Hæstiréttur íslands

Mál nr. 93/1999


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Fjársvik
  • Tékkabrot
  • Skaðabætur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 20. maí 1999.

Nr. 93/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Ragnari Kornelíusi Lövdal

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Skjalafals. Fjársvik. Tékkalagabrot. Skaðabætur.

R var ákærður fyrir skjalafals, fjársvik, fjárdrátt, brot á lögum um sölu notaðra ökutækja og brot á tékkalögum í tengslum við rekstur bílasölu sinnar. Var R sakfelldur fyrir skjalafals, fjársvik, brot á tékkalögum og fjárdrátt, en sýknaður af fjársvikum í þremur ákæruliðum og broti gegn lögum um sölu notaðra ökutækja. Var R dæmdur til fangelsisrefsingar og greiðslu skaðabóta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur og dæmdur til greiðslu skaðabóta samkvæmt 1. og 2. tölulið II. kafla og sakfelldur samkvæmt 3. tölulið IV. kafla A liðar í ákæru 6. október 1998. Að öðru leyti er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu og greiðslu skaðabóta, en að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af II., III. og IV. kafla A liðar og 3. og 4. tölulið B liðar í ákæru 6. október 1998, en jafnframt að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfum í málinu verði vísað frá héraðsdómi.

I.

Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið krafist þess til vara að sú háttsemi ákærða, sem getið er í 1. og 2. tölulið II. kafla A liðar ákæru 6. október 1998 verði heimfærð til 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem umboðssvik. Verður ekki fallist á að lýsing atvika í ákæru geti leitt til þeirrar niðurstöðu og verður heldur ekki ráðið að málið hafi verið flutt í héraði með hliðsjón af því. Að þessu gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sýkna ákærða af ákæruatriðum í framangreindum tveim töluliðum ákærunnar og jafnframt verður staðfest sakfelling hans af öðrum ákæruatriðum í sama kafla hennar. Eru brot ákærða, sem þar um ræðir, réttilega heimfærð til refsiákvæða.

II.

Með III. kafla A liðar ákæru 6. október 1998 var ákærða gefið að sök að hafa brotið lög um sölu notaðra ökutækja nr. 69/1994 með síðari breytingum með því að hafa vanrækt að tilgreina í kaupsamningum og afsölum um bifreiðir, sem getið er í 2. til 9. tölulið II. kafla A liðar ákærunnar, að hann og félög í eigu hans, Gosar ehf. og Lindarhvammur ehf., væru eigendur bifreiðanna og jafnframt leynt því fyrir viðskiptavinum bílasölu sinnar. Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir brot, sem hér um ræðir.

Hinn 1. janúar 1999 tóku gildi lög um verslunaratvinnu nr. 28/1998, en með þeim voru meðal annars felld úr gildi lög nr. 69/1994. Í 1. mgr. 24. gr. fyrrnefndu laganna segir, að með brot gegn þeim skuli fara að hætti opinberra mála. Engin refsiákvæði eru hins vegar í lögunum vegna slíkrar háttsemi, sem ákærða er gefin að sök í III. kafla A liðar ákærunnar. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga verður ákærði sýknaður af sakargiftum í þessum kafla ákæru 6. október 1998.

III.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sýkna ákærða af sakargiftum samkvæmt 3. tölulið IV. kafla A liðar ákæru 6. október 1998.

Í 1. og 2. tölulið sama kafla ákærunnar er ákærði talinn hafa gerst sekur um fjársvik, en til vara brot á lögum nr. 94/1933 um tékka með kaupum sínum á þrettán notuðum bifreiðum, sem hann greiddi með innstæðulausum tékkum. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða af 1. og 2. tölulið þessa kafla ákærunnar, sem varðar tólf af þessum bifreiðum, en þó þannig að eftir öllum atvikum telst ákærði hafa brotið gegn a. lið 1. mgr. 73. gr. laga nr. 94/1933 með því athæfi, sem hér um ræðir.

IV.

Staðfest er sakfelling ákærða af sakargiftum, sem um ræðir í 4. tölulið B liðar ákæru 6. október 1998, en þó þannig að ákærði telst með þessari háttsemi hafa unnið til refsingar samkvæmt a. lið 1. mgr. 73. gr. laga nr. 94/1933.

Til stuðnings því að bótakröfum verði vísað frá héraðsdómi bendir ákærði á að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 12. október 1998. Kröfum beri að lýsa í búið og sé óheimilt að hafa þær uppi í máli þessu, sem var höfðað eftir þann dag. Á þetta verður ekki fallist. Samkvæmt 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eru lagðar hömlur á rétt til málsóknar gegn þrotabúi, sem ekki eiga við hér, enda eru kröfur hafðar uppi á hendur ákærða persónulega en ekki þrotabúi hans. Verður niðurstaða héraðsdóms um bótakröfur því staðfest.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða af öðrum ákæruatriðum en þeim, sem gerð hefur verið grein fyrir að framan. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ragnar Kornelíus Lövdal, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 1999.

Ár 1999, þriðjudaginn 26. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 939/1998: Ákæruvaldið gegn Ragnari Kornelíusi Lövdal, sem tekið var til dóms 21. desember 1998.

Málið er höfðað fyrir dóminum með tveimur ákæruskjölum lögreglustjórans í Reykjavík 6. október og 18. nóvember 1998.

Með ákæru 6. október sl. er höfðað mál gegn ákærða, Ragnari Kornelíusi Lövdal, kt. 280958-2559, Garðhúsum 6, Reykjavík „fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík, nema annars sé getið, á árunum 1995 – 1998:

A. Brot ákærða á almennum hegningarlögum og lögum um sölu notaðra bifreiða í starfi sínu sem bílasali á bílasölu sinni Bílatorgi, ehf., kt. 410797-2679, Funahöfða 1, Reykjavík, framin á tímabilinu frá júní 1995 fram í febrúar 1998:

I. Skjalafals.

1.

Tvisvar sent yfirvöldum með símbréfi yfirlýsingar sem ákærði falsaði frá rótum í nafni Sigfúsar Sumarliðasonar, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrasýslu, þess efnis ákærði hefði aflað sér starfsábyrgðartryggingar hjá sparisjóðnum í samræmi við lög nr. 69, 1994 um sölu notaðra ökutækja og reglugerð nr. 406, 1994 um tryggingaskyldu við sölu notaðra ökutækja og fengið þannig útgefið leyfi til sölu notaðra ökutækja í atvinnuskyni sér til handa:

1.1

Í júní 1995 sýslumanninum í Reykjavík yfirlýsingu dagsetta 10. sama mánaðar.

1.2.

Þann 26. ágúst 1997 viðskiptaráðuneytinu, Arnarhváli, yfirlýsingu dagsetta 25. sama mánaðar. (Mál nr. 10-1998-6016)

2.

Í maí 1996 framvísað hjá Samvinnusjóði Íslands hf., kt. 691282-0289, Ingólfsstræti 3, yfirlýsingu dagsettri 10. maí sama ár um breytingu á skilmálum skuldabréfs nr. 800918 í eigu sjóðsins að fjárhæð kr. 1.059.271,- útgefnu 7. mars sama ár af ákærða fyrir hönd fyrirtækis ákærða Gosa ehf., kt. 560296-2589 og tryggðu með veði í bifreiðinni SR-059, sem ákærði hafði falsað þess efnis að Hafsteinn Ársælsson, kt. 260937-4809, samþykkti að yfirtaka skuldina ásamt áföllnum vöxtum og verðbótum frá útgáfudegi og undirritað yfirlýsinguna með nafni Hafsteins. (Mál nr. 10-1998-5015)

3.

Í október 1996 selt í Sparisjóði Mýrasýslu, Borgarbraut 14, Mýrasýslu, tvo víxla, hvorn að fjárhæð kr. 590.000, með gjalddögum 15. nóvember og 15. desember sama ár, sem ákærði gaf út fyrir hönd fyrirtækis síns Bílatorgs ehf. og falsaði jafnframt með því að rita nafn Hafsteins Ársælssonar, kt. 260937-4809, í reiti fyrir áritun og samþykki greiðanda. (Mál nr. 10-1998-11204)

4.

Þann 24. febrúar 1997 framvísað hjá sýslumanninum í Reykjavík yfirlýsingu um flutning á veði fyrir skuldabréfi, - upphaflega að fjárhæð kr. 1.905.823 en að uppgreiðsluandvirði  kr. 1.619.397,40, útgefnu af Gosum ehf. 7. mars 1997 til Samvinnusjóðs Íslands hf. en yfirteknu af Kristínu Halldórsdóttur, kt. 010959-5279, eiginkonu ákærða, sem skuldara þann 6. júní 1996 -, sem ákærði falsaði þess efnis að Hallsteinn Sigurðsson, kt. 120653-7769, samþykkti flutning veðsins af bifreiðinni NV-580 á bifreiðina RU-419, skráða eign Hafsteins, og undirritaði heimildarlaust með nafni Hafsteins og fengið veðinu þinglýst á bifreiðina 25. sama mánaðar. (Mál nr. 10-1998-5120)

Teljast framangreind brot varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II. Fjársvik:

Ákærða er gefið að sök að hafa, á tímabilinu frá 5. febrúar 1996 fram í september 1997 í 5 skipti blekkt eftirgreinda viðskiptavini bílasölu sinnar til að kaupa og staðgreiða bifreiðar í eigu fyrirtækis ákærða, Gosa ehf., nema annar eigandi sé tilgreindur, með áhvílandi veðböndum fyrir lánum til Gosa ehf., nema í tvö skipti fyrir veðlánum til eiginkonu ákærða Kristínar Halldórsdóttur, alls að andvirði kr. 6.532.897,80 sem ákærði skuldbatt sig til að létta af bifreiðunum stuttu eftir sölu, en svikið að aflétta veðunum og ráðstafað söluandvirði bifreiðanna jafnharðan í eigin þágu og látið jafnframt hjá líða að tryggja með nokkrum hætti að veðböndum yrði létt af bifreiðunum þrátt fyrir að ákærða væri ljóst, að hann og fyrirtæki hans Gosar ehf. væru ógjaldfær, sbr. ákæruliði II.1-5:

Þá er ákærða gefið að sök að hafa í 3 skipti blekkt viðskiptavini bílasölunnar til að kaupa gegn staðgreiðslu bifreiðar í eigu Gosa ehf., nema annar eigandi sé tilgreindur,sem ákærði taldi kaupendum trú um að væru veðbandslausar og sem hann veðsetti heimildarlaust jafnhliða sölu fyrir bílalánum til sín og fyrirtækja sinna alls að andvirði kr. 3.709.993, sem ákærði fékk þinglýst á bifreiðarnar, sbr. ákæruliði II.6-8, og ennfremur í eitt skipti leynt kaupanda bifreiðar því að á bifreiðinni hvíldi veðlán að andvirði kr. 1.463.198, sbr. ákærulið II.9:

1.

Þann 5. febrúar 1996 blekkt Erling Þór Proppé, kt. 010446-2799, til að kaupa bifreiðina MM-005, skráða eign Gunnars B Ragnarssonar, kt. 221180-2919, ófjárráða sonar ákærða, á kr. 2.100.000. Ákærði seldi bifreiðina með veðböndum fyrir skuld að uppgreiðsluandvirði kr. 1.440.735,80 gegn skuldbindingu um að veðinu yrði aflétt af bifreiðinni. (Mál nr. 10-1998-5210)

2.

Þann 8. júní 1996 blekkt Bergþór Bjarnason, kt. 110870-5239, til að kaupa bifreiðina OM-649 sem greidd var með bifreið að andvirði kr. 1.120.000 og kr. 330.000 í reiðufé. Bifreiðin seld með veðböndum fyrir skuld kr. 1.059.271, útgefnu af ákærða fyrir hönd Gosa ehf. 7. sama mánaðar gegn skuldbindingu um að veðinu yrði aflétt. (Mál nr. 10-1998-8388)

3.

Þann 11. mars 1997 blekkt Snorra Frey Garðarsson, kt. 251172-4129, til að kaupa bifreiðina IÖ-054 á kr. 945.000 með veðböndum fyrir skuld kr. 688.447 sem ákærði skuldbatt sig til að aflétta innan 15 daga frá söludegi. (Mál nr. 10-1998-3322)

4.

Þann 30. júní 1997 blekkt Vilhjálm Þorsteinsson , kt. 301265-5309, til að kaupa bifreiðina DY-898, á kr. 3.200.000, sem ákærði fékk staðgreidda með bifreið metinni á kr. 600.000 (sic), víxli að fjárhæð kr. 200.000 (sic) og kr. 2.400.000 (sic) í peningum  en seldi með veðböndum fyrir skuld kr. 1.978.923 gegn skuldbindingu ákærða um að veðinu yrði aflétt af bifreiðinni. (Mál nr. 10-1998-11242)

5.

Þann 19. september 1997 blekkt Sigtrygg Eyþórsson, kt. 070841-4569, til kaupa bifreiðina YF-036 sem ákærði fékk greidda með bifreið að andvirði kr. 500.000 og kr. 1.400.000 í reiðufé en seldi með veðböndum fyrir skuld kr. 1.365.521 gegn skuldbindingu um að aflétta veðinu innan 10 daga frá söludegi. (Mál nr. 10-1998-1977)

6.

Þann 12. september 1996 blekkt Sigurð Helgason, kt. 010547-2459, til að kaupa bifreiðina UB-027 á kr. 1.150.000, sem ákærði hafði daginn áður veðsett fyrir skuldabréfi upphaflega að fjárhæð kr. 1.217.990 en að uppgreiðsluandvirði kr. 1.086.180, sem þinglýst var á bifreiðina 12. sama mánaðar. (Mál nr. 10-1997-20557)

7.

Þann 8. apríl 1997 blekkt Sigurð Þorbjörnsson, kt. 300153-3489, til að kaupa á kr. 1.700.000 bifreiðina EJ-733, sem ákærði veðsetti daginn áður fyrir skuldabréfi að fjárhæð kr. 1.300.000. (Mál nr. 10-1998-10249)

8.

Þann 23. nóvember 1997 (sic) blekkt Guðbrand Þorkelsson, kt. 121252-5979, til að kaupa bifreiðina YU-033, sem ákærði hafði 18. sama mánaðar veðsett fyrir bílaláni til Gosa ehf. að fjárhæð kr. 1.323.813 vegna kaupa Gosa ehf. á bifreiðinni og fengið láninu þinglýst á bifreiðina 25. sama mánaðar daginn áður en ákærði lét skrá bifreiðina sem eign Guðbrands. (Mál nr. 10-1998-17172)

9.

Þann 19. nóvember 1997 blekkt Ingibjörgu Dís Geirsdóttur, kt. 180462-2529, til að kaupa bifreiðina KH-156, skráða eign Lindarhvamms ehf., kt. 680297-2669, fyrirtækis ákærða, sem Ingibjörg Dís greiddi með bifreið að andvirði kr. 390.000 og greiða átti jafnframt með andvirði bílaláns kr. 1.000.000 samkvæmt kaupleigusamningi við Glitni hf. með veði í bifreiðinni og leynt Ingibjörgu Dís því að á bifreiðinni hvíldi veðskuld kr. 1.463.198. (Mál nr. 10-1998-5571)

Telst háttsemin samkvæmt II. kafla ákæru varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

III. Brot á lögum um sölu notaðra ökutækja.

Ákærða gefið að sök að hafa í ofangreindum viðskiptum á bílasölu sinni Bílatorgi samkvæmt ákæruliðum II.2-9 vanrækt að tilgreina í kaupsamningum og afsölum um bifreiðarnar að ákærði og fyrirtæki ákærða, Gosar ehf. og Lindarhvammur ehf., voru eigendur bifreiðanna og jafnframt leynt því fyrir viðskiptavinum bílasölunnar.

Telst þetta varða við 7. gr., sbr. 10. gr., laga um sölu notaðra ökutækja nr. 19, 1994, (sic), sbr. lög nr. 69, 1997 (sic).

IV. Fjársvik við kaup á bifreiðum.

Fyrir fjársvik en til vara fyrir brot á tékkalögum með því að hafa, á tímabilinu frá júlí (sic) til desember 1997 svikið til sín 13 notaðar bifreiðar sem ákærði keypti í nafni fyrirtækis síns Gosa ehf., kt. 560296-2589, sem eini stjórnarmaður félagsins, á alls kr. 19.250.000 og greiddi með eftirgreindum innistæðulausum tékkum, sem hann gaf ýmist út á tékkareikning sinn nr. 8588 eða reikning Gosa ehf. nr. 2155 hjá Búnaðarbanka Íslands, Höfðaútibúi, að fjárhæð alls kr. 14.490.000, sem innleysa átti á tilgreindum útgáfudögum þeirra þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að hann og fyrirtæki hans Gosar ehf. voru ógjaldfær og veðsett bifreiðarnar jafnharðan fyrir nýjum lánum sér til handa og/eða endurselt þær á bílasölu sinni án þess að reyna að tryggja greiðslu á ofangreindum skuldbindingum, en ekki reyndist vera innistæða á reikningunum fyrir andvirði tékkanna á tilgreindum innlausnardögum tékkanna í febrúar 1998 og fram í júní 1998. Tékkareikningi ákærða var lokað þann 13. febrúar 1998 en tékkareikningi Gosa ehf. 12. sama mánaðar. Ákærði gaf tékkana út á reikning Gosa ehf. nema annað sé tekið fram:

1. Kaup á bifreiðum af Ræsi hf., kt. 540269-5809,  Skúlagötu 59:

1.1.

Þann 18. ágúst keypt bifreiðina YF-036. Kaupverð kr. 2.050.000 og greitt að hluta með tékka að fjárhæð kr. 450.000 á eyðublaði nr. 5798088, dagsettum 25.2. 1998, sem reyndist innistæðulaus við sýningu 11.3. 1998.

Ákærði veðsetti Glitni hf. bifreiðina sama dag fyrir bílaláni kr. 1.776.508 og seldi bifreiðina 19. september Sigtryggi Eyþórssyni, kt. 080741-4569, sbr. ákærulið II.5.

1.2.

Þann 22. september keypt bifreiðina KM-749. Kaupverð kr. 1.110.000 að hluta greitt með eftirgreindum 2 tékkum að fjárhæð kr. 610.000:

Nr. 5804908, kr. 250.000, dagsettum 15.febrúar.

Nr. 5804909, kr. 360.0000, dagsettum 15.mars.

Ákærði seldi bifreiðina 30. september sama ár.

1.3.

Þann 30. september keypt bifreiðina TG-760. Kaupverð kr. 2.250.000 að hluta greitt með eftirgreindum tékkum alls að andvirði kr. 1.500.000:

Nr. 5804915, kr. 500.000, dagsettum 28. febrúar.

Nr. 5804914, kr. 500.000, dagsettum 30. mars.

Nr. 5804917, kr. 500.000, dagsettur 30. apríl.

Ákærði seldi bifreiðina 20. nóvember.

1.4

Þann 10. nóvember keypt bifreiðina LY-803. Kaupverð kr. 950.000 greitt með 3 tékkum sem sýndir voru 11. mars 1998:

Nr. 5804922, kr. 300.000, dagsettur 10. febrúar 1998.

Nr. 5804923, kr. 300.000, dagsettur 10. mars 1998.

Nr. 5804924, kr. 350.000, dagsettur 10. apríl 1998.

Bifreiðina seldi ákærði fyrirtæki sínu Lindarhvammi ehf. 8. desember 1997.

1.5.

Þann 11. nóvember keypt bifreiðina KH-156 á kr. 1.150.000 og greitt með 2 tékkum:

Nr. 5804925, kr. 400.000, dagsettur 10.5. 1998.

Nr. 5804919, kr. 750.000, dagsettur 11.6. 1998.

Bifreiðina seldi ákærði fyrirtæki sínu Lindarhvammi ehf. 15.  nóvember 1997 og var hún veðsett 18. sama mánaðar fyrir eftirstöðvum skuldabréfs útgefnu  24. mars 1997 upphaflega að fjárhæð kr. 1.463.198.

1.6.

Þann 18. nóvember keypt bifreiðina DB-914 á kr. 750.000 og greitt með 3 tékkum, gefnum út á reikning nr. 8588 hverjum að fjárhæð kr. 250.000:

Nr. 5732413, dagsettur 18.febrúar 1998.

Nr. 5732414, dagsettur 28. mars 1998.

Nr. 5732415, dagsettur 18. apríl 1998.

Ákærði seldi bifreiðina 18. nóvember 1997.

1.7.

Þann 10. desember keypt bifreiðina XZ-045 á kr. 1.900.000 og greitt með 4 tékkum, á reikning nr. 8588:

Nr. 5732418, kr. 500.000, dagsettur 20.3. 1998.

Nr. 5732419, kr. 400.000, dagsettur 20.4. 1998.

Nr. 5732420, kr. 500.000, dagsettur 20.5. 1998.

Nr. 5732421, kr. 500.000, dagsettur 20.6. 1998.

Ákærði seldi bifreiðina Lindarhvammi ehf. 15. desember 1997. (Mál nr. 10-1998-9758)

2. Kaup á bifreiðum af Ingvari Helgasyni hf., kt. 681077-0739, Sævarhöfða 2:

2.1.

Þann 18. september keypt bifreiðina SL-932 á kr. 1.100.000 og greitt að hluta með tékka að fjárhæð kr. 500.000 á eyðublaði nr. 5804902, dagsettum 20. febrúar.

Ákærði seldi bifreiðina 10. október sama ár.

2.2.

Þann 18. september keypt bifreiðina TB-337 á kr. 1.350.000 og greitt með 2 tékkum:

Nr. 5804903, kr. 600.000, dagsettur 25.2. 1998.

Nr. 5804904, kr. 750.000, dagsettur 25.3. 1998.

Ákærði seldi bifreiðina 21. október sama ár.

2.3.

Þann 18. september keypt bifreiðina UT-033 á kr. 830.000 og greitt með tékka á eyðublaði nr. 5804905, dagsettum 20.1.1998 sem sýndur var 12. febrúar sama ár. Ákærði seldi bifreiðina 6. október sama ár.

2.4.

Þann 26. september keypt bifreiðina MX-886 á kr. 910.000 og greitt að hluta með 2 innistæðulausum tékkum kr. 700.000:

Nr. 5804911, kr. 350.000, dagsettum 15.2. 1998.

Nr. 5804912, kr. 350.000, dagsettum 15.3. 1998.

Ákærði seldi bifreiðina 30. sama mánaðar.

2.5.

Þann 17. nóvember keypt bifreiðina RS-657 á kr. 2.800.000 og greitt með 2 bifreiðum verðmetnum á kr. 1.100.000 og 3 tékkum á reikning nr. 8588, samtals kr. 1.700.000:

Nr. 5732408, kr. 600.000, dagsettum 27.2. 1998.

Nr. 5732409, kr. 600.000, dagsettum 28.3. 1998.

Nr. 5732410, kr. 500.000, dagsettum 27.4. 1998.

Ákærði seldi bifreiðina 18. sama mánaðar.

(Mál nr. 10-1998-9752)

3.

Þann 14. október keypt bifreiðina MI-021 af Ágústi Kristmanns, kt. 170231-2369, Eskiholti 10, Garðakaupstað, kaupverðið kr. 2.100.000 greitt með 5 tékkum:

Nr. 5718364, kr. 400.000, dagsettum 20.1.1998.

Nr. 5718365, kr. 400.000, dagsettum 20.2.1998.

Nr. 5718366, kr. 400.000, dagsettum 20.3.1998.

Nr. 5718367, kr. 450.000, dagsettum 20.4. 1998.

Nr. 5718368, kr. 450.000, dagsettum 20.5. 1998.

Ákærði seldi bifreiðina 16. sama mánaðar.

(Mál nr. 10. 1998-11247)

Telst háttsemi ákærða samkvæmt IV. kafla aðallega varða við 248. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 73. gr. tékkalaga nr. 94, 1933, sbr. lög nr. 35, 1977.

V. Fjárdráttur.

Ákærða er gefið að sök að hafa, í febrúar 1998, dregið sér kr. 350.000 sem ákærði tók við hjá Stefáni Gísla Örlygssyni, kt. 020274-5149, og ganga áttu til greiðslu veðskuldar á bifreiðinni PS-473, sem ákærði hafði milligöngu um að selja á bílasölu sinni 1. sama mánaðar. (Mál nr. 10. 1998-8830)

Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

B.  Önnur brot.

1.

Fyrir brot á tékkalögum með því að hafa, um áramótin 1997/1998, greitt Sjóvá-Almennum, hf., kt. 701288-1739, veðskuldir með 2 tékkum, alls að fjárhæð kr. 593.433, sem hann gaf út á reikning sinn nr. 8588 hjá Búnaðarbanka Íslands, Höfðaútibúi og dagsetti fram í tímann til innlausnar í janúar 1998 en við sýningu tékkanna í banka 20. janúar reynist innistæða ekki vera fyrir hendi á reikningnum:

Nr. 5731879,  kr. 160.000, dagsettur 7. janúar.

„    58731881, kr. 433.210, dagsettur 8. janúar.

(Mál nr. 10-1998-9753)

2.

Brot á tékkalögum með því að hafa, þann 20. febrúar 1998 greitt Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, veðskuld með tékka að fjárhæð kr. 999.682, sem ákærði gaf út á reikning Bílatorgs ehf. nr. 3155 hjá Búnaðarbanka Íslands hf., Höfðaútibúi, þrátt fyrir að tékkareikningi hans hefði verið lokað vegna misnotkunar 12. sama mánaðar.

(Mál nr. 10-1998-12129)

Teljast brotin samkvæmt liðum B.1 og 2 varða við 73. gr. tékkalaga.

3.

Fjársvik, en til vara brot á tékkalögum, með því að hafa, um mánaðamótin janúar/febrúar 1998 greitt starfsmönnum Flutningsmiðlunarinnar Jóna, kt. 440189-1219, Vesturgötu 20, Hafnarfirði, fyrir flutning á vöru með tékka að fjárhæð kr. 160.730, sem hann gaf út á reikning sinn nr. 8588 á tékkaeyðublað nr. 5832951 og dagsetti til innlausnar þann 27. febrúar sama ár en við innlausn reyndist ekki vera innistæða fyrir andvirði tékkans. (Mál nr. 10.1998-13846)

Telst þetta aðallega varða við 248. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 73. gr. tékkalaga.

4.

Fjársvik með því að hafa, í byrjun febrúar 1998, blekkt gjaldkera í Íslandsbanka við Gullinbrú til að kaupa eftirgreinda 2 innistæðulausa tékka, samtals að fjárhæð kr. 2.303.000, sem ákærði gaf út á tékkareikninga sína hjá Búnaðarbanka Íslands, Höfðaútibúi, með því að telja honum trú um að innistæða myndi vera fyrir hendi á reikningunum innan stutts tíma þrátt fyrir að honum væri fulljóst að svo yrði ekki:Þann 2. febrúar tékka nr. 184194, kr. 965.000, á reikning nr. 3155.

Þann 5. febrúar tékka nr. 179200, kr. 1.338.000 á reikning nr. 4155.

(Mál nr. 10-1998-8154)

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta:

Rúnar Daðason, kt. 071153-5339, krefst aðallega kr. 3.700.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1. ágúst 1998 til greiðsludags en til vara kr. 1.982.602 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 26. janúar 1998 til greiðsludags.

Erlingur Þ. Proppé, kt. 010446-2799, kr. 1.400.000 ásamt dráttarvöxtum frá 13. september 1998 til greiðsludags auk lögmannsþóknunar.

Bergþór Bjarnason, kt. 110870-5239, kr. 1.325.091 auk kr. 200.000 vegna lögfræðikostnaðar, hvort tveggja með dráttarvöxtum skv. 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987, með síðari breytingum, frá 24.2. 1998 til greiðsludags.

Sigtryggur Eyþórsson, kt. 080741-4569, kr. 1.561.977 ásamt dráttarvöxtum frá 27. júlí 1998 til greiðsludags.

Sigurður Helgason, kt. 010547-2459, kr. 1.257.349 ásamt dráttarvöxtum frá 27. júlí 1998 til greiðsludags.

Sigurður Þorbjörnsson, kt. 300153-3489, kr. 50.000 í miskabætur og kr. 1.205.098 í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 16.4. 1998 til dómsuppsögu en dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga frá þeim tíma til greiðsludags.

Ingibjörg Dís Geirsdóttir, kt. 180462-2529, kr. 415.195.

Ræsir hf., kt. 540269-5809, kr. 8.960.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 11. mars 1998 auk innheimtuþóknunar kr. 317.461.

Ingvar Helgason, kt. 681077-0739, kr. 5.530.000 auk lögmannsþóknunar kr. 241.420 og kr. 59.148 í virðisaukaskatt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, kt. 301265-5309, kr. 2.227.864 ásamt vöxtum og kostnaði frá 17. apríl 1998.

Sjóvá-Almennar hf., kt. 701288-1739, kr. 593.210 auk dráttarvaxta til 20. apríl, málskostnaðar og innheimtuþóknunar kr. 114.260.

Íslandsbanki hf., Gullinbrú, Reykjavík, kr. 2.143778,32 ásamt ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr., sbr. 15. gr., vaxtalaga nr. 25, 1987 frá  12. febrúar 1988 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Flutningsmiðlunin Jónar, kt. 440189-1219, kr. 160.730 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 2. febrúar 1998  en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.”

Með ákæru 18. nóvember sl. er málið höfðað gegn ákærða, “fyrir brot á tékkalögum með því að hafa, þann 10. febrúar 1998, greitt Vátryggingarfélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, skuld með tékka að fjárhæð kr. 999.682 sem hann gaf út á reikning fyrirtækis síns Bílatorgs ehf. Nr. 3155 hjá Búnaðarbanka Íslands hf., Höfðaútibúi, án þess að innistæða væri fyrir andvirði tékkans.

Telst þetta varða við 73. gr. tékkalaga nr. 94, 1933, sbr. lög nr. 35, 1977.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu er af hálfu Vátryggingarfélags Íslands hf. Krafist skaðabóta kr. 999.682 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. tékkalaga nr. 25, 1987 frá 10. febrúar 1998 til 10. mars 1998 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. Kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.”

Ákærði, neitar sök að því er varðar háttsemi þá er lýst er í ákæruliðum A II, III, IV og töluliðum 2, 3 og 4 í B kafla ákæru frá 6. október sl., en játar þá háttsemi sem lýst er í öðrum liðum þeirrar ákæru og samkvæmt ákæru frá 18. nóvember sl. Við meðferð málsins fyrir dóminum féll ákæruvaldið frá 2. tölulið í B kafla ákæru frá 6. október 1998. Verjandi ákærða gerði þær kröfur að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og refsingin verði skilorðsbundin, ef refsivist er dæmd. Einnig að öllum bótakröfum á hendur ákærða í málinu veriði vísað frá dómi. Loks krafðist hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa að mati dómsins. 

Fram kom við meðferð málsins að ákærði var úrskurðaður gjaldþrota 12. október 1998 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ákæra 6. október 1998.

I. kafli.

Ákærði, Ragnar Kornelíus Lövdal, játar sakargiftir í I. kafla ákæru og viðurkennir að hafa framið þau brot sem hann er þar ákærður fyrir, kveður atvikalýsingu í rétta og gerir ekki athugasemdir við gögn málsins að því er þennan kafla varðar. Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um þau brot, sem honum eru gefin að sök í þessum kafla ákærunnar, og varðar þessi háttsemi ákærða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II. kafli.

1. liður II. kafla.

Að því er varðar þennan ákærulið og aðra ákæruliði í þessum kafla, hefur ákærði neitað sök. Ákærði kannast við að hafa séð um að selja bifreiðina MM-005 fyrir hönd ófjárráða sonar síns 5. febrúar 1996. Hann kvaðst hafa kynnt kaupanda bílsins, Erling Þór Proppé, að á bifreiðinni væru áhvílandi veðbönd sem skyldu afléttast, en engin tímamörk hafi verið sett. Í staðfestri lögregluskýrslu dagsettri 20. apríl 1998, kemur fram að ákærði hafi fengið rúmlega 1.400.000 króna lán hjá Samvinnusjóði Íslands hf. sem tryggt var með veði í áðurnefndri bifreið. Lánsfjárhæðin hafi runnið í rekstur Gosa ehf., sem er í eigu ákærða, en ákærði hafi sjálfur verið skráður greiðandi af láninu. Ákærði kvaðst hafa komist í vanskil með þetta lán og að svo hafi fjárhagsörðugleikar og vanefndir á loforðum sem Samvinnusjóður Íslands hf. gaf honum komið í veg fyrir það að hann gæti aflétt veðböndum af bifreiðinni. Ákærði neitaði fyrir dóminum að hafa beitt blekkingum við þessi viðskipti.

Vitnið Erlingur Þór Proppé greindi svo frá að hann hafi keypt bifreiðina MM-005 af ákærða, sem seldi hana fyrir hönd ófjárráða sonar, á bílasölunni Bílatorg hf. Umsamið kaupverð hafi verið 2.100.000 krónur sem hann hafi greitt með því að hann setti bifreið, sem hann átti, upp í sem hluta greiðslu en milligjöfin hafi verið greidd með húsbréfi og tékka. Bifreiðin hafi verið að fullu greidd við undirritun afsals. Bar vitnið að hann hafi vitað um veðböndin en að ákærði hafi sagst ætla að aflétta veðböndunum fljótlega eftir söluna, eins og fram kemur í afsalinu sem er meðal gagna málsins. Vitnið kvaðst svo hafa fengið kröfubréf frá Samvinnusjóð Íslands hf, þar sem sér hafi verið tilkynnt að innheimta ætti hjá honum kröfu vegna veðs í bifreiðinni MM-005. Vitnið kvaðst hafa haft samband við ákærða í allmörg skipti og hann alltaf lofað sér að hann myndi ganga frá þessu inn nokkurra daga. Það hafi ekki gengið eftir og nú sé málum þannig komið að búið sé að taka af sér bifreiðina og bjóða hana upp. Þann 5. mars 1998 kærði vitnið svo ákærða vegna þessara viðskipta. Aðspurður kvaðst vitnið hafa átt áður viðskipti við ákærða og treyst honum.

Ákærði hefur neitað að hafa blekkt kæranda, Erling Þór Proppé líkt og í ákæru greinir. Eins og að ofan greinir kvaðst ákærði hafa átt von á fjármunum inn í rekstur fyrirtækisins sem hann hafi ætlað að nota til að aflétta veðböndum á bifreiðinni, sem þó hafi brugðist. Er það mat dómsins að ákæruvaldið hafi ekki leitt nægileg rök að því að ákærði hafi ekki á þessum tíma haft greiðsluvilja og greiðslugetu varðandi framangreint brot og beitt blekkingum í þessum viðskiptum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og ber því að sýkna hann af þessari kröfu ákæruvaldsins.

2. liður II. kafla.

Ákærði kvaðst bæði hjá lögreglu og fyrir dómi ekki hafa verið viðstaddur sölu bifreiðarinnar OM-649 8. júní 1996. Hann hafi verið í sumarbústað og að starfsmaður sinn á bílasölunni, Arnþór Grétarsson, hafi annast þessi viðskipti í samráði við sig í gegnum síma. Hann hafi lagt Arnþóri línurnar um hvernig skyldi staðið að þeim og sagt honum að kynna væntanlegum kaupendum bifreiða í eigu Gosa ehf. að þær væru eign fyrirtækis sem eigandi bílasölunnar ætti. Ákærði kvaðst aðspurður hafa samþykkt þær forsendur sem að voru fyrir viðskiptunum, skipt hafi verið bíl upp í OM-649 og greiddar 330.000 í milligjöf. Ennfremur viðurkenndi ákærði að hann hafi vitað um að veðbönd hafi hvílt á OM-649 þar sem að hann hafi skoðað afsalið þegar hann kom aftur til vinnu. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 28. apríl 1998, ætlaði ákærði ástæðu þess að ekki hafi verið staðið við að aflétta veðböndum af bifreiðinni vera þá að það hafi farist fyrir og þegar hann hafi ætlað að aflétta veðböndum af bifreiðinni í desember 1997 með því að færa þau yfir í aðra bifreið hafi samvinnusjóður Íslands hf. ekki gefið heimild sína fyrir þeim veðflutningi.

Vitnið, Bergþór Bjarnason bar fyrir dóminum að hann hafi keypt bifreiðina OM-649 á bílasölu ákærða, en með vitnunu var sambýliskona hans Pálína G. Bragadóttir. Er umrædd viðskipti fóru fram hafi Arnþór Grétarsson verið í forsvari fyrir bílasöluna. Hann hafi einungis haft samskipti við Arnþór, sem hafi gengið frá viðskiptunum. Vitnið kvaðst hafa spurt Arnþór hvort að bílasalan ætti eitthvað í bílnum en hann svarað því neitandi og sagst hafa fullt umboð frá eiganda bílsins sem væri á þeirri stundu staddur í sumarbústað. Vitnið bar að hann hefði spurt Arnþór að því við undirritun afsals fyrir hönd hverra hann kæmi fram vegna þessara viðskipta, en hann svarað því til að það væri fyrirtæki er héti Gosar, en að Arnþór hafi ekki getað svarað honum hvernig fyrirtæki það væri. Hann hafi svo ekki komist að því fyrr en löngu síðar að eigandi bílasölunnar væri aðaleigandi fyrirtækisins Gosa. Aðspurður um hvort það hefði ekki vakið athygli vitninsins að úr afsalinu mætti lesa að bílasalan væri að afsala til hans bilnum, svarað vitnið því neitandi. Vitnið kvaðst hafa verið illa við það að kaupa bifreið með veðböndum en Arnþór hafi fullvissað sig um að það væri óhætt þar sem hann hafi sagt við sig að eigandaskipti gætu ekki farið fram fyrr en veðböndunum yrði aflétt. Þegar hann hafi svo fengið nýtt skráningarskírteini hafi hann haldið að búið væri að aflétta veðböndunum. Það hafi svo verið rétt rúmu ári seinna eða í nóvember 1997 að hann hafi fengið innheimtubréf frá lögmanni á vegum Samvinnusjóðs Íslands hf. Bar vitnið að hann hafi ítrekað leitað skýringa á þessu á bílasölu þeirri er hann keypti bifreiðina, en engin viðbrögð fengið. Fram kemur í gögnum málsins að vitnið, Bergþór hafi í framhaldinu leitað aðstoðar lögmanns og gerð hafi verið réttarsátt milli Bergþórs, Gosa ehf. og ákærða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur dagsetta 24. febrúar 1998. Samkvæmt henni skuldbatt ákærði sig að aflétta veðinu af áðurnefndri bifreið fyrir 15. mars 1998, ásamt því að greiða lögmannskostnað Berþórs.  Réttarsátt þessi er meðal gagna málsins. Þegar ljóst var að ákærði myndi ekki efna réttarsátt lagði lögmaður Bergþórs fram kæru á hendur fyrrnefnda, þann 7. apríl 1998.

Vitnið, Pálína Guðrún Bragadóttir, kom einnig fyrir dóminn, en hún er sambýliskona Bergþórs Bjarnasonar og var vitni að ofangreindum viðskiptum og vottur við undirritun afsalsins fyrir bifreiðinni OM-649. Bar vitnið í aðalatriðum á sama veg og Bergþór sambýlismaður hennar um málsatvik. Hún sagði að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að seljandi OM-649 hafi verið ákærði eða að hann væri í tengslum við fyrirtækið Gosa ehf, sem tilgreint er sem seljandi í afsali fyrir bílinn. Hún hafi heldur ekki áttað sig á þessu, þótt sölumaðurinn hafi undirritað afsalið fyrir hönd Bílatorgs, en sölumaðurinn hafi sagt að eigandinn væri í sumarbústað.

Arnþór Grétarsson var tvívegis boðaður til yfirheyrslu hjá lögreglunni í Reykjavík vegna þessa máls, 20. apríl og 14. maí 1998. Við þessar yfirheyrslur var Arnþór með réttarstöðu sakaðs manns. Kvaðst hann kannast við títtnefnd viðskipti. Hann hafi verið tiltölulega nýbyrjaður að vinna á bílasölunni þegar þessi viðskipti áttu sér stað. Þetta hafi borið upp á laugardegi og hafi hann þá verið einn við vinnu. Kvaðst hann hafa verið í beinu símsambandi við ákærða vegna þessa og hann hafi leiðbeint sér nákvæmlega í þessu máli. Ákærði hefði einnig verið í stöðugu símsambandi við ákærða varðandi frágangi þeirra skjala sem gera þurfti við söluna. Þegar ákærði hafi svo komið aftur til vinnu hafi hann afhent honum milligjöfina og sýnt honum skjalagerðina, sem hann hafi kynnt sér. Kvaðst hann ekkert hafa fylgst með því hvort staðið hafði verið við afléttingu veðbandanna það hafi alfarið verið mál ákærða. Fyrir dóminum staðfesti vitnið ofangreinda frásögn. Hann kvaðst ekki kannast við það að hafa talið Bergþóri trú um þær staðreyndir er koma fram í vitnaskýrslu hans, varðandi umskráningu bifreiðarinnar. Aðspurður kvaðst hann eftir bestu vissu telja að hann hafi kynnt Bergþóri og Pálínu að fyrirtækið Gosar hf. hafi átt bílinn og það fyrirtæki væri rekstarhluti bílasölunnar Bílatorgs ehf. Hann kvaðst ekki ætla að hann hefði sérsaklega tilgreint að ákærði ætti bílinn. Undir vitnið var við aðalmeðferð málsins borin svofelld frásögn úr lögregluskýrslu dagsettri 20. apríl 1998: „Arnþór segir fyrirtæki Ragnars, Gosa ehf, hafa átt margar bifreiðar sem boðnar voru til sölu á bílasölunni og hafi Ragnar ekki gefið honum neinar leiðbeiningar um það að kynna væntanlegum kaupendum sérstaklega að um bifreiðar í eigu fyrirtækis bifreiðasalans sjálfs væri að ræða. Arnþór segir Ragnar hafa beðið hann um að vera ekki að kynna hverjum og einum sem spurðist fyrir um einstaka bifreiðar í eigu Gosa ehf. að um væri að ræða fyrirtæki í hans eigu heldur hafi Ragnar lagt áherslu á að hann myndi sjá um það sjálfur ef af sölu yrði.” Bar vitnið að með þessu hann hafi átt við að ef af sölu yrði væri kaupendum tilkynnt eignaraðild bifreiðarinnar. Það væri í verkahring þess sem að sæi um söluna að tilkynna kaupendum um hver væri eigandi bifreiðarinnar. Verkaskiptingin á bílasölunni hafi verið á þá leið að ákærði hafi alfarið sjálfur séð um gerð allra afsala og annarra samninga viðkomandi sölu bifreiða þannig að það hafi verið hans að upplýsa um eigendur. Vitnið hafi einungis komið nálægt þeim hluta sölunnar þegar ákærði hafi ekki verið staddur á bílasölunni. Hans hlutverk hafi verið að kynna og sýna bifreiðarnar og ef að sölu hefði orðið hefði ákærði gengið frá henni.

Stofnað var til kaupa á bifreiðinni OM-649 8. júní 1996, með því loforði að aflétta veðböndum þeim er á bifreiðinni hvíldu að upphæð krónur 1.059.271 krónu. Ákærði veðsetti bifreiðina fyrir skuld við Samvinnusjóð Íslands hf. deginum áður. Kaupin voru gerð í nafni félagsins Gosa ehf., sem var í eigu ákærða og eiginkonu hans. Ákærða bar að sjá til þess að við gerð kaupanna væri kaupandinn sérstaklega upplýstur um það að ákærði sjálfur og/eða fyrirtæki hans stæði að baki sölu bifreiðarinnar. Hins vegar hefur komið fram að í afsali fyrir OM-649 undirritar sölumaðurinn Arnór afsalið fyrir hönd Bílatorgs. Þetta hlaut að gefa kaupandanum tilefni til að kanna nánar hvernig í pottinn var búið með seljanda bílsins. Ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á það að ákærði hafi við veðsetningu OM-649 ekki ætlað að aflétta veði því sem hvíldi á bifreiðinni. Ekki hafa heldur verið lögð fram nein gögn í málinu sem að sýna að ákærði hafi á þessum tíma átt eða hlotið að vera það ljóst að hann hafi ekki verið fær um standa við þessar skuldbindingar sínar. Ber því að sýkna ákærða af þessum lið ákærunnar, sbr. 45. og 46. grein laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

3. liður II.kafla.

Ákærði hefur ekki neitað málavöxtum eins og þeim er lýst varðandi þennan lið ákæru, nema að því leyti að hann hafi ekki beitt blekkingum við viðskiptin. Eins og fram kemur í ákæru fór salan fram þann 11. mars 1997 og fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa séð um að leiða þessi viðskipti til lykta, en þau hafi átt sér þó nokkurn fyrirvara. Ákærði kvað fjármuni þá er hann fékk við söluna hafa runnið út í rekstur Gosa ehf. Í yfirheyrslu hjá lögreglu 18. apríl 1998 fullyrti ákærði ástæður þess að ekki hafði orðið af afléttingu veðsins vera þær, að Samvinnusjóður Íslands hf. hafi ekki staðið við að láta andvirði ýmissa verðmæta, sem ákærði hafi afsalað sér til Samvinnusjóðsins, ganga til greiðslu skulda hans og fyrirtækja hans við Samvinnusjóðs Íslands hf. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa fengið neinar skýringar frá Samvinnusjóði Íslands hf. hvernig þessum verðmætum hafi verið ráðstafað. Fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa afhent Samvinnusjóð Íslands hf. á nokkra mánaða tímabili skjöl og fleira sem átti að ganga til að leysa þetta mál, en það hafi ekki gengið eftir.

Snorri Freyr Garðarsson, kom fyrir dóminn sem vitni við aðalmeðferð málsins. Var hann kaupandi bifreiðarinnar IÖ-054 sem ákærði skuldbatt sig til að létta veðböndum af 15 daga frá söludegi. Bar vitnið að hann hefði keypt IÖ-054 á 945.000 krónur sem hafi verið að fullu greiddar við afsal. Í staðfestri lögregluskýrslu þeirri sem tekin var 16. febrúar 1998, þegar málið hafði verið kært til lögreglu, kemur fram að við kaupin á IÖ-054 hafi hann spurt ákærða út í fyrirtækið Gosa ehf. sem var skráður eigandi bifreiðarinnar. Ákærði hafi svarað sér að þetta væri fyrirtæki sem keypti og seldi bifreiðar en ekki sagt sér að hann væri eigandi Gosa ehf. Ennfremur greindi Snorri svo frá að það hafi verið um haustið 1997, er hann hugðist selja bifreiðina, að hann hafi komist að því að enn hvíldi veðið á henni. Hann hafi þegar sett sig í samband við ákærða og borið þetta upp á hann, en ákærði sagst ætla að aflétta því með hraði. Það hafi ekki gengið eftir og eftir ítrekaðar tilraunir til að fá ákærða að aflétta veðinu hafi hann leitað aðstoðar lögmanns og í framhaldinu hafi málið verið kært málið til lögreglu. Vitnið staðfesti frásögn sína fyrir dóminum og ítrekaði að hann hafi ekki vitað að ákærði hafi átt hagsmuni að gæta varðandi Gosa ehf.

Vitnið, Helga B. Kristmundsdóttir sambýliskona Snorra, var vottur að afsalsgerð bifreiðarinnar IÖ-054. Bar hún fyrir dóminum að hún hafi ekki orðið vitni að því sem fór á milli Snorra og ákærða fyrr en við undirritun afsalsins. Staðfesti hún frásögn Snorra um að ákærði hafi ekki greint frá því að hann væri fyrirsvaramaður Gosa ehf. Kvaðst hún ekki hafa séð neina ástæðu fyrir því að treysta ákærða ekki þar sem að um löggiltan bílasala væri að ræði. Veðinu hafi aldrei verið aflétt og bíllinn hafi verið tekinn af þeim.

Eins og að ofan greinir var IÖ-054 seld 11. mars 1997. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu getur ákærða ekki hafa dulist að á þessum tíma var hann í skuldaóreiðu við Samvinnusjóð Íslands hf., en á þessum tíma hafði hann ekki aflétt veðböndum þeim er hvíldu á bifreiðunum, sem fjallað er um í 1. og 2. lið hér að faman og 6. og 8. lið, sbr. hér síðar.  Mátti honum því vera ljóst að hann gæti ekki staðið við þá skuldbindingu er hann gaf umræddan dag og langlíklegast að hann gæti ekki staðið í skilum á þeim 688.447 krónum sem að skuldin með veðböndunum hljóðaði upp á. Skýringar ákærða varðandi þennan lið eru ótrúverðugar enda hefur hann ekki lagt neitt fram sem styður þennan framburð hans. Þá bar ákærða að sjá til þess að við gerð kaupanna væri kaupandinn sérstaklega upplýstur um það að ákærði sjálfur og/eða fyrirtæki hans stæði að baki sölu bifreiðarinnar.  Ákærði hefur ekki sýnt fram á að það hafi hann gert og bendir framburður kaupanda bílsins og sambýliskona hans til hins gagnstæða. Þegar allt framangreint er virt telst sannað að ákærði hafi með háttsemi sinni, sem lýst er í þessum lið ákæru, gerst brotlegur við 248. gr. almennra hegningarlaga.

4. liður II. kafla.

Undir aðalmeðferð málsins var þessi hluti ákærunar leiðréttur á þann veg að bifreiðin sem að Vilhjálmur Þorsteinsson setti upp í var metin á 500.000 krónur en ekki 600.000 líkt og í ákæru greinir, og að milligjöfin hafi verið 2.700.000 krónur sem greiddar voru með bankatékka. Þá er óumdeilt að víxillinn sem um er rætt í ákærunni var ekki hluti af greiðslu til ákærða.

Ákærði kvaðst kannast við þetta atvik og væri málsatvikum þannig breyttum rétt lýst í ákæru að því undanskildu að hann kannast ekki við það að hafa beitt neinum blekkingum. Ákærði kvaðst hafa séð um skjalagerð og frágang í þessu máli, og vildi taka fram að Vilhjálmur hafi vitað að ákærði væri eigandi bílsins. Ákærði kvaðst hafa lánað Vilhjálmi bílinn til reynsluaksturs í einn eða tvo sólarhringa og ávallt komið fram sem eigandi bílsins. Aðspurður að því hvers vegna veðböndunum af DY-898 var ekki aflétt, kvaðst ákærði ekki ætla að gefa neinar skýringar í þeim efnum.

Vitnið, Vilhjálmur Þorsteinsson, bar að hann hefði keypt bifreiðina DY-898 30. júní 1997, og hafi bifreiðin verið að fullu greidd við afsalsgerð. Fær það stuðning í afsalinu sem er meðal gagna málsins. Víxill sá sem getið er í málinu hafi verið fyrir sölulaunum bílasalans. Tilurð málsins megi rekja til þess að hann hafi séð DY-898 auglýsta í Morgunblaðinu á vegum bílasölunnar Bílatorgs. Eftir að hafa skoðað bílinn og fengið hann til reynslu hafi ákærða og vitninu samist um það verð sem áður hefur verið nefnt. Við afsalsgerðina hafi ákærði sagt honum að á DY-898 væru veðbönd sem hann skuldbatt sig að aflétta fljótlega eftir söluna. Bar vitnið að hann hafi ekki talið sig taka neina áhættu þar sem hann hafi vitað að sett hefðu verið lög um bílasölu þar sem tiltekin væri ábyrgð bílasala. Hann hafi verið í góðri trú um að allt væri lagi þar til að snemma á árinu 1998 hafi hann fengið rukkun frá Sjóvá-Almennum þar sem í ljós kom að veðinu hafi ekki verið aflétt. Aðalskuldari bréfsins var Arnþór Grétarsson starfsmaður bílasölunnar. Vitnið kvaðst hafa greitt upp veðskuldina sem hvíldi á bílnum eftir að ljóst var að hvorki Arnþór né ákærði myndu hafa bolmagn til að gera það, því ella hefði bifreiðin lent á nauðungarsölu. Vitnið kvaðst hafa leitað sér lögmannsaðstoðar, málið hafi  verið kært til lögreglu sem móttók kæruna 5. maí 1998. Vitnið minntist þess ekki að sér hafi verið tilkynnt það hver væri eigandi fyrirtækisins Gosa ehf. sem var eigandi DY-898, en hann hafi áttað sig á því að Gosar ehf. væru í eigu ákærða þar sem hann hafi skrifað undir afsalið fyrir hönd Gosa ehf.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 22. maí 1998, að viðstöddum verjanda sínum, viðurkenndi ákærði að hafa fengið Arnþór Grétarsson til að gefa út veðskuldabréf það sem hér um ræðir. Arnþór hafi komið til sín öllum greiðsluseðlum og hann greitt þar til að hann var kominn í greiðsluþrot og gat ekki staðið í skilum með greiðslurnar.

Eins og fram er komið var upphæð skuldarinnar, er veðböndin hvíldu á 1.978.923 krónur er DY-898 var seld Vilhjálmi 30. júní 1997. Á þessum tíma hafði ákærði þegar selt bifreiðarnar í 1.-3. lið hér að framan, og einnig 6. og 8. lið, sbr. hér síðar, með veðböndum, sem hann hafði ekki aflétt er hann seldi DY-898.  Eins og fjárhagsstöðu ákærða var háttað hlaut honum að vera ljóst er hann gekk frá kaupunum að hann ætti enga möguleika á því að standa við skuldbindingar sínar. Hefur hann því með háttsemi sinni, sem lýst er í þessum lið ákæru gerst brotlegur við 248. gr. almennra hegningarlaga.

5. liður II. kafli.

Ákærði neitar að hafa beitt Sigtrygg Eyþórsson blekkingum varðandi viðskipti þau er ákært er fyrir í þessum lið. Hann kveður  málsatvikalýsingu í ákæru vera rétta. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki ætla að gefa neina skýringu á því hvers vegna ekki tókst að aflétta veðböndunum af YF-036, en fyrir lögreglu bar hann því við að veðflutningar yfir á aðra bifreið hafi ekki gengið eftir, þar sem að Glitnir hf. hafi sett skilyrði varðandi veðflutningin sem hann hefði ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að framkvæma. Ákærði kvað söluandvirði bifreiðarinnar hafa runnið út í rekstur Gosa ehf.

Vitnið Sigtryggur Eyþórsson kvaðst hafa átt viðskipti við ákærða persónulega. Hann hafi gengið frá öllum gögnum og skuldbundið sig að aflétta því veði sem hvíldi á YF-036. Ákærði hafi sýnt sér pappíra upp á það að hann ætlaði að aflétta veðinu strax  eftir helgi, mánudaginn 22. september, en kaupin hafi verið gerð að loknum vinnudegi á föstudeginum 19. september, svo sem afsalið beri með sér, eftir lokun stofnana.  Hann hafi greitt milligjöfina með ávísun.  Kvaðst vitnið hafa samdægurs haft samband við Glitni hf., eiganda veðskuldarinnar, og rætt við starfsmann Glitnis hf, sem hafi staðfest að samþykki lægi fyrir veðflutningnum. Greiðslan fyrir YF-036 hafi verið greidd annars vegar með eldri bifreið, sem verðmetin var á 500.000 krónur, og hins vegar 1.400.000 króna milligjöf.  Í yfirheyrslu hjá lögreglu 16. febrúar 1998 kvaðst vitnið hafa greitt milligjöfina 22. sama mánaðar, en þá hafi hann talið að örugglega yrði búið að afllétta umræddum veðböndum með veðflutningnum, en fyrir dómi kvaðst hann telja að hann hafi greitt þessa milligjöf strax 19. sama mánaðar með tékka.  Kvaðst vitnið hafa haldið að allt færi eftir áætlun, hann hafi ekki getað ætlað annað þar sem hann hafi fengið staðfestingu Glitnis hf. fyrir veðflutningnum og svo hefði ákærði verið löggiltur bílasali. Þetta hafi ekki gengið eftir og kvaðst hann hafa margoft haft samband við ákærða út af máli þessu, en ekkert hafi gerst í því.  Málið hafi var svo kært til lögreglu 23. janúar 1998. Vitnið kvaðst ekkert hafa fengið greitt, enda hafi aldrei verið staðið við loforðið um veðflutninginn. Hann hafi svo borgað Glitni hf. veðskuldabréfið til að missa ekki bifreiðina og kvaðst því tvívegis hafa greitt þetta fé. Vitnið mótmælti þeim framburði ákærða að vitnið hefði vitað að ákærði væri aðaleigandi Gosa hf.

Af gögnum þeim sem fyrir liggja í málinu er ljóst að ekkert varð af fyrirhuguðum veðflutningi.  Ljóst er að ákærði gat ekki er til kom aflétt veðböndunum af YF-036 og varð kaupandinn, Sigtryggur Eyþórsson, sjálfur að greiða andvirði skuldarinnar, sem á bílnum hvíldi. Á þessum tíma hafði ákærði þegar selt bifreiðarnar í 1.- 4. lið hér að framan, og einnig 6. og. 8. lið, sbr. hér síðar, með veðböndum, sem hann hafði ekki aflétt er hann seldi YF-036. Eins og fjárhagsstöðu ákærða var háttað hlaut honum að vera ljóst er hann gekk frá kaupunum að hann ætti enga möguleika á því að standa við skuldbindingar sínar, enda hefur hann enn ekki staðið við þær. Þá hefur ákærði ekki sýnt fram á það að hann hafi upplýst kaupandann um eignaraðild sína að fyrirtækinu Gosar ehf., sbr. það sem rakið hefur verið hér að framan.  Þykir sannað að ákærði hafi með háttsemi sinni, sem lýst er í þessum lið ákæru, gerst brotlegur við 248. gr. almennra hegningarlaga.

6. liður II. kafli.

Samkvæmt þessum ákærulið seldi ákærði Sigurði Helgasyni bifreiðina UB-027, sem á hvíldu veðbönd þau sem lýst er í ákæru, án þess að greina Sigurði frá þeim. Upplýst er í málinu að deginum áður en salan fór fram, 11. september 1996, hafi ákærði beðið um veðflutning yfir á UB-027. Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa um leið og sala komst á UB-027, sett sig símleiðis í samband við skuldareigandann, Samvinnusjóð Íslands hf., og rætt þar við starfsmann sjóðsins um að stöðva þennan veðflutning. Fullyrti ákærði að starfsmaðurinn hafi ætlað að stöðva veðflutninginn. Þetta hafi gerst fyrir útgáfu afsals og því hafi hann verið í góðri trú við afsalsútgáfu um að UB-027 væri veðbandslaus. Ákærði kvaðst hafa kynnt Sigurði að veðbönd hafi hvílt á UB-027, sem síðan hafi verið afturkölluð, og mótmælir hann framburði Sigurðar um annað. Kvað hann einnig Sigurð hafa vitað um það að hann væri eigandi bifreiðarinnar þar sem þessi viðskipti voru búin að eiga sér aðdraganda og Sigurður hafi spurt sig um feril UB-027 og hann hafi svarað því án þess að draga nokkuð undan.

Vitnið, Sigurður Helgason, lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir lögreglu vegna ofangreindra viðskipta 20. nóvember 1997. Í skýrslu sem þá var tekinn af honum lýsti hann þessum viðskiptum. Kvaðst hann hafa keypt bifeiðina UB-027 af ákærða og hafi verið gengið frá sölunni 12. september 1996. Kaupverðið hafi hann greitt með því að setja bifreið sem hann átti, að verðmæti 850.000 krónur upp í UB-027 en hafi svo staðgreitt mismuninn með peningum, 300.000 krónum. Fyrir dómi staðfesti vitnið lögregluskýrsluna og kvað rétt eftir sér haft. Hann bar fyrir dóminum að hann hafi spurt hvort veð hvíldi á bifreiðnni en ákærði hafi svarað því neitandi. Þegar hann hafi svo fengið afsalið í hendur hafi hann talið sig fá staðfestingu á því að UB-027 væri veðbandslaus, þar sem í afsalinu kemur ekkert fram um að veðbönd séu á bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir að á vegg á bílasölunni hafi hangið skilti þess efnis, að ákærði væri löggiltur bílasali. Hann hafi því ekki talið sig haft neina ástæðu til að efast um lögmæti þessara viðskipta og hafi treyst ákærða og starfsmönnum þar. Vitnið kvað svo ákærða hafa haft samband við sig 19. nóvember 1997, og sagt sér að hann mætti eiga von á bréfi frá Samvinnusjóði Íslands hf. þar sem að vitnið væri krafinn um greiðslu á veði sem væri áhvílandi. Kvaðst ákærði ætla að leysa það mál. Kvað vitnið ennfremur að ákærði hafi aldrei kynnt sér að hann væri eigandi Gosa ehf., sem var skráður eigandi UB-027, og hafi hann haldið að ákærði ætti ekki nokkurra hagsmuna að gæta við söluna.

Vitnið, Oddur Borgar Björnsson, kvaðst hafa verið Sigurði Helgasyni til halds og trausts í ofangreindum bílakaupum. Hann væri mikill áhugamaður um bíla og því hafi Sigurður beðið hann um að aðstoða sig við bílakaupin. Kvað vitnið þá fyrst hafa átt samskipti við annan starfsmann á bílasölunni en ákærði hafi alfarið séð um að leiða kaupin til lykta. Kvaðst vitnið hafa verið vottur við afsalsgerðina. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða um veðbókarvottorð fyrir UB-027, og ákærði sagst ætla að fletta upp á því í tölvu hjá sér og hann sagt þeim að engin veðbönd væru á UB-027. Staðfesti hann frásögn Sigurðar að þeim hafi aldrei verið greint frá því að Gosar ehf., sem var eigandi UB-027, væri í eigu ákærða. Þeir hafi talið að UB-027 hafi verið í eigu einhvers þriðja aðila. Aðspurður varðandi þessi viðskipti kvaðst vitnið ekki hafa haft neina ástæðu til að vefengja ákærða. Mikið hafi verið í fréttum á þessum tíma fjallað um bílasala og löggildingu bílasala, þar hafi komið fram að menn gætu treyst bílasölum sem væru með viðeigandi vottorð. Hann hafi séð löggildingarskjal ákærða upp á vegg og því talið sig vera á bílasölu sem væri treystandi.

Samkvæmt þeim gögnum sem liggja frammi í málinu veðsetti ákærði UB-027 fyrir skuldabréfi, að uppgreiðsluandvirði 1.086.180 krónur, deginum fyrir umrædda sölu þrátt fyrir að ákærða mátti vera það ljóst að mjög líklega kæmi til sölu. Kemur það fram í framburði ákærða sjálfs að viðskiptin hafi átt sér aðdraganda en hann hafi engu að síður beðið um veðflutninginn, sem hann hafi svo talið sig hafa stöðvað með samtali við starfsmann Samvinnusjóðs Íslands hf. Starfsmaður þessi hefur ekki verið leiddur fyrir dóminn til að bera vætti um þetta atriði. Er það mat dómsins að ekkert sé komið fram í málinu sem að styður þennan framburð ákærða. Frásögn ákærða um að hann hafi kynnt Sigurði Helgasyni um veðböndin er ótrúverðug. Verður að leggja til grundvallar framburð vitnana Sigurðar og Odds sem að mati dómsins er trúverðugur, og fær stuðning í afsalinu fyrir UB-027, en þar er engra veðbanda getið. Þá bar ákærða að upplýsa kaupandanum um eignaraðild sína að fyrirtækinu Gosar ehf., sem stóð að sölu bifreiðarinnar.  Ákærði hefur ekki sýnt fram á að það hafi hann gert.  Þegar litið er til alls framangreinds svo og famburðar framangreindra tveggja vitna þykir fyllilega í ljós leitt að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir í þessum lið ákæru og varðar brot hans við 248. gr. almennra hegningarlaga 19/1940.

7. liður II. kafli.

Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa fært veðskuldabréf yfir á bifreiðina EJ-733 7. apríl 1997, daginn fyrir sölu umræddrar bifreiðar. Kvað ákærði þá ekki hafa verið komið til neinnar sölu á EJ-733. Þegar gengið hafi verið frá afsalinu hafi hann tjáð kaupanda um veðið sem færi inn á hana þar sem kominn væri í gang veðflutningur en það færi svo út af henni aftur. Kvaðst hann fullviss um að hafa tilkynnt kaupanda frá þessu. Ástæðu þess að þetta komi ekki fram á afsalinu fyrir EJ-733 taldi hann það stafa af handvömm sinni.

Vitnið, Sigurður Þorbjörnsson, kaupandi EJ-733, kvað eiginkonu sína, Björgu Lárusdóttur, hafi verið að leita eftir bifreið til kaups á bílasölum borgarinnar. Hún hafi séð fyrrnefnda bifreið á bílasölunni Bílatorg ehf, og litist vel á hana. Vitnið kvað eiginkonu sína hafa séð aðallega um viðskiptin á bílasölunni en hann hafi ekki komið að málinu fyrr en undir lokin, eiginkona sín hafi séð um þær samningaviðræður sem á undan höfðu farið meðal annars varðandi verð bifreiðarinnar og tilhögun greiðslu. Hann hafi komið einu sinni til að líta á EJ-733 og svo aftur til að ganga frá kaupunum. Þegar búið var að sættast á verð bílsins hafi þau verið beðin um að koma aftur á bílasöluna til að ganga frá kaupunum. Starfsmaður á bílasölunni, sem hann gat ekki nafngreint, hafi séð um mest það sem að á undan var gengið en ákærði hafi tekið við þegar kom að skjalagerð og hafi sent hinn starfsmanninn heim. Vitnið fullyrðir að ákærði hafi hvorki tjáð sér né konu sinni að veðbönd væru á EJ-733. Vísar hann framburði ákærða um annað á bug og segir þau rakin ósannindi.  Vitnið fullyrti að ákærði hafi aldrei greint sér frá því að hann væri eigandi Gosa ehf. sem var skráður eigandi EJ-733, en hins vegar hafi sölumaður sem vann á bílasölunni tjáð þeim hjónum að bíllinn væri eign bílasölunnar. Það hafi svo verið um það bil ári eftir að hann keypti EJ-733 sem hann hafi fengið innheimtubréf frá lögmönnum Sjóvá- Almennra þar sem hann hafi fyrst komist að raun um það að veðbönd hvíldu á bifreiðinni. Vitnið kvað allar líkur benda til þess að gert yrði lögtak í EJ-733.

Björg Lárusdóttir, eiginkona Sigurðar, kom ennfremur fyrir dóminn og bar vitni. Kvaðst hún hafa annast samningaviðræður við starfsmenn Bílatorgs ehf. sem leiddu til kaupa á EJ-733. Kvaðst hún aðallega haft kaupskap við Arnþór Grétarsson, starfsmann bílasölunnar, en ákærði hafi gengið frá kaupunum. Staðfesti hún frásögn Sigurðar um að ákærði hafi ekki sagt þeim frá veðböndum þeim er hvíldu á EJ-733. Björg kvað ennfremur að Arnþór hafi sagt þeim hjónum frá því að bílasalan væri eigandi EJ-733 en ákærði  hafi þagað um það þunnu hljóði.

Vitnið, Arnþór Grétarsson, kvaðst kannast við þessi viðskipti. Hann hafi sýnt þeim bifreiðina og séð um undirbúning  þessara viðskipta. Ákærði hafi svo tekið við er komið var að undirritun pappíra, sem hafi verið venjan þegar að hann hafi verið á staðnum. Vitnið sagði að það væri ekki algengt að ákærði hafi vísað sér út af skrifstofunni áður en skjöl væru undirrituð en óhjákvæmilega hefði hann oft þurft að sinna afgreiðslu frammi í sal bílasölunnar. Þar af leiðandi hafi hann mjög sjaldan verið viðstaddur þegar skjöl voru undirrituð.

Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa leynt vitnin Sigurð og Björgu því að á bílnum hafi hvílt veðbönd. Það hafi verið handvömm af sinni hálfu að geta þess ekki á afsalinu. Framburður ákærða er ekki trúverðugur og hann hefur ekki fært neitt það fram sem sannar þessar fullyrðingar hans. Í afsalinu kemur hvergi fram að veðbönd hvíli á EJ-733. Framburður ofangreindra vitna þykir hins vegar trúverðugur. Með framburði þeirra og hliðsjón af framansögðu þykir sannað að ákærði hafi framið þann verknað sem lýst er í ákæruskjali, en atferli ákærða er réttilega heimfært undir 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

8.liður II. kafli.

Ákærði neitar því að hafa leynt Guðbrand Þorkelsson því að á bifreiðinni YU-033 hvíldu veðbönd. Hann kvaðst engum blekkingum hafa beitt. Kvað ákærði tímasetningu í ákæru ranga þar sem ranglega komi fram að viðskiptin hafi átt sér stað 23. nóvember 1997. Réttara sé að það hafi verið 23. nóvember 1996, sem var leiðrétt undir rekstri málsins. Undir rekstri málsins lagði ákærði fram í dóminn afrit af afsali 23. nóvember 1996 vegna sölu Gosa ehf. á YU-033 til Guðbrands fyrir 1.600.000 krónur, svo og afsal hans sama dag vegna sölu Guðbrands á TG-270 til Gosa ehf. fyrir 1.820.000 krónur.  Þessi afsöl voru ekki meðal gagna málsins. Benti ákærði réttilega á fyrir dómi að á fyrrnefnda afsalinu komi fram að veðbönd hvíli á bifreiðinni sem að ákærði skuldbatt sig til að aflétta innan tíu daga. Kvað ákærði söluna hafa farið þannig fram að Guðbrandur hafi skipt dýrari bifreið fyrir YU-033 og hann hafi borgað Guðbrandi 100.000 krónur í milligjöf. Ákærði sagði að veðsetningin fyrir fjárhæðinni 1.323.813 krónur hafi komið til vegna láns vegna Gosa ehf.

Vitnið, Guðbrandur Þorkelsson, kvaðst hafa séð á bílasölu ákærða bifreið sem að sér hafi litist vel á. Hann og ákærði hafa komið sér saman og ákveðið verðtilboð. Vitnið kvaðst hafa átt viðskipti við ákærða áður sem hefðu gengið snurðulaust fyrir sig. Vitnið hafi haldið að maður af kínversku bergi brotinn væri eigandi YU-033. Ákærði hafi látið í veðri vaka að hann væri með hana í umboðssölu en ekki að hún væri í eigu Gosa ehf. Vitnið bar fyrir lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi ekki sagt sér að veðbönd hvíldu á YU-033, og það hafi komið sér í opna skjöldu þegar að hann hafi komist að raun um svo hefði verið. Hann hafi því leitað sér lögmannsaðstoðar og málið í framhaldinu kært til lögreglu. Hann kvaðst hafa týnt gögnunum um sölu bifreiðanna tveggja. Leit að þeim hafi engan árangur borið.  Vitnið var leitt á ný fyrir dóminn þegar lögð höfðu verið fram skjöl er vörðuðu söluna, sem ákærði kom með í dóminn. Voru vitninu sýnd skjölin, þar á meðal afsal vegna kaupa vitnisins á YU-033. Þar kemur fram að á YU-033 hvíli veðbönd sem að seljandi skuldbindi sig að aflétta. Kannaðist vitnið við undirritun sína á því skjalinu, en kvaðst óviss um hvort hann hefði ritað stafina GJ undir útskrift ökutækjaskrár frá sama degi og kaupin voru gerð og feril eigenda YU-033. Í þessum gögnum kemur meðal annars fram að veðbönd hvíla á bílnum. Vitnið kvaðst engu að síður jafn viss og fyrr um að hann hafi keypt og tekið við YU-033 án þess að hafa vitað um að veðskuld hvíldi á bifreiðinni. Hann hafi ekki tekið eftir því á afsalinu og mundi ekki eftir öðrum gögnum um söluna, og ítrekaði þann framburð að það hafi komið honum í opna skjöldu þegar hann komst að því að veðbönd hvíldu á YU-033, sex mánuðum seinna. Vitnið seldi Ingvari Helgasyni hf. bifreiðina og varð að samkomulagi að kaupandinn tæki að sér að aflétta veðinu. 

Þórunn Einarsdóttir, eiginkona Guðbrands, var vottur að umræddu afsali. Kvaðst hún lítið hafa komið nálægt þessu máli, en hún hafi farið með manni sínum þegar hann sótti bílinn og verið viðstödd afsalsgerðina. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvað stóð í afsalinu, en staðfesti undirskrift sína undir það. Vitnið kvaðst í framhaldinu ekki muna eftir einu einasta skjali sem varða kaupin. Um eignarhald bílsins sagði vitnið að ákærði hafi sagt við þau að YU-033 væri eign Gosa ehf. sem hefði verið stofnað í kringum veitingarekstur Sjanghæ. Vitnið sagði að hvorki hún né Guðbrandur hafi vitað um að veð hafi hvílt á YU-033, er Guðbrandur festi á honum kaup.

Ákærði hefur á öllum stigum málsins neitað að hafa leynt kaupanda YU-033 því að veðbönd hvíldu á títtnefndri bifreið. Fær sá framburður hans stoð í afsali því sem gert var við viðskiptin. Er ofangreind afsöl höfðu verið lögð fram af hálfu ákærða við aðalmeðferð málsins féll ákærðuvaldið frá þeirri lýsingu í ákæru að því er þennan lið varðar að ákærði hafi talið Guðbrandi trú um að bifreiðin hafi við kaupin verið veðbandslaus, en vísaði í þess stað til lýsingar á háttsemi hans er fram kemur í upphafi II. kafla ákæru og vísar til tilvika, sem fjallað er um í 1.-5. tl. þessa kafla ákæru, en þar kemur meðal annars fram að ákærði hafi við kaup tiltekinna bíla lofað að aflétta veðböndum er á þeim hvíldu. Var ákæran leiðrétt í samræmi við þetta. Ákærði hefur ekki sýnt fram á að hann hafi haft í frammi einhverja tilburði til að aflétta þinglýsingu veðskuldar á YU-033, en þinglýsingin fór fram tveimur dögum eftir kaup YU-033 og einum degi fyrir umskráningu. Bílalán það sem að YU-033 var veðsett fyrir var að fjárhæð 1.323.813 krónur. Á þessum tíma hafði ákærði þegar selt bifreiðarnar í 1.- 2. lið og 6. lið hér að framan með veðböndum, sem hann hafði ekki aflétt er kaupin, sem hér er fjallað um voru gerð. 

Kaupin voru gerð í nafni félagsins Gosa ehf., sem var í eigu ákærða og eiginkonu hans.  Vitnin Guðbrandur og eiginkona hans, Þórunn, hafa bæði borið að ákærði hafi ekki tjáð þeim hver stæði að baki félagsins Gosa ehf.  Ákærða bar við gerð kaupanna að upplýsa kaupandann sérstaklega um það að hann sjálfur og/eða fyrirtæki hans stæði að baki sölunni.  Hann hefur ekki sýnt fram á að það hafi hann gert. Á þessum tíma hafði ákærði þegar selt bifreiðarnar í 1., 2, og 6. lið hér að framan með veðböndum, sem hann hafði ekki aflétt er hann seldi YU-033.  Honum hlaut að vera ljóst er kaupin gerðust að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Að þessu virtu og með vísan til þess að ekkert bendir til þess að ákærði hafi haft getu til að aflétta umræddu veðbandi, er það mat dómsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hann nú er sakaður um.  Varðar hún við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

9. liður II. kafli.

Ákærði kvaðst fyrir dóminum kannast við viðskiptin í þessum ákærulið. Þau hafi verið með þeim hætti að Ingibjörg Dís Geirsdóttir hafi keypt bifreiðina KH-156 af Lindarhvammi ehf. og í því skyni látið aðra bifreið upp í, að verðmæti 390.000 krónur, og mismuninn krónur 1.000.000 hafi átt að greiðast með kaupleigusamningi frá Glitni hf. Sá kaupleigusamningur hafi þó aldrei farið í umferð. Ákærði neitaði því að hafa beitt Ingibjörgu blekkingum um að veðskuld hvíldi á bifreiðinni. Upphaflega lánið frá Glitni hf. hafi verið að upphæð krónur 1.463.198. Umrædd ein milljón hafi átt að ganga inn til Glitnis ehf. sem uppgreiðsla á láninu. Ákærði kvað lánið sem hafi hvílt á bifreiðinni hafa verið hærra og mismuninn hafi hann ætlað að greiða. Um það hvers vegna kaupandi var látinn sækja um nýtt lán en ekki látinn yfirtaka það lán sem var á bifreiðinni, ef Glitnir hf. hafi gert það að skilyrði að veðið fyrir fyrra láninu færi af, sagði ákærði að staðið hafi til að færa umrætt veð yfir á annan bíl, en eftir að hann ákvað að hætta við veðflutninginn hafi hann tekið þá ákvörðun  að kaupleigusamningurinn skyldi ganga til uppgreiðslu á láninu. Kvað ákærði kaupanda hafa verið kunnugt um það og ennfremur fullkunnugt um það að veðið hvíldi á bifreiðinni. Hann sagði að hann hafi selt JN-820 nokkru síðar og hafi andvirðið runnið til Gosa ehf. 

Vitnið, Ingibjörg Davíðsdóttir, kvaðst hafa keypt bifreiðina KH-156 af ákærða eftir að starfsmaður á bílasölunni, Arnþór Grétarsson, hafi haft milligöngu um kaupin. Hún hafi borið upp við Arnþór tilboð um að setja bifreið sem hún átti, JN-820, upp í KH-156 og greiða svo 1.000.000 krónur í formi Glitnisbílaláns. Ákærði hafi samþykkt tilboð þetta með milligöngu Arnþórs eftir að hafa prufukeyrt bifreið vitnisins. Vitnið kvað nokkra daga hafa síðan liðið en þá hafi Arnþór haft símasamband við Magnús, sambýlismann hennar, og spurt hann hvort þau ætluðu að kaupa bifreiðina. Magnús hafi sett fram þá kröfu að útvarp og vetrardekk yrðu að fylgja með bifreiðinni og hafi Arnþór samþykkt það og hafi þá verið ákveðið að ganga frá kaupunum að þessum skilyrðum uppfylltum. Síðan hafi liðið 1-2 dagar þar til að samþykki kom frá Glitni hf. vegna bílalánsins sem hún ætlaði að taka til að greiða fyrir KH-156. Þegar það samþykki kom hafi hún farið á bílasöluna til ákærða til þess að undirrita afsal bifreiðar sinnar og Glitnisskuldabréfið. Ákærði hafi þá tjáð sér að hann myndi senda Glitni hf. afsalið fyrir KH-156 og áðurnefnt skuldabréf til undirritunar og Glitnir hf. myndi síðan senda sér þessi gögn. Glitnir hf. myndi svo sjá um að skrá umráð hennar yfir bifreiðinni eftir að gengið yrði endalega frá láninu. Að því búnu hafi hún fengið KH-156 afhenta og ekið á brott. Fyrsta afborgun á láninu hafi átt að koma eftir áramót. Þegar engin rukkun kom hafi hún sett sig í samband við Glitni hf. og þá komið í ljós að á bifreiðinni hvíldi umrætt veð. Í framhaldinu kvað vitnið KH-156 hafa verið tekinn af sér og hann settur á nauðungaruppboð.  Vitnið kvaðst ennfremur ekki hafa vitað að KH-156 hafi verið í eigu fyrirtækis sem ákærði hafi átti.  Það hafi aldrei komið til tals og sér hafi aldrei verið greint frá því að ákærði ætti þar hagsmuna að gæta í umræddum viðskiptum.

Vitnið Arnþór Grétarsson, fyrrverandi starfsmaður ákærða, kvaðst kannast við viðkomandi viðskipti. Staðfesti hann undirskrift sína sem vitundarvott á afsalinu fyrir JN-820. Kvaðst hann hafa komið að þessu máli með því að sýna og kynna Ingibjörgu og sambýlismanni hennar umrædda bifreið. Kvaðst hann hafa vitað að þau hafi ætlað að taka kaupleigu fyrir KH-156. Aðspurður kvaðst hann ekki reka minni til að hafa vitað að veð hvíldi á KH-156, hún hafi verið nýkomin á bílasöluna og ákærði hafi alfarið séð um að ganga frá þessari sölu.

Ákærði hefur neitað að hafa leynt kaupanda KH-156 því að veð hvíldi á bifreiðinni og fullyrt að henni hafi verið kynnt að á bílnum hvíldi veð.  Hann kvaðst ekki hafa útbúið afsal vegna kaupanna þar sem afsalið hafi átt að vera milli Gosa ehf. og Glitnis þar sem um kaupleigusamning var að ræða, enn ekki lán. Bifreiðina sem hann tók upp í við kaupin hafi hann selt nokkrum dögum síðar. 

Ingibjörg hefur borið að hún hafi ekki vitað um umrædd veðbönd heldur hafi hún treyst ákærða. Frásögn ákærða um það að hann hafi ætlað að aflétta láninu, sem hvíldi við kaupin á KH-156 sem þá var að eftirstöðvum 1.238.141 króna, sem var rúmlega 200 þúsund krónum hærra en mismunurinn sem kaupandinn ætlaði að greiða með kaupleigusamningi við Glitni, og að hann hafi svo samið um það munnlega að greiða kaupandanum þessar 200.000 krónur, sem á vantaði, er afar ótrúverðug, enda hefur ákærði engin gögn lagt fram um samning af þessu tagi. Bifreið þá sem kaupandinn lét upp í kaupin, sem metin var á 390.000 krónur við kaupin, seldi ákærði nokkrum dögum síðar og hefur hann ekki greitt kaupandanum neitt af andvirði hennar.  Ákærða bar að upplýsa viðsemjanda sinn sérstaklega um það ef veð hvíldi á bifreiðinni. Viðsemjandi ákærða var ekki sérfróð um slík viðskipti og var jafnræði því ekki með samningsaðilum við samningsgerðina.  Eigandi bifreiðarinnar var Lindarhvammur ehf.  Bar ákærða eins og hér stóð sérstaklega á að taka fram svo óyggjandi væri að hann væri að selja bifreið fyrirtækis sem hann átti eignaraðild að.  Hann hefur ekki sýnt fram á að það hafi hann gert. Á þeim tíma er kaupin voru gerð hafði ákærði þegar selt bifreiðarnar í 1.-8. lið hér að framan með veðböndum, sem hann hafði ekki aflétt.  Þá hafði hann einnig gefið út megnið af þeim tékkum, sem fjallað er um í IV.kafla hér á eftir. Honum hlaut því að vera ljóst er kaupin gerðust að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar við kaupanda KH-156.

Þegar allt framangreint er virt þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi leynt kaupanda KH-156 því að umrætt veð hvíldi á bifreiðinni svo og að í raun stæði hann að baki sölu bifreiðarinnar.  Þykir sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir í þessum lið ákæru og varðar brot hans við 248. gr. almennra hegningarlaga.  

III. Kafli.

Í ákæru eru lögin um sölu notaðra ökutækja ranglega tilgreind sem lög nr. 19/1994 í stað laga nr. 69/1994. Lögin um breyting á síðargreindum lögum eru einnig ranglega sögð lög 69/1997 í stað laga nr. 20/1997. Þessir annmarkar á ákæru þykja þó ekki til þess fallnir að dómur verði eigi lagður á ákæruatriði þau er í þessum kafla greinir, þar sem vörn varð ekki áfátt að því er þetta varðar, sbr. 117. gr laga nr 19/199l, um meðferð opinberra mála.

Ákærði hefur neitað þeim sakargiftum sem lýst er í III. kafla ákæru. Að því er sakarefnið í 7. tölulið II. kafla varðar hafa vitnin Sigurður Þorbjörnsson og Björg Lárusdóttir borið að sölumaður á bílasölunni hafi tjáð þeim að bifreið sú sem þau voru að kaupa væri í eign bílasölunnar. Í tilefni þessa framburðar féll ákæruvaldið frá tilvísun til þessa töluliðar í málavaxtalýsingu III. kafla ákæru.  Verður því ekki tekin afstaða til þessa tilviks í máli þessu.

Eins og rakið er í II. kafla hér að framan telur ákærði sig hafa greint viðskiptavinum sínum frá því að hann væri eigandi þeirra bifreiða sem hér um ræðir. Kveðst hann ávallt hafa komið fram fyrir hönd fyrirtækisins, hann hafi undirritað öll gögn, með einni undantekningu, sbr. 2. lið, og það hafi aldrei verið neitt leyndarmál að fyrirtæki hans væri eigandi umræddra bifreiða. Í vætti vitna, sem rakið hefur verið í II. kafla og tengjast ákæruliðum 3, 4, 5, 6, 8 og 9 hafa kaupendur og önnur vitni sem komu að kaupunum staðfastlega og á trúverðugan hátt borið um að ákærði hafi ekki greint þeim frá tengslum sínum við þær bifreiðar er viðskiptin snerust um hverju sinni. Fram er komið að því er varðar kaupin í 2. lið að Arnþór Grétarsson, starfsmaður bílasölunnar,  sá um söluna.  Er upplýst, eins og rakið var í þessum lið, að ákærði var í stöðugu símasambandi við Arnþór er kaupin vopru gerð. Sú fullyrðing ákærða, að hann hafi sérstaklega brýnt fyrir sölumanni sínum að tilkynna viðsemjendum bílasölunnar um eignarrétt bílsins, telst ósönnuð í ljósi framburðar Arnþórs, enda ber bifreiðasali ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við sölu, sbr. 5. gr. laga 69/1994 um sölu notaðra ökutækja. Þau vitni sem leidd voru fyrir dóminn vegna þessa ákæruliðs báru fyrir dóminum að þeim hafi aldrei verið tilkynnt um eignartengsl ákærða og bifreiðarinnar sem þau keyptu. Er það mat dómsins að framburður þeirra í þessu efni sé trúverðugur.

Í 5. gr. laga nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja kemur fram, að bílasali skuli gæta þess að viðskiptamenn hans njóti meðal annars jafnræðis um upplýsingar. Eins og og rakið hefur verið hér að framan hafa vitni sem leidd hafa verið fram vegna ákæruliða 2, 3, 4, 5, 6, 8 og 9 II. kafla borið að þeim hafi ekki verið kynnt að félög þau, sem sem stóðu að sölu bifreiðanna, þ.e. Gosar ehf. að því er varðar sölu bifreiðanna í 2.-8. lið og Lindarhvammur ehf. að því er varðar söluna í 9. lið, væri í eign ákærða og eiginkonu hans. Vitnið Vilhjálmur Þorsteinsson, sbr. 4. liður, ætlar þó að hann hafi gert sér grein fyrir því við afsalsgerðina að ákærði væri í raun að koma fram sem seljandi bílsins, en ákærði hafi aldrei tilkynnt honum að hann ætti nokkurra hagsmuna að gæta. Framburður Arnþórs Grétarssonar um það hvernig háttað var upplýsingum um eignaraðild ákærða að Gosum ehf. hefur verið rakinn í kafla II.2 hér að framan og vísast til hans. Arnþór bar þó einnig að ekki hafi verið um það að ræða viðskiptavinir Bílatorgs ehf. hafi vísvitandi verið leyndir þessum hagsmunatengslum, en það hafi yfirleitt komið í hlut þess sem sá um söluna að upplýsa um eignarréttinn á viðkomandi bifreið, sem að oftast hafi verið ákærði.

Í 7.gr. laga nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja kemur fram, að þess verði jafnframt að geta í kaupsamningi hyggist bifreiðasali selja eigið ökutæki. Sama gildi ef maki bifreiðasala eigi í hlut. Sá háttur sem ákærði viðhafði við undirritun kaupsamnings verður ekki talinn vera fullnægjandi í þessu efni. Til þess er að líta að afsölin voru samin einhliða af hálfu Bílatorgs ehf. og að viðsemjendur ákærða voru ekki sérfróðir um slík viðskipti, þótt komið hafi fyrir að sumir þeirra hafi áður selt eða keypt bíla. Jafnræði var því ekki með samningsaðilum við samningsgerðina og bar ákærða því að taka skýrt fram í afsölunum að hann væri að selja bifreið fyrirtækis sem hann átti eignaraðild að. Með ofangreint í huga er það mat dómsins að ákærði sé sannur að sök af þeirri háttsemi, sem lýst er í þessum kafla ákæru og hafi samkvæmt að því er varðar viðskiptin, sem lýst er í ákæruliðum 2, 3, 4, 5, 6, 8 og 9 II. kafla brotið gegn 7. gr., sbr. 10. gr laga um sölu notaðra ökutækja  nr. 69/1994.

IV. Kafli.

liður IV. kafla.

Ákærði kvað lýsinguna á viðskiptum þeim sem lýst er í þessum lið ákæru vera rétta en kvaðst mótmæla því að um fjársvik væri að ræða. Kvað hann einnig vera rétt að ekki hafi verið til innistæða fyrir tékkunum þegar að þeir voru innleystir. Hins vegar hafi þessi viðskipti vera búin að eiga sér aðdraganda í nokkurn tíma og það hafi ávallt verið innistæður fyrir tékkunum á þeim dögum sem um hafi verið samið. Viðskiptin hafi verið búin að standa á milli sín og Ræsis hf. síðan haustið 1996 og hann hafi aldrei lent í vanskilum í þeim viðskiptum fyrr en þau sem rakin eru í þessari ákæru. Kvað ákærði viðskipti þessi hafa farið fram með þeim hætti að hann hafi í nafni fyrirtækis síns Gosa ehf. greitt Ræsi hf. fyrir bifreiðar þær sem hann keypti af þeim með tékkum sem hafi verið dagsettir fram í tímann. Þetta hafi verið gert með þeirra samkomulagi og samþykki. Tékkar þessir hafi verið trygging fyrir væntanlegri greiðslu. Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa lagt fram aðra tryggingu enda hafi ekki verið óskað eftir því, tékkarnir hafi verið taldir næg trygging. Kvaðst ákærði hafa átt viðskipti við Guðmund, sölumann og hann hafi haft samband við Ólaf gjaldkera sem hafi greint Hallgrími framkvæmdastjóra Ræsis frá viðskiptunum. Aðspurður kvaðst því ákæri telja að á umræddum tíma hafi verið tekin ákvörðun um þessi viðskipti alveg “upp í æðstu yfirmenn” Ræsis hf. Ákærði vildi ekki tjá sig um það hvenær hann hafi orðið var við að hann væri að lenda í greiðsluerfiðleikum.

Fyrir dómi kvað vitnið, Ólafur Sigurðsson gjaldkeri Ræsis hf., viðskipti við ákærða hafa staðið í fjögur til fimm ár. Hann hafi ætíð staðið í skilum og allt gengið snurðulaust fram að þeim tíma sem að í ákæru greinir. Bætti vitnið við að ákærði hafa eiginlega aldrei þurft að biðja um að geyma tékka í einn eða tvo daga. Vitnið sagði að hann hafi tekið ákvörðun um viðskipti þau sem fram koma í ákæru í samvinnu við sölumenn Ræsis hf. Ákvarðanir þessar hafi verið teknar í sameiningu og þeir hafi ekki haft nokkra ástæðu til þess að treysta honum ekki þar sem hann hafi ætíð staðið í skilum, og mikið hafi verið um það að bifreiðar hafi verið seldar með þessum hætti. Ætlaði vitnið að allar bílasölur hafi selt meira og minna með þessum hætti á tímabili, og þá með ávísunum fram í tímann, allt upp undir hálft ár. Skýringuna kvað vitnið vera þá að örðugt væri að selja notaða bíla og þeir talið sig hafa fundið leið til að losna við þá. Vitnið kvað nú búið „að skrúfa fyrir” sölu með þessum hætti. Aðspurður kvað vitnið engar sérstakar tryggingar hafa verið settar fyrir þessum viðskiptum. Kvað vitnið að reynt hafi verið af hálfu Ræsis að leita fullnustu í bifreiðum þeim sem ákærði keypti, en þær hafi verið veðsettar af ákærða.

Fram er komið að ákærði seldi fjórar bifreiðanna skömmu eftir að hann keypti þær með gjaldfresti af Ræsi hf., svo sem nánar er lýst í ákæru, en hinar þrjár seldi hann fyrirtækjum sínum og veðsetti þær. Ákærði keypti 7 bifreiðar af Ræsi hf. á mánaða tímabili fyrir allháa fjárhæð og gerði engar ráðstafanir til að tryggja efndir á ofangreindum skuldbindingum. Samkvæmt framburði vitninsins Ólafs Sigurðarsonar hafði ákærði staðið í skilum fram að þessu og hafi engin ástæða verið til að vantreysta honum þar sem hann hafi ávallt staðið í skilum. Fram hefur komið að tékkarnir voru dagsettir allt að sjö mánuði fram í tímann og án nokkurrar tryggingar nema tékkans. Hefur Ræsir hf. sýnt með þessum viðskiptaháttum aðgæsluleysi, enda full þörf á aðgát þegar svo margar bifreiðar eru keyptar á stuttum tíma með tékka dagsettum langt fram í tímann án tryggingar. Þrátt fyrir þessa vanrækslu viðsemjanda ákærða þykir ekki varhugavert að slá því föstu að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir, enda átti honum að vera það fullljóst þegar viðskipti þessi fóru fram að hann hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa við þær skyldur sem hann tók sér á hendur með þeim, svo sem að framan greinir. Hefur hann því með háttsemi sinni, sem rétt er lýst í þessum lið ákæru gerst brotlegur við 248. gr. almennra hegningarlaga.

2. liður IV. kafli.

Ákærði hefur ekki gert ágreining um málavexti varðandi þennan lið ákæru, en hann neitar sakargiftum að því leyti að hann kveðst ekki hafa beitt blekkingum við viðskiptin. Hins vegar ber ákærði því ekki í mót að tékkar þeir er hér um ræðir hafi reynst innistæðulausir við sýningu, en mótmælti því hins vegar að um svik hafi væri að ræða. Kvaðst ákærði hafa byrjað að kaupa notaðar bifreiðar frá Ingvari Helgasyni hf. 1994 eða 1995. Kvaðst hann í fyrstu hafa keypt þær í eigin nafni og hafi hann strax fengið þá fyrirgreiðslu að fá greiðslufrest á bifreiðum sem hann keypti þar en greiðsla hafi verið tryggð með tékkum sem gefnir voru út fram í tímann. Árið 1996 hafi hann svo byrjað að kaupa bifreiðar af Ingvari Helgasyni hf. í nafni Gosa ehf. Kvaðst ákærði í fyrstu hafa átt viðskipti við Helga Eyjólfsson sem hafi haft samráð um viðskiptin við Guðmund Ingvason fjármálastjóra Ingvars Helgasonar hf. Síðan kvað ákærði Hafstein Valsson hafa tekið yfir þegar hann hafi orðið yfirmaður. Á því tímabili sem hér um ræðir hafi það verið Hafsteinn Valsson sem hafi gengið frá viðskiptunum í samráði við Helga Eyjólfsson og Guðmund Ingvason. Ákærði kvað sömu stöðu hafa verið í þessum viðskiptum sem og í ákærulið 2.IV, framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi verið inni í málunum og samþykkt þau. Hann kvaðst hafa verið beðinn um að leggja fram tryggingu vegna viðskipta sinna við Ingvar Helgason hf. Staðfesti ákærði ljósrit af tryggingarvíxli að fjárhæð 7.000.000, gefinn út af móður ákærða, og kvað það hafa verið tryggingarvíxil sem hann hafi lagt fram vegna viðskiptanna. Aðspurður kvaðst ákærði ekki ætla að svara því hvort móðir sín hafi verið greiðsluhæf þegar að umræddur víxill var settur fram sem trygging. Hann kvaðst þó vilja koma því á framfæri að Ingvar Helgason hf. hafi látið fara fram könnun á henni og hafi samþykkt hana sem útgefanda á víxilinn.

Vitnið Hafsteinn Valsson kvað ákærða hafa verið í viðskiptum við Ingvar Helgason hf. fyrir þann tíma sem að hann byrjaði að vinna hjá Ingvari Helgasyni hf. á vordögum 1996. Hann væri hins vegar ekki kunnugur því hvað ákærði hafi átt lengi í viðskiptum við Ingvar Helgason hf. og ekki heldur efni þeirra. Um haustið 1996 hafi hann farið að sjá um öll viðskipti Gosa ehf. við Ingvar Helgason hf. varðandi notaðar bifreiðar og séð um þau eftir það. Kvað vitnið þá framkvæmd hafa verið á viðskiptunum við ákærða að þær bifreiðar sem Gosi ehf. hafi keypt hafi verið greiddar með tékkum sem að dagsettir voru fram í tímann. Þessi viðskiptamáti hafi ekki verið algengur gagnvart öðrum viðskiptavinum. Þessi viðskipti hafi gengið þokkalega fyrir sig og tékkarnir innleystir án mikilla vandkvæða þó ekki hafi alltaf verið til innistæða fyrir þeim við sýningu í banka, en því hafi yfirleitt verið bjargað fljótlega. Aðspurður um hvort að ákærði hafi lagt fram tryggingu vegna þessara viðskipta kvað vitnið að sér hafi verið tjáð, þegar hann fór að sjá um umrædd viðskipti að það lægju fyrir tveir víxlar að upphæð um sjö milljónir króna. Það hafi verið regla í gangi um að lánsviðskiptin væru ekki hærri en upphæð þessara víxla. Ætlaði vitnið að sú regla hafi verið sett af stjórnendum Ingvars Helgasonar hf. og hafi hún verið í gildi þegar að hann kom til starfa.

Vitnið Helgi Eyjólfsson sölustjóri Ingvars Helgasonar hf. kvað ákærða hafa greitt þá bíla sem hann keypti með ávísunum fram í tímann. Kvaðst hann fyrst hafa átt viðskipti við ákærða 1996. Síðustu ár hafi hann lítið komið nálægt þeim sölum sem fóru fram á þeim tíma. Það hafi svo verið komið fram undir áramót 1997 eða í byrjun 1998 sem ekki hafi reynst innistæða fyrir ávísunum. Kvað vitnið hafa borið fyrr á vanskilum hjá ákærða en kvaðst ekki muna hvenær á árinu 1997 hafi farið að bera á því. Aðspurður hvort það hafi borið meira á því að ákærði hafi ekki staðið í skilum en aðrir viðskiptavinir svaraði vitnið því játandi. Kvað hann ákærða hafa verið beðinn um tryggingu vegna þessara viðskipta og hafi ákærði fyrst lagt fram  víxil útgefinn af Bílatorgi ehf. upp á þrjár milljónir. Hann hafi svo fyrri hluta árs 1997 verið beðinn um betri tryggingu og þá hafi hann lagt fram víxil upp á sjö milljónir og móðir ákærða verið útgefandi. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að haft hafi verið samband við útgefanda víxilsins, en kvaðst reikna með því að lögfræðingar Ingvars Helgasonar hf. hafi gert það. Kvað vitnið það hafa átt að vera í verkahring Guðmundar Ágústs Ingvasonar framkvæmdastjóra, að meta þær tryggingar sem settar voru fram. Vitnið kvaðst ekki hafa kannað fjárhagsstöðu móður ákærða áður en hún var samþykkt sem ábyrgðarmaður víxilsins. Ákærði hafi sagt vitninu, þegar þessi víxill kom inn, að útgefandinn væri fasteignareigandi og því hafi víxillinn verið tekinn gildur sem trygging og málið ekkert kannað nánar. Vitnið sagði að ekki hefði komið til frekari viðskipta ef þessi trygging hefði ekki verið sett.

Sigrún J. Jónsdóttir móðir ákærða kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Hún kaus að nýta sér undanþágurétt sinn frá því að bera vitni, sbr b. lið 1. mgr 50. gr laga um meðferð opinberra mála.

Enda þótt ákærði kunni að hafa gert sér einhverja von um sölutekjur af fyrrnefndum viðskiptum þykir í ljós leitt að hagur hans var mjög bágur á þeim tíma er hann keypti bifreiðar þær er tilgreindar eru í ákæru. Óhætt er að slá því föstu að ákærði fékk bifreiðarnar í trausti þess að hann greiddi þær og að hann hafi sviksamlega hagnýtt sér þetta traust starfsmanna Ingvars Helgasonar hf. enda mátti hann vita að langlíklegast væri að hann gæti ekki staðið við þessar skuldbindingar. Einnig ber að líta til þess að ákærði hefur ekki sýnt fram á að tryggingarvíxill sá sem ákærði lagði fram til tryggingar, væri sú trygging sem hann átti að vera, hann hefur ekki viljað tjá sig um gjaldfærni sína á þessum tíma og verður hann að bera hallann af því. Það verður hins vegar að teljast gáleysi af viðsemjandi hans að kanna ekki hvort eignir stæðu að baki umræddum tryggingavíxli.

Fram er komið að ákærði seldir allar bifreiðarnar skömmu eftir að hann keypti þær með gjaldfresti af Ingvari Helgasyni hf. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi vanrækt að kanna tryggingar þær er stóðu að baki viðskiptunum og sýnt þá léttúð að taka á móti tékkum sem gefnir voru út með gjalddaga allt að 6 mánuði fram í tímann, þykir ekki verða hjá því komist að sakfella ákærða fyrir fjársvik, því eins og fjárhagsstöðu hans var háttað gat honum ekki dulist að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, enda er ekkert komið fram sem bendir til þess að hann hafi gert neinar ráðstafanir í þá átt.  Þegar ofangreint er virt er að mati dómsins ekki varhugavert að telja sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru, þó með þeirri leiðréttingu að viðskiptin áttu sér stað á tímabilinu frá ágúst 1997, en ekki júlí 1997. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð í ákæru til 248. gr. almennra hegningarlaga.

3. liður IV. kafli.

Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Er hann ákærður fyrir fjársvik í viðskiptum sínum við Ágúst Kristmanns við kaup á bifreiðinni MI-021. Greiddi hann Ágústi kaupverðið, 2.100.000 krónur, með fimm tékkum sem dagsettir voru fram í tímann, með umsömdum gjalddögum. Samkomulag hafi náðst á milli þeirra um að hann ætti að greiða Ágústi einn tékka mánaðarlega frá janúar 1998 að telja. Ætlað brot átti sér stað 14. október 1997, en ákærði seldi bifreiðina tveimur dögum síðar. Lögregluskýrsla var tekin af ákærða 27. maí 1998. Fullyrti ákærði þar að hann hafi haft í hyggju að greiða umrædda tékka en hann lent í fjárhagsörðugleikum og ekki getað greitt þessa tékka á umsömdum gjalddögum.

Við aðalmeðferð var upplýst að Ágúst er sjúklingur og treysti sér ekki að koma fyrir dóminn í máli þessu vegna veikinda.

Eins og að ofan greinir var ekki unnt að leiða framangreint vitni fyrir dóm við aðalflutning málsins. Ekki liggur heldur fyrir í gögnum málsins skýrsla með framburði vitnisins. Verður því eins og málum er háttað og gegn eindreginni neitun ákærða að telja að ekki sé fyrir hendi lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið það brot, sem hann er hér ákærður fyrir og ber því að sýkna hann af þeirri háttsemi.

V. Kafli.

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa í febrúar 1998, dregið sér 350.000 krónur, sem hann tók við hjá Stefáni Gísla Örlygssyni, og ganga áttu til greiðslu veðskuldar á bifreiðinni PS-473, sem ákærði hafði milligöngu um að selja á bílasölu. Með hliðsjón af  skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um þau brot, sem honum eru að sök gefin í þessum kafla ákærunnar, og eru réttilega heimfærð í ákæru til 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

B. Önnur brot.

1. töluliður.

Ákærði hefur gengist við sakargiftum þeim sem í þessum tölulið ákæru greinir. Er málavöxtum nægilega lýst í ákæru. Með játningu ákærða, sem hefur nægan stuðning í sakargögnum, þykir fullsannað að hann hafi aðhafst það sem hann er ákærður fyrir og varðar sú háttsemi ákærða við 73. gr. tékkalaga nr. 94/1933, sbr. lög nr. 35/1977.

2. töluliður.

Frá þessum ákærulið var fallið undir rekstri málsins en höfðuð ný sök á hendur ákærða með ákæru dagsettri 18. nóvember 1998, svo sem nánar er rakið síðar.

3. töluliður.

Ákærði hefur viðurkennt útgáfu tékkans og að hafa notað hann í þeim viðskiptum sem hann átti við starfsmenn Flutningamiðlunarinnar Jóna. Fyrirtækið hafi flutt fyrir hann bifreið og hafi greiðslan verið fyrir flutningskostnað og geymslu. Tékkann kvaðst hann hafa dagsett fram í tímann og hann verið trygging fyrir greiðslu skuldarinnar. Ákærði kvaðst ekki hafa samið sérstaklega um það að þessi tékki væri ekki greiðsla heldur einungis trygging, en hann hafi spurt einhvern afgreiðslumanns, sem héti Dagbjört og hún í framhaldinu spurt gjaldkerann sem hafi sagt það í lagi, sem hafi svo verið samþykkt. Við yfirheyrslu hjá lögreglunni í Reykjavík 8. júní 1998, kvaðst ákærði hafa reiknað með að næg innistæða yrði á tékkareikningi hans á innlausnardegi hans þann 27. febrúar 1998. Ákærði kvað svo tékkareikningi sínum hafa verið lokað óvænt þann 13. febrúar 1998.

Dagbjört Ólafsdóttir, starfsmaður flutningafyrirtækisins Jónar, kom fyrir dóminn og kvaðst muna eftir nefndum viðskiptum. Kvað hún ákærða hafa komið til að leysa út bíl og hann hafi notað tékka til þess að greiða flutningsgjaldið af honum og geymslugjöldin og beðið um að geyma þennan tékka fyrir sig í mánuð. Kvaðst vitnið hafa fengið leyfi yfirmanns síns fyrir því og það því verið samþykkt. Þegar átti svo að leysa út tékkann þá var búið að loka tékkareikningi ákærða. Aðspurð kvaðst vitnið ekki kannast við að tékka þennan hafi átt að nota sem tryggingu fyrir einhverri greiðslu. Umræddur tékki hafi verið afhentur sem greiðsla á þeim tíma sem hann var dagsettur. Kannaðist vitnið við tékkann sem er meðal gagna málsins, að fjárhæð 160.730 krónur, og staðfesti að um geymslutékka væri að ræða sem og að á skráðum útgáfudegi átti að vera til innistæða fyrir honum.

Meðal gagna málsins er reikningur frá umræddu flutningafyrirtæki dagsettur 2. febrúar 1998. Þar kemur fram að um er að ræða geymsluávísun en hvergi kemur fram að um tryggingu fyrir greiðslu sé að ræða, og ekkert í málinu sem styður þá frásögn ákærða. Ákærði hefur viðurkennt útgáfu tékkans en kveðst ekki hafa blekkt starfsmenn fyrirtækisins við afhendingu tékkans, enda verið að greiða skuld.  Eins og gögnum málsins er háttað og gegn neitun ákærða verður að leggja til grundvallar að um greiðslu skuldar hans við flutningafyrirtækið hafi verið að ræða.  Telst því ósannað að hann hafi hér gerst sekur um fjársvik, en brot hans varðar við 73. gr. tékkalaga.

4. Töluliður.

Ákærði mótmælti því við meðferð málsins að hann hafi blekkt gjaldkera Íslandsbanka við Gullinbrú til að kaupa tvo tékka að upphæð samtals krónur 2.303.000. Viðurkenndi hann að hann hafi gefið út tékkana án þess að innistæða væri fyrir þeim á þeirri stundu sem hann gaf þá út. Aðspurður um hvort að gjaldkerinn hafi ekki gert neinar athugasemdir við tilgreind atvik kvaðst ákærði margsinnis hafa lagt inn upphæðir bæði tékka frá honum sjálfum og öðrum þar sem að ekki var nákvæmlega innistæða á þeirri mínútu. Meðal annars leggi fyrirtæki sem eru í bílalánum inn á reikninga seinni part dags eða jafnvel eftir lokun banka í gegnum bankalínu. Kvað ákærði ekki hafa komið upp neitt vandamál í sambandi við þetta. Aðspurður að því hvort ákærði hafi rætt við gjaldkerann áður en hann hafi lagt inn tékkana kvað ákærði gjaldkerann hafa sagt við hana að það kæmi innistæða inn á reikninginn seinna um daginn. Hann hafi ekki tilgreint það nánar. Kvað ákærði hann hafa átt von á greiðslum inn á reikninginn umrædda daga, 2. og 6. febrúar 1998, en það hafi brugðist.

Vitnið, Jónína Ingibjörg Þorsteinsdóttir, bar fyrir dómi að hún væri nefndur gjaldkeri. Skýrði hún frá því að hún hafi oft tekið við tékkum frá ákærða og hún verið honum málkunnug. Kvaðst hún ekki hafa vitað að umræddar ávísanir væru innistæðulausar. Skýrði vitnið frá að ávísanir væru „skannaðar” þegar þær eru afhentar gjaldkerunum og þeir geti séð með því að „skanna” þá hvort innistæða sé fyrir þeim. Ef  ekki reynist innistæða við „skönnun” væri það regla að taka ekki við þeim. Kvaðst vitnið alloft hafa, að beiðni ákærða, tekið við ávísunum hjá honum sem ekki hafi verið innistæða fyrir á þeim tíma sem afhending fór fram, en kvaðst ekki hafa bókað þær inn eða greitt samkvæmt óskum hans fyrr en henni var ljóst að peningar væru komnir inn á reikninginn. Staðfesti vitnið fyrir dóminum að ákærði hafi leitað meira til hennar vegna þessa. Kvað vitnið umrædda daga hafa verið annadaga í bankanum en kvaðst ekki muna þessa daga nákvæmlega því hún hafi fyrst heyrt að tékkar þessir hafi verið innistæðulausir 18. febrúar, en þá hafi henni jafnframt verið sagt upp störfum. Hún hafi hringt í ákærða til að leita skýringa því hún hafa ekki trúað því upp á ákærða að hann myndi gera henni þetta vísvitandi, þar sem hún hafi treyst honum. Kvað hún líklega skýringu á því að tékkar þessir hafi farið í gegn án þess að hún tæki eftir því að þeir væru innistæðulausir, líklega vera þá að þau hafi verið að tala saman og hún rennt tékkunum í gegn án þess að athuga það þar sem hún hafi ekki alltaf verið með augun á skjánum. Þau hafi ekkert rætt um tékkana sjálfa.

Fyrir dómi og fyrir lögreglu kvaðst ákærði hafa átt von á peningum vegna væntanlegrar sölu á bifreiðum og því verið í góðri trú um það að hann gæti staðið við greiðslur á umræddum tékkum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 24. apríl 1998 kvað hann söluverðmæti þeirra ákveðnu bifreiða sem hann taldi í sjónmáli að selja, vera samtals um 3.700.000 krónur. Á þeim hafi hvílt veðbönd að upphæð 1.600.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins kom fram við athugun lögreglu á fullyrðingum ákærða að raunhæft söluverð þessara ákveðnu bifreiða væru í kringum 3.000.000 króna, en veðskuldirnar á viðkomandi tíma hafi verið rúmar tvær milljónir og tvö hundruð þúsund. Verður því að telja að hugmyndir ákærða um sölu þessara bifreiða til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar varðandi umrædda tékka afar hæpnar. Verða fullyrðingar ákærða um að sala hafa verið í vændum að teljast ósannaðar, enda ekkert því til staðfestingar. Er það mat dómsins að það hafi verið algjörlega óraunhæft af hálfu ákærða að telja að á þessum tíma ætti hann eftir að fá fé inn á reikning sinn til að standa í skilum við viðsemjanda sinn, en eins og rakið hefur verið hér að framan hafði ákærði þegar komið sér í stórkostlegar fjárskuldbindingar. Þykir í ljós leitt, þrátt fyrir aðgæsluleysi gjaldkerans við móttöku tékkanna, að ákærði hafi fært sér sviksamlega í nyt villu gjaldkerans um að innistæða væri fyrir tékkunum. Varðar þessi háttsemi hans  við  248. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæra 18. nóvember 1998.

 Ákærði hefur skýlaust játað fyrir dóminum sakarefni það sem að honum er gefið að sök samkvæmt ofangreindri ákæru. Eru skýrslur og sakargögn varðandi greinda ákæru í samræmi við játningu ákærða.  Þykir fyllilega sannað að hann hafi með þessari  háttsemi gerst brotlegur við 73. gr. tékkalaga nr. 94/1933, sbr. lög nr. 35/1977.

Viðurlög:

Samkvæmt sakavottorði ákærða, Ragnars Kornelíusar Lövdal, hefur hann fimm sinnum gengist undir dómsáttir, fjórum sinnum fyrir umferðalagabrot og einu sinni vegna brots á tékkalögum, síðast 29. nóvember 1989.

Brot ákærða, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir eru fjölþætt, mörg og stórfelld og framin í því skyni að svíkja út fjárhagsleg verðmæti, sem ákærði notaði til að fjármagna eigin rekstur, og einnig í því skyni að verða sér úti um starfsábyrgðartryggingu. Brotastarfsemi ákærða nær frá júní 1995 og fram í febrúar 1998.  Á þessum tíma sveik hann út fjármuni og vörur að verðmæti yfir 25 milljónir króna. Ekkert þessara verðmæta hefur komist til skila, en með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 12. október 1998, var bú ákærða tekið til gjaldþrotaskipta. Ákærði hefur ekki sýnt neina tilburði í því skyni að reyna að bæta fyrir brot sín. Brot þau sem hann framdi gegn viðskiptavinum sínum eru  alvarleg í ljósi þess að þau voru framin í skjóli löggildingar hans sem bílasali, sem gaf til kynna að hann hefði lagt fram starfsábyrgðartryggingu.  Hann hafði hins vegar falsað yfirlýsingu þess efnis að hann hefði aflað sér ábyrgðar lánastofnunar í samræmi við lög nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja og reglugerð nr. 406/1994 um tryggingaskyldu við sölu notaðra ökutækja í atvinnuskyni sér til handa og sent yfirvöldum með símbréfi, sbr. I. kafla ákæru 6. október sl.  Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum.  Með vísan til þess sem að framan er rakið, 77. gr. almennra hegningarlaga og verðmæti brotaandlaga haft í huga, svo og að ákærði hefur ekki bætt þeim fjölmörgu, það mikla tjón sem hann olli, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.

Ákærði, Ragnar Kornelíus Lövdal hefur krafist frávísunar á öllum bótakröfum. Er frávísunarkrafan einkum reist á því að bú ákærða hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi því átt að lýsa þeim í búið.  Kröfurnar, sem lagðar eru fram í málinu eru skaðabótakröfur og ekki kemur það í veg fyrir að dómur verði á þær lagður þótt þeim hafi ekki verið lýst í búið.

Bótakröfum Erlings Þórs Proppé kt. 010446-2799 og Bergþórs Bjarnasonar kt. 110870-5239 er vísað frá dómi, sbr 3. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála 19/1991.

Kröfur Rúnars Daðasonar, kt. 071153-5339, eru vanreifaðar og ber þegar af þeirri ástæðu að vísa þeim frá dómi.

Krafa Sigtryggs Eyþórssonar, kt. 080741-4569, er studd ljósriti skuldabréfs. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá dómi.

Krafa Sigurðar Helgasonar, kt. 010547-2459, er studd ljósriti skuldabréfs og ber að vísa henni frá dómi.

Krafa Sigurðar Þorbjarnarsonar, kt. 300153-3489 um miskabætur er vanreifuð og er henni vísað frá dómi. Er bótakrafan studd ljósriti skuldabréfs og ber að vísa kröfunni frá dómi.

Ingibjörg Dís Geirsdóttir, kt. 180462-2529, fer fram á það í málinu að henni verði greitt andvirði bifreiðarinna JN-820, sem hún lét upp í við kaupin á bifreðinni KH-156, sbr. 9. liður II. kafla ákæru, 390.000 krónur. Þá krefst hún endurgreiðslu sölulauna af áðurnefndri bifreið, að fjárhæð 25.195 krónur, samtals 415.195.  Krafan er studd nægilegum gögnum og ber því að dæma ákærða til geiðslu hennnar. Ekki er krafist vaxta af fjárhæðinni.

Kröfur Ræsis hf., kt. 540269-5809, eru studdar frumriti af umræddum tékkum og verða þær teknar til greina ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Kröfu Ræsis hf. um greiðslu vegna innheimtuþóknunar er hafnað, enda er krafan sett fram og dæmd í opinberu máli.

Kröfur Ingvars Helgasonar hf., kt. 681077-0739, byggjast á frumritum tékka þeirra er ákærði notaði við kaup á umræddum bifreiðum. Eru kröfurnar nægjanlega studdar gögnum. Kröfu um greiðslu vegna innheimtuþóknunar er hafnað enda er krafan sett fram og dæmd í opinberu máli. Ekki er krafist vaxta af fjárhæðinni.

Krafa Vilhjálms Þorsteinssonar, kt. 301265-5309, er studd ljósriti af skuldabréfi og er henni þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi.

Bótakrafa Sjóvá-Almennra trygginga hf., kt. 701288-1739, er studd nægum gögnum og verður tekin til greina, og ber að dæma ákærða til að greiða hana ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Kröfu um greiðslu vegna innheimtuþóknunar er hafnað enda er krafan sett fram og dæmd í opinberu máli.

Bótakrafa Íslandsbanka hf., Gullinbrú, Reykjavík, er studd frumriti ofangreindra tékka. Upp í upphaflegu kröfuna hafa greiðst 158.221 króna. Krafan er nægilega rökstudd. Ber að taka höfuðstól kröfunnar til greina og dæma ákærða til að greiða kröfuhafa höfuðstólinn ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Bótakrafa Flutningsmiðlunarinnar Jónar, kt. 440189-1219, er studd frumriti ofangreindra tékka.  Krafan er nægilega rökstudd og ber að taka höfuðstól kröfunnar til

greina og dæma ákærða til að greiða kröfuhafa höfuðstólinn ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Bótakrafa Vátryggingafélags Íslands hf. í ákæru frá 18. nóvember 1998, er studd ljósriti af tékka sem ákærði gaf út til greiðslu skuldar við Vátryggingafélag Íslands hf. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá dómi.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs sem ákveðast 200.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns við rannsókn og meðferð málsins, Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.

Sókn málsins annaðist Guðjón Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

D ó m s o r ð

Ákærði, Ragnar Kornelíus Lövdal, sæti fangelsi í 3 ár.

Ákærði greiði eftirgreindum aðilum skaðabætur:

Ingibjörgu Dís Geirsdóttur, kt. 180462-2529, 415.195 krónur. 

Ræsi hf., kt. 540269-5809, 8.960.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. mars 1998 til greiðsludags.

Ingvari Helgasyni hf., kt. 681077-0739, 5.530.000 krónur.

Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, 593.210 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 16. apríl 1998 til greiðsludags.

Íslandsbanka hf, Gullinbrú, Reykjavík, 2.143.778 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 12. febrúar 1998 til greiðsludags.

Flutningsmiðluninni Jónar, kt. 440189-1219, 160.730 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 2. febrúar 1998, en með dráttarvöxtum frá 2. mars sama ár til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð 200.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.