fyrir dóm og bar að hafa farið upp á slysadeild vegna þessa máls. Brotaþoli hafi þar verið í uppnámi, með augljósa áverka á andliti, bólgin og með áverka á hendi og hafi hann myndað áverkana og lægju þær myndir frammi í málinu. Hafi brotaþoli gefið honum lýsingu á því hvað hafi gerst. Hafi ákærði komið að henni í bíl, opnað hurðina og slegið hana fyrirvaralaust. Á slysadeildinni hafi AN, vinkona brotaþola, sagt honum frá því að brotaþoli hafi verið í sms-samskiptum við ákærða sem hafi verið stoltur af því sem gerðist. Aðspurður sagðist hann ekki vita hvort krafist hafi verið upplýsinga af þeim samskiptum.

Vitnið AT lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa séð um húsleit í Kópavogi þar sem ákærði dvaldi. Hafi hann fengið heimild húsráðanda til þess. Við rannsakendum hafi blasað Facebook-samskipti ákærða og brotaþola og þá verið tekin sú ákvörðun að skoða þau frekar. Aðeins hafi hluti þeirra verið sýnilegur og því tekin sú ákvörðun að opna aðganginn og fletta niður samskiptunum, enda mat rannsakenda að þau væru mikilvægt sönnunargagn í málinu og hugsanlega hefðu þau getað glatast. Ekki væri víst að hægt hefði verið að afla þessara gagna hjá brotaþola. Lögmaður hafi ekki verið viðstaddur húsleitina og ákærði F hafi ekki gefið þeim leyfi til að skoða Facebook-aðganginn.

Vitnið AU lögreglumaður kom fyrir dóm og kvaðst hafa rætt við húsráðanda í Kópavogi, sem hafi samþykkt leit í húsnæði hennar. Við leitina hafi komi í ljós opin Facebook-síða á sjónvarpsskjá sem greinilega hafi verið síða ákærða. Hafi þar sést að hann var að ræða við brotaþola þessa máls. Var það mat lögreglu á vettvangi að nauðsynlegt væri að tryggja þessi sönnunargögn og því voru samskiptin skoðuð. Þar sem tölvan var í eigu húsráðanda var ákveðið að haldleggja ekki tölvuna en skoða samskiptin. Var það gert með því að „skrolla“ niður. Hafi samskiptin á skjánum verið mynduð og samtölin skráð niður. Aðspurður sagði hann að ekki hafi verið leitað eftir heimild hjá ákærða til þess að skoða gögnin og mögulega hefði verið hægt að fá sömu upplýsingar frá brotaþola.

Vitnið AV lögreglumaður kom fyrir dóm og bar að hafa tekið skýrslu af brotaþola. Hafi brotaþoli ekkert viljað tjá sig, en þegar borin hafi verið undir hana framburður hennar sem hún gaf lögreglu á slysavarðstofu hafi hún staðfest það sem þar hefði komið fram en ekki annað.

Vitnið AÞ læknir kom fyrir dóm og bar að hafa tekið á móti brotaþola eftir meinta líkamsárás. Hafi hann skoðað brotaþola og þeir áverkar sem hafi verið á brotaþola gætu vel samrýmst því að hún hefði orðið fyrir höggum. Miðað við lýsingar brotaþola um að höggin hafi hún fengið inni í bíl hafi þau sennilega ekki verið af ofurafli, sennilega léttari. Hún hafi samt haft töluverða áverka vegna endurtekinna högga. Spurður um heilahristing brotaþola kom fram að við skoðun hafi hún verið miður sín og með höfuðverk en ekki alvarleg heilahristingseinkenni. Væri hún í raun ekki greind með heilahristing. Aðallega hafi hún verið með mikil eymsli á kjálka og nefi og mar á handarbaki. Hafi hún einnig minnst á tannbrot sem hún hafi fundið fyrir með tungunni. Hafi hann litið á það og talið sig sjá visst brot upp úr tönn. Brotaþola hafi verið boðin sálfræðihjálp en hann hafi ekki skoðað hana eftir þetta. Við myndgreiningu á áverkum brotaþola hafi ekki verið sýnt fram á brot, en maráverka.

Vitnið AÆ tannlæknir kom fyrir dóm og staðfesti að hafa gert vottorð það sem lægi fyrir í málinu. Spurður hvort um brot á náttúrulegri tönn hafi verið að ræða bar læknirinn að svo hafi verið. Brotið hafi verið mesíalt eða á framanverðri tönn en ekki í plastfyllingunni sjálfri. Plastfyllingin hafi enn verið í miðri tönninni og brotið ekki komið nálægt því. Brotið gæti samrýmst því að brotaþoli hafi orðið fyrir höggum eins og hún hafi lýst og hvassar brúnir hafi verið í brotsárinu. Aðspurður bar hann að tennur, sem búið væri að setja í fyllingu, væru veikari fyrir en ella. Þá upplýsti hann aðspurður að um minni háttar viðgerð hafi verið að ræða.

Niðurstöður:

Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt að hafa verið full harðhentur við brotaþola, enda í tómu rugli á þessum tíma. Hann hafi ekki kýlt brotaþola en hafi aðeins þurft að taka á henni. Brotaþoli bar að höggin frá ákærða hafi verið mörg og hafi fyrst verið með flötum lófa en síðan með krepptum hnefa. Vitni sem var með brotaþola í bifreiðinni þegar atburðir gerðust bar að hafa séð átök og að brotaþoli hafi fengið eitt högg í andlitið þó að hún gæti ekki sagt hvort það hafi verið með opnum lófa eða krepptum hnefa. Brotaþoli leitaði á slysadeild eftir atburði. Vitni sem gáfu skýrslu fyrir dómi hafa öll borið að brotaþoli hafi verið með áverka í andliti. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar Vilhjálmur AÞ, læknir sá sem skoðaði brotaþola, að hún hafi haft töluverða áverka vegna endurtekinna högga og gætu samrýmst lýsingu brotaþola á atburðum. Brotaþoli hafi hins vegar ekki verið með heilahristing en aðallega hafi hún verið með mikil eymsli á kjálka og nefi og mar á handarbaki. Einnig hafi brotaþoli minnst á tannbrot við þá skoðun, sem hún hafi fundið fyrir með tungunni. AÆ tannlæknir, sem kom fyrir dóminn og skoðaði brotaþola tæplega þremur vikum eftir atburði, bar að brot úr tönn brotaþola gæti samrýmst því að brotaþoli hafi orðið fyrir höggum eins og hún hafi lýst og hvassar brúnir hafi verið í brotsárinu. Bar hann að um minni háttar viðgerð hafi verið að ræða á tönninni.

Að mati dómsins telst sannað að ákærði hafi í umrætt sinn veist að brotaþola og slegið hana ítrekað í andlitið, þótt ekki sé ljóst um fjölda þeirra högga, með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir að því frátöldu að ekki telst sannað að brotaþoli hafi hlotið heilahristing í umrætt sinn. Í ljósi þeirra áverka sem af atlögu ákærða hlutust og í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar, sjá til dæmis dóm frá 2. október 2014, í máli nr. 795/2013, verður brot ákærða ekki talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en heimfært þess í stað undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæra útgefin 9. janúar 2015, ákæruliður I.2.

Málavextir:

Með kæru, dags. 16. október 2014, var kærður meintur þjófnaður á stíflueyði úr [...] sem átti sér stað þann 8. október 2014. Með kæru fylgdi mynddiskur sem sýnir tvo menn og tvær stúlkur í verslun [...]. Skýrsla var tekin af ákærða og öðrum meintum gerendum sem hafa kannast við að þau komi fram á upptökunni, en hafa neitað að hafa stolið umræddum munum og muni lítið eftir atvikum.

Skýrslur fyrir dómi:

Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hann væri á þeim myndum sem lægju frammi í málinu og nafngreindi aðra sem greindir eru í ákæru. Hafi hann verið í  [...]umræddan dag en kvaðst hins vegar ekki hafa tekið tvo brúsa af stíflueyði og það sé ekki að sjá á myndum málsins. Að öðru leyti muni hann ekki hvað hann hafi verið að gera þarna umræddan dag.

Vitnið BA, öryggisstjóri [...] kom fyrir dóminn. Hann bar að hafa ekki orðið vitni að atburðum sjálfur en að starfsmenn hafi séð að óvenju mikið var farið af umræddri vöru en ekki hafi verið merki þess í tölvukerfinu. Hann hafi því skoðað öryggismyndbönd. Nafn ákærða F hafi hann séð í fréttum og þannig tengt hann við einn aðilann sem sást á myndbandinu. Ljósmyndir í gögnum málsins væru unnar upp úr þessum myndböndum en myndbandið sýndi best hvernig ákærði hafi borið sig að og hafi á þeim sést þegar ákærði og aðrir hafi tekið fimm litla brúsa af stíflueyði. Hafi ákærði tekið tvo en annar karlmaður tekið þrjá.

Vitnið L kom fyrir dóminn og bar um að muna ekkert eftir atburðum. Hún hafi þó þekkt sig og F á myndum hjá lögreglu en hafi hins vegar ekki séð ákærða F stinga inn á sig stíflueyði.

Vitnið M kom fyrir dóminn og bar um að muna lítið eftir atvikum. Myndirnar í málinu hafi meðal annars verið af henni og hafi hún verið með ákærða F í umrætt sinn, en hún viti ekki hvort einhverju hafi verið stolið.

Vitnið K kom fyrir dóm bar um að muna ekkert eftir atvikum og gæti því ekkert sagt til um málsatvik, en hann hafi þekkt sig á myndum hjá lögreglu. Fram kom að skýrsla, sem tekin var af honum hjá lögreglu, væri ekki meðal gagna málsins fyrir dóminum.

Vitnið BB lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti að hafa borið kennsl á þá aðila sem fram komi í myndbandinu frá [...]. Hafi aðilarnir þar  staðið fyrir framan hillu með stíflueyði og karlmennirnir, þar á meðal ákærði F, klárlega tekið stíflueyði þó að erfitt sé að segja til um fjöldann. Sjáist það vel á framlögðu myndbandi þegar stíflueyði er stungið upp í ermi annars mannsins.

Niðurstöður:

Ákærði neitaði sök bæði hjá lögreglu og fyrir dómi þó að hann hafi kannast við sig á myndum sem fylgdu málinu. Vitni sem komu fyrir dóm báru um að muna lítið eftir atburðum þó að þau þekktu sig á mynd, og staðfestu ekkert í þá veru að ákærði F hafi stolið stíflueyði umræddan dag. Á mynddiski sem fylgdi málinu sést í bak ákærða þar sem hann stendur ásamt öðrum sem tilgreindir eru í ákæru við vöruhillur í [...]. Að mati dómsins verður ekki fullyrt, við þá skoðun sem dóminum er möguleg, að sjá hvað er í hillunum eða að ákærði hafi tekið tvo brúsa af stíflueyði og stungið inn á sig. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákærulið.

Ákæra útgefin 9. janúar 2015, ákæruliður II.3.

Málavextir:

Ákærði var handtekinn þann 27. nóvember 2014 vegna ákæruliðar I.1 í ákæru útgefinni 9. janúar 2015 og færður í fangaklefa. Ákæruvaldið hefur fallið frá ákæru um vörslur á 1,89 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem um getur í þessum ákærulið. Við flutning ákærða á milli fangaklefa komu í ljós ætluð fíkniefni, kókaín. Einhver leit mun hafa verið gerð á ákærða áður en hann var settur í fangaklefann. Fram kemur í skýrslu lögreglu að ákærði hafi fyrst sagt að hann hafi verið með efnin í sokkum sínum en síðan breytt framburði sínum og sagt að hann hafi ekki átt efnin en fundið þau undir dýnunni í klefanum. Í lögregluskýrslu kemur fram að í klefa ákærða hafi verið eftirlitsmyndavél. Ekki hafa verið lagðar fram upptökur úr klefanum þrátt fyrir áskorun verjanda þar um.

Skýrslur fyrir dómi:

Ákærði var spurður um 3,53 g af kókaíni sem áttu að hafa fundist í fangaklefa þeim sem hann gisti. Kvaðst hann hafa fundið efnin undir dýnu í fangaklefa. Ranglega væri eftir honum haft í lögregluskýrslu að hann hafi sagt að hann hafi fundið efnin í sokkum sínum.

Vitnið BC lögreglumaður kom fyrir dóm og bar að hann starfaði í fangageymslu lögreglu. Vegna ónæðis í fangageymslum hafi hann ákveðið að færa ákærða á milli klefa. Þegar hann hafi opnað hafi komið fát á ákærða og hann farið að kuðla teppum saman og snúið í hann baki og eitthvað verið að „möndla“. Hafi hann tekið af ákærða teppið og þá séð plastumbúðir sem hafi verið kuðlaðar í teppið. Við skoðun á klefanum hafi fundist fíkniefni undir dýnu sem ákærði hafi legið á. Hafi hann spurt ákærða út í þetta og ákærði svarað því til að efnin hafi verið í sokkum hans. Seinna hafi hann dregið þann framburð til baka. Hann viti ekki hvernig leit hafi verið gerð á ákærða áður en hann var settur í klefann. Annars sé reglan sú að klefar séu hreinsaðir á milli þess að einhver gisti þá og venjan sé að lyfta upp dýnum. Vitnið staðfesti að klefi sá sem ákærði var í sé svokallaður „myndavélaklefi“, en hann hafi ekki aðgang að þeim upptökum.

Niðurstöður:

Ákærði hefur fyrir dómi neitað sök. Samkvæmt gögnum málsins fannst 1,89 g af tóbaksblönduðu kannabis við handtöku ákærða þann 27. nóvember 2014. Í framhaldi af því var hann færður í fangaklefa nr. 11, en umræddur fangaklefi mun vera „almenningsklefi“. Ekki liggur fyrir hversu ítarleg leit var gerð á ákærða áður en hann var færður í klefann en ætla verður, fyrst fíkniefni fundust á honum í upphafi, að slík leit hafi farið fram. Misræmi í framburði ákærða er ekki trúverðugt. Hins vegar er umræddur fangaklefi nr. 11 með eftirlitsmyndavél og kom fram í skýrslu lögreglu að unnt væri að sjá upptöku úr klefanum. Ákærandi hefur ekki orðið við áskorun um að leggja þær upptökur fram. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu. Samkvæmt framangreindu er að mati dómsins vafi í málinu og þann vafa ber að skýra ákærða í hag. Verður hann því sýknaður af því að hafa haft í vörslum sínum 3,53 g af kókaíni eins og greinir í þessum ákærulið.

Ákæra útgefin 26. mars 2015, ákæruliður 1.

Málavextir:

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði för ákærða á [...] eftir að hafa verið með eftirlit við heimili hans að [...], vegna gruns um ólöglega framleiðslu áfengis. Hafði lögreglan veitt því athygli að ákærði setti tvo poka í bifreið sína sem í virtust vera brúsar með glærum vökva. Eftir að för ákærða var stöðvuð mun hafa fundist landi í bifreiðinni og ákærði fyrst gefið þá skýringu að hann væri á leið til Reykjavíkur til þess að ná sér í „smá aur“ og að hafa staðið að framleiðslu landans. Ákærði hafi hins vegar skömmu síðar breytt framburði sínum og sagt áfengið vera til einkanota fyrir hann og föður hans. Við leit í [...] í framhaldi af þessu hafi síðan fundist bruggtæki og meira af ætluðum landa. Ákærði hafi upplýst að hann hafi verið með tækin í láni. Faðir ákærða, sem var á staðnum, kvaðst einnig hafa staðið að gerð landans.

Í málinu liggja fyrir myndir af landabrúsum og matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 9. janúar 2015, um ætlaðan styrkleika haldlagðs vökva.

Skýrslur fyrir dómi:

Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki kannast við að hafa framleitt umræddan landa ásamt föður sínum. Ástæða þess að landi hafi verið í bifreið hans væri sú að hann hafi verið á leið í partý þar sem hann hafi ætlað að drekka landann og bjóða með sér. Spurður um þau tæki sem fundust heima hjá honum kvaðst ákærði ekki vita hvað faðir hans hafi gert við þessi tæki. Rangt væri eftir honum haft í lögregluskýrslu frá 2. janúar 2015, að hann hafi verið á leið til Reykjavíkur með landann til þess að ná sér í smá aur eða kannski hafi hann logið að lögreglumanninum að hann væri á leið til Reykjavíkur í þessum tilgangi. Hann neitaði því að svara spurningu um það af hverju allur þessi landi hafi verið í bifreiðinni og á heimili hans.

Vitnið BD kom fyrir dóminn og bar að hafa átt þann landa sem fannst við húsleit að [...] þann 30. október 2014. Ekki hafi verið um framleiðslu að ræða heldur hafi hann keypt handspritt í apóteki og þynnt það niður. Aðspurður upplýsti hann að ákærði F hafi ekki átt að selja þetta fyrir hann og efaðist hann um að ákærði hefði yfirleitt spurt hann um leyfi fyrir notkun á því.

Vitnið BE lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti að lögregla hefði fylgst með heimili F vegna gruns um framleiðslu og sölu á landa. Við handtöku hafi F upplýst að hann væri með landa í bifreið sinni og að hann væri ætlaður til sölu og að ákærði hafi framleitt landann. Ákærði hafi hins vegar breytt framburði sínum, eftir að hann hafði rætt við lögmann sinn, á þann hátt að þetta væri til einkaneyslu. Síðar hafi hann talað um að pabbi hans hafi séð um framleiðsluna en augljóslega hafi hann þekkt til þess máls. Þá kom fram að suðutæki, landi og fleira hafi verið haldlagt á vettvangi og komi það fram á munaskýrslu. Aðspurður kvað hann engan hafa komið að kaupa áfengi á þeim tíma sem þeir hafi haft eftirlit með húsi ákærða.

Vitnið BE lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa fylgst með heimili ákærða þar sem tilkynning hafi borist um að hann væri að selja landa. Ákærði hafi gengið út af heimili sínu með poka í sitthvorri hendi þar sem í voru brúsar með glærum vökva. Hafi þeir handtekið ákærða er hann var að keyra í átt til Reykjavíkur. Þá spurður um það hvað hann ætlaði að gera við vökvann, hafi ákærði svarað því að hann hafi ætlað að selja hann í Reykjavík. Ákærði hafi við húsleit haft samband við lögmann sinn og í framhaldi af því breytt framburði sínum á þá leið að faðir hans hafi verið að brugga landann og hafi hann verið til einkanota. Hann viti ekki hvort ákærði og faðir hans hafi sammælst um þetta. Við leit hafi fundist bruggtæki sem ákærði og faðir hans hefðu afsalað til lögreglu. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð fólk koma meðan eftirlit hafi verið haft með húsinu. Að húsleit lokinni hafi verið farið með landann til tæknideildar sem hafi tekið sýni af honum og sent til rannsóknar. Hann viti ekki hvernig sýnin hafi verið geymd.

Vitnið BF, deildarstjóri Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, gaf símaskýrslu fyrir dóminn. Bar hún að sýnin sem hún fékk til rannsóknar hafi verið tær litlaus vökvi, ekki gerjandi. Hafi mæling gefið til kynna 25-26% styrk etanóls í vökvanum. Hafi gerjun verið stöðvuð með suðu efnanna og magn etanóls hafi ekki aukist við geymslu og því skipti ekki máli þótt einhver tími hafi liðið frá því að landinn var haldlagður og þar til hann var sendur á rannsóknarstofuna.

Niðurstöður:

Í málinu er sannað að 30 flöskur af landa, fundust í farangursgeymslu bifreiðar ákærða eftir að för ákærða var stöðvuð, og var styrkleika hans 25-26%. Ákærði gaf lögreglumönnum á vettvangi þá skýringu að hann hefði framleitt landann og hafi ætlað að selja þann landa sem hann var með í bifreiðinni. Meira magn af landa fannst við húsleit á heimili ákærða og breytti hann fyrri skýringu á þann veg að landinn hafi verið til einkanota. Skýring ákærða telst ekki trúverðug. Þannig gaf ákærði lögreglu þá skýringu annars vegar að hann hafi verið að brugga fyrir sjálfan sig og hins vegar að faðir hans hafi verið að brugga landann. Í skýrslu sinni hjá lögreglu kvaðst faðir ákærða hafa lagt í tunnur þar sem vökvinn hafi síðan legið í gerjun. Fyrir dómi bar faðir ákærða hins vegar að um hafi verið að ræða handspritt keypt í apóteki og hafi hann þynnt það niður. Þá bar ákærði hjá lögreglu að hafa verið með bruggtækin í láni og afsalaði hann sjálfur þeim landa og tækjum og tólum sem fundust á heimili hans. Telst að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði F hafi framleitt þann landa sem fannst í bifreið og á heimili hans, og hafi að minnsta kosti hluti hans verið ætlaður til sölu. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er hún réttilega heimfærð til a-liðar 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr og 1. mgr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998, en ekki er tekin afstaða til þess hvort háttsemin hafi verið í félagi við föður hans.

Ákæra útgefin 26. mars 2015, ákæruliður 2.

Málavextir:

Símhlustun fór fram á símanúmeri skráðu á nafn ákærða samkvæmt dómsúrskurði. Hringt var úr því númeri í brotaþola þessa máls. Að mati lögreglu verður efni þeirra símtala ekki túlkað á annan veg en að þar sé ákærði að reyna að fá brotaþola, sem þá var undir lögaldri, til þess að neyta með honum fíkniefna. Ákærði neitaði sök hjá lögreglu og kannaðist ekki við að rödd hans kæmi fram á upptöku.

Í gögnum málsins er skýrsla lögreglu um símhlustun, þar sem lögreglan lýsir því sem fram hafi komið í meintum símtölum á milli ákærða og brotaþola, en auk þess fylgir hljóðupptaka þeirra símtala.

Skýrslur fyrir dómi:

Aðspurður bar ákærði að brotaþoli hafi komið til hans í umrætt sinn. Hann viti hins vegar ekki til þess að hann hafi látið brotaþola fá einhver fíkniefni eða lyf í það skiptið eða hvatt hana til neyslu fíkniefna. Spurður hvort neysla hafi oft verið í gangi þar sem brotaþoli hafi verið, svaraði ákærði því játandi að oft hafi hann hitt brotaþola þegar neysla hafi verið í gangi. Þannig gæti vel verið að hann hafi sett 10 línur á borðið í partýi og sjálfur fengið sér tvær. Hann hafi hins vegar ekki stuðlað að hennar neyslu og hún hafi verið búin að vera í neyslu löngu áður en hann kynntist henni. Taldi hann að brotaþoli væri orðin 18 ára gömul.

Vitnið O kom fyrir dóminn og bar um að vera vinur F. Hún hafi oft verið í samskiptum við hann þótt hún gæti ekki staðfest að það hafi verið 1. desember 2014 eða að F hafi boðið henni fíkniefni þann dag. Aðspurð kom fram hjá henni að barnaverndarnefnd hafi hætt að hafa afskipti af henni fyrir rúmu ári.

Vitnið BG lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar um að uppritun úr símtölum sem liggi frammi í málinu hafi verið gerð eftir símhlustun sem fengin hafi verið með dómsúrskurði í tengslum við rannsókn á öðru máli. Fyrir honum væri augljóst hvað ákærði þessa máls væri að ræða í þeim símtölum.

Einnig kom fyrir dóminn vitnið BH lögreglumaður og bar um að hafa hlustað á símtöl þau sem liggja fyrir í málinu.

Niðurstöður:

Ákærði hefur borið fyrir dómi að brotaþoli hafi komið til sín í umrætt sinn en hann hafi ekki gefið henni fíkniefni eða hvatt hana til þess að neyta fíkniefna. Í málinu liggja fyrir upptökur og samantektir símtala, þar sem hringt er úr símanúmeri skráðu á nafn ákærða til brotaþola þann 1. desember 2014. Ekki hefur annað verið leitt í ljós fyrir dóminum en að ákærði hafi hringt í brotaþola í umrædd sinn. Við hlustun á símtölum kemur fram að ákærði hringir í brotaþola og upplýsir hana um að hann eigi „moggakassa, einn feitan og Xanax pappa“, sem allt mun vera fíkniefni. Svarar brotaþoli: „O ég er til í það“. Brotaþoli spyr ákærða hvort það sé ekki rétt að hann sé að biðja hana að koma til hans og játar ákærði því. Í framhaldi af því gerir ákærði ráðstafanir til þess að brotaþoli komist úr Reykjavík í Kópavog, þar sem ákærði var þá staddur, og enda símtölin á því að brotaþoli hringir bjöllu á því heimili sem ákærði var þá staddur í. Bæði brotaþoli og ákærði báru um að hafa hist oft og verður því ekki annað ráðið en að þau hafi þekkst nokkuð vel. Ákærða mátti því vera ljóst hver var aldur brotaþola þegar hann að mati dómsins hvatti brotaþola til fíkniefnaneyslu í umrætt sinn og breytir engu að mati dómsins þótt brotaþoli hafi upplýst að barnaverndaryfirvöld hafi þá verið hætt afskiptum af henni. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ákæra, útgefin 13. febrúar 2015, gegn F, Ó og P.

Málavextir:

Í skýrslu lögreglu kom fram að tilkynning hefði borist um töskur, kassa og aðra muni sem væru á bifreiðastæði fyrir framan [...] í Kópavogi. Við komu lögreglu á staðinn hafi vegfarendur bent á þrjá menn sem hafi gengið í halarófu upp [...] í átt að [...] og að þeir hafi áður verið með varninginn. Við  [...] munu mennirnir hafa farið upp í bifreið og sá lögreglan hvar bifreiðinni var ekið að íbúðarhúsi í Kópavogi og þangað fóru mennirnir þrír inn. Þegar lögreglan var þar fyrir utan kom tilkynning um að á slysadeild væri staddur maður sem ákærði F og fleiri hefðu gengið í skrokk á. Væri maðurinn illa farinn og hafi líkamsárásin átt sér stað á [...] í Kópavogi. Voru ákærðu og húsráðandi handteknir með aðstoð sérsveitar lögreglu. Fram kom að stúlka sem var í för með ákærðu mun ekkert hafa haft sig í frammi en ákærðu hafi hins vegar allir veist að brotaþola með þeim hætti og afleiðingum sem í ákæru greinir. Fram kom í gögnum málsins að brotaþoli hafi hleypt einum ákærða inn, enda þekkt hann, en sá mun hafa hjálpað hinum tveimur að komast inn og þeir síðan allir þrír ráðist á brotaþola. Ástæða árásarinnar mun hafa verið sú að refsa átti brotaþola fyrir að hafa sett sig í kynni við barnsmóður F. Hluti refsingarinnar var að taka af honum mynd eftir barsmíðarnar í þeim tilgangi að senda hana til barnsmóður F.

Í skýrslu af ákærða F hjá lögreglu þann 25. febrúar 2014 kvaðst hann hafa verið heima hjá brotaþola. Hann myndi lítið eftir atburðum eða hverjir hafi verið með honum. Í skýrslu af ákærða F hjá lögreglu þann 4. mars 2014 kom fram að hann hafi kýlt brotaþola vegna þess að brotaþoli hafi kysst kærustu hans, en taldi það ekki hafa verið alvarlegt. Í skýrslu lögreglu af ákærða Ó þann 25. febrúar 2014 kvaðst hann ekki hafi farið inn til brotaþola í umrætt sinn og í skýrslu hans hjá lögreglu þann 4. mars 2014 kvaðst ákærði hafa farið inn til brotaþola ásamt ákærðu F og P. Brotaþoli og ákærði F hafi farið að rífast og einhver áflog hafi orðið milli þeirra út af kvennamálum en hann hafi ekki átt neinn þátt í því og ekki séð þau eða hvort ákærði P hafi tekið þátt í þeim. Hann hafi þó tekið mynd af brotþola á síma sinn. Í skýrslu lögreglu af ákærða P þann 5. mars 2014 kom fram að ákærði myndi lítið eftir atburðum, en það síðasta sem hann myndi eftir var þegar hann var að leið í [...] með ákærða F og að þeir hafi skilið eftir muni á bílastæðinu við [...]. Síðar kom þó fram að hann hafi tekið brotaþola kverkataki og slegið hann, auk þess að setja á hann BBQ-sósu.

Brotaþoli lagði fram kæru hjá lögreglu þann 26. febrúar 2014 og bótakrafa hans var móttekin af lögreglu þann 2. apríl 2014. Í málinu liggja meðal annars fyrir læknisvottorð brotaþola, dags. 25. febrúar 2014 og 25. apríl 2014, afrit úr sjúkraskrá, skýrsla sálfræðings, myndir úr öryggismyndavél [...], myndir úr síma ákærða Ó og rannsókn á priki og bol ákærða F.

Skýrslur fyrir dómi:

Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ákærði F hafa verið á [...] í Kópavogi ásamt öðrum ákærðu, þeim P og Ó, ásamt einhverri stúlku sem hann viti ekki hvað heiti. Ferðinni hafi ekki sérstaklega verið heitið til brotaþola en brotaþoli hafi boðið þeim inn. Hann hafi hins vegar viljað ræða við brotaþola í því skyni að fá hann til að hætta að vera í samskiptum við barnsmóður hans. Brotaþoli hafi farið að rífa kjaft á móti og hann þá sagt við hann að hann vildi ekki hafa barnaníðinga heima hjá börnunum sínum. Hafi það endað með því að hann hafi slegið brotaþola með krepptum hnefa, einu sinni að hann taldi. Eftir að borin var undir hann skýrsla hans hjá lögreglu frá 4. mars 2014 bar ákærði að vel gæti verið að hann hafi slegið brotaþola oftar og hafi höggin verið í andlit brotaþola.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa slegið brotaþola með priki. Fram kom að brotaþoli hafi ekki viljað slást og hafi örugglega liðið illa. Hafi brotaþoli lofað að hætta að tala við barnsmóður hans. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neina áverka á brotaþola eftir þetta. Spurður um þátt annarra kom fram að Ó hefði farið á salernið og að hann gæti ekki vitnað um hvað aðrir hafi gert en rangt væri að þeir hafi allir þrír stokkið á brotaþola. Kannaðist ákærði ekki við að hafa slegið brotaþola með Playstation tölvu í höfuðið en kannaðist við að hafa haft skæri um hönd. Hafi hann pikkað eitthvað í öxl brotaþola með þeim. Skærin hafi verið lítil nefháraskæri. Hann hafi ekki stungið með þeim en pikkað tvisvar sinnum, hugsanlega oftar. Þetta hafi ekki verið gert til þess að slasa brotaþola og hann hafi gætt sín á því að stinga bara rétt inn fyrir húð brotaþola með því að halda framarlega á skærunum þannig að aðeins millimetrar hafi staðið fram. Spurður um myndir kannaðist ákærði við að hafa tekið myndir af brotaþola í þeim tilgangi að sýna barnsmóður sinni. Hann vissi ekki hver hafi tekið myndirnar. Hann hafi hins vegar sprautað BBQ-sósu yfir brotaþola í þeim tilgangi að hann liti illa út á myndunum. Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa tekið muni af heimili brotaþola og brotaþoli hafi ekki verið krafinn um bætur eða peninga. Aðspurður kvað hann brotaþola aldrei hafa beðið þá að fara út og taldi að hann hafi stoppað stutt, kannski 10 mínútur.

Ákærði Ó bar fyrir dómi að hafa verið með öðrum ákærðu á [...] þegar atburðir áttu að hafa gerst. Hafi hann ætlað að kíkja í heimsókn til brotaþola og verið kalt. Brotaþoli hafi opnað fyrir þeim og eftir að inn hafi verið komið hafi hann brugðið sér á salernið og verið þar í svona 15 mínútur. Meðan hann hafi dvalið þar hafi hann heyrt einhverjar ryskingar. Eftir að hann hafi komið út hafi hann séð brotaþola þar sem hann var rauður á lit vegna sósu sem hafði verið sprautað yfir hann. Hann hafi ekki séð hver sprautaði sósunni. Þá hafi hann ekki séð neinar kýlingar og hafi ekki snert brotaþola með neinum hætti. Hann hafi ekki séð neinn vera með skæri eða að brotaþoli hafi verið laminn með priki. Brotaþola hafi aldrei verið haldið eða hann bundinn og sjálfur hafi hann farið strax út eftir að hann kom af salerninu og ekki séð nein átök.

Ákærði gat ekki gefið skýringu á áverkum á brotaþola, enda hafi hann ekki séð neina áverka á honum. Þá kannaðist hann ekki við að hafa tekið neina hluti af heimili brotaþola eða hafa séð að hlutir hafi verið teknir. Aðspurður kvaðst hann hafa séð einhverja stúlku á vettvangi sem hafi verið sofandi í sófa. Ákærði gat ekki útskýrt hvers vegna símakort og sími brotaþola hafi fundist á honum eftir handtöku. Borin var undir hann skýrsla hans hjá lögreglu þann 4. mars 2014, þar sem hann hafi gefið þá skýringu að brotaþoli hafi látið hann fá símann og bar ákærði að það væri rangt. Ákærði bar einnig að hann hafi ekki tekið myndir af brotaþola, þó svo að myndirnar hafi fundist í síma hans. Fram kom í máli ákærða að allar ávirðingar í ákæru á hendur honum, um frelsissviptingu, meiriháttar líkamsmeiðingar og rán væru rangar. Spurður um ástand sitt á þessum tíma bar ákærði að það hafi verið alvarlegt. Hann hafi verið búinn að vera lengi í neyslu fyrir umrædd atvik. Í dag væri hann hins vegar hættur allri neyslu, hafi verið edrú í fjóra mánuði og á þeim tíma verið í vinnu og væri nú einnig í námi.

P kvaðst fyrir dómi muna lítið eftir atvikum þar sem hann hafi verið mjög veikur á þessum tíma vegna sykursýki og hafi verið veikur þegar lögreglan tók af honum skýrslu. Hann muni ekki hvort hann hafi verið undir áhrifum annarra efna en bar að hann og aðrir ákærðu í málinu, F og Ó ásamt einhverri stúlku hafi farið á staðinn vegna einhvers ágreinings milli F og brotaþola. Í raun muni hann ekki eftir Ó þarna. Hann viti ekki hver hafi átt hugmyndina að því að heimsækja brotaþola. Brotaþoli hafi komið til dyra og hann þá ýtt brotaþola, tekið hann frá eða hrint honum harkalega, ekki meira en það. Hann viti að hann sló brotaþola ekki og sparkaði ekki í hann, en hvort hann hafi tekið um barkann á honum og kreist geti hann ekki vitnað um. Innandyra hafi verið einhver rifrildi og eitthvað annað. Sjálfur hafi hann ekki gert neitt meira en þetta, enda sé brotaþoli vinur hans. Aðspurður hvort hann hafi tekið brotaþola kverkataki kvaðst hann hvorki geta játað eða neitað því. Hann hafi hins vegar ekki slegið hann eftir því sem hann best viti.

Spurður um muni sem hafi verið teknir úr íbúðinni kvaðst ákærði kannast við það en hann hafi hætt við og skilið það eftir við dyrnar. Spurður hvort þeir hafi allir þrír tekið munina eða hvort það væri mögulegt að hann hafi einn tekið þá, taldi hann mögulegt að hann hafi tekið þá einn, en hann væri ekki viss, hann ætti ekki gott með að muna þetta. Aðspurður um það sem fram kæmi í lögregluskýrslu um að þeir hafi hugsanlega allir þrír staðið að því að bera út hlutina, kvaðst ákærði muna eftir því að hafa sagt það hjá lögreglu. Spurður hversu lengi þeir hafi verið í íbúð brotaþola, taldi ákærði að það hafi verið hámark 30 mínútur en gætu hafa verið 10 mínútur, en þeir hafi ekki verið lengi. Bar hann að brotaþoli hafi ekki verið frelsissviptur og hann ekki beðið um að fara. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð brotaþola stunginn með skærum eða barinn með priki og taldi að hann hefði stöðvað það ef hann hefði séð það. Brotaþola hafi ekki liðið vel meðan á þessu stóð. Hann hafi rætt við brotaþola og reynt að róa hann. Þá hafi hann vitað að brotaþoli væri veikur í maga og ætti ekki að slá hann í magann. Borin undir hann áverkavottorð brotaþola bar ákærði að ekkert af áverkum brotaþola væri eftir hann. Hann hafi ekki séð áverka á brotaþola. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir Playstation tölvu og taldi ósennilegt að brotaþoli hafi fengið hana í höfuð eða andlit. Aðspurður um mynd sem hafi verið tekin af brotaþola kvaðst ákærði á þeim tímapunkti hafa verið farinn niður. Hann hafi hins vegar séð tómatsósu eða BBQ-sósu á brotaþola. Aðspurður um stöðu sína í dag kvaðst ákærði eiga tvær dætur og hafi nú breytt líferni sínu. Hann sé í rekstri erlendis og skóla. Ákærði kvaðst sjá eftir því sem gerðist.

Vitnið R brotaþoli kom fyrir dóminn og bar að upphaflega hafi hann fengið símtal frá Ó sem hafi sagst vera í bílavandræðum og væri kalt og spurt hvort hann mætti koma inn til hans. Hafi hann samþykkt það, enda talið Ó vin sinn. Ó hafi, þegar hann kom, beðið hann að klæða sig þar sem „tveir bræður hans“ væru með honum. Hafi þetta verið kl. 10:15 um morguninn. Ó hafi farið aftur fram og skömmu síðar hafi dyrabjöllunni verið hringt og hann farið til dyra. Þá hafi allir ákærðu ráðist á hann. Hafi P þá verið fremstur í flokki og tekið hann kverkataki meðan hinir hafi látið höggin dynja á honum. Hafi átökin við þá borist eftir endilangri íbúðinni, eina 10-15 metra, og út að svalahurð. Eina sem hann hafi hugsað á þessum tíma hafi verið að losa tökin en á meðan hafi hann fengið óteljandi högg. Hafi það endað með því að annaðhvort Ó eða P hafi náð á honum svæfingartaki eða hálstaki og sagt við hann að ef hann hætti ekki að steitast á móti þá yrði þetta verra. Aðspurður um hvort Ó hafi kýlt hann gat hann ekki borið að svo hafi verið, en þeir hafi allir ráðist á hann við inngönguna í íbúðina og hann ekki séð hver hafi kýlt á þeirri stundu, enda verið með andlitið í gólfinu. Ákærði F hafi farið fremstur í flokki, þótt P hafi einnig kýlt hann, en helstu áverkar sem hann hafi fengið væru eftir F. Spurður hvort sparkað hafi verið í hann, kvaðst hann ekki muna það, en hann hafi fengið högg í síðuna. Aðspurður um Playstation tölvu bar brotaþoli að í átökunum við svalahurðina hafi F tekið tölvuna, komið hlaupandi og stokkið upp, undið upp á sig og slegið hann í andlitið með tölvunni en á meðan hafi Ó og P haldið honum. Við þetta hafi hann nefbeinsbrotnað og dottið í gólfið og vankast, enda höggið fast. Hafi tölvan brotnað við þetta. Síðar hafi hann komist upp í sófa en þá hafi F byrjað að svívirða hann og sagt að brotaþoli hafi eyðilagt fjölskyldulíf hans.

Í framhaldi af þessu hafi F tekið upp oddhvöss „klippiskæri“ og stungið hann snöggt tvisvar eða þrisvar í hægri og vinstri öxl eða upphandlegg með lokuðum skærunum. Taldi hann að skærin hafi gengið inn um 5-6 sm. Hafi hann þurft að fara í aðgerð vegna þessa. Einnig hafi F kýlt hann af og til og ausið yfir hann svívirðingum. Á meðan á þessu hafi staðið hafi P reynt að stöðva F. Þá hafi F náð í spýtu úr fimleikarimlum og barið brotaþola fast í læri og hné, tvö-þrjú högg. Hafi brotaþoli þá verið allur í blóði og haft miklar áhyggjur af því að ákærðu kýldu hann í magann þar sem hann væri með stóma. Eftir þetta hafi verið ákveðið að taka af brotaþola „snapchat“ myndir. Hafi hann setið í stól og F við hlið hans brosandi. Ó hafi tekið BBQ-sósu og helt yfir hann og sagt honum að vera álútur. Hafi tilgangur verið sá að láta hann líta illa út eða niðurlægja hann í þeim tilgangi að senda til barnsmóður F. Á þessum tímapunkti hafi hann verið búinn að þrífa blóðið af sér með leyfi ákærðu. Aðspurt kom fram að stúlka hafi verið með ákærðu í för og hafi hún orðið vitni að atburðum, en verið í annarlegu ástandi.

Fram kom að eftir þetta hafi F sagt við brotaþola að hann yrði að borga fyrir það sem hann átti að hafa gert á hlut F og stungið upp á því að brotaþoli greiddi honum 5 milljónir króna. Þá hafi F sagt að hann ætti hund sem hann hafi þjálfað „til þess að taka 16 ár fyrir hann“. Þá ætti brotaþoli einnig að selja fíkniefni og innkoman ætti að renna til F. Ákærðu hafi síðan verið að róta í dótinu hans í leit að lyfjum og spurt hann hvort þeir mættu eiga hlutina hans og hann ekki þorað annað en að játa. Ákærðu hafi raðað saman dótinu hans og sagst ætla að taka það. Sjálfur hafi hann farið að taka til í íbúðinni, hreinsa upp glerbrot og að leita að bíllyklunum að bílnum, þar sem F hefði heimtað þá. Hann hafi hins vegar ekki fundið lyklana. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa haft möguleika á því að komast út, F hafi enn verið að ógna honum og kýla hann auk þess sem hné hans var illa farið og hann því ekki átt auðvelt með gang. Hann hafi hins vegar ekki beðið um að fá að fara, hann hafi ekki þorað því. Þá hafi hann heldur ekki þorað að biðja þá að yfirgefa íbúðina. Í framhaldi af þessu hafi allir ákærðu farið að bera út dótið hans, en F verið minnst í því. Hafi hann verið einn með F í einhvern tíma, síðan einn með P meðan hinir tveir hafi borið út dót. Meðan hann hafi verið einn með P hafi P beðið hann afsökunar á þessu og sagt honum að hann hafi þurft að gera þetta. Aðspurður taldi hann að ákærðu hafi verið farnir kl. 11:30 – 11:45.

Eftir að ákærðu hafi verið farnir, hafi hann fengið taugaáfall og hafi ekki ætlað að hringja á lögreglu eða fara á spítala. Nágrannakona hans hafi hins vegar komið og séð aðstæður og hringt. Sjálfur ætlaði hann að „stúta“ sjálfum sér en farið að beiðni nágrannakonunnar aftur í bíl hjá henni, lagst þar niður og falið sig. Fram kom að helstu áverkar hans hafi verið nefbrotið og rifbeinsbrot hægra megin sem sennilega hafi komið eftir spörk þegar hann lá niðri. Hafi rifbeinin verið veik fyrir eftir bílslys sem hann hafi lent í áður. Þá hafi hann þurft að fara í aðgerð á öxl að ótöldum þeim andlegu afleiðingum sem hann ætti enn við að stríða.

Vitnið CA kom fyrir dóminn og bar að hafa fengið símtal frá dóttur sinni sem hafi sagt henni frá miklum hávaða úr næstu íbúð að [...] í Kópavogi, íbúð brotaþola, og hafi dóttir hennar verið mjög hrædd. Fyrir utan [...] hafi hún séð þrjá menn standa við innganginn og hafi þeir verið með dót í kössum og pokum. Hafi hún ákveðið að banka hjá brotaþola og athuga með hann, enda séð blóð á hurðinni. Brotaþoli hafi komið til dyra, blóðugur í andliti og skorinn á handlegg og hafi hann verið skelfingu lostinn. Þá hafi allt verið úti um allt í íbúð hans. Hafi hann skýrt frá því að á hann hafi verið ráðist og hann rændur. Hafi hún þá keyrt brotaþola á slysavarðstofu og hann legið í aftursætinu með úlpu yfir sér. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa verið kölluð til í sakbendingu.

Vitnið CB kom fyrir dóminn og kvaðst muna lítið eftir atvikum en hún hafi heyrt læti í íbúð við hlið hennar. Hafi hún bæði heyrt brothljóð og öskur. Síðar hafi gengið inn í íbúðina hennar stúlka, enda hafi íbúðin verið ólæst. Hafi hún þá hringt í móður sína. Þegar hún hafi síðan komið hafi lætin hætt. Hún viti ekki hvað þetta hafi staðið yfir lengi.

Vitnið CC kom fyrir dóminn og bar að hafa séð þegar menn hafi verið að bera út drasl en hún geti ekki sagt neitt til um þá og muni ekki hvort hún hafi talað við þá. Hún hafi séð þegar brotaþoli hafi komið til dyra „eins og klessa, allur í blóði“ og hafi sagt frá því hvað hafi gerst, svo sem því að hann hafi verið stunginn með skærum og dótið hans tekið. Borin var undir hana lögregluskýrsla tekin af henni þar sem hún hafi sagt að þessir atburðir hafi gerst um 11:00-11:30, og taldi hún það geta staðist. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa verið kölluð til í sakbendingu.

Vitnið CD kom fyrir dóminn og bar að hafa séð tvo menn ganga út með dót eins og þeir væru að flytja. Hún hafi bankað upp á hjá brotaþola sem hafi tjáð henni að hann hafi verið laminn af þessum mönnum sem hafi tekið af honum dótið og hafi sést áverkar á brotaþola.

Vitnið CE kom fyrir dóminn og bar að hafa komið að [...] í Kópavogi klukkan rúmlega 11:00. Við dyrnar hafi staðið stór maður með mikið af tattú. Hjá manninum hafi verið mikið drasl og hún spurt hann hvort þetta væri á hans vegum og hann játað því. Eftir einhver orðaskipti hafi hann tekið draslið og sett út fyrir. Stuttu síðar hafi sami maður komið upp og tekið í hurðarhún að íbúð móður hennar og vitnið spurt hvað hann vantaði og hafi maðurinn þá svarað: „Ég er að bíða eftir því að þetta sé búið“. Hún hafi síðan ætlað að hringja í brotaþola en sá sem hafi svarað hafi sagt við hana að brotaþoli væri ekki heima og hafi hún frétt það síðar að hún hafi þá verið að tala við þann aðila sem hafi tekið síma brotaþola.

Vitnið CF, barnsmóðir ákærða kom fyrir dóminn og skoraðist undan því að bera vitni.

Vitnið CG gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að tveir menn og stúlka hafi komið í inn fyrirtæki hans sem staðsett er að [...] í Kópavogi. Hafi aðkoma hans ekki verið önnur en sú að hann hafi gert athugasemdir við veru þeirra í anddyri fyrirtækisins. Vel má vera að fólkið hafi verið með kassa með sér.

Vitnið CH kom fyrir dóminn og kvaðst þekkja ákærðu þessa máls en muni ekki neitt eftir atvikum vegna ástands síns í umrætt sinn.

Vitnið CI kom fyrir dóminn og kvaðst ekki muna neitt eftir atvikum umrætt sinn.

Vitnið CJ lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa skrifað frumskýrslu málsins. Hafi hún verið kölluð til vegna dóts fyrir utan [...]. Fólk á vettvangi hafi bent henni á þrjá menn sem hafi gengið í röð fyrir hornið hjá [...]. Síðar hafi lögreglan séð þegar mennirnir hafi farið inn í íbúð í Kópavogi. Þar hafi lögreglan fengið upplýsingar um mann á slysavarðstofu sem hafi verið slasaður og þá verið ákveðið að handtaka ákærðu.

Vitnið CK lögreglumaður, sem kom fyrir dóminn gaf efnislega sömu skýrslu og vitnið Hildur.

Vitnið CL lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa hitt brotaþola á slysadeild. Brotaþoli, sem hafi þá verið í tilfinningalegu uppnámi, hafi verið lerkaður og sýnilega lent í árás, bólginn í andliti. Hafi hann nafngreint meinta árásarmenn og sagt að hann hafi verið tekinn kverkataki, kýldur og sparkað í hann.

Vitnið CM lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa tekið skýrslur af nokkrum vitnum málsins. Hann hafi ekki rannsakað vettvang en hringt í tæknideild lögreglu og verið á vettvangi þar til þeir komu.

Vitnið CN lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa haldlagt prik sem brotaþoli hafi afhent lögreglu og hafi það verið notað við árásina. Ekki hafi verið haldlagðir aðrir hlutir eins og Playstation tölva eða skæri. Spurður hvort kannað hafi verið með símagögn, bar vitnið að það sem hefði verið rannsakað kæmi fram í gögnum málsins.

Vitnið CO lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa gert vettvangsskýrslu á [...] í Kópavogi. Blóð hafi fundist á gólfi, vegg, handklæði, á baðherbergi og hurðarhúni. Annað markvert hafi ekki verið að sjá. Ekki hafi legið fyrir, þegar hún hafi verið á staðnum, með hverju brotaþoli hafi hugsanlega verið sleginn og því hafi hlutir eins og Playstation tölva og skæri ekki verið haldlögð. Vitnið kvaðst ekki hafa „opnað staðinn“ eftir þetta.

Vitnið CÓ, sérfræðingur í tæknideild, kom fyrir dóminn og bar að hafa skoðað bol sem haldlagður var í málinu. Hafi hann fundið blóðbletti í bolnum.

Vitnið CP, sérfræðingur tæknideildar lögreglu, kom fyrir dóminn og bar að hafa rannsakað prik eða kylfu sem hafi verið haldlögð. Sennilega væri um að ræða rim úr leikfimissal. Ekkert blóð hafi fundist á prikinu. Staðfesti hann að lengd priksins hafi verið 80,3 sm en ekki 90 sm eins og í ákæru greinir.

Vitnið CR læknir kom fyrir dóminn og bar að hafa ásamt öðrum lækni tekið á móti brotaþola við komu á slysadeild. Upplýsti hann að áverkar þeir sem hafi verið á brotaþola hafi vel getað samrýmst því að hann hafi verið sleginn og stunginn með skærum. Aðspurður um barefli taldi vitnið að óljósara hafi verið um það og ekki komið skýrt fram. Áverkar í andliti hafi verið þess eðlis að um „sljóan“ hlut hafi verið að ræða, hvort sem það var barefli eða hnefi og ekki hægt að greina þar á milli. Mest hafi verið um maráverka og síðan brot á nefi. Tilfærsla á nefi hafi verið lítils háttar. Á upphandleggjum hafi greinst smásár auk tognunaráverka. Aðspurður um rifbeinsbrot kvað vitnið að ekkert hafi gefið til kynna um það. Lungnahlustun hafi virst í lagi og álag á brjóstkassa hafi virst í lagi þá. Hins vegar geti mögulega verið að þetta hafi ekki greinst strax. Spurt um stungusárin kom fram að þau hafi verið lítil, 2-3 millimetrar á breidd, en ekki hafi verið hægt að segja til um dýpt þeirra. Æðar og taugastarfsemi beggja handa hafi verið í lagi og því ekki verið ástæða til þess að skoða það frekar. Aðspurður sagði hann að allir áverkar sem lýst væri í vottorði teldust litlir samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum, jafnvel nefbrotið.

Vitnið CS læknir kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi komið til sín um það bil mánuði eftir meinta árás. Staðfesti hann læknisvottorð sitt sem liggur fyrir í málinu. Fram kom að brotaþoli hafi áður verið með áverka á hægri öxl en hann talið að þeir áverkar hafi verið orðnir nokkuð góðir. Brotaþoli hafi hins vegar verið kominn með verki að nýju í öxlina eftir árásina. Um væri að ræða sin sem hlaupi undir axlarhyrnuna og verði hún fyrir hnjaski þá bólgni hún upp og gæti valdið þrengslum. Hafi þurft að létta á bólgu með því að taka af axlarhyrnunni til þess að létta á hreyfigetunni, en brotaþoli sé enn stífur í öxlinni. Spurður hvernig þessi áverki gæti hafi komið, bar vitnið að það gæti hafi komi við högg. Spurður hvort þessi áverki sé sennilegur áverki af því að brotaþoli hafi verið stunginn með litlum naglaskærum, svaraði vitnið því til að hann gæti ekki borið um það með vissu, enda hafi brotaþoli komið til hann mánuði eftir atburði og öll sár þá gróin. Spurður um gróandi brot á rifi hægra megin og hvort það gæti samrýmst því að hann hafi fengið högg á rifbein, bar læknirinn að það brotnaði ekki öðruvísi. Spurður hvort sá áverki gæti hafa komið mánuði áður bar vitnið að erfitt væri að meta það, það gæti verið og brotaþoli hafi verið aumur í því. Spurður hvort flokka mætti áverka brotaþola sem minniháttar upplýsti vitnið að brotaþoli hafi farið í aðgerð á öxl. Þá hafi verið áverkar á mjúkvefjum. Erfitt sé að segja til um batahorfur.

Vitnið CT sálfræðingur gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti að hafa gert sálfræðivottorð það sem liggi fyrir í málinu. Hafi hún metið geðræn einkenni brotaþola. Brotaþoli hafi verið hreinskilinn í öllum sínum svörum. Niðurstaða þeirrar greiningar hafi verið sú að brotaþoli hafi greinst með áfallastreituröskun. Hafi verið lagt mat á það hvað hafi haft mest áhrif á þá greiningu, og hafi niðurstaðan verið sú að það hafi verið meint árás. Mat hennar og samstarfsmanns hennar hafi verið framkvæmt á tímabilinu 8.-30. október 2014. Ekki skipti máli þótt einhver tími hafi liðið frá atburðum þar til mat fari fram. Hafi hún hitt brotaþola þrisvar og hafi það verið nægur tími til þess að ná fram greiningu á brotaþola. Þá upplýsti hún aðspurð að fólk geti verið reitt þó að það sé með áfallastreituröskun.

Niðurstöður:

Líkamsárás:

Framburður brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi var skilmerkilegur og staðfastur og í meginatriðum í samræmi við gögn málsins, þar á meðal læknisvottorð. Ekki er annað leitt í ljós en að brotaþoli hafi verið án áfengis- og vímuáhrifa er atvik gerðust og framburður hans trúverðugur.

Brotaþoli bar fyrir dómi að hann gæti ekki fullyrt að einhver hafi sparkað í hann. Læknisfræðileg gögn lýsa ekki áverkum sem verða sérstaklega raktir til sparka. Í skýrslu hjá lögreglu sem brotaþoli gaf þann 26. febrúar 2014, var hann beðinn um að gera nánari grein fyrir þeim höggum sem hann fékk. Bar hann þá að það hafi verið spörk eða kýlingar en hann væri ekki viss, hann hafi ekki séð það. Enginn hinna ákærðu hefur viðurkennt að hafa sparkað í brotaþola. Verður vafi um þetta atriði metinn ákærðu í hag.

Ákært er fyrir rifbeinsbrot. Brotaþoli bar fyrir dómi að hafa rifbeinsbrotnað hægra megin og hafi það sennilega verið eftir spörk. Brotaþoli hefur hins vegar ekki getað fullyrt að í hann hafi verið sparkað. Í framburðarskýrslu hjá lögreglu minnist brotaþoli ekkert á hugsanlegt rifbeinsbrot. Í læknisvottorði CR, læknis á slysa- og bráðadeild, er ekki minnst á neina áverka hjá brotaþola á rifbeinum og bar læknirinn fyrir dómi að ekkert hafi gefið til kynna rifbeinsbrot við skoðun og að álag á brjóstkassa hafi þá virst í lagi. Í læknisvottorði CS kom fram að brotaþoli hafi verið með gróandi brot á rifi hægra megin en erfitt væri að meta hvort rifbeinsbrotið hafi gerst mánuði fyrr en brotaþoli hafði áður fengið áverka á rifbeinum. Með vísan til framangreinds þykir vera sá vafi að ekki sé hægt að sakfella ákærðu fyrir þær afleiðingar að brotaþoli hafi rifbeinsbrotnað í umrætt sinn.

Ákærði Ó hefur alfarið neitað sök um allar ávirðingar og kvaðst hafa verið á salerninu en heyrt einhverjar ryskingar. Þætti Ó er ekki sérstaklega lýst í ákæru á annan hátt en svo, að ákærðu hafi allir í félagi slegið og sparkað í höfuð og líkama brotaþola. Ákærði P kvaðst fyrir dómi í raun ekki muna eftir því að Ó hafi verið á staðnum. Ákærði F bar að Ó hafi farið á salernið. Aðspurður bar brotaþoli, spurður um það hvort Ó hafi kýlt hann, að hann gæti ekki fullyrt um það. Gegn neitun ákærða verður ákærði sýknaður af líkamsárás skv. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða P er í ákæruskjali gefið að sök að hafa tekið brotaþola kverkataki og slegið brotaþola í andlitið, slegið og sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama. Ákærði kvaðst fyrir dómi lítið muna eftir atvikum þar sem hann hafi verið veikur og muni ekki hvort hann hafi verið undir áhrifum annarra efna. Hann hafi hins vegar ekki kýlt eða sparkað í brotaþola. Hann kvaðst hvorki geta játað því eða neitað að hafa tekið brotaþola kverkataki. Í vottorði CR læknis kemur fram að eymsli hafi verið yfir málbeini á hálsi og roðaför utanvert á hálsi. Ekki liggja fyrir upplýsingar þess efnis að brotaþoli hafi verið í andnauð vegna þessa. Brotaþoli hefur verið metinn trúverðugur. Að mati dómsins telst vera fram komin sönnun sem hafin er yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi tekið brotaþola kverkataki og hafi af því hlotist eymsli á hálsi.

Fyrir dómi bar brotaþoli að meðan P hafi haldið honum kverkataki, hafi hinir látið höggin dynja á honum, en gat ekki um að P hafi kýlt hann. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af brotþola þann 26. febrúar 2014, segir hann hins vegar að P hafi tekið hann kverkataki með hægri hendi og kýlt með þeirri vinstri. Spurður þá hvort P hafi kýlt hann oft svaraði brotaþoli: „Ég veit það ekki, svo getur líka verið að hann hafi bara hitt mig í ennið“. Spurður hvort allir þrír hafi kýlt hann eftir þetta svaraði brotaþoli: „Væntanlega, ég sá það ekki.“ Ósannað er að einhver ákærðu hafi sparkað í brotaþola. Að mati dómsins telst ekki vera fram komin sönnun sem hafin er yfir skynsamlegan vafa, að ákærði P hafi slegið brotaþola í andlitið eða ítrekað slegið og sparkað í höfuð og líkama brotaþola eins og lýst er í ákæru. Með vísan til framangreinds er varhugavert að fullyrða að háttsemi ákærða hafi verið sérstaklega hættuleg vegna aðferðar eða tækja sem ákærði hafi beitt. Brotaþoli bar sjálfur að helstu áverkar sem hann hafi fengið hafi verið eftir ákærða F. Með vísan til þessa verður ákærði P sýknaður af broti gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en háttsemi hans felld undir 1. mgr. 217. gr. sömu laga.

Ákærði F hefur játað fyrir dómi að hafa slegið brotaþola með krepptum hnefa í andlitið og vel gæti verið að hann hafi slegið brotaþola oft. Í vitnisburði CR læknis fyrir dómi kom fram að áverkar í andliti brotaþola hafi vel getað samrýmst því að hann hafi verið sleginn í andlitið með sljóum hlut, hvort sem það hafi verið barefli eða hnefi. Hafi af þessu meðal annars hlotist nefbrot. Með vísan til játningar ákærða telst sannað að áverkar þeir sem eru í andliti brotaþola, og um getur í ákæru, hafi orsakast af háttsemi hans.

Í ákæru er F gefið að sök að hafa slegið brotaþola með Playstation tölvu. Ekki liggja fyrir neinar nánari upplýsingar eða rannsókn á tölvunni, en að sögn brotaþola mun nef hans og tölvan hafa brotnað við höggið. Í skýrslu hjá lögreglu bar brotaþoli að höggið af tölvunni hafi lent hægra megin í andliti hans. Í vottorði CR læknis kom fram að brotaþoli hafi verið sleginn með sljóum hlut í andlitið. Playstation tölvur eru að því best er vitað úr hörðu efni. Með vísan til framangreinds þykir vera sá vafi að ekki sé hægt að sakfella fyrir þá háttsemi að brotaþoli hafi verið sleginn af ákærða F með Playstation leikjatölvu í andlitið.

F er ákærður fyrir að hafa slegið brotaþola með 90 sm priki í vinstra læri og vinstri upphandlegg. Í gögnum málsins er að finna rannsókn á „trékylfu“, 80,3 sm að lengd. Brotaþoli bar fyrir dómi að hafa verið sleginn með priki úr fimleikarimlum og hafi F slegið hann tvö til þrjú högg fast í læri og hné, en gat ekki um upphandlegg. Ekki var lagt fyrir brotaþola hvort trékylfa sú sem er að finna í gögnum málsins hafi verið prikið sem hann var sleginn með. Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa lamið brotaþola með priki. CR læknir bar fyrir dóminum aðspurður um hvort áverkar brotaþola samrýmdust því að hann hafi verið laminn með barefli að það væri óljóst og það hafi ekki komið skýrt fram. Með vísan til framangreinds þykir vera sá vafi að ekki sé hægt að sakfella fyrir þá háttsemi að ákærði F hafi slegið brotaþola með 90 sm priki í vinstra læri og vinstri upphandlegg. 

Fyrir dómi játaði F að hafa stungið eða pikkað nokkrum sinnum í brotaþola með skærum. Skærin hafi verið lítil og hann haldið þannig á þeim að þau hafi ekki getað valdið miklum skaða. Brotaþoli bar að hafa verið stunginn í öxl eða upphandlegg og að skærin hafi gengið inn eina 5-6 sm. Hafi hann þurft að fara í aðgerð vegna þess. Í læknisvottorði CR segir að ofarlega á vinstri upphandlegg hafi verið stungusár 2 mm en óvíst um dýpt og á hægri upphandlegg hafi verið þrjú grunn stungusár um 2-3 mm í þvermál. CS læknir bar fyrir dómi að brotaþoli hafi þurft að fara í aðgerð á öxl. Hann gat ekki fullyrt að þá áverka hafi brotaþoli hlotið af stungum með skærum, enda hafi öll sár verið gróin þegar brotaþoli kom til hans. Með vísan til framangreinds telst sannað að ákærði F hafi stungið þrisvar sinnum í hægri upphandlegg brotaþola og einu sinni í vinstri upphandlegg hans.

Að mati dómsins telst sannað að ákærðu hafi í félagi sammælst um að fara heim til brotaþola þar sem honum skyldi refsað fyrir það að hafa átt í einhverjum samskiptum við barnsmóður F. Hafi allir ákærðu ruðst inn í þeim tilgangi að yfirbuga brotaþola með þeim hætti sem að framan telst sannað um að ákærði P hafi tekið brotaþola kverkataki en ákærði F hafi slegið brotaþola ítrekað í andlitið. Síðar hafi ákærði F stungið skærum í brotaþola. Er sú háttsemi F að mati dómsins ekki framkvæmd í félagi við aðra ákærðu. Telja verður að sú háttsemi ákærða F að stinga brotaþola ítrekað með skærum, þó ekki liggi fyrir hversu djúpt þau fóru í líkama brotaþola, sérstaklega hættulega í skilningi 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

Áverkar brotaþola sem teljast sannaðir eftir þetta eru: þreifieymsli og bólga á hægra kinnbeini, mar yfir neðra augnloki og augabrún, bólga yfir hægri hluta nefs, nefbrot, roði og eymsli í hálsi, auk þriggja stungusára á hægri upphandlegg og eitt stungusár ofanvert á vinstri upphandlegg. Fram kom hjá CR lækni að áverkar brotaþola hafi verið lítils háttar tilfærsla á nefi, lítil stungusár en ekki hafi verið hægt að segja til um dýpt þeirra og æðar og taugastarfsemi hafi virst í lagi. Teldust áverkar litlir samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum, jafnvel nefbrotið. CS læknir bar fyrir dómi að brotaþoli hafi komið til hans mánuði síðar og hafi öll sár þá verið gróin en brotaþoli hafi þurft að fara í aðgerð á öxl. Spurður um batahorfur kom fram að erfitt væri að segja til um þær. Þá gaf CT sálfræðingur skýrslu fyrir dóminum. Í skýrslu hennar kom fram að brotaþoli hafi greinst með áfallastreituröskun sem hafi verið rakin til meintrar árásar. Er það mat dómsins að afleiðingar líkamsárásarinnar sem að mestu eru eftir ákærða F, séu alvarlegar og er um stórfellt líkams- og heilsutjón að ræða í skilningi 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ákærði F sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

Frelsissvipting:

Öllum ákærðu er gefið að sök að hafa frelsissvipt brotaþola í allt að eina og hálfa klukkustund. Brotaþoli bar að ákærðu hafi komið inn kl. 10:15 um morguninn 24. febrúar 2014 og hafi farið um kl. 11:30-11:45 sama morgun. Ákærði F taldi að hann hafi stoppað stutt, kannski 10 mínútur. Ákærði Ó bar að eftir að þeir hafi verið komnir inn til brotaþola hafi hann brugðið sér á salernið og verið þar í 15 mínútur og fljótlega eftir það farið út. Ákærði P taldi að þeir gætu hafa verið á staðnum í 10 mínútur en að hámarki 30 mínútur. Þau vitni sem komu fyrir dóminn gátu ekki borið um hversu lengi meint frelsissvipting hafi getað staðið yfir en eitt vitni bar að hafa séð menn bera út muni og gæti það hafa verið á tímabilinu 11:00-11:30. Ekki liggur fyrir rannsókn á símum ákærðu í þessum tilgangi. Í málinu liggja fyrir myndir úr öryggismyndavélum [...] sem sýna ákærðu yfirgefa verslun [...] kl. 09:46 og aftur þegar þeir fara inn í verslunina kl. 12:08. Er að mati dómsins ekki hægt að byggja á þeim myndum hversu lengi ákærðu voru í íbúð brotaþola. Þá liggja fyrir myndir af brotaþola á síma ákærða Ó sem teknar eru á tímabilinu 10:24 til 10:56.

Af framburði brotaþola að dæma hófust myndatökur af honum og hellt var yfir hann BBQ sósu, eftir að mestu líkamsmeiðingarnar voru yfirstaðnar. Má ætla að sú nauðung hafi staðið yfir í allt að 30 mínútur. Brotaþoli kvaðst fyrir dómi ekki hafa haft möguleika á því að komast út þar sem F hafi enn verið að ógna honum og kýla auk þess sem hné hans var illa farið. Brotaþoli lýsti ekki sérstaklega þætti þeirra Ó eða P hvað varðar meinta frelsissviptingu. Óljóst er því í hverju svipting á frelsi brotaþola var fólgin, sérstaklega hvað varðar þátt þeirra Ó og P og óljóst er hvort sú meinta frelsissvipting hafi staðið lengur en 30 mínútur. Brotaþoli bar sjálfur að eftir myndatökurnar hafi hann farið að taka til í íbúðinni, hreinsa upp glerbrot og leita að bíllyklum.

Ekki liggur fyrir í málinu að brotaþoli hafi verið bundinn eða hann læstur inni í lokuðu rými. Þá liggur ekki fyrir að honum hafi vegna líkamlegra áverka verið ófært að reyna að komast undan. Áverkum á hné er þannig lýst í vottorði slysa- og bráðadeildar að brotaþoli hafi verið með skrapsár á vinstra hné. Fyrir dómi kvaðst brotaþoli ekki hafa beðið um að fá að fara, hann hafi ekki þorað það og þá hafi hann ekki heldur þorað að biðja ákærðu að fara. Ákærðu hafa borið um að brotaþoli hafi ekki beðið um að fá að fara. Ekki kom fram í málinu að ákærðu hafi bannað brotaþola að fara eða að þeir hafi hamlað honum för með líkamlegum hætti, svo sem með því að standa fyrir útgönguleið. Verður ekki séð að hlutlægum skilyrðum frelsissviptingar hafi verið fullnægt. Huglæg afstaða brotaþola var sú að honum hafi ekki verið mögulegt að yfirgefa vettvanginn. Á það er fallist með brotaþola að atlaga sú sem hann hafði þá orðið fyrir og andlegt áfall var til þess fallið að valda honum ótta þannig að hann hafi haft tilefni til að ætla að honum hafi ekki verið frjálst að fara.

Hliðsjón má hafa af dómi Hæstaréttar frá 15. janúar 1998, í máli nr. 362/1998, en þar var huglæg afstaða brotaþola um frelsissviptingu talin eiga undir 225. gr. almennra hegningarlaga. Verknaðarlýsing í ákæru verður að mati dómsins ekki talin ná yfir þá háttsemi sem lýst er í 225. gr. almennra hegningarlaga og ekki er ákært fyrir brot gegn því ákvæði. Með vísan til 180. gr. laga nr. 88/2008 verða ákærðu ekki dæmdir fyrir þá hegðun. Ákærðu eru samkvæmt framangreindu sýknaðir af broti gegn 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Auðgunarbrot:

Ákært er fyrir ránsbrot skv. 252. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði F kannaðist ekki við að hafa tekið muni af heimili brotaþola eða að hafa krafið brotaþola um bætur eða peninga. Ákærði Ó kannaðist ekki við að hafa tekið muni af heimili brotaþola. Ákærði P kvaðst muna eftir að hafa tekið einhverja muni. Hann mundi ekki hvort hann hafi verið einn í því að taka þá muni en hafi skilið þá eftir fyrir utan dyrnar hjá brotaþola. Brotaþoli bar að allir ákærðu hafi tekið saman munina og borið út þó að ákærði F hafi verið minnst í því. Hann hafi verið einn með F meðan hinir tveir hafi borið út muni og síðan einn með P meðan hinir hafi borið út muni. Er frásögn brotaþola metin trúverðug, enda kemur hún og saman við frásögn vitna sem hafa borið að hafa séð tvo menn ganga út með dót eins og þeir væru að flytja en einnig hafi vitni séð þrjá menn standa fyrir utan [...] með dót í kössum og pokum. Frásögn ákærða Ó fyrir dómi þykir ótrúverðug, að hann hafi engan þátt átt í brotinu, enda fundust á honum símakort og sími brotaþola við handtöku síðar um daginn.

Sannað þykir í málinu að ákærðu hafi komið að  [...] í Kópavogi í þeim tilgangi að refsa brotaþola. Hins vegar kom ekki fram að tilgangur komu þeirra þangað hafi verið sá að ræna brotaþola. Virðist sem auðgunartilgangur hafa vaknað í framhaldi af þeim líkamsmeiðingum sem áður er getið. Brotaþoli bar að ákærði F hafi þá stungið upp á því að hann yrði að greiða 5 milljónir í bætur fyrir það sem brotaþoli átti að hafa gert á hlut F auk þess sem brotaþoli átti meðal annars að selja fyrir hann fíkniefni. Ekki er fallist á þá málsástæðu ákærðu að þeir munir sem teknir voru hafi verið bætur sem brotaþoli hafi samþykkt að greiða ákærðu, þótt hann hafi játað þegar ákærðu spurðu hvort þeir mættu eiga muni hans. Verður að horfa á það samþykki í samhengi við þá líkamsárás sem á undan var gengin, sem var stórfelld. Brotaþoli bar að hann hafi ekki þorað öðru en að játa, enda hafi hann með hliðsjón af því sem á undan var gengið, mátt gera ráð fyrir því að hann yrði beittur frekara ofbeldi ef hann myndi neita. Verða ákærðu sakfelldir fyrir rán skv. 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í félagi, þannig að um samverknað þeirra allra hafi verið að ræða með verkskiptri aðild.

Ákæra, útgefin 13. febrúar 2015, gegn ákærðu, F, S og Sigurði Brynjari Jenssyni, ákæruliður 1.

Málavextir:

Upphaf málsins má rekja til þess að brotaþoli kom ásamt föður sínum á lögreglustöð. Ekki var hægt að taka af honum skýrslu vegna andlegs ástands hans og hann þá keyrður á slysadeild af lögreglu. Í slitrótti sögu kom fram að farið hafi verið með hann út á land, þar sem ákærði F ásamt fleirum hafi pyntað hann. Faðir brotaþola upplýsti að brotaþoli hafi tjáð honum að brotaþoli hafi verið tekinn upp í bíl á Langholtsvegi og keyrt með hann út úr bænum, líklega í [...], þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi, meðal annars látinn drekka vatn úr salerni, drekka smjörsýru og sleikja frunsu á einhverjum. Gerð var húsleit að [...] þann 12. ágúst 2014, þar sem ákærðu þessa máls voru handteknir. Hafi rannsókn málsins leitt í ljós að brotaþoli var í [...] umrædda nótt, þar sem hann hafi verið beittur líkamlegu og andlegu ofbeldi, á þann hátt og með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir.

Ákærði F neitaði við skýrslutöku hjá lögreglu þann 12. ágúst 2014 nokkurri aðild að málinu. Í skýrslu hjá lögreglu þann 22. ágúst 2014 bar F að brotaþoli hafi komið í heimsókn til hans og hann haldið góða ræðu yfir brotaþola og kýlt hann einu sinni í andlitið. Einhver annar hafi gefið honum sjokk með rafbyssu. Í skýrslu hjá lögreglu þann 12. ágúst 2014 kvað ákærði S að brotaþoli hafi komið að [...] með öðrum manni. Hann og Sigurður Brynjar hafi ekki beitt brotaþola neinu ofbeldi en ákærði F hafi verið að skamma hann. Brotaþoli hafi sjálfur fengið sér sopa af smjörsýru. Ákærði Sigurður Brynjar bar við nokkru minnisleysi í skýrslutöku hjá lögreglu þann 12. ágúst 2014 vegna fíkniefnanotkunar. Hann bar þó að brotaþoli hafi verið á vettvangi, ekki frelsissviptur en að brotaþoli hafi verið kýldur tvisvar af ákærða F og „tazaður“ nokkrum sinnum af ákærða S og af honum, auk þess sem hann hafi verið látinn sleikja upp egg og hráka. Hafi brotaþoli verið á staðnum í allt að tvær klukkustundir og brotaþola gert að greiða tilbúna skuld upp á hálfa milljón króna.

Við vettvangsrannsókn var hald lagt á ýmsa muni, meðal annars sprautunál og  rafstuðbyssu, og liggur fyrir rannsókn á byssunni. Fyrir liggur matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, dags. 9. október 2014, um meinta smjörsýru. Einnig liggur fyrir greinargerð um samskipti og staðsetningu síma vitnis í málinu. Þá liggja fyrir myndir teknar af brotaþola á slysadeild og læknisvottorð brotaþola, dags. 11. ágúst 2014, vottorð sálfræðings, dags. 29. september 2014, auk skaðabótakröfu sem móttekin var hjá lögreglu þann 30. september 2014.

Skýrslur fyrir dómi:

Í skýrslu sinni fyrir dómi bar ákærði F að brotaþoli þessa máls hafi verið að þvælast með S vini hans og komið sjálfviljugur að [...]. Á staðnum hafi verið, auk hans og I, ákærðu S og Sigurður Brynjar auk nafngreindrar stúlku. Fram kom að brotaþoli hafi verið búinn að hóta óléttri konu því undir nafni ákærða að hann myndi koma heim til hennar til þess að berja hana og bróður hennar. Vegna þessa hafi hann látið brotaþola heyra það og skammað og öskrað á hann. Í framhaldi af þessu hafi brotaþoli spurt ákærða hvort hann gæti lánað honum tvö grömm af „grasi“. Hafi hann þá kýlt brotaþola í andlitið, enda dónalegt af honum að biðja um þetta á þessum tíma. Hafi hann örugglega kýlt hann með krepptum hnefa.

Brotaþoli hafi við þetta verið hræddur og farið að grenja eins og krakki og öskrað eitthvað um að hann skyldi greiða hvað sem væri og að hann væri moldríkur. Hafi ákærði þá sagt: „Já komdu með 500 kall og svo vil ég fá Happy Meal með grænum froski“. Síðan hafi hann sagt brotaþola að fara en brotaþoli hafi ekki haft neinn bíl þannig að hann hafi lánað honum bíl. Brotaþoli hefði haft alla möguleika á því að fara sjálfur gangandi ef hann hefði viljað. Aðspurður kvaðst hann hafa tekið eftir því að brotaþoli hafi misst þvag. Taldi ákærði að brotaþoli hafi verið í 20 – 30 mínútur á staðnum. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa átt rafstuðbyssu þá sem hefði fundist á heimilinu og vissi ekki hver hafi átt hana, en vel gæti verið að ákærði S hafi átt hana. Hann hafi ekki notað byssuna og ekki séð aðra nota byssuna. Hann hafi ekki stungið brotaþola með nál og ekki skipað brotaþola að sleikja upp egg og hráka. Þá hafi hann ekki látið brotaþola drekka smjörsýru. Taldi ákærði að brotaþoli hafi í raun ekki vitað hvað hafi gerst, enda staðfesti gögn málsins ekki að hann hafi verið á staðnum í 6-8 klukkutíma eins og hann hafi borið. Borið undir ákærða það sem fram komi í skýrslu ákærða Sigurðar Brynjars um að ákærði F hafi látið brotaþola meðal annars sleikja upp egg og hráka, bar ákærði að það væri bull og hafi ákærði Sigurður verið að játa eitthvað út í loftið til þess að sleppa sjálfur úr gæslu. Bornar voru undir ákærða lýsingar á áverkum á brotaþola sem fram koma í læknisvottorði hans og hann spurður hvort hann hefði skýringar á þeim. Ákærði bar að um litla áverka væri að ræða. Brotaþoli hefði ekki aðra áverka en roða sem hugsanlega væru eftir rafbyssuna.

Ákærði S kvaðst fyrir dómi hafa verið með dvalarstað að [...] og þekkti hann aðra ákærðu þessa máls sem hafi verið á staðnum, en mikill gestagangur hafi jafnan verið á heimilinu. Margir hafi komið og farið og skilið eftir muni. Fram kom að hann myndi neita að tjá sig um þátt annarra í þessu máli. Hann hafi ekki vitað af því að brotaþoli hafi verið væntanlegur á staðinn í umrætt sinn. Sjálfur hafi hann gert voðalega lítið en sé tilbúinn að játa að hafa gefið brotaþola tvö rafstuð og hafi það verið eftir að ákærði Sigurður Brynjar hafi gefið brotaþola rafstuð. Hafi hann stuðað brotaþola í bakið eða síðuna. Taldi ákærði að brotaþoli hafi ekki einu sinni fundið fyrir því, þar sem byssan sé eitthvað sem hægt er að kaupa á götumarkaði á Spáni, í raun bara leikfang, ekki vopn, meira dót til að stríða með. Hafi þetta verið fíflagangur og ekki meint til þess að meiða hann. Ákærði neitaði því alfarið að hafa beitt byssunni á kynfæri brotaþola. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð að brotaþoli hafi misst þvag og það gæti ekki hafa verið vegna rafstuðsins. Hafi brotaþoli misst þvag, hafi það verið vegna þess að hann hafi verið lítill í sér. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neitt líkamlegt ofbeldi á vettvangi. Þá hafi hann ekki séð neina áverka á brotaþola. Ekki væri rétt sem fram komi í skýrslu af ákærða Sigurði Brynjari að hann hafi gefið brotaþola rafstuð um allan líkamann og ekki væri rétt að hann hafi sparkað í brotaþola.

Fram kom að lítið væri að marka skýrslu ákærða Sigurðar. Ákærði kvaðst ekki hafa brotið egg á höfði brotaþola og hafi hann ekki beðið brotaþola að sleikja upp egg og hráka af gólfi. Ekki væri rétt að brotaþoli hafi verið sprautaður með nál í lærið og hann hafi ekki séð hvort brotaþoli hafi drukkið eitthvað. Spurður um það hvernig brotaþoli hafi brugðist við, bar ákærði að það hafi ekki verið neitt ofbeldi en brotaþoli hafi hugsanlega verið skelkaður og hafi beðið í forstofunni við útidyrahurðina á meðan „græjaður“ var fyrir hann bíll. Brotaþoli hefði getað farið ef hann hefði viljað en hafi setið einn og beðið. Spurður hvað brotaþoli hafi verið lengi á staðnum taldi hann að það hafi verið um 25 mínútur. Þá hafi ekki verið krafist fjár af brotaþola og ekki væri hægt að taka mark á þessum „Happy Meal“ brandara. Spurður um áverka á brotaþola sagðist hann játa áverka vegna rafstuðsins en gæti ekki lýst öðru. Spurður um ástand hans sjálfs á umræddum tíma kom fram að það hafi ekki verið alveg nógu gott vegna neyslu hans. Hann væri hins vegar ekki ofbeldismaður en hafi nú breytt um lífsstíl, meðal annars væri hann nú í námi og vinnu. Ákærði vildi taka fram að hann hafi verið 18 ára þegar brotið var framið.

Ákærði Sigurður Brynjar Jensson kvaðst fyrir dómi hafa verið á vettvangi að [...] þegar atvik þessa máls áttu að hafa gerst. Bar hann að lítið hafi gerst og hann verið í neyslu á þessum tíma. Ákærði bar að hafa gefið brotaþola rafstuð einu sinni eða tvisvar en hann muni það ekki. Hann muni ekki hvort byssan hafi verið fullhlaðin en þetta væri „barnatazer“ eða drasl sem missti kraft eftir fyrstu notkun. Hann muni ekki með hverjum hann hafi verið, enda langt um liðið, en þekki hins vegar meðákærðu. Hann viti ekki hver búi að [...] eða hvaða erindi hann hafi átt þangað í umrætt sinn, nema þá að hitta meðákærða S sem hafi verið vinur hans. Spurður um rafstuðsbyssuna kvaðst hann hafa verið með hana en hann ætti hana ekki. Hann viti ekki til þess að aðrir hafi gefið brotaþola rafstuð með byssunni. Borin undir hann skýrsla hans hjá lögreglu þann 12. ágúst 2014, þar sem hann hafi borið að brotaþola hafi verið gefið rafstuð nokkrum sinnum og hafi ákærði S einnig gefið honum rafstuð, kvaðst ákærði ekki muna eftir því og sömuleiðis mundi hann ekki eftir því að ákærði S hafi sparkað í brotaþola. Þá hafi hann ekki tekið eftir því að ákærði F hafi gert eitthvað. Borin undir hann skýrsla hans hjá lögreglu, þar sem hann bar að ákærði F hafi slegið brotaþola í andlitið, kvaðst hann ekki muna eftir atvikum nú.

Spurður hvort brotaþoli hafi verið látinn sleikja hráka upp af gólfinu og egg kvaðst hann ekki muna eftir því en hann hafi sjálfur slegið eggi í hnakka brotaþola. Brotaþoli hafi ekki gert neitt og hann hafi ekki tekið eftir því að brotaþoli hafi misst þvag. Spurður um hvað „þetta“ hafi staðið lengi yfir, bar ákærði að það hafi verið eitthvað um 30 mínútur. Brotaþoli hafi ekki verið krafinn um neina greiðslu þótt annað kæmi fram í lögregluskýrslu. Það væri hins vegar rangt að brotaþoli hafi verið stunginn í lærið með nál eða að hann hafi verið látinn drekka smjörsýru. Ekki hafi verið neinir áverkar á brotaþola og hann geti ekki skýrt hvers vegna áverkar hafi verið á brotaþola. Aðspurður kvaðst hann ekki vera hræddur við aðra ákærðu í þessu máli. Aðspurður taldi hann mögulegt að hann hafi miklað málið fyrir öðrum á sínum tíma.

Vitnið C brotaþoli kom fyrir dóminn og bar að hafa kynnst I og verið með honum að djamma í eina viku fyrir umrædda atburði. Hafi I „mokað í hann eiturlyfjum“ með hans vilja og þeir farið víða. Kvöldið fyrir umrædda atburði hafi hann beðið vinkonur sínar að skutla sér til I. Hafi það verið um kl. 22:00. Þegar þangað var komið hafi hann neytt fíkniefna en hafi hins vegar ekki drukkið smjörsýru. Á staðnum hafi I sagt við hann að F vildi ræða við hann. Í máli brotaþola kom fram að ástæða þessa hafi verið sú að brotaþoli hafði notað nafn F þegar hann sendi skilaboð á Facebook vegna Playstation tölvu og 100 kartona af sígarettum sem hann átti að eigin sögn, en hafði verið stolið af honum. Í framhaldi af því hafi I sagt honum að þeir væru að fara að djamma í [...]. Þegar þangað var komið hafi þeir farið út við N1 í [...] og gengið að einhverju húsi. Á þeim tíma hafi hann ekki vitað að eitthvað slæmt ætti eftir að gerast.

Um leið og hann hafi komið þar inn hafi allir ákærðu ráðist á hann. F hafi byrjað á því að kýla hann niður, í augað og andlitið, en allir hafi kýlt hann. Síðan hafi allir sparkað í hann, verið fjórir á honum. I hafi eftir þetta horft á ásamt stúlku sem hafi einnig verið á staðnum. Í framhaldi af þessu hafi ákærðu látið hann gera ýmislegt. Hann gæti ekki sagt frá því í réttri röð, en gæti sagt hvað hafi gerst. Hafi þeir verið með rafbyssu sem þeir hafi notað á hann. Fyrst hafi F verið með hana en mest hafi S og Sigurður Brynjar verið með hana. Hafi þeir notað rafbyssuna í langan tíma, meðal annars á háls, maga og bak og kynfæri hans, með þeim afleiðingum að hann pissaði á sig. Hafi hann fengið 15-20 rafstuð. Síðar í skýrslutöku upplýsti brotaþoli að F hafi ekki verið með rafbyssuna. Taldi hann að rafbyssa sú sem haldlögð var af lögreglu væri mjög svipuð þeirri sem var notuð. Spurður um kýlingarnar kom fram að F hafi aðallega verið í því að kýla hann. Þá hafi F látið hann sleikja frunsu sem hann var með. Allir hafi hrækt á gólfið og látið hann sleikja það upp. Hafi S og Sigurður Brynjar ætlað að hella upp í hann þvottaefni en hætt við það að beiðni F. Einnig hafi ákærðu hent í hann eggjum og látið hann sleikja þau upp. Ákærði bar að F hafi tekið sprautunál og stungið í lærið á honum. Aðspurður sagði hann að nálin hafi ekki verið fest við neitt. Einnig hafi ákærðu tekið eldhúshníf og skorið með honum í bak hans og auk þess skipað honum að drekka smjörsýru, „helling“. Hafi smjörsýran verið í tilraunaflöskum og þeir sennilega látið hann drekka átta þannig flöskur af smjörsýrunni og því eigi hann erfitt með að rifja þetta upp. Aðspurður um skurði á baki upplýsti brotaþoli að hann hafi verið skorinn gegnum fötin. Hann hafi ekki skoðað fötin frá því að atburðir gerðust og fötin ekki verið skoðuð af lögreglu. Á meðan á öllu þessu hafi staðið hafi þeir haldið áfram að kýla hann og látið hann syngja meðan hann var grátandi. Hann viti ekki hver kýldi eða hvenær, þeir hafi allir kýlt og sparkað í höfuð hans og líkama meðan hann lá á gólfinu.

Í framhaldi af þessu hafi allir ákærðu búið til skuld á hann. F hafi sagt að hann ætti að greiða 500.000 krónur, annars myndi hann brjóta á honum hnéskeljarnar og ríða honum í rassgatið í tvo daga. Sigurður Brynjar hafi krafið hann um 100.000 krónur í peningum. S hafi sagt að brotaþoli ætti að kaupa handa honum Iphone 6 þegar hann kæmi á markað. Hafi ákærðu tekið úrið hans og veski og hann ekki fengið það til baka. Aðspurður vissi hann ekki hversu lengi hann var í húsinu en hann og I hafi lagt af stað í [...] um tólfleytið og verið komnir í [...] um kl. 00:30. Aðspurður hvort hann hefði haft möguleika á því að flýja, taldi brotaþoli það ekki hafa verið mögulegt og hafi hann verið á staðnum í nokkrar klukkustundir, 5 – 6 klukkustundir, að minnsta kosti væri það upplifun hans, en hann hefði verið í töluverðri neyslu á þessum tíma. Hafi hann upplifað það þannig að barsmíðarnar hafi verið allan tímann. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa reynt að komast undan. Aðspurður um það hvort hann hafi verið með síma á meðan á þessu hafi staðið, kom fram að hann hafi verið með tvo síma en annar verið tekinn af honum. Hann hefði ekki getað hringt. Hann kannaðist ekki við að hafa hringt úr síma sínum kl. 05:37 sama morgun. Þá væri ekki rétt að F hafi sagt honum að fara. Eftir veru hans í [...] hafi F sagt við I að hann ætti að halda brotaþola í gíslingu þar til hann greiddi skuldirnar. Hafi I verið með hníf í tösku og þeir farið burt á númerslausri bifreið og I keyrt. Fyrst hafi þeir farið til Hafnarfjarðar þar sem þeir hafi dvalið í eina og hálfa klukkustund í einhverju húsi með einhverjum tveimur mönnum. Hafi I sagt við hann að ef hann færi þá myndi hann stinga hann. Hafi hann verið grátandi allan tímann og verið blóðugur. Eftir þetta hafi þeir farið í sjoppu og taldi brotaþoli að það hefði verið um kl. 10:00 – 11:00 um morgun. Í Skeifunni í Reykjavík hafi hann sagt: „Gaur ég get ekki borgað þetta, ég er bara farinn úr bílnum“. Í því hafi hann opnað hurðina á bifreiðinni og hlaupið burtu.

Fram kom í máli brotaþola að á spítalanum hafi hann ekki fengið góða meðhöndlun og til dæmis hafi ekki verið kíkt undir nærbuxur hans. Hafi hann látið vita að hann hafi verið stunginn með óhreinni sprautunál en ekki verið sendur í rannsókn. Hann mundi ekki hvort hann hafi látið vita að hann hafi verið látinn drekka smjörsýru en ekki hafi verið tekin nein sýni. Fram kom að allt málið hafi tekið mikið á hann þó að það hafi lagast aðeins með tímanum. Fyrst á eftir hafi hann verið mjög hræddur og hafi mætt í 10 tíma hjá sálfræðingi vegna málsins.

Vitnið I kom fyrir dóminn og mundi eftir því að hafa farið með brotaþola í [...] í umrætt sinn. Hafi þeir farið í leigubifreið og tilgangurinn verið sá að fara í gleðskap. Þegar í [...] hafi verið komið hafi hann sjálfur sest í sófann við tölvu. Á staðnum hafi verið auk hans og brotaþola, F, DA og einhverjir tveir aðrir. Hann viti ekki hvað hafi orðið um brotaþola og viti ekki hvað hafi gerst og hann ekki séð neitt þar sem hann hafi horft á tölvuskjáinn. Hann hafi heyrt einhver öskur á tímabili, einhver að kalla eitthvað. Aðspurður um skýrslu sína hjá lögreglu, þar sem hann sagðist hafa heyrt í rafbyssu, gat hann ekki munað það nú. Þá vissi hann ekki hversu lengi hann og brotaþoli hafi verið á staðnum, kannski hálftíma eða klukkutíma, en honum og brotaþola hafi verið vísað út. Spurður um það hvort brotaþoli hafi fengið sér smjörsýru kom fram að svo hafi verið, í gleðskap á Álftanesi síðar um nóttina. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð neina áverka á brotaþola og mundi ekki eftir því að hann hafi verið grátandi.

Vitnið DB gaf símaskýrslu fyrir dóminum og bar að hafa sett sig í samband við ákærða F vegna þess að brotaþoli hafi verið að nota nafn F til þess að hræða bróður hennar. Hafi F upplýst hana um að þetta væri ekki rétt og að hann væri ekki á leiðinni til þeirra að gera þeim mein.

Vitnið DA kom fyrir dóminn og kvaðst ekki muna neitt eftir atvikum þessa máls þar sem langt væri um liðið.

Vitnið DC, faðir brotaþola, kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi hringt í hann um klukkan 11:30 morguninn 6. ágúst 2014. Hafi ástand brotaþola verið eins og hann hafi verið að sleppa úr höndum mannræningja, í miklu áfalli, þreyttur og mjög sjúskaður. Hafi hann keyrt brotaþola til lögreglu. Hafi brotaþoli lýst því þannig að hann hafi sloppið úr vörslum einhvers eftir að hafa áður verið tekinn upp í bíl og keyrður áleiðis til [...] þar sem hann var pyntaður og notaður sem einhverskonar skemmtiatriði og verið hótað lífláti ef hann segði frá. Hafði hann nefnt nafn F en einnig hafi verið tveir aðrir. Brotaþoli hafi verið með áverka. Var það hans tilfinning að hlutirnir hafi ekki verið gerðir með réttum hætti á slysadeild og hann hafi kvartað yfir því. Eftir þetta hafi brotaþoli ekki farið út úr húsi í lengri tíma og verið hræddur um að árásarmennirnir létu verða af hótunum sínum og sitji atburðir enn í honum.

Vitnið DD leigubifreiðastjóri gaf símaskýrslur fyrir dómi og bar að hafa ekið tveimur mönnum frá Langholtsvegi í Reykjavík suður í [...] aðfaranótt 6. ágúst 2014. Borið undir hann að í lögregluskýrslu kæmi fram að ferðin hafi hafist kl. 01:53 og lokið kl. 02:19, staðfesti vitnið að það gæti staðist. Aðspurður kvaðst hann ekki geta vitnað um ástand þeirra í umrætt sinn, en þeir hafi verið rólegir og rætt saman eins og bestu vinir.

Vitnið DE lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa ásamt öðrum lögreglumönnum handtekið ákærðu þessa máls og haldlagt sönnunargögn á vettvangi, meðal annars rafstuðbyssu og haglabyssu auk hylkja undan smjörsýru. Fram kom að mikil óreiða hafi verið á vettvangi húsleitar að [...]. Á gólfum hafi verið sprautunálar og blóð. Vitninu var ekki kunnugt um hvort rannsókn hafi farið fram á því blóði sem fannst á vettvangi.

Vitnið DF lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi komið ásamt föður sínum til hans. Hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi og grátið og í raun ekki verið skýrslutækur, enda eins og dýr í búri. Hafi hann verið keyrður af lögreglu á spítala. Aðspurt bar vitnið að ekki hafi verið haldlagður fatnaður brotaþola og hafði hann ekki skýringu á því að engin sýni hafi verið tekin af brotaþola á slysadeild.

Vitnið DG lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi mætt ásamt föður sínum til hans. Hafi það verið mat hans og annars lögreglumanns að brotaþoli hafi ekki verið skýrsluhæfur, enda í mikilli geðshræringu, hent sér í gólfið og grátið og gefið slitna lýsingu á atburðum.

Vitnið DH lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti tækniskýrslur sem liggja fyrir í málinu.

Vitnið DI lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa útbúið myndaskýrslu málsins vegna húsleitarinnar að [...]. Bar hann að eitthvað af blóði og einhver sýni hafi verið tekin. Hann viti ekki hvað hafi verið gert við sýnin.

Vitnið DÍ lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að hafa tekið skýrslu af DJ sem nú er látin.

Vitnið DK lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti að hafa tekið skýrslu af DJ sem nú er látin.

Vitnið DL frá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir símtölum I, en brotaþoli mun bæði hafi komið með honum í [...] og farið með honum þaðan. Skýrði hann svo frá að sími I hafi komið inn á sendi við [...] í Hafnarfirði kl. 02.01 aðfaranótt 6. ágúst 2014. Reikna mætti með því að ferðin í [...] hafi tekið um 20 mínútur. I hafi notað síma sinn í  [...]kl. 02:50 og aftur kl. 03:00. Síðan komi sími hans inn á  [...]kl. 03:33 og síminn þannig verið að fjarlægjast  [...]á þeim tíma. Út frá þessu væri hægt að draga þær ályktanir að vera I í [...] hafi að lágmarki verið í 43 mínútur en að hámarki 80 mínútur.

Vitnið D, prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að hafa skoðað rafstuðbyssu þá sem haldlögð var í málinu. Fram kom að rafstuðbyssan sem slík væri ekki hættuleg nema henni væri beitt á rangan hátt. Þannig væri notkun tækisins hættulegust nálægt hjarta og höfði og við síendurtekna notkun og þær upplýsingar hefði hann úr fræðigreinum, enda ekki læknisfræðilega menntaður. Hann hafi hins vegar hlaðið tækið og mælt og í eitt skipti mælt yfir 5000 óma viðnám en þar sem hann hafi ekki náð mynd af því hafi hann eingöngu sett í skýrslu sína að straumpúlsinn hafi verið innan við 10 milliamper og spennan minni en 1200 kílóvött. Byssan hafi þannig ekki verið eins öflug og uppgefið hafi verið og spennutoppur hennar ekki farið yfir 1000 kílóvött. Þrátt fyrir það væri þetta mikill spennutoppur, „ansi mikið sjokk, ansi mikið stuð sem maður fær af svona byssu og auðvitað slái þetta út líkamann og myndi jafnvel brunasár“. Aðspurður um hvort byssan héldi hleðslunni, kom fram að hún kæmi fram í sveiflum, en hæsta gildi byssunnar kæmi fram fyrst en síðan myndi hún deyja út.

Vitnið DM frá Rannsóknastofu Háskóla Íslands kom fyrir dóminn og bar að hafa mælt sýni frá lögreglu sem hafi innhaldið smjörsýru. Hafi þau innihaldið 25 milligrömm í hverjum millilítra af vökva. Efnin finnist í litlu magni í líkamanum og geti í háum styrk valdið svefni en minni skammtar gefi einkenni svipuð og neysla alkóhóls. Þannig þurfi 40 millilítra til þess að fá eitt gramm af efninu. Oft sé talað um að neysluskammtur sé hálft til fimm grömm af efninu, en það væri misjafnt eftir einstaklingum og eftir því hverju menn væru að sækjast eftir. 

Vitnið DN læknir kom fyrir dóminn og bar að þeir áverkar sem hafi verið á brotaþola gætu vel samrýmst þeirri frásögn sem brotaþoli hafi gefið af málsatvikum. Myndir hafi verið teknar af brotaþola við komu. Spurður um það hvort áverkar á andliti gæfu til kynna að brotaþoli hafi fengið ítrekuð spörk í andlit, kom fram að ekki væru alltaf miklir sýnilegir áverkar og þarna væri ekki lýst miklum áverkum. Roði sem hafi verið víðsvegar á húð brotaþola gæti vissulega verið eftir rafstuðbyssu. Marblettur á læri væri líklega eftir einhverskonar höggáverka. Ekki hafi verið að sjá áverka eftir stungu og hann minntist þess ekki að það hafi komið til tals. Ef það hefði verið upplýst hefði verið brugðist við því. Þá hafi ekkert komið fram um skurði á baki hans. Spurður hvort ekki hefði átt að taka sýni vegna meintrar smjörsýrudrykkju svaraði vitnið því neitandi. Fyrst og fremst væri stuðst við klínísk einkenni sjúklingsins, svo sem meðvitund hans. Einkenni brotaþola hafi ekki gefið tilefni til slíks. Spurt hvort sjá mætti merki um bitför, kom fram að sjá hefði mátt bólgu og mar á neðrivör hans. Aðspurt um rafstuð í kynfæri brotaþola minntist vitnið þess ekki að brotaþoli hafi ekki viljað leyfa skoðun á öllum líkama sínum. Aðspurt hvort kalla mætti áverka brotaþola minni háttar kom fram að svo væri, enda væru engir af þeim líkamlegu áverkum sem lýst væri líklegir til þess að skilja eftir sig varanleg mein.

Vitnið DO sálfræðingur kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi komið til hans í sálfræðimat. Hafi hann lagt fyrir brotaþola skimunarlista og brotaþoli greinst með áfallastreituröskun á háu stigi. Hafi greiningin átt sér stað eftir að hann hitti brotaþola einu sinni. Brotaþoli hafi verið mjög órólegur í viðtalinu og hann metið það svo að það hafi verið vegna árásarinnar. Ekki væri hægt að segja til um varanlegar afleiðingar. Aðspurt kom fram að greiningin hafi miðast við upplifun brotaþola á þeirri stundu, en þar sem skammt hafi verið liðið frá atburðum væri hægt að tala um að brotaþoli hafi haft einkenni áfallastreituröskunar, of stutt hafi verið liðið frá atburðum til að hægt væri í raun að tala um eiginlega áfallastreituröskun.

Niðurstöður:

Líkamsárás:

Brotaþoli sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að allir ákærðu hafi ráðist sig með höggum og spörkum þó að K hafi haft sig mest í frammi. Allir hafi þeir síðan notað rafstuðbyssu á hann um allan líkamann, meðal annars kynfæri hans. Fyrir dóminum breytti brotaþoli fyrri framburði sínum á þann hátt að ákærði F hafi ekki notað rafbyssuna, sem er í samræmi við það sem F bar sjálfur. Þá bar brotaþoli að ákærði F hafi stungið hann með sprautunál í lærið og að ákærðu hafi skorið hann í bakið í gegnum fötin hans.

Í vitnisburði DÓ læknis kom fram að ekki hafi verið að sjá áverka eftir stungu og minntist hann þess ekki að það hafi komið til tals. Ekki hefur farið fram nein rannsókn í þá veru að kanna hvort brotaþoli hafi verið stunginn með „óhreinni“ sprautunál. Þannig hefur ekki verið kannað hvort brotaþoli hefur smitast af lifrabólgu C. Ekki var skoðað hvort áverkar væru á kynfærum brotaþola og virðist sem það hafi ekki heldur komið til tals. Þá hefur ekkert komið fram um skurði á baki brotaþola og engin rannsókn virðist hafa farið fram á fötum brotaþola, hvort þau hafi verið skorin. Í skýrslu lögreglu bar brotaþoli einnig um að hafa verið skorinn í magann.

Að mati dómsins er brotaþoli ekki trúverðugur um margt í framburði sínum. Bar hann fyrir dómi að hafa verið í töluverðri neyslu. Brotaþoli var tvísaga fyrir dómi um aðkomu ákærða F um beitingu rafbyssunnar og framburður hans um að hann hafi verið skorinn í bakið með eggvopni þykir með nokkrum ólíkindum, enda var hann skoðaður á slysadeild, meðal annars á baki, án þess að nokkuð kæmi fram um að hann hafi verið skorinn.

Með vísan til framangreinds er ekki komin fram nægjanleg sönnun til þess að sakfella ákærðu fyrir að stinga brotaþola með óhreinni sprautunál eða að hafa gefið honum rafstuð í kynfærin. Þá þykir einnig varhugavert, gegn neitun ákærðu S og Sigurðar Brynjars, að þeir hafi kýlt eða sparkað í brotaþola.

Ákærði F játaði fyrir dómi að hafa kýlt brotaþola í andlitið, með krepptum hnefa, eftir að brotaþoli hafi verið að biðja hann um fíkniefni. Þá hafi hann skammað og öskrað á brotaþola en hafi ekki beitt rafbyssu á hann. Í málinu liggja fyrir myndir sem teknar voru við komu brotaþola á slysadeild og sýna brotaþola með roða í andliti, sérstaklega í kringum vinstra auga, roða hægra megin á hálsi auk roða á miðju mjóbaki og ofarlega á hlið vinstra læris. Vitnið DÓ læknir kom fyrir dóminn og bar að ekki hafi verið miklir áverkar á brotaþola og engir af þeim áverkum væru líklegir til þess að skilja eftir sig varanlegt mein. Áverkarnir gætu hins vegar samrýmst því að brotaþoli hafi fengið ítrekuð högg í andlit, og marblettur á læri væri líklega eftir einhverskonar höggáverka. Þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði F hafi ítrekað slegið brotaþola þó að ekki verði fullyrt um fjölda þeirra högga. Verður F sakfelldur fyrir þá líkamsárás en þar sem sannað er að hann átti ekki neinn þátt í því að beita rafstuðbyssunni síðar á brotaþola, og með tilliti til þeirra áverka sem voru á brotaþola, verður háttsemi hans ekki talin eiga undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, heldur 217. gr. sömu laga.

Ákærði S játaði fyrir dómi að hafa gefið brotaþola tvö rafstuð með rafstuðbyssu í bakið eða síðuna. Ákærði Sigurður Brynjar játaði fyrir dómi að hafa gefið brotaþola rafstuð með rafbyssu einu sinni eða tvisvar og að hafa brotið egg á hnakka brotaþola. Fram kom í vottorði DÓ læknis að víða um líkamann hafi verið litlir rauðir blettir á húðinni sem vissulega gætu verið eftir rafmagn. Þykir hafið yfir skynsamlegan vafa með tilliti til framburðar læknisins að brotaþola hafi verið gefið rafstuð víðs vegar um líkamann þótt ekki verði fullyrt um fjölda þeirra.

Samkvæmt framburði D prófessors fyrir dóminum er rafstuðbyssan sem slík ekki hættuleg nema henni sé beitt á rangan hátt, nálægt hjarta og höfði og við síendurtekna notkun en hann gat þess þó jafnframt að hann væri ekki læknisfræðilega menntaður. Rafbyssa sú sem hann hafi mælt hafi ekki verið eins öflug og uppgefið hafi verið þótt hún gefi „ansi mikið sjokk, ansi mikið stuð sem maður fær af svona byssu og auðvitað slái þetta út líkamann og myndi jafnvel brunasár“. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvar rafbyssunni var beitt á brotaþola en samkvæmt áverkum brotaþola og framburði hans þá var byssunni meðal annars beitt á háls hans auk þess sem henni var beitt ítrekað. Voru sýnilegar afleiðingar af notkun hennar litlir rauðir blettir og roði á húð brotaþola. Að mati dómsins getur notkun á rafstuðbyssu sem þessari reynst sérstaklega hættuleg þótt líkamlegar afleiðingar í þessu máli hafi ekki reynst miklar. Verða ákærðu, S og Sigurður Brynjar sakfelldir fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Frelsissvipting – ólögmæt nauðung:

Af gögnum málsins verður ráðið að brotaþoli hafi notað nafn F í óheiðarlegum tilgangi og án hans leyfis. Hafi I verið fenginn til þess að koma með brotaþola í [...], þar sem honum skyldi refsað. Þar nýttu ákærðu aflsmunar og ýmist kýldu brotaþola eða gáfu honum rafstuð.

Ákærðu er gefið að sök að hafa á meðan brotaþoli var í [...] látið hann sleikja upp egg og hráka af óhreinu gólfi og neytt hann til þess að drekka smjörsýru. Brotaþoli bar að auki að hafa þurft að sleikja frunsu á F og syngja og í skýrslu lögreglu kom einnig fram haft eftir brotaþola að F hafi pissað á gólfið, eða hundurinn hans, og F látið hann sleikja það upp. Rannsókn á vettvangi fór ekki fram fyrr en 6 dögum síðar og verður ekki á henni byggt um sakfellingu í þessu máli. Allir ákærðu neitaðu sök fyrir dómi um þessa háttsemi í ákæru. Frásögn brotaþola er um margt ótrúverðug. Brotaþoli bar að hafa verið látinn drekka helling af smjörsýru en ekki hafi verið tekin nein sýni á spítalanum til að sannreyna það. Vitnið I sem kom fyrir dóminn bar að brotaþoli hafi drukkið smjörsýru en það hafi verið í gleðskap á Álftanesi síðar um nóttina. Ákærðu hafa allir neitað því að hafa þvingað brotaþola til þess að drekka smjörsýru. Í læknisvottorði Jóns Baldurssonar kemur fram, haft eftir brotaþola að hann hafi verið látinn drekka vökva sem honum hafi verið sagt að væri smjörsýra, en brotaþoli upplýsti sjálfur að hann hafi ekki fundið fyrir miklum áhrifum af þeirri ólyfjan sem honum var byrlað. Einnig kom fram í vottorðinu að einkenni brotaþola hafi ekki gefið tilefni til mælinga á fíkni- eða eiturefnum í líkamsvessum hans og staðfesti læknirinn það fyrir dómi. Gegn neitun allra ákærðu telst ekki sannað að ákærðu hafi þvingað brotaþola til þess að drekka smjörsýru. Varhugavert þykir einnig gegn neitun allra ákærðra fyrir dómi að brotaþola hafi verið gert að sleikja upp egg og hráka.

Brotaþoli sagði fyrir dómi að hann hafi upplifað það þannig að honum hafi verið haldið í 5-6 klukkustundir og að hann hafi ekki getað komist út meðan á atlögu gegn honum stóð. Hann hafi ekki reynt að komast undan og taldi að það hafi ekki verið mögulegt. Í ákæru málsins er ákært fyrir frelsissviptingu í rúma klukkustund. Taldi ákærði F að brotaþoli hafi verið í 20-30 mínútur á staðnum. Ákærði S taldi að brotaþoli hafi verið í 25 mínútur á staðnum og ákærði Sigurður Brynjar bar að þetta hafi verið um 30 mínútur. Allir hafa ákærðu borið um að brotaþoli hafi getað farið þegar hann vildi. Sá framburður ákærðu er ótrúverðugur, enda ekkert í málinu sem gefur tilefni til þess að ætla að brotaþoli hafi sjálfviljugur setið undir framangreindum höggum og á meðan honum var gefið rafstuð.

Í málinu liggur fyrir rannsókn á símagögnum sem fengin voru með því að kanna símtöl úr síma vitnisins I en sannað er að brotaþoli kom með honum í [...] með leigubifreið. Samkvæmt staðfestingu leigubifreiðastjórans lauk ferðinni í [...] kl. 02.19 en ekki var ekið að [...] og því ekki hægt að segja nákvæmlega til um það hvenær brotaþoli og I voru komnir þangað. Sé eingöngu miðað við símagögn málsins þá er hringt í I í [...] kl. 02:50 og kl. 03:33 hringir I og kemur þá inn á sendi við [...]  á leið úr [...] í Hafnarfjörð ásamt brotaþola. Það tímabil sem hér um ræðir er 43 mínútur en frá þeim tíma á eftir að draga tíma sem fer í akstur úr  [...]og að [...]. Frásögn brotaþola um að I hafi verið með hníf og haldið sér föngnum eftir að þeir voru farnir úr [...] er með öllu ósönnuð og frásögn brotaþola af þeim tíma sem hann upplifði frelsisskerðingu að engu hafandi. Gegn neitun ákærðu er varhugavert annað en að ætla að sá tími sem brotaþoli var í [...] í umrætt sinn, hafi verið allt að 30 mínútur.

Ákærði F bar fyrir dómi að hafa skammað og öskrað á brotaþola auk þess að kýla hann. Hafi brotaþoli orðið það hræddur við þá atlögu að hann hafi farið að gráta og misst þvag. Þá viðurkenndi ákærði Sigurður Brynjar að hafa, meðan á þessu stóð, brotið egg á hnakka brotaþola. Ákærðu S og Sigurður Brynjar hafi síðan ítrekað gefið brotaþola rafstuð.

Í málinu liggur fyrir að brotaþoli kom óþvingaður í [...]. Engin sönnun er um að honum hafi verið haldið nauðugum eftir veru hans í [...]. Ekki liggur fyrir að á meðan hann var í [...] í [...] hafi honum verið haldið líkamlega, hann bundinn eða lokaður inni með einhverjum hætti eða honum varnað útgöngu. Verður ekki séð að hlutlægum skilyrðum frelsissviptingar hafi verið fullnægt. Hins vegar nýttu ákærðu sér aflsmun og hræðslu brotaþola. Hafi honum verið gert að þola framangreinda líkamsrefsingu en auk þess hafi hann verið beittur andlegri nauðung. Huglæg afstaða brotaþola var sú að honum hafi ekki verið mögulegt að yfirgefa staðinn. Á það er fallist með brotaþola að atlaga sú sem hann hafði þá orðið fyrir svo og andlegt áfall var til þess fallið að valda honum þeim ótta að hann hafi haft tilefni til að ætla að honum hafi ekki verið frjálst að fara af staðnum.

Að mati dómsins eru hlutlæg skilyrði 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ekki uppfyllt. Auk þess er óvíst hversu lengi vera brotaþola var í [...] og hafi hvað sem öðru líði ekki verið lengur en 30 mínútur. Ákærðu eru því sýknaðir af broti gegn 226. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar verður háttsemi þeirri talin varða við 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hafi sú ólögmæta nauðung gegn brotaþola verið framin í félagi af öllum ákærðu. Má í þessu sambandi hafa hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 15. janúar 1998, í máli nr. 362/1998, þar sem huglæg afstaða brotaþola um frelsissviptingu var þess valdandi að háttsemin var talin eiga undir 225. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði 225. gr. almennra hegningarlaga tæmir sök gagnvart 217. gr. sömu laga sem var talin eiga við um líkamsárás F, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 10. desember 2009, í máli nr. 251/2009.

Tilraun til fjárkúgunar:

Ákært er fyrir tilraun til þess að kúga af brotaþola greiðslu upp á 500-800.000 krónur. Ákærðu hafa allir neitað sök. Brotaþoli bar fyrir dóminum að F hafi krafið hann um 500.000 krónur, Sigurður Brynjar krafið hann um 100.000 krónur og S krafið hann um að greiða sér Iphone 6 þegar hann kæmi á markað. Þá hafi ákærðu tekið af honum úr og veski en um það er ekkert upplýst í málinu og ekki er ákært fyrir þá háttsemi. F bar að eftir að brotaþoli hafi orðið hræddur hafi hann sagst greiða hvað sem væri, og hafi F þá sagt: „Já komdu með 500 kall og svo vil ég fá Happy Meal með grænum froski“. Af lögregluskýrslum yfir ákærðu verður allt eins ráðið að ákærðu hafi þótt rétt að brotaþoli greiddi bætur fyrir það sem hann hafði gert en ekki verður fullyrt um ásetning þeirra til verksins. Brotaþoli bar sjálfur að I hafi átt að sjá til þess að hann greiddi og hafi hann haldið honum í gíslingu í þeim tilgangi og meðal annars verið með hníf til taks. Ekkert í málinu færir sönnur á þennan framburð brotaþola og brotaþoli er ekki trúverðugur í frásögn sinni. Þá hefur ekkert í málinu gert það sennilegt að ákærðu hafi gengið eftir því síðar að innheimta meinta skuld. Með vísan til framangreinds verða ákærðu sýknaðir af þeirri háttsemi sem í ákæru greinir um brot gegn ákvæðum 251. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæra, útgefin 13. febrúar 2015, á hendur ákærða, F, ákæruliður 2.

Málavextir:

Við húsleit að [...] þann 12. ágúst 2014, í tengslum við framangreindan ákærulið 1, fannst meintur gambri. Samkvæmt gögnum málsins var sýni af gambranum sent þann 14. ágúst 2014 til Rannsóknastofu Háskóla Íslands til efna- og styrkleikamælingar og var gambrinn móttekinn þar sama dag. Í matsgerð Rannsóknastofunnar kom fram að gambrinn hafi verið mældur 18% að styrkleika.

Skýrslur fyrir dómi:

Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa framleitt umræddan gambra. Hafi þetta verið ónýtt efni, ekki meira en vatn og sykur. Hann hafi séð tunnu með efninu en viti ekki hver hafi staðið að þeirri framleiðslu.

EA lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti tækniskýrslu sem liggur fyrir í málinu.

Vitnið EB, deildarstjóri við Háskóla Íslands, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og bar að hafa rannsakað vökva sem henni hafi verið sendur vegna þessa máls. Hafi magn etanóls í vökvanum reynst vera 18%. Taldi hún að umræddur vökvi væri ekki drykkjarhæfur. Aðspurð kvað hún sýnið hafa verið geymt í ísskáp á rannsóknastofunni til að stöðva áframhaldandi gerjun en viti ekki hvernig geymslu hafi verið háttað hjá lögreglu. Hafi sýnið komið til þeirra þann 14. ágúst 2014.

Niðurstöður:

Í máli ákærða kom fram að sýni það sem tekið var af meintum gambra hafi ekki verið sent til rannsóknar fyrr en nokkrum mánuðum eftir sýnatökuna. Ekkert liggi fyrir um geymsluaðferðir lögreglu á sýninu og því gæti það hafa gerjast áfram. Þannig liggi ekkert fyrir um styrkleika vökvans þegar hann var haldlagður. Ákærði bar fyrir dómi að vökvinn hefði verið vatn og sykur, ónýtt efni. Í skýrslu lögreglu tekinni af ákærða sama dag og húsleit fór fram var haft eftir ákærða að vökvinn hafi verið ónýtur, hann hafi hellt í þetta fyrir mörgum mánuðum og ætlað að sjóða en ekki gert og vökvinn því myglað. Breyttur framburður ákærða nú fyrir dómi um að hann hafi ekkert vitað um framleiðslu gambrans er samkvæmt framangreindu ekki trúverðugur, enda lýsti hann bæði efnisinnhaldi og ástandi vökvans.

Af gögnum málsins má sjá að meintur gambri fannst við húsleit á heimili ákærða þann 12. ágúst 2014. Þann 14. ágúst 2014, eða tveimur dögum síðar er sýnið móttekið af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og þá sett í ísskáp til þess að stöðva hugsanlega gerjum. Niðurstaða rannsóknar liggur fyrir þann 1. september 2014. Ekki er hægt að fallast á þau rök ákærða að gambrinn hafi verið í geymslu lögreglu í nokkra mánuði. Verður ákærði sakfelldur fyrir framleiðslu á ólöglegu áfengi eins og í ákæru greinir og er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru, til 6. gr. sbr. 1. mgr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998.

III

Refsingar og viðurlög

Ákærði F er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum fjórtán sinnum verið gerð refsing frá árinu 1998, sbr. eftirfarandi: 1) Þann 3. mars [...] var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. 2) Þann 6. mars  [...] var hann dæmdur í fangelsi í 18 mánuði, þar af 15 mánuði skilorðsbundna fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. 3) Þann [...] 1998 var hann dæmdur í fangelsi í tvo mánuði fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, líkamsárás sbr. 1. mgr. 218. gr., hótun og eignaspjöll. 4) Þann  [...] 1998 var hann dæmdur í fangelsi í 19 mánuði fyrir líkamsárás 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. og þjófnað. 5) Þann [...]  2001 var hann dæmdur í 16 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 5 ár, fyrir þjófnað. 6) Þann [...] 2003, var hann dæmdur í fangelsi í þrjú ár og 6 mánuði fyrir líkamsárás skv. 2. gr. 218. gr. almennra hegningarlaga og þjófnað. 7) Þann [...] 2006, var honum gerð viðurlagaákvörðun, sekt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. 8) Þann  [...] 2006, var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. 9) Þann [...] 2008, var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi, þar af fjóra mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir líkamsárás skv. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. 10) Þann [...] 2010 gekkst ákærði undir sátt til greiðslu sektar fyrir brot gegn 37. gr. og 48. gr. umferðarlaga (ökuskírteini ekki meðferðis) og sviptur ökurétti í einn mánuð. 11) Þann [...] 2011 gekkst ákærði undir sátt til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og brot gegn vopnalögum. 12) Þann  [...] 2013 gekkst ákærði undir sátt um greiðslu sektar fyrir þjófnað. 13) Þann [...] 2014 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnaakstur og án þess að vera með ökuskírteini meðferðis og var hann sviptur ökurétti í tvö ár og 6 mánuði. 14) Þann [...] 2014 gekkst ákærði undir sátt til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum ávana- og fíkniefni.

Ákæruliður II.5 ákæru útgefinni 19. ágúst 2014, er hegningarauki skv. 78. gr. almennra hegningarlaga við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá  [...] 2014 og sátt, dags. [...] 2014, og ákæruliðir IV.11 og IV.12, í sömu ákæru, jafnframt hegningarauki við síðastgreinda sátt.

Við ákvörðun refsingar verður horft til þess að ákærði hefur ítrekað gerst sekur gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og gegn ákvæðum vopnalaga. Horfir til refsiþyngingar samkvæmt 255. gr. almennra hegningarlaga að um ítrekuð auðgunarbrot er að ræða. Fíkniefnaakstur ákærða telst hans fyrsta ítrekun. Akstur sviptur ökuréttindum flokkast í öllum tilfellum sem fyrsta brot hans og þá hefur ákærði ekki áður orðið uppvís að brotum gegn ákvæðum áfengislaga eða barnaverndarlaga. Alvarlegustu brot ákærða nú eru fjögur líkamsmeiðingarbrot og ólögmæt nauðung. Samkvæmt 218. gr. b. almennra hegningarlaga, má hækka refsingu um allt að helmingi hafi ákærði áður verið dæmdur sekur um brot á 217., 218. eða 218. gr. a almennra hegningaralaga eða verið refsað fyrir brot, sem tengt er að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi. Ákærða hefur fimm sinnum áður verið gerð refsing vegna líkamsmeiðinga. Einnig verður metið til refsihækkunar að sum brotanna voru unnin í sameiningu, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði á sér ekki margar málsbætur, en hefur þó játað sum brot sín skýlaust, og ber að virða honum það til málsbóta. Til refsilækkunar verður horft til 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, að ákærðu skildu eftir þá muni sem þeir rændu í  [...] og brotaþoli hefur fallið frá kröfu um tjón á innbúi og lausafé. Þá verður horft til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en fyrir liggur vottorð þess efnis að ákærði sé að reyna að takast á við vímuefnavanda sinn.

Með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í fjögur ár og 9 mánuði. Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 25. febrúar 2014 til 7. mars 2014, að báðum dögum meðtöldum, gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 13. ágúst 2014 til 27. ágúst 2014, að báðum dögum meðtöldum, og gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt óslitið frá 2. desember 2014 til dagsins í dag, skal koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu.

Ákærði verður sviptur ökuréttindum skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, í tvö ár, frá 25. ágúst 2016 að telja.

Ákærði játaði sök í ákæruliðum II.5 og II.6 í ákæru útgefinni 19. janúar 2014 og samþykkti upptökur. Verður ákærða gert að sæta upptöku þeirra efna og muna sem þar eru tilgreind eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákæruvaldið féll frá ákæru á hendur F um vörslur á 1,89 g af tóbaksblönduðu kannabis sem um getur í ákærulið II.3 í ákæru útgefinni 9. janúar 2015. Ákærði var sýknaður af vörslum á 3,53 g af kókaíni í sama ákærulið. Ákærði játaði sök í ákærulið II.4 í sömu ákæru um vörslur á 6,32 g af amfetamíni og 4,06 g af kannabis-hassi. Ekki var gerð krafa um upptöku í nefndri ákæru og verður því með vísan til 180. gr. laga nr. 88/2008 ekki dæmd upptaka á þeim efnum.

Ákærði var sakfelldur í ákærulið 1, í ákæru útgefinni 26. mars 2015. Verður honum gert að sæta upptöku á 34 lítrum af landa auk ýmissa tækja eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði F var ásamt þeim S og Sigurði Brynjari sakfelldur í ákærulið 1 í ákæru útgefinni 13. febrúar 2015. Verður ákærða F gert að sæta upptöku þeirra efna og muna sem fundust við húsleit á heimili hans að [...] þann 12. ágúst 2014, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ekki var gerð upptökukrafa gegn ákærða F í ákærulið 2 í ákæru útgefinni 13. febrúar 2015 og verður því með vísan til 180. gr. laga nr. 88/2008 ekki dæmd upptaka á því áfengi.

Ákærði Ó er fæddur [...]. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum fimm sinnum verið gerð refsing frá árinu 2004: 1) Þann [...] 2004 var hann dæmdur í fangelsi í 45 daga, skilorðsbundið í eitt ár, fyrir líkamsárás skv. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. 2) Þann [...] 2005 gekkst ákærði undir sátt til greiðslu sektar fyrir brot gegn 37. gr. umferðarlaga og sviptur ökuréttindum í einn mánuð. 3) Þann [...] 2006 gekkst ákærði undir sátt til greiðslu sektar fyrir brot gegn 5. gr. umferðarlaga og sviptur ökuréttindum í þrjá mánuði. 4) Þann [...] 2006 gekkst hann undir sátt til greiðslu sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. 5) Þann [...] 2012 var hann dæmdur í fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás skv. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni.

Horft verður til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar. Til refsilækkunar verður horft til 2. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en ákærðu skildu eftir þá muni sem þeir rændu í [...] og brotaþoli hefur fallið frá kröfu um tjón á innbúi og lausafé. Einnig verður horft til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en fyrir liggur í málinu yfirlýsing foreldra ákærða, um að hann sé hættur allri neyslu og kominn í góða vinnu. Þá verður horft til 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en ákærði var sýknaður af líkamsárás sem þætti í ráninu auk þess sem ásetningur hans til töku muna virðist hafa vaknað eftir að líkamsárásin var yfir staðin.

Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2012. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma þann dóm upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. og 77. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt framangreindu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Með vísan til alls framangreinds þykir mega skilorðsbinda 6 mánuði af þeirri refsingu eins og nánar greinir í dómsorði. Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 25. febrúar 2014 til 7. mars 2014, að báðum dögum meðtöldum.

Ákærði P er fæddur [...]. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum fjórum sinnum áður verið gerð refsing: 1) Þann [...] 2009 var hann dæmdur í fangelsi í tvö ár óskilorðsbundið, fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 164. gr. og 155. gr. almennra hegningarlaga, 5. og 45. gr. umferðarlaga og jafnframt sviptur ökurétti í 12 mánuði. 2) Þann [...] 2011 var hann dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga og sviptur ökurétti í tvö ár. 3) Þann [...] 2011 var hann dæmdur í fangelsi í þrjú ár og 6 mánuði fyrir líkamsárás skv. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þann  [...] 2014 var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar, 500 daga. 4) Þann [...] 2015 var ákærði dæmdur í fangelsi í tvö ár og 6 mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Með dóminum voru teknar upp eftirstöðvar reynslulausnar, 500 daga, og þeir dagar dæmdir með í málinu. Refsing ákærða nú er hegningarauki skv. 78. gr. almennra hegningarlaga við þann dóm.

Horft verður til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar. Til refsilækkunar verður horft til 2. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en afleiðing af háttsemi ákærða í líkamsárás hans gegn brotaþola virðist ekki hafa verið mikil eða varanleg. Þá skildu ákærðu eftir þá muni sem þeir rændu í [...] og brotaþoli hefur fallið frá kröfu um tjón á innbúi og lausafé. Horft verður til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en fram kom í málinu, sbr. og það sem fram kom í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2015, að ákærði hafi nú gerbreytt öllum háttum sínum. Hann sé hættur allri neyslu og fluttur utan þar sem hann stundi vinnu og nám með fjölskyldu sinni. Horft verður til 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en ásetningur ákærða til töku muna virðist hafa vaknað fyrst eftir að líkamsárásin var yfirstaðin og þá kom fram í skýrslu brotaþola að P hafi sagt að hann hafi þurft að gera þetta. Þá verður að lokum horft til 8. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, til refsilækkunar, en brotaþoli bar í sinni skýrslu fyrir dómi að P hafi reynt að stöðva ákærða F í líkamsmeiðingum og hafi á brotavettvangi beðið brotaþola afsökunar á framferði sínu.

Með vísan til ákvæða 60. gr. almennra hegningarlaga ber nú að taka upp dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] sl. og ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir brot þau, sem nú er dæmt um, með hliðsjón af ákvæðum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt framangreindu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár og tvo mánuði. Með vísan til alls framangreinds þykir mega skilorðsbinda þrjú ár af þeirri refsingu eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði S er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum tvisvar sinnum áður verið gerð refsing: 1) Þann  [...] 2014 gekkst ákærði undir sátt til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. 2) Þann [...] 2014 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnaakstur og brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og var sá dómur hegningarauki við fyrrgreinda sátt. Refsing ákærða nú er hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga við framangreindar refsingar.

Til refsiþyngingar verður horft til 3. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var ekki orðinn fullra 18 ára þegar brot það sem hann er nú sakfelldur fyrir átti sér stað. Í málinu hafa verið lögð fram gögn þess efnis að ákærði hafi umbreytt lífi sínu til betri vegar. Þannig hafa verið lögð fram vottorð þess efnis að hann sé byrjaður í vinnu, yfirlýsing frá eldri systur hans um breytta hagi, vottorð frá [...] um námsárangur á vorönn 2015 og yfirlýsing frá  [...] um áfengis- og vímuefnameðferð sem hann fór í. Þá liggur fyrir að afleiðingar af brotinu urðu ekki miklar. Horft verður til 2. tl., 4. og 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsilækkunar.

Með vísan til framangreinds og til 77. gr. almennra hegningarlaga, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en samkvæmt framangreindu þykir mega skilorðsbinda þá refsingu með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 13. ágúst 2014 til 26. ágúst 2014, að báðum dögum meðtöldum.

Ákærði Sigurður Brynjar Jensson er fæddur í febrúar 1996. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum fimm sinnum verið gerð refsing frá árinu 2013: 1) Þann 17. janúar 2013 gekkst hann undir sátt til greiðslu sektar fyrir fíkniefnaakstur, skv. 45. gr. a. umferðarlaga og akstur ökutækis án þess að hafa öðlast ökuréttindi og jafnframt sviptur ökurétti í fjóra mánuði. 2) Þann 27. febrúar 2013 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað. 3) Þann 11. mars 2013 var ákærði dæmdur í fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið í tvö ár fyrir húsbrot, eignaspjöll og þjófnað. 4) Þann 16. maí 2013 gekkst ákærði undir sátt um greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. 5) Þann 21. janúar 2015 gekkst ákærði undir sátt til greiðslu sektar fyrir fíkniefnaakstur og fyrir akstur ökutækis án þess að hafa öðlast ökuréttindi og var jafnframt sviptur ökurétti í 22 mánuði.

Ákæruliðir 1., 2., og 3. í ákæru útgefinni 28. apríl 2015, og brot hans í ákæru útgefinni 13. febrúar 2015 eru hegningaraukar skv. 78. gr. almennra hegningarlaga við síðastgreinda sátt ákærða frá 21. janúar 2015. Öll framangreind brot ákærða voru framin áður en hann varð fullra 18 ára og hafa því ekki ítrekunaráhrif skv. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Til refsiþyngingar verður horft til 3. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til refsilækkunar verður horft til 2. tl., 4. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, vegna ungs aldurs og vegna þess að afleiðingar fyrir brotaþola urðu ekki miklar.

Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð það sem hann fékk með dómi Héraðsdóms Suðurlands þann 11. mars 2013 og skilorðsdóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. febrúar 2013. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma þá dóma upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til framangreinds er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 14 mánuði en samkvæmt framangreindu þykir mega skilorðsbinda 12 mánuði þeirrar refsingar, nánar með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 13. ágúst 2014 til 26. ágúst 2014, að báðum dögum meðtöldum.

Ákærði verður sviptur ökuréttindum skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, í 18 mánuði, frá 21. nóvember 2016 að telja.

Ákærði skal sæta upptöku á 0,84 g af amfetamíni og upptöku á kjöthamri eins og greinir í dómsorði.

IV

Einkaréttarkröfur

Bótakrafa vegna ákæruliða III.8 í ákæru útgefinni 19. ágúst 2014.

Ákærandi tók að sér að mæta fyrir bótakrefjandann H á öllum stigum málsins fyrir dómi en skaðabótakrafa hans var móttekin hjá lögreglu þann 7. ágúst 2014. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að framkomin skaðabótakrafa hafi fyrst verið kynnt fyrir ákærða, F við fyrirtöku málsins þann 14. nóvember 2014. Ákærði F var sakfelldur í þessum ákærulið en brot hans fellt undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, þar sem ekki þótti sannað að ákærði hafi slegið brotaþola í andlitið og ekki þótti sannað að brot upp úr tönn brotaþola hafi mátt rekja til háttsemi ákærða. Þetta breytir því á hinn bóginn ekki að verknaður af því tagi sem hér um ræðir er til þess fallinn að hafa áhrif á andlega heilsu þess sem fyrir honum verður, enda veist að vagnstjóranum þegar hann var að aka með fullan vagn að fólki og eigi hann rétt til bóta samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að þessu virtu og atvikum máls að öðru leyti eru miskabætur til brotaþola ákveðnar 150.000 krónur, um vexti fer svo sem í dómsorði greinir. 

Bótakröfur vegna ákæruliða IV.9 og 10 í ákæru útgefinni 19. ágúst 2014.

Ákærandi tók að sér að mæta fyrir bótakrefjanda á öllum stigum málsins. Ákærði F var samkvæmt því sem að framan greinir sýknaður í ákæruliðum IV.9 og IV.10. Með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kröfunum vísað frá dómi.   

Bótakrafa vegna ákæruliða IV.12 í ákæru útgefinni 19. ágúst 2014.

Ákærandi tók að sér að mæta fyrir bótakrefjanda á öllum stigum málsins. Ákærði F var sakfelldur í þessum ákærulið og verður honum því gert að greiða [...] skaðabætur, 3.760 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir. Ákærða var kynnt framkomin krafa við skýrslutöku hjá lögreglu þann 2. apríl 2014.

Bótakrafa í ákæru, útgefinni 13. febrúar 2015, á hendur F, Ó og P.

Diljá Mist Einarsdóttir hdl., skipaður réttargæslumaður R, lýsti því yfir við upphaf munnlegs málflutnings að fallið hefði verið frá bótarkröfum á hendur ákærðu F, Ó og P vegna tjóns á innbúi og vegna sjúkrakostnaðar og lagði fram skjal sama efnis. Aðrar kröfur stæðu hins vegar áfram samkvæmt framlagði bótakröfu sem hafi verið móttekin hjá lögreglu þann 2. apríl 2014 og krafðist brotaþoli þess að ákærðu greiddu þær in solidum. Eftir breytingar á kröfunni stæðu eftir þjáningabætur, 63.360 krónur og miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna. Fram kom í máli réttargæslumanns brotaþola að við ákvörðun bóta yrði að hafa í huga alvarleika brotsins. Árásin hafi verið hrottafengin og niðurlægjandi og farið fram á heimili brotaþola án nokkurs tilefnis sem hafi eftir þetta flutt úr íbúðinni. Þá verði að hafa í huga afleiðingar brotsins, sem hafi reynst brotaþola mjög þungbærar. Um hafi verið að ræða beinbrot í andliti og rifbeinsbrot auk andlegra afleiðinga, áfallastreituröskun og sjálfsvígshugsanir. Vísaði brotaþoli máli sínu til stuðnings til 3. gr. og 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 172. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og um vaxtakröfu til 4. og 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, og kröfu um dráttarvexti til 6. og 9. gr. sömu laga. Bótakrafan var birt ákærðu F og Ó við fyrirtöku málsins þann 13. mars 2015 og ákærða P var birt bótakrafan þann 8. apríl 2015.

Í málinu voru ákærðu F og P sakfelldir fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola. Óumdeild er að atlaga þeirra hefur valdið brotaþola bæði þjáningum og miska. Í ljósi atvika, 3. og 26. gr. skaðabótalaga og með hliðsjón af vitnisburði sérfróðra vitna fyrir dómi verður ákærðu gert að greiða brotaþola óskipt þjáningabætur að fjárhæð 63.360 krónur og miskabætur sem hæfilega þykja 1.200.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Bótakrafa í ákæru, útgefinni 13. febrúar 2015, ákærulið 1, á hendur F, S og Sigurði Brynjari.

Bragi Dór Hafþórsson hdl., skipaður réttargæslumaður brotaþola C, vísaði til bótakröfu sem lægi frammi í málinu. Væri krafa brotaþola sú að ákærðu yrði gert, in solidum, að greiða honum 3.000.000 króna í miskabætur, með vöxtum frá brotadegi til 29. október 2014 en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Fallið var frá kröfu um skaðabætur vegna úlpu 66°n, en gerð var krafa um skaðabætur vegna Michael Kors úrs og Samsung-síma sem ákærðu hafi tekið af brotaþola. Lögð var fram í málinu kvittun fyrir Samsung-síma að fjárhæð 131.220 krónur. Fram kom í máli réttargæslumanns brotaþola að þó svo að líkamlegir áverkar hafi verið litlir, verði að líta til þess hvaða aðferðum hafi verið beitt, að honum hafi verið gefið rafstuð með hættulegu vopni svo sem í kynfærin. Þá hafi andlegar afleiðingar og eftirköst verið mikil sem hafi meðal annars lýst sér í alvarlegri áfallastreituröskun brotaþola. Vísaði brotaþoli máli sínu til stuðnings til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bótakrafan var birt fyrir ákærðu F og S við fyrirtöku málsins þann 13. mars 2015 og ákærða Sigurði Brynjari þann 31. mars 2015.

Í málinu voru ákærðu F, S og Sigurður Brynjar sakfelldir fyrir líkamsárás og ólögmæta nauðung gagnvart brotaþola þótt ekki hafi verið sannað að brotaþola hafi verið gefið rafstuð í kynfærin. Ekki var ákært fyrir þjófnað í málinu og er skaðabótakröfu fyrir stuld á munum brotaþola því vísað frá dómi. Óumdeilt er að atlaga þeirra hefur valdið brotaþola miska þótt háttsemi sú sem sönnuð þyki, sé ekki eins alvarleg og í ákæru greini og afleiðingar ekki miklar. Í ljósi atvika, 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með hliðsjón af vitnisburði sérfróðra vitna fyrir dómi verður ákærðu gert að greiða brotaþola óskipt miskabætur sem hæfilegar þykja 500.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

V

Sakarkostnaður

Samkvæmt 216. og 217. gr., sbr. 1. mgr. 218. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærðu í ljósi niðurstaðna dómsins um refsiheimfærslur og sýknu að hluta og að teknu tilliti til þess að mál sumra urðu umfangsmeiri vegna sameininga málanna, gert að greiða eftirfarandi sakarkostnað:

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða F, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., sem ákveðin verða 4.000.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist að ¼ úr ríkissjóði en að ¾ hlutum af ákærða. Ákærði greiði þóknun skipað verjanda síns á rannsóknarstigi, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði skal greiða annan sakarkostnað í þeim málum þar sem hann var sakfelldur, sbr. eftirfarandi: Ákæra útgefin 8. október 2014, 131.395 krónur. Ákæruliður 1, í ákæru útgefinni 9. janúar 2015, 40.000 krónur. Ákæruliður 1, í ákæru útgefinni 26. mars 2015, 30.256 krónur. Ákæruliður 2, í ákæru útgefinni 13. febrúar 2015, 17.715 krónur, alls 219.366 krónur.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Ó, Jóns Egilssonar hrl., 1.200.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist að ½ hluta úr ríkissjóði, en að ½  hluta af ákærða.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða P, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 1.200.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist að 1/3 hluta úr ríkissjóði, en að 2/3 hlutum af ákærða. Ákærði greiði 6.200 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærðu F og P skulu greiða óskipt þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, R, Diljár Mistar Einarsdóttur hdl., 200.000 krónur, og Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hrl., 400.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá skulu ákærðu greiða óskipt annan sakarkostnað, 99.061 krónu.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða S, Ólafs Arnars Svanssonar hrl., 1.100.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist að 1/3 hluta úr ríkissjóði, en að 2/3 hlutum af ákærða. Ákærði skal greiða þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurðar Brynjars Jenssonar, Oddgeirs Einarssonar hrl., 1.300.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist að 1/3 hluta  úr ríkissjóði, en að 2/3 hlutum af ákærða. Ákærði greiði 385.055 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærðu F, S og Sigurður Brynjar Jensson skulu greiða óskipt þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, C, Braga Dórs Hafþórssonar hdl., 500.000 krónur, og skipaðs réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi, Arnars Þórs Stefánssonar hrl., 100.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá skulu ákærðu greiða óskipt annan sakarkostnað málsins, 256.896 krónur.

Dóm þennan kveða upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari, Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari og Jón Höskuldsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Ákærði F sæti fangelsi í fjögur ár og 9 mánuði. Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 25. febrúar 2014 til 7. mars 2014, að báðum dögum meðtöldum, gæsluvarðhald er ákærði hefur sætt frá 13. ágúst 2014 til 27. ágúst 2014, að báðum dögum meðtöldum, og gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt óslitið frá 2. desember 2014 til dagsins í dag skal koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu.

Ákærði Ó, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 25. febrúar 2014 til 7. mars 2014, skal koma til frádráttar að báðum dögum meðtöldum.

Ákærði P, sæti fangelsi í þrjú ár og tvo mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja ára af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði S sæti fangelsi í 9 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 13. ágúst 2014 til 26. ágúst 2014, skal koma til frádráttar að báðum dögum meðtöldum.

Ákærði Sigurður Brynjar Jensson sæti fangelsi í 14 mánuði, en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 13. ágúst 2014 til 26. ágúst 2014, skal koma til frádráttar að fullri dagatölu.

Ákærði F er sviptur ökuréttindum í tvö ár, frá 25. ágúst 2016 að telja.

Ákærði, Sigurður Brynjar Jensson er sviptur ökuréttindum í 18 mánuði, frá 21. nóvember 2016 að telja.

Ákærði F sæti upptöku á 1,76 g af MDMA (ecstasy),  0,95 g af amfetamíni, 1,28 g af maríhúana-kannabis, 4,05 af tóbaksblönduðu maríhúana-kannabis, hnúajárni, 34 lítrum af landa ásamt ílátum (flöskum), suðutæki og alkóhólmæli, anabólískum sterum samtals 34 ml af stungulyfjum í glösum, 8 ml. af Mesterolone, 8 ml af Sustanon, 7 ml af Trenbolone, 7 ml Testosteron og 4 ml af Boldenone, 90 stk. af 30 ml plastglösum sem innihalda smjörsýru (gamma-hydroxybutyric acid), rafmagnsvopni (rafstuðbyssu) með áletruninni F-403xingB eryong Chao Gao YaMai Chong, tvíhleyptri haglabyssu af gerðinni Stevens, 3 stk. Haglaskot, loftskammbyssu P-23 Gamo ásamt tösku og skotfærum, sem lagt var hald á við rannsókn mála á hendur ákærða. 

Ákærði Sigurður Brynjar Jensson sæti upptöku á 0,84 g af amfetamíni, og kjöthamri sem lögregla lagði hald á.

Ákærði F greiði H, kt. [...], miskabætur að fjárhæð 150.000 krónur auk vaxta frá 15. mars 2014 til 14. desember 2014, samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga.

Ákærði F greiði [...]skaðabætur að fjárhæð 3.670 krónur auk vaxta frá 20. febrúar 2014 til 2. maí 2014, samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga.

Ákærðu F og P greiði R, kt. [...], óskipt, þjáningarbætur, 63.360 krónur, og miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 24. febrúar 2014 til 8. maí 2015, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu F, S og Sigurður Brynjar Jensson greiði C, kt. [...], óskipt, 500.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 6. ágúst 2014 til 31. apríl 2015, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði F greiði sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hans á rannsóknarstigi, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur og ¾ hluta af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 4.000.000 krónur, en ¼ hluti greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði 219.366 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði Ó greiði sakarkostnað sem eru ½ hluti málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur, en ½ hluti greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði P greiði sakarkostnað, sem eru 2/3 hlutar málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, 1.200.000 krónur, en 1/3 hluti greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði 6.200 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði S greiði sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans á rannsóknarstigi, Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur og 2/3 hlutar málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Ólafs Arnars Svanssonar hæstaréttarlögmanns, 1.100.000 krónur, en 1/3 hluti greiðist úr ríkisjóði.

Ákærði Sigurður Brynjar Halldórsson greiði sakarkostnað, sem eru 2/3 hlutar málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Oddgeirs Einarssonar, hæstaréttarlögmanns, 1.300.000 krónur, en 1/3 hluti greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði 385.055 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærðu F og P greiði óskipt sakarkostnað, 99.061 krónu, og þóknun réttargæslumanna brotaþola R, Diljár Mistar Einarsdóttur héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur, og Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.

Ákærðu F, S og Sigurður Brynjar Jensson skulu greiða óskipt sakarkostnað, 256.896 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola C, Braga Dórs Hafþórssonar héraðsdómslögmanns, 500.000 krónur, og skipaðs réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 21. desember 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var 18. desember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara með ákæru útgefinni 9. nóvember 2015, á hendur E, kennitala [...],[...] og Sigurði Brynjari Jenssyni, kennitala [...], Beykidal 6, Reykjanesbæ fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana og fíkniefni;

1.       Á hendur ákærðu báðum fyrir frelsissviptingu og rán, með því að hafa, laugardaginn 15. ágúst 2015 á heimili A og B að [...] í Reykjavík, svipt A frelsi sínu og þvingað hana á brott með sér í því skyni að fá hana til að endurheimta Lyrica töflur sem ákærðu töldu A og B hafa stolið frá sér. Ákærðu fóru með A nauðuga að dvalarstað ákærðu að [...] í Kópavogi, þar sem ákærði E sló A í andlitið og hrinti henni niður tröppur í stigagangi hússins. Skömmu síðar fóru ákærðu aftur að [...] þar sem þeir veittust í félagi að B og A með ofbeldi og hótunum um frekara ofbeldi ef þau létu ekki af hendi fyrrgreindar töflur og ef þau myndu tilkynna atvikið til lögreglu. Í beinu framhaldi af því sem áður er lýst tóku ákærðu ófrjálsri hendi og höfðu á brott með sér af heimili A og B fartölvu af gerðinni HP, farsíma af gerðinni Samsung, tölvuflakkara, seðlaveski og fatnað. Á meðan á framangreindu gekk veittu ákærðu B hnefahögg í andlit og í sameiningu sviptu ákærðu B frelsi sínu í rúmar fimmtíu mínútur. Er ákærðu yfirgáfu vettvang að [...] höfðu þeir svipt A frelsi sínu í tvær klukkustundir og tuttugu mínútur.

        Er þetta talið varða við 2. mgr. 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.       Á hendur ákærða E fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í tengslum við ránsbrot og frelsissviptingu, í ákærulið 1., með því að hafa, skorið B með hnífi í hægri fótlegg og er hann lá á grúfu á gólfi íbúðarinnar slegið og sparkað í höfuðið á B. Ákærði sló B einnig með hamri í höfuðið og A með hamri í vinstri handlegg. Þá skar ákærði E bæði A og B á vinstri kinn með hnífi. Við þetta hlaut B þriggja til fjögurra sm langan skurð á vinstri kinn og djúpan fjögurra sm langan skurð á framanverðum hægri fótlegg. Við þetta hlaut A fjögurra sm langan skurð á vinstri kinn, mar á vinstri framhandlegg, á augnloki, kringum augun og á kinnbeini.

        Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

3.        Á hendur ákærða Sigurði Brynjari fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 16. ágúst 2015 á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, eftir að lögregla hafði handtekið ákærða í tengslum við brot í ákærulið 1., haft í vörslum sínum 1,45 g af amfetamíni sem lögregla fann innanklæða á ákærða.

        Er þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. 

      Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar og að framangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

       Af hálfu B er þess krafist að ákærðu verði in solidum dæmdir til að greiða honum skaðabætur samtals að fjárhæð 2.700.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2015 fram að birtingu bótakröfu en frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr. sbr., 5. gr. til greiðsludags. Þá er gerð krafa um réttargæsluþóknun úr hendi ákærðu.

      Af hálfu A er þess krafist að ákærðu verði in solidum dæmdir til að greiða henni skaðabætur samtals að fjárhæð 3.800.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2015 fram að birtingu bótakröfu en frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr. til greiðsludags. Þá er gerð krafa um réttargæsluþóknun úr hendi ákærðu.

                Ákærðu neita báðir sök samkvæmt 1. tl. ákæru. Ákærði E neitar sök samkvæmt 2. tl. ákæru. Ákærði Sigurður játar sök skv. 3. tl. ákæru. Af hálfu verjenda er krafist sýknu að því marki er ákærðu neita sök og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 15. ágúst 2015 fékk lögregla þann dag kl. 17.00 tilkynningu um líkamsárás að [...] í Reykjavík. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að húsráðandi hafi tekið á móti lögreglu. Fram kemur að A og B, brotaþolar í máli þessu, hafi verð á staðnum og bæði verið með skurð í andliti. Hafi þau sagt að þau hafi verið lamin með hamri. Þá hafi B verið með stóran skurð á fæti. Blóð hafi verið á gangi í íbúðinni, inni í eldhúsi en mest inni í herbergi brotaþola. Mikið af drasli hafi verið um alla íbúð. Í máli brotaþola hafi komið fram að þrír einstaklingar hafi komið inn á heimilið og veitt brotþolum áverkana með hnífi. Ekki hafi þau viljað greina frá því hverjir það hafi verið. Brotaþolar hafi verið fluttir á slysadeild með sjúkrabifreið. EA hafi verið gestkomandi á heimilinu. Hafi hann ekkert viljað tjá sig. Tæknideild lögreglu hafi verið kölluð til. Í skýrslu lögreglu kemur fram að næsta dag kl. 12.24 hafi komið tilkynning til lögreglu um að aðili í annarlegu ástandi hafi verið í verslun [...] við Vesturlandsveg. Hafi aðilinn ekið á brott í bifreið af gerðinni Ford Expedition með skráningarnúmerið [...]. Umráðamaður þess ökutækis hafi verið ákærði E. Hafi lögregla svipast um eftir bifreiðinni, m.a. við heimili ákærða E að [...] í Kópavogi. Klukkan 12.34 þennan sama dag hafi komið tilkynning um að gerendur í líkamsárásinni að [...] væru komnir aftur á vettvang. Hafi lögreglumenn þegar haldið á staðinn. Gerendur hafi verið farnir á brott er lögreglu hafi borið að garði. Hafi lögregla farið aftur að heimili ákærða E í Kópavogi og bifreið hans verið fyrir utan heimili ákærða. Ákærði E hafi verið handtekinn í íbúðinni. Á staðnum hafi einnig verið ákærði Sigurður Brynjar og hafi hann sömuleiðis verið handtekinn vegna málsins. Við leit í íbúð ákærða hafi fundist fartölva og farsími í eigu A. Einnig hafi fundist blóðugar buxur í fataskáp, blóðugur bolur á gólfi og buxur með blóðkámi í stofu. Blóðugur Letherman hnífur hafi verið í vasa ákærða E. Á meðal ganga málsins er skýrsla tæknideildar lögreglu, en ljósmyndir voru teknar úr íbúðinni að [...]. Þá er á meðal rannsóknargagna málsins myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi við [...]. Sýnir það ákærðu koma að [...] laugardaginn 15. ágúst 2015 og gera tilraunir til að komast inn í fjöleignarhúsið. 

                Sérfræðingur á bráða- og göngudeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 5. nóvember 2015 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á slysadeild 15. ágúst 2015. Að því er A varðar kemur fram að á höfði hennar hafi verið 4 cm grunnt sár vinstra megin. Þá hafi hún verið með mar yfir vinstri kinn. Að auki hafi verið eymsli yfir nef og andlitsbeinum vinstra megin. Þá hafi hún verið með mar og eymsli yfir vinstri framhandlegg. Einnig hafi hún verið aum viðkomu á báðum lærum. Tekin hafi verið röntgenmynd af handlegg. Ekki hafi hún leitt í ljós brot. Ekki hafi þurft að suma sár í andliti. Batahorfur væru góðar. Að því er B varðar kemur fram að B hafi verið vel vakandi og skýr í fyrstu en eftir stutta stund hafi hann orðið þreyttur og sljór. Hafi hann verið með skurð vinstra megin á kinn um 3 til 4 cm að lengd. Skurðurinn hafi verið grunnur í húð. Aftan til vinstra megin á höfði hafi hann verið bólginn. Þá hafi hann verið með skurð framan til á hægri lærlegg um 4 cm að lengd. Sárið hafi þurft að sauma. Vegna vaxandi sljóleika og merkja um höfuðáverka hafi verið tekin sneiðmynd af höfði. Brot hafi ekki komið fram. B hafi leitað aftur á deildina 26. ágúst 2015 vegna sárs á fótlegg. Til skoðunar hafi verið hvort sýking væri komin í sárið. Útlit hafi verið talið gott og sárið að gróa. Reiknað væri með fullum bata. 

                Ákærði E hefur skýrt svo frá atvikum að laugardaginn 15. ágúst 2015 hafi brotaþolar og EB komið á heimili ákærða í Kópavogi. Brotaþolana hafi ákærði þekkt, en EB ekki. Hafi þetta verið um kl. 14.00 þennan dag. Ákærði hafi þurft að fara til að sækja meðákærða Sigurð Brynjar en brotaþolar og EB orðið eftir í íbúð ákærða. Ákærði hafi komið til baka og gestir hans fljótlega eftir það yfirgefið íbúðina. Stuttu síðar hafi ákærði áttað sig á því að geðlyfjum ákærða hafi verið stolið úr íbúðinni. Hafi ákærðu farið heim til brotaþolanna sem búið hafi að [...]. Á leiðinni hafi ákærði verið í samskiptum við A í gegnum Facebook. Eins hafi ákærði hringt í hana á leiðinni. Í þessum samskiptum hafi komið fram hjá A að EB hafi tekið lyfin. Hafi ákærði sagt við A að hún yrði að aðstoða ákærða við að hafa uppi á EB þar sem hún hafi þekkt hann en ákærði ekki. Hafi hún vitað hvar EB ætti heima. Hafi A fallist á að koma með ákærða. Hafi þau farið heim til EB. Ákærða hafi ekki þótt þægilegt að ræða þessi mál þar á bæ þar sem eldri kona hafi verið heima hjá EB. Hafi þau því öll farið heim til ákærða í Kópavogi. Er þangað kom hafi EB sagt að B hafi tekið lyfin. Hafi ákærði orðið pirraður við þetta. Hafi þau ákveðið að fara aftur heim til A og ræða við B. Er þangað kom hafi B verið sofandi inni í herbergi. Hafi ákærði reynt að vekja hann. Það hafi ekki gengið vel og ákærði þá skorið B í annan fótinn. Er B hafi vaknað hafi ákærði spurt hann um lyfin. Hafi B rétt ákærða örfáar töflur, en ekki þann fjölda er horfið hafi frá ákærða. Hafi ákærði orðið reiður. Hafi hann rispað B með hnífnum grunnt í andlitið. Þá hafi hann kýlt B einu sinni. Hann hafi einnig skorið grunnan skurð í andlit A. EA hafi komið inn í herbergið og ákærði þá ákveðið að fara. Hafi ákærðu farið saman út og heim til ákærða í Kópavogi. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með hamar í höndum og því ekki lamið brotaþola með hamri. Þá hafi ákærði aldrei sparkað í B. Ákærði kvaðst ekki hafa þvingað A þegar hann hafi beðið hana um að koma með sér til EB. Hún hafi komið sjálfviljug. Ákærði kvaðst ekki hafa beitt A neinu ofbeldi á heimili sínu í [...]. Hann hafi verið henni reiður og öskrað á hana. Meðákærði hafi búið heima hjá ákærða á þessum tíma. Meðákærði hafi verið með ákærða í för en ekkert gert annað en að reyna að aðstoða ákærða við að finna lyfin. Hafi meðákærði ekki hótað brotaþolum eða beitt þau ofbeldi. Ákærði kvaðst hafa átt tvær peysur heima hjá brotaþolum. Hafi hann haft þær á brott með sér úr [...]. Eins hafi hann tekið lyfin sín. Ákærði hafi ekki tekið tölvu, flakkara, síma eða veski í eigu A. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna umrætt sinn. Ekki hafi staðið til að meiða brotaþola. Hafi ætlun ákærða einungis verið að fá brotaþolana til að skila lyfjum.

                Ákærði Sigurður Brynjar kvaðst lítið muna eftir atvikum málsins. Myndi hann þó eftir því að meðákærði hafi sótt ákærða umræddan dag. Þeir hafi saman farið að hitta A til að hafa uppi á EB, sem hafi átt að hafa tekið lyf frá ákærða E. A hafi komið sjálfviljug með. Eftir að á heimili EB kom hafi verið ákveðið að fara heim til meðákærða til að fara yfir málin. Hafi EB komið sjálfviljugur með. Engum hafi verið hótað. Ekkert hafi gerst á heimili ákærða og enginn verið beittur ofbeldi. Meðákærði hafi orðið reiður er hann hafi frétt að B hafi tekið lyfin. Þau hafi öll farið að [...]. Meðákærði hafi ætlað að vekja B. Hafi hann byrjað á því að slá B högg í höfuðið. Hafi B ekki vaknað. Hafi meðákærði skorið B í fótinn. Ekki hafi ákærði séð meðákærða skera B í andlitið. Ákærði hafi engan hamar séð á vettvangi og því ekki séð meðákærða beita hamri gegn brotaþolum. Lítið annað hafi gerst að [...] en að leitað hafi verið að lyfjum meðákærða. Sennilega hafi einnig verið leitað að síma, sem ákærði hafi haldið að hann hafi gleymt í [...]. Hafi ákærði tekið síma A sem hann hafi ætlað að láta hana fá aftur þegar sími ákærða fyndist. Ákærði kvaðst ekki vita hvað meðákærði hafi tekið með sér á brott úr [...]. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 18. ágúst 2015. Við það tækifæri greindi ákærði frá því að eftir að í [...] kom í fyrstu ferðinni hafi meðákærði ,,snappað“. Hafi hann byrjað að slá A á fullu og hafi ákærði tekið utan um hana til að reyna að stoppa atlöguna. Í seinna skiptið er þau hafi komið í [...] hafi B verið sofandi. Hafi meðákærði byrjað að kýla hann í andlitið. Hafi ákærði varið A. Þetta hafi verið ,,svakalegt sko, ég hef aldrei séð annað eins.“ Meðákæri hafi tekið upp hníf og skorið B. Það hafi allt verið út úr blóði, ,,það var bara ógeðlegt bara.“ Meðákærði hafi einnig skorið A í kinnina. Meðákærði hafi einnig verið með hamar sem hann hafi sveiflað út um allt. Hafi meðákærði reynt að beita hamrinum á A en ákærði reynt að verja hana. Ekki væri ákærði viss um hvort meðákærði hafi lamið B með hamrinum. Meðákærði hafi tekið fartölvu og flakkara. Ákærði hafi tekið síma þar sem ákærði hafi talið að B hafi tekið síma ákærða. Er framburður ákærða hjá lögreglu var borinn undir ákærða fyrir dóminum kvaðst hann ekki geta skýrt misræmi í framburði hjá lögreglu og fyrir dómi.

                Brotaþolinn A kvaðst hafa farið heim til ákærða í Kópavogi laugardaginn 15. ágúst 2015. Með henni í för hafi verið B og EB. Hafi brotaþoli setið í sófa í stofu. Ákærði E hafi verið í íbúðinni. Hann hafi farið og komið aftur. Ekkert sérstakt hafi gerst og brotaþoli, A og EB síðan farið úr íbúðinni. Síðar þennan dag hafi ákærðu komið að heimili brotaþola að [...]. Hafi þeir verið fyrir utan fjöleignarhúsið öskrandi og gargandi og reynt að komast inn. Hafi ákærðu sagt að brotaþolar hafi stolið lyfjum og síma frá ákærðu. Til að fá ákærðu til að vera rólega hafi brotaþoli farið og rætt við þá. Hafi brotaþoli staðið í þeirri trú að EB hafi tekið lyfin frá ákærða E. Ákærðu hafi gert kröfu um að brotaþoli kæmi með til EB. Hafi brotaþoli í fyrstu sagt nei en ákærðu ítrekað að hún yrði að hjálpa þeim. Hafi brotaþoli verið hrædd og ekki þorað annað en að fara með þeim. Ákærðu hafi verið mjög æstir. Hafi brotaþoli verið í sjokki. Ákærðu hafi verið harðhentir og tekið harkalega í brotaþola. Þau hafi farið heim til EB. Ákærðu hafi hótað EB en brotaþoli reynt að róa ákærðu. Þau hafi farið heim til ákærða E. Þar hafi EB sagt að B hafi tekið lyfin. Ákærði E hafi ráðist á brotaþola og sagt að hún væri samsek. Hafi ákærði lamið brotaþola og sparkað í hana. Eins hafi hann sprautað úr úðabrúsa framan í brotaþola og vökvinn farið í augu brotaþola. Hafi hann hrint brotaþola í stigagangi hússins. Þau hafi farið að [...]. Ákærði E hafi tekið brotaþola hálstaki til að hún myndi örugglega opna fyrir þeim að [...]. Þau hafi farið í herbergi til brotaþola. Ákærði E hafi skipað brotaþola að bíða úti í horni. Hafi ákærði vakið B með því að kýla hann í andlitið. Í framhaldi hafi ákærði skorið B með hnífi í annan fótinn. Eins hafi hann lamið B með hamri aftanvert í höfuðið. Ákærði hafi skorið báða brotaþola með hnífnum í kinn. Þá hafi ákærði slegið A með hamri og höggið komið á vinstri handlegg. Eins hafi hann helt yfir þau bjór. EA hafi komið á staðinn og reynt að stöðva atlöguna. Eftir það hafi ákærðu farið á brott. Hafi ákærðu saman tekið með sér fartölvu í eigu brotaþola, og fleira, þ. á m. kjóla sem brotaþoli hafi átt. Töluvert hafi blætt úr B og þurft að hringja á sjúkrabíl. Hafi brotaþolar báðir farið á slysadeild í framhaldi. Að því er ákærða Sigurð varðaði hafi ákærði við fyrstu komu í [...] verið æstur og öskrað mikið. Hafi hann leitað í herbergi brotaþola að lyfjum meðákærða. Hafi hann ekki beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi. Brotaþoli bar að sér hafi liðið illa næstu daga. Sjón hennar hafi versnað við það að ákærði E hafi sprautað einhverjum vökva í augu brotaþola. Finni brotaþoli enn fyrir því. Hafi sjónin ekki jafnað sig. Þá mætti enn sjá merki eftir hnífslagið á kinn brotaþola. Hafi brotin haft alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Væri hún ekki eins örugg lengur. Hafi hún þurft að sækja sér geðlæknisaðstoðar vegna málsins.    

                Brotaþolinn B kvaðst, ásamt A og EB, hafa farið heim til ákærða E laugardaginn 15. ágúst 2015. Kvaðst B hafa verið undir áhrifum og sennilega tekið einhver lyf í eigu ákærða E. Myndi B það ekki vel, en þessi lyf hafi í það minnsta fundist heima hjá B. EB hafi verið með B er lyfin voru tekin. B hafi síðar þennan dag verið sofandi heima hjá sér og vaknað við það að ákærði E hafi skorið B í annan fótinn. B hafi dottið niður á gólf og fengið spörk og högg frá ákærða í höfuðið. Eins hafi hann verið sleginn með hamri í höfuðið af ákærða. Um hafi verið að ræða tvö högg. Hafi ákærði sagt að brotaþoli hafi stolið frá ákærða fyrr þennan dag lyfjum og síma. Hafi ákærði verið að reyna að ná þessum hlutum til baka. Ákærði E hafi einnig veist að A með barefli. Hafi hún verið úti í horni herbergisins. B hafi verð nokkuð lengi að átta sig á aðstæðum og lítið getað gert. Að atlögunni lokinni hafi ákærði hótað brotaþolum því að einhverjum yrði sigað á þau ef þau snéru sér til lögreglu. Ákærði Sigurður hafi meira verið í því að reyna að róa ákærða E niður inni í herberginu og reynt að veita A vörn. Ákærði Sigurður hafi ekki beitt neinu ofbeldi í herberginu. EA hafi komið inn í herbergið er árásin hafi verið í gangi. Kvaðst B lítið muna eftir því að öðru leyti. Ákærðu hafi í sameiningu tekið með sér tölvu í eigu A, síma o.fl. B og A hafi farið á slysadeild eftir atburðinn. Hafi B dvalið á deildinni yfir nóttu. Blætt hafi talsvert úr sári á fæti B. Hafi föt B eyðilagst vegna þess. Sár á fæti hafi verið saumað en plástur settur á skurðinn á andliti. 

                EA kvaðst hafa verið í [...] laugardaginn 15. ágúst 2015 er hann hafi fengið skilaboð frá B þess efnis að eitthvað væri að. Hafi EA fengið slæma tilfinningu fyrir þessu. Hafi hann ekið til Reykjavíkur og farið inn í [...]. Hafi móðir A hleypt honum inn. EA hafi farið inn í herbergi brotaþola. EA kvaðst hafa þekkt alla þá sem voru inni í herberginu. Allt hafi verið í blóði. Ákærði Sigurður hafi legið hálfur uppi í rúmi. Föt hafi verið um allt. A hafi setið uppi í enda rúmsins. B hafi einnig setið uppi í enda rúmsins. Ákærði E hafi verið bæði með hníf og hamar í hendi. Hafi hann sveiflað hamrinum fram og aftur. EB hafi staðið fyrir aftan hurð inn í herbergið. EA kveðst hafa spurt hvað væri í gangi. Hafi honum verið tjáð að B hafi tekið lyf frá ákærða E. Kvaðst EA hafa reynt að tala ákærða til. Er EA hafi komið í herbergið hafi verið búið að skera B í annan fótinn. EA kvaðst hafa séð ákærða E slá B tvisvar sinnum með hamri í höfuðið. Höggin hafi ekki verið þung. Á þessum tíma hafi verið búið að skera A með hnífi í andlitið. Ákærði E hafi sagt að brotaþolar yrðu að gjalda fyrir brot sín. EA kvaðst hafa reynt að róa ákærða niður. Er EA hafi komið inn í herbergið hafi hegðan ákærða Sigurðar breyst og hann farið að hlífa A. Hafi ákærði E slegið A tvisvar sinnum með flötum lófa. EA hafi séð ákærða E skera B í andlitið. Eftir það hafi EA tekist að róa ákærða E. Ákærði hafi farið að ræða um skrýtna hluti eins og að taka A með sér og setja hana í vændi. Að endingu hafi ákærðu og EB yfirgefið herbergið. Á leið út hafi ákærðu tekið eitthvað af hlutum með sér úr herberginu. Um hafi verið að ræða sími A og fleiri hluti. Þá hafi ákærðu hótað brotaþolum því að málið yrði klárað ef þau myndu kæra verknaðinn til lögreglu. EA kvað ljóst að brotaþolar hafi ekki getað flúið af vettvangi. Ákærði E hafi bæði verið með hníf og hamar í hendi.

                EB kvaðst takmarkað muna atvik málsins. Myndi vitnið eftir því að hafa verið að skemmta sér 15. ágúst 2015 með brotaþolanum B. Þeir, ásamt brotaþolanum A, hafi farið heim til ákærða E. B hafi tekið einhver lyf í eigu ákærða E. Að öðru leyti hafi ekkert sérstakt gerst á heimili ákærða. Í framhaldi hafi vitnið farið heim til sín, um leið og  brotaþolar hafi farið heim til sín. Vitnið hafi verið að fara að sofa er ákærðu og A hafi komið. Hafi þau spurt vitnið hvort það vildi koma með þeim heim til ákærða E. Hafi vitnið þekkst boðið og þau öll farið heim til ákærða. Vitnið hafi ekki verið þvingað, þó svo ákærðu hafi verið talsvert æstir. Á heimili ákærða E hafi þau rætt saman, en ákærðu hafi sakað vitnið um að hafa tekið lyf og síma frá ákærðu. Hafi vitnið tjáð ákærðu  að B hafi tekið lyfin. Ákærðu hafi verið nokkuð æstir heima hjá ákærða E. Þeir hafi engu að síður ekki beitt vitnið eða A ofbeldi.  Vitnið kvaðst hafa séð ákærða E með Letherman hníf á heimili sínu. Í kjölfarið hafi þau öll farið heim til A að [...]. Þau hafi farið inn  í herbergi þar sem brotaþolinn B hafi verið sofandi. Vitnið kvaðst lítið hafa séð af því sem gerst hafi í herberginu þar sem vitnið hafi ekki viljað horfa á þá hluti. Hafi vitnið verið skelkað. Hefði vitnið reynt að gleyma atvikum. Vitnið hafi þó séð að blóð hafi verið á vettvangi. Ekki hafi vitnið áttað sig á því úr hverjum hafi blætt. B hafi verið með einhverja áverka.Ekki kvaðst vitnið hafa séð ákærða E með hníf í [...]. Ákærði hafi tekið upp hamar sem hafi verið í [...]. Ekki hafi vitnið séð ákærða nota hamarinn. Ákærði Sigurður hafi aðstoðað ákærða E við að leita að lyfjum ákærða E og síma sem hafi verið saknað. Vitni og ákærðu hafi verið í [...] í um hálfa klukkustundu. Eftir það hafi vitnið og ákærðu farið. Hafi vitnið farið aðeins á undan ákærða út. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 19. ágúst 2015. Við það tækifæri greindi vitnið frá því að ákærðu og A hafi komið heim til vitnisins. Hafi vitnið verið tekið út af heimili sínu og ákærðu hótað vitninu öllu illu. Hafi vitnið verið dregið út með látum. Hafi vitnið neyðst til að segja ákærðu að B hafi tekið lyf ákærða E. Er þessi framburður vitnisins var borinn undir vitnið fyrir dómi kvað vitnið það ekki rétt að ákærðu hafi dregið það út af heimili sínu. Hjá lögreglu greindi vitnið frá því að er á heimili ákærðu kom hafi vitnið verið telið hálstaki til að fá vitnið til að segja frá því hver hafi tekið lyfin. Er í [...] kom hafi B verið vakinn. Hann hafi verið kýldur og eitthvað stunginn. Hafi ákærðu báðir beitt B ofbeldi. Þó hafi ákærði Sigurður Brynjar ekki beitt A ofbeldi. Sigurður hafi þó slegið í áttina að B. Ákærði E verið með hamar. Lyf sem tekin hafi verið frá ákærða E hafi fundist. Fyrir dómi kvað vitnið þessa lýsingu í lögregluskýrslu rétta.  

                Móðir brotaþolans A kvað brotaþolana hafa búið á heimili sínu. Hafi þau verið með herbergi til umráða frammi í anddyri. Hafi hún orðið þess vör að ákærðu, ásamt dóttur hennar, hafi komið inn á heimilið laugardaginn 15. ágúst 2015. Hafi hún reynt að komast inn í herbergi til brotaþolanna þar sem óhljóð hafi komið þaðan. EA, sem þá hafi verið kominn, hafi varnað henni inngöngu. Kvaðst hún ekkert ofbeldi hafa séð eigin augum, en heyrt mikil óhljóð. Eftir að ákærðu voru horfnir á braut hafi herbergi brotaþola verið eins og vígvöllur. Allt hafi verið í blóði. Hafi A vafið einhverju utan um fót B til að stöðva blæðingu. Brotaþolar og EA hafi sagt henni hvað hafi gerst í herberginu.

Læknir á slysadeild sem ritaði læknisvottorð vegna brotaþola staðfesti vottorð sín og gerði grein fyrir þeim. Kvað hann misritað í læknisvottorði B að sár hafi verið á læri. Þar hafi átt að standa fæti. Brotaþolar ættu ekki að bera varanleg mein í andliti eftir skurði. Ef ekki kæmi ígerð í sárin ættu þau að gróa þannig að þau sæjust ekki.

                Lögreglumenn sem unnu að rannsókn málsins komu fyrir dóminn og gerðu grein fyrir þáttum í henni. 

                Niðurstaða:

                1.tl.

                Í 1. tl. ákæru er ákærðu sameignlega gefið að sök að hafa á heimili brotaþola að [...] svipt brotaþolann A frelsi sínu og þvingað hana á brott með sér í því skyni að fá hana til að endurheimta lyf sem ákærðu töldu brotaþola hafa stolið frá sér. Er í ákæru miðað við að ákærðu hafi farið með A nauðuga að dvalarstað ákærða E í Kópavogi þar sem ákærði E á að hafa slegið brotaþola og hrint henni niður tröppur í stigagangi hússins. Skömmu síðar eigi ákærðu að hafa veist að brotaþolunum báðum að [...] með ofbeldi og hótunum um frekara ofbeldi ef þau létu ekki lyfin af hendi og ef þau myndu tilkynna um atvikið. Er miðað við að er ákærðu hafi yfirgefið [...] hafi þeir tekið ófrjálsri hendi af heimili brotaþolanna fartölvu, farsíma, tölvuflakkara, seðlaveski og fatnað.

Ákærðu neita báðir sök samkvæmt þessum tölulið ákæru. Fullyrða þeir báðir að brotaþolinn A hafi sjálfviljug komið með þeim heim til EB. A og EB hafi í framhaldi af fúsum og frjálsum vilja komið með þeim heim til ákærða E í Kópavogi. Ákærðu hafi vissulega verið æstir vegna þess að lyf hafi verið tekin frá ákærða E. Engu ofbeldi hafi hins vegar verið beitt á heimili ákærða. Brotaþolar hafi ekki verið sviptir frelsi sínu að [...]. Þá hafi engin verðmæti verið tekin frá brotaþolum. Ákærði Sigurður kvaðst hafa tekið síma A þar sem ákærði hafi staðið í þeirri trú að brotaþolar hafi tekið síma ákærða. Hafi ákærði ætlað að skila símanum er hann fengi sinn síma til baka. 

Á meðal gagna málsins eru myndupptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi fjöleignarhússins að [...]. Á myndskeiði má sjá er ákærðu koma að húsinu þennan dag. Af myndskeiði þessu verður ráðið að ákærðu hafi verið örir og æstir. Þá má sjá af öðru myndskeiði úr eftirlitsmyndavélakerfinu þegar ákærðu og brotaþolinn A yfirgefa fjöleignahúsið skömmu síðar. Þar sést hvernig ákærði Sigurður Brynjar heldur þétt við brotaþolann, sem á ekki annan kost en að fara með ákærðu. Brotaþolinn A greindi frá því að ákærðu hafi gert kröfu um að hún kæmi með til EB. Hafi brotaþoli sagt nei í fyrstu en ákærðu ítrekað að hún yrði að hjálpa þeim. Hafi brotaþoli verið hrædd og ekki þorað annað en að fara með þeim. Ákærðu hafi verið mjög æstir. Hafi brotaþoli verið í sjokki. Ákærðu hafi verið harðhentir og tekið harkalega í brotaþola. Vitnið EB bar hjá lögreglu að vitnið hafi verið tekið út af heimili sínu og ákærðu hótað vitninu öllu illu. Hafi vitnið verið dregið út með látum. Hafi vitnið neyðst til að segja ákærðu að B hafi tekið lyf ákærða E. Fyrir dómi staðfesti vitnið þessa lýsingu á atvikum í megindráttum rétta að undanskildu því að vitnið hafi ekki verið tekið út af heimili sínu. 

Ákærðu hafa viðurkennt að EB hafi tjáð ákærðu að brotaþolinn B hafi tekið lyf ákærða E. Hefur ákærði E lýst því að hann hafi orðið brotaþolanum B reiður. Þau hafi öll farið saman að [...] í kjölfarið til að leita að lyfjunum hjá B. Á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfinu að [...] sést er báðir ákærðu, brotaþolinn A og EB koma aftur að [...]. Verður af upptökum ráðið að ákærðu hafi verið æstir. Brotaþolarnir hafa báðir lýst því að ákærði E hafi skorið brotaþolann B í tvígang með hnífi að [...]. Hafi annar skurðurinn verið í andliti en hinn á fætri. Að auki hafi ákærði slegið brotaþolann B hnefahögg. Þá hafi ákærði skorið brotaþolann A með hnífi í andlitið. Að auki hafi ákærði E slegið B með hamri í tvígang í höfuðið og A einu sinni þannig að höggið kom í handlegg brotaþolans. Ákærði E hefur viðurkennt að hafa skorið brotaþolana og að hafa slegið B einu sinni með krepptum hnefa. Vitnið EA hefur staðfest að ákærði F hafi skorið brotaþolana í andlitið og að hann hafi slegið B tvisvar sinnum með hamri. 

Ákærðu hafa viðurkennt að hafa verið undir miklum áhrifum vímuefna þennan dag. Þegar þau atvik málsins eru virt sem hér hefur verið gerð grein fyrir og sérstaklega er litið til myndbandsupptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi telur dómurinn vafalaust að ákærðu hafi beitt brotaþolann A ofbeldi. Verður við mat á því meðal annars að líta til þess hvernig atvik þróuðust þennan dag. Er upp var staðið hafði ákærði E skorið báða brotaþola með hnífi. Báða í andliti og annan í fót. Hefur framkoma ákærðu þennan dag verði einkar ofbeldisfull. Telur dómurinn vafalaust að ákærðu hafi með ofbeldi þvingað brotaþolann A og haft hana nauðuga með sér að dvalarstað EB. Þá telur dómurinn vafalaust að ákærðu hafi þvingað brotaþolann með sér að dvalarstað ákærða E í Kópavogi og þaðan aftur að [...]. Af títtnefndum myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfinu að [...] má ráða að þvingun ákærðu gagnvart A hefur staðið í meira en tvo tíma. Atlaga ákærða E gagnvart B stóð í hart nær hálfa klukkustund.

Við handtöku ákærða E fundust á heimili hans munir í eigu brotaþola. Var um að ræða tölu, síma, tölvuflakkara, seðlaveski og fatnað. Með vísan til framburða brotaþola og vitnisins EA verður slegið föstu að ákærðu hafi tekið umrædda muni ófrjálsri hendi.

Þegar þau atriði málsins eru virt sem hér greinir telur dómurinn sannað að ákærðu hafi svipt brotaþolana A og B frelsi sínu laugardaginn 15. ágúst 2015. Þá hafi ákærðu rænt brotaþolann A, er þeir yfirgáfu heimili brotaþolanna. Að því er varðar þá verknaðarlýsingu í ákæru að ákærði E hafi að [...] í Kópavogi slegið brotaþolann A í andlitið og síðan hrint henni niður tröppur í stigagangi hússins liggur ekki annað fyrir um þessar sakir en framburður brotaþolans A. Með hliðsjón af neitun ákærða verður ákærði E sýknaður af þessum þætti ákærunnar. Að öðru leyti verða ákærðu sakfelldir fyrir frelsissviptingu og rán.

Frelsissviptingin var gerð í þeim tilgangi að endurheimta lyf ákærða E. Er ósannað að ákærðu hafi svipt brotaþola frelsi sínu í þeim tilgangi að stela af þeim munum samkvæmt ákæru. Verður háttsemi ákærðu felld undir 1. mgr. 226. gr. laga nr. 19/1940. Að því gættu verða ákærðu sakfelldir samkvæmt 1. tl. ákæru og er háttsemi ákærðu að öðru leyti rétt heimfærð til refsiákvæða.

2. tl.

Ákærða E er í 2. tl. ákæru gefið að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás í tengslum við 1. tl. ákæru, með því  að hafa skorið brotaþolann B með hnífi í hægri fótlegg og að hafa slegið og sparkað í höfuð B. Þá er ákærða gefið að sök að hafa slegið B með hamri í höfuðið og A með hamrinum í vinstri handlegg. Loks er ákærða gefið að sök að hafa skorið brotaþola báða í vinstri kinn. Ákærði hefur, eins og áður greinir, viðurkennt að hafa skorið báða brotaþolana. Með hliðsjón af því er sú háttsemi ákærða sönnuð. Ákærði hefur jafnframt viðurkennt að hafa slegið brotaþolann B einu sinni í höfuðið. Með hliðsjón af því eru þær sakir ákærða sannaðar. Brotaþolarnir báðir, sem og EA, hafa borið að ákærði hafi slegið brotaþolana með hamri; B í tvígang í höfuð og A einu sinni í handlegg. Læknisvottorð renna stoðum undir þessa framburði, en B var með áverka aftanvert á höfði og A var með eymsli á handlegg. Þegar þetta er virt telur dómurinn þessara sakir jafnframt sannaðar. Einungis brotaþolinn A hefur borið að ákærði hafi sparkað í höfuð hans. Gegn neitun ákærða verður hann sýknaður af þessari háttsemi. Að skera brotaþola með hnífi í andlit og lemja brotaþola með hamri í höfuð er sérstaklega hættuleg líkamsárás. Verður ákærði, að þessu gættu, sakfelldur samkvæmt 2. tl. ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

3. tl.

Ákærði Sigurður Brynjar játar sök samkvæmt 3. tl. ákæru. Með hliðsjón af þeirri játningu hans, sem samrýmist gögnum málsins, er sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi samkvæmt þessum tölulið ákæru. Er háttsemi ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði E er fæddur í [...]. Hann á að baki sakaferil. Hefur hann átta sinnum gengist undir sáttir eða viðurlagaákvarðanir. Hann hefur í tvígang verið dæmdur. Var ákærði [...] 2015 dæmdur í 3ja mánaða fangelsi, þar af 2 mánuði skilorðsbundið, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, umferðarlögum og almennum hegningarlögum. Þá var ákærði með dómi héraðsdóms [...] 2015 dæmdur í 9 mánaða fangelsi skilorðsbundið til 2ja ára, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði E hefur með broti sínu rofið skilyrði refsidómsins frá 12. júní sl. Verður dómurinn nú tekinn upp og dæmdur með refsingu í þessu máli. Ákærði hefur áður sætt refsingu fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 218. gr. b laga nr. 19/1940. Refsing ákærða E er ákveðin fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 17. ágúst 2015 til dómsuppsögudags.

                Ákærði Sigurður Brynjar er fæddur í febrúar 1996. Hann á að baki sakaferil. Hefur hann í þrígang gengist undir sáttir. Hann var á árinu 2013 í tvígang dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Ákærði var með dómi héraðsdóms 20. júlí 2015 dæmdur í 14 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið til 3ja ára, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, umferðarlögum, vopnalögum og ákvæðum 2. mgr. 218. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði Sigurður hefur með brotum sínum rofið skilyrði refsidómsins frá 20. júlí sl. Verður dómurinn tekinn upp og dæmdur með. Ákærði er ungur að árum og verður til þess litið við ákvörðun refsingar. Til hins er þó að líta að ákærði hefur í fyrri dómi verið dæmdur fyrir brot gegn nauðungarákvæði 225. gr. laga nr. 19/1940. Er refsing ákærða Sigurðar ákveðin fangelsi í 2 ár.

                Brotaþolinn A krefst skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta. Er á því byggt að brotaþoli hafi orðið fyrir ólögmætri meingerð af hálfu ákærðu. Árásin hafi verið tilefnislaus, hættuleg og unnin í samverknaði. Þá hafi árásin verið sérstakleg ósvífin og til að niðurlægja brotaþola. Búi brotaþoli enn við sálrænar afleiðingar árásarinnar. Krafist sé miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna. Ákærðu hafa hér að framan verið sakfelldir fyrir frelsissviptingu og rán gagnvart brotaþola. Með ólögmætri háttsemi sinni bera ákærðu sameiginlega ábyrgð á því tjóni sem þeir hafa valdið brotaþola. Við aðalmeðferð málsins mátti enn sjá móta fyrir stórum skurði er brotaþoli var með í andliti eftir hnífslag ákærða E. Með hliðsjón af verknaðinum og þeim afleiðingum sem fyrir liggja verða ákærðu sameiginlega dæmdir til að greiða brotaþola 1.000.000 króna í miskabætur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.

Brotaþolinn B krefst skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Er á því byggt að brotaþoli hafi orðið fyrir ólögmætri meingerð af hálfu ákærðu. Árásin hafi verið tilefnislaus, hættuleg og unnin í samverknaði. Þá hafi árásin verið sérstakleg ósvífin og til að niðurlægja brotaþola. Búi brotaþoli enn við sálrænar afleiðingar árásarinnar. Krafist sé miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Ákærðu hafa hér að framan verið sakfelldir fyrir frelsissviptingu og rán gagnvart brotaþola. Þá hefur ákærði E verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart brotaþola. Með ólögmætri háttsemi sinni bera ákærðu sameiginlega ábyrgð á því tjóni sem þeir hafa valdið brotaþola. Við aðalmeðferð málsins mátti einnig enn sjá móta fyrir stórum skurði er brotaþoli var með í andliti og öðrum á fæti, eftir hnífslag ákærða E. Með hliðsjón af verknaðinum og þeim afleiðingum sem fyrir liggja verða ákærðu sameiginlega dæmdir til að greiða brotaþola 1.000.000 króna í miskabætur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.

Upptaka fer fram með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Ákærðu greiði sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um. Þá greiði ákærðu þóknun réttargæslumanna svo sem þar greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærði E sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 17. ágúst 2015 til dómsuppsögudags.

Ákærði Sigurður Brynjar Jensson sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærðu greiði sameiginlega brotaþolanum A 1.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. ágúst 2015 til 15. desember 2015, en vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu greiði sameiginlega brotaþolanum B 1.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. ágúst 2015 til 15. desember 2015, en vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1,45 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærðu greiði sameiginlega 38.111 krónur í sakarkostnað.

                Ákærði E greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.677.720 krónur. 

                Ákærði Sigurður Brynjar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns,  900.240 krónur.

Ákærðu greiði sameiginlega þóknun réttargæslumanna brotaþola, Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 531.960 krónur og Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 501.270 krónur.