Hæstiréttur íslands
Mál nr. 55/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Tilraun
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 18. júní 2009. |
|
Nr. 55/2009. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X(Brynjar Níelsson hrl. Eyvindur Sólnes hdl.) (Guðjón Ólafur Jónsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Tilraun. Börn. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar með því að hafa reynt að hafa samræði eða önnur kynferðismök við 16 ára stúlku sem var gestkomandi á heimili hans, en hann lagðist við hlið stúlkunnar þar sem hún lá sofandi í herbergi dóttur hans, reyndi að gyrða niður buxur stúlkunnar, og er hún vaknaði tók hann fyrir vit hennar og hótaði að meiða hana hefði hún ekki hljótt. Lét X ekki af háttsemi sinni fyrr en nafngreind kona kom inn í herbergið og réðst á hann. Var háttsemi X í ákæru talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 209. gr. laganna og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Frásögn stúlkunnar var talin trúverðug og að öllu leyti í samræmi við framburð vitna. Talið var að háttsemi X bæri þess skýr merki að fyrir honum hafi vakað að beita stúlkuna kynferðislegu ofbeldi. Yrði ekki við annað miðað en að tilviljun hafi ráðið því að honum hafi ekki tekist ætlunarverk sitt. Var talið sannað að fyrir X hafi vakað að þröngva stúlkunni til samræðis eða annarra kynferðismaka og var háttsemi hans því talin tilraun til nauðgunar sem félli undir 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar hans var m.a. litið til þess að aðfarir hans fólu í sér líkamlegt ofbeldi gagnvart brotaþola sem var yngri en 18 ára, sbr. 195. gr. sömu laga. Þá lá fyrir að stúlkan hafði átt erfitt uppdráttar eftir árásina. Á hinn bóginn var litið til þess að brotið var ekki fullframið, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna. Var refsing X ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þá þótti hann með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til stúlkunnar sem ákveðnar voru 600.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að krafan verði lækkuð.
Í hinum áfrýjaða dómi er meðal annars greint frá framburði D og sagt að hún hafi gefið skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi. Það, sem haft er eftir henni, kom fram í skýrslu fyrir lögreglu, en við aðalmeðferð málsins í héraði hafði hún forföll og kom því ekki fyrir dóm til vitnisburðar. Þá er þess jafnframt að gæta að í niðurstöðum héraðsdóms segir að sambúðarkona ákærða hafi borið að hann hafi verið búinn að losa belti á buxum A þegar hún hafi komið að þeim, en fyrir dómi greindi sambúðarkonan frá þessu á þann veg að ákærði hafi verið að „baksast eitthvað við beltið hennar.“ Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, refsingu hans og sakarkostnað.
Að virtum atvikum málsins og þeim afleiðingum, sem brot ákærða hefur haft á hagi A, eru miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 600.000 krónur, sem beri vexti eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, X, greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. apríl 2008 til 18. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 463.361 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. janúar 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. desember sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 23. október 2008 gegn X, kt. [...],[...], „fyrir tilraun til nauðgunar, með því að hafa að morgni sunnudagsins 13. apríl 2008, reynt að hafa samræði eða önnur kynferðismök við stúlkuna A, þá 16 ára, sem var gestkomandi á heimili hans að Y, en ákærði lagðist við hlið stúlkunnar þar sem hún lá sofandi í herbergi dóttur hans, reyndi að gyrða niður buxur stúlkunnar, og er hún vaknaði tók hann fyrir vit hennar og hótað að meiða hana hefði hún ekki hljótt. Lét ákærði ekki af háttsemi sinni fyrr en nafngreind kona kom inn í herbergið og réðst á hann.
Háttsemi ákærða telst varða við 1. og 2. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en til vara við 209. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. september 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr., sbr. 6. gr. laganna.“
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara vægustu refsingar og sýknu af bótakröfu. Málsvarnarlauna er krafist.
I.
Sunnudaginn 13. apríl 2008 kl. 08:16 var lögreglunni á [...] tilkynnt um að maður hefði áreitt stúlku að Y. Lögreglan fór á vettvang og segir í frumskýrslu lögreglunnar að húsráðandi, B, hafi tekið á móti lögreglunni og hafi hún verið í uppnámi. Hún hafi sagt lögreglunni að hún vildi að sambýlismaður hennar, ákærði, færi út úr húsinu. Við nánari athugun hafi komið í ljós að þrjár stúlkur, C, dóttir ákærða og B, D og E höfðu vaknað upp við að vinkona þeirra, A, var að kalla á hjálp vegna þess að ákærði var að áreita hana. Lögreglan kannaði aðstæður á vettvangi og hafði tal af þeim vitnum sem þar voru stödd. Segir í frumskýrslu lögreglu að húsið Y sé tveggja hæða hús. Á efri hæðinni séu fjögur svefnherbergi og eitt baðherbergi. Þegar gengið sé upp stigann á efri hæðina sé svefnherbergi C til hægri og þar hafi stelpurnar fjórar sofið. Við hliðina á því herbergi sé svefnherbergi B og ákærða. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi ákærði setið niðri í stofu.
Á vettvangi var haft eftir B að hún hafi vaknað kl. 8:10 þennan morgun og þá veitt því athygli að ákærði hafi ekki verið við hliðina á henni í rúminu. Í þann mund hafi hún heyrt grátur og farið því fram úr og séð að rifa var á hurðinni á herbergi stelpnanna. Þá hafi hún heyrt ákærða segja: „Uss uss, á ég að meiða þig?“ Hún hafi farið inn í herbergið og séð ákærða liggja á gólfinu við hlið A. Hafi hann verið með lófann fyrir munni hennar og nefi. Þá kvaðst B hafa séð að hann var búinn að losa belti hennar en A hafi haldið í buxur sínar. B kvaðst hafa ráðist á ákærða og tekist að losa A frá honum og síðan hringt í lögreglu.
Á vettvangi sagði A að hún hafi vaknað við það er ákærði var að reyna að klæða hana úr buxunum. Hún hafi margbeðið hann að hætta þessu en þá hafi hann sýnt meiri hörku og sagt henni að hafa hljótt. Hún hafi orðið hrædd og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Henni hafi dottið í hug að hringja í F, vin sinn, og beðið hann um að koma strax og hjálpa sér. Lögreglan kannaði þetta símtal og reyndist það hafa staðið yfir í 9 sekúndur. Þegar hún hafi farið að gráta hafi ákærði haldið fyrir munn hennar og nef þannig að hún hafi ekki náð andanum í langan tíma að henni fannst. Henni hafi fundist eins og hún væri að kafna en þá hafi B komið inn í herbergið og ráðist á ákærða.
Haft er eftir C á vettvangi að hún hafi verið milli svefns og vöku en heyrt einhvern kalla á hjálp og einhvern gráta. Hún hafi þó ekki áttað sig á því hvað var að gerast þar sem hún hafi verið hálfsofandi. Hún hafi vaknað þegar mamma hennar hafi komið inn og séð að pabbi hennar lá hægra megin við A eða nokkurn veginn ofan á henni. Hún kvaðst hafa séð hann halda fyrir munn hennar og nef og heyrt hann segja: „Á ég að meiða þig?“
Framburður D á vettvangi var þannig að hún hafi verið sofandi í rúminu alveg upp við vegginn. Hún hafi heyrt einhvern gráta og einhvern segja „Uss uss, á ég að meiða þig?“ Hún hafi sest upp og í þann mund hafi B komið inn í herbergið.
E kvaðst hafa verið sofandi og heyrt einhvern gráta og kalla á hjálp. Hún hafi heyrt einhvern segja: „þegiðu, þegiðu, á ég að meiða þig?“ Hún hafi séð B koma inn og séð að ákærði lá á gólfinu við hlið A.
Í frumskýrslu lögreglunnar er haft eftir F að hann hafi ekið ákærða og systur hans til Reykjavíkur um kl. 5 um morguninn og hann og ákærði komið til baka um tveimur tímum síðar. Ákærði hafi farið út úr bifreiðinni rétt fyrir kl. 8:00 og kvatt hann. Stuttu eftir að F hafi verið farinn hafi A hringt í hann og sagt honum að koma strax og sagt: „Hjálp, hjálp.“
Þá segir í þessari skýrslu lögreglunnar að ákærði hafi verið ölvaður og í annarlegu ástandi. Ekki hafi verið unnt að ræða við hann á vettvangi og hafi hann verið fluttur á lögreglustöðina.
Lögreglan tók skýrslu af ákærða að kveldi þessa dags. Hann sagðist hafa farið með F til Reykjavíkur og þegar hann hafi komið til baka hafi hann farið inn og lagst við hlið A. Hann hafi haldið í fyrstu að hann væri við hlið konu sinnar. Hann hafi káfað á henni og hún látið vel af því til að byrja með en síðan ekki viljað meir. Þá hafi konan hans komið og barið hann í hausinn. Hann kveðst ekki muna eftir að hafa haldið um munn A eða hótað henni. Honum var þá kynntur framburður vitna um að hann hafi sagt A að þegja ellegar hann myndi meiða hana. Ákærði svaraði því til að þetta hljóti að vera sannleikanum samkvæmt þótt hann muni ekki eftir því. Ákærði sagðist hafa byrjað að drekka strax eftir að hann kom úr vinnu um kl. 16:00 daginn áður. Hann hafi farið ásamt konu sinni í matarboð og þar hafi drykkjan haldið áfram. Um morguninn hafi hann verið búinn að drekka tæpan kassa af bjór og eina flösku af sterku áfengi. Sagðist hann hafa verið orðinn mjög drukkinn.
Lögregluskýrsla var tekin aftur af ákærða 10. júlí 2008. Hann kvað fjölskylduna hafa flutt til [...] fyrir tveimur árum og hafi dóttir hans C verið vinkona A. Hann kveðst hafa litið á A sem barn og hafi hann umgengist hana þannig. Hann kvað rangt eftir sér haft í fyrri yfirheyrslu hjá lögreglu. Hið rétta sé að hann muni ekkert eftir þessum atburði en hins vegar hafi hann gefið þann framburð að hann hlyti að hafa gert þetta fyrst eiginkona hans segði að svo væri.
Þriðja skýrslutaka af ákærða hjá lögreglu fór fram 18. ágúst 2008. Hann kvaðst hafa verið útúrdrukkinn þennan morgun og muni hann ekkert eftir atvikum. Eina minningin sem hann hafi sé þegar eiginkona hans hafi lamið hann í höfuðið með bók. Hann hafi legið smástund á gólfinu á meðan hann hafi verið að átta sig á því hvað væri að gerast en síðan farið út úr herberginu. Næsta sem hann muni sé þegar hann vaknaði í fangaklefa á lögreglustöðinni. Hann hafi þá ekki vitað hvers vegna hann hafi verið í fangaklefa og haldið að hann hafi lent í einhverjum áflogum.
Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann myndi ekkert frá atburðum þennan morgun. Hann kveðst hafa rankað við sér við högg í höfuðið og muni lítillega eftir sér í stofunni eftir atvikið. Síðan muni hann ekki eftir sér fyrr en í fangaklefa lögreglunnar. Hann kveðst ekkert geta tjáð sig um þær sakir sem á hann eru bornar. Hann kveðst hafa farið á geðdeild eftir þetta atvik og dvalið þar í um tíu daga. Eftir það hafi hann ekki drukkið áfengi. Hann kvaðst hafa tekið upp sambúð aftur við B en þau eigi þrjú börn saman.
B, sambýliskona ákærða, skýrði svo frá hjá lögreglu að um kvöldið fyrir þennan atburð hafi hún og ákærði farið út að skemmta sér. Þau hafi byrjað í matarboði í [...] og farið þaðan á skemmtistað í [...]. Ákærði hafi horfið án þess að hún hafi orðið þess vör. Hún sagði að ákærði hafi verið orðinn mjög ölvaður um kvöldið. Um kl. 3:00 um nóttina hafi F og A, sem hafi verið að rúnta, komið og sótt hana og ekið henni heim. Þegar hún hafi komið heim hafi ákærði verið þar ásamt systur sinni og eiginmanni hennar. Telpurnar C, E og D hafi verið í heita pottinum en yngri börnin verið sofandi. A og F hafi komið með henni inn. Gestirnir hafi kvartað yfir því að ekkert áfengi væri til og hafi hún ákveðið að fara til [...] og sækja bjór sem hún hafi átt þar. F hafi skutlað henni og hafi hún komið til baka eftir um það bil klukkutíma. Þegar hún hafi komið til baka hafi A setið í eldhúsinu hjá fullorðna fólkinu í náttslopp ákærða. Síðar hafi verið ákveðið að F keyrði systur ákærða og eiginmann hennar heim til sín en þau búi í Reykjavík. Ákærði hafi ákveðið að fara með F í þá ferð. B sagði að hún hafi spjallað í nokkurn tíma við stúlkurnar en síðan hafi hún sagt þeim að fara að sofa. Hún kvaðst hafa búið um A á dýnu í herbergi C en hinar stelpurnar þrjár sofið í rúminu. Síðan hafi hún farið að sofa. Hún kvaðst hafa vaknað við eitthvað skrýtið hljóð eins og tíst og litið á klukkuna og séð að hún var 08:10. Hún kvaðst hafa heyrt hljóðið aftur og fannst nú líkjast snökti í manneskju. Hún kvaðst hafa hugsað með sér að þetta gæti verið G, níu ára stúlka sem einnig var gestur umrædda nótt, og hafi hún ætlað að fara og hugga hana. Þegar hún hafi komið fram á gang hafi hún séð að rifa var á hurðinni á herbergi C. Hún hafi opnað hurðina og séð A liggja á bakinu og ákærða liggja á hægri hlið við hlið hennar. Ákærði hafi haldið með hægri handleggnum utan um höfuð A og haldið fyrir vit hennar með hendinni. Hann hafi verið að baksa eitthvað við beltið á buxum hennar með hinni hendinni. Áður en hún hafi opnað hurðina hafi hún heyrt hann segja: „Á ég að meiða þig?“ eða „Viltu að ég meiði þig?“ Hún kvaðst hafa brjálast og ráðist á ákærða. Þetta hafi allt gerst mjög hratt. Ákærði hafi litið á hana með furðusvip eins og hann væri hneykslaður. Hann hafi sagt: „Hvað gerði ég þér og hvað erum við að gera hér?“ C og A hafi hlaupið yfir í herbergi þeirra hjóna en hinar stelpurnar hafi ekki vaknað fyrr en hún hafi ráðist á ákærða. B kvað A hafa verið klædda í gallabuxur og bol.
Fyrir dómi skýrði A á sama veg frá og hjá lögreglu. Hún sagðist aldrei hafa séð ákærða jafn drukkinn og þennan morgun. Þegar hún hafi ráðist á hann hafi hann virst eins og hann væri í öðrum heimi. Hann hafi ekki verið búinn að hneppa frá buxum A. Þau hafi tekið upp sambúð að nýju eftir að hann hafi leitað sér aðstoðar og hætt að drekka.
D sagði hjá lögreglu og fyrir dómi að hún hafi sofið í rúminu upp við vegginn, E í miðjunni og C við brúnina. Á gólfinu við hlið C hafi A sofið á dýnu. Hún kvaðst hafa heyrt milli svefns og vöku einhvern vera að tala og ennfremur einhvern gráta. Síðan hafi hún vaknað þegar B hafi komið inn. D kvað A hafa grátið mikið eftir þennan atburð. Hún hafi sagt að ákærði hafi haldið fast um munn hennar og nef og hún átt erfitt með öndun. Hann hafi einnig verið að reyna að hneppa frá buxum hennar.
C skýrði svo frá hjá lögreglu að hún hafi vaknað við það að heyra A gráta og þá opnað augun. Hafi hún þá séð pabba sinn liggja við hliðina á A og hafi hann haldið fyrir vit hennar. Hafi hann sagt henni að hætta að gráta, annars myndi hann meiða hana. Í þann mund hafi mamma hennar komið inn í herbergið og ráðist á ákærða. Hún kvaðst hafa öskrað á hann, hvernig hann gæti gert bestu vinkonu sinni þetta. Hann hafi svarað: „Hef ég einhvern tímann gert eitthvað við ykkur krakkana?“ Síðan hafi hann öskrað eitthvað á mömmu hennar en síðan tekið um höfuðið sér og farið að gráta og sagt: „Hvað var ég að spá?“ C sagði hjá lögreglu að hún hafi séð pabba sinn losa beltið af A, hneppa frá buxunum og renna niður buxnaklaufinni. Fyrir dómi kvaðst C ekki muna hvað hún hafi sagt hjá lögreglu. Hún neitaði hins vegar að hafa sagt að ákærði hafi verið búinn að losa beltið á buxum A.
E skýrði svo frá hjá lögreglu að hún hafi vaknað við að A kallaði á hjálp. Hún kvaðst hafa haldið að A væri að tala upp úr svefni og því lokað augunum og ætlað að reyna að sofna aftur en í þann mund hafi B komið inn. Fyrir dómi kvaðst E ekki muna mikið eftir þessu núna en mundi að A hafði kallað á hjálp.
F gaf skýrslu hjá lögreglunni. Hann staðfesti að hann hafi ekið systur ákærða og eiginmanni hennar heim til sín í Reykjavík. Ákærði hafi verið með í för en sofið í aftursætinu á leið til Reykjavíkur en í framsætinu á heimleið. F staðfesti að A hafi hringt í hann og kallað á hjálp. A kom ekki fyrir dóm þar sem hann var á sjó og ekki í símsambandi þegar aðalmeðferð fór fram.
A gaf skýrslu í Barnahúsi 26. maí 2008. Kvaðst hún hafa vaknað við að ákærði var að reyna að klæða hana úr buxunum. Hafi hann verið búinn að losa beltið á buxunum en ekki verið búinn að hneppa frá tölu í buxnastrengnum. Þannig hafi hann verið að reyna að toga niður buxurnar er hún vaknaði. Hún kvaðst hafa reynt að ýta honum frá sér og beðið hann að hætta. Hann hafi þá haldið henni fastri en henni einhvern veginn tekist að hringja í F vin sinn og beðið hann um að koma. Hún hafi reynt að kalla en þá hafi hann haldið fyrir munn hennar með þeim hætti að hann hafi sett höndina undir höfuð hennar, sem hvílt hafi á innanverðum upphandlegg hans, og þannig haldið með lófa fyrir munn hennar og nef svo henni hafi legið við köfnun. Hann hafi sagt eitthvað í þá veru að hann myndi meiða hana hefði hún ekki hljótt. Þá hafi B komið inn og öskrað á hann og lamið. Fyrst hafi hann brugðist við eins og hann gerði sér ekki almennilega grein fyrir að hann væri að gera eitthvað rangt. Eftir að B hafi hringt á lögregluna hafi hann sagt: „Ég hélt þetta væri þú.“ Og eftir að lögreglan var komin hafi hann sagt við B: „Finnst þér þetta skrýtið, þú ert svo kynköld.“ A sagði ennfremur að ákærði hafi fyrir þennan atburð einu sinni sent henni sms-skilaboð og spurt: „Ertu sofandi, viltu hitta mig, ég sakna þín svo mikið.“ Þá hafi hann verið á [...] og sagt að konan hans hefði hent honum út. Einu sinni er hann hafi verið drukkinn hafi hann reynt að kyssa hana og sagt við hana hvort henni líkaði þetta.
Ákærði hefur neitað ásökunum A um að hann hafi sent henni sms-skilaboð eða reynt að kyssa hana. Hann kveðst alltaf hafa litið á hana sem barn.
A skýrði svo frá við aðalmeðferð málsins að ákærði hafi verið að reyna að klæða hana úr buxunum þegar hún vaknaði. Hann hafi verið búinn að losa beltið og hafi verið að reyna að toga buxurnar niður. Hann hafi ekki hneppt tölunni frá í buxnastrengnum og ekki verið búinn að renna niður rennilásnum á buxunum. Hún kvað fyrstu viðbrögð sín hafa verið að hringja í F og segja honum að koma og hjálpa sér. Ákærði hafi sett höndina undir höfuð hennar sem hafi hvílt á innanverðum upphandlegg og síðan sett lófa sinn yfir munn hennar og nef. Þannig hafi hann haldið henni fastri og reynt að ýta buxunum niður. Hann hafi sagt: „Á ég að meiða þig?“
Í skýrslu Margrétar K. Magnúsdóttur, sálfræðings, kemur m.a. fram að A hafi mætt í átta viðtöl hjá sálfræðingnum. Hún glími við fjölmörg vandamál sem oft megi sjá hjá þolendum kynferðisofbeldis. Megi þar nefna depurð og þunglyndi, kvíða, tilfinningaleg vandkvæði, félagsleg vandamál, einbeitingarerfiðleika, svefnerfiðleika og brotna sjálfsmynd. A hafi lýst vanlíðan sinni og samræmist sú lýsing niðurstöðum spurningalista sem hún og móðir hennar hafi svarað. A tengi vandamál sín og vanlíðan við meint kynferðisbrot sem hún segist oft hugsa um en reyni þó að forðast. Hún reyni að ýta þessari hugsun frá sér og hugsa um eitthvað annað en það takist ekki. Þetta hafi valdið henni miklum svefnerfiðleikum. Hún tengi meint brot gegn henni, þar sem haldið hafi verið fyrir vit hennar og hún ekki náð andanum, því að hún eigi erfitt með að sofa. Hún hafi einangrað sig frá vinum og kunningjum og sé á varðbergi af ótta við að rekast á ákærða. Hún sé einnig full af skömm og sektarkennd og finnist óþægilegt að fólk viti hvað komið hafi fyrir hana. Þess vegna hafi hún ákveðið að flytjast úr sínum heimabæ og út á land og fara í skóla þar. Í niðurstöðu sálfræðingsins segir að meint kynferðisbrot hafi valdið A miklum skaða og skert lífsgæði hennar. Hið meinta brot hafi haft áhrif á viðhorf hennar og lífssýn. A sé ennþá í viðtölum hjá sálfræðingnum og verði það áfram.
II.
A hefur fyrir dómi lýst hvernig hún vaknaði við að ákærði var að reyna að klæða hana úr gallabuxum, en hún hafi lagst til svefns í gallabuxum og bol á dýnu á gólfinu í herbergi þar sem þrjár aðrar stúlkur, vinkonur hennar, sváfu í rúmi við hliðina. Hún hafi beðið hann um að hætta og hringt í vin sinn og beðið hann að koma. Ákærði hafi tekið um vit hennar og henni legið við köfnun en á sama tíma hafi hann reynt að færa hana úr buxunum en það ekki tekist. Hann hafi hótað að meiða hana hefði hún ekki hljótt. Þá hafi sambýliskona ákærða komið inn og hrakið ákærða á brott.
A hefur verið trúverðug í frásögn sinni af atburðinum. Lýsing hennar á atburðarásinni hefur að öllu leyti verið í samræmi við frásögn vitna þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir dómi. Þannig hefur sambýliskona ákærða lýst því að hún hafi vaknað umræddan morgun við tíst eða grát og farið fram til að gæta að hvað um væri að vera. Hún hafi séð rifu á hurðinni á herbergi því þar sem stúlkurnar sváfu og heyrt einhvern segja: „Uss, uss, á ég að meiða þig?“ Hún hafi séð ákærða liggja á gólfinu við hlið A og halda utan um hana með lófa fyrir munn hennar og nef. Hann hafi verið búinn að losa beltið á buxum hennar en A haldið í buxurnar. Þessi háttsemi ákærða ber skýr merki um að fyrir honum hafi vakað að beita A kynferðislegu ofbeldi. Verður ekki við annað miðað en að tilviljun hafi ráðið því að ákærða tókst ekki ætlunarverk sitt. Verður því talið sannað að fyrir ákærða hafi vakað að þröngva A til samræðis eða annarra kynferðismaka en hann hafi horfið frá þeim áformum sínum vegna utanaðkomandi truflana. Háttsemi ákærða í greint sinn var því tilraun til nauðgunar, sem fellur undir 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Ákærði er fæddur 1972. Samkvæmt sakavottorði hlaut ákærði dóm 1989 fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Árið 1990 hlaut ákærði tvo dóma, skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 155. og 244. gr. almennra hegningarlaga og seinna á sama ári tólf mánaða fangelsi fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga en þá var fyrri dómur dæmdur upp. Árið 1991 hlaut ákærði fangelsi í tvo mánuði fyrir brot gegn 155. og 244. gr. almennra hegningarlaga. Árið 1993 hlaut ákærði fangelsi í tvö ár í Hæstarétti fyrir brot gegn 155., 248. og 252. gr. almennra hegningarlaga. Árið 2001 hlaut ákærði fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að aðfarir ákærða fólu í sér líkamlegt ofbeldi gagnvart brotaþola sem er yngri en 18 ára, sbr. 195. gr. almennra hegningarlaga. Þá liggur fyrir að brotaþoli hefur átt erfitt uppdráttar eftir árásina. Á hinn boginn verður einnig að líta til þess við ákvörðun refsingar að brotið var ekki fullframið, sbr. 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Þegar þetta allt er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Af hálfu móður brotaþola er sett fram skaðabótakrafa að fjárhæð 1.000.000 króna og er hún reist á 26. gr. laga nr. 50/1993. Skilyrði eru til að dæma ákærða til að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skaðabótalaga og þykja þær hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Bera þær vexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 32/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. apríl 2008 til 18. september 2008 en ákærða var kynnt bótakrafan 18. ágúst 2008. Frá 18. september 2008 til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laganna.
Samkvæmt yfirliti saksóknara er sakarkostnaður í málinu 45.300 krónur. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ásbjörns Jónssonar hdl., ákveðast 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Laun réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi, Ástu Ólafsdóttur hrl., ákveðast 84.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og laun réttargæslumanns fyrir dómi, Daða Ólafssonar hdl., ákveðast 130.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Sakarkostnaður er því samtals 859.300 krónur og samkvæmt framangreindum málalokum verður ákærði samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála dæmdur til að greiða þann kostnað.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Gunnar Aðalsteinsson, Finnbogi H. Alexandersson og Sandra Baldvinsdóttir.
Dómsorð
Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði A 400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. apríl 2008 til 18. september 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað að fjárhæð 859.300 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hdl., 600.000 krónur, og þóknun til réttargæslumanna brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hrl., 84.000 krónur, og Daða Ólafssonar hdl., 130.000 krónur.