Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna


                                     

Þriðjudaginn 28. janúar 2014.

Nr. 6/2014.

 

M

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

K

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna hjónaskilnaðar, en lagt var til grundvallar að við fjárslit milli M og K skyldi beita helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, að nánar tiltekið málverk og krítarteikning skyldu teljast hjúskapareign K og að áunnin lífeyrisréttindi M skyldu ekki koma undir skiptin.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2013, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðilanna í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt að því leyti að tekin verði til greina krafa hans um að vikið verði við fjárslit milli aðilanna frá helmingaskiptum á þann hátt að honum „verði heimilað að taka að óskiptu eignir eða verðgildi eigna af hjúskapareign hans“, aðallega að fjárhæð 46.395.817 krónur, til vara 42.529.499 krónur, að þessu frágengnu 38.663.181 krónu, en ella 34.796.863 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati réttarins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 16. desember 2013. Hún krefst þess að úrskurðurinn verði látinn standa óraskaður að öðru leyti en því að viðurkennt verði í fyrsta lagi að lífeyrisréttindi aðilanna, aðallega öll slík réttindi en til vara þau sem áunnust meðan á hjúskap þeirra stóð, teljist til hjúskapareigna og komi til helmingaskipta, í öðru lagi að nánar tilgreindum myndverkum eftir Erró og Alfreð Flóka skuli haldið utan skipta og í þriðja lagi að andvirði [...]skírteinistryggingar sóknaraðila verði talið hjúskapareign hans og komi til helmingaskipta. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Meðal ágreiningsefna aðilanna, sem leyst var úr í hinum kærða úrskurði, var deila þeirra um hvort andvirði lífeyrisréttinda sóknaraðila ætti að koma til skipta við fjárslit milli þeirra. Varnaraðili byggði á því að til skipta ætti að koma verðmæti lífeyrisréttinda, sem sóknaraðili hafi aflað sér hjá Eftirlaunasjóði [...], og séreignarlífeyrissparnaðar hans hjá tilteknum lífeyrissjóði. Að frátöldu því að getið var á þennan hátt í málatilbúnaði beggja aðila fyrir héraðsdómi um að réttindi sóknaraðila vörðuðu þessa tvo sjóði var rætt þar um þau í einu lagi sem lífeyrisréttindi, rök voru færð fyrir kröfum varðandi þau án nokkurrar aðgreiningar og kröfurnar studdar með tilvísun til 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hvergi var á hinn bóginn á því byggt að séreignarlífeyrissparnaður kynni í þessu tilliti að lúta sérstökum reglum, meðal annars vegna ákvæða laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfum varnaraðila, sem vörðuðu þessi réttindi, og leitar hún endurskoðunar þeirrar niðurstöðu fyrir Hæstarétti, en í málatilbúnaði hennar hér fyrir dómi er sem fyrr fjallað í þessu sambandi í einu lagi um lífeyrisréttindi og hvergi vikið sérstaklega að séreignarlífeyrissparnaði sóknaraðila. Verður því að leysa á þeim grundvelli úr ágreiningi, sem lýtur að þessum réttindum.

Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar fékk sóknaraðili dómkvaddan mann 9. desember 2013 til að leggja mat á hvert hafi verið markaðsvirði fasteignarinnar að [...] í [...] 1. júlí 2005. Í matsgerð 20. desember 2013, sem staðfest var fyrir dómi 6. janúar 2014, var komist að þeirri niðurstöðu að þetta markaðsvirði hafi verið 56.000.000 krónur. Þessi síðbúna gagnaöflun sóknaraðila fær því ekki breytt að hinn kærði úrskurður verður með fyrrgreindri athugasemd staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2013.

I.

Með bréfi skiptastjóra, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 8. maí 2013, var ágreiningi aðila um fjárslit vegna hjúskaparslita skotið til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Málið var þingfest 29. maí 2013 og tekið til úrskurðar að aflokinni aðalmeðferð 22. október 2013.

Sóknaraðili er M, kt. [...], [...], [...].

Varnaraðili er K, kt. [...], [...], [...].

Sóknaraðili krefst þess aðallega að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 1. mgr. 104. gr. s.l. og að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu eignir eða verðgildi eigna af hjúskapareign hans, aðallega að fjárhæð 46.395.817 krónur, til vara að fjárhæð 42.529.499 krónur, til þrautavara að fjárhæð 38.663.181 króna og til þrautaþrautavara að fjárhæð 34.796.863 krónur eða að annarri fjárhæð að mati réttarins.

Þess er krafist að lífeyrisréttindi sóknaraðila komi ekki til skipta, en til vara að einungis komi til skipta lífeyrisréttindi sóknaraðila sem hann vann sér inn meðan á hjúskap aðila stóð. Í báðum tilvikum er þess krafist að til frádráttar komi lífeyrisréttindi varnaraðila. Þá er gerð sjálfstæð krafa þess efnis að öll lífeyrisréttindi konunnar komi til skipta án tillits til lífeyrisréttinda sóknaraðila.

Að hafnað verði kröfu varnaraðila um greiðslu sóknaraðila á húsaleigu fyrir afnot hans af fasteignunum nr. [...] og sumarhúsi við [...]. Til vara að krafan verði lækkuð og til þrautavara að einungis verði tekin til greina krafa fram að úrskurðardegi um opinber skipti.

Að málverk eftir Erró og Alfreð Flóka, sbr. dskj. nr. 9 og 10, teljist til eigna búsins.

Að hafnað verði kröfu varnaraðila um að skírteinistrygging sóknaraðila komi til skipta við opinber skipti til fjárslita á búi aðila.

Að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf.

Við munnlegan málflutning féll sóknaraðili frá kröfu sinni um að lífeyriskröfu varnaraðila yrði vísað frá dómi.

Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:

Að við opinber fjárskipti milli aðila máls þessa verði farið eftir meginreglunni um helmingaskipti sbr. 103. gr. hjúskaparlega nr. 31/1993.

Að viðurkennt verði að áunnin lífeyrisréttindi aðila verði talin til hjúskapareignar og verði skipt til helminga á milli aðila.

Að sóknaraðili greiði varnaraðila húsaleigu fyrir afnot hans af einbýlishúsinu að [...], 175.000 krónur á mánuði, frá 4. febrúar 2012 til 15. júní 2013, samtals 2.864.167 krónur, og 50.000 krónur á mánuði vegna afnota af 120 fm sumarbústað, [...], frá 4. febrúar 2012 til 27. júní 2013, en gjaldfallin krafa sé nú samtals 838.333 krónur.

Að viðurkennt verði að eitt málverk eftir Erró og krítarteikning eftir Alfreð Flóka, sem séu eign foreldra varnaraðila og í þeirra vörslum, skuli haldið utan við skiptin.

Að viðurkennt verði að andvirði [...]skírteinistryggingar sóknaraðila verði talin hjúskapareign sóknaraðila og komi sem slík til helmingaskipta við fjárslit milli aðila.

Að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

II.

   Málsaðilar hófu sambúð um áramótin 2004 og 2005 og gengu í hjónaband 2. júlí 2005. Málsaðilar slitu samvistum 4. febrúar 2012, en þá fór varnaraðili af heimili þeirra hjóna. Hinn 11. apríl 2012 settu málsaðilar fram kröfu sína um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í Kópavogi og hinn 9. nóvember sama ár var kveðinn upp úrskurður um að opinber skipti til fjárslita skyldu fara fram á milli þeirra. Í málinu liggur ekki fyrir hvenær skilnaðarleyfi var gefið út.

   Báðir málsaðilar störfuðu hjá fyrirtækinu [...], [...]. Varnaraðili kveður aldrei hafa komið til álita af hálfu sóknaraðila að gera kaupmála, hvorki við hjúskaparstofnun né síðar.

Við upphaf sambúðar átti sóknaraðili einbýlishús [...], en konan átti íbúð [...]. Í greinargerð sóknaraðila segir að samkvæmt skattframtölum 2005 hafi helstu eignir og skuldir aðila verið eftirtaldar:

Eignir sóknaraðila hafi verið einbýlishúsið nr. [...] sem hafi verið að fasteignamati 30.957.000 krónur, bifreiðin [...] að verðmæti 2.550.000 krónur og hluti í flugvélinni [...] að verðmæti 1.812.520 krónur. Skuldir hafi á sama tíma numið 1.822,695 krónum vegna bifreiðar og 13.794.292 krónum vegna húseignar eða samtals 15.616.987 krónum. Hrein eign hafi þannig verið 19.702.533 krónur.

Sóknaraðili kveður að samkvæmt samantekt Fasteignamats ríkisins, dags. 7. janúar 2013, hafi meðalverð á fermetra sambærilegra fasteigna verið 195.761 króna. Húsið að [...] sé 282.9 fermetrar og hafi andvirði þess á þessum tíma því verið um 55.000.000 króna. Húsið hafi verið selt fyrir atbeina skiptastjóra hinn 10. maí 2013 á 73.000.000 króna. Að sögn sóknaraðila tæmdist honum arfur á árinu 2005 að fjárhæð 5.800.000 krónur.

Sóknaraðili kveður eignir varnaraðila við upphaf sambúðar hafa verið íbúð að [...], sem hafi verið að fasteignamati 14.534.000 krónur, og bifreiðin [...] að fjárhæð 2.640.000 krónur. Skuldir hafi samtals numið 8.785.013 krónum og hrein eign hafi því verið 8.415.987 krónur. Sóknaraðili hafi selt syni sínum íbúðina að [...] hinn 17. janúar 2005 á 19.500.000 krónur. Á eigninni hafi hvílt lán að fjárhæð 6.900.000 krónur.

Sóknaraðili kveður að á sambúðartímanum hafi orðið til eftirtaldar eignir:

1.                                                                                                                                                                                                                         Sumarhús [...], matsverð     32.000.000 kr.

2.                                                                                                                                                                                                                         Hlutabréf í [...]       1.200.000 kr.

3.                                                                                                                                                                                                                         Fjórhjól    800.000 kr.

4.                                                                                                                                                                                                                         Bifreiðar skv. mati skiptastjóra                                                                                                                                  5.700.000 kr.

5.                                                                                                                                                                                                                         Málverk eftir Erró og Flóka                                                                                                                                  1.500.000 kr.

Þá hafi orðið til skuld vegna sumarhússins sem samkvæmt síðasta skattframtali nemi 9.055.456 krónum, svo og skuld vegna innflutningsgjalda á bifreið að fjárhæð 905.189 krónur.

Varnaraðili kveður að við mat á verðmætum aðila við upphaf sambúðar skilji nokkuð á milli aðila en sóknaraðili fari þar allfrjálslega með fjárhæðir. Þannig nemi hrein eign varnaraðila við upphaf hjúskapar rétt um 15.000.000 króna. Af hálfu varnaraðila sé því hins vegar mótmælt að hrein eign sóknaraðila hafi verið um 30.000.000 króna við upphaf hjúskapar aðila. Sóknaraðili hafi verið skráður fyrir einbýlishúsi í byggingu að [...], að fasteignamati 41.080.000 krónur, bifreið að verðmæti 2.550.000 krónur og hlut í flugvél að verðmæti 1.812.520 krónur.

Að sögn varnaraðila hafi fasteignin að [...] rétt svo verið tilbúin til innréttinga við upphaf sambúðar. Virði eignarinnar hafi því verið minna en fasteignamat hafi gefið til kynna. Sóknaraðili vísi til matsverðs steinsteyptra einbýlishúsa í [...] á þessu tímabili og telji það vera hærra en sem nemi fasteignamati viðkomandi eigna. Mat það, sem vísað sé til, byggist hins vegar á fullbúnum, fullfrágengnum steinsteyptum einbýlishúsum á þessu svæði. Sóknaraðili virðist horfa fram hjá þeirri staðreynd að fasteignin að [...] sé timburhús á steyptri neðri hæð og verulega hafi skort á að eignin væri fullbúin, eins og áður greini. Þannig hafi húsið hvorki verið fullbúið, fullfrágengið né hafi verið um að ræða steinsteypt einbýlishús á þessu svæði. Því sé fráleitt að þetta mat geti sagt til um virði fasteignarinnar á umræddum tíma.

Óumdeilt er að fljótlega eftir að sambúð hófst fluttu málsaðilar til [...]. Fyrstu 7 mánuði þess tíma starfaði varnaraðili sem [...]. Hún hætti hins vegar störfum eftir þann tíma en sóknaraðili var í starfi allt fram til loka árs 2011. Varnaraðili var í starfi síðustu fimm mánuði þess tíma.

Af skattframtölum áranna 2006-2012 fyrir tekjuárin 2005-2011 má sjá að tekjur mannsins voru samtals 155.377.452 krónur, en konunnar 13.998.437 krónur. Heildartekjur þeirra námu því 169.375.889 krónum. Sóknaraðili bendir á að hlutur hans hafi þannig numið 91,73%, en hlutur konunnar hafi numið 8,27%.

Varnaraðili kveður málsaðila báða hafa starfað hjá [...] við upphaf hjúskapar. Breytingar hafi orðið á högum aðila á árinu 2007 er sóknaraðili hafi hafið störf sem [...]. Vegna þessara breytinga á högum aðila og flutnings þeirra til [...] hafi varnaraðili neyðst til þess að fara í launalaust leyfi frá störfum sínum [...]. Sóknaraðili hafi lagt hart að varnaraðila að segja starfi sínu lausu fyrir fullt og allt en varnaraðili hafi frekar kosið að framlengja árlega launalausu leyfi sínu. Varnaraðili hafi síðan hafið störf að nýju er aðilar fluttu aftur til Íslands á haustmánuðum 2011, en þá hafi verkefnum sóknaraðila hjá [...] verið lokið. Á meðan á dvöl málsaðila erlendis stóð kveðst varnaraðili hafa séð um heimili þeirra úti og hér á landi er þau dvöldust hér. Á þessum tíma hafi það verið hlutskipti sóknaraðila að afla tekna gegn m.a. vinnuframlagi varnaraðila á heimili þeirra. Sóknaraðili hafi aldrei kvartað yfir þessari skipan mála, nema ef vera skyldi að varnaraðili hefði ekki sagt starfi sínu endanlega lausu.

Varnaraðili kveður það hafa verið sameiginlega ákvörðun þeirra að sóknaraðili aflaði heimilinu tekna á meðan varnaraðili annaðist heimili þeirra í [...] á meðan á dvöl þeirra þar stóð. Þetta hafi verið gert í ljósi þess að varnaraðila væri ómögulegt að sinna starfi sínu meðan á dvöl þeirra erlendis stæði. Ranglega sé því fullyrt að konan hafi verið tekjulaus. Hún hafi tekið fullan og óskoraðan þátt í tekjumyndun heimilisins til jafns við manninn á þessum tíma, allt samkvæmt samkomulagi aðila. Kveðst varnaraðili benda sérstaklega á það að á meðan þau dvöldu erlendis hafi hún ekki einungis orðið að víkja úr starfi sínu og þá um leið að gefa eftir lífeyrisréttindi, sem hún hefði ella notið af launatekjum sínum þann tíma, heldur einnig hitt, að hún hafi orðið af því félagslega viðurværi er fylgi því alla jafnan að vinna innan um og með öðru fólki, svo ekki sé minnst á þann fórnarkostnað er konan hafi orðið fyrir við að detta út af vinnumarkaði í nokkur ár, t.d. hvað varðaði starfsþróun, stöðuhækkun, launahækkanir o.s.frv.

Sóknaraðili kveðst vera þinglýstur eigandi fasteignanna nr. [...] og sumarhússins við [...]. Hjúskapareign hans sé sem hér segi:

1.                                                                                                                                                                                                   Söluandvirði einbýlishússins [...] 73.000.000 krónur.

2.                                                                                                                                                                                                   Sumarhús við [...]  32.000.000 krónur.

3.                                                                                                                                                                                                   Hlutabréf í [...]       1.200.000 krónur.

4.                                                                                                                                                                                                   Fjórhjól    800.000 krónur.

5.                                                                                                                                                                                                   Bifreiðin [...]           2.500.000 krónur.

6.                                                                                                                                                                                                   Skuldir vegna [...] og [...]      -32.173.637 krónur.

Samtals hjúskapareign sóknaraðila                                                                         77.326.363 krónur.

 

Hjúskapareign konunnar sé sem hér segi:

1.                                                                                                                                                                                                   Málverk, matsverð               1.500.000 krónur.

2.                                                                                                                                                                                                   Bifreiðin [...], [...], árg. 2007 3.200.000 krónur.

3.                                                                                                                                                                                                   Ógreidd aðflutningsgjöld af bifreið   -905.189 krónur.

Samtals hjúskapareign varnaraðila                                                                            3.794.811 krónur.

Sóknaraðili kveður samkomulag vera um andvirði sumarhúss og eins fjórhjóls, sem og hlutabréfa í [...], sbr. fundargerðir hjá skiptastjóra. Einnig sé samkomulag um andvirði bifreiða og málverka.

Sóknaraðili kveðst hafa veikst skyndilega [...] 2011 er hann hafi verið við störf í [...] og verið tekinn í [...]. Aftur hafi verið gerð á honum [...] á Landspítala háskólasjúkrahúsi [...] 2012 og síðan [...]skurðaðgerð á sama stað í [...] sama ár. [...]. Hann hafi nú verið úrskurðaður öryrki. Hinn 1. desember 2012 hafi hann fallið út af launaskrá [...].

Varnaraðili kveður að hin síðari ár hafa brestir í fari sóknaraðila ágerst, sem lýst hafi sér í tilefnislausri afbrýðisemi og ofbeldi gagnvart varnaraðila. Hafi það oftast verið tengt óhóflegri áfengisnotkun og óreglu sóknaraðila. Þannig hafi sóknaraðili komið fram við varnaraðila með meiðandi hætti, t.d. sent niðurlægjandi smáskilaboð, auk annars ofbeldis og yfirgangs. Hafi sóknaraðili meinað varnaraðila ítrekað um aðgang að sameiginlegu heimili þeirra og læst því. Um jólin 2011 hafi varnaraðili orðið að leita ásjár bróður sóknaraðila og eiginkonu hans á jólanótt þar sem sóknaraðili hafði læst varnaraðila úti og varnað henni aðgangs að heimili sínu yfir jólahátíðina. Varnaraðili kveðst geta nefnt fjölmörg önnur dæmi þar sem hún hafi þurft að leita á náðir ættingja og vina með húsaskjól vegna margs konar yfirgangs, ráðríkis og ofbeldis sóknaraðila. Hinn 4. janúar 2012 hafi varnaraðila brostið frekari kjarkur til að halda sameiginlegt heimili með sóknaraðila og hafi hún séð þann eina kost í stöðunni að yfirgefa heimili sitt í kjölfar dólgslegra hótana sóknaraðila. Frá þeim tíma hafi sóknaraðili setið einn að heimili málsaðila að [...], allt til þess að eignin hafi verið seld og afhent nýjum eigendum 15. júní 2013. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli varnaraðila um að eignin yrði seld hafi sóknaraðili ekki léð því máls. Jafnframt hafi sóknaraðili komið í veg fyrir að varnaraðili gæti með einhverjum hætti nýtt sér hana. Skiptastjóri hafi síðan tekið af skarið og selt eignina.

Þá hafi sóknaraðili setið einn að sameiginlegu sumarhúsi aðila í landi [...], sbr. fundargerð skiptastjóra frá 11. desember 2012. Þannig hafi varnaraðili engan aðgang haft að húsinu og hafi ekki enn.

Loks hafi hvorki gengið né rekið fyrir varnaraðila að heimta persónulega muni, t.d. ljósmyndir, sem margar hverjar séu varnaraðila mjög dýrmætar vegna þeirra minninga sem þær geymi. Þvert á móti hafi sóknaraðili látið í það skína að hann hafi eyðilagt myndirnar.

II.

   Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um að vikið verði frá helmingaskiptareglu á heimild í 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þar sem segi að víkja megi frá reglu um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Á því sé byggt í máli þessu að helmingaskipti yrðu bersýnilega ósanngjörn. Þannig hafi verulegur munur verið á eignum aðila er þau hófu sambúð. Sé tekið tillit til arfs sem sóknaraðila hafi hlotnast að fjárhæð 5.800.000 krónur í upphafi sambúðar sé varlegt mat á eignum sóknaraðila 65.100.000 krónur (einbýlishús 55.000.000 krónur + bifreið 2.500.000 krónur + flugvél 1.800.000 krónur + arfur 5.800.000 krónur). Skuldir hans á þessum tíma hafi numið um 16.700.000 krónum. Þannig hafi nettóeign hans við upphaf sambúðar numið um kr. 48.400.00 krónum.

Eignir konunnar séu söluandvirði af íbúð hennar að [...] að fjárhæð um 12.500.000 krónur, auk bifreiðar og málverks, samtals að fjárhæð um 16.600.000 krónur. Skuldir hafi numið 1.800.000 krónum vegna bifreiðar og hrein eign hafi því verið 14.800.000 krónur.

Öll eignamyndun sem orðið hafi á sambúðartímanum eigi að mestu rót sína að rekja til vinnu og tekna mannsins. Þannig hafi tekjur hans numið 155.000.000 króna á meðan tekjur konunnar hafi verið um 14.000.000 króna. Þannig hafi sóknaraðili til dæmis greitt einn af þeim lánum sem hvílt hafi á fasteigninni að [...] og einnig af láni, sem tekið hafi verið hjá [...] þegar sumarhúsið hafi verið keypt af syni varnaraðila, enda hafi varnaraðili engar eða takmarkaðar tekjur haft til að standa undir afborgunum.

Þá sé ljóst að maðurinn hafi við upphaf hjúskapar flutt umtalsvert meiri verðmæti í búið en varnaraðili. Varnaraðili hafi skömmu eftir að sambúð hófst selt syni sínum íbúð sína og þannig hjálpað honum við hans fyrstu íbúðarkaup, en um leið notið þess að sóknaraðili hafi átt fyrir einbýlishús sem hún hafi síðan búið í þar til hún hafi slitið sambúð þeirra í febrúar 2012.

Þá verði heldur ekki fram hjá því litið að manninum hafi tæmst arfur á árinu 2005 sem numið hafi 5.800.000 krónum, sem sé nánast helmingur af þeirri fjárhæð sem konan hafi komið með í búið. Þá verði heldur ekki fram hjá því litið að þau hafi bæði verið fullfrísk til vinnu allt fram í desember 2012. Varnaraðili hafi hins vegar kosið að vinna ekki úti meðan á sambúðartímanum stóð nema að hluta til, en kosið þess í stað að njóta tekna sóknaraðila. Hér verði að hafa í huga að aðilar hafi ekki átt saman börn og hafi í raun ekki haft fyrir neinum börnum að sjá. Eins og tekjur þeirra beri með sér hafi verið gríðarlegur munur á tekjum sem þau hafi hvort um sig fært í búið. Í þessu sambandi verði og að hafa í huga að eftir að maðurinn fékk [...] og sé í dag öryrki. Engu að síður gerir varnaraðili kröfu um að öllum lífeyrisréttindum hans verði skipt og það þótt hún sé við góða heilsu og vinni fulla vinnu hjá [...] með um 650-800.000 krónur á mánuði.

Þá verði einnig að hafa í huga að hjúskapur aðila hafi ekki staðið lengi. Þannig hafi þau gengið í hjúskap í júlí 2005 og slitið samvistum í febrúar 2012.

Að lokum sé vísað til 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga en fyrir liggi að hinar miklu tekjur sóknaraðila hafi orðið til þess að eignir aðilanna hafi aukist umtalsvert. Ljóst sé að þær hafi ekki aukist vegna tekna varnaraðila. Bersýnilega sé því ósanngjarnt miðað við stöðu aðila ef krafa konunnar um helmingaskipti myndi ná fram að ganga. Krafa sóknaraðila byggist á því að hrein eign hans hafi numið um 76% af samanlagðri hreinni eign beggja við upphaf sambúðar. Þá hafi tekjur hans verið 92% af samanlögðum tekjum þeirra hjóna. Rekja megi nánast alla eignamyndun á sambúðartímanum til tekna sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili staðið straum af öllum afborgunum af lánum og fasteignagjöldum. Við yfirferð á kröfum sóknaraðila verði að hafa þessar staðreyndir í huga. Í ljósi þessa fari sóknaraðili aðallega fram á að fá að óskiptu úr sinni hjúskapareign 60%, til vara 55%, til þrautavara 50% og þrautaþrautavara 45%. Sé miðað við að hjúskapareign hans sé að fjárhæð 77.326.363 krónur séu kröfur sóknaraðila aðallega að fjárhæð 46.395.817 krónur, til vara 42.529.499 krónur, til þrautavara 38.663.181 króna og til þrautaþrautavara 34.796.863 krónur.

Af hálfu varnaraðila sé þess krafist að öll lífeyrisréttindi sóknaraðila komi til skipta. Engin fjárkrafa sé sett fram vegna þessa og engin tilraun gerð til þess að afmarka þessi réttindi. Sóknaraðili eigi því erfitt með að verjast slíkri kröfu. Krafan sé í raun vanreifuð og eigi sem slík að sæta frávísun. Engar upplýsingar liggi fyrir um lífeyrisréttindi aðila. Þá sé heldur engin fjárkrafa sett fram. Með vísan til 80. gr. laga nr. 91/1991 beri því að vísa kröfunni frá dómi.

Verði ekki á frávísun fallist kveðst sóknaraðili hafna því að krafa varnaraðila nái fram að ganga. Sóknaraðili kveðst vísa til þess að meginreglan sé sú að lífeyrisréttindi hjóna skuli ekki koma til skipta. Til þess að svo eigi að vera þurfi að koma til sérstakar aðstæður. Þeim sé ekki fyrir að fara í þessu máli. Þannig geti það ekki talist ósanngjarnt miðað við stöðu málsaðila að halda þessum réttindum sóknaraðila fyrir utan skiptin. Hann hafi misst starfsréttindi sín og geti ekki lengur starfað við það sem hann hafi menntað sig til. Varnaraðili sé við fulla heilsu, í góðri og öruggri vinnu, með góð laun og eigi auk þess stönduga foreldra. Aðstæður málsaðila sé því ólíkar og halli á sóknaraðila í þessum efnum. Krafa varnaraðila um hlutdeild í öllum lífeyrisréttindum hans sé því óbilgjörn og verulega ósanngjörn. Þá geri varnaraðili ekki þá kröfu að til skipta komi mismunur á lífeyrisréttindum hennar og sóknaraðila heldur ætlist hún til þess að hún haldi sínum réttindum en réttindum mannsins verði skipt að jöfnu.

Hvað varði lífeyrisréttindi sóknaraðila almennt verði til þess að líta að starfsaldur [...] geti orðið skammur ef þeir veikjast og missa starfsréttindi sín eins og hent hafi sóknaraðila. Lífeyrisréttindi þeirra og ávinnsla lífeyrisréttinda taki því mið af þessari staðreynd. Þá sé ljóst, miðað við upplýsingar frá Eftirlaunasjóði [...], að veruleg skerðing verði á lífeyrisréttindum sóknaraðila. Þannig verði greiðsla til hans vart yfir 550.000 krónum á mánuði.

Með vísan til framangreinds standi ekki rök til þess að verða við kröfu konunnar um að hún fái hlutdeild í lífeyrisréttindum mannsins frá upphafi og í raun heldur ekki fyrir þann tíma sem sambúð aðila hafi staðið. Í lögum nr. 31/1993 komi fram að það eigi að heyra til undantekninga að slík réttindi komi til skipta og einungis ef sérstakar aðstæður mæli með því, en svo sé ekki í þessu máli. Varnaraðili sé fullfrísk, í öruggri og vel launaðri vinnu og hafi langan starfsaldur sem [...]. Hún eigi því ekki tilkall til lífeyrisréttinda sóknaraðila. Fari svo ólíklega að krafa hennar verði að einhverju leyti tekin til greina sé þess krafist að sóknaraðili fái að sama skapi helmingshlutdeild í lífeyrisréttindum varnaraðila. 

Að lokum kveðst sóknaraðili gera sjálfstæða kröfu þess efnis að öll lífeyrisréttindi konunnar komi til skipta án tillits til lífeyrisréttinda mannsins. Sé sú krafa gerð vegna þess mikla aðstöðumunar sem sé á aðilum til vinnu og tekjuöflunarhæfni. Sóknaraðili kveðst að öðru leyti vísa til 102. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og dómafordæma um túlkun á því ákvæði.

Í dag kveðst sóknaraðili njóta örorkulífeyris þar sem hann sé öryrki [...]. Réttindi sóknaraðila til örorkulífeyris falli niður við 65 ára aldur hans og taki þá við ellilífeyrir. Fyrir liggi útreikningur um ellilífeyrisréttindi sóknaraðila sem hann hafi unnið sér inn meðan á sambúð aðila stóð. Samkvæmt honum séu ellilífeyrisréttindi hans frá 65 ára aldri að fjárhæð 148.488 krónur á mánuði. Sé miðað við heildarréttindi sóknaraðila þá séu þau 668.354 krónur á mánuði, en þau eigi eftir að skerðast um 11,2%. Samkvæmt samantekt Íslenska lífeyrissjóðsins sé séreign sóknaraðila vegna sambúðartíma þeirra hjóna að fjárhæð 4.784.793 krónur (7.729.521-2.944.728).

Sóknaraðili kveður málsaðila hafa náð samkomulagi um verðmat málverka. Um sé að ræða tvö málverk sem séu eftir Erró og Alfreð Flóka. Varnaraðili hafi komið með þessi málverk inn í bú aðila, en haldi því nú fram fimm árum síðar að þau séu ekki hennar eign heldur foreldra hennar. Því sé haldið fram að varnaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að um eign foreldra hennar sé að ræða. Sóknaraðili kveður að hún hafi aldrei minnst á það allan sambúðartímann að hún ætti málverkin ekki. Sé vísað til almennra sönnunarreglna hvað það varði.

Sóknaraðili kveðst hafna kröfum varnaraðila um að honum verði gert að greiða húsaleigu af fasteigninni að [...]. Í fyrsta lagi hafi það verið einhliða ákvörðun konunnar að yfirgefa heimili þeirra hjóna, en hún hafi vel getað verið áfram í húsinu, enda um stórt og mikið hús að ræða á tveimur hæðum. Hún hafi hins vegar kosið að yfirgefa húsið. Sóknaraðili hafi þar að auki einungis nýtt sinn hluta hússins og því eigi varnaraðili ekki kröfu á hann. Þá sé kröfunni hafnað sem vanreifaðri. Kröfu vegna sumarhússins við [...] sé hafnað með sömu rökum. Þá beri auk þess að hafa í huga að sóknaraðili hafi ekki notað sumarhúsið meira en varnaraðili. Varnaraðili sé með lykil að húsinu líkt og sóknaraðili og hún og fólk á hennar vegum hafi notað húsið frá því sambúð lauk. Krafa hennar eigi því ekki rétt á sér.

Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili geti ekki krafist leigu úr hendi sóknaraðila eftir að bú aðila var tekið til opinberra skipta í nóvember 2012. Eftir þann tíma sé það búið sem eigi slíka kröfu á hendur sóknaraðila.

Sóknaraðili kveðst hafna því að bætur úr skírteinistryggingu eigi að koma til skipta við fjárslit á búi aðila. Fyrir liggi í máli þessu að engar slíkar bætur höfðu verið greiddar út þegar krafa var gerð um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanni, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga. Þá sé auk þess um að ræða réttindi sem falli undir 2. og 4.tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga og eigi því ekki að koma til skipta nema sérstakar aðstæður séu til staðar. Þeim sé ekki fyrir að fara í máli þessu. Hér sé um að ræða sjúkratryggingabætur eða fébætur sem tilheyri sóknaraðila vegna hans sjúkdóms og vegna starfsmissis hans.

Í greinargerð sóknaraðila er skorað á varnaraðila að leggja fram upplýsingar um lífeyrisréttindi hennar eins og þau séu í dag frá upphafi og einnig lífeyrisréttindi hennar fyrir það tímabil sem sambúð hennar og sóknaraðila hafi staðið. Eigi það bæði við um lífeyrisréttindi í sameignar- og séreignarlífeyrissjóði.

III.

Varnaraðili krefst þess að við opinber skipti til fjárslita á milli aðila verði ekki vikið frá meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti, sbr. 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kveðst varnaraðili mótmæla því að til staðar séu skilyrði til að víkja til hliðar meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga með vísan til 1. og 2. mgr. 104 gr. laganna. Vísar varnaraðili til þess að ósannað sé með öllu annað en að báðir aðilar hafi lagt búinu til svipaðar fjárhæðir strax við upphaf samvista á árinu 2005. Jafnframt hafi verið fullt samkomulag um það með aðilum að varnaraðili drægi sig út af vinnumarkaði meðan á dvöl málsaðila erlendis stæði. Fullyrðingum sóknaraðila um eitthvað annað sé mótmælt og hafnað af hálfu varnaraðila. Aðilar hafi stofnað til sameigna og haft með sér sameiginlegt fjárfélag frá upphafi hjúskapar sem staðið hafi um allnokkurt árabil. Ekki hafi verið gerður kaupmáli á milli aðila, enda aldrei komið til álita. Ekki séu nein efni til annars en að skipta eignum þeirra til helminga og engin rök séu til að víkja frá meginreglu þar að lútandi.

Varnaraðili kveðst vísa í þessu sambandi til umfjöllunar Ármanns Snævarr í bók hans Hjúskapar- og sambúðarrétti, kafla 95, á bls. 801–804, um helmingaskiptaregluna og frávik frá henni, sem og kafla 96, á bls. 805–821, um 104. gr. hjúskaparlaga. Af umfjöllun Ármanns sé ljóst að í norrænum rétti sé meginreglan sú að eignum skuli skipt að jöfnu. Frávik frá þeirri meginreglu verði einungis beitt ef skipti myndu að öðrum kosti leiða til „bersýnilega ósanngjarnra málaloka“ fyrir annan makann, og þá í algjörum undantekningartilvikum. Ekki verði séð að helmingaskipti myndu leiða til bersýnilegra ósanngjarnra málaloka fyrir aðila. Krafa konunnar um að búinu verði skipt að jöfnu byggist á meginreglu hjúskaparlaganna, sbr. 6. gr. þeirra. Öll frávik frá henni beri að skýra þröngt og verði einungis beitt í algjörum undantekningartilvikum. Samkvæmt 103. gr. laganna krefjist varnaraðili því þess að búi aðila verði skipt að jöfnu.

Allar undantekningar, sbr. 104. gr. laganna, beri að skýra þröngt og kveðst varnaraðili telja að engin rök séu fyrir fráviki frá helmingaskiptareglunni. Aðilar hafi verið í hjúskap frá árinu 2005 og haft með sér sameiginlegt fjárfélag.

Við upphaf sambúðar aðila meti sóknaraðili það svo að eignastaða hans hafi verið 30.000.000 króna og að eignastaða varnaraðila hafi verið um 15.000.000 króna. Þótt fallist væri á mat sóknaraðila megi ljóst vera að slíkur munur á eignastöðu við upphaf sambúðar teljist ekki verulegur og þegar horft sé til lengdar hjúskapar og aðstæðna í hjónabandi aðila að öðru leyti sé ekkert sem réttlæti frávik frá meginreglu hjúskaparréttar um helmingaskipti við fjárslit milli hjóna.

Hafi það verið mat sóknaraðila að svo mikill munur væri á framlagi aðila við upphaf hjúskapar eða á meðan á honum stóð hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að hlutast til um gerð kaupmála á milli aðila.

Í greinargerð sóknaraðila komi fram ýmsir útreikningar á eignum og skuldum málsaðila. Kveðst varnaraðili benda á að þar sé rökstuðningi áfátt og einnig sé ósamræmi í kröfugerð. Sé engu líkara en að sóknaraðili telji að málsaðilar, sem eigi að baki um 7 ára hjónaband, hafi verið í einhvers konar fjárhagslegum reikningsviðskiptum sem beri nú að gera upp. Slíkt gangi ekki upp, enda sé um að ræða hjónaband til margra ára. Um fjárslit milli aðila eigi að fara að hjúskaparlögum og vegi þar þyngst að um þau fjárskipti gildi helmingaskiptaregla 103. gr. hjúskaparlaga. Allar vangaveltur um verðmæti hins eða þessa, hver hafi unnið hvar og hvenær telji varnaraðili engu skipta í sambandi við fjárskipti þeirra á milli þar sem beita beri helmingaskiptareglu. Þeir fjármunir sem komið hafi út úr sölu fasteignar varnaraðila að [...] hafi gengið til greiðslu reikninga og kostnaðar vegna frágangs á fasteigninni að [...] að innan sem utan.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi lagt fram í málinu gögn um lífeyrisréttindi sín, sem beri með sér að mánaðarleg lífeyrisréttindi sóknaraðila séu í dag áætluð 635.330 krónur á mánuði. Ekki standi forsendur til annars en að um sé að ræða samtryggingarréttindi. Umrædd skuldbinding sé þá reiknuð út miðað við tilteknar gefnar lífslíkur sóknaraðila allt úr frá gefinni framtíðarávöxtun. Varnaraðili kveðst krefjast helmingshlutdeildar í framangreindum lífeyrisréttindum sóknaraðila í Eftirlaunasjóði [...] og helmingshlutdeildar í séreignarlífeyrissparnaði sóknaraðila hjá Íslenska lífeyrissjóðnum.

Helmingur mánaðarlegra áunninna lífeyrisréttinda sóknaraðila við eftirlaunasjóð [...] sé því samtals kr. 317.665 á mánuði, sem sé þá krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila vegna réttinda sóknaraðila í Eftirlaunasjóði [...].

Helmingur séreignarlífeyrissparnaðar sóknaraðila hjá Íslenska Lífeyrissjóðnum sé samtals 7.729.521 króna, sem sé þá krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila vegna eignar sóknaraðila í séreignarlífeyrissparnaði.

Varnaraðili kveðst telja að ekki verði litið öðruvísi á lífeyrisréttindi sóknaraðila en að þau séu eins og hver önnur hjúskapareign, sbr. 57. gr. hjúskaparlaga. Fái þetta m.a. stoð í því að réttur sóknaraðila til lífeyris úr Eftirlaunasjóði [...] hafi ekki aðeins myndast með iðgjöldum hans sjálfs, heldur einnig að verulegu leyti með framlagi vinnuveitanda. Þannig tryggi kjarasamningur [...] við [...] að sóknaraðili greiði ekki nema 4% af launum sínum í lífeyrissjóð á meðan mótframlag vinnuveitanda nemi 18% af launum. Framlag launagreiðanda til lífeyrisréttinda [...] sé snöggtum hærra en almennt tíðkist. Slíkt mótframlag sé þannig að stærstum hluta frestun launagreiðslna sem ella hefðu átt sér stað í nútíð en ekki framtíð.

Þann tíma er aðilar hafi búið erlendis hafi varnaraðila verið fyrirmunað að afla sér lífeyrisréttinda þar sem varnaraðili hafi verið heimavinnandi á meðan sóknaraðili sinnti störfum sínum erlendis og aflaði sér lífeyrisréttinda, enda hafi varnaraðili fylgt honum þangað eftir.

Verði ekki fallist á kröfu varnaraðila þess efnis að lífeyrisréttindum aðila verði skipt jafnt á milli þeirra sé þess krafist til vara að áunnum lífeyrisréttindum sóknaraðila þau ár er hjónaband aðila stóð yfir verði skipt jafnt á milli aðila. Samhliða sé þess krafist að lífeyrisréttindum varnaraðila verði haldið utan við skiptin, enda hafi verið til þeirra stofnað fyrir sambúð aðila. Krafa þessi sé rökstudd þannig að varnaraðila hafi verið ómögulegt að afla sér lífeyrisréttinda að stærstum hluta hjúskapartímans.

Varnaraðili kveður óverulegan aðstöðumun vera á milli aðila í dag, þrátt fyrir örorku sóknaraðila. Sóknaraðili þiggi í dag bætur væntanlega frá fleiri en einum aðila sem séu mun hærri en laun varnaraðila. Þá sé varnaraðili nú á 61. aldursári og líði að lokum starfsferils hennar, auk þess sem henni hafi verið gert ómögulegt að vinna sér inn lífeyrisréttindi stærstan hluta þess tíma er hjónaband aðila hafi varað. Ástæðulaus og ósmekkleg vísan sóknaraðila til efnahags aldraðra foreldra varnaraðila sé fjárskiptum og skilnaði aðila óviðkomandi.

Varnaraðili kveður kröfu sína um að sóknaraðili greiði húsaleigu vegna afnota hans að fasteigninni [...] frá 4. febrúar 2012 til 15. júní 2013 byggjast á því að varnaraðili hafi neyðst til þess að yfirgefa sameiginlegt heimili málsaðila vegna ítrekaðs ofbeldis og vanstillingar sóknaraðila. Sóknaraðili hafi einn setið að fasteigninni á þessum tíma og meinað varnaraðila inngöngu í húsið. Þeirri fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðili hefði getað verið í húsinu eða hluta þess samtímis sóknaraðila eftir 4. febrúar 2012 sé hafnað. Slíkt fyrirkomulag hefði aldrei getað gengið eftir með hliðsjón af fyrri samskiptum og háttsemi sóknaraðila í garð varnaraðila.

Varnaraðili kveðst ítrekað hafa óskað eftir því við sóknaraðila að gerð yrði gangskör að sölu hússins. Sóknaraðili hafi hins vegar ávallt dregið lappirnar í þeim efnum. Sóknaraðili hafi jafnframt hafnað því að varnaraðili gæti hafi búsetu á heimili sínu meðan á söluferli eignarinnar stæði. Hafi sóknaraðili þannig í engu skeytt um aðstæður varnaraðila, m.a. í húsnæðismálum.

Varnaraðili kveður kröfu sína um húsaleigu vegna afnota sóknaraðila af fasteigninni [...] byggjast á varlegu mati fasteignasala. Þar sé vísað til þess að leiga fyrir sambærilegt hús geti numið 350.000 krónum á mánuði. Fari þetta mat fasteignasalans fyllilega saman við mat skiptastjóra á hæfilegu og eðlilegu leigugjaldi hússins.

Varnaraðili kveður kröfu sína um húsaleigu vegna afnota sóknaraðila af sumarbústað, [...] byggjast á sömu sjónarmiðum og varðandi [...] og reifuð hafi verið hér að framan. Ekki séu forsendur fyrir því að fara fram á lægri leigu en sem nemi 50.000 krónum á mánuði, en eignin sé nú í sölumeðferð og ásett verð hennar sé 32.000.000 króna og brunabótamat 41.800.000 krónur.

Varnaraðili kveðst byggja kröfu sína um að umræddum listaverkum tveimur verði haldið utan skipta á því að verkin séu eign foreldra varnaraðila. Þau hafi aldrei verið í eigu varnaraðila og teljist því ekki til hennar hjúskapareignar. Það geti því ekki komið til álita að þau falli undir fjárskipti milli aðila. Verkin hafi varnaraðili fengið að láni hjá foreldrum sínum og séu þau reiðubúin að vitna um það.

Varnaraðili kveður ávallt hafa legið fyrir að verkin væru eign foreldra varnaraðila og að þau hafi eingöngu verið lánuð varnaraðila til geymslu. Þess beri að geta að foreldrar varnaraðila hafi lánað henni fleiri málverk á meðan á hjónabandi aðila hafi staðið, án þess að sóknaraðili hafi gert sérstakt tilkall til þeirra verka. Sé vandséð hvers vegna sóknaraðili hafi ákveðið að taka þessi tvö verk út úr listaverkasafni því sem lánað hafi verið varnaraðila og ákveðið að gera sérstakt tilkall til þessara tveggja verka. Öllum listaverkum er foreldrar varnaraðila hafi lánað henni hafi í dag verið skilað til réttmætra eigenda.

Varnaraðili kveður kröfu sína um að andvirði [...]skírteinistryggingar sóknaraðila komi til helmingaskipta milli aðila byggjast á því að sóknaraðili hafi meðan á sambúð þeirra stóð haft í gildi [...]skírteinistryggingu. Í málinu liggi fyrir að sóknaraðili [...]. Við það verði virkt ákvæði umræddrar tryggingar er kveði á um að innt skuli af hendi eingreiðsla honum til handa. Sóknaraðili hafi ekki upplýst hvort hann hafi fengið einskiptisgreiðslu á grundvelli umræddrar [...]skírteinistryggingar. Skilmálar tryggingarinnar kveði á um að bætur vegna launamissis skuli nema allt að 40.000.000 króna.

Ekki verður litið á eingreiðslu á grundvelli umræddrar tryggingar öðruvísi en hverjar aðrar launatekjur sóknaraðila. Réttindi sóknaraðila á grundvelli umræddrar tryggingar hafi orðið virk áður en fjárslitum aðila lauk. Þannig liggi fyrir að telja beri réttindi sóknaraðila á grundvelli umræddrar tryggingar sem hluta af hjúskapareign hans, sbr. 57. gr. hjúskaparlaga.

Varnaraðila hafi reynst ómögulegt að fá upplýsingar um hvort og þá hvernig staðið hafi verið að útgreiðslu á grundvelli umræddrar [...]skírteinistryggingar eða þá um hvaða fjárhæðir sé að ræða. Í greinargerð varnaraðila er skorað á sóknaraðila að upplýsa hvort, hvenær og hve mikið hafi verið greitt til hans á grundvelli umræddrar tryggingar. Hafi greiðsla ekki farið fram sé skorað á hann að upplýsa um það hvað áætlað sé að honum verði greitt á grundvelli skilmála umræddrar [...]skírteinistryggingar.

Verði sóknaraðili ekki við áskorun varnaraðila um að leggja fram upplýsingar um þegar greidda eða fyrirhugaða greiðslu á grundvelli skilmála umræddrar [...]skírteinistryggingar sé þess krafist að krafa varnaraðila vegna þessa liðs verði miðuð við 40.000.000 króna, þ.e. að þeirri fjárhæð verði skipt til helminga á milli aðila. Að öðrum kosti verði miðað við raunverulega greiðslu. Forsendur standi ekki til annars en að fella umrædd réttindi á grundvelli [...]skírteinistryggingar undir meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti við opinber skipti til fjárslita á milli aðila.

Varnaraðili kveður kröfu sína um greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi byggjast á 1. mgr. 130.gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að við opinber skipti til fjárslita á milli málsaðila verði vikið frá meginreglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti með heimild í 104. gr. laganna. Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að í málinu séu skilyrði til þess að víkja frá framangreindri meginreglu og þess krafist að við skiptin verði beitt helmingaskiptareglu 103. gr. áðurgreindra laga.

Í athugasemdum með 103. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 31/1993 segir m.a. að helmingaskiptareglan hafi það markmið að veita hvorum maka um sig hlutdeild í eignum hins og stuðla þannig að jafnstöðu þeirra við hjúskaparlok. Reglan taki bæði til eignamyndunar eftir að til hjúskapar er stofnað og einnig til hlutdeildar í eignum sem hjón fluttu með sér í búið. Þá segir að reglan taki m.a. tillit til þess að hjón hafi mismikil tök á að afla sér tekna og eigna. Einkum verði staða heimavinnandi maka oft lakari en hins, auk þess sem tekjur hjóna geti verið næsta misháar. Helmingaskiptareglunni sé ætlað að draga úr þessum mismun í reynd.

Í 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga segir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Í ákvæðinu eru sérgreind tilvik sem taka ber tillit til við sanngirnismatið, en þau eru ekki tæmandi talin í greininni.

Í fyrsta lagi ber að taka tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar. Í athugasemdum í frumvarpi að lögunum segir að hér sé átt við svipuð tilvik og fram hafi komið í 57. gr. eldri laga nr. 60/1972, þ.e. að hjúskapur hafi staðið skamma stund og ekki leitt til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu, en skammvinnur hjúskapur leiddi sjaldnast til þeirrar fjárhagslegu og félagslegu samstöðu sem væri grundvöllur helmingaskiptareglunnar.

Þá ber samkvæmt ákvæðinu að hafa hliðsjón af því ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi að lögunum er það ekki einskorðað við að hjúskapur hafi verið skammvinnur, en mundi hins vegar einkum eiga við þegar svo hagaði til. Þá ber samkvæmt ákvæðinu að taka tillit til þess ef annað hjóna hefur eftir hjúskaparstofnun erft fé eða fengið að gjöf frá einhverjum öðrum en maka sínum.

Í 2. mgr. 104. gr. segir að frávik frá helmingaskiptum geti enn fremur átt sér stað þegar annað hjóna hefur með vinnu, framlögum til framfærslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hefur átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti. Í athugasemdum í frumvarpi að lögunum segir að hér sé m.a. höfð í huga vinna maka á heimili og sá grundvöllur sem með því fáist til þess að hinn makinn geti aflað sér tekna og eigna. Hlut þess maka beri einnig að virða þegar til útlagningar verðmæta komi.

Eins og fram hefur komið gengu málsaðilar í hjúskap 2. júlí 2005, en hófu sambúð hálfu ári fyrr. Ekki liggur fyrir hvenær skilnaður að borði og sæng var veittur, en það getur fyrst hafa orðið eftir uppkvaðningu úrskurðar um að opinber skipti skyldu fara fram til fjárslita á milli þeirra, en samkvæmt gögnum málsins var sá úrskurður kveðinn upp 9. nóvember 2012. Fyrir liggur hins vegar að málsaðilar slitu samvistum 4. febrúar sama ár. Samkvæmt framangreindu voru málsaðilar í hjúskap í rúm sjö ár og verður því ekki talið að hjúskapur þeirra hafi verið skammvinnur.

Óumdeilt er að eftir að málsaðilar hófu sambúð seldi varnaraðili íbúð sína að [...] og var söluandvirði hennar að frádregnum áhvílandi skuldum um 12.500.000 krónur. Hefur sóknaraðili viðurkennt að a.m.k. hluta þeirra fjármuna hafi verið varið til frágangs og endurbóta á fasteigninni að [...], en það má einnig ráða af dskj. nr. 34. Þá liggur fyrir að á árinu 2007 fluttu málsaðilar til [...] vegna starfa sóknaraðila og bjuggu þar til loka ársins 2011. Fram er komið að stóran hluta þess tíma gat varnaraðili gat ekki sinnt starfi sínu sem [...] og var því í launalausu leyfi á meðan. Á þessum tíma aflaði sóknaraðili heimilinu tekna, en varnaraðili annaðist heimili málsaðila í [...] og hér heima þegar þau dvöldu hér á landi. Af framangreindu má ráða að hjúskapur málsaðila leiddi til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu þeirra.

Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi flutt verulega miklu meira í búið en varnaraðili við hjúskaparstofnun, en því er mótmælt af hálfu varnaraðila. Samkvæmt skattframtali 2005 átti sóknaraðili í árslok 2004 fasteignina [...], sem var að verðmæti samkvæmt fasteignamati 30.957.000 krónur, en áhvílandi veðskuldir námu 14.940.717 krónum. Þá átti sóknaraðili bifreið að verðmæti 2.550.000 krónur og hlut í flugvél að verðmæti 1.812.520 krónur. Lán vegna bifreiðarkaupa nam 1.822.695 krónum. Í árslok 2004 átti varnaraðili fasteignina að [...], sem var að verðmæti 14.534.000 krónur samkvæmt fasteignamati, en áhvílandi veðskuldir námu 6.910.396 krónum. Þá átti sóknaraðili bifreið að verðmæti 2.640.000 krónur, en lán vegna kaupa hennar nam 1.974.617 krónum. Samkvæmt framangreindu nam hrein eign sóknaraðila 18.556.108 krónum, en hrein eign varnaraðila 8.388.987 krónum, hvoru tveggja samkvæmt skattframtali 2005.

Samkvæmt gögnum málsins seldi varnaraðili íbúð sína að [...] hinn 17. janúar 2005 á 19.500.000 krónur og að frádregnum áhvílandi veðskuldum komu því um 12.500.000 krónur út úr sölu á íbúðinni. Sóknaraðili heldur því fram að fasteign sín hafi verið að verðmæti um 55.000.000 króna á sama tíma og byggir það á upplýsingum Þjóðskrár Íslands um meðalverð á fermetra í einbýlishúsum í sveitarfélaginu [...], sem seld voru árinu 2005. Er þá miðað við að um fullbyggð steinhús væri að ræða, yfir 180 fermetrar að stærð og sem byggð hafi verið á árunum 1995-2005. Þá kemur fram að upplýsingarnar byggist á sex kaupsamningum frá þessu ári. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að fasteignin að [...] sé timburhús á steyptri neðri hæð og verulega hafi á skort að eignin hafi verið fullbúin á þessum tíma. Viðurkenndi sóknaraðili fyrir dóminum að húsið hefði ekki verið fullbúið og að vantað hefði innréttingar og gólfefni, sérstaklega á efri hæð hússins. Þá viðurkenndi sóknaraðili að hluta af þeim fjármunum, sem komið hefðu út úr sölu á íbúðinni að [...] hefði verið varið til að klára byggingu hússins. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram um áætlað söluverðmæti fasteignarinnar að [...] en áðurgreindar upplýsingar um fermetraverð fasteigna í [...] frá Þjóðskrá Íslands. Með vísan til þess sem að framan greinir og gegn mótmælum varnaraðila þykir ósannað að verðmæti fasteignarinnar hafi á árinu 2005 verið 55.000.000 króna eins og sóknaraðili heldur fram. Verður því að miða við fasteignamatsverð beggja fasteignanna samkvæmt skattframtali 2005, en eins og að framan greinir nam hrein eign sóknaraðila samkvæmt því 18.556.108 krónum, en hrein eign varnaraðila 8.388.987 krónum og munar þar um 10.000.000 króna. Með skírskotun til þess þykir ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að hann hafi flutt verulega miklu meira í búið en varnaraðili við hjúskaparstofnun.

Samkvæmt skattframtali 2007 tæmdist sóknaraðila arfur á árinu 2006 að fjárhæð 5.084.240 krónur, en ekki 5.800.000 krónur eins fram kemur í greinargerð sóknaraðila. Að frádregnum erfðafjárskatti að fjárhæð 244.212 krónur nam arfurinn 4.840.028 krónum. Verður ekki talið að um slíka fjárhæð sé að ræða að litið verði svo á að framlög sóknaraðila til fjárfélags málsaðila hafi verið verulega miklu meiri en varnaraðila.

Ljóst er að talsverð eignaaukning varð í félagsbúi málsaðila á meðan á hjúskapnum stóð. Ljóst er að sóknaraðili hafði mun meiri tekjur á þessum tíma en varnaraðili, en í þessu sambandi þykir bera að líta til þess að vegna starfa sóknaraðila og búsetu málsaðila erlendis gat varnaraðili ekki sinnt starfi sínu sem [...] og var í launalausu leyfi í fjögur ár með tilheyrandi röskun á stöðu og högum. Þá liggur fyrir að varnaraðili annaðist sameiginlegt heimili málsaðila á þessum tíma og skapaði með því sóknaraðila grundvöll til að afla sér tekna. Með hliðsjón af 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og athugasemdum með því ákvæði í frumvarpi að lögunum verður ekki talið að sóknaraðili geti byggt kröfu sína um að vikið verði frá meginreglunni um helmingaskipti á því ákvæði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og með sérstakri skírskotun til þeirrar röskunar, sem varð á högum varnaraðila við búferlaflutning málsaðila til [...] og búsetu þar í tæp fimm ár, þykja ekki skilyrði til að víkja frá reglum um helmingaskipti, enda verður ekki litið svo á að skiptin yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn. Ber því við fjárslit málsaðila að beita helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Varnaraðili krefst þess að áunnin lífeyrisréttindi málsaðila verði talin til hjúskapareignar og skipt að jöfnu milli aðila. Af hálfu sóknaraðila er þess aðallega krafist að lífeyrisréttindi hans komi ekki til skipta.

Telja verður að séreignarlífeyrissparnaður samkvæmt ákvæðum II. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða séu lífeyrisréttindi í skilningi 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Við mat á því hvort lífeyrisréttindi komi undir skipti til fjárslita milli hjóna er þess að gæta að ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 102. gr. laganna er undantekning frá þeirri almennu reglu 2. töluliðar 1. mgr. sömu lagagreinar að lífeyrisréttindi komi ekki til skipta við fjárslit vegna hjónaskilnaðar. Kemur aðeins til álita að víkja frá þeirri meginreglu þegar sérstaklega stendur á, en við það mat verður að líta heildstætt á allar aðstæður aðila, þar með talið hversu mikið hvort þeirra muni bera úr býtum við fjárslitin. Fram hefur komið að varnaraðili hefur með störfum sínum utan heimilis aflað sér lífeyrisréttinda og gera verður ráð fyrir að hún geti aukið við þann rétt þar til kemur að töku lífeyris við starfslok. Þá liggur ekki fyrir verðmæti þess lífeyrisréttar sem varnaraðili hefur aflað sér borið saman við lífeyrisréttindi sóknaraðila. Enn fremur liggur fyrir að sóknaraðili er 50% öryrki og að [...]. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af lengd hjúskapar málsaðila hefur ekki verið sýnt fram á að ósanngjarnt sé að halda lífeyrisréttindum málsaðila utan skipta. Með sömu rökum verður að hafna kröfu varnaraðila um að áunnum lífeyrisréttindum sóknaraðila, þau ár er hjúskapur málsaðila stóð, verði skipt að jöfnu, sem og kröfu sóknaraðila um að öll lífeyrisréttindi varnaraðila komi til skipta án tillits til lífeyrisréttinda sóknaraðila.

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila húsaleigu að fjárhæð 2.864.167 krónur fyrir afnot hans af einbýlishúsinu að [...] og að fjárhæð 838.333 krónur fyrir afnot af sumarbústað í landi [...], í báðum tilvikum frá samvistaslitum þeirra 4. febrúar 2012 til 27. júní 2013. Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað.

Mál þetta er rekið fyrir dómi eftir XVII. kafla laga nr. 20/1991 sem ágreiningsmál við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna hjónaskilnaðar. Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 568/2012 verða fjárkröfur milli málsaðila ekki dæmdar í slíku máli án tillits til þeirrar eignaskiptingar og greiðslu búshluta sem er markmið skiptanna og ekki umfram það sem eignir hvors um sig hrökkva til að standa undir kröfum hins. Að þessu gættu verður að skilja kröfugerð varnaraðila þannig að við opinber skipti til fjárslita milli hennar og sóknaraðila verði tekið tillit til þessarar kröfu á hendur varnaraðila henni til hagsbóta. Á hinn bóginn er krafa varnaraðila sem að þessu lýtur ekki studd neinum viðhlítandi gögnum. Telst hún því vanreifuð og ber að vísa henni frá dómi ex officio.

Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að eitt málverk eftir Erró og ein krítarteikning eftir Alfreð Flóka teljist til eigna búsins, en af hálfu varnaraðila er þess krafist að verkunum verði haldið utan skipta.

Fram hefur komið að framangreind verk voru á sameiginlegu heimili málsaðila og a.m.k. annað þeirra var á heimili varnaraðila í [...] áður en málsaðilar tóku upp sambúð. Þá kemur fram í gögnum málsins að í byrjun febrúar 2007 sendi sóknaraðili tryggingarfélaginu Sjóvá ljósmyndir og skrá yfir listaverk, sem væru hluti af innbúi hans á þeim tíma, sbr. bréf tryggingarfélagsins Sjóvar, dags. 18. apríl 2013. Í bréfinu segir að á listanum hafi verið tilgreindar myndirnar [...] eftir Erró og [...] eftir Flóka og hefur ljósmyndum af verkunum verið skeytt inn í bréfið.

Varnaraðili heldur því fram að umrædd verk séu eign foreldra hennar og kveður hún þau vera í þeirra vörslum nú. Fram hefur komið að foreldrar varnaraðila eru málverkasafnarar og kveðst varnaraðili oft hafa fengið lánuð hjá þeim verk til að hafa á heimili sínu. Á sama veg hefur borið bróðir varnaraðila, A, en hann kvaðst sömuleiðis iðulega hafa verið með verk á heimili sínu í láni frá foreldrum sínum. Á meðal gagna málsins er ljósrit af yfirlýsingu foreldra varnaraðila, dags. 18. desember 2012, þar sem þau staðfesta „í tilefni skilnaðar K og M“ að þau hafi lánað varnaraðila nokkur listaverk úr eigu sinni, m.a. tvö verk eftir Erró, sem þau hafi lánað henni þegar hún bjó að [...]. Önnur verk hafi þau lánað henni smám saman er hún hafi flutt til sóknaraðila að [...], þar á meðal verk eftir Flóka. Verkunum eftir Erró hafi fylgt þau fyrirmæli að varnaraðili fengi þau í sinn hlut eftir þeirra dag, en að því tilskildu að þau seldu ekki verkin áður. Verkin hafi því ekki verið orðin raunveruleg eign varnaraðila og þeim hafi nú verið skilað ásamt öðrum verkum, sem hún hafi verið með í láni frá þeim.

Foreldrar varnaraðila komu ekki fyrir dóminn til að staðfesta framangreinda yfirlýsingu. Með vísan til þess og með hliðsjón af því að um er að ræða tengda aðila, sem og því að yfirlýsingin er gefin í tilefni af skilnaði málsaðila þykir ekki unnt að byggja á áðurgreindri yfirlýsingu þeirra í málinu. Þá er framburður bróður varnaraðila sama marki brenndur, þ.e. um er að ræða tengdan aðila og framburð sem gefinn er í tilefni af fjárskiptum málsaðila.

Með hliðsjón af því að umrædd verk voru á sameiginlegu heimili málsaðila um langan tíma og annað þeirra kom af heimili varnaraðila í [...] áður en til sambúðar málsaðila var stofnað, sem og því að verkin voru tilgreind sem hluti af innbúi sóknaraðila vegna innbústryggingar í febrúar 2007, sbr. dskj. nr. 35, þykir ósannað að þau séu í eigu foreldra varnaraðila. Verður því að fallast á kröfu sóknaraðila um að þau skuli koma til skipta við fjárslit á milli aðila.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að andvirði [...]skírteinistryggingar sóknaraðila verði talið hjúskapareign sóknaraðila og komi sem slíkt til helmingaskipta við fjárslit á milli aðila. Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfunni verið hafnað.

Við munnlegan málflutning var á það bent af hálfu sóknaraðila að varnaraðili hefði fallið frá framangreindri kröfu á skiptafundi 20. febrúar 2013. Í framangreindri fundargerð kemur fram að á fundinum var lögð fram staðfesting frá [...] um að sóknaraðili hefði ekki fengið greitt út andvirði skírteinistryggingar frá [...] fyrir 5. febrúar 2012. Í tilefni af því lýsti lögmaður varnaraðila því yfir að varnaraðili félli frá kröfu sinni vegna skírteinistryggingar sóknaraðila. Í málinu hefur verið lögð fram ný staðfesting frá [...] um að ekki hafi verið búið að greiða sóknaraðila út andvirði skírteinistryggingar hinn 11. apríl 2012, en þann dag var krafa um skilnað að borði og sæng á milli málsaðila fyrst sett fram hjá sýslumanninum í Kópavogi, sbr. 104. gr. laga nr. 20/1991.

Telja verður að varnaraðili sé bundinn af yfirlýsingu sinni á áðurgreindum skiptafundi og með því að varnaraðili hefur fallið frá kröfu sinni samkvæmt framangreindu verður hún þegar af þeirri ástæðu ekki tekin til greina.

Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Við uppkvaðningu úrskurðar var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Úrskurðarorð:

Við opinber skipti til fjárslita á milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, skal beitt meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti.

Áunnin lífeyrisréttindi málsaðila skulu ekki koma undir skiptin.

Kröfu varnaraðila um að sóknaraðili greiði henni húsaleigu vegna afnota af fasteignunum að [...] og sumarhúsi [...], er vísað frá dómi.

Undir skiptin skulu koma sem hjúskapareign varnaraðila eitt málverk eftir Erró og ein krítarteikning eftir Alfreð Flóka.

Kröfu varnaraðila um að andvirði [...]skírteinistryggingar sóknaraðila skuli koma undir skiptin sem hjúskapareign hans er vísað á bug.

Málskostnaður fellur niður.