Hæstiréttur íslands
Mál nr. 23/2014
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Ökuréttarsvipting
- Ítrekun
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 27. mars 2014. |
|
Nr. 23/2014.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Gestheiði Fjólu Jóhannesdóttur (Guðrún Björg Birgisdóttir hrl.) |
Ölvunarakstur. Ökuréttarsvipting. Ítrekun. Hegningarauki.
G var sakfelld fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og svipt ökurétti. Jafnframt var G sakfelld fyrir rangar sakargiftir með því að hafa gefið lögreglu upp nafn og kennitölu annarrar konur og leitast þannig við að hún yrði sökuð um verknaðinn. Í ljósi sakaferils G var refsing hennar ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Þá var hún svipt ökurétti ævilangt.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2013 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að ákærðu verði gerð refsing og hún dæmd til frekari ökuréttarsviptingar.
Ákærða krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að refsing verði milduð.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða sakfelld fyrir að hafa 13. júní 2012 ekið bifreið undir áhrifum áfengis og svipt ökurétti og jafnframt fyrir rangar sakargiftir með því að skýra lögreglu rangt frá nafni sínu og kennitölu, gefa upp nafn annarrar konu og rita nafn hennar undir upplýsingablað fyrir handtekna menn og þannig leitast við að koma því til leiðar að konan yrði sökuð um refsiverðan verknað.
Samkvæmt sakavottorði á ákærða að baki nokkurn sakaferil allt frá árinu 1995, bæði fyrir brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og umferðarlögum nr. 50/1987. Fyrir brot gegn almennum hegningarlögum var hún 7. júlí 1995 dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna hótunarbrots. Hún var næst dæmd 29. apríl 2009 í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Þá var hún 29. október 2010 dæmd í 90 daga fangelsi fyrir þjófnað og gripdeild og var skilorðsdómurinn frá 29. apríl 2009 tekinn upp og dæmdur með því máli. Að lokum hlaut ákærða 60 daga fangelsisdóm 22. febrúar 2013 fyrir gripdeild. Vegna umferðarlagabrota gekkst ákærða 22. maí 2006 undir 140.000 króna sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði frá 22. maí 2006 samkvæmt sektargerð lögreglustjóra fyrir ölvunarakstur. Þá gekkst hún 13. nóvember sama ár undir greiðslu 60.000 króna sektar með sektargerð lögreglustjóra vegna aksturs svipt ökurétti. Með dómi 20. júní 2011 var henni gert að greiða 290.000 króna sekt fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og hún svipt ökurétti í fjögur ár frá 11. júlí 2011. Þá var hún 16. ágúst 2012 dæmd til greiðslu 300.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í tvö ár frá 26. nóvember 2012 fyrir sams konar brot og akstur svipt ökurétti.
Eins og rakið hefur verið var ákærða dæmd til 60 daga fangelsisvistar með dómi 22. febrúar 2013 fyrir gripdeild, en brot þau, sem ákærða er sakfelld fyrir í máli þessu, voru framin fyrir uppsögu þess dóms og því hegningarauki við hann og dóminn frá 16. ágúst 2012. Ákærða var sem fyrr segir sakfelld árið 2006 fyrir ölvunarakstursbrot og 2011 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var hún árið 2012 aftur sakfelld fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Ölvunarakstursbrot það, sem ákærða er sakfelld fyrir í máli þessu, er því ítrekað öðru sinni og þá hefur ákærða tvívegis áður sætt refsingu fyrir að aka svipt ökurétti. Enn fremur er ákærða hér sakfelld fyrir rangar sakargiftir samkvæmt 148. gr. almennra hegningarlaga. Að framangreindu virtu, sakaferli ákærðu og með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í tvo mánuði.
Samkvæmt 3. mgr., sbr. 1. mgr. 101. gr. og upphafsákvæði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga verður ákærða svipt ökurétti ævilangt frá 26. nóvember 2012.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Með þessari dómsniðurstöðu eru leiðrétt mistök við ákvörðun refsingar og ökuréttarsviptingar og er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, Gestheiður Fjóla Jóhannesdóttir, sæti fangelsi í tvo mánuði.
Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá 26. nóvember 2012 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins, 264.332 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2013.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 10. september 2013, á hendur:
,,Gestheiði Fjólu Jóhannesdóttur, kennitala [...],
[...],
fyrir eftirfarandi brot framin miðvikudaginn 13. júní 2012:
- Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...], svipt ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,86 ) um Faxafen í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn í fyrrnefndri götu.
Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
- Rangar sakargiftir, með því að hafa er lögregla hafði afskipti af akstri ákærðu í framangreint skipti, skýrt lögreglu rangt frá nafni sínu og kennitölu er ákærða gaf upp nafn og kennitölu A, kt. [...], og ritað nafn hennar undir upplýsingablað fyrir handtekna menn og þannig leitast við að koma því til leiðar að A yrði sökuð um refsiverðan verknað.
Telst þetta varða við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“
Ákærða heldur ekki uppi vörnum en krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.
Sannað er með skýlausri játningu ákærðu fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hún hafi gerst sek brot þau sem hún er ákærð fyrir og eru brot hennar rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærða hlaut hinn 22. febrúar 2013, 60 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir gripdeild. Nú ber að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga og er refsingin einnig ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. sömu laga. Ákærða hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar. Að þessu virtu þykir eftir atvikum rétt að gera ákærðu ekki sérstaka refsingu í máli þessu.
Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru skal ákærða svipt ökurétti í 3 mánuði frá 10. júlí 2015 að telja en þá rennur út áður afmarkaður sviptingartími ökuréttar.
Ákærða greiði 20.822 krónur í sakakostnað.
Katrín Ólöf Einarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærðu, Gestheiði Fjólu Jóhannesdóttur, er ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.
Ákærða skal svipt ökurétti í 3 mánuði frá 10. júlí 2015 að telja.
Ákærða greiði 20.822 krónur í sakakostnað.