Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-97

Eydís Lára Franzdóttir, Guðni Kjartan Franzson, Sigríður Sólrún Jónsdóttir, Ólafur Þór Jónsson, Reykjaprent ehf., Jón Gestur Ólafsson, Freygerður Anna Ólafsdóttir og Edda Rún Ólafsdóttir (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Vogum (Ívar Pálsson lögmaður) og Landsneti hf. (Þórður Bogason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Framkvæmdaleyfi
  • Raforka
  • Sveitarfélög
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 7. maí 2025 leita Eydís Lára Franzdóttir, Guðni Kjartan Franzson, Sigríður Sólrún Jónsdóttir, Ólafur Þór Jónsson, Reykjaprent ehf., Jón Gestur Ólafsson, Freygerður Anna Ólafsdóttir og Edda Rún Ólafsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl sama ár í máli nr. E-1741/2024: Eydís Lára Franzdóttir, Guðni Kjartan Franzson, Sigríður Sólrún Jónsdóttir, Ólafur Þór Jónsson, Reykjaprent ehf., Jón Gestur Ólafsson, Freygerður Anna Ólafsdóttir og Edda Rún Ólafsdóttir gegn Sveitarfélaginu Vogum og Landsneti hf. Gagnaðilar taka ekki afstöðu til beiðninnar.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um ógildingu framkvæmdaleyfis gagnaðila Landsnets hf. sem samþykkt var af bæjarstjórn gagnaðila Sveitarfélagsins Voga 30. júní 2023 og gefið út 25. janúar 2024 sem og úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 25. janúar 2024 þar sem kröfu um að fyrrgreind ákvörðun yrði felld úr gildi var hafnað.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðenda. Í dóminum kom fram að í áliti Skipulagsstofnunar 22. apríl 2020 hefði hún talið umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýna fram á að lagning línunnar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar. Jafnframt að æskilegasti kosturinn væri valkostur B, það er jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Aðalvalkostur gagnaðila Landsnets hf. hafi verið valkostur C, loftlína, og samkvæmt mati Skipulagstofnunar hefði hann mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta. Héraðsdómur taldi ljóst að möguleiki á að leggja jarðstreng í stað loftlínu hefði verið ítarlega rannsakaður. Hefði gagnaðili Sveitarfélagið Vogar uppfyllt með fullnægjandi hætti rannsóknarskyldu sína áður en ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis hefði verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og einnig 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem og 13. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þá hefði efni rökstuðningsins verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Var því talið að málefnalegar ástæður hefðu legið til grundvallar veitingu leyfisins og að álit Skipulagsstofnunar hefði með rökstuddum hætti verið lagt til grundvallar við ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 og rökstutt sérstaklega af hverju vikið hefði verið frá niðurstöðu þess. Framkvæmdin þjónaði mikilvægum almannahagsmunum og því ekki unnt að fallast á að hún bryti gegn eignarrétti leyfisbeiðanda samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Ákvörðun um leiðarval gagnaðila Landsnets hf. og gagnaðila sveitarfélagsins Voga um að veita framkvæmdaleyfi hefði ráðist af mörgum atriðum sem hefðu verið vegin og metin með rökstuddum og málefnalegum hætti. Þá féllst héraðsdómur ekki á að brotið hefði verið gegn meðalhófsreglu eða aðrir annmarkar verið á ákvörðun gagnaðila Sveitarfélagsins Voga. Komst héraðsdómur því að þeirri niðurstöðu að engir form- eða efnisannmarkar hefðu verið á undirbúningi eða meðferð málsins sem leitt gætu til þess að framkvæmdaleyfi sem gagnaðili Sveitarfélagið Vogar veitti gagnaðila Landsneti hf. yrði ógilt

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu um beitingu réttarreglna, geti haft fordæmisgildi fyrir réttarframkvæmd og hafi verulega samfélagslega þýðingu. Það hafi einnig verulegt fordæmisgildi til frambúðar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfa sem sæti umhverfismati og þá eftir atvikum í andstöðu við mat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum eins og hér hátti til. Málið varði jafnframt rétt almennings til þátttöku í ákvarðanatöku sem hafi áhrif á umhverfið og grenndarhagsmuni þeirra. Mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort og þá á hvaða grundvelli heimilt sé að víkja frá áliti Skipulagsstofnunar um þann valkost sem hafi í för með sér minnst neikvæð áhrif á umhverfi og leggja þess í stað til grundvallar valkost sem hafi í för með sér mest neikvæð áhrif samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar.

6. Að virtum gögnum málsins og öllu framansögðu verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá eru ekki til staðar í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðenda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.