Hæstiréttur íslands

Mál nr. 305/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Dómari
  • Hæfi
  • Málskostnaður


                                     

Mánudaginn 13. maí 2013

Nr. 305/2013.

K

(Hilmar Baldursson hdl.)

gegn

M

(Björn Jóhannesson hrl.)

Kærumál. Börn. Dómarar. Hæfi. Málskostnaður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K um að héraðsdómari viki sæti í máli M á hendur K um forsjá barns aðila. Ekki var fallist á með K að héraðsdómari væri vanhæfur til að leysa úr málinu þótt viðkomandi dómari hefði áður kveðið upp úrskurð um bráðabirgðaforsjá barnsins. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2013 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara, Ragnheiði Bragadóttur, gert að víkja sæti í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Samkvæmt ákvæðum gjafsóknarleyfis sem innanríkisráðuneytið veitti varnaraðila 5. nóvember 2012, er gjafsóknin takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Gjafsóknarleyfið tekur því ekki til kostnaðar af meðferð kærumáls þessa fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað eins og í dómsorði greinir, sem ákvarðaður er með hliðsjón af því að kæra sóknaraðila er að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2013.

Stefnandi, M, [...], höfðað mál þetta með stefnu birtri 5. október 2012 á hendur K, [...]. Hann krefst þess að honum verði dæmd forsjá barns málsaðila, A, til 18 ára aldurs hans. Þá krefst hann þess að stefnda verði dæmd til að greiða einfalt meðlag með drengnum frá 1. febrúar 2013 til 18 ára aldurs hans. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Við þingfestingu málsins 17. október 2012 krafðist stefnandi þess að honum yrði falin forsjá drengsins til bráðabirgða og að stefndu yrði á sama tíma gert að greiða einfalt meðlag með honum frá 1. febrúar 2013 að telja.

Er málið var tekið fyrst fyrir hjá dómara 28. nóvember 2012 skoraði lögmaður stefnanda á lögmann stefndu að afla gagna um málefni stefndu og barns málsaðila, A. Voru gögn þessi lögð fram í næsta þinghald 11. desember 2012 ásamt greinargerð í forsjármálinu og sérstakri greinargerð vegna kröfu um bráðabirgðaforsjá. Í síðargreindu greinargerðinni var þess krafist að kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá og meðlag yrði hafnað. Að ósk lögmanna var málinu frestað til 19. desember 2012 og lagði lögmaður stefnanda þá fram frekari gögn. Jafnframt skoraði hann á lögmann stefnda að afla gagna frá skóla drengsins um líðan hans, ástundun, námsárangur og umhirðu, auk gagna um það hvort lögregla hefði haft afskipti af stefndu á árinu. Var málinu frestað í þessu skyni til 11. janúar 2013. Þann dag lagði lögmaður stefnanda fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns og þá lagði lögmaður stefnda fram umbeðnar upplýsingar frá lögreglu. Málinu var því næst frestað til 24. janúar 2013 til dómkvaðningar matsmanns og til munnlegs málflutnings um kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá, en upplýst var um að þá yrði stefnandi kominn til landsins frá námi í [...] og gæti því gefið skýrslu í málinu og fylgt máli sínu eftir. Hinn 24. janúar 2013 lagði lögmaður stefndu fram frekari gögn, m.a. umbeðin gögn frá skóla drengsins. Þá var matsmaður dómkvaddur í málinu og að svo búnu fóru fram skýrslutökur og munnlegur málflutningur um kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá.

Að ósk lögmanns stefnanda var málið endurupptekið 27. febrúar 2013 til framlagningar frekari gagna er vörðuðu kröfu um bráðabirgðaforsjá og til að leggja fram beiðni um farbann. Var þá upplýst að drengurinn hefði flutt til stefnanda í byrjun mánaðarins með samþykki stefndu. Af hálfu stefndu var fallist á kröfu stefnanda um farbann og kvað dómari í kjölfarið upp úrskurð um að stefndu væri óheimilt að fara með barnið úr landi. Þá skoraði lögmaður stefnanda á lögmann stefnda að leggja fram gögn frá barnaverndarnefnd [...] og lögreglu um afskipti þeirra af heimili stefndu. Var málinu frestað í því skyni til 4. mars 2013. Þann dag voru umbeðin gögn lögð fram og málið flutt að nýju um bráðabirgðaforsjárkröfuna að teknu tilliti til hinna nýju gagna. Í lok mars sl. tilkynnti lögmaður stefnanda dómara að matgerð í málinu lægi fyrir og að ósk lögmannsins var málið endurupptekið að nýju 8. apríl sl. til framlagningar hennar. Var matsgerðin þá lögð fram og málið flutt að nýju um kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá að teknu tilliti til framlagðrar matsgerðar. Boðað var til uppkvaðningar úrskurðar 11. apríl og jafnframt var ákveðið að aðalmeðferð í málinu skyldi fram 24. apríl nk. Úrskurður var kveðinn upp 18. apríl sl. og var krafa stefnanda um bráðabirgðaforsjá drengins tekin til greina og jafnframt var stefndu gert að greiða meðlag með barninu frá 1. febrúar sl.

Í kjölfari uppkvaðningar úrskurðarins um bráðabirgðaforsjá krafðist lögmaður stefndu þess í sama þinghaldi að dómari viki í sæti málinu.

Af hálfu stefnanda var kröfu stefndu mótmælt og þess krafist að henni yrði hafnað.

Lögmaður stefndu kvaðst byggja kröfu sína á því að með úrskurði um bráðabirgðaforsjá hefði dómari þegar gert upp hug sinn í málinu og gæti því ekki litið óhlutdrægt á málið við frekari meðferð þess. Vísaði lögmaðurinn sérstaklega til þess að öll gögn málsins, þ. á m. matsgerð hins dómkvadda matsmanns, hefðu legið fyrir þegar úrskurðurinn var kveðinn upp. Þá stæði til að aðalmeðferð færi fram innan skamms eða miðvikudaginn 24. apríl nk. og hefði dómari tilkynnt lögmönnum að ekki stæði til að kveðja sérfróða meðdómendur til setu í dómi í málinu.

Lögmaður stefnanda benti á að samkvæmt ákvæðum barnalaga væri íhlutunarréttur dómara við meðferð forsjármála ríkur og þá væri ljóst að töf yrði á meðferð málsins ef fallist yrði á kröfu stefndu um að dómari víki sæti.

Er lögmenn höfðu reifað sjónarmið sín var málið tekið til úrskurðar.

Niðurstaða:

Í 1. mgr. 35. gr. barnalag nr. 76/2003 segir að í máli um forsjá eða lögheimili barns hafi dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli um forsjá þess eða lögheimili eftir því sem barni er fyrir bestu. Í sama úrskurði geti dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Í 6. mgr. 35. gr. sömu laga segir að úrskurður samkvæmt 1. mgr. bindi ekki hendur dómara þegar ákveða skuli forsjá, lögheimili, umgengni eða meðlag samkvæmt 34. gr. Þá segir í 7. mgr. 35. gr. dómari verði ekki vanhæfur til að leysa úr máli samkvæmt 34. gr. af þeirri ástæðu einni að hann hefði kveðið upp úrskurð samkvæmt 1. mgr.

Með vísan til framangreinds er ekki fallist á með stefndu að með því að kveða upp úrskurð um kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá hafi dómari orðið vanhæfur til að leysa úr máli málsaðila um forsjá barnsins. Þykir engu skipta í því sambandi þótt matsgerð hins dómkvadda matsmanns hafi þá þegar legið fyrir. Þá er ljóst að samkvæmt 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 76/2003, er það lagt í mat dómara hverju sinni hvort hann telur þörf á sérkunnáttu í dómi til að leysa úr staðreyndum sem bornar eru fram sem málsástæður og er honum þá heimilt að kveðja til sérfróða meðdómendur til setu í dómi. Er ekki fallist á með stefndu að tilkynning dómara um að hann ætli ekki að kveðja til sérfróða meðdómendur til setu í dómi málinu sé til þess fallin að draga megi í efa hæfi hans til að fara með málið. Þá er ekkert annað komið fram í málinu, sem þykir gefa tilefni til þess, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalag nr. 76/2003.

Samkvæmt ofangreindu er kröfu stefndu um að dómari víki í málinu hafnað.

Úrskurðinn kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefndu um að dómari víki sæti í málinu er hafnað.