Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Þriðjudaginn 14. mars 2006. |
|
Nr. 137/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Fallist var á kröfu L um að X yrði bönnuð för úr landi um nánar tilgreindan tíma á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2006, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2006.
Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], verði á grundvelli 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 21. apríl nk. kl. 16.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í gær um kl. 18.50 hafi lögreglunni borist upplýsingar um að nefndur X hygðist halda til Danmerkur með flugi næsta morgun. Hafði lögregla í gærkvöldi samband við starfsmenn á Keflavíkurflugvelli í því skyni að varna X brottför frá landinu. Jafnframt hafi lögreglumaður tilkynnt X að honum yrði meinuð brottför með flugi til Kaupmannahafnar kl. 8 í morgun, sem hann hafði pantað. Hafi X verið handtekinn í morgun við brottför á Keflavíkurflugvelli.
Lögreglan í Reykjavík hafi haft til rannsóknar 8 kærumál á hendur X. Ákæra hafi verið gefin út á hendur kærða fyrir ætluð brot á umferðarlögum og verði ákæran send Héraðsdómi Reykjavíkur 13. þessa mánaðar. Í ákæru sé X gefið að sök að hafa í janúar og febrúar sl. ekið bifreið í þrjú skipti undir áhrifum áfengis og sviptur ökuréttindum og auk þess tvisvar ekið bifreið sviptur ökuréttindum.
Þá sé lokið rannsókn lögreglu á kæru fyrrverandi sambýliskonu X á hendur honum vegna ítrekaðra líkamsárása og kynferðisbrota á árinu 2005 (mál 10-2005-28940) og kæra sömu konu vegna ætlaðs húsbrots og líkamsárásar í byrjun september sl. (mál nr. 10-2005-31317). Þessi mál verði send ríkissaksóknara þegar lögregla hafi lokið rannsókn á hendur honum fyrir ætlaða nauðgun 11. febrúar sl. Rannsókn þess máls sé á lokastigi og verði það ásamt áðurnefndum málum sent ríkissaksóknara innan 10 daga.
Við lögreglu hafi talað vitni, sem hafi haft eftir X hann að hann væri á leið til Tailands og ætlaði að dvelja þar í a.m.k. 6 mánuði en hygðist jafnvel dvelja þar lengur. Upplýst sé í málinu að X hafi átt pantað flug til Kaupmannahafnar kl. 8 í morgun og í framhaldi af því til Bankok í Tailandi í fyrramálið og sömu leið til baka 11. september nk.
Rannsókn allra ofangreindra mála sé lokið, nema þess síðastgreinda en rannsókn þess sé á lokastigi.
Telja verði samkvæmt því sem að ofan sé rakið að ætla megi að kærði muni reyna að komast undan málsókn með brottför úr landi nái krafa þessi ekki fram að ganga.
Telja verði að ætluð brot kærða geti varðað við 194. gr., 217. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 48. gr. og 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 44, 1993.
Fyrir liggur að gefin hefur verið út ákæra vegna fimm umferðarlagabrota. Þá liggja fyrir þrjár kærur á hendur kærða m.a. vegna ætlaðra brota gegn 194. gr., 217. gr og 231. gr. almennra hegningarlaga. Síðasta ætlaða brotið var framið 11. febrúar sl. og er rannsókn þess á lokastigi. Mál þessi verða að sögn lögreglu send ríkissaksóknara innan 10 daga.
Þá liggur fyrir að kærði keypti farseðil til Tailands sem gildir í sex mánuði. Dómurinn fellst á það mat lögreglustjórann í Reykjavík, að ætla megi að með því sé kærði að reyna að komast undan málsókn og er krafan um að hann sæti farbanni því tekin til greina með vísan til 110. gr., sbr. b lið 1. mgr 103. gr. l. nr. 19/1991.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð :
X, [kt. og heimilisfang], er bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 21. apríl nk. kl. 16.00.