Hæstiréttur íslands
Mál nr. 838/2017
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Samningur
- Lánssamningur
- Ógilding samnings
- Brostnar forsendur
- Tómlæti
- Uppgjör
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Skúli Magnússon héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn um ætlaðan kostnað vegna sölu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. 26. febrúar 2014. Gegn andmælum stefnda komast þessi gögn ekki að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr., sbr. 190. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, SAB ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2017.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 6. desember sl., er höfðað 21. september 2016 af Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, gegn SAB ehf., Lundi 1 í Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 51.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 26. febrúar 2014, til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að upphafstími dráttarvaxta verði miðaður við uppsögu endanlegs dóms í málinu. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II
Ágreiningur þessa máls varðar kröfu stefnanda, Landsbankans hf., á hendur stefnda, SAB ehf., á grundvelli samnings aðila frá 20. desember 2013. Á þeim tíma bar stefndi heitið Ný-fiskur ehf.
Forsögu málsins má rekja til tveggja lánssamninga milli Sæmandi ehf. og Landsbanka Íslands hf., nr. 0142-36-5711 og 0142-36-6652, og lánssamnings milli Vonar ehf. og Sparisjóðsins í Keflavík, nr. 0106-36-12394. Síðastnefndi samningurinn var gerður til að endurfjármagna fjóra eldri lánssamninga Vonar ehf. hjá sparisjóðnum. Sæmandi ehf. og Von ehf. sameinuðust Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. 31. desember 2008 og tók það þá við skuldbindingum samkvæmt framangreindum samningum.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var stefnandi stofnaður og tók hann þá við skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt tveimur fyrrnefndu samningunum. Þá var eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til SpKef sparisjóðs með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010. Í kjölfarið var gerður samningur 5. mars 2011 um að stefnandi tæki yfir rekstur SpKef sparisjóðs og tók hann þá við skuldbindingum samkvæmt síðastnefnda samningnum.
Árið 2011 hófust viðræður milli aðila málsins um fjárhagslega endurskipulagningu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Stefndi var þá eini hluthafinn að öllu hlutafé útgerðarfélagsins.
Í málinu eru lögð fram fjölmörg tölvuskeyti sem fóru milli starfsmanna stefnanda og fyrirsvarsmanna stefnda um fjárhagslega endurskipulagningu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Í skeytunum kemur fram að af hálfu bankans hafi sú leið verið kynnt að endurfjármagna skuldbindingar útgerðarfélagsins við stefnanda, sem í janúar 2012 voru metnar um 1.275.000.000 króna. Eftir endurskipulagninguna skyldu heildarskuldbindingar félagsins við stefnanda ekki vera hærri en 665.800.000 krónur. Félaginu yrði heimilt að bera lögmæti skilmála lánssamninga sinna undir dómstóla með vísan til nýfallinna dóma um gengistryggingu lána, og ekki missa meiri rétt. Þá yrðu félaginu veitt tvö lán, annars vegar lán til 20 ára að fjárhæð um 484.000.000 króna og hins vegar biðlán að fjárhæð um 181.800.000 krónur til þriggja ára. Þegar þessi leið var kynnt stefnda var tekið fram að tillagan fæli ekki í sér loforð bankans um að semja við félagið með þeim hætti sem í tillögunni greindi.
Í málinu eru lögð fram drög að samkomulagi um endurfjármögnun Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. frá mars 2012. Í drögunum eru þrjú lán tilgreind sem endurreiknuð erlend lán sem ætlunin var að endurfjármagna. Hæst þessara lána er lán nr. 0106-36-12394 sem í drögunum er tilgreint að fjárhæð 869.583.147 krónur. Hin lánin voru að fjárhæð 238.997.268 krónur, lán nr. 0142-36-6652, og 145.889.429 krónur, lán nr. 0142-36-5711. Í 13. gr. draganna segir að komi til þess að hluthafinn selji hlutafé sitt í félaginu á næstu þremur árum, þá gerist „hluthafinn og Landsbankinn ásáttir um að 50% af söluandvirðinu renni til Landsbankans“. Ákvæði þetta og hliðstæð ákvæði eru víða í gögnum málsins kölluð „Pelsákvæði“.
Gerðar voru athugasemdir við drögin, m.a. fyrrgreinda 13. gr., í tölvuskeytum frá stjórnarformanni stefnda 16. mars og 22. maí 2012. Var þess óskað að framangreint ákvæði 13. gr. draganna yrði tekið út. Í svari starfsmanns stefnanda 22. maí 2012 kemur fram að ákvæðið verði ekki tekið út.
Í greinargerð stefnda er því haldið fram að fyrirsvarsmenn félagsins hafi lýst andstöðu við ákvæði 13. gr. draganna á fundum aðila. Þar hafi komið fram að í ákvæðinu væri ekki tekið tillit til þess að á næstu árum kynni Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. að áskotnast frekari kvóti sem stefndi þyrfti líklega að fjármagna sjálfur. Væri þá óeðlilegt að stefnandi tæki helminginn í þeirri eignaaukningu án þess að stefndi fengi áður greiddan kostnað sinn af því að leggja útgerðarfélaginu til viðbótarkvóta. Kveður stefndi að af hálfu stefnanda hafi því þá verið svarað til að hugsunin væri að stefndi færi skaðlaus frá öllum viðbótarkostnaði sem félli á hann vegna reksturs útgerðarfélagsins, umfram skyldur hans samkvæmt samkomulagi aðila um endurfjármögnun félagsins og að tekið yrði tillit til slíks kostnaðar áður en söluandvirðinu yrði skipt.
Næsta sem liggur fyrir um samskipti aðila eru tölvuskeyti frá 12. september 2013. Í því skeyti og öðrum frá sama mánuði reyna aðilar að finna tíma til fundar. Í skeyti frá Ragnari Hilmarssyni, starfsmanni stefnanda, 20. september 2013, kveðst hann halda að unnt sé að ganga frá samkomulagi þess efnis að ef stefndi greiddi nýtt eigið fé inn í félagið yrði það „ekki tapað fé þó að þið seljið félagið“. Enn fremur segir í skeyti Ragnars að annaðhvort yrði það gert með því að stefnandi gæfi stefnda „glugga til að ganga frá sölunni án þess að Pelsákvæði verði virkt“ eða að tryggt yrði „að nýtt eigið fé sem þið leggið félaginu til, verði að fullu frádráttarbært frá verðmati áður en til útreiknings Pelsákvæðis kemur“. Kvaðst hann hafa fulla trú á að aðilar fyndu lausn á þessu.
Á þessum tíma lá fyrir að stefndi vann að því að selja hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Albert Sveinsson svaraði framangreindu skeyti fyrir hönd stefnda 24. september 2013. Í skeytinu upplýsir hann að viðsemjendur stefnda séu ekki tilbúnir að greiða neitt fyrir Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. umfram virði báts og kvóta, eins og bankinn meti eignirnar. Það þýddi „að allt annað sem við greiðum skv uppgjörinu við bankann, þ.e. kröfur og vanskilaálag verður okkar kostnaður við að gera samning við bankann“. Var því haldið fram að það leiddi til þess að samningurinn gengi ekki upp af þeirra hálfu. Þá segir í skeyti Alberts: „Svo hitt að ef við komum t.d. með aukið hlutafé og greiðum upp biðlánið að öllu leyti eða hluta, og seljum félagið síðan til viðsemjenda okkar hvernig er þá tekið á afslættinum sem fæst við uppgreiðslu, eða hlutagreiðslu á biðláninu, fær bankinn þá helming afsláttarins til baka við sölu?“
Ragnar Hilmarsson svarar fyrir hönd stefnanda með tölvuskeyti 26. september 2013. Setur hann fram dæmi til útskýringar á umþrættu ákvæði í samkomulagi aðila, til þess að aðilar skildu það með sama hætti. Nánar tiltekið er dæmið sett upp með eftirfarandi hætti:
Skuldir félags 1.400
Metið eignavirði félags 1.000
Eftir endurskipulagningu
Niðurgreiðslulán 700
Biðlán 200
Nýtt eigið fé 100
Afskrift 400 m.kr.
Biðlán gert upp með nýju eiginfé 134 mkr
Framlag banka 66
Virði eigna 1.000
Skuldir 700
Félag selt tveimur árum seinna á 1.500 mkr
Þá koma 250 mkr til bankans sem ganga upp í 466 mkr. afskrift.
Síðar sama dag svarar Albert Sveinsson með tölvuskeyti þar sem segir: „Pelsákvæðið er skýrt og klart“. Í skeytinu kemur ekki annað fram um þetta ákvæði.
Enn síðar sama dag sendi Ragnar Hilmarsson tölvuskeyti með tillögum að samkomulagi aðila sem vörðuðu mat eigna og skulda félagsins. Samkvæmt tillögunni voru eignir félagsins metnar á 1.074.720.000 krónur. Er lagt til að niðurgreiðslulán verði 613.651.000 krónur og biðlán 262.993.000 krónur. Þá segir í skeytinu að tillagan feli í sér að stefndi greiði 25.000.000 króna við undirskrift og hafi fjóra mánuði til að koma með nýtt eigið fé. Ef stefndi greiddi upp biðlán samkvæmt samkomulaginu með nýju eigin fé fengi hann 33% afslátt. Kveður hann hugsanlegt að biðlán yrði ekki nema 186.000.000 króna og að afskrift yrði líka sett sem biðlán sem yrði afskrifað þegar nýtt eigið fé yrði greitt inn í félagið. Þá kemur fram að yrði þetta samþykkt þá yrði afskrift 604.000.000 króna og 88.000.000 króna til viðbótar yrði biðlánið greitt upp.
Albert Sveinsson svaraði fyrir hönd stefnda með tölvuskeyti 27. september 2013. Í skeytinu greinir Albert frá því að tillaga Ragnars sé ekki í samræmi við það sem hann hafi lagt til á fundi aðila. Ekki hafi verið tekið tillit til 25.000.000 króna innborgunar til bankans sem hafi átt að vera hluti af eignum félagsins. Virtist honum sem bankinn vildi fá þær „25 millj kr greiddar aftur“. Ef bankinn ætlaði að lækka biðlánið væri að auki ekki ástæða fyrir stefnda til þess að ganga frá málinu því að ef „við greiðum upp biðlánið með nýju fé auk þess 50 millj kr“ í tilgreindar kröfur þá væri „engin eignamyndun í þessu fyrir okkur“. Kveðst Albert eiga eftir að fara yfir málið en að hann sjái ekki neinn hag fyrir stefnda í því að koma með nýtt eigið fé inn í félagið á grundvelli tillögu Ragnars.
Ragnar Hilmarsson svarar fyrir hönd stefnanda með tölvuskeyti 30. september 2013. Í skeytinu útlistar hann nánar þá útreikninga sem tillaga stefnanda byggi á. Í skeytinu segir jafnframt að ef stefndi vilji ekki ganga að samningum „byggðum á aðferðarfræði bankans við að verðmeta félög þá [væri] hægt að selja eignir“. Ef það yrði gert lýsti Ragnar efasamdum sínum um að hægt yrði að fá meira en 987.000.000 króna „fyrir bát og kvóta“. Því væri ekki í boði að bankinn lækkaði tillögu sína frekar.
Með tölvuskeyti 1. október 2013 svaraði Albert Sveinsson á þá leið að af hálfu stefnda hefði verið farið yfir málið, vilji væri til að ljúka málinu sem fyrst og að ganga frá því eins og Ragnar hefði sett það upp. Kvaðst Ragnar í kjölfarið leggja málið fyrir fund hjá stefnanda.
Með tölvuskeyti 9. október 2013 sendi Ragnar Hilmarsson, fyrir hönd stefnanda, tilboð stefnanda um endurfjármögnun Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Kvað hann einhverjar breytingar hafa orðið á verðmati þar sem verð á þorski hefði lækkað en verð á ýsu, steinbít og humar hefði hækkað. Þá gæti biðlán með uppgreiðsluafslætti mest orðið 20% af verðmæti eigna eða 229.400.000 krónur. Í tilboðinu var þess getið að það væri meðal skilyrða af hálfu bankans að hann fengi „50% af söluverði félagsins umfram núverandi eignarvirði (1.146,8 m kr.)“ yrði það selt innan fimm ára.
Endanlegur samningur aðila þessa máls, auk Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., var undirritaður 20. desember 2013. Fram kemur að eignarhald útgerðarfélagsins sé þannig að stefndi, sem þá hét enn þá Ný-fiskur ehf., ætti 100% af öllu hlutafé í félaginu og að vísað væri til hans sem „hluthafans“ í samningnum en til útgerðarfélagsins sem „félagsins“.
Í grein 2.1 í samningnum segir að skuldir félagsins við stefnanda nemi alls u.þ.b. 1.514.000.000 króna miðað við 9. október 2013. Skuldirnar væru endurreiknað gengistryggt lán, nr. 0106-36-12394, að fjárhæð 1.066.352.000 krónur, endurreiknað gengistryggt lán, nr. 0142-36-5711, að fjárhæð 152.929.000 krónur, og erlent lán, nr. 0142-36-6652, að fjárhæð 295.516.000 krónur.
Í grein 3.1 í samningnum er kveðið á um endurskipulagningu á fjárhag útgerðarfélagsins með eftirfarandi hætti:
a. Með því að hluthafinn leggi félaginu til nýtt eigið fé að verðmæti kr. 63.700.000 í formi nýs kvóta.
b. Með nýju vaxtalausu láni að fjárhæð kr. 36.600.000 með einum gjalddaga þann 1.3.2014. Andvirði lánsins skal ráðstafað inn á núverandi lán félagsins. Lán þetta er veitt til þess að gefa hluthafa félagsins frest til þess að koma með nýtt eigið fé í félagið.
c. Með nýju erlendu láni að fjáræð 4.029.465 evrur (kr. 640.000.000), til 5/20 ára. Vextir lánsins skulu vera breytilegir vextir sem skulu vera eins mánaðar LIBOR vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, að viðbættu 4,25% álagi. Vextir reiknast frá og með 9.10.2013. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta er 01.01.2014. Andvirði lánsins skal ráðstafað inn á núverandi skuldir félagsins.
d. Nýju eingreiðsluláni að fjárhæð 1.444.099 evrur (um kr. 229.400.000). Vextir lánsins skulu vera breytilegir vextir sem skulu vera eins mánaðar LIBOR vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, að viðbættu 4,50% álagi. Vextir reiknast frá og með 9.10.2013 og höfuðstólsfærast á 12 mánaða fresti. Gjalddagi afborgana og vaxta er 9.10.2016. Andvirði lánsins skal ráðstafað inn á núverandi skuldir félagsins. Greiði félagið lánið upp að hluta eða í heild fyrir 1.3.2014, og greiðslan er að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé sem hluthafar eða aðrir hafa lagt félaginu til, þá mun Landsbankinn til viðbótar við slíka innborgun færa niður lánið um 33% af innborgaðri fjárhæð.
e. Með nýju erlendu eingreiðsluláni að fjárhæð 467.356 evrur. Vextir lánsins skulu vera breytilegir vextir sem skulu vera eins mánaðar LIBOR vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, að viðbættu 4,50% álagi. Vextir reiknast frá og með 9.10.2013 og leggjast á höfuðstól á 12 mánaða fresti. Gjalddagi afborgana og vaxta er 1.9.2016.
f. Með nýju eingreiðsluláni að fjárhæð kr. 511.300.000. Skal lánið bera óverðtryggða K0 vexti (samkvæmt kjörvaxtatöflu Landsbankans). Vextir reiknast frá og með 9.10.2013. Gjalddagi afborgana og vaxta er 1.3.2014. Þegar (i) hluthafinn hefur lagt félaginu til nýtt eigið fé í samræmi við grein 3.1. a), (ii) þegar lán skv. grein 3.1. b) hefur verið greitt upp að fullu sem og (iii) þegar félagið hefur greitt til Landsbankans kr. 25.000.000 í samræmi við grein 3.1. g), mun lán þetta verða afskrifað.
g. Með því að félagið greiði kr. 25.000.000 í reiðufé til Landsbankans við undirritun samnings þessa. Skal ráðstafa greiðslunni inn á vanskil núverandi skulda félagsins.
Í 4. gr. samningsins er kveðið á um að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á þeim lánum sem tilgreind séu í grein 3 verði þáverandi tryggingar í bát og kvóta félagsins.
Í 5. gr. samningsins er fyrirvari um endanlegt uppgjör. Þar er kveðið á um að komi til þess að félagið eignist einhvern rétt á hendur stefnanda vegna endurreiknings lána félagsins þannig að um ofgreiðslu eða inneign félagsins teljist hafa verið að ræða, þá samþykki félagið að slíkri ofgreiðslu eða inneign verði (i) ráðstafað inn á lán samkvæmt f-lið greinar 3.1, (ii) því næst á móti kröfum stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1, (iii) þá á móti kröfum stefnanda samkvæmt e-lið greinar 3.1, (iv) og að lokum á móti öðrum kröfum stefnanda á hendur félaginu, samkvæmt vali félagsins.
Í grein 9.1 í samningnum segir:
Komi til þess að hluthafinn selji hluti sína í félaginu á næstu 5 árum frá undirritun samnings þessa, á hærra verði en því virði sem bankinn hefur metið félagið (kr. 1.146.800.000), þá gerast hluthafinn og Landsbankinn ásáttir um að 50% af söluandvirðinu sem er umfram fyrrgreint eignavirði renni til Landsbankans. Til skiptingar kemur sá hluti sem er umfram ofangreint eignavirði að frádregnum kostnaði hluthafans vegna sölu félagsins (sem skal vera að hámarki 1% af söluverðinu) og hugsanlegra skattgreiðslna hluthafans vegna sölunnar. Selji hluthafinn ekki alla hluti sína í félaginu þá gildir ákvæði þetta áfram um þann eignarhlut hluthafans sem ekki hefur verið seldur.
Í grein 9.2 er kveðið á um að verði hlutafé félagsins aukið þá verði það aðeins gert gegn því skilyrði að áskrifandi hinna nýju hluta gerist aðili að því samkomulagi sem í samningnum sé kveðið á um, sem hluthafi, þar með talið ákvæði greinar 9.1. Í grein 9.3 er svo kveðið á um að sé „andvirði nýs hlutafjár hins vegar nýtt að öllu leyti til þess að greiða lán skv. grein eiginfjárframlag skv. grein 3.1.b) og lán skv. grein 3.1.d) er hinn nýi hluthafi ekki bundinn af ákvæðum þessarar greinar“.
Hlutafé Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. var hækkað 29. janúar 2014, úr 1.500.000 krónum í 101.500.000 krónur. Þar af var 36.600.000 króna hækkun greidd með peningum og 63.400.000 króna hækkun greidd með aflaheimildum. Andvirði hækkunar með peningum, 36.600.000 krónur, var nýtt til að greiða upp lán til stefnanda samkvæmt b-lið í grein 3.1 í samningi aðila.
Stefndi kveður að fyrstu áform við sölu á hlutafé hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. hafi gert ráð fyrir að hlutafé félagsins yrði 101.500.000 krónur í samræmi við samning hans við stefnanda. Væntanlegur kaupandi, Icelandic Ný-Fiskur hf., hafi hins vegar krafist þess að stefndi yki hlutafé útgerðarfélagsins um 156.000.000 króna, í 257.000.000 króna, og að nýtt hlutafé yrði notað til þess að lækka skuldir félagsins samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013. Stefndi hafi af þeim sökum hækkað hlutafé félagsins 12. febrúar 2014, úr 101.500.000 krónum í 257.500.000 krónur.
Kaupsamningur stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf., um alla hluti í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., var undirritaður 26. febrúar 2014. Í grein 3.1 í kaupsamningnum er kaupverð fyrir hlutina tilgreint 1.250.000.000 króna. Samkvæmt grein 3.2 skyldi kaupandi greiða kaupverðið þannig að (a) 80% af kaupverði, að teknu tilliti til breytinga samkvæmt grein 3.3, skyldi greitt inn á fjárvörslureikning lögmanna seljanda við undirritun samnings, sbr. nánar grein 3.6, og (b) 20% af kaupverði, að teknu tilliti til breytinga samkvæmt grein 3.3, skyldi greitt inn á fjárvörslureikning lögmanna kaupanda á efndadegi, sbr. nánar grein 3.7.
Í grein 3.3 segir að kaupverðið miði við að nettó vaxtaberandi skuldir félagsins séu engar og nettó veltufé félagsins ekkert. Jafnframt segir að aðilar séu sammála um að áætlaðar nettó vaxtaberandi skuldir félagsins við undirritun samningsins séu 850.000.000 króna og að áætlað nettó veltufé félagsins sé ekkert. Fjárhagsuppgjör sem fari fram við undirritun samningsins, sbr. grein 3.2 (a), verði miðað við þær áætluðu fjárhæðir.
Í 4. gr. kaupsamningsins kemur fram að samningurinn sé m.a. háður þeim skilyrðum að stefndi hafi lagt félaginu til nýtt hlutafé að verðmæti 257.000.000 króna, að félagið hafi greitt upp vaxtalaust lán að fjárhæð 36.600.000 krónur við stefnanda, að það hafi greitt stefnanda 25.000.000 króna í reiðufé og að stefnandi hafi afskrifað lán að verðmæti 511.300.000 krónur.
Samkvæmt grein 3.4 í kaupsamningnum eru aðilar sammála um að kaupverðið taki breytingum m.t.t. endanlegrar stöðu nettó vaxtaberandi skulda félagsins og nettó veltufjár eins og hún verði við undirritun samningsins.
Í 14. tölulið viðauka 1 við kaupsamninginn segir að félagið hafi skrifað undir bindandi samkomulag við stefnanda um lán félagsins og gert upp öll lán þess við stefnanda á grundvelli þess.
Í 14. tölulið viðauka 2 við kaupsamninginn kemur fram að stefndi hafi greitt upp lán hjá stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013.
Ragnar Hilmarsson sendi tölvuskeyti fyrir hönd stefnanda 10. mars 2014, til Sverris Geirdal fyrir hönd stefnda. Í skeytinu kemur fram að loka eigi afskriftinni í kerfum stefnanda. Þá sé bara eitt mál eftir og það sé að fara yfir „pelsákvæðið“. Þar sem útgerðarfélagið hafi verið selt sé óskað eftir því að kaupsamningurinn verði sendur stefnanda svo unnt sé að ljúka því máli líka. Sverrir sendi Ragnari eintak af kaupsamningnum með tölvuskeyti síðar sama dag. Í skeyti Sverris segir að efndadagur sé ekki runninn upp og því megi segja að salan sé enn ekki fullfrágengin, eftir sé að uppfylla þau skilyrði sem sett séu fram.
Að beiðni Sverris sendi Ragnar stöðu lána Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hjá stefnanda með tölvuskeyti 25. mars 2014. Jafnframt segir í skeytinu frá Ragnari: „Þá er þetta allt að verða komið. Það eina sem við eigum eftir að ræða er Pelsákvæðið.“
Af hálfu stefnanda var 28. mars 2014 gefin út staðfesting á efndum samnings aðila frá 20. desember 2013. Í staðfestingunni kemur fram að lán samkvæmt 2. gr. samningsins hafi verið að fullu greidd, sem og lán samkvæmt b- og d-liðum greinar 3.1 og að lán samkvæmt f-lið greinar 3.1 hafi verið afskrifað að fullu. Enn fremur er staðfest að stefndi og útgerðarfélagið hafi fullnægt skilyrðum a- og g-liða greinar 3.1 í samningnum. Loks er það staðfest af hálfu stefnanda að einu útistandandi skuldir útgerðarfélagsins við stefnanda séu lánin sem kveðið sé á um í c- og e-liðum greinar 3.1 og að áætluð staða þeirra miðað við 28. mars 2014 sé samtals 4.468.672 evrur.
Stefndi og Icelandic Ný-Fiskur hf. undirrituðu uppgjörssamkomulag vegna framangreinds kaupsamnings 4. apríl 2014. Í því kemur fram að stefndi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum. Staða nettó vaxtaberandi skulda félagsins hafi verið 819.995.038 krónur á undirritunardegi en staða nettó veltufjár 16.269.212 krónur. Endanlegt kaupverð hafi þar af leiðandi verið 446.274.174 krónur. Kaupandi hafi þegar greitt 400.000.000 króna og eigi því eftir að greiða 46.274.174 krónur.
Næsta sem liggur fyrir um samskipti aðila er tölvuskeyti frá Ragnari Hilmarssyni 13. maí 2015 til Alberts Sveinssonar og Sverris Geirdal. Þar er vísað til þess að í framhaldi af sölu stefnda á útgerðarfélaginu eigi eftir að fara yfir uppgjörið. Kveðið hafi verið á um það í samningi aðila að yrði félagið selt á meira en 1.146.800.000 krónur, myndu aðilar skipta því sem umfram yrði jafnt á milli sín. Ítrekar hann að draga megi frá þeim hluta kostnað vegna sölunnar og hugsanlegar skattgreiðslur og vísar til greinar 9.1 í samningnum. Albert svarar með tölvuskeyti síðar sama dag og kveðst þá ætla að taka til þessar upplýsingar og vera í sambandi innan tíðar.
Ragnar Hilmarsson ítrekaði beiðni sína með tölvuskeyti 1. júlí 2015. Í því kemur fram að ef ekkert heyrðist í forsvarsmönnum stefnda fyrir 15. júlí yrði sendur reikningur fyrir 50% af mismun á söluverði og verðmæti sem haft hafi verið til viðmiðunar í samningi aðila frá 20. desember 2013. Í tölvuskeyti Alberts Sveinssonar sama dag kveðst hann hafa talað við endurskoðanda og beðið hann um að taka þetta saman. Í öðru skeyti daginn eftir kveðst Albert munu láta Ragnar vita um framvindu málsins næstu daga.Hinn 6. október 2015 sendi stefnandi stefnda bréf og skoraði á hann að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningi aðila með því að greiða 51.600.000 krónur eigi síðar en 9. október 2015.
Kröfu stefnanda var mótmælt með bréfi lögmanns stefnda 23. febrúar 2016. Í bréfinu eru færð fram ítarlög rök fyrir afstöðu stefnda sem lúta að aðdraganda og forsendum samnings aðila frá 20. desember 2013 og atvikum sem síðar komu til. Fram koma m.a. röksemdir sem lúta að því að eldri lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi ekki verið endurreiknuð eða ekki verið endurreiknuð rétt, með vísan til þess að þau hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu, og skuldir félagsins þar með metnar of háar. Þá er þar fjallað um þá aðstöðu sem stefndi hafi verið í við samningsgerðina og stöðu hans gagnvart stefnanda. Með vísan til þeirra röksemda telji stefndi ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig 9. gr. samningsins frá 2013. Um fjárhæð kröfunnar segir enn fremur að stefnandi hafi ekki dregið frá kostnað við söluna í samræmi við samningsákvæðið. Því beri hvað sem öðru líður að draga 12.500.000 krónur frá 103.000.000 króna, þannig að eftir standi 90.000.000 króna.
Röksemdum stefnda var svarað með bréfi stefnanda 31. mars 2016. Ítrekaði stefnandi þá kröfu sína. Kröfu stefnanda var enn á ný mótmælt með bréfi lögmanns stefnda 13. maí 2016. Í bréfinu eru fyrri röksemdir ítrekaðar og nýjar færðar fram, m.a. um tómlæti stefnanda við að halda uppi kröfu sinni.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi selt alla hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. með kaupsamningi 26. febrúar 2014. Hafi umsamið kaupverð numið 1.250.000.000 króna. Mismunurinn á kaupverðinu og því verði sem stefnandi hafi metið félagið á samkvæmt uppgjörssamkomulaginu 20. desember 2013 hafi numið 103.200.000 krónum. Er á því byggt af hálfu stefnanda að samkvæmt 9. gr. þess samkomulags hafi helmingur þeirrar fjárhæðar, eða 51.600.000 krónur, átt að renna til stefnanda.
Stefnandi telur að stefndi geti ekki vikist undan skuldbindingum sínum samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 með vísan til þeirra málsástæðna sem hann hafi vísað til í aðdraganda málshöfðunarinnar eða byggt á öðrum málatilbúnaði.
Stefnandi hafnar því að stefndi eigi kröfu á hendur honum vegna láns samkvæmt samningi nr. 12394 sem sé hærri en krafa stefnanda, eins og atvikum sé háttað. Skuldbindingarnar sem kveðið sé á um í lánssamningnum hafi aldrei tilheyrt stefnda þessa máls. Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hafi verið skuldari samkvæmt lánssamningnum. Stefndi hafi ekki verið skuldari að láninu né að þeim lánum sem hafi verið gerð upp með láni samkvæmt samningi nr. 12394. Stefndi geti ekki byggt rétt sinn á samningssambandi útgerðarfélagsins við Sparisjóðinn í Keflavík og síðar Landsbankann hf. þrátt fyrir að hafa verið eigandi útgerðarfélagsins. Þá hafi stefndi gengist undir þá skuldbindingu sem fram komi í grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, án nokkurs fyrirvara varðandi fjárhæð skulda Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Á þeim tíma hafi fjöldi dóma þegar gengið um gengistryggð lán og því full ástæða fyrir stefnda til að gera fyrirvara þar að lútandi.
Fyrir liggi að lán stefnanda til Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi 9. október 2013 numið 1.514.000.000 króna. Það sé sá dagur sem ný lán útgerðarfélagsins hafi byrjað að bera vexti. Með samningi aðila hafi stefnandi veitt útgerðarfélaginu ný lán að fjárhæð 1.489.800.000 krónur. Eitt hinna nýju lána hafi verið svokallað „afskriftarlán“ að fjárhæð 511.300.000 krónur, sbr. grein 3.1 í samningnum, sem hafi fengið númerið 28408 í kerfum bankans. Lánið hafi verið sett upp sem biðlán þannig að fjárhæð þess var látin samsvara þeirri fjárhæð sem ætlunin hafi verið að afskrifa, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Skilyrðin í þessu tilviki hafi verið að greitt yrði nýtt eigið fé inn í félagið. Þegar það skilyrði hafi verið uppfyllt hafi lánið verið afskrifað. Samkvæmt grein 5.1 í samningi aðila hafi útgerðarfélagið samþykkt að kröfu sem félagið kynni að eignast á hendur bankanum vegna endurreiknings lána yrði ráðstafað fyrst inn á afskrift á láni nr. 28408, sem þá hafi numið 522.896.568 krónum, en ella inn á aðrar skuldir, í samræmi við ákvæði samningsins.
Þá hafi útgerðarfélaginu verið veitt eingreiðslulán að fjárhæð 1.449.099 evrur sem fært hafi verið inn á skuldir félagsins í samræmi við d-lið í grein 3.1 í samningnum. Samkomulag hafi verið um að yrði lánið greitt upp að hluta eða öllu leyti með nýju hlutafé fyrir 1. mars 2014 yrði það fært niður um 33% af innborgaðri fjárhæð. Það hafi verið gert en með vísan til framangreinds ákvæðis hafi þá 76.321.600 krónur verið afskrifaðar, eða 489.180,19 evrur. Miðað sé við miðgengi evru á afskriftardegi 13. mars 2014, sem hafi verið 156,45.
Stefnandi byggir á því að lánin frá árunum 2004, 2005 og 2006, sem vísað sé til í bréfi stefnda, hafi verið lögmæt lán í erlendum gjaldmiðlum. Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. eigi því ekki inneign vegna gengistryggingar þeirra lána sem gerð hafi verið upp með láni nr. 12394. Vísar stefnandi um lögmæti lánanna til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 194/2013. Lánin, sem gerð hafi verið upp með láni nr. 12394, hafi hins vegar verið endurreiknuð miðað við vexti Seðlabanka Íslands til 15. nóvember 2011 og allar innborganir af lánunum hafi verið framreiknaðar með þeim vöxtum til þess sama dags. Það hafi verið gert án þess að stefnanda bæri lagaleg skylda til þess.
Hvað varði lán nr. 73370001-2, frá 29. nóvember 2007, skipti ekki máli í lögskiptum aðila hvort lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu eða ekki. Niðurstaða um það hafi ekki áhrif á stöðu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. sem lántakanda og því síður á stöðu stefnda, sem ekki hafi verið lántakandi og eigi því engan rétt til endurútreiknings. Hvort lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu geti ekki haft áhrif á stöðu útgerðarfélagsins vegna þess að afskriftir samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 hafi verið að mun hærri fjárhæð en möguleg krafa á grundvelli hugsanlegs endurútreiknings.
Stefnandi hafi reiknað hver staða láns nr. 12394 hefði verið að því gefnu að lán nr. 73370001-2 hefði verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Niðurstaða útreiknings stefnanda sé að jafnvel þótt teknar yrðu til greina ýtrustu kröfur stefnda þá hefði lán nr. 12394 numið 896.227.816 krónum 9. október 2013 en ekki 1.066.352.000 krónum, líkt og miðað hafi verið við í a-lið greinar 2.1 í samningi aðila. Það hefði leitt til þess að afskrift stefnanda hefði lækkað um 179.124.184 krónur, úr 599.218.168 krónum, sbr. d- og f-liði greinar 3.1 í samningnum, í 429.093.984 krónur. Niðurstaðan sé ávallt sú að ætluð inneign Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. sé mun lægri en sú krafa sem stefnandi hafi afskrifað á grundvelli samnings aðila frá 20. desember 2013. Þá hafi verið samið um að sú afskrift skyldi greidd upp áður en nokkuð kæmi til greiðslu til handa útgerðarfélaginu. Ekki hafi undir neinum kringumstæðum átt að greiða stefnda nokkuð sem hluthafa í félaginu.
Stefnandi vísar til þess að Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hafi ekki gert kröfu um endurútreikning eða krafist frekari greiðslna vegna mögulegrar inneignar félagsins. Stefnandi byggir á því að stefndi geti ekki átt aðild að slíkri kröfu og vísar um það til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2000. Þá hafi Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. gert upp allar skuldir sínar við stefnanda að teknu tilliti til samnings aðila frá 20. desember 2013 og hafi ekki haft neinar kröfur frammi gagnvart stefnanda.
Stefnandi byggir á því að málatilbúnaður stefnda, sem byggir á reglum um rangar og/eða brostnar forsendur, sé jafnframt þýðingarlaus, sem og málatilbúnaður sem byggir á ákvæðum samningalaga. Stefnandi hafnar því sérstaklega að hann hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og að aðstöðumunur hafi verið á aðilum eða að meintur aðstöðumunur geti haft áhrif á skuldbindingu stefnda. Stefnandi hafnar því jafnframt að það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samning aðila frá 20. desember 2013.
Stefnandi mótmælir því að það hafi þýðingu við úrlausn þessa máls að stefnandi kunni að hafa gjaldfellt lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. og að félagið hafi þurft að greiða vexti vegna vanskila. Öll lánin hafi verið komin á lokagjalddaga og því sé eðlilegt að þau hafi borið dráttarvexti. Allar athafnir stefnanda hafi verið réttlætanlegar auk þess sem engar athugasemdir eða fyrirvarar hafi verið gerðir vegna framangreinds af hálfu útgerðarfélagsins eða stefnda við gerð samningsins frá 20. desember 2013. Þá hafi samningurinn verið til hagsbóta fyrir útgerðarfélagið og skuldir þess lækkað verulega. Einnig liggi fyrir að allar kröfur komi til frádráttar afskriftum á grundvelli samningsins.
Stefnandi telur að lán nr. 12394 sé í erlendum gjaldmiðli. Jafnvel þótt lánið teldist vera bundið ólögmætri gengistryggingu myndi endurkrafa á þeim grundvelli koma til frádráttar á afskriftum. Sama eigi við ef hin eldri lán, sem endurfjármögnuð hafi verið með láni nr. 12394, yrðu endurútreiknuð. Ljóst megi vera að þau hafi ekki verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Yrði lagt til grundvallar að öll lánin hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu og þau endurreiknuð, yrði staða þeirra 896.227.816 krónur. Slíkur endurútreikningur veiti Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. engan rétt enda afskriftir langt umfram mismuninn á framangreindri fjárhæð og 1.066.352.000 krónum.
Kjarni málsins sé sá að lántakandinn, Útgerðarfélag Sandgerðis ehf., hafi ekki farið fram á endurútreikning lánanna né haldið því fram að nokkurt þeirra lána sem stefndi vísi til séu eða hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Stefndi eigi ekki aðild að máli um túlkun samninganna enda ekki lántakandi.
Stefnandi mótmælir því að krafa á grundvelli greinar 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013 sé fallin niður sökum tómlætis. Salan hafi farið fram 26. febrúar 2014. Stefnandi hafi skömmu eftir söluna haft samband við fyrirsvarsmenn stefnda þar sem skort hafi gögn til þess að ljúka uppgjörinu. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi dregið lappirnar, sem leitt hafi til þess að þeim hafi verið sent tölvuskeyti 13. maí 2015. Skeytinu hafi verið svarað samdægurs og upplýst að gögnin yrðu tekin saman. Engin gögn hafi hins vegar borist og hafi stefnandi þá ítrekað beiðni þar um og upplýst að yrðu þau ekki afhent fyrir 15. júlí 2015 yrði sendur reikningur á félagið á grundvelli samnings aðila. Þessu erindi hafi verið svarað degi síðar og upplýst að endurskoðandinn væri að taka gögnin saman. Ekki hafi í þessum samskiptum verið byggt á því að samkomulagið væri óskuldbindandi.
Með vísan til framangreinds hafni stefnandi því að krafan sé niður fallin sökum tómlætis og/eða að krafa hafi verið höfð uppi rúmlega tveimur og hálfu ári eftir að salan hafi farið fram, eins og stefndi hafi haldið fram. Fyrrgreind samskipti milli aðila hafi farið fram um það bil fimmtán mánuðum eftir söluna en áður hafi aðilar verið í símasambandi. Málatilbúnaði á grundvelli tómlætis stefnanda sé því með öllu hafnað. Ljóst sé hins vegar að stefndi hafi sýnt af sér algjört tómlæti gagnvart gildi samnings aðila. Mótmæli þar að lútandi hafi fyrst verið höfð uppi um það bil tveimur og hálfu ári eftir gerð samningsins en sá sem ætli að bera fyrir sig ógildingu samnings verði að gera það án nokkurs dráttar. Að teknu tilliti til málatilbúnaðar stefnda leiði sá tími, sem liðið hafi frá undirritun samningsins til þess dags þegar mótmæli hafi verið höfð uppi, til þess að krafa, hafi hún verið fyrir hendi, hafi fallið niður sökum tómlætis.
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, eins og áður greinir. Ákvæðið feli í sér ótvíræða skuldbindingu um að stefnda beri að greiða stefnanda 50% af söluandvirði hluta í félaginu, sem fari umfram 1.146.800.000 krónur. Ágreiningslaust sé að stefndi hafi selt alla hluti sína í félaginu 26. febrúar 2014, sem sé innan þeirra fimm ára tímamarka sem fjallað sé um í grein 9.1 í samningi aðila. Einnig sé ágreiningslaust að stefndi hafi selt hluti sína í félaginu á 1.250.000.000 króna, sem hafi verið 103.200.000 krónum umfram verðmæti félagsins, samkvæmt samningi aðila. Það þýði að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda sem nemi 51.600.000 krónum, eða 50% af 103.200.000 krónum. Stefnandi hafi skorað á stefnda að leggja fram gögn um hver hafi verið kostnaður stefnda af sölunni en samkomulag sé um að hann dragist frá kröfunni, þó þannig að hámarks frádráttur verði 1% af söluverðinu. Þar sem stefndi hafi ekki orðið við þeirri áskorun sé ekki hjá því komist að miða við að enginn kostnaður hafi verið af sölunni. Leggi stefndi hins vegar fram gögn sem staðreyni kostnað og unnt verði að fallast á réttmæti hans áskilji stefnandi sér rétt til að lækka kröfuna á síðari stigum.
Stefnandi skorar jafnframt á stefnda að leggja fram gögn um þá frádráttarliði sem vísað sé til í 9. gr. samningsins frá 20. desember 2013. Verði stefndi ekki við þeirri áskorun sé á því byggt að stefndi beri hallann af því að óljóst sé hvað beri að draga frá stefnufjárhæðinni. Stefnandi áskilji sér rétt til þess að lækka stefnufjárhæðina verði fullnægjandi gögn lögð fram til réttlætingar frádrætti með vísan til samningsins. Verði fullnægjandi gögn ekki lögð fram byggir stefnandi á því að fallast beri á dómkröfur hans eins og þær séu settar fram í stefnu málsins.
Stefnandi byggir kröfu sína að öðru leyti á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, en á því sé byggt að engin ástæða sé til að horfa fram hjá, breyta eða víkja til hliðar samkomulagi aðila. Sérstaklega beri að líta til þess að hlutur stefnda í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. hafi verið verðlaus með öllu þegar bankinn hafi samþykkt fjárhagslega endurskipulagningu félagsins árið 2013. Sú fjárhagslega endurskipulagning hafi leitt til þess að unnt hafi verið að reka áfram félag, sem komið hafi verið í umtalsverð vanskil með lán. Þá hafi endurskipulagningin gert stefnda það mögulegt að selja félagið 66 dögum síðar með umtalsverðum hagnaði. Samið hafi verið um að hluti af þeim hagnaði skyldi koma í hlut stefnanda sem hafi afskrifað verulegar skuldir og hagrætt lánum sem hafi orðið til þess að mögulegt hafi verið að selja félagið. Vandséð sé hvernig unnt sé að halda því fram að samkomulagið hafi verið ósanngjarnt gagnvart stefnda í þessu ljósi. Samkomulagið beri að efna.
Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 26. febrúar 2014, þegar stefndi hafi selt Icelandic Ný-Fiski hf. hlut sinn í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf.
Stefnandi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og tómlæti. Stefnandi vísar um aðild til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi byggir kröfu um dráttarvexti á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað byggir hann á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til greinar 12.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Samkvæmt ákvæðum hennar má reka mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, rísi mál í tengslum við samninginn.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að endanlegt söluverð hlutanna í Útgerðafélagi Sandgerðis ehf. hafi verið 446.274.174 krónur, eins og greini í samningi um uppgjör og efndir milli stefnda og Icelandic Ný-Fisks ef. Stefndi hafi aðeins fengið þá fjárhæð í sinn hlut. Hluti af fjárhæðinni hafi jafnframt verið framlag stefnda til útgerðarfélagsins, umfram skyldu, að fjárhæð 156.000.000 króna. Nettó kaupgreiðsla til stefnda hafi því numið 290.274.174 krónum. Skýra verði ákvæði samnings aðila frá 20. desember 2013 stefnanda í óhag þar sem hann hafi samið texta samningsins. Þá sé ljóst að stefndi hafi ekki selt hlut sinn í útgerðarfélaginu á hærra verði en því virði sem bankinn hafi metið félagið heldur fyrir mun lægri fjárhæð.
Stefndi byggir í öðru lagi á því að þótt meta beri söluverð stefnda á hlutum hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. á 1.250.000.000 króna, þá hafi eiginlegt virði félagsins í kaupunum ekki farið umfram matsverð stefnanda, 1.142.800.000 krónur, þar sem stefndi hafi lagt útgerðarfélaginu til 156.000.000 króna í formi viðbótarhlutafjár, sem hafi aukið samsvarandi virði félagsins. Eiginlegt söluverð, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, sé því 1.094.000.000 króna (1.250.000.000 króna – 156.000.000 króna), sem sé 48.800.000 krónum lægra en viðmiðunarverð samningsins.
Stefndi telur bersýnilegt að grein 9.1 í samningi aðila sé reist á því að hlutdeild stefnanda í söluvirði Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., umfram virðismat stefnanda, ráðist af því að stefndi öðlist hagnað eða virðisauka af eign sinn í félaginu án frekara fjárframlags en það sem ákveðið hafi verið í samningnum. Stefnandi hafi viljað áskilja sér hlutdeild í verðmætaaukningu sem skapaðist vegna markaðsaðstæðna og velgengni útgerðarfélagsins og félli í hlut stefnda á næstu fimm árum, án sérstakra fjárframlaga hans til félagsins. Grein 9.1 í samningnum hafi miðast við að stefndi legði útgerðarfélaginu til 100.000.000 króna til viðbótar við eigið fé, sem hann og hafi gert. Þá sé einnig bersýnilegt af grein 9.1 að frá þeirri fjárhæð sem yrði til fyrir mismun á söluverði og matsvirði stefnanda skyldi draga allan kostnað af kaupunum sem legðist á stefnda til að tryggja skaðleysi hans af fjárframlögum til útgerðarfélagsins.
Stefndi telur að í kjölfar athugasemda hans við 13. gr. draga að samkomulagi aðila hafi stefnandi tekið tillit til sjónarmiða stefnda um að hann yrði skaðlaus ef hann legði útgerðarfélaginu til meira fé en áskilið hafi verið í samningi aðila í því skyni að auka verðmæti félagsins umfram virðismat stefnanda á félaginu, þ.e. 1.142.800.000 krónur.
Í grein 9.1 í samningi aðila sé vísað til sölukostnaðar stefnda og skattkvaða sem kunni að falla á hann. Stefndi telji vafalaust að annan kostnað eða útgjöld sem varði söluna beri einnig að fella undir ákvæðið. Sé við það miðað beri að reikna hlutdeild stefnda með þeim hætti að matsvirðið sé dregið frá viðmiðunarverðinu og fáist þá 107.200.000 krónur. Séu 156.000.000 króna dregnar þar frá liggi fyrir að 48.800.000 krónur vanti upp á til þess að stefndi verði skaðlaus af hinu sérstaka hlutafjárframlagi til Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., að frádregnum sölukostnaðinum. Það hafi því enginn hagnaður verið af sölunni til að skipta með stefnanda.
Stefndi, sem eini hluthafi í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., hafi lagt 156.000.000 króna til hlutafjárhækkunar í félaginu, að kröfu kaupanda félagsins. Í 4. kafla kaupsamnings milli stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf. komi fram sú forsenda og það skilyrði fyrir kaupsamningnum, að hlutafé félagsins yrði 257.000.000 króna. Í 2. viðauka samningsins sé kveðið á um að stefndi hafi greitt upp lán hjá stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Framangreind hlutafjárhækkun hafi verið nýtt til að greiða niður það lán félagsins við stefnanda. Í raun hafi sölumismunur verið neikvæður fyrir stefnda þegar horft sé til þessara þátta, eins og gerð hafi verið grein fyrir.
Að framangreindu virtu eigi stefnandi ekki rétt á hlutdeild í söluvirði Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. enda hafi ákvæði þar um, í samningi aðila frá 20. desember 2013, grundvallast á þeirri forsendu að stefndi hagnaðist af sölu félagsins, miðað við forsendur samningsins. Sá skilningur stefnanda, að hagnaður væri forsenda fyrir hlutdeild stefnanda, komi skýrt fram í framlögðu bréfi hans til stefnda 31. mars 2016. Í bréfinu staðfesti stefnandi að kæmi til þess að stefndi seldi hluti sína í félaginu á hærra verði en lagt hafi verið til grundvallar þegar afskrift hafi verið ákveðin þá yrði hagnaði vegna sölunnar skipt milli eiganda og bankans. Þar sem enginn hagnaður hafi verið af sölunni, samkvæmt grein 9.1 í samningnum, geti ákvæðið ekki leitt til þess að stefnandi eigi lögvarinn rétt til greiðslu úr hendi stefnda.
Stefndi byggir á því að sá skilningur hafi verið milli aðila þegar Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hafi verið selt að stefndi hefði ekki hagnast á sölu hlutanna, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Um þetta vísar stefndi til þess að stefnandi hafi staðfest endanlegar efndir á samningi aðila í mars 2014, sbr. framlagt skjal þar um, dagsett 28. mars 2014, án þess að vísað sé til umþrætts ákvæðis né gerður fyrirvari vegna greiðslu um mismun vegna söluhagnaðar. Í téðu skjali sé vísað til stefnda sem samningsaðila. Með vísan til þessa og þess sem að framan greinir hafi stefndi mátt líta svo á að uppgjöri milli aðila væri lokið og að stefnandi myndi ekki krefjast frekari greiðslna. Byggir stefndi á því að framangreindri staðfestingu stefnanda frá mars 2014 megi jafna til fullnaðaruppgjörs og þar með geti stefnandi ekki talist eiga réttmæta kröfu á hendur stefnda.
Þá hafi stefnandi ekkert aðhafst í kjölfar þess að honum hafi verið sendur kaupsamningur stefnda og Icelandic Group um Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. Stefnandi hafi ekki leitað greiðslu fyrr en ríflega ári eftir að kaupin hafi verið gerð, í maí 2015. Þá hafi stefnandi ekki gert formlega kröfu á hendur stefnda fyrr en í október 2015. Stefnandi hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti með athafnaleysi sínu í þetta langan tíma og í ljósi vitneskju hans um söluna og skilmála hennar og viðbragða hans í kjölfarið.
Þá byggir stefndi á því að brostnar forsendur séu fyrir því að hann sé greiðsluskyldur samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Forsenda greiðslu til stefnanda hafi verið að hagnaður yrði af sölu hluta stefnda í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., án frekari framlaga stefnda til félagsins. Stefndi hafi hins vegar verið knúinn til þess að leggja félaginu til nýtt hlutafé að fjárhæð 156.000.000 króna, að kröfu kaupanda, svo greiða mætti niður skuldir félagsins við stefnanda. Við það hafi forsendur brostið fyrir því að 1.250.000.000 króna söluverð væri viðmiðun um hagnaðarhlutdeild stefnanda. Með viðbótarframlaginu hafi skuldir útgerðarfélagsins við stefnanda lækkað verulega. Við það hafi áhætta stefnanda af lánveitingum hans til félagsins minnkað umtalsvert. Þá hafi hlutdeild stefnanda í hagnaði af sölunni grundvallast á þeirri forsendu að skuldastaða útgerðarfélagsins væri hærri en eignir þess. Það hafi hins vegar ekki verið raunin. Að framangreindu virtu hafi forsendur brostið fyrir því að stefndi greiddi stefnanda hlutdeild af söluandvirði hluta stefnda í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila.
Stefndi byggir einnig á því að verði ekki fallist á framangreint beri að sýkna hann á þeim grundvelli að skuldbindingar stefnda hafi verið reistar á röngum fjárhagslegum forsendum og því sé bæði ósanngjarnt og óheiðarlegt af stefnanda að bera skuldir Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. fyrir sig, eins og þær séu tilgreindar í samningi aðila frá 20. desember 2013. Skuldirnar hafi verið ranglega tilgreindar sem allt of háar og því ekkert tilefni fyrir stefnanda til að seilast í eignarréttindi stefnda í útgerðarfélaginu eða fyrir stefnda að láta knýja sig til þess að samþykkja það. Því beri að víkja til hliðar ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Stefndi kveður að hvorki fyrir gerð samningsins né síðar hafi hann eða útgerðarfélagið fengið sundurliðun á því hvernig skuldir félagsins hafi verið reiknaðar út. Þegar stefndi hafi beðið um skýringar hafi svar stefnanda verið á þá leið að það hefði enga þýðingu að upplýsa það, þar sem fyrir lægi að skuldir útgerðarfélagsins væru verulega hærri en verðmæti félagsins og það sem út af stæði færi hvort eð er til afskriftar. Í janúar 2016 hafi stjórnarformaður stefnda óskað eftir því við starfsmann stefnanda að hann léti honum í té gögn um endurreikning á lánum útgerðarfélagsins. Í svari bankans segi m.a. „Það finnast engin gögn um endurreikning á lánum félagsins og eftir að hafa fullreynt leit og skoðað málið nánar með tilliti til endurreiknings, þá er talið lánin hafi aldrei fengið endurreikning og ættu ekki að fá slíkan endurreikning“.
Hvað þessa málsástæðu varðar vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki endurreiknað samninga hans við Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. um lán bundin ólögmætri gengistryggingu, eins og hann hafi lýst yfir að hafa gert við endurskipulagningu fjármála félagsins í árslok 2012. Lán nr. 0106-36-12394, sem tekið hafi verið til endurfjármögnunar fjögurra eldri lána, hafi aðeins verið endurreiknað frá þeim tíma þegar lánunum hafi verið steypt saman árið 2009. Hvert og eitt hinna fjögurra lána hafi hins vegar ekki verið endurreiknað frá upphafi, eins og drög að samkomulagi um endurfjármögnun frá mars 2012 hafi gefið til kynna. Stefndi kveður að stjórnendum Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi ekki verið kunnugt um að endurreikningur lánanna hafi verið með þessum hætti fyrr en löngu síðar. Í stefnu málsins sé viðurkennt að þetta samsteypulán myndi lækka um hér um bil 170.000.000 króna væri endurreikningur miðaður við upphafstíma einstakra lána. Stefndi telji hins vegar að lækkunin yrði meiri. Sé hins vegar miðað við framangreinda fjárhæð úr stefnu málsins þá hefðu samanlagðar skuldir Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. átt að vera um 1.084.000.000 króna.
Stefnandi hafi því gefið ranga yfirlýsingu til útgerðarfélagsins og stefnda, sem hafi lagt hana til grundvallar við gerð samnings aðila frá 20. desember 2013. Að því marki sem stefnandi kynni að hafa endurreiknað lánin, þá hafi það aðeins verið gert frá árinu 2009 þegar stefnandi hafi steypt saman eldri lánssamningum og endurlánað útgerðarfélaginu með nýjum samningi, dagsettum 27. mars 2009. Lánin hafi því ekki verið endurreiknuð frá upphafstíma lánanna sem hafi verið frá árunum 2004, 2006 og 2007. Höfuðstóll hins nýja láns hafi því verið mun hærri en efni hafi staðið til. Stefnandi hafi mátt vita að gengistrygging hinna eldri lána hafi verið ólögmæt, ef ekki strax árið 2009 þá í síðasta lagi þegar endurskipulagning fjármála félagsins hafi farið fram árið 2012. Endurfjármögnun stefnanda, samkvæmt samningi aðila, hafi því verið reist á tölulega röngum forsendum, sem varði stefnda vegna skilyrðisins um að stefndi léti af hendi hlutdeild í söluhagnaði, kæmi til sölu útgerðarfélagsins.
Að mati stefnda hafi hinar röngu tölulegu forsendur verið grundvöllur þess að stefndi hafi látið til leiðast, undir þrýstingi, að fallast á að 50% af framtíðarsöluhagnaði á hlutum hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. skyldu greiðast stefnanda. Hefðu hin erlendu lán útgerðarfélagsins verið endurreiknuð í íslenskar krónur hefði skulda- og rekstrarstaða félagsins verið önnur og lægri en skráð hafi verið í samningi aðila frá 20. desember 2013. Hefði þá ekki komið til þess að stefnandi gæti knúið stefnda til að undirgangast framangreinda skilmála.
Stefndi vísar til þess að stefnandi viðurkenni í stefnu málsins að lánssamningur frá 2007 hafi verið of hár sem nemi 170.124.184 krónum. Það sé mat stefnda að lánin hafi öll verið bundin ólögmætri gengistryggingu og því öll verið of hátt reiknuð í samningi aðila. Stefndi byggir á því að það sé óheiðarlegt og andstætt góðum viðskiptaháttum að stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að endurreikna lánin við gerð samningsins. Stefndi geti réttilega borið fyrir sig mótbárur vegna rangra forsendna að baki skuldastöðu útgerðarfélagsins gagnvart stefnanda í samningi aðila, í ljósi reglna kröfuréttar um framsal almennra krafna.
Þá vísar stefndi til 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kveður hann fyrrnefnd lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. öll hafa verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Lánssamningurinn frá 29. nóvember 2007 sé um lán bundið ólögmætri gengistryggingu, sbr. ófrávíkjanleg ákvæði 12. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011. Í framlögðu bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 31. mars 2016, sé viðurkennt af hálfu stefnanda að lán samkvæmt samningnum sé bundið ólögmætri gengistryggingu. Eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint sé tilgreind í samningnum, hafi verið í íslenskum krónum. Ekki leiki vafi á að samningurinn hafi verið um skuldbindingu í íslenskum krónum og að það hafi verið óheimilt samkvæmt lögum.
Stefndi byggir einnig á því að lánssamningar frá 2004 (nr. 83650008, 83650007 og 83650008), 2005 (nr. 83640026 og 83640027) og 2006 (nr. 83640020, 83640021 og 83540022) hafi verið um lán bundin ólögmætri gengistryggingu. Allir samningarnir séu svipaðir að formi og uppsetningu, að því leyti sem máli skiptir vegna ágreinings þessa máls. Samningarnir beri yfirskriftina „ERLENT ENDURLÁN“. Samkvæmt ákvæðum samninganna hafi stefndi viðurkennt að skulda Sparisjóðnum í Keflavík tilgreindar fjárhæðir í erlendum myntum, eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum, miðað við sölugengi þeirra mynta sem tilteknar hafi verið, á gjalddaga eða greiðsludegi, því sem hærra reyndist. Vextir skyldu vera LIBOR-vextir. Þá sé kveðið á um það í samningunum að lántaki veiti lánveitanda heimild til að skuldfæra tékkareikning hans í íslenskum krónum fyrir afborgunum, vöxtum og innheimtukostnaði af láninu á gjalddögum. Í samningunum sé einnig kveðið á um að dragist greiðsla fram yfir gjalddaga sé skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu halda á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags. Þá sé kveðið á um að ef gengistrygging héldist í gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga skyldi greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög. Engin þörf hefði verið á að kveða á um slíkt hefði lánið í raun verið í erlendum myntum, eins og stefnandi haldi fram. Stefndi vísar jafnframt til þess að erlendar myntir hafi ekki skipt um hendur og að báðir aðilar hafi uppfyllt aðalskyldur sínar samkvæmt samningunum með greiðslu íslenskra króna. Með því að íslenskar krónur skiptu í raun um hendur þá teljist lánin hafa verið í íslenskum krónum, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 391/2013.
Öll lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi því verið í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og þar með ólögmæt, sbr. ófrávíkjanleg ákvæði 12. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. sömu laga. Að því virtu hafi fjárhagsleg endurskipulagning Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. verið reist á röngum tölulegum forsendum. Uppreiknuð staða lána félagsins hafi verið of há miðað við lögmætar forsendur.
Að mati stefnda virðist stefnandi hafa með ólögmætum hætti gjaldfellt eftirstöðvar útistandandi lána Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. eftir að endurskipulagning fjármála félagsins hafi verið samþykkt af hálfu stefnanda. Við fyrstu drög að samningi aðila, í maí 2012, hafi skuldastaða útgerðarfélagsins við stefnanda verið reiknuð 1.254.469.844 krónur. Í endanlegum samningi, um það bil 18 mánuðum síðar, hafi skuldastaðan verið metin 1.514.000.000 króna, miðað við 9. október 2013. Verri skuldastaða hafi haft veruleg áhrif á samningsstöðu aðila og forsendur endurfjármögnunarsamningsins.
Vegna atvika sem varði stefnanda hafi umrætt samkomulag ekki verið staðfest en í júlí 2012 hafi stefnandi borið því við að skjöl vegna endurskipulagningar Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hjá bankanum hefðu týnst og hafi stefnandi látið undir höfuð leggjast að útbúa skjölin að nýju, svo staðfesta mætti samninginn.
Samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 hafi staða þeirra lána, sem greiða skyldi með nýrri lánum, verið samtals að fjárhæð 1.514.797.000 krónur. Lánin hafi því hækkað um 260.327.156 krónur frá upphaflegu samkomulagi. Að mati stefnda bendi þessi hækkun til þess að stefnandi hafi gjaldfellt og reiknað dráttarvexti á lánin árið 2012. Stefndi hafi hins vegar engar upplýsingar fengið um hvenær það hafi verið gert enda hafi félagið ekki fengið tilkynningu þess efnis.
Stefnanda hafi borið skylda til þess að sýna stefnda og Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. tillitsemi í samningssambandi og þar af leiðandi verið óheimilt að gjaldfella lánin og reikna á þau dráttarvexti. Fyrir hafi legið að stefndi og útgerðarfélagið hafi verið reiðubúin að ljúka samkomulaginu í maí 2012 og hafi skilað stefnanda gögnum. Stefnandi hafi hins vegar dregið lappirnar við fráganginn og borið því við að hafa týnt gögnunum. Skrifleg staðfesting samkomulagsins, sem staðfest hafi verið munnlega, hafi því tafist af ástæðum sem varðað hafi stefnanda eingöngu. Stefnandi hafi því ekki haft ástæðu til þess að beita vanefndaúrræðum gagnvart útgerðarfélaginu og hafi hvorki haft heimild til þess að gjaldfella lánin né til þess að reikna dráttarvexti og færa á höfuðstól, sér í lagi í ljósi þess að lánin hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu og að stefnandi hafi ekki endurreiknað þau þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að hann hafi gert það. Þetta hafi enn fremur leitt til þess að skuldir útgerðarfélagsins hafi verið ranglega taldar í samningi aðila. Stefndi byggi því á því að ólögmæt gjaldfelling lánanna leiði til rangra forsendna í samningi aðila og að ógilda beri grein 9.1 í samningnum og sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Stefndi byggir enn fremur á því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðum viðskiptavenjum að stefnandi beri fyrir sig grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, sbr. 36. og 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Grundvöllur samningsins hafi byggst á röngum forsendum sem lúti að því að skuldastaða Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi verið reiknuð hærri en raunin hafi verið. Stefnandi hafi mátt vita um hina ólögmætu háttsemi allan tímann, bæði að því er varði ólögmæta gengistryggingu lánanna og ólögmæta gjaldfellingu þeirra. Að mati stefnda hafi það verið afar óvenjulegt og andstætt góðum viðskiptavenjum að þröngva hann, sem í raun hafi verið þriðji aðili utan samninga útgerðarfélagsins og stefnanda, til þess að taka á sig skuldbindingu gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi ekki átt neinn lögvarinn rétt til þeirra skuldbindinga. Stefnandi sé fjármálafyrirtæki og um starfsemi slíkra félaga gildi lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 19. gr. laganna skuli fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Háttsemi stefnanda í aðdraganda og við gerð samnings aðila hafi, að mati stefnda, verið í meira lagi óeðlileg og andstæð skyldum stefnanda á grundvelli framangreindra laga.
Þegar ráðist hafi verið í fjárhagslega endurskipulagningu á Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. hafi verið ljóst að skuldbindingar félagsins hafi verið orðnar þungar í vöfum sökum gengisfalls krónunnar seinni hluta ársins 2008. Stefnandi hafi haft það á valdi sínu að setja félagið í þrot. Í framlögðum tölvuskeytum aðila komi fram að ef skilmálar stefnanda yrðu ekki samþykktir myndi hann hlutast til um að selja eignir útgerðarfélagsins upp í skuldir. Stefndi kveður þetta hafa falið í sér yfirlýsingu um að útgerðarfélagið yrði sett í gjaldþrot. Stefndi og útgerðarfélagið hafi því ekki átt annarra kosta völ en að samþykkja skilmála stefnanda og í kjölfarið hafi stefndi skilað stefnanda öllum umbeðnum gögnum svo staðfesta mætti samninginn. Í raun hafi stefnda, sem eina hluthafa útgerðarfélagsins, verið settir þeir afarkostir í framlögðu tölvuskeyti starfsmanns stefnanda að ganga að tillögum stefnanda eða að stöðva starfsemi félagsins. Öllum aðilum hafi verið ljóst hvað seinni kosturinn þýddi fyrir útgerðarfélagið og stefnda, sem eiganda félagsins. Við þær aðstæður og til að forða þroti útgerðarfélagsins hafi stefndi fallist á að gefa stefnanda hlutdeild í söluhagnaði á félaginu, miðað við verðmat stefnanda, kæmi til sölu félagsins. Skoða verði vilja stefnda til samningsgerðar í því ljósi enda augljóst að ekki hafi verið jafnræði með aðilum. Í stefnu málsins sé endurútreikningur stefnanda sem miði við ólögmæti lánssamningsins frá 2007. Niðurstaða stefnanda sé að endurreikningur leiði í ljós að lán nr. 12394 hefði þá átt að vera 170.124.184 krónum lægra en miðað hafi verið við í samningi aðila. Þar að auki hafi stefnandi með ólögmætum hætti gjaldfellt lán útgerðarfélagsins með þeim afleiðingum að skuldastaða félagsins hafi verið 260.327.156 krónum hærri í samningnum en hún hefði átt að vera.
Að framangreindu virtu byggir stefndi á því að afskriftarlánið, að fjárhæð 511.300.000 krónur, hafi ekki falið í sér neinar teljandi afskriftir af lánum Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Því sé óréttmætt og ósanngjarnt fyrir stefnanda að bera fyrir sig ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila.
Í samningi aðila frá 20. desember 2013 sé gert ráð fyrir því að stefnandi verði lánveitandi Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. á næstu árum. Af því hafi ekki orðið þar sem öll lán félagsins hafi verið gerð upp í kjölfar sölu stefnda á hlutum hans í félaginu. Því hafi stefnandi ekki borið áhættu af rekstri félagsins eins og ráðgert hafi verið. Það hafi augljóslega verið stefnanda til hagsbóta. Að því virtu sé það ósanngjarnt fyrir stefnda að stefnandi beri fyrir sig ákvæði greinar 9.1 í samningnum og beri þar af leiðandi að víkja ákvæðinu til hliðar og sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Með vísan til framangreindrar umfjöllunar byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi hafi misnotað sér yfirburðastöðu sína gagnvart félaginu, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem hann hafi aflað og áskilið sér hagsmuni án nokkurs endurgjalds, á grundvelli greinar 9.1 í samningi aðila. Stefndi byggir einnig á því, framangreindu til stuðnings og sem sjálfstæðri málsástæðu, að í ljósi hlutafjárhækkunar Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., með eiginfjárframlagi stefnda, sé bersýnilega ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig söluhagnaðarákvæði í samningnum, vegna atvika sem síðar hafi komið til. Vísast um þetta til fyrri umfjöllunar. Að því virtu beri að víkja ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila til hliðar og sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis. Með kaupsamningi, dagsettum 26. febrúar 2014, hafi stefndi selt Icelandic Ný-Fiski hf. hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Engum vafa sé undirorpið að stefnandi hafi vitað um söluna frá upphafi enda hafi útistandandi lán útgerðarfélagsins verið gerð upp samhliða henni. Þá mótmæli stefnandi því ekki að hann hafi vitað af sölunni.
Með hliðsjón af því að stefndi hafi í raun ekki hagnast af sölunni, að teknu tilliti til hlutafjárhækkunarinnar, hafi stefndi mátt líta svo á að stefnandi teldi ekki grundvöll fyrir því að krefja stefnda um greiðslu samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Þar að auki hafi staðfesting stefnanda á efndum samnings aðila, dagsett 28. mars 2014, gefið stefnda lögmætar og réttmætar væntingar um að ekki yrði krafist umþrætts mismunar söluverðs og matsvirðis félagsins, enda sé þar hvergi gerður fyrirvari vegna ákvæðisins né vísað til þess með nokkrum hætti.
Stefndi kveður að stefnanda hafi verið kunnugt um uppgjör á grundvelli kaupsamningsins við Icelandic Ný-Fisk hf. um Útgerðarfélag Sandgerðis ehf., samkvæmt uppgjörssamkomulaginu frá 4. apríl 2014. Stefndi vísar um það til þess að Icelandic Ný-Fiskur hf. hafi verið dótturfyrirtæki Icelandic Group, sem hafi að hluta til verið í eigu stefnanda. Þá hafi stefnandi verið viðskiptabanki Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. og Icelandic Group. Stefndi vísar einnig til þess að í óformlegum samskiptum aðila hafi stefndi ítrekað að í ljósi þeirra verðmætaaukningar sem leiddi af hlutafjárframlagi stefnda í útgerðarfélaginu, að fjárhæð 156.000.000 króna, umfram skyldur hans samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013, væri engu til að skipta. Í kjölfarið hafi ekkert heyrst frá stefnanda og hafi stefndi litið svo á að þar með væri málum milli aðila lokið, varðandi endurskipulagningu á útgerðarfélaginu og efndir samnings þar um.
Það hafi ekki verið fyrr en með kröfubréfi, dagsettu 6. október 2015, að stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu með vísan til samnings aðila. Þá hafi rúmlega eitt og hálft ár verið liðið frá kaupsamningi aðila 26. febrúar 2014. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi, með aðgerðarleysi sínu glatað kröfu sinni. Í ljósi þess tíma sem liðið hafi frá sölunni þar til stefnandi hafi krafist greiðslu hafi stefndi mátt telja að krafan væri niður fallin. Stefndi hafi þar að auki mátt hafa réttmætar væntingar um að stefnandi félli frá kröfu sinni með vísan til samnings aðila, sér í lagi í ljósi þeirra atvika sem að framan sé lýst, hvernig umþrætt ákvæði hafi komið til og vegna uppgjörs í kjölfar sölunnar til Icelandic Ný-Fisks hf. Krafa stefnanda sé þar af leiðandi fallin niður sökum tómlætis stefnanda og beri af þeim sökum að sýkna stefnda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda byggir hann á því að lækka skuli kröfur stefnanda verulega og að miða eigi upphafstíma dráttarvaxta við uppsögu endanlegs dóms í málinu.
Í grein 9.1 í samningi aðila sé kveðið á um að draga skuli kostnað stefnda af sölu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. frá söluandvirði, að hámarki 1% af söluandvirðinu. Sé miðað við að söluandvirði hlutafjár stefnda í útgerðarfélaginu hafi verið 1.250.000.000 króna, sé hámarksfrádráttur vegna sölukostnaðar 12.500.000 krónur. Sölukostnaður stefnda vegna sölu á hlutafé hans hafi falið í sér kostnað vegna þjónustu þriggja aðila og hafi verið á bilinu 50-60.000.000 króna. Inni í þeirri fjárhæð sé falinn kostnaður vegna þjónustu Markó Partners ehf., að fjárhæð 30.000.000 króna, án virðisaukaskatts, samkvæmt framlögðum reikningi. Þar af leiðandi geti dómkrafa stefnanda aldrei verið hærri en sem nemi 45.350.000 krónum.
Stefndi mótmælir einnig upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt kröfugerð stefnanda. Í samningi aðila sé ekki minnst á gjalddaga vegna kröfu á grundvelli greinar 9.1 í samningnum. Krafa um dráttarvexti geti því í allra fyrsta lagið komið til álita mánuði eftir að stefnandi hafi sannarlega krafið stefnda um greiðslu kröfunnar, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnandi hafi fyrst krafið stefnda um efndir með bréfi, dagsettu 6. október 2015.
Stefndi byggir hins vegar á því að ekki sé unnt að miða upphafstíma dráttarvaxta fyrr en við uppsögu endanlegs dóms í málinu enda fjárhæð kröfunnar ekki ljós við fyrra tímamark, eða hver sé réttmætur grundvöllur hennar.
Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar, reglum um rangar og brostnar forsendur, 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sérstaklega 19. gr. þeirra laga. Stefndi byggir einnig á óskráðum reglum um tómlæti og trúnaðar- og tillitsskyldu í samningssambandi. Þá vísar stefndi til 12. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og til III. kafla sömu laga. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013. Ákvæðum samningsins er í grófum dráttum lýst hér að framan. Byggir stefnandi kröfu sína nánar tiltekið á grein 9.1 í samningnum, sem kveður á um að selji stefndi hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. innan fimm ára frá undirritun samningsins, á hærra verði en því virði sem stefnandi mat þá félagið, að fjárhæð 1.146.800.000 krónur, rynni 50% af söluandvirðinu, sem væri umfram fyrrgreint eignavirði, til stefnanda. Rúmlega tveimur mánuðum eftir undirritun samningsins seldi stefndi Icelandic Ný-Fiski ehf. alla hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Greint er frá helstu ákvæðum kaupsamningsins, sem máli skipta við úrlausn þessa máls, hér að framan. Samkvæmt samningnum var kaupverð fyrir alla hluta stefnda í útgerðarfélaginu 1.250.000.000 króna. Mismunurinn á tilgreindu söluverði og metnu eignavirði félagsins samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila er 103.200.000 krónur og byggir stefnandi á því að helmingur þeirrar fjárhæðar, 51.600.000 krónur, eigi að renna til hans.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að endanlegt söluverð fyrir hluta hans í útgerðarfélaginu hafi verið 446.274.174 krónur, líkt og fram komi í uppgjörssamkomulagi hans við kaupandann, Icelandic Ný-Fisk hf., enda hafi stefndi aðeins fengið þá fjárhæð í sinn hlut. Söluverð samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila hafi því ekki verið hærra en metið eignavirði félagsins.
Samkvæmt skýru orðalagi greinar 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013 var tilgreind fjárhæð, 1.146.800.000 krónur, metið eignavirði útgerðarfélagsins á þeim tíma þegar samningurinn var gerður. Samkvæmt orðanna hljóðan felur það í sér metið virði eigna félagsins án tillits til skulda. Ekki liggur fyrir skýr sundurliðun á því hvernig stefnandi mat eignavirði félagsins en þó er lagt fram í málinu tölvuskeyti sem Ragnar Hilmarsson, starfsmaður stefnanda, sendi Alberti Sveinssyni, forsvarsmanni stefnda, 30. september 2013. Í skeytinu er fjallað um muninn á því að nota áramótauppgjör eða sex mánaða uppgjör. Miðað við sex mánaða uppgjör er staða eigna sett fram með eftirfarandi hætti:
|
Eignir |
Virði |
|
Von bátur |
50.000 |
|
Von kvóti |
960.533 |
|
Kröfur |
24.756 |
|
Birgðir |
277 |
|
Sjóður |
33.680 |
|
Fasteign |
0 |
|
Samtals |
1.069.246 |
|
Sparisjóðabanki |
-132.636 |
|
Íslandsbanki |
0 |
|
Byggðastofnun |
-11.000 |
|
Eignavirði – aðrir en LB |
925.610 |
Í framhaldinu segir í skeytinu að nýuppgerður „Kleópatra 38“ sé meira virði en 50.000.000 króna og ef verðmatið er hækkað um 5.000.000 króna þá sé talan orðið sú sama og ef notast væri við áramótauppgjör. Samtals verðmæti eigna sé þá 1.075.000.000 króna en nettó verðmæti fyrir stefnanda sé 930.500.000 krónur. Svipuð framsetning er á mati eigna í tölvuskeyti Ragnars frá 26. september 2013. Þá er óumdeilt í málinu að helsta ástæða þess að aðilar gerðu með sér samninginn var að útgerðarfélagið var á þessum tíma í fjárhagserfiðleikum og voru skuldir þess metnar á yfir einn milljarð króna. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af skýru orðalagi greinar 9.1 mátti báðum aðilum málsins vera ljóst við gerð samningsins frá 20. desember 2013 að tilgreind fjárhæð, 1.146.800.000 krónur, vísaði til mats á virði eigna félagsins án tillits til skulda.
Sé grein 9.1 í samningi aðila lesin í heild sinni verður jafnframt að leggja þann skilning í ákvæðið að þar sem vísað er til verðs og söluandvirðis sé átt við söluverð sem miði, með sama hætti, við verðmæti félagsins án tillits til skulda.
Í grein 3.1 í kaupsamningi stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf., dagsettum 26. febrúar 2014, er kaupverð fyrir alla hluti í útgerðarfélaginu tilgreint 1.250.000.000 króna. Í kaupsamningnum er ekki greint frá því hvað metið eignavirði félagsins sé en ætla má, sé samningurinn lesinn í heild sinni, að kaupverðið endurspegli virði félagsins án tillits til skulda. Í samræmi við þann skilning er í ákvæði 3.3 tekið fram að kaupverðið miðist við að nettó vaxtaberandi skuldir félagsins séu engar og að nettó veltufé félagsins sé ekkert. Þar af leiðandi er það mat dómsins að umsamið söluverð fyrir útgerðarfélagið, 1.250.000.000 króna, sé það verð sem leggja beri til grundvallar samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013.
Það styður framangreinda niðurstöðu að í grein 3.3 í kaupsamningnum er greint frá því að þrátt fyrir að söluverð miðist við að nettó vaxtaberandi skuldir félagsins séu engar séu aðilar sammála um að áætlaðar nettó vaxtaberandi skuldir félagsins við undirskrift séu 850.000.000 króna og að tekið verði tillit til þess við uppgjör samkvæmt samningnum. Samkvæmt uppgjörssamkomulagi stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf. tók kaupandi yfir hluta skulda félagsins sem hluta af uppgjöri samkvæmt kaupsamningnum. Þrátt fyrir orðalag uppgjörssamkomulagsins um að endanlegt kaupverð hafi þarf af leiðandi verið 446.274.174 krónur verður, að framangreindu virtu, ekki fallist á það með stefnda að sú fjárhæð hafi verið söluverð fyrir útgerðarfélagið samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Var þar aðeins vísað til þess að 446.274.174 krónur skiptu um hendur eftir að tekið hafði verið tillit til skulda félagsins sem hluta af uppgjöri á grundvelli kaupsamningsins.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að til frádráttar söluverðinu, 1.250.000.000 króna, eigi að koma framlag hans til Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. að fjárhæð 156.000.000 króna. Þá fjárhæð lagði stefndi útgerðarfélaginu til með því að auka hlutafé félagsins 12. febrúar 2014, úr 101.500.000 krónum í 257.500.000 krónur. Telur stefndi að þetta framlag hans hafi aukið virði félagsins og að eiginlegt söluverð hafi þar af leiðandi verið 1.094.000.000 króna, sem sé lægra en metið eignavirði samkvæmt samningi aðila.
Líkt og að framan greinir er það mat dómsins að í grein 9.1 í samningi aðila sé skýrt kveðið á um að hlutdeild stefnanda í umframvirði útgerðarfélagsins við sölu þess ráðist eingöngu af því hvort söluverð verði hærra en metið eignavirði. Sá skilningur stefnanda á ákvæðinu, sem fram kemur í bréfi hans, dagsettu 31. mars 2016, samræmist skýru orðalagi ákvæðisins. Segir í bréfinu að rökin fyrir ákvæði greinar 9.1 hafi verið að vegna þeirrar óvissu sem ríkt hafi um verðmæti útgerðarfélagsins hafi þótt eðlilegt að gera þann fyrirvara við afskrift stefnanda á skuldum umfram metið eignavirði að kæmi til þess að stefndi seldi hluti sína í félaginu á hærra verði en lagt hafi verið til grundvallar þegar afskrift hafi verið ákveðin, þá yrði hagnaði vegna sölunnar skipt milli stefnda og stefnanda. Af hálfu stefnanda er því fjallað um hagnað sem mismun á söluverði og metnu eignavirði, líkt og fram kemur í ákvæðinu sjálfu. Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins verður ekki talið að stefnda hafi tekist að færa fullnægjandi rök fyrir því að grein 9.1 í samningnum hafi verið reist á því að hlutdeild stefnanda í söluvirði útgerðarfélagsins, umfram virðismat stefnanda, ætti að ráðast af hagnaði stefnda eða virðisauka án frekara fjárframlags en þess sem ákveðið hafi verið í samningnum.
Ágreiningslaust er að nýtt hlutafé, að fjárhæð 156.000.000 króna, var samkvæmt samkomulagi stefnanda, stefnda og kaupanda, Icelandic Ný-Fisks hf., notað til þess að greiða upp lán útgerðarfélagsins samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Lánið var að fjárhæð 1.444.099 evrur, eða um 229.400.000 krónur. Í d-lið greinar 3.1 í samningnum er kveðið á um að greiði stefndi upp lánið að hluta eða í heild fyrir 1. mars 2014 og greiðslan sé að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé, sem hluthafar eða aðrir hafi lagt félaginu til, þá muni stefnandi til viðbótar við slíka innborgun færa lánið niður um 33% af innborgaðri fjárhæð. Óumdeilt er í málinu að stefnandi færði niður eftirstöðvar lánsins í samræmi við framangreint ákvæði, sbr. og framlagða staðfestingu um efndir á samningnum, dagsetta 28. mars 2014.
Í samræmi við það sem áður hefur verið rakið um metið eignavirði félagsins samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila og söluverð samkvæmt kaupsamningnum frá 26. febrúar 2014, verður ekki fallist á það með stefnda að hlutafjáraukning hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. 12. febrúar 2014 hafi falið í sér eignaaukningu þannig að áhrif hafði á eignavirði félagsins. Hlutafjáraukningin var nýtt til að greiða niður skuldir sem, samkvæmt framansögðu, voru ekki metnar inn í metið eignavirði eða söluverð útgerðarfélagsins. Þá verður að líta til þess að þar sem stefndi hafði lækkað skuldir útgerðarfélagsins fyrir undirritun kaupsamningsins fékk hann, samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins um uppgjör, hærri fjárhæð greidda í hönd en ella. Er þá ekki aðeins að líta til framlags stefnda að fjárhæð 156.000.000 króna heldur einnig til niðurfærslu stefnanda á eftirstöðvum lánsins. Samtals höfðu skuldir útgerðarfélagsins því lækkað um sem nemur um 230.000.000 króna sem var ótvírætt stefnda til hagsbóta við sölu félagsins skömmu síðar. Er þar af leiðandi ekki fallist á það með stefnda að fjárframlag hans að fjárhæð 156.000.000 króna eigi að koma til frádráttar söluverði fyrir útgerðarfélagið.
Stefndi byggir einnig á því að framangreint framlag hans að fjárhæð 156.000.000 króna eigi að koma til frádráttar sem kostnaður eða útgjöld við söluna samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Ekki verður fallist á það með stefnda að niðurgreiðsla lána hins selda félags teljist til kostnaðar við söluna. Þá verður að líta til þess að stefnandi færði niður eftirstöðvar lánsins, til móts við fjárframlag stefnda. Sýnt þykir að stefndi hafi þar af leiðandi fengið meira fjármagn í hendur við sölu félagsins en hefði hann ekki greitt lánið og enn meira sökum mótframlags stefnanda í formi niðurfærslu eftirstöðva lánsins. Þar af leiðandi og í ljósi alls þess sem að framan er rakið er ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda.
Stefndi byggir enn fremur á því að stefnandi hafi staðfest endanlegar efndir á samningi aðila með framlagðri staðfestingu, dagsettri 28. mars 2014, án þess að gera fyrirvara um greiðslu vegna mismunar á söluverði og metnu eignavirði útgerðarfélagsins. Samkvæmt framlögðum tölvuskeytum milli aðila má ljóst vera að stefnandi gaf út staðfestingu um efndir á samningi aðila að beiðni stefnda vegna sölunnar á útgerðarfélaginu. Í staðfestingunni er einungis staðfest hvaða lán, samkvæmt grein 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, hafi verið greidd, hver ekki og hverjar afskriftir stefnanda hafi verið. Samkvæmt efni sínu felur staðfestingin því ekki í sér staðfestingu stefnanda á fullum efndum samkvæmt samningi aðila og verður stefnandi því ekki talinn, með útgáfu staðfestingarinnar, hafa fyrirgert rétti sínum til fullra efnda á samningnum.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á tómlæti stefnanda við innheimtu kröfu sinnar samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Af hálfu stefnanda var forsvarsmönnum stefnda sent tölvuskeyti 10. mars 2014, um tveimur vikum eftir að kaupsamningurinn um Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. var undirritaður. Í skeytinu kemur fram að eitt mál sé eftir milli aðila og það sé að fara yfir „pelsákvæðið“. Ágreiningslaust er með aðilum að þar sé vísað til greinar 9.1 í samningi aðila. Í skeytinu er þess óskað að kaupsamningurinn verði sendur stefnanda. Af hálfu stefnda var kaupsamningurinn sendur stefnanda með tölvuskeyti síðar sama dag, með þeirri athugasemd að efndadagur væri ekki runninn upp og að því mætti segja að salan væri ekki fullfrágengin. Af hálfu stefnanda var ítrekað í tölvuskeyti 25. mars 2014 að enn ætti eftir að ræða „pelsákvæðið“. Af þessum samskiptum aðila má ljóst vera að stefnandi bar fyrir sig rétt sinn, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila, beint í kjölfar sölu útgerðarfélagsins án þess að fram kæmu mótmæli af hálfu stefnda. Mátti stefnda því vera ljóst að aðilar ættu eftir að fara yfir uppgjör þeirra á milli á grundvelli greinar 9.1. Þá verður að líta til þess að samkvæmt orðalagi greinar 9.1 er ekki kveðið á um heimild til handa stefnanda til þess að krefjast 50% af söluandvirðinu sem sé umfram metið eignavirði heldur gerast aðilar ásáttir um að sá hluti renni til stefnanda, séu skilyrði ákvæðisins að öðru leyti uppfyllt. Með hliðsjón af framangreindu og því að stefnandi byggir rétt sinn á skýru ákvæði í samningi aðila verður ekki talið að stefndi hafi mátt hafa réttmætar væntingar til að ætla að stefnandi myndi ekki innheimta kröfu sína eftir að uppgjörið lægi fyrir.
Þá er í grein 9.1 í samningi aðila kveðið á um að til skiptingar milli aðila skuli koma sá hluti sem sé umfram metið eignavirði að frádregnum kostnaði stefnda vegna sölu félagsins og hugsanlegra skattgreiðslna stefnda vegna sölunnar. Að því virtu mátti stefnda jafnframt vera ljóst að stefnandi gæti ekki reiknað út endanlega kröfu á grundvelli ákvæðisins án nánari upplýsinga frá stefnda um kostnað og hugsanlegar skattgreiðslur vegna sölunnar. Stefnandi verður af þeim sökum ekki látinn bera hallann af því að stefndi hafi ekki afhent þessar upplýsingar og að liðið hafi rúmt ár þar til stefnandi ítrekaði við stefnda, með tölvuskeyti 13. maí 2015, að enn ætti eftir að fara fram uppgjör á grundvelli greinar 9.1 í samningi aðila. Ítrekaði stefnandi þá jafnframt að draga mætti frá hluta stefnanda í söluandvirðinu kostnað vegna sölunnar og hugsanlegar skattgreiðslur. Af hálfu stefnda var því svarað, með tölvuskeyti sama dag, að taka ætti þessar upplýsingar til og að haft yrði samband síðar. Stefnandi ítrekaði beiðni sína enn á ný, með tölvuskeyti 1. júlí 2015, og hafði þá ekkert heyrst frá forsvarsmönnum stefnda. Í skeyti stefnanda segir að ef ekkert heyrist í forsvarsmönnum stefnda fyrir 15. júlí verði reikningur sendur fyrir 50% af mismun á söluverði og metnu eignavirði samkvæmt samningi aðila. Svör stefnda voru á sama veg og fyrr og sendi stefnandi stefnda að endingu bréf með kröfu sinni 6. október 2015.
Að virtum framangreindum samskiptum aðila er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt af sér tómlæti við að halda uppi kröfu sinni samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Í framangreindum tölvuskeytum koma heldur ekki fram mótmæli stefnda við því að stefnandi geti byggt rétt sinn á grein 9.1 í samningi aðila. Í þessu ljósi verður að hafna málsástæðum stefnda er lúta að tómlæti stefnanda og réttmætum væntingum stefnda.
Stefndi byggir jafnframt á því að brostnar forsendur séu fyrir því að honum beri að greiða kröfu stefnanda samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila þar sem ekki hafi verið hagnaður af sölu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Byggir stefndi á því að framlag hans til hækkunar í hlutafé félagsins, að fjárhæð 156.000.000 króna, eigi að koma til frádráttar meintum hagnaði enda hafi það verið forsenda fyrir söluverði að fjárhæð 1.250.000.000 króna.
Líkt og þegar hefur verið rakið er það mat dómsins að orðalag greinar 9.1 í samningi aðila sé skýrt um að hlutdeild stefnanda skyldi miðast við mismun á söluverði og metnu eignavirði útgerðarfélagsins og að stefnda hafi ekki tekist að sýna fram á að beinn hagnaður hans af sölunni hafi verið forsenda fyrir hlutdeild stefnanda í söluandvirðinu. Hvað sem því líður þá er það niðurstaða dómsins, líkt og að framan greinir, að söluverð félagsins, að fjárhæð 1.250.000.000 króna, hafi miðast við eignir félagsins, án tillits til skulda. Þá hafi stefndi hagnast á því að greiða 156.000.000 króna inn á lán samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila þar sem stefnandi hafi þá, samkvæmt ákvæðinu, fært niður eftirstöðvar lánsins og hafi það verið hagstætt fyrir stefnda við sölu útgerðarfélagsins skömmu síðar. Verður því ekki talið að framlag stefnda til útgerðarfélagsins, að fjárhæð 156.000.000 króna, hafi leitt til þess að forsendur hafi brostið fyrir hlutdeild stefnanda í umframvirði útgerðarfélagsins.
Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að skuldbindingar hans samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 hafi verið byggðar á röngum fjárhagslegum forsendum og að þar af leiðandi hafi verið ósanngjarnt og óheiðarlegt af stefnanda að bera skuldir Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. fyrir sig, eins og þær séu tilgreindar í samningnum. Um rangar forsendur vísar stefndi til þess að skuldir útgerðarfélagsins hafi verið tilgreindar allt of háar í samningi aðila þar sem þær hafi ekki verið endurreiknaðar eða ekki verið endurreiknaðar með réttum hætti, samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og dómum Hæstaréttar Íslands um endurútreikning lána sem bundin eru ólögmætri gengistryggingu. Af þeim sökum beri að víkja ákvæðum greinar 9.1 í samningi aðila til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Við mat á því hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila skal líta til efnis ákvæðisins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Eins og fram hefur komið var samningur aðila frá 20. desember 2013 gerður um fjárhagslega endurskipulagningu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. sem þá var að öllu leyti í eigu stefnda. Samningurinn felur í sér að skuldbindingar útgerðarfélagsins, sem metnar voru u.þ.b. 1.514.000.000 króna, miðað við 9. október 2013, voru endurfjármagnaðar. Fram kemur í grein 9.1 að metið eignavirði félagsins hafi þá verið 1.146.800.000 krónur.
Óumdeilt er í málinu að Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. var í greiðsluerfiðleikum á þessum tíma. Ekki hafa þó verið lögð fram gögn sem sýna fram á það með skýrum hætti hvernig skuldir félagsins voru metnar og gefur orðalag greinar 2.1 í samningi aðila, þar sem vísað er til þess að skuldir félagsins við stefnanda nemi „u.þ.b.“ tilgreindri fjárhæð, til kynna að fjárhæðin sé ekki fastákveðin. Hins vegar ber að líta til þess að í 5. gr. samningsins er fyrirvari um endanlegt uppgjör. Í ákvæðinu segir að komi til þess að útgerðarfélagið eignist einhvern rétt á hendur stefnanda vegna endurreiknings lána félagsins þannig að um ofgreiðslu eða inneign félagsins teljist vera að ræða, þá samþykki félagið að slíkri ofgreiðslu eða inneign verði (i) ráðstafað inn á lán samkvæmt f-lið greinar 3.1, (ii) því næst á móti kröfum stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1, (iii) þá á móti kröfum stefnanda samkvæmt e-lið greinar 3.1, (iv) og að lokum á móti öðrum kröfum stefnanda á hendur félaginu, samkvæmt vali félagsins.
Af hálfu stefnda var stefnanda sent tölvuskeyti 22. maí 2012 þar sem segir: „Falli hæstaréttadómar um erlend lán á þann veg að eigið fé félagsins verði jákvætt við endurútreikning lána verði samningur þessi ógildur.“ Af hálfu stefnanda var þessu svarað með tölvuskeyti síðar sama dag á þann veg að kveðið yrði á um það í 5. gr. samnings aðila að ef lán félagsins yrðu „dæmd niður“ þá færi sú lækkun fyrst á móti afskrift bankans sem væri um 500.000.000 króna og síðan á móti biðláni. Stefndi myndi því ekki missa meiri rétt gagnvart stefnanda þótt hann undirritaði samninginn. Með tölvuskeyti næsta dag er því svarað af hálfu stefnda: „göngum frá þessu á þennan hátt, þ.e. eins og tillagan ykkar gerir ráð fyrir.“
Í ljósi framangreinds og að virtu ákvæði 5. gr. samningsins er ekki hægt að fallast á það með stefnda að mat stefnanda á skuldum Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi verið reist á röngum forsendum, þar sem beinlínis er kveðið á um það í samningnum hvernig fara eigi um mögulega kröfu félagsins á hendur stefnanda á grundvelli endurútreiknings hinna eldri lána, sem gerð voru upp með nýjum lánum samkvæmt samningnum. Þá gekkst stefndi við því að heildarskuldir útgerðarfélagsins yrðu tilgreindar með þessum hætti, með undirritun sinni á samninginn.
Einnig ber að líta til þess að hvorki af hálfu stefnda né útgerðarfélagsins var farið fram á að hin eldri lán yrðu endurútreiknuð við uppgjör á nýjum lánum samkvæmt samningi aðila, með vísan til 5. gr. samningsins, eða gerður fyrirvari þar um. Hefur stefndi ekki fært fram skýringar á því hvers vegna það var ekki gert og verður stefnandi ekki látinn bera hallann af því nú. Þá ber einnig að líta til þess að Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hélt, eftir sölu félagsins, rétti sínum samkvæmt 5. gr. samningsins.
Um rangar forsendur vísar stefndi einnig til þess að hin eldri lán hafi hækkað um 260.327.146 krónur frá fyrri drögum að samningnum, sem bendi til þess að lánin hafi verið gjaldfelld með ólögmætum hætti og dráttarvextir reiknaðir á þau. Líkt og að framan greinir liggja ekki fyrir gögn í málinu sem skýra það hvernig fjárhæð hinna eldri lána var reiknuð inn í endanlegan samning aðila. Hvað varðar samning um lán nr. 0106-36-12394, þá kveður hann á um að lántaki skuldbindi sig til þess að endurgreiða lánið á þremur árum, í fyrsta sinn 15. október 2009 og síðan á mánaðar fresti. Það lán hefði því átt að vera að fullu greitt 15. september 2012 og þar af leiðandi heimilt að reikna dráttarvexti á vangreiddar afborganir og áfallna vexti, í samræmi við ákvæði samningsins þar um. Samningar um lán nr. 0142-36-5711 og 0142-36-6652 hafa ekki verið lagðir fram í málinu en fullyrt er af stefnanda að lánin hafi verið fallin í gjalddaga áður en samningur tókst með aðilum 20. desember 2013. Í ljósi þess að stefndi gekkst við þessari tilgreiningu skulda útgerðarfélagsins með undirritun sinni á samning aðila verður að telja að hann beri sönnunarbyrði um hið gagnstæða. Líkt og fram hefur komið eru samningarnir ekki lagðir fram í málinu. Þá verður ekki séð, af framlögðum gögnum eða skýrslum aðila og vitna fyrir dómi, að stefndi hafi, í aðdraganda eða við samningsgerðina, gert athugasemdir eða fyrirvara við tilgreiningu lánanna, með vísan til gjaldfellingar þeirra. Hefur stefnda því ekki tekist að færa sönnur fyrir því að lánin hafi verið gjaldfelld og dráttarvextir reiknaðir á þau með ólögmætum hætti.
Þá hefur að mati dómsins ekkert komið fram um það, í framlögðum gögnum eða skýrslum aðila og vitna fyrir dómi, að tafir á samningaviðræðum aðila, fram yfir þann tíma þegar lánin féllu í gjalddaga, hafi verið vegna atvika sem vörðuðu stefnanda frekar en stefnda.
Að öllu framangreindu virtu er ekki fallist á það með stefnda að tilgreining skulda Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. í samningi aðila frá 20. desember 2013 leiði til þess að ósanngjarnt eða óheiðarlegt sé af stefnanda að byggja rétt sinn á grein 9.1 í samningnum.
Stefndi vísar einnig til þess að aðstöðumunur hafi verið á aðilum málsins við samningsgerðina. Þótt aðstöðumunur kunni að hafa verið á milli aðila við samningsgerðina getur það eitt ekki ráðið úrslitum. Þrátt fyrir að útgerðarfélagið hafi verið komið í veruleg vanskil á þeim tíma þegar samningurinn var gerður verður ekki séð að hallað hafi á stefnda við samningsgerðina svo einhverju nemi. Samkvæmt framlögðum tölvuskeytum um samskipti aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar var aðilum kunnugt um efni samningsins og forsendur hans þegar samningurinn var undirritaður. Samningurinn var því gerður með fullri vitund stefnda og vilja og gildir þá einu þótt einstök ákvæði samningsins hafi verið sett þar inn þvert á athugasemdir stefnda. Er það enda eðli samninga sem þessa að aðilar taka á sig skuldbindingar jafnt sem byggja á þeim rétt.
Þá verður ekki talið ósanngjarnt af stefnanda eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig umþrætt ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila, sé litið til annarra atriða sem skipta máli við þetta heildarmat. Samkvæmt grein 3.1 í samningi aðila fólst í endurfjármögnun útgerðarfélagsins að félagið þyrfti að greiða stefnanda 25.000.000 króna í reiðufé við undirritun samningsins, inn á vanskil þáverandi skulda, samkvæmt g-lið greinar 3.1. Eftirstöðvar skulda félagsins, 1.489.800.000 krónur, yrðu fjármagnaðar með nýjum lánum, samkvæmt liðum b til f í grein 3.1. Lán samkvæmt d-lið greinar 3.1 var að fjárhæð 1.444.099 evrur sem þá voru að jafnvirði um 229.400.000 króna. Líkt og að framan greinir er í d-lið kveðið á um að greiddi útgerðarfélagið lánið upp að hluta eða í heild fyrir 1. mars 2014, og væri greiðslan að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé hluthafa, þá myndi stefnandi til viðbótar við slíka innborgun færa lánið niður um 33% af innborgaðri fjárhæð. Ágreiningslaust er með aðilum að í samræmi við þetta ákvæði afskrifaði bankinn eftirstöðvar lánsins þegar stefndi greiddi 156.000.000 króna inn á það. Kveður stefnandi að lánið hafi þá staðið í 76.321.600 krónum, miðað við gengi evrunnar á afskriftardegi, 13. mars 2014, og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.
Lán samkvæmt f-lið greinar 3.1 var að fjárhæð 511.300.000 krónur og skyldi að öllu leyti afskrifað að uppfylltum þremur skilyrðum, þegar stefndi hefði lagt félaginu til nýtt eigið fé að verðmæti 63.700.000 krónur, í formi nýs kvóta, samkvæmt a-lið greinar 3.1, þegar nýtt lán samkvæmt b-lið greinar 3.1, að fjárhæð 36.600.000 krónur, hefði verið greitt upp að fullu, og þegar útgerðarfélagið hefði greitt stefnanda 25.000.000 króna inn á vanskil eldri skulda samkvæmt g-lið greinar 3.1. Ágreiningslaust er að stefnandi afskrifaði lán samkvæmt f-lið greinar 3.1, sbr. og framlagða staðfestingu stefnanda 28. mars 2014, þar sem fram kemur að lánið hafi verið afskrifað að fullu og að stefndi og útgerðarfélagið hafi fullnægt skilyrðum samkvæmt a- og b-lið greinar 3.1, auk þess sem lán samkvæmt b- og d-lið hafi verið greidd upp að fullu. Kveður stefnandi að lánið hafi við afskrift þess staðið í 522.896.568 krónum og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.
Þrátt fyrir að stefndi hafi því lagt til samtals 219.700.000 krónur af eigin fé til fjárhagslegrar endurskipulagningar útgerðarfélagsins þá leiddi það til þess að stefnandi afskrifaði skuldir félagsins að virði 599.218.168 krónur miðað við forsendur samningsins. Mismunurinn þar á er 379.518.168 krónur. Gat það ekki verið annað en hagstætt fyrir stefnda sem var eini hluthafinn í útgerðarfélaginu og seldi félagið beint í kjölfar framangreindra afskrifta. Að framangreindu virtu er ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi með grein 9.1 í samningnum áskilið sér hagsmuni án nokkurs endurgjalds.
Að virtu því heildarmati sem að framan greinir og með hliðsjón af umfangi afskrifta stefnanda á lánum útgerðarfélagsins, þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að efni samnings aðila frá 20. desember 2013, staða samningsaðila eða aðstæður við samningsgerðina hafi verið með þeim hætti að víkja beri ákvæði greinar 9.1 í samningnum til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá þykir stefndi ekki hafa fært rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að stefnandi hafi ekki starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði í samræmi við 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Með sömu rökum og að framan greinir er ekki fallist á það með stefnda að ógilda beri ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið mátti báðum aðilum þessa máls vera ljóst við samningsgerðina að einhver óvissa væri um rétt Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. til endurútreiknings hinna eldri lána og var kveðið á um það í 5. gr. samnings aðila hvernig fara skyldi um kröfu á þeim grundvelli, teldu aðilar að hún væri fyrir hendi. Hafði stefndi því ekki réttmætar væntingar til þess að ætla að hann þyrfti ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt ákvæði greinar 9.1, kæmi síðar í ljós að útgerðarfélagið ætti kröfu á hendur stefnanda vegna hinna eldri lána.
Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins var af hálfu stefnda vísað til þess að í grein 9.3 í samningi aðila segi að sé andvirði nýs hlutafjár nýtt að öllu leyti til þess að greiða lán samkvæmt b- og d-liðum greinar 3.1 sé hinn nýi hluthafi ekki bundinn af ákvæðum þessarar greinar. Var þessari málsástæðu mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint fram kominni. Þótt fallast megi á að svo sé þykir eftir sem áður rétt að árétta að grein 9.3 vísar til nýs hluthafa og nær því samkvæmt efni sínu og samhengi við ákvæði greinar 9.2 í samningnum ekki til stefnda.
Að öllu framangreindu virtu er kröfu stefnda um lækkun á dómkröfum stefnanda, með vísan til fyrrgreindra málsástæðna, einnig hafnað.
Stefndi byggir kröfu um lækkun á dómkröfum stefnanda einnig á því að draga eigi kostnað, að hámarki 1% af söluverði, frá þeim hluta söluverðsins sem var umfram metið eignavirði útgerðarfélagsins, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Um kostnað við söluna vísar stefndi til tveggja reikninga sem gefnir eru út af Markó partners til handa stefnda, sem þá hét Ný-fiskur ehf., fyrir ráðgjöf „vegna sölu á Ný-Fiski“. Fyrri reikningurinn, að fjárhæð 18.825.000 krónur, er gefinn út 1. nóvember 2013 og hinn síðari, að sömu fjárhæð, er gefinn út 29. nóvember 2013. Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins var reikningunum mótmælt af hálfu stefnanda þar sem þeir vísi til sölu á öðru félagi en Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf.
Framangreindir reikningar vísa, eins og fram hefur komið, til sölu á Ný-Fiski en ekki til sölu á Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Í greinargerð stefnda er ekki útskýrt hvernig á því stendur að ekki sé í reikningunum vísað til sölu útgerðarfélagsins. Einnig er til þess að líta að engin sundurliðun er á reikningnum eða leitast við að útskýra efni þeirra í greinargerð málsins. Þá var ekki leitast við af hálfu stefnda að útskýra efni eða tilefni reikninganna við aðalmeðferð málsins.
Af gögnum málsins, einkum inngangi kaupsamningsins frá 26. febrúar 2014 og viljayfirlýsingu Icelandic Group hf. og Ný-Fisks ehf. frá 26. september 2013, má ráða að félagið Ný-Fiskur ehf. hafi selt Icelandic Group hf. fiskvinnslu félagsins, þ.e. rekstrartæki, fasteignir o.fl., með kaupsamningi 10. desember 2013. Sú sala tók ekki til eignarhluta Ný-Fisks ehf. í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., þrátt fyrir að kveðið sé þar á um kauprétt Icelandic Group hf. á útgerðarfélaginu. Að því virtu er að mati dómsins ósannað að framangreindir reikningar, sem dagsettir eru í nóvember 2013, endurspegli kostnað stefnda vegna sölu útgerðarfélagsins sem fram fór í lok febrúar 2014. Hefur stefndi þar af leiðandi ekki sýnt fram á útlagðan kostnað sem dragast eigi frá þeim hluta söluverðs fyrir Útgerðarfélag Sandgerðis ehf., sem var umfram metið eignavirði félagsins.
Af ákvæði greinar 9.1 er ekki ljóst hvenær greiðsla samkvæmt ákvæðinu skyldi fara fram. Gjalddagi kröfunnar var því ekki fyrir fram ákveðinn í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í samræmi við 3. mgr. sömu greinar verður upphafstími dráttarvaxta því miðaður við þann dag þegar mánuður var liðinn frá því að stefnandi sannanlega krafði stefnda um greiðslu, með bréfi dagsettu 6. október 2015.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Örn Svansson hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Axel Ingi Magnússon hdl. fyrir Hróbjart Jónatansson hrl.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, SAB ehf., greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 51.600.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 6. nóvember 2015, til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.