Hæstiréttur íslands
Mál nr. 406/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2017.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærða, X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí 2017, kl. 16.00.
Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að mál þetta hafi borist héraðssaksóknara frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 18. maí sl. en ákærði sé sterklega grunaður um að hafa veist að A utandyra við [...] við [...] í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 5. mars sl. og stungið hann með hnífi í höfuðið. Með ákæru héraðssaksóknara dags., 26. maí 2017, sé ákærða gefin að sök tilraun til manndráps sem sé brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti varðað allt að ævilöngu fangelsi og ekki skemur en 5 ára fangelsi og því ljóst að um mjög alvarlegt brot sé að ræða. Ákærði hafi neitað sök hjá lögreglu og við þingfestingu málsins sem fór fram þann 8. júní sl. Verjandi ákærða hafi óskað eftir frekari gagnaöflun og mun næsta fyrirtaka málsins fara fram föstudaginn 30. júní nk. og hafi því ekki verið ákveðin dagsetning fyrir aðalmeðferð.
Þrátt fyrir neitun ákærða sé að mati ákæruvaldsins fram kominn sterkur grunur um að ákærði hafi stungið brotaþola málsins með hnífi í höfuðið eftir að ákærði og brotaþoli hafi átt í átökum hvor við annan. Ákæruvaldið byggi þennan sterka grun sinn á framburði brotaþola sem hafi lýst því að ákærði hafi stungið sig með hnífi í höfuðið og vitni, sem eigi vinatengsl við ákærða, hafi lýst atvikum með sambærilegum hætti og brotaþoli. Að mati ákæruvaldsins fá framburðir þeirra stoð í áverkavottorði læknis sem lýsi þeim áverkum sem brotaþoli hafi hlotið umrætt sinn og sem einnig sé lýst í ákæru. Þar komi m.a. fram að brotaþoli hafi verið með skurð á höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri og hafi áverkinn náð í gegnum fulla þykkt höfuðkúpunnar auk þess sem það hafi flísast upp úr höfuðkúpunni. Greini læknir einnig frá því í læknisvottorði að ef eggvopnið hefði gengið inn í heilavefinn hefði ekki verið að sökum að spyrja og áverkinn getað leitt til mikils varanlegs tjóns og jafnvel dauða. Að mati ákæruvaldsins bendi þessir áverkar brotaþola til þess að hnífi hafi verið beitt af miklu afli í átt að höfði hans. Framburður ákærða hafi verið á þann veg að til átaka hafa komið milli hans og brotaþola og ákærði að lokum náð hnífi af brotaþola, sem brotaþoli hafi komið með á vettvang. Ákærði hafi síðan kastað hnífnum í burtu. Ákærði hafi hins vegar ekki getað útskýrt með hvaða hætti brotaþoli hafi fengið þá áverka sem hann greindist með í kjölfar átakanna við ákærða. Fyrrgreint vitni sem hafi verið sjónarvottur að atvikinu hafi óskað eftir því við lögreglu að fá að gefa aðra skýrslu hjá lögreglu til þess að leiðrétta það sem hún hefði áður borið um að ákærði hafi komið með hnífinn á vettvang og kvað vitnið það ekki rétt heldur hafi það verið brotaþoli sem kom með hnífinn á vettvang. Hafi vitnið talið að hnífurinn hafi fallið á jörðina í átökum ákærða og brotaþola þar sem ákærði hafi tekið hann upp og stungið brotaþola.
Mat ákæruvaldsins á hinum sterka grun fyrir broti ákærða hafi fengið stoð í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur og dómum Hæstaréttar og beri þar helst að nefna; úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-76/2017, frá 10. mars sl., nr. R-106/2017, frá 6. apríl sl. sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 226/2017 og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-131/2017 frá 4. maí sl. sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 276/2017 og þá úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. maí sl. sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 330/2017. Að mati ákæruvaldsins hafi ekkert fram komið sem gefi tilefni til þess að breyta framangreindu mati.
Að mati héraðssaksóknara séu skilyrði 2. mgr., sbr. 4. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt með vísan til alvarleika brotsins sem ákærði sé sterklega grunaður um en það geti varðað allt að ævilöngu fangelsi. Að mati héraðssaksóknara sé gæsluvarðhald einnig nauðsynlegt með vísan til eðli brotsins og að almannahagsmunir krefjist þess að ákærði fari ekki frjáls ferða sinna á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum en slíkt myndi stríða gegn réttarvitund almennings. Með vísan til alls framangreinds, fyrri úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur og dóma Hæstaréttar sem vísað hafi verið til og framlagðra gagna sé þess krafist að krafan nái fram að ganga. Um heimild til að úrskurða ákærða í gæsluvarðhald sé vísað til, 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Niðurstaða:
Í ljósi rannsóknargagna og að teknu tilliti til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 226/2017, 276/2017 og 330/2017 er á það fallist að ákærði sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás, sbr. 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga getur varðað fangelsi ekki skemur en í fimm ár eða ævilangt. Þá getur brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga varðað allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi, er því fyrir hendi. Með vísan til eðli brotsins og fyrrgreindra dóma Hæstaréttar Íslands er einnig á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ekki er fallist á að dráttur hafi orðið á málinu sbr. fyrri úrskurði og dóma en ákæra var gefin út í málinu 26. maí sl. Aðstoðarsaksóknari upplýsti við málflutning um kröfu þessa að fyrirtaka yrði í málinu 29. júní nk. en allt kapp væri lagt á að aðalmeðferð gæti farið fram sem allra fyrst.
Með vísan til framangreinds verður fallist á kröfu sóknaraðila um að ákærði sæti áfram gæsluvarðahaldi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 95. gr. sbr. og 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eins og í úrskurðarorði greinir, en ekki er efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærða, X, kt. [...], [...], [...], er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí 2017, kl. 16.00.