Hæstiréttur íslands

Mál nr. 229/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfulýsing
  • Slit
  • Skuldajöfnuður
  • Aðfarargerð
  • Veðréttindi
  • Fjármálafyrirtæki


                                              

Þriðjudaginn 7. maí 2013.

Nr. 229/2013:

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

ALMC hf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kærumál. Kröfulýsing. Slit. Skuldajöfnuður. Aðfarargerð. Veðréttindi. Fjármálafyrirtæki.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumanns um að stöðva aðfarargerð sem L hf. krafðist að næði fram að ganga hjá A hf. Hæstiréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að tilteknar kröfur A hf. á hendur L hf. yrðu ekki notaðar til skuldajafnaðar þar sem þær höfðu verið veðsettar og A hf. gefið yfirlýsingu um að þeim yrði ekki ráðstafað án samþykkis veðhafa. Veðsetningu var síðar aflétt og lýsti A hf. þá að nýju yfir skuldajöfnuði. Var því fallist á með A hf. að krafa L hf. væri niður fallin að hluta vegna skuldajafnaðar, enda stóð 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. því ekki í vegi. Aftur á móti var ekki talið að unnt væri að skuldajafna kröfum A hf. á hendur aflandsfélögum tengdum L hf. gegn kröfum L hf. á hendur A hf. Var ákvörðun sýslumanns felld úr gildi og lagt fyrir hann að framkvæma aðfarargerðina í samræmi við kröfu L hf. að frádregnum þeim hluta kröfunnar sem var niður fallin vegna skuldajafnaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur  14. mars 2013, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 1. desember 2011 um að stöðva aðfarargerð, sem sóknaraðili krafðist að næði fram að ganga hjá varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að halda gerðinni áfram í samræmi við aðfararbeiðni. Til vara krefst sóknaraðili þess að lagt verði fyrir sýslumann að framkvæma aðfarargerðina fyrir lægri fjárhæð en krafist er í aðfararbeiðni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að fjárkrafa sóknaraðila, sem beiðst er að fullnægt verði með aðför, verði lækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var heiti sóknaraðila breytt úr Landsbanka Íslands hf. í LBI hf. en hann sætir slitameðferð samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Varnaraðili sætti einnig slíkri meðferð en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2010 var staðfestur nauðasamningur hans við kröfuhafa. Með vísan til samningsins og á grundvelli 3. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, krafðist sóknaraðili aðfarar fyrir 179.296.784 evrum með því móti „að sýslumaður gefi út, fyrir hönd gerðarþola, afsal fyrir 597.656 heimildarskírteinum, hvert fyrir einu hlutabréfi að nafnverði 0,01 EUR í gerðarþola og skuldabréfi að nafnvirði 297 EUR útgefið af gerðarþola, auk þess sem gefin verði út framsalstilkynning til vörsluaðila heimildarskírteinanna, enda verði gerðarþoli ekki við áskorun sýslumanns um útgáfu skjalanna.“ Varnaraðili mótmælti aðför þar sem hann taldi sig hafa efnt skuldbindinguna með skuldajöfnuði samkvæmt yfirlýsingu 1. júlí 2011. Á grundvelli þeirra andmæla ákvað sýslumaður í fyrirtöku 1. desember 2011 að stöðva gerðina. Í málinu er sú ákvörðun sýslumanns til úrlausnar.

Varnaraðili reisir rétt sinn til skuldajafnaðar annars vegar á þremur skuldabréfum á hendur sóknaraðila, samtals að fjárhæð 22.574.629.373 krónur, eða 133.396.143 evrur miðað við gengi 22. apríl 2009, en hins vegar á kröfum á hendur svonefndum aflandsfélögum sóknaraðila, samtals að fjárhæð 15.476.681.871 króna, eða 91.453.535 evrur miðað við sama dag. Ekki er deilt um fjárhæð þessara krafna varnaraðila, en sóknaraðili hafnar því á hinn bóginn að skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi.

Málatilbúnaði aðila er nánar lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir var með dómi Hæstaréttar 23. maí 2011 í máli nr. 77/2011 leyst úr ýmsum ágreiningi málsaðila um viðurkenningu lýstra krafna sóknaraðila við slit varnaraðila. Var kröfunum skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt því var hafnað kröfu varnaraðila um skuldajöfnuð krafna eftir þeim þremur skuldabréfum sem að framan greinir samkvæmt þremur yfirlýsingum á árinu 2009. Var sú niðurstaða reist á því að bréfin væru háð veðrétti Seðlabanka Íslands og varnaraðili hefði af þeim sökum ekki ráðstöfunarrétt yfir þeim samkvæmt yfirlýsingu gefinni í tengslum við veðsamninginn í samræmi við 11. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Í yfirlýsingunni kom fram að varnaraðila væri óheimilt að ráðstafa hinu veðsetta með hvaða hætti sem væri, hefði hann ekki áður fengið til þess skriflegt samþykki Seðlabankans. Þessari veðsetningu hafði verið aflétt þegar varnaraðili lýsti öðru sinni yfir skuldajöfnuði 1. júlí 2011 og stóð hún því skuldajöfnuði ekki lengur í vegi. Jafnframt er fallist á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 enda hafði varnaraðili eignast kröfu samkvæmt skuldabréfunum meira en þremur mánuðum fyrir frestdag. Skiptir þá ekki máli í því tilliti veðsetning kröfunnar. Þá verður með vísan til forsendna fallist á með héraðsdómi að skilyrði skuldajafnaðar gagnvart sóknaraðila vegna krafna varnaraðila á hendur svokölluðum aflandsfélögum hafi ekki verið fyrir hendi.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 verður lagt fyrir sýslumann að framkvæma aðför vegna kröfu sóknaraðila að því marki sem hún var ekki niður fallin fyrir skuldajöfnuð.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að stöðva aðfarargerð hjá varnaraðila, ALMC hf., er felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að framkvæma gerðina í samræmi við kröfu sóknaraðila, LBI hf., að frádregnum 133.396.143 evrum miðað við gengi 22. apríl 2009.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. febrúar 2013, barst dóminum með kæru móttekinni 22. desember 2011.

Endanlegar dómkröfur sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., eru að ákvörðun sýslu­mannsins í Reykjavík um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2011-06431 og synja fram­gangi hennar, verði hrundið og lagt fyrir hann að framkvæma gerðina í samræmi við aðfararbeiðnina.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Endanlegar dómkröfur varnaraðila, ALMC hf., eru aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að krafa sóknaraðila, sem beðið er um að fullnægt verði með aðfarargerð, verði lækkuð. 

Jafnframt krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.

I

Hinn 7. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar samkvæmt grein 100 a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að taka yfir stjórnun sóknaraðila, Lands­banka Íslands hf., með skipun skilanefndar. Nokkru síðar var sóknaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Meðan á greiðslustöðvuninni stóð var lögum nr. 161/2002 breytt með lögum nr. 44/2009. Breytingarnar fólust einkum í ákvæðum um svonefnda slitameðferð fjár­málafyrirtækja. Í ákvæði til bráðabirgða II, 2. tölulið laga nr. 44/2009 var kveðið á um að við greiðslustöðvun fjármálafyrirtækis, er naut heimildar til greiðslustöðvunar fyrir laga­setninguna, skyldi beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a lag­anna, sbr. 1. efnismgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 8. gr. breytingarlaganna, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi er lögin tóku gildi, sem var 22. apríl 2009. Slitameðferðin skyldi þó allt að einu kennd við greiðslu­stöðvun svo lengi sem sú heimild stæði. Þessi ákvæði áttu öll við sóknaraðila, er sætir slitameðferð samkvæmt þeim.

Héraðsdómur skipaði Straumi – Burðarási fjárfestingabanka hf. (Straumi) slita­stjórn 11. maí 2009 samkvæmt ákvæðum 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráða­birgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna 12. maí 2009 og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaði, 18. sama mánaðar. Kröfulýsingafrestur var ákveðinn tveir mánuðir. Með kröfulýsingu 17. júlí 2009 lýsti sóknaraðili kröfu í sex liðum í bú varnaraðila, sem nú heitir ALMC hf.

Varnaraðili lýsti með kröfulýsingu dags. 27. október 2009 kröfu að fjárhæð samtals 25.484.5959.072 kr. í bú sóknaraðila. 

Í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, segir að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dóms­úrskurður um að það sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga. Með vísan til ákvæða þessarar lagagreinar gáfu slitastjórnir beggja málsaðila út innköllun vegna slitanna, sem birtust í Lögbirtingablaðinu í maí mánuði 2009.

Ágreiningur reis um hluta krafna sóknaraðila. Í bréfi slitastjórnar varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur segir m.a. svo: „Ágreiningurinn er margþættur. Meðal þess sem deilt er um er hvort innlán kröfuhafans hjá Straumi njóti forgangs skv. 112. gr. gjaldþrotalaga, en slitastjórn hefur hafnað því. Þá er deilt um vaxtaútreikning inn­lánskrafna. Uppgjör afleiðusamninga er umdeilt. Kröfuhafinn hefur ennfremur mótmælt yfirlýsingum Straums um skuldajöfnun í nokkrum tilvikum. Kröfulýsing Landsbanka Íslands hf. er í 6 töluliðum og lýtur ágreiningurinn að töluliðum 1, 2 og 5 auk þess sem deilt er um fjárhæðir gagnkrafna Straums. Kröfuhafinn afturkallaði kröfulið 4 og féllst á afstöðu slitastjórnar til kröfuliðar 6 um samþykki skilyrtrar kröfu að fjárhæð 9.081.000 evrur.“ Kröfur samkvæmt 3. lið voru samþykktar eins og þeim var lýst.

Ákveðið var að sakarefninu yrði skipt og mál um forgang krafna sóknaraðila rekið í sér máli. Forgangi krafna var hafnað af Hæstarétti í máli nr. 184/2010 en leyst var úr ágreiningi um fjárhæð krafna í máli nr. 77/2011.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 77/2011, sem upp var kveðinn 23. maí 2011, fékk sóknaraðili dómsúrlausn um allar lýstar kröfur sínar á hendur varnaraðila.

   Með tilvitnuðum dómi Hæstaréttar voru tilteknar kröfur sóknaraðila sem lýst hafði verið við slitameðferð varnaraðila viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Nánar tiltekið var um að ræða 40.509.962.122 krónur, 45.081.123,29 bresk pund, 21.100.240 Kanadadali og 45.226.444,44 Bandaríkjadali, ásamt dráttarvöxtum. Viðurkenndur var réttur varnar­aðila til að skuldajafna 1.039.062.038 krónum og 1.000.000 evra, eða 168.760.000 kr., á móti kröfum sóknaraðila og miðaðist sá skuldajöfnuður við 18. september 2009.

Varnaraðili krafðist í sama máli viðurkenningar á rétti til skuldajöfnuðar á móti kröfum sóknaraðila vegna þriggja skuldabréfa sem voru í eigu varnaraðila og útgefin af sóknaraðila. Bréfin eru auðkennd sem LAIS 06 3 að nafnvirði 5.600.000.000 króna, LAIS 06 4 að nafnvirði 8.950.000.000 króna og LAIS 10 0503 að nafnvirði 5.000.000.000 króna, samtals að nafnvirði 19.550.000.000 króna.

Var þess krafist að skuldajöfnun færi fram miðað við 27. janúar 2009, 9. febrúar 2009 og 18. september 2009 en yfirlýsingum um skuldajöfnuð hafði verið beint til sóknaraðila á umræddum dagsetningum. Þessum kröfum varnaraðila var hafnað með dómi Hæstaréttar með vísan til þess að umrædd skuldabréf hafi verið handveðsett Seðlabanka Íslands þegar skuldajöfnun var lýst yfir og ekki hafi legið fyrir skriflegt samþykki Seðlabankans fyrir ráðstöfun skuldabréfanna með skuldajöfnuði, svo sem áskilið var í veðskjölum.

Áður en dómur var kveðinn upp hóf varnaraðili nauðasamningsumleitanir við kröfuhafa sína. Slitastjórn varnaraðila ákvað að leggja fyrir kröfuhafa varnaraðila frumvarp að nauðasamningi sem dagsett er 22. júní 2010 og var frumvarpið auglýst í Lögbirtingarblaðinu 28. sama mánaðar. Nauðasamnings frumvarpið var samþykkt af kröfu­höfum og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2010 var nauða­samn­ingur varnaraðila staðfestur.

Nauðsamningur varnaraðila kvað á um að allt hlutafé hans væri fært niður og nýtt hlutafé gefið út sem yrði afhent kröfuhöfum, ásamt því að varnaraðili gæfi út skuldabréf til kröfuhafa. Kröfuhöfum yrði svo afhent heimildarskírteini fyrir þeim. Með afhendingu á heimildarskírteinum og greiðslu lágmarksgreiðslu, 8.000 EUR, hefði varnaraðili uppfyllt nauðasamning sinn gangvart kröfuhöfum.

Eins og áður greinir átti að gefa út heimildarskírteini. Í upplýsingariti slita­stjórnar varnaraðila, nefnt information memorandum, kemur fram að varnaraðili skuli gefa út skuldabréf og hlutabréf til að fullnægja öllum samningskröfum þar á meðal umdeildum kröfum sem slitastjórn varnaraðila hafði vísað til dóms. Jafnframt kemur þar fram að varnaraðili sé skráður rétthafi heimildarskírteina sem gefin voru út til að fullnusta ágreiningskröfur.

Í kjölfar dómsins áttu málsaðilar í samskiptum um uppgjör krafna sóknaraðila samkvæmt ákvæðum nauðasamningsins. Greindi aðila einkum á um meðferð áður­greindra þriggja skuldabréfa í eigu varnaraðila. Varnaraðili byggði á að með því að veðhafi, Seðlabanki Íslands, hefði aflétt veðböndunum og afhent sóknaraðila umrædd skuldabréf á árinu 2010 væri varnaraðila heimilt að neyta skuldabréfanna til skulda­jafnaðar á móti kröfum sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl., sbr. 6. gr. laga nr. 161/2002. Af hálfu sóknaraðila var því hins vegar haldið fram að með dómi Hæstaréttar hefði verið tekin endanleg afstaða til þess hvort varnaraðila væri heimilt að nota skuldabréfin til skuldajöfnunar. Tilraunir málsaðila til að ná niðurstöðu um þetta efni með samningum reyndust árangurslausar.

Með bréfi dags. 9. júní 2011 hafnaði sóknaraðili kröfum varnaraðila um skulda­jöfnun og krafðist uppgjörs samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 77/2011. Skömmu síðar, eða 30. júní 2011, krafðist sóknaraðili þess að sýslumaður gerði aðför hjá varnar­aðila til fullnustu krafna sóknaraðila að fjáhæð 179.296.784 EUR samkvæmt nauða­samningi varnaraðila. Þá var gerð krafa um að sýslumaður gæfi út heimildarskírteini.

Með bréfi dags. 1. júlí 2011 hafnaði varnaraðili kröfum sóknaraðila um uppgjör og lýsti yfir skuldajöfnuði á móti kröfum sóknaraðila með kröfum samkvæmt áður­greindum þremur skuldabréfum, sem voru í eigu varnaraðila og útgefin af sóknaraðila, og eru auðkennd sem LAIS 06 3, LAIS 06 4, og LAIS 10 0503, samtals að nafnvirði 19.550.000 kr.

Jafnframt vísaði varnaraðili til bréfs yfirlögfræðings varnaraðila, dags. 26. maí 2010, minnisblaðs lögmanns varnaraðila, dags. 20. desember 2010, og bréfs varnaraðila til sóknaraðila, dags. 23. mars 2011, þar sem vikið var að mögulegum kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila vegna lánsviðskipta og starfsemi nokkurra af­landsfélaga, nánar tiltekið Kargile Portfolio Inc., Kimball Associated Inc., LB Holding Ltd., Marcus Capital Ltd., Peko Invest Company Ltd. og Proteus Global Holding S.A.

Með bréfi, dags. 27. júlí 2011, krafðist varnaraðili þess að sýslumaður hafnaði fram kominni aðfararbeiðni sóknaraðila. Byggðust mótmæli varnaraðila á því að hann hefði lýst yfir skuldajöfnun 1. júlí 2011. Aðilar komust að samkomulagi um máls­meðferð 11. nóvember 2011 þar sem því var m.a. lýst yfir að aðilar vildu freista þess að ljúka öllum ágreiningi um efni og uppgjör þar tilgreindra krafna með málsmeðferð hjá sýslumanni og í framhaldi af því fyrir dómstólum. Við fyrirtöku málsins 1. desember 2011 stöðvaði sýslumaður aðfarargerðina og ákvað sóknaraðili að krefjast úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns.

Ágreiningur aðila snýst eingöngu um hvaða rétt varnaraðili á til skuldajöfnunar gegn óumdeildum kröfum sóknaraðila.

II

Sóknaraðili byggir á því að nauðasamningur sé gild aðfararheimild skv. 3. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Kröfuhafar varnaraðila hafi samþykkt nauðasamning hans þann 13. júlí 2010 og hafi nauðasamningurinn verið staðfestur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst s.á. Varnaraðila hafi borið að inna af hendi greiðslu skv. nauðasamningi eigi síðar en 30 dögum eftir staðfestingu hans. Aðfararfrestur sé því liðinn sbr. 6. gr. aðfararlaganna. Jafnframt séu liðnir 15 dagar frá uppkvaðningu Hæstaréttar á dómi í máli 77/2011 og hafi varnaraðili haft nægt ráðrúm til að bregðast við niðurstöðu dómsins, þar með séu skilyrði 5. gr. aðfararlaganna uppfyllt. Öll skilyrði aðfarar séu því fyrir hendi.

Kröfur sóknaraðila hafi verið viðurkenndar með dómi. Kröfurnar séu óumdeildar. Deila aðila snúi einkum að því hvort varnaraðili hafi heimild til þess að skuldajafna og þ.a.l. hvort og þá hvaða kröfu sóknaraðili eigi á hendur varnaraðila sem honum beri að fullnægja í samræmi við nauðsamning sinn.

Varnaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði vegna skuldabréfa í hans eigu útgefnum af sóknaraðila. Varnaraðili haldi því fram í mótmælum sem hann skilaði til Sýslumannsins í Reykjavík að í áðurnefndu Hæstaréttarmáli nr. 77/2011 hafi einungis verið leyst úr ágreiningi um hvort skuldajöfnun varnaraðila með þremur yfirlýsingum 27. janúar, 9. febrúar og 18. september 2009 hafi getað farið fram á þeim tíma sem yfirlýsingarnar voru gefnar út. Varnaraðili hafi því rétt til þess að lýsa aftur yfir skuldajöfnuði síðar. Sóknaraðili mótmælir því að skuldajöfnuður geti farið fram á grundvelli meintra síðari yfirlýsinga um skuldajöfnuð með eftirfarandi röksemdum.

Varnaraðili hafi byggt á því í kæru sinni til Hæstaréttar að þó svo að Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að skuldajöfnun hafi ekki farið fram með áðurnefndum yfirlýsingum, væri krafist viðurkenningar á því að skuldajöfnuður gæti farið fram við síðara tímamark.

Þá hafi varnaraðili ítrekað þennan málatilbúnað sinn í greinargerð sinni til Hæsta­réttar í málinu, þ.e. máli nr. 77/2011. Í greinargerðinni komi fram að jafnvel þó að talið yrði, gegn væntingum varnaraðila, að veðsetning skuldabréfanna  hafi staðið í vegi fyrir því að skuldajöfnuður hafi getað farið fram þegar honum var lýst yfir geti það ekki leitt til þess að réttur til skuldajafnaðar verði ekki viðurkenndur. Skulda­jöfnuð beri þá í öllu falli að viðurkenna frá og með þeim degi er skuldabréfin voru afhent sóknaraðila.

Sóknaraðili bendi á að á grundvelli 2. mgr. 88. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sé ekki hægt að hafa uppi sömu kröfur sem dómstóll hefur þegar tekið afstöðu til. Að ofan­greindu megi sjá að varnaraðili hafi fyrir dómi byggt á rétti til skuldajöfnunar, m.v. síðara tímamark en þær þrjár tilkynningar sem sendar voru á árinu 2009. Dóm­stóll hafi því tekið þá kröfu varnaraðila til umfjöllunar og tekið afstöðu til hennar og því geti varnaraðili ekki haldið þessum kröfum uppi í máli þessu.

Sóknaraðili byggir einnig á því að skv. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sé niðurstaða í dómi Hæstaréttar nr. 77/2011 bindandi fyrir aðila. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að viður­kenna kröfur sóknaraðila í slitaferli varnaraðila og sé kröfugerðin í aðfararbeiðninni í samræmi við dómsorðið. Kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt út­gefnum skuldabréfum hafi verið til umfjöllunar í Hæstarétti og varnaraðili krafist þess að þær kæmu til frádráttar kröfum sóknaraðila. Af því leiði að þar sem varnaraðili hafi haldið uppi þeim kröfum sem nú sé haldið uppi til skuldajöfnunar í því máli geti varnaraðili ekki á ný haldið uppi þeim sömu kröfum við aðförina, enda hafi Hæsti­réttur komist að þeirri efnislegu niðurstöðu að varnaraðili gæti ekki beitt skuldajöfnun. Varnaraðili byggi því á sömu málsástæðum og reyni að ná fram sömu efnisniðurstöðu og Hæstiréttur hafi þegar tekið til umfjöllunar og hafnað. Það sé andstætt megin­reglunni um res judicata og 116. gr. eml. að skuldajöfnuður varnaraðila nái fram að ganga nú. Dómur Hæstaréttar nr. 77/2011 sé því bindandi úrlausn um sakarefnið hvort varnaraðili geti skuldajafnað þeim kröfum.

Við flutning málsins lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að ekki væri lengur byggt á því að skilyrði 40. gr. aðfararlaga standi því í vegi að skuldajöfnuði verði komið við af hálfu varnaraðila teljist hann eiga kröfu og skilyrði skuldajöfnuðar fyrir hendi.

Þá byggir sóknaraðili á því að 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. standi í vegi fyrir því að varnaraðili geti beitt skuldajöfnun. Varnaraðili hafi veðsett umrædd skuldabréf til tryggingar skuldum sínum eins og þær stóðu á hverjum tíma við Seðlabanka Íslands. Í veðsamningi milli varnaraðila og Seðlabankans komi fram að varnaraðili geti með engu ráðstafað hinum veðsettu réttindum án skriflegs leyfis. Varnaraðili hafi fengið skuldabréfin leyst úr veðböndum í þeim eina tilgangi að geta afhent þau sóknaraðila.

Sóknaraðili telji að í fyrsta lagi hafi varnaraðili eignast kröfuna eftir frestdag, eða þegar veðböndin voru losuð og bréfin afhent varnaraðila, og í öðru lagi hafi varnaraðili aðeins fengið kröfuna til að skuldajafna.

Sóknaraðili telji að með því að hafa bundið skuldabréfin veðböndum með þeim kvöðum að hann glataði ráðstöfunarrétti þeirra eins og greint er frá í dómi Hæstaréttar í máli nr. 77/2011 hafi varnaraðili glatað eignarrétti sínum að svo miklu leyti að telja verði að hann hafi aðeins öðlast fullan rétt samkvæmt bréfunum þegar þau voru losuð úr veðböndum. Veðböndin hafi verið losuð löngu eftir að kröfu­lýs­inga­frestur í slitaferli sóknaraðila rann út svo ljóst sé að fullur eignar- og ráð­stöf­unarréttur hafi aðeins flust aftur til varnaraðila eftir frestdag og þar með skorti skilyrði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.

Þá byggir sóknaraðili jafnframt á því að varnaraðili hafi aðeins fengið kröfuna til skuldajöfnunar. Varnaraðili taki fram í greinargerð sinni vegna Hæstaréttarmáls nr. 77/2011 að hann hafi upplýst Seðlabanka Íslands um að eini tilgangurinn með því að fá umrædd skuldabréf afhent væri sá að hann gæti nýtt þau til skuldajöfnunar. Eins leggi sóknaraðili fram bréf frá Seðlabanka Íslands þar sem ofangreindur tilgangur varnaraðila komi fram. Ákvæði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna útiloki að sá sem heldur fram skuldajöfnun geti skuldajafnað þegar krafan sem hann hyggst nýta til skuldajöfnunar sé eingöngu fengin í þeim tilgangi. Ljóst sé því af ofangreindu að varnar­aðili hafi eingöngu fengið kröfuna til skuldajöfnunar í skilningi 100. gr. gjald­þrota­skiptalaganna og beri dóminum því að hafna skuldajafnaðarkröfu varnaraðila.

Varnaraðili haldi því fram í mótmælum sínum til sýslumanns að hann eigi hugs­anlega kröfu á hendur sóknaraðila vegna lánveitinga varnaraðila til þar tilgreindra aflands­félaga. Sóknaraðili mótmæli tilvist slíkrar kröfu. Sóknaraðili bendi á að varnar­aðili byggi kröfu sína á ósönnuðum atvikum án þess að gera reka að því að færa sönnun fyrir máli sínu. Sóknaraðili bendi á, eins og fram komi í mótmælum varnaraðila, að hann sé ekki skuldari skv. þeim lánaskjölum sem liggi fyrir. Engin rökstuðningur sé fyrir því af hverju sóknaraðili ætti nú að teljast skuldari á lánum sem varnaraðili veitti þriðja aðila. 

III

Varnaraðili hafnar því að uppgjör samkvæmt nauðasamningi fari fram á grundvelli þeirra fjárhæða sem tilteknar séu í aðfararbeiðni sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að hann sé sé eigandi skuldabréfa sem útgefin voru af sókn­araðila. Um sé að ræða skuldabréf auðkennd sem LAIS 06 3 að nafnvirði 5.600.000.000 króna, LAIS 06 4 að nafnvirði 8.950.000.000 króna og LAIS 10 0503 að nafnvirði 5.000.000.000 króna. Kröfur samkvæmt skuldabréfunum séu  22.574.629.373 kr. eða samtals 133.396 evrur miðað við gengi 22. apríl 2009 sem var 169,3.  

Þá byggir varnaraðili á þvíað hann telji sig eiga kröfu á hendur sóknaraðila vegna lán­veitinga til svonefndra aflandsfélaga sóknaraðila, samtals að fjárhæð 15.476.681.871 króna.

Varnaraðili telji að kröfur sóknaraðila hafi þegar verið greiddar með skulda­jöfnuði. Skuldajöfnuður sé heimill samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um að  aðför fari fram. 

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 77/2011, hafi verið hafnað þeirri kröfu varnar­aðila að viðurkenndur yrði skuldajöfnuður á grundvelli skuldabréfa í hans eigu miðað við 27. janúar 2009, 9. febrúar 2009 og 18. september 2009. Sem fyrr segi hafi sú niðurstaða Hæstaréttar verið á því reist að á umræddum tíma hafi varnaraðila verið óheimilt að ráðstafa skuldabréfunum með skuldajöfnuði vegna veðsetningar til Seðlabanka Íslands.

Með dómi Hæstaréttar hafi verið leyst úr því álitaefni einu hvort skuldajöfnun gæti farið fram á þeim tíma er hennar var krafist. Engin afstaða hafi verið tekin til þess hvort skuldajöfnun gæti farið fram þegar skuldabréfin hefðu verið leyst úr veð­böndum. Tilvísun sóknaraðila til þess að varnaraðili hafi í greinargerð til Hæstaréttar í um­ræddu dómsmáli haldið því fram að í öllu falli bæri að viðurkenna skuldajöfnun frá og með afhendingu skuldabréfanna til sóknaraðila hafi enga þýðingu. Varnaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnun á tilteknum dagsetningum. Dómkröfur hafi lotið að viður­kenningu skuldajafnaðar á þeim dagsetningum. Í forsendum dóms Hæstaréttar hafi ekkert verið vikið að mögulegri ráðstöfun skuldabréfanna eftir að þau hefðu verið leyst úr veðböndum og því hafi ekki verið um að ræða endanlega og bindandi úrlausn um það hvort varnaraðili gæti notað skuldabréfin til skuldajöfnunar á síðara tímamarki við slit sóknaraðila.

Kröfur varnaraðila samkvæmt umræddum skuldabréfum séu óumdeildar. Dómur Hæsta­réttar hafi ekki þau réttaráhrif að kröfur varnaraðila hafi fallið niður eða verði ekki notaðar til skuldajafnaðar. Ekkert að lögum takmarkaði rétt varnaraðila til að nota skulda­bréfin til skuldajafnaðar þegar þeim takmörkunum á ráðstöfunarrétti sem fólust í veðréttindum Seðlabanka Íslands hafði verið aflétt. Fyrir liggi að skuldabréfin hafi verið leyst úr veðböndum og þau afhent sóknaraðila. Um rétt til skuldajafnaðar vísar varnar­aðili til 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Varnaraðili telji ljóst að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Í fyrsta lagi séu kröfur aðila gagnkvæmar. Þá hafi varnaraðili eignast kröfurnar meira en þremur mánuðum fyrir frestdag. Varnaraðili hafi eignast kröfurnar í skilningi 100. gr. laga nr. 21/1991 í tengslum við skulda­bréfa­viðskipti sín við sóknaraðila og haldið kröfunum óslitið allt þar til hann lýsti yfir skulda­jöfnuði með áðurnefndu bréfi dags. 1. júlí 2011. Sóknaraðili haldi því aftur á móti fram í sinni greinargerð að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt, hann byggi á því að varnaraðili hafi „eignast kröfuna eftir frestdag“ og vísi í því efni til þess að veð­böndum af skuldabréfunum hafi verið aflétt og bréfin þannig afhent sóknaraðila eftir frestdag. Varnaraðili hafnar þessari röksemdafærslu. Þótt varnaraðili hafi veðsett skulda­bréfin hafi hann eftir sem áður verið eigandi þeirra enda aldrei komið til þess að Seðla­bankinn sem veðhafi gengi að þeim. Téð skilyrði 100. gr. laganna nr. 21/1991 verði ekki skýrt þannig að réttur til skuldajafnaðar við gjaldþrot glatist við veðsetningu skuldabréfa eins og hér um ræði.     

Þá haldi sóknaraðili því einnig fram að varnaraðili „hafi aðeins fengið kröfuna til að skuldajafna“. Á það verði með engu móti fallist samkvæmt framansögðu.

Varnaraðili telji ljóst að krafa sóknaraðila hafi verið greidd að hluta með skuldajöfnuði sem lýst hafi verið yfir í síðasta lagi með yfirlýsingu dags. 1. júlí 2011. Kröfur varnaraðila samkvæmt skuldabréfunum voru að fjárhæð 135.769.754 evrur, greiðslur varnaraðila með skuldajöfnuði námu þeirri fjárhæð og beri að draga hana frá kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili eigi kröfur samkvæmt lánasamningum á hendur tilteknum aflandsfélögum undir stjórn sóknaraðila. Samtals séu þessar kröfur að fjárhæð 15.476.681.871 króna.

Varnaraðili vísar til upplýsinga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og afleiðingar bankahrunsins þess efnis að umrædd félög séu aflandsfélög sóknaraðila. Ennfremur vísar varnaraðili til upplýsinga sem koma fram í forsendum Hæstaréttar í máli nr. 325/2010, ákæruvaldið gegn X, en þar sé ítarleg umfjöllun um aflandsfélögin og tengsl við sóknaraðila. Í framhaldi af Hæstaréttardóminum hafi Héraðsdómur Reykjavíkur kveðið upp dóm í sama sakarefni, í málinu S-1282/2010.  Þar hafi verið komist að svohljóðandi niðurstöðu um aflandsfélögin:  „Af þessu og öðru því er að framan er rakið verður því slegið föstu hver tengsl hafi verið á milli Landsbanka Íslands hf. við sjálfseignarsjóðinn og hlutafélögin tvö á Guernsey. Enginn vafi getur leikið á því að bankinn hafði í raun fulla stjórn á félögunum hvað sem leið því lagalega umhverfi sem þeim var búið í erlendri lögsögu.“

Eðli sambands sóknaraðila við aflandsfélögin hafi verið hið sama og var til umfjöllunar í téðum dómi.

                Í efnahagsyfirliti sóknaraðila 8. október 2008, útgáfu 4.2 dags. 18. maí 2009 sé að finna sundurliðun innlána í gamla bankanum, þ.e. sóknaraðila („break down of deposit old bank“), en meðal þeirra séu innlán umræddra aflandsfélaga á reikningum sem nemi háum fjárhæðum, nánar tiltekið:

                Kargile Portfolio Inc (reikn.nr. 101-05-284071)          kr.      40.919.268

                Marcus Capital Ltd. (reikn. 101-15-677328)               kr.      23.360.447

                Peko Investment Company (reikn. 106-26-9057)      kr     106.588.795

                Peko Investment Company (reikn. 101-05-677327) kr.      52.432.993

                LB Holding Ltd. (reikn. 106-26-9026)                          kr. 2.469.784.436

                LB Holding Ltd. (reikn. 106-38-100020)                      kr.             66.423

                Proteus Global Holding (reikn. 101-15-673385)         kr.    237.189.536

                Kimball Associates (reikn. 101-26-82003)                   kr.    600.712.113 

Umrædd innlán hafi ekki flust til Nýja Landsbanka Íslands hf., er síðar fékk nafnið NBI hf. og nú Landsbankinn hf., þrátt fyrir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands.  Yfirfærslan hafi verið gerð í samráði við Fjármálaeftirlitið, en 7. og 8. töluliðir í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins séu svohljóðandi: „7. Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Jafnframt yfirtekur Nýi Landbanki Íslands hf. réttindi og skyldur samkvæmt afleiðu­samningum.

8. Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals skv. 5. tl. Ekki er þörf á innköllun eða auglýsingu vegna þeirrar færslu.“        

Með bréfi lögmanns varnaraðila til Fjármálaeftirlitsins, dags. 12. júlí 2011, var þess farið á leit að Fjármálaeftirlitið upplýsti um ákvörðun um ráðstöfun innstæðna aflands­félaganna, og þá sérstaklega að gerð yrði grein fyrir ástæðum þess að inn­stæðurnar voru ekki yfirteknar af nýja bankanum, m.a. með tilliti til ákvörðunar Fjár­málaeftirlitsins frá 9. október 2008.   

                Fjármálaeftirlitið hafi svarað með eftirfarandi hætti með bréfi dags. 7. október 2011: „Hvað varðar innstæður fyrrgreindra aflandsfélaga þá hefur Fjármálaeftirlitið aflað upplýsinga um atvik máls. Af þeim verður ekki annað séð en að innstæður félaganna í Landsbanka Íslands hf. hafi ekki talist innlán í skilningi 7. tl. ofangreindrar ákvörðunar þar er skuldbindingar bankans við félögin voru ekki komnar á gjalddaga í skilningi ákvörðunarinnar.“

Tilvitnað svar standist að mati varnaraðila enga skoðun enda hafi það ekki verið skilyrði samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að eingöngu innstæðuskuldbindingar sem komnar voru á gjalddaga við yfirfærsluna flyttust í nýja bankann. Staða málsins sé því sú að hvorki Fjármálaeftirlitið né sóknaraðili hafi ennþá fengist til að gefa viðhlítandi skýringar á því hvað hafi orðið um innstæður félaganna. Í því sambandi athugist ennfremur að ekkert aflandsfélaganna lýsti kröfum við slit gamla bankans innan tilskilins frests, sem undirstrikar að mati varnaraðila enn frekar samband þeirra við sóknaraðila.            

Með vísan til þess sem að framan sé lýst byggi varnaraðili á því að sóknaraðili hafi stjórnað aflandsfélögunum á sama hátt og um bankann sjálfan hafi verið að ræða, þau hafi alfarið verið rekin í þágu bankans, engar sjálfstæðar ráðstafanir eða ákvarðanir hafi verið teknar og fjárhag blandað saman. Því verði að líta svo á að aflandsfélögin og sóknaraðili séu einn og sami aðilinn og að sóknaraðili beri ábyrgð á skuldum félaganna gagnvart varnaraðila.

Varnaraðila sé því heimilt að skuldajafna umræddum kröfum sínum, samtals 15.476.681.871 króna. á móti kröfu sóknaraðila. Þannig standi ekkert eftir af kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila.

Samkvæmt aðfararbeiðni sóknaraðila, dags. 30. júní 2011, sé krafist uppgjörs á 179.293.874 evrum samkvæmt nauðasamningi varnaraðila. Varnaraðili telji að til frádráttar þeirri kröfu eigi að koma 135.638.410 evrur vegna skuldabréfa útgefinna af sóknaraðila. Þá komi jafnframt til frádráttar krafa varnaraðila vegna aflandsfélaganna, sem sé umtalsvert hærri en sem nemi eftirstöðvum krafna sóknaraðila. Varnaraðili telji að krafa sóknaraðila hafi því verið að fullu greidd með skuldajöfnuði.

Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

IV

 Í máli þessu er einungis um það deilt hvort varnaraðili eigi með kröfum sínum á hendur sóknaraðila skuldajöfnunarrétt gagnvart óumdeildum kröfum sóknaraðila. Annars vegar er um að ræða kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt þremur skuldabréfum og hins vegar kröfur varnaraðila gegn aflandsfélögum.

 Fyrir liggur að með yfirlýsingum 27. janúar, 9. febrúar og 18. september 2009 lýsti varnaraðili yfir skuldajöfnuði á samtals 25.192.044.234 kr. samkvæmt skuldabréfunum þremur á móti kröfum sóknaraðila.

Hæstaréttar Íslands komst að þeirri niðurstöðu, þann 23. maí 2011 í málinu nr. 77/2012, að skilyrði til skuldajöfnunar væru ekki fyrir hendi þar sem varnaraðili hefði ekki haft ráðstöfunarrétt yfir skuldabréfunum, þar sem bréfin hefðu verið veðsett Seðlabanka Íslands og skriflegt leyfi bankans til ráðstöfunar þeirra hefði ekki legið fyrir.

Í máli þessu krefst varnaraðili þess í fyrsta lagi að honum verði heimilað að nýta kröfur samkvæmt skuldabréfunum til skuldajöfnunar móti kröfum sóknaraðila á hendur honum.

Varnaraðili byggir á að þar sem Seðlabanki Íslands hafi aflétt veðböndum af skuldabréfunum á árinu 2010 og afhent varnaraðila sé honum heimilt að neyta þeirra til skuldajafnaðar á móti kröfum sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 6. gr. laga nr. 161/2002.

Með bréfi sóknaraðila 9. júní 2011 var vísað til fundar 6. sama mánaðar og ítrekuð sú afstaða sóknaraðila að hafna kröfum varnaraðila um skuldajöfnun. Samkvæmt yfirliti sem fylgdi bréfinu krafðist sóknaraðili uppgjörs á kröfu sinni að fjárhæð 179.293.784 evrur samkvæmt dóminum, auk málskostnaðar að fjárhæð 4.500.000 krónur.

Með bréfi 1. júlí 2011 hafnaði varnaraðili kröfum sóknaraðila um uppgjör og lýsti yfir skuldajöfnuði á grundvelli krafna varnaraðila á hendur sóknaraðila á grundvelli skuldabréfanna, þ.e. bréfa sem auðkennd eru sem LAIS 06 3, LAIS 06 4 og LAIS 10 0503, samtals að nafnvirði 19.550.000 krónur. Miðað við gengi 22. apríl 2009, sem var 169,3, voru kröfur samkvæmt skuldabréfunum 22.574.629.373 krónur eða samtals 133.396.143 evrur.

Sóknaraðili byggir á því að með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 77/2011 hafi Hæstiréttur tekið endanlega afstöðu til skuldajöfnunarkröfu varnaraðila. Varnaraðili geti því ekki krafist skuldajöfnuðar á ný á grundvelli skuldabréfanna.

Þá byggir sóknaraðili á því að í dómi Hæstaréttar felist niðurstaða um að skuldajöfnuður geti ekki farið fram miðað við síðara tímamark og vísar til umfjöllunar varnaraðila í kæru til Hæstaréttar og greinargerðar í máli nr. 77/2011, en í kærunni kemur fram að þó svo að Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að skuldajöfnun hafi ekki farið fram með áðurnefndum yfirlýsingum, væri krafist viðurkenningar á því að skuldajöfnuður gæti farið fram við síðara tímamark. Þá komi fram í greinargerðinni að jafnvel þó að talið yrði að veðsetning skuldabréfanna stæði í vegi fyrir skuldajöfnuði geti það ekki leitt til þess að réttur til skuldajöfnuðar verði ekki viðurkenndur. Skuldajöfnuð beri þá í öllu falli að viðurkenna frá og með þeim degi er skuldabréfin voru afhent sóknaraðila.

Við það að Seðlabanki Íslands afhenti varnaraðila umrædd skuldabréf á árinu 2010 öðlaðist varnaraðili fullan umráðarétt yfir þeim.

Sóknaraðili vísar til 2. mgr. 88. gr. laga nr. 90/1989 um aðför um að ekki sé hægt að hafa uppi sömu kröfur sem dómstóll hefur þegar tekið afstöðu til. Þá vísar sóknaraðili til 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför um að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis.

Eins og áður greinir hafnaði Hæstiréttur skuldajöfnuði vegna þess að skuldabréfin voru á þeim tíma sem skuldajöfnuði var lýst yfir veðsett Seðlabanka Íslands.

Þar sem fyrir liggur að veðsetning bréfanna lá til grundvallar þeirri niðurstöðu er það mat dómsins að álitamál það sem hér er til úrlausnar, þ.e. hvort varnaraðili geti nýtt bréfin eftir að þau hafa verið leyst úr veðböndum til skuldajöfnuðar, sé annað en það sem Hæstiréttur tók afstöðu til. Því komi tilvitnaðar lagagreinar ekki til álita við úrlausn málsins.

Þá verður að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að í Hæstaréttardóminum sé tekin afstaða til þess að skuldajöfnun með bréfunum geti ekki farið fram við síðara tímamark en skuldajöfnuði var lýst þar sem um það álitaefni var ekki til úrlausnar í málinu.

Dómur Hæstaréttar er því ekki bindandi um úrlausn þess sakarefnis sem er til umfjöllunar í máli þessu, þ.e. hvort varnaraðila sé skuldajöfnunin heimil eftir að skuldabréfin hafa verið leyst úr veðböndum.

Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi eignast kröfuna eftir frestdag og vísar til þess að veðböndum af skuldabréfunum hafi verið aflétt og bréfin þannig afhent sóknaraðila eftir frestdag. Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi aðeins fengið kröfuna til að skuldajafna.

Við veðsetningu skuldabréfanna eignaðist Seðlabanki Íslands óbein eignar­réttindi yfir þeim, þ.e. veðrétt sem veitti bankanum forgangsrétt til að leita fullnustu í þeim fyrir þeim skuldbindingum og kostnaði sem veðið átti að tryggja. Er því ekki um það að ræða að varnaraðili hafi við veðsetninguna tapað eignarrétti sínum yfir bréf­unum. Skuldabréfin voru því eign varnaraðila allt frá árinu 2008, þótt þau væru veðsett Seðlabanka Íslands, allt þar til varnaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði með áður­nefndu bréfi 1. júlí 2011. Verður því ekki fallist á að fullur eignar- og ráð­stöfun­ar­réttur yfir bréfunum hafi flust aftur til varnaraðila eftir frestdag þar sem að veðböndin hafi verið losuð löngu eftir að kröfulýsingarfrestur í slitaferli sóknaraðila rann út og því skorti skilyrði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna fyrir skuldajöfnuði.

Með vísan til ofangreinds verður heldur ekki fallist á að varnaraðili hafi eignast kröfuna til að nýta hana til skuldajöfnuðar. Ummæli varnaraðila í greinargerð og tilvitnað bréf Seðlabanka Íslands hafa ekki áhrif á þá niðurstöðu.

Ákvæði 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. standa því ekki í vegi fyrir skuldajöfnuði.

Verður því viðurkenndur réttur varnaraðila til að skuldajafna kröfu samkvæmt umræddum skuldabréfum að fjárhæð 22.574.629.373 krónum móti kröfu sóknaraðila.

Í öðru lagi krefst varnaraðili þess að honum verði heimilað að skuldajafna á móti kröfu sóknaraðila kröfum sínum, samtals að fjárhæð 15.476.681.871 króna, samkvæmt lánasamningum á hendur tilteknum aflandsfélögum undir stjórn sóknar­aðila.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi stjórnað aflandsfélögunum á sama hátt og um bankann sjálfan hafi verið að ræða, þau hafi alfarið verið rekin í þágu bankans, engar sjálfstæðar ráðstafanir eða ákvarðanir hafi verið teknar og fjárhag hafi verið blandað saman. Því verði að líta svo á að aflandsfélögin og sóknaraðili séu einn og sami aðilinn og að sóknaraðili beri ábyrgð á skuldum félaganna gagnvart varnaraðila.

Þrátt fyrir fyrirliggjandi tengsl sóknaraðila og aflandsfélaganna verður ekki fram hjá því litið að þau eru sjálfstæð félög að forminu til, þ.e. sjálfstæðir lögaðilar. Lán­veitingar varnaraðila voru enda til félaganna sjálfra og á grundvelli lánabeiðna frá þeim.

Verður því ekki fallist á að lagaskilyrði séu fyrir því að varnaraðili geti notað kröfur sem hann á hendur þeim til skuldajafnaðar mót kröfum sóknaraðila.

Mið hliðsjón af framangreindu verður staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2011-06431 og synja framgangi hennar.

Eftir niðurstöðu málsins þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2011-06431 og synja framgangi hennar.

Málskostnaður fellur niður.