Hæstiréttur íslands

Mál nr. 527/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 18. ágúst 2015.

Nr. 527/2015.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi

(Jón Haukur Hauksson fulltrúi)

gegn

X

(Auðun Helgason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá var fallist á með L að skilyrðum b. liðar sömu lagagreinar væri einnig fullnægt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. ágúst 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. ágúst 2015 klukkan 15 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að varnaraðili verði einungis látinn sæta farbanni en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og krefst staðfestingar hans um gæsluvarðhald.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðahaldi yfir varnaraðila sé fullnægt og að hann sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi á þeim grundvelli stendur. Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald var einnig reist á b. lið sömu lagagreinar með þeim rökstuðningi að varnaraðili sé erlendur maður sem ætla megi að reyna muni að komast úr landi eða leynast verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðahaldi.  Með vísan til atvika málsins er á það fallist með sóknaraðila að einnig sé fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands miðvikudaginn 12. ágúst 2015.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur eða til miðvikudagsins 26. ágúst 2015, kl. 15:00.

                Þess er krafist að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.

                Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími eða beitt verði vægari úrræðum s.s. farbanni.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi, Norðurland-vestra, Norðurlandi-eystra og Austurlandi séu innbrot og þjófnaður á tveimur tölvum og peningum úr sumarhúsi skammt frá [...], þjófnaður á peningum og veski úr verslun á [...], þjófnaður á símum úr verslun á [...], þjófnaður á peningum úr verslun á [...] og þjófnaður á peningum úr verslun á [...].

                Kærði og sonur hans hafi verið handteknir á [...] 11. ágúst 2015 vegna gruns um aðild að meintum brotum. Í vörslum þeirra hafi fundist þýfi úr innbroti og þjófnaði úr sumarhúsi skammt frá [...] og þýfi eftir þjófnað úr verslun á [...]. Auk þess hafi verið haldlagðir íslenskir og erlendir peningar (evrur).

                Kærði neiti allri vitneskju um málin. Kærði neiti að tjá sig um myndir úr öryggismyndavélum. Þá neiti kærði að gefa upp frá hverjum hann og þeir báðir hafi fengið eða keypt þýfi sem fundist hafi í vörslum þeirra.

Rannsókn málanna sé á frumstigi og ekki hafi unnist tími til þess að gera allar þær ráðstafanir í þágu rannsóknarinnar sem til þurfi svo að sakargögn spillist ekki. Um sé að ræða sakborninga sem sakaðir séu um að hafa meðal annars brotist inn í hús og stolið verðmætum sem hafi fundist í vörslum þeirra. Eftir sé að yfirheyra hugsanleg vitni og kanna með þýfi sem hafi ekki komið fram. Ljóst sé að það skaði rannsóknina mjög ef sakborningur gangi laus á meðan rannsókn stendur yfir auk þess sem hætt sé við að kærði reyni að komast úr landi, þar sem hann hafi engin þekkt tengsl við landið og búi ekki hér á landi. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu viðkvæma stigi málsins. Þá sé einnig vísað til þess að kærði sé grunaður um brot víða um land og veruleg hætta sé á að hann haldi uppteknum hætti á meðan málunum er ekki lokið. Með vísan til ofangreinds sé talið að fyrir hendi séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um rökstuddan grun um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við.

Með tilliti til þess sem að framan greini svo og vegna alvarleika hins kærða verknaðar sé nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir kærða. Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 244. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögreglustjóri til a., b. og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

                Forsendur og niðurstaða

                Samkvæmt því sem að framan greinir og að virtum rannsóknargögnum verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um auðgunarbrot skv. 244. og 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í sex málum lögreglu, en við brotum sem hann er grunaður um liggur allt að 6 ára fangelsi samkvæmt nefndum ákvæðum.

                Rannsókn málanna er skammt á veg komin og ljóst að mati dómsins að kærði geti torveldað rannsókn málanna, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, haldi hann frelsi sínu, en af því hefur hann augljósa hagsmuni sé hann sekur um þau brot sem hann er grunaður um. Er þannig fullnægt skilyrðum a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá þykir ekki vera sýnt að kærða verði aðeins gerð fésektarrefsing eða skilorðsbundin fangelsisrefsing miðað við aðstæður, verði hann fundinn sekur um þau brot sem hann er grunaður um, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

                Frá því að kærði var handtekinn liðu meira en 24 klukkustundir uns hann var leiddur fyrir dómara. Sá dráttur sem á því varð þykir þó hafa verið nægilega réttlættur af hálfu lögreglustjóra en um langan veg var að fara og nokkurn tíma mun hafa tekið að útvega dómtúlk fyrir kærða, en drátturinn var ekki umfram þau tímamörk sem getið er í niðurlagsákvæði 94. gr. laga nr. 88/2008.

                Ber því að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er, en kröfunni þykir í hóf stillt. Vegna varakröfu kærða um farbann er þess að geta að það úrræði tryggir ekki þá rannsóknarhagsmuni sem a lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er ætlað að vernda.

                Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. 2. mgr. 98. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 26. ágúst 2015, kl. 15:00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.