Hæstiréttur íslands
Mál nr. 388/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Akstur sviptur ökurétti
- Akstur undir áhrifum lyfja
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 15. febrúar 2007. |
|
Nr. 388/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Gísla Þór Gíslasyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Bifreiðir. Akstur án ökuréttar. Akstur undir áhrifum lyfja. Skilorð.
G var sakfelldur fyrir að hafa ekið tvívegis sviptur ökurétti. Hins vegar þótti ekki sannað að hann hefði í annað skiptið einnig verið ófær um að stjórna bifreið örugglega vegna neyslu lyfja. Í dómi Hæstaréttar var sakarferill G rakinn og þótti refsing hans með hliðsjón af dómvenju hæfileg fangelsi í tvo mánuði. Í ljósi góðrar umsagnar frá Fangelsismálastofnun og vinnuveitanda G þótt mega fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og sviptingu ökuréttar, en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, til vara að sér verði ekki gerð refsing og til þrautavara að refsing verði milduð og bundin skilorði.
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa ekið sviptur ökurétti 21. ágúst 2005, og að hafa aðfaranótt 22. ágúst 2005 ekið sviptur ökurétti og ófær um að stjórna bifreið örugglega vegna neyslu deyfandi lyfja.
Þegar ákærði var stöðvaður 22. ágúst sagði hann í fyrstu ranglega til nafns og gaf síðan þá skýringu, að hann hefði gert það vegna þess að hann væri sviptur ökurétti. Lögregla hafði, samkvæmt tímasetningu í lögregluskýrslu, samband við ákærða vegna fyrra tilviksins eftir þetta. Atbeina hennar þurfti því ekki til að ákærða yrði ljóst að hann hefði verið sviptur ökurétti. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sakfelling vegna beggja brota ákærða gegn 1. mgr. 48. gr. umferðalaga nr. 50/1987.
Lögreglumennirnir sem stöðvuðu ákærða 22. ágúst lýsa ökumanni í frumskýrslu og því að þeim hafi virst að hann væri ekki í neinu ástandi til þess að aka, en strax kom í ljós að hann var ekki undir áhrifum áfengis. Blóð- og þvagsýni voru tekin hjá ákærða til rannsóknar og læknir kallaður til þess að meta ástand hans. Niðurstaða læknisins var að hann hefði ekki verið fær um að „stjórna ökutæki örugglega“. Upplýst er að um einum og hálfum mánuði áður hafði ákærði fengið alvarlega heilablæðingu. Læknirinn bar fyrir dómi að hann hefði skráð upplýsingar þar um eftir ákærða, en að þær hefðu ekki haft áhrif á matið enda engin gögn fyrirliggjandi. Blóð- og þvagsýnin voru rannsökuð á Lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands af tveimur sérfræðingum. Mældust þrjú lyf í blóði ákærða, kódeín, að lágum styrkleika, klónazepam og klórprótixen, bæði að styrkleika eins og eftir „lækningalega skammta“. Niðurstaða rannsóknarinnar var að ákærði hefði verið undir vægum slævandi áhrifum af völdum tveggja fyrrnefndu lyfjanna og kunni það að hafa dregið úr aksturshæfni hans. Þessa niðurstöðu staðfestu sérfræðingarnir fyrir dómi. Í ákæru er ekki vísað til þess að veikindi ákærða hafi dregið úr aksturshæfni hans. Þegar allt framangreint er virt, og þá einkum niðurstaða blóðrannsóknar, verður ekki fullyrt að ákærði hafi vegna áhrifa af lyfjum verið ófær um að aka bifreið örugglega í umrætt sinn. Verður hann því með vísan til 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sýknaður af þessu ákæruatriði.
Ákærði hlaut fyrst refsingu 24. febrúar 1997 en þá var hann ekki orðinn 18 ára. Hann hefur síðan þrisvar verið sakfelldur fyrir hegningarlagabrot, einu sinni fyrir fíkniefnabrot, fjórum sinnum fyrir ölvunarakstur, þar af tvisvar jafnframt fyrir akstur sviptur ökurétti, og tvisvar fyrir minni umferðarlagabrot. Með dómi 16. nóvember 2004 var hann sviptur ökurétti ævilangt. Að því er sérstaklega varðar sakfellingar fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga vegna sviptingaraksturs þá hlaut hann dóm 9. október 2002, gekkst undir lögreglustjórasátt 31. mars 2004, hlaut dóm 16. nóvember sama ár og loks dóm 25. janúar 2005, en refsing samkvæmt síðastgreindum dómi var ákveðin sem hegningarauki við dóminn frá 16. nóvember 2004. Ákærði er nú sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti í tvö skipti og þykir refsing hans með hliðsjón af dómvenju hæfileg fangelsi í tvo mánuði.
Lögð hafa verið fyrir Hæstarétt gögn frá Fangelsismálastofnun ríkisins þar sem fram kemur að ákærða hafi samkvæmt undanþáguákvæði 2. mgr. 29. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga verið heimiluð samfélagsþjónusta í stað afplánunar. Er sérstaklega tiltekið að ákvörðun um þetta hafi verið tekin „með hliðsjón af persónulegum aðstæðum hans og vilja hans til að taka á sínum málum.“ Fær hann góða umsögn bæði frá Fangelsismálastofnun og vinnuveitanda. Í ljósi þessa þykir mega fresta fullnustu refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, ákvarðast að meðtöldum virðisaukaskatti 186.750 krónur. Rannsóknarkostnaður og kostnaður vegna áfrýjunar málsins og málsvarnarlaun skipaðs verjanda fyrir Hæstarétti að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Gísli Þór Gíslason, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. Annar sakarkostnaður, samtals 388.724 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí sl., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans í Kópavogi. Sú fyrri er dagsett 18. nóvember 2005 og er gegn ákærða Gísla Þór Gíslasyni, kt. 111279-3739, Jötunsölum 2, Kópavogi, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 21. ágúst 2005, ekið bifreiðinni AX-022, sviptur ökurétti, um bifreiðastæði við Smáralind í Kópavogi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57,1997.
Seinni ákæran er dagsett 20. janúar 2006 og er höfðuð gegn ákærða „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 22. ágúst 2005, ekið bifreiðinni AX-022, um bifreiðastæði við veitingastaðinn Klúbbinn, Höfðabakka, Reykjavík, ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu deyfandi lyfja og sviptur ökurétti.
Háttsemi ákærða telst varða við 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 82,1998, og nr. 57,1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 44,1993, 23,1998 og 84,2004.“
Af hálfu ákærða er krafist sýknu og til vara vægustu refsingar. Sakarkostnaði er mótmælt sérstaklega. Krafist er málsvarnarlauna.
I.
Þann 21. ágúst 2005 kl. 11:31 tilkynnti öryggisvörður við verslunarmiðstöðina Smáralind til lögreglunnar í Kópavogi að maður hefði ekið utan í kerrugrind á bifreiðastæði. Öryggisvörðurinn sagði að maðurinn hefði sýnt sér persónuskilríki og hafi hann skrifað niður nafn hans og kennitölu ásamt símanúmeri.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 6. október 2005 og viðurkenndi að hafa ekið utan í kerrusafnkassa á bifreiðastæði við Smáralind. Hafi hann sjálfur látið öryggisvörð vita af óhappinu. Þá sagði ákærði hjá lögreglu að hann hafi haldið að hann væri með ökuréttindi í lagi á þessum tíma en hann sé nokkuð gleyminn vegna þess að hann hafi fengið heilablóðfall 3. júlí 2005.
Fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa ekið bifreiðinni AX-022 umrætt sinn en sagði jafnframt að hann hefði ekki vitað að hann hefði verið sviptur ökuleyfi á þessum tíma. Ástæðan væri fyrrnefnt heilablóðfall.
II.
Þann 22. ágúst 2005 kl. 00:05 voru tveir lögreglumenn staddir í lögreglubifreið við Stórhöfða í Reykjavík. Voru þeir í almennu umferðareftirliti og óku lögreglubifreiðinni inn á bifreiðastæði veitingastaðarins Klúbbsins. Sáu þeir þá hvar bifreiðinni AX-022 var ekið á móti þeim. Akstur bifreiðarinnar var stöðvaður og haft tal af ökumanni. Í frumskýrslu lögreglunnar segir að ökumaður hafi sagt að hann væri að koma úr Klúbbnum og hafi verið að spila þar í spilakössum. Lögreglumönnunum virtist ákærði ölvaður og blés hann í blöðru. Niðurstaða blöðruprófsins gaf til kynna að ökumaður hefði ekki drukkið neitt áfengi um kvöldið. Í skýrslu lögreglunnar segir að hann hafi þó verið mjög þvoglumæltur og drafandi í tali ásamt því að vera illa einbeittur og því hafi lögreglan furðað sig nokkuð á þessari niðurstöðu þar sem þeim hafi þótt ákærði ekki vera í neinu ástandi til að aka bifreiðinni. Ákærði var þá spurður um lyfjanotkun og kvaðst hann hafa tekið eina Truxal og eina Riotril fyrr um daginn en það væru lyf sem læknir hafi ávísað honum vegna heilablóðfalls sem hann hefði fengið í júlí 2005. Sagði ákærði að heilablóðfallið væri ástæðan fyrir því að hann væri þvoglumæltur og virtist drukkinn. Ákærði sagði við lögreglu að hann héti A og gaf upp kennitöluna [...] en hann hafði ekki nein skilríki því til staðfestingar. Á leiðinni á lögreglustöð sagði ákærði að hann hefði sagt rangt til nafns og gaf upp rétt nafn sitt. Ástæðan væri sú að hann væri sviptur ökuréttindum og mætti því ekki aka bifreið.
Þvagprufa var tekin af ákærða kl. 00:33 og kl. 00:45 kom B læknir og tók ákærða blóð og framkvæmdi því næst ökuhæfnismat á ákærða. Að þessu loknu var ákærða ekið heim til sín.
Í hæfnisprófi B læknis segir meðal annars að ákærði hafi verið sljór, rauðleitur í framan, augu hafi verið fljótandi og rauðsprengd. Hann hafi verið svipbrigðalítill, ljósop eðlileg, aðeins óöruggur við að ganga beina línu. Viðbrögð við ljósi eðlileg, óöruggur við Rombergspróf og léttur skjálfti. Málfar hafi verið þvoglumælt. Niðurstaða læknisins var sú að ákærði væri áberandi undir áhrifum og væri ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega. Aðalástæðan væri sú hversu einbeiting hans væri áfátt og hversu sljór hann hafi verið.
B kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína. Hún lýsti prófinu, hvernig það hefði farið fram og sagði að um væri að ræða klíniska skoðun. Ákærði hafi verið látinn taka taugapróf, jafnvægispróf og minnispróf. Hún kvaðst hafa vitað að ákærði hafi fengið heilablóðfall en mat hennar á ökuhæfni ákærða hafi verið hlutlægt burt séð frá heilsufari að öðru leyti eða hvort ákærði hafi verið á lyfjum er prófið fór fram.
Í matsgerð Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands, sem gerð er af C dósent og D lækni, segir meðal annars: „Alkóhól (etanól) var ekki mælanlegt í blóði. Í þvagi fundust ópíöt. Ekki fundust amfetamín, zópíklón (Imovance®), kókaín eða tetrahýdrókannabínólsýra (umbrotasefni tetrahýdrókannabínóls sem er hið virka efni í kannabis) í þvagi. Í blóði mældist klónazepam (Rivotril®) 34 ng/ml, kódein 25 ng(ml og klórpróxiten (Truxal®) 30 ng/ml.
Klónazepam er flogaveikislyf en er einnig notað við kvíða í lágum skömmum. Það er af flokki benzódíazepína og getur dregið úr aksturshæfni í lækningalegum skömmtum. Kódein er verkjalyf af flokki ópíata. Það hefur slævandi áhrif á miðtaugakerfi og getur dregið úr óróleika af ýmsum toga. Það hefur slævandi verkun á miðtaugakerfi en ekki liggja fyrir rannsóknir um áhrif þess á aksturshæfni.
Styrkur klónazepams er eins og eftir lækningalega skammta. Styrkur kódeíns er fremur lágur. Styrkur klórprótixens er eins og búast má við eftir lækningalega skammta.
Hlutaðeigandi hefur verið undir vægum áhrifum klónazepams og kódeins og kann það að hafa dregið úr aksturhæfni hans.“
C og D komu bæði fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína. Þau sögðu að hugsanlegt væri að ofangreind lyf hefðu meiri áhrif en 0,5 promill af alkóhóli en ekki væri unnt að fullyrða það.
Ákærði sagði hjá lögreglu að hann myndi eftir umræddu atviki. Hann hefði verið að koma frá Klúbbnum þegar lögreglan hafi haft afskipti af honum. Hann hafi ekki neytt áfengis fyrir aksturinn en verið búinn að taka deyfandi lyf. Hafi hann verið búinn að taka Rivotril og Truxal og hafi hann gert það samkvæmt læknisráði eftir heilablóðfall 3. júlí 2005. Þá kvaðst hann hafa verið þvoglumæltur eftir heilablóðfallið og þess vegna hafi lögreglan haldið að hann væri undir áhrifum lyfja. Hann kvaðst þó ekki hafa fundið til áhrifa lyfja við aksturinn. Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglunni í fyrstu að hann héti A og hafi hann gert það vegna þess að hann hafi verið sviptur ökuréttindum ævilangt.
Fyrir dómi sagði ákærði að heilablóðfallið 3. júlí 2005 hafi haft þau áhrif á hann að hann ætti það til að gleyma. Hann hafi því ekki munað að hann hafi verið sviptur ökuleyfi í umrætt sinn. Hann sagði fyrir dómi að hann myndi ekki eftir skýrslutöku hjá lögreglunni og mundi ekki eftir hvort hann hafi tekið einhver lyf umræddan dag.
E læknir annaðist ákærða eftir veikindi hans. Hún kom fyrir dóm og sagði að ákærði hafi náð sér nokkuð vel eftir heilablóðfallið fyrir utan að minnið væri slakt. Sagði læknirinn að það væri þekkt að sjúklingar gleymdu einstaka atburðum, bæði fyrir og eftir heilablóðfall, og gæti þetta minnisleysi náð 2-3 ár aftur í tímann. Sérstaklega væri minnið skert varðandi atburði sem gerðust stuttu eftir heilablóðfallið. Þannig væri algengt að sjúklingar myndu ekki eftir sjúkrahúsdvöl í kjölfar heilablóðfalls.
Lögreglumennirnir F og G höfðu afskipti af ákærða við Klúbbinn í umrætt sinn. Þeir sögðu að ákærði hafi verið óskýr í tali og þvöglumæltur og þeir því haldið að hann væri undir áhrifum áfengis. Hafi hann þá verði látinn blása í blöðru en ekkert komið fram um að ákærði væri ölvaður. Þeir hafi orðið hissa á því vegna þess að þeim hafi þótt ákærði alls ekki í ástandi til þess að aka bifreið. Þess vegna hafi hann verið færður á lögreglustöðina og rannsókn beinst að lyfjanotkun ákærða.
III.
Ákærði kannast við að hafa verið á bifreiðinni AX-022 þann 21. ágúst 2005 á bifreiðastæði við Smáralind í Kópavogi. Hann segist hins vegar ekki hafa munað að hann hafi verið sviptur ökuleyfi á þeim tíma vegna heilablóðfalls sem hann hafi fengið 3. júlí 2005. Veikindunum hafi fylgt tapað minni með þeim afleiðingum að hann muni ekki sérstaklega suma hluti eins og til dæmis það að hann hafi verið sviptur ökuleyfi ævilangt 16. nóvember 2004.
Talið verður að sú skylda hafi hvílt á ákærða að athuga ökuréttindi sín eftir að hann veiktist 3. júlí 2005 og ganga úr skugga um að hann væri löglegur í umferðinni. Brot ákærða samkvæmt ákæru 18. nóvember 2005 telst því sannað.
Ákærði neitar einnig sök varðandi seinni ákæru frá 20. janúar 2006. Hann kveðst ekki hafa verið ófær um að stjórna bifreið umrætt sinn og kveðst ekki hafa vitað að hann hafi verið sviptur ökuleyfi þann 22. ágúst 2005 vegna heilablóðfallsins 3. júlí 2005. Um þessar varnir vísast til þess sem áður sagði um skyldu ákærða til þess að athuga ökuréttindi sín eftir svo alvarleg veikindi.
Varðandi þær sakargiftir að ákærði hafi verið ófær um að stjórna ökutæki vegna neyslu deyfandi lyfja verður að leggja læknisfræðileg gögn til grundvallar svo og vitnisburð lögreglumannanna tveggja sem höfðu afskipti af ákærða 22. ágúst 2005.
Í prófi því sem B læknir lagði fyrir ákærða 22. ágúst 2005 kemur fram mat læknisins að ástand ákærða hafi verið þannig að hann hafi verið ófær um að stjórna bifreið í umrætt sinn. Læknirinn kom fyrir dóm og staðfesti þessa niðurstöðu sína og gat þess jafnframt að hún hefði lagt hlutlægt mat á ástand ákærða eins og það kom henni fyrir umrædda nótt, án tillits til veikinda hans eða lyfjanotkunar.
Læknarnir C og D komu einnig fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína frá 27. október 2005. Staðfestu þau þá niðurstöðu matsgerðarinnar að ákærði hefði verið undir vægum slævandi áhrifum tveggja lyfjategunda sem kunni að hafa dregið úr aksturshæfni hans.
Þá ber einnig að líta til vitnaframburðar lögreglumannanna tveggja sem höfðu afskipti af ákærða. Þeir sögðu að þeim hafi virst ákærði alls ófær um að stjórna bifreið og þess vegna hafi þeir stöðvað för hans þó ljóst væri að hann hefði ekki neytt áfengis.
Þegar framangreind gögn eru virt í heild þykir fram komin sönnun fyrir því að ákærði hafi ekki verið fær um að stjórna bifreið vegna lyfjanotkunar og veikinda sinna og þannig gerst brotlegur við 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Brot ákærða eru að öðru leyti rétt færð til refsiákvæða í ákærum.
Sakaferill ákærða er þannig að hann hefur tólf sinnum áður hlotið refsingu, aðallega fyrir umferðarlagabrot en einnig fyrir brot á hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hér skipta einkum máli dómar frá árinu 2001, en þann 21. desember 2001 var ákærði sviptur ökuleyfi vegna ölvunaraksturs. Þann 9. október 2002 var ákærði aftur sviptur ökuleyfi vegna ölvunaraksturs og þá gerðist hann einnig brotlegur við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þann 31. mars 2004 undirgekkst ákærði sátt fyrir sviptingarakstur og aftur 16. nóvember 2004 en þá hlaut ákærði 45 daga fangelsi fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Við refsiákvörðun verður litið til þess að ákærði er nú í fjórða sinn að gerast sekur um brot á 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga með því að aka sviptur ökuleyfi í tvígang. Með hliðsjón af því og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi. Ævilöng ökuleyfissvipting hans frá 16. nóvember 2004 er áréttuð.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, sem er samkvæmt yfirliti saksóknara 188.111 krónur svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns 60.000 krónur.
Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Gísli Þór Gíslason, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar að fjárhæð 188.111 krónur, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl. 60.000 krónur.